Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2002
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Skaðabætur
- Refsiákvörðun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði látin niður falla eða hún skilorðsbundin.
Í málinu er ákærða gefin að sök líkamsárás 6. maí 2001 með því að hafa ráðist á A fyrir utan tiltekinn skemmtistað í Keflavík, slegið hann niður, sest klofvega yfir hann og slegið hann með bjórflösku, sem brotnað hafi við það, slegið hann hnefahöggum og skorið hann á hægra eyra með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.
Fram er komið í málinu að skömmu áður en ákærði réðist á A hafði hann slegið ákærða með bjórflösku í ennið inni á skemmtistaðnum. Þegar litið er til þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna hins árýjaða dóms þykir rétt að staðfesta niðurstöðu hans um refsingu ákærða og skaðabætur brotaþola til handa, þó þannig að rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar að öllu leyti og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. maí 2002.
Ár 2002, fimmtudaginn er á dómþingi, sem háð er í dómhúsinu að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði af Guðmundi L. Jóhannessyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-[...]/2002: Ákæruvaldið gegn X, sem dómtekið var 15. apríl sl.
Mál þetta er með ákæru útgefinni 12. febrúar sl. höfðað gegn X, kt. [...], [...], Keflavík, "fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudags 6. maí 2001 ráðist á A fyrir utan skemmtistaðinn N1 við Hafnargötu, Keflavík, slegið hann niður, sest klofvega yfir hann og slegið hann með bjórflösku, sem brotnaði við það, og slegið hann hnefahöggum svo A hlaut mar yfir vinstri augabrún, mar undir vinstra auga, bólgu á öllum hægri helmingi andlits og eymsli í kinnbeini og neðri kjálka og með því að beita brotinni flöskunni til að skera A þannig að hægra eyra var meira og minna tætt og eyrnavængur sundurskorinn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Nökkvi Már Jónsson hdl. þá kröfu fyrir hönd A að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur kr. 347.466 ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. maí 2001 til 25. febrúar 2002 en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags."
Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og gerðar þær kröfur að refsing á hendur ákærða verði látin falla niður og skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi eða hún stórlega lækkuð. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna og réttargæsluþóknunar til skipaðs verjanda ákærða hrl. Hilmars Ingimundarsonar.
Málavextir.
Sunnudaginn 6. maí 2001, kl. 04:48 var lögreglunni í Keflavík tilkynnt um slasaðan mann, sem hefði verið laminn í hausinn með flösku fyrir utan skemmtistaðinn N1 í Keflavík. Tveir lögreglumenn fóru á staðinn og hittu þar fyrir ákærða á málinu sem tilkynnti þeim að maður að nafni A hefði lamið hann með flösku inni á skemmtistaðnum N1 og var ákærður blóðugur, með skurð á enni og lófa. Hann tjáði lögreglumönnunum einnig að hann hefði lamið A illilega til að ná fram hefndum á honum. Lögreglumennirnir reyndu að ná tali af A, en hann var farinn af staðnum. Farið var með ákærða á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að láta gera að sárum hans. Þar reyndist vera fyrir nefndur A, sem var með skurð á hægra eyra. Ákærður ætlaði að ráðast á hann en var stöðvaður í því. A greindi lögreglunni frá því að ákærður hafi ráðist á hann fyrir utan skemmtistaðinn N1 og skorið hann með glerbroti í eyrað. A viðurkenndi og að hafa slegið ákærða með flösku inni á skemmtistaðnum eftir að ákærði hafi slegið hann hnefahögg í andlitið.
Konráð Lúðvíksson, kvensjúkdómalæknir, tók á móti ákærða og A á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hefur gefið út áverkavottorð um meiðsli þeirra.
