Print

Mál nr. 703/2012

Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Ákæra
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

                                     

Mánudaginn 10. desember 2012.

Nr. 703/2012.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Y og

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

X

(Karl Axelsson hrl.)

Kærumál. Lögreglurannsókn. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Með ákæru 16. febrúar 2012 var sakamál höfðað á hendur A, B, X og Y vegna ætlaðra brota þeirra á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Með úrskurði héraðsdóms var þeim hluta ákærunnar vísað frá dómi er laut að ætlaðri markaðsmisnotkun X og hlutdeild hans í umboðssvikum A, auk eins ákæruliðs er laut að hlutdeild X og Y í meintri markaðsmisnotkun A og B. Í dómi Hæstaréttar kom fram að meta yrði hverju sinni, hvort ætluðu broti væri lýst með þeim hætti í ákæru að fullnægt væri fyrirmælum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og mætti í sumum tilvikum hafa lýsingu á broti hlutdeildarmanns almennari en á broti aðalmanns. Var það niðurstaða Hæstaréttar að lýsing á hlutdeildarbrotum X og Y væri fullnægjandi í ákæru samkvæmt áðurgreindu ákvæði og stæði því ekki í vegi að þeir gætu teflt fram vörnum sínum í málinu. Þá var jafnframt talið að ekki færi á milli mála fyrir hvaða háttsemi X væri ákærður sem aðalmaður ásamt meðákærðu og var lýsing á því broti einnig talin fullnægja c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka ákæruliðina til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2012, þar sem vísað var frá dómi b. lið I. kafla og b. lið III. kafla ákæru 16. febrúar 2012 í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum og tveimur öðrum, og IV. kafla ákærunnar að því leyti sem hann varðar varnaraðilann X. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreindir ákæruliðir fái efnismeðferð. 

Varnaraðilar krefjast þess í greinargerðum sínum að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að því er þá varðar. Þá krefst varnaraðilinn X að allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti verði lagður á ríkissjóð.

Með ákæru 16. febrúar 2012 var höfðað sakamál á hendur varnaraðilum og tveimur öðrum, þeim A og B. Brot þau, sem ákært er fyrir, eru tilgreind í fjórum köflum, heimfærsla til refsiákvæða er í þeim fimmta og krafa um refsingu og sakarkostnað í þeim sjötta. Í ákæru er einnig að finna röksemdir sem málssóknin er reist á, sbr. d. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

I

Í I. kafla ákærunnar er A gefin að sök umboðssvik með því að hafa í september 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri Z banka hf. með tilgreindum hætti og látið bankann veita lán til tiltekins félags og valdið bankanum með því verulegri fjártjónshættu. Varnaraðilinn X, sem þá var framkvæmdastjóri Z Bank Luxembourg S.A., er í b. lið þessa kafla ákærður fyrir hlutdeild í framangreindu broti með nánar tilgreindum hætti. Í hinum kærða úrskurði er talið að þessi ákæruliður sé ekki skýr og sakargiftir í honum séu of almennt orðaðar. Vísað er til þeirrar skyldu ákæruvalds, sem fram komi í c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, að greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi sé, sem ákært er út af, hvar og hvenær brot sé talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu. Sé þessu ákvæði ætlað að tryggja það að dómari þurfi ekki að velkjast í vafa um hvað sakborningi sé gefið að sök og ennfremur að sakborningur geti varist ákærunni. Taldi  héraðsdómur að þessi ákæruliður uppfyllti ekki skilyrði þessa ákvæðis laganna og því bæri að vísa honum frá dómi. 

Í III. kafla ákærunnar eru þeir A og B, sem þá var starfandi stjórnarformaður Z banka hf. og formaður lánanefndar stjórnar bankans, ákærðir fyrir markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í Z banka hf. í september 2008. Hafi háttsemin meðal annars falist í því að láta ranglega líta svo út að tiltekinn maður hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlutafjár í bankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu, þegar reyndin hafi verið önnur, eins og lýst er í ákærunni. Hafi verið um að ræða viðskipti með stóran hlut í bankanum, sem falið hafi í sér blekkingu og sýndarmennsku. Hafi þau einnig verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin hafi verið full fjármögnun bankans sjálfs á viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, varnaraðilans Y, að þeim og einnig dulið að helmingur markaðsáhættu vegna hlutabréfanna hafi hvílt á bankanum sjálfum eftir viðskiptin.  Í b. lið þessa kafla eru varnaraðilar ákærðir fyrir hlutdeild í framangreindu broti. Hafi þeir haft milligöngu um að koma viðskiptunum á og átt samskipti við kaupanda hlutabréfanna um viðskiptin. Þá hafi varnaraðilinn X tekið þátt í undirbúningi og útfærslu viðskiptafléttunnar og hafi varnaraðilinn Y einnig tekið þátt í undirbúningnum og í að gera hlutabréfaviðskiptin að veruleika ,,með aðkomu að fjármögnun þeirra“ eins og lýst sé á öðrum stað í ákærunni. Í hinum kærða úrskurði er þessi ákæruliður ekki talinn vera skýr um verknað varnaraðilans X og sé hlutur hans þar skilgreindur með mjög almennum hætti, svo sem dæmi eru tekin um í úrskurðinum. Hið sama eigi við um skilgreiningu á verknaði varnaraðilans Y, sem telja verði afar óljósa og óþarflega flókna, eins og nánar er rakið í úrskurðinum. Taldi héraðsdómur að vísa ætti þessum lið ákærunnar frá héraðsdómi.

Í IV. kafla ákærunnar er þeim A, B, X og Y gefin að sök markaðsmisnotkun. Er háttsemi þeirra talin felast í að hafa í september 2008 í fréttatilkynningu, sem birt var á vef Kauphallar Íslands og viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem gefið hafi eða verið líklegar til þess að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um þau viðskipti með hlutabréf, sem lýst sé í III. kafla ákærunnar. Er lýst nánar hvað í upplýsingunum hafi falist. Í a. lið þessa kafla ákærunnar er því lýst að allir ákærðu hafi veitt atbeina sinn að því að Z banki hf. hafi á tilgreindum tíma birt fréttatilkynningu á vef Kauphallar Íslands vegna viðskiptanna og er efni hennar tekið upp í ákæru. Þá eru í stafliðum b, c og d í þessum kafla tilgreind ummæli A, Y og B í nafngreindum fjölmiðlum, meðal annars um viðskiptin og ætlaða þýðingu þeirra fyrir Z banka hf. Í hinum kærða úrskurði er því lýst að í almennum inngangi þessa ákærukafla sé ekki tekið fram hvort ákærðu séu taldir hafa staðið saman að öllum þeim aðgerðum sem þar greinir. Leit héraðsdómur svo á að framsetning þessa ákærukafla væri þannig að ekki yrði ráðið með fullri vissu hvort varnaraðilinn X væri þar saksóttur fyrir allt það athæfi sem þar væri lýst. Bæri því að vísa þessum kafla ákærunnar frá dómi að því leyti sem sakargiftir beindust að varnaraðilanum X.

