Hæstiréttur íslands
Mál nr. 459/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Innsetningargerð
|
|
Föstudaginn 12. júlí 2013. |
|
Nr. 459/2013. |
Vegun ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Aðför. Innsetningargerð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem L hf. var heimilað með beinni aðfarargerð að fá bifreið tekna úr vörslum V ehf. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför fyrir því að bifreiðin væri tekin úr vörslum V ehf. með beinni aðför. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júní 2013 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá bifreiðina VF 454 af gerðinni Scania R500 tekna úr vörslum sóknaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fallist er á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 fyrir því að fyrrgreind bifreið verði að kröfu varnaraðila tekin úr umráðum sóknaraðila með beinni aðför. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Vegun ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júní 2013.
Með aðfararbeiðni, móttekinni 24. nóvember 2012, krefst sóknaraðili, Lýsing hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík, þess að vörubifreiðin Scania R500, fastanr. VF-454 og árgerð 2006, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörzlu varnaraðila, Vegunar ehf., kt. [...], Kvistási, Eyjafjarðarsveit og fengin sóknaraðila. Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Til vara krefst hann þess að ákveðið verði að málskot til Hæstaréttar frétti réttaráhrifum úrskurðar. Hvor aðili krefst málskostnaðar úr hendi hins. Forsvarsmaður varnaraðila er Hjalti Þórsson, kt. [...], Kvistási. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi mánudaginn 22. apríl 2013.
Málavextir
Aðilar gerðu hinn 15. júní 2007 með sér samning sem í yfirskrift er nefndur fjármögnunarleigusamningur. Er hann sagður „Gengis-/verðtryggður“. Í upphafi samningsins er sóknaraðili nefndur leigusali og varnaraðili leigutaki. „Hið leigða“ er samkvæmt 1. gr. samningsins bifreið sú sem dómkrafa sóknaraðila lýtur að, „skv. reikn. seljanda nr. 230, dags. 15. 6. 2007.“ Samkvæmt 3. gr. samningsins er „seljandi“ bifreiðarinnar Maríufell ehf. Samkvæmt 2. gr. samningsins skal „leigugrunnur“ vera 11.205.000 krónur, sem sundurliðað er svo að 9 milljónir króna séu leigugrunnur og 2.205.000 krónur virðisaukaskattur. Leigugrunnurinn skuli skiptast svo að 3.060.000 krónur séu „tengd ISK“, 2.970.000 krónur „tengd JPY“ miðað við gengisvísitöluna 0,50774 og 2.970.000 krónur „tengd CHF“ miðað við gengisvísitöluna 50,33462.
Samkvæmt 4. gr. samningsins skal „grunnleigutími“ samningsins vera frá 10. ágúst 2007 til 9. ágúst 2012 og greiðslur alls sextíu. Í 5. gr. kemur fram að „leiga greidd við undirritun“ hafi verið 1.606.426 krónur án virðisaukaskatts en svo skuli greiða sextíu sinnum leigu, 52.911 krónur, 44.939 krónur tengdar JPY og 46.853 krónur tengdar CHF. Í 6. gr. samningsins segir að „mánaðarleg framhaldsleiga“ hefjist frá „lokum grunnleigutíma“ og skuli hún samanstanda af 4.409 krónum, 3.745 krónum tengdum JPY og 3.904 krónum tengdum CHF.
Í 15. gr. samningsins segir að sóknaraðili sé einn eigandi hins leigða. Óheimilt sé leigutaka að stofna til nokkurra löggerninga um hið leigða og það sé ekki gilt andlag aðfarar skuldheimtumanna leigutaka.
Í 28. gr. samningsins segir að sóknaraðila sé heimilt að rifta samningnum án fyrirvara vanefni varnaraðili eða brjóti einhverja samningsgrein. Er í dæmaskyni meðal annars nefnt að varnaraðili inni ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningnum á tilskildum gjalddaga. Segir að vanskil eldri en fimmtán daga teljist riftunarástæða.
Með símskeyti til varnaraðila, dagsettu 20. júlí 2012 og afhentu 23. júlí, lýsti sóknaraðili yfir riftun „eignaleigusamnings“ þeirra. Ástæða riftunar er sögð „vanskil á leigugreiðslum og / eða öðrum greiðslum sem leigutaki [hafi skuldbundið] sig til að greiða skv. ákvæðum samningsins.“ Styðjist riftunin meðal annars við 28. gr. samningsins. Er þess krafizt í skeytinu að bifreiðinni verði skilað innan þriggja virkra daga.
