Hæstiréttur íslands

Mál nr. 413/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Nauðasamningur


                                     

Mánudaginn 17. ágúst 2015.

Nr. 413/2015.

Green Diamond International ehf.

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

Friðriki Helga Vigfússyni

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Kærumál. Aðför. Nauðasamningur.

F höfðaði mál á hendur G ehf. til heimtu þóknunar vegna setu í stjórn þess síðarnefnda frá maí 2010 til mars 2011. Málinu lauk með dómsátt í apríl 2013 en með henni féllst G ehf. á að greiða F 500.000 krónur með dráttarvöxtum frá gerð sáttarinnar. Áður en sáttin komst á hafði G ehf. með úrskurði í mars 2013 fengið heimild til að leita nauðasamnings eftir reglum 3. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og var kröfum á hendur G ehf. breytt í hlutafé. F krafðist fjárnáms hjá G ehf. á grundvelli sáttarinnar. Í september 2014 stöðvaði sýslumaður gerðina þar sem krafan hefði verið efnd á grundvelli nauðasamningsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að F hefði öðlast kröfu sína á hendur G ehf. á árunum 2010 og 2011 og að ný krafa hefði ekki stofnast þótt gerð hefði verið dómsátt um hana, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 21/1991. Félli krafan því undir nauðasamninginn og yrði efnd eftir honum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og staðfest ákvörðun sýslumanns um að stöðva aðförina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015 þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2014 um að stöðva aðfarargerð hjá sóknaraðila og lagt fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og ákvörðun sýslumanns staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila til heimtu þóknunar vegna setu í stjórn þess síðarnefnda frá maí 2010 til mars 2011. Málinu lauk með dómsátt 26. apríl 2013 en með henni féllst sóknaraðili á að greiða varnaraðila 500.000 krónur með dráttarvöxtum frá gerð sáttarinnar. Áður en sáttin komst á hafði sóknaraðili með úrskurði 6. mars 2013 fengið heimild til að leita nauðasamnings eftir reglum 3. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með úrskurði 5. júlí sama ár var staðfestur nauðasamningur fyrir sóknaraðila. Samkvæmt honum var kröfum á hendur sóknaraðila breytt í hlutafé.

Með nauðasamningi eftir lögum nr. 21/1991 er átt við samning um greiðslu skulda eða eftirgjöf af skuldum sem kemst á milli skuldara og áskilins meiri hluta lánardrottna hans og hlýtur staðfestingu fyrir dómi. Nauðasamningur, sem þannig er gerður, bindur einnig aðra lánardrottna skuldarans eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum, sbr. 27. gr. þeirra. Þær kröfur á hendur skuldaranum, sem ekki eru undanþegnar áhrifum nauðasamnings og falla ekki niður vegna hans eftir ákvæðum 28. gr. laganna, nefnast samningskröfur, sbr. 1. mgr. 29. gr. þeirra. Teljast kröfur til samningskrafna án tillits til þess hvort vitað sé um þær eða þær háðar ókomnu skilyrði við gerð samnings, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna. Þá breytir ágreiningur um réttmæti kröfu því ekki að hún verði talin samningskrafa eins og endanlega verður úr henni leyst, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Meðal þeirra krafna sem nauðasamningur hefur ekki áhrif á eru kröfur sem orðið hafa til eftir að úrskurður gekk um heimild skuldara til að leita nauðasamnings, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili heldur því fram að krafa hans á hendur sóknaraðila hafi stofnast með dómsáttinni 26. apríl 2013 eftir að sá síðarnefndi fékk heimild 6. mars sama ár til að leita nauðasamnings. Því taki nauðasamningurinn ekki til kröfunnar. Sóknaraðili telur aftur á móti að krafan falli undir samninginn þar sem hún hafi þegar verið fyrir hendi þegar heimildarinnar var aflað.

Varnaraðili öðlaðist kröfu sína á hendur sóknaraðila um þóknun fyrir setu í stjórn hans á þeim tíma sem varnaraðili sat í stjórninni á árunum 2010 og 2011. Frá þeim tíma var krafan fyrir hendi og stofnaðist ekki ný krafa þótt gerð væri dómsátt um hana, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 21/1991. Fellur krafan því undir nauðasamninginn og verður efnd eftir honum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og staðfest ákvörðun sýslumanns um að stöðva framgang aðfarargerðar hjá sóknaraðila á grundvelli sáttarinnar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2014 um að stöðva aðför hjá sóknaraðila, Green Diamond International ehf., að kröfu varnaraðila, Friðriks Helga Vigfússonar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015.