II

 Í greinargerðum allra ákærðu sem lagðar voru fram í héraðsdómi voru gerðar kröfur um frávísun málsins frá dóminum og þær studdar fjölmörgum röksemdum, sem teknar eru saman til úrlausnar í hinum kærða úrskurði. Úrskurðurinn er aðeins til endurskoðunar hér að því leyti, sem fallist var á frávísunarkröfurnar. Í greinargerðum varnaraðila til Hæstaréttar er leitast við að renna fleiri stoðum undir réttmæti þess að vísa frá héraðsdómi þeim ákæruliðum, sem sættu frávísun. Lúta röksemdir varnaraðilanna einkum að því að fjölmargir þættir í ákærunni séu vanreifaðir, ætluð brot varnaraðilans X hafi verið framin utan íslenskrar refsilögsögu og að með því að leggja fram greinargerð rannsakenda málsins, sem sóknaraðili telji að styðjist við 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008, hafi verið brotið gegn fjölmörgum grundvallarreglum sakamálaréttarfars, einkum þeim sem lúti að réttindum sakborninga og jafnræði aðila við málsmeðferðina.

Fallist er á röksemdir héraðsdóms um að álitaefni um hvort brot, sem ákært er fyrir, sé framið utan íslenskrar refsilögsögu eða ekki, komi til athugunar við efnisúrlausn máls, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 312/2000, sem upp var kveðinn 22. febrúar 2001 og birtur á síðu 742 í dómasafni það ár. Þá er fallist á röksemdir héraðsdóms um að önnur atriði, en þau sem sérstaklega er fjallað um í III. og IV. kafla dóms þessa, og varnaraðilar telja að eigi að leiða til frávísunar, geri það ekki.

III

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 segir að lögregla taki saman skýrslu um rannsókn sína í hverju máli um sig þar sem getið skuli einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við á skuli þar meðal annars koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, sbr. 64. og 65. gr. laganna, athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna. Sú samantekt um rannsókn sakamáls, sem kveðið er á um í 1. mgr. 56. gr. laganna, getur verið gagnleg fyrir dómendur og aðila máls, ekki síst sakaðan mann ef til þess kemur að höfðað verði mál á hendur honum. Þar sem um er að ræða yfirlit um rannsóknaraðgerðir og samantekt á því, sem komið hefur fram við rannsókn, verður að líta svo á að skýrslan í þeim búningi sé hluti sönnunargagna og því sé ákæruvaldinu heimilt og eftir atvikum skylt að leggja hana fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 110. gr., sbr. og 3. mgr. 18. gr., laga nr. 88/2008. Fyrir utan að upplýsa frekar í hverju rannsókn hafi verið fólgin ber lögreglu eða öðrum þeim, sem rannsakað hefur mál, að gæta þess við gerð skýrslunnar að þar sé hugað jafnt að atriðum sem horfa til sýknu eða sektar sakbornings, sbr. 2. mgr. 53. gr. sömu laga.

Skýrsla samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 er ekki málsóknarskjal í sakamáli á sama hátt og ákæra. Af þeim sökum eiga þar ekki að koma fram hugleiðingar þess, sem rannsakað hefur málið, á borð við það hver hin ætlaða refsiverða háttsemi sé, hvaða refsiákvæði kunni að hafa verið brotin í ljósi framburðar sakbornings og vitna og hverja séu rök til að ákæra í málinu. Séu slík skjöl tekin saman af þeim sem rannsaka mál eða taka ákvörðun um ákæru er ekki um sönnunargagn að ræða og ákæruvaldinu ekki skylt að leggja það fram við meðferð sakamáls, sbr. dóm Hæstaréttar 3. október 2012 í máli nr. 609/2012. Því síður á við í skýrslu, sem hér um ræðir, að vísa til fræðirita og dómsúrlausna, svo og til hugsanlegra varna af hálfu sakbornings, verði hann ákærður, enda á sakaður maður þess fyrst kost að tefla fram vörnum af sinni hálfu eftir að ákæra hefur verið gefin út á hendur honum, eftir atvikum í skriflegri greinargerð samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Þau atriði, sem rakin hafa verið að framan, eiga eftir því sem við á að koma fram í ákæru og síðar í munnlegum málflutningi ákæruvalds fyrir dómi.

Skýrsla rannsakenda í máli þessu, sem sögð er tekin saman á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008, hefur að geyma fjölmörg atriði sem samkvæmt framansögðu eiga ekki heima í slíkri skýrslu. Þótt þetta sé aðfinnsluvert leiða þessir annmarkar ekki til frávísunar málsins, enda hafa varnaraðilar og aðrir ákærðu átt þess kost að koma að andmælum og vörnum í greinargerðum sínum samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna og fá frekara tækifæri til þess við aðalmeðferð málsins, þar á meðal við munnlegan flutning þess fyrir dómi.

IV

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal meðal annars greina í ákæru, svo glöggt sem verða má, hver sú háttsemi er, sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í d. lið sömu málsgreinar kemur fram að í ákæru skuli jafnframt greina röksemdir sem málsóknin er reist á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið, en röksemdafærslan skal þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. Síðastnefnt ákvæði var nýmæli þegar lög nr. 88/2008 voru sett. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna var það skýrt á þann veg að stundum væri ekki nægilegt að greina í ákæru þau atriði, sem talin væru upp í c. lið, til þess að ákærða mætti vera ljóst hverjar þær sakir væru sem á hann væru bornar, heldur gæti þurft að gera frekari grein fyrir þeim, til dæmis með því að skýra það ákvæði, sem háttsemi ákærða væri heimfærð til, og sýna fram á, með vísun til málsatvika, hvers vegna háttsemin væri talin falla undir það ákvæði. Með tilliti til meginreglunnar um jafnræði aðila fyrir dómi væri jafnframt eðlilegt að ákæruvaldinu gæfist kostur á að greina röksemdir fyrir málsókninni í ákæru vegna þess að gert væri ráð fyrir að ákærði gæti í vissum tilvikum lagt fram skriflega greinargerð af sinni hálfu við meðferð máls fyrir dómi. Hins vegar væri tekið fram í umræddum staflið að röksemdafærslan ætti að vera gagnorð því að eftir sem áður væri gengið út frá því að það biði munnlegs málflutnings, eftir að ákærði og vitni hefðu gefið skýrslu fyrir dómi, að gera ítarlega grein fyrir atvikum málsins og röksemdum af hálfu ákæruvaldsins jafnt sem ákærða.

