Hæstiréttur íslands

Mál nr. 86/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Málskostnaður


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. mars 2001.

Nr. 86/2001.

Olíuverzlun Íslands hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Maríu Óskarsdóttur

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Málskostnaður.

O hf. krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að fjárnám yrði gert hjá O hf. fyrir kröfu M um hluta málskostnaðar sem henni hafði verið dæmdur ásamt öðrum í einu lagi. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að staðfesta bæri ákvörðun sýslumanns, enda hefði O hf. ekki sýnt fram á neitt sem leiða ætti til annarrar niðurstöðu. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sl. Sóknaraðila var veitt leyfi Hæstaréttar til kærunnar 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2001, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 4. október 2000 um að fjárnám verði gert hjá sóknaraðila fyrir kröfu varnaraðila að höfuðstól 366.667 krónur. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Olíuverzlun Íslands hf., greiði varnaraðila, Maríu Óskarsdóttur, 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2001.

Sóknaraðili er Olíuverzlun Íslands hf., kt. 500269-3249, Héðinsgötu 10, Reykjavík.

Varnaraðili er María Óskarsdóttir, kt. 131054-2629, Grunadargarði 11, Húsavík.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 8. desember sl. en tekið til úrskurðar 27. janúar sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

 

Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. október 2000, að fjárnámsgerð nr. 011-2000-12183 að kröfu varnaraðila máls þessa nái fram að ganga hjá sóknaraðila, verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Við munnlegan flutning málsins krafðist sóknaraðili málskostnaðar að mati réttarins, en varnaraðili mótmælti kröfunni sem of seint fram kominni.

Dómkröfur varnaraðila eru þær, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um ógildingu ákvörðunar sýslumannsins í Reykjavík frá 4. október 2000, um að aðfarargerð nr. 011-2000-12183 nái fram að ganga, og að ákvörðun sýslumanns standi óhögguð.  Þá krefst varnaraðili þess, að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Mál þetta á sér langa sögu, sem spannar yfir rúman áratug. Stiklað verður á stóru í lýsingu málsatvika og þeim aðeins gerð skil að því marki, sem nauðsynlegt þykir til að yfirsýn fáist yfir samskipti málsaðila.

Hinn 21. janúar 1999 var kveðinn upp í Hæstarétti Íslands dómur í málinu nr. 411/1997: Olíuverzlun Íslands hf. gegn Einari Þór Kolbeinssyni, Maríu Óskarsdóttur og Óskari B. Guðmundssyni. Í dómsorði Hæstaréttar segir svo: ,,Gagnáfrýjandi, Einar Þór Kolbeinsson, greiði aðaláfrýjanda, Olíuverzlun Íslands hf., 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1989 til greiðsludags. Gagnáfrýjendur, Einar Þór Kolbeinsson, María Óskarsdóttir og Óskar B. Guðmundsson, eru sýknuð af þeirri kröfu aðaláfrýjanda, að fasteignirnar Garðarsbraut 25 og Höfðavegur 8, Húsavík, standi til tryggingar kröfu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda Einari Þór Kolbeinssyni samkvæmt veðtryggingarbréfi að fjárhæð 2.000.000 krónur, útgefnu á Húsavík 1. mars 1987.  Aðaláfrýjandi [sóknaraðili máls þessa] greiði gagnáfrýjendum sameiginlega 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.”

Í kjölfar dómsins sendi þáverandi lögmaður varnaraðila, Einars Þórs og Óskars B. Guðmundssonar, lögmanni sóknaraðila bréf, dags. 28. janúar 1999 og spurðist fyrir um það, hvað liði útreikningum af stöðu dómskuldarinnar. Síðan segir í bréfinu: ,,Ég hef verið að ræða við skjólstæðinga mína um möguleika þeirra á því að gera þennan mismun upp. Ég sé ekki fram á annað en að eini möguleiki þerra sé að að fá að greiða þetta með 8-10 ára bréfi með veði í fasteign sinni.  Ég verð að biðja þig, ágæti kollega, að kanna þennan möguleika fyrir mig.”

