Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárskipti


         

Þriðjudaginn 12. júní 2007.

Nr. 304/2007.

M

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

K 

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Hjón. Fjárskipti.

Ekki var fallist á með M að skilyrðum til að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við fjárskipti milli hans og X vegna hjónaskilnaðar þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2007, þar sem kveðið var á um að við skipti milli sóknaraðila og varnaraðila skyldi beitt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verið felldur úr gildi og að fallist verði á að við skiptin verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga með vísan til 1. mgr. 104. gr. laganna, aðallega þannig að sóknaraðili fái nánar tilgreinda fasteign óskipta í sinn hlut, en til vara að hann fái að óskiptu 39,55% hlut í henni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, M, um að við búskipti hans og varnaraðila, K, verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

                                                                                                        

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2007.

          Sóknaraðili málsins er M, kt. [...], Reykja­vík, en varnaraðili er K, kt. [...],  Reykjavík.

          Málið barst héraðsdómi hinn 19. febrúar 2007, með bréfi Steinunnar Guðbjartsdóttur hrl., skiptastjóra, sem dagsett er 14. febrúar sama ár. Fram kemur í bréfinu að á skiptafundi þann dag hafi komið upp ósættanlegur ágreiningur á milli aðila við skipti á milli þeirra. Með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 sé málinu vísað til héraðsdóms.

          Málið var tekið til úrskurðar 16. apríl sl. að loknum munn­legum málflutningi.

          Sóknaraðili gerir þá kröfu aðallega að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 1. mgr. 104. gr. sömu laga, þannig að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu fasteignina A, Reykjavík, íbúð á 1. hæð, auðkennd 01-0101.

Til vara krefst sóknaraðili þess að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 1. mgr. 104. gr. sömu laga, þannig að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu sem nemur 39,55% af verðmæti fasteignarinnar A, Reykjavík, [...]. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

          Varnaraðili gerir þær dómkröfur að hafnað verði bæði aðalkröfu og varakröfu sóknaraðila og krefst þess að helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga gildi um skiptin. Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

          Málavextir

          Aðilar málsins hófu sambúð í íbúð sóknaraðila að B í Reykjavík í lok árs 1998 eða sumarið 1999. Hinn 9. maí 2000 festi sóknaraðili kaup á A og fluttu aðilar þangað. Þau gengu í hjúskap 11. ágúst 2000. Það sama ár tæmdist varnaraðila arfur, samtals 4.826,126 krónur. Auk þess hlaut hún í arf hlutabréf í Sjóvá-Almennum hf. að nafnvirði 96.329 krónur.  Hinn 28. júní 2002 óskaði varnaraðili fyrst eftir skilnaði að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík. Fjárskipti tókust þá ekki með aðilum og var málinu því vísað frá sýslumanni. Varnaraðili sótti um skilnað að nýju hinn 11. júlí 2003 og krafðist varnaraðili opinberra skipta þegar fjárskipti tókust ekki. Úrskurður um skiptin var kveðinn upp 22. ágúst 2005. Skilnaður að borði og sæng var veittur í febrúar 2006.

          Ágreiningur reis á milli aðila um skiptin og viðmiðurnardag skiptanna sem skiptastjóri vísaði til Héraðsdóms Reykjavíkur. Úrskurður í málinu var kveðinn upp 15. desember 2006, en samkvæmt niðurstöðu hans var viðmiðunardagur skiptanna ákveðinn 11. júlí 2003. Kröfu sóknaraðila um að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 var hins vegar vísað frá dómi vegna vanreifunar. Hefur skiptastjóri nú óskað eftir úrlausn dómstólsins um það ágreiningsefni.

