Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Matsmenn
- Hæfi
|
|
Þriðjudaginn 24. mars 2009. |
|
Nr. 83/2009. |
Anna Hrefnudóttir Hansína R. Ingólfsdóttir og Árni Ingólfsson (Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) gegn Sýslumanninum í Reykjavík (enginn) |
Kærumál. Opinber skipti. Matsmenn. Hæfi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði ákvörðun S um að skipa H sem matsmann til að meta eign dánarbús. Fallist var á með héraðsdómi að um hæfi matsmanna sem tilnefndir væru samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991, gildi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, en hvorki reglur um hæfi dómara samkvæmt 5. gr. þeirra laga, né hæfisregla 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Talið var að þótt matsmaðurinn hefði sem lögmaður rekið mál, sem lauk fyrir um átta árum, fyrir gagnaðila föður sóknaraðila, leiddi það ekki til þess að hann teldist ekki hæfur til að meta það sem S tilnefndi hann til. Þá var heldur ekki talið leiða til vanhæfis hans sem matsmanns þótt fasteignasala, sem hann rak, hefði tekið til sölumeðferðar fasteign, sem var í eigu félags er einn erfingja dánarbúsins átti hlut í. Ekki hvíldi lagaskylda á S að leita samráðs við skiptastjóra bús sem var til opinberra skipta áður en matsmaður var tilnefndur, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991. Þá var ekki talið að sóknaraðilar hefðu leitt líkur að því að slíkt samráð hefði verið nauðsynlegt við tilnefninguna. Samkvæmt þessu var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að hafna kröfu sóknaraðila að ákvörðun S um að skipa H sem matsmann til að meta eign dánarbúsins yrði ógilt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2009 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði ákvörðun varnaraðila um að skipa Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann sem matsmann til að meta eign dánarbús Ingólfs Árnasonar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sýslumaðurinn í Reykjavík, sem er varnaraðili samkvæmt 4. mgr. 119. gr. laga nr. 20/1991, hefur ekki látið málið til sín taka.
I
Sóknaraðilar eru meðal erfingja í dánarbúi Ingólfs Árnasonar og Hrefnu Sigurðardóttur, sem er til opinberra skipta. Skiptastjóri dánarbúsins hefur ekki tekið afstöðu til hæfis matsmannsins til að sinna matsstarfanum en tilkynnti varnaraðila í tölvupósti 5. nóvember 2008 að sóknaraðilar hefðu ,,heimild sem erfingjar í db. ... til að mótmæla hæfi matsmanns sem skipaður var.“ Ekki verður séð að skiptastjóri hafi leitað afstöðu annarra erfingja dánarbúsins til ágreiningsefnisins.
II
Sóknaraðilar reisa kröfu sína um að hinum kærða úrskurði verði hnekkt meðal annars á því að ekki hafi verið ,,fjallað efnislega og með rökstuddum hætti“ um þær málsástæður, sem fram komi í greinargerð þeirra til dómsins. Kröfuna um að felld verði úr gildi tilnefning sýslumanns á áðurnefndum manni sem matsmanni samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991 til að meta til verðs jörðina Krossgerði I ásamt húsakosti og greiðslumarki, rökstyðja sóknaraðilar með því að hann sé vanhæfur til starfans. Sýslumanni hafi borið, áður en ákvörðun var tekin um hvern tilnefna skyldi sem matsmann, að hafa samráð við ,,aðila málsins“ um valið eða gefa þeim kost á að koma sér saman um hann. Vísa sóknaraðilar um þetta til 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þau telja að eigi við. Þá telja þau að matsmaðurinn uppfylli ekki það hæfisskilyrði að teljast óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Ástæða þess sé meðal annars sú, að matsmaðurinn hafi unnið gegn hagsmunum föður þeirra sem lögmaður gagnaðila hans í héraðsdómsmáli um merki framangreindrar jarðar. Dómi í því máli hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar og dæmt sem hæstaréttarmál nr. 170/2001, sbr. bls. 4074 í dómasafni réttarins það ár. Sóknaraðilar tefla einnig fram til stuðnings vanhæfi matsmannsins, að þær aðstæður kunni að vera fyrir hendi að draga megi óhlutdrægni hans í efa af því að hann hafi unnið fyrir einn erfingja dánarbúsins, Örn Ingólfsson. Einnig benda þau á, að matsmaðurinn kunni að hafa fjárhagslegan ávinning af því að vinna fyrir téðan erfingja þar sem matsmaðurinn ,,hafi haft fasteignir hans til sölumeðferðar um nokkurt skeið hjá fyrirtæki hans“. Hafi erfingi þessi haft uppi kröfur um að leysa til sín jörðina á sem lægstu verði.
