Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. ágúst 2006.

Nr. 403/2006.

Jón Valur Arason

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

J varð fyrir slysi og krafði S hf. um skaðabætur á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Talið var að með því að J hefði ekki lagt fram gögn um mögulegan rétt sinn til greiðslna úr almannatryggingum væri krafa hans það óljós og málatilbúnaður hans svo óskýr að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á málið. Bæri því að vísa því frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var gætt ákvæðis síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, sbr. og dóm Hæstaréttar 30. ágúst 2005 í máli nr. 312/2005.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2006.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Jóni Vali Arasyni, Víkurbraut 24, Grindavík, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu, áritaðri um birtingu og þingfestri 7. febrúar 2006.

Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær, að stefnda yrði dæmt til þess að greiða stefnanda 19.835.596 krónur, ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 2. desember 2003 til 27. október 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum samtals 4.223.828 krónum, sem greiddar voru hinn 22. desember 2003 200.000 krónur, hinn 2. apríl 2004 200.000 krónur, hinn 4. júní 2004 200.000 krónur, hinn 2. september 2004 200.000 krónur, hinn 3. september 2004 710.080 krónur, hinn 17. desember 2004,150.000 krónur, hinn 7. janúar 2005,150.000 krónur, hinn 8. apríl 2005 150.000 krónur, hinn 13. júní 2005,250.000 krónur, hinn 15. desember 2005,700.000 krónur, hinn 10. febrúar 2006,1.313,748 krónur.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Til vara gerir stefndi þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Til þrautavara gerir stefndi þær kröfur, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefnandi, varnaraðili í þessum þætti málsins, krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið.

Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 6. júní 2006 og er sá ágreiningur hér til úrlausnar.

II

Helstu málavextir eru þeir að hinn 2. desember 2003 slasaðist stefnandi í alvarlegu umferðarslysi á Grindarvíkurvegi er hann missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og valt.  Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.  Var hann lagður þar inn á bæklunardeild spítalans.  Röntgenmyndir sem teknar voru af stefnanda sýndu brot á ellefta og tólfta brjósthryggjarbolum og voru brotin óstöðug og því gerð aðgerð á stefnanda sama dag, þar sem brotin voru rétt og svæðið spengt.  Hann var útskrifaður til frekari meðferðar á Sjúkrahúsi Keflavíkur átta dögum síðar og var hann þar í tólf daga, eða fram til 21. desember 2003. 

Hinn 23. janúar 2004 kom stefnandi í endurkomu og var þá illa haldinn af verkjum í baki en einnig hafði hann verki í hálsi.  Í endurkomu 15. apríl 2004 sást gróandi en verkir voru vaxandi.  Í endurkomu hinn 2. júlí 2004 hafði brot aðeins verið að falla saman en gróandi var sæmilegur og var stefnanda vísað í sjúkraþjálfun, sem hann stundaði í tæpt ár.  Í endurkomu hinn 3. september 2004 var stefnandi enn slæmur af verkjum en járnin voru farin að standa út og var hann því lagður inn 4. október 2004 og járnin tekin burt næsta dag og hann útskrifaður á þriðja degi.  Brotin sem stefnandi hlaut voru talin að fullu gróin hinn 4. október 2004.  Stefnandi átti við svefntruflanir að stríða og verki og var þá skrifuð beiðni um innlögn á Reykjalund.  Stefnandi leitaði til heimilislæknis vegna þunglyndis hinn 21. desember 2004 og var hann þá settur á þunglyndislyf, sem hann kveðst taka enn í dag.

Stefnandi var vistaður á Reykjalund tímabilið frá 29. mars 2005 til 4. maí 2005, eða í 37 daga. 

Stefnandi varð fyrir varanlegum áverka af völdum slyssins og var þess farið á leit við læknana Jónas Hallgrímsson og Guðmund Björnsson að þeir framkvæmdu mat á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993.  Í matsgerð þeirra, sem dagsett er hinn 24. ágúst 2005, er komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi hlotið 25% varanlegan miska og 60% varanlega örorku við slysið.  Stöðugleikapunktur var ákveðinn 4. maí 2005.

Með bréfi, dagsettu 23. september 2005, krafði stefnandi hið stefnda tryggingafélag um greiðslu bóta vegna slyssins, úr svokallaðri ökumannstryggingu.  Krafðist hann skaðabóta, samtals að fjárhæð 18.818.146 krónur, auk vaxta og verðbóta, en til frádráttar kæmu innborganir stefnda á tjónið.

Stefndi svaraði kröfubréfi stefnanda með tölvupósti, dagsettum 19. október 2005, þar sem hann hafnaði því að taka afstöðu til bótakröfunnar fyrr en upplýsingar um réttindi stefnanda hjá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum lægju fyrir.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dagsettu 6. desember 2005, var greiðslu bóta til stefnanda, úr slysatryggingu almannatrygginga, hafnað.  Þegar sú niðurstaða lá fyrir krafðist stefndi þess að stefnandi færi í almennt örorkumat til Tryggingastofnunar.  Þar sem örorkumöt Tryggingastofnunar ríkisins byggja á læknisfræðilegu mati, sbr. reglugerð nr. 379/1999 og varanlegur miski stefnanda var aðeins metinn 25% hafnaði stefnandi því að hann gæti átt rétt til örorkulífeyris, sem skerða ætti bætur hans, eins og stefndi hélt fram.