          Sóknaraðili kveður það ávallt hafa verið sameiginlegan skilning aðila að sóknaraðili hafi átt C, en til að fjármagna  kaupin hafi hann selt íbúð sína að B og skuldabréf sem hann hafi átt. Sambúð hans og varnaraðila hafi ávallt verið skrykkjótt og varnaraðili flutt inn og út úr íbúð hans meðan á sambúð stóð. Varnaraðili hafi til að mynda ekki flutt lausamuni sína til sóknaraðila fyrr en á árinu 2003, þ.e. ári eftir að hún setti fyrst fram kröfu um skilnað. Þá hafi fjárhagur þeirra aldrei verið sameiginlegur á hjúskapartímanum þannig að þau deildu fullkomlega kjörum. Hafi sóknaraðili einn greitt gjöld vegna reksturs heimilisins, vegna fasteignakaupanna og vegna annarra gjalda er vörðuðu fasteignina. Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa fengið greiddan arf og hlutabréf í Sjóvá Almennum tryggingum árið 2000 en ekkert af þeim fjármunum hafi runnið til fasteignakaupanna. Sá hluti fjárins sem varnaraðili hafi lagt inn á reikning hans hafi verið til sameiginlegra nota þeirra.  Þegar hjúskap þeirra hafi verið lokið hafi þau orðið ásátt um að hvort um sig tæki þá lausamuni er þau áttu, og að sóknaraðili héldi íbúðinni en losaði varnaraðila undan ábyrgð á tveimur skuldabréfum. Þá hafi varnaraðili haldið hlutabréfum í  Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Þetta samkomulag hafi ekki gengið eftir og hafi konan selt verðbréfin í nóvember 2002 og mars 2003 og ráðstafað til sinna eigin þarfa.

          Varnaraðili kvað sambúð hennar og sóknaraðila hafa verið stormasama og ofbeldisfulla. Hún kvaðst ítrekað hafa óskað eftir skilnaði að borði og sæng. Þá hafi ávallt gengið illa að fá sóknaraðila til að ganga til samninga um fjárskiptin auk þess sem hann hafi þurft að gera ráðstafanir vegna skattaskulda atvinnufyrirtækis hans. Því hafi hin opinberu skipti dregist svo á langinn sem raun beri vitni. Fullyrðir varnaraðili að hún hafi tekið þátt í að greiða fyrir íbúð að C og einnig fyrir endurbætur á henni. Arfur sem henni hafi tæmst á árinu 2000 hafi að hluta til gengið til kaupa á íbúðinni en þá hafi hún greitt sóknaraðila 1.000.000 króna. Varnaraðili kvað þau bæði hafa verið tekjulág á hjúskapartíma og hafi arfurinn því að miklu leyti gengið til framfærslu þeirra svo og afborgana á lánum sem sóknaraðili hafi tekið vegna kaupa á A.

          Aðilar gáfu ekki skýrslu fyrir dóminum en þess í stað voru lagðar fram skýrslutökur þeirra frá 6. desember 2006, í tengslum við úrskurð, uppkveðinn 15. desember sama mánaðar. Er því vísað til þeirrar skýrslutöku.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

          Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína í fyrsta lagi á því að hjúskapur aðila hafi staðið skamma hríð og ekki hafi myndast með þeim sú fjárhagslega samstaða er réttlæti helmingaskipti. Helmingaskipti aðila í milli væru að mati sóknaraðila bersýnilega ósanngjörn í garð sóknaraðila enda hafi hann bæði lagt mun meira til hjúskaparins í upphafi og aflað mun meiri tekna en varnaraðili á sambúðartímanum. Til hjúskaparins hafi verið stofnað í ágústmánuði 2000. Krafa varnaraðila um skilnað hafi fyrst verið sett fram í júní 2002 eða tæpum tveimur árum síðar og verði því að mati sóknaraðila að telja hjúskapartímann skamman. Á þessum tæpu tveimur árum hafi varnaraðili auk þess flutt inn og út af heimili sóknaraðila. Varnaraðili hafi ekki flutt lausamuni sína inn á þeirra heimili fyrr en í byrjun ársins 2003 þegar henni hafi verið nauðsynlegt að rýma íbúð sonar síns við D. Þannig hafi varnaraðili í raun aldrei meðan á hjónabandinu stóð lagt sitt beinlínis af mörkum til að stofna sameiginlegt heimili með sóknaraðila, né til reksturs þess.