Samkvæmt reikningi, dagsettum 13. maí 2007, kaupir sóknaraðili bifreiðina af Maríufelli ehf. Söluverð án virðisaukaskatts er sagt 9 milljónir króna en 11.205.000 krónur með virðisaukaskattinum.
Samkvæmt útprentun af bankalínu greiddi sóknaraðili hinn 20. júní 2007 Maríufelli ehf. 4.316.755 krónur. Í færslunni er skráð skýring greiðslunnar „Vegun ehf-VF454-Maríufell ehf“.
Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá dagsettri 9. október 2012 er sóknaraðili skráður eigandi bifreiðarinnar VF545 en varnaraðili umráðamaður hennar.
Skýrsla varnaraðila fyrir dómi
Hjalti Þórsson forsvarsmaður varnaraðila sagði sóknaraðila hafa fjármagnað „þetta“ að meirihluta til, en varnaraðili hefði greitt seljanda bifreiðarinnar tvær milljónir króna upp í kaupverðið. Hefði sinn skilningur verið sá, að hér væri „kaupleiga, sem að er borguð niður á ákveðnum tíma með ákveðnum afborgunum og svo geti ég keypt eignina í lokin.“ Hjalti sagðist ekki muna hvort þessi skilningur hefði verið sérstaklega ræddur þegar þessi samningur hefði verið gerður, en hann og sóknaraðili hefðu gert samskonar samning áður og sá verið með þessum hætti. Hefði Hjalti spurt starfsmann sóknaraðila hvort samningarnir væru ekki eins og hefði sá fullyrt að þeir væru efnislega eins, en einhverju orðalagi hefði verið breytt til einföldunar í bókhaldi. Kvaðst Hjalti hafa skilið samninginn þannig að hann myndi eignast tækið í lok samningstímans. Hefði starfsmaður Lýsingar talað á þá vegu.
Hjalti kvaðst ekki hafa kynnt sér ákvæði samningsins sérstaklega en hann hefði lesið þau yfir og í framhaldi af því spurt Lýsingarmann hvort samningurinn væri ekki efnislega eins og fyrri samningur við fyrirtækið.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili segist hafa leigt varnaraðila umrædda vörubifreið með fjármögnunarleigusamningi nr. 141734-736, en samningurinn sé dagsettur 15. júní 2007. Samkvæmt samningnum hafi varnaraðili átt að greiða sóknaraðila ákveðið leigugjald mánaðarlega út „grunnleigutíma“ samningsins en að þeim tíma loknum hafi átt að greiða tiltekið „framhaldsleigugjald“. Samkvæmt samningnum hafi „leigugrunnur“ samningsins verið samsettur af myntkröfu og „fjárhæð samningsins“ verið bundin myntum í hlutföllunum ISK 34%, JPY 33% og CHF 33%.
Sóknaraðili segir að með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 hafi verið fjallað um sambærilegan samning og hafi Hæstiréttur þar staðfest að fjármögnunarleigusamningurinn væri leigusamningur svo sem heiti hans hafi bent til og því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki bannað aðilum að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.
Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi ekki greitt leigugjald samkvæmt samningnum síðan í desember 2011. Hinn 12. september 2012 hafi heildarvanskil varnaraðila numið 4.991.307 krónum að vöxtum og kostnaði meðtöldum. Hafi varnaraðili ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna og hafi því farið svo að sóknaraðili hafi rift samningnum hinn 20. júlí 2012. Þar sem varnaraðili hafi ekki staðið í skilum samkvæmt ákvæðum samningsins og ekki afhent eign sóknaraðila, sé krafizt umráða yfir henni með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveðst aðallega byggja á því að í raun hafi sóknaraðili veitt sér lán til kaupa á vörubifreiðinni af Maríufelli ehf., en samkvæmt 3. gr. samningsins sé það firma seljandi hennar. Hafi sóknaraðili greitt seljanda kaupverðið og krefji varnaraðila svo um það í formi leigusamnings. Samkvæmt reikningi, sem festur sé við samninginn, sé kaupverðið níu milljónir króna, sama fjárhæð og sögð sé vera leiguverð án virðisaukaskatts. Kveðst varnaraðili líta svo á að reikningurinn sé hluti af samningnum og varnaraðili hafi samkvæmt reikningnum og „fjármögnunar(leigu)samningnum“ fengið lán hjá sóknaraðila til greiðslu kaupverðs bifreiðarinnar.
