Hæstiréttur íslands
Mál nr. 65/2002
Lykilorð
- Víxill
- Res Judicata
- Frávísunarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2002. |
|
Nr. 65/2002. |
Áki Pétursson Sigurbjörg Pétursdóttir og Áslaug Árnadóttir (Jónatan Sveinsson hrl.) gegn Haraldi Sveini Gunnarssyni (Guðmundur Ágústsson hdl.) |
Víxilmál. Res Judicata. Frávísunarkröfu hafnað.
H höfðaði víxilmál á hendur Á o.fl. eftir 17. kafla laga nr. 91/1991. Þótti H hafa sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að gjalddaga víxilsins hefði verið breytt úr 1. ágúst í 1. október 1999 áður en Á o.fl. rituðu nöfn sín á hann. Með vísan til 69. gr. víxillaga nr. 93/1933 var því ekki fallist á þau rök að skuldbinding þeirra væri fyrnd eða fallin niður vegna þess að víxillinn hefði ekki verið sýndur á réttum tíma. Hafnað var kröfu Á o.fl. um frávísun, þar sem eldri dómur Hæstaréttar fól ekki í sér efnislega úrlausn á þeim réttarágreiningi sem uppi var í þessu máli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2002. Þau krefjast aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir héraðsdómi kröfðust áfrýjendur frávísunar málsins á grundvelli þess að búið væri að leggja dóm á sakarefni þess, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sbr. dóm Hæstaréttar 30. ágúst 2000 í máli nr. 260/2000. Hafnaði héraðsdómur þeirri kröfu með úrskurði 11. maí 2001. Atvik þessa fyrra máls voru þau að sýslumaðurinn í Reykjavík gerði að kröfu stefnda fjárnám hjá Sigurbjörgu Pétursdóttur, einum áfrýjenda, á grundvelli víxilsins, sem deilt er um í þessu máli. Var leitað úrlausnar héraðsdóms um fjárnámið og úrskurði hans skotið til Hæstaréttar, sem felldi það úr gildi. Dómur Hæstaréttar var reistur á meginreglu 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og fól ekki í sér efnislega úrlausn á þeim réttarágreiningi, sem uppi er í þessu máli. Verður frávísunarkröfu áfrýjenda því hafnað.
Hvað varðar varakröfu áfrýjenda um sýknu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans, svo og ákvæði hans um málskostnað.
Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaðar.
Áfrýjendur, Áki Pétursson, Sigurbjörg Pétursdóttir og Áslaug Árnadóttir, greiði stefnda, Haraldi Sveini Gunnarssyni, óskipt 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2001.
Mál þetta var höfðað 27. september 2000 og dómtekið 12. nóvember 2001.
Stefnandi er Haraldur Gunnarsson, kt. 140459-4379, Ystaseli 31 í Reykjavík.
Stefndu eru Áslaug M. Sigurbjargardóttir, kt. 080973-4629 og Áki Pétursson, kt. 280873-4899, bæði til heimilis að Torfufelli 27, Sigurbjörg Pétursdóttir, kt. 260755-7149, Skipholti 50 og Áslaug Árnadóttir, kt. 200128-4199, Asparfelli 10, öll í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. október 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2001 var kröfu stefndu um frávísun málsins hafnað.
I
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Forsaga máls þessa er sú að með kaupsamningi 20. mars 1998 seldi Eggert Arason stefndu Áslaugu Sigurbjargardóttur og Áka Péturssyni sólbaðsstofuna Punktinn, Hraunbergi 4 í Reykjavík. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna, skyldi það greitt með eftirfarandi hætti:
|
Yfirtekin skuld við Glitni skv. yfirliti |
kr. 474.716 |
|
Við undirritun kaupsamnings |
kr. 1.000.000 |
|
Með víxli pr. 1. júní 1999 |
kr. 500.000 |
|
Með víxli pr. 1. ágúst 1999 |
kr. 600.000 |
|
Með víxli pr. 1. október 1999 |
kr. 1.000.000 |
|
Með víxli pr. 5. desember 1999 |
kr. 1.125.284 |
Mál þetta er höfðað til innheimtu á einum þessara víxla, að fjárhæð ein milljón króna með gjalddaga 1. október 1999. Víxillinn er gefinn út í Reykjavík 20. mars 1999 af stefnda Áka Péturssyni, samþykktur til greiðslu af stefndu Áslaugu M. Sigurbjargardóttur í Íslandsbanka hf. í Reykjavík. Víxillinn var framseldur af útgefanda og ábektur af stefndu Sigurbjörgu Pétursdóttur og Áslaugu Árnadóttur. Stefnandi er einnig ábekingur á víxlinum sem er án afsagnar.
