Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2010


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Skaðabætur
  • Ölvunarakstur
  • Bifreið


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 374/2010.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Friðbergi Helga Bergssyni

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

Vátryggingasamningur. Stórkostlegt gáleysi. Skaðabætur. Ölvunarakstur. Bifreiðir.

F krafði T hf. um skaðabætur úr slysatryggingu farþega bifreiðar hans, vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar bifreið hans, sem hann var farþegi í og V ók, var ekið aftan á aðra bifreið. Ágreiningur aðila laut að því hvort T hf. væri rétt að skerða bætur til handa F um 2/3 hluta vegna stórkostlegs gáleysis hans er hann fól V akstur bifreiðarinnar umrætt sinn, með vísan til þess að F hefði átt að gera sér grein fyrir að V var ekki í ástandi til aka bifreið. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að T hf. hefði ekki tekist sönnun um að F hefði hlotið að vera ljóst að V hefði ekki verið hæfur til að stjórna ökutæki er hann fól honum akstur bifreiðar sinnar, þannig að það yrði metið F til stórkostlegs gáleysis í skilningi skilmála sem giltu um slysatryggingu hjá T hf. Var krafa F um óskertar bætur úr hendi T hf. því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er krefst hann þess að dæmd fjárhæð verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í héraðsdómi slasaðist stefndi þegar bifreið hans, sem hann var farþegi í og Viðar Daði Eggertsson ók, var ekið aftan á aðra bifreið á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar 18. október 2007. Deila aðilar um hvort áfrýjanda sé rétt að skerða bætur til handa stefnda um 2/3 hluta vegna stórkostlegs gáleysis hans er hann fól Viðari Daða akstur bifreiðarinnar umrætt sinn. Ekki er deilt um fjárhæðir í málinu. Eftir að héraðsdómur gekk gaf Antonía Hermannsdóttir, fyrrverandi lögreglumaður, skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur endurrit af þeirri skýrslu verið lagt fyrir Hæstarétt. Framburður hennar er á sömu lund og lögreglumannsins Ásbjörns Stefánssonar, sem rakinn er í héraðsdómi, þar sem segir að við handtöku hafi áfengisþef lagt af vitum Viðars Daða og „augasteinar“ hans verið útvíkkaðir. Kvaðst Antonía telja að sá varðstjóri, sem ákveðið hafi að Viðar Daði skyldi vistaður í fangaklefa, hafi fyllt út staðlaða reiti í lögregluskýrslu með þeirri lýsingu að jafnvægi Viðars Daða hafi verið stöðugt, framburður greinargóður og málfar hans skýrt. Um hafi verið að ræða mistök, en þessa lýsingu varðstjórans er að finna í lögregluskýrslu sem Antonía staðfestir að hún riti undir sem skýrsluritari.

Gögn málsins um ástand Viðars Daða Eggertssonar eru rakinn í héraðsdómi. Þegar þau eru virt verður framangreindur framburður Antoníu Hermannsdóttur ekki talinn leiða til þess að áfrýjanda hafi tekist sönnun um að stefnda hafi hlotið að vera ljóst að Viðar Daði hafi ekki verið hæfur til að stjórna ökutæki er hann fól honum akstur bifreiðar sinnar, þannig að það verði metið stefnda til stórkostlegs gáleysis í skilningi skilmála sem giltu um slysatryggingu hjá áfrýjanda. Verður héraðsdómur því staðfestur um höfuðstól kröfu stefnda. Þar sem í 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er vísað til 1. mgr. 6. gr. sömu laga telst kröfugerð stefnda um dráttarvexti fullnægjandi, sbr. 11. gr. laganna. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin ehf., greiði stefnda, Friðbergi Helga Bergssyni, 8.076.594 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.089.970 krónum frá 18. október 2007 til 4. júlí 2009, en af 6.986.624 krónum frá 7. apríl 2008 til 20. maí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.076.594 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2010.

Mál þetta, sem höfðað var 18. ágúst 2009, var dómtekið 12. apríl sl.

