Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2016 klukkan 16 og einangrun á meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                   

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 20. maí 2016 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð kemur fram að klukkan 19:29 í gær (15.05.2016) hafi lögreglu borist tilkynning um slagsmál við [...] í [...] og að vopnum kynni að hafa verið beitt. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún séð fjölda manns fyrri utan [...], þau [...], [...], [...], [...], [...], [...] og [...]. Í anddyri [...] hafi svo verið þeir X og A. Sjá hafi mátt stungusár á vinstri handlegg A sem síðar hafi verið saumaður samtals 19 sporum á slysadeild Landsspítala-Háskólasjúkrahúss í Fossvogi.

Í framburði [...] og [...] hafi komið fram að X hafi verið ógnandi og veist að A fyrir utan [...] og að X ásamt [...] hafi elt A inn í húsið.

Í framburði A hafi komið fram að X og [...], ásamt annarri manneskju, hafi verið með læti fyrir utan heimili hans að [...]. Er A hafi farið út og spurt hverju sætti hafi X gengið að honum með hníf, otað honum að hálsi hans og öskrað að hann ætlaði að skera alla sem væru að meiða vinkonu hans.

A hafi sagt að hann hafi hörfað inn á heimili sitt en X og [...] hafi elt hann. Hann sagðist hafa verið hræddur og sjálfur náð í hníf í íbúð sína til að hræða þá á brott ásamt því að kalla á bróður sinn sem búi á hæðinni fyrir ofan hann að [...]. Mennirnir hafi svo ráðist á hann og bróður hans, [...] , og í átökunum hafi X veitt A áverka með hníf á vinstri hendi með fyrrgreindum afleiðingum.

Í framburði þeirra [...] og [...], sem séu búsettir að [...] hafi komið fram að þeir hafi orðið varir við læti í þeim X og [...] nokkru fyrir átökin er þeir ásamt stúlku nokkurri hafi verið með læti og hárreisti fyrir utan húsnæðið.  Eftir að þeir hafi orðið varir við átökin á neðri hæðinni hafi þeir haldið þangað og séð X halda á hníf og A særðan á vinstri hendi. A hafi beðið þá um að afvopna X sem þeir og gerðu með því að ógna honum með borðplötu sem hann hafi svo lagt hnífinn ofan á. Þeir hafi farið með hníf X svo á efri hæðina og hringt á lögreglu sem þá þegar hafi verið á leiðinni.

Lögregla hafi komið á vettvang og hafi X verið handtekinn kl. 19:50. Hann hafi verið í annarlegu ástandi, valtur á fótum og froðufellandi. X sé þekktur hjá lögreglu og eigi að baki töluverðan sakarferil sem einkennist meðal annars af ofbeldis- og fíkniefnabrotum. Hann hafi viðurkennt fyrir lögreglu að hafa stungið A í hendina og veitt umrædda áverka og sagði það hafa verið í sjálfsvörn. Í framburði [...] hafi komið fram að 2 [...] hafi ráðist á hann og X alveg fyrirvaralaust og upp úr því hafi hafist átök. Hann sagðist ekki hafa orðið var við hníf í átökunum en hafi lýst hníf sem hann eigi og X hafi haft undir höndum og stemmi sú lýsing við vopnið sem lögregla hafi haldlagt.

Rannsókn málsins sé enn á frumstigi. X hafi viðurkennt að hafa veist að A með hníf en að það hafi verið í sjálfsvörn. Framburður hans þess efnis stangist á við framurð annarra vitna í málinu enn sem komið sé en enn eigi eftir að taka skýrslur af vitnum sem öll séu af erlendu bergi brotin. Þá eigi tæknideild lögreglu eftir að rannsaka haldlagðan hníf sem og að önnur sönnunargögn og verksummerki og enn eigi eftir að hafa upp á stúlkunni sem hafi verið í för með þeim X og [...] skömmu fyrir átökin. 

Það sé mat lögreglustjóra að hending hafi ráðið því að ekki hafi farið verr en atlagan hafi að því er virðist hafa verið af mjög litlu tilefni. Telji lögregla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að reyna að hafa áhrif á framburð vitna. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði geti spillt rannsókn þess.

Sakarefni málsins sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem getur varðað 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins er enn á frumstigi og eftir er að yfirheyra vitni og hafa upp á þeirri stúlku sem getið er um í kröfugerð. Þá á tæknideild lögreglu eftir að rannsaka haldlagðan hníf og önnur sönnunargögn og verksummerki. Ætla að kærði muni geta torveldað rannsókn málsins svo sem með því að reyna að hafa áhrif á framburð vitna. Telja verður að í kröfugerð lögreglu sé gætt meðalhófs. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki efni til annars en að fallast á kröfu sóknaraðila enda rannsóknarhagsmunir í húfi og fullnægt öðrum skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til sömu raka er einnig fallist á kröfu um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 20. maí 2016 kl. 16:00. Þá skal hann sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.