- Fiskveiðistjórn
- Veiðileyfi
- Úrelding
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
Fimmtudaginn 27. september 2001. |
Nr. 3/2001. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Eystrasalti ehf. (Valgarður Sigurðsson hrl. Jón Auðunn Jónsson hdl.) |
Fiskveiðistjórn. Veiðileyfi. Úrelding. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
E keypti skip og sótti um leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir það. Fiskistofa og sjávarútvegsráðuneytið höfnuðu beiðninni með vísan til þess að endurnýjunarrétti og rétti skipsins til veiðileyfis hefði á sínum tíma verið afsalað til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins af þáverandi eigendum skipsins gegn greiðslu úreldingarstyrks. E krafðist ógildingar á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins og bóta vegna ætlaðs tekjutaps þann tíma sem skip hans hafði ekki veiðileyfi. Hæstiréttur sýknaði Í og kvað E bundinn af þeim samningi, sem gerður var um úreldingu skipsins. Sá samningur, sem væri reistur á skýrum fyrirmælum laga, væri enn í gildi og bakaði E sömu skyldur og styrkþega á sínum tíma. Bótakrafa E þótti ekki studd nægilegum gögnum og var vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2001 og krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara, að niðurstaða héraðsdóms um ógildingu úrskurðar sjávarútvegsráðuneytisins frá 7. janúar 2000 og um málskostnað verði staðfest, en að áfrýjandi greiði bætur að fjárhæð 14.710.133 krónur auk dráttarvaxta frá 13. apríl 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, sem unnin var að beiðni stefnda eftir uppsögu héraðsdóms, um ætlað tekjutap þann tíma sem skip hans, Stokksnes RE 123, hafði ekki veiðileyfi. Er matsgerðinni ætlað að renna stoðum undir bótakröfu stefnda. Í héraði gerði stefndi kröfu um skaðabætur að fjárhæð 49.665.000 krónur. Svo sem rakið er í niðurstöðu héraðsdóms var krafan ekki studd öðrum gögnum en áætlun hans sjálfs. Var hún því með öllu ódómhæf og bar að vísa henni frá héraði. Framlögð matsgerð bætir hér ekki úr enda of seint fram komin. Er bótakröfu stefnda sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
II.
Árið 1994 sótti þáverandi eigandi Stokksness VE 700, nú Stokksness RE 123, um úreldingarstyrk til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins á grundvelli þágildandi laga nr. 92/1994. Fallist var á umsóknina og var úreldingarstyrkur að fjárhæð 39.375.000 krónur greiddur með uppgjöri 21. apríl 1995. Skilyrði styrkveitingar var að skipið yrði tekið af skipaskrá, réttur til endurnýjunar ekki veittur og veiðiheimildir sameinaðar aflaheimildum annars skips. Þetta gekk eftir af hálfu styrkbeiðanda og lýsti hann því yfir að afskráning skipsins væri varanleg af sinni hálfu. Í því fælist að hann myndi aldrei eiga neinn þátt í því að skipið kæmi á ný á íslenska skipaskrá, hvorki sem fiskiskip né skip annarrar gerðar. Var um það samið að bryti styrkþegi gegn þessu væri sjóðnum heimilt að heimta endurgreiðslu styrksins. Fólst í úreldingunni að annaðhvort yrði skipinu fargað eða það selt úr landi. Styrkþegi seldi skipið til Hagangur Corporation Inc., 99 Albert Street, Belize City í Belize með kaupsamningi 28. mars 1995. Skipið lá þó áfram við bryggju á Fáskrúðsfirði. Forsvarsmaður stefnda, Viðar Halldórsson, keypti það 15. maí 1996 fyrir hönd V.H. Viðskipta ehf. af North Ocean Ltd., sem hafði sama heimilisfang í Belize og fyrrgreindur kaupandi. Hann sótti 2. desember 1998 um leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir skipið, sem skráð hafði verið Stokksnes RE 123 hinn 20. febrúar 1998.