Mál þetta var þingfest 12. desember 2014 og tekið til úrskurðar 4. maí sl. Sóknaraðili er Friðrik Helgi Vigfússon, kt. [...], 16 Blenheim Close, Pyson Road, Broadstairs, Kent, Bretlandi, en varnaraðili er Green Diamond International ehf., kt. [...], Suðurlandsbraut 18, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2014 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-01277 verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2014 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-01277 verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

Málsatvik

Sóknaraðili er fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn varnaraðila. Sóknaraðili höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur varnaraðila þar sem hann krafðist þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða honum 420.000 krónur ásamt þar tilgreindum dráttarvöxtum vegna vangoldinnar þóknunar fyrir setu hans í stjórn varnaraðila. Málið var nr. E-1750/2012 í málaskrá réttarins.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012 var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar til miðvikudagsins 9. janúar 2013. Í þinghaldi þann dag var heimild varnaraðila til greiðslustöðvunar framlengd til miðvikudagsins 3. apríl 2013 í samræmi við beiðni hans þar um.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2013 var varnaraðila veitt heimild til nauðasamningsumleitana samkvæmt reglum 3. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Lárentsínus Kristjánsson hrl. var skipaður umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum varnaraðila.

Aðilar málsins gerðu með sér dómsátt 26. apríl 2013 í ofangreindu máli nr. E-1750/2012. Samkvæmt sáttinni samþykkti varnaraðili að greiða sóknaraðila 500.000 krónur sem laun fyrir setu hans í stjórn varnaraðila fyrir tímabilið frá maí 2010 til og með mars 2011. Skyldi fjárhæðin bera dráttarvexti frá dagsetningu réttarsáttarinnar og málskostnaður milli aðila falla niður. Þá var tekið fram í sáttinni að með henni væri ágreiningi aðila um ofangreind stjórnarlaun í einu og öllu lokið og að hvorugur aðila myndi hafa uppi aðrar eða frekari kröfur á hendur hinum en af sáttinni leiddi. Sáttina undirrituðu lögmenn aðila. Lárentsínus Kristjánsson, hrl., umsjónarmaður við nauðasamningsumleitanir varnaraðila, undirritaði einnig sáttina um samþykki sitt. Undir undirritun Lárentsínusar er svofelld handrituð athugasemd: ,,Fundur um frumvarp 3/5 2013.“

Fram kemur í kæru sóknaraðila að hinn 5. júní 2013 hafi lögmaður hans sent lögmanni varnaraðila tölvuskeyti og spurst fyrir um hvort sá síðarnefndi myndi hafa milligöngu um greiðslu samkvæmt réttarsáttinni. Með tölvuskeyti 7. júní 2013 hafi lögmaður varnaraðila sagst myndu hafa milligöngu um málið. Lögmaðurinn hafi og greint frá því að nauðasamningur varnaraðila hefði verið samþykktur og að kröfum á hendur varnaraðila yrði breytt í hlutafé samkvæmt ákvæðum samningsins. Kvaðst lögmaðurinn myndu láta lögmann sóknaraðila vita þegar búið væri að ganga frá þessum breytingum.

Með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júní 2013 krafðist varnaraðili staðfestingar nauðasamnings samkvæmt meðfylgjandi frumvarpi. Í staðfestingu umsjónarmanns sem fylgdi bréfinu kom fram að á kröfuhafafundi 14. júní 2013 hefði frumvarp að nauðasamningi hlotið samþykki 98,19% samkvæmt fjárhæðum og 83,33% af fjölda kröfuhafa. Hafi nauðasamningurinn því hlotið samþykki fullnægjandi hlutfalls kröfuhafa bæði að því er varðar fjárhæð og höfðatölu. Með úrskurði dómsins 5. júlí 2013 var nauðasamningur varnaraðila staðfestur.