Í framhaldi þessa bréfs rituðu hjónin, Einar Þór og María Óskarsdóttir, starfsmanni sóknaraðila bréf, sem dagsett er 26. febrúar 1999. Í bréfinu segja þau, að ljóst sé, að þeim beri að greiða sóknaraðila (Olís) rúma eina miljón króna, sem þau fara fram á að fá að greiða með skuldabréfi til allt að 10 ára með mánaðarlegum greiðslum. Skuldabréfið yrði annað hvort með sjálfskuldarábyrgð tveggja til þriggja manna, sem Olís myndi samþykkja eða með veði í húseign þeirra að Garðarsbraut 25 á Húsavík. Gjaldþrot blasi við þeim, ef þessum tilmælum þeirra yrði ekki sinnt.

Hlutaðeigandi starfsmaður sóknaraðila svaraði bréfinu og féllst á þessa greiðslutilhögun með þeim fyrirvara, að greiðslutíminn yrði styttur. Bað hann þau hjón að snúa sér til lögmanns félagsins um framgang málsins ,,á þessum nótum”, eins og í bréfinu segir. Bréf þetta er dagsett 31. mars 1999 og ber með sér, að afrit þess hafi m.a. verið sent lögmanni sóknaraðila.

Af gögnum málsins er ekki að sjá, að nokkuð hafi verið aðhafst til að leiða málið til lykta með þessum hætti.

Hinn 1. október 1999 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík aðfarargerð nr. 011-1999-10245.  Gerðarbeiðandi var María Óskarsdóttir, varnaraðili máls þessa, en Olíuverzlun Íslands hf. var gerðarþoli. Aðfararbeiðnin varðaði fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar greiðslu skuldar að fjárhæð 411.372 kr. og var hún byggð á áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Höfuðstóll kröfunnar miðaðist við þriðjung þess málskostnaðar, sem varnaraðila hafði verið dæmdur, ásamt þeim Óskari B. Guðmundssyni og Einari Þór Kolbeinssyni, auk dráttarvaxta og áfallins kostnaðar.

Sóknaraðili mótmælti framgangi gerðarinnar á þeirri forsendu að lýst hafi verið yfir skuldajöfnuði af hans hálfu við kröfu gerðarbeiðanda og samkröfuhafa hans, samkvæmt sama Hæstaréttardómi. Sýslumaður ákvað engu að síður, að gerðinni skyldi fram haldið. Lögmaður sóknaraðila lýsti því yfir, að hann myndi skjóta ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms og óskaði jafnframt eftir fresti á meðan á meðferð málsins stæði fyrir dómi.  Lögmaður varnaraðila féllst á að fresta gerðinni og var henni frestað ótiltekið.

Sóknaraðili skaut ákvörðun sýslumanns til Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kvað upp úrskurð í málinu 6. mars 2000 ( mál nr Y-8/2000) og staðfesti ákvörðun sýslumanns um framgang aðfarar hjá sóknaraðila.

Mál Óskars B. Guðmundssonar á hendur sóknaraðila var samtímis til meðferðar og hlaut það sömu úrlausn hjá sýslumanni og hér fyrir dómi.

Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm í málinu 7. apríl s.á. (mál nr. 131/2000) og felldi úr gildi ákvörðun sýslumanns ,,um að hafna mótmælum sóknaraðila, Olíuverzlunar Íslands hf., gegn því að fram nái að ganga fjárnám hjá honum samkvæmt kröfu varnaraðila, Maríu Óskarsdóttur.”

