Hæstiréttur íslands

Mál nr. 378/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Laun
  • Lífeyrisréttindi
  • Aðfinnslur


                                                         

Föstudaginn 13. ágúst 2010.

Nr. 378/2010.

Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

gegn

Flemming Bendsen

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Forgangskrafa. Laun. Lífeyrisréttindi. Aðfinnslur.

Fjármálafyrirtækinu S hf. var skipuð slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Þann 12. maí 2009 gaf slitastjórnin út innköllun til lánardrottna S og lauk kröfulýsingarfresti 18. júlí sama ár. F lýsti þremur kröfum til slitastjórnar 7. júlí 2009 um greiðslu á samtals 572.731,09 sterlingspundum sem hann taldi sig eiga tilkall til í tengslum við ráðningarsamband sitt við S og krafðist þess að þær nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit S. Slitastjórn S hafnaði með öllu að viðurkenna þessar kröfur. Krafðist F þess fyrir dómi að umræddar kröfur yrðu viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt áðurgreindu ákvæði en til vara almennar kröfur samkvæmt 113. gr. sömu laga. Talið var að lýst krafa F að fjárhæð 70.079 sterlingspund sem átti sér stoð í svokölluðum samningsviðauka I, væri greiðsla sem háð væri árangri hans í starfi. Var sú greiðsla í samningsviðaukanum nefnd „bonus reward“, en við það heiti, sem bæri engan keim af kröfuréttindum, væri þó ekki setið, heldur væri tekið fram að slík greiðsla myndaði engan hluta launa F eða endurgjalds til hans. Var því ekki unnt að líta svo á að greiðsla þessi gæti talist til launa eða annars endurgjalds fyrir vinnu í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Var umrædd krafa hins vegar viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá hafði F jafnframt lýst kröfu að fjárhæð 462,003,98 sterlingspund sem reist var á ákvæðum samnings með heitinu „terms of agreement“. Í samningnum kom fram að tilkall F til greiðslunnar héldist þótt hann léti af störfum hjá S ef ástæða þess væri „a redundancy“. Var uppsögn F úr starfi hjá S rakin til þeirrar ástæðu og var því ekki fallist á það með S að tilkall til greiðslunnar væri fallið niður. Um rétthæð þessarar kröfu við slit S yrði að líta til þess að samningurinn, sem hún var reist á, geymdi engin ákvæði um vinnu F sem launþega í þjónustu S. F hafði ekki fært fram nein gögn til sönnunar því að samningurinn hefði þrátt fyrir þetta tekið til launa sér til handa eða annars endurgjalds fyrir vinnu. Yrði kröfunni því ekki skipað í réttindaröð samkvæmt áðurgreindu ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 og var hún talin til almennra krafna eftir 113. gr. sömu laga. Þá var krafa F að fjárhæð 40.648,11 sterlingspund, sem laut að skilum S á greiðslum í tiltekinn eftirlaunasjóð fyrir F, ekki talin studd viðhlítandi gögnum og var niðurstaða héraðsdóms um að hafna henni staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2010, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu lýstra krafna varnaraðila við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 21. júní 2010. Hann krefst þess að lýstar kröfur sínar á hendur sóknaraðila að fjárhæð samtals 572.731,09 sterlingspund verði aðallega viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði staðfest og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

I

Samkvæmt gögnum málsins réði varnaraðili sig til starfa hjá sóknaraðila 2. mars 2007 og gerðu þeir í tengslum við það þrjá samninga, sem allir voru á ensku. Í fyrsta lagi var gerður ráðningarsamningur, þar sem meðal annars var kveðið á um að varnaraðili ætti að starfa við „the Proprietary Trading department“ hjá sóknaraðila og hafa að staðaldri starfstöð í Stokkhólmi í Svíþjóð. Laun varnaraðila áttu að nema samtals 187.000 evrum á ári og greiðast mánaðarlega. Að auki var mælt svo fyrir að hann gæti öðlast rétt til aukagreiðslu samkvæmt samningsviðauka 1, en sóknaraðili áskildi sér þó rétt til að breyta henni eða fella hana niður hvenær sem verða vildi. Tekið var fram í samningnum að hjá sóknaraðila væri ekkert eftirlaunakerfi, en hann myndi á hinn bóginn greiða fjárhæð sem svaraði 10% af föstum launum varnaraðila til eftirlaunasjóðs samkvæmt vali þess síðarnefnda. Þá voru ákvæði í samningnum um rétt varnaraðila til launa í orlofi og við fjarvistir vegna veikinda, svo og um gagnkvæman rétt aðilanna til að segja ráðningunni upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Í annan stað gerðu aðilarnir fyrrnefndan samningsviðauka 1, þar sem mælt var fyrir um greiðslu til varnaraðila á hlutdeild í hagnaði sóknaraðila, sem ætti rætur að rekja til viðskipta, sem sá fyrrnefndi kæmi á. Greiðsla þessi, sem nefnd var „Bonus Reward“ í samningsviðaukanum, átti að taka mið af afkomu sóknaraðila á hverju fjárhagsári og geta numið samkvæmt nánari ákvörðun forstjóra hans allt að 12% af þeim tekjum félagsins, sem varnaraðili aflaði. Með þeim skilyrðum að varnaraðili væri enn í þjónustu sóknaraðila og uppsagnarfrestur á ráðningunni stæði ekki yfir átti fjárhæð, sem þannig væri ákveðin, að koma til greiðslu 1. febrúar vegna næstliðins reikningsárs, en þó þannig að sóknaraðili gæti látið við það sitja að inna aðeins af hendi helming hennar þá þegar. Sóknaraðila væri heimilt að fresta greiðslu fjórðungs fjárhæðarinnar til 1. febrúar næsta árs og annars fjórðungs til sama dags ári síðar, en þessir hlutar greiðslunnar skyldu þá taka breytingum í samræmi við gengi á hlutabréfum í sóknaraðila í kauphöll hér á landi. Tekið var fram að þessi samningsviðauki skyldi á engan hátt teljast hluti ráðningarsamnings milli aðilanna eða veita varnaraðila réttindi á hendur sóknaraðila, sem fylgja mætti eftir með lögsókn. Þá var einnig tekið fram að greiðslur til varnaraðila samkvæmt samningsviðaukanum ættu ekki að mynda „any part of his wages or remuneration or count as pay or remuneration for pension fund or other purposes.“ Í samningsviðaukanum voru jafnframt sérstök fyrirmæli um hvernig farið skyldi með hluta af greiðslu, sem sóknaraðili hefði ákveðið að fresta að inna af hendi samkvæmt framansögðu, ef ráðningarsambandi aðilanna lyki áður en að gjalddaga kæmi. Um þetta var kveðið svo á að réttur til greiðslu skyldi haldast ef ráðningu hefði lokið vegna andláts varnaraðila, heilsubrests hans eða örorku, svo og sökum þess að starfa hans hafi ekki lengur verið þörf, en þessi síðastnefnda aðstaða var nefnd „a redundancy“ í samningsviðaukanum. Undir öðrum kringumstæðum átti réttur til greiðslu á hinn bóginn að falla niður við starfslok varnaraðila eða uppsögn ráðningarsamnings.

Í þriðja lagi gerðu aðilarnir samning, sem nefndur var „Terms of agreement“. Þar var kveðið á um að varnaraðili eða félag, sem lyti yfirráðum hans, tæki að sér að veita ráðgjöf til að koma á fót fyrir sóknaraðila „a proprietary trading desk in North-Europe focusing on fixed income products in the Nordics“ og skyldi þessu viðfangsefni lokið á tveimur mánuðum frá dagsetningu, sem aðilarnir kæmu sér síðar saman um. Fyrir þetta skyldi sóknaraðili greiða „compensation“, sem nema ætti 1.550.000 evrum í peningum eða hlutum í sóknaraðila, en þetta skyldi innt af hendi annaðhvort í einu lagi eða með þremur jöfnum árlegum greiðslum með því skilyrði að varnaraðili tæki til starfa hjá sóknaraðila eða sú starfsemi væri hafin, sem að framan greinir. Um tilhögun á greiðslum ef fjárhæðinni yrði skipt í þrennt sagði í samningnum að 1.033.333 evrur skyldu inntar af hendi 1. mars 2008, 516.667 evrur 1. mars 2009 og 258.333 evrur 1. september sama ár. Tekið var fram að yrði greitt í einu lagi bæri varnaraðila að endurgreiða sóknaraðila þá hluta fjárhæðarinnar, sem hefði mátt fresta til fyrrgreindra dagsetninga, ef varnaraðili hefði á þeim tíma látið af störfum hjá sóknaraðila eða starfseminni, sem varnaraðila væri ætlað að fást við, hefði verið hætt. Léti varnaraðili af störfum á þessu tímabili skyldu þó að breyttu breytanda gilda fyrrgreind ákvæði í samningsviðauka 1. Í niðurlagi samningsins, sem hér um ræðir, kom fram að tæki sóknaraðili ekki aðra ákvörðun væri samningurinn háður íslenskum lögum og skyldu mál, sem risu vegna hans, rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