Með ákvörðun Fiskistofu 19. ágúst 1999 var beiðninni hafnað og vísað til þess að endurnýjunarrétti og veiðileyfi skipsins hefði verið afsalað til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins 17. febrúar 1995 af þáverandi eigendum gegn greiðslu úreldingarstyrks. Í ákvörðuninni var greint frá því að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins væri óheimilt að veita þeim skipum, sem úrelt hefðu verið með styrk úr þróunarsjóði, veiðileyfi að nýju, enda hefðu þáverandi eigendur viðkomandi skipa afsalað þeim rétti með samningi sínum við sjóðinn og þær kvaðir sem settar hefðu verið á viðkomandi skip stæðu enn. Efnisatriði 8. gr. fyrrnefndra laga væru hluti af samningi viðkomandi við sjóðinn og sá samningur stæði þrátt fyrir það að nefnd 8. gr. hefði verið felld niður með lögum nr. 152/1996. Ákvörðun Fiskistofu var kærð til sjávarútvegsráðuneytisins, sem staðfesti hana með úrskurði 7. janúar 2000.
III.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999, getur hver sá íslenskur ríkisborgari, sem ræður yfir skrásettu fiskiskipi með haffærisskírteini, sótt um almennt veiðileyfi og nýtt sér heimildir í 1. mgr. 7. gr. fyrrnefndu laganna til veiða á tegundum, sem ekki lúta heildaraflatakmörkunum. Hann getur að auki fengið aflaheimildir í þeim tegundum, sem sæta slíkum takmörkunum, með kaupum á varanlegri aflahlutdeild eða aflamarki til tiltekins tíma. Heldur stefndi því fram, og var á það fallist í héraðsdómi, að í gildandi lögum sé þess hvergi getið að óheimilt sé að veita veiðileyfi skipum, sem tekin hafi verið út af skipaskrá. Slíkar takmarkanir hafi verið að finna í ákvæðum 7. 11. gr. laga nr. 92/1994, sem lutu að úreldingu fiskiskipa, þar til þau ákvæði hafi verið felld úr gildi með setningu laga nr. 152/1996. Óhjákvæmilegt sé að kveðið sé á um það í gildandi lögum að atvinnuréttindi grandlausra eigenda slíkra skipa séu takmörkuð til þess að það gildi til frambúðar.
IV.
Áfrýjandi krefst sýknu á grundvelli aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fallast ber á þá niðurstöðu héraðsdómara að eignarréttur stefnda að Stokksnesi RE 123 hafi verið nægilega skýrður. Verður sýknukrafa áfrýjanda því ekki reist á aðildarskorti.
Við úrlausn ágreinings málsaðila um lögmæti synjunar sjávarútvegsráðuneytisins um veitingu veiðileyfis er óhjákvæmilegt að líta til þess að árið 1995 var gengið frá samningi milli Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og þáverandi eiganda Stokksness um úreldingu skipsins og afsal á rétti til veiðileyfis þess gegn greiðslu úreldingarstyrks. Með þessu skuldbatt eigandinn sig til að falla frá endurnýjunarrétti þess og lýsti því jafnframt yfir að skipinu yrði ekki komið á ný á íslenska skipaskrá fyrir sína tilstuðlan eða haldið aftur til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Styrkveitingin var reist á skýrum fyrirmælum laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem voru sett í því skyni að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Lögin voru sett í þágu fiskveiðistjórnunar og miðuðu að minnkun fiskiskipaflotans og takmörkun á fiskveiði. Áttu lögin að tryggja, gegn greiðslu styrks, að úrelt fiskiskip héldu ekki aftur til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu, enda væru þau um allan aldur útilokuð frá því að öðlast aftur veiðileyfi. Þær almennu skorður, sem styrkþegum úreltra skipa voru settar, voru bundnar í einkaréttarlegum samningi og reistar á fyrirmælum laga. Verður ekki litið svo á, að brottfall 8. gr. laga nr. 92/1994 með lögum nr. 152/1996 hafi átt að leiða til þess, að kvaðir samhliða úreldingu skipa hafi átt að falla niður. Þótt réttarframkvæmd hafi leitt til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun, eins og greint er í III. kafla hér að framan, hrófluðu þær ekki við réttaráhrifum úreldingar, sem héldust þrátt fyrir þessar lagabreytingar. Veiðileyfi eru bundin við skip og skip, sem verið hefur úrelt gegn greiðslu, verður það áfram, þótt réttur manna til aðgangs að veiðileyfum hafi að uppfylltum tilteknum skilyrðum verið jafnaður með lögum nr. 1/1999 um breytingu á lögum nr. 38/1990. Getur stefndi því ekki í skjóli þeirrar lagabreytingar öðlast betri rétt en styrkþegi hafði. Samningurinn um úreldingu Stokksness er enn í gildi og bakar stefnda sömu skyldur og styrkþega á sínum tíma. Ekki skiptir hér máli, að kvöðinni var ekki þinglýst, enda verður skip, sem selt er úr landi, að vera kvaðalaust.