Í vottorðinu um A kemur þetta fram: ,,Undirritaður tók á móti þessum dreng sem kom á sjúkrahúsið með sjúkrabíl. Hann hafði orðið fyrir ofbeldi fyrir utan skemmtistaðinn N1 bar. Slagsmálin hófust inni á staðnum og hann hlaut mikla áverka. Á andliti sást mar fyrir ofan vinstri augabrún eins og þar hafi verið sparkað. Einnig var hann með mar undir hægra auga. Hann var bólginn á hægri andlitshelmingi alveg eftir spark í andlitið. Hann var einnig aumur í kinnbeini og neðri kjálka en verst var þó eyrað sem er sundur skorið með gleri. Ofbeldismaðurinn mun hafa fundið glerið á götunni og réðist síðan aftan að A. Eyrnavængurinn er sundurskorinn og gapir. Eyrað er meira og minna tætt. Það tók hér á sjúkrahúsinu tvo tíma að hreinsa A og síðan var hafist handa við að sauma eyrað en brjóskið er sundurskorið og það tekur langan tíma að ná þessu saman. Fellur þó vel saman að lokum. Búið um þetta og hann á síðan að mæta hjá HNE lækni í eftirlit. Það er greinilegt að hann hafi orðið fyrir meiriháttar ofbeldi."
Í vottorðinu um meiðsli ákærða segir svo: ,,Umræddur kom á slysastofu þann 06.05.01 um kl. 05:00 með lögreglu og kveðst hafa fengið flösku í andlitið. Hann var með sár á enni eins og eftir ljótt högg, í vinstri lófa var hann með þriggja cm sár sem gapti svolítið. Á vinstri vísifingri er yfirborðssár á húð. Öll voru þessi sár þvegin en sárið á enninu var meðhöndlað með steristrip og í vinstri lófa var þvegið og deyft og saumað með fjórum sporum 5/0 Ethylon og á sárinu á hægri vísifingri var ekkert sem þurfti að gera við. Ákveðið var að hann kæmi í saumatöku viku seinna."
Ákærður hefur borið um atvik hjá lögreglu og hér fyrir dómi sem og kærandinn A sem vitni í málinu. Þá hafa borið vitni í málinu AB, B, C, D, E og F, en öll höfðu þau borið áður um atvik hjá lögreglu nema E og F. Er ákærður gaf skýrslu hjá lögreglu, kærði kann jafnframt A fyrir líkamsárás, en sú kæra hefur ekki leitt til málshöfðunar né verður séð að það mál hafi verið fellt niður, en hins vegar er A yfirheyrður um það hjá lögreglu við skýrslutöku 2. janúar sl.
Þá bar G og um atvik hjá lögreglu en ekki var unnt að fá skýrslu af honum fyrir dómi þar eð hann var staddur á [...], þar sem hann er við nám.
Samkvæmt því sem fram er komið hjá ákærða og vitnunum er aðdragandinn að árásinni og atburðarrásin þessi.
Ákærður og A, kærandinn í málinu voru báðir á skemmtistaðnum N1 í Keflavík, aðfaranótt sunnudagsins 6. maí 2001 og voru nokkuð ölvaðir. Nokkru eftir miðnætti, sennilega um kl. 02-02:30 eru þeir báðir á karlasalerni hússins en þar er þá ónefndur Bandaríkjamaður og hugsanlega fleiri, en kærandinn talaði um að þar hafi og verið vitnið E, en það kannast ekki við það. Þarna hafi A verið að ræða við Bandaríkjamanninn, en ákærður taldi hann hafa ætlað að ráðast á vin hans um viku áður og fóru þeir að rífast út af þessu og einnig kom þá til rifrildis milli ákærða og A og jafnvel átaka en þeir höfðu þó farið út af salerninu án þess að lenda alvarlega saman. Skömmu síðar sat vitnið A í sófa í herbergi hjá barnum og kvað það þá ákærða hafa komið að því og spurt það hvort það væri enn að rífast út af því sem gerst hefði inn á salerninu og í framhaldi af því slegið það beint í andlit og svo hafi þeir farið að kljást, dottið í gólfið og það þá þrifið bjórflösku og slegið ákærða með henni í ennið, en hún hafi ekki brotnað við það. Þeir hafi svo slegist og togast á, þar til þeir hafi verið rifnir í sundur og því hafi verið vísað út af staðnum.