II

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ákvað Fjármálaeftirlitið 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar sóknaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Á þeim tíma mun varnaraðili enn hafa gegnt störfum hjá sóknaraðila samkvæmt framangreindum ráðningarsamningi frá 2. mars 2007. Með bréfi starfsmannadeildar sóknaraðila 19. mars 2009 var varnaraðila tilkynnt um uppsögn ráðningarsamningsins með þriggja mánaða fyrirvara sökum þess að sóknaraðili væri að hætta reglulegri starfsemi og lyki því störfum varnaraðila „by reason of redundancy“, svo sem tekið var til orða í bréfinu. Þar var varnaraðila jafnframt tilkynnt að hann væri þegar í stað leystur undan vinnuskyldu gagnvart sóknaraðila. Síðastgreindan dag var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar, sem standa átti til 11. júní 2009, en áður en sá tími var á enda var honum skipuð slitastjórn 11. maí sama ár samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Slitastjórnin mun hafa gefið út innköllun til lánardrottna sóknaraðila 12. maí 2009 og kröfulýsingarfresti lokið 18. júlí sama ár. Innan hans lýsti varnaraðili kröfum til slitastjórnarinnar 7. júlí 2009 um greiðslu á samtals 572.731,09 sterlingspundi, sem hann taldi sig eiga tilkall til í tengslum við ráðningarsamband sitt við sóknaraðila, og krafðist þess að þær nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Slitastjórnin hafnaði með öllu að viðurkenna þessar kröfur og tókst ekki að jafna ágreining aðilanna á kröfuhafafundum, sem haldnir voru 6. og 25. ágúst 2009. Af þeim sökum leitaði sóknaraðili 2. september 2009 úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn og var mál þetta þingfest af því tilefni 30. október sama ár.

Af málatilbúnaði aðilanna verður ráðið að varnaraðili hafi að fullu fengið greidd þau laun, sem kveðið var á um í ráðningarsamningi þeirra, þar á meðal laun í uppsagnarfresti og orlofsfé. Sá samningur kemur því ekki frekar við sögu í máli þessu. Á hinn bóginn lýtur ágreiningur aðilanna að kröfum, sem varnaraðili reisir á öðrum grunni og gerir í þremur liðum, sem nú verður nánar greint frá.

Í fyrsta lagi hefur varnaraðili lýst kröfu að fjárhæð 70.079 sterlingspund, sem hann telur eiga stoð í áðurnefndum samningsviðauka 1. Samkvæmt gögnum málsins mun sóknaraðili snemma árs 2008 hafa tekið ákvörðun um greiðslu til varnaraðila að fjárhæð 313.482 evrur á grundvelli samningsviðaukans vegna rekstrarársins 2007. Sóknaraðili mun hafa ákveðið að skipta greiðslunni eftir ákvæðum samningsviðaukans þannig að helmingur hennar, 156.741 evra, yrði ásamt sérstakri viðbót að fjárhæð 18.259 evrur innt af hendi 1. mars 2008, en fjórðungi greiðslunnar, 78.371 evru, yrði frestað til ársins 2009 og öðrum fjórðungi til 2010. Ekki er ágreiningur um að sóknaraðili hafi staðið varnaraðila skil á framangreindum fjárhæðum á árinu 2008. Samkvæmt tilkynningu sóknaraðila til varnaraðila 17. febrúar 2009 hafði þá verið ákveðið að ekkert yrði greitt eftir samningsviðaukanum vegna rekstrarársins 2008, en á hinn bóginn yrði fjórðungur greiðslunnar vegna rekstrarársins 2007, sem frestað var á árinu 2008, inntur af hendi samhliða launaútborgun fyrir þann mánuð. Fyrir liggur í málinu að laun varnaraðila hafi að staðaldri verið greidd í sterlingspundum, en samkvæmt tilkynningu sóknaraðila var gengi evru gagnvart þeim gjaldmiðli 0,89646 hinn 17. febrúar 2009 og svaraði áðurgreind fjárhæð því til 70.256,46 sterlingspunda. Samkvæmt gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, komu til uppgjörs við varnaraðila samtals 533.428 sterlingspund út af „bonus“ við launaútborgun 28. febrúar 2009 og staðhæfir sóknaraðili í greinargerð hér fyrir dómi að þar hafi verið um að ræða annars vegar frestuðu greiðsluna samkvæmt samningsviðauka 1 vegna rekstrarársins 2007 og hins vegar greiðslu á grundvelli áðurnefnds samnings, sem nefndur var „Terms of agreement“, en að henni verður vikið hér á eftir. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er því ekki andmælt að sóknaraðili hafi staðið skil á þessu. Verður því að leggja til grundvallar að krafa varnaraðila, sem reist er á samningsviðauka 1, taki til þriðja og síðasta hluta greiðslunnar fyrir rekstrarárið 2007, sem sóknaraðili átti að inna af hendi á árinu 2010, en ekki annan hluta greiðslunnar, svo sem miðað var við í hinum kærða úrskurði.

Í öðru lagi hefur varnaraðili lýst kröfu að fjárhæð 462.003,98 sterlingspund, sem hann reisir á fyrrnefndum samningi með heitinu „Terms of agreement“. Eins og áður var lýst skuldbatt sóknaraðili sig þar til að greiða varnaraðila 1.550.000 evrur, sem annaðhvort yrðu inntar af hendi í einu lagi eða með þremur afborgunum. Fyrir liggur að sóknaraðili neytti heimildar til að skipta greiðslunni. Í samningnum voru fyrrgreind ákvæði um hvernig skiptingunni yrði hagað, sem greinilega hafa aflagast við ritun hans, en aðilarnir munu hafa sammælst um að varnaraðili fengi greiðsluna með þremur jöfnum árlegum afborgunum. Óumdeilt er að fyrsta afborgunin, 516.666 evrur, hafi verið greidd í apríl 2008. Í fyrrnefndri tilkynningu sóknaraðila til varnaraðila 17. febrúar 2009 kom fram að önnur afborgunin, 516.667 evrur, yrði gerð upp samhliða launaútborgun fyrir þann mánuð, en með umreikningi á þeirri fjárhæð á genginu 0,89646 svaraði hún til 463.171,29 sterlingspunds. Svo sem áður greinir hefur sóknaraðili lagt fyrir Hæstarétt gögn um launaútborgun til varnaraðila 28. febrúar 2009, þar sem fram kemur að til uppgjörs hafi meðal annars verið 533.428 sterlingspund vegna „bonus“, en sú fjárhæð samsvarar 463.171,29 sterlingspundi að viðbættum 70.256,46 sterlingspundum, sem varnaraðili átti sem fyrr segir tilkall til á þessum tíma á grundvelli samningsviðauka 1. Af heildarfjárhæðinni, sem hér um ræðir, átti að ósk varnaraðila að ráðstafa 189.000 sterlingspundum ásamt mótframlagi frá sóknaraðila að fjárhæð 24.192 sterlingspund til eftirlaunasjóðs með heitinu Scottish Widows og var fyrrgreinda fjárhæðin dregin frá við útborgun samkvæmt skilagrein til varnaraðila. Í greinargerð fyrir Hæstarétti staðhæfir sóknaraðili að hann hafi innt þessa útborgun af hendi til varnaraðila og verður að skilja málatilbúnað þess síðarnefnda hér fyrir dómi á þann veg að það sé óumdeilt. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að krafa varnaraðila, sem reist er á samningnum „Terms of agreement“, taki til þriðju og síðustu afborgunarinnar, sem hefði átt að koma til greiðslu í byrjun mars 2010, en ekki 1. mars 2009, svo sem miðað var við í hinum kærða úrskurði. Fyrir héraðsdómi andmælti sóknaraðili meðal annars fjárhæð þessarar kröfu með þeim rökum að hann hafi staðið skil á áðurnefndum 189.000 sterlingspundum til eftirlaunasjóðs í þágu varnaraðila og ætti hún því að lækka sem því svaraði, en á þetta var fallist í hinum kærða úrskurði. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili fallið frá þessum andmælum með vísan til þess að umrædd greiðsla til eftirlaunasjóðs hafi verið dregin af annarri afborguninni samkvæmt samningi aðilanna, en hún hafi verið gerð upp til fullnaðar í febrúar 2009 og sé óviðkomandi kröfu varnaraðila í máli þessu um þriðju afborgunina, sem ekki hafi átt að koma til greiðslu fyrr en í mars 2010.