Eins og að framan er rakið verður lýsing á þeirri háttsemi, sem ákærða er gefin að sök í ákæru, að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni og þeim röksemdum sem færðar kunna að vera fyrir sakargiftum á hendur honum, hvaða refsiverða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa brotið. Ekki mega vera slík tvímæli um það hverjar sakargiftirnar eru að með réttu verði ákærða ekki talið fært að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum gegn þeim. Ákæra verður og að vera svo skýr að þessu leyti að dómara sé fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði sé sakaður og hvernig telja megi þá háttsemi refsiverða. Í þessum efnum verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli, þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því, sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Það ræðst nánar af atvikum máls hvaða kröfur verða gerðar til skýrleika ákæru. Í sumum tilvikum er þannig unnt að greina nákvæmlega í ákæru hvar og hvenær ætlað brot ákærða er talið hafa verið framið, en í öðrum er þess ekki kostur eins og þegar refsiverð háttsemi, sem ákærða er gefin að sök, er álitin hafa verið fólgin í fleiri en einni athöfn eða viðvarandi athafnaleysi. Á þetta ekki síst við þegar ákært er fyrir hlutdeild í broti samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir að hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningu eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt þeim lögum er framið, skuli sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. Ef ætluð refsiverð háttsemi aðalmanns er greind með réttum hætti getur samkvæmt þessu verið nægilegt að sakargiftum á hendur hlutdeildarmanni sé lýst á almennari hátt. Eins og áður er fram komið verður þó ávallt að miða við, þegar tekin er afstaða til þess hvort vísa beri máli frá dómi sökum ófullnægjandi verknaðarlýsingar í ákæru, hvort þar sé gerð nægilega glögg grein fyrir sakargiftum svo að ákærða sé fært að taka afstöðu til þeirra og halda uppi viðhlítandi vörnum gegn þeim, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og a. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Eins og áður greinir er varnaraðilinn X ákærður í b. lið I. kafla ákæru fyrir hlutdeild í ætluðum umboðssvikum A. Í lýsingu á ætluðu broti A er tilgreint hvenær brot sé talið framið og staðsetning þess að því marki, sem unnt er. Eins og áður er gerð grein fyrir verður að meta hverju sinni, hvort ætluðu broti sé lýst með þeim hætti í ákæru að fullnægt sé fyrirmælum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Megi í sumum tilvikum hafa lýsingu á broti hlutdeildarmanns almennari en á broti aðalmanns. Samkvæmt þessu verður talið að lýsing á broti þessa varnaraðila sé fullnægjandi samkvæmt framangreindu ákvæði og standi því ekki í vegi að hann geti teflt fram vörnum sínum gagnvart þeim sakargiftum í málinu. Hið sama á við um lýsingu á ætluðum hlutdeildarbrotum beggja varnaraðila í b. lið III. kafla ákærunnar.

Í IV. kafla ákærunnar eru allir fjórir ákærðu bornir sökum sem aðalmenn um markaðsmisnotkun í september 2008. Er í inngangi þessa kafla lýst almennt í hverju hin ætluðu brot ákærðu séu fólgin og hver telja megi að áhrif þeirra hafi verið. Í fjórum stafliðum er svo lýst með hvaða hætti hver hinna ákærðu eigi að hafa framið brotið, sem ákært er fyrir. Í a. lið er gerð grein fyrir að allir ákærðu hafi ljáð atbeina sinn að því að Z banki hf. hafi birt fréttatilkynningu vegna viðskiptanna á vef Kauphallar Íslands á tilteknum tíma. Er efni fréttatilkynningarinnar tekið upp í ákæruna. Í öðrum stafliðum er tíunduð háttsemi annarra ákærðu en varnaraðilans X. Fer ekki á milli mála fyrir hvaða háttsemi X er ákærður samkvæmt þessum lið og að lýsing á broti fullnægi c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Verður því þessum ákærulið ekki vísað frá dómi að því er hann varðar.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þessa liði til löglegrar meðferðar ásamt öðrum liðum ákærunnar.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka b. lið I. kafla og b. lið III. kafla ákæru 16. febrúar 2012, svo og IV. kafla ákærunnar, að því er varðar varnaraðilann X, til löglegrar meðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2012.

Í greinargerðum ákærðu í máli þessu hafa þeir krafist þess að ákærunni í því verði vísað frá dómi og allur kostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun lögð á ríkissjóð.  Greinargerðir ákærðu með frávísunarkröfum eru að talsverðu leyti sama efnis.  Verður hér á eftir gerð sameiginlega grein fyrir kröfugerð þeirra, nema að því leyti sem annað kemur fram í einstökum liðum.  Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að synjað verði kröfu ákærðu og að málið verði tekið til efnismeðferðar og efnisdóms.

1. Stofnun embættis sérstaks saksóknara

Embætti sérstaks saksóknara samkvæmt lögum um það nr. 135, 2008 sé tímabundið frávik frá hinni almennu skipan ákæruvalds í landinu.  Vegna þessa og aðstæðna í þjóðfélaginu hafi skapast „óeðlilegur þrýstingur“ á starfsmenn embættisins að „skila árangri“.  Forsætisráðherra hafi tjáð sig um handtöku ákærða 7. maí 2010 og talið hana sýna alvarleika málsins.  Myndi ríkisstjórnin gera það sem í hennar valdi væri til þess saksóknaraembættinu tækist að upplýsa málið og koma fram ábyrgð á hendur stjórnendum bankanna.  Skömmu síðar hafi frést af verulega aukinni fjárveitingu til embættisins.

2. Umfjöllun fjölmiðla, ummæli ráðamanna og ráðgjafa sérstaks saksóknara

Umfjöllun fjölmiðla um málið hafi gengið gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr.  Eigi hún rætur að rekja til ábyrgðarlausrar, einhliða og á tíðum rætinnar og opinberrar umfjöllunar sérstaks saksóknara og ráðgjafa hans, fyrrverandi seðlabankastjóra, forstjóra fjármálaeftirlitsins, æðstu ráðamanna landsins og almennings um málið.  Hafi þetta allt haft áhrif á meðferð þess og þannig hafi ákæruvaldið gripið til allra þeirra rannsóknar- og þvingunarúrræða sem heimil séu að lögum, án þess að tilefni væri til.  Þá hafi rannsakendur sýnt að þeir höfðu fyrirfram mótaða afstöðu í málinu.  Eru um það nefnd nokkur dæmi.  Sé þetta allt augljóslega tengt miklum fréttaburði um málið, allt frá því að Z féll.

