Hæstiréttur íslands

Mál nr. 545/2016

M (Valgeir Kristinsson hrl.)
gegn
K (Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn

Reifun

K höfðaði mál gegn M og krafðist einkum forsjá yfir syni þeirra A en forsjá hans hafði verið sameiginleg og lögheimili hans hjá K. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í hæstarétti, var það ekki talið þjóna hagsmunum drengsins að M og K færu með sameiginlega forsjá þar sem talið var ólíklegt að M gæti axlað ábyrgð á samskiptum og samvinnu um atriði sem varðaði umönnun og uppeldi sonar þeirra. Þá var talið að það samræmdist best högum drengsins að K færi með forsjá hans þar sem þegar á heildina væri litið væri forsjárhæfni K betri en M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og  Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2016. Hann krefst þess að forsjá barnsins A verði sameiginleg og lögheimili hans verði hjá sér. Þá krefst hann þess að ,,umgengni verði háttað í samræmi við úrskurð sýslumannsins í Reykjavík frá 6. desember 2011.“ Loks krefst hann hærri málskostnaðar en dæmdur var héraði, að teknu tilliti til gjafsóknar sem honum var veitt þar fyrir dómi, og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að forsjá drengsins verði sameiginleg og lögheimili hans verði hjá sér. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2016

                Mál þetta, sem var dómtekið 10. júní sl., var höfðað með stefnu birtri 9. júní 2015. Stefnandi er K, [...] í Reykjavík og stefndi er M, [...] í Reykjavík.

Stefnandi gerir þá kröfu að henni verði einni falin forsjá barnsins A, kt. [...], og að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar barnsins og stefnda miðað við búsetu barns erlendis. Þá gerir hún kröfu um að stefnda verði áfram gert að greiða með drengnum mánaðarlega einfalt meðalmeðlag, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs hans, verði fallist á kröfu hennar. Þá krefst hún greiðslu málskostnaður úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst þess að forsjá drengsins verði áfram sameiginleg og að lögheimili hans verði hjá stefnda. Þá krefst hann þess að dómurinn kveði á um inntak og umfang umgengni stefnanda við drenginn og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Helstu málsatvik

                Aðilar máls þessa bjuggu saman í eitt eða tvö ár og eignuðust soninn A í [...] 2009 en slitu sambúðinni þegar drengurinn var á fyrsta ári. Þau hafa frá upphafi farið sameiginlega með forsjá drengsins og við sambúðarslitin var ákveðið að hann ætti lögheimili hjá stefnanda og stefndi greiddi einfalt meðlag með honum til 18 ára aldurs.

                Í desember 2011 kvað sýslumaðurinn í Reykjavík upp úrskurð um umgengni stefnda við drenginn, en þá hafði hann um nokkurn tíma óskað eftir meiri umgengni við hann en stefnandi var reiðubúin að fallast á. Í úrskurði sýslumannsins var kveðið á um reglulega umgengni þeirra feðga aðra hverja helgi frá fimmtudegi til mánudags. Hefur sú umgengni gengið eftir allar götur síðar. Þá hefur drengurinn dvalið hjá stefnda í fimm vikur á hverju sumri og umgengni um jól og áramót verið skipt á milli aðila samkvæmt nánar greindu fyrirkomulagi sem kveðið er á um í úrskurðinum.

                Árið 2014 hafnaði sýslumaðurinn beiðni stefnda um úrskurð um aukna reglulega umgengni við drenginn en féllst á beiðni hans um aukna umgengni um jól.

                Stefnandi, sem er tæplega 31 árs gömul, á ekki önnur börn. Hún býr með syni sínum í 60 fm. leiguhúsnæði. Hún hefur stundað framhaldsskólanám án þess að ljúka prófi en hefur nú lokið námi í menntastoðum hjá Mími símenntun í Reykjavík og í Keili. Það nám veitir henni aðgang að frumgreinadeild Keilis sem hún kveðst ætla að stunda í fjarnámi. Hún veiktist alvarlega af nýrnasýkingu árið 2011 og var lengi að jafna sig eftir það. Naut hún til skamms tíma endurhæfingarlífeyris og var í endurhæfingu hjá [...], sem lauk síðastliðið sumar. Hún kveðst reka innflutningsfyrirtæki sem flytji inn [...] og sinna tilfallandi verkefnum hjá öðrum fyrirtækjum. Samkvæmt skattframtölum voru tekjur hennar árið 2014 tæplega 2,7 milljónir króna og litlu lægri árið á undan.

