Hæstiréttur íslands

Mál nr. 201/2001


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabótalög


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 201/2001.

Melkorka Matthíasdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Torfa Sigurjónssyni og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög.

M varð fyrir varanlegu líkamstjóni í umferðarslysi sumarið 1996. Var varanlegur miski og örorka metin 15%. Áður en slysið átti sér stað hafði M, sem var 24 ára er slysið varð, lokið öllum greinum í jarðfræðinámi við Háskóla Íslands. Haustið eftir slysið vann hún að lokaritgerð og útskrifaðist sem jarðfræðingur snemma árs 1997. Hún var í starfi er slysið varð og hafði aflað nokkurra tekna samhliða námi síðustu árin fyrir slysið. Í málinu krafðist hún þess að bætur fyrir varanlega örorku yrðu ákveðnar á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki 8. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á að í 5.-7. gr. laganna, sem í gildi voru þegar slysið varð, hafi komið fram aðalregla um ákvörðun bóta vegna varanlegrar skerðingar á vinnugetu. Þágildandi 8. gr. laganna, um útreikning bóta til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýttu vinnugetu sína þannig að þeir hefðu engar eða takmarkaðar vinutekjur, hafi því haft að geyma undantekningarákvæði, sem skýra beri þröngt. Ákvæðinu verði einungis beitt að ekki sé fyrir hendi nærlæg viðmiðun við árslaun til að ákveða bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr. laganna. Í málinu sé aðstaða tjónþola að mörgu leyti hliðstæð tilviki því, sem um sé fjallað í dómi Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1976. Með hliðsjón af aldri áfrýjanda og stöðu hennar í námi er slysið varð svo og af tekjuöflun hennar og í ljósi tilvitnaðs fordæmis verði henni því ákveðnar bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli meginreglnanna í 5.-7. gr. þágildandi skaðabótalaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2001. Hún krefst þess að stefndu greiði sér óskipt 1.802.684 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. júní 1996 til 5. febrúar 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi varð fyrir slysi 14. júní 1996 þegar bifhjól, sem ekið var austur Norðurlandsveg og hún var farþegi á, lenti í árekstri við bifreið stefnda Torfa Sigurjónssonar, sem ekið var af Hvammstangavegi í veg fyrir bifhjólið. Ekki er ágreiningur um fébótaábyrgð stefndu vegna slyssins. Í mati Jónasar Hallgrímssonar læknis 2. desember 1998 var tímabundið atvinnutjón áfrýjanda vegna slyssins metið 100% í tvær vikur, hún lá einn dag í rúminu en var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski hennar var metinn 15% og varanleg örorka 15%. Hefur stefndi Tryggingamiðstöðinn hf. greitt henni bætur í samræmi við matið og miðað bætur fyrir varanlega örorku við 8. gr skaðabótalaga nr. 50/1993. Lýtur ágreiningur aðila eingöngu að greiðslu bóta fyrir varanlega örorku, sem áfrýjandi krefst að verði metin á grundvelli 5.- 7. gr. skaðabótalaga en ekki 8. gr. þeirra.

II.

Áfrýjandi var 24 ára er slysið varð. Hafði hún um vorið lokið öllum bóklegum greinum í jarðfræðinámi við Háskóla Íslands. Vann hún að lokaritgerð haustið eftir slysið og útskrifaðist sem jarðfræðingur í febrúar 1997. Er slysið varð stundaði hún vinnu hjá Flugleiðum hf. við innritun og farþegaþjónustu. Samkvæmt skattframtölum, sem lögð hafa verið fram í málinu, námu tekjur hennar 391.469 krónum árið 1994, 648.843 krónum 1995, 409.864 krónum 1996 og 1.244.319 krónum 1997.

 Líta verður svo á að í 5.-7. gr. skaðabótalaga, sem í gildi voru þegar slysið varð, hafi komið fram aðalregla um ákvörðun bóta vegna varanlegrar skerðingar á vinnugetu. Þágildandi 8. gr. laganna, um útreikning bóta til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýttu vinnugetu sína þannig að þeir höfðu engar eða takmarkaðar vinnutekjur, hafði því að geyma undantekningarákvæði, sem skýra ber þröngt. Verður því ákvæði einungis beitt að ekki sé fyrir hendi nærlæg viðmiðun við árslaun til að ákveða bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr. laganna. Í þessu máli er aðstaða tjónþola að mörgu leyti hliðstæð tilviki því, sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1976. Með hliðsjón af aldri áfrýjanda og stöðu hennar í námi er slysið varð svo og af tekjuöflun hennar og í ljósi tilvitnaðs fordæmis verða henni því ákveðnar bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli meginreglnanna í 5.-7. gr. þágildandi skaðabótalaga.

Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu áfrýjanda. Verða stefndu, Torfi Sigurjónsson og Tryggingamiðstöðin hf., því dæmdir óskipt til að greiða áfrýjanda 1.802.684 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Stefndu verða óskipt dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir  Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, Torfi Sigurjónsson og Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, Melkorku Matthíasdóttur, óskipt 1.802.684 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. júní 1996 til 5. febrúar 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði áfrýjanda óskipt samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2001.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 13. september 2000 og dómtekið 21. þ.m.

Stefnandi er Melkorka Matthíasdóttir, kt. 260472-5429,  Lyngholti 7, Keflavík.

Stefndu eru Torfi Sigurjónsson, kt. 180918-3109, Nestúni 4, Hvammstanga og Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6 – 8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.802.684 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. júní 1996 til 5. febrúar 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Málið er höfðað til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns af völdum umferðarslyss.  Þann 14. júní 1996 var stefnandi farþegi á bifhjóli sem sambýlismaður hennar ók austur Norðurlandsveg á leið til Akureyrar.  Þegar þau komu að Hvamms­tanga­vegi var bifreið stefnda, Torfa Sigurjónssonar, ekið þaðan inn á Norðurlandsveg í veg fyrir bifhjólið með fyrirhugaða akstursstefnu í sömu átt.  Bifhjólið skall á hlið bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að stefnandi hentist af því yfir bifreiðina og lenti á hnjánum.

Stefnandi var þegar flutt á Heilsugæslustöðina Hvammstanga og þaðan á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem hlúð var að henni og hún rannsökuð.  Hún hafði þá mikla verki í hnjám.  Daginn eftir fann stefnandi einnig fyrir miklum verkjum í hálsi og vaxandi verkjum í vinstri öxl.  Hún leitaði síðan læknismeðferðar.  Í vottorði Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 11. október 1997, segir að stefnandi hafi hlotið slæma tognun á hnjám og vinstri öxl.  Einnig megi ætla að hún hafi hlotið liðþófaáverka milli 5. og 6. hálsliðar.  Viðbúið sé að einkenni muni verða viðvarandi.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., var ábyrgðartryggjandi vegna bifreiðarinnar H-3333 er slysið átti sér stað.

Ekki er deilt um bótaskyldu í málinu.

Þegar slysið varð var stefnandi á lokastigi  jarðfræðináms við Háskóla Íslands; átti einungis eftir að skrifa lokaritgerð.  Frá því í júní þetta sumar og fram á haust vann hún  við innritun og farþegaþjónustu hjá Flugleiðum hf.  Vegna slyssins var hún frá vinnu í tvær vikur en neyddist þá til að hefja störf þar sem hún hefði ella misst vinnuna eftir því sem segir í stefnu.  Haustið  1996 vann stefnandi að lokaritgerð sinni og starfaði eftir jólin á leikskóla samhliða ritgerðarsmíðinni.  Hún útskrifaðist síðan sem jarðfræðingur í febrúar 1997.

Samkvæmt skattframtölum stefnanda námu tekjur hennar árið 1995 648.843 krónum og árið 1996 409.864 krónum.  Þá voru launatekjur hennar árið 1997 1.244.319 krónur, árið 1998 681.130 krónur en engar árið 1999.

Jónas Hallgrímsson læknir framkvæmdi mat samkvæmt skaðabótalögum á tjóni stefnanda og er matsgerð hans dagsett 2. desember 1998.  Tímabundið atvinnutjón er metið 100% í tvær vikur.  Um þjáningar segir að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í einn dag vegna slyssins og ekki sé talið að frekari bata hafi verið að vænta þegar sex mánuðir hafi verið liðnir frá slysinu en þann tíma teljist hún hafa verið veik í skilningi skaðabótalaga. Varanlegur miski sé vegna tognunareinkenna frá vinstri öxl og hálsi og gruns um liðþófaáverka á milli tveggja hálsliða svo og hafi stefnandi tognunareinkenni frá hnjám.  Varanlegur miski vegna afleiðinga slyssins er metinn 15%.  Um varanlega örorku segir í matinu að fastlega megi gera ráð fyrir því að afleiðingar slyssins muni hafa talsverð áhrif á framtíð stefnanda varðandi starfsval og úthald  til rannsóknarstarfa og vinnu, sérstaklega utanhúss. Örorkan er metin hliðstæð varanlegum miska eða 15%.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., kröfubréf þann 5. janúar 1999.  Gerð var krafa um greiðslu á 3.420.301 krónu sem sundurliðast þannig:  Tímabundið tekjutap 55.310 kr., þjáningabætur 127.300 kr., varanlegur miski 600.000 kr. og varanleg örorka 2.637.691 kr.  Í svarbréfi, dags. 30. mars 1999, segir að félagið sé reiðubúið til  uppgjörs sem hér segir:  Tímabundið tjón 55.310 kr., þjáningabætur 11.580 kr., varanlegur miski 666.000 kr. og varanleg örorka 865.800 (666.000 x 130%) kr. auk vaxta, kostnaðar og innheimtuþóknunar.