Um 1 og 2:

Ekki verður séð að aðdragandinn að setningu laga um embætti sérstaks saksóknara, sú tilhögun ákæruvalds, sem þar er mælt fyrir um, tilfærð ummæli forsætisráðherra um handtöku ákærðu, umfjöllun fjölmiðla um málið eða ummæli einstakra embættismanna um málið, svo og fullyrðingar ákærðu um áhrif alls þessa á málsmeðferðina hjá lögreglu og ákæruvaldi geti leitt til þess að ákæru í málinu berið að vísa frá dómi.  Ber að synja kröfu ákærðu um frávísun ákærunnar af þeirri ástæðu.      

3. Greinargerð rannsakenda á dómskjali nr. 11

Í málinu hafi verið lagt fram skjal, „greinargerð rannsakenda í máli 090-2009-0012, samanber 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008“.  Skjal þetta eigi hins vegar ekkert sameiginlegt með slíkri greinargerð, nema á fyrstu 15 síðunum heldur sé um að ræða samfelldan, skriflegan málflutning á 112 síðum með 644 neðanmálsgreinum.  Þá geti skjalið ekki talist sönnunargagn í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála.  Skýrslur ákærðu og vitna fái ekki hlutlæga umfjöllun í þessu skjali.  Þá sé auk lagatilvitnana vísað þar til fjölda hæstaréttardóma og fræðirita.  Hver fyrirvaralaus staðhæfing um sök ákærðu og brot gegn réttarreglum reki aðra.  Gildishlaðnar ályktanir og fullyrðingar um ýmsa þætti málsins séu settar fram og meintri huglægri afstöðu ákærðu lýst með orðum rannsakenda sjálfra.  Fari greinargerðin, bæði efni hennar og framlagning hennar sem sönnunargagn í málinu gegn fjölmörgum grundvallarreglum sakamálalaga og brjóti gegn ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  

4. Skylda ákæruvaldsins til hlutlægni

Samkvæmt einni af mikilvægustu grunnreglum sakamálalaga, 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr., sé bæði rannsakendum og ákærendum skylt að gæta hlutlægni og vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og huga jafnt að þeim atriðum sem horfi til sýknu og sektar. Reglan sé náskyld reglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um það að hver maður, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð.  Þessa hafi ekki verið gætt, sbr. 2. tl. hér að ofan, eins og einnig hafi komið í ljós með greinargerðinni, eins og rakið var í 3. tl. 

5. Jafnræði málsaðila fyrir dómi

Einn mikilvægasti réttur sakaðs manns sé rétturinn til jafnræðis við ákæruvaldið fyrir dómi.  Heimildir ákæruvalds til þess að gera skriflega grein fyrir kröfum og röksemdum séu tæmandi taldar í 152. gr. laga um meðferð sakamála og svari þær til heimildar ákærða til greinargerðar í 1. mgr. 165. gr. laganna.  Ákærði eigi samkvæmt þessu ákvæði ekki kost á því að skila nema einni greinargerð í málinu.  Framlagning ákæruvaldsins á fyrrnefndri 127 síðna greinargerð, til viðbótar við greinargerð þess í ákærunni, sé bæði án lagaheimildar og gróft brot gegn reglunni um jafnræði aðila fyrir dómi, enda verði að líta svo á að greinargerð þessi stafi frá hinum sérstaka saksóknara, eiginlegum stjórnanda rannsóknarinnar.  Þótt rannsókninni hafi svo verið ráðstafað til „sjálfstæðs saksóknara“ og hann höfðað mál og lagt fram í því greinargerðina margnefndu, breyti það því ekki að hann sé starfsmaður embættis sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135, 2008, rétt eins og rannsakendurnir.  Þá láti saksóknarar embættisins til sín taka og sitji í verkefnastjórn sem fundi reglulega og fari yfir stöðu hverrar rannsóknar.  Ákvæði 152. og 165. gr. sakamálalaga um jafnræði aðila varðandi greinargerðir væru til lítils ef aðrir starfsmenn embættisins en ákærandi máls gætu sett saman skriflegan málflutning í því.

6. Meginreglan um munnlega málsmeðferð

Umrædd greinargerð ákæruvaldsins sé auk þess andstæð meginreglunni um munnlegan málflutning.  Fyrir utan það sem segi í ákvæði d-liðar 152. gr. og 3. mgr. 165. gr. sakamálalaga sé það meginregla að málflutningur ákæruvaldsins skuli vera munnlegur.  Óumdeilanlega hafi með framlagningu greinargerðarinnar, sem geymi á annað hundrað síður af skriflegum málflutningi, verið brotið gróflega gegn þessari meginreglu.

Um 3-6:

Ekki verður séð að það geti varðað frávísun ákæru í máli þessu þótt henni hafi fylgt umrædd greinargerð, haldin þeim ágöllum sem ákærðu telja, og hún síðar verið lögð fram í málinu.  Þá getur það ekki heldur varðað frávísun, sem ákærðu halda fram um skort á hlutlægni ákæruvalds og rannsakenda í greinargerðinni, sbr. einnig 1. lið.  Ber að synja kröfu ákærðu um frávísun ákærunnar af þessum ástæðum.             

7. Réttur til aðgangs að gögnum

Réttur sakbornings til aðgangs að gögnum í máli hans sé hluti af jafnræði aðila fyrir dómi og njóti verndar 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.  Taki hann til allra gagna sem lögð hafa verið fram í dómi.  Þessi réttur hafi í málsmeðferðinni verið takmarkaður.  Í málinu séu 95 mynddiskar með skýrslum sakborninga og vitna í málinu.  Með dómi í öðru máli hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð héraðsdóms um það að synja afhendingar á slíkum diskum.  Sé sú niðurstaða andstæð rétti sakbornings samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum.  Þá hafi verið gróflega brotið gegn réttinum til þess að fá aðgang að skjallegum gögnum málsins undir rannsókn þess samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skml., en þau hafi borist verjendum seint og illa.  Eru tilgreind um þetta ýmis dæmi.

Um 7:

Í dómi hæstaréttar Íslands í máli nr. 205/2012 var fjallað um afhendingu mynddiska til verjenda í öðru sakamáli.  Var synjað um hana.  Það atriði, að mynddiskar í þessu máli hafi af þeim sökum ekki verið afhentir verjendum, getur ekki varðað frávísun ákærunnar.  Þá getur það heldur ekki varðað frávísun þótt verjendur hafi ekki fengið afhent með skilum málsgögn meðan á lögreglurannsókn stóð.  Ber að synja kröfu ákærðu um frávísun ákærunnar af þessum ástæðum.         

