Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                         

Mánudaginn 23. ágúst 2010.

Nr. 420/2010.

Guðrún Fjóla Helgadóttir

(Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)

gegn

Bændasamtökum Íslands og

(enginn)

Matvælastofnun

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G gegn B og M var vísað frá dómi. Í málinu krafðist G þess að B og M yrðu dæmd óskipt til að endurskrá 1,767 kílógramma greiðslumark til framleiðslu sauðfjárafurða sem fært var af ættaróðali á það að nýju, að viðlögðum dagsektum. Til vara krafðist G skaðabóta úr hendi B. Var kröfugerð og málatilbúnaður G talin vera á þann veg að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu í heild frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Bændasamtök Íslands hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn Matvælastofnun krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara er þess krafist að málskostnaður og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum Matvælastofnun kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðrún Fjóla Helgadóttir, greiði varnaraðilanum Matvælastofnun 150.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2010.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu Bændasamtaka Íslands og Matvælastofnunar föstudaginn 21. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðrúnu Fjólu Helgadóttur, kt. 050948-3829, Grund, Akureyri, með stefnu birtri 3. júlí 2009, á hendur Bændasamtökum Íslands, kt. 631294-2279, Hagatorgi 107, Reykjavík, og Matvælastofnun, kt. 460905-1410, Austurvegi 64, Selfossi, og til réttargæzlu Sigurði Helga Helgasyni, kt. 050948-3909, Vesturbraut Keldum, Reykjavík, Öldu Þorsteinsdóttur, kt. 291051-2199, Dúfnahólum 4, Reykjavík, Sveini Jóhannessyni, kt. 040437-7119, Hóli, Akureyrim og Þórsteini Arnari Jóhannessyni, kt. 180741-2249, Bárðartjörn, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu, Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun, verði dæmd in solidum til að endurskrá 1,767 kílógramma greiðslumark til framleiðslu sauðfjárafurða, sem fært var af ættaróðalinu Grund, Grýtubakkahreppi, hinn 22.12.1992, á óðalið að nýju, að viðlögðum dagsektum, að fjárhæð 25.000 krónur fyrir hvern dag, sem líður 15 dögum eftir dómsuppkvaðningu.  Til vara er þess krafizt, að Bændasamtök Íslands verði dæmd til að greiða skaðabætur, að fjárhæð kr. 1.162.161 með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 22.12. 1992 til 01.07. 2001, en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.  Loks er krafizt málskostnaðar in solidum af stefndu, Bændasamtökum Íslands og Matvælastofnun, að skaðlausu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á lögmannsþóknun, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál (sic í stefnu).

Dómkröfur stefnda, Bændasamtaka Íslands, eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara, að stefnukröfur verði stórlækkaðar og stefnda aðeins gert að greiða þær að litlum hluta.  Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda, Matvælastofnunar, eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og stefna verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til þrautavara er þess krafizt, að málskostnaður verði látinn niður falla.

II

Málavextir

Stefnandi kveður málavexti vera þá, að hinn 25. apríl 1955 hafi jörðin Grund í Grýtubakkahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, verið gerð að ættaróðali af þáverandi eiganda hennar, Helga Snæbjörnssyni, og hafi kvöðinni verið þinglýst hinn 9. maí sama ár, sbr. b. lið 1. gr. laga nr. 4/1946 um sölu þjóð- og kirkjujarða.  

Sonur Helga, Sigurður Helgason, hafi tekið við jörðinni hinn 13. desember 1979 úr hendi föður síns með afsali þar um, dags. sama dag.  Jörðin hafi haft yfir að ráða 562 ærgildum í upphafi, eða frá 1980, þegar farið hafi verið að stýra framleiðslu í landbúnaði.  Hafi búmarkinu verið breytt á verðlagsárinu 1983/1984 í 281 ærgildi og 281 ærgildi í mjólk.

Stefndi, Sigurður Helgason, hafi ýmist selt eða ráðstafað fullvirðisrétti til kindakjöts, búmarki eða greiðslumarki til framleiðslu sauðfjárafurða á árunum 1985, 1988 og 1992.

Greiðslumark hafi verið tekið upp með lögum nr. 5/1992 um breytingu á lögum nr. 46/1985.  Greiðslumark sé skilgreint sem ákveðið magn af kindakjöti, mælt í kílógrömmum, sem ákveðið sé fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og heimili beingreiðslu úr ríkissjóði.

Tilkynningar um aðilaskipti að greiðslumarki sauðfjárafurða hafi verið gerðar til Þórsteins Arnars Jóhannessonar á Bárðartjörn og Sveins Jóhannessonar, Hóli, báðum í Grýtubakkahreppi, sem hafi numið samtals 1.767 kg (116 ærgildi) kjöts, sbr. tilkynningar, dags. 12.10. 1992, sem staðfestar hafi verið af hálfu Framleiðsluráðs landbúnaðarins (Bændasamtaka Íslands ) þann 22.12. 1992.

Guðrúnu Fjólu Helgadóttur hafi verið afsalað ættaróðalinu hinn 12. maí 1995 og afsalinu þinglýst hinn 20. júní sama ár.

Hinn 17. des. 1996 hafi stefnandi höfðað mál gegn landbúnaðarráðherra, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd  íslenzka ríkisins  til ógildingar samninga og til vara til greiðslu skaðabóta.

Hinn 13. júní 1997 hafi verið þingfest af stefnanda framhaldsstefna gegn Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Framleiðsluráði landbúnaðarins.  Málinu hafi verið vísað frá með úrskurði  Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 13. október 1997.

Hinn 11. október 2003 hafi stefnandi ritað Bændasamtökum Íslands bréf og krafist þess m.a., að allt greiðslumark ættaróðals yrði skráð aftur á óðalið Grund í Grýtubakkahreppi. Einnig krafðist stefnandi skaðabóta vegna mistaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Bændasamtakanna.  Með bréfi Bændasamtaka Íslands, dags. 5. nóv. 2003,  hafi kröfum stefnanda verið hafnað.

Hinn 4. febrúar 2004 hafi verið lögð fram stjórnsýslukæra til landbúnaðarráðuneytisins á hendur Bændasamtökum Íslands, þar sem kærð hafi verið synjun samtakanna um að skrá aftur á jörðina upphaflegan fullvirðisrétt.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2004, hafi kærunni verið vísað frá landbúnaðarráðuneytinu.

