Hæstiréttur íslands

Mál nr. 773/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 1. febrúar 2010.

Nr. 773/2009.

Magnús Sigurðsson

(sjálfur)

gegn

Fornhaga 11-17, húsfélagi

(Eva Bryndís Helgadóttir hrl.)

Húseigendafélaginu

Davíð Stefánssyni

Guðbjörgu Matthíasdóttur

Guðmundi St. Ragnarssyni

Guðrúnu Huldu Ólafsdóttur

Kristínu Mjöll Jakobsdóttur

Rannveigu Júníönu Bjarnadóttur

Þorsteini Bjarnasyni og

Þorsteini Einarssyni

(Sigurður H. Guðjónsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli hans gegn F, húsfélagi o.fl. Talið var að eins og kröfugerð M væri fram sett væri verið að krefja dóminn um álit á ýmsu lögfræðilegu efni, en það sé í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Dómkröfurnar hafi ekki fullnægt skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laganna. Þá væri lýsing málsástæðna ekki gagnorð og skýr, sbr. e. lið 1. mgr. sömu greinar. Samhengi málsástæðna og dómkrafna væri óljóst, svo og sakarefnið, og ekki gerð grein fyrir því hvaða kröfur væru gerðar á hendur hverjum og einum stefndu. Einungis væri heimilt að stefna mörgum aðilum ef dómkröfurnar ættu rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Væri því skilyrði ekki fullnægt í málinu. Ekki var talið að úr þessu yrði bætt við efnismeðferð málsins. Var málinu því vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2009, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af kæru sóknaraðila verður ráðið að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

        Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

        Sóknaraðili, Magnús Sigurðsson, greiði varnaraðilum, Fornhaga 11-17, húsfélagi, Húseigendafélaginu, Davíð Stefánssyni, Guðbjörgu Matthíasdóttur, Guðmundi St. Ragnarssyni, Guðrúnu Huldu Ólafsdóttur, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur, Rannveigu Júníönu Bjarnadóttur, Þorsteini Bjarnasyni og Þorsteini Einarssyni, hverjum fyrir sig 20.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2009.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 3. desember 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Magnúsi Sigurðssyni, Fornhaga 11, Reykjavík, á hendur Húsfélaginu Fornhaga 11-17, Reykjavík, Húseigendafélaginu, Síðumúla 29, Reykjavík, og jafnframt á hendur Davíð Stefánssyni, Fornhaga 17, Reykjavík, Guðbjörgu Matthíasdóttur, Bugðutanga 30, Mosfellsbæ, Guðmundi St. Ragnarssyni, Ásvallagötu 10, Reykjavík, Guðrúnu Huldu Ólafsdóttur, Háteigsvegi 54, Reykjavík, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur, Fornhaga 11, Reykjavik, Rannveigu Júníönu Bjarnadóttur, Fornhaga 13, Reykjavík, Þorsteini Bjarnasyni, Fornhaga 17, Reykjavík, og Þorsteini Einarssyni, Sólvallagötu 28, Reykjavík, með stefnu birtri 27. og 28. ágúst 2009.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Stefnandi gerir þá kröfu, að dómurinn staðfesti, að eftirtalið atferli stefndu hafi verið ólögmætt gagnvart honum:

1.       Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, að halda ekki aðalfund fyrir árið 2008 fyrr en 5. nóv. 2008.

2.       Sú ákvörðun/athöfn annars vegar stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að hafa stefnanda með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórninni, og hins vegar Guðmundar St. Ragnarssonar, kt. ……. starfsmanns Húseigendafélagsins, kt. ……. að hann tæki þegar í upphafi aðalfundar húsfélagsins Fornhaga 11-17 hinn 5. nóv. 2008 í sínar hendur stjórn fundarins og stjórnaði honum síðan og m.a. skipaði Inga Frey Ágústsson, kt. …….. laganema, fundarritara.

3.       Sú ákvörðun/athöfn aðalfundar húsfélagsins Fornhaga 11-17 hinn 5. nóv. 2008, að félagið skyldi gerast félagsaðili Húseigendafélagsins.