                Stefnandi kveðst hafa kynnst unnusta sínum árið 2010 en þau hafi byrjað að vera saman árið 2013. Hann er frá [...], menntaður vélvirki og starfar sem slíkur í heimabæ sínum, [...]í [...]. Þau hafi dvalið saman í styttri og lengri fríum á liðnum árum, ýmist á Íslandi eða í [...]. Hún kveðst hafa tekið drenginn með nokkrum sinnum til [...] þar sem hann hafi unað sér vel. Nú hyggist hún flytja með drenginn til unnusta síns og hefja samúð með honum.

                Stefndi, sem er fæddur í [...] en fluttist hingað með móður sinni átta ára gamall, er 36 ára gamall. Hann býr einn í eigin húsnæði. A er eina barn hans en hann segir barn fyrrum sambýliskonu sinnar, sem er drengur á unglingsaldri, vera nokkurs konar fósturson sem komi reglulega til hans.

                Stefnda tókst illa að aðlagast íslenskum aðstæðum og gekk ekki vel í námi. Hann hefur lokið grunnskólaprófi en datt fljótlega úr úr framhaldsnámi. Hann var í óreglu í nokkur ár og fíkniefnaneyslu og kveðst hafa fengið dóm fyrir fíkniefnamisferli og smáglæpi á þeim tíma. Stefndi kveðst hafa hætt allri neyslu árið 2002. Í dag starfar hann sem sendibílstjóri á eigin sendibíl.

                Árið 2014 hlaut stefndi dóm vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var um að ræða átök við ungan fatlaðan mann. Stefndi kveðst hafa talið hann vera viljandi að hindra sig í að aka bifreið um götu í Reykjavík. Í niðurstöðu dóms er byggt á framburði vitna sem kveða stefnda hafa veist að manninum og hrint honum í tvígang. A varð vitni að þessari uppákomu sem hafði talsverð áhrif á andlega líðan hans um tíma.

                Stefnandi kveður samskipti aðila vera afar erfið og segir það vera vegna neikvæðrar afstöðu stefnda til hennar. Stefndi sé ekki til viðræðu um að hún flytji með son þeirra til [...]. Af því tilefni hafi stefnandi farið þess á leit að fara ein með forsjá drengsins. Sáttameðferð hjá sýslumanni hafi ekki borið árangur.

                Í málinu liggur fyrir skrifleg tillaga stefnanda um umgengni stefnda við drenginn flytji þau utan. Þar er lagt til að stefnandi komi reglulega með drenginn til Íslands í öllum fríum frá skóla, á tveggja til þriggja mánaða fresti. Í skólanum séu, auk sumar- og jóla- og páskaleyfis, frí á haust- og vorönn. Lagt er til að aðilar skipti á milli sín kostnaði. Á milli heimsókna til Íslands er lagt til að þeir feðgar hafi reglulega samskipti um Skype.

                Fyrir dómi gerði stefnandi í upphafi kröfu um úrskurð um forsjá til bráðabirgða. Eftir að stefndi skilaði inn greinargerð, sem laut að andmælum við þeirri kröfu, var ákveðið að leita sátta með aðilum. Kallaði dómari til B sálfræðing, til að aðstoða við sáttaumleitan, sbr. heimild í 2. mg. 40. gr. laga nr. 76/2003. Sáttaviðræður báru ekki árangur.

                C sálfræðingur var dómkvaddur til að leggja mat á forsjárhæfni aðila o.fl. Hann skilaði matsgerð þann 31. janúar sl. og eru helstu niðurstöður hennar raktar hér fyrir neðan. Þá gaf matsmaður skýrslu fyrir dómi í upphafi aðalmeðferðar og aðilar máls sömuleiðis.

                Í matsbeiðni var óskað mats á aðstæðum aðila og forsjárhæfni, líðan barnsins og tengslum þess við aðila auk þess sem spurt var um álit matsmanns á því hvernig umgengni yrði best háttað við það foreldri sem ekki fari með forsjá barnsins að teknu tilliti til búferlaflutnings.