Hinn 3. marz 2004 hafi stefnandi kært ákvörðun Bændasamtakanna til úrskurðarnefndar um greiðslumark og gert sömu kröfur um, að búmark, greiðslumark eða fullvirðisréttur yrði fluttur á jörðina að nýju.  Hafi hún m.a. rökstutt kröfu sína með því, að greiðslumark félli undir þau gögn og gæði jarða, sem bæru að fylgja ættaróðali skv. 48. gr. jarðalaga nr. 65/1976.  Að öðrum kosti væri ekki hægt að fullnægja ákv. 47. gr. og ná þeim markmiðum, sem að hafi verið stefnt í VII. kafla jarðalaganna.  Jafnframt hafi hún haldið því fram, að Framleiðsluráð hefði átt að kanna betur þinglýsingarvottorð, sem gefið hafi til kynna, að fleiri væru þinglýstir eigendur að óðali, auk þess sem alltaf hefði verið þinglýst kvöð um að jörðin væri ættaróðal.

Þann 18. júlí 2004 hafi stefnandi sent úrskurðarnefnd um greiðslumark bréf, sem hafi innihaldið athugasemdir til nefndarinnar.  Hafi þar verið lögð áhersla á 48. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sem kveði svo á um, að ættaróðali skuli fylgja hlunnindi og annað það, sem jörðinni hafi fylgt, og enn fremur afurðir, sem framleiddar séu á jörðinni og séu nauðsynlegar við búreksturinn, svo sem áburður og hey.

Hinn 2. nóvember 2004 hafi úrskurðarnefnd um greiðslumark kveðið upp úrskurð á þá leið, að felld hafi verið úr gildi staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins, (Bændasamtaka Íslands og síðar Landbúnaðarstofnunar), sem heiti í dag Matvælastofnun, frá 22. des. 1992 á aðilaskiptum að greiðslumarki sauðfjárafurða óðalsjarðarinnar Grundar í Grýtubakkahreppi við þá Svein Jóhannesson vegna jarðarinnar Hóls og Þórsteins Arnars Jóhannessonar vegna jarðarinnar Bárðartjarnar, báðar í Grýtubakkahreppi.  Jafnframt hafi úrskurðarnefndin fallizt á þá túlkun 48. gr. jarðalaga nr. 6571976, að greiðslumark í sauðfjárframleiðslu félli undir „hlunnindi og annað það sem jörðinni hefur fylgt og jarðeigandi á“.

Hinn 7. nóvember 2004 hafi stefnandi ítrekað þá kröfu sína við Bændasamtök Íslands, að öllu búmarki/greiðslumarki/fullvirðisrétti yrði skilað til óðalsjarðarinnar að nýju.  Jafnframt hafi hún gert kröfur um að njóta beingreiðslna í samræmi við réttindi sín frá 1. janúar 2005.  Þá hafi verið gerð krafa um skaðabætur til handa stefnanda vegna alls hugsanlegs tjóns hennar.

Stefnandi hafi sent Bændasamtökum Íslands ítrekunarbréf hinn 20. nóvember 2004 og endurtekið kröfur sínar frá 07.11. 2004.  Með bréfi bændasamtakanna, dags. 14. desember 2004, hafi samtökin hafnað öllum kröfum stefnanda.

Þann 18. apríl 2005 hafi stefnandi kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir synjun Bændasamtaka Íslands um að færa búmark/fullvirðisrétt/greiðslumark aftur til ættaróðalsins, auk beingreiðslna og skaðabóta.

Hinn 30. júní 2006 hafi álit umboðsmanns Alþingis um kvörtunarefni stefnanda í málinu nr. 4400/2005 birzt.  Niðurstaða umboðsmanns Alþingis hafi verið á þá lund, að verði misbrestur á því, að stjórnvöld standi rétt að afgreiðslu mála og lög standi því ekki í vegi að bætt verði úr afleiðingum slíks annmarka með endurupptöku og leiðréttingu, geti niðurstaðan orðið sú að stjórnvaldi verði gert skylt að greiða skaðabætur.

Stefnandi hafi birt stefnu á aðila máls þessa hinn 9. og 10.  okt. 2007, sem til hafi staðið að þingfesta hinn 8. nóv. 2007 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Stefnandi hafi síðan höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. maí 2008 á sömu aðila, sem lyktað hafi með frávísun þess skv. úrskurði, dags. 28. nóv. 2008.  Frávísunin hafi verið kærð til Hæstaréttar Íslands, sem hafi staðfest hana með dómi sínum þann 14. janúar 2009.

Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndar um greiðslumark og umboðsmanns Alþingis þyki ljóst, að aðilaskiptin að greiðslumarki 1992 á Grund hafi verið úrskurðuð ógild með úrskurði þann 4. nóv. 2004.  Ekki hafi verið gerð tilraun af hálfu stefndu til að hnekkja þeim úrskurði.  Þá  hafi verið leitað eftir því, með atbeina umboðsmanns Alþingis, að fá stefndu til að endurskrá greiðslumarkið aftur á jörðina en án árangurs.

Stefnda eigi því ekki annan kost en að höfða mál til að sækja rétt sinn eða bætur á hendur stefndu.

Stefndi Bændasamtök Íslands gerir athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda og skýrir nánar.  Kveður þessi stefndi, að með lögum nr. 15/1979 um breytingu á lögum nr. 101/1966 um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl., sem endurútgefin hafi verið sem lög nr. 95/1981, hafi verið tekið upp svokallað búmarkskerfi.  Búmark hafi verið haft til viðmiðunar, þegar ákveða hafi þurft mismunandi verð fyrir búvöru til framleiðanda vegna framleiðslustjórnunar.  Búmarkið hafi verið reiknað fyrir hverja búgrein fyrir sig, og hafi meðalframleiðsla búsins í viðkomandi búgrein árin 1976 til 1978 verið lögð til grundvallar.  Hafi upphaflegt búmark á jörðinni Grund verið alls 562 ærgildi sem skiptist þannig að í mjólk hafi verið 315 ærgildi, 214 ærgildi í sauðfé og 33 ærgildi í nautgripakjöti.  Að ósk Sigurðar Helgasonar hafi allt búmark verið sett í sauðfé, enda hafi mjólkurframleiðslu verið hætt á Grund á árinu 1977.

Þann 9. janúar 1984 hafi Sigurður farið fram á að við Framleiðsluráð landbúnaðarins að nýta vannýtt búmark til mjólkurframleiðslu, þar sem hann hefði aðeins nýtt búmark sitt, 562 ærgildi, að hálfu til sauðfjárframleiðslu frá því að hann hóf búskap á Grund.  Hafi helmingur búmarksins því verið fluttur í mjólkurframleiðslu.  Ekki hafi þó farið svo, að mjólkurframleiðsla væri tekin upp á Grund.