4.       Sú ákvörðun/athöfn Guðmundar St. Ragnarssonar í hlutverki fundarstjóra aðalfundar húsfélagsins Fornhaga 11-17 hinn 5. nóv. 2008 að neita Karen Z. Zurga, kt. …, sambýliskonu stefnanda, um málfrelsi, og atkvæðisrétt á fundinum.

5.       Sú ákvörðun/athöfn formanns stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, Rannveigar Júníönu Bjarnadóttur, að boða ekki stefnanda á stjórnarfundi húsfélagsins á tímabilinu 05.11.08 til 27.04.09.

6.             Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að hafa stefnanda með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórninni, að beita félaginu gegn stefnanda, svo sem með því að kaupa þjónustu húsfélagsins, sem fólst m.a. í því að senda stefnanda bréf, dags. 26.01.09, „Áskorun um betri samskiptahætti“, með umtalsverðum kostnaði m.a. fyrir húsfélagið þ.m.t. stefnanda, og að boða í nafni húsfélagsins til aðalfundar þess 27. apríl 2009 og ákveða fundinum dagskrá í fundarboði að stefnanda fornspurðum, þar sem sagði undir tl. 17: „Sambýlishættir og framkoma Magnúsar og Karenar. Tillaga um að stjórn verði falið í samráði við lögmann Húseigendafélagsins að veita þeim áminningu nr. 2 og skora á þau að taka upp betri siði að viðlögðum úrræðum 55: gr. fjöleignarhúsalaga“ og samþykkja síðan með atbeina Guðrúnar Huldu Ólafsdóttur, kt. … lögfræðings og starfsmanns Húseigendafélagsins, í hlutverki fundarstjóra á aðalfundi félagsins hinn 27.04.09 nefnda tillögu með 14 atkvæðum gegn einu og lýsa því yfir með bókun í fundargerð, að tillagan teldist samþykkt.

7.         Það atferli lögfræðinga Húseigendafélagsins, þeirra Guðbjargar Matthíasdóttur, Guðmundar St. Ragnarssonar og Guðrúnar Huldu Ólafsdóttur, að gæta með afskiptum sínum á engan hátt hagsmuna stefnanda í deilum þeim sem hann hefur lent í innan húsfélagsins Fornhaga 11-17.

8.    Sú ákvörðun/athöfn/athafnaleysi stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að halda ekki fyrir árið 2008 og fram aðalfundi þess 27.04.09, bókhald fyrir húsfélagið á réttan og fullnægjandi hátt.

9.    Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17 án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að afla yfirdráttarheimildar á reikningi húsfélagsins hjá Íslandsbanka nr. 515-26-….. upp á 3.000.000.00 kr. fyrir tímabilið 21.12.07-20.11.08, án þess að húsfundur félagsins hefði samþykkt það.

10.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, og án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að greiða Ragnari V. Sigurðssyni ehf. (skammstafað RVS ehf.), kt. ….., 12.118.780 kr. á tímabilinu 21.12.07 til 03.03.09 samkvæmt verksamningi sem ekki verður séð að hafi hlotið fullnægjandi samþykki húsfundar félagsins.

11.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að greiða Peter Martisovic, kt. …23.10.06, 375.000 kr. og 25.04.08 149.800 kr. eða samtals 524.800 kr. og án þess að sú ákvörðun/athöfn hafi hlotið fullnægjandi samþykki húsfundar félagsins.

12.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að stofna í nafni félagsins til skuldar við einkahlutafélagið Garðar Best ehf., kt. …., á árinu 2008 og greiða því 588.340 kr. á árinu 2008, án þess að húsfundur félagsins hefði samþykkt það, og síðan greiða nefndu einkahlutafélagi 78.001 kr. á árinu 2009 fram að aðalfundi félagsins 27.04.09 án þess að sú ákvörðun/athöfn hafi hlotið fullnægjandi samþykki húsfundar félagsins.

13.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að stofna í nafni félagsins til „bráðaskulda að fjárhæð rúmlega kr. 1.5 milljón“ á árinu 2009 fram að aðalfundi 27.04.09, án þess að fyrir lægi fullnægjandi samþykki húsfundar félagsins.

