Hæstiréttur íslands
Mál nr. 121/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Eignarréttur
- Eignarnám
- Vanreifun
- Skipting sakarefnis
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Kópavogsbæ og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar. Þá krefjast sóknaraðilar aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðilans Kópavogsbæjar og að málskostnaður verði að öðru leyti felldur niður á báðum dómstigum.
Varnaraðilarnir Kópavogsbær og Þorsteinn Hjaltested krefjast hvor um sig staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 4. júní 2013 var meðal annars lagt til af hálfu sóknaraðila að krafist yrði af hálfu búsins og innheimtar „eftir atvikum með höfðun dómsmáls á hendur Kópavogsbæ og öðrum erfingjum“ bætur vegna eignarnáms á jörðinni Vatnsenda árið 2007 „umfram það sem með réttu átti að koma í hlut annarra erfingja, svo og til heimtu frekari bóta.“ Á skiptafundi í dánarbúinu 14. sama mánaðar færði skiptastjóri til bókar að hann hygðist að svo stöddu ekki ráðast í þessa aðgerð fyrir hönd búsins. Sóknaraðilar höfðuðu síðan mál þetta 28. apríl 2014 til hagsbóta fyrir dánarbúið á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. á hendur varnaraðilanum Kópavogsbæ aðallega, varnaraðilanum Þorsteini Hjaltested til vara og loks öðrum varnaraðilum til réttargæslu. Höfðu sóknaraðilar tilkynnt skiptastjóra dánarbúsins um málshöfðunina með ábyrgðarbréfi 27. sama mánaðar. Í hinum kærða úrskurði er gerð ítarleg grein fyrir aðdraganda að henni.
Í héraðsdómsstefnu kröfðust sóknaraðilar þess aðallega að varnaraðilanum Kópavogsbæ yrði gert að greiða dánarbúinu 74.811.389.954 krónur, en til vara 47.558.500.000 krónur, í fyrra tilvikinu með nánar greindum vöxtum frá 3. maí 2013 og í því síðara frá 23. janúar 2007 til greiðsludags. Að því frágengnu gerðu sóknaraðilar kröfu um að varnaraðilinn Þorsteinn yrði dæmdur til að greiða dánarbúinu 2.250.000.000 krónur með nánar greindum vöxtum frá 30. janúar 2007 til greiðsludags.
Samkvæmt stefnunni var það tilefni málshöfðunarinnar að varnaraðilinn Kópavogsbær hafði fjórum sinnum, árin 1992, 1998, 2000 og 2007, tekið eignarnámi hluta af jörðinni Vatnsenda „til skipulags og byggingar í bæjarfélaginu“ og greitt umsamdar eignarnámsbætur í fyrstu tvö skiptin til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, elsta sonar Sigurðar Kristjáns, í þriðja skiptið til dánarbús Magnúsar og loks í það fjórða til varnaraðilans Þorsteins, elsta sonar Magnúsar. Í stefnunni var vísað til þess að af dómum Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 og 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013 leiddi að beinn eignarréttur að jörðinni hafi frá andláti Sigurðar Kristjáns 13. nóvember 1966 verið á hendi dánarbús hans. Óumdeilt væri að handhafi beins eignarréttar væri „einn bær til að taka við bótum fyrir landspjöll eða eignarnám, enda beinist eignarnámið að sviptingu á eignarréttindum og ber eignarnemanum að greiða fyrir fullar bætur.“ Einnig „að í eignarnámsheimild, sem veitt er samkvæmt lögum, felst skylda eignarnema til að greiða fyrir eignarnumið land eignarnámsbætur eða „fullt verð“ eins og segir í 1. mgr. 72. gr.“ stjórnarskrárinnar. Þá sagði í stefnunni: „Eignarnámsbætur eru í eðli sínu skaðabætur ... Samkvæmt lögum er handhafi beins eignarréttar eigandi að eign og ber honum að fá bætur fari fram eignarnám sem skerðir eignarréttindi hans. Það er því aðeins handhafi beins eignarréttar að landi sem er til þess bær samkvæmt lögum að taka við eignarnámsbótum þegar land er tekið eignarnámi. Stefndi Kópavogsbær getur því ekki losnað undan skyldu sinni til að greiða eignarnámsbætur til réttmæts eiganda jarðarinnar Vatnsenda, dánarbús Sigurðar Kristjáns ... með samningum eða greiðslum til annarra“. Varnaraðilinn Kópavogsbær hafi vitað eða í öllu falli mátt vita að Magnús og varnaraðilinn Þorsteinn væru ekki réttmætir handhafar beins eignarréttar að jörðinni og bærinn því verið grandsamur um betri rétt þriðja aðila. Af þeim sökum væru sóknaraðilar sem lögerfingjar Sigurðar Kristjáns óbundnir af samningum bæjarins við afnotaréttarhafa jarðarinnar og greiðslum til þeirra vegna eignarnámsins.
Í stefnunni var því haldið fram að miða ætti greiðslur úr hendi varnaraðilans Kópavogsbæjar til dánarbúsins við markaðsverð á því landi sem tekið var eignarnámi hverju sinni úr jörðinni Vatnsenda. Þegar það hafi gerst árið 1992 voru greiddar 31.000.000 krónur í eignarnámsbætur og hafi sú fjárhæð falið í sér fullt verð fyrir hina eignarnumdu landspildu. Árið 1998 hafi bærinn tekið eignarnámi 54,5 hektara spildu og væri miðað við að markaðsvirði hennar hafi þá verið 242.222.198 krónur, með vísan til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta um bætur fyrir hvern hektara þegar nánar greint land í Mosfellsbæ var tekið eignarnámi á því ári. Eignarnám bæjarins á árinu 2000 hafi tekið til 90,5 hektara spildu og væri lagt til grundvallar sama verðmæti á hvern hektara og áður greinir, að teknu tilliti til hækkunar á vísitölu neysluverðs frá árinu 1998. Samkvæmt því hafi sannvirði hins eignarnumda numið 436.008.845 krónum á verðlagi 1. ágúst 2000. Loks hafi bærinn árið 2007 tekið eignarnámi 864,7 hektara spildu og við ákvörðun eignarnámsbóta fyrir hana væri lagður til grundvallar úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta um bætur fyrir hvern fermetra þegar nánar tiltekið land í Norðlingaholti var tekið eignarnámi árið 2006. Heildarverðmæti hins eignarnumda hafi því verið 47.558.500.000 krónur á verðlagi í byrjun árs 2007. Í stefnunni kom fram að sóknaraðilum hafi verið ómögulegt að hafa uppi kröfur um eignarnámsbætur á hendur varnaraðilanum Kópavogsbæ fyrr en eftir áðurnefndan dóm Hæstaréttar 3. maí 2013 og hafi þær því fyrst orðið gjaldkræfar þá. Í samræmi við það var aðalkrafa sóknaraðila á hendur þessum varnaraðila fundin þannig að framangreindar fjárhæðir voru reiknaðar til verðlags þann dag miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs frá því að eignarnám fór fram hverju sinni. Varakrafan var reist á því að skylda varnaraðilans „til að greiða dánarbúinu eignarnámsbætur hafi í öllu falli stofnast 23. janúar 2007“ þegar bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um yfirtöku landsins sem þá var tekið eignarnámi. Krafa vegna þess væri „í öllu falli ófyrnd“. Í báðum tilvikum væri byggt á því að dánarbúið ætti rétt á eignarnámsbótum frá varnaraðilanum, en að öðrum kosti rétt á skaðabótum sömu fjárhæðar úr hendi hans.
Í stefnunni sagði ennfremur: „Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu um skyldu aðalstefnda Kópavogsbæjar til greiðslu bóta til handa dánarbúi Sigurðar Kristjáns ... vegna áðurgreinds eignarnáms í fjögur skipti á landi dánarbúsins, er þess til þrautavara krafist að varastefndi skili dánarbúi Sigurðar Kristjáns ... því fé sem hann hefur þegar veitt viðtöku úr hendi aðalstefnda vegna eignarnáms á landi dánarbúsins 23. janúar 2007, en greiði því ella skaðabætur sömu fjárhæðar ... Óumdeilt er að varastefndi hefur þegar tekið við kr. 2.250.000.000 úr hendi aðalstefnda ... Þar sem varastefndi tók við verðmætum á grundvelli samnings við aðalstefnda í algjörri upprunalegri vanheimild um eignarrétt sinn stofnast krafa dánarbúsins á hendur varastefnda þá er hann tekur við verðmætunum.“
Varnaraðilarnir Kópavogsbær og Þorsteinn kröfðust báðir frávísunar málsins í héraði, einkum vegna vanreifunar. Í greinargerð þess síðarnefnda var meðal annars komist svo að orði: „Loks byggir krafa varastefnda um frávísun allra krafna á hendur honum frá dómi á því, að stefnendur setji kröfugerð á hendur honum fram sem þrautavarakröfu þannig að hún geti einungis komið til álita falli efnisdómur um sýknu af aðal- eða varakröfu stefnenda á hendur aðalstefnda ... Varastefndi byggir á því að verði kröfu stefnenda á hendur aðalstefnda vísað frá dómi ... þá verði að vísa þrautavarakröfu á hendur varastefnda frá dómi þar sem efnisdómur um sýknu aðalstefnda sé forsenda þess að hún komi til úrlausnar dómsins.“
Að loknum málflutningi um frávísunarkröfur varnaraðilanna kvað héraðsdómur upp úrskurð 23. september 2015 þar sem kröfunum var hafnað. Í úrskurðinum komst héraðsdómur meðal annars að þeirri niðurstöðu að dómkröfur og málsástæður sóknaraðila væru skýrar. Ekki yrði séð af greinargerðum varnaraðilanna að þeir hafi átt í vandræðum með að átta sig á kröfum sóknaraðila og málatilbúnaði þeirra og taka til varna. Ágreiningur um inntak beins og óbeins eignarréttar að jörðinni og hver væri réttur viðtakandi eignarnámsbóta varðaði efni máls, sem og ágreiningur um tjón dánarbúsins og fjárhæð stefnukrafna í málinu.
Í því þinghaldi þegar fyrrgreindur úrskurður var upp kveðinn kvaðst héraðsdómari hafa í huga, með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði dæmt sérstaklega um greiðslu- og bótaskyldu varnaraðilanna tveggja. Gaf dómarinn málsaðilum kost á að tjá sig um þessa fyrirætlan sína. Í þinghaldi 2. október 2015 voru ekki gerðar athugasemdir af þeirra hálfu við að sakarefninu yrði skipt og ákvað dómarinn að því búnu að það skyldi gert með þeim hætti sem að framan greinir.
Að lokinni aðalmeðferð í málinu var því eins og áður greinir vísað frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði.
II
Í beinum eignarrétti felst almenn heimild þess, er slíks réttar nýtur, til að hagnýta eignina og ráðstafa henni með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum og óbeinum eða takmörkuðum eignarréttindum annarra. Í lögum er handhafi beins eignarréttar oft sagður eigandi að eign, en handhafi óbeinna eignarréttinda nefndur rétthafi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms sem vitnað er til í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga má með eignarnámi, ef eigi leiðir annað af heimildarlögum, afla eignarréttar að landi og mannvirkjum ásamt því, sem þeim fylgir, skerða um ákveðinn tíma eða fyrir fullt og allt eignarrétt eða takmörkuð eignarréttindi yfir fasteign og stofna eða fella niður afnotaréttindi, ítaksréttindi og önnur takmörkuð eignarréttindi yfir fasteignum. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að þegar eignarréttar er aflað með eignarnámi skuli öll takmörkuð eignarréttindi jafnframt afnumin, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Þá segir í 2. mgr. 10. gr. laganna að eigi aðrir rétthafar en eigandi eignarnumins verðmætis rétt til eignarnámsbóta skuli meta og tilgreina sérstaklega þær bætur sem hverjum þeirra ber.
Óbein eignarréttindi á borð við afnotaréttindi veita rétthafanum eingöngu takmarkaðar heimildir yfir eign þannig að handhafi hins beina eignarréttar nýtur allra þeirra heimilda annarra sem í eignarrétti felast og eigninni fylgja. Af því leiðir að sé eignin eða hluti hennar tekinn eignarnámi á þann hátt að þeir, sem hafa á hendi beinan eignarrétt og óbeinan, séu sviptir heimildum sínum fyrir fullt og allt verður handhafi hinna takmörkuðu eignarréttinda að sýna fram á, rísi ágreiningur milli hans og handhafa hins beina eignarréttar, hverju fjárhagslegu tjóni hann hafi orðið fyrir sökum eignarnámsins.
III
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur Hæstiréttur slegið því föstu í áðurgreindum dómi í máli nr. 701/2012 og í dómi 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda sé á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og að ráðstafa verði þeim rétti til lögerfingja hans eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þar sem sóknaraðilar hafa sem fyrr segir höfðað mál þetta til hagsbóta fyrir dánarbúið á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 var engin þörf á því að stefna öðrum varnaraðilum en Kópavogsbæ og Þorsteini Hjaltested til að þola dóm í málinu.
Kröfur þær, sem sóknaraðilar gera á hendur varnaraðilanum Kópavogsbæ aðallega og varnaraðilanum Þorsteini til vara, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, eru skýrar og málatilbúnaður þeirra að öðru leyti svo glöggur að ekkert er því til fyrirstöðu að dómur verði á þær lagður. Samkvæmt framansögðu er það ekki sóknaraðila, sem standa að málsókninni í þágu dánarbús Sigurðar Kristjáns sem handhafa hins beina eignarréttar að jörðinni, að sýna fram á hvað felst í þeim rétti, heldur ræðst inntak hans af því hvert er eðli og umfang þeirra óbeinu eignarréttinda yfir jörðinni sem mælt er fyrir um að koma skuli í hlut Sigurðar Kristjáns og nánar greindra ættingja Magnúsar Einarssonar Hjaltested í erfðaskrá þess síðarnefnda frá árinu 1938. Úrlausn þess ræðst fyrst og fremst af skýringu á ákvæðum erfðaskrárinnar og síðan eftir atvikum af mati á því tjóni sem handhafar hinna óbeinu eignarréttinda hafa orðið fyrir vegna umrædds eignarnáms.
Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms, en varnaraðilunum Kópavogsbæ og Þorsteini verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að eins og málið er vaxið verður ekki séð að sú ákvörðun héraðsdóms 2. október 2015 að skipta sakarefni þess á grundvelli undantekningarákvæðisins í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 muni hafa í för með sér hagræði við úrlausn þess.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilarnir Kópavogsbær og Þorsteinn Hjaltested greiði óskipt sóknaraðilum, Elísu Finnsdóttur, dánarbúi Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Gísla Finnssyni, Guðmundi Gíslasyni, Hansínu Sesselju Gísladóttur, Margréti Margrétardóttur, Karli Lárusi Hjaltested, Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested, Markúsi Ívari Hjaltested og Sigríði Hjaltested, hverju um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2016.
Mál þetta var höfðað 28. apríl 2014 af stefnendum, Elísu Finnsdóttur, Naustabryggju 11, Reykjavík, Finnborgu Bettýju Gísladóttur, Austurbrún 6, Reykjavík, Gísla Finnssyni, Álfkonuhvarfi 31, Kópavogi, Guðmundi Gíslasyni, Heiðargerði 5, Vogum, Hansínu Sesselju Gísladóttur, Tryggvagötu 6, Reykjavík, Karli Lárusi Hjaltested, Ósabakka 19, Reykjavík, Margréti Margrétardóttur, Rauðagerði 16, Reykjavík, Markúsi Ívari Hjaltested, Þrúðvangi 36, Hellu, Sigríði Hjaltested, Godthabsveg 6, Nörre Snede, Danmörku, og Sigurði Kristjáni Hjaltested, Marargötu 4, Vogum. Stefnandi Finnborg lést í nóvember 2015 og hefur dánarbúið tekið við aðild í málinu.