Ákærður kannaðist við að þeir hafi farið að rífast þarna aftur sem endað hafi með átökum, en engar kýlingar eða spörk verið viðhöfð, heldur hafi þeir tekist á og lent á borði og þá hafi A gripið bjórflösku, slegið ákærða eitt högg í ennið með henni og hafi hún brotnað við það. Ákærður kvaðst þá hafa fallið í gólfið, hann þá skorist í lófa af glerbrotum, sem voru á gólfinu.
Vitnið E kvaðst hafa verið statt í herberginu við barinn og fylgst með átökunum milli ákærða og A framan við barinn. Þeir hafi fyrst rifist svolítið og svo tekist á og þá lent á borði. Þá hafi vitnið A slegið ákærða með flösku á ennið og hún við það brotnað. Hann hefði fengið skurð og það blæddi úr hendinni á honum. Þeir ákærði og A hafi svo verið aðskildir og þeim verið vísað út. Það kvað þá hafa verið að rífast og ýta hvorum öðrum, en það hafði ekki séð ákærða slá A í andlitið.
Vitnið AB hafði hitt fyrir, er það kom út af veitingastaðnum, D, en þeir þekktust frá því þeir höfðu leikið saman knattspyrnu fyrir nokkrum árum, en D var þarna að ræða við félaga sinn G sem hafði að eigin sögn verið mjög ölvaður. Þeim D og G ber saman um að A hafi talað um að hann hafi lent í slagsmálum inn á skemmtistaðnum og kvaðst D þá hafa sagt honum að koma sér heim til að komast hjá frekari vandræðum, en í því hafi ákærður komið aðvífandi og stokkið á A og þeir tekist á og átökin borist út á Hafnargötu, en tekið fljótt af. Samkvæmt framburði D, hafði A komið eftir þetta aftur til hans og spurt hvort hann hefði séð þetta og hafði D þá ítrekað við hann að drífa sig heim. Vitnið AB hafði þá gengið fyrir horn og fyrir framan veitingastaðinn Pizza 67, hafði það tekið upp GSM síma sinn til að tala við kunningja og kvað vitnið ákærða þá hafa ráðist að því og slegið það í höfuðið svo að það datt, sparkað í andlit þess tvisvar sinnum, en svo farið ofan á, setið ofan á bringu þess og svo slegið það með bjórflösku í höfuðið eða eyrað og flaskan brotnað. Ákærður hafi svo eftir það hamast með glerbrotin eða brotnu flöskunni á höfði þess eða á hægra eyra sem hafi klofnað svo að sauma hafi orðið 30 spor í eyrað til að ná því saman. Það kvað ákærða hafa öskrað allan tímann að það ætlaði að drepa vitnið. Það kvað ákærða hafa stungið það fjórum sinnum með glerbrotinu áður en hann hafi verið rifinn ofan því af kunningja þess, A.
Vitnin D, G, E og F voru og þarna hjá veitingastaðnum Pizza 67, er átökin milli ákærða og A áttu sér stað og ber þeim D, G og E saman um að ákærður hafi slegið A í andlitið með bjórflösku en vitnið F hafði séð að þarna hafði safnast saman hópur af fólki, en hafði ekki fylgst nánar með átökunum.
Vitnið D staðfesti framburð vitnisins AB um að það hefði sagt því að það hefði lent í átökum inni á veitingastaðnum og hafði vitnið D sagt A að koma sér heim til að forða því að hann lenti í frekari vandræðum. A hafi staðið hjá því er ákærður hafi komið aðvífandi og stokkið á A og þeir þá tekist á og átökin borist út í Hafnargötu en tekið fljótt af og vitnið fór frá honum til þess og spurt hvort að það hefði séð þetta og það ítrekað við hann að drífa sig heim. Hann hafi þá tekið upp GSM síma, en þá hafði ákærður komið aftur með bjórflösku í hendi, hann náð A niður og svo slegið hann með bjórflöskunni og hótað honum lífláti og sagt: ,,Ég ætla að drepa þig." Það taldi að bjórflaskan hafi brotnað þegar ákærður sló A með henni í hausinn. Ákærður hafi svo þar sem hann sat ofan á A slegið hann ítrekað með brotinni flöskunni, en A hafi reynt að brjótast um og losa sig frá ákærða en ekki tekist. Ákærður hafi verið mjög æstur eða kolbrjálaður eins og vitnið sagði hjá lögreglu. Vegna hnémeiðsla treysti það sér ekki til að hafa afskipti af slagsmálunum, en hringdi í Neyðarlínuna og óskaði eftir lögreglu á staðinn og eftir að hún kom hafi ákærður róast en áður hafi komið að maður sem það þekkti ekki, sem hafi rifið ákærða ofan af A og hent í burtu en A hafi þá verið alblóðugur í andliti. Ákærður hafi verið alblóðugur á hendinni sem hann hefði haldið á flöskunni. Hann minnti að það hafi verið hægri hendin og taldi að A hafi skorist á vinstra eyra.