Stefnandi er Friðberg Helgi Bergsson, kt. 231178-3259, Austurbergi 32, Reykjavík.

Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Síðumúla 24, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 8.076.594.- að viðbættum 4,50% vöxtum, skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af kr. 1.089.970.-, frá 18. október 2007 til 4. júlí 2009, og af kr. 6.986.624.-, frá 7. apríl 2008 til 20. maí 2009, og dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni, skv. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 20. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda í samræmi við hagsmuni málsins og framlagðan málskostnaðarreikning. Einnig er krafist virðisauka­­skatts á málskostnað þar sem stefnandi er ekki virðisauka­skatt­s­­­kyldur aðili.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu stefnda til handa að mati dómsins, en í varakröfunni að málskostnaður verði felldur niður.

I

Þann 18. október 2007 hafði stefnandi verið í heimsókn hjá vini sínum á Hótel Cabin í Borgartúni í Reykjavík. Eftir heimsóknina hugðist stefnandi fara niður í miðbæ. Fyrir utan hótelið hitti hann fyrir Viðar Daða Einarsson, sem hann hafði hitt tvisvar áður. Stefnandi kveður Viðar Daða hafa tjáð sér að hann væri ódrukkinn og varð að samkomulagi að hann æki bifreið stefnanda, AS-363, sem stóð fyrir utan hótelið, niður í miðbæ. Ökuferðin endaði hins vegar með því að bifreiðin hafnaði aftan á bifreiðinni KK-851 á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar og var áreksturinn mjög harður.

Viðar Daði, sem flúði af vettvangi, var handtekinn u.þ.b. 12 mínútum eftir slysið. Samkvæmt lögregluskýrslu voru sjáöldur hans útvíkkuð, jafnvægi stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt. Þá kemur fram í lögregluskýrslu að hann hafi verið sjáanlega ölvaður og að áfengisþef hafi lagt frá vitum hans.

Samkvæmt niðurstöðu alkóhólsrannsókna mældist áfengismagn í blóðsýni teknu úr Viðari Daða kl. 01:05 vera 0,77‰ og í blóðsýni teknu kl. 02:05 vera 0,58‰.

Stefnandi varð fyrir töluverðu líkamstjóni í slysinu og með matsgerð Leifs N. Dungal læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., dags. 17. apríl 2009, var stefnandi metinn til eftirfarandi skaða vegna slyssins með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

  1. Tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr.:
    1. 105 dagar........100%
  2. Þjáningabætur skv. 3. gr.:
    1. Rúmliggjandi: ekkert.
    2. Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi: 105 dagar.
  3. Stöðugleikatímapunktur: 7. apríl 2008.
  4. Varanlegur miski skv. 4. gr.: 8%.
  5. Varanleg örorka skv. 5. gr.: 15%.

Stefnandi fór fram á viðurkenningu á bótaskyldu úr slysatryggingu farþega bifreiðarinnar AS-363 en bifreiðin var tryggð hjá stefnda. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2008, hafnaði stefndi bótaskyldu á grundvelli stórkostlegs gáleysis stefnanda.

Með bréfi, dags. 21. september 2008, krafðist lögmaður stefnanda þess að stefndi endurskoðaði afstöðu sína og viðurkenndi bótaskyldu að öllu leyti. Stefndi svaraði með bréfi, dags. 23. september 2008, þar sem bótaskylda var viðurkennd að 1/3 hluta. Hins vegar hafnaði stefndi bótaskyldu að 2/3 hlutum á þeim grundvelli að stefnandi „hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að setjast upp í ökutæki undir stjórn ökumanns sem sjáanlega var undir áhrifum áfengis/lyfja/fíkniefna“. Í bréfinu tók félagið fram að það tæki tillit til Hæstaréttardóms nr. 129/2001 en í þeim dómi voru bætur skertar um 2/3 hluta á grundvelli stórkostlegs gáleysis.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda enn á ný bréf þann 6. október 2008 þar sem afstöðu stefnda var mótmælt og óskað eftir endurskoðun á afstöðu. Stefndi hafnaði því svo með tölvubréfi, dags. 23. október 2008.

