Hæstiréttur íslands
Mál nr. 374/2009
Lykilorð
- Skuldamál
- Tryggingarbréf
- Fölsun
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2010. |
|
Nr. 374/2009. |
Sophia Guðrún Hansen (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Sigurði Pétri Harðarsyni (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Skuldamál. Tryggingarbréf. Fölsun.
Með dómi héraðsdóms var SG gert að greiða SP rúmlega nítján milljónir króna ásamt dráttarvöxtum en fjárkrafa hans var byggð á skuldarviðurkenningu útgefinni í júní 2007. Þá var jafnframt staðfestur veðréttur SP í tilgreindri eign fyrir dómkröfum hans í samræmi við tryggingarbréf dagsett í janúar 2005. Fyrir Hæstarétti krafðist SG aðallega að héraðsdómur yrði ómerktur þar sem héraðsdómur hefði með úrskurði hafnað ósk hennar, á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, um að fresta aðalmeðferð málsins. Þá hefðu aðilar ekki verið búnir að lýsa gagnaöflun lokið. Aðalkröfu SG var hafnað með vísan til 2. mgr. sama ákvæðis, enda bæri að hraða málsmeðferð eftir föngum. Varakrafa SG um sýknu var byggð á því að fyrrgreind skuldarviðurkenning og tryggingarbréf væru fölsuð og skjölin því óskuldbindandi fyrir hana. Í málinu lá fyrir sérfræðiálit um rithandarrannsókn sem benti eindregið til þess að SG hefði undirritað skjölin. Sýknukröfu SG var því hafnað og niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. maí 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 24. júní 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 3. júlí 2009. Áfrýjandi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hún sýknu af kröfu stefnda, en að því frágengnu sýknu að svo stöddu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Aðalkrafa áfrýjanda um að héraðsdómur verði ómerktur er á því byggð að dómurinn hafi með úrskurði 13. janúar 2009 hafnað ósk áfrýjanda á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um að fresta aðalmeðferð málsins, sem á því var reist að ólokið væri lögreglurannsókn á undirskrift vitundarvotts á gögnum sem dómkrafa stefnda byggi á. Þá hafi aðilar ekki verið búnir að lýsa gagnaöflun lokið. Fallist er á það mat héraðsdómara að ekki hafi verið sýnt fram á þýðingu slíkrar rannsóknar fyrir úrslit málsins, og ekkert er fram komið um að rannsókn á þessu standi yfir eða hafi gert það. Þrátt fyrir að aðalmeðferð fari að jafnaði ekki fram fyrr en aðilar hafa lýst gagnaöflun lokið, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, ber dómara að synja um frest ef ekki er þörf á honum, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, enda ber að hraða málsmeðferð eftir föngum. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að ákvörðun héraðsdómara um að neita að fresta aðalmeðferð frá þeim tíma sem ákveðinn hafði verið hafi valdið henni réttarspjöllum. Er aðalkröfu áfrýjanda hafnað.
