Hæstiréttur íslands
Mál nr. 111/2006
Lykilorð
- Samningur
- Ábúð
|
|
Fimmtudaginn 5. október 2006. |
|
Nr. 111/2006. |
Hrefna Sóley Kjartansdóttir og Guðmundur Þórðarson (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Samningur. Ábúð.
H og G, ábúendur ríkisjarðanna R og G, kröfðust þess að Í yrði gert að greiða þeim skaðabætur vegna vanrækslu á að kaupa af þeim greiðslumark sauðfjár í samræmi við samkomulag frá 29. júní 1998 sem gert var í tilefni af hugsanlegum ábúðarlokum þeirra. Í 8. lið samkomulagsins kom fram að næðist samkomulag um kaup á eignum H og G myndi landbúnaðarráðuneytið hlutast til um að samhliða yrði gerður samningur um kaup á greiðslumarki jarðanna. Hinn 5. mars 1999 gerðu aðilar kaupsamning um mannvirki o.fl. á jörðunum og sérstakt samkomulag um önnur atriði. Í samkomulaginu var tekið fram að búfénaður H og G yrði ekki sérstaklega bættur, en að þau njóti beingreiðslna á árinu 1999. Einnig var áréttað að hvorugur aðila ætti kröfu á hinn umfram efni kaupsamningsins og samkomulagsins. Hvað sem liði skýringu á 8. lið fyrra samkomulags aðila var fallist á með Í að á endanum hafi verið samið um uppgjör allra lögskipta aðila með gerningnum 5. mars 1999. Fengi framburður starfsmanns landbúnaðarráðuneytisins um að hann teldi Í bundið af umræddu ákvæði engu breytt í þessu efni, enda hefði hann ekki komið að síðari samningsgerð aðila. Þá fylgdi greiðslumark lögbýli við eigenda- eða ábúendaskipti og væri því ekki lagagrundvöllur fyrir því að ábúandi gæti litið á slíkt greiðslumark sem eign sína í lok ábúðar. Að þessu virtu var Í sýknaður af kröfu H og G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2006. Þau krefjast þess að stefndi greiði þeim 2.279.200 krónur auk dráttarvaxta frá 20. janúar 2001 til 1. júlí sama ár samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast þau 1.968.400 króna með sömu dráttarvöxtum frá 20. janúar 2002 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir samkomulagi og samningum, sem aðilar gerðu annars vegar 29. júní 1998 og hins vegar 5. mars 1999. Síðarnefnda daginn gerðu aðilar bæði kaupsamning um mannvirki ofl. á jörðunum Gufudal, Gufudal II og Reykjakoti II í Ölfusi og sérstakt samkomulag um önnur atriði. Í 4. lið samkomulagsins er tekið fram að búfénaður áfrýjenda verði ekki sérstaklega bættur, en að þau njóti beingreiðslna á árinu 1999. Í 2. lið þess er tekið fram að hvorugur aðila eigi kröfu á hinn umfram efni kaupsamningsins og samkomulagsins. Hvað sem líður skýringu á 8. lið fyrra samkomulags 29. júní 1998 verður að fallast á með stefnda að á endanum hafi verið samið um uppgjör allra lögskipta aðilanna með gerningunum 5. mars 1999. Fær framburður fyrrum starfsmanns Landbúnaðarráðuneytisins um samkomulagið 29. júní 1998 engu breytt í þessu efni, enda kom hann ekki að síðari samningsgerð aðila. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2005.
Mál þetta var höfðað 23. mars 2005 og dómtekið 24. þ.m.
Stefnendur eru Hrefna Sóley Kjartansdóttir og Guðmundur Þórðarson, Laugarnesvegi 102, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 2.279.200 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2001 til greiðsludags. Til vara gera stefnendur kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 1.968.400 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2002 til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra en til vara er krafist lækkunar á kröfu stefnenda og að málskostnaður verði felldur niður.
