Hæstiréttur íslands
Mál nr. 292/1999
Lykilorð
- Rán
- Hylming
- Hlutdeild
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 1999. |
|
Nr. 292/1999. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Hauki Guðmundssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Rán. Hylming. Hlutdeild. Reynslulausn.
H var ákærður fyrir að hafa í félagi við annan mann lagt á ráðin um að fremja rán í söluturni, og í því skyni lagt honum til dúkahníf og hettu. Var hann sakfelldur fyrir hlutdeild í ráninu, en talið að sú hlutdeild tæmdi sök. Í sama hæstaréttarmáli var til endurskoðunar refsiákvörðun héraðsdóms, sem dæmt hafði H fyrir hylmingu í öðru máli. Voru ákvarðanir héraðsdóms um fangelsisrefsingu H staðfestar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar 20. júlí 1999 dómum héraðsdóms Reykjavíkur 8. og 25. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst vægustu refsingar, sem lög leyfa.
Mál þessi voru höfðuð í héraði gegn ákærða og þremur öðrum mönnum fyrir rán, þjófnað og hylmingu. Með hinum áfrýjuðu dómum var ákærði sakfelldur ásamt meðákærðu, sem una dómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms 8. júní 1999 verður staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða fyrir hlutdeild í ráni 3. febrúar 1999. Varðar þessi verknaður ákærða við 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem hér tæma sök. Í héraðsdómi 25. júní 1999 var ákærði sakfelldur fyrir hylmingu, sem hann játaði, og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar.
Með vísan til forsendna hinna áfrýjuðu dóma verða staðfestar niðurstöður þeirra um refsingu ákærða og sakarkostnað.
Ákærði greiði sakarkostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinir áfrýjuðu dómar skulu vera óraskaðir.
Ákærði, Haukur Guðmundsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 1999.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara 9. apríl sl., á hendur G, Hauki Guðmundssyni, kt. 190664-4499, Hverfisgötu 99, Reykjavík og L “fyrir rán framin í Reykjavík í febrúar 1999:
I.
“Ákærðu G og Hauki fyrir að hafa, að kvöldi miðvikudagsins 3. febrúar, í félagi lagt á ráðin um að fremja rán í söluturni að Grundarstíg 12, ákærði Haukur í því skyni lagt ákærða G til dúkahníf og hettu, ákærði G í framhaldi af því farið inn í söluturninn með hnífinn í hendi og hettuna brugðna yfir höfuð og andlit, ógnað þar afgreiðslustúlkunni Sigrúnu Jóhannsdóttur, kt. 040381-4819, sem var ein í söluturninum, með hnífnum og neytt hana þannig til þess að afhenda sér um kr. 20-25.000 úr sjóðvélum söluturnsins og ákærðu báðir deilt með sér þýfinu skammt frá vettvangi.(Mál nr. 10-1999-2711)
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
[...]
III.
[...]
I.
Málavextir.
Miðvikudaginn 3. febrúar sl. um kl. 21:30, var lögreglunni tilkynnt að rán hafi verið framið í söluturni að Grundarstíg 12, Reykjavík. Afgreiðslustúlka sem var ein við afgreiðslu skýrði svo frá að hún hefði þá skömmu áður skyndilega orðið vör við að maður hafi verið kominn inn fyrir afgreiðsluborðið. Hafi hann verið með dúkahníf í hendinni og hettu á höfði og fyrir andliti. Hann hafi skipað henni að koma með peningana. Hún hafi afhent manninum peninga úr sjóðsvél og lottókassa. Hann hafi otað hnífnum að henni þegar hann hafi séð að hún hafi ekki alveg tæmt kassann. Við svo búið hafi hann yfirgefið söluturninn.