Stefnandi fékk víxil þennan sem greiðslu fyrir bifreið sem hann seldi fyrrnefndum Eggert. Stefnandi fól Íslandsbanka hf. innheimtu víxilsins 30. ágúst 1999 en tók hann úr innheimtu vegna greiðslufalls 10. nóvember s.á. Fjárnám var gert til tryggingar víxilkröfunni 2. mars 2000 í eignarhluta stefndu Sigurbjargar Pétursdóttur í húseigninni Úthlíð 9 í Reykjavík. Við gerðina komu fram mótmæli af hálfu gerðarþola sem lutu að því gjalddagi víxilsins hafi átt að vera 1. ágúst 1999 en honum verið breytt í 1. október 1999. Þá hafi víxillinn ekki verið vistaður í banka á gjalddaga og því hafi víxilréttur fallið niður fyrir vangeymslu. Gerðarþoli vísaði aðfarargerðinni til héraðsdóms til ógildingar en fjárnámið var staðfest með úrskurði 5. júní 2000. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar sem felldi fjárnámið úr gildi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem varnaraðili hefði kosið að leita fullnustu á kröfu sinni samkvæmt víxlinum með fjárnámi án undangenginnar dómsúrlausnar eða sáttar hafi hann þar með girt fyrir að leidd yrðu vitni til bera um það hvert efni víxilsins hefði verið þegar sóknaraðili ritaði nafn sitt á hann sbr. 1. mgr. 90. gr. og 94. gr. laga nr. 90/1989. Taldi dómurinn að varhugavert væri að telja nægilega sannað að gjalddagi víxilsins hafi verið tilgreindur 1. október 1999 þegar Sigurbjörg ritaði nafn sitt á hann.
Í máli þessu er deilt um hvort gjalddaga víxilsins hafi verið breytt fyrir eða eftir að stefndu gengust undir víxilskuldbindingar sínar.
II
Málsástæður og lagarök málsaðila
Stefnandi telur framlagðan víxil uppfylla öll skilyrði 1. gr. víxillaga nr. 93/1933 til að teljast lögformlegur víxill. Víxillinn hafi verið einn af fjórum víxlum sem gefnir hafi verið út af stefnda Áka og samþykktir af stefndu Áslaugu Sigurbjargardóttur til greiðslu á fjórum afborgunum samkvæmt kaupsamningi þeirra við Eggert Arason um sólbaðsstofuna Punktinn. Björgvin Björgvinsson fasteignasali hafi gengið frá kaupsamningi að viðstöddum samningsaðilum. Þórhallur Björnsson starfsmaður fasteignasölunnar hafi fengið það verkefni að vélrita víxlana í samræmi við gjalddaga kaupsamningsins. Þórhallur hafi gert mistök við vélritun umrædds víxils og skráð á hann gjalddagann 1. ágúst 1999 en sjálfur uppgötvað þau mistök, málað yfir gjalddagann og vélritað yfir réttan gjalddaga, 1. október 1999, í samræmi við kaupsamninginn. Eftir það hafi stefndu Áki og Áslaug Sigurbjargardóttir fengið víxlana í hendur, ritað nöfn sín á þá og aflað undirritunar annarra víxilskuldara.
Eftir að Íslandsbanki hf. hafi neitað að kaupa víxilinn vegna þess að gjalddaga hans hafði verið breytt hafi stefnandi fengið Þórhall til að rita upphafsstafi sína við breytinguna en stefndi Áki neitað að rita sína stafi þar sem þá hafi verið kominn upp ágreiningur vegna kaupa á sólbaðsstofunni.