Fram kemur í kæru sóknaraðila að lögmaður hans hafi með tölvuskeyti 16. júlí 2013 ítrekað kröfu sína um að varnaraðili stæði sóknaraðila skil á þeirri fjárhæð sem aðilar sættust á með réttarsáttinni, en því skeyti hafi ekki verið svarað. Með bréfi, dagsettu 16. ágúst 2013, var sóknaraðila tilkynnt um nýjan hluthafalista varnaraðila. Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dagsettu 6. september 2013, var því lýst yfir að sóknaraðili teldi sig með öllu óbundinn af nauðasamningi varnaraðila. Þannig hefði sóknaraðili eignast kröfu á hendur varnaraðila með áðurnefndri réttarsátt, en eðli máls samkvæmt hefði sú krafa stofnast þegar réttarsáttin var gerð. Með vísan til þess væri ljóst að krafa sóknaraðila félli ekki undir nauðasamning varnaraðila. Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dagsettu 20. janúar 2014, var varnaraðila veittur lokafrestur til að standa sóknaraðila skil á greiðslu samkvæmt réttarsátt aðila, en að öðrum kosti yrði farið fram á fjárnám til fullnustu kröfunnar. Með bréfi lögmanns varnaraðila, dagsettu 21. janúar 2014, var kröfu sóknaraðila um greiðslu peninga alfarið hafnað, en réttur hans til hluta í varnaraðila í samræmi við nauðasamning félagsins, viðurkenndur og áréttað að sóknaraðili hefði þá þegar fengið hluti í varnaraðila afhenta til samræmis við kröfu sína.

Sóknaraðili sendi aðfararbeiðni til Sýslumannsins í Reykjavík og krafðist fjárnáms hjá varnaraðila á grundvelli sáttarinnar. Aðfarargerðin var fyrst tekin fyrir 25. ágúst 2014. Var þar mætt fyrir hönd varnaraðila og því haldið fram af hans hálfu að krafa sóknaraðila væri að fullu greidd, en sóknaraðili krafðist þess að gerðin næði fram að ganga. Fulltrúi sýslumanns ákvað í kjölfarið að fresta gerðinni til 5. september 2014 til að fara yfir framlögð gögn. Fulltrúi sýslumanns taldi að með afhendingu á hlutum í varnaraðila í samræmi við nauðasamning varnaraðila væri krafan í málinu að fullu greidd. Var gerðin því stöðvuð. Af hálfu sóknaraðila var ákvörðun fulltrúa sýslumanns mótmælt og því lýst yfir að krafist yrði úrlausnar héraðsdóms um ákvörðunina. Kæra sóknaraðila á ákvörðun sýslumanns barst dóminum 18. september 2014.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að krafa hans falli ekki undir nauðasamning varnaraðila. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi nauðasamningur ekki áhrif á kröfur sem orðið hafa til eftir að úrskurður gekk um heimild til að leita nauðasamnings. Krafa sóknaraðila samkvæmt réttarsátt aðila hafi stofnast 26. apríl 2013 en úrskurður um heimild varnaraðila til að leita nauðasamnings hafi gengið 6. mars sama ár. Því sé ljóst að nauðasamningur varnaraðila hafi ekki áhrif á kröfu sóknaraðila.

Sóknaraðili mótmæli þeim skilningi varnaraðila að krafan samkvæmt sáttinni falli undir nauðasamninginn og honum sé því óskylt að greiða hana samkvæmt efni sínu, heldur dugi honum að greiða hana með útgáfu hlutabréfa í sjálfum sér til handa sóknaraðila í samræmi við skilmála nauðsamningsins. Sóknaraðili telji sig eiga lögvarinn rétt til greiðslu samkvæmt sáttinni. Efni sínu samkvæmt verði réttarsáttin aðeins efnd með greiðslu fjármuna. Krafa sóknaraðila sé því í grunninn krafa um réttar efndir samkvæmt sáttinni. Hafi átt að greiða kröfuna með hlutafé hefði þurft að taka það sérstaklega og skýrlega fram í sáttinni sjálfri. Það hafi ekki verið gert heldur samþykkti umsjónarmaðurinn sáttina samkvæmt efn sínu. Með undirritun sinni hafi hann í raun staðfest að krafan félli ekki undir nauðasamning varnaraðila.

Þá geti varnaraðili ekki haldið því fram að sóknaraðili hafi tekið við umræddu hlutafé með því að hann hafi einhliða skráð sóknaraðila fyrir hlutafé í sjálfum sér. Slíkt sé markleysa enda kom sóknaraðili hvergi nærri þeirri skráningu, hann samþykkti hana ekki og hefur frá upphafi mótmælt henni.