Varnaraðili segir að þannig sé ljóst að sóknaraðili hafi í raun veitt varnaraðila lán að fjárhæð 11.205.000 krónur til kaupa á vörubifreiðinni af Maríufelli ehf. „þó kaupverðið [hafi verið] klætt í búning fjármögnunar(leigu)samnings,“ en ekki geti skipt máli „hverskonar leigusamning kaupin hafi verið klædd í.“ Skipti þar innihaldið máli.
Varnaraðili kveðst byggja á því að samningurinn sé lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 og beri hann skýrlega með sér að hafa verið um lán í íslenzkum krónum og skyldi það breytast „eftir gengi hinna tilgreindu bókstafa“. Kveðst varnaraðili byggja á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu óundanþægar samkvæmt 2. gr. laganna og nái aðfararbeiðni sóknaraðila því ekki fram að ganga þar sem sóknaraðili krefji varnaraðila enn um greiðslu, samkvæmt gengistryggingarákvæðum sem varnaraðili byggi á að séu ógild. Um sé að ræða lánasamning, þar sem reiknað sé með að lán varnaraðila verði uppgreitt hinn 9. ágúst 2012 með sextíu greiðslum, sem séu greiðslur af lánasamningi þar sem samkvæmt hugtaksskilgreiningu fjármögnunarsamnings sé reiknað með að raunverulegt kaupverð sé uppgreitt á þessum tíma, en krafðar afborganir komi heim og saman við að lánið hafi átt að vera uppgreitt hinn 9. ágúst 2012 miðað við það gengi sem samningurinn hafi verið háður. Mánaðarlegar greiðslur, eftir að grunnleigan sé fallin úr gildi, séu í raun í til málamynda „svo hægt sé að bæta leigu inn í orðið fjármögnunar(leigu)samningur, enda um verulega lágar fjárhæðir að ræða“. Þá sé spurning hvort sóknaraðila sé stætt á að krefja varnaraðila um leigu, eftir að kaupverð bifreiðarinnar hafi verið greitt. Horfa þurfi þar á reglur um yfirfærslu eignarréttar og réttarreglur um leigu.
Varnaraðili segist byggja á því að reikningur frá Maríufelli ehf. um sölu bifreiðarinnar sé hluti af samningi aðila málsins. Þannig hafi verið samið um að söluverðið verði greitt með þeim afborgunum sem getið sé um í samningnum, þar til verðið hafi verið að fullu greitt með sextíu afborgunum. Beri sóknaraðili og Maríufell ehf. sönnunarbyrði um að málum sé öðruvísi farið.
Varnaraðili segir að ljóst sé af 19. og 30. gr. samningsins, sbr. 3. og 2. gr. hans, að „seljandinn sé Maríufell ehf. þar til kaupverð bifreiðarinnar sé greitt“. Sóknaraðili taki að sér fyrir varnaraðila að greiða Maríufelli ehf. andvirði bifreiðarinnar, gegn láni í formi samningsins, enda sé tekið fram í samningnum að Maríufell ehf. sé seljandi hennar og að samkvæmt samningnum „liggja frammi kröfur á seljanda ef bifreiðin er t.d. gölluð“. Atvik málsins séu ekki þau að sóknaraðili hafi afhent varnaraðila bifreiðina gegn undirskrift samningsins, heldur þau að varnaraðili hafi fengið hana, fyrir milligöngu sóknaraðila, hjá Maríufelli ehf. gegn því að sóknaraðili greiddi Maríufelli ehf. eftirstöðvar samkomulagsins. Varnaraðili hafi greitt Maríufelli ehf. 4.316.755 krónur upp í 11.205.000 króna kaupverðið og þannig hafi mátt fá bifreiðina afhenta og hafi Maríufell ehf. eftir það átt 6.889.000 króna kröfu á sóknaraðila.
