Hæstiréttur íslands

Mál nr. 516/2009


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Uppgjör
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 30. september 2010.

Nr. 516/2009.

Thelma Rut Emelíudóttir

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

gegn

Maríu Þ. Haukdal Jónsdóttur og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

(Jón H. Magnússon hdl.)

Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Uppgjör. Sératkvæði.

T  lenti í umferðarslysi og árið 2004 fékk hún greiddar bætur frá TM á grundvelli matsgerðar, þar sem kveðið var á um að varanlegur miski hennar eftir slysið hafi verið 5 stig en varanleg örorka 5%. Í kjölfarið taldi hún heilsufar sitt versna og árið 2007 leitaði T til örorkunefndar og óskaði þess að hún legði mat á afleiðingar slyssins. Í áliti hennar kom meðal annars fram að varanlegur miski T vegna slyssins væri 8 stig en varanleg örorka 10%. T krafði TM um bætur vegna þessara auknu afleiðinga slyssins en félagið hafnaði þeirri kröfu og höfðaði T í kjölfarið mál. Fyrir Hæstarétti greindi aðila á um hvort síðara skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku bótakröfunnar væri fullnægt, þ.e. hvort miska- eða örorkustig væri verulega hærra en áður var talið. Við málflutning lýsti lögmaður T því yfir að við mat á framangreindu skyldi ekki litið til þess hversu mikið örorkustigið hefði hækkað hlutfallslega frá fyrra mati. Aðilar voru því sammála um að við matið skyldi einungis taka mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skoðanir aðila um hvernig túlka bæri þetta atriði væru ekki bindandi fyrir Hæstarétt við úrlausn málsins, þar sem álitaefnið réðist af lögskýringu, sbr. 111. gr. laga nr. 91/1991.  Þegar leggja þyrfti mat á hvort miska- eða örorkustig væri verulega hærra en áður var talið í merkingu 11. gr. skaðabótalaga væri nærlægast að skýra ákvæðið svo að líta bæri  til þess hvort breyting frá fyrra mati væri veruleg í stigum talið miðað við þann 100 stiga mælikvarða sem lagður er til grundvallar við matið og það án tillits til þess hvort sú breyting væri ofarlega eða neðarlega í stiganum. Við matið  yrði því ekki litið til þess hversu miska- eða örorkustig hefði hækkað hlutfallslega frá því sem lagt var til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 614/2007. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar í málum nr. 411/2002, 514/2002 og 199/2003 væri því  ljóst að hækkun örorku úr 5% í 10% væri ekki veruleg. Voru M og TM sýknuð af kröfu T í málinu. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson.

 Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. júlí 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 26. ágúst 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hún héraðsdómi öðru sinni 9. september 2009. Hún krefst þess  að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 1.448.060 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. maí 2004 til 5. desember 2007 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi lenti í umferðaslysi 26. september 2002 þegar hún var farþegi í bifreið í eigu stefndu Maríu Þ. Haukdal Jónsdóttir, sem ekið var aftan á kyrrstæðan tengivagn. Bifreiðin var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Að beiðni áfrýjanda og stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. lögðu læknarnir Atli Þór Ólason og Leifur N. Dungal mat á afleiðingar slyssins. Töldu þeir í matsgerð 28. janúar 2004 varanlegan miska áfrýjanda vera 5 stig en varanlega örorku 5%. Á grundvelli matsins greiddi stefndi Tryggingamiðstöðin hf. áfrýjanda 2.074.885 krónur í bætur 6. febrúar 2004. Áfrýjandi, sem taldi að heilsufar sitt hefði eftir þetta breyst til hins verra, óskaði þess 20. ágúst 2007 að örorkunefnd legði mat á afleiðingar slyssins. Niðurstaða nefndarinnar 30. október 2007 var meðal annars að varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins væri 8 stig en varanleg örorka 10%. Áfrýjandi krafði félagið um bætur vegna þessara auknu afleiðinga slyssins fyrir heilsufar sitt en félagið hafnaði þeirri kröfu. Mál þetta var þingfest 22. maí 2008 og miðaðist aðalkrafa áfrýjanda í stefnu við summu bóta vegna hækkunar varanlegs miska um 3 stig annars vegar og aukningu varanlegrar örorku um 5% hins vegar en varakrafa við bætur vegna hækkunar á örorkustiginu einu. Stefndu tóku til varna og kröfðust sýknu þar sem hvorugt skilyrða 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til endurupptöku væri fyrir hendi enda lægi hvorki fyrir sjálfstætt læknisfræðilegt mat um hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu áfrýjanda né væri miska- eða örorkustig áfrýjanda verulega hærra en áður var talið. Við aðalmeðferð málsins féll áfrýjandi frá aðalkröfu sinni og lækkaði fjárhæð varakröfunnar til samræmis við fram komnar athugasemdir stefndu um útreikning á henni. Eftir það er ekki tölulegur ágreiningur í málinu. Héraðsdómur sýknaði stefndu af kröfu áfrýjanda á þeim forsendum að ósannað væri að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu hennar.

