Hæstiréttur íslands

Mál nr. 288/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. september 2003.

Nr. 288/2003.

K

(Jóhann H. Níelsson hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

K krafðist þess að vikið yrði á nánar tiltekinn hátt frá helmingaskiptum við opinber skipti til fjárslita milli hennar og M vegna hjónaskilnaðar og henni yrði heimilað að taka að óskiptu eignir sem hún á árinu 1996 hafði erft eftir móður sína og fengið að gjöf frá föður sínum. Með vísan meðal annars til þess tíma sem hjúskapur K og M stóð yfir og þess tíma sem liðinn var frá því að K eignaðist umþrættar eignir, þess að ekki var gerður kaupmáli milli þeirra auk þess sem ekkert gaf til kynna að öðru leyti að eignum þessum hefði verið ætlað að vera utan fjárfélags þeirra sem hjóna, þótti ekki sýnt að það væri augljóslega ósanngjarnt að eignirnar féllu undir skiptin. Var kröfum K því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2003, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um að vikið yrði á nánar tiltekinn hátt frá helmingaskiptum við opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við fjárslit milli hennar og varnaraðila verði henni heimilað aðallega að taka af óskiptu 56,32% eignarhlut í íbúðarhúsi frá árinu 1953 á jörðinni X, 50% eignarhlut í sömu jörð að meðtöldu ræktuðu landi, hlunnindum, fjósi, fjárhúsi, hesthúsi og hlöðu og 4,16667% eignarhlut í jörðinni Y ásamt veiðiréttindum, til vara 3/4 hluta þessara eigna, en til þrautavara 2/3 hluta þeirra. Að þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að „þeir eignarhlutar hinna umþrættu eigna, sem sóknaraðili hlaut að arfi eftir móður hennar og tilgreindir eru á skiptayfirlýsingu á héraðsdómsskjali nr. 28, falli utan helmingaskiptareglu ... og að sóknaraðila verði heimilað að taka þessar eignir að óskiptu við skiptin.“ Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að mun lægra hlutfall fyrrgreindra eigna en áður er getið komi að óskiptu í hlut sóknaraðila. Til þrautavara gerir varnaraðili sömu kröfu og sóknaraðili gerir sem ítrustu varakröfu fyrir sitt leyti samkvæmt framansögðu. Varnaraðili krefst jafnframt kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.


Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2003.

Mál þetta var þingfest 16. maí 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 13. júní sl.

                Sóknaraðili er K.  Varnaraðili er M.

 

Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega að við fjárskipti milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu eftirtaldar eignir:

 

A:  X, hluti af gömlu íbúðarhúsi, sem stendur á jörðinni X, byggt 1953.  Eignarhluti sem er 56,32% af eigninni allri.

B:  X, hluti jarðarinnar X ásamt ræktuðu landi, hlunnindum og gömlum jarðarhúsum (fjósi, fjárhúsi, hesthúsi og hlöðu).  Eignarhluti sem er 50,00% af eignunum öllum

C:  Y, ásamt lax- og silungsveiði.  Eignarhluti sem er 4,16667% af eigninni allri.

 

Til vara krefst sóknaraðili að við fjárskipti milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu ¾ hluta sömu eigna og áður sagði í málsgreinum A, B og C.

Til þrautavara krefst sóknaraðili við fjárskipti milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu 2/3 hluta sömu eigna og áður sagði í málsgreinum A, B og C.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

 

Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila málsins og að staðfest verði að um skipti milli aðila fari að öllu leyti samkvæmt helmingaskiptareglu 103. gr. laga 31/1993.

Til vara er krafist að annað og miklum mun lægra hlutfall eigna samkvæmt mati réttarins falli utan helmingaskiptanna.

Til þrautavara er krafist að aðeins þeir eignarhlutar hinna umþrættu eigna falli utan helmingaskiptanna sem til sóknaraðila féllu sem arfur eftir móður hennar og tilgreindir eru á skiptayfirlýsingu á dskj. 28.

Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tillit tekið til 24,5% virðisaukaskatts sem leggst ofan á þóknun lögmanns varnaraðila í málinu.

 

Aðdragandi þessa máls er sá að sóknaraðili krafðist opinnberra skipta til fjárslita milli aðila á grundvelli 98. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 101. sömu laga, með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2003.