Stúlkan, Sigrún Jóhannsdóttir, var yfirheyrð um málsatvik við rannsókn málsins og meðferð þess. Bar hún að hún hafi verið inni á lager söluturnsins, en þegar hún kom fram hafi maður með hettu yfir höfðinu verið kominn inn fyrir afgreiðsluborðið og verið með rauðan dúkahníf í hendi. Hann hafi sagt við sig “komdu með peningana og líka lottópeningana”. Vitnið ber að hún hafi strax farið að peningakassanum og tekið peningana sem þar voru. Hún segir að maðurinn hafi gengið á eftir sér að peningakassanum og hún hafi flýtt sér svo mikið að taka peningana úr sjóðsvélinni að einn 5.000 króna seðill hafi orðið eftir. Þá hafi maðurinn orðið reiður, otað hnífnum upp að sér og sagt við sig “líka þennan seðil”. Því næst hafi maðurinn farið út úr söluturninum. Vitnið lýsti ránsmanninum sem frekar háum manni, þrekvöxnum, með stórar skítugar hendur með gulum blettum á. Hann hafi verið í blárri úlpu, með ljósbrúna hettu sem á voru göt fyrir augu og munn. Hún sagði að maðurinn hafi verið frekar dimmraddaður, dökkhærður og “rónalegur”. Hann hafi verið rólegur og hægur í hreyfingum, en orðið æstur þegar hún gleymdi 5.000 krónunum og þá hafi hann komið nær henni og beint að sér dúkahnífnum, sem hún sagði sér hafa staðið ógn af.
Eftir að lýsingin af þeim sem verknaðinn framdi, hafði verið send út af fjarskiptum lögreglunnar, sást til manns á Laugavegi á móts við hús númer 78, Mónakó, en hún gat átt við þann aðila. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Reyndist hann vera ákærði, G.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi kvaðst ákærði G hafa hitt meðákærða, Hauk Guðmundsson, á vínveitingastaðnum Keisaranum við Laugaveg að kvöldi miðvikudagsins 3. febrúar. Fyrir dómi sagðist ákærði hafa farið á Keisarann í því skyni að hitta meðákærða, Hauk, sem gjarnan héldi þar til. Hafi hann beðið meðákærða, Hauk, um hníf og hettu þar sem hann var “blankur” og ætlaði að ná einhvers staðar í peninga með því að fremja rán. Féllst Haukur á það að láta hann hafa þessa hluti og héldu þeir heim til hans. Þar lét Haukur hann fá sinnepsgula heimatilbúna hettu úr buxnaskálm, bundna saman að ofan, og skorið út göt fyrir augun. Ákærði, G, heldur því fram að meðákærði, Haukur, hafi einnig látið hann fá dúkahníf. Í yfirheyrslum fyrir lögreglu sagði hann að meðákærði, Haukur, hafi stungið upp á því að ákærði, G, fremdi ránið í söluturninum við Grundarstíg sem væri stutt frá heimili þess síðarnefnda. Þeir hafi svo gengið upp að söluturninum en séð að fólk var þar inni. Þá hafi þeir gengið hring í hverfinu og minnir ákærða G að hann hafi skilið við Hauk á horni Spítalastígs og Grundarstígs. Fyrir dómi neitaði hann því hins vegar að meðákærði Haukur hafi stungið upp á því hvar hann ætti að fremja ránið, en þeir Haukur hafi gegnið að þessari sjoppu á Grundarstíg og kveðst ákærði, G, hafa sagt að hann langaði “að prufa þessa”. Hann hafi beðið fyrir utan í nokkrar mínútur en Haukur hafi sagst ætla að hlaupa út á næsta horn, á mótum Spítalastígs og Grundarstígs og bíða þar eftir honum. Hann hafi þá gengið að söluturninum og sett hettuna á sig skömmu áður en hann gekk inn. Enginn hafi þá verið þar inni og kveðst, ákærði, G, hafa gengið inn fyrir afgreiðsluborðið. Þar hafi hann beðið í dálitla stund uns afgreiðslustúlkan kom út af lagernum. Ákærði, G, kveðst þá hafa sagt við hana að hann vildi fá peningana úr kassanum og gekk hún orðalaust að honum. Hún opnaði hann og lét hann fá peningaseðla. Hann hafi þá bent henni á að þarna væri lottókassi og gaf í skyn að þá peninga vildi hann líka fá og varð hún við því. Hann segir einn 5000 króna seðil hafi orðið eftir í kassanum og hann hafi þá bent henni á að hann vildi fá þann seðil líka. Rétti hún honum þann seðil orðalaust. Í lögregluskýrslu lýsti, ákærði, G, atburðum á þessa leið en fyrir dómi kvaðst hann ekki muna atburðarásina glögglega inni í söluturninum, enda hafi hann verið undir áhrifum áfengis og lyfja þeirra, sem hann verði að taka vegna geðsjúkdóms síns. Við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi mótmælti ákærði þeim framburði vitnisins Sigrúnar, að hann hefði ógnað henni með hnífi þar sem hann hafi verið með dúkahnífinn í vinstri úlpuvasa allan tímann. Hann hafi stungið hnífnum í úlpuvasa sinn strax og hann kom inn og sá að afgreiðslustúlkan var lítil. Hann neitaði því að hafa ógnað henni með hnífnum. Hann skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi sótt námskeið hjá VR og lögreglu og því vitað að þegar maður með hettu og hníf kemur að afgreiðslustúlku eða afgreiðslumanni eigi hann að gera nákvæmlega það sem ræninginn biður um. Þar af leiðandi hafi honum fundist að engin áhætta hafi verið tekin þarna inni og þess vegna hafi hann stungið hnífnum aftur í vasann.
