Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
  • Aðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Nr. 21/1999:

Mánudaginn 18. janúar 1999

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Y

(enginn)

Kærumál. Nauðungarvistun. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Með dómi héraðsdóms var hafnað beiðni X um að að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Dómur héraðsdóms ómerktur þar sem réttum varnaraðila, syni X sem beiðst hafði nauðungarvistunarinnar, hafði ekki verið gefinn kostur á að láta málið til sín taka.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 1999, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem varnaraðili, sonur hans, leitaði eftir 7. sama mánaðar og dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti sama dag. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að vista hann nauðugan á sjúkrahúsi, svo og að þóknun talsmanns hans vegna flutnings þessa kærumáls verði greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Sá, sem leitar eftir því að maður verði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi með stoð í ákvæðum III. kafla lögræðislaga, telst málsaðili þegar hlutaðeigandi maður neytir réttar síns samkvæmt 30. gr. laganna til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 5. maí 1998 í máli nr. 175/1998. Héraðsdómari gaf aldrei varnaraðila, sem eins og áður sagði leitaði eftir nauðungarvistun sóknaraðila, kost á að láta málið til sín taka. Þegar af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talmanns sóknaraðila, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður sóknaraðila, X greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 14. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í lögræðismálinu nr. L-2/1999:  Beiðni X um að felld verði úr gildi ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins 7. janúar sl. um að vista hann á sjúkrahúsi.  Var málið þingfest og tekið til úrskurðar í gær.

Með beiðni dagsettri 7. janúar sl. hefur Hilmar Ingimundarson hrl., fyrir hönd X, kt..., ..., ..., krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins sama dag um að vista hann á sjúkrahúsi, sbr. 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71,1997. 

Hin kærða ákvörðun er reist á vottorði Kristófers Þorleifssonar, geðlæknis á Kleppi.  Kemur þar fram að sóknaraðili hafi verið lagður inn á spítalann 6. janúar sl. í alvarlegu oflætisástandi.  Hann hafi um árabil átt við geðhvarfasýki að stríða sem fylgt hafi hátt oflætisástand og djúpt þunglyndi á víxl. Undanfarið hafi hann verið í alvar­legu oflætisástandi, eytt peningum og skuldsett sig.  Hann sé eignalaus og heimilislaus og hafi farið þrjár ferðir til Kaupmannahafnar með stuttu millibili á síðustu vikum.  Hafi hann verið að ráðgera ferð til Noregs en börn hans getað afstýrt því með því að leggja hann inn.  Segir læknirinn sóknaraðila vera alvarlega veikan og hann hafi ekkert sjúkdómsinnsæi.  Stefni hann andlegri og líkamlegri velferð sinni í voða.  Sé ekki unnt að koma við viðeigandi meðferð nema á lokaðri geðdeild og beri því brýna nauðsyn til þess að vista hann nauðugan á sjúkrahúsi.

Dómarinn hefur rætt við sóknaraðila og geðlækninn.  Hefur hann sannfærst um að eins er komið fyrir sóknaraðila og læknirinn hefur vottað.  Ber því að staðfesta ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins frá 7. janúar 1999 um að sóknaraðili, X, kt. ..., ..., ..., skuli vistast á sjúkrahúsi.  Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 30.000 krónur, úr ríkissjóði.    

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins 7. janúar 1999, um að sóknar­aðili, X, kt. ..., ..., ..., skuli vistast á sjúkrahúsi.

Þóknun til skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 30.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.