Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Frestur
|
|
Föstudaginn 8. október 1999. |
|
Nr. 375/1999. |
Þormóður rammi-Sæberg hf. (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Andrési Bertelssyni (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Frestur.
Í málinu deildu A og Þ um dómkvaðningu matsmanna. Talið var að Þ hefði með málatilbúnaði sínum gefið A tilefni til að afla sönnunargagna um það atriði sem A hugðist afla matsgerðar um og var ekki fallist á að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 stæði í vegi fyrir dómkvaðningu matsmanna. Fallist var á að A væri heimilt að afla frekari sönnunargagna í málinu og yrði málinu frestað um hæfilegan tíma til að hægt væri að ljúka því verki.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 1999, þar sem varnaraðila var heimilað að leita dómkvaðningar matsmanns og fá hæfilegan frest til að leggja fram matsgerð. Kæruheimild er í c. og h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns, en til vara að honum verði synjað um frest til að leggja fram matsgerð í málinu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
I.
Varnaraðili höfðaði málið með stefnu 23. september 1997. Í meginatriðum var þar greint með þeim hætti frá atvikum að varnaraðili hafi frá árinu 1995 verið skipverji á rækjutogara í eigu Sæbergs hf., sem hafi síðar sameinast öðru félagi og sóknaraðili þannig orðið til. Á tímabilinu frá 18. júlí 1995 til 21. mars 1996 hafi verið landað úr togaranum 648.774 kg af iðnaðarrækju. Fyrir hvert tonn hafi útgerð togarans fengið annars vegar 115.000 krónur í peningum og hins vegar hálft tonn af aflamarki fyrir úthafsrækju. Sæberg hf. hafi greitt skipverjum aflahlut af því, sem félagið hafi fengið greitt í peningum fyrir iðnaðarrækju, en hins vegar ekkert af þeim verðmætum, sem fengist hafi í formi aflamarks. Varnaraðili telji andvirði aflamarksins hafa verið 23.834.705 krónur, en þá sé miðað við markaðsverð þess, sem hafi verið á bilinu frá 60 krónum til 75 króna fyrir hvert kg á umræddu tímaskeiði. Aflahlutur varnaraðila af þeirri fjárhæð að viðbættu orlofsfé hafi átt að nema samtals 431.717 krónum, sem sé höfuðstóll stefnukröfu hans. Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisir varnaraðili kröfu sína á þeirri málsástæðu að útgerðarmanni hafi samkvæmt lögum og kjarasamningi borið að greiða laun, sem taki mið af heildarverðmæti, sem hann fái fyrir afla. Við uppgjör aflahlutar varnaraðila hafi vísvitandi verið lagt til grundvallar rangt verðmæti aflans, því í raun hafi hann verið seldur fyrir hærra verð en 115.000 krónur á hvert tonn. Hafi greiðslu, sem fékkst með aflamarki í úthafsrækju, verið ranglega haldið utan skiptaverðs.
Í greinargerð, sem sóknaraðili lagði fram í héraði, var meðal annars vísað til þess að hann hafi reiknað út á ný aflahlut varnaraðila og þá miðað við meðalverð iðnaðarrækju á tímabilinu frá júlí 1995 til mars 1996 samkvæmt gögnum frá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Meðalverðið hafi í einstökum þeim mánuðum verið á bilinu frá 116,69 krónum til 143,49 króna fyrir hvert kg og hefði aflahlutur varnaraðila á þeim grunni að viðbættu orlofsfé átt að nema alls 208.311 krónum meira en hann fékk áður greitt. Þennan mismun hafi sóknaraðili innt af hendi og gert þannig að fullu upp við varnaraðila.
Samhliða þessu máli höfðuðu tuttugu aðrir skipverjar á sama togara mál gegn sóknaraðila til greiðslu á vangoldnum aflahlut. Þegar þetta mál var tekið fyrir á dómþingi 23. febrúar 1998 var ákveðið að fresta því þar til leyst hefði verið úr nánar tilteknu máli annars skipverja. Gekk dómur í því máli í Hæstarétti 18. júní 1999. Í forsendum dómsins var vísað til þess að samkvæmt 1. gr. áðurgildandi laga nr. 84/1995 um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hafi hún átt að ákveða fiskverð til uppgjörs á aflahlut skipverja eftir því, sem mælt væri fyrir um í lögunum. Hafi nefndin í því skyni átt að afla ítarlegra gagna um fiskverð og birta upplýsingar um það. Í nánar tilteknu ákvæði kjarasamnings, sem hafi gilt í skiptum aðila málsins, hafi verið mælt fyrir um rétt áhafnar til að krefjast samnings um uppgjörsverð við ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila, en að vísa mætti málinu til úrskurðarnefndarinnar ef slíkur samningur tækist ekki. Gögn málsins bæru með sér að meðalverð, sem úrskurðarnefndin hafi tekið saman upplýsingar um, hafi verið notað við ákvörðun skiptaverðs þegar ágreiningur hafi verið lagður fyrir hana. Samkvæmt nánar tilteknu ákvæði kjarasamnings bæri útgerðarmanni að tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fisk. Í málinu lægi ekki fyrir að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir umdeilda aflann en meðalverðið, sem sóknaraðili hafi byggt endanlegt uppgjör á. Hann var því sýknaður af kröfum skipverjans.