          Sóknaraðili hafi átt fasteign þegar sambúð þeirra hófst en varnaraðili verið eignalaus. Sóknaraðili hafi einn lagt af mörkum þá fjármuni er þurfti til er hann festi kaup á annarri fasteign skömmu áður en aðilar gengu í hjúskap og þannig átt verulega miklu meira en varnaraðili þegar til hjúskaparins hafi verið stofnað. Íbúðarkaupin á A hafi átt sér stað í maí 2000, eða þremur mánuðum fyrir stofnun hjúskaparins. Kaupverðið hafi annars vegar verið fasteignaverðbréf kr. 6.347.000 og hins vegar útborgun í þrennu lagi, samtals að fjárhæð kr. 4.153.000. Þessar útborgunargreiðslur hafi sóknaraðili fjármagnað með eftirfarandi hætti: Þann 9. maí 2000, sama dag og kaupsamningur hafi verið gerður, hafi sóknaraðili selt verðbréf að verðmæti 1.007.961. Sú fjárhæð hafi runnið beint til greiðslu fyrstu afborgunar. Aðra afborgun, sem greidd hafi verið 8. ágúst 2000, hafi sóknaraðili greitt með tímabundnum yfirdrætti á bankareikningi sínum, þar til hann hafi fengið greitt af B þann 25. ágúst 2000. Þá hafi sóknaraðili fengið greidda lokagreiðslu vegna þeirrar sölu, kr. 1.417.627, þann 20. september 2000 og hafi sú greiðsla runnið beint til kaupanna á A. Sóknaraðili hafi með þessum hætti lagt allar eignir sínar til þessara fasteignakaupa, rétt áður en til hjúskaparins var stofnað. Varnaraðili hafi, sem fyrr segi, verið eignalaus á þessum tíma og því hafi hlutdeild sóknaraðila við stofnun hjúskaparins numið miklum mun meiru en hlutdeild varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili ævinlega verið einn þinglýstur eigandi að A enda sameiginlegur skilningur aðila að hann einn ætti fasteignina.

          Fjárhagsleg samstaða aðila hafi verið afar takmörkuð á sambúðartímanum. Varnaraðili hafi haft litlar tekjur á tímabilinu, enda lítið verið í launaðri vinnu. Hún hafi hins vegar átt hlutabréf og einhverja peninga sem hún hafi fengið í arf, en þeir peningar hafi lítið sem ekkert runnið til sameiginlegra þarfa þeirra og alls ekki til að fjármagna fasteignakaupin. Varnaraðili hafi enda ekki sýnt fram á hvert meint framlag hennar hafi verið til fasteignakaupanna eða annarrar eignaaukningar í búinu á sambúðartímanum. Sóknaraðili hafi hins vegar aflað mun meiri tekna en varnaraðili á sama tíma, fyrst við vinnu sína hjá [...] en eftir 2001 með vinnu sinni sem sjálfstæður verktaki. Eignir þær sem nú séu í búinu séu því að mestu eignir sem sóknaraðili hafi einn átt við stofnun hjúskaparins. Þá hafi búið ekki vaxið á samvistartíma þeirra heldur frekar rýrnað. Að mati sóknaraðila sé það því óeðlilegt og ósanngjarnt að varnaraðili hagnist á helmingaskiptum við fjárslit þeirra, enda fari það í raun gegn vilja löggjafans að baki 103. gr. hjúskaparlaga. Sé 1. mgr. 104. gr. þeirra laga beinlínis ætlað að koma í veg fyrir það að helmingaskiptareglu sé beitt þegar hún eigi ekki við og sé hún sett með það að leiðarljósi að rýmka bæri heimildir til frávika frá helmingaskiptum. Hér sé hvorugt hjónanna stóreignafólk eða með háar tekjur. Það breyti því þó ekki að sóknaraðili hafi við stofnun hjúskaparins lagt meira til en varnaraðili í formi fasteignakaupanna sem áttu sér stað um það leyti sem hjúskapurinn hófst og enn fremur hafi hann lagt meira til reksturs búsins með tekjum sínum á sambúðartímanum. Sú staðreynd að varnaraðili hafi fengið arf á árinu 2000 breyti að mati sóknaraðila engu þar um, enda hafi varnaraðili að mestu leyti eytt þeim fjármunum í sjálfa sig. Þá hafi hún og verið skuldum vafin og þær skuldir hafi sóknaraðili greitt. Að þessu virtu telji sóknaraðili að skilyrðum 104. gr. hjúskparlaga sé fullnægt og skilyrði til þess að víkja frá helmingaskiptum við fjárslit þeirra hjóna með þeim hætti sem sóknaraðili krefjist. Þá hafi varnaraðili sýnt  það í verki að skilningur þeirra hafi verið sá sem sóknaraðili haldi fram, að hann ætti fasteignina en hún skuldabréfin sem hún fékk í arf. Það hafi varnaraðili gert með því að selja verðbréfin án nokkurs samráðs við hann, eftir að ljóst var orðið að hjúskapur þeirra hefði runnið sitt skeið. Með þeirri sölu hafi varnaraðili enn fremur af ásetningi rýrt tekjur búsins þannig að hlutur sóknaraðila við skipti hafi skerst ómaklega. Af þeim sökum telji sóknaraðili meðal annars bersýnilega ósanngjarnt að beita helmingaskiptareglu milli þeirra.