Í kröfu sóknaraðila kom fram að 26. apríl 2002 hafi prestur gert árangurslausa sáttatilraun með hjónunum en ósamlyndis hafi gætt í sambúð þeirra.  Þá segir að í lok september 2002 hefðu hjónin slitið samvistum og ekki búið saman síðan.  Tilraunir þeirra til þess að semja um fjárskiptin sín á milli hafi ekki borið árangur og geti lögskilnaður, sem þau séu bæði sammála um að óska eftir á grundvelli hjúskaparbrots sóknaraðila, ekki farið fram af þeim sökum.

   Helstu eignir hjónanna voru taldar þessar:

   1.  [...], íbúðarhús og bílskúr                                                                          kr.               15.939.000

   2.  X, hluti af gömlu íbúðarhúsi                                                                     kr.                 5.100.902

   3.  X, hluti jarðar                                                                                              kr.                 3.396.000

   4.  Tvær landspildur úr landi Y                                                                      kr.                      41.666

   5.  Bifreiðin, [...] árgerð 2001                                                                          kr.                 1.800.000

   6.  Innbú                                                                                                           kr.                    500.000

   Áætlaðar skuldir séu:

   Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins                                                              kr.                 4.106.782

   Íslandsbanki hf.                                                                                               kr.                 1.079.359

   Búnaðarbanki Íslands hf.                                                                               kr.                 2.017.000

   Síðan sagði að samkomulag væri um að eignir samkvæmt liðum 1, 5 og 6 kæmu til skipta að jöfnu milli aðila samkvæmt meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga, en ágreiningur væri milli aðila um skipti á öðrum eignum.  Sóknaraðili hafi gert þá kröfu að allar eignir samkvæmt liðum 2, 3 og 4 félli utan skipta og færu óskiptar til hennar þar sem allar þessar eignir hefðu fallið til hennar sem arfur eftir foreldra hennar, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993.  Það væri ljóst að eignirnar hefðu umtalsvert verðgildi umfram fasteignamat er við var miðað í framangreindri upptalningu eigna.  Varnaraðili hafi á hinn bóginn gert þá kröfu að allar eignir samkvæmt liðum 2, 3 og 4 kæmu til skipta að jöfnu.

Þá var lýst að aðilar væru sammála um að ágreiningur þeirra yrði lagður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til úrskurðar og bæði væru samþykk opinberum skiptum.

Með úrskurði 11. apríl 2003 var síðan kveðið á um að opinber skipti færu fram til fjárslita milli K, sóknaraðila þessa máls, og M, varnaraðila þessa máls.  Dómari skipaði Steinunni Guðbjartsdóttur hdl. skiptastjóra.

Á skiptafundi 9. maí 2003 er bókað m.a. að aðilar hafi gengið í hjónaband 2. apríl 1972 og slitið samvistum í september 2002.  Krafa um skilnað að borði og sæng hafi verið sett fram hjá sýslumanninum í Reykjavík 1. apríl 2003 og sé sami dagur viðmiðunardagur skipta.  Þá var bókað að samkomulag væri um að skipta að jöfnu milli hjónanna samkvæmt meginreglu 104. gr. hjúskaparlaga íbúðarhúsi og bílskúr að [...], bifreiðinni [...], árgerð 2001, og innbúi.  Ágreiningur væri hins vegar milli hjónanna um skiptingu á öðrum eignum.  Bókað var að K krefðist þess að aðrar greindar eignir fengi hún óskiptar, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993, þar sem allar þessar eignir hefðu fallið til hennar sem arfur eftir foreldra hennar.  Það væri ljóst að eignirnar hefðu umtalsvert verðgildi umfram fasteignamat. 

Af hálfu varnaraðila var á skiptafundinum á hinn bóginn krafist að öllum eignum hjónanna yrði skipt jafnt á milli þeirra með vísun til helmingaskiptareglu hjúskaparlaga.  Hjónin hefðu ekki gert með sér kaupmála og hjúskapur staðið lengi og fullkomin fjárhagsleg samstaða hefði verið með aðilum.  Lagaskilyrðum til skáskipta væri þannig ekki fullnægt.

Þar sem sóknaraðili hefði fengið umtalsverða fjármuni í arf, var hins vegar talið af hálfu sóknaraðila, að skilyrði skáskipta væru fyrir hendi og vísað til l. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga í því sambandi.  Helmingaskipti væru bersýnilega ósanngjörn.