Með málskoti, dags. 19. nóvember 2008, kvartaði stefnandi til Úrskurðarnefndar í vátrygginga­málum sem staðfesti ákvörðun stefnda með úrskurði, dags. 2. janúar 2009.

Þann 9. júní 2009 var tjón stefnanda gert upp af stefnda með greiðslu kr. 4.037.297.- auk vaxta. Útreikningur stefnda tók mið af því að einungis var viðurkennd bótaskylda að 1/3 hluta í málinu. Af hálfu stefnanda var gerður fyrirvari við uppgjörið varðandi mat á eigin sök hans.

II

Stefnandi byggir kröfur sínar á fyrrnefndri matsgerð Leifs N. Dungal, læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., dags. 17. apríl 2009, og á 3. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. sömu greinar umferðarlaga nr. 50/1987, en stefnandi hafi verið tryggður samkvæmt síðastnefndu ákvæði sem farþegi í eigin ökutæki.

Krafa stefnanda byggir enn fremur á því að stefnanda hafi ekki og hefði ekki mátt vera kunnugt um ástand Viðars Daða, ökumanns bifreiðarinnar, þegar hann tók sér far með honum umrætt sinn. Sé fullyrðingum stefnda um hið gagnstæða mótmælt af hálfu stefnanda.

Fyrst sé rétt að nefna að það var ökumaðurinn sjálfur sem tjáði stefnanda að fyrra bragði að hann væri ódrukkinn og bauðst til að aka bifreið hans niður í miðbæ.

Þá sé sérstaklega vert að ítreka lýsingu lögreglumanna á ástandi ökumannsins í lögregluskýrslu þar sem fram komi að sjáöldur hans hafi verið útvíkkuð við handtöku en jafnvægi hans stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt. Verði að telja að það eitt að sjáöldur hans hafi verið útvíkkuð sé ekki nægjanleg ástæða til að fullyrða að stefnandi hefði mátt vita að ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis, enda hafi hann virst ódrukkinn að öðru leyti.

Einnig sé vert að benda á að áfengismagn í blóði ökumannsins var einungis 0,77‰ sem sé langt frá því að vera svo mikið að hægt sé að fullyrða að ölvunarástand hans hafi verið augljóst. Þetta, til viðbótar við lýsingar lögreglumanna á ástandi ökumannsins, bendi mjög til þess að afar erfitt hafi verið að greina ölvunarástand hans í umrætt sinn.

Við þetta bætist enn fremur að stefnandi hafi verið ökumanninum lítt kunnugur og hafði aðeins hitt hann tvisvar áður. Af því leiði að mun erfiðara hafi verið fyrir stefnanda að átta sig á því hvort ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis eða ekki.

Að teknu tilliti til framangreinds verði að telja að stefnandi hafi ekki vitað að hann væri að taka sér far með ölvuðum ökumanni, enda afar ólíklegt að hann myndi biðja mann sem hann vissi að væri ölvaður um að aka bifreið sinni.

Hvað varði vísun stefnda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 129/2001, sbr. bréf frá 23. september 2008, þá sé því mótmælt að hann hafi fordæmisgildi í máli þessu, af eftirfarandi ástæðum:

Í fyrsta lagi sé bent á að áfengismagn í blóði ökumanns bifreiðarinnar AS-363 var aðeins 0,77‰. Í Hæstaréttarmálinu nr. 129/2001 hafi áfengismagn í blóði ökumanns hins vegar verið 1,83‰ eða meira en tvöfalt meira en í ökumanni AS-363. Það liggi í augum uppi að gríðarlegur munur hafi verið á ástandi þessara tveggja ökumanna og áfengisáhrif mun augljósari í tilfelli ökumannsins í umræddu Hæstaréttarmáli.