Málskostnaður var felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Í aðfararorðum Hæstaréttar að niðurstöðu segir svo: ,,Með áðurnefndri beiðni til sýslumanns leitaði varnaraðili einn síns liðs fjárnáms á grundvelli umrædds dóms­orðs, en þó aðeins fyrir réttum þriðjungi þeirrar fjárhæðar, sem dæmd var henni, Einari og Óskari. Hvorki verður fundin stoð fyrir slíkri skiptingu fjárhæðarinnar á milli þeirra í dóminum, sem vísað var til sem heimild fyrir beiðni varnaraðila um aðför, né verður hún reist á lögum. Í málatilbúnaði varnaraðila er staðhæft að hún, Einar og Óskar hafi skipt á milli sín í jöfnum hlutföllum þeirri sameign, sem var um kröfuna um málskostnað á hendur sóknaraðila. Sú staðhæfing er í samræmi við málatilbúnað Óskars í máli, sem er rekið samhliða þessu máli á milli hans og sóknaraðila.  Um afstöðu Einars til þessa liggur hins vegar ekkert  fyrir í málinu.  Að því gættu er ekki unnt að leggja til grundvallar að kröfunni hafi verið skipt á þann hátt, sem varnaraðili heldur fram. Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, var varnaraðila ekki fært að krefjast fjárnáms upp á eindæmi sitt fyrir kröfu um málskostnað samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar, hvorki fyrir kröfunni í heild né að hluta. Verður ákvörðun sýslumanns, sem deilt er um í málinu, því felld úr gildi.”

Varnaraðili krafðist að nýju fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir þriðjungi af tildæmdum málskostnaði samkvæmt áðurnefndum Hæstaréttardómi í máli nr. 411/1997, en nú á grundvelli samkomulags þeirra Einars Þórs, Óskar og varnaraðila um jafnan hlut hvers um sig í tildæmdum málskostnaði með áritun á endurrit Hæstaréttardómsins, sem dagsett er 4. ágúst 2000.

Áritunin er svohljóðandi: ,,Undirritaðir málsaðilar, Einar Þór Kolbeinsson, kt. 150553-5479, María Óskarsdóttir, kt.131054-2629 og Óskar B. Guðnundsson kr. 230825-4919, lýsa því hér með yfir að þau hafi gert með sér samkomulag um að skipta málskostnði þeim sem þeim var dæmdur úr hendi Olíuverslunar Íslands hf. kt. 500269-3249, í hæstaréttarmáli þessu, nr. 411/1997, þannig að hvert um sig fái í sinn hlut 1/3 málskostnaðarins, eða kr. 366.666,- ásamt vöxtum. Samkomulag þetta er gert í þremur eintökum og fær hver samningsaðila eitt eintak.”

Allt gekk fram sem í hinu fyrra máli hjá sýslumanninum í Reykjavík. Gerðarþoli (sóknaraðili hér) mótmælti framgangi aðfarar, en fulltúi sýslumanns ákvað engu að síður í þinghaldi 4. október sl., að gerðinni skyldi haldið áfram. Lögmaður gerðarþola lýsti því þá yfir, að hann myndi skjóta ákvörðun sýslumanns til Héraðsdóms Reykjavíkur og féllst lögmaður gerðarbeiðanda á, að fresta framhaldi gerðarinnar, þar til niðurstaða héraðsdóms lægi fyrir.

Einnig var á sama tíma tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík aðfarargerð nr. 011-2000-12184, en þar er Óskar B. Guðmundsson, faðir varnaraðila, gerðarbeiðandi en gerðarþoli er sóknaraðili þessa máls.  Aðfararbeiðni í seinna málinu var samhljóða þeirri, er mál þetta snýst um og komu sams konar mótmæli fram af hálfu sóknaraðila við þá aðfarargerð.  Mál er rekið samhliða þessu um gildi samhljóða ákvörðunar sýslumannsins í Reykjavík um að láta þá aðfarargerð ná fram að ganga.

Þess ber að geta, að sóknaraðili krafðist gjaldþrotaskipta á búi Einars Þórs Kolbeinssonar með bréfi til Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem dagsett er 31. ágúst 2000 og var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 16. október s.á.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili byggir kröfur sínar um ógildingu ákvörðunar sýslumanns aðallega á því, að Hæstiréttur hafi tildæmt varnaraðila sameiginlegan málskostnað með Einari Þór Kolbeinssyni og Óskari B. Guðmundssyni. Eigi því allir gagnáfrýjendur samaðild (litis consortium) að málskostnaðarkröfunni, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og hafi þeim verið nauðsynlegt að standa saman að aðfarargerð.