          Varðandi varakröfu sóknaraðila er byggt á sömu málsástæðum og fyrir aðalkröfu. Að öðru leyti byggir sóknaraðili varakröfu sína á því að hann hafi með sannanlegum hætti lagt fram úr eigin vasa, fyrir upphaf hjúskaparstofnunarinnar, fjármuni sem námu útborgun í A eða kr. 4.153.000. Heildarverð fasteignarinnar var kr. 10.500.000 og því hafi greiðsla þessi numið 39,55% af verðinu. Það hlutfall að lágmarki telji sóknaraðili sig einan hafa lagt fram við hjúskaparstofnunina. Telji sóknaraðili sig þannig hafa sýnt fram á að hann hafi flutt í búið meira en varnaraðili við hjúskaparstofnunina og því beri að minnsta kosti að halda þessum hlut utan skipta. Annað væri bersýnilega ósanngjarnt, sbr. 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.

          Sóknaraðili byggir kröfur sínar á hjúskaparlögum nr. 31/1993 og lögum um skipti á dánarbúum og fl. nr. 20/1991. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991, krafa um virðisaukaskatt af honum styðst við lög nr. 50/1988. Sóknaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur og ber því nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

          Málsástæður og lagarök varnaraðila

          Varnaraðili hafnar kröfum sóknaraðila og krefst þess að miðað verði við meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti, sbr. 103. gr. sömu laga.

          Varnaraðili byggir á því að við hjúskaparslit sé helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga meginregla um skipti eigna, sem byggi á gamalli hefð. Reglan byggi á því að í hjúskap ríki efnahagsleg samstaða með hjónum og markmið reglunnar sé að veita hvorum maka um sig hlutdeild í eignum hins og stuðla þannig að jafnstöðu þeirra við hjúskaparlok. Í skýringum með ákvæðinu komi sérstaklega fram að reglan taki bæði til eignamyndunar eftir að hjúskapur hafi verið stofnaður og einnig til hlutdeildar í eignum sem hjón hafi flutt með sér í búið. Samkvæmt lögskýringargögnum sé frumforsenda fyrir fráviki frá helmingaskiptareglu við skipti sú að skiptin yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Ákvæði 104. gr. sé svokölluð vísiregla og sé þar rakið hvaða tilvik það séu sem geti valdið því að skiptin teldust bersýnilega ósanngjörn. Sé þar vísað til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar svo og þess ef annað hjóna hafi flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnunina.