Þá kveðst varnaraðili byggja á því að með 4.316.755 króna innborgun sinni á kaupverðið sé „það lán sem varnaraðili Vegun ehf. hafi greitt til [sóknaraðila] skráð of hátt, hafi í raun átt að vera 6.889.000 [krónur] í stað 11.205.000 [króna] og slíkt beri að leiðrétta samkvæmt almennum reglum kröfuréttar eða krefjist alla vega útskýringa af hendi [sóknaraðila].“ Þá sé vafamál að sóknaraðili geti krafizt innsetningar í bifreiðina þegar sóknaraðili sé ekki raunverulegur seljandi, „heldur virðist vera ákveðinn milliliður og að [varnaraðili]“ sé skráður umráðamaður hennar. Sé því ekki við ákveðna eignarheimild sóknaraðila að styðjast í málinu, aðeins stuðzt við að sóknaraðili sé leigusali, sem sé ekki nægilegt þegar horft sé til samningsins í heild. Þá verði ekki annað séð en að samningurinn sé þriðjamannslögerningur, en þá verði að horfa til þess hvort Maríufell ehf. hafi fengið söluverðið greitt og sé svo þá hvort varnaraðili hafi ekki með því staðið við skyldur sínar með þeim greiðslum sem hann hafi innt af hendi. Því verði sóknaraðili að svara.
Þá kveðst varnaraðili byggja á því að í 30. gr. samningsins, sem fjalli um uppgjör, séu ólögmæt samningsskilyrði samkvæmt 36. gr. samningalaga. Segi í greininni meðal annars að við uppgjör aðila skuli draga frá skuld varnaraðila við sóknaraðila endurgreiðslur frá seljanda hins leigða vegna galla eða vanefnda eða ef hið leigða ferst eða glatast. Kveðst varnaraðili byggja á því að hafi kaupverð bifreiðarinnar verið greitt og uppgjöri sóknaraðila og Maríufells ehf. lokið, hagnist sóknaraðili með þessu með ólögmætum hætti á varnaraðila. Bendi varnaraðili á að kaupverðið til Maríufells ehf. sé í íslenzkum krónum „og því mun lægra“ en leiguverðið „til varnaraðila“, sem sé verðtryggt miðað við gengi. Segir varnaraðili að með vísan til innágreiðslu sinnar á kaupverð bifreiðarinnar í upphafi geti ekki heldur verið um gildan fjármögnunarleigusamning. Séu hér einnig á ferð svik og misneyting „sbr. almenn ógildingarákvæði samningalaga, greinar 28 til 37 í samningalögum.“ Virðist þannig skýrar ógildingarheimildir vera fyrir hendi.
Varnaraðili kveðst benda á að atvik séu greinilega þannig að bifreiðin hafi kostað 11.205.000 krónur með virðisaukaskatti. Varnaraðili hafi greitt beint til Maríufells ehf. 4.316.755 krónur og fengið hjá sóknaraðila lán fyrir eftirstöðvunum. Lánið hafi verið að fjárhæð 11.205.000 krónur þrátt fyrir að varnaraðili hafi greitt 4.316.755 krónur til Maríufells ehf. og eftirstöðvar kaupverðsins raunverulega verið 6.889.000 krónur. Kveðst varnaraðili telja að hann hafi greitt um tuttugu milljónir króna, með þeim 4.316.755 krónum sem varnaraðili hafi greitt til Maríufells ehf.
Þá kveðst varnaraðili benda á að gerðir sóknaraðila brjóti gegn yfirlýstu markmiði og tilgangi 1. gr. laga nr. 161/2002, þar sem við gerðirnar séu hagsmunir sóknaraðila fyrst og fremst hafðir til hliðsjónar en ekki varnaraðila eins og beri að gera. Markmið laganna sé ekki að í landinu starfi „okurlánafyrirtæki“. Þannig brjóti 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna „að þessu leyti“ í bága við 1. gr. laganna. Vísi varnaraðili þar í athugasemdir með frumvarpi til laganna en þar segi meðal annars að í fjármögnunarleigu haldist eignarréttur hjá leigusala, en það sé ekki útskýrt nánar. Verði að ætla að eignarrétturinn hér haldist hjá þeim „sem á eða átti og seldi“, Maríufelli ehf., þar sem sóknaraðili geti ekki byggt á því að hann hafi eignarheimild fyrir bifreiðinni, þar sem hann hafi ekki verið seljandi hennar. Þar sem sóknaraðili hafi ekki farið að samkvæmt skilyrðum þessarar lagagreinar og samkvæmt hugtaksskilyrðum fjármögnunarleigusamninga nái aðfararbeiðni ekki fram að ganga.
Varnaraðili segir að óljóst sé hvað átt sé við í 30. gr. samningsins, svo sem um verðmat á hinu leigða, hvenær það eigi að fara fram og hvort leigutíminn geti varað án enda eftir að grunnleigutíma ljúki. Þá sé óljóst hvað sé grunnleiga og hvað framhaldsleiga, en framhaldsleiga sé mjög vanskýrð.