Þá hafi varnaraðili ekki aflað sér umboðs meðkröfuhafa sinna, fyrir því að standa ein að aðförinni, sem eðli málsins samkvæmt stoði hana þó ekki, þar sem sóknaraðila varði miklu, að samkröfuhafarnir standi allir sameiginlega að aðför, vegna heimildar hans til skuldajöfnunar.  Því sé mótmælt, að sameiginleg áritun eigenda málskostnaðarkröfunnar hinn 4. ágúst 2000 á endurrit Hæstaréttardómsins um skiptingu málskostnaðarins milli þeirra hafi nokkra þýðingu gagnvart sóknaraðila. Sú áritun sé í fyrsta lagi bersýnilega gerð til málamynda, eftir að Hæstiréttur hafði kveðið upp dóm í málinu nr. 132/2000 í því skyni að koma í veg fyrir lögmætan skuldajöfnunarrétt sóknaraðila. Áritunin hafi auk þess verið Einari Þór Kolbeinssyni óheimil, eins og fjárhagsstöðu hans hafi þá verið komið, en bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 16. október sl.  Í því sambandi gerir sóknaraðili kröfu til þess, að réttindaframsali Einars Þórs verði rift með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum 1. mgr. 131. gr.

Sóknaraðili gerir ennfremur kröfu til þess, að aðfarargerðin nái ekki fram að ganga, með því að hann hafi lýst yfir skuldajöfnuði að fullu við kröfu varnaraðila og samkröfuhafa hans, með svo miklum hluta dómkröfu sinnar á hendur Einari Þór Kolbeinssyni, sem dugi til samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 477/1997. Skuldajöfnuður sé sóknaraðila augljóslega heimill með því að innbyrðisuppgjör varnaraðila og meðkröfuhafa hans, sé honum óviðkomandi og geti hann því nýtt sér kröfur sínar á hendur hverjum þeirra til skuldajafnaðar á móti sameiginlegri kröfu þeirra, enda verði kröfu varnaraðila og meðkröfuhafa hans ekki skipt upp milli þeirra svo gilt sé gagnvart sóknaraðila.

Loks sé sóknaraðila heimilt að beita skuldajöfnuði, þar sem varnaraðili hafi samþykkt hann með bréfi lögmanns síns til lögmanns sóknaraðila, dags. 28. janúar 1999 og með bréfi sínu og eiginmanns síns, Einars Þórs Kolbeinssonar frá 26. febrúar s.á.

Við úrlausn þess, hvort sóknaraðila sé heimilt að beita skuldajöfnuði verði ennfremur að líta til stöðu aðila að öðru leyti, innbyrðis tengsla þeirra, svo og til þess, að um málskostnaðarkröfu sé að ræða og veita þannig sóknaraðila víðtækari skuldajöfnunarrétt en ella.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili lýsir málavöxtum svo, að hún hafi hinn 4. ágúst 2000 skipt sameiginlegri málskostnaðarkröfu sinni, samkv. dómi Hæstaréttar í máli nr. 411/1997, með sameigendum sínum, Einari Þór Kolbeinssyni og Óskari B. Guðmundssyni..  Um hafi verið að ræða sameiginlega áritun þeirra um skiptingu kröfunnar á endurrit Hæstaréttardómsins.   Í framhaldi af því hafi verið skorað á sóknaraðila að greiða kröfu varnaraðila, eins og framlögð gögn beri með sér. Sóknaraðili hafi hafnað því og hafi varnaraðili því verið knúinn til þess að krefjast fjárnáms þess, sem deilt sé um í þessu máli.

Varnaraðili mótmælir í fyrsta lagi þeirri málsástæðu sóknaraðila, að henni sé skylt að eiga samaðild með Einari Þór Kolbeinssyni og Óskari B. Guðmundssyni að málskostnaðarkröfu í Hæstaréttarmálinu nr. 411/1997 í skilningi 18. gr. l. nr. 91/1991 (EML).