          Varnaraðili mótmæli því að helmingaskipti yrðu sóknaraðila bersýnilega ósanngjörn á þeirri forsendu að fjárhagsstaða sóknaraðila hafi verið betri en varnaraðila við hjúskaparstofnun. Eins og rakið sé í málavaxtalýsingu hafi sóknaraðili átt hreina eign í íbúð að fjárhæð í kringum 3.000.000 kr. Auk þess virðist hann hafa átt sparnað að fjárhæð 1.000.000 kr. Á sama tíma hafi varnaraðila tæmst arfur og hafi hún fengið á örfáum dögum eftir hjúskaparstofnunina tæpar 4.000.000 kr. greiddar inn á bankareikning sinn. Skömmu áður, er á sambúð stóð, hafi hún fengið 1.000.000 kr. inn á bankareikninginn. Árið sem aðilar hafi gengið í hjúskap hafi varnaraðili þannig fengið greiddar í peningum réttar 5.000.000 kr. sem allar hafi runnið til sameiginlegra þarfa. Hafi varnaraðili m.a. greitt beint til sóknaraðila 1.000.000 kr. af þessum fjármunum í september 2000. Á hjúskapartímanum hafi varnaraðili selt hlutabréf í Sjóvá-Almennum hf. fyrir réttar 2.500.000 kr. og hafi þeir fjármunir farið til sameiginlegra þarfa málsaðila. Varnaraðili telji því að gögn málsins sýni að enginn munur hafi verið á eignarstöðu aðila við hjúskaparstofnun og hún hafi komið með peningalega eign inn í búið á hjúskapartímanum langt umfram eign sóknaraðila. Fráleitt sé að halda því fram að helmingaskipti yrðu sóknaraðila bersýnilega ósanngjörn. Þvert á móti hafi hann notið í neyslu, allra fjármuna varnaraðila. Það yrði varnaraðila hins vegar bersýnilega ósanngjarnt ef hún teldist ekki eiga helmingskröfu í skíra hjúskapareign sóknaraðila. Þá mótmæli varnaraðili því að skáskiptum eigi að beita vegna skamms hjúskapar. Samkvæmt gögnum málsins bjuggu aðilar saman frá árinu 1998. Hjúskapur þeirra hafi síðan staðið frá 2000-2003. Dómafordæmi séu fyrir því að þriggja ára hjúskapur eftir nokkurra ára sambúð hafi ekki talist skammur hjúskapur. Þá telji varnaraðili að full fjárhagsleg og félagsleg samstaða hafi myndast með aðilum strax á sambúðartíma. Skáskipti séu því ekki réttlætt með þessum rökum.

          Loks mótmæli varnaraðili því að skáskiptum eigi að beita vegna munar á fjárhag hjónanna, þ.e. aflahæfi, meðan á sambúð og hjúskap hafi staðið. Varnaraðili bendi á að gögn málsins beri með sér að þetta séu rök sem ekki standist meginreglur hjúskaparlaga varðandi réttlætingu fyrir skáskiptum. Aflahæfi skipti ekki máli. Auk þess sé það í raun einvörðungu árið 2000 sem einhver tekjumunur hafi verið á aðilum, eftir að til hjúskapar hafi verið stofnað. Árið 2001 sé stofn varnaraðila til tekjuskatts og útsvars 911.954 kr. en sóknaraðila 1.356.379. Árið 2002 hafi þessi sami stofn varnaraðila verið 722.855 kr. en sóknaraðila 2.543.350 kr. Taka verði tillit til að sá stofn sóknaraðila hafi einvörðungu verði fenginn með reiknuðu endurgjaldi sem segi í engu til um hverjar raunverulegar tekjur hans hafi verið. Til viðbótar sé ítrekað það sem áður hafi komið fram að peningaleg eign varnaraðila hafi verið notuð til sameiginlegra framfærsluþarfa aðila.

          Þá vísar varnaraðili til þess að í dómaframkvæmd hafi verið talið að álykta verði, þegar á allt sé litið, að skýra beri þröngt heimildir til frávika frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga. Við mat á því hvort víkja beri frá helmingaskiptareglunni verði að leggja heildstætt mat á hvort önnur niðurstaða sé bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Með vísan til alls framangreinds telji varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að helmingaskipti verði bersýnilega ósanngjörn fyrir hann, heldur þvert á móti sýni gögn málsins að önnur niðurstaða en helmingaskipti verði bersýnilega ósanngjörn fyrir varnaraðila. Hafi sóknaraðili viljað hafa fasteignina að A sína séreign hefði honum verið í lófa lagið að gera kaupmála um eignina áður en til hjúskapar aðila hafi stofnast. Ekki hafi verið gerður kaupmáli á milli aðila og ekkert gefi til kynna að öðru leyti að ætlað hafi verið við upphaf hjúskapar málsaðila eða síðar að halda fasteigninni eða öðrum eignum málsaðila utan fjárfélags þeirra sem hjóna, fyrr en til skilnaðar hafi komið.

          Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Málskostnaðarkrafa byggir m.a. á því að mikill dráttur hafi verið á málinu sem að mestu megi rekja til atvika er varði sóknaraðila. Eðlilegt sé að hann greiði henni málskostnað. Vakin sé sérstök athygli á því að varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld og sé henni því nauðsyn að tekið verði tillit til greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþóknun við ákvörðun málskostnaðar, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Til vara sé þess krafis að málskostnaður falli niður, þannig að hvor aðili beri sinn málskostnað, eins og sterk dómaframkvæmd sé fyrir í málum af þessu tagi.

Niðurstaða

          Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hófu aðilar sambúð að B í lok árs 1998 eða á miðju ári 1999. Þau fluttu að A 25 í maí árið 2000 og hinn 11. ágúst sama ár gengu þau í hjúskap. Aðilum ber saman um að hjúskap þeirra hafi lokið í júlí 2003 þó svo að varnaraðili hafi ekki flutt út fyrr en 1. september það ár. Þá eru aðilar sammála um að á hjúskapartímanum hafi sambúð þeirra á tímum gengið erfiðlega án þess að fullyrt verði um ástæður þess. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær á hjúskapartímanum varnaraðili flutti af heimilinu og síðan inn aftur en ætla má að það hafi verið á árinu 2002 um það leyti er varnaraðili sótti fyrst um skilnað. Verður á því byggt að hjúskapurinn hafi varað í 3 ár án tillits til atvika að öðru leyti. Það er mat dómsins að sá tími geti ekki talist skammvinnur í skilningi 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

           Þegar sambúð aðila hófst átti sóknaraðili litla íbúð að B en hinn 9. maí 2000 keypti hann íbúð að A. Samkvæmt kaupsamningi er íbúðin skráð eign sóknaraðila og var kaupverð hennar 10.500.000 krónur. Við kaupin yfirtók sóknaraðili fasteignaveðbréf að fjárhæð 6.347.000 krónur. Hrein eign hans í  B nam 2.917.627 krónum sem rann til kaupa á A. Auk þess seldi sóknaraðili hinn 9. maí 2000, verðbréf að fjárhæð 1.000.000 króna til að fjármagna kaupin. Þannig lagði sóknaraðili samtals til kaupanna 3.925,588 krónur. Íbúðin var ekki gerð að séreign sóknaraðila með kaupmála og laut því 54. gr. hjúskaparlaga.

          Óumdeilt er að við upphaf hjúskaparins var verulegur tekjumunur á milli aðila og greiddi sóknaraðili öll helstu útgjöld heimilisins, m.a. afborganir tengdar fasteignakaupum. Varnaraðili fékk á hjúskapartímanum greiddar örorkubætur auk þess sem hún hafði óverulegar launatekjur. Sóknaraðili var hins vegar í fastri vinnu fram undir lok árs 2000 eða byrjun árs 2001, en þá missti hann vinnunna. Samkvæmt skattframtali hans árið 2002 fékk hann atvinnuleysisbætur en fram hefur komið að hann hafi starfað sjálfstætt eftir þetta. Af skattframtölum hans má sjá að hreinar tekjur hans af hinum sjálfstæða rekstri voru óverulegar. Verður framburður aðila ekki skilinn á annan hátt en svo að reksturinn hafi ekki gengið áfallalaust.

