Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/2016

Guðmundur A. Birgisson (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) og Fiskalón ehf. (Björgvin Þorsteinsson hrl.)
gegn
Erlu S. Árnadóttur (Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Skiptastjóri
  • Vanhæfi
  • Meðalganga
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G og F ehf. gegn E var vísað frá dómi. Krafðist G þess að skiptastjóra í þrotabúi hans, E, yrði vikið úr starfi. Í héraðsdómi sem staðfestur var með vísan til forsendna varðandi kröfu G kom meðal annars fram að með vísan til skýrs orðalags 2. málsliðar 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem sérstaklega væri tilgreint að sá sem ætti kröfu á hendur búinu hefði heimild til að krefjast úrskurðar dómara um hvort víkja bæri skiptastjóra úr starfi sökum vanhæfis hefði sá sem ætti kröfu á hendur búinu. Því gæti þrotamaður ekki sett fram slíka kröfu. Þá gerði F ehf. kröfu um að félaginu yrði heimiluð aðalmeðalganga í málinu. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt þriðji maður gæti gerst aðili að máli, sem rekið væri á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991, með meðalgöngu, sbr. 2. mgr. 178. gr. þeirra, yrði eins og endranær að setja þeirri heimild skorður, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Svo sem ráðið yrði af orðalagi 76. gr. laga nr. 21/1991 og lögskýringargögnum yrði sá, sem krefðist úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóra yrði vikið frá störfum af þeim sökum að hann fullnægði ekki skilyrðum 2. mgr. 75. gr. laganna, að bera áður upp skriflegar aðfinnslur við dómara um hæfi skiptastjóra og dómurinn að taka afstöðu til þess álitaefnis. Að því gættu og með hliðsjón af eðli málsins brast þriðja mann heimild til þess að lögum að ganga inn í slíkt mál fyrir meðalgöngu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 4. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2016 þar sem máli sóknaraðilans Guðmundar A. Birgissonar á hendur varnaraðila og kröfu sóknaraðilans Fiskalóns ehf. um að gerast meðalgönguaðili að málinu var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á mál þetta rót sína að að rekja til þess að sóknaraðilinn Guðmundur A. Birgisson bar upp við héraðsdómara aðfinnslur um störf varnaraðila sem skiptastjóra í þrotabúi sóknaraðilans á grundvelli 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem dómarinn féllst ekki á að víkja varnaraðila úr starfi skiptastjóra eftir fund með henni og sóknaraðilanum krafðist sá síðarnefndi eftir 3. mgr. sömu lagagreinar úrskurðar dómarans um að varnaraðila yrði vikið frá störfum vegna vanhæfis, sbr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Málið var þingfest 28. september 2015 samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laganna, sbr. 169. gr. þeirra. Í þinghaldi 16. desember sama ár lagði sóknaraðilinn Fiskalón ehf. fram kröfu um að honum yrði „heimiluð aðalmeðalganga í málinu“ á grundvelli 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að kröfu sóknaraðilans Guðmundar skuli vísað frá héraðsdómi.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Í því tilviki skal hann gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður. Þótt þriðji maður geti gerst aðili að máli, sem rekið er á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991, með meðalgöngu, sbr. 2. mgr. 178. gr. þeirra, verður eins og endranær að setja þeirri heimild skorður, sbr. dóm Hæstaréttar 10. desember 2009 í máli nr. 663/2009. Svo sem ráðið verður af orðalagi 76. gr. laga nr. 21/1991 og lögskýringargögnum verður sá, sem krefst úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóra verði vikið frá störfum af þeim sökum að hann fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 75. gr. laganna, að bera áður upp skriflegar aðfinnslur við dómara um hæfi skiptastjóra og dómurinn að taka afstöðu til þess álitaefnis. Að þessu gættu og með hliðsjón af því hvert er eðli máls, þar sem krafist er brottvikningar skiptastjóra vegna ætlaðs vanhæfis hans, brestur þriðja mann heimild til þess að lögum að ganga inn í slíkt mál fyrir meðalgöngu. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að vísa áðurgreindri kröfu sóknaraðilans Fiskalóns ehf. frá héraðsdómi.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Guðmundur A. Birgisson og Fiskalón ehf., greiði óskipt varnaraðila, Erlu S. Árnadóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2016.

            Mál þetta var þingfest 28. september sl., og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutning þann 3. mars sl.