Um matsmenn, sem tilnefndir eru samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991, segir í 3. mgr. sömu greinar að þá eina megi tilnefna til starfans sem eru fjárráða og hafa forræði á búi sínu, óflekkað mannorð og þá almennu þekkingu sem þarf til óaðfinnanlegrar rækslu starfans. Um hæfi er einnig vísað til ákvæða réttarfarslaga um hæfi matsmanna eftir því sem við geti átt. Fallist er á með héraðsdómi að um það gildi því 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, en hvorki reglur um hæfi dómara samkvæmt 5. gr. þeirra laga, né hæfisregla 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt matsmaðurinn hafi sem lögmaður rekið mál, sem lauk fyrir um átta árum, fyrir gagnaðila föður sóknaraðila, leiðir það ekki til þess að hann teljist ekki hæfur til að meta það sem varnaraðili hefur tilnefnt hann til. Það leiðir heldur ekki til vanhæfis hans sem matsmanns í málinu þótt fasteignasala, sem hann rekur, hafi tekið til sölumeðferðar fasteign, sem var í eigu félags er einn erfingja dánarbúsins átti hlut í, en er nú til gjaldþrotaskiptameðferðar.
Á varnaraðila hvílir ekki lagaskylda að leita samráðs við skiptastjóra bús sem er til opinberra skipta áður en matsmaður er tilnefndur samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991. Hafa sóknaraðilar ekki leitt líkur að því að slíkt samráð hafi verið nauðsynlegt við þá tilnefningu sem hér um ræðir.
Þá telja sóknaraðilar að atriði, sem tilgreind eru í stafliðum a. til e. í úrskurði héraðsdóms, séu til marks um að matsmaðurinn hafi neikvæð viðhorf í þeirra garð. Verður að skýra málatilbúnað sóknaraðila svo að þau telji að þessi atriði styðji rök þeirra um vanhæfi matsmannsins. Þau atriði, sem um ræðir, ef sönnuð verða, lúta að framkvæmd matsstarfans og geta komið til athugunar við mat á sönnunargildi matsgerðar en leiða ekki til þess að fallist verði á kröfur sóknaraðila í máli þessu.
Þá telja sóknaraðilar að útivist varnaraðila eigi að leiða til þess, samkvæmt 96. gr. laga nr. 91/1991, að kröfur þeirra verði teknar til greina. Í 3. mgr. 129. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 1. mgr. 127. gr. laganna, er mælt fyrir um að ef varnaraðili sækir ekki þing við þingfestingu, eða þingsókn hans fellur síðar niður, skuli fara með málið eftir almennum reglum um útivist stefnda í einkamáli, en sóknaraðila skuli þá gefinn kostur á að leggja fram greinargerð eftir því sem segir í 1. mgr. 130. gr. laganna. Varnaraðili sótti ekki þing við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi 5. desember 2008 eða við síðari fyrirtökur. Í þinghaldi 12. desember 2008 var bókað að lagt sé fram bréf sem borist hafi í tölvupósti frá varnaraðila um að ekki verði mætt af hans hálfu. Einnig var bókað að sóknaraðilar óski eftir að skila greinargerð af sinni hálfu, sem þau gerðu í næsta þinghaldi 9. janúar 2009. Eins og málið liggur fyrir fullnægir þetta fyrirmælum 3. mgr. 129. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr., laga nr. 20/1991. Eru því ekki efni til að fallast á kröfu sóknaraðila af þessum ástæðum.