14.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að taka hjá tollstjóranum í Reykjavík við endurgreiddum virðisaukaskatti á árunum 2006 til 2009 samtals að fjárhæð 888.059 kr. án þess að hann væri síðan endurgreiddur íbúðareigendum í réttu hlutfalli við hlutfallstölu íbúða.

15.     Sú álvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að greiða úr sjóði húsfélagsins fyrir þrif í stigagangi Fornhaga 13 án þess að eigendur íbúða í þeim stigagangi væru einir endurkrafðir um þann kostnað.

16.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að nota 01.06.08 fé úr sjóði félagsins til kaupa og ísetningar á eldvarnarhurð og svalahurð, þ.e. til endurbóta á séreign Kristínar Mjallar, samtals að verðmæti 317.530 kr.(111.400.00 + 206.130) án þess að hið útlagða fé væri bókað sem skuld og síðan endurgreitt, og jafnframt til að endurnýja öll gluggafög í íbúð hennar fyrir 225.461 kr. án þess að féð væri bókað sem skuld og síðan endurgreitt.

17.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að stofna til innheimtu á fjárkröfu á hendur honum vegna skuldar, sem sögð er að hluta varða stigagang Fornhaga 11 og að hluta húsfélag Fornhaga 11-17, með aðstoð lögfræðiskrifstofu úti í bæ, samtímis sem öðrum íbúðareigendum hefur verið sleppt við slíka innheimtu vegna löngu gjaldfallinna skulda.

18.     Sú ákvörðun/athöfn stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, og án þess að stefnandi væri hafður með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórn félagsins, að taka við leigu samkvæmt ógildum samningi húsfélagsins Fornhaga 11-17 og Landssíma hf. (nú Síminn hf.) kt. ….. um leigu á stæði fyrir loftnet á fjöleignarhúsinu Fornhaga 11-17, dags. 12.11.2003, og án þess að leigan væri endurgreidd íbúðareigendum í réttu hlutfalli við hlutfallstölu íbúða.

19.     Sú ákvörðun/athöfn annars vegar stjórnar húsfélagsins Fornhaga 11-17, án þess að hafa stefnanda með í ráðum þegar hann átti sæti í stjórninni, og hins vegar Guðrúnar Huldu Ólafsdóttur, kt. …….. , lögfræðings og starfsmanns Húseigendafélagsins, að hún tæki í upphafi aðalfundar húsfélagsins Fornhaga 11-17 hinn 27. apríl 2008 fundarstjórn í sínar hendur og stjórnaði síðan fundinum, og m.a. skipaði Hörpu Hörn Helgadóttur, kt. …………, ritara fundarins.

20.     Sú ákvörðun/athöfn formanns húsfélagsins Fornhaga 11-17, Rannveigar Júníönu Bjarnadóttur, og Guðrúnar Huldu Ólafsdóttur, kt. ……., lögfræðings og starfsmanns Húseigendafélagsins í hlutverki fundadrstjóra á aðalfundi Húsfélagsins Fornhaga 11-17 hinn 27.04.09 að veita í nafni Húsfélagsins Fornhaga 11-17 leigjandanum, Ásdísi Ársælsdóttir, kt. ……, Fornhaga 13, málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt á fundinum, þótt hún væri ekki íbúðareigandi og hefði ekki verið með skriflegt umboð frá íbúðareiganda.

21.          Sú ákvörðun formanna. húsfélagsins, þeirra Davíðs Stefánssonar, Rannveigar Júníönu Bjarnadóttur og Kristínar Mjallar Jakobsdóttur, að taka sér laun úr hússjóði 15.000 kr. mánaðarlega og þar að auki sérgreiðslur vegna ýmiss konar kostnaðar svo sem sérstakra verkefna, eins og t.d. bókhaldsvinnu, án heimildar frá húsfundi.

Stefnandi gerir kröfu um, að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað óskipt. 

Stefndu krefjast þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi en til vara krefjast þeir sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar í aðal- og varakröfu.

Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu og krefst þess að málið verði tekið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar.

Mál þetta virðist tilkomið vegna samskiptaerfiðleika í fjöleignarhúsi því sem stefnandi býr í.