Álit skiptastjóra varð að við skiptin bæri að beita helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga.  Aðilar málsins hefðu ekki gert með sér kaupmála.  Þær eignir sem ágreiningur væru um í málinu hefði konan fengið í arf eftir foreldra sína fyrir u.þ.b. 7 árum.  Arfurinn hefði ekki verið bundinn þeirri kvöð að hann skyldi vera séreign í hjúskap konunnar.  Helmingaskiptaregla hjúskaparlaganna væri meginregla um skipti milli hjóna og frávik frá henni bæri að skýra þröngt.

Þar sem sóknaraðili gat ekki sætt sig við afstöðu skiptastjóra var ákveðið að vísa málinu til dómstóla.

 

Sóknaraðili styður kröfu sína um að vikið verði frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 í fyrsta lagi á því að helmingaskipti á þeim eignum, sem krafan tekur til, sé bersýnilega ósanngjörn.  Í 104. gr. hjúskaparlaga komi fram sú vísiregla að greinin eigi við þegar helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga sé bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna.  Í síðari málslið 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga sé tekið fram að greinin eigi við t.d. ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnunina eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.  Í greinargerð með frumvarpi að hjúskaparlögum nr. 31/1993 sé jafnframt tekið fram að það hafi verið stefna löggjafans að rýmka skilyrði þess að heimila frávik frá helmingaskiptareglu við hjúskaparslit.  Samkvæmt eldri reglu 57. gr. laga nr. 60/1972 hafi verið heimilt að víkja frá helmingaskiptareglu við hjúskaparslit ef hjúskapur hefði staðið í stuttan tíma og ekki leitt til fjárhagslegrar samstöðu.  Þessi regla hafi þótt of takmörkuð og hafi með 104. gr. hjúskaparlaga verið sett ákvæði um heimild til að halda utan skipta arfi og gjafafé sem annað hjóna fær eftir hjúskaparstofnunina.  Ekki virðist hafa verið ætlun löggjafans að tengja þessa reglu eldri skilyrðum 57. gr. laga nr. 60/1972 um fjárhagslega samstöðu og lengd hjúskapar.  Þvert á móti á móti megi ætla að tilgangur löggjafans hafi verið að rýmka ákvæðið, enda sé það beinlínis tekið fram í greinargerð með frumvarpinu.  Af þessum sökum komi ekki til skoðunar varðandi kröfu sóknaraðila eldri dómar um beitingu 57. gr. laga nr. 60/1972.

Sóknaraðili kveðst því byggja kröfu sína á því að við beitingu 104. gr hjúskaparlaga beri einungis að kanna hvort sóknaraðili hafi fengið hinar umþrættu eignir að arfi eða að gjöf og að því uppfylltu þá beri dóminum að meta hvort það sé bersýnilega ósanngjarnt fyrir sóknaraðila að þessi verðmæti komi til skipta, en bæði framangreind skilyrði greinarinnar eigi við um kröfu sóknaraðila.  Um veruleg verðmæti sé að ræða sem sóknaraðili hafi hlotið við arfskipti á árinu 1996.  Óeðlilegt og ósanngjarnt sé að varnaraðili hagnist á helmingaskiptum þegar svo standi á og til slíkra tilvika hafi framangreint ákvæði 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga átt að ná.

Svo sem fram komi í kröfugerð sóknaraðila sé þess einungis krafist að eignir þær sem sóknaraðili eignaðist við arfskipti á árinu 1996 verði haldið utan við skiptin.  Ekki sé gerð samsvarandi krafa af hálfu sóknaraðila varðandi aðrar eignir sem aðilar málsins komu sér upp á meðan fjárhagsleg samstaða var með þeim meðan á hjúskap þeirra stóð.  Ljóst sé að verðmæti þeirra er umtalsvert, m.a. með hliðsjón af því að tekjur aðila hafa ekki verið miklar á meðan hjúskap þeirra stóð.  Þá liggur einnig fyrir að foreldrar sóknaraðila létu aðilum endurgjaldslaust í té lóð undir einbýlishús þeirra.  Aðilar málsins séu þrátt fyrir það sammála um að þessar eignir skuli skiptast eftir reglum 103. gr. hjúskaparlaga.  Hins vegar krefjist sóknaraðili að eignir þær sem sóknaraðili hlaut við arfskipti á árinu 1996 verði haldið utan við skiptin.  Eignir þessar séu afar verðmætar, eða a.m.k. 200.000.000 kr. virði.  Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar frá 8. maí 2002, í máli nr. 200/2002, þar sem talið hafi verið að um 10.000.000 kr. munur á framlagi hjóna við hjúskaparstofnun væri verulega mikill í skilningi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og hafi í dómi þessum verið fallist á beitingu 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.  Það hljóti því að vera bersýnilega ósanngjarnt að eign sem annað hjóna fær að arfi eða gjöf skiptist eftir reglum 103. gr. hjúskaparlaga, enda sé eignin tuttugufalt verðmeiri en þær eignir sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.