Vitnið G gaf skýrslu hjá lögreglu nokkuð löngu eftir að árásin átti sér stað eða 3. janúar sl. og mundi óljóst eftir atvikum. Það kvað ákærða hafa verið mjög æstan er hann hafi komið út af veitingastaðnum N1 og gengið beint að A, rokið í hann og orðið stympingar milli þeirra og A orðið undir og legið á bakinu en ákærður setið ofan á honum. Þá kvaðst vitnið hafa séð ákærða taka bjórflösku upp af götunni og slá A með henni og höggið lent á hliðina á andliti þess eða í eyra hans, en það mundi ekki í hvort eyrað höggið lenti. Það kvað flöskuna hafa brotnað á höfði A og minnti vitninu að ákærður hafi haldið áfram að slá ákærða með brotinni flöskunni. Það kvaðst ekki alveg muna hvað ákærður sagði við A meðan á þessu stóð, verið gæti að hann hafi sagt ,,ég drep þig, ég drep þig". Það kvað A bara hafa reynt að verja á sér andlitið, en svo hafi komið tveir menn að sem hafi stöðvað þessa aðför að A og hafi þá A verið alblóðugur í andlitinu en það minntist þess ekki að hafa séð áverka á ákærða fyrir átökin eða eftir þau.
Meðan á átökum þessum stóð komu vitnin AB, B og C að í bifreið sem C ók og lagði við gangstéttina þar sem átökin áttu sér stað. Vitnið AB kvaðst hafa verið frekar ölvaður en þó muna vel það sem það sá. Það hafði séð þarna hóp af fólki standa þarna og áflog hafi verið í gangi og það farið út úr bifreiðinni til að forvitnast um hvað gengi á. Það kvað ákærða hafa verið að slást þarna og það ætlað að stoppa hann, þó að það vissi þá ekki við hvern hann var að slást. Það hafði svo séð að það var A, sem legið hafi á jörðinni og var ákærður boginn yfir honum og var með glerbrot eða hluta af flösku, sem staðið hafi fram úr hendi hans og hafði vitnið séð að hann hafði skorið A öðru hvoru megin við eyrað með glerbrotinu, en það mundi ekki eða gat ekki sagt til um hve oft hann hafi brugðið glerbrotinu, en það hafði ekki séð hvað á undan var gengið, en það heyrði að þar var sagt "ég drep þig" og var nokkuð viss um að þar var ákærði sem viðhafði þessi orð. Það hafði stöðvað átökin og komið A í bifreiðina sem það var á og svo á sjúkrahús. Það hafði ekki séð áverka á ákærða sem hafi komið á sjúkrahúsið á eftir þeim og veittist þá að A, en það þá róað hann niður en það kvaðst vera kunningi A. Það kvað hafa blætt mikið úr A, sem borið hafi hendurnar fyrir sig.
Vitnin B og C höfðu ekki farið út úr bifreiðinni, til að fylgjast með átökunum, en vitnið B kvaðst hafa séð strák sitja yfir öðrum strák með glerbrot í hendinni, sem hann hafi stungið í höfuðið á hinum stráknum, sem reynt hafi að verja sig, en svo hafi vitnið AB stokkið út úr bifreiðinni og rifið árásarmanninn af þeim, sem undir var. Hann hafi reynst vera AB, vinur A. Það kvað hafa blætt mikið úr A og bíllinn verið allur í blóði eftir að honum var ekið á sjúkrahúsið. Það hafði heyrt ákærða segja mörgum sinnum við A "ég ætla að drepa þig". Það kvað A hafa verið að hreyfa höfuðið meðan á árásinni stóð og var á því, að ákærður hafi skorið hann í eyrað með glerbrotinu.