Varnaraðili byggir á því í þessu sambandi, að talið hafi verið rétt að beita grunnreglu 18. gr. EML um samaðild við aðför, ef atvikum sé þannig háttað, að samaðild sé nauðsynleg, ef um dómsmál væri að ræða, enda þótt 18. gr. EML gildi ekki um aðför. Gagnályktun frá þessu leiði til þeirrar niðurstöðu, að samaðildar að aðfarargerð sé ekki þörf, þegar hún sé óþörf í dómsmáli.

Við mat á nauðsyn samaðildar verði að líta til efnisréttar í hverju tilviki og þess, hvort hægt sé að skilja nægjanlega á milli réttinda aðila. Í þessu máli geri varnaraðili kröfu til þess, að aðför eigi sér stað til tryggingar fyrir hluta hennar í málskostnaðarkröfunni eða 1/3 kröfunnar og því varði aðförin ekki hagsmuni annarra gagnáfrýjenda.  Um sé að ræða skiptanlega fjárkröfu og sé aðförin því lögmæt á grundvelli framangreindra reglna um samaðild.  Af þessari sömu ástæðu sé þeirri málsástæðu sóknaraðila mótmælt, að varnaraðili hafi þurft umboð frá öðrum gagnáfrýendum til að krefjast aðfarar. Túlka verði dóm Hæstaréttar í málinu 132/2000 svo, að skipting málskostnaðarkröfunnar hafi verið heimil,  þar sem vísað sé sérstaklega til þess, að sýnt hafi verið fram á skiptingu kröfunnar á milli varnaraðila og Óskars með fullnægjandi hætti, en sannanir hafi skort um samþykki Einars.  Þetta hljóti að fela það í sér að skiptingin sé heimil en að sýna þurfi fram á það með fullnægjandi hætti, að hún hafi átt sér stað.

Þá mótmælir varnaraðili sem rangri og ósannaðri þeirri málsástæðu sóknaraðila að skipting málskostnaðarkröfunnar hafi verið málamyndagerningur. Um sé að ræða lögmætan og fullgildan löggerning, sem sé að fullu skuldbindandi fyrir aðila hans.  Engu breyti í þessu tilliti, þótt skiptingin hafi farið fram í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu nr. 132/2000.  Sú ráðstöfun hafi verið eðlileg, þar sem sannanir hafi skort að mati Hæstaréttar fyrir samþykki allra um skiptingu kröfunnar.

Ennfremur verði að telja eðlilegt að skipta kröfunni í þrjá jafna hluti, þar sem ekki sé getið um aðra skiptingu í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 411/1997.  Eftir skiptingu málskostnaðarkröfunnar hafi hver um sig full og óskoruð yfirráð yfir sínum hluta hennar og sé því hverjum um sig heimilt að krefjast aðfarar. 

Varnaraðili mótmælir ennfremur þeirri málsástæðu sóknaraðila, að hann hafi lýst yfir skuldajöfnuði og því eigi aðför ekki að ná fram að ganga.  Í fyrsta lagi eigi sóknaraðili ekki skuldajöfnunarrétt gagnvart varnaraðila.  Í öðru lagi verði ekki séð, að samaðild breyti nokkru um rétt sóknaraðila til skuldajöfnunar, því að hann geti allt að einu beitt þeim rétti sínum, gagnvart öllum gagnáfrýjendum eða hverjum um sig, eigi hann á annað borð slíkan rétt.  Í þriðja lagi sé skilyrðum 40. gr. AFL um skuldajöfnuð ekki fullnægt, þar sem sóknaraðili eigi enga aðfararhæfa kröfu á hendur varnaraðila eða kröfu sem varnaraðili hafi viðurkennt sem rétta. 

Jafnvel þótt sóknaraðili ætti rétt á skuldajöfnuði gagnvart Einari Þór Kolbeinssyni, þá nái sá réttur ekki til varnaraðila og Óskars.  Þetta byggist á því að réttur skuldheimtumanna eins sameigenda nái aðeins til þess sem svarar til brúttó­hlutdeildar hans í sameign. Sóknaraðili hafi þegar nýtt sér þennan skuldajöfnunarrétt að fullu.  Þó svo að varnaraðila, Einari Þór og Óskari hefði verið skylt að standa sameiginlega að aðför þá hefði skuldajöfnunarréttur sóknaraðila aðeins verið heimill að því er varðar hluta Einars en ekki gagnvart varnaraðila eða Óskari.

