Hæstiréttur íslands
Mál nr. 261/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Vanreifun
|
|
Miðvikudaginn 8. maí 2013. |
|
Nr. 261/2013.
|
Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag (Kristinn Brynjólfur fyrirsvarsmaður) gegn VBS eignasafni hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Vanreifun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M ehf. á hendur V hf. var vísað frá dómi. Málið var til komið vegna ágreinings um kröfu sem M ehf. hafði lýst við slit V hf. vegna tjóns sem M ehf. taldi sig hafa orðið fyrir vegna úthlutunar til V hf. af nauðungarsöluandviði eigna M ehf. vegna málskostnaðar V hf. Krafa M ehf. var sett fram sem skaðabótakrafa en málatilbúnaðurinn laut á hinn bóginn allur að því að málskostnaður hefði verið of hár miðað við eðli og umfang innheimtuaðgerða V hf. Ekki þótti rökstutt á hvaða grunni krafa um skaðabætur væri reist og var komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði héraðsdóms að málatilbúnaði M ehf. væri svo áfátt að ekki yrði hjá komist að vísa málinu frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem réttaráhrif þess að vísa kröfu frá dómi í máli sem farið væri með eftir ákvæðum XXIV. kafla laga nr. 21/1991 væru þau sömu og þegar kröfu væri hafnað hefði í ljósi forsendna hins kærða úrskurðar verið réttara að hafna kröfunni. Ekki var af þessum sökum ástæða til að ómerkja hinn kærða úrskurð og var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
Þar sem réttaráhrif þess að vísa kröfu frá dómi í máli sem farið er með eftir ákvæðum XXIV. kafla laga nr. 21/1991 eru þau sömu og þegar kröfu er hafnað, hefði í ljósi forsendna hins kærða úrskurðar verið réttara að hafna kröfunni. Ekki er af þessum sökum ástæða til að ómerkja hinn kærða úrskurð sem verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði varnaraðila, VBS eignasafni hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 29. október 2012, var tekið til úrskurðar 11. mars sl. að loknum málflutningi um þá kröfu varnaraðila að vísa beri kröfum sóknaraðila frá dómi.
Sóknaraðili er Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, Lágabergi 1, Reykjavík, en varnaraðili er VBS eignasafn hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómur staðfesti bótakröfurétt hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 7.133.000 kr., auk dráttarvaxta frá 18. apríl 2007 til 9. apríl 2010 að fjárhæð 7.555.471 kr., vegna ólögmætrar málskostnaðarkröfu sem varnaraðili fékk greidda af nauðungarsöluandvirði eigna sóknaraðila með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 að Rafstöðvarvegi 1a, sem seldar voru nauðungarsölu 18. apríl 2007 að beiðni varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili þess að dómurinn staðfesti heimild sóknaraðila til skuldajöfnunar eftir almennum reglum og að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila á hendur honum verði vísað frá dómi. Til vara krefst varnaraðili þess að staðfest verði sú afstaða hans að hafna með öllu kröfu sóknaraðila í slitabú varnaraðila um skaðabætur vegna meintrar ólögmætrar málskostnaðarkröfu sem varnaraðili fékk greidda af nauðungarsöluandvirði eigna sóknaraðila með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 að Rafstöðvarvegi 1a. Þá krefst varnaraðili þess að réttarfarssekt verði lögð á sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili krefst þess enn fremur að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila. Þá krefst hann þess að stjórnarformaður sóknaraðila, Kristinn Brynjólfsson, verði dæmdur persónulega til greiðslu málskostnaðar og réttarfarssektar vegna tilefnislausrar málsóknar.