Eftir ránið kveðst hann hafa farið út og hlaupið eftir Grundarstíg í átt að Spítalastíg. Hann hafi hitt Hauk á gatnamótunum, þar sem hann skildi við hann, og rétt honum alla peningaseðlana. Þeir hafi svo hlaupið þaðan og inn á veitingastaðinn “Nelly´s Café”. Þar hafi Haukur rétt honum 8000 krónur af ránsfengnum og farið við svo búið. Ákærði, G, kveðst hafa verið þarna í skamma stund en gengið síðan upp Laugaveginn. Þar sem kalt var í veðri hafi hann sett hettuna upp til að hlýja sér á eyrunum. Þegar hann var kominn að veitingastaðnum Monaco við Laugaveg 78 hafi lögreglumaður handtekið hann og tjáð honum að hann svaraði til lýsingar á manni sem lögreglan væri að leita að.
Meðákærði, Haukur, segist hafa hitt ákærða, G, á Keisaranum á Laugavegi miðvikudagskvöldið 3. febrúar sl. G hafi beðið sig um að lána sér hettu því hann ætlaði að ná sér í peninga með ráni. Hann hafi orðið við því og þeir gengið saman að heimili hans, Laufásvegi 10, sem er skammt frá gatnamótum Skálholtsstígar og Laufásvegar. Þar hafi hann tekið ljósar buxur, klippt bút af annarri skálminni og göt fyrir augun og bundið síðan hnút á skálmina. Þessa heimatilbúnu hettu lét hann ákærða, G, fá. Aðspurður hjá lögreglu og fyrir dómi sagðist hann ekki hafa látið hann hafa neitt annað. Hann viðurkennir þó að hafa átt rauðan dúkahníf eins og þann sem ákærði, G, notaði við ránið og telur ekki útilokað að G hafi tekið þann hníf. Við rannsókn málsins og meðferð þess, sagðist meðákærði, Haukur, hafa vitað að ákærði, G, ætlaði að fremja rán en ekki hvar eða hvenær. Haukur kveðst því næst hafa farið á veitingastaðinn “Nelly´s Café” í Ingólfsstræti. Eftir stutta stund hafi ákærði, G, komið þangað og sagt sér að hann hafi rænt peningum í einhverri sjoppu. Ákærði, G, hafi rétt honum 10.000-20.000 krónur en ákærði Haukur sagðist ekki hafa beðið um frekari skýringar á þessum peningum. Hann hafi skömmu síðar yfirgefið “Nelly´s Café” og farið á veitingastaðinn Lillaputt á Laugavegi. Þar hafi hann eytt þeim peningum sem ákærði, G, lét hann fá í áfengi og spilakassa. Hann hafi svo verið handtekinn síðar sama kvöld er hann var á leiðinni á Keisarann.
Ákærði Haukur, neitaði fyrir lögreglu og dómi allri aðild að ráninu og fullyrti að hann hafi hvorki hvatt ákærða, G, til að fremja það né skipulagt það á nokkurn hátt. Ákærði, G, hafi sjálfur tekið ákvörðun um að fremja rán og sú ákvörðun hafi verið sér með öllu óviðkomandi. Hélt hann fast við þennan framburð sinn fyrir dómi.
Niðurstaða.