            Sóknaraðili máls þess er Guðmundur A. Birgisson, kt. 010161-2049, Núpum 3, Sveitarfélaginu Ölfusi. Krefst sóknaraðili þess að skiptastjóra í þrotabúi hans, varnaraðilanum Erlu S. Árnadóttur hrl., verði vikið úr starfi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila

            Þá gerir Fiskalón ehf., kt. 681098-2249, kröfu um að félaginu verði heimiluð aðalmeðalganga í málinu. Þá krefst félagið þess að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra. Auk þess krefst félagið málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

            Varnaraðili, Erla Svanhvít Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri í þrotabúi sóknaraðila, krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu.

            Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu Fiskalóns ehf., um meðalgöngu verði hafnað, en til vara að kröfu félagsins um brottvikningu varnaraðila úr starfi skiptastjóra verið vísað frá dómi. Til þrautavara er þess krafist að kröfu Fiskalóns ehf., um brottvikningu skiptastjóra verði hafnað. Í öllum tilvikum er þess krafist að félagið verði dæmt til að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu.

            Mál þetta á rót sína að rekja til skriflegra aðfinnslna sem sóknaraðili bar upp við héraðsdómara um störf skiptastjóra í bréfi dagsettu 17. september sl. Farið var með erindi sóknaraðila eins og fyrir er mælt um í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar sem dómari féllst ekki á að víkja skiptastjóra úr starfi eftir fund með honum og sóknaraðila þann 28. september 2015, krafðist sóknaraðili úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóranum verði vikið úr starfi. Var mál þetta þingfest þann sama dag.  Mótmælti varnaraðili kröfum sóknaraðila og krafðist þess að sóknaraðila yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Með úrskurði dómsins 12. október 2015, var fallist á þá kröfu varnaraðila. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með dómi uppkveðnum 16. nóvember 2015 í málinu nr. 730/2015, á þann veg að sóknaraðila var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar innan tveggja vikna frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar. Sóknaraðili greiddi umrædda tryggingu og var málið næst tekið fyrir þann 24. nóvember 2015 og frestað til 16. desember sama ár til greinargerðarskila af hálfu sóknaraðila. Í þinghaldi þann dag lagði sóknaraðili fram greinargerð en ekki var sótt þing af hálfu varnaraðila. Í þinghaldinu lagði Fiskalón ehf., fram meðalgöngustefnu í máli þessu. Að kröfu sóknaraðila og Fiskalóns ehf., var málið tekið til úrskurðar, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 21/1991. Í þinghaldi síðar þann sama dag var málið endurupptekið og frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu varnaraðila til 26. janúar sl. Þann dag lagði varnaraðili fram greinargerð og var málinu frestað til munnlegs málflutnings þann 3. mars sl.

            Í þessum þætti málsins krefst varnaraðili þess annars vegar að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Hins vegar krefst varnaraðili þess að kröfu Fiskalóns um meðalgöngu verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar.

            Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfu varnaraðila verið hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

            Fiskalón ehf., krefst þess að kröfu varnaraðila verði hrundið. Þá krefst Fiskalón ehf., málskostnaðar úr hendi varnaraðila. 

Málavextir

            Bú sóknaraðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum þann 20. desember 2013 og var varnaraðili skipaður skiptastjóri þann sama dag. Óumdeilt er að skiptastjóri gaf út innköllun, sem birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaðinu 30. desember 2013, og rann kröfulýsingarfrestur út 28. febrúar 2014.

            Í bréfi sóknaraðila til dómsins kemur fram að sóknaraðili hafi gert fjölmargar athugasemdir við lýstar kröfur í búið. Hafi sóknaraðili í skýrslugjöf hjá skiptastjóra 21. janúar 2014 og 4. apríl sama ár upplýst skiptastjóra um viðskipti sín og samskipti við Landsbankann hf., fyrir hrun. Með tölvupósti til þáverandi lögmanns þrotamanns, 26. febrúar 2014, var þrotamanni gefinn kostur á að koma á framfæri athugsemdum við lýstar kröfur í þrotabúið. Svar þrotamanns barst skiptastjóra með tölvupósti þann 3. mars sama ár.