Þann 27. júní 1985 hafi Sigurður farið fram á, að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Framleiðsluráð landbúnaðarins keyptu hluta búmarksins, eða 300 ærgildi.  Með samningi um búháttabreytingu, dags. 16. september 1985, hafi Framleiðnisjóður landbúnaðarins keypt af Sigurði 300 ærgilda búmark í mjólk og sauðfé vegna búháttabreytingar.  Hafi sú skerðing fyrst verið tekin af búmarki í mjólk, 281 ærgildi, og eftirstöðvarnar, 19 ærgildi, af búmarki í sauðfé.  Sauðfjárbúmark jarðarinnar hafi því lækkað í 262 ærgildi.  Greiðsla fyrir búmarkið hafi verið samtals kr. 600.000, en kr. 360.000 hafi verið greiddar þann 15. september 1985 og kr. 240.000 þann 15. desember 1985.  Samkvæmt samningnum skyldi loðdýrarækt tekin upp í stað sauðfjár- og mjólkurframleiðslu.

Lög nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum hafi leyst lög nr. 95/1981 af hólmi.  Fullvirðisréttarkerfinu hafi verið komið á með lögum nr. 46/1985 (VII. kafla).  Hætt hafi verið að miða rétt hvers einstaks framleiðanda við búmark og þess í stað tekið upp hugtakið fullvirðisréttur sem viðmið þess afurðamagns, sem hver einstakur framleiðandi fengi fullt verð fyrir.  Fullvirðisréttur sé hlutdeild í verði á innanlandsmarkaði, sem ábyrgzt sé fyrir framleiðendur.

Árið 1988 hafi Sigurður selt Framleiðnisjóði 120 ærgildi af fullvirðisrétti sínum, sem þá hafi verið orðinn 238,8 ærgildi, sbr. samning um sölu fullvirðisréttar nr. 88-065.  Hafi fullvirðisréttur hans þá farið niður í 118,8 ærgildi.  Kaupverðið, kr. 600.000, hafi verið greitt með tveimur jöfnum greiðslum, þann 1. ágúst 1988 og 1. ágúst 1989.

Með lögum nr. 5/1992 um breytingu á lögum nr. 46/1985 hafi greiðslumark verið tekið upp.  Greiðslumark sé tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, sem ákveðið sé fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veiti rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.

Þann 12. október 1992 hafi Sigurður selt greiðslumark sauðfjárafurða, 883,5 kg, Sveini Jóhannessyni, Hóli, Grýtubakkahreppi og þann 22. desember sama ár 883,5 kg Þorsteini Jóhannessyni, Bárðartjörn, Grýtubakkahreppi, eða samtals 1.767 kg.

Tæpu ári síðar, þann 12. september 1993, hafi Sigurður Helgason ritað landbúnaðarráðuneytinu bréf í því skyni að segja upp samningi um búháttabreytingar frá 1985, þar sem skinnaframleiðsla hefði ekki tekizt á jörðinni.

Stefnandi hafi tekið við réttindum að jörðinni Grund í Grýtubakkahreppi þann 12. maí 1995.

Eins og rakið sé í stefnu, hafi stefnandi áður höfðað svipað dómsmál til ógildingar á áðurnefndum samningum.  Hafi upphafleg stefna í því máli verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 30. nóvember 1996.  Því máli hafi verið vísað hafi verið frá dómi með vísan til þess, að dómkröfur stefnanda væru ekki tækar til dóms.

Allmörgum árum síðar, eða þann 3. marz 2004, hafi stefnandi kært til úrskurðarnefndar um greiðslumark synjun Bændasamtaka Íslands um flutning greiðslumarks þess, sem nú sé stefnt vegna, yfir á jörðina Grund.  Með úrskurði nefndarinnar, dags. 2. nóvember 2004, hafi verið komizt að þeirri niðurstöðu, að staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins, nú Bændasamtaka Íslands, frá 22. desember 1992, á aðilaskiptum að greiðslumarki óðalsjarðarinnar Grundar í Grýtubakkahreppi, væri felld úr gildi.

Nokkru síðar hafi stefnandi leitað álits umboðsmanns Alþingis vegna málsins, og með áliti, dags. 30. júní 2006, hafi umboðsmaður komizt að þeirri niðurstöðu, að hann teldi ekki ástæðu til þess að taka synjun Bændasamtakanna á því að færa umrætt greiðslumark á jörðina Grund í Grýtubakkahreppi til frekari athugunar með vísan til raka Bændasamtaka Íslands um, að slík yfirfærsla á greiðslumarki væri útlokuð.

Af hálfu stefnanda var síðan ekkert aðhafzt í málinu, fyrr en stefna var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur, þann 8. maí 2008.  Því máli hafi verið vísað frá með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 28. nóvember 2008.  Frávísunin hafi verið kærð til Hæstaréttar Íslands, en hafi verið staðfest með dómi réttarins þann 14. janúar 2009.  Stefnda, Bændasamtökum Íslands, hafi hvorki verið stefnt í því máli né því dómsmáli, sem stefnandi hafi höfðað með birtingu stefnu á árinu 2007.

Stefndi Matvælastofnun gerir einnig athugasemdir við málatilbúnað stefnanda í greinargerð sinni og rekur helstu ákvæði um framleiðslustjórnun í landbúnaði og aðkomu stjórnvalda að þeim á því tímabili, sem stofnunin kveður hér skipta máli.

III

Málsástæður stefnanda

Endurskráning greiðslumarks.

Stefnandi kveðst byggja á 67. gr., sbr. 72. gr., stjórnarskrár lýðveldisins um, að óheimilt hafi verið að skerða eignarréttindi ættaróðalsins.  Sala hlunninda, eins og greiðslumarks sauðfjárafurða frá óðalinu, hafi verið ólögmæt aðgerð. 

Í þessu máli liggi sú staðreynd fyrir, að tilkynning um aðilaskipti að greiðslumarki sauðfjárafurða hafi verið ógilt af úrskurðarnefnd um greiðslumark hinn 2. nóvember 2004.  Þessari niðurstöðu hafi ekki enn verið hnekkt af hálfu stefndu, Bændasamtakanna eða Matvælastofnun.

Stefnandi hafi í höndum ógildingarúrskurð frá þar til bæru stjórnvaldi, þ.e. úrskurðarnefnd um greiðslumark.