Varnaraðili segir ljóst að samkvæmt 2. mgr. 36. gr. samningalaga verði að horfa til þess varðandi mat samkvæmt 1. mgr. 36. gr., hvert sé efni samningsins milli aðila, til stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og nefnir varnaraðili þar að hann hafi greitt Maríufelli ehf. yfir fjórar milljónir króna án þess að litið sé til þess, og atvika sem síðar komi til, en þar til hljóti að teljast sú hækkun sem hafi orðið á leigugjaldinu. Hafi því verið málefnalegt af varnaraðila að hætta að greiða, einnig með hliðsjón af dæmdum dómum Hæstaréttar, en ljóst sé að það endurgjald sem sóknaraðili krefjist, bifreiðin og há fjárhæð, sé í engu samræmi við það „sem varnaraðili hafi í dag greitt fyrir vörubifreiðina.“
Þá segir varnaraðili að líta beri til þess að sóknaraðili hafi í engu svarað bréfum varnaraðila og þannig ekki upplýst um þær greiðslur sem inntar hafi verið af hendi og þá hvernig eftirstöðvarnar 4.991.307 krónur hinn 12. september 2012 séu grundvallaðar, en varnaraðili hljóti að eiga rétt á því samkvæmt 1. gr. laga nr. 161/2002 og meginreglum kröfuréttar.
Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili hafi ekki getað rift samningnum nema láta meta vörubifreiðina til verðs áður. Leiði það beint af 4. tl. 30. gr. samningsins. Einnig verði að horfa til meginreglna kröfuréttar, kauparéttar og samningaréttar um riftun og hvað riftun sé, en efni 30. gr. nálgist það mun fremur að vera uppsögn en riftun samnings, enda sé yfirskrift hennar „Uppgjör“.
Varnaraðili segir að þó sóknaraðili hafi lýst yfir riftun og hún sé hugsanlega staðreynd leiði það ekki til þess að sér beri sjálfkrafa að afhenda bifreiðina eða að innsetning eigi að ná fram að ganga. Riftun verði þegar aðili gagnkvæms kröfusambands tilkynni gagnaðila sínum um einhliða ákvörðun sína, tekna á réttum grundvelli og án bótaskyldu, að hann muni ekki efna samningsskyldu sína vegna vanefndar gagnaðilans. Með því sé gagnaðilinn jafnframt leystur undan efndaskyldu sinni. Skoða verði hver atvik séu og hvernig endurgjald á báða bóga hafi verið, áður en metið sé hvar sé meiri vanefnd. Í máli nr. 151/2010 hafi Hæstiréttur fjallað um slík atriði með þeirri niðurstöðu að þó aðili gagnkvæms kröfuréttarsambands hafi lýst yfir riftun verði að fara yfir hvaða greiðslur báðir aðilar hafi innt af hendi til að meta hvort riftunaryfirlýsing fái staðizt og skilyrði riftunar séu uppfyllt. Hér hafi varnaraðili greitt inn á söluverð bifreiðarinnar og síðan af samningi við sóknaraðila. Varnaraðili hafi ekki fallizt á riftun og verði dómurinn því að meta hvort riftunaryfirlýsing fái staðizt og hvernig standa eigi að uppgjöri. Í því efni verði fyrst og fremst að skoða hvað varnaraðili hafi greitt fyrir bifreiðina, hvert sé efni 30. gr. samnings aðila og hvort efni hennar fái staðizt ákvæði 36. gr. samningalaga.
Varnaraðili segist byggja á því að skilyrði 78. gr. aðfararlaga séu greinilega ekki fyrir hendi. Varnaraðili segir að horfa verði á þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram og þá sérstaklega reikning Maríufells ehf. á hendur sóknaraðila og þá innágreiðslu sem þar sé tilgreind.
Varnaraðili segir að sóknaraðili byggi aðallega á dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011, en samkvæmt honum sé ljóst að það fari eftir atvikum hverju sinni og efni máls hvort samningar sem þessir séu lánasamningar eða eignaleigusamningar. Einnig skipti málsástæður aðila máli. Hér sæki sóknaraðili rétt sinn eftir 78. gr. aðfararlaga og hafi því ríkari sönnunarbyrði en um hefði verið að ræða í hæstaréttarmálinu.