Vitnið C kvaðst hafa verið að aka með AB og B rúntinn í Keflavík og þau þá séð tvo stráka vera að slást við veitingastaðinn N-1 og það stöðvað bifreiðina þar fyrir framan og áflogin farið svo að báðir strákarnir lágu á jörðinni og sat annar klofvega yfir hinum og var að kýla hann í hausinn með báðum hnefum og virtist jakkinn vera kominn yfir hausinn á hinum sem hafi verið A, vinur AB, sem blætt hafi mikið úr. Þeim hafi ekki litist á blikuna og hafi AB farið út úr bifreiðinni og rifið ákærða ofan af A og rétti hann upp og kom honum inn í bifreiðina til þeirra og hafi verið ekið með hann upp á sjúkrahús. Það kannaðist við bæði A og ákærða. Það hafði ekki séð ákærða vera með neitt í hendinni en sá hann þreifa eftir einhverju, en var ekki visst um hvað hann greip, og sá ekki að hann væri með glerbrot eða brotna flösku. Það heyrði að ákærður og A rifust og öskruðu, en heyrði engin orðaskipti, en á sjúkrahúsinu hafi ákærður hótað A öllu illu, þ. á m. að drepa hann. Það kvað hafa blætt úr A í bifreiðina og hafi jakka verið haldið við hægri hlið andlitsins. Það hafði og séð blóð á ákærða.
Niðurstöður.
Ekki fer á milli mála að tilefni áfloganna utan við veitingastaðinn N-1 eru átök milli ákærða og A inni á veitingastaðnum skömmu áður. Þeir takast þá á í framhaldi af orðaskaki og jafnvel átökum inni á salerni hússins, en ekki er alveg ljóst hver á upptökin að átökunum þarna hjá barnum, en líkur liggja að því að ákærður hafi átt þau. Sú fullyrðing A að ákærður hafi kýlt hann í þessum átökum fær ekki stoð í vætti vitna og verður að teljast ósönnuð, hins vegar er ljóst að eftir að þeir falla á borð í áflogunum þá þrífur A bjórflösku og slær ákærða með henni í andlitið og lenti flaskan á enni ákærða og þykir mega byggja á því, að hún hafi við það brotnað, og var ákærður með áverka eftir þ.e. skurð á enni sbr. skýrslu lögreglu og vætti E. Þá þykir vætti vitnis vera því til stuðnings að glerbrot hafi verið á gólfinu eftir þetta og verður ekki útilokað að ákærður hafi skorist á lófa við það að falla á gólfið þó að líklegra sé, að hann hafi skorist þar í átökunum utan við veitingastaðinn.
Ekki verður séð af gögnum málsins að ákærður hafi beitt slíkri hörku í áflogunum að A hafi haft ástæðu til að ætla að honum væri mikil hætta búinn og verður það ekki réttlætt að hann slái ákærða með flöskunni í andlitið, en skoða verður það sem mjög hættulega aðför, einkum þegar höggið lendir nálægt vitum manna og getur þá hending ráðið, hvort af hlýst alvarlegt líkamstjón. Þetta er næg skýring á því að ákærður er mjög reiður og æstur, er hann kemur út af veitingastaðnum og hittir ákærða þar fyrir.
Með framburði vitna sem og framburði ákærða og öðrum rannsóknargögnum er sannað að ákærður veitist tvívegis að A og síðara skipti fellir hann hann í jörðina, slær hann hnefahögg í andlitið auk þess að slá hann með bjórflösku í andlitið og svo síðar að beita brotnu flöskunni þannig að hann slær hægra eyra A og verður að telja að hann hafi skorið eða slegið A mörgum sinnum með flöskubrotinu svo að eyrað og eyrnavængur tættist í sundur. Verður A talinn þá hafa fengið þá áverka sem lýst er í ákæru sbr. áverkavottorð og hefur ákærður valdið honum með því varanlegu líkamstjóni.