Í þriðja lagi hefur varnaraðili lýst kröfu að fjárhæð 40.648,11 sterlingspund. Þessa kröfu reisir hann á því að sóknaraðili hafi sem áður segir haldið eftir 189.000 sterlingspundum við útborgun launa 28. febrúar 2009 og átt að standa skil á fénu ásamt mótframlagi, samtals 213.192 sterlingspundum, í þágu varnaraðila til eftirlaunasjóðsins Scottish Widows. Sóknaraðili hafi reynt að inna þessa fjárhæð af hendi 10. mars 2009, en erlendur banki hafi hafnað greiðslu af ástæðum, sem varði ekki varnaraðila, og hafi hún ekki skilað sér fyrr en 8. apríl sama ár. Samkvæmt framlögðu bréfi eftirlaunasjóðsins hafi þessi dráttur á greiðslu rýrt réttindi varnaraðila á hendur honum um sem svarar áðurnefndum 40.648,11 sterlingspundum, sem varnaraðili krefst að sóknaraðili bæti sér, en kröfu þessa telur sá fyrrnefndi eiga að njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila.

III

Um þá kröfu varnaraðila, sem fyrst var greint frá hér að framan og reist er á ákvæðum svonefnds samningsviðauka 1, er þess að gæta að þrátt fyrir kröfugerð sóknaraðila í málinu hefur hann í greinargerð fyrir Hæstarétti lýst því að einungis sé deilt um stöðu þessarar kröfu í réttindaröð. Af þeim sökum verður að líta svo á að hvorki sé ágreiningur um réttmæti né fjárhæð þessarar kröfu, heldur aðeins hvort viðurkenna skuli hana sem forgangskröfu eða almenna kröfu við slit sóknaraðila. Eins og málið er lagt fyrir ræðst niðurstaða um það af því hvort telja megi ákvæði samningsviðaukans geyma fyrirmæli um laun eða annað endurgjald handa varnaraðila fyrir vinnu í þjónustu sóknaraðila í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt efni samningsviðaukans var greiðsla á grundvelli hans háð árangri varnaraðila í starfi ásamt því að hann gegndi því enn á þeim tíma, sem til greiðslunnar kynni að koma. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ekki var mælt þar fyrir um kröfu varnaraðila til greiðslu, heldur var greiðslan háð ákvörðun sóknaraðila, sem hafði samkvæmt grein 4.2 í ráðningarsamningi aðilanna óskert forræði á því að breyta henni eða fella hana niður hvenær sem honum svo sýndist. Af sama meiði voru ákvæði greinar 2.5 í samningsviðaukanum, þar sem sagði meðal annars að hann veitti ekki varnaraðila „any legal or equitable rights against the Company“ og gæti hann heldur ekki „give rise to any cause of action of law or in equity“. Sem áður segir var greiðsla eftir samningsviðaukanum nefnd „bonus reward“, en við það heiti, sem ber engan keim af kröfuréttindum, var þó ekki setið, heldur tekið fram að slík greiðsla myndaði engan hluta launa varnaraðila eða endurgjalds til hans. Þótt ekki kæmi annað til en það, sem hér síðast var getið, er ekki unnt að líta svo á að greiðsla eftir samningsviðaukanum geti talist til launa eða annars endurgjalds fyrir vinnu í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila að fjárhæð 70.079 sterlingspund getur því ekki notið forgangsréttar samkvæmt því lagaákvæði við slit sóknaraðila, en í samræmi við áðurgreinda yfirlýsingu í greinargerð hans fyrir Hæstarétti verður hún á hinn bóginn viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.

Um kröfu varnaraðila að fjárhæð 462.003,98 sterlingspund, sem reist er á ákvæðum samningsins með heitinu „Terms of agreement“, er þess að gæta að í málinu hefur hvorugur aðilanna gefið viðhlítandi skýringu á þeim skiptum, sem hann tók til, en því hefur ekki verið borið við að í raun hafi verið ætlunin að sóknaraðili greiddi varnaraðila eða félagi á vegum hans 1.550.000 evrur einungis fyrir ráðgjöf, sem virðist hafa átt að ljúka á tveimur mánuðum eftir orðalagi samningsins. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að fyrir liggur að sóknaraðili stóð varnaraðila skil á samtals ⅔ hlutum umsaminnar fjárhæðar á árunum 2008 og 2009 og auðkenndi hann greiðsluna sem „bonus“ í skilagrein um útborgun á síðarnefnda árinu. Með þessu hefur sóknaraðili viðurkennt í verki tilkall varnaraðila til greiðslu samkvæmt samningnum og er ekkert fram komið til stuðnings þeirri málsástæðu sóknaraðila að telja megi kröfu varnaraðila á þessum grunni vera um gjöf í skilningi 3. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991. Eins og áður greinir var mælt svo fyrir í samningnum að greiðslur samkvæmt honum væru háðar því að varnaraðili hefði ekki hætt störfum eða starfsemin, sem honum væri ætlað að fást við, hefði ekki verið lögð niður, en léti hann af störfum áður en til greiðslu kæmi skyldi þó beita ákvæðum í samningsviðauka 1 um áhrif þess á tilkall hans til hennar. Í grein 3.2 í samningsviðaukanum kom fram að tilkall varnaraðila til greiðslu héldist þótt hann léti af störfum hjá sóknaraðila ef ástæða þess væri „a redundancy“. Sem fyrr segir var uppsögn varnaraðila úr starfi rakin til þeirrar ástæðu í tilkynningu sóknaraðila 19. mars 2009. Verður því ekki fallist á með honum að tilkall varnaraðila til lokagreiðslu samkvæmt samningnum sé fallið niður, en um fjárhæð hennar er ekki deilt í málinu. Um rétthæð þessarar kröfu við slit sóknaraðila verður að líta til þess að samningurinn, sem hún er reist á, geymdi engin ákvæði um vinnu varnaraðila sem launþega í þjónustu þess fyrrnefnda. Varnaraðili hefur ekki fært fram nein gögn til sönnunar því að samningurinn hafi þrátt fyrir þetta tekið til launa sér til handa eða annars endurgjalds fyrir vinnu. Þegar af þeirri ástæðu verður þessari kröfu varnaraðila ekki skipað í réttindaröð samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og telst hún því til almennra krafna eftir 113. gr. sömu laga.

Þriðja krafa varnaraðila er sem áður segir reist á því að hann telur sig hafa farið á mis við ávöxtun lífeyrisréttinda hjá eftirlaunasjóðnum Scottish Widows um sem svarar 40.648,11 sterlingspundum sökum þess að greiðsla í þágu hans til sjóðsins frá sóknaraðila á 213.192 sterlingspundum hafi ekki komist til skila 10. mars 2009, svo sem sá síðarnefndi hafi ætlast til, heldur borist 8. apríl sama ár. Að virtum málatilbúnaði varnaraðila verður að líta svo á að krafa hans af þessu tilefni sé um skaðabætur úr hendi sóknaraðila og getur hún þegar af þeirri ástæðu ekki talist krafa um gjald til lífeyrissjóðs á grundvelli laga eða kjarasamnings í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Um þessa kröfu er að öðru leyti til þess að líta að hún er einvörðungu reist á bréfi eftirlaunasjóðsins til varnaraðila 4. maí 2009, en þar kemur meðal annars fram að 10. mars sama ár hafi framlag fyrir hann verið „collected by Scottish Widows by Direct Debit from your employers bank account“. Viðkomandi banki hafi síðan hafnað greiðslunni og hún borist sjóðnum frá sóknaraðila 31. mars 2009, en réttindi handa varnaraðila á grundvelli hennar hafi ekki verið reiknuð fyrr en 8. apríl sama ár. Í bréfinu kemur síðan fram að vegna tafa frá 10. mars til 8. apríl 2009 hafi réttindi varnaraðila orðið verðminni um sem svarar áðurnefndum 40.648,11 sterlingspundum. Að því verður að gæta að í málinu hefur varnaraðili ekki skýrt frekar ástæðu þess að sóknaraðila hefði borið að greiða umrætt framlag til eftirlaunasjóðs 10. mars 2009 fremur en á öðrum degi. Þá er engin viðhlítandi skýring fram komin á ástæðu þess að sóknaraðili ætti að bera ábyrgð á töfum við réttindaákvörðun hjá eftirlaunasjóðnum fram yfir 31. mars 2009, þegar greiðsla mun hafa borist, en í bréfi sjóðsins kemur ekkert fram um hvert tjón varnaraðila hefði getað verið ef miðað hefði verið við þann dag við ákvörðun réttinda hans. Að þessu athuguðu er krafa varnaraðila af þessu tilefni ekki studd viðhlítandi gögnum og verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna henni.

Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða málsins sú að við slit sóknaraðila eru viðurkenndar kröfur varnaraðila að fjárhæð samtals 532.082,98 sterlingspund, sem njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Það athugast að nánast öll skrifleg sönnunargögn í málinu, þar með taldir samningar aðilanna, sem ágreiningur hefur staðið um, hafa andstætt ákvæðum 10. gr. laga nr. 91/1991 verið lagðir fram á erlendu tungumáli án þýðinga á íslensku. Þessi málatilbúnaður aðilanna er vítaverður, en ekki er alveg næg ástæða til að vísa málinu frá héraðsdómi af þessum sökum.

Dómsorð:

Við slit sóknaraðila, Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf., eru viðurkenndar kröfur varnaraðila, Flemming Bendsen, að fjárhæð samtals 532.082,98 sterlingspund og njóta þær stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2010.

I

Mál þetta var þingfest 30. október 2009 og tekið til úrskurðar 6. maí 2010.  Sóknar­aðili er Flemming Bendsen, búsettur í London, en varnaraðili er Straumur-Burðarás Fjárfestinga­rbanki hf., Borgartúni 25, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að kröfur hans til slitastjórnar varnaraðila dagsettar 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 532.082,89 og að fjárhæð GBP 40.648,11 verði samþykktar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfur hans til slitastjórnar varnaraðila, dagsettar 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 532,082,98 og að fjárhæð GBP 40.648,11, verði samþykktar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.   

Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.

II

Sóknaraðili gerði ráðningarsamning við varnaraðila hinn 2. mars 2007 er hann réði sig til starfa sem starfsmaður á sviði eigin viðskipta hjá varnaraðila.  Í 4. grein ráðningarsamningsins er fjallað um endurgjald sóknaraðila fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila.  Samkvæmt grein 4.1 voru grunnlaun sóknaraðila EUR 187.000 á ári.  Í grein 4.2, sbr. viðauka 1 við ráðningarsamninginn er fjallað um kaupaukagreiðslur. Í lið 2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn er fjallað um hagnaðarhlutdeild sóknaraðila og kaupaukagreiðslur hans skilgreindar.  Í lið 2.3 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn er tekið fram að varnaraðili geti frestað 25% af kaupaukagreiðslum í 12 mánuði og öðrum 25% í 24 mánuði.  .

Samhliða ráðningarsamningi gerðu aðilar með sér samkomulag um að sóknaraðili tæki að sér nánar tilgreint verkefni fyrir varnaraðila.  Þar kemur fram að sóknaraðili skuli fá fyrir verkefnið greiddar EUR 1.550.000, eða sambærilegt verðmæti hluta í varnaraðila, í einni greiðslu eða þremur jöfnum afborgunum á þriggja ára tímabili, enda sé hann enn starfandi eða að deild á sviði eigin viðskipta sé enn starfrækt.   Þá segir enn fremur að ef starfsmaður hættir vegna ástæðna sem tilgreindar eru í liðum 3.1 og 3.2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn, meðal annars þeirrar að því að dregið sé úr starfsemi fyrirtækis og því nauðsynlegt að fækka starfsfólki, eigi hann rétt á fullri greiðslu samkvæmt samkomulaginu.

Með bréfi 16. febrúar 2009 fékk sóknaraðili tilkynningu frá varnaraðila um að kaupaukagreiðsla hans fyrir árið 2008 yrði EUR 78.371. Þá var sóknaraðila einnig tilkynnt um það að komið væri að annarri afborgun af þremur, samtals að fjárhæð EUR 1.550.000 sem kveðið var á um í samkomulaginu þann 2. mars 2007, þ.e. EUR 516.667. Var tekið fram að sóknaraðili myndi fá þessar fjárhæðir greiddar í breskum pundum þann 27. febrúar 2009, miðað við gengi þann 15. febrúar 2009. 

Fjár­mála­eftirlitið ákvað 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008.  Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009, sem standa átti til 11. júní sama ár, en áður en sá tími var á enda var honum skipuð slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög.  Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtinga­blaði 18. maí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 18. júlí 2009. 

Með bréfi 19. mars 2009 var sóknaraðila sagt upp störfum hjá varnaraðila þar sem varnaraðili taldi of marga starfsmenn í fyrirtækinu miðað við verkefnin og skyldi uppsögnin taka gildi 31. mars 2009 og var uppsagnarfrestur tiltekinn þrír mánuðir.  Í bréfinu voru taldar upp þær greiðslur sem sóknaraðili ætti rétt á vegna uppgjörs á launum við starfslok. Voru þar meðal annars tilgreindar frestuð kaupaukagreiðsla að fjárhæð EUR 78.371 og launagreiðsla að fjárhæð EUR 516.667, þ.e. þriðja og síðasta greiðslan af því endurgjaldi sem kveðið var á um í samkomulaginu frá 2. mars 2007.  Þá var jafnframt tekið fram í bréfinu að umræddar fjárhæðir yrðu greiddar í breskum pundum með lokagreiðslu launa og að varnaraðili myndi miða útreikninginn við gengi þann 15. júní 2009. Snýst ágreiningur aðila meðal annars um þessar tvær greiðslur sem óumdeilt er að sóknaraðili hefur ekki fengið greiddar.

Með bréfi frá eftirlaunasjóðnum Scottish Widows 4. maí 2009 fékk sóknaraðili tilkynningu um það að greiðsla varnaraðila  í sjóðinn vegna sóknaraðila, fyrir febrúar 2009, sem millifærð hafði verið frá varnaraðila þann 10. mars 2009, hefði ekki borist sjóðnum að fullu fyrr en 8. apríl 2009, eða um mánuði eftir gjalddaga.

Sóknaraðili lýsti kröfum til slitastjórnar varnaraðila, annars vegar að fjárhæð GBP 532.082,98. Samanstóð sú fjárhæð annars vegar af frestaðri kaupaukagreiðslu að fjárhæð EUR 78.371 og hins vegar greiðslu samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi að fjárhæð EUR 516.667. Voru þessar fjárhæðir reiknaðar yfir í GBP á genginu 0,8942 eins og það var um miðjan febrúar 2009.  Þá lýsti sóknaraðili einnig kröfu til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð GBP 40.648,11 vegna tjóns sem sóknaraðili taldi sig hafa orðið fyrir við það að greiðsla í eftirlaunasjóð Scottish Widows barst ekki sjóðnum fyrr en mánuði eftir gjalddaga.

Með bréfi 30. júlí 2009 tilkynnti slitastjórn varnaraðila að kröfum sóknaraðila, nr. 71 og 183 á kröfuskrá, væri hafnað í heild sinni á þeim forsendum að slitastjórn hafnaði því að matskenndar ákvarðanir um kaupauka skömmu fyrir greiðsluþrot félagsins geti leitt til greiðsluskyldu þess.  Þá væri það afstaða slitastjórnar að ákvæði í samningum um greiðslu umtalsverðra kaupauka við starfslok væru óskuldbindandi fyrir félagið við þessar kringumstæður.

Á fundi slitastjórnar með kröfuhöfum þann 6. ágúst 2009 var framangreindri afstöðu slitastjórnar mótmælt.  Ekki var leyst úr ágreiningi aðilanna um þetta á kröfuhafafundi sem slitastjórn hélt 25. ágúst 2009 og vísaði slitastjórn varnaraðila ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 2. september 2009 og var mál þetta þingfest 30. október 2009.  Í bréfi slitastjórnarinnar kemur fram að ágreiningur snúist um ætlaðan rétt sóknaraðila til greiðslna samkvæmt samningi 2. mars 2007 sem gerður hafi verið samhliða ráðningarsamningi.  Telji slitastjórn umrædda skuldbindingu ekki halda við þær kringumstæður sem skapast hafi í rekstri varnaraðila auk þess sem efnisleg skilyrði greiðslunnar séu ekki uppfyllt.  Þá geti krafan ekki talist forgangskrafa í skilningi 112. gr. gjaldþrotalaga.  Enn fremur kemur fram í bréfi slitastjórnar að varnaraðili beri ekki ábyrgð á því að lífeyrissjóðsgreiðsla hafi borist of seint auk þess sé tjón ósannað.  Þá njóti krafa af þessu toga ekki forgangs.

III

Sóknaraðili telur engin rök standa til annars en að taka kröfur hans að fullu til greina. Sé alls óvíst á hvaða lagagrundvelli varnaraðili hafni kröfum sóknaraðila og af hverju hann telji samninga sem kveði á um ráðningarkjör sóknaraðila, gerða af þar til bærum aðilum, vera óskuldbindandi.  Þá hafi varnaraðili ekki fært rök fyrir því af hverju hann eigi ekki að bera ábyrgð á því fjártjóni sem sóknaraðili hafi orðið fyrir vegna þess að lífeyrissjóðsgreiðsla varnaraðila hafi borist mánuði of seint. 