Bændasamtökin hafi fallizt á það í bréfi til umboðsmanns Alþingis (bls. 4. í niðurstöðu Umbm. Alþingis), dags. 20.06. 2006, þar sem þau segi orðrétt:

Í ljósi samhengis kröfugerðar aðila og úrskurðarorðsins túlkuðu Bændasamtök Íslands úrskurðarorð nefndarinnar sem viðurkenningu til kæranda um að staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins, frá 22. desember 1992, sé ógild er varði samþykki til sölu greiðslumarksins ... .

Stefnandi vísi til skaðabótareglna utan samninga, sakarreglunnar, culpa, þar sem stefndu hafi valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni með ólögmætum athöfnum sínum við að staðfesta tilkynningu aðilaskipta 1992.  Framleiðsluráðið hafi sýnt vítavert gáleysi við undirritun tilkynninganna.  Fjárhagslegt tjón liggi fyrir í því formi, að 1.767 kg greiðslumark hafi horfið af óðalinu.  Orsakasamband milli háttsemi Framleiðsluráðsins og tjónsins liggi fyrir í málinu.  Aðalkrafa stefnanda um endurskráningu greiðslumarksins teljist því eðlileg og réttmæt, með vísan til almennra skaðabótareglna.  Um nánari umfjöllun um gáleysi Framleiðsluráðsins vísist til varakröfu stefnanda.

Tilkynning um aðilaskipti að greiðslumarki hafi ekki getað orðið gild, nema hljóta staðfestingu Framleiðsluráðsins á sínum tíma.  Nú hafi ógilding á umræddri staðfestingu legið fyrir í nokkurn tíma.  Það hafi verið stefndi, Framleiðsluráðið (Bændasamtökin, Landbúnaðarstofnun) og nú síðast Matvælastofnun, sem hafi haldið og haldi skrá yfir rétthafa greiðslumarks skv. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 með síðari breytingum, sbr. 34. gr. laga nr. 76/2005 og 2. gr. f. lið. laga nr. 80/2005, sbr. breytingalög nr. 167/2007.

Ljóst sé, að Matvælastofnun haldi umrædda skrá í dag, og hún hafi haft forsendur á grundvelli t.d. 2. tl.  23. gr. breytingalaga nr. 58/2007 á lögum nr. 99/1993 til að úthluta stefnanda af 17.600 ærgilda greiðslumarki m/v 31. des. 2007, sem Matvælastofnun (Landbúnaðarstofnun) hafi þá haft til frjálsrar ráðstöfunar.  Matvælastofnun hafi verið framseldur réttur Bændasamtakanna til að halda skrá um greiðslumark á lögbýli með lögum nr. 80/2005, sbr. lög nr. 167/2007.  Þau hafi því tekið við réttindum og skyldum Bændasamtakanna að þessu leyti.  Stefnanda sé því þ.a.l. nauðsynlegt að beina kröfum sínum einnig að Matvælastofnun varðandi endurskráningu greiðslumarksins á óðalið. 

Skráningu á rétthafa greiðslumarksins gagnvart réttargæzlustefndu, Þórsteini og Sveini, hefði einnig mátt afturkalla í kjölfar ógildingarúrskurðarins.  Forsendur hafi verið brostnar fyrir skráningu  þeirra bræðra, eða lögbýla þeirra, sem rétthafa í umræddri skrá.

Það hafi hins vegar verið stefndu, Bændasamtökin, sem ekki hafi fengizt til að framkvæma umkrafða endurskráningu til ættaróðalsins, þrátt fyrir ákveðnar kröfur stefnanda þar um.  Þannig hafi þau brotið gegn eignarrétti stefnanda og óðalsins um að fá greiðslumarkið endurskráð á jörðina og þannig viðhaldið með háttsemi sinni og afhafnaleysi tjóni, sem felist í hinu tapaða greiðslumarki.  Á þessu beri þau einnig skaðabótaábyrgð, og verði skaðinn einungis bættur með því að endurskrá greiðslumarkið á óðalið að nýju. 

Með vísan til þess að Bændasamtökin og Matvælastofnun úthluti mörg þúsund ærgilda greiðslumarki eftir sinni hentisemi og eigin regluverki, sbr. 23. gr. breytingalaga nr. 58/2007, verði ekki annað séð en að þau hefðu auðveldlega getað séð af 116 ærgildum, eða 1.767 kílógrömmum, til stefnanda.  Það sé ekki á annarra færi en ýmist Matvælastofnunar, sem sjái um skráningu greiðslumarks á jarðir skv. 1. mgr. 38. gr. búvörulaganna nr. 99/1993 og/eða Bændasamtakanna, sem beri ábyrgð á öllum skuldbindingum Framleiðsluráðs landbúnaðarins fyrr og síðar að koma framangreindu til leiðar. 

Krafan sé jafnframt sanngjörn og hljóti að teljast  hagkvæm fyrir stefndu, þar sem auðvelt sé að verða við henni, án þess að gengið verði á réttindi réttargæzlustefndu, Sveins og Þórsteins.

Þá vísi stefnandi til meginreglna eignarréttarins, sem njóti stuðnings jarðalaganna nr. 65/1976.  Stefnandi minni á, að ættaróðalið sé sjálfseignarstofnun, og t.d. hafi enginn heimild  til að veðsetja óðalið, nema með mjög þröngum hætti, skv. jarðalögum, og sé það gert, þá verði það eingöngu í því augnamiði að auka verðmæti óðalsins. 

Krafa stefnanda byggi  á VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976, sérstaklega á 48. gr. laganna.

Úrskurði Úrskurðarnefndar um greiðslumark hafi ekki verið hnekkt af hálfu Bændasamtakanna, að því er snerti túlkun og niðurstöðu nefndarinnar á 48. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sem hafi falizt í því, að greiðslumark sauðfjárframleiðslu félli undir „hlunnindi og annað það er jörðinni hefur fylgt og jarðeigandi á“.  Með athafnaleysi sínu, t.d. með því að hafa ekki notað sér málskotsrétt sinn til dómstóla, hafi Bændasamtökin viðurkennt, að greiðslumarkið hafi verið eignarréttindi skv. ákvæðum um ættaróðul, sem ekki hafi mátt skerða með nokkrum hætti.  Nægir þessi málsástæða ein og sér til að endurskrá greiðslumarkið til óðalsins að nýju.

Stefnandi telji ótækt, að Bændasamtökin komist upp með að brjóta bæði búvörulögin nr. 99/1993 og VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 með svo grófum hætti, að þau sleppi bótalaust frá málinu.  Úrskurður úrskurðarnefndar um greiðslumark staðfesti lögbrot Bændasamtakanna bæði á búvörulögum og VII. kafla jarðalaganna.  Stefnandi krefjist þess, með vísan til framangreindra málsástæðna, að greiðslumark að 1.767 kg í sauðfjárafurðum verði endurskráð á óðalið.