                Matsmaður telur að drengnum, A, sem er á sjöunda ári, líði almennt vel. Hann þroskist eðlilega og gangi vel í skóla. Hann hafi jákvæða afstöðu til beggja foreldra og hlakki til að flytja til útlanda. Matsmaður telur þó að hann geri sér ekki fulla grein fyrir því hvaða áhrif flutningarnir muni hafa á líf hans, m.a. möguleika hans til samvista við föður sinn. Hann lýsir yfir vilja til að búa áfram með mömmu sinni og hafa umgengni við föður sinn óbreytta.

                Í matsgerðinni eru aðstæður og saga aðila rakin. Þar kemur fram að aðstæður beggja séu góðar, stefnandi búi í frekar litlu leiguhúsnæði en stefndi í rúmbetri eigin íbúð. Stefnandi hafi átt við veikindi að stríða og hafði nýlokið nokkuð langri endurhæfingu þegar matsgerð var unnin. Hafi það sett strik í nám og vinnu hennar. Stefndi, sem hafi á yngri árum átt við vímuefnavanda að stríða og verið dæmdur fyrir fíkniefnamisferli og smáglæpi, hafi hætt neyslu árið 2002 og upp frá því unnið á sendibíl, sem hann reki sjálfur. Aðilar eiga ekki önnur börn en A en sonur fyrrum sambýliskonu stefnda sem sé á unglingsaldri, komi til hans reglulega.

                Matsmaður lýsir stefnanda, m.a. með hliðsjón af niðurstöðum persónuleikaprófs (MMPI-II), sem drífandi einstaklingi, sem sé félagslyndur og eigi auðvelt með að eignast vini. Tengsl hennar við aðra geti hins vegar verið mismunandi blanda af því að vera spennandi, viðkvæm, yfirborðskennd og jafnvel tækifærissinnuð. Matsmaður telur forsjárhæfni stefnanda góða, hún hafi lagt hart að sér við að skapa syni sínum fjölþætta tilveru og njóti til þess stuðnings fjölskyldu sinnar. Hún eigi auðvelt með að skilja og koma til móts við tilfinningalegar þarfir sonar síns og horfi ekki fram hjá stöðu hans og líðan.

                Í matsgerðinni kemur fram að tengsl drengsins við stefnanda séu jákvæð. Drengurinn hafi búið hjá henni frá fæðingu, hún sé fastur punktur í tilveru hans, og samskipti við hana séu nærandi og lifandi en líka kvik.

                Um stefnda segir matsmaður að persónuleikapróf sýni mann sem líki einvera og líði ekki vel í félagslegum kringumstæðum, skorti næmi á aðra og sé tortrygginn. Hann eigi í nokkrum erfiðleikum með að mynda traust sambönd og tengjast öðrum tilfinningalega. Að öðru leyti séu viðhorf hans hefðbundin, raunsæ og jarðbundin. Stefndi hafi alltaf sótt það fast að sinna syni sínum, hann vilji vera honum góður faðir og verði ekki annað séð en að honum hafi tekist það vel. Forsjárhæfni hans metur matsmaður góða. Drengurinn hafi jákvæðar tilfinningar til föður síns líkt og móður, tengslin við hann séu stöðug en ekki tilfinningalega rík.

                Í skýrslu matsmanns fyrir dómi kom fram að hann teldi stefnanda hafa meiri hæfni en stefnda til að setja sig í spor barnsins. Hann lýsti því þannig að hann teldi drenginn hafa tilfinningalegt skjól hjá móður, hafa tengsl við fleira fólk í gegnum hana, meiri örvun og almennt hafa meiri tilfinningalegan aðgengileika hjá móður en föður. Stefndi væri drengnum hins vegar fyrirmynd og félagi og hann legði ríka áherslu á að halda stöðugleika í lífi hans, en örvun og athygli væri minni. Þá kemur fram í matsgerð að stefndi virðist horfa til eigin reynslu til að rökstyðja andstöðu sína við flutning sonar síns til útlanda og er þar vísað til erfiðleika hans við að aðlagast aðstæðum hérlendis þegar hann flutti hingað átta ára gamall. Föður sinn segist stefndi aldrei hafa hitt.

                Í niðurstöðu matsgerðar er enn fremur rakið að ef barnið flyst utan með móður sinni megi gera ráð fyrir því að það reynist honum erfiðara en hann geri sér grein fyrir. Hann hafi ríka þörf fyrir umgengni við föður sinn og það muni reyna á báða foreldra að finna lausn á á grundvelli þarfa hans.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá barnsins á 3. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003 en krafa um að dómur kveði á um meðlagsgreiðslur er byggð á 5. mgr. 34. gr. sömu laga.