Þegar mál þetta var á ný tekið fyrir á dómþingi 9. september 1999 var fært til bókar að lögmaður varnaraðila hafi óskað eftir að dómkvaddir yrðu matsmenn til að „meta hæsta gangverð fyrir iðnaðarrækju á tilgreindum dögum, áhrif tonn á móti tonni viðskipta á meðalverð iðnaðarrækju á sama tíma, gangverð á aflamarki iðnaðarrækju á sama tíma og áhrif á tonn á móti tonni samninga á söluverð iðnaðarrækju í beinum viðskiptum.“ Óskaði lögmaðurinn eftir að fá að leggja fram beiðni um slíka matsgerð. Af hálfu sóknaraðila var þessu mótmælt. Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómari við ósk varnaraðila.
II.
Líta verður svo á að héraðsdómari hafi með úrskurði sínum í reynd ákveðið að dómkvaddur yrði maður til að meta það, sem varnaraðili vill afla mats um og áður greinir, þótt ekki hafi verið lögð fram skrifleg beiðni um dómkvaðninguna samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.
Í héraðsdómsstefnu vísaði varnaraðili meðal annars til greinar 1.26 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna til stuðnings kröfum sínum. Samkvæmt því ákvæði ber útgerðarmanni að tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fisk. Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi var því mótmælt sérstaklega að aflaverðmætið, sem skiptahlutur varnaraðila var endurreiknaður eftir í samræmi við upplýsingar um meðalverð iðnaðarrækju, væri ekki hæsta gangverð hins umdeilda afla í skilningi tilvitnaðs ákvæðis kjarasamnings. Þá var þar og lýst þeirri skoðun að ef varnaraðili teldi að endanlegt uppgjör sóknaraðila við hann væri ekki miðað við hæsta gangverð, þá bæri varnaraðili sönnunarbyrði fyrir því. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti segir að tilgangur hans með öflun matsgerðar sé að sanna að sóknaraðila hefði verið hægur vandi að fá mun hærra verð fyrir hinn umdeilda afla en raun varð á í viðskiptum með hann. Þótt sönnun, sem varnaraðili hyggst samkvæmt þessu færa með matsgerð, lúti ekki beinlínis að þeim málsástæðum, sem hann hélt fram fyrir kröfu sinni í héraðsdómsstefnu, verður ekki litið fram hjá því að sóknaraðili hefur með áðurgreindum málatilbúnaði sínum sjálfur gefið varnaraðila tilefni til að afla sönnunargagna um umrætt efni. Verður því ekki fallist á með sóknaraðila að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 geti staðið umbeðinni dómkvaðningu í vegi.
Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 23. febrúar 1998 og ákveðið sem fyrr segir að fresta því þar til leyst hefði verið úr öðru tilteknu máli skuldbundu aðilarnir sig ekki samkvæmt endurriti úr þingbók til að láta niðurstöðu, sem þar fengist, ráða afdrifum þessa máls. Er heldur ekki unnt að líta svo á að varnaraðili hafi með þeirri ákvörðun, sem þá var tekin, afsalað sér rétti til frekari sönnunarfærslu í málinu.
Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til að taka til greina mótmæli sóknaraðila gegn því að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns nái fram að ganga. Með því að fallist er með þessum hætti á að varnaraðila sé heimilt að afla frekari sönnunargagna í málinu leiðir af sjálfu sér að því verði að fresta um hæfilegan tíma til að ljúka megi því verki. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 1999.
Ár 1999, fimmtudaginn 9. september, setti Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur og hélt það í dómsal embættisins nr. 302 í Dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík. Fyrir var tekið mál nr. E-4332/1997 Andrés Bertelsson gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf. og kveðinn upp í því svohljóðandi úrskurður:
Krafa stefnanda byggir á því, að í forsendum í dómi Hæstaréttar Íslands í tveimur sambærilegum málum þessu, nr. 497/1998 og 28/1999, segi svo m.a.:
„Samkvæmt framangreindum kjarasamningi, grein 1.03, I, skal útgerðarmaður tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Í máli þessu liggur ekki fyrir, að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir hinn umdeilda hluta aflans en meðalverð það, sem áfrýjandi byggði endanlegt uppgjör sitt við stefnda á. Telst áfrýjandi því hafa gert að fullu upp skiptahlut stefnda og ber að sýkna hann.”
Stefndi hefur hafnað matsgerðinni sem þýðingarlausri, þar sem hún breyti grundvelli málsins, auk þess sem hann mótmælir því að málinu verði frestað nema til aðalmeðferðar.
Tilgangur stefnanda með matsgerð er að freista þess að sýna fram á, að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir aflann en framangreint meðalverð. Niðurstaða matsgerðar getur þannig varðað hagsmuni stefnanda miklu, en með vísan til framangreinra forsendna í dómi Hæstaréttar verður að telja, að þau atriði, sem stefnandi hyggst sanna með matsgerð, falli undir þann grundvöll, sem dómkröfunum var markaður í stefnu. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um að leggja fram matsbeiðni, en gagnaöflun hefur ekki verið lýst lokið í málinu. Jafnframt skal honum veittur hæfilegur frestur í því skyni að leggja fram matsgerð.
Úrskurðarorð:
Stefnanda er heimilt að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og fá hæfilegan frest í því skyni að leggja fram matsgerð.