Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2012


Lykilorð

  • Lán
  • Gengistrygging
  • Fjármálafyrirtæki
  • Lögbann
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


                                     

Fimmtudaginn 25. október 2012.

Nr. 19/2012.

Sigríður Jónsdóttir

(Þórður Bogason hrl.

Gunnar Ingi Jóhannsson hdl.)

gegn

Glitnir Bank Luxembourg S.A. og

(Kristján Thorlacius hrl.)

Íslandsbanka hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Lán. Gengistrygging. Fjármálafyrirtæki. Lögbann. Frávísun frá Hæstarétti að hluta.

S og G gerðu samning 24. júlí 2007 um svonefnda lánalínu og jafnframt um tryggingar fyrir skuld sem S myndi stofna til á þessum grundvelli, þ. á m. handveðrétt í verðmætum í eigu S, sem væru í vörslum Í hf. Á grundvelli samningsins var S greitt út lán í erlendri mynt í tveimur áföngum. Ágreiningur reis um uppgjör skuldbindingarinnar í kjölfar þess að lokagreiðsla féll í gjalddaga. S taldi sig hafa greitt skuldina með vísan til þess að samningurinn hefði falið í sér ólögmæta gengistryggingu, en G var á öðru máli og hóf innheimtu eftirstöðva skuldarinnar fyrir milligöngu Í hf. S höfðaði mál gegn G og Í hf. og krafðist aðallega staðfestingar lögbanns sem sýslumaður hafði lagt við því að Í hf. kæmi eignum S í verð til fullnustu kröfu G og viðurkenningar á að endurgreiðsla á höfuðstól skuldar S við G næmi að hámarki tiltekinni fjárhæð í íslenskum krónum, með vísan til ætlaðrar ólögmætrar gengistryggingar hennar. G höfðaði gagnsök til heimtu fjárhæðar í svissneskum frönkum, sem hann taldi eftirstöðvar skuldarinnar. Málinu var vísað frá Hæstarétti að því er Í hf. varðaði, sökum þess að lögbannið var fallið niður, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þá var viðurkenningarkröfu S hafnað, þar sem lán það, sem S tók hjá G á grundvelli samningsins 24. júlí 2007, væri lögmætt erlent lán, en fallist á kröfu G á hendur S um greiðslu eftirstöðva skuldbindingarinnar. Til vara krafðist S viðurkenningar þess að ólögmætt væri að selja eignir hennar, sem veðsettar voru G, nema samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Kröfunni var hafnað með vísan til þess að S hefði með samningi veitt heimild til ráðstöfunar veðandlagsins til fullnustu skuldbindinga sinna, óháð fyrirmælum laga nr. 90/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2012. Hún krefst aðallega sýknu af fjárkröfu stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A., að viðurkennt verði að endurgreiðsla á höfuðstól skuldar samkvæmt lánssamningi milli hennar og stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 24. júlí 2007 skuli að hámarki nema 234.000.000 krónum og að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 17. september 2010 við því að stefndi Íslandsbanki hf. selji eða millifæri með öðrum hætti eignir áfrýjanda á nánar tilgreindum vörslureikningi hennar við bankann. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að ólögmætt sé að ráðstafa eignum hennar, sem veðsettar séu með samningi hennar við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 3. febrúar 2010, á annan hátt en eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi Íslandsbanki hf. krefst þess að vísað verði frá Hæstarétti kröfu áfrýjanda um staðfestingu lögbanns, en til vara að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um sýknu hans af þeirri kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar hér fyrir dómi.

I

Samkvæmt gögnum málsins var sent tölvubréf vegna áfrýjanda til stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 8. mars 2007, þar sem fram kom að hún hefði hug á að fá að láni hjá bankanum 230.000.000 krónur gegn veði í tilteknum fasteignum á Íslandi og Ítalíu. Sagði í tölvubréfinu að hugmyndin væri sú að „taka fimm ára kúlulán í svissneskum frönkum“ og myndu „peningarnir ... fara í stýringu hjá Askar Capital.“ Að undangengnum frekari bréfaskiptum við bankann undirritaði áfrýjandi 10. apríl 2007 umsókn um opnun reiknings hjá honum, almenna skilmála hans vegna viðskipta, umboð handa nafngreindum manni til að sinna viðskiptum fyrir hana við bankann og veðsamning, en með honum voru bankanum settar að veði eignir, sem yrðu varðveittar á reikningi hennar þar. Tölvubréf gengu síðan milli bankans og þess manns, sem hafði borið upp ósk hennar um lántöku, um vaxtakjör og bauð bankinn 25. apríl 2007 að væntanlegt lán bæri svonefnda LIBOR vexti fyrir lán í svissneskum frönkum til sex mánaða, sem þá væru 2,45% ársvextir, að viðbættu 1,9% álagi. Þessu boði var tekið samdægurs af hálfu áfrýjanda og óskað eftir að hafist yrði handa við skjalagerð vegna lántöku.

Í framhaldi af því, sem að framan greinir, gerðu áfrýjandi og Glitnir Bank Luxembourg S.A. samning 24. júlí 2007 á ensku, en samkvæmt framlagðri þýðingu sagði í fyrirsögn hans að hann væri um lánalínu og var þar tilgreind fjárhæðin 234.000.000 íslenskar krónur. Í aðfaraorðum samningsins var vísað til þess að bankinn hafi „samþykkt að veita lántaka lánalínu með afborgunum að upphæð allt að jafnvirði ISK 234.000.000 samkvæmt skilmálum þessa samnings.“ Í 1. grein samningsins, þar sem hugtök voru skilgreind, kom fram að „fjárhæð lánsheimildar“ væri „hámarksupphæð sem er jafnvirði ISK 234.000.000“, lánveiting merkti „lánalínuna sem lýst er í gr. 2“, lokagjalddagi væri dagsetningin „á þriðju ártíð útborgunar á lánsheimildinni“ og „valmynt merkir CHF.“ Í 2. grein, sem bar fyrirsögnina „samningur um lánalínu“, sagði að samkvæmt skilmálum hans samþykki „bankinn að veita lántaka afborgunarlán að upphæð sem nemur í mesta lagi fjárhæð lánsheimildarinnar.“ Í 3. grein var mælt fyrir um að lánið stæði til útborgunar í einni greiðslu á útborgunartímabili, en sá hluti lánsfjárhæðar, sem ekki yrði óskað eftir að fá greiddan út, félli sjálfkrafa niður. Þar var þess einnig getið að „útborgun skal fara fram í valmynt“, svo og að lántaki myndi „leggja andvirði lánsins inn hjá Askar Capital hf. ... og skal hún vera í eignastýringu sem er nánar tilgreint í samningi milli lántaka og Askar“. Kveðið var á um það í 6. grein að vaxtatímabil yrðu sex mánuðir hverju sinni frá útborgunardegi lánsins að telja, en gjalddagi vaxta skyldi vera síðasti dagur hvers tímabils. Eftir 7. grein samningsins átti lánið að bera ársvexti, sem yrðu samtala LIBOR vaxta og vaxtaálags, en samkvæmt skilgreiningu hugtaka í 1. grein skyldu LIBOR vextir vera þeir, sem upplýsingar væru birtar um á nánar tiltekinn hátt „vegna innlána í viðkomandi gjaldmiðli á millibankamarkaði í London“, og yrði vaxtaálag 2,2%. Þá skyldu dráttarvextir af gjaldfallinni skuld lántakans nema framangreindum umsömdum vöxtum að viðbættum 3% ársvöxtum. Í 7. grein var einnig tekið fram að „endurgreiðslur á höfuðstól og vöxtum“ skyldu inntar af hendi „í þeirri mynt sem viðkomandi lántaka var tekin.“ Að frágengnum fyrrnefndum ákvæðum samningsins, þar sem rætt var um lánsfjárhæð í íslenskum krónum, var fjárhæða getið þar í þremur tilvikum og ávallt í þeim gjaldmiðli. Þannig var í fyrsta lagi í upptalningu trygginga, sem lántaka var ætlað að setja, rætt um veðrétt í tiltekinni fasteign hér á landi fyrir 110.000.000 krónum, innláni hjá bankanum að fjárhæð að minnsta kosti 70.000.000 krónur og öllu, sem yrði í eignastýringu fyrir áfrýjanda hjá Askar Capital hf. að andvirði minnst 400.000.000 krónur. Í öðru lagi var tilgreind skuldbinding lántakans um að andvirði eigna, sem yrðu í eignastýringunni, yrði ávallt hærra en 200.000.000 krónur og í þriðja lagi kom fram að meðal atvika, sem talist gætu vanefnd af hálfu lántakans, væri sú aðstaða að hann greiddi ekki á gjalddaga skuldbindingu við aðra að hærri fjárhæð en 10.000.000 krónur. Þess er loks að geta að í samningnum var kveðið á um að hann yrði háður íslenskum lögum og skyldu mál vegna hans rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Áfrýjandi gerði annan samning við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 24. júlí 2007, þar sem hún setti bankanum að veði öll verðmæti í eigu hennar í eignastýringu hjá Askar Capital hf. Þá gaf hún út tryggingarbréf 25. sama mánaðar, þar sem bankanum var veittur fyrsti veðréttur í tiltekinni fasteign í Reykjavík til tryggingar hvers kyns skuldum áfrýjanda að fjárhæð allt að 115.000.000 krónur, sem tæki breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Loks setti áfrýjandi bankanum að veði 27. sama mánaðar innstæðu á tilgreindum reikningi hjá Glitni banka hf.

Samkvæmt yfirliti frá stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. var lán á framangreindum grundvelli veitt í tveimur áföngum, annars vegar 2.178.770,95 svissneskir frankar 9. ágúst 2007 og hins vegar 2.293.218,35 svissneskir frankar 15. október sama ár. Á sömu dögum voru fjárhæðirnar í þessum gjaldmiðli lagðar á reikning áfrýjanda hjá bankanum, en í beinu framhaldi af því voru millifærðir í þágu hennar til Askar Capital hf. 2.132.041,03 og 2.272.692,23 svissneskir frankar. Samkvæmt yfirliti frá Askar Capital hf. vegna viðskipta áfrýjanda var ráðstafað í eignastýringu á nánar tilgreindan hátt 116.874.980 krónum 14. ágúst 2007 og var það „greitt með“ 2.131.977,02 svissneskum frönkum 13. sama mánaðar, en 116.380.837 krónum 17. október 2007, sem voru greiddar sama dag með 2.272.619,36 svissneskum frönkum. Af yfirlitum frá stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. verður séð að áfrýjandi hafi greitt honum umsamda vexti með svissneskum frönkum á gjalddögum 13. febrúar og 13. ágúst 2008.

Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék félagsstjórn frá störfum og skipaði honum skilanefnd í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 125/2008. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti stefnda Íslandsbanka hf., en hann tók að nokkru yfir réttindi og skyldur eldri bankans, þar á meðal innlánsreikning, sem áfrýjandi hafði samkvæmt áðursögðu sett að veði 27. júlí 2007 til stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. Síðastnefnda félagið hefur jafnframt verið tekið til slita í Luxembourg.

Í tölvubréfi, sem stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. sendi 22. desember 2008 til umboðsmanns áfrýjanda, var því lýst að bankinn vildi nota allt reiðufé, sem hún ætti þar á reikningi, til að greiða niður skuld hennar. Um þær mundir mun fé, sem áfrýjandi hafði í eignastýringu hjá Askar Capital hf., hafa verið leyst út og greitt inn á innlánsreikning hennar hjá stefnda Íslandsbanka hf. Virðist þetta hafa orðið tilefni þess að umboðsmaður áfrýjanda svaraði áðurnefndu tölvubréfi með fyrirspurn næsta dag um hvort verja mætti fénu, sem losnað hafi úr eignastýringu, til að greiða upp skuldina. Því svaraði stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. samdægurs með því að nota mætti reiðufé í eigu áfrýjanda á innlánsreikningi við bankann, 747.763 evrur, til að greiða niður skuldina og stæðu þá eftir af henni 2.182.767 evrur. Fengi áfrýjandi um 300.000.000 krónur við útborgun frá Askar Capital hf. yrði unnt að greiða til viðbótar um 1.764.705 evrur inn á skuldina og yrðu þá eftirstöðvar hennar 418.061 evra.

Í málinu liggja ekki fyrir gögn um svör áfrýjanda við þessu, en 8. janúar 2009 lagði stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. 1.131.973,07 svissneska franka inn á reikning hennar og mun sú fjárhæð hafa fengist með sölu á 753.418,75 evrum. Sama dag tók bankinn 1.086.351,25 svissneska franka af reikningnum og ráðstafaði til innborgunar á skuld áfrýjanda, sem að þessu gerðu stóð í 3.385.638,05 svissneskum frönkum, og tilkynnti bankinn umboðsmanni hennar um þetta. Umboðsmaðurinn sendi stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. tölvubréf 1. febrúar 2009, þar sem hann greindi frá því að áfrýjandi hefði hug á að „greiða helminginn af láninu í Lux niður á morgun ... eða um 160 m króna“, og spurðist fyrir um hvernig standa ætti að því. Svar bankans við þessu liggur ekki fyrir í málinu, en á hinn bóginn undirrituðu hann og áfrýjandi skjal á ensku 4. febrúar 2009, sem í framlagðri þýðingu nefnist viljayfirlýsing. Þar var vísað til þess að með henni væri skráð samkomulag, sem tekist hafi milli bankans og áfrýjanda í desember 2008 í tilefni af lokun einkabankaþjónustu hans og til að ljúka viðskiptum milli þeirra með uppgjöri skuldar hennar og lokun reiknings. Lýstu þau sig sammála um að áfrýjandi myndi greiða jafnvirði 320.000.000 króna inn á skuldina ekki síðar en 28. febrúar 2009, en eftirstöðvar yrðu greiddar að fullu í samræmi við „skilmála lánasamningsins.“ Að auki bæri áfrýjanda að greiða vexti á umsömdum gjalddögum. Til samræmis við þennan síðastnefnda skilmála greiddi áfrýjandi 20. febrúar 2009 vexti til bankans, sem voru á gjalddaga 13. sama mánaðar. Vegna takmarkana á heimildum til gjaldeyrisviðskipta hér á landi leitaði áfrýjandi jafnframt fyrir milligöngu stefnda Íslandsbanka hf. 5. febrúar 2009 eftir heimild Seðlabanka Íslands til að kaupa svissneska franka fyrir 320.000.000 krónur í lok sama mánaðar til að efna framangreinda viljayfirlýsingu. Seðlabanki Íslands hafnaði þessari beiðni 9. sama mánaðar með vísan til þess að samkvæmt 8. gr. reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál væru „fyrirframgreiðslur fjármálagerninga óheimilar“ og yrði að líta svo á að það bann ætti hér við, enda hafi skilmálum um endurgreiðslu á láni áfrýjanda verið breytt eftir setningu reglnanna. Að fenginni þessari niðurstöðu virðist ekkert frekar hafa verið aðhafst til að víkja frá upphaflegum skilmálum um greiðslu á skuld áfrýjanda við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. og greiddi hún vexti af því 24. ágúst 2009, sem voru á gjalddaga 13. sama mánaðar, og aftur 24. febrúar 2010 vegna gjalddaga 16. sama mánaðar. Áður en kom að síðastnefndum gjalddaga gerði áfrýjandi samning við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 3. febrúar 2010, þar sem honum voru settar að veði inneignir hennar í verðbréfasjóðum hjá stefnda Íslandsbanka hf., annars vegar í svonefndu veltusafni að andvirði 140.000.000 krónur og hins vegar í ríkissafni sömu fjárhæðar, en samkvæmt málatilbúnaði stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. hafði áfrýjandi óskað eftir að taka fé sem þessu svaraði af innlánsreikningi í Íslandsbanka hf., sem fyrrnefndi bankinn naut veðréttar yfir, og færa það í verðbréfasjóði til að fá hærri vexti.