II

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms óskaði áfrýjandi eftir áliti örorkunefndar meðal annars á því hvort hækkun varanlegrar örorku úr 5% í 10% í áliti nefndarinnar 30. október 2007 mætti rekja til þess að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari hennar eftir fyrrnefnt mat læknanna tveggja 28. janúar 2004. Í álitsgerð nefndarinnar 17. desember 2009 kemur fram að svo hafi verið. Í framhaldi af því lýstu stefndu því yfir með tölvubréfi 4. júní 2010 að þau myndu ekki bera það fyrir sig að þessu fyrra skilyrði 11. gr. skaðabótalaga væri ekki fullnægt. Ágreiningur aðila lýtur eftir það einungis að síðara skilyrði greinarinnar um það hvort örorkustig áfrýjanda sé verulega hærra en áður var talið.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því yfir, með vísan til forsendna Hæstaréttar í dómi 18. september 2008 í máli nr. 614/2007, að hann reisti máltilbúnað sinn á því að við mat á hvort örorkustig hefði hækkað verulega frá því sem áður var talið í merkingu 11. gr. skaðabótalaga skyldi ekki litið til þess hversu mikið örorkustigið hefði hækkað hlutfallslega frá fyrra mati. Aðilar eru samkvæmt þessu sammála um að við þetta mat skuli einungis taka mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið. Þar sem úrslit um þetta atriði ráðast af lögskýringu eru skoðanir aðila um hvernig túlka beri síðara skilyrði 11. gr. skaðabótalaga ekki bindandi fyrir Hæstarétt við úrlausn málsins, sbr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

Þegar leggja þarf mat á það hvort miska- eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið í merkingu 11. gr. skaðabótalaga verður að líta til þess að varanlegur miski er metinn til stiga á mælikvarða er spannar 100 stig og á sama hátt er varanleg örorka metin til stiga í hundraðshlutum. Þar sem svo háttar til er nærlægast að skilja orðalag greinarinnar svo að líta beri til þess hvort breyting frá fyrra mati sé veruleg í stigum talið miðað við þann 100 stiga mælikvarða sem lagður er til grundvallar og það án tillits til þess hvort sú breyting er ofarlega eða neðarlega í stiganum. Verður við þetta mat því ekki litið til þess hversu miska- eða örorkustig hefur hækkað hlutfallslega frá því sem lagt var til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun, heldur verður að taka mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 614/2007. Þetta ákvæði skaðabótalaga styðst meðal annars við þau efnisrök að þar sem niðurstaða um varanlega örorku hlýtur ávallt að vera matskennd séu ekki efni til að taka bótaákvörðun upp að nýju nema breyting á örorkustigi sé meiri en svo að hún geti eingöngu ráðist af matskenndum atriðum. Hinn matskenndi þáttur örorkumats er síst minni við lægstu stig örorku en þegar örorkustig er hærra. Styðja þessi efnisrök framangreinda niðurstöðu. Þá verður ekki talið að tjónþolum sem fyrir endurmat búa við litla örorku muni almennt séð meira um tiltekna hækkun bóta í krónum talið en þeim sem fyrir endurmat höfðu hærra örorkustig, en sá skilningur á ákvæðinu að líta eigi til hlutfallslegrar breytingar á örorku myndi leiða til þess að meira þurfi til endurupptöku í málum þeirra sem illa hafa slasast. Svo dæmi sé tekið er fimmtungs hækkun úr 5% örorku eitt prósentustig en sama hlutfallshækkun úr 80% örorku 16 prósentustig. Eins og að framan er rakið hækkaði örorka áfrýjanda við mat örorkunefndar úr 5% í 10% eða um fimm prósentustig. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 411/2002, sem birtur er í dómasafni 2003 á bls. 943, var hækkun örorku úr 15% í 20% ekki talin veruleg. Þá var talið í dómi réttarins í máli nr. 514/2002, sem birtur er í dómasafni 2003 á bls. 2127 að hækkun varanlegs miska úr 20 stigum í 25 væri ekki veruleg og enn var niðurstaða réttarins í máli nr. 199/2003, sem birtur er í dómasafni það ár á bls. 4321 að hvorki hækkun varanlegs miska úr 15 stigum í 20 né varanlegrar örorku úr 20% í 25% teldist veruleg. Samkvæmt þessum fordæmum er fullljóst að hækkun örorku úr 5% í 10% telst ekki veruleg. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Með vísan til 166. gr., sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.

 Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Úrslit máls þessa ráðast af því hvort breyting sú á varanlegri örorku áfrýjanda í 10% úr 5% örorku sem áður var metin, teljist uppfylla lagaskilyrði sem greinir í 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem segir að skilyrði endurupptöku sé meðal annars að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Það er með öðrum orðum til úrlausnar hvort tvöföldun á metinni örorku áfrýjanda úr 5% í 10% uppfylli skilyrðið. Í þessum lagatexta tel ég felast að líta verði til hlutfallslegrar hækkunar á örorku tjónþola frá þeirri örorku sem áður var metin. Virðist það liggja í hlutarins eðli að ekki sé unnt að meta hvort hækkun frá einu gildi til annars sé veruleg nema miða við fyrra gildið og athuga hlutfallslega breytingu sem verður á því til hækkunar. Í forsendum dóms Hæstaréttar 27. febrúar 2003 í máli nr. 411/2002 var vikið að þessu og sagt að við úrlausn um það „hvort örorka hafi aukist verulega eða ekki verður að bera saman annars vegar heildarörorkuna, sem bótauppgjör var reist á, og hins vegar þá örorku, sem slysið var síðar talið hafa leitt til.“ Tel ég þennan skilning á lagaákvæðinu réttan. Ekki verður séð að sérstaklega hafi verið að þessu vikið síðan í öðrum dómum Hæstaréttar, þar sem á þetta reyndi, fyrr en í dómi 18. september 2008 í máli nr. 614/2007, þar sem tveir dómarar af þremur hafna þessu berum orðum án þess þó að færa fram röksemdir fyrir þeirri afstöðu að heitið geti.

Í atkvæði meirihluta dómenda er því hafnað að bera eigi hina metnu örorku saman við þá örorku sem áður var metin, þrátt fyrir að lagatextinn mæli að mínu mati svo fyrir. Telur meirihlutinn að við mat á því hvort breytingin á örorkunni teljist veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga sé til athugunar hvort hún sé verulegur hluti af þeirri örorku sem hugsanlegt sé að meta mesta, það er að segja 100%. Hafi vilji löggjafans staðið til þess að haga reglunni með þeim hætti sem þarna er talið var engum vandkvæðum bundið að orða hana svo að sá skilningur færi ekki á milli mála. Við lögskýringuna ber líka að hafa í huga að meginregla laganna er sú að bæta eigi metna örorku þess sem bótaréttar nýtur. Sýnist eðlilegt að frávik frá þessari meginreglu sæti þrengjandi lögskýringu. Þetta sjónarmið styður niðurstöðu mína.

Samkvæmt því sem að framan er rakið tel ég að taka eigi kröfu áfrýjanda til greina og dæma stefndu til að greiða henni málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 2. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Thelmu Rut Guðjónsdóttur Salomonsen, kt. 011083-3749, Smedegade 20, 6430 Nordborg, Danmörku, með stefnu birtri 7. maí 2008, á hendur Maríu Þ. Haukdal Jónsdóttur, kt. 310348-4659, Skipalóni 27, Hafnarfirði, og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6, Reykjavík.  Við skýrslugjöf fyrir dómi, kvað stefnandi nafn sitt vera Thelma Rut Emilíudóttir, og er hún skráð þannig samkvæmt þjóðskrá.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda kr. 1.448.060, ásamt vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. september 2002 til 5. desember 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, ásamt lögmæltum virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær, að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi hennar að skaðlausu að mati dómsins.

II

Málavextir

Þann 26. september 2002 lenti stefnandi í umferðarslysi, þar sem hún var farþegi í miðju aftursæti bifreiðar í eigu stefndu, Maríu Þ. Haukdal Jónsdóttur, en bifreiðin var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.  Slysið varð með þeim hætti, að bifreiðin, sem ekið var eftir Reykjanesbraut við Arnarneshæð ók aftan á kyrrstæðan tengivagn frá Vegagerðinni.  Var um mikið högg að ræða og kastaðist stefnandi á bílstjórasætið með vinstri handlegg.  Þá fann stefnandi til verkja og óþæginda í hnakka og hálsi og niður eftir baki.  Stefnandi var flutt á slysadeild, og þar var hún greind með tognun á hálsvöðvum, mjóbaki og öxl. Á slysadeild voru stefnanda veittar ráðleggingar og fékk hún jafnframt tilvísun á verkja- ­og bólgueyðandi lyf.  Í vottorði frá slysadeild, dags. 10. september 2003 er áverkum stefnanda lýst.  Var hún talin hafa hlotið tognun á hálsvöðvum, mjóbaki og öxl.  Í vottorðinu kemur enn fremur fram, að stefnandi eigi fyrri sögu um umferðaróhapp árið 1999, og að hún hafi verið viðkvæm í hálsi og baki eftir það.  Var talið, að eftirstöðvar eldri áverka blönduðust inn í einkenni stefnanda nú.