Stefnandi hafi ekki sýnt tómlæti í málinu.  Hann hafi haldið því til haga allar götur frá 1996 til 2008 og haft uppi andóf og mótmæli við brotthvarfi greiðslumarksins.  Það komi fram í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis á bls. 5 – 6, að stefndi, Bændasamtökin, viðurkenndu, að þær kröfur, sem hafðar hafi verið uppi fyrir úrskurðarnefndinni, fyrntust ekki nema að hluta.  Stefndi, Bændasamtökin, hafi talið, að ógildingarkrafan um staðfestingu Framleiðsluráðsins gæti ekki fyrnzt, en gæti hins vegar átt undir reglur um tómlæti.  Efst á bls. 6 í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis segi stefndi, Bændasamtökin, að sama eigi við um kröfu stefnanda um að færa  greiðslumarkið til baka.

Stefnandi bendi á, að í þessu sambandi hafi hann sérstaklega haldið fram skýlausum  kröfum sínum um að endurskrá greiðslumarkið á ættaróðalið alveg fram á þennan dag, og þ.a.l. verði ekki séð, að hann hafi nokkurn tíma sýnt tómlæti í þeim efnum.  Reglur um tómlæti eigi ekki við í málinu.

Þá sé gerð krafa um, að dómurinn ákveði dagvexti, að fjárhæð kr. 25.000, sem komi til 15 dögum eftir dómsuppkvaðningu, eða þar til stefndu hafi uppfyllt skyldu sína um að endurskrá greiðslumarkið aftur á óðalið.  Stefnandi styðjist við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, þar sem heimilt sé, að skylda verði lögð á stefndu til annars en peningagreiðslu, að viðlögðum dagsektum.

Skaðabætur. 

Til vara sé þess krafizt, að Bændasamtök Íslands verði dæmd til að greiða skaðabætur, að fjárhæð kr. 1.162.161, með vöxtum  skv. 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 22.12. 1992 til 01.07. 2001, en þá af sömu fjárhæð skv. IV. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

Ljósrit af þinglýsingarvottorði hafi borið með sér, að jörðin væri í sameign, sbr. orðalagið „og fleiri“ í vottorðinu.

Stefnandi veki athygli á, að 1. mgr. 46. gr. laga nr. 99/1993 kveði á um, að greiðslumark skuldi bundið lögbýli, og þá ekki síður ættaróðali.

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. laga nr. 99/1993 taki aðilaskipti með greiðslumark ekki gildi, fyrr en staðfesting sameigenda liggi fyrir.  Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 363/1996 segi, að aðilaskipti greiðslumarks skuli tilkynnt á þar til gerðum eyðublöðum, sem stefndi, Bændasamtökin, láti liggja frammi á skrifstofu sinni.  Með þessari tilkynningu um aðilaskipti að greiðslumarki hafi verið skylt að láta fylgja með staðfestingu um eignarhald á lögbýli, ættaróðali.  Á umræddum eyðublöðum, tilkynningum um aðilaskipti að greiðslumarki sauðfjárafurða, sé sérstakur reitur, þar sem rita skuli samþykki eigenda lögbýlisins, óðalsins, séu þeir ekki seljendur.  Bændasamtökunum hafi borið að rannsaka, hvort fleiri væru eigendur að óðalinu, þar sem þinglýsingarvottorð hafi gefið það til kynna.

Með vanrækslu sinni, sem teljast verði gáleysi,  hafi stefndi, Bændasamtökin, valdið tjóni, sem nemi tapi greiðslumarksins, sem numið hafi verið brott af lögbýlinu, ættaróðalinu, samtals 1.767 kílógrömmum til framleiðslu sauðfjárafurða.  Með vísan til úrskurðarins frá úrskurðarnefnd um greiðslumark þann 4. nóv. 2004, sem ógilt hafi tilkynninguna um aðilaskiptin, beri Bændasamtökin því ein og sér óskoraða ábyrgð á þessum mistökum og því tjóni, sem hlotizt hafi af gáleysislegri hegðun þeirra.  Um hafi verið að ræða grófa vanrækslu, sem leitt hafi til þess tjóns, er nemi andvirði greiðslumarksins.

Í Hæstaréttardómi nr. 279/2000 sé því slegið föstu, að sala greiðslumarks hafi verið til þess fallin að leiða til rýrnunar jarðarinnar.  Núverandi óðalsréttarhafi eigi rétt á því að verða jafn settur og hefði salan ekki farið fram, sbr. framangreinda dóm Hæstaréttar.  Síðan segi í sama dómi:  „Má meta tjón þeirra sem kostnað við að koma jörðinni í samt horf.“  Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú, að fallizt hafi verið á að miða mætti við það, að tjónið næmi andvirði þess, sem greitt hafi verið fyrir greiðslumarkið.

Stefnandi telji, að framangreint fordæmi Hæstaréttar sé leiðarvísir fyrir túlkun VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976, sbr. 47. gr., sem segi, að óðalsjörð verði að vera svo gæðarík, að afraksturinn af búi, er jörðin geti borið, með hlunnindum, er henni fylgi, geti framfært a.m.k. meðalfjölskyldu.

Ólögmætt atferli Bændasamtakanna liggi fyrir, sem hafi falizt í því, að þau hafi vanrækt skyldu sína, eins og ður sé getið.

Sökin sé fyrir hendi hjá Bændasamtökunum, sem hafi falizt í meiri háttar gáleysis­vinnubrögðum við staðfestingu tilkynninganna.  Tímamarkið á gáleysi stefnda sé það, þegar Framleiðsluráðið hafi staðfest  tilkynningarnar um aðilaskiptin með undirritun sinni.

Fjárhagslegt tjón liggi fyrir í málinu, og hafi verið lögð fram gögn því til sönnunar.   Tjónið nemi a.m.k. þeirri upphæð, sem kosti að koma sambærilegu greiðslumarki aftur á jörðina.

Orsakasamband sé á milli háttsemi Bændasamtakanna og þess tjóns, sem þau hafi valdið stefnanda málsins, og teljist það sannað með úrskurði Úrskurðarnefndar greiðslumarksins.

Dómafordæmi séu fyrir hendi um, að miða megi við það, að tjónið nemi andvirði þess, sem greitt hafi verið fyrir greiðslumarkið skv. tilkynningu, dags. 22.12.1992, og samkomulagi, dags. 01.09.1992,  sbr. Hæstaréttardóm nr. 279/2000.

