Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-57

Náttúruhamfaratrygging Íslands (Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður)
gegn
Diðriki Jóhanni Sæmundssyni (Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 19. febrúar 2021 leitar Náttúruhamfaratrygging Íslands eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 772/2019: Diðrik Jóhann Sæmundsson gegn Náttúruhamfaratryggingu Íslands, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Málið höfðaði gagnaðili til heimtu skaðabóta úr hendi leyfisbeiðanda vegna kostnaðar sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna meðferðar stjórnsýslumála hjá honum, einkum kostnaðar við lögmannsþjónustu og öflun matsgerða. Málið á rætur að rekja til tjóns sem varð á ýmsum mannvirkjum í eigu gagnaðila á jörðinni Friðarstöðum í Hveragerði í jarðskjálfta sem reið yfir á Suðurlandi 29. maí 2008. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Var talið að gagnaðili yrði að bera hallann af því að ekki þætti sýnt að málsmeðferð leyfisbeiðanda hefði verið ólögmæt í einhverjum atriðum, þótt hún hefði hvorki verið annmarkalaus né í fyllsta samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Þá var ekki talið að skilyrði sakarreglunnar um saknæmi starfsmanna eða stjórnar leyfisbeiðanda hefði verið fullnægt í neinum þeim atriðum sem gagnaðili byggði á. Landsréttur taldi á hinn bóginn að veigamiklir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð leyfisbeiðanda. Hún hefði verið andstæð málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að mál gagnaðila hefði ekki verið lagt í þann farveg sem boðinn væri samkvæmt lögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og þágildandi reglugerð nr. 83/1993 um Viðlagatryggingu Íslands. Þá hefði málsmeðferðin einnig falið í sér brot gegn 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Því var talið að skilyrðum um saknæmi og ólögmæti hefði verið fullnægt fyrir skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda að því er fyrrnefnd atriði varðaði. Hins vegar var talið að gagnaðili hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að fullnægt væri skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir miskabótum. Þá var vísað til þess að samkvæmt almennum reglum væri bótaréttur gagnaðila takmarkaður við það tjón sem teldist sennileg afleiðing af hinni saknæmu og ólögmætu háttsemi leyfisbeiðanda og jafnframt hefði gagnaðila borið að takmarka tjón sitt eftir föngum. Að því virtu voru bætur gagnaðila ákveðnar að álitum 5.500.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í málinu reyni á túlkun 7., 9. og 10. gr. stjórnsýslulaga og snerti því starfsemi fjölda annarra stjórnvalda, til dæmis varðandi leiðbeiningarskyldu ef aðili sættir sig ekki við niðurstöðu stjórnvalds og ákveður að dómkveðja matsmenn. Einnig telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi bæði verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína varðandi álitaefni máls þessa um ábyrgð lægra setts stjórnvalds gagnvart meðferð máls fyrir æðra stjórnvaldi. Þá geti úrslit málsins leitt til hækkunar matskostnaðar leyfisbeiðanda sem aftur myndi leiða til hækkunar iðgjalda viðskiptamanna en þeir skipti þúsundum. Jafnframt hafi verið vikið að því í dómi Landsréttar að mál gagnaðila hefði ekki verið lagt í þann farveg sem boðið væri samkvæmt lögum nr. 55/1992 og reglugerð nr. 83/1993 og með því hefði málsmeðferð leyfisbeiðanda verið andstæð málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga. Vísar leyfisbeiðandi til þess að honum sé ekki kunnugt um dómsmál sem veiti leiðsögn um þetta álitaefni. Loks telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan en hann telji sig meðal annars hafa uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og rannsakað málið eins ítarlega og nokkur kostur hafi verið áður en bótauppgjör hafi farið fram við gagnaðila, sbr. 10. gr. laganna.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.