I
Í kjölfar ágreinings um ábúðarlok og leigumála á ríkisjörðunum Reykjaholti II og nærliggjandi jörð Gufudal, Ölfushreppi en hann hafði m.a. leitt til dómsmáls (sbr. dómur Hæstaréttar 30. janúar 1998 (mál nr. 37/1998) þar sem hafnað var kröfu Jarðeigna ríkisins á hendur stefnandanum Hrefnu Sóleyju um aðfarargerð útburð) gerðu Jarðeignir ríkisins og stefnendur með sér samkomulag, dags. 29. júní 1998, “vegna mats á eignum og umbótum Hrefnu og Guðmundar á jörðunum Reykjakoti II og Gufudal í tilefni af hugsanlegum ábúðarlokum þeirra á jörðinni Reykjakoti II og sölu á garðyrkjustöð og landi í Gufudal samkvæmt nánari samningi þar um.”
Samkomulagið er í 9 tölusettum greinum. Í 1. gr. segir að aðilar séu sammála að mat á eignum og eignarhlutum Hrefnu og Guðmundar á framangreindum jörðum sé nauðsynlegur liður í samningum til lausnar á þeim ágreiningsefnum sem séu til staðar varðandi réttarstöðu þeirra gagnvart landsnytjum í Gufudal í Ölfushreppi. Grein 8 er svohljóðandi: “Náist samkomulag um kaup Jarðeigna ríkisins á öllum eignum þeirra Hrefnu og Guðmundar í Reykjakoti II og Gufudal mun landbúnaðarráðuneytið hlutast til um að samningar um uppkaup á greiðslumarki sauðfjár að Reykjakoti II og/eða Gufudal verði gerðir samhliða kaupsamningi.”
Í kjölfar samkomulagsins voru eignir stefnenda sem ábúenda á jörðunum Reykjakoti II og Gufudal, að undanskilinni garðyrkjustöð, metnar af úttektarmönnum samkvæmt ábúðarlögum nr. 64/1976 á samtals 18.260.000 krónur og Garðyrkjustöðin Gufudal var metin af fasteignasala á 9.800.000 krónur.
Þann 5. mars 1999 var undirritaður kaupsamningur milli stefnenda sem seljenda og Jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins sem kaupanda um fasteignir, framkvæmdir og umbætur seljenda (samkvæmt nánari skilgreiningu í 1. gr.) á jörðunum Reykjakoti II, Gufudal og Gufudal II vegna ábúðarloka seljenda. Í 2. gr. kemur fram að umsamið kaupverð eignanna, 29.980.000 krónur, byggist einkum á framangreindum mötum en einnig á samkomulagi aðila m.a. vegna ómetinnar ræktunar, girðinga og ágreinings um eignarland í Gufudal II. Í 7. og 8. gr. segir að afsal og afhending eignanna skuli fara fram 1. október 1999 enda hafi greiðslur verið inntar af hendi á umsömdum gjalddögum. Sama dag, 5. mars 1999, undirrituðu aðilar framangreinds kaupsamnings “Samkomulag”, að meginefni svohljóðandi:
1. Til lausnar á ágreiningi ofangreindra aðila og Golfklúbbs Hveragerðis hefur orðið samkomulag um að Jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins kaupi upp eignir þeirra Guðmundar og Hrefnu og þau víki af Reykjakoti II. Gufudal og Gufudal II og láti af ábúð og rekstri sínum á jörðunum.
2. Með kaupsamningi aðila dagsettum í dag lýsa aðilar því yfir að hvorugur eigi kröfu á hinn umfram efni kaupsamningsins og samkomulags þessa. Fallið er frá öllum fyrirhuguðum áformum aðila um málarekstur og lýsa seljendur því yfir að þau eigi engar kröfur um eignarréttindi í Reykjakoti II, Gufudal og Gufudal II umfram samkomulag þetta og kaupsamning aðila dagsettan í dag. Með sama hætti lýsir ráðuneytið því yfir að það eigi engar kröfur á hendur þeim Guðmundi og Hrefnu umfram efni samkomulags þessa og kaupsamnings aðila.
3. Samkomulag er um að landbúnaðarráðuneytið greiði hluta kostnaðar þeirra Guðmundar og Hrefnu vegna lögmanns síns vegna samninga og deilumáls í Gufudal kr. 550.000 auk virðisaukaskatts.