Samkvæmt skilmálum samnings áfrýjanda og stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 24. júlí 2007 áttu eftirstöðvar skuldar hennar ásamt lokagreiðslu vaxta að falla í gjalddaga 13. ágúst 2010. Umboðsmaður áfrýjanda sendi bankanum tölvubréf 5. þess mánaðar, þar sem fram kom að eftir athugun á samningi þeirra 24. júlí 2007 teldi áfrýjandi ljóst að henni bæri „einungis að greiða niður höfuðstól lánsins, 234 m ISK að frádreginni þeirri fjárhæð sem greidd var inn á lánið haustið 2008 auk vaxta.“ Síðar sama dag yrði bankanum sendur útreikningur á fjárhæðinni, sem áfrýjandi teldi sér bera að greiða samkvæmt þessu, og var óskað eftir upplýsingum um bankareikning, sem leggja mætti þá fjárhæð inn á. Bankinn sendi áfrýjanda 20. ágúst 2010 tilkynningu um vanskil, þar sem vísað var til þess að ekki hafi verið innt af hendi lokagreiðsla af skuld hennar að fjárhæð 3.427.971,70 svissneskir frankar og var þess krafist hún yrði tafarlaust lögð inn á nánar tilgreindan erlendan bankareikning. Þess var og getið að viðbúið væri að bankinn myndi að öðrum kosti neyta allra heimilda vegna vanefnda áfrýjanda, þar á meðal að ganga að tryggingum fyrir greiðslu skuldarinnar. Í framhaldi af þessu greiddi áfrýjandi til bankans 1.245.439,07 svissneska franka 31. ágúst 2010 og var fjárhæð í íslenskum krónum, sem þessu svaraði, tekin með samþykki stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. af reikningi áfrýjanda hjá stefnda Íslandsbanka hf., sem var veðsettur fyrrnefnda bankanum 3. febrúar 2010 eins og áður var getið. Með þessu kveðst áfrýjandi telja sig hafa greitt að fullu eftirstöðvar skuldar sinnar, bæði höfuðstóls og vaxta. Í því sambandi leggur hún til grundvallar að stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. hafi verið óheimilt að krefja sig um greiðslu hærri fjárhæðar en nam upphaflegum höfuðstól skuldarinnar, 234.000.000 krónum, ásamt vöxtum, enda hafi verið óheimilt að binda þessa fjárhæð skuldarinnar við gengi svissnesks franka, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Með bréfi 8. september 2010 krafðist stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. þess að stefndi Íslandsbanki hf. kæmi í verð eftirstöðvum eigna áfrýjanda, sem hann hefði í vörslum sínum og hún hafi veðsett þeim fyrrnefnda með samningi þeirra 3. febrúar 2010. Þessar eignir væru að áætluðu andvirði 166.964.590 krónur og væri óskað eftir að það, sem fengist fyrir þær, yrði greitt inn á nánar tiltekinn reikning erlenda bankans. Áfrýjanda var tilkynnt um þetta erindi og brást hún við með því að krefjast þess 13. september 2010 að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að gerðarþoli, stefndi Íslandsbanki hf., „selji eða millifæri með öðrum hætti eignir gerðarbeiðanda, sem vistaðar eru á vörslureikningi nr. 77395 í Íslandsbanka hf., Kirkjusandi, þar á meðal ríkissafn og veltusafn.“ Sýslumaður varð við þessari kröfu og lagði á lögbann 17. september 2010. Áfrýjandi höfðaði síðan þetta mál gegn báðum stefndu með stefnu, sem gefin var út í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. sama mánaðar, en þar krafðist hún þess aðallega að lögbannið yrði staðfest og viðurkennt að endurgreiðsla á höfuðstól áðurnefndrar skuldar sinnar við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. skyldi að hámarki nema 234.000.000 krónum. Til vara krafðist áfrýjandi þess að viðurkennt yrði að ákvæði í lánssamningi sínum við bankann um að henni bæri að endurgreiða höfuðstól lánsins „samkvæmt dagsgengi svissnesks franka á greiðsludegi, sé ólögmætt“, en að því frágengnu að viðurkennt yrði að „ólögmætt sé að selja eignir“ áfrýjanda, sem veðsettar voru bankanum með samningi 3. febrúar 2010, „með öðrum hætti en samkvæmt ákvæðum laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991.“ Málið var þingfest 6. janúar 2011, en stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. höfðaði gagnsök í því 2. febrúar sama ár og krafðist þess að áfrýjanda yrði gert að greiða sér 2.182.532,63 svissneska franka með nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2010 til greiðsludags. Við aðalmeðferð málsins í héraði breytti stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. dómkröfu í gagnsök með samþykki áfrýjanda og féll hún jafnframt frá fyrrgreindri varakröfu sinni. Með hinum áfrýjaða dómi var krafa bankans í gagnsök tekin til greina, kröfu um staðfestingu lögbanns gagnvart honum vísað frá dómi, en stefndu sýknaðir að öðru leyti af kröfum áfrýjanda.

II

Í hinum áfrýjaða dómi, sem var kveðinn upp 18. nóvember 2011, var stefndi Íslandsbanki hf. sýknaður af kröfu áfrýjanda um að staðfest yrði fyrrnefnt lögbann, sem sýslumaður lagði á 17. september 2010. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. stendur lögbann í þrjár vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms, þar sem hafnað hefur verið kröfu um staðfestingu þess, en að þeim tíma liðnum fellur það niður nema dóminum hafi áður verið áfrýjað. Áfrýjunarstefna í málinu var gefin út 9. janúar 2012 og var lögbannið frá 17. september 2010 þá fallið niður samkvæmt lagaákvæði þessu. Með því að áfrýjandi hefur ekki beint kröfum um annað en staðfestingu lögbannsins að stefnda Íslandsbanka hf., að frátalinni kröfu um málskostnað, verður málinu vísað frá Hæstarétti að því er hann varðar.

III

Samkvæmt málflutningi stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. fyrir Hæstarétti standa yfir slit á honum í heimaríki hans. Af hans hálfu var því lýst yfir að ekki væri kunnugt um að reglur, sem hliðstæðar væru 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, væru í lögum í Luxembourg eða að annað gæti staðið því í vegi að höfðað yrði einkamál á hendur honum eftir almennum reglum. Eftir íslenskum lögum gilda takmarkanir sem þessar ekki um erlent fjármálafyrirtæki, sem er til slita í öðru ríki. Að gættu þessu, svo og ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður að leggja til grundvallar að áfrýjanda hafi verið heimilt að höfða einkamál á hendur bankanum eins og hér hefur verið gert, en sem fyrr segir var í samningi þessara aðila um lánalínu frá 24. júlí 2007 kveðið á um heimild til að reka mál vegna hans fyrir dómi hér á landi og að lögskipti þeirra vegna hans færu eftir íslenskum lögum.

Þegar metið er hvort áðurnefndur samningur áfrýjanda við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 24. júlí 2007 hafi verið um lán á fjárhæð í íslenskum krónum, sem bundin væri við gengi erlends gjaldmiðils í andstöðu við ákvæði 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001, verður að gæta að því að ekki var um lánssamning að ræða, heldur var hann samkvæmt fyrirsögn og efni sínu um svonefnda lánalínu, sem bankinn skuldbatt sig til að veita henni aðgang að. Samningurinn geymdi hvorki yfirlýsingu áfrýjanda um að hún stæði í tiltekinni skuld við bankann né myndaði hann kröfuréttindi bankans á hendur áfrýjanda. Í samningnum var á hinn bóginn settur rammi um lánsviðskipti þessara málsaðila, meðal annars með ákvæðum um útborgun hugsanlegs láns, endurgreiðslu þess, vexti af því og tryggingar fyrir efndum áfrýjanda, ef til þess kæmi að hún léti reyna á rétt sinn til að taka lán á grundvelli samningsins. Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum. Í málinu liggur ekki að öðru leyti fyrir skjal með beinni skuldaviðurkenningu áfrýjanda, sem taka mætti mið af við mat á því hvort bankinn hafi veitt henni lán í erlendum gjaldmiðli eða íslenskum krónum.

Eins og áður greinir var tiltekið í samningnum að hugtakið valmynt ætti þar að merkja „CHF“, sem er erlend skammstöfun fyrir svissneska franka. Þar kom einnig fram að útborgun á láni af lánalínunni ætti að fara fram í þessari valmynt og áttu afborganir af höfuðstól skuldarinnar og vextir að greiðast til stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. í sömu mynt. Svo var í raun gert við framkvæmd samningsins að því leyti, sem greiðslur hafa farið fram. Vextir af skuldinni áttu að vera nánar tilgreind tegund millibankavaxta „vegna innlána í viðkomandi gjaldmiðli“ með tilteknu álagi og er ekki deilt um það í málinu að vextirnir, sem bankinn krafði áfrýjanda um og hún greiddi, hafi ráðist af millibankavöxtum í viðskiptum með svissneska franka. Að þessu öllu virtu eru engin efni til annars en að líta svo á að lánið, sem áfrýjandi tók hjá bankanum á grundvelli samnings þeirra 24. júlí 2007, hafi verið í erlendum gjaldmiðli, en við því voru engar hindranir lagðar með lögum. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skyldu áfrýjanda til að greiða stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. þá fjárhæð og vexti, sem þar greinir, svo og um sýknu sama stefnda af kröfu áfrýjanda um að viðurkennt verði að endurgreiðsla á höfuðstól skuldar samkvæmt samningi þeirra 24. júlí 2007 skuli að hámarki nema 234.000.000 krónum.

Að því er varðar varakröfu áfrýjanda um að viðurkennt verði að óheimilt sé að ráðstafa eignum, sem veðsettar voru með samningi hennar við stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 3. febrúar 2010, á annan hátt en eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 er þess að gæta að í grein 6.2. í samningnum, sem í framlagðri þýðingu bar fyrirsögnina „umboð“, var meðal annars tiltekið að áfrýjandi veitti bankanum eða þeim, sem hann kynni að tilnefna, umboð til að undirrita öll skjöl eða framkvæma að öðru leyti það, sem henni bæri að gera samkvæmt samningnum. Þá sagði meðal annars eftirfarandi í 7. grein: „Verði vanefndir á greiðslum veðsala á hinum tryggðu upphæðum ... skulu tryggingar, sem stofnað er til samkvæmt samningi þessum, koma til fullnustu án tafar, og getur lánveitandi, án frekari tilkynningar til veðsala ... selt eða ráðstafað á annan hátt öllum eða hluta af eignunum ... á þann hátt sem lánveitandi telur henta“. Líta verður svo á að áfrýjandi hafi með þessum ákvæðum samningsins lagt í hendur bankans að ráðstafa í hennar nafni verðmætum, sem hún setti þar að veði, til fullnustu á skuldbindingum hennar við hann. Þá heimild getur stefndi Glitnir Bank Luxembourg S.A. nýtt án þess að nokkuð komi til kasta ákvæða laga nr. 90/1991. Niðurstaða héraðsdóms um þessa kröfu áfrýjanda verður því staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verða staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar stefnda Íslandsbanka hf.

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigríður Jónsdóttir, greiði stefnda Glitnir Bank Luxembourg S.A. 2.000.000 krónur og stefnda Íslandsbanka hf. 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. október 2011, er höfðað af Sigríði Jónsdóttur, Háteigsvegi 32, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 5. október 2010, á hendur Glitnir Bank Luxembourg SA, 534 Rue de Neudorf, Luxemborg, og Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Málið var þingfest 6. janúar 2011.

Með gagnstefnu, þingfestri 3. febrúar 2011, höfðaði Glitnir Bank Luxembourg SA gagnsök í málinu á hendur Sigríði Jónsdóttur.

Dómkröfur í aðalsök:

Aðalstefnandi krefst þess aðallega:

  1. Að lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á með lögbannsgerð nr. L-52/2010, hinn 17. september 2010, við því að aðalstefndi Íslandsbanki hf. selji eða millifæri með öðrum hætti eignir aðalstefnanda, sem vistaðar eru á vörslureikningi nr. 77395 í Íslandsbanka hf., Kirkjusandi, þar á meðal Ríkissafn og Veltusafn, verði staðfest með dómi;
  2. Að viðurkennt verði með dómi, að endurgreiðsla aðalstefnanda á höfuðstól lánssamnings milli hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, dagsetts 24. júlí 2007, skuli að hámarki nema sem svarar ISK 234.000.000.

Til vara krefst aðalstefnandi þess, ef ekki verður fallist á aðalkröfu hans um viðurkenningu:

Að viðurkennt verði með dómi að ólögmætt sé að selja eignir aðalstefnanda, sem veðsettar eru samkvæmt veðsamningi, dagsettum 3. febrúar 2010, milli aðalstefnanda og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, til fullnustu kröfu aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, samkvæmt lánssamningi, dagsettum 24. júlí 2007, með öðrum hætti en samkvæmt ákvæðum laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

Þá er þess er krafist í öllum tilvikum, að aðalstefndu verði dæmdir til að greiða aðalstefnanda málskostnað að skaðlausu, þ.m.t. allan útlagðan og áfallinn kostnað við lögbannsbeiðnina, samkvæmt málskostnaðar­reikningi eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá er þess krafist að aðalstefnanda verði gert að greiða aðalstefnda málskostnað að skaðlausu, þ.m.t. virðisaukaskatt, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. 

Aðalstefndi, Íslandsbanki hf., krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða aðalstefnda málskostnað ásamt virðisaukaskatti að mati dómsins.

Dómkröfur í gagnsök:

Gagnstefnandi gerir þær dómkröfur að gagnstefndu verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 2.182.532,63 svissneskir frankar með 5,438330 % dráttarvöxtum samkvæmt 5. grein laga nr. 38/2001 frá 1. september 2010 til 14. febrúar 2011, en með 5,441670% dráttarvöxtum frá þeim degi til 12. ágúst 2011, en með 5,318330% dráttarvöxtum af 2.297.635,66 svissneskum frönkum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að gagnstefndu verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 2.182.532,63 svissneskir frankar og að viðurkennd verði skylda gagnstefndu til að greiða gagnstefnanda dráttarvexti í samræmi við ákvæði greinar 7.4 í samningi aðila frá 24. júlí 2007, frá 1. september 2010 til greiðsludags.

Þá er þess krafist að gagnstefndu verði gert að greiða gagnstefnanda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Gagnstefnda krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.

I.

Helstu atvik málsins eru þau að aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, fékk vorið 2007 fyrirspurn frá fulltrúa stefnanda um hvort hún gæti komist í viðskipti við bankann og fengið lánafyrirgreiðslu frá honum. Hafði Gunnar Gunnarsson framkvæmdastjóri skatta- og lögfræðisviðs Milestone hf., sem var á þessum tíma í eigu Karls Wernerssonar, fyrrverandi eiginmanns aðalstefnanda, samband við Helga Hólmar Ófeigsson, starfsmann aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, í mars 2007. Gunnar gerði grein fyrir því að aðalstefnandi hefði í framhaldi af skilnaðarsamningi við eiginmann sinn samið við Askar Capital hf. um að setja í eignastýringu hjá þeim 400 miljónir íslenskra króna. Hugmyndin, sem Gunnar kynnti, var sú að aðalstefnandi legði sjálf fram 170 milljónir íslenskra króna en afgangurinn yrði tekinn að láni og öll fjárhæðin síðan sett í eignastýringu hjá Askar Capital hf. Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir því að lánið yrði tryggt með veðum í fasteign stefnanda að Háteigsvegi 32, Reykjavík og í tveimur fasteignum aðalstefnanda á Ítalíu. Í beiðni Gunnars til aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, kom fram að hugmyndin væri „að taka fimm ára kúlulán í svissneskum frönkum“ en með kúluláni sé átt við að lánið sé eingreiðslulán þar sem allur höfuðstóll sé greiddur í einni greiðslu á lokagjalddaga lánsins. Fram kom í samskiptum Gunnars við fulltrúa aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, að Jón Scheving Thorsteinsson, sérfræðingur hjá Arev verðbréfum hf., myndi koma að málinu fyrir hönd aðalstefnanda.

Aðalstefnandi lýsir málsatvikum í kjölfarið þannig, að hún hafi hinn 24. júlí 2007 tekið lán hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, sem nam að hámarki 234 milljónum íslenskra króna. Framangreindur aðalstefndi kveður tilgreiningu á fjárhæðinni þannig til komna að samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum stefnanda hafi legið fyrir að hún sjálf hafði 170 milljónir króna til umráða til að setja inn til Askar Capital hf. í eignastýringu, en afganginn af þeim 400 milljónum króna, sem setja átti þar inn, hafi átt að fjármagna með því að taka fyrrgreint lán í svissneskum frönkum hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA.

Hinn 10. apríl 2007 opnaði aðalstefnandi reikning hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, í Luxembourg og skrifaði þá undir umsókn um opnun reiknings (e. Account Opening Application – Individual Account). Stefnandi fékk reikningsnúmerið 2040290 og var reikningurinn einnig tilgreindur með nafninu „Teigur“ þar sem um svokallaðan nafnlausan reikning var að ræða. Þá skrifaði aðalstefnandi þennan sama dag undir og samþykkti almenna skilmála bankans (General Terms and Conditions of Glitnir Bank Luxembourg S.A.). Aðalstefnandi staðfesti með undirskrift sinni að hún hefði kynnt sér reglur bankans og skilmála hans og samþykkti að þeir giltu í samskiptum sínum við bankann. Í þriðja lagi undirritaði aðalstefnandi og samþykkti veðsetningu á reikningi sínum nr. 2040290 í þágu aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, samkvæmt þeim skilmálum sem nánar voru tilgreindir í veðsetningarsamningi aðila (General Pledge Agreement).  Í fjórða lagi skrifaði aðalstefnandi undir umboð (Power of Attoreny) til handa Jóni Scheving Thorsteinssyni hjá Arev verðbréfum hf., þar sem hún fól honum að koma fram fyrir sína hönd gagnvart bankanum. Umboðið fól í sér mjög víðtækar heimildir til handa Jóni m.a. til að annast um öll málefni og samskipti fyrir hönd stefnanda við bankann, taka við yfirlitum og hvers konar upplýsingum fyrir hennar hönd, ráðstafa eignum hennar hjá bankanum og gangast undir hvers konar skuldbindingar fyrir hönd stefnanda gagnvart bankanum. Bæði stefnandi og Jón Scheving skrifuðu undir umboðið þann 10. apríl 2007. Samhliða undirritun umboðsins skrifaði Jón Scheving Thorsteinsson undir og samþykkti almenna skilmála bankans (General Terms and conditions of Glitnir Bank Luxembourg SA).

Samkvæmt samningi aðila skyldu vaxtakjör lánsins vera LIBOR-vaxtagrunnur að viðbættu vaxtaálagi. Aðalstefnandi byggir á því að hún hafi tekið lán í íslenskum krónum en aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, kveður hvorki hafa verið rætt um vaxtakjör á láni í íslenskum krónum né þann möguleika aðalstefnandi gæti tekið lán í íslenskum krónum hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA.

Samkvæmt framlögðum tölvupósti frá starfsmanni aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, dagsettum 25. apríl 2007, var aðalstefnanda boðin lánafyrirgreiðsla með 4,35% vöxtum og miðað við LIBOR-vexti af svissneskum franka í 6 mánuði, sem voru 2,45%, að viðbættu 1,9% álagi. Gunnar Gunnarsson samþykkti þessi kjör fyrir hönd aðalstefnanda.

Hinn 24. júlí 2007 var gengið frá lánssamningi (Facility Agreement) milli aðalstefnanda og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Þar samþykkti bankinn „að veita lántaka lánalínu með afborgunum að upphæð allt að jafnvirði ISK 234.000.000 samkvæmt skilmálum þessa samnings“. Þar segir jafnframt að fjárhæð lánsheimildar merki hámarksupphæð sem er jafnvirði 234 milljóna íslenskra króna en valmynt sé CFH eða svissneskur franki. Vaxtakjör eru tilgreind sem LIBOR-vaxtagrunnur að viðbættu 2,2% álagi. Samkvæmt samningnum skuldbatt aðalstefnandi sig til að endurgreiða heildarupphæð lánveitingarinnar að fullu á lokagjalddaga, sem var ákveðinn þremur árum frá nýtingu aðalstefnanda á lánsheimild sinni samkvæmt samningnum. Í grein 7.5 í samningnum er sérstaklega kveðið á um að endurgreiðslur höfuðstóls lánsins og vaxta, sem greiða átti á lánstímanum, skuli stefnandi endurgreiða í þeirri mynt sem lánið var tekið.