Stefnandi kveðst aldrei hafa náð sér að fullu eftir slysið.  Var hún, samkvæmt beiðni lögmanns síns og stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf., send í örorkumat, sem læknarnir, Atli Þór Ólason og Leifur N. Dungal, framkvæmdu. 

Stefndi kveður þrenns konar læknisfræðilegra gagna hafa verið aflað vegna matsins.  Í fyrsta lagi vottorðs heilsugæzlu Önnu M. Guðmundsdóttur, dags. 5. nóvember 2003.  Þar komi fram, að stefnandi hafi ekkert leitað til heilsugæslunnar vegna umferðarslyssins 26. september árið áður.

Í öðru lagi áðurnefnt vottorð slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, dags. 10. september 2003.  Þar komi fram, að stefnandi hafi átt endurkomutíma á slysadeild tveimur vikum eftir slys, en ekki mætt.

Í þriðja lagi matsgerð Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar vegna umferðarslyss 31. júlí 1999, en matsgerð þeirra sé dags. 15. júlí 2001.  Í því slysi hafi stefnanda verið metinn varlegur miski 7 stig og varanleg örorka 7% vegna óþæginda frá hálsi, hægri öxl, baki og vinstri hnéskel.

Við skoðun hjá matsmönnum, Atla Þór Ólasyni og Leifi N. Dungal, þann 22. janúar 2004 kvartaði stefnandi m.a. um, að eftir slysið 2002 hefðu óþægindi hennar aukizt.  Hafi hún verki í mjóbaki, hálsi, höfði og út í öxl.

Matsgerðin er dags. 28. janúar 2004.  Var það niðurstaða matsmanna, að óþægindi eftir síðara slysið væru á sömu stöðum og stefnandi hafði eftir slysið 1999, en hefðu aukizt í heild.  Mátu þeir varanlegan miska stefnanda eftir síðara slysið 5% og varanlega örorku einnig 5%.  Á grundvelli þessa mats fór fram fyrirvaralaust skaðabótauppgjör milli stefnanda og stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. þann 6. febrúar 2004.

Stefnandi flutti með núverandi eiginmanni sínum til Danmerkur í september 2004 og hóf að stunda þar vinnu. Hún kveðst hafa orðið að hætta störfum að læknisráði, en hún hafi þá verið farin að finna fyrir verulegum óþægindum í hálsi, báðum hnjám og þá sérstaklega í vinstri öxl.  Vegna þessa hafi hún átt í erfiðleikum í daglegu amstri.  Þannig eigi hún erfitt með að stunda heimilisstörf og sinna dóttur sinni.  Kveðst stefnandi hafa leitað til lækna í Danmörku vegna þessa, en ekki fengið bót meina sinna.

Þar sem stefnandi hafi talið, að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu sinni til hins verra, leitaði hún eftir áliti örorkunefndar.  Með álitsgerð, dags. 30. október 2007, komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins þann 26. september 2002 væri 8% og varanleg örorka 10%.  Í framhaldinu sendi lögmaður stefnanda kröfubréf til stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dags. 5. nóvember 2007, og gerði kröfu um bótauppgjör vegna þeirrar hækkunar, sem kom fram í áliti örorkunefndarinnar.  Með bréfi, dags. 14. nóvember 2007, hafnaði stefndi Tryggingamiðstöðin hf. endurupptöku bótaákvörðunar með þeim rökum, að ekki hefði verið sýnt fram á, að ófyrirsjáan­leg breyting hefði orðið á heilsu stefnanda, og að hækkun á miska- og örorkustigi stefnanda hafi ekki verið veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaganna.  Stefnandi hefur ekki fallist á rök stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og ítrekaði kröfu sína með bréfi, dags. 20. nóvember 2007, án árangurs.

III

Málsástæður stefnanda

Endanleg kröfugerð stefnanda lýtur eingöngu að kröfu um greiðslu bóta vegna viðbótarstigs varanlegrar örorku samkvæmt áliti örorkunefndar.

Stefnandi kveðst byggja mál sitt á álitsgerð örorkunefndar, áliti lækna sem og á heimild 11. gr. skaðabótalaganna til endurupptöku bótaákvörðunar.  Samkvæmt ákvæði 11. greinarinnar, séu tiltekin tvö skilyrði fyrir heimild til endurupptöku bótaákvörðunar.  Í fyrsta lagi, að „ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola“ og „að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið“.