Varnaraðili mótmælir því að hafa viðurkennt eða samþykkt skuldajöfnuð með bréfi til sóknaraðila dags. 26. febrúar 1999 eða með bréfi lögmanns gagnáfrýjenda í Hæstaréttarmálinu frá árinu 1999, dags. 28. janúar s.á.  Í bréfi lögmanns varnaraðila hafi enga verið vikið að skuldajöfnuði heldur aaðeins óskað eftir því að gengið yrði til samninga í málinu. Í bréfinu frá 26. febrúar s.á. hafi aðeins komið fram vilji varnaraðila og eiginmanns hennar um að ganga til samninga um málið en engar skuldbindandi yfirlýsingar gefnar, hvorki um skuldajöfnuð ná annað.

Varnaraðili mótmælir einnig kröfu sóknaraðila um að áritun hans, Einars og Maríu verði rift á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991, enda skorti lagaskilyrði fyrir því, að afstaða verði tekin til þeirrar kröfu í þessu máli.

Forsendur og niðurstaða:

Í máli þessu hafa málsaðilar uppi sömu kröfur og málsástæður sem í hinu fyrra máli, sem rekið var hér fyrir dómi sem mál nr Y-8/2000 og Hæstiréttur felldi dóm í hinn 7. apríl á síðastliðnu ári (mál nr. 131/2000).

Ágreiningur málsaðila lýtur enn að sama álitaefni og þar er fjallað um.  Í fyrsta lagi er enn um það deilt, hvað felist í málskostnaðarákvörðun Hæstaréttar í máli nr. 411/1997 og hvernig hana beri að túlka. Í annan stað greinir málsaðila á um skilning á dómi Hæstaréttar í máli nr 131/2000 varðandi heimild sóknaraðila til að beita skuldajöfnuði gagnvart öllum gagnáfrýjendum í fyrrnefndu Hæstaréttarmáli nr. 411/1997 á grundvelli málskostnaðarákvörðunar réttarins, s.s. hvort samaðildar þeirra allra að aðför sé þörf, hvort varnaraðila hafi borið að afla sér umboðs til að ganga einn til aðfararinnar, og hvort varnaraðili hafi veitt samþykki sitt til skuldajöfnunar, eins og sóknaraðili heldur fram.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 131/2000 segir það eitt, ,,að ekkert liggi fyrir um afstöðu Einars í málinu” og ákvörðun sýslumanns ógilt af þeirri ástæðu einni að því er best verður séð.

Allt er því óljóst um þau álitaefni, sem að framan er lýst. Verður því að taka afstöðu til þeirra á ný.   Stuðst verður að mestu við forsendur úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. mars 2000 (mál nr. Y-8/2000), enda málsástæður málsaðila þær sömu og fyrr, eins og áður er getið.

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því, að Hæstiréttur hafi í máli nr. 411/1997 dæmt öllum gagnáfrýjendum óskiptan málskostnað og því sé þeim skylt að standa sameiginlega að aðför. Því beri að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns um framgang aðfarar varnaraðila. Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Tilvitnað lagaákvæði mælir svo fyrir, að þeir skuli eiga óskipta aðild, sem óskipt réttindi eiga eða bera óskipta skyldu.  Í 2. mgr. 18. gr. segir, að máli skuli vísað frá dómi, ef þeir sem eiga óskipt réttindi sækja ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem á ekki aðild að því.  Samaðild til sóknar er því ekki nauðsynleg í öllum tilfellum, þó um óskipt réttindi sé að ræða.

Í aðfararlögum nr. 90/1989 er engin afstaða tekin um skyldu til samaðildar við aðför. Samaðild gerðarbeiðenda við aðför kann að vera nauðsynleg, sé hvorugur eða enginn aðilanna efnislega bær til að ráðstafa réttindum, sem málið snýst um, upp á sitt eindæmi.  Við úrlausn þess atriðis yrði litið til 18. gr. laga nr. 91/1991, sérstaklega 2. mgr. ákvæðisins, sem áður var vitnað til.

Málskostnaður í Hæstaréttarmálinu nr. 411/1997 var dæmdur varnaraðila, Einari Þór Kolbeinssyni og Óskari B. Guðmundssyni sameiginlega og því var krafan á hendur sóknaraðila í upphafi í óskiptri sameign þeirra.  Um er að ræða fjárkröfu, sem er skiptanleg og formleg skipting hennar hefur farið fram með áritun allra eigenda hennar á endurrit dóms Hæstaréttar í máli nr. 411/1997. Skipting kröfunnar í þrjá jafna hluta verður að teljast eðlileg, enda er enga leiðbeiningu að finna um aðra skiptingu í tilvitnuðum Hæstaréttardómi eða í málskjölum.

Eftir skiptingu kröfunnar var það undir hverjum einstökum kröfueiganda komið að ákveða um afdrif hennar. Þessari málsástæðu sóknaraðila er því hafnað.

Sóknaraðili hefur mótmælt skiptingu málskostnaðarins á þeirri forsendu að um málamyndagerning hafi verið að ræða.

Dómurinn lítur á hinn bóginn svo á, að formleg skipting kröfunnar, eins og átti sér stað hinn 4. ágúst 2000, hafi verið rétt og eðlileg og í beinu framhaldi af dómi Hæstaréttar í máli nr. 131/2000. Í hinu fyrra máli sótti varnaraðili sóknaraðila um þriðjung kröfunnar og hið sama gerði Óskar B. Guðmundsson í öðru samhliða máli. Skipting kröfunnar hafði því í raun átt sér stað löngu fyrr.  Aftur á móti skorti sönnur fyrir því að mati Hæstaréttar, að Einar Þór hefði samþykkt þessa skiptingu kröfunnar. Samningurinn, sem fólst í áritun þessara þriggja einstaklinga, var því eðlilegt framhald Hæstaréttardómsins og í samræmi við leiðsögn Hæstaréttar til staðfestingar því, að allir hlutaðeigandi hefðu fallist á þriðjungshlut hver í málskostnaðar­fjárhæðinni.

Sóknaraðili byggir ennfremur á því, að Einari Þór Kolbeinssyni hafi verið óheimilt að veita samþykki sitt fyrir skiptingu málskostnaðarins hinn 4. ágúst 2000, eins og fjárhag hans þá var komið. Hann hafi verið eignalaus með öllu, sbr. árangurslaust fjárnám, sem gert hafði verið hjá honum 4. júlí s.á. og gjaldþrot blasað við, sem gekk síðan eftir með úrskurði uppkveðnum hinn 16. október s.á.

Við mat á þessari málsástæðu sóknaraðila er þess í fyrsta lagi að gæta, að Einar Þór var fjár síns ráðandi 4. ágúst 2000, þegar formleg skipting kröfunnar átti sér stað. Einnig verður að líta til þess, hvað fólst í þessari ráðstöfun kröfunnar. Í því sambandi verður ekki séð, að kröfuhafar í þrotabúi Einars Þórs hafi beðið tjón vegna þessa löggernings. Hér að framan hefur því verið slegið föstu, að skipting kröfunnar í þrjá jafna hluta hafi verið rétt og eðlileg. Af því leiðir, að kröfuhafar í þrotabú Einars Þórs gátu ekki vænst þess, að stærri hluti málskostnaðarkröfunnar rynni í þrotabú hans.

Vísað er frá dómi þeirri kröfu sóknaraðila, að réttindaframsali Einars Þórs verði rift með vísan til XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, einkum 1. mgr. 131. gr. Mál þetta varðar eingöngu það álitaefni, hvort sýslumanni í Reykjavík hafi verið rétt og skylt að heimila aðför á hendur sóknaraðila. Riftunarkrafa sóknaraðila fellur því utan þess ágreinings, sem hér er til úrlausnar.

Næst verður fjallað um skuldajöfnunarkröfu sóknaraðila.