4. Búfénaður Guðmundar og Hrefnu verður ekki sérstaklega bættur af ráðuneytinu en þau njóti beingreiðslna árið 1999.”
Stefnendur gáfu afsöl fyrir eignum sínum eins og umsamið hafði verið. Í málinu liggur frammi endurrit dómsáttar, gerðrar í Héraðsdómi Suðurlands 27. júní 2000 í máli Jarðeigna ríkisins gegn stefnendum þessa máls, þar sem þau lofa að fjarlægja persónulega muni, tæki og áhöld sem þeim tilheyra af jörðunum Gufudal, Gufudal II og Reykjakoti II fyrir 28. júlí 2000. Í maí 2001 höfðuðu stefnendur mál gegn stefnda með kröfu um uppgjör vegna kaupsamnings aðila frá 5. mars 1999. Því lauk með dómsátt, gerðri hér fyrir dómi 13. júní 2002, þar sem stefndi samþykkti að greiða stefnendum 540.000 krónur þ. 1. júlí 2002.
Samkvæmt tilkynningu Framleiðsluráðs landbúnaðarins, 8. mars 1999, til stefnandans Hrefnu Sóleyjar var sauðfjárgreiðslumark lögbýlisins Gufudals 103,6 ærgildi árið 1999 og óbreytt frá árinu áður og naut hún beingreiðslna úr ríkissjóði vegna kindakjötsframleiðslu á árinu 1999. Í stefnu segir að stefnendur séu enn rétthafar að þessum ærgildum enda hafi þau ekki getað framselt þau eða gengið frá samningum um uppkaup ríkissjóðs á þeim. Þá hafi stefnendur frá árinu 1999 ekki haft tækifæri til að nýta greiðslumarkið til framleiðslu á kindakjöti, m.a. þar sem þau hafi ekki haft jarðnæði fyrir kjötframleiðslu.
Í stefnu segir: “Skömmu eftir undirritun kaupsamnings aðila og framangreinds samkomulags í mars 1999 hafði stefnandi Hrefna samband símleiðis við landbúnaðarráðuneytið og óskaði upplýsinga um hvenær unnt væri að ganga frá samningi um uppkaup á greiðslumarki stefnenda. Þá og síðar fékk stefnandi Hrefna þau svör símleiðis að verið væri að vinna að sérstökum reglum um uppkaup á greiðslumarki og þær þyrftu að liggja fyrir áður en hafin væru uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki sauðfjár.” Þessu er mótmælt af hálfu stefnda.
Þann 2. september 2001 útfyllti stefnandi Hrefna Sóley, sem ábúandi lögbýlisins Gufudals, og sendi Framkvæmdanefnd búvörusamninga tvö eyðublöð, “Umsókn samning um kaup á greiðslumarki”. Skjölin eru samhljóða, m.a. að því leyti að í þeim báðum er miðað við “selt greiðslumark 103,6 ærgildi”, að öðru leyti en því að í öðru er miðað við 22.000 króna greiðslu fyrir hvert ærgildi sem selt sé fyrir 15. nóvember 2000, samtala 2.279.200 krónur, en í hinu er miðað við 19.000 króna greiðslu fyrir hvert ærgildi sem selt sé fyrir 15. nóvember 2001, samtala 1.968.400 krónur. Í ódagsettu bréfi Framkvæmdanefndar búvörusamninga til Hrefnu Sóleyjar segir að framangreind umsókn samningur um kaup á greiðslumarki sé ófullnægjandi og erindi hennar því hafnað. Jarðeignir ríkisins séu eigendur að jörðinni og samþykki jarðareiganda liggi ekki fyrir sem sé skilyrði fyrir því að unnt sé að verða við erindi hennar.
Í bréfi Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, dags. 3. október 2001, til stefnanda, Hrefnu Sóleyjar Kjartansdóttur, kemur fram umbeðið álit hans og túlkun á 8. gr. framangreinds samkomulags frá 29. júní 1998 en lögmaðurinn hafði unnið að gerð þess sem starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins.