Stefnandi telji ljóst, að vegna ástand síns uppfylli hún bæði þessi skilyrði.  Þannig megi lesa út úr álitsgerð örorkunefndar og framlagðra gagna frá læknum í Danmörku, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda.  Ástand hennar sé þannig í dag, að hún geti ekki stundað vinnu og hafi ekki getað það að neinu marki undanfarin ár.  Hafi stefnandi stundað nám í tækniskóla í Sönderborg í Danmörku.  Þá hafi stefnandi, sem hafi lært förðun skamma stund fyrir slys, reynt að afla sér tekna með því að taka að sér förðun, en það hafi verið í mjög litlum mæli.  Slæmt ástand stefnanda megi aðallega rekja til vinstri axlar, þ.e. hún hafi viðvarandi verki á því svæði og eigi erfitt með að beita vinstri hendi.  Hafi hún farið í ítarlegar rannsóknir vegna þessa og nú síðast í byrjun janúar 2008.  Niðurstaðan úr þeirri rannsókn, sem framkvæmd hafi verið á Sygehus Sönderjylland í Danmörku sé á þá leið, að skemmdir séu í kringum vinstri axlarlið.

Eins og fram hafi komið þá liggi fyrir álitsgerð örorkunefndar, dagsett 30. október 2007.  Niðurstaða nefndarinnar sé sú að hækka áður metinn varanlegan miska vegna afleiðinga slyssins þann 26. september 2002 úr 5% upp í 8% og hækka jafnframt áður metna varanlega örorku úr 5% í 10%.  Þannig hafi varanlega örorkan hækkað um 100% í meðförum örorkunefndarinnar.  Hljóti þetta að teljast veruleg hækkun í skilningi 11. gr. skaðabótalaganna.

Í svarbréfi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., til lögmanns stefnanda, dagsett 20. nóvember 2007, rökstyðji félagið höfnun sína um endurupptöku bótaákvörðunarinnar með vísan til tveggja dóma Hæstaréttar.  Annars vegar til dóms frá 4. desember 2003, í máli nr. 199/2003, og hins vegar til dóms frá 22. maí 2003, í máli nr. 514/2002.  Í báðum þessum dómum hafi Hæstiréttur hafnað endurupptöku bótaákvörðunar, þar sem hækkun á miska- og örorkustigs hafi ekki talizt veruleg, að mati réttarins.  Í dóminum frá 4. desember 2003 hafi verið til umfjöllunar hækkun miskastigs frá 15% til 20% (hækkun um 33,33%) og hækkun örorkustigs frá 20% til 25% (hækkun um 25%).  Í dóminum frá 22. maí 2003 hafi verið til umfjöllunar hækkun miskastigs frá 15% til 20% (hækkun um 33,33%).  Í hvorugum þessara dóma hafi verið um að ræða eins mikla hækkun miska- og örorkustigs og í tilviki stefnanda.  Eins og fram komi í 11. gr. skaðabótalaganna, þá sé skilyrði endurupptöku „að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið“.  Samkvæmt ákvæðinu verði því að miða hækkun út frá þeim miska- og örorkustigum, sem fyrir hafi legið, áður en nýja matið kom til skjalanna.  Grunnmið­viðunin á örorkustigunum, sem hér séu til umfjöllunar, séu því 5% varanlegur miski og 5% varanleg örorka.  Hækkun örorkustigs um 100% sé veruleg hækkun frá því, sem áður var talið.  Hvorki lagatextinn í 11. gr. skaðabótalaganna né greinargerðin með lögunum gefi tilefni til að fallast á málsástæður stefndu.  Það sem megi álykta út frá framangreindum Hæstaréttardómum sé, að hækkun á miskastigi og örorkustigi um 1/3 eða minna teljist ekki veruleg hækkun í skilningi 11. gr. skaðabótalaganna.  Með vísan til framangreinds beri því að fallast á kröfu stefnanda í málinu.

Varðandi rökstuðning fyrir kröfu sinni vísar stefnandi auk framanritaðs til umfjöllunar danskra fræðimanna um 11. gr. dönsku skaðabótalaganna, sem sé með svipaðan texta og 11. gr. íslenzku skaðabótalaganna.  Íslenzku skaðabótalögin séu að verulegu leyti byggð á dönsku skaðabótalögunum og því eðlilegt að leita þangað til skýringar á íslenzku lögunum.  Í ritinu Erstatningsansvarsloven eftir Jens Möller, útgefið 1993, bls. 197, komi fram, að veruleg hækkun á miska- og örorkustigi teljist vera til staðar, ef hækkunin er deilanleg með 5. Varanlega örorkustigið hjá stefnanda hafi hækkað um 5% samkvæmt áliti örorkunefndar og samkvæmt skilgreiningu danskra fræðimanna teljist það veruleg hækkun.

Til stuðnings kröfum sínum vísi stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 11. gr., og til eml. nr. 91/1991.  Þá vísi stefnandi til vaxtalaga nr. 38/2001.