Aðalstefndi er Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi.
Varastefndi er Þorsteinn Hjaltested, Vatnsenda, Kópavogi.
Réttargæslustefndu eru Kristján Þór Finnsson, Brekkutúni 1, Kópavogi, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Vatnsenda, Kópavogi, Marteinn Þ. Hjaltested, Hestheimum, Hellu, Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested, Logasölum 9, Kópavogi, og Vilborg Björk Hjaltested, Logasölum 7, Kópavogi. Við þingfestingu málsins 5. nóvember 2014 var ekki mætt af hálfu réttargæslustefnda Kristjáns Þórs.
Dómkröfur stefnenda í stefnu málsins eru aðallega þær að aðalstefndi Kópavogsbær verði dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 74.811.389.954 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 3. maí 2013 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 47.558.500.000 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 23. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara er gerð krafa um að varastefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 2.250.000.000 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 30. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess aðallega krafist að aðalstefndi, en til vara varastefndi, verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað.
Stefnendur gera engar kröfur á hendur réttargæslustefndu.
Aðalstefndi krafðist þess aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi. Til vara var þess krafist að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krafðist aðalstefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Varastefndi gerði aðallega kröfu um að dómkröfum stefnenda á hendur honum yrði vísað frá dómi og að stefnendum yrði gert in solidum að greiða varastefnda málskostnað. Til vara krafðist varastefndi sýknu af dómkröfum stefnenda og að stefnendum yrði gert in solidum að greiða honum málskostnað.
Réttargæslustefndu tóku undir kröfu um að máli þessu yrði vísað frá dómi og kröfðust þess að stefnendum yrði gert að greiða réttargæslustefndu málskostnað.
Frávísunarkröfu aðalstefnda og varastefnda var hafnað með úrskurði 23. september 2015.
Í þinghaldi 2. október 2015 var ákveðið, með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 78/2015, að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um greiðslu- og bótaskyldu aðalstefnda og varastefnda.
Kröfugerð stefnenda í þeim þætti málsins er aðallega að viðurkennd verði með dómi skylda aðalstefnda til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eignarnámsbætur vegna eftirgreindra eignarnáma aðalstefnda á spildum úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi: a) 20,5 hekturum 8. maí 1992; b) 54,5 hekturum 13. maí 1998; c) 90,5 hekturum 1. ágúst 2000 og d) 864,7 hekturum 23. janúar 2007.
Til vara krefjast stefnendur þess að viðurkennd verði með dómi skylda aðalstefnda til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested skaðabætur vegna þess tjóns sem dánarbúið hafi orðið fyrir vegna eftirgreindra eignarnáma aðalstefnda á spildum úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi: a) 20,5 hekturum 8. maí 1992; b) 54,5 hekturum 13. maí 1998; c) 90,5 hekturum 1. ágúst 2000 og d) 864,7 hekturum 23. janúar 2007.
Verði aðalstefndi sýknaður af þessum kröfum stefnenda er þess krafist aðallega að viðurkennd verði skylda varastefnda til að greiða til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested það fé sem hann tók við sem ætlaður landeigandi úr hendi aðalstefnda samkvæmt gr. 2.1 sáttargerðar aðalstefnda og varastefnda, dagsettrar 30. janúar 2007, sem hluta af greiðslu fyrir eignarnumið land vegna eignarnáms aðalstefnda á samtals 864,7 hektara spildum úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi 23. janúar 2007.
Til vara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda varastefnda vegna þess tjóns sem dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested varð fyrir vegna viðtöku varastefnda sem ætlaðs landeiganda á fé úr hendi aðalstefnda samkvæmt gr. 2.1 sáttargerðar aðalstefnda og varastefnda, dagsettrar 30. janúar 2007, sem hluta af greiðslu fyrir eignarnumið land vegna eignarnáms aðalstefnda á samtals 864,7 hektara spildum úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi 23. janúar 2007 og nýtingar fjárins í eigin þágu.
Þá er þess aðallega krafist að aðalstefndi en til vara varastefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað.
Ekki eru gerðar neinar kröfur á réttargæslustefndu.
Bæði aðalstefndi og varastefndi krefjast sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar. Jafnframt gera réttargæslustefndu kröfu um málskostnað.
Málið var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 7. janúar 2016.
I.
Mál þetta er að rekja til erfðaskrár sem Magnús Einarsson Hjaltested úrsmiður gerði hinn 4. janúar 1938 um jörðina Vatnsenda. Magnús var ókvæntur og barnlaus en hann átti þrjá bræður, Georg Pétur Einarsson Hjaltested, Ólaf Zophanías Einarsson Hjaltested og Sigurð K. Einarsson Hjaltested. Bræður Magnúsar eignuðust ekki börn, utan Georg Pétur sem átti börn, þ. á m. Lárus Hjaltested. Lárus eignaðist sex börn. Þar af voru þrír synir, Sigurður Kristján, Georg Pétur og Jón Einar. Sigurður var þeirra elstur.
Með erfðaskránni arfleiddi Magnús Einarsson Hjaltested sonarson síns, Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested, að öllum eignum sínum:
Ég undirritaður Magnús Einarsson Hjaltested fyr úrsmiður í Reykjavík, en nú bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, sem ekki á neitt afkvæmi, lýsi hér með yfir því, sem síðasta vilja mínum, að með eignir mínar lausar og fastar – allar undantekningarlaust – skal fara á þann hátt, er hér eftir segir, að mér látnum.
1. gr. Allar eignir mínar – fastar og lausar – skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns
Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina.
a/- Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á – Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi – er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri.
b/- Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.
c/- Arftaki má selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað, úr óræktuðu landi jarðarinnar, gegn árlegu afgjaldi er hæfilegt þykir á hverjum tíma, og skulu þær leigur goldnar á tilteknum gjalddaga til ábúenda hver sem hann verður, og má ekki veðsetja þær neinum fremur en jörðina, fyr en þær eru greiddar ábúenda.
2. gr. Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á fyrrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla.
Allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni, af annara völdum, og jörðinni ber, hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt, til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf, sem tilheirandi jörðinni að mér látnum, ef ekki hefir verið fullkomlega um það samið áður.
Sömuleiðis hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi allan rétt þann, er um ræðir í gr. 1 tölulið c/-.
3. gr. Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.fr. Koll af kolli, þannig að ávalt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefir sagt verið.
Sé enginn erfingi réttborinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framanskráðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum.
Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfylli skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.
4. gr. Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda, missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.
5. gr. Ef viðkomandi erfingi er ómyndugur skal fjárhaldsmaður hans ráðstafa ábúðinni þar til hann er myndugur.
6. gr. Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefir inni að halda.
Vanrækji einhver það, varðar það tafarlaust réttinda missi fyrir hlutaðeigandi.
7. gr. Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda. Sjóður þessi ávaxtist í ríkisskuldabréfum, bankavaxta bréfum – er beri það með sér, að þau tilheyri sjóðnum – eða sparisjóði Landsbankans. ¾ hlutar vaxta útborgist árlega, sem styrktarfé, en ¼ hluti leggist við sjóðinn honum til aukningar. Tilgangur sjóðsins skal vera sá, að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar Hjaltested til framhaldsmenntunar hvenær sem er.
Skipulagsskrá viðvíkjandi sjóði þessum, ef til kemur, fel ég Stjórnarráði Íslands að semja, með þessum skilyrðum er nú voru nefnd.
Arfleiðslugjörningi þessum skal þinglýsa á varnarþingi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og hann hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.
Til staðfestu framanritaðri arfleiðsluskrá í öllum greinum, hefi ég undirritað hana í viðurvist tveggja sérstaklega tilkvaddra vitundarvotta.
Magnús Einarsson Hjaltested lést 31. október 1940 og Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested tók arf í samræmi við erfðaskrána. Henni var þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar að jörðinni Vatnsenda. Sigurður lést 13. nóvember 1966 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 25. september 1967.
Ágreiningur reis við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested um framangreinda erfðaskrá og ráðstöfun Vatnsenda. Var rekið mál fyrir skiptadómi Kópavogs þar sem Margrét, eftirlifandi maki Sigurðar, og ófjárráða börn þeirra kröfðust þess að öllum eignum dánar- og félagsbús Sigurðar og eftirlifandi maka, Margrétar, yrði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga, þar sem brostnar forsendur væru fyrir gildi og framkvæmd erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested umfram það er segi í upphafi erfðaskrárinnar um að allar eignir hans, fastar og lausar, skyldu ganga að erfðum til Sigurðar. Magnús Sigurðsson Hjaltested, sem var elsti sonur Sigurðar og varnaraðili í málinu, krafðist þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði „talin gild í öllum greinum“ og veitti honum „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðarlöndum jarðarinnar“. Í greinargerð í málinu, sem lögð var fram fyrir skiptadómi af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sagði meðal annars eftirfarandi: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignarstofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráðarétturinn og rétturinn til að njóta arðs af eignunum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elzti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.“ Í niðurstöðu úrskurðar skiptadóms 24. júlí 1967 segir að varnaraðila væri „einum af erfingjum arflátans áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda“. Úrskurðarorð voru svohljóðandi: „Varnaraðilja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, dagsettri 4. janúar 1938. Málskostnaður fellur niður.“ Úrskurði þessum var skotið til Hæstaréttar. Í greinargerð sem þar var lögð fram af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested voru röksemdir hans í héraði ítrekaðar með eftirfarandi hætti: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn. ... Umbj. m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar, heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested.“ Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 var úrskurður skiptadóms staðfestur.
Á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem haldinn var 7. maí 1968, voru Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested afhent „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“ og var ákvörðun um það staðfest í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968.
Sama dag, 30. maí 1969, kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 117/1968, þar sem staðfestur var úrskurður um að Margrét yrði samkvæmt kröfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested borin út af jörðinni Vatnsenda.
Skiptaráðandi ritaði skattstjóra bréf 15. ágúst 1969 í tilefni af kröfu um skil á skattframtali fyrir dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested þar sem vikið var að réttindum sem það hafi átt yfir Vatnsenda: „Búinu tilheyrði ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda, en hann féll til eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Skiptaráðandi afhenti áðurgreindum erfingja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested jörðina … 7. maí 1968. Þar með fylgdu að sjálfsögðu tekjur jarðarinnar svo sem leigugjöld og endurgjöld veiðileyfa ... Landseti tók við greiðslu fyrir veiðileyfi seld á sumrinu 1968 ... Deilt er um, hvort sú fjárhæð á að renna til dánarbúsins eða til rétthafa jarðarinnar samkvæmt áðurnefndri erfðaskrá.“
Dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 var þinglýst 25. febrúar 1971 á jörðina Vatnsenda. Samkvæmt veðbókarvottorði 22. september 1976 var Magnús Sigurðsson Hjaltested „þinglesinn eigandi“ Vatnsenda samkvæmt „heimildarbréfi 30.5.´69“ og um væri að ræða „eignarland“.
Opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested munu hafa verið tekin fyrir í skiptarétti Kópavogs á tímabilinu frá 25. febrúar 1967 til 26. maí 1970, en þar á eftir í einu þinghaldi, 15. maí 1972. Opinber skipti á dánarbúinu virðast ekki hafa verið tekin fyrir eftir 15. maí 1972, en eina skjalið varðandi skiptin eftir það tímamark mun vera fyrirspurn innheimtumanns ríkissjóðs til skiptaráðanda 12. apríl 1973 um það hvenær vænta mætti að skiptum lyki.
Magnús Sigurðsson Hjaltested lést 21. desember 1999. Eftirlifandi maki hans er Kristrún Ólöf Jónsdóttir, en börn þeirra eru Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested. Kristrún Ólöf fékk leyfi til setu í óskiptu búi 19. janúar 2000. Í leyfisbréfi sýslumanns var jörðin Vatnsendi talin meðal eigna búsins. Þinglýsingarvottorði að leyfisbréfi frá sýslumanni var þinglýst á jörðina Vatnsenda sem eignarheimild hennar. Hinn 21. nóvember 2000 gerðu þau svohljóðandi skiptayfirlýsingu: „Með yfirlýsingu þessari er jörðin Vatnsendi Kópavogi færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested ... yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested ... á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Undanskilin er 90,5 ha. spilda sem Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi skv. samningi dags. 24. nóv. 1999, en er óþinglýst á jörðina. Þessi spilda fellur undir réttindi og skyldur skv. eignarnámssátt við Kópavogsbæ sem talin er meðal eigna í búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur. Samkvæmt erfðaskránni gengu allar eigur Magnúsar Einarssonar Hjaltested að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Að Sigurði látnum á jarðeignin að ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til hans niðja í beinan karllegg. Sigurður Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966 og gekk þá eignin til elsta sonar hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús lést 21. desember 1999 og á eignin þá skv. erfðaskránni að ganga til elsta sonar hans Þorsteins Magnússonar Hjaltested. Erfingjar lýsa því yfir að enginn ágreiningur er meðal þeirra um að jörðin, skv. ofanskráðu falli óskipt til Þorsteins Hjaltested, og hafi engin áhrif á arfstilkall hans úr hinu óskipta búi. Jafnframt er þess óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 19. janúar 2000, til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda, verði aflýst í fullu samræmi við skiptayfirlýsingu þessa. Búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur skal leiðrétt til samræmis við þessa kvöð skv. erfðaskránni.“
Þessari yfirlýsingu var þinglýst 12. desember 2000 og var Þorsteinn Hjaltested sagður „þinglýstur eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda í þinglýsingarvottorði frá 11. janúar 2012.
Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested lést á árinu 2004. Til lögerfða eftir hana stóðu synir hennar og Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þeir Sigurður Kristján og Karl Lárus, svo og önnur börn hennar, Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason og Margrét Margrétardóttir, ásamt börnum látins sonar hennar, Finns Gíslasonar, þeim Gísla Finnssyni, Elísu Finnsdóttur og Kristjáni Þór Finnssyni.
Á árinu 2007 höfðuðu stefnendur Sigurður Kristján og Karl Lárus mál á hendur Þorsteini Hjaltested og kröfðust þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 yrði felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kvæði á um yrði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 560/2007.
Hinn 23. desember 2008 barst Héraðsdómi Reykjaness beiðni stefnenda Sigurðar Kristjáns, Karls Lárusar og Sigríðar um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði dómsins 29. september 2009 var þessari kröfu hafnað. Í dómi Hæstaréttar 13. nóvember sama ár, í máli nr. 599/2009, sagði að samkvæmt málatilbúnaði Sigurðar Kristjáns, Karls Lárusar og Sigríðar væri krafa þeirra reist á því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem hófust 25. febrúar 1967, hafi aldrei verið lokið. Væri sú ályktun rétt stæðu opinberu skiptin enn yfir og væri við svo búið útilokað að taka dánarbúið öðru sinni til opinberra skipta. Niðurstaðan í úrskurði héraðsdóms var því staðfest.