Ljósrit framangreinds bréfs Jóns Höskuldssonar fylgdi bréfi lögmanns stefnenda til landbúnaðarráðuneytisins dags. 14. nóvember 2001. Þar er þess farið á leit að niðurstaða og lausn fáist vegna sölu þeirra á greiðslumarki sauðfjár í samræmi við ákvæði samkomulags við ráðuneytið frá 29. júní 1998. Svar ráðuneytisins við framangreindu erindi, sem var ítrekað 28. janúar 2002, er í bréfi dagsettu 29. janúar 2002. Þar segir: “. . .er það niðurstaða ráðuneytisins að tilvitnað ákvæði (í 8. tl. innskot dómara) í samkomulagi ráðuneytisins við Guðmund Þórðarson og Hrefnu S. Kjartansdóttur dags. 29. júní 1998 sem hefur að geyma markmið aðila um hugsanleg ábúðarlok Guðmundar Þórðarsonar og Hrefnu S. Kristjánsdóttur á jörðunum Gufudal, Gufudal II og Reykjakoti II, Ölfusi, Árnessýslu sem ekki hafði þá verið samið endanlega um hafi fallið niður við gerð endanlegs samkomulags um ábúðarlok og kaupsamnings sömu aðila dags. 5. mars 1999. Beiðni yðar um að ráðuneytið f.h. Jarðeigna ríkisins samþykki að umbjóðendur yðar selji greiðslumark sauðfjár af jörðinni Gufudal í Ölfusi, Árnessýslu á grundvelli umsóknar þeirra dags. 2. september 2001 er því hafnað.”
Stefnendur leituðu ítrekað eftir þetta til landbúnaðarráðuneytisins með erindi sín vegna greiðslumarksins en hlutu ætíð sömu andsvör. Með bréfi 2. desember 2002 kvartaði stefnandinn Hrefna Sóley til umboðsmanns Alþingis vegna meðferðar ráðuneytisins á málinu. Með áliti sínu, dags. 2. desember 2002, vísar umboðsmaðurinn til þess að við úrlausn ágreiningsins reyni einkum á reglur einkaréttar og telji hann kvörtunina ekki gefa nægilegt tilefni til nánari athugunar af sinni hálfu.
Að síðustu sendi lögmaður stefnenda landbúnaðarráðuneytinu bréf 28. maí 2004 þar sem sett er fram krafa um að Hrefna Kjartansdóttir fái greiðslu fyrir 103,6 ærgildi sem hún sé rétthafi að vegna sauðfjárræktar í ábúð á Gufudal og Reykjakoti II í Ölfusi; krafan sé byggð á samkomulagi við ráðuneytið dags. 29. júní 1998. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 9. júní 2004, er kröfunni enn á ný hafnað.
II
Stefnendur byggja kröfur sínar á því að samkvæmt 8. gr. samkomulags aðila frá 29. júní 1998 eigi þau rétt á að stefndi gangi til samninga við þau um uppkaup á greiðslumarki sauðfjár sem þau hafi átt á jörðinni Gufudal í Ölfusi. Þar sem stefndi hafi vanefnt þessa samningsskyldu sína beri hann ábyrgð á því tjóni sem stefnendur hafi orðið fyrir vegna þess og beri að greiða stefnendum skaðabætur sem geri þau eins sett og hefði samningsákvæðið verið efnt að fullu. Samkomulag aðila frá 5. mars 1999 hafi í engu breytt eða fellt niður skyldu stefnda til að ganga frá eða hlutast til um uppkaup á greiðslumarki stefnenda enda hafi í engu verið minnst á greiðslumarkið í kaupsamningi dagsettum sama dag. Þá hafi orðalag í framangreindu samkomulagi, um að hvorugur eigi kröfu á hinn umfram efni téðs kaupsamnings og samkomulags, enga þýðingu þar sem það eigi aðeins við um þær eignir og réttindi sem samið hafi verið skýrlega um í kaupsamningnum. Í samkomulaginu segi að seljendur lýsi því yfir að þau eigi engar kröfur um eignarréttindi á jörðunum en réttur þeirra samkvæmt greiðslumarkinu sé framleiðsluréttur en ekki eignarréttur og því sé ekki með neinu móti unnt að fella hann undir orðalag samkomulagsins.
Fjárhæð aðalkröfu stefnenda er sögð byggjast á ákvæði a-liðar 4. gr. reglugerðar nr. 399/2000 um kaupverð fyrir greiðslumark, miðað við að samningur hefði tekist fyrir 15. nóvember 2000, og sundurliðast þannig: Fjöldi ærgilda 103,6 x kr. 22.000; alls kr. 2.279.200.