Málsástæður stefndu

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að skilyrði endurupptöku á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu fyrir hendi.  Heimild til endurupptöku og greiðslu frekari bóta sé reist á 11. gr. skaðabótalaga, en þar sé að finna tvö skilyrði endurupptöku og þurfi þau bæði að vera uppfyllt. 

Fyrra skilyrði 11. gr. skaðabótalaga sé, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola.  Í stefnu segi, að slíkt megi í fyrsta lagi lesa úr álitsgerð örorkunefndar.  Stefndu mótmæli þessu mati stefnanda. 

Ekkert sjálfstætt læknisfræðilegt mat liggi fyrir í málinu um, hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því að fyrra mat fór fram 2004, eða hvort breytingar á heilsufari, hvort heldur sem þær séu fyrirsjáanlegar eða ekki, sé að rekja til umferðarslyssins 26. september 2002 einvörðungu eða til annarra atvika.  Sérstaklega vísi stefndu í þessu sambandi til fyrri heilsufarssögu stefnanda, einkum umferðarslyss árið 1999, er hafi haft varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda.

Í öðru lagi sé vísað til danskra læknisfræðilegra gagna í þessum efnum.  Dönsk læknisfræðileg gögn sýni ekki heldur, að mati stefndu, að um sé að ræða ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda, sem rekja megi til umferðarslyssins 26. september 2002.  Danskir heilbrigðisstarfsmenn virðist ekki hafa haft íslenzk gögn um heilsufarssögu stefnanda undir höndum og þá staðreynd, að hún hafi lent í öðru umferðarslysi á árinu 1999.  Sé sönnunargildi þeirra því takmarkað.

Í vottorði slysa- og bráðamóttöku Landspítala Fossvogi, sem stefnandi leitaði til á slysdegi, sé sjúkdómsgreining sú, að tjónþoli hafi hlotið tognun á hálsvöðvum, mjóbaki og vinstri öxl.  Eftir slysdag hafi hún ekki leitað frekar til lækna, fyrr en hún var skoðuð af matsmönnum í byrjun árs 2004.  Við skoðun matsmanna hafi komið fram verkir og kvartanir, sambærilegar eða svipaðar þeim, sem komi fram í síðari skoðun örorkunefndar 2007.

Því liggi fyrir, að engar nýjar eða ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda hafi átt sér stað frá því að bótauppgjörið fór fram þann 6. febrúar 2004.  Versnun á fyrra ástandi leiði ekki ein og sér til þess, að skilyrðinu sé fullnægt, enda einhver versnun oftast fyrirséð, þar sem einstaklingur hafi verið metinn til varanlegs miska og örorku.

Í stefnu sé tiltekið, að ástand stefnanda sé þannig í dag, að hún geti ekki stundað vinnu og hafi ekki getað gert það undanfarin ár.  Stefndu vísi til tvenns í þessu sambandi.  Annars vegar sé atvinnusaga stefnanda stopul fyrir slysið, og hafi hún m.a þegið fjárhagslega aðstoð frá Félagsmálastofnun, bæði fyrir og eftir slysið, eins og rakið sé í matsgerð, dags. 28. janúar 2004.  Í öðru lagi sé það álit stefndu, að sú varanlega skerðing á aflahæfi, hvort heldur sem miðað sé við matsgerð 28. janúar 2004 eða álit örorkunefndar 30. október 2007, leiði almennt ekki ein og sér til þess, að tjónþoli sé ófær um að afla tekna utan heimilis.

Í öðru lagi sé það skilyrði, samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga, að ætla megi, að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.  Í stefnu sé á því byggt, að hlutfallslega teljist hækkun á miska- og örorkustigi frá fyrri matsgerð annars vegar og álits örorkunefndar hins vegar veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga.  Þessum skilningi mótmæli stefndu harðlega og telji hækkunina ekki verulega, eins og ákvæðið verði réttilega skilið.

Umrætt skilyrði 11. gr. skaðabótalaga byggist sannanlega á matskenndu viðmiði, sem hvorki önnur ákvæði laganna né lögskýringargögn veiti nánari leiðsögn um, hvernig skuli leggja mat á, hvenær hækkun á miska- eða örorkustigi teljist veruleg eða ekki.

Á þetta skilyrði hafi hins vegar reynt fyrir íslenzkum dómstólum, og hafi stefndi Tryggingamiðstöðin á fyrri stigum málsins vísað til dóms Hæstaréttar frá 4. desember 2003 í máli nr. 199/2003.  Í því máli hafi miskastig hækkað um 5 stig og varanleg örorka um 5% frá einu mati til annars.  Af dómsforsendum verði ekki ráðið, að Hæstiréttur hafi stuðzt við hlutfallslegan mælikvarða, þegar rétturinn hafnaði því, að hækkunin teldist veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga, eins og haldið sé fram í stefnu.  Sama sé að segja um niðurstöðu Hæstaréttar, dags. 22. maí 2003, í máli nr. 514/2002.