                Stefnandi kveðst hafa verið aðalumönnunarforeldri barnsins allt frá fæðingu og sé drengurinn tengdur henni sterkum böndum. Stefnandi hafi annast öll samskipti við leikskóla og allt sem lýtur að heilsugæslu og hagsmunagæslu fyrir drenginn. Þá hafi hún ávallt boðið stefnda að taka þátt í atburðum í leikskóla og öðru slíku en stefndi hafi ekki þegið það. Hún hafi líka ávallt látið stefnda vita af öllu sem barnið varðar, með tölvuskeytum, en slíkt sé ekki gagnkvæmt og fái stefnandi aldrei vitneskju um neitt sem gerist meðan á umgengni við stefnda stendur.

                Komið hafi til lögregluafskipta vegna samskipta aðila, að barninu viðstöddu, sem hafi haft slæm áhrif á drenginn og séu samskipti aðila engin. Stefnandi telji ekki annað koma til greina en að drengurinn fylgi henni, flytjist hún utan, sem hún hyggist gera. Drengurinn sjálfur sé mjög spenntur fyrir flutningi enda þekki hann vel til aðstæðna ytra. Stefnandi hafi átt í sambandi við unnusta sinn um fimm ára skeið og gjörþekki aðstæður þar í landi. Unnusti hennar eigi hús í litlu þorpi þar sem ættingjar hans búi og tengslin við stórfjölskyldu hans séu afar sterk. Umhverfið sé barnvænt og unnusti hennar stundi vinnu stutt frá heimilinu. Stefnandi hafi boðið stefnda umgengni við barnið í öllum skólafríum, komi til flutnings úr landi, auk samskipta gegnum Skype. Hann hafi hins vegar ekki fallist á flutning þeirra mæðgina.

                Stefnandi hyggur á nám í [...], en hún hafi verið í endurhæfingu vegna veikinda undanfarið og náð góðum bata. Telji hún möguleika sína til náms betri ytra en hér á landi auk þess sem hún geti boðið barninu betri og öruggari aðstæður þar.

                Um sáttameðferð vísar stefandi til sáttavottorðs frá D, dags. 27. mars 2015, þar sem fram komi að lögbundinni sáttameðferð sé lokið og því sé lagaskilyrðum fullnægt til höfðunar máls þessa.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir kröfu sína um sameiginlega forsjá á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Telur hann að það sé barninu fyrir bestu að búa hjá sér því með þeim hætti sé samband hans við báða foreldra best tryggt, ekki síst í ljósi ungs aldurs drengsins og tilrauna stefnanda til að takmarka umgengni hans við stefnda.

                Stefndi vísar til þess að hann búi við traustar og öruggar aðstæður, heimili hans sé nálægt skóla drengsins og hann geti boðið honum stöðugt, jákvætt og reglusamt heimilislíf, öfugt við þann óstöðugleika sem hafi einkennt líf stefnanda.

                Stefndi telur fyrirætlanir stefnanda um að flytja úr landi með drenginn sýna dómgreindarbrest og verulega skerta forsjárhæfni hennar. Hún hafi með þessu sýnt fram á að hún setji eigin þarfir framar þörfum drengsins, sem þurfi einmitt nú, þegar hann er að hefja skólagöngu, á reglusemi og stöðugleika að halda. Þá sé drengnum mikilvægt að vera í góðum tengslum við stefnda en búferlaflutningur myndi óhjákvæmilega koma í veg fyrir það.

                Stefndi byggir á því að hann sé hæfari til að fara með forsjá drengsins. Auk ofangreinds vísar hann til þess að hann hafi ríkan sáttavilja, öfugt við stefnanda, og vilji leita leiða til að reyna til þrautar að leysa úr ágreiningi tengdum búferlaflutningum. Þá sé hann líklegri til að stuðla að góðri umgengni stefnanda við barnið og þar með sterku sambandi drengsins við báða foreldra sína. Stefndi telur deilur foreldra ekki snúa að kjarna sameiginlegrar forsjár heldur því í hvaða landi barnið eigi að búa. Ágreiningur um slíkt eigi ekki einn og sér að leiða til breytingar á sameiginlegri forsjá. Ákvörðun stefnanda um að flytja utan sé illa ígrunduð og í andstöðu við þarfir barnsins. Stefnandi muni eftir sem áður starfa mikið hér á landi og geti hún fengið rúma umgengni við drenginn. Því sé búferlaflutningur hans óþarfur.