Þá byggir sóknaraðili á því að stutt sé síðan sóknaraðili hlaut þessar eignir við arfskipti og að ekki hafi myndast um þær nein fjárhagsleg samstaða milli aðilanna, enda hafi faðir sóknaraðila haft full afnot eignanna til þessa.  Þessi eign sé að auki sérstaklega tengd sóknaraðila enda um arfleifð foreldra hennar að ræða, og að hluta til jörð sem sóknaraðili ólst upp á.

Þá byggir sóknaraðili á því að hefði faðir hennar enn setið í óskiptu búi hefðu eignir þær, sem krafa sóknaraðila tekur til, verið séreign sóknaraðila við skiptin á grundvelli 18. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en faðir sóknaraðila sé enn á lífi.  Afar ósanngjarnt sé að arfur eftir foreldra sóknaraðila komi til skipta í búinu, þegar litið er til þess að arfur varnaraðila eftir föður hans, [...], sem lést þann 14. apríl 1990, sé séreign hans við skiptin, enda sitji móðir varnaraðila í óskiptu búi.

Varakrafa og þrautavarakrafa sóknaraðila eru byggðar á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafa sóknaraðila.

 

Varnaraðili byggir á því að forsenda frávika á grundvelli 104. gr. sé sú að skipti yrðu bersýnilega ósanngjörn að öðrum kosti fyrir annað hjóna.  Um vísireglu sé að ræða en síðan séu sérgreind tilvik sem einkum ber að taka tillit til þegar sanngirnismælikvarði sé á lagður og skuli í því sambandi leggja heildstætt mat samkvæmt ákvæðinu.  Við  matið eigi hér eftir sem hingað til að taka tillit til fjárhags hjónanna, fjárhagslegrar samstöðu þeirra og tímalengdar hjúskapar.

Aðilar máls þessa hafi gengið í hjúskap 2. apríl 1972.  Hjúskapur þeirra hafi staðið í 30 ár og sex mánuði þegar samvistarslit urðu, en í 31 ár er krafa var sett fram um skilnað að borði og sæng.  Fullkomin fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum allan hjúskapartímann, enda hafi allur þeirra fjárhagur verið sameiginlegur og með þeim fjárfélag eins og grundvallarreglur hjúskaparréttarins gera ráð fyrir.  Enginn kaupmáli hafi verið gerður milli hjónanna, hvorki við hjúskaparstofnun né síðar er sóknaraðili fékk arf eftir móður sína og keypti eignir af föður sínum.  Engin kvöð hafi verið á arfi eftir móður sóknaraðila um að eignir skyldu vera séreignir.  Langt sé um liðið frá því sóknaraðili fékk arfinn, eða sjö ár, og hafi arfurinn runnið inn í eignir búsins, enda hafi aðilar ávallt gert ráð fyrir því að fá fé fyrir sölu eigna og gert ráðstafanir sem á því byggðu, m.a. með lántöku í banka.  Komi lán, sem aðilar tóku í ljósi þess að hinar umþrættu eignir yrðu seldar, að fullu til álita við helmingaskipti milli aðila.  Hugleiðingum sem fram koma í greinargerð sóknaraðila um að staðan væri önnur hefði faðir sóknaraðila setið í óskiptu búi er mótmælt sem málinu óviðkomandi.  Líta verður til þeirrar staðreyndar að búinu var skipt og faðir sóknaraðila seldi henni eignir og því koma þessar eignir undir skiptin.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 200/2002, sem vísað sé til í greinargerð sóknaraðila, hafi verið byggt á því að hjúskapur hafi staðið stutt í skilningi 1. mgr. 104. gr. laga 31/1993, en hjúskapur hafði staðið í því tilviki í átta og hálfan mánuð er samvistaslit urðu og er krafa um skilnað að borði og sæng var sett fram, hafði hjúskapur staðið í þrettán og hálfan mánuð.  Þá sé í þessum dómi reist á því að verulega mikill munur hafi verið á eignum aðila við hjúskaparstofnunina.  Ekki sé sýnt fram á að svo hafi verið í máli því sem hér sé til umfjöllunar, enda ekki krafist frávika frá helmingaskiptareglunni af þeim sökum.  Ljóst sé að dómur Hæstaréttar feli í sér að ekki sé um fjárhagslega samstöðu að ræða í skilningi laga þegar hjúskapur hefur staðið stutt og mikill munur er á framlögum aðila í upphafi, en þá eigi að fara fram heildstætt mat.  Við mat á sanngirni við skiptin verður ekki séð að það leiði til þess að helmingaskipti séu ósanngjörn þótt um miklar fjárhæðir sé að tefla.  Það gæti skipt máli ef mikill munur væri við stofnun hjúskapar og hann stæði stutt eins og atvik voru í Hæstaréttarmálinu nr. 200/2001 eða væri þannig háttað að niðurstaða skiptanna almennt yrði með þeim hætti að hallaði verulega á annað hjóna sem yrði illa statt fjárhagslega í kjölfar þess.