Ákærði, G, hefur viðurkennt verknað þann sem honum er gefinn að sök í ákærulið I. Hann hefur þó neitað bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi að hafa ógnað afgreiðslustúlkunni í söluturninum að Grundarstíg 12 með dúkahnífnum. Hann hafi sett hnífinn strax í vasann þegar hann hafi séð að stúlkan var ung og lítil. Vitnið, Sigrún Jóhannsdóttir, gat hins vegar gefið greinargóða lýsingu á hnífnum, bæði fyrir lögreglu og dómi. Hún bar einnig að ákærði hafi beint hnífnum að sér og ógnað sér með honum. Frásögn ákærða, G, um það að hann hafi strax sett hnífinn í vasann getur ekki talist trúverðug í ljósi þess að stúlkan gat lýst dúkahnífnum á mjög greinargóðan hátt. Var framburður hennar trúverðugur fyrir dómi. Verður því að telja að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði, G, hafi beitt hnífnum í því skyni að ógna afgreiðslustúlkunni. Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða, Hauki Guðmundssyni, er gefið að sök að hafa lagt á ráðin með ákærða G um að fremja ránið í söluturninum að Grundarstíg 12 og lagt honum til dúkahníf og hettu. Hann hefur viðurkennt að hafa búið til hettu fyrir ákærða, G, en neitað því að hafa lagt honum til hníf sinn. Þykir ósannað gegn eindreginni neitun hans bæði við rannsókn málsins og meðferð þess að hann hafi lagt ákærða, G, til hnífinn, enda er ekki útilokað að meðákærði hafi tekið hnífinn með leynd á heimili ákærða, Hauks. Hann hefur einnig neitað því alfarið að hann hafi verið með í því að taka ákvörðun um hvaða söluturn skyldi ræna og hvenær. Þá neitar hann því einnig að hann hafi beðið eftir ákærða, G, á horni Spítalastígs og Grundarstígs á meðan hann fór inn í sjoppuna. Hefur framburður hans um þetta atriði verið stöðugur. Gegn eindreginni neitun ákærða Hauks er ósannað að honum hafi verið það ljóst hvaða sjoppu meðákærði ætlaði að ræna og að hann hafi beðið hans á umræddu horni Spítalastígs og Grundarstígs. Hins vegar er ljóst að þeir hittust örskömmu eftir að ránið var framið á barnum Nelly´s og skiptu þar með sér ránsfengnum. Þegar framangreint er virt þykir ekki fyllilega sannað að ákærði, Haukur, hafi verið samverkamaður meðákærða í ráninu. Með því að leggja meðákærða til umrædda hettu, sem ákærði vissi að meðákærði hugðist nota til að ræna einhverja sjoppu hefur ákærði Haukur gerst sekur um undanfarandi hlutdeildarverknað í ráni meðákærða, G. Varðar sá verknaður hans við 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með viðtöku peninganna hefur hann einnig gerst sekur um eftirfarandi hlutdeild í verknaði hans og varðar sú háttsemi hans við 254. gr. almennra hegningarlaga. Málið var flutt með tilliti til framangreindra ákvæða almennra hegningarlaga.
II.
[...]
Viðurlög.
[...]
Ákærði Haukur hefur frá árinu 1981 hlotið 14 refsidóma fyrir ýmis afbrot, skjalafals, þjófnaði, gripdeild, ólöglega meðferð á fundnu fé, rán, hilmingu, brot á lögum og reglum um ávana- og fíkniefni og ölvunarakstur. Þá hefur hann frá árinu 1984 gengist með sáttum undir að greiða sektir 16 sinnum fyrir ýmis brot, þar af 10 sinnum fyrir fíkniefnabrot. Auk þess hefur hann gengist undir tvær viðurlagaákvarðanir fyrir samskonar brot og lögreglustjórasekt fyrir líkamsárás. Hann hlaut síðast refsivistardóm 8. september 1997, 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, en í maí sama ár dæmdi Hæstiréttur hann í 12 mánaða fangelsi fyrir fíkniefna- og þjófnaðarbrot, en með þeim dóminum voru einnig teknar upp eftirstöðvar eldri refsingar. Honum var veitt reynslulausn í 2 ár 8. október sl. á eftirstöðvum refsingar, samtals 260 dögum. Með broti því, sem fjallað er um í dómi þessum hefur ákærði rofið skilorð framangreindrar reynslulausnar. Ber því nú samkvæmt 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976 og með hliðsjón af 60. gr. sömu laga að dæma hann nú í einu lagi fyrir brot þau, sem hér er fjalla um og hina 260 daga óloknu refsivist.