Stefnandi vísar til 69. gr. víxillaga og telur að þar sem stefndu hafi ritað nöfn sín á víxilinn eftir að gjalddaga hans hafi verið breytt hafi þau orðið skuldbundin í samræmi við hinn breytta texta. Þar sem víxillinn hafi verið settur í innheimtu í Íslandsbanka hf. 30. ágúst 1999 hafi hann verið sýndur réttilega til greiðslu miðað við gjalddaga 1. október 1999 og fyrning hafi verið rofin með birtingu stefnu 27. september 2000.
Stefnandi kveður málið rekið sem víxilmál samkvæmt 17. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi hefur heimilað að varnir sem byggist á gildi víxilsins komist að í málinu hvort sem um er að ræða varnir sem byggist á tilurð hans, gjalddaga, sýningu eða öðru varðandi gerð hans.
Stefndu Áki og Áslaug Árnadóttir byggja sýknukröfu sína á því, að með vísan til 2. mgr. 70. gr. víxillaga sé víxilkrafa á hendur þeim fyrnd. Gjalddagi víxilsins hafi upphaflega verið 1. ágúst 1999 en stefna í málinu hafi ekki verið birt fyrr en 27. september 2000. Stefndu Áki, Áslaug Árnadóttir og Sigurbjörg byggja jafnframt á því að breytingin á víxlinum hafi verið gerð án samþykkis þeirra eftir að þau tókust á hendur víxilábyrgð. Breytingin sé óskuldbindandi fyrir þau, sbr. 69. gr. víxillaga og þau séu því aðeins skuldbundin í samræmi við upphaflegan texta víxilsins.
Stefndu byggja á því að það sé almenn regla að sá sem heldur fram staðhæfingu um efni og inntak löggernings beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Í samræmi við þessa meginreglu sé sá háttur hafður á við gerð löggerninga, hvort sem um sé að ræða víxla, skuldabréf eða almenna samninga, að samningsaðilar riti nöfn sín undir þá til staðfestingar á umsömdu efni. Gildi þetta ekki síður við allar efnisbreytingar sem gerðar séu á löggerningi frá upphaflegum texta hans enda afar mikilvægt að tryggja sönnun fyrir því að breytingar séu gerðar með samþykki þeirra sem efna eiga samninginn. Með vísan til þessa hefðu stefndu því átt að árita víxilinn um breytingu á gjalddaga hans því til staðfestingar að samkomulag væri um hana.
Málum hafi verið þannig háttað að stefndu, Áki og Áslaug Sigurbjargardóttir, hafi komið með víxileyðublöðin til meðstefndu Sigurbjargar og Áslaugar Árnadóttur til áritunar. Áslaug Sigurbjargardóttir hafi svo farið með víxlana á fasteignasöluna og afhent þá þar. Eftir viðtöku víxlanna hafi Þórhallur Björnsson, eða einhver annar, séð að ekki var samræmi milli gjalddaga eins víxilsins og greiðsludags samkvæmt kaupsamningi. Hafi hann þá, án samráðs við víxilskuldara, breytt gjalddaganum og sett upphafsstafi sína við. Stefndu telja að breytingin hljóti að hafa verið gerð eftir áritun samþykkjanda og útgefanda þar sem ekki hafi verið ástæða til að staðfesta efnisbreytingu með upphafsstöfum nema í þeim tilgangi að breyta þá fullgiltu skjali. Hefðu mistökin komið í ljós fyrir undirritun hefði mátt ætla að nýtt víxileyðublað hefði verið útfyllt og það afhent í réttu horfi til undirskriftar. Stefndu telja að Þórhallur hafi enga heimild haft til umræddrar breytingar. Honum hafi borið að óska eftir því að víxilskuldararnir staðfestu efnisbreytinguna með sérstakri áritun á víxilinn. Það hafi ekki verið gert. Ákvörðun Þórhalls um að breyta víxlinum hafi því enga réttarskapandi þýðingu og séu stefndu ekki við hana bundin.
