Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 24. febrúar 2012. |
|
Nr. 120/2012: |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Helga Vala Helgadóttir hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 29. febrúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vægari úrræðum verði beitt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23.
febrúar 2012.
Lögreglustjórinn á
Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að
erlendum aðila sem kveðst heita X, fæddur [...] 1984, verði með úrskurði
Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29.
febrúar 2012, kl. 16:00.
Í
greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að þann 20. febrúar 2012 hafði lögregla haft
afskipti af aðila í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í kjölfar komu hans
til landsins með flugi SAS SK-4787. Aðspurður um
skilríki hafi aðilinn framvísað við lögreglu, frönsku kennivottorði nr. [...],
á nafni A, fæðingardagur [...]. Í viðræðum við lögreglu viðurkenndi aðilinn að
hann væri ekki réttmætur eigandi skilríkisins sem að hann hafði framvísað.
Kvaðst hann hafa fengið skilríkið lánað hjá félaga sínum í þeim tilgangi að
komast hingað til lands til að hitta kærustu sína. Við leit í farangri aðilans
hafi fundist ýmis skjöl með nafninu X sem hafi bæði verið á frönsku og
arabísku. Kvaðst aðilinn vera eigandi þeirra skjala og hans rétta nafn væri X,
fæddur þann [...], í [...], Alsír.
Þá segir í
greinargerðinni að við skoðun skilríkjasérfræðings lögreglustjórans á
Suðurnesjum hafi komið í ljós að kennivottorðið sem aðilinn framvísaði við
lögreglu hafi reynst grunnfalsað, þ.e. falsað að öllu leyti. Við yfirheyrslu
hjá lögreglu þann 21. febrúar 2012 kvaðst aðilinn hafa farið frá Alsír til
Frakklands, þaðan til Noregs og svo til Belgíu, aftur til Frakklands og þaðan
til Englands, síðan aftur til Frakklands. Loks til Tyrklands með viðkomu á
Ítalíu og Grikklandi. Þá hafi hann farið sömu leið til baka til Frakklands. Þá
aftur til Belgíu, þaðan til Danmerkur og þaðan til Noregs og loks til Íslands.
Aðspurður kvaðst aðilinn að ferðalagið hefði staðið yfir síðan 8. desember
2010. Fingraför hafi verið tekin af aðilanum í þeim tilgangi að reyna varpa
ljósi á það hver aðilinn sé en að svo stöddu hafi lögregla engar upplýsingar um
það hver aðilinn sé. Einu upplýsingarnar sem lögregla hafi fengið frá aðilanum
sé að hann heiti X og sé alsírskur ríkisborgari. Aðilanum hafi að öðru leyti
ekki tekist að gera grein fyrir sér með sannanlegum hætti. Lögregla bíður þess
nú að fá svör frá evrópskum yfirvöldum um það hvort aðilinn hafi komið við sögu
yfirvalda í Evrópu.
Vísast nánar til
meðfylgjandi gagna málsins.
Af framansögðu og með
vísan til gagna málsins telji lögreglan sig hafa rökstuddan grun um að aðilinn
gefi rangar upplýsingar um það hver hann sé. Þá telji lögregla einnig að
ferðasaga aðilans sé ótrúverðug. Með vísan til þessa telji lögreglustjóri
nauðsynlegt að aðilinn sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til meðferðar
hjá Héraðsdómi Reykjaness og unnið er að því að upplýsa hver aðilinn er.
Með vísan til alls
framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr.
lög nr. 86/2008 og b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála
telji lögreglustjóri nauðsynlegt að þolanda verði gert að sæta gæsluvarðhaldi
allt til miðvikudagsins 29. febrúar 2012, kl. 16:00.
Kærði mótmælti kröfunni.
Kvaðst hann vera flóttamaður frá Alsír, sem hafi óskað eftir hæli á Íslandi, en
hann hafi komið hingað til lands 20. febrúar sl. Kærði hafi játað að hafa
framvísað fölsuðum skilríkjum en hann hafi óskað hælis og teljist því vera í
löglegri dvöl á landinu á meðan umsókn hans sé til meðferðar. Byggir kærði á
Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem hafi tekið gildi gagnvart Íslandi 1.
mars 1956. Þá séu skilyrði 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki uppfyllt. Samkvæmt 1.
mgr. 31. gr. flóttamannasamningsins njóti flóttamenn og hælisleitendur verndar
gegn sakhæfi fyrir að hafa í fórum sínum eða framvísa stolnum eða fölsuðum
vegabréfum og megi viðkomandi stjórnvöld ekki beita refsingum gagnvart
hælisleitendum eða flóttamönnum. Það skuli ekki hafa áhrif á umsókn viðkomandi
þótt framvísað hafi verið fölsuðu eða stolnum skilríkjum við komu til landsins.