Stefndi krefst þess að áfrýjandi greiði 19.069.051 krónu ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Fjárkrafan er byggð á skuldaviðurkenningu sem var útgefin 4. júní 2007. Einnig er krafist að staðfestur verði veðréttur í fasteigninni Túngötu 32 í Reykjavík samkvæmt tryggingarbréfi 28. janúar 2005. Varnir áfrýjanda lúta að því að nafnritun hennar á framangreinda skuldaviðurkenningu og tryggingarbréf sé fölsuð og skjölin séu því óskuldbindandi fyrir hana. Lagt hefur verið fram sérfræðiálit Statens kriminaltekniska laboratorium í Svíþjóð 11. febrúar 2008 um rithandarrannsókn á undirritun framangreindra skjala. Niðurstaða rannsakenda bendir eindregið til þess að áfrýjandi hafi undirritað skjölin. Það hnekkir hvorki niðurstöðu rithandarrannsóknarinnar né hefur áhrif á gildi skuldbindinganna, að stefndi er sjálfur annar tveggja votta að nafnritun áfrýjanda á skjölin og að vefengd er undirritun dóttur áfrýjanda sem votts á tryggingarbréfinu. Af þessum ástæðum eru ekki efni til að taka sýknukröfu áfrýjanda til greina og heldur ekki varakröfu hennar um sýknu að svo stöddu. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sophia Guðrún Hansen, greiði stefnda, Sigurði Pétri Harðarsyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 13. janúar, að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af Sigurði Pétri Harðarsyni á hendur Sophiu Guðrúnu Hansen, með stefnu birtri hinn 23. janúar 2008.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 19.069.051 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. janúar 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur stefnanda í Túngötu 32 í Reykjavík, fyrir dómkröfum stefnanda, í samræmi við tryggingarbréf, dagsett 28. janúar 2005, að fjárhæð 20.000.000 króna. Stefnandi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda, en til vara að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda, að svo stöddu. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi stóð með stefndu að átaki, sem kallað var Börnin heim. Gekk umrætt átak út á að hjálpa stefndu að endurheimta dætur sínar frá föður þeirra, sem bjó í Tyrklandi. Var kostnaður við átakið mikill.
Stefnandi kveðst hafa aðstoðað stefndu á margvíslegan hátt við þetta verkefni, ekki síst fjárhagslega. Hinn 4. desember 1990 var gefið út skuldabréf, að fjárhæð 1.740.000 til handhafa, en stefnandi er handhafi bréfsins. Stefnandi kveður, að auk skuldabréfsins hafi verið um ýmsar aðrar skuldir að ræða við stefnanda. Hann hafi m.a. tekið að sér að greiða ýmsan útlagðan kostnað, svo sem vegna ferða stefndu, viðhald húsnæðis og annars sem til hafi fallið á margra ára tímabili.
Stefnandi kveður stefndu hafi skilað skattframtali í september 2002, þar sem hún hafi viðurkennt skuld við stefnanda. Hafi það verið í fullu samræmi við yfirlýsingu stefndu fyrir og eftir þann tíma. Auk þess hafi stefnandi alltaf staðið í þeirri trú að milli aðila ríkti gott samband sem byggðist á trausti. Hafi hann því aldrei gegnið hart fram við að fá kröfu sína innheimta, en stefnda hafi gefið út tryggingarbréf til stefnanda hinn 28. janúar 2005, að fjárhæð 20.000.000 króna til tryggingar skuldum sínum við stefnanda.
Samkvæmt yfirlýsingu Skattstjórans í Reykjavík taldi stefnandi fram skuld stefndu við sig á skattskýrslum sínum fyrir tekjuárin 2000 til 2007.
Stefnda kveðst ekki kannast við málavaxtalýsingu stefnanda og kveðst ekki hafa gefið út þau skuldaskjöl, sem stefnandi byggi kröfur sínar á. Um leið og henni hafi orðið kunnugt um tilvist þeirra í júlí 2007 kærði hún fölsun þeirra til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á skuldaviðurkenningu, sem stefnda hafi undirritað hinn 4. júní 2007. Þar viðurkenni hún, í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar, svo sem skattframtöl, og með útgáfu tryggingarbréfs, að skulda stefnanda 19.069.051 krónu miðað við 1. janúar 2007. Byggist sú skuld á öllum eldri skuldum stefndu við stefnanda. Eins og fram komi í skuldaviðurkenningunni sé skuldin samkvæmt henni tryggð með tryggingarbréfi, dagsettu 28. janúar 2005, sem tryggt sé með veði í Túngötu 32 í Reykjavík. Beri stefnanda að fá veðrétt sinn staðfestan, sbr. umrætt tryggingarbréf, fyrir fjárhæð 19.069.051 króna, auk vaxta og kostnaðar.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningsréttar.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.
IV
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því, að þau skjöl, sem stefnandi byggi kröfur sínar á séu fölsuð og því óskuldbindandi fyrir stefndu.
