Hæstiréttur íslands
Mál nr. 27/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Stefna
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Mánudaginn 30. janúar 2012. |
|
Nr. 27/2012.
|
Úlfhéðinn Sigurmundsson og Þóra Þórarinsdóttir (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Sigurði Rúnari Andréssyni og Jóhönnu Haraldsdóttur (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Stefna. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Ú og Þ á hendur S og J var vísað frá dómi, á þeim grundvelli að við þingfestingu málsins í héraði hefði stefna og málatilbúnaður Ú og Þ ekki fullnægt áskilnaði 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 30. desember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 9. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar höfðuðu mál á hendur varnaraðilum 21. janúar 2011. Í stefnu gerðu þau aðallega kröfu um skaðabætur að fjárhæð 50.000.000 krónur, en til vara um afslátt sömu fjárhæðar. Í stefnunni kom fram að kröfurnar ættu rót að rekja til kaupsamnings málsaðila um jörð og hafi umsamið kaupverð hennar verið 41.000.000 krónur. Ekki var gerð frekari grein fyrir kröfufjárhæðum, sem námu hærri upphæðum en kaupverðið, en tekið var fram að gerður væri áskilnaður um breytingu á kröfugerð og nánari sundurliðun þegar fyrir lægi niðurstaða matsgerðar sem aflað yrði undir rekstri málsins.
Að þessu virtu er fallist á með héraðsdómara að hvorki stefnan né málatilbúnaður sóknaraðila við þingfestingu málsins í héraði hafi fullnægt áskilnaði 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóma Hæstaréttar 18. mars 2010 í máli nr. 413/2009 og 15. júní sama ár í máli nr. 307/2010. Varðar þessi annmarki frávísun málsins og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eftir þessum úrslitum verða sóknaraðilar dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Úlfhéðinn Sigurmundsson og Þóra Þórarinsdóttir, greiði óskipt varnaraðilum, Sigurði Rúnari Andréssyni og Jóhönnu Haraldsdóttur, hvorum um sig 125.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 1. desember sl., um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað með stefnu birtri þann 21. janúar 2011.
Stefnendur eru Úlfhéðinn Sigurmundsson, kt. 010367-5149 og Þóra Þórarinsdóttir, kt. 140471-4029, bæði til heimilis að Haga 2, Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Stefndu eru Sigurður Rúnar Andrésson, kt. 170848-3069, og Jóhanna Haraldsdóttir, kt. 230149-6829, bæði til heimilis að Grashaga 1a, Selfossi.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð kr. 8.100.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2001 til 18. júní 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara gera stefnendur þær kröfu að stefndu verði dæmd til að greiða stefnendum afslátt að fjárhæð kr. 6.000.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2001 til 18. júní 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá gera stefnendur þá kröfu að stefndu verði í báðum tilvikum dæmd til að greiða stefnendum málskostnað auk virðisaukaskatts.
Stefndu krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda, en til þrautavara að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega.
Þá krefjast stefndu í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnenda, auk virðisaukaskatts.
Í þessum þætti málsins er frávísunarkrafa stefndu tekin til úrlausnar. Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað.
Málavextir.
Ágreining aðila má rekja til þess að stefnendur keyptu jörðina Haga II í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, með kaupsamningi dags. 15. mars 2001, ásamt öllu því sem jörðinni fylgdi og fylgja bæri, þ.m.t. bústofn, vélar og framleiðslurétt. Undanskilið sölunni var spilda u.þ.b. 1,1 hektari að stærð. Umsamið kaupverð var 41.000.000 kr.
Kveða stefnendur ekkert hafa verið tekið fram um það í kaupsamningi að vatnsréttindi jarðarinnar í Þjórsá skildu undanskilin né heldur hafi komið fram í veðbókarvottorði, dags. 14. mars. 2001, sem lá frammi við söluna, að vatnsréttindi væru skilinn frá jörðinni. Hafi stefnendur því gengið út frá því að umrædd vatnsréttindi fylgdu með við söluna.
Þá kveða stefnendur að þegar þau hafi keypt jörðina hafi þau kynnt sér fyrirliggjandi landskiptagerð frá 28. október 1999, þar sem landi jarðarinnar Haga hafi verið skipt á milli jarðanna Haga I, Haga II og Melhaga. Í skiptagerðinni séu landamerki jarðanna tilgreind en varðandi hlunnindi segi orðrétt: „Öllum hlunnindum er skipt, samkvæmt skiptalínum, nema veiði í ám og vötnum og öllu vatni (heitu og köldu) og vatnsréttindum, þar með borun eftir vatni og virkjun vatns er óskipt, samkvæmt 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Samkvæmt ofansögðu, eiga hvor jörð Hagi og Hagi II 37,8125%, Melhaginn 9,3750% og eigendur þriggja sumarbústaðalóðanna (lóðir systranna) 5,0% hver í veiðinni í Þjórsá og Þverá. Vatn og vatnsréttindi eiga aftur á móti hvor jörð 45,3125% og Melhaginn 9,375%“ Af þessu leiði að vatnsréttindi Haga séu óskipt og sé eignarhlutur Haga II 45,3125%.