Aðalkrafa sóknaraðila, um að krafa sóknaraðila til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð GBP 532.082,98 verði samþykkt sem forgangskrafa, sé krafa um bætur vegna slita á vinnusamningi.  Krafa þessi eigi sér stoð í ráðningarsamningum aðila og hafi greiðslur þessar verið hluti af ráðningarkjörum sóknaraðila.  Annars vegar sé um að ræða frestaða kaupaukagreiðslu sem eigi sér stoð í lið 4.2. í ráðningarsamningi aðila og lið 2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn og hins vegar sé um að ræða umsamið endurgjald fyrir vinnu sem eigi sér stoð í samkomulagi aðila frá 2. mars 2007, sem gert hafi verið samhliða ráðningarsamningnum.

Samkvæmt þessu sé ljóst að þeir samningar, sem krafa þessi byggist á, séu samningar sem kveði á um ráðningarkjör sóknaraðila og launa- og kaupaukagreiðslur til hans vegna vinnu í þágu varnaraðila.  Þessir samningar hafi verið undirritaðir af þar til bærum aðilum í byrjun mars 2007 og hafi því ekki staðið í neinum tengslum við greiðsluþrot varnaraðila.  Því sé alveg ljóst að umræddir samningar séu skuldbindandi fyrir varnaraðila.

Þá sé einnig ljóst að þær greiðslur sem sóknaraðili geri hér kröfu um hafi ekki staðið í neinum tengslum við starfslok hans hjá varnaraðila og sé því ekki um starfsloka­greiðsl­ur að ræða, heldur umsamin launakjör fyrir vinnuframlag sóknaraðila.  Varnar­aðili hafi skuldbundið sig til að greiða sóknaraðila umræddar launa- og kaupauka­greiðslur og beri að efna þær samningsskuldbindingar.  Samkvæmt meginreglum vinnuréttar beri að greiða starfsmanni við starfslok áunnin laun samkvæmt ráðningar­samn­ingum. Þessu til stuðnings sé vert að geta þess að með bréfi 19. mars 2009, þ.e. eftir að varnaraðili var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og sama dag og varnaraðili fór í greiðslustöðvun, hafi varnaraðili staðfest að við uppgjör launa við starfslok ætti sóknaraðili rétt á þeim launagreiðslum sem sóknaraðili geri hér kröfu um að verði samþykktar.  Með þessu hafi varnaraðili staðfest skuldbindingargildi framangreindra samninga og rétt sóknaraðila til umræddra launa- og kaupaukagreiðslna. 

Sé hér um að ræða kröfu um bætur vegna slita á vinnusamningi, en kröfur byggist á launum og öðru endurgjaldi fyrir vinnu sóknaraðila í þágu varnaraðila, sem eigi sér stoð í ráðningarsamningum aðila.  Falli krafan því undir 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Verði ekki fallist á að krafa sóknaraðila sé forgangskrafa sé á því byggt að hún sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Hin aðalkrafa sóknaraðila, að krafa sóknaraðila til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð GBP 40.648,11 verði samþykkt sem forgangskrafa, sé krafa um fullar efndir á greiðslu í lífeyrissjóð.  Krafa þessi sé á því byggð að skylda varnaraðila sé sú að greiða lífeyrissjóðsgreiðslu til sóknaraðila, eða þess er hann vísi til, á gjalddaga greiðslunnar. Óumdeilt sé að greiðslan hafi ekki borist Scottish Widows á gjalddaga hennar heldur einum mánuði síðar.  Það sé á ábyrgð varnaraðila, enda hafi sóknaraðili engan þátt átt í því að greiðslan barst ekki á réttum tíma.  Það sé meginregla í íslenskum samninga- og kröfurétti að greiðslustaður peningakrafna sé hjá kröfuhafa og peningagreiðsla teljist ekki hafa borist fyrr en hún sé komin til kröfuhafa.  Í þessu tilviki myndi kröfuhafi teljast vera Scottish Widows, sem taki við greiðslu fyrir hönd sóknaraðila. Þessi regla hafi í för með sér að það sé skuldari, í þessu tilviki varnaraðili, sem beri áhættuna af því, ef greiðsla misfarist með einhverjum hætti eða henni seinki, þrátt fyrir að greiðsludrátturinn sé ekki skuldaranum sjálfum að kenna.

Hafi sóknaraðili orðið fyrir fjártjóni þar sem hann hafi tapað ávöxtun á þeirri greiðslu sem borist hafi um mánuði of seint.  Á því tjóni beri varnaraðili ábyrgð.  Nemi tapið GBP 40.648,11, eins og fram komi í bréfi frá Scottish Widows 4. maí 2009.  Þar sem varnaraðili beri áhættuna af þessum greiðsludrætti beri honum að bæta sóknaraðila það tjón sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum.  Megi jafna þessu við kröfu um vanskilavexti, sem óumdeilt fylgi þeirri kröfu sem stofnað hafi til þeirra.  Með vísan til 4. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991 telji sóknaraðili ljóst að krafa þessi sé forgangskrafa í bú varnaraðila.

Til vara sé þess krafist að krafan verði samþykkt sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. 

Hvorki í ráðningarsamningi aðila né í viðauka 1 við samninginn komi fram eftir lögum hvaða lands hann eigi að fara en með vísan til a. liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar sé ljóst að við túlkun hans fari eftir sænskum lögum.  Í fyrrgreindu samkomulagi aðila komi hins vegar fram að um það fari samkvæmt íslenskum lögum eða öðrum lögum ef varnaraðili kysi svo.

Sóknaraðili vísar einkum til ákvæða laga nr. 21/1991 máli sínu til stuðnings.  Þá vísar hann til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar.  Um málskostnað vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.

IV

Varnaraðili kveður kröfu sóknaraðila um greiðslu að fjárhæð GBP 532.082,98 vera tvíþætta.  Annars vegar sé um að ræða kaupaukagreiðslu sem ákvörðuð hafi verið á árinu 2008 vegna rekstrarársins 2007.  Samkvæmt ákvæði 4.2. í ráðningarsamningi sóknaraðila og viðauka 1 við þann samning hafi sóknaraðili átt möguleika á árangurstengdum greiðslum auk umsaminna launagreiðslna.  Á grundvelli þessara ákvæða hafi sóknaraðili verið talinn eiga rétt til kaupaukagreiðslu að fjárhæð EUR 313.482 vegna rekstrarársins 2007.  Helmingur þeirrar fjárhæðar hafi verið greiddur 1. mars 2008 en í samræmi við heimild í ákvæði 2.3. í viðauka I við ráðningar­samninginn hafi fjórðungi greiðslunnar verið frestað til 1. mars 2009 og fjórðungi til 1. mars 2010.  Réttur sóknaraðila til frestaðra greiðslna hafi samkvæmt ákvæðum viðaukans verið háður því að hann væri enn í starfi hjá varnaraðila þegar kæmi að greiðslunum.

Á grundvelli framangreinds krefjist sóknaraðili jafngildi EUR 78.371 en krafa varnaraðila sé sett fram í breskum pundum þar sem launauppgjör hafi farið fram í þeim gjaldmiðli.  Ekki sé ágreiningur milli málsaðila um fjárhæð þessa hluta kröfu varnaraðila.  Varnaraðili telji kröfu sóknaraðila um greiðslu kaupauka hins vegar ekki njóta forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.  Að mati varnaraðila sé um almenna kröfu að ræða samkvæmt 113. gr. sömu laga.

Með ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991, sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, sé vikið frá grundvallarreglu laganna um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti.  Af því leiði að ákvæðið verði ekki skýrt rúmt.  Ákvæði 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna taki til launa og óumdeilt sé að greiðslur sem þar falli undir þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu í þjónustu þrotamanns.  Um endurgjald sóknaraðila fyrir vinnu í þágu sóknaraðila hafi farið samkvæmt ráðningarsamningi sem gerður hafi verið 2. mars 2007.  Samkvæmt honum hafi umsamin föst laun sóknaraðila verið EUR 187.000 á ári.