                Forsendur og niðurstaða

                Þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns sker dómari úr máli með dómi, hafi sátt ekki tekist, sbr. 1. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar kveður dómari á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Ber dómara meðal annars að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi, og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Dómari getur ákveðið, að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef hann telur þær aðstæður vera fyrir hendi að slíkt þjóni hagsmunum barnsins, sbr. 3. mgr. 34. gr. laganna. Við mat á því hvort forsjáin skuli vera sameiginleg ber dómara, auk atriða sem nefnd eru að framan, að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og af aldri og þroska barnsins. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði, sbr. 4. mgr. 34. gr. sömu laga.

                Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá var lögfest með 13. gr. laga nr. 61/2012 og tók gildi 1. janúar 2013. Heimild þessi kom inn í frumvarpið í meðförum þingsins. Í nefndaráliti sem fylgdi breytingartillögunni eru rakin sjónarmið að baki þessari heimild dómara. Segir þar m.a. að ganga verði út frá því að gott samstarf sé alla jafna forsenda þess að vel takist til með sameiginlega forsjá foreldra sem búi ekki saman og þetta fyrirkomulag leggi ríkar skyldur á herðar þeim. Þótt ekki sé fortakslaust skilyrði þess að sameiginleg forsjá verði dæmd, að foreldrar séu sammála um allt í lífi barnsins, segir á sama stað að mikilvægt sé að foreldrar átti sig á því að farsæl sameiginleg forsjá byggist á stöðugu samstarfi foreldra, sveigjanleika og gagnkvæmri virðingu og tillitssemi. Þá segir í nefndarálitinu að lögð sé áhersla á það að dómara beri aðeins að dæma sameignlega forsjá að fyrir liggi að um jafnhæfa foreldra sé að ræða, ágreiningur þeirra í milli sé ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið, að foreldrarnir séu líklegir til að geta unnið í sameiningu að velferð barnsins og síðast en ekki síst að í hverju tilviki fari fram mat á því hvort sameiginleg forsjá sé barni fyrir bestu. Áréttað er í nefndarálitinu að ekki beri að skilja ákvæði 4. mgr. 34. gr., þar sem segir að líta skuli til þess hvort forsjáin hafi verið sameiginleg áður, þannig að sérstaklega ríka ástæðu þurfi til að sameiginlegri forsjá verði slitið heldur þurfi að fara fram heildstætt mat hverju sinni.

                Í máli þessu hagar svo til að foreldrar hafa farið sameiginlega með forsjá A frá fæðingu. Þau voru í sambúð þegar drengurinn fæddist og eftir að sambúðinni lauk gerðu þau samkomulag, sem var staðfest af sýslumanni, þar sem þeirri skipan var haldið. Drengurinn hefur alla tíð haft lögheimili hjá móður en umgengni við föður hefur verið í samræmi við úrskurð sýslumannsins í Reykjavík frá 6. desember 2011. Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að þessu fyrirkomulagi verði breytt og henni einni falin forsjá drengins. Stefndi krefst þess á hinn bóginn að forsjáin verði áfram sameiginleg og að lögheimili A færist yfir til hans.

                Svo sem framar er rakið, er það niðurstaða matsmanns að forsjárhæfni beggja aðila sé góð, þau geti bæði boðið honum upp á góðar aðstæður hvað varðar húsnæði og annan aðbúnað og tengsl drengsins séu á heildina góð við báða foreldra sína. Þau virðist bæði hafa tryggt nægan stöðugleika í lífi drengsins, þótt með ólíkum hætti sé, og bæði hafi þau rækt forsjárskyldur sínar af kostgæfni. Ekkert í gögnum málsins styður þá staðhæfingu stefnda að stefnandi hafi tálmað umgengni þeirra feðga.