Stefndu, húsfélagið Fornhaga 11-17, Reykjavík, Davíð Stefánsson, Kristín Mjöll Jakobsdóttir, Rannveig Júníana Bjarnadóttir, Þorsteinn Bjarnason og Þorsteinn Einarsson, gera kröfu um frávísun máls þessa frá héraðsdómi á þeim grundvelli að kröfugerð stefnanda sé svo vanreifuð og óskýr að ekki séu uppfylltar meginreglur réttarfars. Dómkröfur stefnanda eru mjög óskýrar og óljóst með öllu hvort málsókn stefnanda feli í sér raunverulega lausn á ágreiningi. Telja stefndu að kröfugerð stefnanda uppfylli ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá telja stefndu að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga þar sem samhengi málsástæðna er óljóst sem og hvert sakarefnið er. Ekki er ljóst hvaða kröfur eru gerðar á hendur hverjum stefndu né hvernig þeir verða bundnir af dómi í málinu.

Þá telja stefndu aðild til varnar verulega vanreifaða og óljósa. Ekki er gerð grein fyrir því á hvaða grunni dómkröfur stefnanda á hendur öllum stefndu eru svo að skilyrði samaðildar til varnar séu til staðar. Stríðir þetta gegn ákvæði 19. gr. sem og 27. gr. laga nr. 91/1991 og er gerð krafa um frávísun málsins í heild sinni af þessum sökum.            

Telja stefndu að kröfugerð stefnanda sé svo óljós að stefndu sé erfitt um vik að taka til efnislegra varna. Þrátt fyrir þá meginreglu réttarfars að dómara beri að leiðbeina ólöglærðum aðilum vegna málsmeðferðar fyrir dómi þá telja stefndu að ekki sé mögulegt að bæta úr annmörkum stefnu þannig að stefndu geti tekið til réttmætra varna í málinu. Að mati stefndu sér þess hvergi stað í íslenskri réttarfarslöggjöf að stefnandi hafi það í eigin valdi að láta hjá líða að skilgreina kröfur sinar og krefja síðan alla stefndu um málskostnað in solidum. Þessi framsetningarmáti á kröfugerð stríðir beinlínis gegn meginreglum réttarfars um skýra og ljósa kröfugerð og er mál þetta svo vanreifað af hálfu stefnanda að dómur verður ekki á það lagður. Stefndu er enda mikill vandi á höndum að taka til varna þar sem næsta óljóst er á hverju er byggt af hálfu stefnanda.

Þá verður ekki ráðið af stefnu málsins hvaða lögvörðu hagsmunir stefnanda eru fyrir hendi þannig að uppfylli skilyrði meginreglu réttarfars um að sakarefnið eigi undir lögsögu dómstóla og að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr því, sbr. 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991. Dómstólar verða ekki krafðir svara við lögspurningum eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Ber því að vísa málinu frá dómi á þeim grundvelli.

Stefndu, Húseigendafélagið, Guðbjörg Matthíasdóttir, Guðmundur St. Ragnarssonar og Guðrún Hulda Ólafsdóttur, taka fram að þau telji að málatilbúnaður stefnanda sé allur með endemum og ólíkindum og fari berlega í bága við réttarfarslög í flestum atriðum. Hann er sannkölluð steypa eins og stundum er sagt. Á það við um aðildina, kröfugerðina, reifun málavaxta og málsástæðna og lagalegan rökstuðning, sem byggist að mestu á ranghugmyndum, rangtúlkunum og lagalegum misskilningi. Kröfugerðin er út og suður, óljós og ruglingsleg. Kröfurnar eru þvæluleg samsuða sem einkennist af málalengingum, útskýringum og misskilningi á misskilning ofan. Ekki verður með fullri vissu ráðið hvaða kröfur beinast að hverjum stefndu, á hvaða grundvelli og í hvaða skyni. Sakarefnið er óljóst og kyrfilega falið málalengingum og vaðli. Samhengi málsástæðna og krafna er víðast á huldu. Kröfugerðin ein er á tæplega 4 blaðsíðum og í 21 lið fyrir utan málskostnaðarkröfuna. Það segir sína sögu, og þarf ekki frekari-vitna-við, að stefnan er 37 blaðsíður og er þar mjög farið um víðan völl. Stefnan er óheyrilega langur, illskiljanlegur og óljós vaðall, sem geymir brigsl og ásakanir og rangar og staðlausar ávirðingar í garð stefndu.