Af hálfu varnaraðila er talið, að það eitt og sér að sóknaraðili hafi fengið tilteknar eignir í arf og að eignir tengist henni meira af þeim sökum, geti ekki falið í sér að bersýnilega ósanngjarnt sé að hin almenna skiptaregla hjúskaparréttarins sem fram kemur í 103. gr. laga 31/1993 gildi við skiptin.  Meira þurfi til að koma.  Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að það sé bersýnilega ósanngjarnt að þessar eignir lúti helmingaskiptareglu 103. gr. laga 31/1993.

Ljóst sé að komi allar eignirnar undir helmingaskipti eigi báðir aðilar nóg fyrir sig að skiptum loknum svo litið sé til fjárhagsstöðu aðila.  Benda megi hins vegar á að bersýnilega væri ósanngjarnt gagnvart varnaraðila ef fallist yrði á frávik frá helmingaskiptareglunni og gæti hann þá liðið ósanngjarnan skort.  Varnaraðili sé 75% öryrki eftir að hafa fengið blóðtappa og heilablóðfall fyrir tveimur árum.  Hann sé með öllu óvinnufær og mun ekki ná vinnufærni í framtíð.  Hafi hann alla hjúskapartíð aðila framfært sóknaraðila og börnin, unnið langan og erfiðan vinnudag, reist þeim glæsilegt hús og notað til þess tekjur sínar og vinnuframlag.  Sóknaraðili hefur hins vegar aldrei unnið meira en hlutavinnu og lítið lagt til heimilisins.  Sé og til þess að líta að hefði sóknaraðili ekki yfirgefið varnaraðila og ákveðið að hjúskap þeirra væri lokið, hefði varnaraðili notið eignanna að jöfnu við sóknaraðila.  Að mati varnaraðila ber að líta jafnframt til þessa við sanngirnismat í máli þessu enda hljóti mat á sanngirni að vera að einhverju leyti siðferðilegt mat og siðferðileg rök því innbyggð matið sem og tillit til möguleika aðila til tekjuöflunar og framfærslu.  Segi í ákvæði 104. gr. að meta skuli sanngirni út frá hagsmunum beggja hjónanna þannig að sjónarmið sem snerta hag varnaraðila hljóta að koma hér til skoðunar og styrkja kröfu hans um að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Varðandi varakröfu og þrautavarakröfu er þeim hafnað af hálfu varnaraðila, enda skorti öll rök fyrir þeirri hlutaskiptingu sem kröfugerðin gerir ráð fyrir.  Reyndar sé varnaraðila erfitt um vik að verjast kröfum þessum að öðru leyti en að vísa til þess sem þegar er fram komið af hans hálfu um aðalkröfu sóknaraðila.  Varnaraðila sé ómögulegt að taka til varna um það skiptahlutfall, sem greinir í kröfugerð, þar sem ekki liggur fyrir á hverju hún sé reist.  Getur varnaraðili því ekkert tjáð sig um það.  Er þess því krafist að dómurinn hafni þessum kröfuliðum, verði þeim ekki vísað frá ex officio, þar sem þeir eru í reynd ódómtækir.

 

Niðurstaða: Við hjúskaparslit er helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 meginreglan um skipti eigna.  Í 104. gr. sömu laga er mælt fyrir um frávik frá þessari reglu.  Kemur þar fram að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna.  Sóknaraðili hefur krafist þess að vikið verði frá reglunni með vísan til 1. mgr. 104. gr. vegna eigna sem hún hafi annars vegar erft eftir móður sína og hins vegar fengið að gjöf frá föður sínum.