Í þessum þætti málsins er krafa varnaraðila um frávísun tekin til úrskurðar, ásamt kröfu hans um málskostnað af því tilefni. Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og málið tekið til efnislegrar meðferðar. Krefst hann málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Málsatvik
Ágreiningur aðila er sprottinn af veðskuldabréfum sem gefin voru út árin 2005 og 2006 og tryggð með veði í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Bréfin voru samtals að fjárhæð 252.000.000 kr. að nafnvirði með krossveði í 7 eignarhlutum á 1., 2. og 3. veðrétti. Þau voru öll í eigu varnaraðila og með gjalddaga 1. september 2006, en aðalskuldari þeirra var Hönnunar- og listamiðstöðin Ártúnsbrekka ehf. Fasteigninni var síðar skipt í 8 eignarhluta og bera þeir fastanúmerin 204-3313, 225-8524, 225-8525, 225-8526, 225-8527, 225-8528, 229-8067 og 229-8153. Sóknaraðili var eigandi allrar fasteignarinnar en þann 10. mars 2007 gaf hann út afsal til Ártúnsbrekku ehf. fyrir eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153, sem þinglýst var 17. apríl sama ár. Eigandi og fyrirsvarsmaður sóknaraðila er hinn sami og Ártúnsbrekku ehf.
Hönnunar og listamiðstöðin Ártúnsbrekka ehf. greiddi aldrei af framangreindum bréfum og árið 2007 fór fram nauðungarsala á þeim sex eignarhlutum sem voru þinglýst eign sóknaraðila. Fór sú nauðungarsala fram í tvennu lagi.
Fyrri nauðungarsalan fór fram 18. apríl 2007, þar sem eignarhlutar með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 voru seldir og boði varnaraðila í þá tekið. Söluverð eignarhlutanna var samtals 224.400.000 kr. Við útlutun á söluverði fasteignahlutanna gerði varnaraðili kröfu um greiðslu á 303.360.042 kr. á grundvelli veðskuldabréfa sinna. Nánar tiltekið krafðist hann 191.989.893 kr. vegna bréfa á 1. veðrétti, þar af 6.029.318 kr. vegna málskostnaðar og 1.480.623 kr. vegna virðisaukaskatts, 60.471.647 kr. vegna bréfa á 2. veðrétti, þar af 2.225.610 kr. vegna málskostnaðar og 550.215 kr. vegna virðisaukaskatts, og 50.898.502 kr. vegna bréfa á 3. veðrétti. Samkvæmt úthlutunargerð sýslumanns greiddust 221.859.002 kr. upp í kröfur varnaraðila. Þar af greiddust kröfur vegna 1. veðréttar upp, með 191.989.893 kr., en 29.869.109 kr. upp í kröfur vegna 2. veðréttar.
Sóknaraðili mótmælti fjárhæð málskostnaðar samkvæmt úthlutunarfrumvarpi sýslumanns og gerði kröfu um lækkun hennar. Þeirri kröfu var hafnað 26. september 2007. Sóknaraðili leitaði þá úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur og krafðist þess að sá málskostnaður sem varnaraðila var úthlutað yrði stórlega lækkaður. Með úrskurði dómsins 26. febrúar 2008, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 16. apríl 2008 í máli nr. 155/2008, var málinu vísað frá dómi. Varnaraðili leitaði á ný úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur og krafðist þess að málskostnaður sem varnaraðila var úthlutað vegna 1. veðréttar yrði lækkaður að lágmarki úr 6.029.318 kr. í 300.000 kr. og vegna 2. veðréttar að lágmarki úr 2.369.125 kr. í 300.000 kr. Með úrskurði dómsins 3. júlí 2008, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 2. september 2008 í máli nr. 400/2008, var málinu vísað frá dómi. Þann 15. apríl 2009 höfðaði sóknaraðili einkamál á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gerði þá kröfu að varnaraðili yrði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 9.709.061 kr., auk dráttarvaxta frá 18. apríl 2007 til greiðsludags, vegna ólögmæts málskostnaðar sem hann fékk greiddan af andvirði söluverðs við framangreinda nauðungarsölu. Með úrskurði dómsins 13. maí 2009, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 11. júní 2009 í máli nr. 297/2009, var málinu vísað frá dómi.