Með beiðni til Héraðsdóms Reykjaness í febrúar 2011 fóru stefnendur Sigurður Kristján, Karl Lárus, Sigríður og Markús Ívar fram á að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Með úrskurði héraðsdóms 26. maí 2011 var þeirri kröfu hafnað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og í dómi réttarins 24. ágúst sama ár, í máli nr. 375/2011, sagði að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúinu hafi verið lokið og bæri því að taka til greina kröfu um skipun skiptastjóra til að leysa það verk af hendi. Jafnframt sagði í dómi Hæstaréttar: „Skiptir í því efni ekki máli þótt fyrir liggi að jörðin Vatnsendi er ekki lengur meðal eigna búsins, þar sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, elsta syni Sigurðar Kristjáns Hjaltested, var afhent jörðin á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar 7. maí 1968 svo sem fram kemur og staðfest er í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969, sem birtur er á blaðsíðu 780 í dómasafni réttarins það ár.“ Héraðsdómur Reykjaness skipaði skiptastjóra í dánarbúinu 18. nóvember 2011.
Skiptastjórinn hélt skiptafund 16. janúar 2012 og reis ágreiningur um það hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbúsins. Á skiptafundi 9. febrúar sama ár lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu að á grundvelli ummæla í dómi Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 teldi hann að jörðin væri ekki lengur í eigu dánarbúsins, þar sem henni hafi verið ráðstafað til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á skiptafundi í búinu 7. maí 1968, svo sem staðfest hafi verið með dómi réttarins í máli nr. 99/1968. Ágreiningi um þetta var vísað til héraðsdóms 13. febrúar 2012. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu með úrskurði 16. nóvember 2012 að jörðin Vatnsendi, ásamt öllu því er eigninni fylgdi og fylgja bæri, skyldi vera meðal eigna dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem lést 13. nóvember 1966. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sbr. dóm 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012.
Í dómi Hæstaréttar frá 3. maí 2013, í máli nr. 701/2012, sagði að dánarbúið væri enn til opinberra skipta, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 375/2011. Þá var tekið fram að ekki væri til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið eða væru til að hinn beini eignarréttur yrði færður eftir lát Sigurðar 13. nóvember 1966 til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, heldur aðeins hvort það hafi í raun þegar verið gert við opinberu skiptin á dánarbúi Sigurðar þannig að sá réttur væri ekki lengur á hendi þess. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómsmálinu, sem lauk með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968, hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested ekki krafist þess að kveðið yrði á um rétt hans til að taka jörðina Vatnsenda að arfi eftir föður sinn, heldur rétt hans til að taka við henni. Því til samræmis hafi dómkrafa hans verið tekin þar til greina með þeim orðum að hann nyti réttar til að taka við jörðinni til ábúðar og hagnýtingar, en ekki hafi þar verið kveðið á um afdrif beins eignarréttar að henni. Magnúsi hafi svo á skiptafundi verið afhent umráð og afnot jarðarinnar, sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969. Væri því ekki unnt að álykta að Magnús hafi með þessu öðlast beinan eignarrétt að jörðinni og því hafi ekki verið borið við í málinu að hann hafi á annan hátt tekið við slíkum rétti af dánarbúi föður síns. Samkvæmt þessu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested teldist beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda enn vera á hendi þess.
Skiptastjóri í dánarbúinu leitaði eftir því 6. maí 2013 við sýslumanninn í Kópavogi að dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 yrði þinglýst, sem sýslumaður varð við, en þó þannig að eftir sem áður var varastefndi Þorsteinn Hjaltested skráður sem þinglýstur eigandi Vatnsenda í fasteignabók. Ágreiningur kom upp um þetta, sem leiddi til dóms Hæstaréttar 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013, þar sem sýslumanni var gert að færa heiti dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blað í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi á grundvelli þinglýsingar á dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012, jafnhliða því að gera þar að eigin frumkvæði nauðsynlegar leiðréttingar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga á eldri færslum um eignarheimildir yfir jörðinni Vatnsenda, þannig að ekki orki tvímælis að réttindi á grundvelli fyrrnefnds dóms frá 30. maí 1969 væru óbein eignarréttindi og sá, sem fari með þau, væri ekki þinglýstur eigandi hennar í skilningi 1. mgr. 25. gr. sömu laga.
Skiptastjóri lagði til með frumvarpi, dags. 15. apríl 2014, að beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda yrði úthlutað til varastefnda, Þorsteins Hjaltested. Á skiptafundi 30. apríl 2014 mótmæltu stefnendur frumvarpi að úthlutunargerð. Ágreiningi um frumvarpið var vísað til héraðsdóms sem með úrskurði 6. nóvember 2014 staðfesti frumvarpið, en með dómi Hæstaréttar 5. mars 2015, í máli nr. 751/2014, var frumvarpið fellt úr gildi. Í téðum dómi Hæstaréttar kemur fram að hinn beini eignarréttur gangi ekki að erfðum við skipti á dánarbúi Sigurðar eftir fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938, heldur eftir lögerfðareglum. Af dómum Hæstaréttar 5. apríl 1968 og 30. maí 1969 leiði á hinn bóginn að um „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“ fari að Sigurði látnum eftir ákvæðum erfðaskrárinnar.
Fleiri ágreiningsmál hafa verið rekin fyrir dómstólum vegna þinglýsingar jarðarinnar. Í dómi Hæstaréttar frá 12. mars 2015 í máli nr. 167/2015, var hafnað kröfu stefnenda Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar um að skiptayfirlýsingin frá 21. nóvember 2000, sem rakin var hér að framan, yrði afmáð úr fasteignabók. Þá var í dómi Hæstaréttar 12. nóvember 2015 í máli nr. 706/2015 til úrlausnar ágreiningur um ákvörðun sýslumanns um að afmá úr fasteignabók sáttargerð frá 30. janúar 2007 um eignarnám á landi úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að samkvæmt 32. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 væri réttarvernd eignarnámsgerða háð þinglýsingu og við mat á því hvort umrædd sáttargerð teldist eignarnámsgerð í skilningi ákvæðisins yrði að horfa til efnis hennar. Taldi Hæstiréttur að ljóst væri að sáttargerðin væri staðfesting á réttindum varastefnda yfir hinu eignarnumda landi og því eignarnámsgerð í skilningi fyrrgreinds ákvæðis og hefði því varastefnda verið rétt að þinglýsa sáttargerðinni. Var ákvörðun sýslumanns því felld úr gildi.
II.
Frá árinu 1929 hefur landspildum úr landi jarðarinnar Vatnsenda verið ráðstafað til opinberra aðila, þ.e Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar, Landsvirkjunar og Kópavogsbæjar, aðalstefnda í máli þessu. Eignarnám sem mál þetta snýst um eru eftirfarandi:
Hinn 8. maí 1992 tók aðalstefndi eignarnámi 20,5 hektara landsvæði norðvestan við Elliðavatnsstíflu og greiddi 31.000.000 kr. í bætur til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested.
Hinn 27. apríl 1998 veitti umhverfisráðherra aðalstefnda heimild til að taka eignarnámi 54,5 hektara landspildu úr jörðinni Vatnsenda. Hinn 13. maí 1998 var undirrituð sátt milli aðalstefnda og Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested um téð eignarnám. Var samkomulag um að bætur skyldu nema 180.000.000 kr., auk byggingarréttar á ákveðnum svæðum til handa Magnúsi.
Hinn 13. mars 2000 veitti umhverfisráðuneytið aðalstefnda heimild til að taka eignarnámi 90,5 hektara landspildu úr jörðinni Vatnsenda. Hinn 1. ágúst 2000 var undirrituð sátt milli aðalstefnda og dánarbús Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested vegna eignarnámsins. Samkvæmt sáttinni voru bætur 290.000.000 kr., að frádregnum yfirteknum skuldum, að fjárhæð 52.529.993 kr., með skuldabréfum. Í samkomulaginu var m.a. kveðið á um að aðalstefndi skipulegði og úthlutaði lóðum til framangreinds dánarbús, auk þess sem dánarbúið átti að fá heimild til að reisa ýmsar byggingar án greiðslu gatnagerðargjalda.
Með beiðni til umhverfisráðuneytisins, dags. 29. nóvember 2006, óskaði aðalstefndi eftir heimild til eignarnáms á um 864,7 hekturum úr landi jarðarinnar Vatnsenda. Með bréfi, dags. 10. janúar 2007, veitti ráðuneytið aðalstefnda umbeðna heimild á grundvelli 1. mgr. 32. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til að taka áðurgreindan hluta jarðarinnar Vatnsenda eignarnámi. Á fundi bæjarstjórnar aðalstefnda 23. janúar 2007 var tekin ákvörðun um beitingu heimildarinnar. Aðalstefndi óskaði eftir því með bréfi, dags. 25. janúar 2007, að matsnefnd eignarnámsbóta myndi meta hæfilegar bætur vegna eignarnámsins. Við fyrirtöku málsins 8. febrúar 2007 mætti lögmaður stefnenda Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar og setti fram kröfu um að Sigurður Kristján og Karl Lárus teldust aðilar matsmálsins, en nefndin hafnaði því að þeir ættu aðild að málinu. Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð 14. febrúar 2007 sem var bundinn við að ákvarða málskostnað þar sem búið var að semja um endurgjald aðalstefnda, með sátt 30. janúar 2007. Fól sáttin í sér greiðslu til varastefnda fyrir hið eignarnumda land og skyldi aðalstefndi m.a. greiða varastefnda 2.250.000.000 kr., auk hlutdeildar í skipulögðum lóðum, byggingarréttar o.fl.
Hinn 12. maí 2011 höfðaði varastefndi mál á hendur aðalstefnda með kröfu um bætur vegna vanefnda á eignarnámssátt aðila frá 30. janúar 2007. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2014, í máli nr. E-971/2011, var kröfum varastefnda vísað frá dómi þar sem ekki var talin vera til staðar sú „grundvallarforsenda sáttar málsaðila“ að varastefndi væri handhafi beins eignarréttar að hinu eignarnumda.
Eins og komið hefur fram var mál það sem hér er til úrlausnar höfðað 28. apríl 2014. Undir rekstri málsins, í ágúst 2014, lögðu stefnendur fram beiðni um að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta verðmæti þess lands sem aðalstefndi hefur tekið eignarnámi úr jörðinni Vatnsenda. Með úrskurði héraðsdóms 28. nóvember 2014 var fallist á að umbeðin dómkvaðning færi fram. Með dómi Hæstaréttar 14. janúar 2015, í máli nr. 821/2014, var úrskurðurinn hins vegar felldur úr gildi með vísan til þess að eftir að mál hefði verið höfðað færi öflun sönnunargagna, þar á meðal öflun matsgerðar, fram fyrir þeim dómara sem kæmi til með að leysa úr málinu. Þar sem ekki lægi ljóst fyrir að sá dómari sem tók afstöðu til matsbeiðninnar myndi fara með málið hefði brostið lagaskilyrði fyrir því að dómarinn leysti úr hvort umbeðið mat færi fram.
Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu aðalstefnda og varastefnda 31. ágúst 2015 og með úrskurði 23. september 2015 var frávísunarkröfu hafnað. Í þinghaldi 2. október 2015 var svo ákveðið, með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 78/2015, að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um greiðslu- og bótaskyldu aðalstefnda og varastefnda. Málið var dómtekið að loknum málflutningi 7. janúar 2016.
III.
Stefnendur byggja á því að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi verið réttmætur eigandi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi frá 13. nóvember 1966, sbr. dóma Hæstaréttar frá 3. maí 2013, í máli nr. 701/2012, og 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013. Byggja stefnendur á því að handhafi beins eignarréttar sé einn bær til að taka við bótum fyrir landspjöll eða eignarnám, enda beinist eignarnámið að sviptingu á eignarréttindum og beri eignarnemanum að greiða fyrir fullar bætur. Aðalstefnda sé þannig skylt að greiða eignarnámsbætur til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, en aðalstefndi hafi fjórum sinnum frá árinu 1992 með eignarnámsheimild lögum samkvæmt tekið umráð hluta lands jarðarinnar til skipulags og byggingar í bæjarfélaginu.
Í eignarnámsheimild, sem veitt er samkvæmt lögum, felist skylda eignarnema til að greiða fyrir eignarnumið land eignarnámsbætur eða „fullt verð“ eins og segi í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins nr. 33/1944. Byggist sú skylda ekki eingöngu á greindu stjórnarskrárákvæði heldur einnig almennum meginreglum eignaréttar, ákvæðum laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, svo og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu. Yfirfærsla eignarréttinda til aðalstefnda hafi átt sér stað og aðalstefndi tekið umráð eignarinnar. Liðinn sé frestur sem aðalstefndi hefði haft til að hverfa frá eignarnámi, sbr. 15. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Beri aðalstefnda því skylda til að greiða fullar eignarnámsbætur, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 11. júní 1985 í máli nr. 110/1983.
Stefnendur telja að aðalstefndi verði ekki laus undan greiðsluskyldu eignarnámsbóta nema með greiðslu til réttmæts eiganda jarðarinnar, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.
Eignarnámsbætur séu í eðli sínu skaðabætur. Greiðsluskylda eignarnema stofnist þegar hann taki eign eignarnámsþola umráðum eða fái til þess heimild samkvæmt lögum og kjósi að nota þá heimild. Að því loknu sé greiðsluskyldan óundanþæg. Réttarsamband eignarnema og eignarnámsþola stofnist því þegar eignarnámsþolinn sé sviptur réttmætri eign sinni eða heimild um slíkt liggi fyrir samkvæmt lögum og tekin hafi verið ákvörðun um beitingu hennar.
Greiðsluskylda eignarnema á fyrrnefndum eignarnámsbótum samkvæmt lögum og stjórnarskrá stofnist því með sama hætti og aðrar kröfu, t.d. vegna skaðaverks, þegar eignarnámsþolinn sé sviptur réttindum sínum eða tekin hafi verið ákvörðun um beitingu sviptingar. Eignarnemi losni því ekki undan greiðsluskyldu sinni á eignarnámsbótum nema með greiðslu til eiganda þeirrar eignar sem tekin er eignarnámi. Samkvæmt lögum sé handhafi beins eignarréttar eigandi að eign og beri honum að fá bætur fari fram eignarnám sem skerðir eignarréttindi hans. Það sé því aðeins handhafi beins eignarréttar að landi sem sé til þess bær samkvæmt lögum að taka við eignarnámsbótum þegar land er tekið eignarnámi. Aðalstefndi geti því ekki losnað undan skyldu sinni til að greiða eignarnámsbætur til réttmæts eiganda jarðarinnar Vatnsenda, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með samningum eða greiðslum til annarra en lögmæts handhafa beins eignarréttar að jörðinni.
Þá byggja stefnendur á því að réttindi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested hafi aðeins verið óbein eignarréttindi til „umráða og afnota“ jarðarinnar, en með dómi Hæstaréttar Íslands 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 hafi honum verið fengin jörðin Vatnsendi til „ábúðar og hagnýtingar“. Eins og nánar greini í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar frá 3. maí 2013 og 6. desember 2013 hafi hér aðeins verið um að ræða óbein eignarréttindi. Varastefndi hafi aldrei notið beinna eignarréttinda að jörð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hann hafi því aldrei getað verið réttur viðtakandi eignarnámsbóta fyrir land jarðar dánarbúsins sem tekið var eignarnámi af aðalstefnda Kópavogsbæ.