Samkvæmt framansögðu var úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins 7. janúar 2000 reistur á réttum lögum og málefnalegum forsendum. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Bótakröfu stefnda, Eystrasalts ehf., er sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af öðrum kröfum stefnda.
Stefndi greiði áfrýjanda 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eystrasalti ehf., kt. 640399-2529, Mýrargötu 8, Reykjavík, á hendur Árna M. Mathiesen, kt. 021058-4409, sjávarútvegsráðherra, og Geir H. Haarde, kt. 080451-4749, fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins með stefnu sem birt var 13. apríl 2000.
Dómkröfur stefnanda eru:
„1. ... að ógiltur verði úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins dags. 7. janúar s.l. um að sú ákvörðun Fiskistofu að hafna beiðni um veitingu veiðileyfis í atvinnuskyni fyrir Stokksnes RE-123, skuli standa óhögguð.
2. Þess er einnig krafist að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út umbeðið leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi.
3. Stefnandi gerir ennfremur þá kröfu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur vegna þess tekjutjóns sem hin ólögmæta synjun hefur valdið honum, að fjárhæð kr. 49.665.000,00 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga af stefnufjárhæðinni frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.
4. Þá gerir stefnandi kröfu til málskostnaðar að skaðlausu út hendi stefnda að mati réttarins eða skv. framlögðum reikningi ásamt álagi sem nemur virðisauka-skatti."
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar skv. mati réttarins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar skv. mati réttarins.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum þannig: „Hinn 15. maí 1996 keypti Viðar Halldórsson, kt. 230553-3519, Hjallabraut 94, Hafnarfirði, mótorbátinn Stokksnes af fyrirtækinu North Ocean Ltd. sem staðsett er í Belize, en skip þetta hafði áður verið skráð hér á landi. Það var hins vegar ekki fyrr en rúmu ári síðar sem hann óskaði eftir skráningu skipsins á aðalskipaskrá hjá Siglingastofnun Íslands og var mælingabréf fyrir skipið gefið út hinn 20. febrúar 1998. Skipið er skráð í Reykjavík og ber skráningarnúmerið RE-123 en skipaskrárnúmer þess er 7. Við skráningu skipsins voru ekki gerðar neinar athugasemdir, hvorki varðandi skipið sjálft né heldur varðandi fyrirhuguð not þess í íslenskri fiskveiðilögsögu. Veðbókarvottorð fyrir skipið og þinglýsingabækur báru heldur ekki með sér að skipið og not þess væru kvaðabundin með einhverjum hætti.
Þann 8. desember 1998 sótti Viðar Halldórsson um leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi. Umsókninni svaraði Fiskistofa loks rúmum átta mánuðum síðar með bréfi dags. 19. ágúst s.l [1999] og hafnaði henni. Niðurstaða Fiskistofu byggir að því er virðist á þremur atriðum sem öll varða þá staðreynd að skipið hafði verið úrelt og þáverandi eigendur fengið greiddan úreldingarstyrk úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Í fyrsta lagi fullyrðir Fiskistofa að óheimilt sé að veita þeim skipum veiðileyfi sem úrelt hafa verið með styrk úr þróunarsjóðnum. Þetta byggir Fiskistofa á ákvæði 8. gr. laga nr. 92/1994 en regla þessi var felld úr lögum með setningu laga nr. 152/1996. Í öðru lagi byggir Fiskistofa niðurstöðu sína á því að þeir aðilar sem áttu skipið árið 1995 hafi afsalað rétti sínum til veiðileyfis með samningi sínum við Þróunarsjóð og að þeir aðilar séu enn bundnir af samningi sínum, þrátt fyrir brottfall 8. gr. l. nr. 92/1994. Má af bréfi Fiskistofu ráða að stofnunin telji að sá samningur bindi einnig stefnanda sem ekki var aðili að þessum samningi og var grandlaus um hann þegar hann keypti skipið. Í raun verður ekki annað ráðið af bréfi Fiskistofu en að hún telji að samningur þessi bindi þá sem koma til með að eignast skipið um ókomna framtíð. Í þriðja lagi byggir Fiskistofa svo á því að með úreldingunni og þeim samningi sem þáverandi eigendur skipsins gerðu við Þróunarsjóð sjávarútvegsins, hafi verið lögð kvöð á skipið sem gildi gagnvart grandlausum kaupendum þess, þrátt fyrir að réttarvernd hennar sé hvergi tryggð með skráningu eða þinglýsingu.