Ofangreindur skilningur sóknaraðila sé að vissu leyti staðfestur í nauðasamningsfrumvarpi varnaraðila. Krafa sóknaraðila hafi ekki verið tiltekin í frumvarpi varnaraðila, hvorki sem viss eða óviss samningskrafa, en samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 21/1991 teljist kröfur til samningskrafna án tillits til þess hvort vitað sé um þær eða þær séu háðar ókomnu skilyrði við gerð nauðasamnings. Þá sé tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að ágreiningur um réttmæti kröfu breyti því ekki að hún verði talin samningskrafa eins og endanlega verði úr henni leyst.

Þá mótmælir sóknaraðili því sem röngu að umsjónarmaður nauðsamningsumleitana hafi með einhverjum hætti fellt kröfu samkvæmt sáttinni undir nauðasamning varnaraðila með handrituðum texta er hann undirritaði sáttina enda geti umsjónarmaður ekki ákveðið slíkt upp á sitt eindæmi. Það sé rangt, sem varnaraðili haldi fram, að þar standi „fellur undir nauðasamning 3. maí 2013“, heldur standi þar „fundur um nauðasamning 3. maí 2013“ enda hafi ekkert frumvarp verið lagt fram þann dag eðli málsins samkvæmt, heldur hafi það verið lagt fram með beiðni til að leita nauðasamnings sbr. 35. gr. laga nr. 21/1991.

Skýrlega verði ráðið af ákvæðum laga nr. 21/1991 að allar þekktar kröfur sem fallið geta undir nauðasamning skuli í fyrsta lagi tilgreindar í umsókn um heimild til að leita nauðasamnings, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 34. gr. og í öðru lagi í frumvarpi til nauðasamnings, sbr. 36. gr. Sömuleiðis sé gerð krafa um það í 2. mgr. 44. gr. að umsjónarmaður sendi öllum lánardrottnum skuldara sem fara með samningskröfur og vitað er um, tilkynningu í ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggan hátt, þar sem sömu atriða sé getið og í innköllun samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Þrátt fyrir þennan áskilnað hafi kröfu sóknaraðila ekki verið getið í nauðasamningsfrumvarpi varnaraðila. Þá hafi sóknaraðila ekki verið sendar neinar tilkynningar um yfirstandandi nauðasamningsumleitanir. Sóknaraðili bendi í því sambandi á að varnaraðila hafi verið fullkunnugt um málaferli sóknaraðila á hendur honum og með hvaða hætti þeim lauk. Hið sama hljóti að hafa átt við um umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum varnaraðila, enda hafi hann skrifað undir réttarsátt aðila. Það sýni að hvorki varnaraðili né umsjónarmaður hans hafi litið svo á að krafa sóknaraðila félli undir nauðasamninginn.

Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að krafa hans hafi stofnast með réttarsátt aðila. Það leiði af meginreglum kröfuréttarins að með réttarsáttinni 26. apríl 2013 hafi krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila stofnast. Því sé ekki um að ræða sömu kröfu og sóknaraðili höfðaði mál sitt út af í upphafi, sem sjáist best á því að kröfurnar séu hvor af sinni fjárhæðinni. Þá hafi krafa sóknaraðila verið umdeild allt þar til sáttin var gerð, á meðan krafa sóknaraðila samkvæmt réttarsáttinni sé eðli máls samkvæmt viðurkennd. Þessa niðurstöðu leiði beinlínis af lögum, sbr. t.d. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í því ákvæði sé gert ráð fyrir að gjalddagi kröfu samkvæmt réttarsátt sé annaðhvort tiltekinn í sáttinni sjálfri eða aðför ella heimill 15 dögum frá gerð hennar. Augljóslega væri óþarft að tilgreina sérstaklega nýjan gjalddaga með þessum hætti ef um væri að ræða sömu kröfu og réttarsáttin var gerð vegna, enda hlyti slík krafa eðli máls samkvæmt alltaf að vera fallin í gjalddaga.

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda hefjist nýr tíu ára fyrningarfrestur þegar dómsátt sé gerð um kröfu og reiknist sá fyrningarfrestur frá þeim degi sem sáttin var gerð. Það staðfesti enn að með dómsátt stofnist ný krafa, sem samkvæmt þessu sæti öðrum fyrningarfresti en sú krafa sem hún á rætur að rekja til.