            Í greinargerð varnaraðila kemur fram að kröfuskrá, dagsett 6. mars 2014, hafi verið tekin fyrir á fyrsta skiptafundi sem haldinn var 14. sama mánaðar, og hafi flestum kröfum verið hafnað. Samkvæmt kröfuskrá, dagsettri 3. júní 2014, hafi lýstar kröfur í búið verið samtals að fjárhæð 3.558.579.535 krónur, en samþykktar kröfur með fyrirvörum samtals að fjárhæð 2.776.175.419 krónur. Segir í greinargerð varnaraðila að kröfuskrá þessi hafi verið send þáverandi lögmanni sóknaraðila með tölvupósti þann 3. júlí 2014, en engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu sóknaraðila.

            Í greinargerð varnaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi fyrir efnahagshrunið 2008 verið umsvifamikill fjárfestir hér á landi sem erlendis. Meðal eigna sóknaraðila séu fjölmargar fasteignir, bæði íbúðarhús og jarðir, hlutafé, innistæður í bönkum og innlend og erlend verðbréf. Þá hafi sóknaraðili setið í stjórnum og tekið þátt í rekstri fjölmargra félaga, ýmist sem stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri. Hafi sóknaraðili, sem frá uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðarins hafi notið liðsinni lögmanna, þrívegis gefið skýrslu hjá varnaraðila. Þá hafi, af hálfu varnaraðila í tengslum við skiptameðferðina, farið fram umfangsmikil upplýsinga- og gagnaöflun sem hafi meðal annars leitt til þess að þrotabúið hafi höfðað ellefu riftunarmál í ágúst 2014, þar af átta mál á hendur nákomnum aðilum. Þá séu nú rekin tvö ágreiningsmál fyrir héraðsdómi, en einu ágreiningsmáli sé lokið. Auk þessa hafi þrotabúið staðið fyrir málarekstri í Bandaríkjunum og nú standi yfir frekari gagna- og upplýsingaöflun af hálfu lögmanns þrotabúsins þar í landi.            

Málsástæður sóknaraðila

            Sóknaraðili kveðst hafa greint varnaraðila frá því í skýrslutöku þann 21. janúar 2014 að ekki væri að vænta margra krafna í bú hans, og að þær sem kynnu að koma væru óréttmætar. Þar á meðal væru kröfur sem kynnu að berast frá Landsbankanum hf., en að mati sóknaraðila hafi bankinn tekið hluta veðsettra eigna á hrakvirði, þ.e. hlut sóknaraðila í Lífsvali hf. Vísar sóknaraðili til þess að ráða megi af endurriti skýrslutökunnar að varnaraðili hafi þá þegar haft vitneskju um kröfur Landsbankans hf.

            Sóknaraðili kvaðst hafa gert fjölmargar athugasemdir við lýstar kröfur í búið og hafi varnaraðila borist þær með tölvupósti þann 3. mars 2014. Varnaraðili hafi hins vegar ekki upplýst sóknaraðila um afstöðu kröfuhafa til andmæla sóknaraðila. Í skýrslugjöf hjá varnaraðila þann 1. apríl 2014 hafi sóknaraðili rætt um lýstar kröfur, einkum kröfur frá Pillar. Þá hafi sóknaraðili í skýrslutöku þann 4. apríl 2014 meðal annars farið yfir viðskipti og samskipti sín fyrir hrun við Landsbanka Íslands hf., meðal annars um veðsetningar á hlutum í Lífsvali hf., og Núpum. Hafi varnaraðila því mátt vera ljóst að sóknaraðili taldi takmarkaðan fót fyrir kröfugerð Landsbankans hf., sem eignast hafi kröfur Landsbanka Íslands hf., á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar í október 2008 á lágu verði.

            Á skiptafundi þann 3. júní 2014 hafi varnaraðili lagt fram nýja kröfuskrá og samþykkt kröfur að fjárhæð 2.776.175.419 krónur. Ein stærsta einstaka samþykkta krafan hafi verið frá Landsbankanum hf., að fjárhæð 1.363.315.344 krónur. Þetta hafi varnaraðili gert þrátt fyrir ítrekuð andmæli sóknaraðila við kröfum bankans. Þá hafi varnaraðili hafnað því að sóknaraðili fengi fundargerðir skiptafunda svo hann gæti áttað sig á því hvers vegna skiptastjóri hafi ekki haldið uppi hagsmunum búsins og sóknaraðila gagnvart Landsbankanum hf. Vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt dómasafni Hæstaréttar árin eftir hrunið sé Landsbankinn hf., stór viðskiptavinur lögmannsstofnunar Lex, en varnaraðili sé einn eigandi stofunnar. Tilgreinir sóknaraðili þrjátíu og tvo dóma Hæstaréttar, uppkveðna á tímabilinu frá 3. nóvember 2011 til 7. maí 2015, máli sínu til stuðnings. Einnig veiti umrædd lögmannsstofa bankanum aðra lögfræðiþjónustu. Þá sé Íslandsbanki hf., og Glitnir hf., einn helsti eigandi bankans, einnig meðal viðskiptavina Lex lögmannsstofu, eins og dómasafn Hæstaréttar beri með sér. Tilgreinir sóknaraðili ellefu dóma Hæstaréttar, uppkveðna á tímabilinu frá 10. nóvember 2011 til 7. maí 2015, máli sínu til stuðnings. Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðila, sem eiganda Lex lögmannsstofu, hljóti að hafa verið kunnugt um þessi viðskiptatengsl stofunnar við áðurnefnda banka þegar hún tók að sér skiptastjórn í búi sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili átt um tíma sæti í skilanefnd Glitnis hf., en Íslandsbanki hf., sé næst stærsti kröfuhafi í þrotabú sóknaraðila.

            Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili sé vanhæf til að gegna starfi skiptastjóra í þrotabúi sóknaraðila vegna framangreindra tengsla hennar við tvo stærstu kröfuhafa þrotabúsins, Landsbankann hf. og Íslandsbanka hf., en þeir séu og hafi verið viðskiptamenn lögmannsstofunnar Lex. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og þess að vanhæfi skiptastjóra eigi að meta á grundvelli sömu mælikvarða og vanhæfi dómara í einkamálum, sbr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísar sóknaraðili til þess að hæfisreglur séu settar með það að markmiði að tryggja hlutleysi og jafnræði við úrlausn mála. Við mat á hæfi verði að hafa í huga reglur sem koma fram í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðila hljóti að hafa verið ljóst vanhæfi sitt til að fjalla um kröfur bankanna og samþykkja þær þegar hún tók við starfi skiptastjóra eða í síðasta lagi þegar kröfulýsingar bárust frá bönkunum. Varnaraðili hafi ekki óskað eftir skipun skiptastjóra ad hoc til að taka afstöðu til krafna bankanna heldur samþykkt kröfurnar þrátt fyrir andmæli sóknaraðila. Skiptastjóri hafi því ekkert gert í því að verja hagsmuni þrotabúsins, annarra kröfuhafa og þrotamanns fyrir óbilgjörnum kröfum Landsbankans hf. Sama gildi um afstöðu varnaraðila til krafna beggja bankanna sem hafi eignast kröfur á hendur sóknaraðila á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins í október 2008, eins og áður er rakið.

            Um aðild að máli þessu vísar sóknaraðili til þess að hann, sem þrotamaður, hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um hæfi skiptastjóra. Við gjaldþrotaskipti njóti þrotamaður ýmissa réttinda og beri tilteknar skyldur og skiptastjóri geti haft veruleg áhrif á það hvort og þá með hvaða hætti þess sé gætt að þrotamaður njóti þeirra réttinda sem lög gera ráð fyrir. Þá séu þær skuldbindingar sem falla á þrotamann við lok gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 ávallt í beinum tengslum við það hvernig skiptastjóri ræki starfa sinn. Samþykki skiptastjóri óréttmætar kröfur gefi það augaleið að skuldir verði meiri, minna fáist greitt upp í þær og það sem eftir standi sé á ábyrgð þrotamanns. Þrotamaður verði að geta treyst því að skiptastjóri gæti hagsmuna búsins af hlutlægni og því megi skiptastjóri ekki hafa nein þau tengsl við kröfuhafa búsins sem leiða til þess að réttmæt ástæða sé til þess að efast um hlutlægni hans gagnvart kröfuhöfum. Því hafi þrotamaður verulega, einstaka og lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um hæfi skiptastjóra. Þó svo í 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki beinum orðum getið um rétt þrotamanns til að krefjast frávikningar skiptastjóra verði að telja eðli málsins samkvæmt að þrotamaður hljóti að hafa sömu heimild og kröfuhafar til þess og vísar sóknaraðili í þessu sambandi til  6. töluliðs 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991, sem sé ætlað að tryggja að skiptastjóri sé hvorki vanhæfur gagnvart þrotamanni né gagnvart kröfuhöfum. 

            Verði ekki fallist á heimild sóknaraðila til að krefjast frávikningar skiptastjóra með vísan til ákvæða laga 21/1991, verði að líta til annarra reglna um réttarfar og heimild einstaklinga til þess að leita með mál til dómstóla og vísar sóknaraðili í þessu sambandi til ákvæða í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála um víðtækan aðgang að dómstólum að því tilskyldu meðal annars að aðilar hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til þess sem að framan greinir um verulega hagsmuni hans af því að óhlutdrægur skiptastjóri sinni búskiptum í búi hans.

            Auk reglna einkamálaréttarfars njóti krafa sóknaraðila frekari leiðbeininga annars vegar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995, og hins vegar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar sóknaraðili til þess að áðurnefnt ákvæði sáttmálans og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sýni með óyggjandi hætti að mönnum skuli tryggður víðtækur réttur til að bera mál sín undir dómstóla. Því sé takmörkun á heimild sóknaraðila til að bera ágreining um hæfi varnaraðila undir dóm í andstöðu við framangreint ákvæði sáttmálans.

            Að lokum vísar sóknaraðili til þess að eðlilegast sé að mál þetta sé rekið í samræmi við ákvæði XXIII. kafla laga nr. 21/1991, enda sé málið í eðli sínu ágreiningsmál við skipti þrotabús og að öllu leyti sambærilegt málum þar sem kröfuhafar krefjast frávikningar skiptastjóra á grundvelli vanhæfis. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til  rýmkandi lögskýringar eða lögjöfnunar.

Málsástæður Fiskalóns ehf.

            Fiskalón ehf., kveðst hafa þann 17. september 2015 verið framseld krafa Innheimtustofnunar sveitarfélaga í þrotabú sóknaraðila og hafi fyrirtækið því tekið við öllum þeim réttindum og skyldum sem fylgja kröfunni og hafi því, sem kröfuhafi í þrotabúið, lögvarða hagsmuni af því að fá að ganga inn í mál þetta sem og til þess að skiptastjóri sé hæfur til að gegna stöðunni. Hæfisreglur skiptastjóra séu raktar í XIII. kafla laga nr. 21/1991, sem og heimildir einstaklinga og lögpersóna til þess að krefjast úrskurðar dómara um hæfi skiptastjóra.

            Fiskalón ehf., byggir á því að vegna þeirra óumdeilanlegu tengsla sem séu milli skiptastjóra, varnaraðila þessa máls, og tveggja stórra kröfuhafa í þrotabú sóknaraðila, megi með réttu draga hæfi varnaraðila í efa. Umrædd tengsl séu með þeim hætti að varnaraðili væri vanhæfur sem dómari í máli er varðaði aðilana og því vanhæfur sem skiptastjóri samkvæmt 6. tölulið 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Vísar Fiskalón ehf., til þess að lögmannsstofa sem varnaraðili sé meðeigandi að, hafi starfað að fjöldamörgum málum tveggja stórra kröfuhafa í þrotabúið, þ.e. Landsbankans hf., og Íslandsbanka hf., og vegna þessara tengsla kunni að vera  hætta á að hagsmunum þessara tveggja kröfuhafa verði betur gætt en hagsmuna annarra kröfuhafa.

            Um heimild til meðalgöngu í máli þessu vísar Fiskalón ehf., til 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og dómvenju um aðalmeðalgöngu við hlið aðalstefnanda/sóknaraðila, en fyrirtækið hafi fyrst haft tækifæri á meðalgöngu við framsal kröfunnar þann 17. september sl. Geri fyrirtækið sjálfstæða kröfu, við hlið sóknaraðila, um að varnaraðila verði vikið úr starfi, þ.e. um sé að ræða efnislega sömu kröfu og gerð sé í aðalsök.

            Vísar Fiskalón ehf., til XIII. kafla laga nr. 21/1991, auk 5. gr. laga nr. 91/1991, varðandi hæfisreglur skiptastjóra. Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður varnaraðila

            Í þessum þætti málsins verður gerð grein fyrir helstu málsástæðum varnaraðila er varða kröfu hans um að vísa beri frá dómi kröfu sóknaraðila og að kröfu Fiskalóns ehf., um meðalgöngu verði hafnað. 

            Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína annars vegar á því að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dómsúrlausn í máli þessu eins og það er lagt fyrir dóminn. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til þess að reglan um nauðsyn lögvarinna hagsmuna byggi á því að ekki verði lagt á dómstóla að leysa úr málefni sem skipti engu lagalega fyrir aðilana að fá niðurstöðu um, þ.e. að sakarefni verði að hafa eitthvert raunhæft gildi fyrir réttarstöðu aðila. Í máli þessu gerir sóknaraðili aðeins kröfu um að varnaraðila verði vikið frá sem skiptastjóra í þrotabúinu, en geri ekki samhliða kröfu um að afstaða skiptastjóra til krafna Íslandsbanka hf., og Landsbankans hf., verði ógilt með dómi vegna meints vanhæfis varnaraðila. Vegna þessa sé afstaða til krafna, eins og hún birtist í kröfuskrá dagsettri 3. júní 2014, að öllu óbreyttu endanleg við skiptin jafnvel þótt fallist yrði á kröfu sóknaraðila í máli þessu, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili hafi, einkum vegna ákvæða 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, verulega, einstaka og lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr hæfi skiptastjóra og vísar til þess að verulega hafi verið þrengt að rétti kröfuhafa til að rjúfa fyrningu kröfur með breytingalögum nr. 142/2010.

            Sóknaraðili kveður mikinn eðlismun vera á stöðu kröfuhafa og þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Það endurspeglist meðal annars í því að gjaldþrotaskipti séu sameiginleg fullnustugerð þar sem kröfuhöfum sé tryggður víðtækur réttur til þess að gæta hagsmuna sinna og bera ágreining við búskiptin undir dómstóla, en slíkum heimildum sé ekki til að dreifa í lögunum hvað varða þrotamann. Þá komi við búskipti iðulega til skoðunar ráðstafanir þrotamanns fyrir úrskurðardag sem kunni að vera riftanlegar, sem og hvort háttsemi þrotamanns í aðdraganda og við skiptameðferðina kunni að hafa verið refsiverð. Því sé engan veginn sjálfgefið að þrotamaður geti átt aðild að kröfu um frávikningu skiptastjóra og ætla megi að ef vilji löggjafans hafi staðið til slíkrar aðildar hefði það verið tekið fram berum orðum í 76. gr. laga nr. 21/1991.

            Hins vegar byggir varnaraðili frávísunarkröfu jafnframt á því að í 76. gr. laga nr. 21/1991 sé mælt um það með tæmandi hætti hverjir geti orðið aðilar að ágreiningi um hæfi skiptastjóra. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geti þrotamaður ekki átt aðild að slíkri kröfu, aðild í málum sem þessum einskorðist við kröfuhafa. Vísar varnaraðili máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 486/2002. Varnaraðili vísar til þess að þrotamaður geti samkvæmt 1. og 2. mgr. 76. gr. áðurnefndra laga komið ábendingu til héraðsdómara er lúti að vanhæfi skiptastjóra og héraðsdómari af því tilefni boðað hann á fund sinn, þ.e. ef héraðsdómara berst með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert, eins og segi í 1. mgr. 76.gr. Hins vegar hafi þrotamaður ekki heimild samkvæmt 3. mgr. áðurnefndra lagagreinar til þess að krefjast úrskurðar héraðsdóms um brottvikningu skiptastjóra úr starfi og vísar varnaraðili í því sambandi til skýrs orðalags og gagnályktun frá áðurnefndri 76. gr. laga nr. 21/1991. Slík aðild sé bundin við kröfuhafa. Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili geti átt aðild að máli samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laganna, sbr. 169. gr. sömu laga, með rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun, eins og sóknaraðili virðist byggja málatilbúnað sinn á.

            Varnaraðili hafnar því að sóknaraðila sé heimilt að bera mál þetta undir dómstóla á grundvelli 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, enda leiði það eitt að ákvörðun geti haft áhrif á réttindi og skyldur manns, ekki sjálfkrafa til þess að hún falli undir umrædd lagaákvæði. Það ráðist af eðli ákvörðunar og atvikum máls að öðru leyti. Gjaldþrotaskiptum hafi verið lýst svo, að um sé að ræða valdbeitingarathafnir, þ.e. athafnir sem fari fram án vilja og atbeina skuldara, sem ríkið grípi til í því skyni að þvinga fram efndir á skyldu manns eða lögpersónu sem viðkomandi vilji ekki verða við eða geti ekki orðið við. 