Varnaraðili kveðst benda á að hér hafi verið um einhvers konar þriðjamannslöggernig að ræða eða að sóknaraðili hafi í raun fengið kröfu Maríufells ehf. framselda, að einhvers konar kröfuhafaskipti hafi orðið án þess að um þau hafi verið upplýst. Hafi þannig ekki verið lagður fram framsalsgerningur kröfu Maríufells ehf. til sóknaraðila enda Maríufell ehf. tilgreint í samningnum sem seljandi og kaupverðið eigi að greiðast á samningstímanum. Hafi kaupverðið verið greitt, sem allt bendi til með þeirri innborgun sem innt hafi verið af hendi í upphafi, sé einnig ljóst að varnaraðili hafi rétt til áframhaldandi yfirráða yfir bifreiðinni, sbr. hugtaksskilgreiningu fjármögnunarleigu og hugtakið framhaldsleiga.
Varnaraðili segir „margt óljóst“ um efni 30. gr. samnings aðila, en þar sem samningurinn sé staðlaður verði að skýra óljós atriði varnaraðila í hag sbr. 36. b gr. samningalaga og meginreglur um túlkun samninga, en varnaraðili verði að teljast neytandi í samningssambandinu, sbr. c lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/2003.
Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi ekki upplýst „hvernig vanskilin kr. 4.991.307 samanber áður, séu grundvölluð, sem hafi verið skylda sóknaraðila bæði sem fjármálafyrirtækis og kröfuhafa.“ Varnaraðili hafi aldrei skrifað undir að hann skuldi sóknaraðila 4.991.307 krónur og sóknaraðili verði að sýna fram á hvernig sú fjárhæð sé til komin, með því að rekja samninginn frá upphafi til þess er þessar eftirstöðvar hafi myndazt. Kveðst varnaraðili þar vísa til þess að hann hafi í raun verið í ákveðnum reikningsviðskiptum við sóknaraðila og því dugi ekki að leggja fram reikningsyfirlit síðustu færslna á viðskiptareikningnum heldur verði að rekja viðskiptin frá upphafi, sbr. til dæmis Hrd. 1974:810 og 1957:30. Kveðst varnaraðili enn vísa til þess að kaupverð bifreiðarinnar hafi verið 11.205.000 krónur með virðisaukaskatti og upp í það hafi varnaraðili greitt 4.316.755 krónur hinn 13. maí 2007 og eftirstöðvar hafi þá átt að vera 6.889.000 en séu samkvæmt leigusamningnum 11.205.000 krónur. Hafi þannig ekki verið litið til innborgunar varnaraðila en varla verði litið svo á að varnaraðila hafi borið að greiða 4.316.755 krónur fyrir það eitt að komast í viðskipti við sóknaraðila samkvæmt þeim kjörum sem greind séu í samningnum en varnaraðili byggi á því að samningurinn sé ógildur og ekki verði á honum byggt. „Allavega verði sóknaraðili að skýra mál sitt betur.“ Varhugavert sé að fallast á kröfur sóknaraðila í aðfararmáli og sé eðlilegra að málið sé rekið sem almennt einkamál.
Niðurstaða
Í málinu liggur samningur milli sóknaraðila og fyrirtækisins Hreinsunar og ráðgjafar ehf., en það fyrirtæki fékk síðar nafnið Smákranar ehf. Um þann samning var fjallað í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 sem upp var kveðinn hinn 24. maí 2012. Um samninginn segir meðal annars í dóminum: „Samningurinn, sem mál þetta varðar, er í ýmsum atriðum frábrugðinn samningnum, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011. Þannig eru stöðluð ákvæði samningsins í þessu máli skýr og eiga eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Þá er í samningi málsaðila fjallað um leigu og er áfrýjandi þar ítrekað nefndur leigusali. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi eru á hinn bóginn nokkur ákvæði í samningnum, sem eru hliðstæð samningnum sem dómur í máli nr. 282/2011 tók til. Þannig er áfrýjanda heimilað að reikna leigugjald til samræmis við breytingar, sem kunna að verða á millibankavöxtum af japönskum yenum og svissneskum frönkum, stefndi ber sem leigutaki áhættu af því að hið leigða farist, skemmist eða rýrni og honum er að auki skylt að greiða fjárhæð, sem svarar til leigu til loka samningstíma að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningnum verður rift. Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu er ekki annað leitt í ljós en að samningurinn sé um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans bendir til.“ Skilmálar þessa samnings og þess sem fjallað er um í þessu máli eru í öllum aðalatriðum á sömu lund.