Sóknaraðili mótmæli því ekki að krafa hans á hendur varnaraðila eigi rætur sínar að rekja til kröfu hans um þóknun fyrir stjórnarsetu sem stofnaðist talsvert áður en réttarsátt aðila og nauðasamningur varnaraðila voru gerð. Þar sé hins vegar ekki um sömu kröfur að ræða samkvæmt framansögðu. Niðurstaðan hefði í raun orðið sú sama hefði dómur fallið um kröfu sóknaraðila honum í vil, þar sem ný dómskrafa með nýjum aðfarar- og fyrningarfresti hefði orðið til.

Hefði krafa sóknaraðila samkvæmt réttarsáttinni átt að falla undir nauðasamning varnaraðila hefði þurft að taka það sérstaklega fram í sáttinni að um samningskröfu væri að ræða sem samkvæmt því félli undir samninginn. Það hafi hins vegar ekki verið gert og hafi umsjónarmaður nauðasamningsumleitana varnaraðila lagt blessun sína yfir sátt aðila.

Þar sem krafa sóknaraðila falli ekki undir nauðasamning varnaraðila sé ljóst að varnaraðili hafi ekki getað greitt hana með afhendingu á hlutum í samræmi við nauðasamning sinn, enda hafi sóknaraðili frá upphafi haldið fast í kröfu sína um fjármuni til lúkningar kröfunni. Í samræmi við það hafi sóknaraðili ekki tekið við hlutum í varnaraðila í samræmi við títtnefndan nauðasamning. Fulltrúa sýslumanns hafi því ekki verið rétt að stöðva gerðina með vísan til þess að krafan væri greidd. Verði því að fella þá ákvörðun sýslumanns úr gildi og leggja fyrir hann að halda gerðinni áfram.

Þá bendir sóknaraðili á að hann hafi ekki notið þeirra réttinda sem handhafar samningskrafna eigi rétt á samkvæmt lögum nr. 21/1991. Hann hafi ekki fengið tilkynningu frá umsjónarmanni í samræmi við 2. mgr. 44. gr. laganna, engar tilkynningar um fundi eða boðun á fundi, ekki fengið tækifæri til að mótmæla réttmæti annarra samningskrafna og engan atkvæðisrétt um frumvarp til nauðasamnings. Ástæða þess sé auðvitað sú að krafa hans var ekki samningskrafa og varnaraðili leit sjálfur svo á.

Sóknaraðili vísar til meginreglna íslensks kröfu- og fjármunaréttar. Þá vísar sóknaraðili enn fremur til ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 6. gr. og 14. kafla. Þá vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 21. gr. Sóknaraðili vísar jafnframt til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 27., 28., 30., 31., 34., 36. og 44. gr. Þá vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til ákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því, með vísan til meginreglna kröfuréttar, að krafa sóknaraðila hafi stofnast fyrir dagsetningu réttarsáttar aðila og í reynd hafi réttarsáttin ekki í för með sér myndun nýrrar kröfu, heldur sé um að ræða sömu kröfu og um var að ræða í öndverðu. Réttaráhrif réttarsáttarinnar séu þau að með henni sé krafa sóknaraðila gerð aðfararhæf, auk þess sem fyrningarfresti kröfunnar sé slitið og nýr fyrningarfrestur hefjist. Það hafi ekkert með myndun nýrrar kröfu að gera.

Varnaraðili hafnar þeirri málsástæðu sóknaraðila að hvorki varnaraðili né umsjónarmaður hans hafi litið svo á að krafa sóknaraðila félli undir nauðasamning varnaraðila. Annars vegar hafi réttarsáttin verið undirrituð af umsjónarmanni varnaraðila með tilvísun til þess að krafan félli undir nauðasamningsfrumvarpið, hins vegar byggi staðfestur nauðsamningur á frumvarpi til nauðasamnings, sem aftur byggi á beiðni varnaraðila til greiðslustöðvunar. Bæði í tilviki greiðslustöðvunarbeiðna og nauðasamningsfrumvarps sé gerð sú krafa að grein sé gerð fyrir helstu skuldum varnaraðila. Ekki sé gerð krafa um tæmandi talningu skulda enda sé um ákveðinn ómöguleika að ræða hvað slíka upptalningu varðar. Í þeim tilvikum sé því notast við tilgreindar skuldir í ársreikningum félaga, sbr. vaxtaberandi skuldir og annað sem tilgreint hafi verið í reikningum félagsins. Tilgreining helstu skulda varnaraðila í framangreindum tilvikum hafi því ekkert með afstöðu varnaraðila og/eða umsjónarmanns við nauðasamningsumleitan að gera.