Þá byggi stefnandi einnig á eignarréttarlegu sjónarmiði VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976, sérstaklega 47. gr. og 48. gr. varðandi skylduna til að láta öll hlunnindi fylgja jörð. er hún var gerð að ættaróðali.  Jarðalögin styðji kröfu stefnanda um skaðabætur.

Stefnandi geri kröfu um vexti frá þeim tíma, er Framleiðsluráð ritaði undir tilkynningu um aðilaskipti greiðslumarks hinn 22.12. 1992.  Það teljist vera sá dagur, er tjónið varð staðreynt.

Fyrning komi ekki til álita, þar sem kröfu stefnanda hafi verið haldið við allar götur síðan tjónið hafi átt sér stað.  Krafa stefnanda eigi undir 4. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, sem kveði á um 10 ára fyrningu.  Stefnandi hafi birt stefnu vegna ágreinings um greiðslumark 04.12. 1996.  Úrskurður hafi gengið hinn 13.10. 1997 í Héraðsdómi Reykjavíkur.  Þá hafi aðilum vegna sama ágreinings verið birt stefna þann 09.10. 2007, sem ekki hafi verið þingfest.  Sömu aðilum hafi síðan verið birt sama stefna að nýju í apríl 2008, er mál hafi verið þingfest þann 08.05. 2008.  Kröfum stefnanda hafi því verið haldið við innan 10 ára tímans og málinu þannig haldið vakandi eftir 10 ára tímamarkið, þannig að fyrning komi ekki til álita.   

Stefnandi sé þinglýstur eigandi að ættaróðalinu frá 12.05. 1995.  Henni hafi verið afsalað óðalinu á grundvelli 63. gr. laga nr. 65/1976.  Ekki hafi verið gerð athugasemd við afsalið, sem hafi verið þinglýst hinn 24.05. 1995, hvorki af börnum fyrrverandi óðalsbónda né annarra skyldmenna eða af opinberum aðilum, svo sem Bændasamtökum Íslands eða sýslumanni skv. 49. gr. jarðalaga.

Enginn annar en stefnandi geti orðið aðili að máli þessu, en hún sé þinglýstur eigandi og  núverandi vörzlumaður ættaróðalsins, en hún hefur allar götur frá 1995 og 1996 nýtt sér eignina í samræmi við lagareglur um ættaróðul og haft uppi andmæli gegn flutningi greiðslumarksins af ættaróðalinu.

Stefnandi hafi ein verið aðili að ágreiningsmáli fyrir úrskurðarnefnd greiðslumarksins og hjá umboðsmanni Alþingis, án þess Bændasamtökin hafi nokkurn tíma hreyft andmælum við því.  Úrskurður um ógildingu greiðslumarksins hafi verið að hennar kröfu, og því sé aðild hennar nú að málinu rökrétt framhald.

Réttargæzlutefndu, Þórsteinn A. Jóhannesson og Sveinn Jóhannesson, hafi verið viðsemjendur stefndu, Sigurðar H. Helgasonar og Öldu Þorsteinsdóttur, skv. samningi, dags. 01.09. 1992.  Telja verði, að réttargæslustefndu, Þórsteinn og Sveinn annars vegar og Sigurður og Alda hins vegar, geti haft lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins, en þau hafi komið að því að rýra ættaróðalið hlunnindum og hafi mátt vita um hina þinglýstu kvöð, þ.e. óðalsréttinn.

Ekki sé gerð krafa um málskostnað á hendur réttargæslustefndu.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi verið sameinað Landbúnaðarstofnun, er hún tók til starfa 01.01. 2006.  Hinn 01.01. 2008 hafi Landbúnaðarstofnun skipt um nafn og heiti nú Matvælastofnun og gegni sama hlutverki og Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem hafi verið lagt niður.  Matvælastofnun hafi tekið við starfsemi, sem Framleiðsluráð Landbúnaðarins hafi annazt, með sama hætti og Landbúnaðarstofnun og Bændasamtök Íslands hafi gert skv. f. lið 2. gr. laga nr. 80/2005, þ.á m. að halda skrár yfir rétthafa greiðslumarks og flutning þess milli lögbýla.  Mörkin milli starfssviða umræddra stofnana séu svo óljós, að stefnandi telji ekki annað fært en að stefna þeim báðum til að endurskrá greiðslumarkið á ættaróðalið.   Bændasamtökin hafi sjálfstæða stöðu í málinu sem gerendur, þar sem þau hafi komið beint að tilkynningum um aðilaskipti greiðslumarks 1992.  Samkvæmt 27. gr. laga nr. 112/1999 hafi Bændasamtökin tekið við öllum eigum, réttindum, skuldum og skuldbindingum Framleiðsluráðs landbúnaðarins og með það í huga verði ekki komizt hjá því að höfða málið einnig gegn þeim.

Stefnandi kveðst byggja á grunnreglum eignarréttarins, sem vernduð séu í 67. gr. þágildandi stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. núgildandi ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem  sé ein af meginreglum íslenzks réttar og styðjist við VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 um ættaróðul.

Stefnandi byggi einnig á meginreglum skaðabótaréttar, saknæmisreglunni, culpa,  reglum samninga- og kröfuréttar og laga um fyrningu krafna nr. 14/1905.

Greiðslumark fylgi ættaróðali og sé verndað af stjórnarskrá og jarðalögum og verði ekki skilið frá eða selt frá ættaróðali.  Stefnandi vísi til VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976, sérstaklega 48. gr., 49. gr., 55. gr., 57. gr. og 60. gr.

Þá sé vísað til laga nr. 46/1985 um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum,  um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, breytingalaga nr. 5/1992, IX. kafli laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sérstaklega ákvæða 38. gr. og 39. gr. sömu laga.

Þá sé vísað til 23. gr. laga nr. 58/2007 um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993.

Einnig sé bent á 34. gr. og 35. gr. laga nr. 76/2006 um breytingu á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar, þ.m.t. lögum nr. 99/1993.

Einnig sé byggt á lögum nr. 80/2005 um Matvælastofnun, sem hafi tekið við hluta af starfsemi Bændasamtaka Íslands, sem áður hafi farið með málefni Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Þá sé bent á lög nr. 112/1999, þar sem fram komi í 27. gr., að Bændasamtökin hafi tekið við réttindum, eigum, skuldum og skuldbindingum Framleiðsluráðs.  Þá sé bent á lög nr. 130/1994 um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttasambands bænda í ein heildarsamtök bænda. Varðandi réttargæzlustefndu sé byggt á 21. gr. laga nr. 91/1991 og varðandi ákvæði um dagsektir sé vísað til 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Um málskostnað sé vísað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt vegna skaðleysis stefnanda af málsókninni sé vísað til laga nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda, Bændasamtaka Íslands

Aðalkrafa stefnda, Bændasamtaka Íslands, er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er sá þáttur þess einungis hér til úrlausnar.

Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því, að verulega skorti á, að uppfyllt séu skilyrði d-, e-, f-, og g- liða 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Stefna málsins sé svo ruglingsleg og torskilin, að stefndi telji ekki annað fært en að vísa málinu frá dómi.

Aðalkrafa stefnanda um, að tiltekið greiðslumark, sem var á jörðinni Grund árið 1992, verði endurskráð á hana, gangi ekki upp að mati stefnda.  Þannig hafi t.d. greiðslumark í sauðfé ekki verið skráð í kílógrömmum síðan 1995, heldur ærgildum.  Það sé  því ómögulegt að verða við kröfunni, eins og hún sé fram sett.  Við breytinguna yfir í ærgildi hafi verið miðað við, að ærgildið væri 18.2 kg og þau 1.767 kg, sem stefnandi vísi til, því 97 ærgildi, en ekki 116, eins og haldið sé fram í stefnu.  Síðan 1992 hafi einnig verið gerðar fleiri breytingar á útreikningi og forsendum greiðslumarks, sem taka yrði tillit til.  Stefndi telji því útilokað að ímynda sér eðlilegan grundvöll þess, að greiðslumark jarðarinnar verði endurskráð á lögbýlið, eða umreiknað, miðað við breytingar á reglum og lögum um beingreiðslur síðustu áratugi.

Það sé stefnda einnig óskiljanlegt með öllu, hvers vegna Bændasamtökum Íslands og Matvælastofnun sé, skv. aðalkröfu stefnanda, stefnt in solidum til að endurskrá greiðslumark það, sem deilt sé um í máli þessu.  Af stefnu málsins verði engan veginn ráðið, hvaða aðild stefnandi telji, að Bændasamtök Íslands eigi að hafa til slíkrar skráninga, en á bls. 5 í stefnu sé annars vegar fullyrt, að Matvælastofnun hafi haft 17.600 ærgildi ein til ráðstöfunar í árslok 2007 og hins vegar, að „Bændasamtökin og Matvælastofnun úthluti mörg þúsund ærgilda greiðslumarki“ árlega, án þess að færð séu fyrir því rök.

Engin frekari rök sé að finna í stefnu fyrir því, hvers vegna, eða á hvaða hátt, stefndi geti orðið við aðalkröfum stefnanda, og þá sé það enn furðulegra að stefna tveimur stjórnvaldsstofnunum til að fá þær dæmdar in solidum til að „endurskrá“ greiðslumark, sem selt hafi verið frá jörðinni Grund.

Reyndar sé það svo, að í stefnu sé ítarlega rakið og rökstutt, að stefndi komi hvergi nálægt skráningu á greiðslumarki.  Þá sé það rangt, sem fram komi í stefnu, að Matvælastofnun hefði getað ráðstafað greiðslumarki til stefnanda í árslok 2007, þar sem skilyrði þess, að greiðslumarki sé úthlutað til býlis samkvæmt 2. tl. 23. gr. breytingarlaga nr. 58/2007 á lögum nr. 99/1993, sé að þar hafi verið búskapur á árinu 2007, en því hafi ekki verið að skipta á Grund.  Stefnandi uppfylli heldur ekki skilyrði um ásetning sauðfjár o.fl. o.fl.

Verður því að telja, að stefna máls þessa uppfylli ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Fyrir utan framangreindan óskýrleika stefnunnar sé heldur engin leið að átta sig á því, hvers vegna stefnandi telji sér bera að fá endurskráð 1.767 kílógramma greiðslumark til framleiðslu sauðfjárafurða vegna þess að fyrri eigandi jarðarinnar, bróðir stefnanda, hafi selt fullvirðisrétt til kindakjöts, búmark eða greiðslumark fyrir nærri tveimur áratugum síðan.

Þá sé það svo, að jörðin Grund í Grýtubakkahreppi hafi ekki uppfyllt skilyrði þess að geta verið óðal í skilningi laga svo áratugum skipti.  Ekki sé nóg með að jörðinni hafi ítrekað verið afsalað, án þess að samþykki óðalserfingja liggi fyrir, eins og áskilið hafi verið í jarðalögum nr. 65/1976 og sé enn, sbr. núgildandi jarðalög nr. 81/2004, heldur sé enginn ábúandi að Grund, enginn búrekstur sé þar stundaður og auk þess eigi enginn lögheimili að Grund, sbr. t.d. b. lið 1. mgr. 68. gr. jarðalaganna frá 1976.

Varðandi bótakröfu stefnanda geti stefndi ekki fallizt á, að ef umrædd framfærsluréttindi, þ.e. réttur til greiðslumarks, séu óframseljanleg eignarréttindi, sem tilheyri „óðalinu“ Grund, eigi að greiða stefnanda persónulega bætur vegna missis réttindanna.  Auk þess sé skýrlega mælt fyrir um réttindaröð þeirra, sem geti tekið við óðali, með vísan til 63. gr. laga nr. 65/1976, og skv. 42. gr. laga nr. 81/2004 sé óheimilt skv. lögum að gera jörðina að óðali á ný.  Stefndi telji, að umræddir ættingjar, sbr. 63. gr. eldri jarðalaga, verði að eiga aðild að skaðabótakröfunni, ef jörðin sé þá óðal, og því verði að vísa málinu frá sbr. 18. gr. 91/1991.

Ekki sé að finna nægan rökstuðning fyrir ætluðu tjóni stefnanda í stefnu, en óljósar og ruglingslegar vísanir í dóm Hæstaréttar í máli nr. 279/2000 geti ekki talizt nægilegur rökstuðningur að mati stefnda.  Þá virðist stefnandi annars vegar byggja á því, að meint tjón sé til komið vegna þess að óðalsjörðina, sem um ræði, skorti gæði, sem henni verði að fylgja til að afraksturinn af búi, er jörðin geti borið, með hlunnindum, er henni fylgi, geti framfært a.m.k. meðalfjölskyldu, og hins vegar á því, að tjónið nemi söluandvirði greiðslumarksins, sem um sé deilt.