Sama dag undirritaði aðalstefnandi veðsamning (Pledge and Assignment Agreement) við aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, þar sem hún setti að veði til tryggingar þeim lánum, sem hún hugðist taka, alla þá fjármuni sem hún hugðist setja í eignastýringu hjá Askar Capital hf., samtals að verðmæti 400 milljónir íslenskra króna. Skrifaði hún jafnframt undir tilkynningu til Askar Capital hf. um þessa ráðstöfun sína. Samhliða undirritun þessara gagna skrifaði aðalstefnandi undir tryggingarbréf vegna allsherjarveðs allt að fjárhæð 115 milljónir króna, sem þinglýst var á fasteign hennar að Háteigsvegi 32 í Reykjavík, og allsherjarveðsetningu á innstæðum á reikningi sínum nr. 515-4-250026 hjá Glitni Banka hf. á Íslandi að fjárhæð 70 milljónir króna

Lánsheimild sína nýtti aðalstefnandi sér í tvígang. Annars vegar tók hún hinn 13. ágúst 2007 að láni hjá bankanum 2.178.770,95 svissneska franka og var það lán fært henni til skuldar á reikning hennar nr. 2040290. Við lántökuna kom fram að lokagjalddagi lánsins væri 13. ágúst 2010. Láninu var, samkvæmt beiðni frá umboðsmanni hennar, ráðstafað til Askar Capital hf. og voru millifærðir 2.132.041,03 svissneskir frankar á gjaldeyrisreikning þess félags nr. 515-38-600127 (CHF reikningur) hjá Glitni Banka hf. á Íslandi. Var umboðsmanni aðalstefnanda sendur tölvupóstur hinn 20. ágúst 2007 þar sem staðfest var að útgreiðsla lánsins hefði farið fram með ofangreindri fjárhæð í svissneskum frönkum. Hins vegar nýtti aðalstefnandi sér lántökuheimild sína með því að taka að láni hinn 17. október 2007 2.293.218,35 svissneska franka og var það lán fært stefnanda til skuldar á reikningi hennar nr. 2040290. Láninu var samkvæmt beiðni umboðsmanns hennar ráðstafað, eins og fyrra láninu, til Askar Capital hf. og var andvirði þess, 2.272.692,23 svissneskir frankar, lagt inn á gjaldeyrisreikning þess félags nr. 515-38-600127 (CHF reikningur) hjá Glitni Banka hf. á Íslandi. Var umboðsmanni aðalstefnanda tilkynnt um greiðslu og sent yfirlit yfir millifærslu inn á reikning Askar Capital hf. á ofangreindri fjárhæð í svissneskum frönkum. 

Í desember 2008 voru fjárfestingar þær sem Askar Capital hf. höfðu gert fyrir hönd aðalstefnanda innleystar og afraksturinn var greiddur inn á reikning stefnanda hjá Íslandsbanka hf. við Kirkjusand en þeir reikningar voru veðsettir aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Á sama tíma óskaði umboðsmaður aðalstefnanda eftir því að innstæður hennar í evrum á reikningi hennar hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, yrðu notaðar til að greiða inn á skuld stefnanda við bankann sem féllst á það.

Hinn 4. febrúar 2009 skrifuðu aðalstefnandi og aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, undir samkomulag (Memorandum of Understanding) varðandi endurgreiðslu lánsins. Í samkomulaginu var fjallað um fyrirkomulag endurgreiðslu lánsins, sem rætt hafði verið um í desember 2008, þar sem í fyrsta lagi var kveðið á um það að jafnvirði 320 milljóna króna skyldi greitt aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, eigi síðar en 28. febrúar 2009.  Í öðru lagi var kveðið á um að eftirstöðvar lánsins yrðu greiddar á lokagjalddaga lánsins í ágúst 2010. Var samkomulagði yfirfarið af hálfu lögmanna aðalstefnanda á Íslandi áður en það var undirritað af hálfu aðalstefnanda. Í framhaldi af undirritun samkomulagsins gaf aðalstefnandi fyrirmæli um að andvirði 320 milljóna króna skyldi yfirfært í svissneska franka og millifært á reikning stefnda hjá UBS í Sviss. Þessu var hins vegar hafnað af gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands þar sem reglur um gjaldeyrishöft stæðu í vegi fyrir því að lán í erlendri mynt væru greidd upp áður en komið væri að upphaflegum gjalddaga, enda breyting frá upphaflegum gjalddaga gerð eftir setningu reglna um gjaldeyrismál frá árinu 2008.

Hinn 3. febrúar 2010 undirrituðu málsaðilar svonefndan veðsamning um reikning. Þar er samið um að aðalstefnandi leggi inn á reikning í aðalstefnda, Íslandsbanka hf., ákveðnar eignir til handa aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, sem tryggingu fyrir öllum útistandandi skuldum aðalstefnanda gagnvart aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Reikningurinn er nr. 77395. Segir í samningnum að sem tryggingu fyrir greiðslu og afhendingu hinna tryggðu upphæða, setji aðalstefnandi reikninginn og eignirnar sem handveð með fullri ábyrgð á eignarhaldi á reikningnum og eignunum. Segir að inn á reikninginn skuli leggja fjárfestingar í formi hlutdeildarskuldabréfa að heildarkaupverði 280 milljónir króna, þar af fjárfestingar að fjárhæð 140 milljónir króna í Veltusafn og fjárfestingar að fjárhæð 140 milljónir króna í Ríkissafn. Segir síðan að kaupverð eignanna skuli greiðast með fjármunum af reikningi aðalstefnanda í reikningsbankanum nr. 515-26-250026 sem er veðsettur aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Veitti aðalstefnandi aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA,  með samningnum fullt umboð til að fara með og ráðstafa á hvern þann hátt sem hann  ákvað öllum þeim réttindum sem sett voru að veði. Í 7. gr. samningsins er mælt fyrir um að ef vanefndir verði á greiðslum á hinum tryggðu upphæðum skuli tryggingar, sem stofnað sé til samkvæmt samningnum, koma til fullnustu án tafar, og geti lánveitandi þá, án frekari tilkynningar til veðsala, þ.e. aðalstefnanda selt eða ráðstafað á annan hátt öllum eða hluta af eignunum með þeim skilmálum og á þann hátt sem lánveitandi telur henta.

Í febrúar 2010 óskaði aðalstefnandi eftir því að fá að nota hluta af andvirði þess fjár, sem stóð á reikningnum, til að fjárfesta í sjóðum Íslandsbanka hf., svokölluðu Veltusafni og Ríkissafni fyrir samtals 280 milljónir króna, en sjóðirnir eru starfræktir af Íslandssjóðum hf., sem er með starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, og er í eigu Íslandsbanka hf. Á þetta féllst aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA. Innstæður stefnanda í þessum sjóðum voru áfram veðsettar til tryggingar kröfu aðalstefnda á meðan beðið var gjalddaga lánsins hinn 13. ágúst 2010 en þá átti stefnandi að greiða allar skuldbindingar sínar við aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, samkvæmt upphaflegum skilmálum samninga aðila.

Hinn 5. ágúst 2010 barst fyrirsvarsmönnum aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, tölvupóstur frá Jóni Scheving Thorsteinsson, umboðsmanni aðalstefnanda, þar sem upplýst var um þá afstöðu aðalstefnanda að henni bæri aðeins að endurgreiða „höfuðstól lánsins, 234 m ISK að frádreginni þeirri fjárhæð sem greidd var inn á lánið haustið 2008 auk vaxta“. Fyrirsvarsmenn aðalstefnda höfnuðu þessum skilningi stefnanda og vísuðu í ákvæði samninga aðila um að skuldbindingar aðalstefnanda væru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum. Með bréfi, dagsettu 20. ágúst 2010, var aðalstefnanda tilkynnt að skuld hennar að eftirstöðvum 3.427.971,70 svissneskir frankar væri gjaldfallin og var þess krafist að fjárhæðin yrði þegar í stað greidd inn á reikning aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, hjá UBS í Zürich í Sviss. Í kjölfar bréfsins greiddi aðalstefnandi hluta skuldar sinnar. Sú greiðsla var innt af hendi í svissneskum frönkum og var að fjárhæð 1.245.446,07 svissneskir frankar. Þeim fjármunum var ráðstafað til greiðslu vaxta, 13.665,33 svissneskir frankar og 28.686,89 svissneskir frankar, og upp í ógreiddan höfuðstól lána, 1.092.401,13 svissneskir frankar og 110.685,72 svissneskir frankar. Byggir aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, á því að eftir standi því ógreiddur höfuðstóll að fjárhæð 2.182.532,63 svissneskir frankar miðað við 1. september 2010, auk vaxta samkvæmt framlögðu yfirliti um lán aðalstefnanda. Aðalstefnandi mótmælir því og kveðst hafa greitt lánið að fullu en hún hafi greitt um það bil 287 milljónir króna vegna lánssamningsins.

Hinn 8. september 2010 óskaði aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, eftir því við aðalstefnda, Íslandsbanka hf., sem vörsluaðila hinna veðsettu fjármuna, að innstæður aðalstefnanda yrðu innleystar og andvirði þeirra notað til að greiða gjaldfallnar eftirstöðvar skuldar hennar við aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, í samræmi við ákvæði samningsins, sem gerður hafði verið milli aðila 3. febrúar 2010.  Aðalstefnandi lagði fram lögbannsbeiðni 13. september 2010 þar sem óskað var eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að lagt yrði lögbann við því að gerðarþoli, aðalstefndi, Íslandsbanki hf., selji eða millifæri með öðrum hætti eignir gerðarbeiðanda, sem vistaðar eru á vörslureikningi nr. 77395 í Íslandsbanka hf., Kirkjusandi, þar á meðal Ríkissafn og Veltusafn. Sýslumaður ákvað hinn 17. september 2010 að láta lögbannið ná fram að ganga.

II.

Málsástæður aðalstefnanda í aðalsök

b. Aðalkrafa stefnanda um viðurkenningu á því að höfuðstóll lánssamnings hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, skuli að hámarki nema sem svarar ISK 234.000.000

Aðalstefnandi byggir mál sitt á því að hún hafi fengið að láni að hámarki 234 milljónir íslenskra króna hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Hún eigi samkvæmt lánssamningnum að hámarki að endurgreiða sömu fjárhæð, þ.e.a.s. 234 milljónir íslenskra króna eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í annarri mynt, auk þeirra vaxta sem kveðið sé á um í samningnum sem og mögulegan kostnað. Aðalstefnandi kveðst þegar hafa greitt lánveitanda, aðalstefnda Glitnir Bank Luxembourg SA, þessa fjárhæð og því eigi bankinn ekki frekari kröfu á sig.

Aðalstefnandi kveðst hafna þeim skilningi aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, að lánsfjárhæðin eigi að taka breytingum í samræmi við gengi svissneskra franka. Sé slíkt hvergi tekið fram í umræddum lánssamningi og þá sé enga gengisviðmiðun að finna í honum. Krafa aðalstefnda eigi sér því einfaldlega ekki stoð í lánssamningnum. Samningurinn sé t.d. að þessu leyti afar ólíkur þeim gengistryggðu lánum, sem íslenskar lánastofnanir veittu almenningi til húsnæðis- og bílakaupa og lánveitingum þeirra til fyrirtækja. Bendir aðalstefnandi á að í þeim samningum sé höfuðstóll lánsins annað hvort tilgreindur í erlendri mynt eða tekið sé sérstaklega fram í viðkomandi samningi, að allar fjárhæðir hans séu bundnar erlendum/innlendum myntum og taki mið af þeim á hverjum tíma sem og að gengisvísitala gjaldmiðla miðist við útborgunardag samnings. Í þeim samningum sé einnig tekið fram að við innheimtu láns skuli leggja til grundvallar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands og að miða skuli við skráð gengi á útgáfudegi reiknings.

Í umræddum lánssamningi milli aðalstefnanda og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, séu engin ákvæði er lúti að einhvers konar gengisviðmiðun, enda hafi ekki verið gert ráð fyrir neinu slíku í þeim samningi þegar hann var gerður. Liggi gengisáhætta samningsins hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, enda hafi verið gengið út frá því í upphafi þar sem aðalstefnandi vildi sjálf ekki taka slíka gengisáhættu með jafnmikið fé í húfi. Því hafi verið ákveðið að miða lánveitinguna til aðalstefnanda við íslenskar krónur og að aðalstefndi tæki á sig gengisáhættu í samningnum. Í slíkri gengisáhættu geti einnig falist mikill ágóði, sem aðalstefndi hefði notið, hefðu mál þróast með öðrum hætti.

Aðalstefnandi kveður kröfu aðalstefnda um gengistryggðan höfuðstól vera síðari tíma uppfinningu hans, sem ekki eigi sér nokkra stoð í samningi aðila. Krafan sé líklega sett fram í því ljósi að aðalstefndi fái nú á gjalddaga ekki sömu fjárhæð í svissneskum frönkum til baka og hann greiddi út upphaflega, þar sem íslenska krónan hafi veikst gríðarlega gagnvart þeim gjaldmiðli. Þar sé hins vegar ekki við aðalstefnanda að sakast. Aðalstefnandi kveðst eftir sem áður þurfa að standa aðalstefnda skil á allri þeirri fjárhæð sem hún tók að láni, auk vaxta og kostnaðar. Hún sé því langt í frá að hagnast með einhverjum hætti. Bendir aðalstefnandi einnig á að kröfur aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, kunni að skýrast af því að bankinn sé gjaldþrota og starfsmenn Reviva Capital, sem séu fyrrum yfirmenn bankans og hluthafar í Reviva Capital, vinni nú að innheimtu krafna bankans upp á hlut. Þannig hafi þessir starfsmenn beinna og persónulega fjárhagslegra hagsmuna að gæta og túlki samninginn samkvæmt því. Ljóst sé að Reviva Capital hafi lagt mikla áherslu á að leysa til sín eignir aðalstefnanda, enda fái starfsmennirnir hlutdeild í ágóðanum af sem hæstri fjárhæð. Telji aðalstefnandi að þessi sjónarmið kunni að ráða för við túlkun og innheimtu lánssamningsins af hálfu starfsmanna aðalstefnda og Reviva Capital.

Aðalstefnandi bendir einnig á að aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, hafi verið sérfróður aðili í bankaviðskiptum og hafi haft bankaleyfi í Lúxemborg á þessum tíma. Hafi honum því verið í lófa lagið að búa svo um hnúta að höfuðstóll lánsins væri tilgreindur í svissneskum frönkum, fyrst hann leit svo á að lánið væri veitt í þeim gjaldmiðli. Sú sé hins vegar ekki raunin, heldur hafi verið samið um það með skýrum hætti að miða lánsfjárhæðina að hámarki við 234 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt gr. 5 í samningnum sé skýrt kveðið á um að aðalstefnandi eigi að endurgreiða „The Facility“. Í gr. 2 í samningnum sé „The Facility“ skilgreint sem „A term loan facility in the maximum amount of the Facility Amount“. Í skilgreiningum samningsins í upphafi sé „Facility Amount“ loks skilgreint sem „The maximum amount equivalent to ISK 234.000.000“. Sé því hafið yfir vafa að endurgreiðsla lánsins eigi ekki að nema hærri fjárhæð en sem svari til 234 milljóna íslenskra króna hverju sinni og breyti engu þótt heimilt hafi verið að greiða andvirði lánsins út í svissneskum frönkum, enda sé það tvennt ólíkt, lánveiting annars vegar og útborgun láns hins vegar.

Aðalstefnandi bendir á að engin skýring sé á því hvers vegna höfuðstóllinn er tilgreindur í íslenskum krónum önnur en sú að hann hafi átt að vera það. Auk þess verði að ganga út frá því að aðalstefndi, sem sérfróður aðili í bankaviðskiptum, hefði sett inn ákvæði í samninginn þess efnis að lánsfjárhæðin skyldi miðast við gengi svissneskra franka á útborgunardegi og endurgreiðast samkvæmt einhverju tilgreindu sölugengi, t.d. sölugengi á endurgreiðsludegi, hafi það átt að verða raunin. Hins vegar séu engar vísbendingar sem bendi til þess að svo hafi átt að vera. Allar fjárhæðir í samningnum, hvort heldur sem er lágmarksfjárhæð í eignastýringu, svonefnd „cross-default“ mörk, eða annað séu í samningnum miðaðar við íslenskar krónur.

Ótækt sé að túlka samninginn öðruvísi en samkvæmt orðanna hljóðan og gera aðalstefnanda þar með að greiða aðalstefnda meira en tvöfaldan höfuðstól lánsins, enda gefi ekkert í samningnum tilefni til þess að komast að þeirri niðurstöðu eða draga slíkar ályktanir. Ekki sé einu sinni skilgreint hvaða sölugengi eigi að leggja til grundvallar, þ.e. gengi Seðlabanka Íslands eða Lúxemborgar, sem sé verulega ólíkt, eða eitthvert annað sölugengi svissneskra franka. Annarleg sjónarmið hljóti að ráða för hjá aðalstefnda við túlkun samningsins og innheimtu lánsins, sem m.a. skýrist af persónulegum hagsmunum þeirra sem standi að innheimtunni. Með vísan til framangreindra sjónarmiða krefjist aðalstefnandi viðurkenningar á því að henni beri, hvað höfuðstól lánsins varðar, að hámarki að greiða aðalstefnda 234 milljónir íslenskra króna.

a. Aðalkrafa aðalstefnanda um staðfestingu lögbanns

Aðalstefnandi kveðst byggja kröfu sína um lögbann og staðfestingu þess á því, að sala á eignum hennar taki mjög skamma stund. Fram sé komin mjög skýr krafa aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, um að aðalstefndi, Íslandsbanki hf., skuli selja eignir aðalstefnanda þegar í stað og millifæra andvirði sölunnar til Sviss. Muni fjármunirnir þá hverfa sjónum, hugsanlega fyrir fullt og fast, jafnvel þótt aðalstefnandi fengi réttindi sín viðurkennd fyrir dómi, enda séu bæði Sviss og Lúxemborg þekkt fyrir bankaleynd og lítinn samvinnuvilja við yfirvöld annarra ríkja hvað bankaupplýsingar varðar. Brýnt sé að fjármunirnir haldist á Íslandi, þar til skorið hefur verið úr um réttarágreining aðila fyrir dómi.