Í stefnu málsins byggðu stefnendur á því að við andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested 21. desember 1999 hafi hin óbeinu eignarréttindi fallið að nýju til handhafa beins eignarréttar að jörðinni, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, og þeim réttindum hafi aldrei verið ráðstafað úr dánarbúinu síðan, en við flutning málsins 7. janúar 2016 féllu stefnendur frá þessari málsástæðu, eins og fram kemur á yfirliti stefnenda yfir kröfur og málsástæður, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnendur byggja á því að aðalstefndi hafi frá öndverðu vitað eða í öllu falli mátt vita að Magnús Sigurðsson Hjaltested og varastefndi væru ekki réttmætir handhafar beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda.
Í fyrsta lagi sé til þess að líta að þinglýsingarvottorð jarðarinnar hafi borið með sér að heimildarskjölin að baki þinglýsingunni fælu aðeins í sér óbein eignarréttindi og gera verði þá kröfu til opinbers aðila í lögskiptum að hann kynni sér nauðsynleg heimildarskjöl að baki löggerningum.
Í öðru lagi verði að hafa í huga að í öllum samskiptum aðalstefnda við meinta umráðamenn jarðarinnar allt frá 1992 sé ítrekað vísað til erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938. Þá hafi viðskipti aðila með land jarðarinnar Vatnsenda ávallt verið klædd í búning eignarnáms þar sem báðum hafi verið kunnugt um þær takmarkanir á ráðstöfunarrétti sem af erfðaskránni kynnu að leiða. Þar sem aðalstefnda hafi verið um þetta kunnugt hafi honum borið sérstök skylda til að kanna hvers eðlis þau réttindi væru sem meintir umráðamenn jarðarinnar töldu sig hafa á grundvelli erfðaskrárinnar. Aðalstefnda hafi því ekki átt að geta dulist að meintir umráðamenn jarðarinnar væru ekki handhafar beins eignarréttar að henni.
Í þriðja lagi hafi aðalstefnda borið að sýna sérstaka varkárni um greiðslur fyrir eignarnumið land eftir að aðalstefnda hafi verið kunnugt um að vafi væri uppi um réttmæta eignarheimild varastefnda til jarðarinnar. Aðalstefndi hafi haft slíka vitneskju í síðasta lagi áður en greiðslur fóru fram vegna eignarnámssáttarinnar 30. janúar 2007, milli aðalstefnda og varastefnda. Í þessu sambandi vísa stefnendur til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 17. janúar 2014 þar sem segi: „Þá verður ekki á það fallist með stefnda að sveitarfélagið hafi enga vitneskju um það haft að brigður væru bornar á ætlað eignarhald stefnanda á jörðinni og má í því sambandi t.d. nefna að á fund matsnefndar eignarnámsbóta 8. febrúar 2007 mætti lögmaður og krafðist þess að tveir umbjóðendur hans, Sigurður K. Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, yrðu aðilar að matsmálinu. Stefnendur telja að framangreindur úrskurður hafi fullt sönnunargildi um málsatvik þar til hið gagnstæða sannist, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í fjórða lagi sýni samskipti aðalstefnda og varastefnda að aðalstefndi hafi verið í stöðugu sambandi við varastefnda og fullkunnugt um þann vafa sem hafi leikið á réttmætri eignarheimild varastefnda. Óformlegar viðræður milli bæjarstjóra aðalstefnda og réttargæslustefndu um framtíð lands jarðarinnar hafi hafist þegar á árinu 2005. Þar hafi m.a. verið rætt um „framtíðarbyggð í framtíðareignarnámssátt“. Það sé því ljóst að báðir aðilar hafi litið á hina lögformlegu leið með eignarnámi sem eiginleg viðskipti. Þannig hafi lögmaður varastefnda sagt í rafpósti til starfsmanns aðalstefnda 2. janúar 2007 að leyfi umhverfisráðuneytisins fyrir eignarnámi væri „aukaatriði“.
Þá vísa stefnendur til þess að í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta vegna matsbeiðni aðalstefnda, dagsettrar 25. janúar 2007, segi að við ákvörðun um þóknun vegna svokallaðrar sáttagerðar sé „tekið … tillit til stærðar viðskiptanna sem að áliti matsnefndarinnar á að hafa áhrif á þá viðmiðunarprósentu sem lögð er til grundvallar við ákvörðunina.“ Því sé um að ræða viðskipti klædd í búning eignarnáms, án þess að lögbundnar eignarnámsbætur hafi verið greiddar til réttmæts eiganda landsins, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.
Í fimmta lagi verði svo að horfa til þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi verið þinglýst á jörðina sem erfðaskiptayfirlýsingu og kvöð. Af dómi Hæstaréttar frá 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 verði ráðið að jörðin hafi ekki verið gerð að óðalsjörð eða að sjálfseignarstofnun. Erfðaskráin sé því aðeins hefðbundin kvöð í skilningi 50. – 52. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 52. gr., falli kvöð á arfi í síðasta lagi niður við andlát erfingja. Kvöð sú sem leiddi af erfðaskránni hafi því fallið niður við andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 13. nóvember 1966. Aðalstefnda hafi því mátt vera þetta ljóst án sérstakrar skoðunar á þinglýstum skjölum jarðarinnar og enn frekar við athugun á þeim.
Stefnendur byggja á því að þeir séu óbundnir af samningum aðalstefnda við afnotaréttarhafa jarðarinnar um eignarnámsbætur. Varastefndi hafi verið í algjörri upprunalegri vanheimild um afhendingu landsins og aðalstefndi því með engu móti getað losnað undan skyldu sinni til greiðslu eignarnámsbóta með greiðslu til varastefnda. Aðalstefnda hafi mátt vera vanheimild varastefnda ljós. Í öllu falli hafi aðalstefnda borið að gæta sérstakrar varkárni og kanna heimildarskjöl þau sem lágu meintum réttindum varastefnda til grundvallar, einkum og sér í lagi eftir að tveir stefnenda kröfðust aðildar að málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta 8. febrúar 2007, áður en kom til greiðslu aðalstefnda til varastefnda samkvæmt eignarnámssátt þeirra í millum. Óhjákvæmilegt hafi verið fyrir aðalstefnda að kanna þinglýst heimildarskjöl jarðarinnar, enda erfðaskráin sem varastefndi telur sig ranglega mega leiða rétt sinn frá, svo og dómur Hæstaréttar Íslands 30. maí 1969, meðal skjala sem getið hafi verið um á þinglýsingarvottorði jarðarinnar Vatnsenda.
Þá vísa stefnendur til þess að fyrir liggi yfirlýsing skiptastjóra dánarbúsins þess efnis að búið telji sig óbundið af sáttargerð aðila, dagsettri 30. janúar 2007, enda hafi dánarbúið ekki haft neina aðkomu að málinu á þeim tíma. Árétta stefnendur í þessu sambandi, varðandi grandsemi aðalstefnda, úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 17. janúar 2014 í máli nr. E-971/2011. Gildi að breyttu breytanda það sama um aðrar sáttagerðir milli aðalstefnda Kópavogsbæjar og viðsemjenda hans.
Stefnendur byggja á því að greiða skuli „fullt verð“ fyrir hið eignarnumda land dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verði enginn sviptur eign sinni nema samkvæmt fyrirmælum í lögum og almannaþörf krefji, auk þess sem fyrir skuli koma fullar bætur. Fyrir liggi að aðalstefndi hafi ítrekað tekið eignarnámi á grundvelli lagaheimildar þar um spildur og jarðnæði úr landi jarðarinnar Vatnsenda án þess að greiða réttum og löglegum eiganda jarðarinnar, dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, eignarnámsbætur þær sem lög kveða á um. Skipti þá ekki máli með hverjum hætti aðalstefndi hafi kosið að nýta landsvæði þessi. Verði fullt verð að miðast við sem verðmætasta og hagkvæmasta nýtingu landsins sem sé kjörlendi til íbúðabyggðar í fjölmennasta þéttbýli á Íslandi. Þá hafi landinu fylgt í ákveðnum tilvikum neysluvatnslindir eða aðgangur að þeim og aðgengi að eftirsóttum útivistar- og afþreyingarmöguleikum. Landið sé því eitt hið verðmætasta hér á landi.
Stefnendur telja af því sem að framan greinir að ljóst sé að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sé óbundið af fyrri sáttagerðum eða samningum um eignarnámsbætur milli aðalstefnda og varastefnda, eða föður hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Leiði af því að dánarbúið eigi rétt á fullum bótum fyrir hið eignarnumda land án tillits til þess með hverjum hætti aðalstefndi hafi kosið að ráðstafa landinu eða réttindum þess, þ.m.t. hvort einhverjum byggingarrétti, lóðum eða öðru kunni að hafa verið ráðstafað til varastefnda eða einhverra réttargæslustefndu, enda hafi varastefndi verið í algjörri vanheimild um tilkall sitt til eignarinnar og aðalstefnda mátt vera það ljóst.
Í stefnu málsins er rakið að við mat á „fullu verði“ fyrir eignarnumið verðmæti séu einkum þrjár leiðir viðurkenndar. Algengast sé að miða við markaðsverðmæti, þ.e. það verð sem fengist hefði fyrir eignina á frjálsum markaði. Sjónarmið um aðrar aðferðir, þ.e. að horfa til notagildis eignarinnar eða enduröflunarverðs, eigi ekki við í því tilviki sem hér sé til úrlausnar. Við mat á markaðsverði hins eignarnumda lands verði að horfa til þess sem áður greinir um staðsetningu og gæði landsins, sem henti einkar vel til íbúðabyggðar, þjónustu við þéttbýli, verðmætrar afþreyingar og annars þess sem kjörlendi í þéttbýli sé notað til. Slík uppbygging hafi átt sér stað á landi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda eftir að aðalstefndi Kópavogsbær tók landið eignarnámi og hóf hagnýtingu þess.
Við ákvörðun markaðsverðmætis verði að horfa til þess að um sé að ræða fjögur aðskilin eignarnám aðalstefnda Kópavogsbæjar á landi úr jörð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda. Í stefnu málsins er síðan rakið nánar með hvaða hætti skuli ákvarða bætur vegna umræddra eignarnáma, en ekki er ástæða til að rekja það nánar hér.
Stefnendur byggja á því að þeim hafi verið ómögulegt að hafa uppi kröfur um eignarnámsbætur fyrr en eftir dóm Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012. Ljóst sé að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, hafi verið til opinberra skipta frá 25. febrúar 1967. Dánarbúið hafi þó verið án skiptastjóra og formlegrar skiptameðferðar frá árinu 1972 til og með 2011. Hafi dánarbúið verið í opinberum skiptum og skiptin staðið óslitið yfir, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 13. nóvember 2009 í máli nr. 599/2009. Leiði af því að enginn skiptastjóri hafi verið til staðar til að fara með hagsmuni búsins, sbr. 67. gr. laga nr. 20/1991. Dánarbúinu hafi því verið ómögulegt að halda uppi hagsmunum sínum og kröfum á hendur aðalstefnda. Leiði og af þessu að erfingjum hverjum og einum hafi verið ómögulegt að hafa uppi kröfur í málinu, enda hafi hvorki legið fyrir staðfesting á því að búið væri til opinberra skipta né afstaða skiptastjóra, en hún sé nauðsynleg áður en erfingjar geti sjálfir farið með hagsmunina, sbr. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991.
Þá verði ekki horft framhjá því að í dómi Hæstaréttar frá 25. ágúst 2011 í máli nr. 375/2011 hafi beinlínis verið tekið fram „að jörðin Vatnsendi er ekki lengur meðal eigna búsins“. Þessu til viðbótar hafi nýr skiptastjóri hafnað því að eignarréttur að jörðinni Vatnsenda tilheyrði dánarbúinu. Dánarbúinu og erfingjum þess, þ.m.t. stefnendum, hafi því verið ómögulegt að hafa uppi kröfu á hendur aðalstefnda fyrr en staðfesting Hæstaréttar á beinum eignarrétti dánarbúsins lá fyrir með dómi réttarins 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012.
Stefnendur telja að eignarnámsbætur beri að miða við staðgreiðslu og almennt við það tímamark þegar eignarnámsmati lýkur, sbr. dóm Hæstaréttar frá 29. júní 1983 í máli nr. 89/1980. Kröfur um eignarnámsbætur fyrnist samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. dóm Hæstaréttar frá 20. mars 2003 í máli nr. 388/2002.
Eins og hér standi á verði að horfa til 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og séu kröfur stefnenda á hendur aðalstefnda og varastefnda því ófyrndar. Stefnendur vísa sérstaklega til þess að með lögfestingu laga nr. 150/2007 hafi verið tekið fram að lagasetningin fæli í sér lögfestingu á gildandi rétti. Verði því að leggja til grundvallar að sambærilegar reglur og nú megi finna í ákvæðum 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 hafi á grundvelli almennra óskráðra meginregla kröfuréttar gilt í tíð laga nr. 14/1905 að því marki sem þær hafi ekki verið þar skráðar.
Þar sem stefnendum hafi verið ómögulegt að hafa kröfur sínar uppi fyrr en eftir 3. maí 2013 leiði að kröfurnar beri ekki vexti fyrr en eftir þann tíma. Hins vegar verði að núvirða kröfurnar miðað við verðlagsþróun frá því að aðalstefndi tók hið eignarnumda land eignarnámi og borið að greiða bæturnar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 29. júní 1983, þar til þær hafi orðið gjaldkræfar og mögulegt verið að hafa þær uppi, enda eigi dánarbúið rétt á fullum bótum, sbr. ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Að öðrum kosti hagnist aðalstefndi með óréttmætum hætti á ómöguleika þeim sem uppi hafi verið við halda kröfunum fram.
Til viðbótar framangreindu, um ómöguleika dánarbúsins við að hafa uppi kröfur á hendur aðalstefnda, byggja stefnendur á því að kröfurnar séu ófyrndar með vísan til 7. gr. laga nr. 14/1905. Af atvikum málsins leiði að það hafi verið fyrst 3. maí 2013 sem dánarbúinu hafi verið mögulegt að hafa uppi kröfuna. Aðalstefndi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi með því að þverbrjóta grundvallarreglur stjórnsýslu- og eignaréttar, með því að klæða viðskipti með land, sem að mati aðalstefnda og varastefnda hafi verið undirorpið sölubanni, í búning eignarnáms. Aðalstefnda hafi allan tímann mátt vera ljósir þeir alvarlegu ágallar sem hafi verið á svonefndum sáttum við varastefnda og aðra meinta umráðamenn um landið, svo og forsendum og eðli viðskiptanna. Þannig hafi viðskiptin í janúar 2007 m.a. verið komin til að frumkvæði varastefnda og undir miklum þrýstingi frá honum þar sem stefnendur hafi þá þegar verið búnir að hefjast handa við að hnekkja ólögmætum ætluðum umráðum hans á jörðinni Vatnsenda.
Samkvæmt framansögðu krefjast stefnendur þess að aðalstefnda verði gert að standa dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested skil á eignarnámsbótum vegna eignarnáms aðalstefnda í landi dánarbúsins fjórum sinnum á árunum 1992-2007. Með vísan til almennra meginreglna kröfuréttar stofnist krafa þegar eignarneminn hafi fengið lagaheimild til eignarnámsins og tekið ákvörðun um að beita henni. Eftir það verði eignaryfirfærslunni og réttindasviptingu eignarnemans ekki snúið við bótalaust. Krafan sjálf verði hins vegar fyrst gjaldkræf þá er matsverð eignarnámsbóta liggi fyrir, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands 29. júní 1983 í máli nr. 89/1980.