Eins og áður er lýst, voru varnaraðili og Óskar B. Guðmundsson sýknuð af kröfum sóknaraðila á hendur þeim með dómi Hæstaréttar í máli nr. 411/1997. Sóknaraðili á því enga kröfu á hendur varnaraðila.  Hann getur því fráleitt nýtt til skuldajöfnunar á hendur varnaraðila, kröfu sem Einar Þór var einn dæmdur til að greiða, sbr. gagnályktun frá 40. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Þessari kröfu sóknaraðila er því hafnað.

Sóknaraðili byggir ennfremur á því, að varnaraðili hafi samþykkt skuldajöfnuð með bréfi lögmanns síns frá 28. janúar 1999 og bréfi sínu og eiginmanns síns til sóknaraðila dags. 26. febrúar s.á.

Varnaraðili mótmælir því að hafa nokkru sinni fallist á skuldajöfnuð. Í bréfinu frá 26 febrúar 1999 kemur það eitt fram, að bréfritarar telja skuld sína nema rúmlega einni milljón króna, sem þau fara fram á að fá að greiða með ákveðnum hætti á 8-10 árum, ella blasi gjaldþrot við. Sé á annað borð unnt að túlka efni bréfsins sem skuldajafnaðaryfirlýsingu varnaraðila, verður að líta svo á, að það hafi verið því skilyrði háð, að fallist yrði á greiðsludreifingu skuldarinnar, eins og óskað var eftir og að komið yrði þannig í veg fyrir gjaldþrot Einars Þórs.

Sóknaraðili aðhafðist hins vegar ekkert til að ná fram samningum við bréfritara og verður því að bera hallann af því.

Ekki verður heldur fallist á þá málsástæðu sóknaraðila, að samaðild varnaraðila og upphaflegra samkröfuhafa hans varði hann miklu vegna skuldajafnaðarheimilda hans og að veita beri honum víðtækari skuldajöfnunarrétt en ella, einkum vegna vensla og ættartengsla varnaraðila og samkröfuhafa hans. Í þessu tilliti ber fremur að líta til þeirrar staðreyndar, að Hæstiréttur tildæmdi varnaraðila  málskostnað í því skyni að bæta henni upp óhjákvæmilegan kostnað, sem málsókn sóknaraðila á hendur honum hafði í för með sér. Væri fallist á rétt sóknaraðila til skuldajafnaðar á hendur varnaraðila, myndi slík ákvörðun leiða til samsvarandi fjártjóns varnaraðila, sem ætti þá allt að einu eftir að greiða sinn kostnað af málsókn sóknaraðila, þvert á ákvörðun Hæstaréttar.

Í máli því sem hér er til úrlausnar krafðist varnaraðili fjárnáms til tryggingar greiðslu á 568.956 krónum, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði eins og nánar greinir í aðfararbeiðni.  Höfuðstóll kröfunnar nam 366.667 krónum, sem er þriðjungur þess málskostnaðar, sem varnaraðila var tildæmdur, ásamt öðrum gagnáfrýjendum í margnefndum Hæstaréttardómi og í samræmi við samning þeirra frá 4. ágúst 2000.

Þar sem sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á neitt sem leiða ætti til annarrar niðurstöðu, verður því samkvæmt framangreindu fallist á, að varnaraðila hafi verið heimilt að krefjast aðfarar fyrir þriðjungi þess málskostnaðar sem henni var dæmdur, ásamt öðrum gagnáfrýjendum í dómi Hæstaréttar í Hæstaréttarmáli nr. 411/1997.

Samkvæmt framanrituðu verður því niðurstaða málsins sú, að kröfum sóknaraðila er hafnað og staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. október 2000, um að fjárnámsgerð nr. 011-2000-12183 nái fram að ganga hjá sóknaraðila. 

Rétt þykir, að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem telst hæfilegur vera 50.000 krónur.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. október 2000 um að fjárnámsgerð nr. 011-2000 -12183 að kröfu varnaraðila, Maríu Óskarsdóttur,  nái fram að ganga hjá sóknaraðila, Olíuverzlun Íslands hf.

Sóknaraðili, Olíuverzlun Íslands hf., greiði varnaraðila, 50.000 krónur í málskostnað.