Síðari nauðungarsalan árið 2007 fór fram þann 18. september, þar sem eignarhlutar með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525 voru seldir og boði varnaraðila í þá tekið. Söluverðið var samtals 68.000.000 kr. og samkvæmt frumvörpum sýslumanns til úthlutunar greiddust samtals 66.665.871 kr. upp í kröfur varnaraðila. Þar af greiddust kröfur vegna 2. veðréttar upp, með 33.942.933 kr., en 32.722.938 kr. upp í kröfur vegna 3. veðréttar. Aftur reis ágreiningur um málskostnað og sóknaraðili leitaði úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi frumvörp sýslumanns og krafðist þess að innheimtuþóknun vegna veðskuldabréfa á 2. og 3. veðrétti yrði lækkuð. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010 í máli nr. Z-1/2009 var innheimtuþóknun vegna bréfa á 2. veðrétti lækkuð úr 2.322.196 kr. auk virðisaukaskatts í 373.500 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Fjárhæð sú sem þurfti til að greiða upp kröfur á 2. veðrétti lækkaði því um 2.517.634 kr. og það sem greiddist upp í kröfur á 3. veðrétti hækkaði sem því nam, nánar tiltekið í 35.240.572 kr., samkvæmt nýrri úthlutun sýslumanns 4. apríl 2011. Telur varnaraðili að ógreiddar eftirstöðvar veðskuldarinnar miðað við söludag þessara eignarhluta hafi numið 20.335.129 kr. og hefur farið fram á nauðungarsölu á þeim tveimur eignarhlutum sem ekki eru í eigu hans, þ.e. á eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153. Sem fyrr segir afsalaði sóknaraðili þessum tveimur eignarhlutum til Ártúnsbrekku ehf. þann 10. mars 2007 en fyrrnefndi eignarhlutinn mun nú vera kominn aftur í eigu sóknaraðila samkvæmt afsali 9. febrúar 2012.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2010 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og slitastjórn skipuð yfir honum, en samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002, með síðari breytingum, gilda reglur laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitin. Með kröfulýsingu, dags. 11. nóvember 2010, lýsti sóknaraðili kröfu að fjárhæð 14.688.471 kr. við slitin með vísan til innköllunar slitastjórnar varnaraðila, sem birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 14. maí 2010. Fram kemur í kröfulýsingu að krafan byggist á því að varnaraðili hafi skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart kröfuhafa með því að lýsa of hárri fjárhæð vegna málskostnaðar þegar nauðungarsala á eignarhlutum sóknaraðila að Rafstöðvarvegi 1a, fastanúmer 225-8524, 225-8536, 225-8527 og 225-8528 var knúin fram af varnaraðila þann 18. apríl 2007. Tekið er fram að krafa sóknaraðila takmarkist við málskostnað vegna 1. veðréttar, enda hafi málskostnaður vegna 2. veðréttar verið lækkaður í 300.000 kr. auk virðisaukaskatts með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010 í máli nr. Z-1/2009.
Með bréfi, dags. 29. júlí 2011, var sóknaraðila kynnt sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna framangreindri kröfu. Í bréfinu er tekið fram að fyrir liggi endanleg niðurstaða um úthlutunargerð sýslumanns og því verði ekki hjá því komist að hafna kröfunni. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með bréfi, dags. 29. ágúst 2011. Þann 18. nóvember 2011 var haldinn fundur í því skyni að reyna að jafna ágreininginn. Þar sem ekki tókst að jafna hann ákvað slitastjórn í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að beina ágreiningsefninu til úrlausnar héraðsdóms eftir 171. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður ljóst að krafa vegna málskostnaðar sem lýst er við nauðungarsölu sé í eðli sínu krafa um skaðabætur til handa kröfuhafa vegna útlagðs kostnaðar hans við innheimtuaðgerðir. Útilokað sé að innheimta jafn vel tryggðra veðskuldabréfa og hér um ræði, á tímabilinu 29. janúar 2007 til 18. apríl 2007, útheimti sérþekkingu eða vinnuframlag lögmanns sem réttlætt geti hinn gífurlega málskostnað sem um ræði. Sóknaraðili telur að enginn munur hafi falist í vinnuframlagi vegna innheimtu bréfanna hvort sem um var að ræða bréf á 1., 2. eða 3. veðrétti. Í því sambandi bendir sóknaraðili á að ein greiðsluáskorun og ein nauðungarsölubeiðni hafi verið send út vegna hvers veðréttar og allar beiðnirnar verið teknar fyrir á sama tíma.