Fjárkrafa stefnenda og vaxtakrafa í aðalkröfu er nánar rökstudd og sundurliðuð í stefnu málsins, en ekki er þörf á því að rekja hana í þessum þætti málsins.
Verði ekki fallist á að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eigi rétt á eignarnámsbótum frá aðalstefnda byggja stefnendur á því að dánarbúið eigi rétt á skaðabótum sömu fjárhæðar og krafist er. Vísa stefnendur í þeim efnum til þess sem áður greinir um grandsemi aðalstefnda um vanheimild varastefnda og annarra umráðamanna jarðarinnar. Aðalstefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að virða að vettugi skýr ákvæði stjórnsýsluréttar og eignaréttar við ákvarðanatöku um eignarnám. Vísa stefnendur í þessum efnum m.a. til rannsóknarskyldu aðalstefnda og annarra grundvallarreglna stjórnsýsluréttar, s.s. um meðalhóf og andmælarétt, svo og sjónarmiða og skyldna eignaréttar um mat á almannaþörf, mat á nauðsyn og fleira. Ekkert slíkt hafi átt sér stað. Þá árétta stefnendur að ákvörðun um eignarnámið 23. janúar 2007 hafi verið til komin að frumkvæði varastefnda, en ekki aðalstefnda á grundvelli nauðsynjar bæjarins fyrir land samkvæmt aðalskipulagi. Eignarnámið hafi verið byggt á hugmyndum varastefnda um „framtíðarbyggð í framtíðareignarnámssátt“. Það sé alfarið á ábyrgð aðalstefnda að greiddar hafi verið bætur fyrir eignarnám til annars aðila en réttmæts eiganda. Verði aðalstefndi því að bæta réttmætum eiganda það tjón sem leiði af eignarsviptingu og yfirfærslu eignarréttinda til aðalstefnda. Fjárhæð skaðabótanna sé því jafnvirði eignarnámsbótanna sem áður var krafist. Að öðru leyti vísa stefnendur til fyrri umfjöllunar að breyttu breytanda.
Verði ekki fallist á ómöguleika stefnenda og dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested við að halda fram kröfum sínum á hendur aðalstefnda Kópavogsbæ, byggja stefnendur á því að skylda aðalstefnda til að greiða dánarbúinu eignarnámsbætur hafi í öllu falli stofnast 23. janúar 2007. Þann dag hafi bæjarstjórn aðalstefnda tekið ákvörðun um að taka umráð þess lands sem það hafði fengið heimild umhverfisráðherra til að taka eignarnámi og beita fenginni eignarnámsheimild. Aðalstefnda hafi borið skýlaus skylda til að greiða eiganda beins eignarréttar að jörðinni fullar eignarnámsbætur að þeirri ákvörðun tekinni, sbr. ákvæði laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Aðalstefndi hafi ekki getað losnað undan þeirri skyldu sinni með því að semja við meintan handhafa afnota og umráða jarðarinnar, enda viðkomandi í fullkominni vanheimild um réttindi sín. Bæði aðalstefnda og varastefnda hafi verið kunnugt um vanheimild þess síðarnefnda, sbr. það sem áður hefur verið rakið.
Stefnendur telja í öllu falli að krafa vegna síðasta eignarnáms aðalstefnda frá 23. janúar 2007 sé ófyrnd, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. dóm Hæstaréttar frá 20. mars 2003 í máli nr. 388/2002. Er á því byggt að krafan hafi stofnast við ákvörðun aðalstefnda um beitingu eignarnámsheimildarinnar 23. janúar 2007 og krafan þá orðið gjaldkræf.
Verði ekki fallist á að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eigi rétt á eignarnámsbótum úr hendi aðalstefnda vegna síðastgreinds eignarnáms, er byggt á því að dánarbúið eigi rétt á skaðabótum úr hendi aðalstefnda að sömu fjárhæð. Vísa stefnendur í þessu sambandi til fyrri umfjöllunar að breyttu breytanda.
Fallist dómurinn ekki á aðal- eða varakröfu um skyldu aðalstefnda til greiðslu bóta til handa dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested krefjast stefnendur þess að varastefndi skili dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested því fé sem hann hefur þegar veitt viðtöku úr hendi aðalstefnda vegna eignarnáms á landi dánarbúsins 23. janúar 2007, en greiði því ella skaðabætur sömu fjárhæðar.
Byggja stefnendur á því að meint tilkall varastefnda til eignarréttar að jörðinni Vatnsenda hafi verið byggt á algjörri upprunalegri vanheimild. Þá hafi varastefndi einnig verið í vanheimild um tilkall sitt til umráða og afnota jarðarinnar, enda hafi hann ekki leitt rétt sinn frá lögmætum handhafa beins eignarréttar að jörðinni. Varastefnda hafi hlotið að vera þetta ljóst eða mátt í öllu falli vera það ljóst. Varastefndi hafi ítrekað þrýst á aðalstefnda um að taka land jarðarinnar eignarnámi og nýtt m.a. til þess persónuleg tengsl sín við fyrrverandi bæjarstjóra aðalstefnda. Tilurð svokallaðrar „eignarnámssáttar“, dagsettrar 30. janúar 2007, hafi því alfarið verið að frumkvæði varastefnda og sérstök áhersla lögð á það af hans hálfu að gengið yrði frá sáttinni eftir að hluti stefnenda hafi gert reka að því að hnekkja ólögmætri hagnýtingu varastefnda á jörðinni.
Varastefndi hafi ítrekað með aðstoð og atbeina lögmanns síns reynt að sölsa undir sig jörð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda. Hafi hann bæði haldið því fram að hann væri eigandi jarðarinnar, sem hafnað hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands frá 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012, og að því frágengnu að meint réttindi hans til jarðarinnar jafnist á við lóðarleiguréttindi. Því hafi sömuleiðis verið hafnað með dómi Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013. Varastefndi eigi að mati stefnenda ekkert tilkall til jarðarinnar og hann hafi enga heimild haft til ráðstafana sem tengjast henni, hvorki í janúar 2007 né í annan tíma, eða til að taka við fé fyrir hönd dánarbúsins. Í eignarnámssáttinni 2007 sé ítrekað vísað til bóta sem greiða eigi „landeiganda“, en það leiði af eðli máls og dómum Hæstaréttar Íslands frá 3. maí 2013 og 6. desember 2013 að þær bætur hafi átt að greiðast til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Verði einhverra hluta vegna talið að eignarnámssáttin frá janúar 2007 og greiðsla bóta til varastefnda sé á einhvern hátt bindandi fyrir dánarbúið, sé í öllu falli ljóst að á varastefnda hvíli ótvíræð skylda til að skila til búsins því fé sem hann hafi tekið við sem bótum fyrir land þess.
Með viðskiptum með land úr jörð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem klædd hafi verið í búning eignarnáms, hafi varastefndi látið af hendi land og tekið við eignarnámsbótum og réttindum í fullkominni vanheimild, meðvitaður um betri rétt dánarbúsins. Háttsemi varastefnda sé því bæði saknæm og ólögmæt í skilningi skaðabótaréttar. Ásetningur varastefnda hafi og staðið til þess að hagnýta eign dánarbúsins með ólögmætum hætti sér til hagsbóta, sem hann hafi og gert.
Verði ekki fallist á að á varastefnda hvíli skylda til að skila því fé til dánarbúsins sem hann tók við er byggt á því að varastefnda beri að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested skaðabætur að sömu fjárhæð vegna þess fjár sem renna átti til búsins en varastefndi nýtti í eigin þágu. Óumdeilt sé að varastefndi hafi þegar tekið við 2.250.000.000 kr. úr hendi aðalstefnda. Greiðsluskylda varastefnda sé að þessu leyti óháð því með hverjum hætti jörðinni Vatnsenda kann síðar að verða úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.
Þar sem varastefndi hafi tekið við verðmætum á grundvelli samnings við aðalstefnda í algjörri upprunalegri vanheimild um eignarrétt sinn stofnist krafa dánarbúsins á hendur varastefnda þá er hann hafi tekið við verðmætunum. Í stefnu málsins áskilja stefnendur sér rétt til að auka við og gera frekari kröfur samkvæmt eignarnámssátt aðalstefnda og varastefnda.
Um lagarök vísa stefnendur til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 67., 68., 122., 148. og 149. gr. laganna. Þá er vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995. Einnig er vísað til 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, svo og ákvæða laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Stefnendur vísa einnig til meginreglna eignaréttar, svo og meginreglna kröfuréttar, einkum um fyrningu krafna, greiðsluskyldu skuldara og gjalddaga. Er einnig í því sambandi vísað til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 10. gr., og 4., 5. og 7. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda. Enn fremur er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 19. gr., 21. gr. og 116. gr. laganna. Þá er vísað til 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skaðabótakrafa er studd við almennar meginreglur skaðabótaréttar, einkum meginregluna um sakarábyrgð. Þá er vísað til reglna kröfuréttar um brigðarétt og vanheimild.
Vaxtakrafa stefnenda er studd við 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxtakröfu sína styðja stefnendur við 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Kröfu sína um málskostnað styðja stefnendur við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er studd við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
IV.
Aðalstefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnenda. Aðalstefndi telur málatilbúnað í stefnu óljósan og vanreifaðan. Í stefnu sé til að mynda ekki gerð minnsta tilraun til að skýra efnislegt inntak hins beina eignarréttar að jörðinni Vatnsenda og stefnendur hafi ekki rökstutt með nokkrum hætti að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar hafi orðið fyrir fjárhagstjóni við eignarnám aðalstefnda. Málsókn stefnenda sé reist á þeirri röngu forsendu að óbeinn eignarréttur hafi við andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested fallið að nýju til dánarbúsins. Telur aðalstefndi slíka ágalla á málinu að ekki verði úr þeim bætt undir rekstri málsins.
Aðalstefndi telur ljóst að eignarnám aðalstefnda á árunum 1992, 1998, 2000 og 2007 hafi farið fram á grundvelli lagaheimildar og fullgildra eignarnámsheimilda. Aðalstefndi byggir á því að honum hafi borið að ráðstafa eignarnámsbótum hverju sinni til þess aðila sem í fasteignabók var tilgreindur sem þinglýstur eigandi Vatnsenda. Aðalstefndi hafi í öllum tilvikum verið í góðri trú um að ábúandi Vatnsenda væri hvort tveggja handhafi beins og óbeins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda. Reglur um traustfang og jákvæðan áreiðanleika fasteignabókar leiði til þess að útilokað sé að taka til greina kröfur sem miði að því að aðalstefndi greiði að nýju bætur fyrir umrædd eignarnám. Þá telur aðalstefndi að allar kröfur vegna eignarnámanna séu fallnar niður fyrir tómlæti. Jafnframt telur aðalstefndi vafalaust að allar fjárkröfur sem eiga rætur að rekja til eignarnámanna 1992, 1998 og 2000 séu fyrir löngu fyrndar. Þessi sjónarmið ásamt öðrum telur aðalstefndi að leiði til þess að sýkna eigi aðalstefnda af öllum kröfum stefnenda, eins og nú verður rakið.
Um eignarnámið 2007 vísar aðalstefndi í fyrsta lagi til þeirrar grundvallarreglu eignarréttar að sá sem hefur þinglýsta eignarheimild yfir eign sé talinn eiga tilsvarandi rétt yfir eigninni þangað til annað sannist. Þá hafi sú almenna regla verið sett fram að aðilum eigi að vera óhætt að ganga til samninga við þá sem þinglýsingabók tilgreinir sem eiganda fasteignar. Þannig sé ekki síðar hægt að koma fram þeirri mótbáru gegn grandlausum aðila að annmarki hafi verið á eignarheimild framseljanda.
Aðalstefndi kveðst hafa verið grandlaus og í góðri trú um að varastefndi væri raunverulegur eigandi að beinum eignarrétti jarðarinnar Vatnsenda. Með hliðsjón af því og þeirri staðreynd að varastefndi hafi verið ábúandi jarðarinnar samkvæmt erfðaskrá hafi aðalstefndi mátt treysta því að varastefndi væri réttur viðtakandi eignarnámsbóta.
Við eignarnámið hafi verið liðin 38 ár síðan Margrét Hjaltested og börn hennar hafi síðast látið reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Jafnframt hafi fasteignabók í heil 36 ár borið með sér að Magnús Sigurðsson Hjaltested og síðar varastefndi væru þinglýstir eigendur Vatnsenda, sbr. fyrirliggjandi þinglýsingar- og veðbókarvottorð. Þá hafi Reykjavíkurborg 19 árum áður ráðist í eignarnám á landi í Vatnsenda og greitt bætur til ábúanda jarðarinnar án þess að séð verði að stefnendur, eða þeir aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, hafi gert tilkall til bóta eða reynt að sækja rétt sinn að öðru leyti. Sömu aðilar hafi heldur ekki gert tilkall til eignarnámsbóta vegna eignarnáms aðalstefnda árin 1992, 1998 og 2000. Þá hafi Landsvirkjun árið 2000 greitt bætur til ábúanda Vatnsenda vegna línulagnar um land jarðarinnar. Jafnframt hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 58/2000 að ábúandi Vatnsenda væri réttur aðili til að bera ágreining um gildi eignarnáms sem tók til jarðarinnar undir dómstóla. Þá hafi það verið varastefndi sem lýsti kröfum fyrir óbyggðanefnd vegna Vatnsenda, eftir áskorun nefndarinnar til rétthafa í Lögbirtingarblaðinu. Dómsniðurstöður, lagasetning Alþingis, þinglýsingarframkvæmd og ráðstöfun ábúanda á landsréttindum Vatnsenda hafi því verið með þeim hætti að ekkert hafi gefið aðalstefnda tilefni til að ætla að þinglýstur eigandi Vatnsenda væri ekki raunverulegur eigandi jarðarinnar árið 2007.
Í öðru lagi vísar aðalstefndi til þess að kröfur stefnenda séu fallnar niður fyrir tómlæti. Þegar mál þetta var höfðað hafi verið liðin 22 ár frá fyrsta eignarnámi aðalstefnda í landi Vatnsenda og sjö ár frá því yngsta. Það hafi ekki verið fyrr en í kjölfar eignarnámsins 2007 sem stefnendur hafi hafist handa við að halda fram rétti sínum og leitað atbeina dómstóla. Ekkert hafi staðið í vegi fyrir stefnendum, eða forverum þeirra, að höfða strax á árinu 1988 viðurkenningarmál vegna þeirra eignarnámsbóta sem Reykjavíkurborg greiddi það ár til Magnúsar Sigurðar Hjaltested.
Í þriðja lagi er byggt á því að stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eigi kröfu á hendur aðalstefnda vegna eignarnámsins 2007. Í því felist að þeir verði að sanna að dánarbúið hafi orðið fyrir tjóni og jafnframt beri þeim að leiða í ljós umfang hins meinta tjóns. Það hafi ekki tekist að mati aðalstefnda. Aðalstefndi kveður að sú meginregla gildi við eignarnám að eignarnámsþolar eigi einungis rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón. Um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón sé ekki að ræða. Þá sé sú skoðun viðtekin meðal fræðimanna að eignarnámsbætur skuli miðast við tjón eignarnámsþola en ekki þá auðgun sem eignarnemi kann að öðlast við eignarnámið.