Stefnendum hafi hins vegar ekki orðið ljóst fyrr en á árinu 2010 að öll réttindi jarðarinnar til vatns- og vatnsafls í Þjórsá reyndust ekki vera til staðar. Við athugun þeirra hafi komið í ljós að umrædd réttindi hafi verið framseld Títan hf. þann 7. júlí 1917. Réttindum Títans hf. hafi svo verið afsalað til ríkisins 5. júní 1951. Við þetta hafi stefnendur verið ósáttir, enda hafi ekki legið annað fyrir við kaupin en að réttur jarðarinnar til vatns- og vatnsafls í Þjórsá væri enn til staðar.
Kveðast stefnendur hafa með bréfi dagsettu 18. maí 2010 óskað eftir viðræðum við stefndu um skaðabætur og/eða afslátt af þessum sökum, en því erindi hafi ekki verið svarað. Þá hafi stefnendur óskað eftir dómkvaðningu matsmanna með matsbeiðni dagsettri 29. júní 2010. Dómkvaddir hafi verið Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og Jón Guðmundsson, löggiltur fasteignasali. Þá höfðu matsmenn ekki lokið störfum við höfðun málsins, en matsfundur hafði þá verið haldinn. Í ljósi fyrningarfrests kröfunnar töldu stefnendur sér ekki fært að bíða með málshöfðun þar til niðurstaða matsmanna lægi fyrir.
Málavaxtalýsingu stefnenda hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefndu, né hafa þau lýst málavöxtum á annan hátt.
Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísunarkröfu.
Krafa stefndu um frávísun er á því byggð að stefnendur hafi í stefnu ekki gert þá grein fyrir kröfu sinni og sönnunargögnum, kröfu sinni til stuðnings, sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi stefnendur þingfest málið á grundvelli stefnu án þess að fullnægt væri ákvæðum 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Vísa stefndu þessu til stuðnings til dóma Hæstaréttar Íslands frá 18. mars 2010 í máli réttarins nr. 413/2009 og frá 15. júní 2010 í máli réttarins nr. 307/2010. Í báðum málunum hafi aðstaðan verið sú að stefnandi hafi ákveðið að stefna inn máli áður en sönnunargagna hafi verið aflað um fjárhæð tjóns og hafi stefnufjárhæðin því verið ákveðin af stefnanda án þess að baki henni lægju nokkur gögn. Í síðara málinu hafi stefnandi byggt á því, líkt og stefnendur máls þessa, að honum hafi verið nauðsynlegt að höfða málið áður en matsgerðar var aflað til að komast hjá fyrningu kröfu sinnar.
Telja stefndu ljóst að framangreindir dómar hafi fullt fordæmisgildi í máli þessu, enda málatilbúnaður stefnenda nákvæmlega eins úr garði gerður, þ.e. að stefnufjárhæð er ákveðin af stefnendum án nokkurra sönnunargagna, og síðar aflað mats til að sýna fram á tjónið. Telja stefndu því að vísa beri málinu frá dómi. Þá kveða stefndu engu máli skipta þó áskilnaður hafi verið gerður í stefnu um matsgerð eða ekki, hvorttveggja sé í andstöðu við 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá byggja stefndu og á því að krafa stefnenda, eins og hún er framsett í stefnu, hafi verið vanreifuð, enda hafi krafan m.a. hljóðað upp á fimmtíu milljónir króna afslátt, af jörð sem keypt hafi verið á fjörutíu og eina milljónir króna.
Málsástæður og lagarök stefnenda varðandi frávísunarkröfu stefndu.
Stefnendur mótmæla frávísunarkröfu stefndu. Kveða stefnendur þá dóma Hæstaréttar er stefndu hafa vísað til ekki hafa fordæmisgildi í máli þessu, enda hafi þar verið um að ræða skort á sundurliðum og rökstuðningi fyrir kröfu í stefnu, en svo sé ekki í máli þessu, auk þess sem í þeim dómum hafi ekki verið amast við því að matsgerðar hafi verið aflað eftir höfðun máls, heldur að málatilbúnaður aðila hafi verið lagaður, en svo sé ekki um að ræða í máli þessu. Þá vísuðu stefnendur í málflutningi til d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kveða þar koma fram heimild til að haga kröfugerð sinni svo sem gert var í stefnu, enda hafi aðeins verið dregið úr kröfum frá því sem var í stefnu.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila í þessum hluta málsins snýr að frávísunarkröfu stefndu á dómkröfum stefnenda.