Stefndu telja að stefnandi verði að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að víxillinn hafi verið undirritaður eftir að gjalddaga hans hafi verið breytt og telja þau að stefnanda hafi ekki lánast sönnun fyrir því.
Af framangreindu telja stefndu Áki, Sigurbjörg og Áslaug Árnadóttir leiða, að víxilábyrgð þeirra nái aðeins til víxilsins miðað við gjalddaga 1. ágúst 1999. Samkvæmt því hafi stefnandi glatað víxilrétti sínum gagnvart þeim, sbr. 1. mgr. 53. gr. víxillaga. Víxilinn hafi borið að sýna til greiðslu í Íslandsbanka hf. í Reykjavík á gjalddaga eða næstu tveimur dögum þar á eftir, sbr. 38. gr. víxillaga, þ.e. á tímabilinu 1.-3. ágúst 1999 en með hliðsjón af stimplun víxilsins og innheimtubeiðni liggi fyrir að víxillinn hafi ekki verið afhentur Íslandsbanka hf. fyrr en 30. ágúst 1999.
Stefnda, Áslaug Sigurbjargardóttir byggir sýknukröfu sína á því að víxillinn hafi verið notaður sem greiðsla samkvæmt kaupsamningi um sólbaðsstofuna Punktinn, Hraunbergi 4, Reykjavík. Eftir að sólbaðsstofan hafi verið afhent hafi komið í ljós að rekstur sá sem keyptur var hafi verið mun verri en áskilið hafi verið við sölu og á húsnæði sólbaðsstofunnar miklir gallar. Kröfum vegna þessa geti stefnda skuldajafnað á móti víxilkröfunni enda eigi reglur um mótbárutap ekki við.
III
Niðurstaða
Óumdeilt er í máli þessu að gjalddaginn 1. ágúst 1999 var upphaflega vélritaður á víxil þann sem kröfur stefnanda eru byggðar á og að málað var yfir þá dagsetningu og gjalddaginn 1. október 1999 vélritaður yfir.
Í 69. gr. víxillaga nr. 93/1933 segir að ef breytingar eru gerðar á texta víxils þá séu þeir sem ritað hafa nöfn sín á víxilinn eftir að breytingin var gerð, skuldbundnir í samræmi við hinn breytta texta, en hinir, sem áður höfðu ritað nöfn sín á víxilinn, skuldbundnir í samræmi við upphaflegan texta.
Af orðalagi 69. gr. víxillaga verður ekki annað ráðið en að almennar reglur um sönnun eigi við um úrlausn þess álitaefnis hvort texta víxils hafi verið breytt fyrir eða eftir að víxilskuldari ritaði nafn sitt á víxil.
Vafi um það hvort samningsaðilar séu bundnir við breytingar sem framkvæmdar eru á skjölum getur verið bagalegur og því er algengt að samningsaðilar setji upphafsstafi sína við sýnilegar breytingar sem gerðar eru á prentuðum eða vélrituðum texta samnings. Það að víxilskuldarar settu ekki upphafsstafi sína við breytingar á umræddum víxli verður þó ekki talin sönnun þess að gjalddaga víxilsins hafi verið breytt eftir að þau rituðu nöfn sín á víxilinn.
Björgvin Björgvinsson fasteignasali á fasteignasölunni Ársölum annaðist gerð kaupsamnings um sólbaðsstofuna Punktinn, en umræddur víxill var gefinn út vegna þeirra kaupa. Hann kom fyrir dóm í fyrrnefndu ágreiningsmáli vegna aðfarargerðar sem lauk með dómi Hæstaréttar 30. ágúst 2000. Hann bar að Þórhallur Björnsson starfsmaður fasteignasölunnar hafi sennilega vélritað víxlana. Þeir hafi verið útbúnir í samræmi við samþykkt kauptilboð og mistök orðið við vélritun á umræddum víxli. Þau mistök hafi verið leiðrétt í samræmi við umsamin greiðslukjör og Þórhallur sett stafi sína við þá breytingu. Allir víxilskuldarar hafi áritað víxilinn þannig breyttan.