Í öðru lagi hafi ökumaðurinn í Hæstaréttarmálinu nr. 129/2001 verið ökuréttinda­laus sökum ungs aldurs og hafi tjónþola verið það kunnugt.

Í þriðja lagi komi fram í Hæstaréttarmálinu að ökumaðurinn sýndi greinileg merki ölvunar, framburður hafi verið ruglingslegur, málfar óskýrt og sjáöldur útvíkkuð. Ennfremur segi í dóminum að erfitt hafi verið að ræða við ökumanninn vegna ölvunar og að framburður hans hafi verið ruglingslegur og samhengislaus. Hins vegar hafi lítil ölvun verið sjáanleg á ökumanni AS-363, sbr. lögregluskýrslu þar sem segi að hann hafi gefið greinargóðan framburð, jafnvægi hans hafi verið gott og málfar skýrt.

Í fjórða lagi sé bent á að kringumstæður í umræddu Hæstaréttarmáli hafi verið með þeim hætti að tjónþola gat ekki dulist ölvun ökumannsins, enda var hún stödd ásamt ökumanninum í samkvæmi þar sem áfengi var haft um hönd og hefði hún því mátt vita að ökumaðurinn hafði neytt áfengis í samkvæminu. Í tilfelli stefnanda hafi hann hins vegar verið á leið út af hóteli þegar hann hitti mann sem hann kannaðist við og komust þeir að samkomulagi um að maðurinn keyrði bílinn. Þess vegna hafi kringum­stæður síður en svo bent til þess að stefnandi væri að taka sér far með ölvuðum ökumanni.

Í fimmta lagi hafi verið um það að ræða í Hæstaréttarmálinu nr. 129/2001 að tjónþoli og ökumaður þekktust vel en í tilfelli stefnanda hafði hann aðeins hitt ökumann AS-363 tvisvar áður en þekkti hann ekki vel.

Eins og sjá megi séu atvik í máli þessu og Hæstaréttarmálinu nr. 129/2001 afar ólík. Ljóst sé að skoða verði hvert mál fyrir sig við mat á hugsanlegu gáleysi tjónþola.

Skilyrði þess að um eigin sök stefnanda teljist hafa verið að ræða sé að hann hafi vitað eða mátt vita um ölvunarástand ökumanns AS-363 umrætt sinn. Að teknu tilliti til framangreinds telji stefnandi hins vegar sannað að hann hafi hvorki vitað né mátt vita um ástand ökumannsins og því hafi hann ekki sýnt af sér stórfellt gáleysi er hann tók sér far með ökumanninum sem síðar reyndist undir áhrifum áfengis.

Skilyrði þess að lækka megi bætur til tjónþola vegna líkamstjóns sé að hann hafi verið  meðvaldur að tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Um slíkt hafi hins vegar ekki verið að ræða af hálfu stefnanda og hafi stefnda því ekki verið heimilt að lækka bætur vegna líkamstjóns til hans. Beri því að taka kröfur stefnanda til greina og dæma stefnda til að greiða stefnanda fullar bætur vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysinu.

Bifreiðin AS-363 hafi verið með lögbundna ábyrgðartryggingu hjá stefnda í samræmi við ákvæði 91. gr. umferðarlaga og þá hafi stefnandi verið tryggður skv. 3. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 92. gr., sömu laga sem farþegi í eigin ökutæki. Sé kröfum stefnanda því réttilega beint að stefnda sem vátryggjanda bifreiðarinnar á slysdegi. Stefndi sé því skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda skv. 3. mgr., sbr. 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga.

Krafa stefnanda byggi eins og áður segi á matsgerð Leifs N. Dungal, læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., dags. 17. apríl 2009. Varðandi útreikning kröfunnar vísist enn fremur til bótatilboðs stefnda, dags. 9. júní 2009, þar sem krafan sundurliðist með eftirfarandi hætti:

Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:

Tekið hefur verið tillit til verðbreytinga á fjárhæðum, sbr. 15. gr. laganna.