Sóknaraðili vísar til þess að krafa sóknaraðila, sem hér sé til umfjöllunar, hafi verið lýst fyrir slitastjórn varnaraðila á grundvelli 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan byggist jafnframt á 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Af athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 90/1991 megi ráða að 3. mgr. 80. gr. sé ætlað að koma í veg fyrir óréttláta málsniðurstöðu og tryggja gerðarþola rétt til að krefjast bóta ef ekki reynist unnt að fá efnislega umfjöllun um ólögmæta kröfu meðan á nauðungarsöluferlinu stendur, líkt og gerst hafi í þessu máli. Sóknaraðili tekur fram að ágreiningurinn hér lúti að kröfu um bætur vegna ólögmætrar málskostnaðarkröfu, sem varnaraðili setti fram og fékk greidda vegna veðskuldabréfa á 1. veðrétti. Nauðsynlegt sé hins vegar að vekja athygli á því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi að kröfu sóknaraðila lækkað úthlutun sýslumanns á innheimtuþóknun vegna 2. veðréttar úr 2.322.196 kr. auk virðisaukaskatts í 300.000 kr. auk virðisaukaskatts, sbr. úrskurð sem kveðinn var upp 9. júní 2010 í máli nr. Z-1/2009.
Sóknaraðili tekur fram að við úreikning kröfufjárhæðar í kröfulýsingu sé litið til gjaldskrár lögmannsstofunnar sem sá um innheimtuna f.h. varnaraðila, en þar komi fram að tímagjald hafi verið 12.275 kr. auk virðisaukaskatts á árinu 2007. Þetta samsvari því að 831 klst. hafi verið varið í innheimtuna frá janúar 2007 til 18. apríl 2007. Lögmenn sem sóknaraðili hafi leitað álits hjá telji að líklegri tímafjöldi sé 40 klst.
Sóknaraðili tekur fram að krafa sín takmarkist við innheimtuþóknun vegna bréfa á 1. veðrétti og taki mið af úrskurði héraðsdóms þar sem innheimtuþóknun vegna bréfa á 2. veðrétti hafi verið lækkuð í 300.000 kr. auk virðisaukaskatts. Höfuðstól kröfunnar reiknar sóknaraðili með þeim hætti að draga 373.500 kr. frá hinni greiddu innheimtuþóknun með virðisaukaskatti, að fjárhæð 7.506.500 kr, en með því fæst fjárhæðin 7.133.000 kr. Auk þess krefst hann dráttarvaxta frá 18. apríl 2007 til 9. apríl 2010 að fjárhæð 7.555.471 kr. og því samtals 14.688.471 kr.
Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varnaraðila varðandi frávísun
Varnaraðili styður frávísunarkröfu sína þeim rökum að með dómi Hæstaréttar 11. júní 2009 í máli nr. 297/2009 hafi gengið fullnaðardómur um úrslit sakarefnisins í málinu. Í því máli hafi sóknaraðili krafist greiðslu bóta úr hendi varnaraðila vegna meints ólögmæts málskostnaðar sem varnaraðili hafi lýst við nauðungarsöluna. Krafan þar sé hin sama og í þessu máli og dómurinn hafi ekki fallist á hana. Niðurstaða dómstólsins hafi verið svohljóðandi samkvæmt forsendum Hæstaréttar:
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gerði varnaraðili kröfu um greiðslu á 303.360.042 krónum á grundvelli skuldabréfa sinna við úthlutun á söluverði fasteignarhlutanna. Hann keypti þá sjálfur á uppboðinu á samtals 224.400.000 krónur. Samkvæmt úthlutunargerð sýslumanns 14. ágúst 2007 greiddust 221.859.002 krónur upp í kröfur hans. Eins og málið liggur fyrir er vafalaust að varnaraðili hefði fengið sömu fjárhæð úthlutað, þó að hann hefði ekki lýst hinum umdeilda málskostnaði með öðrum þáttum kröfu sinnar. Þótt fallist yrði á málsástæður sóknaraðila sem lúta að því að varnaraðili hafi skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum með því að lýsa of hárri fjárhæð vegna málskostnaðar geta þær af þessari ástæðu ekki leitt til þess að dómkrafa hans verði tekin til greina. Leiðir þetta til þess að hinn kærði úrskurður verður staðfestur.
Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi samkvæmt þessu áður haft uppi kröfu í dómsmáli á hendur varnaraðila um greiðslu skaðabóta vegna heinnar umdeildu nauðungarsölu. Að mati varnaraðila hefur krafan því verið dæmd áður, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kveður hann sóknaraðila reisa kröfur sínar að öllu leyti á sömu málsástæðum og hagi málatilbúnaði sínum með jafn ónákvæmum hætti. Engar lagaheimildir séu til þess að koma að kröfum að gengnum fullnaðardómi í málinu og staða varnaraðila sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð breyti þar engu um.
Varnaraðili tekur fram að þótt framangreindur hæstaréttardómur hafi verið staðfesting á frávísunarúrskurði héraðsdóms taki rétturinn efnislega á málinu. Í dóminum sé rakið að þrátt fyrir að fallist yrði á málsástæður sóknaraðila geti þær ekki leitt til þess að dómkrafa hans verði tekin til greina. Þar sem tekið hafi verið efnislega á málinu eigi 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 við. Dómsúrlausnin sé bindandi um úrslit sakarefnisins á milli aðila og því beri að vísa kröfu sóknaraðila frá, sem feli í sér að kröfu sóknaraðila sé réttilega hafnað með öllu. Styðjist sú afstaða varnaraðila við 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili byggir einnig á því að málið sé verulega vanreifað og fullnægi ekki áskilnaði 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Hvergi sé gerð grein fyrir skaðabótagrunni eða rökstuðningi bótakröfunnar með nokkrum hætti. Rökstuðningur sóknaraðila byggist á tilvísun í úrskurð í máli hans er varði aðrar fasteignir en hér um ræði og vangaveltum sem byggðar séu á viðræðum við aðra lögmenn um líklegan tímafjölda við innheimtuna. Krafa sóknaraðila byggist aðallega á því að málskostnaður sem varnaraðila var úthlutaður hafi verið ósanngjarn og of hár og málatilbúnaðurinn snúi aðeins að því að fjalla um hvað hefði verið eðlilegur málskostnaður. Umfjöllun sóknaraðila sé því í engu samræmi við dómkröfu hans, kröfu um skaðabætur, sem sé algjörlega órökstudd. Sóknaraðili hafi því ekki sýnt fram á að nokkurt tjón sé til staðar né umfang þess. Engin grein sé gerð fyrir því á hverju hið meinta ólögmæti málskostnaðar byggist. Engar tilvísanir í lagareglur eða nokkrar réttarheimildir séu í málatilbúnaði sóknaraðila er styðji þá túlkun hans að um ólögmætan innheimtukostnað sé að ræða.