Fyrir dómi í máli þessu bar Björgvin að stefndu Áki og Áslaug Sigurbjargardóttir hafi gert tilboð í sólbaðsstofuna Punktinn. Eigandi hafi gert gagntilboð og gengið hafi verið til samninga. Greiðsluröð hafi verið nánast í samræmi við upphaflegt tilboð og bæði í tilboði og endanlegum kaupsamningi hafi verið gert ráð fyrir greiðslu með víxli 1. október 1999. Hann kvaðst hafa annast skjalagerð vegna sölunnar en Þórhallur samstarfsmaður hans séð um að rita upp víxlana. Þórhallur hafi vélritað gjalddagann 1. ágúst 1999 á tvo víxla en uppgötvað mistökin áður en hann kom með víxilinn til undirritunar. Björgvin kvaðst hafa tekið eftir því að búið hafi verið að pensla yfir upphaflega dagsetningu. Kaupsamningur og greiðsluskjöl hafi verið lesin saman og ljóst hafi verið að samræmi væri á milli. Hann kvaðst ekki viss um að neinn hafi sérstaklega tekið eftir því að búið var að leiðrétta gjalddagann. Hann kvaðst ekki hafa séð ástæðu til að víxilskuldarar settu stafi sína við yfirpennslaðar leiðréttingar á víxlinum þar sem búið hafi verið að lesa efni skjalanna yfir og víxlarnir verið í samræmi við kaupsamninginn. Björgvin kvað þau Áka og Áslaugu Sigurbjargardóttur hafa áritað víxlana hjá sér en síðan farið með þá út í bæ til að fá áritun ábyrgðaraðila. Hann kvað stefnanda hafa haft samband við skrifstofuna um mitt sumar 1999 þar sem bankinn hafi óskað eftir að sá sem framkvæmt hefði breytingu á víxlinum ritaði upphafsstafi sína við breytinguna.
Þórhallur Björnsson bar fyrir dómi í þessu máli að hann hafi vélritað víxlana frammi í afgreiðslu fasteignasölunnar að samningsaðilum viðstöddum. Hann hafi við útfyllingu þeirra stuðst við ljósrit af kaupsamningi. Honum hafi orðið á þau mistök að vélrita gjalddagann 1. ágúst 1999 á tvo víxla. Hann hafi sjálfur orðið mistakanna var og leiðrétt gjalddaga annars víxilsins í 1. október 1999 til samræmis við kaupsamning þann sem verið var að ganga frá. Hann taldi að þetta hefði ekki farið framhjá neinum. Hann hafi síðan afhent Björgvini víxlana. Þórhallur kvaðst hafa sett upphafsstafi sína við breytingarnar þegar stefnandi hafi komið til hans vegna vandkvæða á að selja víxilinn.
Stefnandi bar á sama veg um það þegar Þórhallur setti upphafstafi sína á víxilinn og bar auk þess að stefndi Áki hafi ekki viljað setja upphafsstafi sína á víxilinn þar sem þá hafi verið kominn upp ágreiningur um kaupin á sólbaðsstofunni.
Stefnda Áslaug Sigurbjargardóttir bar fyrir dómi að hún og stefndi Áki hafi verið viðstödd þegar umræddir víxlar voru vélritaðir á fasteignasölunni. Hún kvað víxilinn hafa verið gefinn út til tryggingar greiðslu afborgunar sem vera átti 1. ágúst 1999. Hann hafi ekki átt að nota sem greiðslu. Hún kvað samræmi hafa átt að vera milli gjalddaga víxla og kaupsamnings og því líklegt að vitleysur væru í kaupsamningi varðandi gjalddaga. Hún taldi að í kaupsamningi hefði gjalddaginn 1. október 1999 líklega verið ranglega tilgreindur og að breytingar á greiðslufyrirkomulagi hefðu verið gerðar frá kauptilboði til kaupsamnings. Hún minntist þess ekki að fasteignasalinn hafi farið nákvæmlega yfir víxlana með þeim eða lesið þá saman við kaupsamninginn. Hún kvað þau Áka hafa skrifað undir víxlana á fasteignasölunni.