Varakröfu sína um sýknu að svo stöddu byggir stefnda á 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála en það væri óviðunandi niðurstaða fyrir stefndu að verða dæmd til að greiða stefnanda þær kröfur, sem hann geri í málinum af þeirri ástæðu einni að rannsókn lögreglu sé ekki lokið. Stefnda hafi gert allt sem í hennar valdi sé til að hraða rannsókn, en það sé ekki á hennar valdi hvenær rannsókn ljúki.
Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnda á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnda reki enga virðisaukaskattsskylda starfsemi og því sé henni nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnanda.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu samkvæmt skuldaviðurkenningu útgefinni af stefndu og jafnframt krefst hann þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt tryggingarbréfi, fyrir skuldinni.
Stefnda heldur uppi vörnum í málinu og byggir á því, að umrædd skuldaskjöl séu fölsuð.
Samkvæmt framlagðri skuldaviðurkenningu, dagsettri 4. júní 2007, viðurkennir stefnda, að skulda stefnanda 19.069.051 krónu, miðað við 1. janúar 2007. Þá lýsir stefnda þar yfir, að umrædd skuld sé tryggð með tryggingarbréfi, að fjárhæð 20.000.000 króna, útgefnu 28. janúar 2005 og hvíli það á 7. veðrétti á fasteigninni að Túngötu 32, Reykjavík. Tryggingarbréf þetta liggur frammi í málinu og var móttekið til þinglýsingar 14. júlí 2005.
Stefnda kærði til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fölsun á tryggingarbréfinu og skuldaviðurkenningunni. Samkvæmt bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 3. júní 2008, var niðurstaða þeirrar rannsóknar sú, að rithandarrannsóknir bendi eindregið til þess að stefnda hafi ritað undir umrædd skjöl.
Með vísan til framanritaðs liggur ekki annað fyrir en að stefnda hafi gefið út fyrrgreinda skuldaviðurkenningu. Með því að fyrir liggur gild skuldaviðurkenning, ber að fallast á kröfu stefnanda og dæma stefndu til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð, í samræmi við efni skuldaviðurkenningarinnar.
Stefnandi hefur krafið stefndu um dráttarvexti af umstefndri fjárhæð frá 1. janúar 2007, og virðist þar miða við stöðu skuldarinnar eins og hún var þann dag, eins og fram kemur í áðurgreindri skuldaviðurkenningu.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, er heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu.
Samkvæmt títtnefndri skuldaviðurkenningu er ekki ákvæði um gjalddaga skuldarinnar eða um dráttarvexti að öðru leyti, og skiptir þá ekki máli að staða skuldarinnar sé þar tilgreind miðað við ákveðinn dag. Gjaldféll því skuldin fyrst er stefnandi sannanlega krafði stefndu um greiðslu hennar, eða með birtingu stefnu, en ekki er unnt að líta svo á að innheimtubréf lögmanns stefnanda, þar sem krafist er greiðslu á tryggingarbréfi, sé gjaldfelling á umræddri skuld. Með vísan til þess verður stefnda því dæmd til að greiða dráttarvexti er mánuður var liðinn frá birtingu stefnu, í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, eða frá 23. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá verður og staðfestur veðréttur stefnanda í Túngötu 32, Reykjavík, fyrir dómkröfum stefnanda, samkvæmt tryggingarbréfi, dagsettu 28. janúar 2005, sbr. og áðurgreinda skuldaviðurkenningu, fyrir dómkröfum stefnanda, eins og krafist er. En ekki verður talið skipta máli um gildi tryggingarbréfsins að fyrir liggi niðurstaða rannsóknar lögreglu, að beiðni stefndu, á því hvort undirritun annars vitundarvotts á tryggingabréfið sé falsað.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Sophia Hansen, greiði stefnanda, Sigurði Pétri Harðarsyni, 19.069.051 krónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 23. febrúar 2008 til greiðsludags.
Staðfestur er veðréttur stefnanda í Túngötu 32, Reykjavík, fyrir dómkröfum stefnanda, í samræmi við tryggingarbréf, dagsett 28. janúar 2005, að fjárhæð 20.000.000 króna.
Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.