Fjárhæð varakröfu stefnenda er sögð byggjast á ákvæði b-liðar 4. gr. tilvitnaðrar reglugerðar, miðað við að samningur hefði tekist fyrir 15. nóvember 2001, og sundurliðast þannig: Fjöldi ærgilda 103,6 x kr. 19.000; alls kr. 1.968.400.
III
Af hálfu stefnda er vísað til þess að þegar komið hafi að nánari útfærslu á samkomulaginu frá 29. júní 1998, þ.e. þegar kaupsamningur og samkomulag frá 5. mars 1999 voru undirrituð, hafi í nánast öllum atriðum verið farið að þeim áætlunum sem sett hafi verið fram 29. júní 1998 og byggir hann á því að með undirritun samkomulagsins frá 5. mars 1999 hafi aðilar komist að endanlegri niðurstöðu um mál sín. Samkvæmt þessu hafnar stefndi þeirri túlkun stefnenda að ákvæði 8. gr. samkomulags aðila frá 29. júní 1998 gefi þeim rétt til uppkaupa á greiðslumarki búfjár sem skráð var á lögbýlið Gufudal eða til andvirðis þess enda hafi samkomulagið að geyma áætlun en ekki efnislegar skuldbindingar. Jafnvel þótt litið yrði svo á að um skuldbindingu hafi verið að ræða að því leyti sem hér um ræðir er á því byggt að samningsaðilar hafi á endanum samið á annan veg. Í genum allt samningsferlið hafi stefnendur notið aðstoðar lögmanns sem ráðuneytið hafi greitt fyrir.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að almennur samningur um sauðfjárframleiðslu, dags. 1. október 1995, sem hafi gilt um uppkaup á greiðslumarki sauðfjár á þeim tíma sem samkomulagið frá 29. júní 1998 var undirritað, hafi fallið úr gildi við árslok 2000, sbr. einnig lög nr. 99/1993 og reglugerð nr. 5/1996. Í ákvæðum tilvitnaðs samnings hafi greiðslur fyrir uppkaup á greiðslumarki sauðfjár miðast við að seljendur fengju greiðslur sem svari til tveggja ára beingreiðslna. Gjalddagar skyldu vera þeir sömu og um beingreiðslur væri að ræða. Á þeim tíma sem kaupsamningur og endanlegt samkomulag ráðuneytisins og stefnenda hafi verið undirrituð, þ. 5. mars 1999, hafi verið ljóst að ekki hafi verið framkvæmanlegt að gera slíkan uppkaupasamning við stefnendur þar sem þá hafi verið minna en tvö ár eftir af gildistíma samnings um framleiðslu sauðfjárafurða dags. 1. október 1995.
Mótmælt er þeim skilningi stefnenda, sem fram komi í gögnum málsins, að þau séu eigendur greiðslumarksins og eigi tilkall til þess á einhvern hátt. Mótmælt er fullyrðingum stefnenda um að samningur við stefnda hafi verið vanefndur og að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Stefndi telur grundvöll málsins vera rangan. Um sé að ræða kröfu samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905 sem fyrnist á fjórum árum og teljist fyrningarfrestur frá 5. mars 1999.
Málsástæður fyrir varakröfu stefnda eru hinar sömu og fyrir aðalkröfu hans. Mótmælt er kröfu um upphafstíma dráttarvaxta og beri að miða upphaf þeirra við birtingu stefnu. Verði talið að um skaðabótakröfu sé að ræða er vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 15. gr. laga nr. 25/1987, en fyrsta kröfubréf stefnenda með fjárhæðum virðist vera bréf dagsett 28. janúar 2003.
IV
Ótvírætt er að greiðslumark sauðfjár á lögbýlum heyrir til eignarréttinda enda er málssókn stefnenda byggð á skaðabótaskyldu stefnda fyrir vanrækt samningsskyldu um að kaupa af þeim, sem ábúendum ríkisjarðanna Reykjakots II og Gufudals í Ölfusi, greiðslumark jarðanna.