Öll tvímæli um skilning þessa skilyrðis 11. gr. skaðabótalaga hafi síðan verið tekin af með dómi Hæstaréttar, dags. 18. september sl., í máli nr. 614/2007.  Í dómi réttarins sé tekið fram, að þegar metið sé, hvort skilyrðum þessa ákvæðis sé fullnægt, sé ekki unnt að horfa til þess, hversu miskastig eða örorkustig hefur hækkað hlutfallslega frá því mati, sem lagt hafi verið til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun, heldur verði að taka mið af hækkuninni sem slíkri, í stigum talið. 

Varakröfu stefnanda sé mómælt á grundvelli þeirra málsástæðna, sem að framan greini.

Fari svo, að fallizt verði á dómkröfur stefnanda, geri stefndu athugasemdir við forsendur varanlegrar örorku.  Aðal- og varakrafa stefnanda styðjist við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem nemi, í tilviki stefnanda, kr. 1.200.000, en taki mið af verðlagsbreytingum samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga.  Lánskjaravísitala á stöðugleikapunkti, miðað við álit örorkunefndar þá, hafi verið 4.421 stig.  Lágmarkslaun reiknist því 1.200.000 x 4.421 / 3.282 = 1.616.453 = kr. 1.616.500.

Vegna kröfu um vexti sé vísað til 2. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, en samkvæmt lögunum sé fyrningartími vaxta 4 ár.  Stefndu vísi til skaðbótalaga nr. 50/1993, kröfum sínum til stuðnings, einkum 11. gr. laganna, og til almennra sönnunarreglna í skaðabótarétti.  Málskostnaðarkrafa stefndu styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.

Aðila greinir á um það, hvort skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku bótakröfunnar sé fullnægt.  Skilyrði greinarinnar eru tvö, og þurfa þau bæði að vera til staðar, svo endurupptaka sé heimil.  Annars vegar þurfa ófyrirsjáanlegar breytingar hafa orðið á heilsu tjónþola og hins vegar, að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.

Stefnandi byggir á því, með vísan til álitsgerðar örorkunefndar frá 30. október 2007, sem og með vísan til framlagðra gagna frá læknum í Danmörku, að sannað sé, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hennar.

Þann 26. september 2002 lenti stefnandi í slysi því, sem hér er til umfjöllunar.  Í læknisvottorði Hlyns Þorsteinssonar læknis á slysa- og bráðamóttöku Landspítala- háskólasjúkrahúss í Fossvogi, segir svo m.a. um ástand stefnanda við komu á sjúkrahúsið: 

Við komu kvartar hún einkum undan óþægindum í mjóbaki og aftan í hálsi.  Hún lýsir dofa eða tilfinningaleysi í vinstri handlegg. ... Eymsli eru um ofanverðan upphandlegg vinstra megin, niður af öxlinni, og síðan aftur eymsli þegar ýtt er aftanvert yfir hálsliði.  Síðan er hún með þessa dofatilfinningu í vinstri handlegg.  Þá finnur sjúklingur eymsli, þegar þrýst er að mjóhrygg, en þó eru eymsli meiri þegar komið er yfir vöðva vinstra megin við hrygginn.

Í vottorðinu segir síðan, að teknar hafi verið röntgenmyndir af hálshrygg, lendhrygg og vinstri öxl, og var ekki að sjá áverka á beinum við þær rannsóknir.  Fram kemur, að sjúklingur hafi fyrri sögu um annað umferðaróhapp frá árinu 1999, og hún kveðist hafa verið viðkvæm í hálsi og baki síðan þá.  Loks segir í vottorðinu, að talið sé líklegt, að eftirstöðvar eldri áverka blandist að einhverju leyti inn í verkjasögu stefnanda við komu til sjúkrahússins.  Stefnanda var gefinn tími til endurkomu 8. október 2002 en mætti ekki og boðaði ekki forföll.

Samkvæmt vottorði Heilsugæzlustöðvarinnar Sólvangi í Hafnarfirði, dags. 05.11. 2003 er ekkert skráð á heilsugæzlunni varðandi slys stefnanda hinn 26.09. 2002 eða að hún hafi leitað til heilsugæzlunnar vegna þess.  Önnur gögn málsins bera ekki með sér, að stefnandi hafi leitað læknisaðstoðar vegna slyssins frá slysdegi, og sýnist næsta koma hennar til læknis vegna þess hafa verið, þegar hún leitað til matsmannanna Atla Þórs Ólasonar læknis og Leifs N. Dungal læknis.