Dagar

Fjárhæð per dag

Hlutfall

Samtals

105               x

1.410.-               x

2/3                          =

98.700.-

Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skaðabótalaga:

Samkvæmt matsgerð var stefnandi óvinnufær frá 18. október 2007 til 31. desember 2007 og frá 7. mars 2008 til 7. apríl 2008.

Tímabundið atvinnutjón

Hlutfall                                              

Samtals

840.066.-                                               x

2/3                                      =

560.044.-

Bætur fyrir varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga:

Tekið hefur verið tillit til verðbreytinga á fjárhæðum, sbr. 15. gr. laganna. Tjónþoli var 28 ára á slysdegi.

Viðmiðunarfjárhæð

Miskastig

Hlutfall

Samtals

8.085.500.-             x

8

2/3                            =

431.226.-

Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga:

Tjónþoli var 28 ára og 325 daga gamall á slysdegi.

Viðmiðunarlaun

Stuðull

Hlutfall örorku

Hlutfall

Samtals

5.281.694            x

13,228    x

15%                 x

2/3                      = 

6.986.624.-

Telji dómurinn að skilyrði séu fyrir hendi til þess að lækka bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sé þess til vara krafist að sú lækkun verði með minnsta móti og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að frádreginni lækkun.

Krafan um dráttarvexti byggi á 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ljóst sé að þann 20. apríl 2009 lágu fyrir allar upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að meta tjónsatvik og fjárhæða bóta, sbr. bótakröfu stefnanda. Dráttarvaxta sé því krafist frá 20. maí 2009.

Stefnandi vísi hvað varðar bótaábyrgð stefnda til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88. og 92. gr. Krafan um dráttarvexti byggi á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum III. kafla laganna. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga um meðferð einkamála og um aðild vísist til 17. gr. sömu laga sem og 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Um virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988.

III

Stefndi byggir á að óumdeilt sé að þegar óhapp það er mál þetta snýst um gerðist, hafi verið í gildi slysatrygging ökumanns og eiganda sem farþega hjá stefnda vegna bifreiðarinnar AS-363, sbr. 3. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Í kafla B gr. 8.1. í skilmálum þeim er um trygginguna giltu sé síðan ákvæði um aðstæður sem leitt geti til missis réttar til bóta og sé hún svohljóðandi: „Réttur til vátryggingarbóta getur fallið niður samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga ef vátryggingartaki eða vátryggður vanrækir skyldur sínar gagnvart félaginu, til dæmis ef hann veldur tjóni með því að aka án þess að hafa ökuréttindi, eða veldur tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, svo sem ef hann ekur undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna.“

Þessi grein skilmálanna eigi svo stoð í 3. mgr. 88. gr. umferðalaganna og 26 gr. og 2. mgr. 27 . gr. vátryggingasamningalaga nr. 30/2004.

Stefndi telji að þessi ákvæði skilmálanna og laganna eigi við hér og stefnandi hafi með því að fela einstaklingi, sem var undir áhrifum áfengis og fíkniefna, stjórn bifreiðar sinnar og taka sér jafnframt far með henni sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi fyrrgreindra ákvæða og skerðing bóta því fyllilega réttmæt, eins og hér standi á.

Fyrir liggi að ökumaðurinn í umrætt sinn, Viðar Daði Einarsson, var undir áhrifum áfengis og fíkniefna þegar stefnandi fól honum akstur bifreiðarinnar, en áfengismagn í blóði hans eftir óhappið hafi mælst 0,77‰.

Stefnandi sé einn til frásagnar um aðdraganda þess að lagt var í hina örlagaríku ökuferð.

Ökumaðurinn, Viðar Daði, muni nánast ekkert við skýrslutökur hjá lögreglu daginn eftir óhappið þannig að ástand hans hafi augljóslega verið heldur bágborið, enda segi hann þar að á þessum tíma hafi hann verið ruglaður af lyfjaneyslu.