Sama gildi þótt hælisleitandi framvísi engum skilríkjum. Þetta stafi af því að
ríki þau sem hælisleitendur komi frá séu oft ófús að gefa út vegabréf og því sé
þeim oft sá einn nauðugur kostur að verða sér út um fölsuð eða stolin skilríki
til að koma sér úr landi og freista þess að öðlast stöðu flóttamanns í öðrum
ríkjum. Vísar kærði til 1. mgr. 31. gr. flóttamannasamningsins en þar segi að
aðildarríkin skuli ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar
komu þeirra til landsins eða vistar þar, ef þeir koma beint frá landi, þar sem
lífi þeirra eða frelsi hafi verið ógnaði í merkingu 1. gr. og koma inn í lönd
þeirra eða séu þar án heimildar, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við
stjórnvöldin og beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu sinni eða
vist þar. Kærði hafi sótt um hæli við fyrsta mögulega tækifæri við komuna til
landsins. Hann hafi umsvifalaust gert grein fyrir tilveru sinni um leið og hann
var stöðvaður og skýrt allt frá fyrstu stundu satt og rétt frá.
Kærði framvísaði fölsku
kennivottorði við komu sína til landsins þann 20. febrúar sl. Hefur hann játað
það skýlaust en mótmælir því að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Telur
hann skilyrði b-liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 séu ekki uppfyllt. Þá byggir
kærði á 1. mgr. 31. gr. Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna þar sem tekið er
fram að flóttamenn og hælisleitendur njóti verndar gegn sakhæfi fyrir að hafa í
fórum sínum eða framvísa stolnum eða fölsuðuðum vegabréfum.
Ákæra var birt kærða í
þinghaldi þann 22. febrúar sl. Játaði ákærði sök í málinu en mótmælti
refsikröfu ákæruvaldsins. Var málinu frestað til munnlegs málflutnings til
föstudagsins 24. febrúar nk. Á grundvelli þess að ekki hafi komið fram gögn um
það hver ákærði í því máli sé, er krafist gæsluvarðhalds á meðan lögregla bíður
eftir upplýsingum um það frá evrópskum yfirvöldum, hver ákærði sé. Þá byggir
ákæruvaldið á 7. mgr. 29. gr. útlendingarlaga nr. 96/2002.
Til að
Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna verði beitt þurfa öll skilyrði hans að
vera uppfyllt. Í 1. mgr. 31. gr. samningsins segir að aðildarríki skuli ekki
beita refsingum gagnvart flóttamönnum, ef þeir koma beint frá landi þar sem
lífi þeirra eða frelsi var ógnað í merkingu 1. gr. Kærði í máli þessu kvaðst
fyrir lögreglu hafa farið frá Alsír til Frakklands, þaðan til Noregs og svo til
Belgíu, aftur til Frakklands og þaðan til Englands, síðan aftur til Frakklands.
Loks til Tyrklands með viðkomu á Ítalíu og Grikklandi. Þá hafi hann farið sömu
leið til baka til Frakklands. Þá aftur til Belgíu, þaðan til Danmerkur og þaðan
til Noregs og loks til Íslands. Aðspurður kvaðst aðilinn að ferðalagið hefði
staðið yfir síðan 8. desember 2010. Samkvæmt þessu verður 1. mgr. 31. gr.
Flóttamannasamningsins ekki borið við í máli þessu og ekki fallist á
málsástæður kærða.
Fyrir liggur að kærði
framvísaði fölsuðum skilríkjum við komu sína til landsins. Þá fundust skilríki
í fórum hans sem lögregla kannar nú hvort séu gild og eigi þá við kærða. Ekki
liggur fyrir að kærði sé sá sem hann segist vera. Kærði er erlendur
ríkisborgari og verður því að telja hættu á því að hann muni reyna að komast úr
landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn áður en mál hans er
til lykta leitt. Með vísan til þessa, rannsóknargagna málsins og b. liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. einnig 7. mgr. 29. gr.
laga nr. 96/2002 um útlendinga þykir mega fallast á kröfu lögreglustjórans á
Suðurnesjum um gæsluvarðhald. Að því virtu, verður krafan tekin til greina
þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi fram að þeim tíma er dómur gengur í máli
hans nr. S-134/2012, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 29. febrúar nk. kl.
16.00.
Ástríður Grímsdóttir
héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, fæddur [...]
1984, skal sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í málinu
S-134/2012, þó ekki lengur en til
miðvikudagsins 29. febrúar nk. kl. 16:00.
Gæslan er án takmarkana.