Stefndi Áki bar fyrir dómi að gjalddagi víxilsins hafi verið 1. ágúst 1999 þegar hann ritaði nafn sitt á hann. Áki kvaðst aldrei hafa samþykkt breytingar á gjalddaga víxilsins og ekki vitað um þær fyrr en hann hafi síðar verið beðinn um að samþykkja þær. Hann kvað víxlana hafa verið afhenta til tryggingar á greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um sólbaðsstofu. Farið hafi verið yfir kaupsamninginn og víxlana á fasteignasölunni og hann ekki tekið eftir ósamræmi milli víxilsins og kaupsamningsins. Fasteignasalinn hafi stemmt skjölin saman, lesið þau yfir og látið þau kvitta á hvert blað. Hann minnti að greiða hafi átt tvo víxla 1. ágúst 1999.
Stefnda Sigurbjörg bar fyrir dómi að komið hefði verið með víxlana heim til hennar til undirritunar og þá hafi engar lagfæringar eða breytingar verið búið að gera á víxlunum og hún hafi aldrei samþykkt slíkar breytingar. Hún fullyrti að umræddur víxill hefði verið með gjalddaga 1. ágúst 1999 þegar hún ritaði á hann. Hana minnti að aðeins einn víxill hefði verið með gjalddaga 1. ágúst 1999.
Eggert Arason seljandi sólbaðsstofunnar Punktsins og sá sem notaði umræddan víxil í viðskiptum við stefnanda fullyrti að hann hafi fengið víxilinn sem hluta af greiðslu fyrir sólbaðsstofuna. Hann kvað Björgin Björgvinsson fasteignasala hafa verið á stofunni en Þórhall Björnsson hafa vélritað víxlana í öðru herbergi. Í ljós hafi komið að tveir víxlanna voru með sömu dagsetningu og hafi það verið leiðrétt með því að “tippexa yfir” áður en víxlarnir hafi verið undirritaðir. Öllum hafi verið ljóst að búið hafi verið að breyta gjalddaganum og þannig hafi þau Áki og Áslaug Sigurbjarnardóttir farið með víxlana til undirritunar. Daginn eftir, á laugardegi, hafi verið búið að fá allar undirskriftir og skjölin afhent honum. Hann fullyrti að Þórhallur hafi ekki verið búinn að setja upphafsstafi sína á víxilinn þegar hann fékk víxilinn afhentan og hafi ekki verið viðstaddur þegar hann gerði það.
Samkvæmt framansögðu báru vitnin Eggert og starfsmenn fasteignasölunnar Ársala á þann veg að víxill sá sem deilt er um í málinu hafi verið með gjalddaga 1. október 1999 þegar víxilskuldarar rituðu nöfn sín á hann. Það rýrir nokkuð sönnunargildi framburðar umræddra vitna að það kann að varða þau nokkru hver úrslit þessa máls verða. Hins vegar verður að líta til þess og gott samræmi er í framburði vitnanna og hann samræmist vel þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu.