Ákærði er vanaafbrotamaður og verður refsing hans því einnig ákveðin með hliðsjón af 71. gr., sbr. 255. gr., 72. gr. svo og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
[...]
Ákærði, Haukur, er dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
[...]
Annan sakarkostnað skal ákærði, G, greiða.
Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
[...]
Ákærði, Haukur Guðmundsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
[...]
Ákærði, Haukur, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
[...]
Annan sakarkostnað greiði ákærði, G.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 1999.
Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 8. þ.m. gegn ákærðu A, [...] og Hauki Guðmundssyni, kt. 190664-4499, Hverfisgötu 86, Reykjavík, „fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 1999:
I
[...]
II
Báðum ákærðu fyrir hilmingu, ákærða Hauki með því að hafa þriðjudaginn 19. janúar í húsi við Bjarnarstíg, tekið við frá Guðna Þór Guðmundssyni, kt. 181176-2969, eftirlíkingum af 11 pörum af trúlofunarhringjum, að verðmæti kr. 55.000, sem samkvæmt áföstum verðmerkingum skartgripaverslunar Jóhannesar Leifssonar gullsmiðs, Laugavegi 30, voru samtals að verðmæti kr. 320.040, í þeim tilgangi að selja þá, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að nefndur Guðni Þór hafði stolið eftirlíkingunum skömmu áður, og ákærða A með því að hafa stuttu síðar á heimili sínu tekið við eftirlíkingunum úr höndum meðákærða Hauks í þeim tilgangi að selja þá, þrátt fyrir að honum væri ljóst að munanna hafði verið aflað með auðgunarbroti. (Mál nr. 010-1999-1341)
Telst þetta varða við 254. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Í málinu gerir Vátryggingafélag Íslands, kt. 690689-2009, kröfu á hendur ákærða A um skaðabætur að fjárhæð kr. 574.287.”
Með skýlausri játningu ákærða Hauks, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um það brot, sem honum er að sök gefið í ákæru og þar er rétt heimfært til refsiákvæða.
Þá er einnig sannað með skýlausri játningu ákærða A, sem er í samræmi við gögn málsins, að hann hafi gerst sekur um það brot, sem honum er að sök gefið í I. kafla ákæru og þar er rétt heimfært til refsiákvæða. Hann hefur samþykkt framkomna skaðabótakröfu að því er þennan kafla ákæru varðar.
[...]
Viðurlög.
Ákærði Haukur hefur frá árinu 1981 hlotið 15 refsidóma fyrir ýmis afbrot, skjalafals, þjófnaði, gripdeild, ólöglega meðferð á fundnu fé, rán, hilmingu, brot á lögum og reglum um ávana- og fíkniefni og ölvunarakstur. Þá hefur hann frá árinu 1984 gengist með sáttum undir að greiða sektir 16 sinnum fyrir ýmis brot, þar af 10 sinnum fyrir fíkniefnabrot. Auk þess hefur hann gengist undir tvær viðurlagaákvarðanir fyrir samskonar brot og lögreglustjórasekt fyrir líkamsárás. Hann hlaut næstsíðasta refsivistardóm sinn 8. september 1997, 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, en í maí sama ár dæmdi Hæstiréttur hann í 12 mánaða fangelsi fyrir fíkniefna- og þjófnaðarbrot, en með þeim dóminum voru einnig teknar upp eftirstöðvar eldri refsingar. Honum var veitt reynslulausn í 2 ár 8. október sl. á eftirstöðvum refsingar, samtals 260 dögum. Hann rauf þá reynslulausn og með dómi 8. júní sl. var sú reynslulausn dæmd með refsingu sem honum var gerð fyrir brot gegn 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga og 254. gr. sömu laga. Brot ákærða sem hér er fjallað um er framið áður en hann hlaut dóminn 8. janúar sl. Ber því að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber einnig að virða það ákærða til hagsbóta að hann hefur án undanbragða viðurkennt brot sitt. Ákærði er hins vegar vanaafbrotamaður og verður refsing hans því einnig ákveðin með hliðsjón af 71. gr., sbr. 255. gr., 72. gr. svo og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði.
[...]
Þá er ákærði, Haukur, dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur, [...]
Annan sakarkostnað eru ákærðu dæmdir til að greiða óskipt.
Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
[...]
Ákærði, Haukur Guðmundsson, sæti fangelsi í 2 mánuði.
Ákærði, Haukur, greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.
[...]
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.