Hinn 16. nóvember s.l. [1999] kærði Viðar Halldórsson framangreinda ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegsráðherra. Krafðist hann þess að ákvörðun Fiskistofu yrði ógilt og að lagt yrði fyrir stofnunina að gefa út umbeðið veiðileyfi. Úrskurður ráðuneytisins barst í janúar s.l. þess efnis að ákvörðun Fiskistofu skyldi staðfest. Byggðist niðurstaða ráðuneytisins á öllum sömu rökum og ákvörðun Fiskistofu.
Viðar Halldórsson er framkvæmdastjóri stefnanda sem aftur er eigandi Stokksness RE -123 og því er málið höfðað í þess nafni."
Af hálfu stefnda er þannig gerð grein fyrir málavöxtum: „Þann 31. maí 1994 sótti Goðaborg hf., Fáskrúðsfirði, þáverandi eigandi Stokksness VE-700 (07), um úreldingastyrk til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Í umsögninni var því lýst yfir að báturinn yrði tekinn af skipaskrá, réttur til endurnýjunar yrði ekki nýttur og veiðiheimildir sameinaðar aflaheimildum annars báts, sem allt var forsenda úreldingastyrks úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Úreldingarstyrkur til umsækjanda var samþykktur og allt framangreint gekk eftir eins og nánar er rakið á dskj. nr. 19-25. Styrkfjárhæð til Goðaborgar hf. nam kr. 39.375.000, sbr. dskj. nr. 25. Samkvæmt dskj. 24 var báturinn seldur á árinu 1995 úr landi til Belize.
Samkvæmt dskj. nr. 26 var framangreindur bátur aftur keyptur til landsins frá Belize þann 15. maí 1996. Íslenskur kaupandi var samkvæmt dómskjalinu V.H. viðskipti ehf., kt. 540396-2809, Höfðabakka 9, 112 Reykjavík. Skipið mun hafa verið skráð á aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands þann 20. febrúar 1998 með skráningarnúmerinu RE-123 (7).
Með bréfi dagsettu 8. desember 1998 sótti Viðar Halldórsson persónulega um alhliða veiðileyfi til sjávarútvegsráðuneytisins fyrir Stokksnes RE-123, sbr. dskj. nr. 3. Ráðuneytið framsendi Fiskistofu umsóknina sem hafnaði henni með bréii dags. 19. ágúst 1999, sbr. dskj. nr. 4.
Fyrrgreindur Viðar Halldórsson kærði ákvörðun Fiskistofu um synjun á veiðileyfi til sjávarútvegsráðuneytisins þann 16. nóvember 1999, sbr. dskj. nr. 7. Ráðuneytið úrskurðaði þann 7. janúar 2000, að ákvörðun Fiskistofu um að hafna veitingu leyfis til Stokksness RE-123, skyldi standa óhögguð, sbr. dskj. nr. 8. Málshöfðun stefnanda byggir á fyrrgreindri synjun Fiskistofu og úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins frá 7. janúar s.l.
Vakin er sérstök athygli á því að í máls skjölum stefnanda eru þrír aðilar taldir eigendur og/eða umráðamenn að Stokksnesi RE-123 frá því að báturinn var keyptur frá Belize á árinu 1996 fram að stefnubirtingu málsins. V.H. viðskipti ehf virðast hafa keypt bátinn frá Belize og á veðbókarvottorði frá 23. mars 1999, sbr. dskj. nr. 10, er hann enn skráður eigandi hans (sic.). Einstaklingurinn Viðar Halldórsson kemur fram sem eigandi bátsins gagnvart Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneyti vegna umsóknar um veiðileyfi. Þriðji lögaðilinn, Eystrasalt ehf., höfðar síðan dómsmál þetta m.a. vegna synjunar Fiskistofu á erindi Viðars Halldórssonar um veiðileyfi fyrir bátinn í íslenskri lögsögu. Samspil þessara þriggja aðila er að engu leyti útskýrt í málinu og hefur stefndi í raun enga hugmynd um þátt og stöðu hvers og eins gagnvart sakarefninu."