                Í skýrslu fyrir dómi bar matsmaður, spurður nánar út í tengsl drengsins við foreldra sína, að tilfinningalegt aðgengi væri meira hjá móður en föður, hún veitti drengnum meiri örvun og í gegnum hana hefði hann tengsl við fleira fólk. Faðir hans aftur á móti væri honum fyrirmynd og félagi, tengslin við hann væru stöðug en ekki tilfinningalega rík. Þá kemur fram í niðurstöðu matsgerðar að stefnandi virðist eiga gott með að skilja og koma til móts við tilfinningalegar þarfir sonar síns og horfi ekki fram hjá stöðu hans og líðan þótt hennar eigin staða og tilfinningar kalli á umrót og breytingar. Skýrslur aðila fyrir dómi styrkja þessa niðurstöðu matsgerðar. Þegar á heildina er litið er það mat dómsins að forsjárhæfni foreldanna sé ekki jöfn þótt færni beggja teljist góð, heldur sé forsjárhæfni stefnanda betri en stefnda. Mælir sú niðurstaða gegn því, að krafa stefnda um að dæmd verði sameiginleg forsjá og lögheimili drengsins verði hjá honum, verði tekin til greina. 

                Þá er einnig til þess að líta að við sameiginlega forsjá reynir mikið á samskiptahæfni aðila og vilja þeirra til jákvæðra samskipta, einkum þegar leita þarf leiða til að leysa úr ágreiningi sem varðar atriði sem tengjast uppeldi barnsins.

                Svo sem greint er frá í atvikalýsingu tengjast málaferli þessi ágreiningi aðila um flutning stefnanda til [...] en þangað hyggst hún flytja og hefja sambúð með unnusta sínum sem er [...]og búsettur þar.

                Stefnandi bar fyrir dómi að samskipti aðila hefðu alla tíð verði stirð og takmörkuð og samvinna við stefnda erfið. Stefndi gerir minna úr ágreiningi þeirra en neitar því þó ekki að hann hafi verið til staðar. Hann kveður samskiptin hafa afmarkast við það sem nauðsynlegt er og verið í ágætu lagi, einkum undanfarið ár.

                Framburður stefnanda um samskiptaerfiðleika fær nokkra stoð í gögnum málsins. Getið er um slíka erfiðleika í úrskurði sýslumanns, frá 15. maí 2014 og það haft eftir báðum aðilum. Í úrskurðinum hafnaði sýslumaður kröfu stefnda um að regluleg umgengni við drenginn yrði aukin frá því sem ákveðið var í úrskurði frá árslokum 2011. Í matsgerð dómkvadds matsmanns er getið um erfið samskipti aðila á köflum og það haft eftir báðum aðilum. Þá má ráða af ítarlegum sáttatilraunum fyrir dómi, sem ekki báru árangur, að aðilum gangi illa að leysa ágreiningsmál sín á milli. Þá verður ekki önnur ályktun dregin af framburði stefnda fyrir dómi en að hann hafi lítinn vilja og/eða getu til að eiga samskipti við stefnanda. Fyrir dómi lýsti hann afar neikvæðri afstöðu í garð stefnanda og lét staðhæfingar falla um forsjárhæfni hennar og umgengnistálmanir, sem hvorki fá stoð í matsgerð dómkvadds matsmanns né skýrslu hans fyrir dómi eða öðrum gögnum málsins. Þau viðhorf eru ekki til þess fallin að stuðla að friðsamlegum samskiptum aðila og samstöðu varðandi uppeldi sonar þeirra. Fyrir dómi var stefndi m.a spurður út í ágreining aðila varðandi búferlaflutning stefnanda. Bar hann mjög ákveðið um að engin lausn væri til í því ágreiningsefni önnur en að banna stefnanda að fara utan. Sagði hann að ekkert frekar væri um það að segja. Varðandi fyrri ágreining aðila um umgengni stefnda við son sinn, en sá ágreiningur laut að því hve mikil umgengin skyldi vera, bar stefndi að sá ágreiningur hefði einvörðungu stafað af því að stefnandi hefði ítrekað hindrað umgengni hans við drenginn. Svo sem áður greinir fær sú staðhæfing hans ekki stoð í gögnum málsins.

                Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns er fjallað um persónulega eiginleika aðila. Segir um stefnda að niðurstöður sálfræðilegra prófa bendi til þess að honum gangi illa í félagslegum kringumstæðum, hæfni til samskipta sé lítil og sömuleiðis skipti þau hann litlu máli. Einnig skorti hann næmi á það hvað öðru fólki gangi til. Prófmyndin gefi til kynna að stefndi eigi í erfiðleikum með að mynda traust sambönd eða tengjast öðrum tilfinningalega og tortryggni gæti í garð annarra.

                Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að forsendur þess að aðilar fari sameiginlega með forsjá drengsins séu ekki til staðar. Styðst sú niðurstaða einkum við sjónarmið sem rakin eru í 4. mgr. 34. gr., þ.e. því hve ólíklegt það verður að teljast að stefndi geti axlað þá ríku ábyrgð á samskiptum og samvinnu um atriði sem varða umönnun og uppeldi sonar þeirra, sem er nauðsynleg til að sameiginleg forsjá samræmist högum hans. Verður að telja að það samræmist best hagsmunum drengsins að bundinn verði endir á sameiginlega forsjá aðila.

                Stefnandi krefst þess að sér verði falin forsjá drengsins en stefndi gerir ekki kröfu um það. Hvað forsjárhæfni foreldra varðar, vísast til þess sem að framan hefur verið rakið, um að foreldrar búi báðir yfir góðri forsjárhæfni en að dómurinn telji stefnanda búa yfir betri forsjárhæfni en stefnda. Verður að telja að sú tegund tengsla sem barnið hefur við stefnanda sé drengnum mikilvægari en tengslin við stefnda, þótt vissulega skipti þau barnið líka miklu máli.

                Áform stefnanda um að flytja búferlum til [...], þar sem hún hyggst hefja sambúð með unnusta sínum, munu óhjákvæmilega hafa áhrif á hagi drengsins og líðan. Eðli málsins samkvæmt er nokkur óvissa um hvaða áhrif slík breyting á fjölskylduhögum mun hafa á hann. Ekki verður séð að þau áform hennar byggi á fljótfærni eða lítilli ígrundun eða að raunveruleg óvissa ríki um tilgang flutninganna eða þær aðstæður sem hún hefur tök á að búa drengnum. Í skýrslu fyrir dómi bar stefnandi að hún hefði verið í sambandi við unnusta sinn um þriggja ára skeið en þau hafi þekkst í lengri tíma. Hún hafi dvalist ytra nokkrum sinnum ásamt syni sínum og drengnum hafi líkað dvölin vel auk þess sem unnusti hennar hafi dvalið hér á landi um tíma. Þessum staðhæfingum hefur ekki verið mótmælt og engar vísbendingar eru í gögnum málsins um að þær séu rangar. Í málinu hafa verið lögð fram gögn sem styðja staðhæfingar hennar um að hún hafi tryggt sér húsnæði og hugað að skólagöngu drengsins. Þá ræddi matsmaður við unnusta hennar og jafnframt við drenginn um tengsl hans við manninn, sem benda ekki til annars en að allt sé með felldu. Loks eru engar vísbendingar um annað en að stefnandi muni leggja sig fram við að tryggja eins ríkulega umgengni milli feðganna og kostur er, miðað við breyttar forsendur. Auk þess benda gögn málsins til þess að hún hafi í gegnum tíðina tekið mið af þörfum barnsins hverju sinni í því efni. Að mati dómsins geta því áform stefnanda um búferlaflutning, ein og sér, jafnvel þótt þau kunni að valda einhverjum vandkvæðum fyrir drenginn, ekki leitt til þess að kröfu hennar um forsjá hans verði hafnað. Ekki er fallist á þá staðhæfingu stefnda að fyrirætlan stefnanda sýni fram á dómgreindarbrest eða skerta forsjárhæfni.

                Er niðurstaða dómsins sú, að virtu öllu framangreindu, að það samræmist best högum og þörfum A að móðir hans fari ein með forsjá hans. Verður aðalkrafa stefnanda þessa efnis því tekin til greina.

                Stefnandi gerir jafnframt kröfu um að dómurinn ákveði nánar inntak umgengni drengsins við föður sinn þegar til búferlaflutnings kemur. Líta verður svo á að í þeirri kröfu felist einnig krafa um að umgengnin verði óbreytt frá því sem ákveðið var með úrskurði sýslumannsins í Reykjavík frá 6. desember 2011, þar til að búferlaflutningum kemur.