                Sóknaraðili fékk eignirnar á árinu 1996.  Ákveðið var að skipta dánarbúi móður hennar þá, en faðir hennar, sem enn er á lífi, hafði frá árinu 1993 setið í óskiptu búi eftir hana.  Þá var einnig gerður afsals- og afnotasamningur, en samkvæmt honum greiddu sóknaraðili og bróðir hennar, Q, 3.000.000 kr. fyrir eignarhluta föður þeirra, [...], í X. með þeim skilmálum að M héldi fullum afnotum til dánardægurs.  Q kom fyrir dóminn og bar að þetta fé hafi aldrei verið greitt.  Sóknaraðili heldur því fram að í raun hafi verið um gjöf að ræða, sem einnig falli undir 1. mgr. 104. gr.  Hafi eignunum verið skipt þar sem ljóst hefði verið á þessum tíma að þær væru mjög verðmætar.

                Með 104. gr. hjúskaparlaga voru heimiluð víðtækari frávik frá helmingaskiptareglunni, en samkvæmt eldri lögum, sem voru bundin við að hjúskapur hafi staðið skamman tíma og hafi ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu.  Sérstaklega er greint frá því að hægt sé að víkja frá reglunni hafi annað hjóna fengið arf eða gjöf.  Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að rætt hafi verið að láta arf og gjafir falla utan skipta, en ekki hafi þótt rétt að ganga svo langt, þar sem misjafnlega gæti staðið á.  Rétt væri því að láta sanngirnissjónarmið ráða í slíkum tilvikum.  Og jafnvel þó að frávik þessi verði ekki talin einskorðast við skamman hjúskap var talið að lengd hjúskapar væri meðal þess sem líta yrði til við mat á því hvað væri bersýnilega ósanngjarnt.

                Álykta verður, þegar á allt er litið, að skýra beri þröngt heimildir til frávika frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga.  Við mat á því hvort víkja beri frá helminga-skiptareglunni verður að leggja heilstætt mat á hvort önnur niðurstaða sé bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna.

                Aðilar málsins voru í hjúskap í 31 ár.  Eignir þeirra, auk þeirra sem deilt er um í málinu, eru íbúðarhús og bílskúr að [...], bifreiðin [...], árgerð 2001, og innbú.  Áætlaðar skuldir eru rúmlega 7.000.000 kr.  Óumdeildar eignir til jafnra skipta milli aðila eru þannig hlutfallslega ekki verulegar miðað við þær eignir, sem krafist er af sóknaraðila að falli utan skipta, en þær eru mjög verðmætar; upplýst er að kauptilboð upp á 340.400.000 kr. hefur verið samþykkt vegna hluta þeirrar eignar, sem sóknaraðili og bróðir hennar eiga saman.  Varnaraðili er 75% öryrki og sóknaraðili á einnig við veikindi að stríða sem hafa áhrif á atvinnumöguleika hennar.  Báðir aðilar hafa tengsl við landareignina að X.  Þau byggðu sér húsnæði á spildu úr landinu og bjuggu þar nánast allan sinn hjúskap, auk þess sem sóknaraðili ólst þar upp og eignin hefur lengi verið í eigu fjölskyldu hennar.  Þá verður að virða að búið er að samþykkja kauptilboð vegna hluta landsvæðisins.

                U.þ.b. 7 ár eru liðin frá því að sóknaraðili eignaðist þær eignir sem um er deilt.  Höfðu aðilar þá verið í hjúskap í 24 ár.  Ekki var gerður kaupmáli milli aðila og ekkert gefur til kynna að öðru leyti að ætlað hafi verið fyrir 7 árum eða síðar að halda þessum eignum utan fjárfélags þeirra sem hjóna fyrr en kom til skilnaðar að frumkvæði sóknaraðila.  

            Samkvæmt framangreindu þykir ekki sýnt að það sé augljóslega ósanngjarnt að umræddar eignir falli undir skiptin.  Verður því hafnað kröfum sóknaraðila um að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga.

Rétt þykir að sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 kr. í málskostnað.  Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til skyldu varnaraðila að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Páll Þorsteinsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, K, um að við fjárskipti á milli hennar og M verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, M, 300.000 kr. í málskostnað.