Með framangreindum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2009.
Með bréfi Sýslumannsins í Reykjavík mótteknu í dóminum 27. nóvember 2008 var máli þessu skotið til héraðsdóms skv. 119. gr. skiptalaga nr. 20/1991.
Málið var þingfest 5. desember 2008 og tekið til úrskurðar 9. janúar sl.
Sóknaraðilar, Anna Hrefnudóttir, Hansína R. Ingólfsdóttir og Árni Ingólfsson krefjast þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að skipa Hilmar Gunnlaugsson hrl. sem matsmann til að meta eign dánarbús Ingólfs Árnasonar, kt. 190616-4369, sem sat í óskiptu búi eftir Hrefnu Sigurðardóttur, kt. 270315-4379, verði hnekkt og úrskurðuð ógild.
Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili, Sýslumaðurinn í Reykjavík, hefur ekki látið málið til sín taka.
I
Í bréfi sýslumanns kemur fram að bú Ingólfs Árnasonar hafi verið tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 20. júní 2008, og hafi Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. verið skiptuð skiptastjóri þess.
Þann 7. október 2008 hafi Hilmar Gunnlaugsson hrl. verið skipaður matsmaður, sbr. 17. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að meta jörðina Krossgerði I, fastanr. 217-9150 og 217-9152 ásamt húsakosti og greiðslumarki. Sýslumannsembættinu hafi þann 30. október 2008 borist beiðni Magnúsar Björns Brynjólfssonar hdl., fyrir hönd þriggja erfingja búsins, um að matsmaðurinn myndi víkja sæti þar sem hann væri vanhæfur til starfans. Sýslumaður hafi tekið ákvörðun þann 11. nóvember 2008 þar sem beiðni lögmannsins hafi verið hafnað. Lögmaðurinn hafi fyrir hönd erfingjanna krafist þess að ákvörðunin verði borin undir héraðsdóm.
II
Sóknaraðilar vísa til kröfugerðar sinnar í bréfi lögmanns, dags. 29. okt. 2008, og þeirra röksemda, sem þar komi fram.
Þeir mótmæla því að einungis 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 eigi við. Augljóst sé að sýslumaður hafi ekki fjallað um þá málsástæðu sóknaraðila sem byggi á 2. mgr. 61. gr. laga nr. 9171991 sem mæli fyrir um að ef aðilar komi sér saman um hæfan matsmann skuli dómkveðja hann nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Sýslumaður hafi ekki gefið kost á nokkru samráði í þessu efni hvorki við aðila málsins né skipaðan skiptastjóra sem þó muni vera venja. Með samráði hefði mátt komast hjá þeirri óásættanlegu skipan, sem geri það að verkum að sóknaraðilar geti ekki hugsað sér að búa við bindandi matsgerð þess aðila, sem hafi unnið gegn hagsmunum föður þeirra í landamerkjamáli er hafi haft í för með sér stórfelldan missi á landi og hlunnindum þess.
Matsmaður sé ekki að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem eigi að meta. Almennar vanhæfisreglur réttarfarslaga gildi í þessu máli eins og öðrum enda vitnað til þess í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991 að ákvæði réttarfarslaga eigi við hæfi matsmanna eftir því sem átt geti við. Í þessu efni vísi sóknaraðilar til c. liðar 5. gr. eml., þar sem m.a. segi að meðdómsmaður sé vanhæfur til að fara með mál ef hann hafi verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið.
Sóknaraðilar telji að lögjafna megi þessu um hinn skipaða matsmann, sem hafi verið talsmaður/lögmaður höfuðandstæðings föður þeirra til margra mánaða og jafnvel ára í umræddum málaferlum sem hafi lokið með Hæstaréttardómi nr. 170/2001. Umrædd matsgerð komi til með að skipta verulegu máli í uppgjöri dánarbúsins og leidd hafi verið að því rök í umræddu bréfi 29. okt. 2008 að hann hafi þegar tekið afstöðu gegn sóknaraðilum t.d. með því að kalla þá ekki til matsfundar fyrr enn alltof seint eða þegar matsfundur var um garð genginn. Þá hafi hann í engu svarað þeim spurningum lögmanns sóknaraðila af hvaða stærðargráðu jörðin sé né hvaða hlunnindi, gögn og gæði beri að meta henni til góða.