Greiðslum samkvæmt viðauka 1 við ráðningarsamninginn verði að mati varnaraðila ekki jafnað til launagreiðslna sem falli undir 112. gr. laga nr. 21/1991.  Ekki sé um að ræða reglubundið endurgjald fyrir vinnu heldur samning um árangurstengdar greiðsl­ur. Samningurinn sé meðal annars eins konar tryggðarsamningur þar sem réttur til greiðslna sem þegar hafi verið ákvarðaðar, en greiðslu frestað í allt að tvö ár, falli niður ef starfsmaður hætti störfum á tímabilinu.  Þessi sérstaða greiðslnanna sé áréttuð í ákvæði 2.5. í viðauka 1 við ráðningarsamning sóknaraðila.  Þar sé með skýrum hætti kveðið á um að umræddur viðauki sé ekki hluti af ráðningarsamningi sóknaraðila og varnaraðila og greiðslur samkvæmt viðaukanum séu ekki laun.  Þá sé í sama ákvæði tekið fram að ekki verði greitt í lífeyrissjóð af greiðslum samkvæmt samningnum og að uppsögn úr starfi geti ekki undir neinum kringumstæðum veitt rétt til greiðslna eða bóta á grundvelli viðaukans.  Telji varnaraðili því ljóst að greiðslur samkvæmt viðauka 1 við ráðningarsamninginn verði ekki felldar undir 112. gr. laga nr. 21/1991.

Í greinargerð sóknaraðila sé gerð grein fyrir samningi sem gerður hafi verið samhliða ráðningarsamningi.  Samkvæmt þeim samningi hafi sóknaraðili átt rétt til greiðslna að fjárhæð EUR 1.550.000 sem varnaraðila hafi annað hvort borið að greiða í einu lagi eða í þremur jöfnum greiðslum á jafn mörgum árum.  Samkvæmt ákvæðum samnings­ins hafi réttur sóknaraðila til greiðslna verið háður því að hann væri í starfi hjá varnaraðila og að svið eigin viðskipta hjá varnaraðila væri starfhæft.  Í samræmi við þessi skilyrði hafi verið mælt fyrir um skyldu sóknaraðila til að endurgreiða hluta fjárhæðarinnar ef annaðhvort framangreindra skilyrða teldist ekki uppfyllt en fjárhæð­in öll hefði verið greidd til sóknaraðila fyrir fram.

Hafi varnaraðili kosið að dreifa umræddum greiðslum á þrjú ár.  Fyrsta greiðslan að fjárhæð EUR 516.667 hafi verið innt af hendi á árinu 2008. Sóknaraðili krefjist nú annarrar greiðslu samkvæmt samningnum, sömu fjárhæðar og telji hana njóta forgangs á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telur skuldbindingu til framangreindrar greiðslu ekki vera fyrir hendi.  Beri að skilja skilyrði umrædds samnings svo að skylda til greiðslu hafi fallið niður við það að starfsemi eigin viðskipta hjá varnaraðila hafi lagst af 9. mars sl. þegar skilanefnd var skipuð og daglegri starfsemi bankans hætt.  Þá liggi enn fremur fyrir að sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum 19. mars 2009, líkt og flestum starfsmönnum bankans.

Í umræddum samningi sé kveðið á um að réttur til greiðslu sé háður því að svið eigin viðskipta hjá varnaraðila sé starfhæft og að sóknaraðili sé enn við störf hjá varnaraðila.  Sé ljóst af orðalagi samningsins að þessi skilyrði þurfi að vera fyrir hendi í þrjú ár frá undirritun samningsins.  Það hafi hins vegar ekki náðst og hafi greiðsluskylda því fallið niður.

Verði talið að sóknaraðili eigi kröfu á grundvelli framangreinds samnings sé ljóst að krafan njóti ekki forgangs á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991.  Ekki sé um að ræða endurgjald fyrir vinnu í þágu varnaraðila.  Fyrir liggi að sérstaklega hafi verið samið um það endurgjald í ráðningarsamningi sóknaraðila.  Raunar sé vandséð hvert framlag sóknaraðila hafi verið samkvæmt hinum umdeilda samningi, annað en að vera enn við störf á sviði eigin viðskipta varnaraðila að þremur árum liðnum.  Krafa sóknaraðila hafi sýnilega verið skilyrt að þessu leyti.  Þá sé tekið fram í samningnum að ef greiðsla væri innt af hendi í einu lagi bæri að meðhöndla hana sem skuld sóknaraðila við varnaraðila þar til umræddum þriggja ára tíma væri náð. 

Verði talið að til kröfu hafi stofnast telur varnaraðili að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi 114. gr. laga nr. 21/1991 enda verði ekki séð að nokkurt endurgjald hafi verið áskilið af hálfu varnaraðila.  Til vara sé þess krafist að krafan verði felld undir 113. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili mótmælir enn fremur fjárhæð kröfu sóknaraðila.  Fyrir liggi að varnaraðili hafi greitt GBP 189.000 pund í lífeyrissjóð sóknaraðila í mars 2009. Greiðslan í lífeyrissjóð sóknaraðila sé þannig til komin að sóknaraðili hafi farið fram á að hluta þeirra greiðslna sem fjallað hefur verið um hér að framan, samanlagt að fjárhæð GBP 532.082,98, yrði ráðstafað í lífeyrissjóð hans. Sú greiðsla, að fjárhæð GBP 189.000 hafi verið innt af hendi og komi því til frádráttar kröfu sóknaraðila.

Sóknaraðili hafi kosið sem fyrr segir að ráðstafa hluta greiðslna í lífeyrissjóðinn Scottish Widows.  Varnaraðili hafi innt umrædda greiðslu til lífeyrissjóðs sóknaraðila af hendi 10. mars 2009.  Vegna inngrips Fjármálaeftirlitsins í starfsemi varnaraðila 9. mars 2009 hafi greiðslur tengdar varnaraðila víða verið stöðvaðar.  Svo virðist sem greiðslufyrirmæli varnaraðila hafi í þessu tilviki ekki verið efnd af hálfu viðtöku­bankans, þ.e. viðskiptabanka lífeyrissjóðsins.  Samkvæmt gögnum málsins muni greiðslan ekki hafa skilað sér til lífeyrissjóðsins fyrr en 8. apríl 2009.  Sé því haldið fram að þessar tafir hafi leitt til virðisrýrnunar sem nemi 40.648,11 breskum pundum.

Varnaraðili telur í fyrsta lagi að sóknaraðili hafi ekki átt kröfu til greiðslu umrædds framlags í lífeyrissjóð. Verði talið að sóknaraðili eigi ekki rétt til greiðslu að fjárhæð EUR 516.667 sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki átt kröfu á því að ráðstafa hluta þeirrar fjárhæðar í lífeyrissjóð.  Að mati varnaraðila hafi sú greiðsla verið umfram skyldu. Þegar af þeirri ástæðu komi ekki til skoðunar hvort dráttur á þeirri greiðslu geti leitt til frekari greiðsluskyldu varnaraðila.

Verði talið að sóknaraðili eigi rétt til greiðslna samkvæmt framansögðu að fjárhæð GBP 532.082,98, og hafi af þeim sökum getað ráðstafað hluta þeirra í lífeyrissjóð, sé kröfum sóknaraðila samkvæmt þessum lið eftir sem áður hafnað.  Því sé í fyrsta lagi hafnað að tafir á umræddri greiðslu, reynist þær réttar, verði virtar varnaraðila til sakar.  Varnaraðili hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að inna umrædda greiðslu af hendi með greiðslufyrirmælum 10. mars 2009.  Ákvörðun viðskiptabanka lífeyrissjóðs sóknaraðila, að stöðva öll greiðslufyrirmæli varnaraðila, sé ekki á ábyrgð varnaraðila.  Að mati varnaraðila verði sóknaraðili að beina kröfum sínum til viðskiptabanka lífeyrissjóðsins, ef einhver krafa er fyrir hendi á annað borð.  Þá telji varnaraðili í öðru lagi að jafnvel þótt talið yrði að umrætt atvik yrði virt varnaraðila til sakar þá geti tjón sóknaraðila ekki talist sennileg afleiðing þessarar athafnar varnaraðila.  Þá sé því enn fremur mótmælt sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi orðið fyrir fjártjóni vegna umræddra tafa.  Verði að mati varnaraðila að teljast með ólíkindum að sóknaraðili hafi farið á mis við ávöxtun að fjárhæð ríflega 40 þúsund pund á innan við mánuði.

Verði talið, þrátt fyrir framangreint, að stoð sé fyrir kröfu sóknaraðila sé ljóst að krafan falli ekki undir 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur sé um almenna kröfu að ræða. Umrædd greiðsla að fjárhæð GBP 189.000 hafi ekki verið innt af hendi á grundvelli lagaskyldu eða á grundvelli ráðningarsamnings eða kjarasamnings. Af gögnum málsins sé ljóst að sóknaraðili hafi kosið að ráðstafa hluta þeirra greiðslna sem hann taldi sig eiga tilkall til í umræddan lífeyrissjóð.  Slík einhliða ráðstöfun sóknaraðila felli greiðsluna ekki undir 112. gr. laga nr. 21/1991.  Þá sé ljóst að krafa sóknaraðila sé krafa um bætur vegna missis ávöxtunar á höfuðstóli greiðslunnar.  Bótakröfur falli undir 113. gr. laga nr. 21/1991. 