Stefnandi haldi því fram að Viðar Daði hafi boðist til að aka bifreiðinni og jafnframt sagst vera edrú. Þessi frásögn sé í fyrsta lagi ótrúverðug og í öðru lagi óstaðfest og sé henni mótmælt af stefnda. Jafnframt sé því haldið fram af stefnda að hún hafi í sjálfu sér enga þýðingu við úrlausn þess ágreinings sem hér sé uppi.

Kjarni málsins sé sá að stefnandi hafi látið Viðar Daða fá lyklana að bifreiðinni og síðan tekið sér far með henni.

Í lögregluskýrslu segi að við handtöku nokkrum mínútum eftir óhappið hafi Viðar Daði sjáanlega verið ölvaður og áfengisþef hafi lagt frá vitum hans og augasteinar mjög útvíkkaðir.

Það hafi sem sagt ekki farið fram hjá lögreglumönnunum, sem handtóku Viðar Daða, að hann var ekki í neinu standi til að aka bifreið. Stefnandi hefði að sjálfsögðu einnig átt að gera sér grein fyrir því.

Á eigin fylleríi beri hann sjálfur ábyrgð, en óumdeilt sé í málinu að hann var undir áhrifum áfengis og fíkniefna í umrætt sinn, og geti ekki afsakað sig með því að það hafi verið þess vegna sem að hann gerði sér ekki grein fyrir ástandi Viðars Daða.

Af þessu megi ljóst vera að stefnandi átti eða a.m.k. mátti gera sér grein fyrir ástandi Viðars Daða og því ljóst að mati stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann fól Viðari Daða akstur bifreiðar sinnar og tók sér jafnframt far með henni.

Skerðing bóta um 2/3 hluta sé því fyllilega réttmæt og fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í málinu nr. 129/201 ótvírætt að mati stefnda og sé athugasemdum stefnanda hvað það varðar mótmælt.

Í þessu felist að þar sem stefndi hafi þegar greitt þriðjung heildarbótanna hafi stefnandi fengið þær bætur sem hann eigi rétt á og því beri að sýkna.

Vakin sé athygli á að Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hafi fallist á sjónarmið stefnda í málinu og talið skerðingu félagsins réttmæta, sem sé ótvíræður stuðningur við afstöðu þess, þó vissulega hafi dómstólar seinasta orðið hvað það varðar.

Varakrafan lúti að því að fari svo að dómurinn fallist ekki á skerðingu bótaréttar að 2/3 hlutum þá hljóti, hvernig sem á allt sé litið, að verða að fallast á það með stefnda að hér sé um stórkostlegt gáleysi að ræða af hálfu stefnanda og skerðingu

bótaréttar þó svo að dómurinn kunni að telja að skerðingin ætti að vera minni  en 2/3 hlutar.

IV

Fyrir liggur að stefnandi slasaðist þegar bifreið hans AS-363, sem hann var farþegi í, og Viðar Daði Eggertsson ók, var ekið aftan á aðra bifreið á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar 18. október 2007.

Þá liggur fyrir að Viðar Daði var undir áhrifum áfengis við aksturinn í umrætt sinn en í blóði hans mældust 0,77‰ alkóhóls. Þá mældust í blóði hans amfetamín 38 ng/ml og metýlfenídat 10 ng/ml. Var styrkur þeirra í blóði, samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents, eins og búast má við þegar þau eru tekin í læknanlegum skömmtum. Samkvæmt matsgerðinni var Viðar Daði óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega þegar blóðsýnið var tekið.

Í máli þessu er ekki ágreiningur um tjón stefnanda og bótaábyrgð stefnda. Heldur snýst ágreiningurinn um það hvort stefnda hafi verið rétt að skerða bætur til stefnanda um 2/3 hluta vegna þess að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fela Viðari Daða akstur bifreiðarinnar í umrætt sinn. Er þannig um það deilt hvort stefnandi hafi vitað eða mátt vita að Viðar Daði var undir áhrifum áfengis og fíkniefna þegar hann fól honum akstur bifreiðar sinnar.