II.
Af hálfu stefnanda segir að byggt sé á því að í núgildandi lögum sé einungis að finna eina lagareglu sem takmarkar rétt íslenskra borgara til að öðlast leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilögsögunni, en það sé 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, eins og henni var breytt með lögum nr. 1/1999. Áður en reglunni hafi verið breytt hafi þau skip ein getað fengið veiðileyfi sem hafi haft veiðireynslu á ákveðnu tímabili, að því gefnu að þau hefðu ekki horfið varanlega úr rekstri, auk skipa sem komu í stað þeirra skipa sem leyfi hafi fengið árið 1985. Þessi regla, sem verið hafði í 4. gr. upphaflegu laganna, hafi staðið í meginatriðum óbreytt frá 1985 til janúar 1999 og á henni hafi reglukerfi, sem hafði að markmiði að minnka þann flota sem stundaði veiðar í lögsögunni og gera hann hagkvæmari, verið byggð. Reglan hafi takmarkað endanlega, hvaða skip mættu veiða, og eftir reglunni hafi þeim einungis getað fækkað. Reglurnar um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og styrki til úreldingar fiskiskipa hafi alfarið grundvallast á þeim veruleika sem þáverandi 4. gr. fiskveiðistjórnarlaganna hafi skapaði. Með því að greiða mönnum fyrir að úrelda skip og taka þau úr rekstri, hafi verið hægt að fækka markvisst þeim skipum sem höfðu leyfi til veiða, af þeirri einföldu ástæðu að lögin hafi ekki gert ráð fyrir að veita mætti ný veiðileyfi. Grundvellinum hafi verið kippt undan þessu kerfi með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 145/1998. Niðurstaða Hæstaréttar í því máli hefði verið að 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna stangaðist á við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi borgaranna, sbr. einkum 65. og 75. gr. hennar. Dómur Hæstaréttar hafi þannig falið í sér að ástand það og lagaumhverfi sem umrædd lagagrein myndaði, hefði verið ólögmætt. Löggjafinn hafi brugðist við dómnum með lögum nr. 1/1999 sem breytt hafi 5. gr. laganna. Eftir breytinguna séu einu skilyrðin fyrir því að skip fái veiðileyfi, að það hafi haffærisskírteini og sé á skipaskrá auk þess sem eigendur þess verði að fullnægja þeim skilyrðum sem sett séu í lögum um heimild til veiða í lögsögu Íslands. Þetta sé eina gildandi lagareglan sem takmarkar atvinnufrelsið að þessu leyti.
Af hálfu stefnanda segir að hann reisi kröfur sínar á því að atvinnufrelsi hans verði ekki skert nema á grundvelli þeirra settu lagareglna sem nú séu í gildi. Hvorki löngu niðurfelldar lagareglur um Þróunarsjóð sjávarútvegsins né heldur samningar, sem aðilar ótengdir stefnanda gerðu einhvern tíma við sjóðinn, geti haft áhrif á réttarstöðu stefnanda að þessu leyti nú. Reglukerfið, í kringum 5. gr. fiskveiði-stjórnarlaganna og 8. gr. laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, hafi skapað ólögmætt ástand að mati Hæstaréttar. Þetta ólögmæta ástand, sem nú hafi verið fært til rétts vegar, geti ekki í dag ráðið réttindum stefnanda með þeim hætti sem stefndi haldi fram.
Af hálfu stefnanda er því mótmælt sérstaklega að réttindi hans verði skert á grundvelli einhverrar kvaðar sem stefndi segi að hvíli á skipinu. Hvorki í skipaskrá né í þinglýsingarbókum sé að finna nokkra heimild um að skipið hafi verið kvaðabundið enda hafi stefndi ekki haldið því fram að réttarvernd þessarar meintu kvaðar hafi verið tryggð. Að sjálfsögðu hafi óþinglýst kvöð ekkert gildi gagnvart grandlausum kaupanda eignar. Ekki hafi stofnast nein kvöð sem áhrif hafi á réttindi stefnanda sem eiganda skipsins.