Varnaraðili kveður málatilbúnað sóknaraðila í raun grundvallast á því að gera lítið úr þeirri vinnu og ábyrgð sem fullnusta krafna varnaraðila á hendur sóknaraðila hafi kostað. Engin rök séu færð fyrir því af hverju sóknaraðili ætti að geta valið innheimtukostnað samkvæmt tímagjaldi. Gjaldskrá lögmannsstofunnar sem sóknaraðili vísi til sé byggð upp með hagsmunaviðmiðun hvað innheimtur varðar, líkt og gjaldskrár fjölda annarra lögmannsstofa. Sóknaraðili kjósi að horfa fram hjá því og reyni ekki heldur að gera grein fyrir því af hverju hann ætti að falla þar utan við. Engin grein sé gerð fyrir grundvelli málsins eða hverjar þær málsástæður séu sem hann byggi skaðabótakröfu sína á. Enga útlistun sé heldur að finna á því með hvaða hætti varnaraðili hafi átt þátt í því að baka sóknaraðila tjón sem bótaskylt sé samkvæmt almennum skaðabótaeglum. Með tilliti til ofangreinds sé ljóst að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo óskýr og miklir annmarkar á honum að hann brjóti í bága við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður sóknaraðila vegna frávísunarkröfu
Sóknaraðili hafnar því að taka beri frávísunarkröfu varnaraðila til greina. Hann vísar til þess að dómur Hæstaréttar 11. júní 2009 í máli nr. 297/2009 hafi eingöngu falið í sér staðfestingu á frávísunarúrskurði héraðsdóms vegna vanreifunar, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir dóminum lágu þegar frávísunarúrskurðurinn var kærður. Ekki hafi verið um efnisdóm að ræða og bætt hafi verið úr öllum ágöllum sem talist hafi til vanreifunar á fyrri stigum.
Sóknaraðili kveður dóm Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009 hafa fordæmisgildi, en þar hafi innheimtuþóknun verið lækkuð úr 18,8 millj. kr. í 2,8 millj. kr. á grundvelli mats dómara á umfangi málsins og áætlaðs vinnuframlags. Þá hafi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010 í máli nr. Z-1/2009 fordæmisgildi þar sem málskostnaður vegna 2. veðréttar hafi verið lækkaður.
Sóknaraðili vísar jafnframt til útreiknings síns, dags. 28. febrúar 2013, og beiðni varnaraðila um nauðungarsölu á eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153, dags. 16. október 2012, og kveður þann málskostnað sem hér sé deilt um hafa óhjákvæmileg áhrif á fjárhæð hinna meintu eftirstöðva kröfunnar sem beiðnin um nauðungarsölu grundvallist á.
Niðurstaða
Líkt og að framan er rakið er ágreiningur aðila sprottinn af innheimtu veðskuldabréfa í eigu varnaraðila sem gefin voru út árin 2005 og 2006 og tryggð með veði í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Hinn 18. apríl 2007 fór fram nauðungarsala á fjórum eignarhlutum fasteignarinnar, sem voru í eigu sóknaraðila, og gerðist varnaraðili kaupandi að þeim við nauðungarsöluna. Við úthlutun á söluverði fasteignahlutanna gerði varnaraðili kröfu um greiðslu á 191.989.893 kr. vegna bréfa á 1. veðrétti, þar af 6.029.318 kr. vegna málskostnaðar, auk virðisaukaskatts að fjárhæð 1.480.623 kr. Með uppboðinu greiddist framangreind krafa að fullu. Sóknaraðili mótmælti fjárhæð málskostnaðar og leitaði tvívegis úrlausnar héraðsdóms á grundvelli laga nr. 90/1991 vegna þess, en báðum málunum var vísað frá, sbr. dóma Hæstaréttar 16. apríl 2008 í máli nr. 155/2008 og 2. september 2008 í máli nr. 400/2008. Sóknaraðili höfðaði þá mál á hendur varnaraðila og krafði hann um greiðslu skaðabóta vegna ólögmæts málskostnaðar sem hann hafi fengið við nauðungarsöluna. Því máli var einnig vísað frá, sbr. dóm Hæstaréttar 11. júní 2009 í máli nr. 297/2009.