Stefndu Áslaug Sigurbjargardóttir, Áki og Sigurbjörg báru hins vegar að gjalddagi víxilsins hafi verið 1. ágúst 1999 þegar þau rituðu nöfn sín á hann. Sem fyrr segir bar stefndi Áki fyrir dómi að farið hafi verið vel yfir skjöl málsins á fasteignasölunni en stefnda Áslaug Sigurbjargardóttir hélt hinu gagnstæða fram. Þá létu stefndu Áki og Áslaug Sigurbjargardóttir að því liggja að enginn víxlanna hafi átt að vera á gjalddaga 1. október 1999 heldur tveir á gjalddaga 1. ágúst 1999 og þannig hafi kaupsamningur átt að hljóða. Þessi framburður er hins vegar í andstöðu við skjöl málsins og framburð vitna um aðdraganda kaupsamningsins. Í fremur óljósum framburði Sigurbjargar kom m.a. fram að aðeins einn víxlanna hafi verið með gjalddaga 1. ágúst 1999. Óumdeilt er hins vegar að víxill að fjárhæð 600.000 krónur var með gjalddaga þann dag. Talsvert ósamræmi er í framburði stefndu innbyrðis og einnig er hann í ýmsum atriðum órökréttur og í ósamræmi við skjöl málsins. Framburði stefndu ber að meta með hliðsjón af 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Samkvæmt samningi Áslaugar Sigurbjargardóttur og Áka Péturssonar við Eggert Arason um kaup á sólbaðsstofunni Punktinum átti að greiða stærstan hluta kaupverðs með fjórum víxlum, þar af einum að fjárhæð 600.000 krónur á gjalddaga 1. ágúst 1999 og öðrum að fjárhæð 1.000.000 krónur, á gjalddaga 1. október 1999. Óumdeilt er að umræddur víxill var undirritaður til að uppfylla skuldbindingar kaupenda samkvæmt fyrrnefndum samningi. Tveir starfsmenn fasteignasölunnar Ársala og Eggert Arason og hafa borið að víxlarnir hafi verið bornir saman við texta kaupsamningsins. Fær sú framkvæmd einnig stoð í framburði stefnda Áka en hann bar fyrir dómi að vel hafi verið farið yfir kaupsamninginn og hann ekki orðið var við neitt misræmi milli víxlanna og samningsins. Benda þessir framburðir eindregið til þess að gjalddagi hins umdeilda víxils hafi við undirritun hans verið sá sami og fram kom í kaupsamningi eða 1. október 1999.
Að sama brunni ber að gjalddagi víxilsins var færður aftur um 3 mánuði en ekki hefur verið sýnt fram á að seljandi, starfsmenn fasteignasölunnar eða stefnandi hafi getað haft nokkurn ávinning af því að breyta gjalddaga víxilsins með slíkum hætti eftir að víxilskuldarar höfðu undirritað hann.
Þegar litið er til nánast samhljóða framburða þriggja vitna sem eiga sér stoð í framlögðum kaupsamningi og þeirra atriða í framburði stefndu sem samrýmast framburði vitnanna, þykir stefnandi hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að gjalddaga umrædds víxils hafi verið breytt úr 1. ágúst í 1. október 1999 áður en stefndu rituðu nöfn sinn á víxilinn. Með vísan til 69. gr. víxillaga verður því ekki fallist á þau rök stefndu að víxilskuldbinding þeirra sé fyrnd eða fallin niður vegna þess að víxillinn hafi ekki verið sýndur á réttum tíma.
Mál þetta er höfðað sem víxilmál eftir 17. kafla laga nr. 91/1991. Stefnandi hefur þó heimilað varnir sem lúta að gildi víxilsins og á það jafnt við um tilurð hans, gjalddaga, sýningu og annað sem stefndu kunna að hafa uppi um gerð hans. Þessi yfirlýsing stefnanda nær ekki til þeirra varna sem stefnda Áslaug hefur haft uppi í málinu og varða lögskiptin að baki víxlinum. Með vísan til ákvæða 1. og 2. mgr. 118.gr. laga nr. 91/1991 komast þessar varnir ekki að í málinu gegn mótmælum stefnanda. Þá eru gagnkröfurnar með öllu órökstuddar auk þess sem 4. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991 kemur í veg fyrir að þær gætu verið notaðar til skuldajafnaðar á móti víxilkröfum. Viðskiptabréfsreglur koma einnig í veg fyrir að slíkum vörnum verði haldið uppi gagnvart grandlausum handhafa víxils, sbr. 2. mgr. 19. gr. víxillaga.
Samkvæmt ofansögðu verða öll stefndu dæmd til að greiða stefnanda óskipt 1.000.000 krónur auk almennra dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndu greiði óskipt stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Guðmundur Ágústsson hdl. en af hálfu stefndu Sveinn Jónatansson hdl.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Áslaug M. Sigurbjargardóttir, Áki Pétursson, Sigurbjörg Pétursdóttir og Áslaug Árnadóttir greiði óskipt stefnanda, Haraldi Sveini Gunnarssyni, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. október 1999 til 1. júlí 2001 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.