Stefnanda og Viðari Daða ber saman um að þeir hafi hist fyrir tilviljun í umrætt sinn fyrir utan Hótel Cabin í Borgartúni og að þeir hafi einungis þekkst lítillega.

Stefnandi hefur allt frá upphafi haldið því fram að Viðar Daði, sem hann kveðst hafa vitað að ætti við vímuefnavandamál að etja, hafi tjáð honum að hann væri edrú og þess vegna hafi hann falið honum akstur bifreiðarinnar.

Viðar Daði staðfesti fyrir dóminum að stefnandi hefði spurt hann hvort hann væri drukkinn og að hann hafi svarað því neitandi. Þá kom fram hjá honum að hann hafi í umrætt sinn verið nýbúinn að taka inn lyf en áhrif þeirra hafi ekki nema lítillega verið komin fram. Hann hafi því talið sig geta ekið.

Engum vitnum er til að dreifa sem borið hafa um ástand Viðars Daða fyrir aksturinn.

Af niðurstöðu mælinga á áfengismagni í blóði Viðars Daða þykir ekki verða ráðið svo ótvírætt sé að hann hafi verið sýnilega ölvaður. Þá liggur fyrir að magn ávana- og fíkniefna í blóði hans var ekki meira en búast má við þegar þau eru tekin í læknanlegum skömmtum.

Fyrir liggur að Viðar Daði kveður virkni lyfjanna, sem hann tók fyrir aksturinn, fyrst hafa komið að fullu í ljós eftir að aksturinn hófst. Þá liggur fyrir að stefnandi kveðst hafa áttað sig á því fljótlega eftir að þeir lögðu af stað að ekki væri allt með felldu með Viðar Daða.

Viðar Daði flúði af vettvangi eftir slysið en lögregla handtók hann skömmu síðar. Í lögregluskýrslu er ástandi Viðars Daða lýst þannig að jafnvægi er sagt hafa verið stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt. Hins vegar er hann sagður vera sjáanlega ölvaður og að áfengisþef hafi lagt frá vitum hans. Í báðum tilvikum eru sjáöldur sögð mjög útvíkkuð.

Lögreglumaðurinn, Ásbjörn Stefánsson, staðfesti fyrir dóminum að Viðar Daði hafi verið sýnilega ölvaður við handtöku. Kvaðst hann ekki geta skýrt misræmi í lögregluskýrslu á lýsingu á ástandi hans öðru vísi en svo að mistök kunni að hafa verið gerð við útfyllingu skýrslunnar.

Af framanröktu virtu þykir mega leggja til grundvallar að Viðar Daði hafi verið sýnilega undir áhrifum áfengis og fíkniefna við handtöku.

Eins og áður greinir þykir ekki unnt að fullyrða út frá niðurstöðum alkóhól- og fíkniefnarannsókna að Viðar Daði hafi verið sýnilega undir áhrifum áfengis. Þá er á það að líta að Viðar Daði hefur borið að hann hafi fyrst fundið verulega fyrir lyfjaáhrifum eftir að hann hóf aksturinn í umrætt sinn.

Þegar framangreint er virt, og þar sem sérfræðilegra álitsgerða hefur ekki verið aflað í málinu, þykir ekki verða fullyrt að stefnandi hafi hlotið að gera sér ljóst að Viðar Daði væri undir áhrifum áfengis og fíkniefna þegar hann fól honum aksturinn í umrætt sinn. Er því ekki fallist á að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fela Viðari Daða stjórn bifreiðar sinnar og taka sér far með honum. Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að stefnanda beri óskertar bætur úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem hann varð fyrir í umrætt sinn. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina eða kr. 8.076.594 eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 715.350 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Friðbergi Helga Bergssyni, kr. 8.076.594.- að viðbættum 4,50% vöxtum, skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af kr. 1.089.970.-, frá 18. október 2007 til 4. júlí 2009, og af kr. 6.986.624.-, frá 7. apríl 2008 til 20. maí 2009, og dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni, skv. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 20. maí 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 715.350 krónur í málskostnað.