Varnaraðili mótmælir þeim málatilbúnaði sóknaraðila að ný krafa hafi stofnast við gerð réttarsáttar aðila. Andlag kröfunnar sé enn hið sama, þ.e. verið sé að greiða laun fyrir setu í stjórn stefnda frá maí 2010 til og með mars 2011. Það sé aftur á móti óumdeilt að fyrningu sé slitið með sáttinni og að nýr tíu ára fyrningarfrestur hefjist. Með réttarsátt sé oftar en ekki samið um tiltekinn gjaldfrest kröfu að einhverju eða öllu leyti. Með réttarsátt aðila hafi verið samið um að varnaraðili myndi greiða sóknaraðila kröfuna að einhverju leyti, þar með talið að teknu tilliti til áfallins vaxtakostnaðar. Í hinni umræddu réttarsátt hafi ekki verið fjallað um gjalddaga í þeim efnum. Því sé óumdeilt að gjalddagi samkvæmt réttarsáttinni, með tilliti til aðfararhæfni hennar og útreiknings dráttarvaxta, sé undirritunardagur hennar.

Þá sé krafa sóknaraðila ekki forgangskrafa samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með beitingu neikvæðrar skilgreiningar teljist allar aðrar kröfur til samningskrafna við nauðasamninga. Þar sem ekki sé um að ræða nýja kröfu sé tvímælalaust um að ræða samningskröfu sem falli undir staðfestan nauðasamning, enda hafi sóknaraðili sjálfur tekið af öll tvímæli um hvers eðlis krafan sé og hvert rætur hennar megi rekja. Þá riti umsjónarmaður við nauðasamningsumleitanir varnaraðila undir réttarsátt aðila með þeim orðum að krafa samkvæmt réttarsáttinni, sem lögð var fyrir fund kröfuhafa 3. maí 2013, falli undir frumvarp til nauðasamnings. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki mætt á þann fund þrátt fyrir framangreinda undirritun umsjónarmannsins en fyrr á tímabili samningsumleitana hafi umsjónarmaður og sóknaraðili átt samskipti um framgang umleitananna.

Því sé ranglega haldið fram í greinargerð sóknaraðila að sóknaraðili hafi ekki tekið við hlutum í varnaraðila í samræmi við staðfestan nauðasamning varnaraðila. Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög skuli stjórn félags gera hlutaskrá, þar sem hlutir skuli skráðir í númeraröð og skuli fyrir hvern hlut greint frá nafni eiganda, kennitölu og heimilisfangi. Það sé valbundið hvort gefin séu út hlutaskírteini í einkahlutafélögum. Sé þess krafist af hluthafa eða veðhafa skuli félagið gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskrána. Hlutaskírteini þau sem gefa megi út samkvæmt 3. mgr. 19. gr. séu ekki viðskiptabréf eins og hlutabréf í hlutafélögum séu almennt. Í einkahlutafélögum sé hlutaskráin aðalheimildin um eignaraðild í einkahlutafélaginu. Með tilkynningu, dagsettri 16. ágúst 2013, hafi verið tilkynnt um nýjan hluthafalista á grundvelli nauðasamnings félagsins sem staðfestur hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júlí 2013. Með framangreindri tilkynningu hafi m.a. fylgt afrit af staðfestum nauðasamningi varnaraðila og hluthafalisti varnaraðila og hafi tilkynningin verið send öllum hluthöfum samkvæmt nýjum hluthafalista dagsettum 1. ágúst 2013. Um sé að ræða sama hluthafalista og varnaraðili hafi lagt fram við sýslumann undir aðfarargerðinni. Ekki verði um villst að þar sé fyrir að fara nafni sóknaraðila og téðri hlutafjáreign hans í varnaraðila í samræmi við staðfestan nauðasamning varnaraðila.

Með vísan til alls þessa sé þess krafist að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2014 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-01277 verði staðfest.

Krafa um málskostnað styðst við 129. gr., sbr. 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við ákvörðun málskostnaðar verði ekki aðeins tekið mið af málarekstri þessum heldur verði jafnframt tekið tillit til þeirrar hagsmunagæslu sem varnaraðili hafi þurft að standa straum af vegna kröfu sóknaraðila.