Í matsgerð þeirra Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, sem dags. er 28.01. 2004, kemur fram, að 17. júlí 1999 hafi stefnandi orðið fyrir líkamsárás og hlotið óþægindi í baki og vinstra hné, auk þess sem hún hafi hlotið tognunaráverka á mjóbak og hægri öxl við umferðarslysið 30. júlí 1999, sem hafði í för með sér óþægindi í hálsi, hægri öxl, baki og vinstri hnéskel. 

Við skoðun hjá matsmönnunum kvartar stefnandi um verki í mjóbaki, meira vinstra megin en hægra megin, í hálsi, höfði og út í hægri öxl, þreytu í baki og dofa í fótum.  Við skoðun fundust eymsli í háls - og herðavöðvum, niður eftir öllu baki, bæði yfir hryggtindum og langvöðvum, en mest í mjóbaki og hálsi. 

Í kaflanum „samantekt og álit“ segir m.a., að við slysið 26.09. 2002 hafi stefnandi hlotið hnykkáverka, sem hafi aukið á fyrri óþægindi í hálsi, baki og í höfði.  Þá hafi hún kvartað um dofakennd í vinstri handlegg ásamt kraftleysi þar.  Ekki hafi komið fram neitt, sem benti til skemmdar á bein- eða taugavef.  Við skoðun hafi komið í ljós eymsli í hálsi og baki, en ekki merki um sköddun á taugavef, og röntgenmyndir hafi ekki sýnt beináverka.

Mátu læknarnir varanlega örorku stefnanda vegna slyssins 2002 5%, svo sem áður hefur verið greint frá.

Gögn þau, sem stefnandi hefur lagt fram frá Danmörku, eru annars vegar óundirritað skjal, sem sagt er vera skýrsla félagsmálayfirvalda í Danmörku, þar sem m.a. kemur fram, að stefnandi hafi verið frá vinnu vegna bílslyss árið 2002 frá 07.02. 2006, og hins vegar er óstaðfest niðurstaða röntgenrannsóknar frá Sygehus Sönderjylland, dags. 08.01. 2007.  Hvorugt þessara gagna staðfestir á nokkurn hátt, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda, sem rekja megi til umrædds bílslyss, og liggur ekki fyrir, að heilbrigðisyfirvöld í Danmörku hafi haft aðgang að heilsufarssögu stefnanda frá íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum, hvorki fyrir né eftir slysið.  Hafa þessi gögn þannig ekkert sönnunargildi í máli þessu.

Stefnandi leitaði álits örorkunefndar á árinu 2007.  Er álitsgerð nefndarinnar dagsett 30. október það ár, en að álitinu stóðu Sveinn Sveinsson hrl., Magnús Ólason læknir og Björn Zoëga læknir.  Í álitsgerðinni kemur fram, að skrifleg, læknisfræðileg gögn, sem nefndarmenn höfðu við að styðjast, voru læknisvottorð Hlyns Þorsteinssonar frá 10. september 2003, læknisvottorð Önnu M. Guðmundsdóttur, Heilsugæzlustöðinni Sólvangi, frá 5. nóvember 2003, matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar vegna umferðarslyssins 30. júlí 1999, matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, dags. 28. janúar 2004, sjúkraskrá og röntgenbeiðni Jens Sörensen, bæklunarlæknis í Hobro í Danmörku frá 8. febrúar 2005, niðurstöður röntgenrannsókna frá Orkuhúsinu, dags. 1. apríl 2005, konsultationsnóta Elisabetar Nielsen, sérfræðings í gigtarlækningum í Fredrikssund í Danmörku, dags. 21.02. 2006, ljósrit af röntgensvari frá Freia Plähn, Nordborg í Danmörku, dags. 17.03. 2007 og álitsgerð félagsráðgjafa, læknis og sjúkraþjálfara frá Danmörku.

Ekki verður séð, að örorkunefnd hafi verið falið að meta, hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda, sem rekja megi til slyssins í september 2002, heldur virðist hafa verið beðið um almennt mat á ástandi hennar.  Kemur enda ekkert fram um það í álitsgerðinni, að um síðar fram komnar breytingar hafi verið að ræða, sem ekki voru til staðar, þegar mat það fór fram, sem bótauppgjör var byggt á.  Er þannig ósannað, að fyrra skilyrði 11. gr. skaðabótalaga sé uppfyllt, þ.e., að um ófyrirsjáanlegar breytingar hafi verið að ræða, sem heimili endurupptöku bótamálsins.  Verður því, þegar af þessum sökum, að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og þykir hæfilega ákveðinn kr. 530.000, þar með talinn útlagður kostnaður vegna álitsgerðar örorkunefndar, kr. 180.000.  Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

D Ó M S O R Ð

Stefndu, María Þ. Haukdal Jónsdóttir og Tryggingamiðstöðinni hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Thelmu Rutar Emilíudóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 530.000, greiðist úr ríkissjóði.