Sóknaraðili vísi til þess að um ráðningarsamninginn og viðauka við hann fari eftir sænskum lögum.  Af hálfu varnaraðila sé vísað til þess að störf sóknaraðila hafi verið á sviði eigin viðskipta fyrir samstæðu varnaraðila.  Af þeim sökum, og með vísan til þess að í þeim samningi sem gerður var samhliða ráðningarsamningnum sé tekið fram að um hann gildi íslensk lög, telji varnaraðili að beita beri íslenskum lögum um réttarsamband aðila.  Í öllu falli sé ljóst að efni erlendra réttarreglna hafi enga þýðingu við mat á því hvar krafa sóknaraðila standi í réttindaröð samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Þá telur varnaraðili engu máli skipta við mat á réttmæti krafna sóknaraðila að starfsmaður varnaraðila hafi við uppsögn sóknaraðila tiltekið þær kröfur sem hann taldi sóknaraðila eiga rétt til. Á þessum tíma hafði Fjármálaeftirlitið gripið inn í starfsemi félagsins og skilanefnd tekið við stjórn bankans.  Þá hafi bankinn enn fremur fengið leyfi til greiðslustöðvunar. Hvorki skilanefnd né aðstoðarmaður á greiðslu­stöðvunar­tíma hafi skuldbundið bankann gagnvart sóknaraðila eða veitt samþykki til slíks.  Um réttmæti krafna sóknaraðila og stöðu þeirra í réttindaröð fari að lögum og geti yfirlýsingar starfsmanna varnaraðila þar engu breytt. 

V

Eins og fram er komið snýst ágreiningur aðila um það hvort krafa sóknaraðila vegna kaupaukagreiðslu að fjárhæð EUR 78.371, umreiknað í GBP 70.079,35, sé forgangskrafa eða almenn krafa.  Þá er ágreiningur um kröfu sóknaraðila sem hann byggir á samkomulagi milli aðila sem gert var samhliða ráðningarsamningi að fjárhæð EUR 516.667, umreiknað í GBP 462.003,63.  Telur varnaraðili sig óskuldbundinn til greiðslu kröfunnar auk þess sem hún sé ekki forgangskrafa.  Þá er ágreiningur um kröfu sóknaraðila vegna meints tjóns hans af því að greiðsla varnaraðila í eftirlaunasjóð fyrir sóknaraðila hafi borist of seint til sjóðsins en sóknaraðili metur tjón sitt af þessum sökum GBP 40.648,11.

Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að þar sem hvorki komi fram í ráðningar­samningi né viðauka 1 við hann eftir lögum hvaða lands skuli fara sé ljóst að við túlkun hans skuli fara samkvæmt sænskum lögum.  Vísar hann um þetta til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar þar sem segir að eftirfarandi lög skuli gilda um vinnusamninga: a) lög þess lands sem launþegi starfar að jafnaði, enda þótt honum hafi tímabundið verið falin störf í tilteknu landi eða b) ef launþegi starfar að jafnaði ekki í neinu tilteknu landi gildi lög þess lands þar sem sú starfsstöð er sem réð hann til starfa.  Samkvæmt ráðningarsamningi var starfsstöð sóknaraðila í Svíþjóð en af gögnum málsins verður ekki ráðið hvaða þýðingu sóknaraðili telur það hafa, varðandi þann ágreining sem hér er uppi, að um túlkun ráðningarsamnings skuli fara eftir sænskum lögum eða hvort og þá í hverju þau séu frábrugðin íslenskum lögum.  Fyrir liggur að í samkomulagi aðila frá 2. mars 2007 sem gert var samhliða ráðningarsamningi og viðauka 1 við hann er tekið fram að fara skuli eftir íslenskum lögum nema varnaraðili kjósi annað.  Þykir ekki sýnt fram á annað en að um kröfur sóknaraðila skuli fara samkvæmt íslenskum lögum enda verður ekki annað séð en að sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn á íslenskum lögum.

Sá kröfuliður sóknaraðila er varðar kaupaukagreiðslu að fjárhæð EUR 78.371 eða GBP 70.079,35  sem ákvörðuð var á árinu 2008 vegna rekstrarársins 2007, byggist á ákvæði 4.2 í ráðningarsamningi og viðauka 1 við þann samning.  Samkvæmt gögnum málsins átti sóknaraðili rétt á EUR 313.482 vegna rekstrarársins 2007 og fékk hann helming þeirrar greiðslu 1. mars 2008 en í samræmi við heimild í ákvæði 2.3 í viðauka i við ráðningarsamninginn var fjórðungi greiðslunnar frestað til 1. mars 2009 og fjórðungi til 1. mars 2010.  Verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn með öðrum hætti en að hann sé hér að krefjast þess hluta kaupaukagreiðslunnar sem greiðast átti 1. mars 2009.  Ekki er ágreiningur um það í málinu að sóknaraðili eigi kröfu þessa á hendur varnaraðila eða fjárhæð hennar heldur snýst ágreiningur aðila um það hvort hún njóti forgangs á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Telur varnaraðili að krafa þessi sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. gjaldþrotalaga. 

Ljóst þykir að þeir samningar sem krafa þessi byggist á, annars vegar ráðningar­samningur og hins vegar viðauki 1 við þann samning, kveða á um ráðningarkjör sóknaraðila.  Kveða þeir á um umsamin launakjör fyrir vinnuframlag sóknaraðila, annars vegar föst laun og hins vegar kaupaukagreiðslur.  Samkvæmt 4.2 gr. ráðningarsamningsins segir að sóknaraðili geti átt rétt á nánar tilgreindri greiðslu og er vísað í því sambandi til viðauka 1 með ráðningarsamningi, þar sem fjallað er um kaupaukagreiðslur vegna hagnaðar, en krafa sú sem hér er til umfjöllunar er slík greiðsla.  Kemur og fram í ráðningarsamningi að af greiðslum þessum skuli greiða skatta og opinber gjöld og að inn í fjárhæðum sé reiknað orlof.  Þá kemur fram í viðauka 1 við ráðningarsamning að ákvörðunarvaldið um bónusgreiðslur sé í höndum forstjóra varnaraðila. 

Sóknaraðili byggir á því að framangreind krafa hans eigi að njóta forgangs við slitameðferð varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga, einkum 2. tl. þess ákvæðis.  Samkvæmt 1. tl. ákvæðisins njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag, forgangs.  Samkvæmt 2. tl. njóta kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tl. eða eftir frestdag einnig forgangs.  Frestdagur við slitameðferð varnaraðila miðast við þann dag sem Fjármálaeftirlitið tók yfir hluthafafund varnaraðila hinn 9. mars 2009 en eins og rakið hefur verið féll krafa sóknaraðila í gjalddaga fyrir frestdag eða 8 dögum áður.  Greinir aðila á um það hvort umdeild krafa geti talist laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila.

Liggur fyrir að greiðslan að fjárhæð EUR 78.371 var kaupaukagreiðsla til handa sóknaraðila sem ákvörðuð var á árinu 2008 vegna rekstrarársins 2007 og hafði varnaraðili tilkynnt sóknaraðila um þessa greiðslu sem óumdeilt er að átti að greiðast 1. mars 2009.  Þykir því ljóst að greiðsla þessi var kaupauki vegna vinnuframlags sóknaraðila í þágu varnaraðila sem þegar hafði verið innt af hendi.  Þykir engu breyta í þessu sambandi þótt kveðið sé um það í grein 2.5 í viðauka 1 við ráðningarsamning að þessar greiðslur séu ekki hluti af launum sóknaraðila.  Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að á gjalddaga kröfunnar 1. mars 2009 hafði sóknaraðili innt af hendi það vinnuframlag sem af honum var krafist.  Þykir ljóst að umræddar kaupauka­greiðsl­ur voru þannig endurgjald fyrir vinnu sóknaraðila í þágu varnaraðila og njóta þær því forgangs samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga.

Í grein 2.5 í viðauka 1 við ráðningarsamning segir meðal annars að viðaukinn sé ekki hluti starfssamnings aðila og að hann færi starfsmanninum ekki nein lagaleg réttindi gagnvart fyrirtækinu eða veiti honum tilefni til að leita lagalegra úrræða eða kröfugerðar á hendur fyrirtækinu.  Skjalið heitir viðauki 1 við ráðningarsamning og þar með hlýtur hann að vera hluti starfssamnings aðila.  Þetta ákvæði verður að skilja sem svo að ákvarðanir sem varnaraðili tekur varðandi bónusgreiðslur séu endanlegar og starfsmaður geti þar engin áhrif haft á.  Hins vegar verður með engu móti fallist á að það útiloki sóknaraðila frá því að fá leyst úr kröfum sínum, sem varnaraðili hefur þegar ákveðið að hann eigi rétt á samkvæmt samningnum, fyrir dómi.