8. Brot gegn meðalhófsreglu gagnvart ákærða A

Í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88, 2008 sé lögfest almenn meðalhófsregla við rannsókn sakamála.  Vegna hennar sé rannsakendum skylt að grípa ekki til þvingunarráðstafana nema sýnt sé að ekki sé hægt að ná fram því markmiði sem að er stefnt með öðru og vægara móti.  Þessi regla sé mikilvæg enda feli beiting þvingunarráðstafana í sér inngrip í mikilsverð réttindi einstaklinga.  Það að handtaka ákærða A þegar hann kom til skýrslugjafar hjá lögreglu 6. maí 2010 og fá hann síðan úrskurðaðan til þess að sæta gæsluvarðhaldi hafi verið með öllu óþarft enda hafði hann þegar gefið skýrslu 2009, ásamt fjölda annarra manna, þar sem hann svaraði öllum spurningum rannsóknarmanna.  Þá hefði honum verið í lófa lagið að bera sig saman við aðra í millitíðinni, hefði hann kært sig um það.  Sérstakur saksóknari hefði áður lagt hald á gögn Z og ákærði því ekki getað spillt þeim.  Eftir að gæsluvarðhaldinu lauk hafi ákærði verið látinn sæta farbanni að nauðsynjalausu.  Þá hafi húsleitir, sem hann mátti þola í maí 2009, verið sýnilega þarflausar.  Ekki hafi hér þótt nóg að gert, heldur hafi sími ákærða verið hleraður í maí 2007.  Ákærði telji allar þessar aðgerðir sérstaks saksóknara ekki samræmast meðalhófsreglu þessa ákvæðis laganna.

9. Brot gegn meðalhófsreglu gagnvart ákærða B

Ákærði B hafi verið yfirheyrður í þágu rannsóknar málsins í júní 2009.  Hinn 21. apríl 2010 hafi hann boðist til að koma til Íslands tiltekna daga í maí og gefa skýrslu að beiðni sérstaks saksóknara.  Saksóknari hafi samþykkt þetta en óskað svo eftir því að hann flýtti för sinni, en þá höfðu ákærðu A og X verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, 6. maí.  Hafi ákærði samþykkt þetta með því skilyrði að hann yrði hvorki handtekinn né settur í gæsluvarðhald eða farbann.  Jafnframt hafi hann sagst reiðubúinn til þess að gefa skýrslu í London væri þess óskað.  Daginn eftir hafi verið tilkynnt að boðinu væri hafnað.  Næst hafi sérstakur saksóknari fengið handtökuskipun dómara á hendur ákærða 10. maí 2010.  Hafi verið lýst eftirákærða á vef Interpol með svokallaðri „Red Notice“ enda þótt staða ákærða í málinu réttlætti ekki slíka auglýsingu samkvæmt reglum Interpol, enda hvorki verið ákærður né sakfelldur né hafi dvalarstaður hans verið óþekktur.  Þá virðist Interpol hafa fengið þær alröngu upplýsingar frá saksóknaranum, í því skyni að knýja fram eftirlýsingu á vef stofnunarinnar, að ákærði væri á flótta undan ákæru.  Ekki hafi annað staðið til en að taka skýrslu af honum sem sakborningi.  Í öðru lagi hafi því verið ranglega haldið fram að hann hefði verið sakfelldur fyrir fjölda brota en hann hafi hreina sakaskrá.  Loks hafi því verið ranglega haldið fram að ákærði hefði verið ákærður fyrir fjölda brota sem talin voru upp, en engin ákæra hafði verið gefin út á hendur ákærða á þessum tíma.  Í eftirlýsingu sérstaks saksóknara sem birt var á vef Interpol var þess óskað að alþjóðadeild ríkislögreglustjóra yrði þegar í stað upplýst „ef“ flóttamaðurinn fyndist.  Slíkt hafi með öllu verið óþarft þar sem vitað var að ákærði væri á skráðu heimili sínu í Bretlandi og saksóknarinn jafnframt í tíðum samskiptum við verjandann.

Sakarefni þessa máls sé að rekja til viðskipta Z banka hf. síðari hluta septembermánaðar 2008, sem hafi verið skráð í bókum bankans og um þau tilkynnt opinberlega.  Skýrsla hafi verið tekin af ákærða og fleirum í júní 2009 þar sem hann svaraði öllum spurningum rannsakenda og gerði nokkuð ítarlega grein fyrir viðskiptunum sjálfum og aðdraganda þeirra.  Við skýrslutökuna hafi heimilisfang ákærða verið rækilega skráð.  Ákærði hafi þá komið til landsins til skýrslugjafar af fúsum og frjálsum vilja og hugðist gera það aftur, eins og áður segi.  Í þingbókarendurriti komi fram að sérstakur saksóknari hafi óskað þess að krafa um handtökuskipun yrði tekin fyrir á dómþingi án þess að ákærði yrði kvaddur á dómþingið með vísan til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. sakamálalaga ella væri veruleg hætta á því að hann myndi komast undan handtöku fengi hann að vita um yfirvofandi handtökuskipun.  Því yrði að koma honum að óvörum.  Hins vegar hafi þörfin fyrir leynd ekki verið brýnni en svo að sérstakur saksóknari fékk handtökuskipunina birta á vefsíðu Interpol um leið og úrskurðurinn hafði verið kveðinn upp.  Þess sé enn fremur að gæta að handtökuskipuninni hafi verið viðhaldið þrátt fyrir að bresk lögregluyfirvöld hafi upplýst embætti sérstaks saksóknara um það skriflega að þau gætu ekki handtekið ákærða þar sem skilyrði þarlendra laga væru ekki uppfyllt.  Hefði borið að fjarlægja handtökuskipunina af vefsíðu Interpol um leið og þessi afstaða breskra yfirvalda lá fyrir, en það var ekki gert fyrr en í ágúst 2010. Af þessari tilefnislausu, ólögmætu og villandi handtökuskipun hafi leitt mikil óþægindi og tjón fyrir ákærða. 

Sérstakur saksóknari hafi enn fremur látið hlera síma ákærða í mars, apríl og maí 2010 í krafti dómsúrskurðar.  Hafi verið á því byggt að mikilvægar upplýsingar um meinta refsiverða háttsemi og þátttöku einstakra manna í ákvörðunum um og framkvæmd viðskipta skorti og að sakborningar myndu bera saman bækur sínar símleiðis.  Vandséð sé hins vegar hvernig símtöl á árinu 2010 gátu varpað ljósi á viðskipti sem engin leynd hvíldi yfir og skjalfest voru á árinu 2008 og hvaða almanna- eða einkahagsmunir hafi verið í húfi við rannsókn þessa máls, sem réttlætt gætu slíkar aðgerðir ákæruvaldsins.  Ákærða hafi ekki verið tilkynnt um þessar hleranir fyrr en 28. desember 2011, 19 mánuðum eftir að þeim lauk, og hefði þó verið spurst fyrir um það hjá ákæruvaldinu, með vísan til 2. mgr. 85. gr. sakamálalaganna, hvort til slíkra aðgerða hefði komið.  Sérstakur saksóknari hefði því með réttu átt að upplýsa ákærða um símhlerunina í beinu framhaldi enda hefði vitneskja ákærða um hana ekki skaðað rannsóknina þegar hún var afstaðin.  Framantaldar aðgerðir ákæruvaldsins samræmist ekki hinni almennu og mikilvægu meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga enda hafi þær falið í sér inngrip í mikilsverð réttindi einstaklinga.