Varnaraðili byggir á því að í raun hafi hann samið um það við sóknaraðila að hann gæti eignazt bifreiðina að samningstímanum loknum. Því hafnar sóknaraðili. Skýrsla varnaraðila sjálfs hefur eðli málsins samkvæmt lítið sönnunargildi um atriði honum í hag. Eins og rakið hefur verið segir samningurinn sjálfur skýrum orðum að sóknaraðili sé eigandi bifreiðarinnar, varnaraðili er nefndur leigutaki hennar, og kveðið er nákvæmlega á um það með hverjum kjörum varnaraðili geti leigt bifreiðina að „grunnleigutíma“ loknum. Hefur að mati dómsins ekkert verið lagt fram sem stutt gæti þá niðurstöðu að í raun hafi verið samið um aðra réttarstöðu við lok „grunnleigutíma“ en samningurinn sjálfur greinir. Í ljósi framanritaðs þykir verða að miða við samningur aðila hafi verið fjármögnunarleigusamningur, svo sem heiti hans gefur skýrt til kynna. Verður því að líta svo á að aðilum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra breyttist eftir gengi erlendra gjaldmiðla.
Varnaraðili staðhæfir ítrekað í greinargerð sinni að hann hafi greitt Maríufelli ehf. 4.316.755 krónur. Sóknaraðili mótmælir því sem röngu. Varnaraðili hefur ekki lagt fram sérstök gögn af sinni hálfu um slíka greiðslu. Í málinu liggja á hinn bóginn gögn er sýna greiðslu sóknaraðila á þessari fjárhæð til Maríufells ehf. Sóknaraðili segir jafnframt að varnaraðili hafi við upphaf samnings greitt 1.606.426 krónur og með virðisaukaskatti alls tvær milljónir króna og hafi sú greiðsla runnið til seljandans, en í 5. gr. samningsins sé gerð grein fyrir þessu. Engin gögn hnekkja þessu og þykir óhætt að miða við þetta enda fær það stoð í samningi aðila.
Varnaraðili kveður vafamál að sóknaraðili geti krafizt innsetningar í bifreiðina þar sem hann sé ekki „raunverulegur seljandi“. Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá er sóknaraðili eigandi bifreiðarinnar. Því hefur ekki verið hnekkt og verður við það miðað. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að í máli þessu sé það skráður eigandi bifreiðarinnar sem krefst þess að fá hana fengna sér með beinni aðfarargerð. Skiptir þar ekki máli hvernig kann að hafa samizt milli núverandi eiganda, sóknaraðila, og fyrri eiganda, Maríufells ehf., en varnaraðili hefur ekkert lagt fram sem veitir því atriði þýðingu við úrlausn málsins.
Varnaraðili kveðst telja að í 30. gr. samningsins séu ólögmæt samningsskilyrði samkvæmt „36. grein a til og með d samningalaga“. Auðkennir varnaraðili sérstaklega ákvæði þess efnis að frá skuld leigutaka til leigusala skuli draga endurgreiðslur eða skaðabætur frá seljanda hins leigða vegna galla eða vanefnda. Ekkert hefur komið fram í málinu um að slíkar greiðslur hafi komið til eða séu væntanlegar. Þá fjallar varnaraðili í þessu sambandi nokkuð um „innágreiðslu“ sína til Maríufells ehf., sem verið hafi 4.316.755 krónur, en áður hefur verið komizt að niðurstöðu um þá fjárhæð. Þá segir varnaraðili meðal annars að vegna þessarar „innágreiðslu“ sinnar geti ekki verið um gildan fjármögnunarleigusamning að ræða, en ekki verður á það fallizt. Telja verður leitt í ljós að sóknaraðili hafi í raun greitt þessa fjárhæð til seljanda bifreiðarinnar en þar af hafi alls tvær milljónir króna komið frá varnaraðila. Þykir ekkert í þessum greiðslum valda því að ekki geti verið um fjármögnunarleigusamning að ræða milli aðila málsins. Þá hafa ekki verið færðar viðhlítandi stoðir undir þá staðhæfingu að höfð hafi verið í frammi svik eða misneyting.
Eins og áður segir tilkynnti sóknaraðili um riftun samnings aðila í júní 2012. Í þeim bréfum varnaraðila til sóknaraðila sem liggja fyrir í málinu er þeirri riftun ekki andmælt, en farið er fram á ýmsar upplýsingar og gögn. Hefur ekkert komið fram um að varnaraðili hafi reifað fyrir sóknaraðila sjónarmið þess efnis að riftun sé honum ekki heimil, fyrr en með framlagningu greinargerðar í máli þessu.
Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili hafi ekki getað rift samningnum nema láta áður meta vörubifreiðina til verðs. Þetta kveðst varnaraðili byggja á 4. tl. 30. gr. samningsins. Í honum segir að við uppgjör, meðal annars vegna vanefnda leigutaka, skuli draga verðmæti hins leigða frá skuld leigutaka. Af þessu leiðir ekki að leigusali geti ekki fengið hið leigða afhent án slíks mats.
Í riftunaryfirlýsingu sinni vísar sóknaraðili til 28. gr. samnings aðila. Eins og rakið er segir þar meðal annars að sóknaraðila sé heimilt að rifta samningnum ef varnaraðili greiði ekki samningsbundnar greiðslur á umsömdum gjalddaga og séu eldri vanskil en fimmtán daga riftunarástæða. Hefur því ekki verið mótmælt að varnaraðili hafi ekki greitt sóknaraðila síðan í desember 2011, en samkvæmt samningnum skyldi greiða mánaðarlega fram í ágúst 2012. Þá hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að fyrri greiðslur varnaraðila til sóknaraðila hafi verið með þeim hætti að honum verði ekki virt til vanefndar að hafa ekki greitt umsamdar greiðslur síðan í desember 2011. Hefur ekki verið sýnt fram á að sú riftun sóknaraðila, sem styðst við skýrt ákvæði í samningi aðila, hafi verið honum óheimil. Telja verður, að við þær aðstæður að samið hefur verið um að varnaraðili skuli greiða mánaðarlegar greiðslur fram til ágúst 2012 en hann greiðir ekkert eftir desember 2011, beri hann sönnunarbyrðina fyrir því að hann sé ekki í vanskilum við sóknaraðila eða að slík vanskil réttlæti ekki riftun. Hefur hann ekki lagt fram útreikninga, studda gögnum, um þá stöðu sem hann telur hafa verið á viðskiptum þeirra á því tímamarki sem hann hætti að greiða til sóknaraðila.
Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að víkja meigi einstökum greinum í samningi aðila til hliðar eða breyta þeim, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Sá sem ber slíkt fyrir sig hefur sönnunarbyrði fyrir því.
Loks ber varnaraðili fyrir sig að þann áskilnað 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga að réttur gerðarbeiðanda sé mjög skýr til þeirra hagsmuna sem hann vill ná fram með aðfarargerð. Í fógetarétti hefur verið litið svo á að rétturinn verði að vera næstum svo skýr sem dómur hafi gengið um hann. Í máli þessu háttar svo til að sóknaraðili er skráður eigandi þeirrar bifreiðar sem hann vill fá afhenta. Hann hefur gert um hana leigusamning og rift honum. Riftunin styðst við ákvæði í samningi aðila og verður eins og á stendur að telja hana hafa verið honum heimil. Við þessar aðstæður verður ekki talið varhugavert að fallast á þá kröfu sóknaraðila að honum verði heimilað að fá með beinni aðfarargerð þann rétt sem hann tjáir sig eiga og hefur að mati dómsins fært nægar sönnur að. Verður því fallizt á kröfu hans um beina aðfarargerð.
Varnaraðili hefur krafizt þess að mælt verði fyrir um að málskot til Hæstaréttar fresti réttaráhrifum úrskurðar. Fyrir slíku er heimild í 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga. Sú heimild er hins vegar ætluð til nota í algerum undantekningartilvikum og þá helzt þegar tjón af aðfarargerð yrði vart bætt með fjármunum. Hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að varnaraðila nægi ekki bótaréttur sá sem 1. mgr. 96. gr. aðfararlaga veitir þeim sem verður fyrir tjóni af þeim sökum sem þar greinir. Verður að hafna varakröfu varnaraðila. Í ljósi aðstæðna allra þykir rétt að hvor aðili beri kostnað sinn af málarekstri þessum. Af hálfu sóknaraðila flutti málið Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir hdl. en af hálfu varnaraðila Þ. Skorri Steingrímsson hdl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Sóknaraðila, Lýsingu hf., er heimilt með beinni aðfarargerð að fá bifreiðina VF-454, Scania R500, tekna úr vörzlu varnaraðila, Vegunar ehf. og fengna sér.
Málskostnaður fellur niður.
Málskot frestar ekki réttaráhrifum úrskurðarins.