Þá vísi sóknaraðilar til g. liðs 5. gr. eml., sem greini frá því að önnur atvik eða aðstæður kunni að vera til þess fallnar að draga óhlutdrægni matsmannsins í efa. Þessi regla sé ekki einvörðungu ætluð dómurum og meðdómendum. Hún sé einnig orðuð í 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Varnaraðili láti þess ógetið í rökfærslu fyrir ákvörðun sinni að matsmenn beri skyldur sem opinberir starfmenn, sbr. 1. málslið í 3. gr. 18. gr. laga nr. 20/1991. Stjórnsýslulögin taki því til hans að því leyti, sbr. það sem segi á bls. 19 í greinargerð með stjórnsýslulögunum nr. 37/1993 (útg. 1993 af forsætisráðuneytinu) að ákvarðanir um skipun opinberra starfsmanna verði flokkaðar sem stjórnvaldsákvarðanir skv. 1. gr. laganna. Sóknaraðilar andmæli því að 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga eigi við í þessu tilviki þar sem greinargerðin taki fram á bls. 21 að lögin taki ekki til lögmanna sem taki að sér skiptastjórn. Vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga eigi því við í þessu máli. Vanhæfisástæður stjórnsýslulaga komi til skoðunar í þessu máli s.s. 6. tl. 3. gr. sem sé samhljóða g. lið 5. gr. eml.
Í riti Markúsar Sigurbjörnssonar, Einkamálaréttarfar útg. 1993, bls. 63 komi fram að spurningin um vanhæfi skv. g. lið 5. gr. eml. snýr ekki að því hvort dómarinn (eða meðdómsmaður) sé hlutdrægur í hugarfarslegri afstöðu sinni, heldur miklu fremur að því, hvort ytri atvik eða aðstæður, sem eru öðrum sýnilegar, gefi réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni hans. Meðdómara beri að víkja ef hann telur sig hlutdrægan. Með þessu sé átt við atburði eða athafnir, sem bendi til hlutdrægni matsmanns. Sóknaraðilar bendi á þá staðreynd að matsmaðurinn hafi unnið gegn hagsmunum þeirra á sínum tíma. Hann geti haft fjárhagslegan ávinning af því að vinna fyrir Örn Ingólfsson með því að hafa fasteignirnar Stekkjarholt 11-13 og 19-21, Reyðarfirði, til sölumeðferðar hjá fyrirtæki sínu InnI ehf. Þó svo að firma Arnars Ingólfssonar, Austurfell ehf., sé nú komið í gjaldþrot, þá sé það viðurkennt í ákvörðun sýslumanns að málum hafi verið háttað eins og áður er lýst. Gjaldþrot Austurfells ehf. breyti þar engu um. Sóknaraðilar mótmæli harðlega fullyrðingu í ákvörðun varnaraðila, þar sem segi að þó svo að erfinginn hafi leitað til fasteignasölunnar um að selja eign umrædds félags, sem í dag er komið í þrot og er til gjaldþrotaskipta, þá leiði slíkt ekki til þess að matsmaðurinn teljist fjárhagslega hagsmunatengdur erfingjanum. Aðalatriði í þessu samhengi sé að viðurkennt sé að matsmaðurinn hafi verið í fjárhagslegu sambandi við einn erfingjann, Örn Ingólfsson. Trúverðugleiki matsmannsis sé því ekki fyrir hendi í augum sóknaraðila.
Sóknaraðilar telji að sjónarmið Markúsar Sigurbjörnssonar eigi við í þessu máli gagnvart hinum skipaða matsmanni en þau komi fram á bls. 63 í riti hans um Einkamálréttarfar, en þar segi: Dómarinn má þannig ekki láta svar sitt ráðast af sinni eigin huglægu afstöðu, heldur verður hann að sætta sig við að víkja, þótt hann verði á engan hátt var við hlutdrægni í huga sínum ef atvik og aðstæður gefa tilefni til þess.