Aðalstefnandi vísar til þess að aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, sé þrotabú, sem verði í slitameðferð að minnsta kosti í fimm ár, samkvæmt eigin upplýsingum, og að aðalstefnandi myndi þurfa að sækja hagsmuni sína á hendur þrotabúinu ef fjármunirnir yrðu sendir til aðalstefnda. Liggi ljóst fyrir að lögbann þurfi að hvíla á aðgerðum aðalstefnda, Íslandsbanka hf., þar til leyst hafi verið úr ágreiningi milli aðalstefnanda og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Annars sé hætta á að aðalstefnandi fái einungis hluta kröfu sinnar greiddan úr þrotabúi Glitnir Bank Luxembourg SA þegar til úthlutunar kemur úr því þrotabúi eftir þann árafjölda sem taka muni að ljúka skiptum.

Þá kveðst aðalstefnandi byggja kröfu um staðfestingu lögbannsins á því að óheimilt sé að lögum að selja eignir hennar til fullnustu á kröfum aðalstefnda, þvert gegn vilja hennar. Aðalstefnandi telji að aðili geti ekki, svo lögmætt sé, bundið sig með samningi um slíka fullnustu krafna. Hefði aðalstefndi átt að óska eftir nauðungarsölu á eignum aðalstefnanda, í stað þess að fyrirskipa aðalstefnda, Íslandsbanka hf., að selja eignir gerðarbeiðanda til fullnustu á kröfum aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Staðfesta beri því lögbannið á grundvelli þess að fyrirmæli aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, og fyrirætlanir aðalstefnda, Íslandsbanka hf., um sölu á eignum aðalstefnanda, brjóta í bága við lög og grunvallarreglur réttarríkis.

Varakrafa aðalstefnanda um viðurkenningu á því að ólögmætt sé að selja veðsettar eignir hennar samkvæmt veðsamningi með öðrum hætti en samkvæmt ákvæðum nauðungarsölulaga

Aðalstefnandi kveðst byggja varakröfu sína á því að aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, sé óheimilt að leita fullnustu í eignum hennar, án þess að farið sé að gildandi lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Þá sé aðalstefnda, Íslandsbanka hf., óheimilt að selja eignir aðalstefnanda, gegn vilja hennar, án þess að farið sé að ákvæðum laga um nauðungarsölu. Eigi aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, að beina nauðungarsölubeiðni til sýslumanns en ekki til aðalstefnda, Íslandsbanka hf., óski hann eftir að leita fullnustu í eignum aðalstefnanda.

Þá byggir aðalstefnandi á því að sala á eignum hennar, þvert gegn vilja hennar, sé nauðungarsala og að nauðungarsala sé fullnustugerð. Fullnustugerðir verði aðeins framkvæmdar af fulltrúum ríkisvaldsins og í samræmi við gildandi lög um fullnustugerðir. Sem dæmi komi fram í 3. gr. laga um nauðungarsölu að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra fari með framkvæmd nauðungarsölu. Aðalstefnandi kveðst byggja á því, að aðilar hafi ekki forræði á skilyrðum fyrir nauðungarsölu, hvorki efnislegum né réttarfarslegum skilyrðum, og geti því ekki hliðrað þeim skilyrðum með samningum sín á milli. Sé þannig hvorki á valdi aðilanna að semja með bindandi hætti um að tilteknum réttindum aðalstefnda verði fullnægt með nauðungarsölu, án tillits til almennra skilyrða fyrir því, til dæmis með ákvæði í samningi um fortakslausan rétt veðhafa til að láta selja eignir veðþola ef vanefndir verða, né að binda hendur sínar með samningi um að nauðungarsölu verði ekki beitt í tilviki, þar sem almennum skilyrðum fyrir því sér fullnægt.

Aðalstefnandi byggir á því að það feli í sér réttarneitun gagnvart sér verði eignir hennar seldar þvert gegn vilja hennar, án tillits til fyrirmæla laga um nauðungarsölu, og af aðilum, sem ekki séu til þess bærir að lögum. Beina verði nauðungarsölu til sýslumanns í samræmi við lög og boða verði aðila til fyrirtöku. Þá verði að auglýsa nauðungarsölu og tryggja að óháður þriðji aðili, í þessu tilviki sýslumaður, meti hvort söluandvirði þeirra eigna, sem ráðstafað sé með þessum hætti, sé sanngjarnt og eðlilegt. Sé kröfuhafa sett í sjálfsvald sala á eignum skuldara, sé ekkert sem hindri að kröfuhafi leysi til sín eignir undir markaðsvirði og haldi innheimtu áfram á hendur skuldara. Trygging gagnvart þessu sé að sýslumanni sé falið að annast nauðungarsölur en það fyrirkomulag tryggi einnig að kröfuhafar taki ekki lögin í sínar hendur með samningum. 

Með vísan til framangreinds telji aðalstefnandi, að verði ekki fallist á kröfur hennar um viðurkenningu á réttindum sínum gagnvart aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, beri að mæla fyrir um það að nauðungarsala skuli fara fram á eignum aðalstefnanda til fullnustu á kröfu aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Að öðru leyti sé vísað til sjónarmiða sem reifuð séu fyrir staðfestingu á lögbanninu.

Um lagarök vísar aðalstefnandi til laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna. Þá vísar aðalstefnandi til laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 og almennra grunnraka og sjónarmiða um fullnustugerðir.

Um heimild til að gera kröfu um viðurkenningu á því að skorið sé úr um tilvist og efni þeirra réttinda aðalstefnanda, sem vísað sé til í stefnunni, vísar hún til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málskostnaðarkrafa aðalstefnanda er reist á ákvæðum 129.–131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um varnarþing vísar aðalstefnandi til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en aðilar hafi samið um að varnarþing vegna deilumála um löggerninga þá, sem mál þetta varði, skuli rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

III.

Málsástæður aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, í aðalsök

Kröfu sína um sýknu byggir aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, á því að ekki sé lagagrundvöllur fyrir því að verða við kröfum þeim sem aðalstefnandi hefur í uppi í málinu. Þannig liggi fyrir að til staðar sé fullgildur samningur milli stefnanda og stefnda þar sem stefndi hafi skuldbundið sig til að lána og stefnandi hafði þann kost að taka að láni svissneska franka á lánakjörum sem tilgreind voru í samræmi við þau vaxtakjör sem í boði voru á alþjóðlegum lánamörkuðum fyrir lán í svissneskum frönkum. Samningurinn kveði á um að lánsheimild til handa aðalstefnanda nemi þó að hámarki jafnvirði 234 milljóna íslenskra króna. Eina ástæðan fyrir tilgreiningu á hámarksfjárhæð lánalínusamningsins í íslenskum krónum hafi verið sú aðferðafræði ráðgjafa aðalstefnanda að reikna eignasafn hennar í íslenskum krónum og sú staðreynd að samkomulag hennar við Askar Capital hf. hafi kveðið á um að hún legði fram jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Það fyrirkomulag sé aðalstefnda óviðkomandi, enda hafi bankinn aldrei tekið að sér að veita aðalstefnanda lán í íslenskum krónum, né heldur hafi það verið ætlun hennar að fá lán í íslenskum krónum eins og skýrt kemur fram í gögnum málsins. Sé þetta ljóst bæði af tölvupóstsamskiptum af hálfu aðalstefnanda og fulltrúa hennar við bankann, sem og öðrum gögnum, s.s. upphaflegum samningum milli aðila, sem gerðir hafi verið á árinu 2007, bankayfirlitum þar sem allar fjárhæðir lánsins séu ávallt tilgreindar í svissneskum frönkum, sem og þeim greiðslum, sem aðalstefnandi hefur innt af hendi síðan lánið var veitt, bæði af vöxtum og innborgunum. Allar þessar greiðslur hafi farið fram í svissneskum frönkum.

Aðalstefndi leggur áherslu á að lánalínusamningur sá, sem undirritaður hafi verið af aðilum hinn 24. júlí 2007, sé ekki lánasamningur í hefðbundnum skilningi. Þar sé um að ræða samning aðila, sem feli í sér skuldbindingu af hálfu bankans til að veita gagnaðila tiltekna lánafyrirgreiðslu, á tilteknu formi, í tiltekinni mynt og á tilteknum kjörum. Hin eiginlega lántaka fari síðan fram þegar lántakinn óskar eftir að nýta sér þá heimild sem samið var um. Hver nýting lánsheimildar samkvæmt lánalínusamningnum sé skilgreind sem lán. Höfuðstóll nýttrar heimildar sé tilgreindur í þeirri mynt sem lántakinn kaus að fá lán sitt greitt út í hverju sinni. Sú fjárhæð, sem þannig sé tekin að láni hjá bankanum, teljist lánsfjárhæðin hverju sinni. Í 1. gr. lánalínusamnings aðila komi skýrt fram að aðalstefnandi gat aðeins fengið lánið greitt út í svissneskum frönkum. Aðalstefnandi hafi því ekkert val haft um það, í hvaða mynt hún tók lánið, og henni hafi aldrei staðið til boða að nýta lánsheimild samkvæmt samningnum í íslenskum krónum. Þá staðfesti gögn málsins að lánin til stefnanda voru greidd út í svissneskum frönkum og voru lögð inn á gjaldeyrisreikning í eigu Askar Capital hf. í svissneskum frönkum. 

Þá byggir aðalstefndi á því að á aðalstefnanda hvíli ótvíræð skylda samkvæmt grein 7.5 í samningnum til að endurgreiða bæði höfuðstól og vexti af hverju láni í þeirri mynt sem það var veitt í. Hafi aðalstefnandi aldrei efast um skyldur sínar til að inna af hendi greiðslu vaxta og innborgana á lánið í svissneskum frönkum og því hafi það komið stefnda mjög á óvart þegar stefnandi reyndi að bera það fyrir sig fimm dögum fyrir lokagjalddaga lánsins, að það væri í íslenskum krónum en ekki í svissneskum frönkum.

Því sé mótmælt að aðalstefnanda hafi ekki verið strax frá upphafi ljóst að skuldbindingar hennar við stefnda væru í svissneskum frönkum. Í því sambandi sé bent á að vaxtakjör séu samkvæmt ákvæði 7.1 í samningnum skilgreind sem LIBOR-vextir með tilteknu álagi. LIBOR-vextir séu hins vegar ekki reiknaði á skuldbindingar í íslenskum krónum og því hafi aðalstefnandi alls ekki getað staðið í þeirri trú að skuldbindingar hennar við stefnda væru í íslenskum krónum.

Þá sé á því byggt af hálfu aðalstefnda að jafnvel þótt aðalstefnandi hefði á einhverjum tíma talist geta verið í vafa um mynt skuldbindingar sinnar gagnvart aðalstefnda, hafi þeim vafa verið eytt þegar henni og umboðsmanni hennar voru send lánayfirlit og önnur yfirlit um stöðu skuldbindinga hennar við bankann. Af gögnum málsins sé ljóst að auk þess að óska eftir lánafyrirgreiðslu í svissneskum frönkum hafi aðalstefnanda sjálfri og umboðsmanni hennar verið send lánayfirlit með reglubundnum hætti þar sem fram komi, þannig að hafið sé yfir allan vafa, að um skuldbindingar í svissneskum frönkum var að ræða. Í þessu sambandi sé bent á að samkvæmt skilmálum samningsins séu það reikningar og önnur gögn, sem aðalstefndi haldi um stöðu skuldarinnar, sem gildi sem sönnun fyrir tilvist og fjárhæð skuldar aðalstefnanda við aðalstefnda hverju sinni, sbr. 12. grein samningsins. Jafnvel þótt aðalstefnandi hafi fengið fjölmörg yfirlit send frá aðalstefnda eftir að lánin voru veitt, þar sem skuld hennar hafi jafnan verið tilgreind í svissneskum frönkum, hafi það ekki verið fyrr en hinn 8. ágúst 2010 sem umboðsmaður aðalstefnanda bar það fyrir sig að skuld hennar væri ekki í svissneskum frönkum heldur íslenskum krónum. Þá liggi fyrir fjöldi tölvuskeyta þar sem umboðsmaður aðalstefnanda fjallar um skuldbindingar hennar í svissneskum frönkum og möguleika hennar á að fá yfirfærslu úr íslenskum krónum í svissneska franka til að geta staðið skil á skuldbindingum sínum við aðalstefnda. Bendi aðalstefndi á að samkvæmt almennum skilmálum og reglum bankans, sem bæði aðalstefnandi sjálf og umboðsmaður hennar hafi undirritað hinn 10. apríl 2007, en þær reglur gildi um samskipti og skuldbindingar aðalstefnanda og aðalstefnda og réttarsamband þeirra, komi skýrt fram í 4. grein að hafi aðalstefnandi eða umboðsmaður hennar haft ástæðu til að gera athugasemdir við reikningsyfirlit eða önnur gögn, sem stöfuðu frá aðalstefnda, hafi þeim borið að gera þá þegar athugasemdir þar um. Engar slíkar athugasemdir eða mótmæli hafi borist við þeim fjölmörgu yfirlitum sem aðalstefnanda og umboðsmanni hennar voru send af hálfu starfsmanna aðalstefnda.

Margt bendi til þess að aðalstefnandi hafi frá upphafi gert sér fulla grein fyrir og vitað að skuldbindingar hennar við bankann voru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum. Þá hafi hún með aðgerðum sínum, og/eða eftir atvikum aðgerðarleysi, viðurkennt að skuldbindingar hennar við bankann væru í svissneskum frönkum. Í þessu sambandi megi í fyrsta lagi benda á, að hafi aðalstefnandi í raun og veru staðið í þeirri trú að hún væri einungis að taka að láni hjá bankanum 234 milljónir íslenskra króna og ætlaði sér alls ekki að taka neina gengisáhættu í málinu, sé óljós ástæðan fyrir því að hún lagði fram sem tryggingu fyrir skilvísri endurgreiðslu lánsins veð að verðmæti nærri þreföldu andvirði þess fjár, sem hún gat tekið að láni frá aðalstefnda. Þannig hafi aðalstefnandi sett að veði allt fé, sem hún hafði lagt í vörslur til Askar Capital hf. að verðmæti 400 miljónir króna, veð í fasteign sinni að Háteigsvegi 32 að fjárhæð 115 milljónir króna og innstæðu sína hjá Glitni Banka hf. á Íslandi að lágmarksverðmæti 70 milljónir króna, samtals 585 milljónir króna.

Í öðru lagi megi benda á að aðalstefnandi hafi hinn 4. febrúar 2009 gert sérstakan samning við stefnda (Memorandum of Understanding), sem enn sé í fullu gildi, þar sem kveðið sé á um skyldu aðalstefnanda til að greiða aðalstefnda jafnvirði 320 milljónir íslenskra króna eigi síðar en 28. febrúar 2009 og síðan eftirstöðvar skuldarinnar við aðalstefnda eigi síðar en á lokagjalddaga hennar, þ.e. 13. ágúst 2010. Ljóst sé að aðalstefnandi hafi í febrúar 2009 enga ástæðu haft til að semja um að greiða til aðalstefnda 320 milljónir króna og auk þess ógreiddar eftirstöðvar lánsins í ágúst 2010 ef skuld hennar við bankann gat að hámarki numið 234 milljónum íslenskra króna. Sérstaklega þegar horft sé til þess að hún hafði skömmu áður, hinn 8. janúar 2009, greitt 1.086.351,25 svissneska franka inn á höfuðstól skuldar sinnar við aðalstefnda. Sé eitthvað að marka fullyrðingar aðalstefnanda um að hún hafi talið skuldbindingar sínar í íslenskum krónum, hefði þessi inngreiðsla þýtt að skuld hennar næmi miklu mun lægri fjárhæð en 320 milljónum króna og því ekkert tilefni af hennar hálfu til að gangast undir skuldbindingar um að greiða aðalstefnda þá fjárhæð auk annarra eftirstöðva. Aðgerðir aðalstefnanda í febrúar 2009 séu í algerri mótsögn við þær fullyrðingar, sem nú sé haldið fram af hennar hálfu í málinu, enda sýni þessi samningur svo ekki verði um villst að aðalstefnanda hafi verið fullkunnugt um að skuldbindingar hennar við aðalstefnda voru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum. 

Í þriðja lagi sé á því byggt að þær aðgerðir aðalstefnanda að gera hinn 3. febrúar 2010 samning við aðalstefnda, Glitnir Bank SA, og aðalstefnda, Íslandsbanka hf., um að setja sem tryggingu fyrir greiðslu skuldbindinga sinna gagnvart aðalstefnda, Glitnir Bank SA, eignir sínar í vörslum stefnda, Íslandsbanka hf., samtals að verðmæti 280 milljónir króna, annars vegar í Veltusafni 140 milljónir króna og hins vegar 140 milljónir króna í Ríkissafni, sýni svo ekki verði um villst að aðalstefnandi gerði sér fulla grein fyrir umfangi og eðli skuldbindinga sinna við aðalstefnda og þá sérstaklega að skuldbindingar hennar væru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum.