Í stefnu nam höfuðstóll aðalkröfu stefnanda 3.597.304 krónum og höfuðstóll varakröfu 1.858.714 krónum.  Þann 16. október 2000 var af hálfu stefnda, Trygginga­miðstöðvarinnar hf., gert upp það tjón, sem ágreiningslaust var að stefnandi ætti rétt á að fá bætt.  Um var að ræða tímabundið tjón 55.310 krónur, þjáningabætur 152.760 krónur og varanlegan miska 720.150 krónur. Aðilar eru sammála um að þar með sé þessum þáttum málsins lokið.  Jafnframt voru 936.195 krónur greiddar vegna varanlegrar örorku.  Til viðbótar vöxtum vegna framangreindra þátta, sem voru greiddir við uppgjörið, innti stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., af hendi greiðslu vaxta að upphæð 300.000 krónur þ. 20. þ.m. samkvæmt samkomulagi aðila.

Ágreiningur aðila varðar nú einungis bótarétt stefnanda vegna varanlegrar  örorku.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að skaðabætur vegna varanlegrar örorku skuli reiknaðar út samkvæmt 5. – 7. gr. skaðabótalaga.  Einkum er vísað til þess að stefnandi hafi átt skammt eftir til námsloka í jarðfræði við Háskóla Íslands er hún slasaðist og þegar ákveðið og skapað sér starfsvettvang.  Samkvæmt 7. gr. skaðabóta­laga og athugasemdum við þá grein í frumvarpi til laganna skuli útreikningur bótanna ekki fara eftir 8. gr. heldur 5. – 7. gr. og beri að leggja til grundvallar þær tekjur sem stefnandi hefði haft að jarðfræðinámi loknu.  Líta verði til þess að 5. gr. skaðabóta­laga sé ótvíræð meginregla um útreikning líkamstjóns vegna varanlegrar örorku og að sama skapi sé 8. gr. undantekningarákvæði sem skýra beri þröngt og eigi hún einungis við þegar hinn slasaði hafi ekki skapað sér starfsvettvang þannig að ekki sé við neinar viðmiðunartekjur að styðjast sem unnt sé að byggja bótaútreikning á.  Stefnandi vísar sérstaklega til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli skuli fá bætt allt tjón sitt.  Svo muni ekki verða í tilviki stefnanda verði undantekningarákvæði 8. gr. skaðabótalaga beitt við útreikning bótanna, sér í lagi þegar haft sé íhuga að skaðabætur samkvæmt þeirri grein séu miklum mun lægri en séu þær reiknaðar út eftir ákvæðum 5. – 7. gr. laganna.