                Ákvarða ber drengnum eins ríkulega umgengni við stefnda sem kostur er. Svo sem rakið er í matsgerð, eru tengsl þeirra feðga jákvæð og sterk og mikilvægt er að þau rofni ekki þótt drengurinn flytji til útlanda. Með hliðsjón af aldri drengsins, sem nú er á sjöunda ári, verður að telja æskilegt að hann hitti föður sinn ekki sjaldnar en á tveggja til þriggja mánaða fresti. Ber báðum aðilum skylda til þess að leita leiða til að koma þeim samskiptum á, að teknu tilliti til skólagöngu drengsins og þarfa hans fyrir umgengni við aðra ættingja og vini á Íslandi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fær drengurinn, auk jólaleyfis og sumarleyfis, bæði frí í skóla á haustönn og vorönn og enn fremur í kringum páska. Með hliðsjón af því, er unnt að koma við samfelldri umgengni stefnda við drenginn að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Skal umgengni um jól og áramót vera samfelld að minnsta kosti í sex daga, sem skulu vera frá 22. til 28. desember annað hvert ár og frá 28. desember til 3. janúar hitt árið, þannig að drengurinn sé til skiptis hjá foreldrum um jól og áramót. Í sumarleyfi skal umgengni við stefnda vera samfellt í a.m.k. fjórar vikur. Ef aðilar koma sér ekki saman um á hvaða tíma sú umgengni skal fara fram, skulu þau skiptast á að ákveða það og tilkynna hinu um ákvörðun sína eigi síðar en 30. mars hvert ár. Í fyrsta sinn hefur stefndi rétt til að ákveða sumarleyfistímann, en sá tími skal vera tengdur upphafi eða lokum á sumarfríi drengsins frá skóla og til skiptis nema um annað semjist á milli foreldra hverju sinni. Þá skal stefndi hafa umgengni við drenginn á haustönn ár hvert í a.m.k. fjóra daga samfellt og jafnlengi á vorönn, annaðhvort í skólafríi á vorönn eða um páska. Ekki er unnt að kveða nánar á um umfang umgengni stefnda við drenginn, með hliðsjón af óvissu um skipulag skólagöngu hans en að mati dómsins er mikilvægt að aðilar leitist við að koma á frekari umgengni verði því við komið og þá í hvoru landinu sem er. Vísast í þessu efni til skyldna beggja aðila skv. 46. gr. barnalaga. Á milli umgengni þeirra feðga ber aðilum að sjá til þess að þeir haldi reglulegu sambandi símleiðis eða bréfleiðis eða með öðrum hætti, en ekki er tilefni til að kveða nánar á um slík samskipti í dómi.

                Kostnað af ferðalögum drengsins í og úr umgengni við stefnda skal skipta jafnt á milli aðila, þar á meðal kostnaði af nauðsynlegri fylgd annarra en aðila sjálfra í flugi.

                Umgengni fram að brottflutningi skal vera með óbreyttum hætti, sbr. úrskurð sýslumannsins í Reykjavík frá 6. desember 2011.

                Stefndi skal áfram greiða einfalt meðlag með drengnum þar til hann nær 18 ára aldri.

                Rétt er að málskostnaður aðila falli niður. Báðir aðilar njóta gjafsóknar skv. gjafsóknarleyfi útgefnu til handa stefnanda þann 2. júlí 2015 og leyfi stefnda þann 12. janúar 2016. Allur málskostnaður þeirra greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun Valborgar Snævarr hæstaréttarlögmanns, lögmanns stefnanda, og Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, lögmanns stefnda. Er hæfileg þóknun hvors lögmanns 700.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsómari og dómsformaður kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Gunnari Hrafni Birgissyni og Þorgeiri Magnússyni, sálfræðingum.

Dómsorð:

                K skal fara með forsjá sonar aðila, M, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs. Haga skal umgengni stefnda, M, við drenginn í samræmi við úrskurð sýslumannsins í Reykjavík frá 6. desember 2011. Flytji stefnandi og A búferlum til [...]s skal umgengni drengsins við stefnda vera að lágmarki með eftirfarandi hætti: Sex daga samfellt í jólaleyfi og skal umgengni hefjast 22. desember annað árið og 28. desember hitt árið, í fyrsta sinn skal hún hefjast frá fyrri dagsetningunni. Í sumarleyfi skal umgengni vera samfelld í fjórar vikur. Verði ekki samkomulag um annað skal stefndi ákveða upphaf umgengni fyrsta sumarið, og tilkynna stefnanda ákvörðun fyrir 30. mars, en stefnandi næsta árið og síðan koll af kolli. Auk þessa skal drengurinn dvelja hjá stefnda samfellt í fjóra daga einu sinni bæði á haustönn og vorönn. Kostnaður af ferðalögum drengsins skal skiptast jafnt á milli foreldra.

                Stefndi greiði einfalt meðlag með drengnum þar til hann nær 18 ára aldri.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, Valborgar Snævarr hæstaréttarlögmanns og Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, 700.000 krónur til hvors um sig.