Árið 2010 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar. Við slitameðferðina lýsti sóknaraðili kröfu að fjárhæð 14.688.471 kr., en máli þessu var beint til dómsins vegna ágreinings um þá kröfu. Samkvæmt kröfulýsingu byggir krafan á því að varnaraðili hafi skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart sóknaraðila með því að lýsa of hárri fjárhæð vegna málskostnaðar við framangreinda nauðungarsölu. Er krafan sundurliðuð í höfuðstól að fjárhæð 7.133.000 kr. og dráttarvexti að fjárhæð 7.555.471 kr. Varnaraðili byggir á því að með dómi Hæstaréttar 11. júní 2009 í máli nr. 297/2009 hafi gengið fullnaðardómur um úrlausn viðkomandi sakarefnis og því beri að vísa málinu frá samkvæmt 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Að framan eru raktar forsendur Hæstaréttar í umræddum dómi, sem varnaraðili telur bera með sér að krafan hafi áður verið dæmd. Hvað sem sjónarmiðum varnaraðila líður, um að Hæstiréttur hafi tekið efnislega á málinu í forsendum sínum, verður ekki fram hjá því litið að um kærumál var að ræða, þar sem Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Samkvæmt því verður ekki lagt til grundvallar að efnisdómur hafi þegar verið felldur á kröfuna þannig að vísa beri málinu frá á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé vanreifaður. Sem fyrr segir er vísað til þess í kröfulýsingu sóknaraðila að krafan byggist á því að varnaraðili hafi skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart sóknaraðila með því að lýsa of hárri fjárhæð vegna málskostnaðar við áðurnefnda nauðungarsölu. Krafan er því sett fram sem skaðabótakrafa. Málatilbúnaður sóknaraðila er hins vegar ekki í samræmi við þetta. Rökstuðningur í kröfulýsingu lýtur að því að málskostnaðurinn hafi verið of hár miðað við eðli og umfang innheimtuaðgerðanna og því hver hann hefði með réttu átt að vera. Rökstuðningurinn er þannig í reynd fyrir kröfu um lækkun málskostnaðar, enda er krafan sögð byggjast á sömu forsendum og leiddu til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010 í máli nr. Z-1/2009 um lækkun málskostnaðar vegna 2. veðréttar. Á hinn bóginn er algjörlega órökstutt á hvaða grunni krafa um skaðabætur er reist, þ. á m. á hvaða reglu um bótagrundvöllinn hún byggist og hvernig skilyrðum þeirrar reglu sé mætt, og að því marki sem rök eru færð fyrir grundvelli fjárkröfunnar virðist í reynd fremur byggt á auðgun viðkomandi lögmanns og varnaraðila en skaðabótaskyldu tjóni sóknaraðila. Greinargerð sóknaraðila undir rekstri málsins er sama marki brennd, enda hverfist málatilbúnaðurinn þar um að málskostnaðurinn hafi verið of hár og að heimilt sé að hafa uppi kröfu samkvæmt 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, án þess að nokkur grein sé fyrir bótagrundvelli þeirrar skaðabótakröfu sem höfð er uppi og hvernig grunnskilyrðum skaðabótaábyrgðar sé mætt. Þá eru engin rök færð að dráttarvaxtakröfu sóknaraðila, sem nemur ríflega helmingi hinnar lýstu kröfu hans, hvorki í kröfulýsingu né greinargerð. Þau gögn sem sóknaraðili hefur lagt fram í kjölfar greinargerðarskila varnaraðila bæta ekki úr framangreindri vanreifun og verður að telja hana svo verulega að úr henni verði ekki bætt undir frekari rekstri málsins.
Samkvæmt öllu framangreindu verður að telja málatilbúnaði sóknaraðila, að fram kominni greinargerð hans, svo verulega áfátt að ekki verði komist hjá því að vísa málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 117. gr., 1. og 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað. Ákveðst hann hæfilegur 280.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ekki þykja efni til að verða við kröfu varnaraðila um að fyrirsvarsmanni sóknaraðila, Kristni Brynjólfssyni, verði persónulega gert að greiða málskostnað. Þá eru ekki efni til að leggja réttarfarssekt á fyrirsvarsmanninn eða sóknaraðila.
Úrskurð þennan kveður upp Eiríkur Jónsson, settur héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði varnaraðila, VBS eignasafni hf., 280.000 krónur í málskostnað.