Skrifleg reifun í stefnu á atvikum, kröfum og málsástæðum á, samkvæmt a. og b. liðum 1. mgr. 80. gr. eml., að vera stutt, gagnorð og hnitmiðuð og svo skýr að sakarefnið fari ekki á milli mála. Sakarefnið á sem sagt að vera afmarkað og „konkret“ og útlistun þess skýr. Menn mega ekki missa sig út í skriflegan málflutning og fara út í öfgar í því efni. Stefnan er einn allsherjar skriflegur málflutningur, yfirgripsmikill og beinist mjög og helst að aukaatriðum. Málatilbúnaður stefnanda er dæmalaus blanda af vanreifun og ofreifun. Það skortir á að grundvallaratriðum sé gerð fullnægjandi skil. En á hinn bóginn er mikill vaðall um aukaatriði og atriði sem engu máli skipta. Má með sanni segja að stefnandi fari í málatilbúnaði sínum eins og grautur í kring um heitan kött. Máltilbúnaður stefnanda er skólabókardæmi um forkastanlegan málatilbúnað og lagalegt og réttarfarslegt gönuhlaup. Hefði stefnandi betur leitað sér hollrar ráðgjafar. Það hefði getað bjargað honum úr þeim ógöngum sem hann er í með þetta mál.

Í réttarfari er kennt að dómkröfur skuli vera þannig fram settar og úr garði gerðar að taka megi þær óbreyttar upp í dómsorðið, ef því er að skipta. Kröfur stefnanda eru hins vegar þannig að óravegur er frá að þær séu svo ákveðnar og skýrar að þær fullnægi þeim kröfum og reglum sem réttarfarsreglur gera. Dómsorð, í sömu veru og kröfugerð stefnanda í þessu máli, gæti aldrei orðið nema sem réttarfarslegt stórslys. Kröfur stefnanda eru allar, og að öllu leyti, dæmigerðar lögspurningar eða öllu heldur lögspurningaflóð og með öllu ódómtækar. Dómstólar leysa úr ágreiningi um réttindi og skyldur að lögum og um staðreyndir en svara ekki lögspurningum. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. eml. verða dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Lögvarðir hagsmunir verða að ráða för og kröfum. Með lögspurningaleik sínum í þessu máli fer stefnandi á skjön við þessa grundvallarreglu réttarfarslaga.

Samkvæmt 2. málslið 1. töluliðar 19. gr. eml. má sækja fleiri en einn aðila í sama máli ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Ella skal vísa máli frá að kröfu varnaraðila. Umbjóðendur mínir byggja á að varnaraðildin, og sú samspyrðing og kröfusamsteypa sem þar er viðhöfð, fullnægi ekki þessum skilyrðum og er frávísunarkrafan m.a. á því reist.

Það ber að stemma stigu við svona málarekstri og málatilbúnaði. Vitaskuld er rétturinn, til að bera mál og ágreining undir dómstóla, heilagur. En þeim rétti fylgir ábyrgð og skyldur. Menn eiga ekki að ómaka dómstóla að þarflausu með hvaða endaleysu sem er og tilreiða hana í bága við reglur réttarfarsins. Menn eiga ekki að komast upp með að misnota málshöfðunarréttinn og draga Pétur og Pál fyrir dóm að ósekju og óþörfu. Menn eiga ekki að komast upp með að stefna saklausu fólki til hægri og vinstri og valda því ama, leiðindum, fyrirhöfn og kostnaði sem fylgir því að taka til varna í dómsmáli. Fólk verður nauðugt viljugt að svara til saka og verja hendur sínar enda þótt kröfur séu rangar og málatilbúnaðurinn ónýtur eða gallaður. Það er mikill ábyrgðarhluti að efna til dómsmála og menn eiga ekki að gera slíkt að gamni sínu. Og höfði menn mál verða þeir að fara að með réttum hætti og virða þær reglur sem um málatilbúnað og rekstur dómsmála gilda. Enginn á rétt á afslætti í því efni.