Sóknaraðilar mótmæli túlkun sýslumanns á 3. mgr. 18. gr. skiptalaga, en hann haldi því fram reglur réttarfarslaga eigi ekki við um það hvernig matsmaður skuli skipaður heldur eigi þær einvörðungu við um hæfi þeirra. Greinargerðin með 3. mgr. 18. gr. skiptalaga segi m.a. að hinar sérstöku hæfisreglur um matsmenn séu hliðstæðar reglum laga nr. 85/1936 um dómkvadda matsmenn en í 139. gr. laga nr. 85/1936 segi að þann einn megi kveðja til matsgerðar, sem að öllu leyti er óaðfinnanlegt vitni í því máli um það atriði, er meta skal ... . Sóknaraðilar telji matsmanninn ekki vera óaðfinnanlegt vitni í þessu máli. Hann muni eða geti hallað réttu máli af framangreindum ástæðum vegna fyrri starfa sinna gegn hagsmunum sóknaraðila og síðan vegna fjárhagslegra tengsla og hagsmuna sinna við Örn Ingólfsson, sem hafi sérstakan hug á því að fá jörðina metna á sem lægsta verði til að geta innleyst hana síðan sjálfur sbr. yfirlýsingu hans í fundargerð skiptastjóra dags. 30.09.2008.
Sóknaraðilar mótmæli þeirri aðferð og ákvörðun varnaraðila að fjalla ekki um starfshætti matsmannsins eins og þeir hafi verið stundaðir hingað til. Sóknaraðilar leyfi sér að nefna eftirfarandi atriði sem styðji málstað þeirra um hlutdræg vinnubrögð og neikvætt viðhorf matsmannsins í þeirra garð.
a. Matsfundur hafi ekki verið boðaður með löglegum hætti. Matsfundur hafi verið boðaður með alltof skömmum fyrirvara skv. bréfi matsmannsins dags. 15.10.2008. Boðað hafi verið til fundar hinn 22.10.2008 á eigninni sjálfri en ábyrgðarbréf hafi ekki verið móttekið fyrr en 23.10.2008 f.h. sóknaraðila. Matsfundur hafi því verið því ólögmætur, sbr. og kröfugerð dags. 29.10.2008.
b. Matsmaður hafi ekki svarað fyrirspurn sóknaraðila um stærð jarðarinnar en óskað hafi verið eftir því í tölvupósti hinn 24.10.2008, sbr. og kærubréfi dags. 29.10.2008. Í stað þess að svara fyrirspurn með beinum hætti sendi matsmaður sóknaraðilum m.a. landskiptagerð, sem sé umdeilt plagg og hafi margsinnis verið andmælt sem ólögmætum gjörningi.
c. Fundargerðir matsmanns séu misvísandi. Í fundargerð frá 22.10.2008 komi einvörðungu fram sjónarmið Arnars Ingólfssonar, sem hafi fundið jörðinni allt til foráttu með það fyrir augum að mat hennar verði sem lægst þar sem hann hyggist leysa hana til sín á matsverði.
d. Fundargerð matsmanns tveim dögum seinna, eða frá 24.10.2008, sé með öðrum hætti. Þar hafi verið bókað um ýmis hlunnindi jarðar, sem Örn Ingólfsson hafi látið ógetið um. Anna Hrefnudóttir hafi á þeim fundi gert kröfu um að matsmaður viki sæti í málinu en því hafi verið hafnað. Þá hafi hún látið bóka eftir sér virkjunarmöguleika Krossár, þar sem þar hafi einu sinni verið virkjað í þágu Krossgerðis I. Þá hafi hún bent á ýmis hlunnindi svo sem silungsveiði í Krossá, rekavið og möguleika á ferðamennsku með hliðsjón af landsháttum, steinasöfnun og fegurð landsins. Þá sé ótalið til hlunninda sandnám úr fjöru og netlög, sem fylgt hafi jörðinni frá fornu fari.