Þegar eignarnámið fór fram árið 2007 hafi umráðum og afnotum fasteignarinnar Vatnsenda verið úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í dómi Hæstaréttar frá 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 segi að þess verði hvergi fundinn staður í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested að útlagning þessara réttinda geti af nokkurri ástæðu gengið til baka og inn í dánarbúið að nýju. Við þetta bætist að í 2. gr. erfðaskrárinnar komi fram efnislega að ábúandi Vatnsenda á hverjum tíma skuli eiga rétt til að krefja eða semja um bætur fyrir landspjöll á jörðinni.
Aðalstefndi tekur fram að það sé endanlega í höndum dómstóla að ákvarða efnislegt inntak þeirra óbeinu eignarréttinda að jörðinni Vatnsenda sem ráðstafað hafi verið með varanlegum hætti úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þá komi það í hlut dómstóla að ákvarða efnislegt inntak 2. gr. erfðaskrárinnar sem mæli fyrir um að bætur fyrir landspjöll skuli vera á hendi ábúanda. Niðurstaða dómstóla um þau atriði muni þá ráða hvort og þá hvernig mögulegar eignarnámsbætur í framtíðinni eigi að skiptast milli handhafa beinna eignarréttinda annars vegar og handhafa óbeins eignarréttar hins vegar.
Hvað sem því líður þá telur aðalstefndi að stefnendur hafi ekki fært fyrir því nein frambærileg rök að eignarnámsbætur skuli eingöngu renna til handhafa hins beina eignarréttar en ekki að neinu leyti til þess aðila sem hefur „umráð og afnot“ eignarinnar.
Í fjórða lagi byggir aðalstefndi á því að hann hafi mátt ganga út frá því á árinu 2007 að varastefndi og faðir hans væru sameiginlega búnir að hefða beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda. Ljóst sé að þeir feðgar hafi þá komið fram sem eigendur jarðarinnar í samanlagt 38 ár. Þeir hafi hagnýtt jörðina og ráðstafað úr henni réttindum á þann hátt að skilyrðum eignarhefðar sé fullnægt, sbr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Þannig hafi aðalstefndi tekið eignarnámi bein eignarréttindi sem ábúandinn hafi verið búinn að hefða. Geti aðalstefndi ekki borið hallann af því enda þótt varastefndi hafi ekki borið fyrir sig hefð þegar tekist var á um eignarhald jarðarinnar fyrir rétti, sbr. dóm Hæstaréttar frá 3. maí 2013 í máli nr. 701/2013.
Í fimmta lagi byggir aðalstefndi á því að fjárhæð kröfu stefnenda vegna eignarnámsins 2007 sé fullkomlega óraunhæf og virðist sett fram af miklu þekkingarleysi um gæði og hagnýtingarmöguleika þess lands sem eignarnámið 2007 tók til. Í greinargerð aðalstefnda eru rakin ýmis atriði sem geri það að verkum að landið verið ekki nýtt sem byggingarland, s.s. kvaðir um vatnsvernd, lega landsins, sprungur og misgengi, kvöð um skógrækt, háspennumöstur og áhersla í nýju aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 á þéttingu byggðar í eldri hverfum. Þá mótmælir aðalstefndi sérstaklega tilvísun stefnenda til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta frá 29. mars 2006 í máli nr. 9/2005. Telur aðalstefndi að það verð sem greitt var með peningum fyrir hið eignarnumda land í Vatnsenda árið 2007, 2.250.000.000 kr., hafi verið hærra en markaðsverðmæti landsins. Krafa stefnenda um bætur að fjárhæð rúmir 73 milljarðar króna vegna eignarnámsins 2007 sé því glórulaus.
Hvað varðar eignarnámið á árinu 2000 byggir aðalstefndi á því að aðalstefndi hafi greitt markaðsverð landsins, 237.470.007 kr., auk þess sem dánarbúið hafi öðlast byggingarrétt í hinu eignarnumda landi auk annarra réttinda. Um hafi verið að ræða fullnaðargreiðslu fyrir hið eignarnumda land. Aðalstefndi telur ljóst að allar kröfur dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested vegna eignarnámsins 2000 séu löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. nánar það sem segir hér á eftir.
Aðalstefndi vísar um eignarnámið 2000 til sömu málsástæðna og rakin hafa verið um eignarnámið 2007. Nánar tiltekið til þeirrar grundvallarreglu eignarréttar að sá sem hefur þinglýsta eignarheimild yfir eign sé talinn eiga tilsvarandi rétt yfir eigninni þangað til annað sannast. Aðalstefndi hafi verið grandlaus og í góðri trú um að Magnús Sigurðsson Hjaltested væri raunverulegur eigandi að beinum eignarrétti jarðarinnar Vatnsenda og mátt treysta því að hann væri réttur viðtakandi eignarnámsbóta. Á þessum tímapunkti hafi verið liðnir rúmir þrír áratugir síðan Margrét Hjaltested og börn hennar (þrír stefnendur þessa máls) hafi síðast látið reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Við eignarnámið árið 2000 hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested verið skráður þinglýstur eigandi Vatnsenda í tæpa þrjá áratugi. Þá hafi Reykjavíkurborg 12 árum áður ráðist í eignarnám á landi í Vatnsenda og greitt bætur til ábúanda jarðarinnar án þess að stefnendur eða forverar þeirra hafi gert tilkall til bóta eða reynt að sækja rétt sinn að öðru leyti. Sömu aðilar hafi heldur ekki gert tilkall til eignarnámsbóta vegna eignarnáma aðalstefnda árið 1992 og 1998. Dómsniðurstöður, lagasetning Alþingis, þinglýsingarframkvæmd og ráðstöfun ábúanda Vatnsenda á landsréttindum jarðarinnar hafi verið með þeim hætti að ekkert hafi gefið aðalstefnda tilefni til að ætla að þinglýstur eigandi Vatnsenda væri ekki raunverulegur eigandi jarðarinnar árið 2000.
Jafnframt byggir aðalstefndi á því að kröfur stefnenda vegna eignarnámsins árið 2000 séu fallnar niður fyrir tómlæti. Þegar mál þetta var höfðað hafi verið liðin 22 ár frá fyrsta eignarnámi aðalstefnda í landi Vatnsenda og sjö ár frá því yngsta.
Einnig vísar aðalstefndi til þess sem áður segir um að ósannað sé að dánarbúið hafi orðið fyrir tjóni og að aðalstefndi hafi mátt ganga út frá því á árinu 2000 að Magnús Sigurðsson Hjaltested væri búinn að hefða beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda. Jafnframt mótmælir aðalstefndi tilvísun stefnenda til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta frá 16. janúar 1998 í máli nr. 5/1995 þar sem hann eigi ekki við í þessu máli.
Aðalstefndi hafnar fjárkröfu stefnenda vegna eignarnámsins 1998. Aðalstefndi kveðst hafa greitt Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested við eignarnámið bætur að fjárhæð 180.000.000 kr., auk þess sem Magnús hafi öðlast byggingarrétt í hinu eignarnumda landi. Aðalstefndi byggir á því að um hafi verið að ræða markaðsverð landsins og um leið fullnaðargreiðslu til þinglýsts eiganda jarðarinnar sem jafnframt var ábúandi samkvæmt erfðaskrá.
Aðalstefndi byggir á því að allar kröfur dánarbús Sigurðar Kristjáns Hjaltested vegna eignarnámsins 1998 séu löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
Þá vísar aðalstefndi með sama hætti og áður til þeirrar grundvallarreglu eignarréttar að sá sem hefur þinglýsta eignarheimild yfir eign er talinn eiga tilsvarandi rétt yfir eigninni þangað til annað sannast. Á árinu 1998 hafi bærinn verið grandlaus og í góðri trú um að Magnús Hjaltested væri raunverulegur eigandi að beinum eignarrétti jarðarinnar Vatnsenda og mátt treysta því að hann væri réttur viðtakandi eignarnámsbóta. Á þessum tímapunkti hafi verið liðnir tæpir þrír áratugir síðan Margrét Hjaltested og börn hennar þrjú (þrír stefnendur þessa máls) hafi látið reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Við eignarnámið árið 1998 hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested verið skráður sem þinglýstur eigandi Vatnsenda í 27 ár, sbr. fyrirliggjandi veðbókarvottorð. Þá hafi Reykjavíkurborg 10 árum áður ráðist í eignarnám á landi í Vatnsenda og greitt bætur til ábúanda jarðarinnar án þess að séð verði að stefnendur eða forverar þeirra hafi gert tilkall til bóta eða reynt að sækja rétt sinn að öðru leyti. Sömu aðilar hafi heldur ekki gert tilkall til eignarnámsbóta vegna eignarnáms aðalstefnda árið 1992. Dómsniðurstöður, lagasetning Alþingis, þinglýsingarframkvæmd og ráðstöfun ábúanda á landsréttindum hafi verið með þeim hætti að ekkert hafi gefið aðalstefnda tilefni til að ætla að þinglýstur eigandi Vatnsenda væri ekki raunverulegur eigandi jarðarinnar árið 1998.
Jafnframt byggir aðalstefndi á því að kröfur stefnenda vegna eignarnámsins árið 1998 séu fallnar niður fyrir tómlæti. Þegar mál þetta var höfðað hafi verið liðin 22 ár frá fyrsta eignarnámi Kópavogsbæjar í landi Vatnsenda og sjö ár frá því yngsta.
Þá byggir aðalstefndi hér einnig á því sem áður er rakið um að stefnendur hafi ekki sannað að dánarbúið hafi orðið fyrir tjóni sem og sjónarmiðum um hefð. Þá er sem fyrr mótmælt tilvísun stefnenda til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta frá 16. janúar 1998 í máli nr. 5/1995.
Hvað varðar eignarnámið 1992 byggir aðalstefndi á því að greitt hafi verið markaðsverð og um leið fullnaðargreiðsla til þinglýsts eiganda jarðarinnar vegna þess lands sem tekið var eignarnámi.
Aðalstefndi vísar til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið um eignarnámið 2007, 2000 og 1998, þ.e. að allar kröfur dánarbús Sigurðar K. Hjaltested vegna eignarnámsins 1992 séu löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, einnig til þeirrar grundvallarreglu eignarréttar að sá sem hefur þinglýsta eignarheimild yfir eign sé talinn eiga tilsvarandi rétt yfir eigninni þangað til annað sannast, auk grandleysis og góðrar trúar aðalstefnda um að Magnús Sigurðsson Hjaltested væri raunverulegur eigandi að beinum eignarrétti jarðarinnar Vatnsenda. Á þessum tímapunkti hafi verið 23 ár síðan Margrét Hjaltested og börn hennar þrjú (þrír stefnendur þessa máls), hafi látið reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Við eignarnámið árið 1992 hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested verið skráður sem þinglýstur eigandi Vatnsenda í 21 ár, sbr. fyrirliggjandi veðbókarvottorð. Þá hafi Reykjavíkurborg fjórum árum áður ráðist í eignarnám á landi í Vatnsenda og greitt bætur til ábúanda jarðarinnar án þess að stefnendur eða forverar þeirra hafi gert tilkall til bóta eða reynt að sækja rétt sinn að öðru leyti. Dómsniðurstöður, lagasetning Alþingis, þinglýsingarframkvæmd og ráðstöfun ábúanda á landsréttindum voru með þeim hætti að ekkert gaf aðalstefnda tilefni til að ætla að þinglýstur eigandi Vatnsenda væri ekki raunverulegur eigandi jarðarinnar árið 1992.
Einnig byggir aðalstefndi á því að kröfur stefnenda vegna eignarnámsins árið 1998 séu fallnar niður fyrir tómlæti, en þegar mál þetta var höfðað hafi verið liðin 22 ár frá fyrsta eignarnámi Kópavogsbæjar í landi Vatnsenda og sjö ár frá því yngsta.
Auk þess byggir aðalstefndi á því sem áður segir um að ósannað sé að dánarbúið hafi orðið fyrir tjóni og sjónarmiðum um að á árinu 1998 hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested verið búinn að hefða beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda. Þá mótmælir aðalstefndi því að fjárhæð bóta sé látin taka hækkun miðað við vísitölu neysluverðs. Einnig byggir aðalstefndi á því, hvað varðar eignarnámið 2007, 2000, 1998 og 1992, að allir vextir eldri en fjögurra ára séu fyrndir.
Nánar um grandleysi og góða trú aðalstefnda við eignarnámið 1992, 1998, 2000 og 2007 segir aðalstefndi að ekkert hafi gefið honum tilefni til að ætla að skráning í fasteignbók væri röng um eignarhald Vatnsenda. Frá árinu 1971 til 2000 hafi Magnús Sigurðsson Hjaltsted verið þinglýstur eigandi Vatnsenda. Þá hafi varastefndi verið skráður sem þinglýstur eigandi jarðarinnar frá árinu 2000 til 2013. Aðalstefndi hafi verið í góðri trú um að eignarnámsbótum ætti að ráðstafa til þinglýsts eiganda Vatnsenda sem jafnframt var ábúandi jarðarinnar.
Aðalstefndi segir að í fyrsta lagi virðist aldrei hafa verið ágreiningur um að beinn eignarréttur að Vatnsenda færðist, á grundvelli erfðaskrárinnar, frá Magnúsi Einarssyni Hjaltested til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þá virðist ekki hafa verið um það ágreiningur að ábúandi jarðarinnar gæti tekið við bótum í tilefni eignarnáms og eignarskerðingar. Þannig hafi íslenska ríkið tekið 69,68 hektara land eignarnámi úr jörðinni á grundvelli laga nr. 30/1941 til handa Landssímanum og greitt út bætur til Lárusar Hjaltested, þáverandi ábúanda Vatnsenda. Jafnframt hafi ábúandinn, Lárus, móttekið bætur vegna eignarnáms Reykjavíkurbæjar á landi Heiðmerkur sem talið var 689 hektarar að stærð, sbr. lög nr. 57/1942.
Í öðru lagi byggir aðalstefndi á því að þinglýsingarframkvæmd hafi í heild sinni verið með þeim hætti að enginn hafi þurft að velkjast í vafa um þá afstöðu sýslumanns að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri á höndum ábúenda jarðarinnar, fyrst Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested og síðar varastefnda. Einstakar færslur og áritanir á skjöl hafi verið í samræmi við þetta og megi sem dæmi nefna áritaða athugasemd þinglýsingarstjóra á afsal frá 8. október 2001, en þar hafi sagt: „Skv. þingl.bók, sbr. skjal 310/2000 er Þorsteinn Hjaltested kt. 220760-5619 þingl. eigandi Vatnsenda og telst því afsalshafi skv. ofangreindu.“ Um hafi verið að ræða þinglýsingarframkvæmd sem náði yfir áratugi. Komi því verulega á óvart að stefnendur skuli ekki beina kröfum sínum að íslenska ríkinu í stað aðalstefnda sem í góðri trú hafi gengið út frá því að þinglýsing réttinda í fasteignabók væri rétt.