          Varnaraðila féll til arfur árið 2000 og voru henni greiddar 1.100.000 í apríl en 3.726.145 krónur hinn 29. ágúst það ár, samtals 4.826.126 krónur.  Styður það fullyrðingar varnaraðila um að hún hafi verið fær um að leggja til fé í tengslum við fasteignakaupin og að öðru leyti til sameiginlegrar framfærslu þeirra. Bar sóknaraðili fyrir dómi að hann ræki minni til að hún hefði greitt þinglýsingargjöld og vinnu við rafmagn í íbúðinni. Fyrir liggur að varnaraðili greiddi 1.000.000 króna inn á bankareikning sóknaraðila 5. september árið 2000 sem gekk til greiðslu sameiginlegra skulda þeirra. Að mati dómsins þykir ljóst að fjárframlög varnaraðila hafi þannig verið í þágu þeirra beggja og liggur ekkert fyrir sem styður það að skýr aðgreining hafi verið á fjárhag aðila. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi að aðilar hafi aðeins talið einu sinni sameiginlega fram til skatts, þ.e. árið 2001. Þá verður ekki fram hjá því litið að fjárráð sóknaraðila minnkuðu verulega í kjölfar atvinnumissis og hefur því skipt sköpum að varnaraðili gat tekið þátt í útgjöldum.

          Varnaraðili erfði, auk fyrrgreindra peninga, hlutabréf í Sjóvá-Almennum hf., að nafnvirði 96.329 krónur. Bréf þessi seldi hún 7. nóvember 2002 og 26. mars 2003 fyrir samtals 2.440.651 króna án vitneskju sóknaraðila. Fyrir dómi bar varnaraðili að hún hefði varið allri fjárhæðinni til greiðslu skulda „sem tengdust þessum ósköpum“. Verður að skilja framburð hennar svo að þær skuldir hafi orðið til á hjúskapartímanum. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að því fé hafi eingöngu verið ráðstafað í þágu varnaraðila. Fram kom hjá varnaraðila að hún hafi þurft að fjármagna íbúðarkaup sín, sumarið 2003, að öllu leyti með lánum, enda var allt hennar fé þá uppurið. Hún hafi hins vegar ekki getað staðið í skilum þegar upp var staðið og því misst íbúðina á nauðungarsölu.

          Það er meginregla við fjárskipti á milli hjóna við skilnað að beitt sé 103. gr. hjúskaparlaga, sem kveður á um helmingaskipti. Tilgangur þeirrar reglu samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð er að stuðla að jafnstöðu hjóna við hjúskaparlok. Samkvæmt 104. gr. hjúskaparlaga má víkja frá reglunni ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á þetta einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjóna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun.

          Vísað er til þess sem áður segir um að hjúskapur aðila teljist ekki skammvinnur. Heildarkaupverð A, sem keypt var áður en til hjúskapar aðila var stofnað, var 10.500.000 krónur. Af þeirri fjárhæð lagði sóknaraðili sannanlega til 3.925.588 krónur. Þrátt fyrir að hann hafi fjármagnað kaupin einn og að hann hafi verið skráður eigandi íbúðarinnar, er að mati dómsins ekki réttlætanlegt að telja skilyrði uppfyllt til að fallast á aðalkröfu sóknaraðila, einkum þegar litið er heildstætt á málavexti alla og til þess að umtalsverð fjárhæð rann inn í félagsbú þeirra hjóna eftir að varnaraðila tæmdist arfur. Að mati dómsins hafði hún verulega þýðingu fyrir afkomu þeirra eftir að heildartekjur þeirra minnkuðu. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið sýnt fram á annað en að fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum á hjúskapartímanum. Að þessu virtu verður ekki talið bersýnilega ósanngjarnt að beita helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga og verður því ekki frá henni vikið. Með sömu röksemdum þykja ekki efni til að fjalla um varakröfu sóknaraðila.

Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

          Varnaraðili fékk útgefið gjafsóknarleyfi hinn 10. maí sl. og greiðist gjafsóknarkostnaður því úr ríkissjóði. Um er að ræða málsvarnarþóknun lögmanns gjafsóknarhafa. Fyrir liggur tímaskýrsla þar sem fram kemur að hluta vinnustunda má ekki rekja til reksturs málsins fyrir dómi, svo sem skilyrði er í gjafsóknarleyfi. Er málsvarnarþóknun ákveðin hæfileg 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem greiðist úr ríkissjóði.       

          Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Við skipti á milli sóknaraðila, M og K, skal beitt helmingaskiptareglu 103. gr. laga nr. 31/1993.

          Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

          Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, 250.000 krónur, sem er málsvarnarþóknun lögmanns hans, Daggar Pálsdóttur, hrl., greiðist úr ríkissjóði.