Ólöglærðir verða vitaskuld að virða réttarfarsreglur. Þeir mega ekki skáka í því skjóli að dómarinn, vegna leiðbeiningarskyldu sinnar, hjálpi þeim að lappa upp á málatilbúnaðinn. Stefnandi viðurkennir réttarfarslegan vanmátt sinn með því að kalla eftir leiðbeiningum dómara um formhlið málsins. Þeir gallar sem eru á málatilbúnaði hans eru hins vegar svo margir og stórfelldir að úr þeim verður ekki bætt með leiðbeiningum dómara. Málatilbúnaður stefnanda er slíkur óskapnaður og klúður, að honum er ekki við bjargandi. Verður með engu móti hjá því komist að vísa málinu frá að kröfum allra stefndu. Í raun þyrfti ekki kröfu til. Máltilbúnaðurinn æpir sjálfur á frávísun.

Til að stefnandi læri lexíu af þessu málabrölti og hemji málshöfðunargleði sína gagnvart saklausu sambýlisfólki sínu og öðrum sem hann brigslar um lögbrot og ósvinnu og telur flækjast fyrir á réttlætisvegi sínum, þarf hann að fá makleg málagjöld. Hann verður nauðsynlega að finna það á pyngju sinni með því að vera gert að greiða öllum stefndu ríflegan málskostnað. Með því kann málum að linna.

Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu. Hann telur stefnuna uppfylla skilyrði d. og e. liðar 80. gr. eml. Hann telur kröfugerð sína skýra og glögga. Málsástæðurnar liggi skýrt fyrir og séu gagnorðar. Hann telur hins vegar að frávísunarkröfur stefndu séu vanreifaðar og óskýrar og ekki sé tekið eitt einasta dæmi úr hans málatilbúnaði sem sé óskýrt.

Hann telur sig hafa lögvarða hagsmuni í málinu. Fjöleignarhúsalögin nr. 26/1994 hafi verið brotið gagnvart honum og lögbrotin séu rakin lið fyrir lið í stefnu málsins.

Niðurstaða

Stefnandi er íbúi og eigandi íbúðar að Fornhaga 11, Reykjavík. Mál þetta er tilkomið vegna erfiðleika í samskiptum hans og annarra íbúa. Stefna málsins er 37 blaðsíður. Dómkröfurnar eru tilgreindar í 21 kröfulið á 4 blaðsíðum, auk þess sem gerð er málskostnaðarkrafa.

Í málinu er ekki gerð krafa um peningagreiðslu né heldur er gerð viðurkenningarkrafa. Samkvæmt stefnunni er verið að gera kröfu um að „atferli“ stefndu, sem talin eru upp í kröfuliðunum, séu ólögmæt gagnvart stefnanda. Eins og kröfugerðin er sett fram er verið að krefja dóminn um álit á ýmsu lögfræðilegu efni, en það er í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.

Dómkröfurnar fullnægja ekki skilyrði því sem sett er í d-lið 80. gr. eml. Þá er lýsing málsástæðna ekki gagnorð og skýr svo sem áskilið er í e-lið sömu greinar. Samhengi málsástæðna og dómkrafna er óljóst, svo og sakarefnið, og ekki er gerð grein fyrir því hvaða kröfur eru gerðar á hendur hverjum og einum stefnda.

Í málinu er alls átta einstaklingum og tveimur félögum stefnt. Slíkt er einungis heimilt, ef dómkröfurnar eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Skilyrði þessu er ekki fullnægt í málinu og leiðir það einnig til þess að vísa eigi málinu frá dómi.

Með vísan til þess sem að framan greinir er málinu vísað frá dómi. Frávísunarástæður þessar eru þess eðlis að úr þeim verður ekki bætt við efnismeðferð málsins. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála bera stefnanda að greiða stefndu málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 50.000 kr. til hvers og eins.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Málinu er vísað frá dómi. 

Stefnandi greiði hverjum stefnda um sig 50.000 kr. í málskostnað.