Í þriðja lagi lagi bendir aðalstefndi á að í kjölfar eignarnáms Reykjavíkurborgar 1988 hafi hann hlotið að mega ganga út frá því að fasteignabók væri rétt og að eignarnámsbætur ættu að ganga til ábúanda Vatnsenda. Í ræðu félagsmálaráðherra sem mælti fyrir lögum um eignarnám Reykjavíkurborgar hafi sagt að Magnús Sigurðsson Hjaltested væri eigandi Vatnsenda. Önnur gögn tengd lagasetningunni séu á sama veg. Aðalstefndi vísar m.a. til lögfræðiálits Ásgeirs Thoroddsen hdl. og Ingólfs Hjartarsonar hdl., dags. 14. ágúst 1990, sem Finnur Gíslason aflaði, vegna Margrétar Hjaltested, Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested varðandi gildi erfðaskrárinnar frá 4. janúar 1938. Eignarnámsheimildir ráðherra hafi einnig byggst á þeirri forsendu að ábúandi Vatnsenda væri jafnframt eigandi jarðarinnar. Eignarnám Landsvirkjunar hafi einnig verið byggt á þeirri forsendu. Allar stofnanir þjóðfélagsins sem hafi komið að málefnum Vatnsenda virðast því hafa litið svo á að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri á hendi ábúanda jarðarinnar.
Í fjórða lagi bendir aðalstefndi á dóm Hæstaréttar frá 8. mars 2001 í máli nr. 58/2000. Niðurstaða þess dóms hafi hlotið að vera til enn frekari styrkingar á því að eignarnámsbótum skyldi ráðstafað til ábúanda Vatnsenda. Í málinu, sem hafi snúist um eignarnám frá 1947, hafi Hæstiréttur hafnað sýknukröfu Landssíma Íslands sem hafi verið byggð á aðildarskorti ábúanda Vatnsenda.
Í fimmta lagi telur aðalstefndi að ekki verði betur séð en að lögerfingjar Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi sjálfir álitið að þeir ættu ekki tilkall til bóta vegna eignarnáms á landi Vatnsenda. Fyrir liggi að þeir hafi leitað eftir framangreindu lögfræðiáliti árið 1990, en niðurstaða þess hafi verið sú að gild rök mæltu með því að allar eignarnámsbætur ættu að renna til ábúanda hverju sinni svo lengi sem hann uppfyllti erfðaskrána þegar bætur eru greiddar. Það hafi svo ekki verið fyrr en 17 árum síðar þegar öll fjögur eignarnám aðalstefnda voru um garð gengin að stefnendur hafi leitað til dómstóla með kröfu um að erfðaskráin frá 1938 yrði dæmd ógild. Aðalstefndi mótmælir því að fundur í matsnefnd eignarnámsbóta hinn 8. febrúar 2007 geti haft þýðingu í þessu máli. Á því tímamarki hafi verið búið að undirrita eignarnámssátt og greiða út bætur vegna eignarnámsins 2007.
Hin góða trú aðalstefnda, traustfangsreglur og reglur um jákvæðan áreiðanleika þinglýsingarbókar leiði því til þess að hafna verður öllum kröfum stefnenda.
Aðalstefndi segir nánar um fyrningu að aðalstefndi hafi tekið við umráðum alls þess lands sem tekið var eignarnámi 1992, 1998, 2000 og 2007. Að því er varðar eignarnámið 1992 hafi aðalstefndi tekið ákvörðun um beitingu eignarnámsheimildar á fundi bæjarstjórnar 24. mars 1992. Aðalstefndi hafi svo tekið umráð hins eignarnumda í samræmi við ákvæði eignarnámssáttar frá 8. maí 1992.
Við eignarnámið 1998 hafi þurft að afla eignarnámsheimildar umhverfisráðuneytisins. Heimildin hafi legið fyrir 27. apríl 1998. Samkvæmt eignarnámssátt frá 13. maí 1998 hafi landið verið afhent 15. febrúar 1999. Við eignarnámið 2000 hafi legið fyrir eignarnámsheimild umhverfisráðuneytisins frá 13. mars 2000. Samkvæmt eignarnámssátt frá 1. ágúst 2000 skyldu umráð afhendast við útgáfu skuldabréfa sem gefin voru út við undirritun sáttarinnar.
Í 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 komi fram sú meginregla, að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Eindagi kröfu sé því upphaf fyrningarfrests. Samkvæmt 13. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 geti eignarnemi tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Kröfur þær sem deilt er um í máli þessu hafi því orðið gjaldkræfar þegar aðalstefndi tók umráð hins eignarnumda.
Samkvæmt 2. tl. 4. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 sé aðalreglan sú að kröfur fyrnist á 10 árum og gildi sá fyrningarfrestur um allar kröfur sem ekki sé settur annar fyrningarfrestur fyrir. Skaðabótakröfur, sem og kröfur um greiðslu kaupverðs fasteigna, fyrnist því á 10 árum. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að kröfur stefnenda sem rekja megi til eignarnáma 1992, 1998 og 2000 séu fallnar niður fyrir fyrningu, sbr. dómur Hæstaréttar frá 20. mars 2003 í máli nr. 388/2002.
Í 13. kafla stefnu sé að finna sérstakan kafla um fyrningu, verðlagsbreytingar o.fl. Segi þar m.a. að kröfur á hendur aðalstefnda og varastefnda séu ófyrndar á grundvelli 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í umræddum lagaákvæðum sé mælt fyrir um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa til að sækja kröfu sína ef hann skortir nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Stefnendur vísi svo sérstaklega til þess að við lögfestingu laga nr. 150/2007 hafi verið sérstaklega tekið fram að lagasetningin fæli í sér lögfestingu á gildandi rétti. Verði því að leggja til grundvallar að sambærilegar reglur og nú má finna í ákvæðum 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 hafi á grundvelli almennra óskráðra meginregla kröfuréttar gilt í tíð laga nr. 14/1905, að því marki sem þær voru ekki þar skráðar. Aðalstefndi vísar þessum vangaveltum stefnenda alfarið á bug.
Aðalstefndi vísar til þess að í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi til laga nr. 150/2007 segi sérstaklega að í lagagreininni felist nýmæli frá því sem áður gilti. Segi auk þess að í 7. gr. gildandi laga, þ.e. laga nr. 14/1905, sé að finna ákvæði sem mæli fyrir um það ef skuldari dregur „sviksamlega dul á“ eða „vanrækir að skýra frá atvikum“ er krafan byggist á eða valdi því að hún verður gjaldkræf og skuldaranum bar skylda til að segja frá, þá fyrnist skuldin ekki fyrr en fjögur ár eru liðin frá þeim degi er kröfueigandinn fékk vitneskju um atvik þetta eða eitt ár er liðið frá dánardegi skuldara. Komi fram að skilyrði ákvæðisins séu ströng og því hafi sjaldan reynt á umrætt ákvæði í dómsmálum. Því hafi þótt þörf á því að setja í lög skýr ákvæði um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa til að sækja kröfu sýna í ákveðnum tilvikum. Af umfjöllun í frumvarpi því er varð að lögum nr. 150/2007 sé ljóst að 10. gr. laganna hafi enga stoð átt í almennum óskráðum meginreglum kröfuréttar, líkt og stefnendur halda fram, heldur hafi verið um að ræða nýtt ákvæði.
Aðalstefndi mótmælir því harðlega að kröfur stefnenda á hendur aðalstefnda séu ófyrndar með vísan til 7. gr. laga nr. 14/1905 og að alstefndi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi með því að þverbrjóta grundvallarreglur stjórnsýslu- og eignaréttar með því að klæða viðskipti með land í búning eignarnáms. Aðalstefnda hafi borið lagaskylda til að reyna að ná samkomulagi við þinglýsta eigendur Vatnsenda á hverjum tíma um fjárhæð eignarnámsbóta. Því sé ekkert óeðlilegt við það að aðalstefndi hafi þurft að standa í samningaviðræðum við hina þinglýstu eigendur Vatnsenda um fjárhæð bóta og fleira. Með því hafi menn ekki verið að klæða viðskipti með land í búning eignarnáms.
Skilyrði 7. gr. laga nr. 14/1905 um að fyrningarfrestur lengist sé að skuldari hafi sviksamlega annaðhvort dregið dul á eða vanrækt að skýra frá atvikum, sem krafan byggist á, eða valda því að hún verði gjaldkræf og honum var skylt að skýra frá. Launungin verði auk þess að vera „sviksamleg“, þ.e. skuldara verður að vera sjálfum kunnugt um þessi atvik. Aðalstefndi hafnar því að hann hafi viðhaft sviksamlega háttsemi og telur ekkert fram um það komið er styður þá málsástæðu stefnenda að aðalstefndi hafi vanrækt að skýra frá atvikum, er krafan byggist á, sbr. 7. gr. laga nr. 14/1905. Öllum málatilbúnaði stefnenda um hið gagnstæða er vísað á bug sem röngum og ósönnuðum.
Þá segir aðalstefndi að hafa beri hugfast að regla 7. gr. laga nr. 14/1905 sé undanþága frá meginreglu laganna um fyrningarfrest og beri því að skýra þröngt. Aðalstefndi telur samkvæmt öllu framansögðu ekki sýnt fram á að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi á grundvelli laga eða óskráðra meginregla kröfuréttar öðlast aukinn fyrningarfrest umfram þann sem kveðið er á um í 2. tl. 4. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, en fyrir því beri stefnendur sönnunarbyrði.
Aðalstefndi byggir líka á því að kröfur um vexti fyrnist á fjórum árum. Að mati aðalstefnda fellur þar undir sú hækkun sem stefnendur hafa reiknað á kröfur sínar á grundvelli hækkunar á vísitölu neysluverðs.
Aðalstefndi hafnar með öllu kröfu stefnenda að fjárhæð 47.558.500.000 kr. vegna eignarnámsins frá árinu 2007 og færir fyrir því sömu rök og fyrir sýknu af aðalkröfu stefnenda.
Aðalstefndi áréttar að í kröfu hans um sýknu felist einnig krafa um stórkostlega lækkun á kröfum stefnenda.
Í öllum tilvikum krefst aðalstefndi málskostnaðar í málinu að skaðlausu úr hendi stefnenda. Um þá kröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Varastefndi byggði á því við munnlegan flutning málsins 7. janúar 2016 að með stefnu málsins hafi stefnendur grundvallað málsókn sína og efnisrétt meðal annars á því að réttindi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sem honum hafi verið afhent með dómi Hæstaréttar frá 30. maí 1969, hafi fallið aftur til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested við andlát Magnúsar í desember 1999. Varastefndi telur að stefnendur hafi aldrei haft réttmæta ástæðu til að byggja á slíkum málsgrundvelli og að málsástæður sem séu byggðar á öðrum grundvelli en í stefnu séu of seint fram komnar og þeim sé mótmælt.
Í greinargerð sinni byggir varastefndi á því að enginn afnotaréttur fylgi beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda og að varastefndi hafi sem rétthafi samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested á sinni hendi afnotarétt sem veiti honum einum rétt til fullra afnota Vatnsenda og hagnýtingar jarðarinnar.
Varastefndi rekur í greinargerð sinni skilgreiningar fræðimanna um beinan eignarrétt og afnotarétt. Þá vísar varastefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 167/2015 þar sem því hafi verið slegið föstu að afnotaréttur varastefnda yfir Vatnsenda feli í sér víðtækan afnotarétt yfir jörðinni sem háður sé þinglýsingu samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 31. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Jafnframt vísar varastefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 740/2013 þar sem Hæstiréttur hafi slegið því föstu að óbeinn eignarréttur varastefnda yfir Vatnsenda væri viðameiri og víðtækari en réttindi yfir fasteign samkvæmt lóðaleigusamningi.
Varastefndi byggir á því að í afnotarétti Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, föður varastefnda, og síðar varastefnda, felist að þeir hafi einir haft jörðina til afnota fyrir búskap og einir mátt hafa arð af jörðinni, þar með talið að leigja út lóðir undir hús, leikvelli „og annað“ úr óræktuðu landi jarðarinnar. Um sé að ræða hreinan afnotarétt en ekki leigurétt þar sem ekki sé greitt sérstakt endurgjald fyrir afnotaréttinn. Með búskap sé átt við hvers kyns landbúnað eins og slík starfsemi sé skilgreind á hverjum tíma, sbr. nú 15. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Þá vísar varastefndi til þess að í erfðaskránni sé sérstaklega kveðið á um að réttur til bóta fyrir landspjöll teldist fylgifé jarðarinnar og væri á hendi rétthafa afnotaréttar yfir Vatnsenda. Með landspjöllum sé átt við hvers kyns ásælni og yfirgang annarra sem leiði til þess að hlutar jarðarinnar, jörðin öll eða einstaka gæði hennar standi rétthafa jarðarinnar ekki lengur til hagnýtingar.
Varastefndi heldur því fram að beinn eignarréttur dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yfir Vatnsenda sé án sérstakra eignarheimilda (eignaraðilda) og sé í öllu falli án sérstaks verðgildis á hendi eigandans. Beinn eignarréttur dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsendajörðinni sé í því ástandi að vera ekki eign sem hefur sérstakt verðgildi og að eigandi beins eignarréttar hafi ekki orðið fyrir fjártjóni af völdum eignarnáma aðalstefnda.
Afnotarétturinn falli að varastefnda látnum til næsta rétthafa samkvæmt erfðaskránni, elsta sonar varastefnda, og geti ekki með nokkru móti fallið aftur til dánarbúsins eða eigenda beins eignarréttar. Á þeim 75 árum sem liðin séu frá andláti Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi allir rétthafar afnotaréttarins notið hans ævina á enda. Stefnendur hafi freistað þess að fá varastefnda sviptan afnotarétti með dómi en ekki haft erindi sem erfiði, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 167/2015.
Varastefndi vísar til þess að í norrænum rétti séu skaðabætur til eignarnámsþola taldar náskyldar bótum fyrir tjón sem valdið er í skjóli neyðarréttar. Þó skilji á milli að ekki þurfi í tilviki eignarnáms að vera yfirvofandi bráð hætta, heldur nægi að almenningsþörf krefjist inngrips í eignarrétt eignarnámsþola. Það sé einungis fjártjón sem sé bætt, en engar bætur séu greiddar fyrir ófjárhagsleg verðmæti. Eignarrétturinn njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og verði aðeins skertur að almenningsþörf krefji. Það sé gert á grundvelli lagafyrirmæla og komi fullt verð fyrir. Afnotaréttur sá sem varastefnda hafi verið áskilinn samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested njóti lögverndar og hann verði ekki sviptur þessum víðtæku óbeinu eignaréttindum án þess að fullt verð komi fyrir.
Þá vísar varastefndi til 10. gr. laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms, sem féllu úr gildi með lögum nr. 11/1973. Samkvæmt téðu ákvæði skyldi „matsverð“ eignar miðast við það gangverð sem eign myndi hafa í kaupum og sölum. Í 2. mgr. ákvæðisins hafi sagt svo: „Nú á annar en eigandinn verðmæt réttindi yfir eigninni, og skal þá endurgjaldið ákveðið með tilliti til þessa, og þeim ætlaðar sérstakar bætur, sem missa kunna réttindin að einhverju eða öllu leyti.“
Varastefndi segir að þessi lagafyrirmæli séu í samræmi við það sem hafi verið gildandi réttur um langa hríð, bæði hérlendis og í Skandinavíu. Eigandi sem verður fyrir tjóni skuli fá fjártjón sitt bætt og hafi óbeinn eignarréttur verið stofnaður yfir eign skuli eigandi hins óbeina eignarréttar fá fullt verð fyrir réttindi sín. Meta hafi átt gangverð beins eignarréttar með tilliti til þess að öðrum en eigandanum hafi borið greiðsla bóta fyrir óbein eignaréttindi, en í því hafi falist að bótagreiðsla fyrir beinan eignarrétt sætti lækkun vegna sérstakra bóta til þeirra sem áttu verðmæt réttindi yfir eigninni.