e. Skiptar skoðanair séu um stærð jarðarinnar. Skipaður matsmaður hafi ekki viljað tjá sig um landstærðina en samkvæmt gögnum frá nytjaland.is og gögnum Önnu Hrefnudóttur virðist hin umdeilda jörð, Krossgerði I vera talin 61 ha., Krossgerði II 27 ha. og Kross og Krosshjáleiga samt. 154 ha. Hið útskipta land virðist vera samtals 242 ha. Hið óskipta afréttaland sé sagt vera um 1.449 ha. Samkvæmt ofangreindum hlutföllum sé Krossgerði I eigandi að 365 ha., Krossgerði II eigandi að 162 ha. og Kross og Krosshjáleiga eigandi að 922 ha. af hinu óskipta landi.
Hins vegar megi segja að samkvæmt Landskiptagerð frá 21.02.1998 og með vísan í landamerkjaloftmynd eftir Daða Björnsson hjá Loftmyndum ehf. (janúar 2009), komi fram nokkuð aðrar stærðir landsins en að framan geti.
Ítrekað sé bent á að matsmaður hafi haldið því fram við Önnu Hrefnudóttur á matsfundi þann 24.10.2008 að skipta hætti landinu í tilteknum hlutföllum. Samkvæmt þeim hafi matsmaðurinn allt aðrar hugmyndir um stærð hins óskipta lands, sem sóknaraðilum hugnist alls ekki að búa við.
Sóknaraðilar telji að matsmaður hafi í mörgum liðum ekki gætt þess hlutleysis, sem honum beri lögum samkvæmt. Hann hafi boðað með röngum hætti og alltof skömmum fyrirvara í vettvangsskoðun. Hann hafi starfað fyrir einn erfingjanna, sem hafi hagsmuni af því að fá jörðina fyrir lítið fé. Hann hafi engin samskipti haft við opinberan skiptastjóra dánarbúsins varðandi ákvörðun matsfunda eða fundartíma.
Hann hafi lýst því yfir að hann muni eingöngu meta eignina á grundvelli skoðunar sinnar og óháð sjónarmiðum aðila um hvað eigi að telja til hækkunar eða lækkunar sbr. tölvupóst hans dags. 24.10.2008. Sóknaraðilar telji þ.a.l. þýðingarlaust að benda matsmanni á hlunnindi jarðarinnar, gögn hennar og gæði, ástand húsa og gripahúsa, sem beri ætíð að hafa til viðmiðunar og hliðsjónar við matsgerðina, þar sem hann muni hvort eð er ekki taka það til greina
Loks mótmæli sóknaraðilar harðlega að varnaraðili hafi skipað matsmann, sem hafi unnið gegn þeirra hagsmunum í landamerkja- og hæstaréttarmálinu nr. 170/2001.
Sóknaraðilar vísa til 119. gr., 3. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, 2. mgr. og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, c., f., og g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 og 6. tl. 3. gr. og 33. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Sérstakar hæfisreglur um matsmenn koma fram í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Segir þar að þá eina megi tilnefna til starfans sem séu fjárráða og hafi forræði yfir búi sínu, óflekkað mannorð og þá almennu þekkingu sem þurfi til óaðfinnanlegrar rækslu starfans. Er þar jafnframt kveðið á um að um hæfi þeirra til matsstarfa gildi ákvæði réttarfarslaga um hæfi matsmanna eftir því sem átt getur við.
Í 3. mgr. 61. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um hæfi matsmanna. Segir þar að þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem orðinn er 20 ára að aldri, er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hefur nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestrar er kostur.
Sóknaraðilar þykja ekki hafa sýnt fram á að fyrir hendi séu þau atvik eða aðstæður í máli þessu, sem valdið geta því að matsmaðurinn, Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, verði talinn vanhæfur til matsstarfans, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991 og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 19/1991.
Verður því kröfu sóknaraðila í máli þessu hafnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Önnu Hrefnudóttur, Hansínu R. Ingólfsdóttur og Árna Ingólfssonar um að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að skipa Hilmar Gunnlaugsson hrl. sem matsmann til að meta eign dánarbús Ingólfs Árnasonar, verði hnekkt og úrskurðuð ógild.