Andmæli við einstökum kröfum og málsástæðum aðalstefnanda

 b. Aðalkrafa stefnanda um viðurkenningu á því að höfuðstóll lánssamnings hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, skuli að hámarki nema sem svarar 234 milljónum íslenskra króna

Aðalstefndi byggir mótmæli sín gegn aðalkröfu aðalstefnanda á því að enginn grundvöllur sé fyrir þessari kröfu aðalstefnanda í samningi aðila. Þannig kveði samningurinn ekki á um lánveitingu í íslenskum krónum heldur kveði hann skýrlega á um lántöku aðalstefnanda í svissneskum frönkum. Þar sé einnig kveðið skýrlega á um skyldu aðalstefnanda til að endurgreiða hið tekna lán í þeirri mynt sem það var veitt og tekið. Í gögnum málsins liggi fyrir að lánið var veitt í svissneskum frönkum og því sé ekki um það að ræða að það þurfi að taka breytingum í samræmi við gengi svissneskra franka eins og aðalstefnandi virðist byggja á. Samningurinn feli því alls ekki í sér samning um gengisviðmiðun eða gengistryggingu, heldur hafi lánið einfaldlega verið tekið í svissneskum frönkum og átt að greiðast til baka í þeirri mynt. Það sé því erlent lán í skilningi laga nr. 38/2001 og falli ekki í hóp þeirra gengistengdu eða gengistryggðu lána, sem Hæstiréttur hafi dæmt ólögmæt. Sé því hafnað að samningurinn hafi falið í sér gengisáhættu fyrir aðalstefnda, Glitni Bank Luxembourg SA, enda sé samningurinn skýr um það að lánið skuli endurgreiða í sömu mynt og það var tekið, sbr. ákvæði 7.5 í samningnum. Því hafi ekki verið til staðar gengisáhætta af hálfu aðalstefnda. Málatilbúnaði aðalstefnanda um að kröfur aðalstefnda um gengistryggðan höfuðstól sé „síðari tíma uppfinning stefnda“ sé mótmælt, enda sé ljóst af gögnum málsins að aðalstefndi hafi ávallt miðað kröfu sína við svissneska franka og hafi aðalstefnanda verið vel kunnugt um það frá upphafi málsins. Þá sé harðlega mótmælt þeim tilefnislausu fullyrðingum, sem fram komi í stefnu, um að starfsmenn Reviva Capital vinni nú að innheimtu krafna bankans upp á hlut og hafi beinna og persónulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málinu. Á það sé bent að aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, sé beinn aðili að þessu máli og hafi frá upphafi gert kröfu um að aðalstefnandi greiddi skuldbindingar sínar í svissneskum frönkum og hafi engin breyting orðið á þeirri afstöðu bankans frá því lánið var veitt. Lögð sé áhersla á að starfsmenn Reviva Capital hafi enga beina og persónulega hagsmuni af máli þessu.

Aðalstefndi kveðst mótmæla fullyrðingum í stefnu um að höfuðstóll lánsins sé 234 milljónir íslenskra króna. Lánið hafi verið veitt í svissneskum frönkum og hafi höfuðstóll þeirra lána annars vegar hinn 13. ágúst 2007 verið 2.178.770,98 svissneskir frankar og hins vegar hinn 17. október 2007, verið 2.293.218,35 svissneskir frankar. Höfuðstóll lánsins hafi því samanlagt verið 4.471.989,30 svissneskir frankar og hafi hann verið þannig tilgreindur í þeim gögnum og yfirlitum, sem aðalstefnandi fékk reglulega frá aðalstefnda á lánstímanum, eins og gögn málsins beri með sér.

Aðalstefndi bendir á að aðalkrafa aðalstefnanda í málinu snúi að aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, en ekki aðalstefnda, Íslandsbanka hf., sem þó hafi orðið gerðarþoli í lögbannsmálinu hjá sýslumanni. Í þessu felist stórkostlegur galli á framsetningu dómkröfunnar þar sem ekki sé hægt að krefjast viðurkenningar á réttarstöðu milli aðalstefnanda og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, á grundvelli lögbanns sem aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, hafi ekki verið aðili að. Þá hafi aðalstefnandi ekki gert tilraun til að sundurliða eða rökstyðja þær fullyrðingar sínar að hún hafi þegar greitt alla skuld sína við aðalstefnda og sé engan slíkan tölulegan rökstuðning að finna í málinu. Sé krafa hennar því vanreifuð að þessu leyti. Heimild til að krefjast viðurkenningar á rétti á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga 91/1991 takmarkist við að aðalstefnandi geti sannað réttmæti kröfu sinnar, þ.m.t. að skuld sé ekki til staðar. Aðalstefnandi reyni það ekki og því uppfylli viðurkenningarkrafa hennar ekki skilyrði laga um skýrleika. Sé því ekki hægt að fallast á kröfur aðalstefnanda í málinu að þessu leyti og því verði að sýkna aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, af þessari kröfu.

a. Aðalkrafa aðalstefnanda um staðfestingu lögbanns

Af hálfu aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, er þessari kröfu mótmælt sérstaklega. Bent er á að þrátt fyrir að aðalstefndi hafi átt þá hagsmuni, sem til umfjöllunar voru þegar lögbannskrafa aðalstefnanda var tekin fyrir hjá sýslumanni, hafi aðalstefnda ekki verið gefinn kostur á því að vera viðstaddur eða koma að sínum sjónarmiðum við meðferð lögbannsmálsins. Þannig hafi ekki verið farið að ákvæðum laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu og lögbann, m.a. ákvæði 26. gr. þar sem aðalstefndi hafi augljóslega verið gerðarþolinn í málinu en ekki aðalstefndi, Íslandsbanki hf., sem lögbannsmálinu hafi þó verið beint gegn. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefði átt að vísa málinu frá þar sem réttur aðili var ekki tilgreindur sem gerðarþoli í beiðni aðalstefnanda. Þá hafi heldur ekki verið farið að ákvæðum 27. gr., sbr. 9. gr., laganna þegar krafan hafi ekki verið kynnt aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, eins og sýslumanni hafi þó verið skylt að gera með hliðsjón af því hvers hagsmunir voru til umfjöllunar í lögbannsbeiðninni. Af hálfu aðalstefnda sé af þessum ástæðum á því byggt að lögbann það, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á samkvæmt beiðni aðalstefnanda 17. september 2010, hafi verið ólöglegt þar sem það sé í andstöðu við reglur laga um kyrrsetningu og lögbann, sérstaklega 9., 26., 27. og 36. gr. laganna, og hafi farið í bága við réttindi aðalstefnda og brotið gegn ákvæðum laga og stjórnarskrár um vernd eignarréttinda. Aðalstefnda hafi með lögbanninu verið gert ómögulegt að neyta réttinda sem hann átti tilkall til samkvæmt skýrum og ótvíræðum samningi sínum við aðalstefnanda. Þar sem lögbannið hafi verið lagt á í andstöðu við ákvæði laga um kyrrsetningu og lögbann, sé það að engu hafandi gagnvart aðalstefnda og því verði að hafna kröfum aðalstefnanda um staðfestingu á lögbanninu gagnvart aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Þá sé lögbannið byggt á röngum forsendum þar sem ekki sé fótur fyrir þeim fullyrðingum aðalstefnanda að hún hafi þegar greitt upp skuldir sínar við aðalstefnda og vísist til þess sem þegar hefur verið rakið í því sambandi.

Þá bendir aðalstefndi á að aðalstefnandi geri enga tilraun til að sanna þá staðhæfingu sína með tölum að hún hafi þegar greitt að fullu skuld sína við aðalstefnda. Þannig sé hvergi í stefnu að finna sundurliðun á þeim greiðslum sem aðalstefnandi hafi greitt af láninu, hvorki í íslenskum krónum né öðrum myntum. Krafa aðalstefnanda um staðfestingu á þessum forsendum sé vanreifuð og verði því ekki á hana fallist.

Þá sé því hafnað að hætta sé á að aðalstefnandi tapi meintri kröfu sinni á hendur aðalstefnda þar sem hann sé þrotabú og því sé hætta á að aðalstefnandi fái aðeins hluta kröfu sinnar greiddan úr þrotabúinu þegar til úthlutunar komi úr því. Ekkert sé komið fram í málinu, sem styðji þessar fullyrðingar aðalstefnanda, hvorki um hina meintu kröfu hennar á aðalstefnda né hina meintu tapshættu sem aðalstefnandi kveðst vera í og sé þeim mótmælt. Bendir aðalstefndi á að hann sé í hefðbundinni slitameðferð í samræmi við ákvæði laga í Lúxemborg.

Aðalstefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um að óheimilt sé að selja eignir aðalstefnanda til fullnustu kröfunnar þvert á vilja hennar. Í samningi þeim, sem aðalstefnandi undirritaði hinn 3. febrúar 2010 við aðalstefndu hafi aðalstefnandi veitt aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, fullt og ótakmarkað umboð til þess að fara með og ráðstafa með hvaða hætti sem hann taldi nauðsynlegt, þar með talið selja eða ráðstafa með öðrum hætti, öllum þeim eignum, sem aðalstefnandi setti honum að veði með samningnum, sbr. gr. 4.1, 6.2 og 7 í samningnum frá 3. febrúar 2010. Þær heimildir, sem aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, hafi verið fengnar með samningi aðila, hafi á allan hátt verið eðlilegar og hafi falið í sér sams konar eða svipaðar heimildir og aðalstefnandi hefði áður samþykkt og veitt aðalstefnda og verið í fullu samræmi við ákvæði laga. Brjóti þær á engan hátt gegn grundvallarreglum réttarríkis. Bendir aðalstefndi loks á að samningur sá, sem falið hafi í sér veðsetningu eigna aðalstefnanda til aðalstefnda, hafi verið gerður að frumkvæði aðalstefnanda og að hennar beiðni og í samráði við og að ósk hinna sérfróðu fulltrúa aðalstefnanda, sem hún hafi haft sér til ráðgjafar í málinu.

Varakrafa aðalstefnanda um viðurkenningu á því að ólögmætt sé að selja veðsettar eignir hennar samkvæmt veðsamningi með öðrum hætti en samkvæmt ákvæðum nauðungarsölulaga

Aðalstefndi mótmælir sjónarmiðum aðalstefnanda í þessum kröfulið. Gögn málsins sýni að aðilar hafi þegar í upphafi viðskiptasambands síns gert samning um að aðalstefnandi setti að veði til tryggingar skuldbindingum sínum við bankann, innstæður og eignir, sem bankinn hefði í vörslum sínum fyrir hönd aðalstefnanda. Þannig hafi hinn 10. apríl 2007 verið gerður almennur veðsamningur (General Pledge Agreement) milli aðila. Samkvæmt honum hafi aðalstefndi haft fulla heimild til að taka til sín hið veðsetta og ráðstafa því í sína þágu í samræmi við ákvæði gildandi laga. Sérstaklega sé fjallað um heimildir varðandi eignir, sem ekki séu skráðar á markaði (non-listed financial instruments), og komi þar fram að aðalstefnda sé heimilt að ganga að viðkomandi eignum á bókfærðu verði þeirra eða selja það til óháðs þriðja aðila. 

Í þeim veðsamningi, sem gerður hafi verið hinn 24. júlí 2007,  komi fram að aðalstefnandi setji að veði þær eignir sem hún setti í vörslur til Askar Captial hf., samtals að verðmæti 400 milljónir króna. Í ákvæði 4.1 sé fjallað um það ef bankinn sem veðhafi þurfi að ganga að veðinu. Þar komi skýrt fram að bankanum sé heimilt, komi til vanefnda af hálfu aðalstefnanda, án þess að þurfa að tilkynna það sérstaklega, að taka í vörslur sínar eða ráðstafa hinum veðsettu eignum á móti skuldbindingum aðalstefnanda við aðalstefnda. Með undirritun sinni á samninginn, hafi aðalstefnandi veitt aðalstefnda fulla og ótakmarkaða heimild til að taka til sín ofangreindar eignir og ráðstafa þeim til greiðslu á skuldbindingum aðalstefnanda við bankann. Þetta hafi aðalstefnandi einnig staðfest í tilkynningu, sem hún ritaði undir samhliða samningnum og var send á Askar Capital hf. (Notification of Pledge and Assignment). Þar komi skýrt fram að aðalstefnandi hafi til hagsbóta fyrir bankann stofnað til veðs yfir öllum eignum, sem Askar Capital hf. hafi tekið við eða muni taka við á grundvelli fjárvörslusamnings, og auk þess framselt til aðalstefnda öll núverandi og framtíðarréttindi og greiðslur sem hún eigi rétt til samkvæmt skilmálum fjárvörslusamningsins við Askar Capital hf.

Þá hafi aðalstefnandi hinn 27. júlí 2007 skrifað undir handveðsyfirlýsingu vegna allsherjarveðs þar sem innstæða hennar á reikningi hennar við Glitni Bank hf. á Íslandi nr. 515-4-250026 hafi verið sett að veði til tryggingar skuldbindingum hennar við aðalstefnda. Í handveðsyfirlýsingunni komi skýrt fram að verði vanskil á greiðslu skulda, sem handveðinu sé ætlað að tryggja, eða verði aðrar vanefndir á skyldum stefnanda gagnvart aðalstefnda, sé veðhafa heimilt að ráðstafa hinu veðsetta til greiðslu skulda aðalstefnanda við aðalstefnda, í heild eða að hluta, allt að vali veðhafa/aðalstefnda, fyrirvaralaust og án viðvörunar.

Með samningi, dagsettum 3. febrúar 2010, hafi aðalstefnandi sett að veði allar eignir, sem til staðar hafi verið á reikningi nr. 77395 hjá Íslandsbanka hf. í Reykjavík.  Þær eignir hafi verið að verðmæti 280 milljónir króna, annars vegar Veltusafn 140 milljónir króna og hins vegar Ríkissafn 140 milljónir króna. Þessi verðmæti hafi verið sett aðalstefnda að veði vegna þeirra skuldbindinga, sem aðalstefnandi hafi enn átt óuppgerðar við hann. Í ákvæði 4.1 í samningnum komi fram að aðalstefnandi skuldbindi sig til að gera hvað eina eða heimila aðalstefnda að gera hvað eina sem aðalstefndi telji nauðsynlegt að gert sé varðandi réttindi og heimildir skráðs eiganda hinna veðsettu eigna, þ.m.t. ráðstöfun þeirra til greiðslu á skuldbindingum aðalstefnanda við aðalstefnda. Í ákvæði 6.1 lýsi aðalstefnandi því enn fremur yfir að hún muni skrifa undir, framkvæma eða gera annað það, sem aðalstefndi telji nauðsynlegt til að stofna til, fullnusta, varðveita eða ráðstafa réttindum aðalstefnda samkvæmt samningnum eða öðrum tengdum samningum. Enn fremur tilnefni aðalstefnandi aðalstefnda sem umboðsmann sinn og fulltrúa og heimili honum að skrifa undir, framkvæma, staðfesta, afhenda og gera allt annað það, sem aðalstefnandi sé skuldbundinn til að gera samkvæmt samningnum. Í ákvæði 7. greinar í samningnum segi jafnframt að standi aðalstefnandi ekki í skilum með skuldbindingar sínar gagnvart aðalstefnda, verði heimildir aðalstefnda samkvæmt samningnum þá þegar virkar og sé aðalstefnda þá heimilt að selja eða ráðstafa með öðrum hætti öllum þeim eignum, sem honum hafi verið settar að veði, við því verði og skilmálum sem aðalstefndi metur ásættanlegt. 

Aðalstefndi mótmælir því, að hann þurfi að nýta sér heimildir laga um nauðungarsölu til að geta tekið hin veðsettu verðmæti í sínar vörslur eða ráðstafað þeim með öðrum hætti. Fyrir liggi í málinu fjöldi skuldbindinga af hálfu aðalstefnanda sem feli í sér fullgilda ráðstöfun hins veðsetta í þágu aðalstefnda. Sé jafnframt vísað til þess að ákvæði laga um nauðungarsölu eigi aðeins við þegar ekki liggi fyrir ótvíræð skuldbinding til handa veðhafa um nýtingu og ráðstöfun hins veðsetta. Í 1. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 komi fram að þau fjalli um það þegar eign sé ráðstafað án tillits til vilja eigandans. Í máli þessu liggi hins vegar fyrir ótvíræður vilji aðalstefnanda þar sem hún heimili aðalstefnda að ráðstafa hinu veðsetta með þeim hætti sem hann ákveður. Ákvæðum laganna um nauðungarsölu sé ekki ætlað að taka til allra þeirra tilvika þar sem eign sé boðin til sölu af öðrum en eiganda hennar og eigi þau einfaldlega ekki við í málinu. Horfa verði til þess að hér sé ekki einvörðungu um að ræða veðsetningu tiltekinnar eignar aðalstefnanda. Ef einungis væri um að ræða slíka ráðstöfun í samningum aðila, þyrfti aðalstefndi að reiða sig á ákvæði laga um nauðungarsölu til að geta fullnustað eignina í sína þágu. Þar sem skuldbinding stefnanda hafi einnig falið í sér heimildir til handa aðalstefnda að annast um ráðstöfun eignanna eigi hvorki né þurfi að beita ákvæðum laga um nauðungarsölu í málinu.

Aðalstefndi leggur áherslu á að báðar þær eignir, sem aðalstefnandi setti aðalstefnda að veði, þ.e. innstæða í Veltusafni og innstæða í Ríkissafni, séu í skráðum sjóðum Íslandsbanka. Séu sjóðirnir skráðir opinberlega og viðskipti með innstæður í þessum sjóðum sé algeng og auðvelt að fá upplýsingar um verðmæti þeirra á hverjum tíma. Þannig sé gengi þeirra skráð opinberlega og ljóst að krafa aðalstefnda um innlausnir veða í eigu aðalstefnanda miðist við að verðmætin séu innleyst á því opinbera gengi sem gefið sé út af hálfu aðalstefnda, Íslandsbanka hf.  

Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að aðalstefnandi hafi ítrekað skuldbundið sig til þess að ráðstafa eða heimilað aðalstefnda að ráðstafa í sínu nafni og fyrir sína hönd þeim eignum, sem settar hefðu verið bankanum að veði. Verðmat á hinum veðsettu eignum sé opinbert og ekki háð neinni óvissu og því sé alls ekki hægt að fallast á þær kröfur aðalstefnanda að viðurkennt verði með dómi að ólögmætt sé að selja eignir hennar, án þess að farið sé að gildandi lögum um nauðungarsölu. Séu skuldbindingar aðalstefnanda samkvæmt samningum aðila í þessu sambandi ótvíræðar og mjög víðtækar og ekki nokkur vafi á því að aðalstefnandi sé skuldbundin til þess að heimila aðalstefnda að innleysa eða ráðstafa hinum veðsettu eignum til lúkningar á skuldbindingum hennar við aðalstefnda. 