Af hálfu stefnanda er því hafnað að samningur sá sem fyrri eigendur Stokksness gerðu við Þróunarsjóðs sjávarútvegsins geti bundið stefnanda á einhvern hátt. Eins og fram komi bæði í úrskurði ráðuneytisins og bréfi Fiskistofu, þá sé samningurinn bindandi fyrir þá aðila sem að honum stóðu, en stefnandi hafi ekki verið þeirra á meðal. Í samræmi við almennar reglur um stofnun loforða og skuldbindingargildi samninga, sé augljóst að samningur þessi getur ekki á nokkurn hátt bundið stefnanda eða takmarkað réttindi hans.
Af öllum framangreindum ástæðum er af hálfu stefnanda talið að ógilda beri úrskurð sjávarútvegsráðuneytisins og leggja eigi fyrir Fiskistofu að gefa út veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123 í fiskveiðilögsögu Íslands.
Af hálfu stefnanda er ítrekað að umsókn um veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123 hafi verið lögð inn í byrjun desember 1998. Óeðlilegur dráttur hafi orðið á svari Fiskistofu og sé nú svo komið að rekstrarstöðvun skipsins hafi varað lengi og að enn muni líða einhver tími þar til dómur gengur í máli þessu. Stefnandi reisi bótakröfu sína á því að ólögmæt synjun Fiskistofu á útgáfu veiðileyfisins muni hindra tekjuöflun Stokksness RE-123 í a.m.k. eitt og hálft ár. Stefnandi hafi gert rekstraráætlun fyrir skipið á sl. ári og hefði byggt hana bæði á gögnum úr útgerð áþekkra skipa og opinberum upplýsingum um aflareynslu og verð afurða. Áætlaðar rekstrartekjur af útgerðinni fyrstu tólf mánuðina nemi 123.000.000 krónum en áætlaður rekstrarkostnaður á sama tíma nemi 83.890.000 krónum. Afborganir af kaupverði skipsins nemi samkvæmt áætluninni 6.000.000 króna og þegar þær ásamt rekstrarkostnaði hafa verið dregnar frá áætluðum tekjum, standa eftir 33.110.000 krónur sem er hreint tekjutjón stefnanda miðað við tólf mánuði. Þegar tjónsfjárhæðin hefur verið færð upp miðað við 18 mánuði nemi hún 49.665.000 krónum sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Ákvörðun Fiskistofu um að hafna beiðni um veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123 og úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins um staðfestingu þeirrar ákvörðunar sé byggð á lagaheimildum sem numdar hafi verið úr lögum þegar ákvörðun Fiskistofu var tekin og úrskurður ráðuneytisins gekk auk þess sem ákvarðanir þessar hafi berlega farið í bága við gildandi rétt og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 145/1998. Með þessu hafi ráðuneytið og stofnun þess gert sig seka um saknæma og ólögmæta hegðun gagnvart stefnanda og valdið honum með hegðun sinni stórfelldu tjóni. Af hálfu stefnanda sé því talið að stefndi beri ábyrgð að lögum á öllu því tjóni sem ákvarðanir þessara aðila hafa valdið stefnanda og sé gerð krafa til þess að stefndi bæti honum það tjón að fullu.