Um 8 og 9:

Ákærðu A og B telja sig hafa sætt óhæfilegri hörku og þvingun við rannsókn málsins, bæði að því er varðar gæsluvarðhald, handtökuskipun og símhleranir.  Gögn málsins bera það með sér að þessar aðgerðir voru ákveðnar af dómara og byggðar á heimildum í lögum meðferð sakamála.  Kæmi til þess að ákærðu yrðu sakfelldir í máli þessu kynni að þurfa að taka afstöðu til þess hvort þessar ráðstafanir gætu haft áhrif á refsimat en þær geta ekki varðað frávísun ákærunnar.  Ber að synja kröfu ákærðu um frávísun ákærunnar af þessum ástæðum.              

 10. Ákvæði 1. mgr. 143. gr. sakamálalaga

Í 1. mgr. 143. gr. sakamálalaga segi að sé maður saksóttur fyrir fleiri en eitt brot skuli það gert í einu máli eftir því sem við verði komið.  Embætti sérstaks saksóknara hafi haft allnokkur mál til rannsóknar þar sem ákærðu A, B og X hafi haft réttarstöðu sakbornings.  Í öllum tilvikum séu til rannsóknar viðskipti Z og yfirleitt varðandi sölu á eigin bréfum bankans og samhliða lánveitingar af hálfu bankans til kaupandans.  Enda þótt embætti saksóknarans væri minnt á þetta ákvæði, þegar tilkynnt var að rannsókn þessa máls væri lokið, og þess óskað að tekin yrði ákvörðun í einu lagi um saksókn eða niðurfellingu annarra mála ákærðu, hafi ákæruvaldið ekki orðið við því.  Hafi þannig verið vikið frá meginreglu 1. mgr. 143. gr. sakamálalaga.

Um 10:

Ákvæði 1. mgr. 143. gr. sakamálalaga er efnislega samhljóða 1. mgr. 23. gr. eldri laga um meðferð opinberra mála nr. 91, 1991.  Í athugasemdum við þá frumvarpsgrein segir að frá því ákvæði verði þó að mega víkja ef slíkt þyki hagkvæmara.  Lítur dómurinn svo á að ákæruvaldið eigi allt mat um það atriði.  Getur það því ekki leitt til frávísunar ákærunnar að ákæruvald hafi enn ekki tekið afstöðu til málshöfðunar vegna annarra sakarefna, sem ákærðu varða.  Ber að synja kröfu ákærðu um frávísun ákærunnar af þessari ástæðu.

11. Meint brot ákærða X framin utan íslenskrar refsilögsögu

Byggt er á því að það varði frávísun málsins gagnvart ákærða að sú háttsemi hans sem honum er gefin að sök hafi að öllu leyti farið fram utan íslenskrar refsilögsögu. Háttsemin hafi að öllu leyti varðað starfsemi Z Luxembourg, sem staðsett var þar í landi og lotið lögum þess ríkis.  Af málatilbúnaði ákæruvaldsins megi helst ráða að háttsemin hafi öll átt sér stað utan forráðasvæðis íslenska ríkisins, í Lúxemborg, Bretlandi eða Katar.  Íslensk refsilögsaga nái ekki til þeirrar háttsemi vegna 1. ml. 1. tl. 4. gr. almennra hegningarlaga.  Þá hafi ekki verið færðar sönnur á að athæfið sé refsivert samkvæmt lögum Lúxemborgar, Bretlands og Katar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. hegningarlaga.  Enn fremur hafi ekki verið rök fyrir því að refsing sé að einhverju leyti bundin við afleiðingar meints brots, sbr. 7. gr. hegningarlaga.  Ekki verði séð að aðrar lögsögureglur hegningarlaga en þær, sem nefndar voru, eigi að koma til skoðunar í þessu efni.  Þá skuli að síðustu bent á að ekki sé að finna sjálfstæðar lögsögureglur í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, en ákærða sé gefið að sök að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum þeirra laga auk ákvæða í almennum hegningarlögum.  Verði að líta svo á, í samræmi við almennar lagaskilareglur, að refsiákvæði þeirra laga geti einungis tekið til brota sem framin eru innan íslensks forráðasvæðis.

Um 11:

Samkvæmt 2. tl. 5. gr. almennra hegningarlaga skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot, sem íslenskir ríkisborgarar hafa framið erlendis ef brot er framið á stað sem refsivald annars ríkis nær til og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess.  Fyrir liggur að ákærði er íslenskur ríkisborgari.  Þá er einnig á það að líta að þegar brot fellur utan við hegningarvald íslenska ríkisins hefur það verið talin refsileysisástæða, sem varða eigi sýknu.  Ber af þessari ástæðu að synja kröfu ákærða X um það að ákærunni verði vísað frá dómi af þessari ástæðu.

12. Sama brot skilið í sundur

Af hálfu ákærða X er þess krafist að vísað verði frá dómi III. og IV. kafla ákærunnar, aðallega báðum en ella öðrum hvorum, þar sem að með öllu sé óljóst hvernig þeir geti staðið sjálfstætt óháð hvor öðrum, enda snúist þeir um sama verknaðinn.  Þannig snúist málsástæður og lagarök varðandi einstök ákvæði 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti, sem ákært er fyrir í III. og IV. kafla ákærunnar, efnislega um sama atriðið, þ.e. meinta markaðsmisnotkun vegna einna og sömu viðskiptanna.  Slíkt brot, ef sannað væri, gæti varðað við fleiri en eitt af ákvæðum 117. gr. en engu að síður bæri að virða það sem eitt og sama brotið.  Óheimilt sé að kljúfa verknaðinn upp í tvö sjálfstæð brot eins og gert sé.  Sé þannig ákært fyrir sama brotið með tvennum hætti. Slíkt fái ekki staðist meginreglur sakamálaréttarfars og hljóti að varða frávísun.