Núgildandi ákvæði 10. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms feli í sér sama efnisrétt til handa eiganda óbeinna eignaréttinda. Í 2. mgr. 10. gr. laganna segi: „Eigi aðrir rétthafar en eigandi eignarnumins verðmætis rétt til eignarnámsbóta, skal meta og tilgreina sérstaklega þær bætur sem hverjum þeirra ber.“ Þær bætur séu ekki greiddar til eiganda beins eignarréttar, þar sem eignarnema sé ekki skylt að greiða öðrum fullt verð fyrir missi eignaréttinda en þeim sem þurfi að láta þau af hendi og verða fyrir fjártjóni.
Þá byggir varastefndi á því að þær kvaðir sem lagðar séu á beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda séu kvaðir samkvæmt skýrum fyrirmælum erfðaskrár. Það sem rétthafanum sé heimilt sé eiganda beins eignarréttar bannað og að baki þessu fyrirkomulagi búi vilji arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested.
Þannig kveðst varastefndi byggja á því að hinum beina eignarrétti fylgi engar eignaréttarlegar heimildir sem hafi fjárhagslegt gildi. Afnotaréttur rétthafa samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested sé svo víðtækur að hann taki til hvers kyns hagnýtingar á gæðum jarðarinnar innan takmarka erfðaskrárinnar, um skyldu til að búa á jörðinni, bann við framsali réttindanna og takmarkaðar heimildir til veðsetningar þeirra. Afnotarétturinn sé án sérstaks endurgjalds og hann geti ekki fallið aftur til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hinar íþyngjandi kvaðir sem hvíli á beinum eignarrétti yfir Vatnsenda séu hvorki dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested né erfingjum beins eignarréttar yfir Vatnsenda til tjóns. Um arf sé að ræða sem þessir aðilar hafi í engu fórnað eigin fjárhagslegum gæðum til að eignast. Sjónarmið um vernd hagsmuna kröfuhafa eigi því ekki við. Arfurinn sé stefnendum ekki til nokkurs fjárhagslegs ávinnings og það sé fyllilega í samræmi við vilja arflátans, sem hafi ætlað ávallt einum manni af ætt sinni afnot og hagnýtingu jarðarinnar Vatnsenda um ókomna tíð.
Varastefndi byggir á því að samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 2. gr. erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested beri rétthafa jarðarinnar einum bætur fyrir „landspjöll“ á jörðinni sem eru af annarra völdum. Á því er byggt að arflátinn hafi með þessum fyrirmælum haft í huga hvers kyns skerðingar á jörðinni sem leiddu til þess að rétthafi samkvæmt erfðaskránni yrði sviptur rétti sínum til hagnýtingar jarðarinnar. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. erfðaskrárinnar hafi verið túlkað með þessum hætti þegar eignarnámsbætur voru greiddar Lárusi Hjaltested fyrir land sem tekið var undir Heiðmörk og fyrir land sem tekið var undir starfsemi Landsímans, alls um 760 ha lands.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. erfðaskrárinnar skyldi Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi einn hafa rétt til að „krefja inn og semja um“ allar bætur fyrir landspjöll sem „þegar orðin eða kunna að verða á jörðinni af annarra völdum og jörðinni ber“. Tekið sé fram í ákvæðinu að Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi skuli krefjast bóta með lögsókn ef með þarf. Þannig sé varastefndi samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 2. gr. erfðaskrárinnar einn réttur viðtakandi eignarnámsbóta vegna skerðinga á jörðinni og verði því að sýkna hann af dómkröfum stefnenda.
Jafnframt er á því byggt að óháð túlkun á fyrirmælum 2. mgr. 2. gr. erfðaskrárinnar þá eigi varastefndi rétt til bóta fyrir það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi jarðarinnar Vatnsenda á árinu 2007, fjártjón hans fyrir missi umráða og afnotaréttar sé langtum hærra en sem nemi þeim 2.250.000.000 kr. sem þegar hafi verið greiddar. Varastefndi telur að hann eigi sjálfstæðan bótarétt fyrir tjón sem hann hafi orðið fyrir, með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Varastefndi telur að bætur vegna missis afnotaréttar hans beri að reikna út frá sjónarmiðum um tapað notagildi, fremur en markaðsvirði, enda leiði útreikningar á slíkum grundvelli til hærri niðurstöðu en markaðsvirði. Afnotaréttur varastefnda eigi ekkert skylt við ábúð samkvæmt ábúðarlögum heldur gildi fyrirmæli erfðaskrár Magnúsar E. Hjaltested.
Varastefndi heldur því fram að afnotaréttur hans sé svo víðtækur að hann sé jafnverðmætur og beinn eignarréttur, sé horft til notagildis afnotaréttarins á hans hendi. Um sé að ræða hreinan afnotarétt óháðan nokkrum takmörkunum af hálfu handhafa beins eignarréttar að jörðinni. Varastefndi hafi einn rétt til hagnýtingar jarðarinnar og sá hagnýtingaréttur sé engum íþyngjandi takmörkum háður sem rýrt geti verðgildi hans. Það land sem tekið var eignarnámi 2007 sé allt úr óræktuðu landi jarðarinnar, sem varastefndi hafi einn umráðarétt yfir, og honum hafi einum verið heimilt að leigja það út og réttinum engar skorður settar.
Afnotaréttur varastefnda yfir Vatnsenda eigi að standa óhaggaður alla hans lífstíð og ekki sé á færi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eða síðari eigenda beins eignarréttar að segja afnotarétti hans upp. Einungis við afar ólíklegar aðstæður geti komið til þess að næsti rétthafi geti gert kröfu um að varastefndi víki af jörðinni, en í slíku tilviki félli afnotarétturinn til þess rétthafa en ekki til dánarbúsins eða erfingja þess.
Varastefndi telur að stefnendur hafi með engu móti fært gild rök fyrir því hvers vegna varastefndi eigi að greiða til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eignarnámsbætur sem hann hafi með réttu tekið við úr hendi aðalstefnda. Varastefndi hafi ekki tekið beinan eignarrétt að Vatnsenda eignarnámi úr höndum dánarbúsins heldur sé sá réttur á hendi eignarnema samkvæmt málatilbúnaði stefnenda. Krafa um bætur fyrir meint tjón vegna missis beins eignarréttar á grundvelli eignarnámsins 2007 væri á hendi dánarbúsins og gæti einungis beinst gegn eignarnema en ekki eiganda verðmætra réttinda yfir Vatnsenda sem eigi sjálfstæðan bótarétt fyrir eigin fjártjón. Beri því að sýkna varastefnda því að hann hafi hvorki valdið dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested tjóni, né tekið við fjármunum sem dánarbúið hafi getað átt rétt til.
Enn fremur byggir varastefndi á því að stefnendur hafi ekki fært fram nein gögn til stuðnings því að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum eignarnáms aðalstefnda. Varastefndi vísar til þess að stefnendur byggi á því að dánarbúið hafi borið sölu- eða markaðsvirði vegna missis beins eignarréttar af völdum eignarnáms aðalstefnda, en við mat á sölu- og markaðsvirði beins eignarréttar verði ekki litið fram hjá því að beinum eignarrétti yfir Vatnsenda fylgi ekki afnotaréttur, né nokkur réttur til arðs af jörðinni eða þeim verðmætum sem jörðin gefi af sér. Áhrif kvaðanna fyrir sölu- og markaðsvirði beins eignarréttar séu mikil enda um mjög íþyngjandi kvaðir að ræða. Þá geti stefnendur ekki reist kröfur um bætur fyrir missi beins eignarréttar á sjónarmiðum um notagildi, því að enginn afnotaréttur fylgir beinum eignarrétti.
Verði ekki fallist á að varastefndi eigi einn rétt til að krefjast eignarnámsbóta, vegna fyrirmæla 2. mgr. 2. gr. erfðaskrárinnar, byggir varastefndi á því að bótaréttur handhafa beins eignarréttar að Vatnsenda takmarkist af víðtækum afnotarétti varastefnda, en augljóst sé að notagildi Vatnsenda fyrir eiganda hins kvaðabundna beina eignarréttar sé ekki neitt.
Varastefndi byggir á því að sýkna verði hann af dómkröfum stefnenda þar sem kröfugerðinni sé ranglega beint gegn honum. Hvergi í lögum verði greiðsluskyldu varastefnda gagnvart dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested fundinn staður og hafi stefnendur engin haldbær rök fært fram til stuðnings fjárkröfum sínum gegn varastefnda. Varastefnda sé einum ætlaður réttur til að krefjast bóta fyrir landspjöll samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar. Enn fremur hafi stefnendur ekki sýnt fram á að dánarbúið hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum eignarnáms aðalstefnda. Beinn eignarréttur að Vatnsenda án réttar til afnota og arðs hafi ekki verðgildi og jörðin hafi ekkert notagildi fyrir eiganda beins eignarréttar.
Því er harðlega mótmælt að varastefndi hafi sýnt af sér háttsemi sem sé ólögmæt eða saknæm. Lárus Pétursson Hjaltested hafi haft umráð jarðarinnar Vatnsenda á sinni hendi þegar hann hafi tekið við greiðslu eignarnámsbóta fyrir Heiðmerkurland og Landsímalandið. Enn fremur hafi hann tekið við bótum fyrir landspjöll af völdum Rafmagnsveitu Reykjavíkur vegna vatnságangs á landi jarðarinnar. Kröfuréttur eiganda beins eignarréttar sé í máli þessu fyrst og fremst fræðilegur þar sem engin eignarheimild sem hafi fjárhagslegt gildi fylgi beinum eignarrétti að Vatnsenda. Dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested verði þar af leiðandi ekki fyrir fjárhagslegu tjóni við að missa beinan eignarrétt við eignarnám. Eini tjónþoli eignarnámsins frá janúar 2007 sé varastefndi Þorsteinn.
Um lagarök vísar varastefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 10. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, til meginreglna eignarréttar um umráð og eignarheimildir. Þá er vísað til viðurkenndra viðhorfa í norrænum eignarrétti um efni og eðli eignarréttarins, til viljakenningar erfða- og fjármunaréttar og til grunnsjónarmiða fjármuna- og eignarréttar um gildi kvaðabindingar gjafþega og arfláta. Einnig er vísað til meginreglna skaðabótaréttar um fjártjón og sönnun fjártjóns, til meginreglna einkamálaréttarfars um skýran málatilbúnað og réttaráhrif vanreifunar.
VI.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið reisa stefnendur málshöfðun sína á því að aðalstefndi hafi ekki greitt lögbundnar eignarnámsbætur til réttmæts og lögmæts handhafa beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í stefnu málsins er byggt á því að bæði beinn og óbeinn eignarréttur sé á höndum dánarbúsins. Málið höfða stefnendur til hagsbóta fyrir dánarbúið, sbr. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 var því slegið föstu að beinn eignarréttur að jörðinni væri enn á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem ráðstafa yrði til að ljúka skiptum á dánarbúinu lögum samkvæmt. Með dómi sínum 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 komst rétturinn síðan að þeirri niðurstöðu að hinn beini eignarréttur að jörðinni gangi ekki að erfðum við skipti á dánarbúinu eftir fyrirmælum erfðaskrárinnar frá 1938 heldur eftir lögerfðareglum, en af dómum Hæstaréttar 5. apríl 1968 og 30. maí 1969 leiddi á hinn bóginn að um „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“ fari eftir ákvæðum erfðaskrárinnar.
Undir rekstri málsins hafa stefnendur fallið frá þeirri málsástæðu að hinn óbeini eignarréttur sé á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sbr. yfirlit stefnenda yfir kröfur og málsástæður, sem stefnendur lögðu fram við meðferð málsins 7. janúar 2016, samkvæmt tilmælum dómsins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ljósi þessa er dómurinn, samkvæmt 3. mgr. 100. gr. laganna, ekki bundinn af úrskurði 23. september 2015 þar sem frávísunarkröfu aðalstefnda og varastefnda var hafnað.
Hinn óbeini eignarréttur sem varastefndi nýtur, og faðir hans á undan honum, er verndaður af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hinn beini eignarréttur að jörðinni. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er eignarnámsþoli skilgreindur sem eigandi verðmætis, sem eignarnám beinist að, eða „annar rétthafi“ sem getur átt rétt til eignarnámsbóta. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. laganna að með eignarnámi megi skerða eignarrétt eða „takmörkuð eignarréttindi“ og í 2. mgr. 10. gr. er sérstaklega mælt fyrir um það að eigi aðrir rétthafar en eigandi eignarnumins verðmætis rétt til eignarnámsbóta, skuli meta og tilgreina sérstaklega þær bætur sem hverjum þeirra ber. Þannig á ekki aðeins að greiða eiganda eignarnumins lands eignarnámsbætur heldur er öðrum rétthöfum einnig ætlaðar bætur fyrir réttindi sín ef þeir missa þau að einhverju eða öllu leyti.
Af hálfu aðalstefnda og varastefnda er á því byggt að hinn beini eignarréttur að jörðinni sé verðlaus og að handhafi hins óbeina eignarréttar eigi tilkall til allra eignarnámsbóta. Við munnlegan flutning málsins var því á hinn bóginn haldið fram af hálfu stefnenda að réttur varastefnda til eignarnámsbóta fyrir óbein eignarréttindi væri ótengdur bótum sem hann hafi tekið við frá aðalstefnda sem „landeigandi fyrir eignarnumið land“. Þannig virðast stefnendur líta svo á að eignarnámsbætur geti aðeins runnið til eiganda hins beina eignarréttar og að handhafi hins óbeina eignarréttar verði þá að sækja bætur til hans, eftir atvikum með málshöfðun. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan um þá vernd sem eignarréttindi njóta og í ljósi fyrirmæla laga um framkvæmd eignarnáms fær þetta ekki staðist, heldur eiga báðir aðilar, annars vegar eigandi eignarnumins lands og hins vegar aðrir rétthafar, sjálfstæða kröfu um eignarnámsbætur. Í málatilbúnaði sínum halda stefnendur því fram að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna eignarnáms aðalstefnda. Þeir hafa á hinn bóginn enga grein gert fyrir því hvað felst í hinum beina eignarrétti dánarbúsins með hliðsjón af þeim víðtæku kvöðum sem erfðaskráin setur honum og þar með í hverju fjártjón þess kann að felast. Er því ómögulegt fyrir dóminn að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki aðalstefndi, eða eftir atvikum varastefndi, sé greiðslu- eða bótaskyldur gagnvart dánarbúinu. Úr þessum annmarka verður ekki bætt undir rekstri þessa máls. Málið er því ekki dómtækt og er óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnendum að greiða aðalstefnda, varastefnda og réttargæslustefndu málskostnað, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveða upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari, Jón Höskuldsson héraðsdómari og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Elísa Finnsdóttir, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Gísli Finnsson, Guðmundur Gíslason, Hansína Sesselja Gísladóttir, Karl Lárus Hjaltested, Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested, greiði óskipt aðalstefnda, Kópavogsbæ, og varastefnda, Þorsteini Hjaltested, hvorum um sig 1.000.000 króna í málskostnað. Þá skulu stefnendur greiða óskipt réttargæslustefndu, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, Marteini Þ. Hjaltested, Sigurði Kristjáni Magnússyni Hjaltested og Vilborgu Björk Hjaltested, hverjum um sig 30.000 krónur.