Stefndi taldi bótakröfu stefnanda ekki nægilega skýra eða endanlega fram komna, þar sem upplýsingar vantaði um frádráttarliði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Óskaði stefndi eftir því að tryggingarstærðfræðingur reiknaði út áætlaðar greiðslur til stefnanda frá Tryggingastofnun ríkisins, að gefnum ákveðnum forsendum en útreikningur þessi liggur fyrir í málinu.

Síðasta greiðsla til stefnanda fór fram hinn 9. febrúar 2006 en þá hafði stefndi greitt honum samtals 4.223.828 krónur.

Í málinu greinir aðila á um útreikning og uppgjör bóta til stefnanda.

III

Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna varanlegrar örorku á 5. – 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og áðurgreindri matsgerð Jónasar Hallgrímssonar og Guðmundar Björnssonar.  Samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, skuli við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miða við árslaun sem nemi meðalvinnutekjum tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma er upphaf varanlegrar örorku miðast við.  Í 2. mgr. segi síðan að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Telur stefnandi að beita eigi ákvæði 2. mgr. 7. gr. við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku hans en ekki 3. mgr. 7. gr.  Í tilviki hans séu aðstæður að því leyti óvenjulegar að undanfarin ár hafi hann starfað við akstur vöruflutningabifreiða, formlega sem verktaki en í raun sem launþegi.  Greiðslur hans fyrir fyrstu níu mánuði ársins hafi numið að meðaltali 211.600 krónum.  Krafa vegna tímabundins atvinnutjóns taki mið af því.  Meðalmánaðarlaun verkamanna fyrstu þrjá ársfjórðunga 2003 hafi numið 209.700 krónum.  Að teknu tilliti til aðstæðna stefnanda, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sé því eðlilegt að meta árslaun hans sérstaklega.  Krafa vegna varanlegrar örorku miðist við meðallaun verkamanna (12 x 209.700).  Hvað varði annað fjártjón hafi stefnandi þurft að sækja langtíma læknismeðferð og sjúkraþjálfun til Reykjavíkur, Reykjanesbæjar og Mosfellsbæjar.  Hafi af því hlotist augljós kostnaður, m.a. vegna eigin bifreiðar, sem stefnandi áætli varlega 200.000 krónur.

Með vísan til ofangreinds telur stefnandi rétt að ákvarða viðmiðunartekjur hans eftir mati samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.  Að öðru leyti skýri sundurliðun kröfugerðar stefnanda sig sjálf, en gerð er krafa um að við ákvörðun bóta verði tekið mið af meðaltekjum verkamanna fyrstu þrjá ársfjórðunga 2003, í samræmi við störf hans á slysdeginum.  Meðaltekjur þessa fyrstu þrjá ársfjórðunga 2003 hafi numið 209.700 krónum á mánuði eða 2.516.400 krónum á ársgrundvelli, sem hækki í 2.685.000 krónur þegar tekið hafi verið tillit til hækkunar launavísitölu frá miðju ári 2003 (4478) fram til stöðugleikatímamarks í maí 2005 (4778), sbr. 7. gr. skaðabótalaga.  Í kröfugerð sé tekið tillit til 6% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs.  Þá er gerð krafa um 4.5% vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi hefur sundurliðað bótakröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu:

1.  Tímabundið atvinnutjón í 17 mán. x 211.600

kr.  3.597.200

2.  Þjáningabætur

 

Rúmliggjandi 60 x 1.900

kr.     114.000

Fótaferð 459 x 1.020

kr.     468.180

3.  Varanlegur miski 5.853.000 x 25%

kr.   1.463.250

4.  Varanleg örorka 2.685.000 x 1.06 x 8.194 x 60%

kr. 13.992.566

5.  Annað fjártjón

kr.      200.000

Samtals stefnufjárhæð

kr. 19.835.596

 

Inn á tjónið hafi stefndi þegar greitt 4.223.828 krónur, sem komi til frádráttar kröfu stefnanda.

Um lagarök vísar stefnandi til 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993, auk almennra ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar.

Kröfu um vexti byggir stefnandi á 16. gr. laga nr. 50/1993.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

IV

Aðalkrafa stefnda um frávísun málsins byggir á því að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði stefnanda að vísa beri málinu frá dómi.

Í greinargerð er vísað til þess að samkvæmt núgildandi skaðabótalögum, nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, skuli greiðslur af félagslegum toga dragast frá skaðabótakröfum, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. laganna.  Stefnanda beri því að upplýsa um öll þau atriði sem áhrif geti haft á útreikning bótanna og hann geti sannanlega upplýst um.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki lagt fram þau gögn í málinu sem áhrif geta haft á útreikning bóta vegna slyssins.