Um 12:

Tveir af ákærðu, þeir A og B, eru í III. kafla ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með því að koma á viðskiptum, sem þar eru metin og rakin allítarlega.  Er athæfi þeirra talið vera brot gegn a-lið 1. tl. og 2. tl. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti.  Samkvæmt þessum ákvæðum er það markaðsmisnotkun að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna og eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.  Í IV. kafla ákæru eru ákærðu allir ákærðir fyrir það að dreifa upplýsingum, eins og rakið var, og brjóta þar með gegn 3. tl. 1. mgr. 117. gr. þessara laga.  Samkvæmt því ákvæði telst það vera markaðsmisnotkun að dreifa, gegn betri vitund, upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga.  Ljóst er af þessu að lög um verðbréfaviðskipti lýsa hér brotum, sem ekki hafa sama inntak, þótt þau hafi sama heiti.  Þá er þess að gæta að þeir A og B eru einir hafðir fyrir sök í báðum þessum ákæruköflum.  Samkvæmt þessu ber að synja kröfu ákærða X um það að ákæruköflunum verði vísað frá dómi af þessari ástæðu.

13. Ákæran vanreifuð

Ákærði X telur að allir ákæruliðir sem hann varða séu vanreifaðir og beri að vísa þeim frá dómi.  Sé háttsemi hans ekki nægilega lýst í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga, að því er varðar ákærutextann sjálfan, og sbr. d-lið sömu greinar að því er varðar röksemdir fyrir málssókninni.  Skorti mjög á skýrleika í ákærunni að þessu leyti.  Þessi ágalli feli jafnframt í sér brot á rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr. 62/1994, en þar komi fram að sakborningur skuli án tafar fá vitneskju í smáatriðum um orsök og eðli þeirrar ákæru sem hann sætir.  Með orðunum „í smáatriðum“ sé átt við að verknaðarlýsing og heimfærsla til refsiákvæða verði að vera svo ýtarleg að ekki fari á milli mála hverjar þær sakir eru, sem bornar eru á ákærða og þurfi hann að geta áttað sig á því af ákærunni einni og sér, enda þurfi hann að geta varist henni, sbr. c-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans.  Sé þetta enda í fullu samræmi við dómaframkvæmd hér á landi. 

Kafli I í ákæru:

Í b-lið I. kafla ákærunnar sé ákærða X gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum meðákærða A en aðalverknaði A sé lýst svo í a-lið kaflans að hann felist í því að láta Z banka lána C „án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu“.  Hlutdeild ákærða sé útlistuð með miklu víðtækari hætti en aðalverknaðurinn og hún efnislega frábrugðin honum.  Þannig sé hlutdeildarbrotinu lýst sem þátttöku í „undirbúningi“ og „framkvæmd“ umboðssvika meðákærða.  Hafi undirbúningurinn falist í „milligöngu um samningaviðræður“ við D og því að „útvega félagið“ sem hann notaði.  Framkvæmdin sé svo talin hafa falist í því að taka þátt í því með meðákærða A að „fyrirskipa starfsmönnum bankans að greiða út lánið“, enda þótt hann hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að meðákærða brast heimild til lánveitingarinnar.  Hér sé þannig lýst allt annarri háttsemi en aðalverknaðinum og því vandséð hvernig sú háttsemi geti falið í sér hlutdeild í annarri og ólíkri verknaðarlýsingu. Þá sé því ekki lýst nánar í hverju milliganga um samningaviðræður eigi að hafa falist. Ekki sé heldur útskýrt hvernig það eitt, að starfsmenn Z Luxembourg öfluðu félags fyrir D, geti orðið að hlutdeild í umboðssvikum.  Þá sé því ekki lýst nánar með hvaða hætti ákærði X hafi „tekið þátt í því að fyrirskipa“ að greiða út lánið.

Þá felist stórfelld vanreifun í þeim málatilbúnaði að ætla athöfnum, sem alla jafna séu lögmætar, refsiverða þýðingu vegna síðar til kominna atvika sem ekki voru fyrirsjáanleg og áttu sér stað hjá öðrum lögaðila.  Öflun félags fyrir viðskiptavin í einni fjármálastofnun annars vegar og skilmálar og framkvæmd lánveitingar í öðrum banka á öðrum tíma hins vegar, eigi sér engin augljós orsakatengsl og ekki er reifað af hálfu ákæruvaldsins í hverju þau eigi að hafa falist.

Eftir standi af þessum ákærulið sú fullyrðing að ákærði hafi tekið þátt í því með meðákærða A að fyrirskipa útgreiðslu lánsins.  Ekki sé því þó lýst hver hlutur ákærða sé í þessu og hvernig hann gat skipað starfsmönnum annars banka fyrir um þetta. Fullyrðing í ákæru um að ákærði hafi verið í vondri trú um heimild meðákærða til lánveitingarinnar sé þannig óskiljanleg, órökstudd og ótæk til efnisvarna. 

Röksemdir, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga:

Af rökstuðningi ákærunnar verði heldur ekki ráðið í hverju meint hlutdeild ákærða fólst en þar sé eftirfarandi grein gerð fyrir því:  Þannig benda gögn í málinu til þess að ákærði X hafi haft milligöngu um samningsgerð við eiganda C, tölvupóstar benda til þess að hann hafi útvegað félag sem taka skyldi við láninu og tölvupóstar sem og framburðir vitna benda til þess að hann hafi komið að ákvörðunartöku í málinu.“  Ekki komi fram hvaða gögn og tölvuskeyti um sé að ræða.  Ákæran sé að þessu leyti algjörlega vanreifuð og ákærða ómögulegt að staðreyna af henni hvaða grunnröksemdum hún sé byggð á.  Virðist ákæruvaldið treysta því að dómstólar heimili að skriflegt málflutningsskjal ákæruvaldsins, svokölluð „greinargerð rannsakenda“ á dskj. 11, verði af þess hálfu nýtt til að bæta úr vanreifaðri ákæru.  Einnig segi í rökstuðningi fyrir ákærunni: „Milliganga Z Lúxemborg við útborgun lánsins fólst í því að bankinn annaðist greiðslu á láni Z til C inn á reikning félagsins nr. [...] hjá Z Lúxemborg 19. september 2008. Z gerði upp við Z Lúxemborg 29. september 2008.“  Hér virðist verða skyndilegt lögfræðilegt skammhlaup varðandi aðgreiningu á hlutverki ákærða X persónulega annars vegar og svo hlutverki Z Luxembourg hins vegar.  Ekki verði séð hvernig samsama megi ákærða X félaginu Z Luxembourg, enda hafi fjölmargir nafngreindir starfsmenn þess komið að málinu á þess vegum.  Öflun félags hafi verið eðlilegur og daglegur þáttur í rekstri bankans en ákærða sé gefin hún persónulega að sök.  Í öðrum tilvikum sé lýst með ópersónulegum hætti aðkomu Z Luxembourg, eins og við tilhögun á útborgun lánsins.  Sé engan veginn reifað af hálfu ákæruvaldsins hvernig þessi málatilbúnaður eigi að geta staðist.

