Hæstiréttur íslands
Mál nr. 592/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Börn
|
|
Miðvikudaginn 29. nóvember 2006. |
|
Nr. 592/2006. |
M(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn K (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Börn.
K, sem var búsett í Svíþjóð, krafðist þess að henni yrði heimilað að fá barn hennar og M tekið úr umráðum hans með beinni aðfarargerð þar sem því væri haldið hér á landi með ólögmætum hætti, sbr. 11. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Talið var að með því að synja um að senda barnið aftur til dvalar á lögheimili sínu hjá K væri því haldið hér á landi á ólögmætan hátt í skilningi ákvæðisins. Þá voru undanþágur í 2. eða 3. tölul. 12. gr. laganna ekki taldar eiga við í málinu. Var því fallist á að aðfarargerðin færi fram að liðnum tveimur mánuðum frá uppkvaðningu héraðsdóms ef M hefði ekki áður fært barnið til Svíþjóðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2006, þar sem varnaraðila var heimilað að fá nafngreinda dóttur aðilanna tekna úr umráðum sóknaraðila og afhenta sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að tími til afhendingar barnsins verði styttur verulega. Þá krefst hún kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður falli niður.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemst krafa hennar um breytingu á ákvæði hans um frest sóknaraðila til afhendingar barnsins því ekki að fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Ber að líta svo á að upphaf frests sem sóknaraðili hefur til að skila barninu til Svíþjóðar miðist við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2006.
I
Málið barst dóminum 25. september sl. og var þingfest 29. sama mánaðar. Það var flutt og tekið til úrskurðar 23. október sl.
Sóknaraðili er K, [heimilisfang], Svíþjóð.
Varnaraðili er M, [heimilisfang], Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að dóttir hennar og varnaraðila, A, fædd [...] 1996, verði tekin úr umráðum varnaraðila og afhent sér eða öðrum sem hún tilnefnir í sinn stað. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður úr hendi hennar. Verði orðið við kröfu sóknaraðila er þess krafist að málskot fresti aðför.
II
Sóknaraðili skýrir svo frá málavöxtum að þau varnaraðili hafi gengið í hjónaband á árinu 1989 og eignast framangreint barn í Svíþjóð þar sem það hafi alla tíð verið búsett, fyrst á sameiginlegu heimili, en hjá sér eftir skilnað aðila í ársbyrjun 2000. Aðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins en það eigi lögheimili hjá sóknaraðila. Í júní síðastliðnum hafi barnið farið í sumarleyfi til Íslands og hafi ætlunin verið að það dveldi hjá varnaraðila fram í byrjun ágúst, en þá átti það að snúa til baka í tæka tíð áður en skóli hæfist. Varnaraðili hafi hins vegar tilkynnt um þetta leyti að barnið myndi ekki snúa aftur til sóknaraðila og hafi hann haldið fast við þá ákvörðun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir félagsmálayfirvalda ytra til að fá barnið aftur til sóknaraðila.
Af hálfu varnaraðila er því lýst að hann hafi ekki lofað skilyrðislaust að senda barnið aftur til sóknaraðila að loknu sumarleyfi, enda hafi hann tekið við því þar eð sóknaraðili gat ekki annast það með fullnægjandi hætti. Hafi sænsk barnaverndaryfirvöld haft milligöngu um að barnið var sent til Íslands í júní. Kveður varnaraðili sóknaraðila eiga í vandræðum með áfengisneyslu og hafi yfirvöld ytra þurft að hafa afskipti af heimilinu frá því sumarið 2003 og hafi þau afskipti staðið til þessa dags. Hér á landi líði barninu hins vegar vel, það búi á heimili sóknaraðila ásamt stjúpmóður og þremur hálfsystkinum, gangi í skóla og hafi aðlagast umhverfinu hér á landi. Við upphaf skólagöngu hafi komið í ljós að barnið hafi hvorki verið læst né skrifandi, en það taki góðum framförum í skólanum, tali t.d. ágætlega íslensku.
III
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili haldi barninu hér á landi með ólögmætum hætti, en það eigi lögheimili hjá sér í Svíþjóð. Vísar hann til ákvæða laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., sbr. ákvæði Haagsamningsins frá 25. október 1980. Þá er á því byggt að engar þær ástæður séu til staðar í málinu sem koma ættu í veg fyrir afhendingu barnsins.
Varnaraðili byggir á því að velferð barnsins sé stefnt í hættu verði það afhent sóknaraðila. Vísar hann til þess að félagsmálayfirvöld hafi lengi þurft að hafa afskipti af sóknaraðila vegna áfengisneyslu hennar sem hafi bitnað á þroska barnsins og þar með gengi þess í skóla. Þá er á því byggt að barnið sé andvígt því að fara til sóknaraðila og að því líði vel hér á landi hjá föður sínum, stjúpu og hálfsystkinum. Vísar varnaraðili til ákvæða 12. gr. framangreindra laga máli sínu til stuðnings svo og til ákvæða barnalaga nr. 76/2003.