Máltilbúnaði aðalstefnanda, um að ekki sé heimilt að selja eignir hennar nema við nauðungarsölu, sé mótmælt, enda ljóst að aðalstefndi hafi haft fulla heimild til að krefjast ráðstöfunar á eignunum í samræmi við ákvæði samnings aðila frá 3. febrúar 2010. Því sé alfarið hafnað að aðalstefndi hafi ætlað sér að innleysa eignir aðalstefnanda á lægra verði en markaðsvirði, enda ljóst að söluandvirði þeirra hefði ávallt miðast við skráð gengi þeirra sjóða, sem eignirnar voru lagðar í, en þær upplýsingar séu opinberar og hægt að nálgast þær á heimasíðu Íslandsbanka hf. án fyrirhafnar. Þá sé á það bent að það tíðkist alls ekki að verðmæti af því tagi, sem hér um ræði, séu seldar við nauðungarsölu, enda sé það fráleit leið við að innleysa umrædd verðmæti.

Skuldbindingar aðalstefnanda samkvæmt veðsamningi aðila séu í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 75/1997, um samningsveð, og hafi aðalstefndi fulla heimild til að nýta sér andvirði hins veðsetta til uppgjörs á skuld aðalstefnanda í samræmi við samkomulag þeirra.

Með lögum nr. 151/2010 hafi Alþingi samþykkt breytingar á ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, sem tekið hafi gildi 28. desember 2010.  Rétt sé að benda á að ákvæði þeirra laga hafi ekki áhrif á réttarstöðu aðila í þessu máli. Í fyrsta lagi sé samningur aðila ekki í íslenskum krónum og þá sé lánið til skemmri tíma en fimm ára og falli því heldur ekki undir það skilyrði laganna. Þar við bætist að lánið falli ekki undir skilgreiningu laganna þar sem það teljist ekki skuldbinding, sem falli undir 68. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003.

Aðalstefndi bendir á að flestar kröfur aðalstefnanda í málinu séu þeim annmörkum háðar að þeim sé ekki hægt að fullnægja með aðför, en það hljóti að vera eitt af meginmarkmiðum, sem höfðun staðfestingarmáls sé ætlað að ná samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990.

Aðalstefndi byggir kröfu sína um sýknu einkum á meginreglum fjármuna-, kröfu- og samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og einnig á reglum kröfuréttarins um fullnustu skuldbindinga og samninga, ákvæðum laga um samningsveð nr. 75/1997, sérstaklega ákvæðum 1., 10. 22., og 45. gr. sem og reglum veðréttarins um rétt kröfuhafa til að ganga að og fullnusta veðréttindi sem honum hafa verið veitt. Þá sé vísað til ákvæða laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 eins og þau voru þegar samningur aðila var gerður.

Þá byggir aðalstefndi á ákvæðum laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu og lögbann, sérstaklega 9., 26., 27. og 36. gr., sem og ákvæðum laganna um meðferð ágreiningsmála fyrir dómstólum. Jafnframt vísar aðalstefndi til ákvæða laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sérstaklega 1. greinar. Aðalstefndi vísar enn fremur til ákvæða laga nr. 38/2001, sérstaklega 13. og 14. gr., og enn fremur til ákvæða laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001. Um skilyrði til þess að hafa uppi viðurkenningarkröfu og skýrleika þeirra vísar aðalstefndi til ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og dómafordæma. Um málskostnað vísar aðalstefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga nr. 50/1988.

IV.

Málsástæður aðalstefnda, Íslandsbanka hf., í aðalsök

Aðalstefndi, Íslandsbanki hf., tekur ekki afstöðu til aðalkröfu aðalstefnanda um viðurkenningu. Að því er varðar kröfu aðalstefnanda um staðfestingu lögbanns og varakröfu vísar aðalstefndi til þess að ekkert í lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991, eða öðrum lagareglum, kveði á um að óheimilt sé að semja á annan veg en þar segi. Lög um nauðungarsölu séu heimildarlög sem veiti kröfuhöfum heimild til að leita fullnustu í eigum skuldara við nánar tilgreindar aðstæður, sbr. II. kafla laganna. Aðalstefnandi hafi ekki vísað til lagagreina sem styðji skilning hennar á lögunum að þessu leyti. Þá hafi aðalstefnandi ekki andmælt gildi veðyfirlýsingar þeirrar, sem krafan byggist á, og hún hafi skrifað undir án fyrirvara. Samkvæmt veðyfirlýsingunni, nánar tilgreint 7. gr. hennar, veiti hún kröfuhafa, Glitnir Bank Luxembourg SA, skilyrðislausa heimild til að selja þær eignir sem til tryggingar standa, án fyrirvara, tilkynningar og með þeim hætti sem kröfuhafi kýs, enda hafi skuldari vanefnt greiðslu. Samkvæmt 10 gr. veðyfirlýsingarinnar gangist aðalstefndi, Íslandsbanki hf., undir skyldur sem vörsluaðili þeirra eigna, sem settar séu að handveði, fyrir hönd lánveitanda, sem sé aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA. Beri Íslandsbanka hf. samkvæmt 10. gr. að hlíta fyrirmælum lánveitanda um alla meðferð eignanna. Samkvæmt grein 6.2. í veðyfirlýsingunni hafi lántaki skipað lánveitanda umboðsmann (Power of attorney) til að skrifa undir, framkvæma, staðfesta, afhenda og gera hvaðeina annað sem lántaka sé skylt að gera samkvæmt veðyfirlýsingunni. Lánveitandi hafi lýst því yfir að vanefnd hafi orðið samkvæmt þeim samningi, sem veðinu sé ætlað að tryggja. Samkvæmt veðyfirlýsingunni hafi lánveitandi því skýlausa heimild til að selja þær eignir sem að veði standa og sé aðalstefnda, Íslandsbanka hf., skylt að verða við þeim tilmælum lánveitanda.

Að íslenskum rétti verði samningsfrelsi manna ekki takmarkað nema með skýrum lagaákvæðum. Aðalstefnandi hafi ekki vísað til neinna lagafyrirmæla sem meini henni að semja með þeim hætti sem hún gerði. Veðyfirlýsing aðalstefnanda sé fyrirvaralaus og því líti aðalstefndi, Íslandsbanki hf., svo á að honum sé skylt að fara að þeim fyrirmælum, sem borist hafi frá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, með vísan til veðyfirlýsingarinnar.

Um lagarök vísar aðalstefndi, Íslandsbanki hf., til laga 75/1997, um samningsveð, laga 90/1991, um nauðungarsölu, og meginreglu íslensks réttar um samningafrelsi, sbr. og 1. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr.7/1936. Um málskostnaðarkröfur er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

Málsástæður gagnstefnanda í gagnsök

Gagnstefnandi byggir stefnukröfur sínar á almennum reglum fjármuna- og kröfuréttar um ábyrgð og efndir á fjárskuldbindingum og skuldbindingargildi samninga, sem og reglum samningaréttar um efndir in natura. 

Með samningi um lánalínu, dagsettum 24. júlí 2007, hafi gagnstefnda skuldbundið sig til að greiða til gagnstefnanda höfuðstól og vexti af láni því, sem gagnstefnda tæki að láni hjá gagnstefnanda á grundvelli samningsins. Lokagjalddagi lánsins skyldi vera þremur árum frá upphaflegri lántöku. Gagnstefnda hafi nýtt sér heimild í samningnum til að taka að láni hjá gagnstefnanda í tveimur hlutum lán samtals að fjárhæð 4.471.989,30 svissneskir frankar. Fyrri hluti lánsins hafi verið tekinn hinn 13. ágúst 2007 og sé lokagjalddagi lánsins því samkvæmt þessu 13. ágúst 2010. Samkvæmt ákvæði 7.5 í samningnum skyldi gagnstefnda endurgreiða afborganir lánsins og vexti til gagnstefnanda í þeirri sömu mynt og lánið hafði verið tekið.

Gagnstefnda hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt umræddum samningi og þannig vanefnt hann með ólögmætum hætti. Liggi fyrir að til staðar sé í málinu fullgildur samningur milli gagnstefndu og gagnstefnanda þar sem gagnstefnandi hafi skuldbundið sig til að lána og gagnstefnda hafði þann kost að taka að láni svissneska franka á lánakjörum sem tilgreind voru í samræmi við þau vaxtakjör sem í boði voru á alþjóðlegum lánamörkuðum fyrir lán í svissneskum frönkum. Samningurinn hafi kveðið á um að lánsheimild til handa gagnstefndu næmi þó að hámarki jafnvirði 234 milljónum íslenskra króna. Eina ástæðan fyrir tilgreiningu á hámarksfjárhæð lánalínusamningsins í íslenskum krónum hafi verið sú aðferðafræði ráðgjafa gagnstefndu að reikna eignasafn hennar í íslenskum krónum og sú staðreynd að samkomulag hennar við Askar Capital hf. hafi kveðið á um að hún legði fram jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Það fyrirkomulag hafi verið gagnstefnanda óviðkomandi, enda hafi hann aldrei tekið að sér að veita gagnstefndu lán í íslenskum krónum, né heldur hafi það verið ætlun gagnstefndu að fá lán í íslenskum krónum, eins og skýrt komi fram í gögnum málsins. Sé þetta ljóst bæði af tölvupóstsamskiptum af hálfu gagnstefndu og fulltrúa hennar við bankann sem og öðrum gögnum, s.s. upphaflegum samningum milli aðila, sem gerðir hafi verið á árinu 2007, bankayfirlitum þar sem allar fjárhæðir lánsins séu ávallt tilgreindar í svissneskum frönkum, sem og þeim greiðslum, sem gagnstefnda hafi innt af hendi síðan lánið var veitt. Allar þessar greiðslur hafi farið fram í svissneskum frönkum.

Af hálfu gagnstefnanda sé lögð áhersla á að lánalínusamningur sá, sem undirritaður var af hálfu aðila hinn 24. júlí 2007, sé ekki lánasamningur í hefðbundnum skilningi. Þar sé um að ræða samning aðila, sem feli í sér skuldbindingu af hálfu bankans til að veita gagnaðila tiltekna lánafyrirgreiðslu, á tilteknu formi, í tiltekinni mynt og á tilteknum kjörum. Hin eiginlega lántaka fari síðan fram þegar lántakinn óski eftir að nýta sér þá heimild, sem samið hafi verið um að til staðar væri. Hver nýting lánsheimildar samkvæmt lánalínusamningnum sé skilgreind sem lán. Höfuðstóll þeirrar heimildar, sem nýtt sé hverju sinni, sé tilgreindur í þeirri mynt sem lántakinn hafi kosið að fá lán sitt greitt út í hverju sinni. Sú fjárhæð, sem þannig sé tekin að láni hjá bankanum, teljist lánsfjárhæðin hverju sinni. Í umþrættum samningi aðila komi skýrt fram í ákvæði 1. greinar hans að gagnstefnda hafi aðeins getað fengið lánið greitt út í svissneskum frönkum. Gagnstefnda hafi því ekki átt val um það í hvaða mynt hún tók lánið og henni hafi aldrei staðið til boða að nýta lánsheimild samkvæmt samningnum í íslenskum krónum. Í þessu sambandi sé áréttað að lánin til gagnstefndu hafi verið greidd út í svissneskum frönkum samkvæmt tilvísun hennar og þau hafi verið lögð inn á gjaldeyrisreikning í eigu Askar Capital hf. í svissneskum frönkum. Hvað gagnstefnda eða fulltrúar hennar hafi gert við féð eftir það, eða hvernig því hafi verið ráðstafað, hafi ekki verið á ábyrgð gagnstefnanda.

Þá byggir gagnstefnandi mál sitt á því að á gagnstefndu hvíli ótvíræð skylda samkvæmt grein 7.5 í samningnum frá 24. júlí 2007 til að endurgreiða bæði höfuðstól og vexti af hverju láni í þeirri mynt sem það var veitt. Lánið hafi verið veitt í svissneskum frönkum og því sé höfð uppi krafa í þeirri mynt. Bent sé á að gagnstefnda hafi aldrei efast um skyldur sínar til að inna af hendi greiðslu vaxta og innborgana á lánið í svissneskum frönkum og því hafi það komið gagnstefnanda mjög á óvart þegar gagnstefnda reyndi að bera það fyrir sig, fimm dögum fyrir lokagjalddaga lánsins, að það væri í íslenskum krónum en ekki í svissneskum frönkum.

Því sé mótmælt að gagnstefndu hafi ekki verið strax frá upphafi ljóst að skuldbindingar hennar við gagnstefnanda væru í svissneskum frönkum. Í því sambandi sé bent á að vaxtakjör séu samkvæmt ákvæði 7.1 í samningnum skilgreind sem LIBOR-vextir með tilteknu álagi. LIBOR-vextir séu ekki reiknaðir á skuldbindingar í íslenskum krónum og því geti gagnstefnda alls ekki staðið í þeirri trú að skuldbindingar hennar við gagnstefnanda hafi verið í íslenskum krónum.

Þá er á því byggt að jafnvel þótt gagnstefnda hefði einhverju sinni verið í vafa um mynt skuldbindingar sinnar gagnvart gagnstefnanda, hafi þeim vafa verið eytt þegar gagnstefndu og umboðsmanni hennar voru send lánayfirlit og önnur yfirlit um stöðu skuldbindinga gagnstefndu við bankann. Af gögnum málsins sé ljóst að auk þess að óska eftir lánafyrirgreiðslu í svissneskum frönkum, hafi gagnstefndu sjálfri og umboðsmanni hennar reglulega verið send lánayfirlit þar sem fram kom að um skuldbindingar í svissneskum frönkum var að ræða. Í þessu sambandi sé bent á að samkvæmt skilmálum lánalínusamningsins frá 24. júlí 2007 séu það reikningar og önnur gögn, sem gagnstefnandi haldi um stöðu skuldarinnar, sem gildi sem sönnun fyrir tilvist og fjárhæð skuldar gagnstefndu við gagnstefnanda hverju sinni, sbr. 12. grein samningsins. Jafnvel þótt gagnstefnda hafi fengið fjölmörg yfirlit send frá gagnstefnanda eftir að lánin voru veitt, þar sem skuld hennar hafi jafnan verið tilgreind í svissneskum frönkum, hafi það ekki verið fyrr en fimm dögum fyrir lokagjalddaga lánsins hinn 8. ágúst 2010 sem umboðsmaður gagnstefndu hafi borið það fyrir sig að skuld hennar væri ekki í svissneskum frönkum heldur íslenskum krónum. Þá liggi fyrir fjöldi tölvupósta þar sem umboðsmaður gagnstefndu fjalli um skuldbindingar hennar í svissneskum frönkum og möguleika hennar á að fá yfirfærslu úr íslenskum krónum í svissneska franka til að geta staðið skil á skuldbindingum sínum við gagnstefnanda.  Samkvæmt almennum skilmálum og reglum bankans, sem bæði gagnstefnda sjálf og umboðsmaður hennar hafi undirritað hinn 10. apríl 2007, en þær reglur gilda um samskipti og skuldbindingar gagnstefndu og gagnstefnanda og réttarsamband þeirra, komi skýrt fram í 4. grein að hafi gagnstefnda eða umboðsmaður hennar haft ástæðu til að gera athugasemdir við reikningsyfirlit eða önnur gögn, sem stöfuðu frá gagnstefnanda, hafi þeim borið að gera þá þegar athugasemdir þar um. Engar slíkar athugasemdir eða mótmæli hafi borist við þeim fjölmörgu yfirlitum sem gagnstefndu og umboðsmanni hennar voru send af hálfu starfsmanna gagnstefnanda.

Fjölmörg atriði í málinu staðfesti að gagnstefnda hafi frá upphafi gert sér fulla grein fyrir og vitað að skuldbindingar hennar við bankann voru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum. Þá hafi hún viðurkennt með aðgerðum sínum og/eða eftir atvikum aðgerðarleysi að skuldbindingar hennar við bankann væru í svissneskum frönkum. Í þessu sambandi megi í fyrsta lagi benda á, að hafi gagnstefnda í raun og veru staðið í þeirri trú að hún væri einungis að taka að láni hjá bankanum 234 milljónir íslenskra króna, og alls ekki ætlað sér að taka neina gengisáhættu í málinu, sé óútskýrt af hverju hún lagði fram sem tryggingu fyrir skilvísri endurgreiðslu lánsins veð að verðmæti nærri þreföldu andvirði þess fjár sem hún gat tekið að láni frá gagnstefnanda. Þannig hafi gagnstefnda sett að veði allt fé, sem hún hafði lagt í vörslur til Askar Capital hf. að verðmæti 400 miljónir króna, veð í fasteign sinni að Háteigsvegi 32, að fjárhæð 115 milljónir króna, og innstæðu sína hjá Glitni Banka hf. á Íslandi, að lágmarksverðmæti 70 milljónir króna, samtals 585 miljónir króna.

Í öðru lagi megi benda á að gagnstefnda gerði hinn 4. febrúar 2009 sérstakan samning við gagnstefnanda (Memorandum of Understanding), sem enn sé í fullu gildi, þar sem kveðið sé á um skyldu gagnstefndu til að greiða gagnstefnanda jafnvirði 320 milljóna íslenskra króna, eigi síðar en 28. febrúar 2009 og síðan eftirstöðvar skuldarinnar við gagnstefnanda eigi síðar en á lokagjalddaga hennar, þ.e. 13. ágúst 2010. Ljóst sé að gagnstefnda hafi í febrúar 2009 enga ástæðu haft til að semja um að greiða til gagnstefnanda 320 milljónir króna og auk þess ógreiddar eftirstöðvar lánsins í ágúst 2010 ef skuld hennar við bankann gat að hámarki numið 234 milljónum íslenskra króna. Sérstaklega þegar horft sé til þess að hún hafði skömmu áður, þ.e. 8. janúar 2009, greitt 1.086.351,25 svissneska franka inn á höfuðstól skuldar sinnar við gagnstefnanda. Sé eitthvað að marka fullyrðingar gagnstefndu um að hún hafi talið skuldbindingar sínar í íslenskum krónum, hefði þessi inngreiðsla þýtt að skuld hennar næmi miklum mun lægri fjárhæð en 320 miljónum króna og því ekkert tilefni af hennar hálfu til að gangast undir skuldbindingar um greiðslu á þeirri fjárhæð, auk annarra eftirstöðva til gagnstefnanda. Aðgerðir gagnstefndu í febrúar 2009 séu í algerri mótsögn við þær fullyrðingar, sem nú sé haldið fram af hennar hálfu í málinu, enda sýni þessi samningur svo ekki verði um villst að gagnstefndu hafi verið fullkunnugt um að skuldbindingar hennar við gagnstefnanda voru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum. 