IV

Niðurstaða

Mál þetta er rekið samkvæmt 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför og hefur sóknaraðili réttilega beint beiðni sinni um úrlausn þess ágreinings sem reis við framkvæmd gerðar nr. 011-2014-01277, í samræmi við ákvæði 85. gr. þeirra laga, og haft uppi kröfu sína þar að lútandi við sýslumann við gerðina.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort krafa sóknaraðila samkvæmt dómsátt, sem málsaðilar gerðu 26. apríl 2013 í máli nr. E-1750/2012, sé samningskrafa sem falli undir nauðasamning varnaraðila er staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2013. Fyrir liggur að varnaraðila var veitt heimild til að leita nauðasamnings við kröfuhafa sína samkvæmt reglum 3. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2013. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 hefur nauðasamningur ekki áhrif á kröfur sem hafa orðið til eftir að úrskurður gekk um heimild skuldarans til að leita nauðasamnings.

Ekki er um það deilt að krafa sóknaraðila, sem málið nr. E-1750/2012 var höfðað til innheimtu á, á rætur sínar að rekja til vangoldinna launa fyrir stjórnarsetu sóknaraðila í stjórn varnaraðila á árunum 2010 og 2011. Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að þegar krafa er dæmd eða gerð um hana dómsátt verður eðlisbreyting á réttarsambandi aðila. Krafa kröfuhafans snýst ekki lengur um að krafan verði efnd eftir upphaflegu efni sínu, heldur að hún verði efnd í samræmi við dómsorð eða dómsátt aðila. Þá er því ekki mótmælt að krafa sóknaraðila samkvæmt dómsáttinni sé annarrar fjárhæðar en upphafleg stefnufjárhæð sóknaraðila. Verður samkvæmt þessu öllu að fallast á það með sóknaraðila að krafa hans hafi orðið til eftir að úrskurður gekk um heimild varnaraðila til að leita nauðasamnings, í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991.

Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi afsalað sér rétti sínum samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. sömu greinar, þannig að krafa hans falli samt sem áður undir nauðasamning aðila. Ekkert slíkt afsal er tiltekið í dómsátt aðila. Undirritun umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum varnaraðila getur ekki breytt þessu mati, enda var undirritun hans undir réttarsáttina nauðsynleg samkvæmt 21. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Ef krafan hefði átt að falla undir nauðsamning aðila hefði þurft að taka það skýrlega fram í henni.

Auk þess verður ekki fram hjá því litið að krafa sóknaraðila er hvorki tilgreind í beiðni um nauðasamning né í frumvarpi um nauðasamning sem telja verður að sé ekki í fullu samræmi við fyrirmæli 3. töluliðar 34. gr. og 36. gr. laga nr. 21/1991. Verður að telja að krafa sóknaraðila hafi ekki verið óþekkt, enda hafði hann höfðað mál á hendur varnaraðila vegna hennar 29. maí 2012. Þá er engan veginn hægt að líta svo á að handritun umsjónarmanns á dómsátt aðila jafngildi formlegri tilkynningu til kröfuhafa í samræmi við ákvæði 44. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess telur dómurinn ekki unnt að lesa út úr hinum handritaða texta á dómsáttinni að krafan falli undir nauðsamningsfrumvarp varnaraðila 3. maí 2013 enda má ljóst vera af atvikum málsins að frumvarp til nauðasamnings var ekki lagt fram þann dag, heldur mun fyrr en 6. mars 2013.

Að lokum þykir tilkynning til hluthafaskrár um nýjan hluthafalista, þar sem sóknaraðili er tilgreindur meðal hluthafa á grundvelli nauðasamnings félagsins, ekki geta ráðið því að krafa sóknaraðila falli þar með undir nauðasamning varnaraðila.

Samkvæmt öllu framansögðu verður að fallast á það með sóknaraðila að krafa hans sé ekki samningskrafa í skilningi 29. gr. laga nr. 21/1991 og falli af þeim sökum ekki undir nauðasamning varnaraðila. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 7. febrúar sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2014 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-01277 er felld úr gildi. Lagt er fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að halda gerðinni áfram.

Varnaraðili, Green Diamond International ehf., greiði sóknaraðila, Friðriki Helga Vigfússyni, 350.000 krónur í málskostnað.