Aðför ákærða verður að telja hættulega og fallna til að valda verulegu líkamstjóni og verður ekki réttlætt af því, sem á undan er gengið sérstaklega ekki, að ákærður skyldi beita flöskubroti til að skera í og við eyra A. Ákærður var ölvaður og í æðiskasti og hafði hótað A lífláti og allt sem bendir til að hann hefði gengið lengra í þá átt, ef vitnið A hefði ekki stöðvað átökin.
Ákærður hefur með þessari líkamsárás gerst brotlegur við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærður hefur ekki skv. sakavottorði gerst brotlegur við refsilög að öðru leyti en því að 15. júni 1998 var gerð við hann viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjaness og honum gert að greiða 50.000 krónur í sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Við refsimat í málinu ber að líta til þess að atlaga ákærða að A er mjög gróf en hins vegar verður ekki litið fram hjá því, að A gefur nokkuð tilefni til þess, að átökin þróast út í það að bjórflösku er beitt gegn honum. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.
Þegar höfð er hliðsjón af ungum aldri ákærða og litlum sakaferli þykir mega fresta fullnustu á 3 mánuðum af refsingunni og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærður almennt skilorð samkv. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Bótakrafa A er sundurliðuð og studd gögnum og er ekki fallist á kröfu ákærða um að henni verði vísað frá dómi.
Krafan sundurliðast þannig:
1. Sjúkrakostnaður og annað fjárhagslegt fjártjón: kr. 81.316-,
2. Miskabætur: kr. 200.000-,
3. Lögmannsaðstoð: kr. 66.150-.
Kvittanir A vegna lyfja og lækniskostnaðar er óumdeildur og er sá kröfuliður tekinn til greina. Ekki hefur verið sýnt fram á, að leðurjakki, buxur og skyrta A hafi skemmst, þannig að þau séu ónýt né eru lagðir fram reikningar eða önnur gögn um hvað samsvarandi flíkur kosta nú. Kröfuliður þessi að fjárhæð kr. 36.000-, er því ekki tekinn til greina.
Ekki verður rengt, að farsími A hafi skemmst í átökunum og samkv. vottorði Símans, Verslun, Hafnargötu 40, Keflavík, er hann ónýtur eftir högg. Þessi kröfuliður að fjárhæð kr. 32.980,- er tekinn til greina, en þó þykir rétt að lækka hann miðað við að síminn er ekki nýr og símar sem þessi ganga fljótt úr sér og er kröfuliðurinn hæfilega metinn á fjárhæð 25.000 krónur.
Kröfuliðurinn, sjúkrakostnaður og annað fjárhagslegt fjártjón er því tekinn til greina að fjárhæð 37.336 krónur.
Þá má fallast á að A hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð að hálfu ákærða með hinni grófu líkamsárás hans og hafi rétt á bótum skv. 26. gr. skaðabótalaga og þykja þær miskabætur hæfilega ákveðnar 150.000 krónur og vegna lögfræðiaðstoðar er fallist á að ákærður greiði 43.475 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti til A eða í heild 231.111 krónur.
Fallist er á vaxtakröfuna þannig, að ákærður greiði vexti skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 , frá 6. maí 2001 til 1. júlí 2001, en samkv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til 8. mars 2002 en dráttarvexti samkv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin 133.000 krónur í réttargæsluþóknun og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hrl. Hilmars Ingimundarsonar.
Málið sótti að hálfu ákæruvaldsins, Júlíus Magnússon fulltrúi sýslumannsins í Keflavík.
Dráttur á uppsögu dóms er vegna anna dómarans.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærður, X, sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu 3 mánuðum af refsingunni og niður skal hún falla að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. lög nr. 22/1955.
Ákærður greiði A 231.111 krónur auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 sbr. lög nr. 38/2001, frá 6. maí 2001 til 1. júlí 2001, en skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 8. mars 2002 en dráttarvexti skv. 9. gr laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærður greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda ákærða hrl., Hilmars Ingimundarsonar 133.000 krónur.