Í þriðja lagi sé á því byggt af hálfu gagnstefnanda að þær aðgerðir gagnstefndu að gera hinn 3. febrúar 2010 samning við gagnstefnanda og Íslandsbanka hf. um að setja sem tryggingu fyrir greiðslu skuldbindinga sinna gagnvart gagnstefnanda eignir sínar í vörslum Íslandsbanka hf., samtals að verðmæti 280 miljónir króna, annars vegar í Veltusafni 140 miljónir króna og hins vegar 140 miljónir króna í Ríkissafni, sýni, svo ekki verði um villst, að gagnstefnda hafi gert sér fulla grein fyrir umfangi og eðli skuldbindinga sinna við gagnstefnanda og þá sérstaklega að skuldbindingar hennar voru í svissneskum frönkum en ekki í íslenskum krónum

Af öllu framangreindu er ljóst að mati gagnstefnanda að hér hafi verið um að ræða lán í erlendri mynt en gagnstefndu hafi verið fullkomlega heimilt að taka lán í erlendri mynt á þeim tíma sem samningur aðila var gerður. Á því sviði gildi frelsi til samninga og engin ákvæði laga stóðu í vegi fyrir því að aðilar gerðu slíkan samning samkvæmt íslenskum lögum. Því sé hafnað að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banni eða takmarki heimildir aðila til að gera slíkan samning. Ekki hafi verið bannað að taka lán í erlendri mynt, sbr. lög um gjaldeyrismál nr. 87/1992, eins og þau voru þegar samningur aðila var gerður. Þá sé því hafnað að tilgreining á jafnvirði í krónum hafi fali í sér hámark lánsfjárhæðar gagnvart hinni erlendu mynt á hverjum tíma.

Af hálfu gagnstefnanda er einnig byggt á því að gagnstefnda hafi ítrekað tekist á hendur fullgildar skuldbindingar til greiðslu á fé, sem hún hafi fengið að láni frá gagnstefnanda. Þær samningsskuldbindingar verði gagnstefnda að virða í samræmi við meginreglur fjármuna- og kröfuréttar og reglur samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.

Krafa gagnstefnanda um dráttarvexti byggir á samkomulaginu frá 24. júlí 2007. Þar komi fram í grein 7.4 að komi til vanefnda af hálfu skuldara skuli gagnstefnda greiða gagnstefnanda dráttarvexti af skuld sinni eftir gjalddaga og skuli sú fjárhæð nema samanlagðri prósentu i) Libor-vaxta á svissneskan franka á hverjum tíma ii) umsömdu vaxtaálagi 2,2% og iii) 3% vanefndaálagi. Samkvæmt ákvæði greinar 6.1 skuli hvert vaxtatímabil vera sex mánuðir. Lánið hafi upphaflega verið tekið hinn 13. ágúst 2007 og hafi vextir síðan verið greiddir af því á 6 mánaða fresti, allt til lokagjalddaga þess í ágúst 2010. Hinn 13. ágúst 2010 hafi hafist nýtt vaxtatímabil og hafi vextir lánsins þá verið ákveðnir 5,438330 % í samræmi við ákvæði samningsins, sem skiptust þannig i) Libor á svissneska franka hinn 13.8.2010 0,238330 ii) umsamið vaxtaálag 2,2% og iii) vaxtaálag vegna vanefnda 3%.

Upphafsdagur dráttarvaxta samkvæmt grein 7.4 sé 1. september 2010 en þann dag hafi gagnstefnda greitt inn á skuld sína við bankann og hafi þeirri inngreiðslu verið varið til greiðslu uppsafnaðra vaxta og inngreiðslu á höfuðstól skuldarinnar, þannig að eftir hafi staðið sú fjárhæð, sem gagnstefnda sé krafin um greiðslu á í máli þessu.

Um lagarök vísar gagnstefnandi til almennra reglna fjármuna- og kröfuréttar um ábyrgð og efndir á fjárskuldbindingum og skuldbindingargildi samninga sem og reglna samningaréttar um efndir in natura og heimildir manna til að semja sín á milli um skuldbindingar sínar á grundvelli reglna um samningsfrelsi, sbr. ákvæði laga nr. 7/1936. Þá vísar gagnstefnandi til ákvæða gjaldeyrislaga nr. 87/1992 og ákvæða laga nr. 38/2001, m.a. 13. og 14. gr. Einnig sé vísað til ákvæða laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann. Kröfu um dráttarvexti byggir gagnstefnandi á ákvæðum laga nr. 38/2001, sérstaklega ákvæði 5. gr., en í samningi aðila hafi verið samið um greiðslu dráttarvaxta kæmi til vanefnda af hálfu skuldara. Um varnarþing vísast til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Um heimild til höfðunar gagnsakarmáls vísar gagnstefnandi til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Sé á því byggt að þær kröfur, sem hafðar séu upp í máli þessu, séu samrættar kröfum í aðalsök, þ.e. kröfurnar eigi allar rætur að rekja til samnings, dagsetts 24. júlí 2007, um lánalínu (e. Facility Agreement), sem gagnstefnandi hafi veitt gagnstefndu og gagnstefnda nýtti sér með lántökum í ágúst og október 2007.  Krafa gagnstefnanda sé höfð uppi í málinu til sjálfstæðs dóms á hendur gagnstefndu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Um heimild til að hafa uppi kröfu um viðurkenningu á skyldum gagnstefndu sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga 91/1991. Kröfu um málskostnað reisir gagnstefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt af málskostnaði á lögum nr. 50/1988.

VI.

Málsástæður gagnstefndu í gagnsök

Sýknukrafa gagnstefndu byggir á því að skuld hennar við gagnstefnanda sé að fullu greidd, enda hafi gagnstefnda þegar greitt gagnstefnanda umsaminn höfuðstól lánssamnings milli aðila, frá 24. júlí 2007, ásamt vöxtum. Gagnstefnandi eigi því ekki kröfu á gagnstefndu og beri því að sýkna hana.

Krafa gagnstefnanda á hendur gagnstefndu byggir á því að höfuðstóll þess láns, sem gagnstefnda fékk hjá gagnstefnanda árið 2007, sé í svissneskum frönkum og að gagnstefndu beri að endurgreiða jafnmarga svissneska franka og hún fékk að láni árið 2007. Gagnstefnda mótmælir þeim skilningi gagnstefnanda, að ákvæði lánssamnings aðila frá 24. júlí 2007, um að gagnstefnda skuli endurgreiða gagnstefnanda lánsfjárhæðina í sömu mynt og hún var greidd út, jafngildi því að höfuðstóll lánsins sé í svissneskum frönkum eða að hún hafi tekið svissneska franka að láni. Hið rétta sé, eins og samningur aðila kveður skýrt á um, að gagnstefnda hafi fengið að láni fjárhæð sem samsvarar 234 milljónum íslenskra króna. Það sé sá höfuðstóll, sem gagnstefnda hafi samið um við gagnstefnanda að fá lánaðan og endurgreiða. Þann höfuðstól beri henni að greiða til baka og ekkert umfram það, nema vexti af höfuðstólnum. Hvort tveggja hafi gagnstefnda greitt nú þegar. Engu breyti með hvaða gjaldmiðli endurgreiða átti lánið.

Í umræddum lánssamningi aðila komi fram á bls. 1, að gagnstefnandi samþykki að lána gagnstefndu fjárhæð er jafngildi 234 milljónum íslenskra króna. Vísað er til þessa láns sem „Term Loan Facility“, eða tímabundið lán að ákveðinni fjárhæð með ákveðnum skilmálum. Í skilgreiningum samningsins á bls. 1 sé lánið sjálft (e. Facility) skilgreint sem „lán eins og það er skilgreint í 2. gr. samningsins“. Í 2. gr. samningsins sé lánið síðan skilgreint sem lán að hámarki þeirrar fjárhæðar, sem skilgreind sé í samningnum sem „Facility Amount“, eða lánsfjárhæð. Í skilgreiningum samningsins á bls. 1 sé „Facility Amount“ síðan skilgreind sem fjárhæð, er jafngildi 234 milljónum íslenskra króna. Í gr. 5 í samningnum komi síðan skýrt fram, að lántaka beri aðeins að endurgreiða „The Facility“.

Með vísan til þess að „The Facility“ sé í samningnum skilgreint jafnvirði 234 milljóna króna og lántaka beri aðeins að endurgreiða „The Facility“, sé ljóst að lántaka beri aðeins að endurgreiða fjárhæð sem jafngildir 234 milljónum íslenskra króna. Henni beri ekki að greiða neitt, sem ekki sé kveðið á um í samningnum. Út frá þessu hafi gagnstefnda gengið. Sé þá átt við höfuðstól lánsins, auk vaxta eins og mælt sé fyrir um í samningnum. Hvergi í samningnum sé hins vegar vikið að því að lántaki skuli endurgreiða sömu fjárhæð og greidd var út í svissneskum frönkum, enda komi hvergi fram í samningnum hversu háa fjárhæð í svissneskum frönkum gagnstefnda ætti þá að endurgreiða. Eingöngu sé kveðið á um að gagnstefndu beri að endurgreiða jafnvirði 234 milljóna króna og að sú endurgreiðsla skuli fara fram í ákveðinni mynt. Ekki sé því deilt um, að með framangreindum hætti felist gengisáhætta í samningnum en hún hvíli hins vegar öll á gagnstefnanda sjálfum en ekki á gagnstefndu.

Samningur aðila sé svipaður þeim sem hérlendis hafi verið kallaðir gengistryggð erlend lán. Eini munurinn sé að gengisáhættan í þessum samningi sé hjá lánveitanda í stað lántaka. Fjárhæðin, sem gagnstefnda hafi fengið í hendur, jafngilti 234 milljónum króna en þá fjárhæð hafi gagnstefnda greitt ásamt vöxtum. Hafi hún því endurgreitt að fullu og gott betur þá fjárhæð sem hún fékk að láni.

Því fari fjarri að ákvæði lánssamningsins leiði til þess að gagnstefnda hagnist með einhverjum hætti á ákvæðum hans, enda hafi hún greitt mun hærri fjárhæð til baka heldur en hún fékk í hendur. Því sé mótmælt að gagnstefnda hafi fengið að láni svissneska franka og að það hafi verið gert í þeim tilgangi að fá betri vaxtakjör á lánið en ella. Framlagðir tölvupóstar, sem gagnstefnandi hefur lagt fram, sýni aðeins að samningaviðræður voru um hvaða vaxtakjör skyldu gilda á láninu. Séu vaxtakjör láns engu betri en þeirra húsnæðislána, sem öllum Íslendingum hafi staðið til boða í mörg ár fyrir svokallað bankahrun.

Gagnstefnda bendir á að í málatilbúnaði gagnstefnanda sé ekki að finna neina rökrétta skýringu á því, hvers vegna ætti að hafa verið samið um að lánið og endurgreiðsla þess skyldi ekki jafngilda 234 milljónum króna. Hefði þetta ákvæði ekki átt að hafa neitt gildi fyrir samning aðila, hefði engin nauðsyn verið til þess að kveða á um það í samningi aðila með þeim hætti sem gert hafi verið. Hefði þá verið nær að lánssamningurinn væri orðaður í samræmi við skilning gagnstefnanda og kveðið á um að höfuðstóll lánsins væri í svissneskum frönkum. Gagnstefnda mótmælir alfarið fullyrðingum gagnstefnanda um að eina ástæða þess að lánssamningurinn hafi verið orðaður með þessum hætti, hafi verið sú aðferð ráðgjafa hennar að reikna eignasafn hennar í íslenskum krónum og sú staðreynd að samkomulag hennar við Askar Capital hf. hafi kveðið á um að hún legði fram jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Það segi enda í málatilbúnaði gagnstefnanda, að það fyrirkomulag hafi verið gagnstefnanda óviðkomandi og vakni því sú spurning hvers vegna gagnstefnandi hafi orðað lánssamninginn með þessum hætti. Þessi málsástæða gagnstefnanda sé augljóslega rökleysa.

Gagnstefnda mótmælir öllum málsástæðum og rökum gagnstefnanda þess efnis, að það staðfesti að skuldbindingar hennar séu í svissneskum frönkum, að gagnstefnda hafi sett að veði eignir að verðmæti 585 milljónir króna. Í fyrsta lagi hafi gagnstefnda ekki ráðið því hvaða kröfur lánveitandinn gerði um tryggingu fyrir endurgreiðslu lánsins en fullyrða megi að í öllum eðlilegum viðskiptum, þar sem lántaki þurfi að leggja fram tryggingu, þurfi verðmæti tryggingarinnar að vera hærra en lánið.

Í öðru lagi sé það rangt að gagnstefnda hafi lagt fram tryggingar að verðmæti 585 milljónir króna. Eins og áður sé rakið hafi gagnstefnda aldrei verið með 400 milljónir króna í vörslu hjá Askar Capital hf., heldur aðeins það lánsfé, sem hún fékk hjá gagnstefnanda, þ.e.a.s. 234 milljónir króna. Þótt tryggingarbréfið á fasteigninni að Háteigsvegi 32 hafi verið ákveðið 115 milljónir endurspegli það alls ekki verðmæti fasteignarinnar. Á móti þessu láni, að fjárhæð 234 milljónir króna, hafi gagnstefnda því aðeins lagt fram eignir sem raunverulega megi meta á u.þ.b. 130-140 milljónir króna, sem skyldu standa til tryggingar á endurgreiðslu höfuðstóls og vaxta. Þetta sé um 50% trygging umfram höfuðstól sem sé algeng í svona viðskiptum. Þar sem vörslusafnið hjá Askar Capital hf. hefði auðveldlega getað rýrnað mjög í verði, geti þessar tryggingarkröfur ekki talist óvenjulega háar eða verið vísbending um að gert hafi verið ráð fyrir að endurgreiða þyrfti lánið þrefalt til baka. Séu tryggingar, sem gagnstefnandi áskildi sér, því ekki á nokkurn hátt vísbending eða sönnun fyrir réttmæti krafna hans.

Gagnstefnda ítrekar mótmæli sín við því að ákvæði 7.5 í lánssamningnum, um það með hvaða gjaldmiðli endurgreiðsla lánsins skuli fara fram, jafngildi samningi um að endurgreiða jafnháa fjárhæð í þeirri erlendu mynt og greidd var út. Slíkt eigi sér enga stoð í samningi aðila. Gagnstefnda hafi samþykkt að endurgreiða lánsfjárhæðina með svissneskum frönkum en hún hafi aldrei samþykkt að greiða hærri fjárhæð í þeim gjaldmiðli heldur en sem nemi jafnvirði 234 milljóna króna.

Engu breyti í hvaða gjaldmiðli endurgreiðsla lánsins átti að fara fram heldur skipti hér öllu máli hversu há lánsfjárhæðin sé samkvæmt samningnum og um hvað hafi verið samið í samningnum að ætti að endurgreiða. Eins og áður sé rakið beri stefndu að greiða hina svonefndu „Facility amount“ en hún sé í samningnum skilgreind sem jafnvirði 234 milljóna króna. Hvergi í samningnum sé tilgreint hvaða fjárhæð í svissneskum frönkum gagnstefndu beri að endurgreiða og krafa gagnstefnanda eigi sér því ekki stoð í samningnum.

Verði ekki fallist á að sýkna gagnstefndu af kröfu gagnstefnanda á framangreindum forsendum, þ.e.a.s. að samið hafi verið um að gagnstefnda ætti að endurgreiða að hámarki 234 milljónir króna og að sú fjárhæð sé að fullu uppgreidd, felist óhjákvæmilega í þeirri niðurstöðu, að gagnstefnda eigi að endurgreiða lánið miðað við dagsgengi svissnesks franka á gjalddaga. Slíkt ákvæði um íslensk lán í íslenskum lánssamningi séu hins vegar ólögmæt gengistrygging, sem víkja beri til hliðar og beri að sýkna gagnstefndu af kröfum gagnstefnanda, þar sem hún hafi þegar endurgreitt lánið. Tenging lánsins við gengi erlendra gjaldmiðla sé óskuldbindandi fyrir gagnstefndu, enda fari slík samningsákvæði í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

Gagnstefnda byggir á því, að verði ekki fallist á framangreindar málsástæður hennar um að samið hafi verið um hvert hafi verið hámark endurgreiðslu höfuðstólsins, geti lánssamningurinn milli hennar og gagnstefnanda ekki falið neitt annað í sér en viðurkenningu gagnstefndu um að skulda íslenskar krónur að jafnvirði tiltekinna erlendra mynta, sem teknar voru að láni. Hæstiréttur hafi með dómum sínum komist að þeirri niðurstöðu að slík ákvæði feli í sér ólögmæta gengistryggingu í skilningi laga nr. 38/2001.

Lánssamningur sá, sem um ræðir í málinu, lúti að öllu leyti íslenskum lögum og lögsögu, sbr. ákvæði hans þar um. Hæstiréttur hafi bent á, að engin þörf sé á að kveða á um fjárhæð skuldbindingar í öðrum gjaldmiðli sé lán í raun í erlendri mynt. Engin þörf hafi verið á því að taka lánsfjárhæðina fram í íslenskum krónum hafi höfuðstóllinn átt að vera annar en sá sem tilgreindur sé í samningnum. Skýringar gagnstefnanda um að það hafi verið gert að ósk ráðgjafa gagnstefndu vegna þess að eignasafn hennar hafi verið í íslenskum krónum séu fráleitar og eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Málsástæður gagnstefnanda breyti engu um þær staðreyndir að lánið var ákveðið í íslenskum krónum. Miðað við kröfugerð gagnstefnanda hafi endurgreiðsla þess verið bundin við gengi erlends gjaldmiðils. Slíkt sé ólögmætt og sé gagnstefnda ekki bundin við að endurgreiða gagnstefnda þá fjárhæð sem hann krefur um.