Sá hluti kröfu sóknaraðila að fjárhæð EUR 516.667 eða GBP 461.109,43, er síðasta greiðsla af heildarfjárhæðinni EUR 1.550.000 samkvæmt samningi aðila.  Varnaraðili mótmælir hins vegar skuldbindingargildi samningsins þar sem skilyrði til greiðslu samkvæmt honum hafi ekki verið uppfyllt.

Samkvæmt samkomulagi þessu skyldi varnaraðili greiða sóknaraðila umrædda fjárhæð í einni greiðslu eða í þrem jöfnum greiðslum á þremur árum, enda væri sóknaraðili í starfi hjá varnaraðila eða svið eigin viðskipta starfrækt.  Varnaraðili kaus hins vegar að skipta þessum greiðslum niður á tvö ár en samkvæmt samningnum áttu EUR 1.033.333 að greiðast 1. mars 2008 og EUR 516.667 að greiðast 1. mars 2009, Þá kemur fram í samningnum að hinn 1. september 2009 ættu að greiðast EUR 258.333 en sú greiðsla er umfram þær EUR 1.550.000 sem samningurinn gerir ráð fyrir og er því í engu samræmi við hann.  Hins vegar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sóknaraðili sé í máli þessu að krefjast greiðslu sem greiðast átti 1 mars 2009, þ.e. afgangs þess fjárhæðar sem samningurinn hljóðar upp á.

Varnaraðili telur að skilyrði framangreinds samkomulags hafi ekki verið uppfyllt og hafi greiðsluskylda varnaraðila á grundvelli samningsins fallið niður við það að starfsemi eigin viðskipta hjá varnaraðila lagðist af 9. mars 2009.  Sé í samningi aðila kveðið á um að réttur til greiðslu sé háður því að svið eigin viðskipta hjá varnaraðila sé starfshæft og að sóknaraðili sé enn við störf hjá varnaraðila.  Sé ljóst af orðalagi samningsins að þessi skilyrði þurfi að vera fyrir hendi í þrjú ár frá undirritun samningsins.

Af gögnum málsins má sjá að umræddar greiðslur samtals að fjárhæð EUR 1.550.000 sem ráðgert var að dreifa á þrjú ár var einungis dreift á tvö ár og samkvæmt framansögðu gerir sóknaraðili nú kröfu til lokagreiðslunnar sem var á gjalddaga 1. mars 2009.  Verður samningur þessi því ekki skilinn á þann veg að skilyrði greiðslu þurfi að vera fyrir hendi í þrjú ár frá undirritun samningsins.  Ljóst er að þegar greiðsla samkvæmt samningnum var gjaldkræf, hinn 1. mars 2009 var sóknaraðili enn við störf hjá varnaraðila og svið eigin viðskipta starfshæft.  Fær þetta stoð í vitnisburði Benedikts Gíslasonar fyrrverandi yfirmanns sóknaraðila hjá varnaraðila fyrir dómi og þykir því fullnægt framangreindum skilyrðum samningsins.  Þá er til þess að líta í grein 3.2 í viðauka 1 við ráðningarsamning er kveðið á um það að hinar frestuðu kaupaukagreiðslur skuli ekki falla niður ef sóknaraðili hættir störfum hjá varnaraðila vegna þess að reksturinn væri að dragast saman sem var raunin í tilviki sóknaraðila.  Að því virtu sem nú hefur verið rakið á sóknaraðili kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli samnings aðila að fjárhæð EUR 516.667 eða GBP 461.109,43.  Stendur þá eftir ágreiningur um hvar skipa skuli kröfunni í skuldaröð.

Sóknaraðili byggir á því að framangreindar kröfur hans eigi að njóta forgangs við slitameðferð varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga, einkum 2. tl. þess ákvæðis. 

Í samningi þeim sem framangreind krafa byggist á kemur fram að greiðslur séu fyrir nánar tilgreint verk, sem sóknaraðili sjálfur eða fyrirtæki/lögaðili sem hann á eða stjórnar, tekur að sér fyrir varnaraðila.  Verkefnið sem sóknaraðili, eða sá sem hann vísar til, tók meðal annars að sér samkvæmt samningnum, var að vera til ráðgjafar við það verkefni að byggja upp svið eigin viðskipta í Norður-Evrópu.  Verður samningur þessi ekki skilinn á annan veg en að sóknaraðili sé með honum að taka að sér einhvers konar ráðgjafarþjónustu umfram það starf sem hann var ráðinn til að gegna samkvæmt ráðningarsamningi.   Er ekkert í samningnum sem gefur til kynna að greiðslur þessar yrðu skertar með frádrætti vegna launatengdra gjalda eða staðgreiðslu opinberra gjalda.  Ber samningur þessi með sér að sóknaraðili hafi með honum tekið að sér verkefnið sem verktaki en ekki launþegi og fellur krafan því ekki undir 112. gr. gjaldþrotalaga heldur er hér um að ræða almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. 

Varnaraðili telur að skipa eigi kröfu þessari í flokk eftirstæðra krafna samkvæmt 114. gr. gjaldþrotalaga þar sem um hafi verið að ræða gjöf þar sem ekkert endurgjald hafi verið áskilið af hálfu varnaraðila.  Með vísan til þess sem að framan er rakið var umdeild greiðsla vegna ákveðins verkefnis sem sóknaraðili tók að sér fyrir varnaraðila og liggur ekkert fyrir annað en að hann hafi innt það verkefni af hendi enda hafði varðaraðili tilkynnt sóknaraðila um að greiðslan yrði innt af hendi 1. mars 2009.

Óumdeilt er að varnaraðili greiddi hinn 10. mars 2009 GBP 189.000 í eftirlaunasjóð Scottish Widows í þágu sóknaraðila.  Skilaði greiðslan sér hins vegar ekki til móttakanda fyrr en 8. apríl 2009.  Telur sóknaraðili að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa þar sem hann hafi orðið af ávöxtun á greiðslunni á þessum tæpa mánuði.  Óumdeilt er að varnaraðili innti greiðsluna af hendi á réttum tíma og hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að varnaraðili beri ábyrgð á því að greiðslan barst ekki móttakanda fyrr en raun ber vitni. Verður sóknaraðili að bera hallann af þeim sönnunarskorti og verður kröfu þessari hafnað.

Með bréfi 16. febrúar 2009 til sóknaraðila var honum tilkynnt um að hann fengi kaupauka að fjárhæð EUR 78.371 vegna ársins 2008 og að í samræmi við samning aðila 2. mars 2007 yrði honum greidd önnur greiðsla hans að fjárhæð EUR 516.667 að frádregnum sköttum 27. febrúar 2009 í enskum pundum umreiknuðum samkvæmt gengi 0,89646.  Sama dag sendi varnaraðili sóknaraðila bréf þess efnis að frá umræddum greiðslum sem miðað við ofangreint gengi væru GBP 533.428 (78.371 + 516.667 = 595.038 x 0,89646) væru dregin GBP 189.000 vegna greiðslna varnaraðila í eftirlaunasjóðinn Scottish Widows sóknaraðila til hagsbóta.  Er óumdeilt að umrædd greiðsla var greidd til eftirlaunasjóðsins og verður því ekki annað séð en að með því hafi sóknaraðili fengið hluta kröfu sinnar greidda.   Í málinu liggja hins vegar ekki fyrir haldbær gögn um hvernig greiðslu af þessum toga yrði skipað í réttindaröð við gjaldþrot og verður varnaraðili að bera hallann af því en hann hefur krafist þess að krafa sóknaraðila verði lækkuð af þessum sökum.  Verður greiðsla þessi því dregin frá þeirri kröfu sóknaraðila sem viðurkennd hefur verið sem almenn krafa.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er viðurkennt að krafa sóknaraðila að fjárhæð GBP 70.079,35 sé forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila.  Þá er viðurkennt að krafa sóknaraðila að fjárhæð GBP 273.003.63 (462.003,63 – 189.000) sé almenn krafa við slitameðferð varnaraðila og kröfu sóknaraðila að fjárhæð GBP 40.648,11 er hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ólafur Eiríksson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Hilmar Gunnarsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Krafa sóknaraðila, Flemming Bendsen, að fjárhæð GBP 70.079,35 er viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila, Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf. 

Krafa sóknaraðila að fjárhæð GBP 273.003,63 er viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila.

Kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð GPB 40.641,11 er hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað.