Hæstiréttur íslands

Mál nr. 210/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Réttaráhrif dóms
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                              

Mánudaginn 22. apríl 2013

Nr. 210/2013.

Þorsteinn H. Kúld

(Jónas Jóhannsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Réttaráhrif dóms. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Héraðsdómari vísaði skaðabótamáli Þ gegn R frá dómi á þeirri forsendu að Hæstiréttur hefði í máli nr. 419/2008 þegar fjallað um þá málsástæðu sem Þ byggði á í þessu máli og komist að þeirri niðurstöðu að Þ hefði ekki tekist að sanna tjón sitt. Niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 var staðfest í Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þorsteinn H. Kúld, greiði varnaraðila, Reykjavíkurborg, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2013.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 28. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorsteini H. Kúld, Kerhólum, Kjalarnesi, á hendur Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík með stefnu birtri 25. september 2012.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til greiðslu 5.200.000 króna skaðabóta með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. apríl 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrskurðar aðalkrafa stefnda og krefst stefnandi þess að synjað verði um frávísunarkröfu stefndu.

Ágreiningsefni

Í málinu krefst stefnandi greiðslu skaðabóta vegna verðrýrnunar á fasteigninni Kerhólum. Stefndi heldur því fram að krafa þessi hafi þegar verið dæmd að efni til samanber dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 419/2008 og því beri að vísa málinu frá dómi.

Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísun

Frávísunarkrafa stefnda byggist á því, að dómkröfur stefnanda séu í andstöðu við 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þær hafi þegar verið dæmdar að efni til samanber dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 419/2008; Reykjavíkurborg gegn Þorsteini H. Kúld. Það mál hafi verið höfðað á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda. Nánar tiltekið hafi dómkrafa stefnanda, lotið að ofanflóðahættunni, það er að viðurkennd yrði „skaðabótaskylda stefndu vegna tjóns stefnanda af völdum yfirvofandi ofanflóðahættu á spildunni Kerhólar á Kjalarnesi“. Taldi stefnandi að tjón sitt fælist annars vegar í því að hann myndi „þurfa að þola umtalsverða skerðingu á verðmæti húseignar sinnar vegna fyrirliggjandi ofanflóðahættu“ og hins vegar að hann „þurfi að láta reisa varnarmannvirki á landinu“ og að stefnda beri „að greiða þann kostnað sem af því hljótist að stærstum hluta“.

Héraðsdómur féllst á þessa kröfu stefnanda með eftirfarandi rökstuðningi: „Með því að gefa út byggingaleyfi til handa stefnanda á þeim stað sem raun ber vitni hefur stefnda orðið skaðabótaskyld vegna tjóns stefnanda af völdum ofanflóðahættu, enda hefur verið sýnt fram á það með matsgerð Magnúsar Axelsson (sic) fasteignasala að markaðsvirði eignarinnar hafi rýrnað vegna ofanflóðahættu, en matsgerð þessari hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefndu .... Var stefnanda í ljósi framangreinds rétt að leita eftir því að teiknaður yrði varnargarður .... Er fallist á með stefnanda að kostnaður við varnarmannvirki þetta sé hluti af tjóni stefnanda og standi í beinum tengslum við ofanflóðahættu á svæðinu.“

Stefndi áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar. Um fyrri málsástæðuna sagði Hæstiréttur eftirfarandi: „Stefndi aflaði virðingargjörðar fasteignasala 11. nóvember 2002 um verðmæti eignar sinnar. Í niðurstöðu hennar kemur fram að virðingarmaður telur rýrnun vegna ofanflóðahættu og óhagræðis vegna fornleifa geta verið um 20 til 25%. Hér er um einhliða álit að ræða og hefur stefndi því ekki sannað tjón af þessum sökum, og þá einnig að teknu tilliti til þess að ofanflóðavörn hefur verið byggð eftir að virðingargjörð fór fram.“

Um síðari málsástæðuna sagði Hæstiréttur eftirfarandi: „Stefndi hefur sýnt fram á að nauðsynlegt var að byggja varnarmannvirki til þess að tryggja öryggi fólks í íbúðarhúsinu á þeim stað sem það var reist, og að starfsmenn áfrýjanda hefðu átt að láta meta ofanflóðahættu á staðnum áður en byggingarleyfi var veitt. Þó að hvorki liggi fyrir nákvæmur kostnaður, né hvort mannvirki það sem hann hefur reist hefur orðið umfangsmeira en nauðsyn bar til, þá þykir stefndi hafa leitt nægar líkur að því, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna kostnaðar við að byggja varnarmannvirki. Er því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu áfrýjanda vegna tjóns sem stefndi hefur orðið fyrir vegna þess að mat á ofanflóðahættu fór ekki fram áður en leyfi var veitt til að reisa íbúðarhús hans.“

Stefndi kveðst byggja á því að Hæstiréttur hafi þegar hafnað því að hann sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna ætlaðrar verðrýrnunar á fasteign hans. Sú dómsniðurstaða bindi hendur stefnanda. Engu breyti þótt fyrra málið hafi verið höfðað til viðurkenningar á bótaskyldu en sé nú höfðað til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Hæstiréttur hafi talið að stefnanda hefði ekki tekist að færa fram sönnur fyrir ætlaðri bótaskyldu, sem hann krafðist viðurkenningar á. Sú niðurstaða sé endanleg og verði ekki bætt úr með síðari málshöfðun.

Stefndi mótmælir því sem fram kemur í stefnu um að stefndi hafi staðfest einhvern allt annan skilning stefnanda á þýðingu dóms Hæstaréttar. Tilvísun til dóms Hæstaréttar í samkomulagi aðila 12. október 2011 feli ekkert slíkt í sér. Tilvísunin til dóms Hæstaréttar sé eðlileg og nauðsynleg enda hafi með samkomulaginu verið gert  upp það tjón, sem Hæstiréttur hafði komist að raun um að yrði rakið til ofanflóðahættu á fasteign stefnanda. Um óbreyttan skilning stefnda á þýðingu dóms Hæstaréttar nægir að vísa til 2. tl. í athugasemdum þeim er stefndi lagði fram á matsfundi 22. nóvember 2011, þegar stefndi felldi niður matsmál það er hann hafði höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun

Stefnandi leggur áherslu á að Hæstiréttur Íslands hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti veitt stefnanda byggingarleyfi á stað sem var þekkt hættusvæði. Stefnandi eigi þess vegna rétt á því að fá allt tjón sitt bætt, en ekki sé um að ræða sök af hans hálfu. Til sönnunar á tjóni sínu leggi hann nú fram matsgerð dómkvaddra matsmanna er telja tjón hans vera 5.200.000 kr.

Stefnandi hafnar því að Hæstiréttur Íslands hafi leyst úr því álitaefni að verðrýrnun hafi orðið á fasteigninni Kerhólum. Héraðsdómari hafi fallist á viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna tjóns stefnanda af völdum yfirvofandi ofanflóðahættu á spildunni Kerhólum og þar með á viðurkenningu á verðrýrnun á fasteigninni. Í dómsorði Hæstaréttar komi fram að hinn áfrýjaði dómur skuli vera óraskaður. Hvergi sé sagt í forsendum dómsins að stefndi sé sýknaður af kröfum stefnanda um bætur vegna verðmætarýrnunar fasteignarinnar. Því hafi enginn dómur gengið um kröfu þá sem höfð er uppi í málinu. Þar af leiðandi komi sjónarmið 116. gr. laga nr. 91/1991 ekki til álita.

Niðurstaða

Eins og að framan greinir höfðaði stefnandi viðurkenningarmál á hendur stefnda með stefnu birtri 9. maí 2007. Fyrsti töluliður dómkröfu stefnanda var á þá leið að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefndu vegna tjóns stefnanda af völdum yfirvofandi ofanflóðahættu á spildunni Kerhólum á Kjalarnesi. Í öðrum tölulið kröfugerðarinnar var krafist viðurkenningar á skaðabótaskylda stefndu vegna tjóns stefnanda af völdum friðaðra fornminja sem eru á spildunni Kerhólum á Kjalarnesi.

Í stefnu kemur fram að stefnandi telji ljóst að hann þurfi að þola umtalsverða skerðingu á verðmæti húseignar sinnar vegna fyrirliggjandi ofanflóðahættu og vegna friðaðra fornminja sem í ljós hafi komið. Þá geti „almenn hræðsla vegna ofanflóðahættu valdið verulegri lækkun á markaðsvirði fasteigna á hættusvæðum, sbr. fyrirliggjandi matsgerð Magnúsar Axelssonar fasteignasala“ eins og segir í stefnu.

Í dómi héraðsdóms í málinu segir varðandi þessa málsástæðu að með því að gefa út byggingaleyfi til handa stefnanda á þeim stað sem raun ber vitni hafi stefnda orðið skaðabótaskyld vegna tjóns stefnanda af völdum ofanflóðahættu, enda hafi verið sýnt fram á það með matsgerð Magnúsar Axelssonar fasteignasala að markaðsvirði eignarinnar hafi rýrnað vegna ofanflóðahættu, en matsgerð þessari hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefndu. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að viðurkennd var skaðabótaskylda stefnda samanber 1. tl. dómkröfunnar þ.e. vegna tjóns stefnanda af völdum yfirvofandi ofanflóðahættu á spildunni Kerhólum á Kjalarnesi, en stefndi var sýknaður af seinni kröfuliðnum.

      Í forsendum dóms Hæstaréttar í málinu er ítarlega fjallað um hættumat en þar segir að Veðurstofa Íslands hafi það lögbundna hlutverk að annast hættumat samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 49/1997 og bráðabirgðahættumat samkvæmt 25. gr. reglugerðar nr. 505/2000. Hættumat fari fram að beiðni hættumatsnefndar eða Skipulagsstofnunar í tilviki bráðabirgðahættumats. Í bráðabirgðahættumati frá 16. maí 2002 telur Veðurstofan að staðaráhætta í húsi stefnanda vegna snjóflóða sé ásættanleg og vegna berghlaupa ekki óviðunandi, en að því er varði aurskriður sé staðaráhætta „í húsinu“ ásættanleg „ef byggður er garður“ sem fullnægi tilteknum skilyrðum, sem nánar sé lýst í matinu. Í svari Veðurstofunnar 15. febrúar 2007 við beiðni stefnda um endurskoðun bráðabirgðahættumatsins sé tekið fram að slíkt mat sé ekki gert að beiðni einstaklinga en síðan segir í lok bréfsins: „Þótt nýjar upplýsingar liggi nú fyrir um skriðusögu við Kerhóla, teljum við að meginniðurstöður bráðabirgðahættumatsins standi óhaggaðar, þ.e. að með minniháttar vörnum sé hægt að gera skriðuáhættu á Kerhólum viðunandi í skilningi reglugerðar nr. 505/2000. Því teljum við ekki þörf á að endurskoða bráðabirgðahættumat Veðurstofunnar frá 16. maí 2002.“ Af þessu verður ekki annað ráðið en að Hæstiréttur hafi ítarlega fjallað um þá málsástæðu stefnanda að fasteign hans væri hætta búin vegna ofanflóðahættu og tekur undir það mat Veðurstofunnar, sem ekki var hnekkt, að staðaráhætta í húsi stefnanda vegna snjóflóða sé ásættanleg og vegna berghlaupa ekki óviðunandi, en varðandi aurskriður sé staðaráhætta í húsinu ásættanleg ef byggður er garður sem fullnægi tilteknum skilyrðum, sem nánar er lýst í matinu.

Í lokakafla dómsins segir Hæstiréttur nánar um þessa málsástæðu: „Stefndi aflaði virðingargjörðar fasteignasala 11. nóvember 2002 um verðmæti eignar sinnar. Í niðurstöðu hennar kemur fram að virðingarmaður telur rýrnun vegna ofanflóðahættu og óhagræðis vegna fornleifa geta verið um 20 til 25%. Hér er um einhliða álit að ræða og hefur stefndi því ekki sannað tjón af þessum sökum, og þá einnig að teknu tilliti til þess að ofanflóðavörn hefur verið byggð eftir að virðingargjörð fór fram.“ Af þessu verður ekki annað ráðið en að Hæstiréttur hafi þegar fjallað um þá málsástæðu stefnanda sem byggt er á í þessu máli, þ.e. að verðrýrnun hafi ekki orðið á fasteigninni að Kerhólum og sýknar því stefnda af þessum lið. Hins vegar fellst Hæstiréttur á skyldu stefnda til að bæta stefnanda tjón vegna varnarmannvirkisins. Þótt dómsorðið hljóði á um að héraðsdómur skuli vera óraskaður, er sú niðurstaða mörkuð af því sem fram kemur í forsendum dómsins.

Hinn 12. október 2011 var samkomulag gert á grundvelli nefnds hæstaréttardóms og fékk stefnandi greiddar 15.900.000 kr. í bætur. Var meðal annars við ákvörðun fjárhæðar bótanna litið til verðmats og hönnunar verkfræðings á varnarmannvirkinu.

      Með vísan til þess sem að framan greinir telur dómurinn ljóst að fyrra dómsmálið hafi verið lagt svo upp af hálfu stefnanda, að verðmætarýrnun fasteignarinnar væri innifalin í viðurkenningarkröfu hans. Á sama hátt hafi Hæstiréttur Íslands tekið á þessari málsástæðu stefnanda svo sem að framan greinir og komist að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda væri ósannað auk þess sem ofanflóðavörn hafi verið byggð sem væntanlega myndi þá verja fasteignina þannig að ekki væri um verðmætarýrnun að ræða.

      Dómurinn hafnar því, að stefnandi geti byggt á ummælum í samkomulagi aðila frá 12. október 2011 því til stuðnings, að ekki hafi verið leyst úr ágreiningi um verðmætarýrnun fasteignarinnar. Í nefndu samkomulagi er tekið fram að teldi stefnandi sig vanhaldinn í bótum gæti hann hafið aftur málarekstur á sína ábyrgð og áhættu og ekki er hægt að túlka samkomulagið þannig að stefndi viðurkenni frekari bótaskyldu en um er að ræða í samkomulaginu.         

      Niðurstaða málsins er því sú að með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála er málinu vísað frá dómi. Þá ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 kr.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Málinu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Þorsteinn Kúld, greiði stefnda, Reykjavíkurborg 300.000 kr. í málskostnað.