            Varnaraðili krefst þess að kröfu Fiskalóns ehf., um aðalmeðalgöngu í máli þessu verði hafnað með vísan til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði meðalgöngu samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 og dómvenju. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa verið stjórnarmann í áðurnefndu félagi allt til 22. desember 2013, en í dag sé hann framkvæmdastjóri og prókúruhafi.

            Varnaraðili vísar í fyrsta lagi til þess að mál er varða kröfu um frávikningu skiptastjóra verði ekki þingfest nema að undangenginni sérstakri málsmeðferð sem kveðið sé á um í 76. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 169. gr. sömu laga. Um sé að ræða sérreglur um málsmeðferð í samanburði við almennar reglur laga nr. 91/1991, og því geti meðalgönguaðild Fiskalóns ehf., ekki komið til greina í máli þessu, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. 

            Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að skilyrði meðalgöngu í málinu, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991, sé ekki uppfyllt í máli þessu. Fiskalón ehf., krefjist þess ekki að félaginu verði dæmt sakarefni eða dómur verði felldur þannig að réttur félagsins verði verndaður. Ekki sé hægt að líta svo á að félagið sé að gera kröfu um dóm sér til handa heldur taki félagið einfaldlega undir og geri sömu kröfu og sóknaraðili málsins. Því sé í reynd um að ræða kröfu um aukameðalgöngu. Í slíkum tilvikum verði að gera strangar kröfur til þess að þriðji maður sýni fram á brýna, sjálfstæða og lögvarða hagsmuni af því að úrslit máls verið á tiltekin veg. Varnaraðili byggir á því að Fiskalón ehf. hafi enga lögvarða hagsmuni af aðild að máli þessu eins og kröfugerð félagsins sé hagað.

Niðurstaða

                Ágreiningur þessa hluta málsins snýst um það hvort þrotamaður geti krafist úrskurðar dómara um frávikningu skiptastjóra úr starfi vegna vanhæfis. Sóknaraðili vísar til 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem segir að sá sem á kröfu á hendur þrotabúi geti krafist þess, telji þeir skiptastjóra ekki fullnægja skilyrðum 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991, að héraðsdómari kveði á um það í úrskurði hvort skiptastjóra verði vikið frá af þeim sökum. Einnig vísar sóknaraðili til 169. gr. áðurnefndra laga, en þar segir meðal annars að sá sem krefst úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóra verði vikið úr starfi skv. 3. mgr. 76. gr., skal beina skriflegri kröfu sinni um það til héraðsdóms þar sem skiptastjórinn var skipaður til starfans. Áðurnefnd 169. gr. er í 5. þætti laga 21/1991, nánar tiltekið í XXIII. kafla laganna, þar sem er að finna reglur um hvaða ágreiningsmál verða lögð fyrir héraðsdóm, hvernig það verði gert og eftir atvikum hvernig aðild að máli hverju sinni sé háttað.

Mál þetta barst dómnum með bréfi sóknaraðila, dags. 17. september 2015. Þar kom fram að sóknaraðili telji sig hafa réttmæta ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni varnaraðila og vísaði sóknaraðili í því sambandi til þess að efast mætti um hlutlægni skiptastjórans gagnvart kröfuhöfunum. Héraðsdómari boðaði sóknar- og varnaraðila á fund þann 28. september 2015. Þar gaf héraðsdómari fundarmönnum kost á að tjá sig um málið, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Héraðsdómari tók að þeim fundi loknum þá ákvörðun að ekki væri tilefni til frekari aðgerða af hálfu dómara. Sóknaraðili sætti sig ekki við framangreint og krafðist úrskurðar dómsins um frávikningu varnaraðila úr starfi skiptastjóra. Í framhaldinu var mál þetta þingfest, sbr. XXIV. kafla laga nr. 21/1991, og hafnaði varnaraðili kröfu sóknaraðila um úrskurð á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili vísar til þess að þó þess sé ekki getið sérstaklega í 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991, að þrotamaður hafi, eins og kröfuhafar, heimild til þess að krefjast frávikningar skiptastjóra, verði að telja að eðli máls samkvæmt hljóti þrotamaður að hafa sömu heimildir og kröfuhafar að þessu leyti. 

Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið að í gjaldþrotaskiptum felst að skuldari er með dómsúrskurði sviptur eignum sínum og öðrum fjárhagslegum réttindum sem síðan renna til þrotabúsins. Þrotabúið lýtur forræði skiptastjóra sem dómari skipar til starfa að gættum fyrirmælum 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hefur það veigamikið hlutverk að ráðstafa hagsmunum búsins og svara fyrir skyldur þess, sbr. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991, með það að markmiði að verja andvirði eigna búsins til að greiða kröfu skuldheimtumanna/kröfuhafa. Í 2. mgr. 122. gr. laganna er meðal annars vikið að þeirri skyldu skiptastjóra að allar eignir og öll réttindi þrotabúsins komi fram. Þá er skiptastjóra í gjaldþrotaskiptalögum meðal annars veitt heimild til að fara þess á leit við héraðsdóm að þrotamaður, sem ekki sinnir kvaðningu skiptastjóra til skýrslugjafa, verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni. Víðar í lögunum er kveðið á um skyldur þrotamanns og/eða valdbeitingu gagnvart honum meðan á búskiptum stendur, sbr. t.d. 3. mgr. 82. gr. og 83. gr. Þá skal skiptastjóri sem fær vitneskju í starfi sínu um atvik, sem hann telur geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaður eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi, tilkynna það héraðssaksóknara, sbr. 84. gr. laga nr. 21/1991. Lýsandi ákvæði um takmarkaðan rétt þrotamanns til afskipta af skiptunum er í 125. gr. áðurnefndra laga, en þar segir að kröfuhafi, sem lýst hefur kröfu í búið og kröfunni hefur ekki verið endanlega hafnað, eigi rétt á að sækja skiptafundi. Þrotamaður á hins vegar ekki þennan rétt, en skiptastjóri getur þó heimilað þrotamanni að sækja skiptafund en þar nýtur þrotamaður hvorki málfrelsis né tillöguréttar, nema með leyfi skiptastjóra. 

Það er mat dómsins, með vísan til skýrs orðalags 2. málsliðar 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991, þar sem sérstaklega er tilgreint að heimild til að krefjast úrskurðar dómara um hvort víkja beri skiptastjóra úr starfi sökum vanhæfis hafi sá sem á kröfu á hendur búinu, að í framangreindu ákvæði sé á tæmandi hátt kveðið á um það hverjir geti krafist úrskurðar héraðsdómara um frávikningu skiptastjóra vegna vanhæfis, sbr. 2. mgr. 75. gr. áðurnefndra laga. Því geti þrotamaður ekki sett fram slíka kröfu. Þykir sú niðurstaða í samræmi við það sem að framan er rakið um eðli gjaldþrotaskipta sem fullnustuaðgerðar og ákvæða laganna nr. 21/1991 um réttindi þrotamanns og tilteknar valdbeitingarheimildir gagnvart honum meðan á skiptum stendur, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 8. nóvember 2002 í málinu nr. 486/2002.

Sóknaraðili byggir kröfu sína einnig á því að hann eigi verulega, einstaka og lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr hæfi skiptastjóra og vísar í því sambandi til réttar manna til að bera mál sín undir dómstóla, sbr. fyrirmæli 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu, dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómurinn tekur ekki undir framangreindar röksemdir sóknaraðila og vísar í því sambandi til þess að sérstaklega er kveðið á um það í 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 in fine, að héraðsdómari skuli víkja skiptastjóra úr starfi ef hann fullnægir ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 75. gr. laganna. Telja verður að hagsmunir þrotamanns séu nægilega tryggðir með því að í framgreindu ákvæði er sú skylda lögð á héraðsdómara að víkja skiptastjóra úr starfi verði dómari þess áskynja að skiptastjóri uppfylli ekki lengur hæfisskilyrði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi.

Fiskalón ehf., hefur krafist þess að félaginu verði heimiluð aðalmeðalganga í málinu. Máli þessu hefur verið vísað frá dómi. Með vísan til þeirrar niðurstöðu er brostinn grundvöllur fyrir meðalgöngu og er kröfu Fiskalóns ehf., því vísað sjálfkrafa frá dómi. 

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður sóknaraðila og Fiskalóni ehf., gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úr s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu og kröfu Fiskalóns um aðalmeðalgöngu er vísað frá dómi.

Sóknaraðili, Guðmundur A. Birgisson, greiði varnaraðila, Erlu S. Árnadóttur, 600.000 krónur í málskostnað.

Fiskalón ehf., greiði varnaraðila, Erlu S. Árnadóttur, 200.000 krónur í málskostnað.