Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2003


Lykilorð

  • Tékkar
  • Umboð
  • Einkahlutafélag


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. maí 2003.

Nr. 38/2003.

I. Guðmundsson ehf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Heildversluninni Glit ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Tékkar. Umboð. Einkahlutafélög.

I ehf. höfðaði mál á hendur H ehf. til greiðslu á tveimur tékkum sem voru gefnir út af J fyrir hönd H ehf. Af hálfu H ehf. var byggt á því að J hafi ekki haft heimild félagsins til að gefa út tékkana, en þá var enginn skráður framkvæmdastjóri eða prókúruhafi fyrir það. Í málinu lá fyrir yfirlýsing frá viðskiptabanka H ehf. þess efnis að J hafi á umræddum tíma haft heimild til að gefa út tékka á reikning félagsins. Jafnframt gaf  J skýrslu þar sem hann staðhæfði að hann hafi haft slíka heimild. Var H ehf. talið bera sönnunarbyrðina fyrir því að J hafi þrátt fyrir framangreint ekki notið heimildar til að gefa út tékkana. Þá sönnun færði H ehf. ekki fram í málinu. Var því fallist á kröfu I ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.120.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 560.250 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september sama ár, en af 1.120.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði áfrýjandi mál þetta á hendur stefnda 4. maí 2002 til heimtu skuldar samkvæmt tveimur tékkum, hvorum að fjárhæð 560.250 krónur. Tékkar þessir voru gefnir út til áfrýjanda til greiðslu af reikningi nr. 19102 við Höfðabakkaútibú Landsbanka Íslands hf. og bar annar þeirra útgáfudaginn 15. ágúst 2001, en hinn 15. september sama ár. Við nafn útgefanda á tékkunum var stimplað „Glit hf. Heildverslun Kt. 701294-2389“ og ritaði Jón Hólm Einarsson nafn sitt þar undir. Samkvæmt framlögðum gögnum frá hlutafélagaskrá átti Jón á þessum tíma sæti í stjórn stefnda ásamt Kristínu Jóhönnu Guðmundsdóttur, sem var formaður hennar. Var enginn skráður framkvæmdastjóri eða prókúruhafi fyrir félagið.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing 4. október 2002 frá fyrrnefndu útibúi Landsbanka Íslands hf., þar sem staðfest var að Jón Hólm Einarsson hafi á tímabilinu frá 1. júní til 30. september 2001 haft heimild til að gefa út tékka á reikningi nr. 19102. Í skýrslu, sem Jón gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, staðhæfði hann jafnframt að hann hafi haft þá heimild. Þótt Jón hafi ekki farið með prókúruumboð fyrir stefnda á umræddum tíma verður stefndi að bera sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi þrátt fyrir framangreint ekki notið heimildar til að gefa út tékka til greiðslu af bankareikningi stefnda. Þá sönnun hefur stefndi ekki fært fram í málinu. Verður hann því dæmdur til að greiða áfrýjanda umkrafða fjárhæð ásamt málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Heildverslunin Glit ehf., greiði áfrýjanda, I. Guðmundssyni ehf., 1.120.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 560.250 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september sama ár, en af 1.120.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2002.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 25. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af I. Guðmundssyni og Co hf., kt. 650169-0189, Vatnagörðum 26, Reykjavík, á hendur Heildversluninni Glit ehf., kt. 701294-2389, Krókhálsi 5, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 4. maí 2002.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.120.500 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 af 560.250 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september 2001, en af 1.120.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Mál þetta er rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

                Stefnandi kveður umstefnda skuld vera samkvæmt tveimur tékkum, útgefnum 15. ágúst 2001 og 15. september 2001, af tékkareikningi nr. 19102, í Landsbanka Íslands, Höfðabakkaútibúi, Reykjavík.  Tékkarnir, sem hvor um sig er að fjárhæð 560.250 krónur, eru gefnir út til stefnanda af stefnda, Gliti  ehf.  Tékkarnir voru sýndir í Landsbanka Íslands, Sundahöfn, þann 27. febrúar 2002, en innstæða reyndist þá ekki vera fyrir hendi.  Samtals sé skuld vegna ofangreindra tékka stefnufjárhæðin.

                Um lagarök vísar stefnandi til tékkalaga nr. 94/1933, einkum 7. kafla.

                Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

III

                Stefndi byggir kröfu sína á því, að Jón Hólm Einarsson, sem gefið hafi út umstefnda tékka f.h. hins stefnda félags, hafi ekki haft til þess tilskilið prókúruumboð, hvorki samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár né frá stjórn félagsins.  Hafi hinu stefnda félagi því skort hæfi að lögum til að taka á sig skuldbindingu, sem felist í útgáfu og undirskrift umstefndra tékka.  Beri því annaðhvort að vísa málinu frá dómi eða sýkna stefnda.

                Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sé það einungis stjórn einkahlutafélagsins, sem hafi getað veitt Jóni Hólm prókúruumboð, en það hafi hún ekki gert.  Samkvæmt 2. mgr. 123. gr. sömu laga beri félaginu að tilkynna til hlutafélagaskrár, ef breytingar verði á prókúruhöfum félagsins, en slíkar tilkynningar eigi einnig að fylgja með til hlutafélagaskrár við stofnun hlutafélaga.  Einungis sá, sem hafi prókúruumboð frá stjórn félagsins, geti bundið félagið við greiðslu slíkra tékka, am.k. verði sá, sem geti bundið félagið, að hafa heimild til að rita firma þess, en það hafi Jón Hólm ekki haft.  Fylgja verði ákveðnum formreglum um það, hver megi binda hlutafélag, svo sem, að formlega hafi verið tekin um það ákvörðun hver hafi prókúruumboð, og tilkynna þá ákvörðun til hlutafélagaskrár.  Þar sem þessum formreglum hafi ekki verið fylgt og þar sem Jón Hólm hafi ekki haft umboð frá félaginu til útgáfu tékkanna, hafi félagið ekki haft hæfi að lögum til að taka á sig umdeilda skuldbindingu.

                Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Einnig vísar stefndi til firmalaga nr. 42/1903.

IV

                Eins og áður greinir er mál þetta höfðað á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

                Umdeildir tékkar liggja frammi í málinu og svara að öllu leyti til lýsingar stefnanda.  Eru þeir gefnir út af Jóni Hólm, f.h. stefnda.  Tékkar þessir voru sýndir til greiðslu eftir sýningarfrest, samkvæmt 29. gr. laga nr. 94/1933, en ekki er haldið uppi vörnum á grundvelli þess.

                 Fyrir dóminum bar Jón Hólm, að hann hefði haft umboð til þess að gefa út tékka f.h. félagsins af  fyrrgreindum reikningi þess og margoft hafa gefið út tékka f.h. stefnda, án þess að athugasemdir væru gerðar.  Hann staðfesti undirritun sína á tékkana og kvað þá hafa verið gefna út í júní árið 2001, en gert ráð fyrir, að þeir væru ekki greiddir fyrr en á útgáfudegi þeirra, eins og þeir eru skráðir á tékkana, sem hafi verið í ágúst og september árið 2001.  

                Í málinu liggur og frammi yfirlýsing frá Landsbanka Íslands, Höfðabakka, dagsett 4. október 2002, þar sem segir svo: „Það staðfestist hér með að samkvæmt skjölum bankans hafði Jón Hólm Einarsson, kt. 200547-3579 heimild til útgáfu tékka á tékkareikningi 0116-26-19102 á tímabilinu 01.06. - 30.09.2001.”

                Samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands, hlutafélagskrá, dags. 21. júní 2002, er dagsetning samþykkta stefnda 25. október 1996.  Stjórn félagsins skipa, samkvæmt fundi þann 14. nóvember 2000, Kristín Jóhanna Guðmundsdóttir, formaður stjórnar, Jón Hólm Einarsson, meðstjórnandi, og Eyjólfur Gíslason, varstjórn.  Enginn er skráður í framkvæmdastjórn eða með prókúruumboð.  Samkvæmt bréfi frá Hagstofu Íslands, dagsettu 27. maí 2002, kemur fram, að Hálfdán Kristjánsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri með prókúruumboð við skráningu félagsins í desember 1994.  Um fimm árum síðar, eða hinn 11. desember 1999, hafi hann látið af framkvæmdastjórn og prókúruumboð hans þá verið afturkallað.  Ekki verði séð, að aðrir hafi haft skráð prókúruumboð fyrir félagið.

                Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög kemur félagsstjórn fram út á við fyrir hönd félagsins og ritar firma þess.  Hún getur þó veitt öðrum heimild til að rita firmað.  Samkvæmt vottorðum Hagstofu Íslands, er enginn skráður í framkvæmdastjórn eða með prókúruumboð.  Jón Hólm, sem ritaði undir umrædda tékka, er stjórnarmaður í hinu stefnda félagi.  Bar hann, að hann hefði haft til þess umboð.  Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu Landsbankans hafði hann umboð til þess.  Í málinu liggja hins vegar ekki frammi nein gögn, sem styðja þessar yfirlýsingar.  Gegn andmælum stefnda verður því ekki fallist á, að Jóni Hólm hafi verið veitt umboð til að skuldbinda félagið, sbr. fyrrgreinda lagagrein.  Samkvæmt því, er hið stefnda félag ekki skuldbundið samkvæmt umstefndum tékkum, og ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

                Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Heildverslunin Glit ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, I. Guðmundssonar og Co hf.

                Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.