IV
Samkvæmt gögnum málsins á barnið lögheimili hjá móður sinni, sóknaraðila, en aðilar fara sameiginlega með forsjá þess. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en það hafi gengið í skóla í Svíþjóð og hefur ekki verið sýnt fram á að aðilar hafi samið um að breyta því. Í gögnum málsins kemur og fram að félagsmálayfirvöld í Svíþjóð hafa um alllangt skeið haft afskipti af sóknaraðila og uppeldisaðstæðum barnsins. Tilefni þessara afskipta hefur verið áfengisneysla sóknaraðila sem oft á tíðum hefur valdið því að hún gat ekki sinnt barninu sem skildi. Eldri dóttir sóknaraðila, hálfsystir barnsins, sem komin er yfir tvítugt og býr ekki langt frá sóknaraðila, mun hafa litið til með því og tekið það til sín þegar áfengisneysla sóknaraðila keyrði úr hófi. Það kemur og fram í þessum gögnum að þótt Íslandsferð barnsins hafi komið til tals síðastliðið sumar hafi henni verið flýtt vegna áfengisneyslu sóknaraðila, en hún var alldrukkin þegar starfsmaður félagsmálayfirvalda heimsótti hana um miðjan júní. Barnið var þá flutt til hálfsystur sinnar. Ekkert annað er þó komið fram í málinu en að ferðin hafi átt að vera sumarleyfisferð og ætlast hafi verið til þess að barnið sneri aftur til Svíþjóðar til að sækja skóla síðsumars.
Þrátt fyrir áfengisneyslu sóknaraðila kemur og fram í gögnunum að barninu þyki vænt um móður sína og vilji vera hjá henni nema þegar hún er drukkin. Þess er og að geta að gögnin bera með sér að sóknaraðili hafi tekið sig á að þessu leyti í sumar og haust og vottorð vinnuveitanda hennar ber ekki með sér að áfengisneyslan komi niður á starfi hennar.
Dómarinn ræddi einslega við barnið áður en aðalmeðferð hófst og tjáði það sig um líðan sína. Af samtalinu, sem að mestu fór fram á íslensku, verður ekki dregin sú ályktun að því líði illa hjá varnaraðila eða í skóla hér á landi og hið sama má segja um viðhorf þess til sóknaraðila. Aðspurt kvaðst barnið helst vilja leysa deilu foreldra sinna á þann hátt að þau tækju saman aftur og það byggi hjá þeim en það vissi að slíkt gæti ekki gengið.
Eins og fram er komið á barnið lögheimili hjá sóknaraðila í Svíþjóð og fara aðilar sameiginlega með forsjá þess. Það verður því að fallast á það með sóknaraðila að með því að synja um að senda barnið aftur til dvalar á lögheimili sínu hjá sóknaraðila haldi varnaraðili því hér á landi á ólögmætan hátt og brjóti þar með gegn rétti sóknaraðila, sbr. 1. tl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995.
Kemur þá til athugunar hvort einhverjar ástæður gætu orðið til þess að synja um afhendingu, sbr. 12. gr. nefndra laga. Í fyrsta lagi kemur til athugunar 2. tl. nefndrar greinar. Þar segir að heimilt sé að synja um afhendingu ef alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu. Þrátt fyrir það sem sagt hefur verið um áfengisneyslu sóknaraðila benda gögn málsins ekki til þess að hún sé talin óhæfur uppalandi eða að nokkur hætta sé á að hún muni skaða barnið eða það muni lenda í óbærilegri stöðu verði það afhent henni. Í öðru lagi má synja um afhendingu ef barnið er andvígt henni og það hafi náð þeim þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess. Viðtal dómarans við barnið leiddi í ljós að það gerir ekki upp á milli foreldra sinna og var ekki hægt að draga þá ályktun af samtalinu að það væri andvígt afhendingu.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að varnaraðili haldi barninu hér með ólögmætum hætti og brjóti með því í bága við rétt sóknaraðila. Ekki eru fyrir hendi ástæður sem réttlætt geta synjun á afhendingu barnsins og verður því orðið við kröfu sóknaraðila og henni heimilað að láta taka barnið af varnaraðila með innsetningargerð skili hann því ekki til Svíþjóðar. Rétt þykir að gefa varnaraðila nokkurn umþóttunartíma, sérstaklega með tilliti til þess að barnið gengur í skóla hér á landi og skal sóknaraðila ekki heimilt að láta taka barnið fyrr en liðnir eru tveir mánuðir frá uppkvaðningu úrskurðarins, eins og nánar greinir úr úrskurðarorði. Loks ber að fallast á þá kröfu varnaraðila að málskot fresti aðför, sbr. 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Málskostnaður skal falla niður en gjafsóknarkostnaður varnaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 328.680 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Sóknaraðila, K, er heimilt að liðnum tveimur mánuðum frá uppkvaðningu úrskurðarins að fá barnið, A, tekið úr umráðum varnaraðila, M og afhent sér með beinni aðfarargerð hafi varnaraðili ekki áður fært það til Svíþjóðar.
Málskot til Hæstaréttar frestar aðför.
Málskostnaður skal falla niður en gjafsóknarkostnaður varnaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 328.680 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.