Stefndu byggja kröfu sína um frávísun á því að áskilnaður 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, hafi ekki verið uppfylltur er mál þetta var höfðað, enda hafi þá ekki legið fyrir gögn til stuðnings fjárhæðar kröfu stefnenda.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri þann 21. janúar 2011, og var þingfest þann 16. febrúar sama árs. Var málið tekið fyrir mánaðarlega fram til 1. júní 2011, þar sem stefnendur lögðu fram matsgerð dómkvaddra matsmanna. Var málinu þá frestað á ný til 1. september 2011, þar sem stefnendur lögðu fram endanlegar dómkröfur. Fengu stefndu þá frest til 21. september sama árs, til að leggja fram greinargerð, sem þeir og gerðu og fór málið þá til úthlutunar til dómstjóra. Í stefnu er fjárhæð kröfu stefnenda tilgreind 50.000.000 kr., sem síðar var lækkuð niður í 8.100.000 kr. í skaðabætur aðallega, en til vara 6.000.000 kr. í afslátt. Er tiltekið í stefnu að dómkvaddir hafi verið matsmenn, en þeir ekki lokið störfum. Þá sé stefnendum nauðsynlegt að höfða mál til að rjúfa hugsanlega fyrningu kröfunnar, og hafi því ekki verið unnt að bíða með málshöfðun þar til niðurstaða dómkvaddra matsmanna lægi fyrir. Hvað varðar rökstuðning stefnenda fyrir fjárhæð kröfu sinnar, kemur fram í stefnu að fyrir liggi að óskað hafi verið mats dómkvaddra matsmanna, en vinnu þeirra sé enn ólokið. Þá liggi fyrir að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Kveða stefnendur staðreyndina vera þá að jörðina skorti vatnsréttindi, sem að óbreyttu eigi að fylgja fasteign þessarar gerðar við sölu. Á stefnendum hvíli ekki sönnunarbyrði um það að hvaða leyti verðmæti réttindanna hafi verið forsenda fyrir samþykktu boði þeirra í jörðina á sínum tíma. Þá kemur og fram í stefnu að beitt sé hlutlægum mælikvarða og með þeim hætti séu verðmæti vatnsréttindanna metin. Sé matsgerðinni ætlað að renna stoðum undir sönnun um tjón stefnenda vegna þessa. Þá segir í stefnu að þar sem ekki hafi enn fengist sundurliðun á því tjóni, sem stefnendur hafi orðið fyrir, og þeirri verðrýrnun, sem óhjákvæmilega fylgi því að vatnsréttindi jarðar séu undanskilin, sé á þessu stigi gerð krafa um að stefndu verði dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur og/eða afslátt af fjárhæð 50.000.000 krónur. Þar sem aflað verði matsgerðar undir rekstri málsins sé gerður áskilnaður um breytingu á kröfugerð og nánari sundurliðun þegar niðurstaða dómkvaddra matsmanna liggi fyrir, hvort heldur til hækkunar eða lækkunar, og þá eftir atvikum með útgáfu framhaldsstefnu.
Að framansögðu virtu verður á það fallist með stefndu að stefnendur hafi ekki gert þá grein fyrir kröfu sinni og sönnunargögnum um hana í stefnu, sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnendur þingfestu málið á grundvelli stefnunnar án þess að fullnægt hafi verið skilyrði 1. mgr. 95. gr. sömu laga um framlagningu gagna sem varða málatilbúnað stefnenda við þingfestingu. Stefnendur hafa leitast við að bæta úr þessu með framlagningu matsgerðar dómkvaddra matsmanna, um hálfu ári eftir höfðun málsins. Lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, gera ekki ráð fyrir því að stefnandi máls fái frest eftir þingfestingu þess, í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu og skiptir áskilnaður hans um slíkt engu í því efni. Hvað varðar vísun stefnenda til d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 telur dómurinn að hún eigi ekki við, enda var í stefnu gerð krafa um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar en ekki krafist viðurkenningar á bótaskyldu án tiltekinnar fjárhæðar. Þá er það jafnframt álit dómsins að ákvæðið eigi ekki við vegna þess að auðvelt var stefnendum að hafa áður látið reiknað út fjárhæðir þess tjóns sem þau kveðast hafa orðið fyrir.
Verður með vísan til framanritaðs á það fallist með stefndu að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði stefnenda, að ekki verði hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi, enda eiga stefnendur þess kost að höfða mál á nýjan leik í lögmætum búningi um kröfu sína, sem rætur á að rekja til kaupsamnings dagsettum 15. mars 2001, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem eiga við um kröfu þeirra samkvæmt 1. mgr. 28.g r. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að úrskurða um skyldu stefnenda til að greiða stefndu málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 534.630 krónur sem stefnendum ber að greiða stefndu in solidum.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Úlfhéðinn Sigurmundsson og Þóra Þórarinsdóttir, greiði in solidum stefndu, Sigurði Rúnari Andréssyni og Jóhönnu Haraldsdóttur, 534.630 krónur í málskostnað.