Eins og nánar hefur verið greint í dóminum var við gerð samkomulags 29. júní 1998 (í 8. tl.) kveðið á um að landbúnaðarráðuneytið mundi hlutast til um að samningar um uppkaup á greiðslumarki yrði gerður samhliða kaupsamningi. Af því varð ekki við endanlega samningsgerð aðila (stefnenda og Jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins), þ.e. með kaupsamningi um eignir stefnenda og sérstöku samkomulagi sem hvort tveggja voru undirrituð 5. mars 1999. Þar var enginn fyrirvari er að þessu lyti heldur tekið fram í samkomulaginu að aðilar lýsi því yfir að “hvorugur eigi kröfu á hinn umfram efni kaupsamningsins og samkomulags þessa” og síðan var tekið fram að búfénaður stefnenda yrði ekki sérstaklega bættur af ráðuneytinu en að þau skyldu njóta beingreiðslna árið 1999.
Samkomulagið frá 29. júní 1998 var undirritað annars vegar af stefnendum og hins vegar af Jóni Höskuldssyni f.h. Jarðeigna ríkisins og áritað um samþykki af Birni Sigurbjörnssyni, þáverandi ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins. Þeir báru báðir vætti við aðalmeðferð málsins.
Jón Höskuldsson staðfesti álit sitt, sem hann gaf stefnendum í framangreindu bréfi 3. október 2001 en þar segir :”. . .Að mínu mati er ríkið (jarðeignir ríkisins) bundið af ákvæði samkomulagsins (“29. júní 1998 innskot dómara) um kaups á greiðslumarki því sem hér um ræðir hafi ekki síðar verið samið á annan veg milli aðila. . . .” Hann kvaðst hafa látið af störfum í landbúnaðarráðuneytinu 1. september 1998.
Björn Sigurbjörnsson kvað tilvitnað ákvæði 8. tl. samkomulagsins frá 29. júní 1998, um kaup greiðslumarks, hafa verið sett að ósk stefnenda. Hann kvaðst ekki eftir það hafa orðið var við óskir þeirra um þetta efni, þótt hann fylgdist vel með samningsgerð, og að sínu áliti hafi verið frá þessu horfið við endanlega samningsgerð. Hann kvað það hafa orðið skýrt á árunum 1999 og 2000 að ríkið ætti greiðslumark jarðanna en það hafi verið óljóst við gerð samkomulagsins.
Með dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2000 (mál nr. 310/1999) var skorið úr um það að greiðslumark, sbr. lög nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, væri bundið við lögbýli og framleiðslu á því og fylgdi lögbýlinu við eigenda- eða ábúendaskipti. Því væri enginn lagagrundvöllur fyrir því að leiguliði gæti litið á greiðslumark lögbýlis, sem hann hafi haft í ábúð, sem eign sína í lok ábúðar. Þá segir í 1. gr. reglna um ráðstöfun greiðslumark sauðfjár af ríkisjörðum sem settar voru af landbúnaðarráðuneytinu, sbr. gr. 2.3 í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 og 4. gr. laga nr. 99/1993: “Greiðslumark sauðfjár á ríkisjörðum á forræði landbúnaðarráðuneytisins fylgir lögbýlinu og er eign jarðareiganda. Ábúendum ríkisjarða er óheimilt án samþykkis ráðuneytisins að ráðstafa greiðslumarki ábýlisjarða sinna með sölu eða á annan hátt. . .”
Þau skjöl, sem liggja til grundvallar málssókninni, þ.e. samkomulag frá 28. júní 1998 og kaupsamningur og samkomulag frá 5. mars, bera undirritun þáverandi lögmanns stefnenda sem votts. Þá liggur fram reikningur lögmannsins, dags. 5. mars 1999, á hendur landbúnaðarráðuneytinu um greiðslu þóknunar að fjárhæð 684.750 krónur vegna lögfræðistarfa og samningsgerðar vegna Reykjakots II, Gufudals og Gufudals II.
Samningsferli aðila, sem hófst með gerð samkomulags 29. júní 1998, lauk með kaupsamningi og samkomulagi 5. mars 1999 og hefur af hálfu stefnenda ekki verið sýnt fram á nein atvik sem geti orðið grundvöllur skaðabótaskyldu stefnda. Niðurstaða dómsins er samkvæmt þessu sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnenda. Eftir þeim úrslitum ber, sbr. 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnendur til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 300.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda, Hrefnu Sóleyjar Kjartansdóttur og Guðmundar Þórðarsonar.
Stefnendur greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.