Auk þess sé ekki vikið einu orði að því í stefnu, hvers vegna kröfufjárhæðin sé 1.162.161 króna, og ekkert af framlögðum gögnum styðji fjárhæð kröfunnar.  Grundvöllur bótakröfu stefnanda sé þegar af þeirri ástæðu svo óskýr og vanreifaður, að hann uppfylli ekki skilyrði d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda, Matvælastofnunar

Aðalkröfu stefnda Matvælastofnunar um frávísun máls þessa frá dómi kveðst stefndi reisa á því, að verulega skorti á, sbr. d, e, og f-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að stefnandi hafi búið mál sitt þannig úr garði, að unnt sé að leggja dóm á það.

Af stefnanda hálfu sé ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af kröfugerð um endurskráningu greiðslumarks í sauðfé, sem flutt hafi verið af jörðinni Grund til jarðanna Hóls og Bárðartjarnar.  Stefnandi hafi tekið við jörðinni af tvíburabróður sínum, réttargæzlustefnda Sigurði Helga Helgasyni, árið 1995, eftir að greiðslumarki í sauðfé hafði verið afsalað og sauðfjárframleiðslu þar verið hætt.  Stefnandi hafi tekið við jörðinni og mannvirkjum á henni í samræmi við þann búrekstur, sem hann hafi haft með höndum á jörðinni á sviði loðdýra-og alifuglaræktar.  Stefnandi hafi aldrei, eftir að hún tók við jörðinni, átt þar lögheimili eða rekið á henni sjálfstæðan búrekstur, eins og áskilið sé í jarðalögum um óðalsjarðir.

Þá sé óljós og vanreifaður grundvöllur fyrir þeirri endurskráningu greiðslumarks, sem gerð sé krafa um í aðalkröfu stefnanda.  Stefnandi krefjist ekki ógildingar þeirra einkaréttarlegu samninga, sem legið hafi að baki flutningi greiðslumarksins, og standi þeir óhaggaðir sem og sá flutningur greiðslumarks, sem á þeim hafi byggzt.  Stefnandi sé ekki aðili að gerningum, sem legið hafi að baki flutningi þess greiðslumarks, sem aðalkrafa um endurskráningu taki til.  Í stefnu sé ekki á viðhlítandi hátt gerð grein fyrir þeim heimildum, sem stefnandi telji sig njóta til að krefjast endurskráningar greiðslumarks, sem flutt hafi verið á grundvelli þeirra, án þess að þeir gerningar verði látnir ganga til baka.

Tilvísan stefnanda til almennra skaðabótareglna sem grundvallar endurskráningar sé algerlega vanreifaður.  Ekkert sé upplýst um hagnýtingu stefnanda á Grund.  Algerlega skorti reifun á lagagrundvelli, er leiði til þess, að stofnazt geti í hendi stefnanda réttur til endurskráningar greiðslumarks.  Þá sé hvorki upplýst um fjárhagslega hagsmuni, er hafi beðið tjón, né um orsakasamband eða um meint bótaskylt tjón.

Fyrir liggi, að greiðslumark það, sem flutt hafi verið af Grund 1992, hafi numið alls 1.767 kg.  Síðan þá hafi verið gerðar fjölmargar breytingar á forsendum og útreikningi greiðslumarks, sem engin grein sé gerð fyrir af hálfu stefnanda, sbr. umfjöllun í grg. stefnda um búvörulög og dskj. nr. 26.  Greiðslumark í sauðfé hafi ekki verið skráð í kílógrömmum síðan árið 1995.

Stefnandi krefjist þess, að Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands verði dæmd in solidum til endurskráningar, að viðlögðum dagsektum.  Enga umfjöllun sé þó að finna í stefnu um það, hvernig skylda þeirra geti verið in solidum, um fjárhæð dagsekta, eða gerð grein fyrir því, hvenær dagsektir ættu að falla niður.

Innbyrðis ósamræmi sé í málshöfðun og málatilbúnaði stefnanda varðandi ráðstöfunarrétt eiganda óðals og aðkomu óðalserfingja.  Stefnandi standi ein að málshöfðun þessari og hafi uppi varakröfu um skaðabætur, persónulega sér til handa.

Tilvísan stefnanda til lagaraka komi fram í lok stefnu í belg og biðu, án samhengis við kröfur og málsástæður þeim til stuðnings.

Kröfugerð stefnanda, reifun krafna, málsástæðna og lagaraka sé þannig ekki svo glögg eða skýr sem áskilið sé í 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga.

IV

Forsendur og niðurstaða

Frávísunarkröfu sína byggja báðir stefndu á því, að verulega skorti á, að uppfyllt séu skilyrði d, e og f liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem stefndi, Bændasamtök Íslands, vísar enn fremur til g liðar sömu málsgreinar.

Fallast verður á með stefndu, að framsetning stefnanda á kröfugerð og málsástæðum í stefnu sé óskýr og ruglingsleg.  Aðalkrafa stefnanda er um að endurskráð verði á eignina 1.767 kílógramma greiðslumark í sauðfé.  Fyrir liggur, að greiðslumark hefur ekki verið skráð í kílógrömmum síðan á árinu 1995, heldur í ærgildum, og er því þegar af þeim sökum ekki unnt að verða við kröfunni, eins og hún er fram sett.  Þá er aðalkrafa stefnanda sett fram á hendur stefndu in solidum, án þess að fullnægjandi grein sé gerð fyrir því.  Vísan stefnanda til 67., sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem hann kveðst byggja kröfur sínar á, er illskiljanleg.  Fyrir liggur að sala greiðslumarksins á sínum tíma byggðist á einkaréttarlegum samningum, en engin tilraun er gerð til að ógilda þá samninga, og er engin grein gerð fyrir þeim heimildum í stefnu, sem stefnandi byggir kröfu sína um endurskráningu á, án þess að þeir samningar verði fyrst ógiltir.  Þá er skírskotun stefnanda í aðalkröfu til skaðabótareglna utan samninga enn fremur illskiljanleg, sem og skírskotun stefnanda til hinna ýmsu lagaákvæða í lok stefnu, án samhengis við kröfur og málsástæður stefnanda.  Loks virðist ósamræmi í málatilbúnaði stefnanda, þar sem hún styður aðalkröfu sína við reglur um óðalsrétt, en varakrafa hennar er um greiðslu skaðabóta til hennar persónulega, án þess að það sé nánar rökstutt.  Er málatilbúnaður stefnanda á þann veg, að ekki verður hjá því komizt að vísa málinu í heild sinni frá dómi.  Með hliðsjón af þessum úrslitum ber stefnanda að greiða stefndu, hvorum um sig, málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 150.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Málinu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Guðrún Fjóla Helgadóttir, greiði hvorum hinna stefndu, Bændasamtökum Íslands og Matvælastofnun, kr. 150.000 í málskostnað.