Gagnstefnda mótmælir kröfu gagnstefnanda um dráttarvexti með vísan til framangreindra málsástæðna og þess að gagnstefnandi eigi ekki kröfu á gagnstefndu.

Um lagarök vísar gagnstefnda til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. þeirra laga sem og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Krafa gagnstefndu um málskostnað er reist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

VII.

                Í þessum niðurstöðukafla verður vikið að málsástæðum aðila eins og gert er af þeirra hálfu í stefnu, gagnstefnu og greinargerðum.

b. Aðalkrafa aðalstefnanda um viðurkenningu á því að höfuðstóll lánssamnings hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, skuli að hámarki nema sem svarar 234 milljónum íslenskra króna

                Aðila greinir á um það hvort lán það, sem aðalstefnandi tók hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, samkvæmt lánssamningi þeirra frá 24. júlí 2007, hafi að hámarki numið 234 milljónum íslenskra króna. Hafi aðalstefnandi því, samkvæmt skýru orðalagi lánssamningsins, átt að endurgreiða að hámarki þá fjárhæð. Af hálfu aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, er á því byggt að með lánssamningnum hafi verið samið um lán í svissneskum frönkum sem endurgreiða hafi átt í sama gjaldmiðli.

                Efst á forsíðu framangreinds lánasamnings, sem báðir aðilar undirrituðu, segir í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „ISK 234.000.000 SAMNINGUR UM LÁNALÍNU“. Í þeim kafla, sem geymir skilgreiningar á hugtökum, segir að fjárhæð lánsheimildar merki hámarksupphæð sem er að jafnvirði 234 milljónir íslenskra króna en jafnframt segir að valmynt sé CHF, þ.e. svissneskir frankar. Í kafla samningsins um útborganir kemur fram að útborgun skuli fara fram í valmynt, sem samkvæmt framansögðu er svissneskir frankar. Vextir af láninu eru tilgreindir sem ársvextir, sem ákveðnir eru af bankanum sem samtala af LIBOR-vöxtum og vaxtaálagi. Um greiðslu dráttarvaxta segir að greiði lántaki ekki á gjalddaga skuli hann greiða dráttarvexti af gjaldföllnum upphæðum frá gjalddaga til greiðsludags og skuli þeir reiknaðir á ársgrundvelli sem samtala af „(a) […] viðeigandi vöxtum, eins og fram kemur í gr. 7.1. og (b) þremur prósentum. (3%) á ári.“ Loks segir að endurgreiðslur á höfuðstól og vöxtum af láninu skuli greiðast í þeirri mynt sem viðkomandi lántaka var tekin.

                Samkvæmt framlögðum gögnum má rekja aðdraganda lántöku aðalstefnanda hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, til þess að hún hafði hug á að taka 230 milljóna króna lán hjá bankanum með veði í eignum á Íslandi og á Ítalíu. Í tölvupósti Gunnars Gunnarssonar til starfsmanns bankans frá 8. mars 2007 segir að hugmynd stefnanda sé að taka fimm ára kúlulán í svissneskum frönkum. Er síðan vísað til þess að Jón Scheving Thorsteinsson, umboðsmaður stefnanda gagnvart bankanum, þurfi að staðfesta hvernig lánið eigi að vera. Í kjölfarið var opnaður reikningur aðalstefnanda hjá bankanum og undirritaði hún síðan skilmála bankans. Gögn málsins sýna einnig að í apríl sama ár fóru fram þreifingar um vaxtakjör lánsins og ber tölvupóstur Gunnars Gunnarssonar frá 25. apríl 2007 með sér að af hálfu aðalstefnanda hafi þá m.a. verið samþykkt að vaxtakjörin skyldu vera LIBOR-vextir. Þá er því ómótmælt að yfirlit yfir skuld aðalstefnanda voru send umboðsmanni hennar þar sem skuldastaða er tilgreind í svissneskum frönkum, auk þess sem endurgreiðslur aðalstefnanda samkvæmt samningnum fóru allar fram í sömu mynt. Er þess að gæta að af gögnum málsins verður ráðið að aðalstefnandi naut aðstoðar sérfróðra ráðgjafa frá upphafi viðskipta aðila.

Þegar til alls framanritaðs er litið, einkum þess efnis samningsins sem að framan er rakið, sýnist ljóst að í lánssamningi aðila er kveðið á um lántöku aðalstefnanda í svissneskum frönkum og jafnframt um skyldu hennar til að endurgreiða lánið í sama gjaldmiðli. Þá er óumdeilt að greiðslur til aðalstefnanda samkvæmt lánssamningnum voru í svissneskum frönkum. Getur því ekki ráðið hér úrslitum þótt á forsíðu samningsins sé tilgreining jafnvirðis hámarkslánsfjárhæðar í íslenskum krónum en aðspurður um ástæðu tilgreiningarinnar kvað Sigþór Hilmir Guðmundsson, lögfræðingur og fyrrverandi starfsmaður aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, sem kom að skjalagerð vegna lántökunnar, hana til komna vegna þess að Gunnar Gunnarsson hefði upphaflega miðað við fjárhæð í íslenskum krónum. Fæli hún hins vegar einungis í sér að skuldbindingin samkvæmt lánssamningnum væri í svissneskum frönkum sem vera ættu að jafnvirði 234 milljóna íslenskra króna. Umræddur lánssamningur laut því að veitingu láns í erlendri mynt með erlendum vaxtakjörum. Er því ekki um það að ræða að lánin hafi verið gengistryggð, enda ekki þörf á því að kveða á um gengistryggingu þegar svo háttar til. 

Með vísan til ofanritaðs verður ekki fallist á það með aðalstefnanda að það verði lesið út úr lánssamningnum að lántaki skuli einungis endurgreiða lánveitanda að hámarki 234 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt efni sínu kveður samningurinn á um að lántaki skuli greiða lánsfjárhæðina með ársvöxtum, sem ákveðnir eru af bankanum sem samtala af LIBOR-vöxtum og vaxtaálagi, eins og áður er rakið. Þá er ekkert komið fram í málinu, sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu aðalstefnanda, að annarleg sjónarmið hafi ráðið för hjá aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, við túlkun hans á túlkun lánssamningsins og innheimtu samkvæmt honum.

Að öllu framangreindu virtu verður að hafna aðalkröfu aðalstefnanda um viðurkenningu á því að endurgreiðsla á höfuðstóli lánssamnings milli hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, frá 24. júlí 2007 skuli að hámarki nema sem svarar 234 milljónum íslenskra króna. Verða aðalstefndu því sýknaðir af þessari kröfu aðalstefnanda.

a. Aðalkrafa aðalstefnanda um staðfestingu lögbanns

                Eins og áður er rakið var með ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík lagt lögbann við því að aðalstefndi, Íslandsbanki hf., seldi eða millifærði með öðrum hætti eignir aðalstefnanda, sem vistaðar eru á vörslureikningi nr. 77395 í Íslandsbanka hf. á Kirkjusandi, þar á meðal Ríkissafn og Veltusafn. Af hálfu aðalstefndu er kröfunni mótmælt.

Aðalstefnandi byggir kröfu sína á því að sala á eignum hennar, sem aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, hafi krafist taki mjög skamma stund og sé því hætta á að fjármunir aðalstefnanda hverfi endanlega sjónum, jafnvel þótt aðalstefnandi fengi réttindi sín viðurkennd fyrir dómi. Þá vísar aðalstefnandi til þess að aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, sé í slitameðferð sem taki að minnsta kosti fimm ár en aðalstefnandi myndi þurfa að sækja þessa hagsmuni sína á hendur þrotabúinu yrðu fjármunirnir afhentir aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Loks byggir aðalstefnandi á því að óheimilt sé að lögum að selja eignir hennar til fullnustu á kröfum aðalstefnda gegn vilja hennar. Geti aðili ekki, svo lögmætt sé, bundið sig með samningi um slíka fullnustu krafna. Hefði aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, því átt að óska eftir nauðungarsölu á eignum aðalstefnanda.

Aðalstefndi, Íslandsbanki hf., byggir sýknukröfu sína á því að hvorki lög nr. 90/1991, um nauðungarsölu, né önnur lög standi því í vegi að unnt sé að semja á annan veg en þar segi. Þá hafi aðalstefnandi hvorki vísað til ákvæða laga nr. 90/1991, sem styðji skilning hans á lögunum að þessu leyti, né hafi hún andmælt gildi veðyfirlýsingar þeirrar, sem krafan byggi á. Samkvæmt veðyfirlýsingunni veiti aðalstefnandi aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, skilyrðislausa heimild til að selja þær eignir, sem til tryggingar standi, án fyrirvara eða tilkynningar. Lánveitandi hafi skýlausa heimild samkvæmt yfirlýsingunni til að selja hinar tilteknu eignir og aðalstefnda, Íslandsbanka hf., beri að hlíta fyrirmælum hans um alla meðferð eignanna. Þá bendir aðalstefndi, Íslandsbanki hf., á að samningsfrelsi aðila verði ekki takmarkað nema með skýlausum lagaákvæðum en á slík ákvæði hafi aðalstefnandi ekki bent.

Aðalstefndi, Glitnir Bank Luxembourg SA, byggir á því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á því að vera viðstaddur eða koma að sjónarmiðum sínum við meðferð lögbannsmálsins hjá sýslumanni, enda þótt hann væri augljóslega gerðarþolinn í málinu. Hafi sýslumanni borið að vísa málinu frá þar sem aðalstefnandi hefði ekki tiltekið réttan aðila sem gerðarþola í lögbannsbeiðni sinni. Þá hafi krafan heldur ekki verið kynnt aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Jafnframt er á því byggt að aðalstefnandi hafi ekki gert tilraun til að sanna með tölum þá staðhæfingu sína, að hún hafi þegar greitt að fullu skuld sína við aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Sé krafa hennar því vanreifuð að þessu leyti. Loks er byggt á því að samkvæmt veðsamningi aðila hafi aðalstefnandi veitt aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, fullt og ótakmarkað umboð til að fara með og ráðstafa þeim eignum, sem aðalstefnandi setti honum að veði samkvæmt samningnum. Samningurinn sé í fullu samræmi við lög og gerður að frumkvæði aðalstefnanda og að ósk sérfróðra fulltrúa hennar.

Eins og áður er rakið, er það niðurstaða dómsins að hafna beri aðalkröfu aðalstefnanda um viðurkenningu á því að endurgreiðsla á höfuðstóli lánssamnings milli hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, frá 24. júlí 2007 skuli að hámarki nema sem svarar 234 milljónum íslenskra króna. Aðalstefnandi heldur því fram að hún hafi greitt samkvæmt lánssamningi hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, um það bil 287 milljónir íslenskra króna en hefur ekki gert tölulega grein fyrir því, með hvaða hætti hún telur að þeirri fjárhæð hafi verið ráðstafað inn á upphaflega skuld hennar við framangreindan aðalstefnda samkvæmt samningnum. Þá verður hvorki fallist á sjónarmið aðalstefnanda um hættu á því að fjármunir á hinum tilgreinda reikningi hennar í Íslandsbanka hf. muni tapast henni á skömmum tíma verði aðalstefndi, Íslandsbanki hf., við kröfu aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, samkvæmt veðsamningi aðila, m.a. vegna þess að síðastnefndur aðalstefndi sé í slitameðferð. Er ekkert komið fram í málinu sem styður fullyrðingar aðalstefnanda að þessu leyti. Er þessari málsástæðu því hafnað. 

Eins og áður er rakið, gerðu aðilar með sér samning 3. febrúar 2007 þar sem aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, voru settir að veði fjármunir á reikningi aðalstefnanda nr. 77395 í aðalstefnda, Íslandsbanka hf. Með samningnum sömdu aðilar um það, hvernig fara skyldi að, kæmi til vanefnda aðalstefnanda á lánssamningi hennar og aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA. Ekki er fallist á það með aðalstefnanda að aðilum sé að lögum óheimilt að gera slíkan samning. Verður því ekki fallist á það með aðalstefnanda að einungis hafi verið mögulegt að nýta úrræði laga um nauðungarsölu til að ráðstafa hinum veðsettu fjármuna, enda liggur fyrir samkomulag veðsala og veðhafa í veðsamningnum um nýtingu og ráðstöfun hins veðsetta. Er þessari málsástæðu því hafnað.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu aðalstefnanda samkvæmt þessum kröfulið og verður aðalstefndi, Íslandsbanki hf., því sýknaður af þeirri kröfu. Þegar litið er til þess að lögbanni var eingöngu beint gegn aðalstefnda, Íslandsbanka hf., verður ekki séð að rétt hafi verið að stefna aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, til að þola staðfestingu lögbannsins, enda getur hann neytt annarra úrræða til að fylgja eftir ætluðum réttindum sínum, svo sem hann hefur gert með gagnstefnu í máli þessu. Verður kröfu um staðfestingu á lögbanni því þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi að því er varðar aðalsefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA.

Varakrafa aðalstefnanda um viðurkenningu á því að ólögmætt sé að selja veðsettar eignir hennar samkvæmt veðsamningi með öðrum hætti en samkvæmt ákvæðum nauðungarsölulaga

                Með sömu rökum og rakin eru hér að framan í forsendum dómsins að því er varðar kröfu aðalstefnanda um staðfestingu lögbanns verður þessari kröfu aðalstefnanda hafnað og verður ekki fallist á það með aðalstefnanda að í þeirri niðurstöðu felist einhvers konar réttarneitun.

Gagnkrafa gagnstefnanda, Glitnir Bank Luxembourg SA

Gagnstefnandi krefst þess aðallega að gagnstefndu verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 2.182.532,63 svissneskir frankar með 5,438330% dráttarvöxtum samkvæmt 5. grein laga nr. 38/2001 frá 1. september 2010 til 14. febrúar 2011, en með 5,441670% dráttarvöxtum frá þeim degi til 12. ágúst 2011, en með 5,318330% dráttarvöxtum af 2.297.635,66 svissneskum frönkum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að gagnstefndu verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 2.182.532,63 svissneskir frankar og að viðurkennd verði skylda gagnstefndu til að greiða gagnstefnanda dráttarvexti í samræmi við ákvæði greinar 7.4 í samningi aðila frá 24. júlí 2007, frá 1. september 2010 til greiðsludags.

                Eins og rakið hefur verið, er það niðurstaða dómsins að lánssamningur aðila í gagnsök frá 24. júlí 2007 sé samningur um lántöku gagnstefndu hjá gagnstefnanda í svissneskum frönkum að jafnvirði 234 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að á skuld samkvæmt honum leggist vextir og einnig dráttarvextir ef til vanskila kemur. Af hálfu gagnstefndu hefur málsástæðan um að skuld hennar samkvæmt samningnum sé að fullu greidd eingöngu verið rökstudd með vísan til þess að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum og að höfuðstóll þess geti aldrei orðið hærri en sem nemur 234 milljónum króna. Heldur gagnstefnda því fram að hún hafi greitt höfuðstól lánsins ásamt vöxtum en hefur hins vegar hvorki lagt fram gögn né tölulega útreikninga því til sönnunar. Fjárhæð dómkröfu gagnstefnanda fær hins vegar stoð í framlögðum reikningsyfirlitum og hefur þeim ekki verið mótmælt efnislega.

Um þá málsástæðu gagnstefndu að umræddur lánssamningur aðila hafi að geyma ólögmætt gengistryggingarákvæði hefur þegar verið fjallað og tekin afstaða til hér að framan. Er það niðurstaða dómsins að um sé að ræða lán í svissneskum frönkum, sem greitt hefur verið út og greitt inn á í sama gjaldmiðli, og er því ekki um að ræða ólögmætt gengistryggt lán.

Dráttarvaxtakröfum gagnstefnanda hefur gagnstefnda mótmælt með vísan til áðurgreindra raka, sem hún lagði til grundvallar aðalkröfu sinni um staðfestingu lögbanns, og byggir á því að gagnstefnandi eigi ekki kröfu á gagnstefndu. Á það verður ekki fallist eins og áður er rakið. Aðalkrafa gagnstefnanda um dráttarvexti á sér stoð í ákvæðum umrædds lánssamnings aðila og hefur þeim útreikningi ekki verið mótmælt af hálfu gagnstefndu.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á aðalkröfu gagnstefnanda eins og hún er fram sett í gagnstefnu og nánar greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður aðalstefnanda gert að greiða aðalstefndu málskostnað. Þykir málskostnaður aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, hæfilega ákveðinn 1.800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og málskostnaður aðalstefnda, Íslandsbanka hf., þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð :

                Aðalstefndu, Glitnir Bank Luxembourg SA og Íslandsbanki hf., eru sýknir af viðurkenningarkröfu aðalstefnanda, Sigríðar Jónsdóttur, í aðalsök.

                Aðalkröfu aðalstefnanda um staðfestingu á lögbanni, sem lagt var á með lögbannsgerð nr. L-52/2010, hinn 17. september 2010, er sjálfkrafa vísað frá dómi að því er varðar aðalstefnda, Glitnir Bank Luxembourg SA, en aðalstefndi, Íslandsbanki hf., skal vera sýkn af sömu kröfu.

                Aðalstefndu eru sýknir af varakröfu aðalstefnanda í aðalsök.

Gagnstefnda, Sigríður Jónsdóttir, greiði gagnstefnanda, Glitnir Bank Luxembourg SA, 2.182.532,63 svissneska franka með 5,438330 % dráttarvöxtum samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2010 til 14. febrúar 2011, en með 5,441670% dráttarvöxtum frá þeim degi til 12. ágúst 2011, en með 5,318330% dráttarvöxtum af 2.297.635,66 svissneskum frönkum frá þeim degi til greiðsludags.        Aðalstefnandi og gagnstefnda greiði aðalstefnda og gagnstefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Aðalstefnandi greiði aðalstefnda, Íslandsbanka hf., 300.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.