Í stefnu er útreikningur kröfufjárhæðar miðaður við árslaun jarðfræðings í þjónustu Orkustofnunar í algengum launaflokki að viðbættum 6% vegna greiðslu vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Skaðabótakrafan nam 15% x 2.344.614 kr. x  7,5 x 3627/3493 = 2.738.879 krónum samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga að teknu tilliti til hækkunar lánskjaravísitölu samkvæmt 15. gr. laganna.  Með frádrætti, sem nemur greiðslu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., á 936.195 krónum, fæst höfuðstóll endanlegrar dómkröfu, 1.802.684 krónur.  Krafist er dráttarvaxta á grundvelli III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. mgr. 16. skaðabótalaga, frá því er mánuður var liðinn frá sendingu kröfubréfs enda hafi þá legið fyrir öll nauðsynleg gögn til að unnt væri að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Af hálfu stefndu er vísað til 1. mgr. 8. gr skaðabótalaga og athugasemda í greinargerð því til stuðnings að ákveða skuli bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku samkvæmt þeirri grein.  Rök stefnanda, sem séu reist á því að hún hafi verið að ljúka námi, fái ekki stuðning af skaðabótalögunum eða greinargerð með þeim.  Tilvitnun stefnanda í athugasemdir í greinargerð um 7. gr. skaðabótalaganna er vísað á bug.  Þvert á móti sé ágreiningslaust að stefnandi falli ekki undir það að hafa þegið laun í tengslum við nám en til slíkra námsmanna, svo sem iðnnema eða læknanema, hafi bætur átt að ákvarðast samkvæmt 2. mgr. 7. gr. en ekki 8. gr.  Þeirri fullyrðingu stefnanda er hafnað að á mundi skorta að hún fengi fullar bætur yrði farið að tillögu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., svo og um að 8. gr. eigi einungis við þegar hinn slasaði hafi ekki skapað sér starfsvettvang.

Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur.

Bætur fyrir varanlega örorku skulu í hverju tilviki annað hvort ákvarðaðar á grundvelli 5. – 7. gr. eða 8. gr skaðabótalaga nr. 50/1993 en breytingar, sem gerðar voru á ákvæðunum með lögum nr. 42/1996 og 37/1999, hafa ekki þýðingu við úrlausn málsins.  Við úrlausnina ber að taka mið af aðstæðum stefnanda á slysdegi. 

Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að skaðabótalögunum,  segir m.a. um 5. gr. að það, sem ráði úrslitum við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt greininni, sé hvort tjónþoli tapi tekjum til frambúðar.  Einnig segir að oft sé miklum erfiðleikum bundið að meta vinnutekjutjón vissra hópa tjónþola, þ.e. barna, ungs fólks í skóla og þeirra sem vinni heimilisstörf.  Því sé lagt til í 8. gr. frumvarpsins að  örorkubætur til tjónþola, sem nýti starfsgetu sína að verulegu leyti til annars en að afla vinnutekna, skuli ákveðnar eftir miskastigi skv. 4. gr.  Þess vegna skuli ekki meta örorku þessara einstaklinga á grundvelli örorkustigs skv. 5. gr.  Í samræmi við þetta kvað 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á um það að bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti  nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skyldi ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr.  Í athugasemdunum segir um 8. gr. að reglum hennar  skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti.

Með vísun til þess sem að framan getur um hagi stefnanda fellur ákvörðun um bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku undir 8. gr. skaðabótalaga samkvæmt skýru og ótvíræðum orðum ákvæðisins.  Engin rök verða fundin fyrir þrengjandi lögskýringu með skírskotun til þess að skammt hafi verið til námsloka stefnanda og að hún hafi þegar markað sér framtíðarstarfsvettvang er hún slasaðist.  Þetta kemur skýrlega fram af eftirfarandi tilvitnun í athugasemd um 7. gr í frumvarpi sem varð að skaðabótalögum nr. 50/1993:  “Stundi tjónþoli nám þegar líkamstjón ber að höndum og þiggi laun í tengslum við það, t.d. iðnnám, verður venjulega að miða árslaun við tekjur sem tjónþoli mundi hafa haft ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi.  Um tjónþola, sem ekki fá laun í tengslum við nám, fer eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins.  Þar eru sérstakar reglur um útreikning bóta til barna, unglinga í skóla og þeirra sem vinna heimilisstörf.  Þörf er á þeim vegna þess að ekki er unnt að miða við árslaun þegar þessir tjónþolar eiga hlut að máli.”

Upphæð örorkubóta, sem stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., hefur greitt stefnanda er réttilega reiknuð samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., skaðabótalaga sem 130% af miskabótum að fjárhæð 720.150 krónur.

Niðurstaða  dómsins er sú að tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku hafi þegar verið að fullu bætt eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993.  Eigi er fallist á að með því sé brotið gegn þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli skuli fá bætt allt tjón sitt.  Um það verður vísað til þess, sem segir í tilvitnuðum athugasemdum, að reynt hafi verið að gera reglur frumvarpsins þannig úr garði að tjónþoli fái almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sem hlýst af völdum líkamsmeiðsla.  Óhjákvæmilegt er að ætlað sé á um slíkt tjón og að bótafjárhæðir séu staðlaðar. 

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Torfi Sigurjónsson og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Melkorku Matthíasdóttur.

Málskostnaður fellur niður.