Stefnandi hafi ekki farið í almennt örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnda.  Liggi því ekki fyrir upplýsingar um hvort og þá hvaða rétt stefnandi eigi til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, sem draga beri frá kröfu hans samkvæmt skaðabótalögum, s.s. örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og heimilisuppbót.

Þá hafi stefnandi ekki farið í mat hjá trúnaðarlækni Gildis - lífeyrissjóðs til að staðreyna hvort og þá hvaða rétt stefnandi eigi til greiðslna frá lífeyrissjóðnum, sem draga beri frá kröfu hans samkvæmt skaðabótalögum. 

Skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram upplýsingar um framangreind atriði. Telji stefnandi áskoranir sínar fyllilega réttmætar. Því til stuðnings skuli bent á að í málinu liggi nú fyrir að þeir tveir læknar, sem mátu örorku stefnanda samkvæmt skaðabótalögum, telji líklegt að hann hafi uppfyllt skilyrði örorkustaðals Tryggingastofnunar ríkisins til þess að fá 75% örorku á stöðugleikatímapunkti.

Að framangreindu virtu telji stefndi að krafa stefnanda sé það óljós og málatilbúnaður hans svo óskýr að hann brjóti í bága við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.  Beri því að vísa málinu frá á grundvelli e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þessu til stuðnings vísast sérstaklega til dóms Hæstaréttar frá 30. ágúst 2005 í málinu nr. 312/2005.

Stefnandi hafnar sjónarmiðum stefnda um frávísun sem haldlausum og telur ekkert fram komið sem leiða ætti til frávísunar málsins.

V

Eins og fram hefur komið slasaðist stefnandi hinn 2. desember 2003 í umferðarslysi sem hafði þær afleiðingar að hann hlaut af varanlega áverka.  Komust læknarnir Guðmundur Björnsson og Jónas Hallgrímsson að þeirri niðurstöðu í mati, sem þeim var gert að framkvæma til að sýna fram á afleiðingar slyssins, að stefnandi hefði hlotið 25% varanlegan miska og 60% varanlega örorku við slysið.  Stöðugleikapunkt hafa matsmenn ákveðið 4. maí 2005.

Í málinu greinir aðilar ekki á um bótaskyldu stefnda heldur hvernig reikna skuli bæturnar út og hvort greiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum eigi að koma þar til frádráttar.  Heldur stefnandi því fram að þar sem varanlegur miski hans hafi aðeins verið metinn 25% geti hann ekki átt rétt á örorkulífeyri, sem skerði bætur sem hann eigi rétt á frá stefnda.  Með þeim rökum hafnaði hann þeirri kröfu stefnda að fara í almennt örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Með vísan til þessarar afstöðu stefnanda taldi stefndi skilyrði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki uppfyllt, en þau kveða á um frádrátt ýmissa bóta, sem stefnandi kann að eiga rétt á, frá skaðabótakröfu hans.  Bæri að vísa málinu frá á grundvelli e- liðs 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, með áorðnum breytingum, er gert ráð fyrir að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga, sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar.  Hefur Hæstiréttur í dómum sínum skýrt það svo, að bætur frá almannatryggingum, sem tjónþolar eigi rétt til, komi til frádráttar bótagreiðslum og þær skuli reiknast til eingreiðsluverðmætis á viðmiðunartímapunkti.

Kröfu sína um bætur byggir stefnandi á skaðabótalögum og gerir í málinu kröfur á hendur stefnda til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar.  Ber honum því að upplýsa um öll þau atriði sem áhrif geta haft á útreikning bótanna og hann getur sannanlega upplýst um, til þess að dómur verði lagður á það hvort honum beri sú fjárhæð, sem hann krefur stefnda um. 

Í framlögðum tölvupósti frá matslæknum til lögmanns stefnda kemur fram að þeir telji líklegt að stefnandi geti átt rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna örorku sinnar.

Samkvæmt reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat, sem á sér stoð í lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar með síðari breytingum, kemur fram að þeir sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa, vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eigi rétt á örorkulífeyri, að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Þá er heimilt að greiða þeim sem metnir eru til 50-75% örorku, örorkustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Í reglugerðinni segir jafnframt að tryggingalæknir meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun.

Hefur stefnandi hafnað því að gangast undir mat hjá tryggingalækni, eins og kveðið er á um í fyrrgreindri reglugerð að honum beri að gera, til að fá úr því skorið hvort hann eigi rétt á greiðslum frá almannatryggingum sem komi til frádráttar bótakröfu hans samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999.  Lagði stefnandi hins vegar fram læknisvottorð vegna umsóknar um örorkubætur lífeyristrygginga frá heilsugæslulækni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.  Verður ekki séð af því vottorði að stefnandi eigi ekki mögulegan rétt á örorkulífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki upplýst um öll þau atriði sem áhrif geta haft á þá fjárhæð sem stefnandi krefur stefnda um.  Með því að leggja ekki fram umbeðin gögn er krafa stefnanda það óljós og málatilbúnaður hans svo óskýr að samræmist ekki meginreglu einkamálalaga nr. 91/1991, um skýran og glöggan málatilbúnað.  Er við svo búið ekki hægt að leggja efnisdóm á málið.  Ber því með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.