Um b-lið I. kafla ákæru:

Að mati dómsins getur ákæruliður þessi ekki talist vera skýr.  Þannig er þætti ákærða í undirbúningi umboðssvikanna lýst svo, annars vegar, að hafa „milligöngu um samningaviðræður“ við D, og hins vegar að „útvega félagið“ sem notað var í viðskiptunum.  Dómurinn lítur svo á að þessar sakir séu of almennt orðaðar.  Hefði verið gleggra að skilgreina milligöngu hans að einhverju leyti og tímasetja hana eða finna henni stað í atvikum eða gögnum málsins.  Einnig hefði verið rétt að skilgreina nánar hvað í því fólst að ákærði útvegaði umrætt félag.  Þá er hlutur ákærða í framkvæmdinni almennt orðaður.  Hefði verið gleggra ef þetta sakaratriði, fyrirskipun ákærða, hefði verið nánar skilgreint, það tímasett og enn fremur vísað um það til atvika eða málsgagna.  Samkvæmt c- lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála skal í ákæru greina „svo glöggt sem verða má“ hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu.  Ákvæði þessu er ætlað að tryggja það að dómari þurfi ekki að velkjast í vafa um hvað sakborningi sé gefið að sök og ennfremur það að sakborningur geti varist ákærunni.  Dómurinn lítur svo á að b-liður I. kafla ákærunnar uppfylli ekki skilyrði þessa ákvæðis laganna.  Ber að vísa honum frá dómi.

Kafli III í ákæru:

Í b-lið III. kafla ákærunnar sé ákærða X gefin að sök hlutdeild í markaðsmisnotkun meðákærðu A og B með því að hafa haft „milligöngu um að koma viðskiptunum á“ og eiga samskipti við D um þau.  Þá hafi ákærði X „tekið þátt í undirbúningi og útfærslu viðskiptafléttunnar“. Talað sé um milligöngu, samskipti, undirbúning og útfærslu, sem séu afar matskennd hugtök, án þess að þetta sé skýrt nánar í þessum ákærulið.

Röksemdir, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga:

Í röksemdum fyrir III. kafla ákærunnar sé ákærði X ekki nefndur á nafn né heldur sé þar reynt að útskýra í hverju hlutdeild hans eigi að hafa falist, þ.e. meint milliganga um að koma viðskiptunum á og/eða meint þátttaka hans í undirbúningi og útfærslu „viðskiptafléttunnar“. 

Ákærði telji ákæruna að þessu leyti ekki uppfylla kröfur c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga.  Sakargiftir séu óljósar og röksemdir fyrir þeim vanti.  Sé réttur hans til málsvarna stórkostlega skertur, enda verði hann hér að geta sér til um sakirnar sem á hann séu bornar. 

Um b-lið III. kafla ákæru:

Ákæruliður þessi getur ekki að heldur talist vera skýr um verknað ákærða X og er hlutur ákærða þar skilgreindur með mjög almennum hætti.  Skulu hér nefnd til ummælin um „milligöngu um að koma viðskiptunum á“ og eiga „samskipti“ við D um þau, um „undirbúning og útfærslu.“  Hið sama er að segja um skilgreininguna á verknaði ákærða Y, sem telja verður afar óljósa en jafnframt óþarflega flókna: „að gera hlutabréfaviðskiptin að veruleika með aðkomu að fjármögnun þeirra“, en þar er vísað almennt til II. kafla ákærunnar um þetta (væntanlega b-liðar) en þaðan aftur til III. kafla hennar.  Sérstaklega er orðið „aðkoma“ svo óljósrar merkingar að það verður telja ótækt í ákæru.  Með vísan til þess, sem ályktað er um b-lið I. kafla ákærunnar hér að framan, ber einnig að vísa b-lið III. kafla hennar frá dómi. 

Kafli IV í ákæru:

Í IV. kafla ákærunnar sé ákærðu A, B, X og Y gefin að sök  markaðsmisnotkun, með því að hafa, í september 2008, í fréttatilkynningu sem birt var á vef Kauphallar Íslands og í viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem hver fyrir sig og í heild gáfu eða voru líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um þau hlutabréfaviðskipti sem lýst er í III. kafla ákæru.  Aftur á móti sé ákærða X eingöngu getið í a-lið IV. kafla ákærunnar þar sem byggt sé á því að hann hafi lagt atbeina sinn að því að Z banki birti umrædda fréttatilkynningu.  Sé það ekki skýrt nánar né þætti hans í því lýst að öðru leyti.  Þá sé þess að gæta að verknaðarlýsing þessa ákærukafla sé einnig óljós að því leyti að fjallað er í einu lagi um birtingu fréttatilkynningarinnar og einstök ummæli meðákærðu.  Sé slík framsetning mjög villandi og sakargiftirnar stórkostlega vanreifaðar að þessu leyti.  Loks sé ekki minnst á ákærða X í röksemdum fyrir þessum ákærukafla.  Ákærði telji að ákæran sé að þessu leyti mjög óskýr og í andstöðu við fyrirmæli c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga og beri að vísa þessum lið hennar frá dómi.

Um IV. kafla ákæru:

Ákærðu öllum er í þessum ákærukafla gefin að sök markaðsmisnotkun með því að hafa „í fréttatilkynningu [...] og viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem [...] gáfu eða voru líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um“ viðskipti með hlutabréf í Z banka hf., sbr. III. kafla ákæru og voru til þess fallnar að hafa áhrif á viðskipti með „hlutabréf bankans“ (hlutabréf í bankanum, að því er ætla verður).  Í almennum inngangi ákærukaflans er ekki tekið fram hvort ákærðu eru taldir hafa staðið saman að öllum þessum aðgerðum.  Þá segir í lok þessa inngangs, að „misvísandi upplýsingar og vísbendingar“ ákærðu, sem hafi falið í sér markaðsmisnotkun, „hver fyrir sig og í heild sinni“ hafi verið: -fréttatilkynning allra ákærðu, -fimm tiltekin fréttaviðtöl ákærða A, -tvö tiltekin fréttaviðtöl ákærða Y, -tiltekið fréttaviðtal ákærða B.  Dómurinn lítur svo á að framsetning þessa ákærukafla sé þannig að ekki verði ráðið með fullri vissu hvort ákærði X er þar saksóttur fyrir allt það athæfi sem þar er lýst.  Ber með vísan til þess, sem ályktað er um b- lið I. kafla ákærunnar hér að framan, að vísa IV. kafla ákærunnar frá dómi að því er ákærða X varðar. 

Úr ríkissjóði ber að greiða verjanda ákærða X, Karli Axelssyni hrl., 9.001.487 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá dómi b-lið I. kafla, b-lið III. kafla ákærunnar í máli þessu svo og IV. kafla hennar, að því er varðar ákærða X.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Karls Axelssonar hrl., 9.001.487 krónur ber að greiða úr ríkissjóði.