Stefnukrafan sundurliðast nánar tiltekið þannig:
1. Áætlaðar heildartekjur í 18 mánuði frá byrjun janúar 1999 kr. 184.500.000.-
2. Frádráttur áætluð rekstrargjöld í 18 mánuði
Launakostnaður kr. 70.110.000.-
Olía kr. 12.150.000.-
Beita kr. 12.150.000.-
Veiðafæri kr. 7.380.000.-
Tryggingar kr. 3.750.000.-
Viðhald kr. 7.380.000.-
Hafnar og afgreiðslugjöld kr. 1.845.000.-
Stjórnunarkostnaður kr. 5.535.000.-
Ýmis kostnaður kr. 5.535.000.-
Áætluð rekstrargjöld Samtals kr. 125.835.000.-
3. Frádráttur áætl. afb. áhvílandi lána á 18 mánuðum kr. 9.000.000.-
Mismunur er heildartjón stefnanda kr. 49.665.000.-
III.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2 mgr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Stefndi hafi enga hugmynd um það hvernig stefnandi tengist máli þessu. Annað einkahlutafélag en stefnandi hafi flutt inn bátinn frá Belize og einstaklingurinn, Viðar Halldórsson, hafi krafist veiðileyfis fyrir bátinn og fylgt þeirri hagsmunagæslu eftir hjá Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneyti eins og um eiganda væri að ræða. Veðbókarvottorð á dskj. nr. 10 geri aðild máls þessa enn ruglingslegri en það segi eignarhald bátsins enn skráð á nafn innflutningsaðila vegna kaupanna 1996 frá Belize. Augljóslega sé hér um mismunandi lögaðila að ræða og innbyrðis samband þeirra óútskýrt. Beri því að sýkna á grundvelli 2. mgr. 16. gr. eml. nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda segir að úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu, um að synja Viðari Halldórssyni um veiðileyfi, sé byggður á lögmætum forsendum. Telja verði að hann sé byggður á skýrum lagafyrirmælum, sem í gildi hafi verið þegar ákvörðun um úreldingu var tekin, og loforði Goðaborgar hf. frá árunum 1994 og 1995 um að báturinn myndi aldrei aftur koma inn á íslenska skipaskrá sem fiskiskip. Þessar málsástæður eiga enn við því seinni eigendur geti ekki öðlast meiri rétt en Goðaborg hf. sem á sínum tíma samdi við Þróunarsjóð sjávarútvegsins á grundvelli ákvæða þágildandi laga og skilmála um forsendur úreldingarstyrks. Fráleitt sé því að krefjast ógildingar úrskurðar sjávarútvegs-ráðuneytis. Sömu sjónarmið eiga við um bótakröfu stefnanda.
Lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins nr. 92/1994 hafi verið í gildi þegar endurnýjunarréttur og veiðileyfi Stokksnes VE-700 var afsalað Þróunarsjóði sjávarútvegsins þann 17. febrúar 1995. Afsal endurnýjunarréttar og veiðileyfis bátsins hafi verið ætlað til þess að endanlega yrði komið í veg fyrir að báturinn gæti fengið veiðileyfi á ný. 8. gr. laganna hafi á þeim tíma hljóðað þannig:
"Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði sameinaðar aflaheimildum annarra skipa. Óheimilt er að greiða úreldingarstyrki fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá og yfirlýsing frá Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og fallið hefur verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess."
Orðalag ákvæðisins sé skýrt og skilyrðin augljós fyrir veitingu úreldingarstyrks. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi verið að finna í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins nr. 40/1990, sbr. lög nr. 65/1992. Markmið ákvæðisins hafi verið að draga úr afkastagetu fiskiskipaflotans þannig að skip sem fengu úreldingarstyrk myndu endanlega hverfa úr fiskiskipaflotanum. Með skilyrðum sem sett hafi verið fyrir greiðslu úreldingarstyrks hafi verið reynt að tryggja að markmið laganna myndi nást. Markmið laganna hafi ótvírætt gildi við túlkun þeirra í heild sem og einstakra ákvæða.
Af hálfu stefnanda sé byggt á því að með dómi frá 3. desember 1998, á bls. 4076 í dómasafni, hafi Hæstiréttur m.a. kippt grundvellinum undan 8. gr. laga nr. 92/1994, sem raunar hafi verið búið að fella úr gildi þegar dómurinn féll, sbr. lög nr. 152/1996. Því er mótmælt af hálfu stefnda að slíkar ályktanir verði dregnar af fyrrnefndum dómi. Þeirri fullyrðingu er einnig mótmælt að reglukerfið í kringum 5. gr. laga nr. 38/1990 og 8. gr. laga nr. 92/1994 hafi skapað ólögmætt ástand að mati Hæstaréttar. Aldrei hafi komið fram að Hæstiréttur telji 8. gr. laga nr. 92/1994 andstæða stjórnarskránni. Eðlismunur sé á 8. gr. laga nr. 92/1994 og 5. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 sem Hæstiréttur taldi stangast á við 65. og 75. gr. stjórnarskrár. Þegar veittur var styrkur til úreldingar fiskiskips hafi það verið gert á einkaréttarlegum grundvelli og með vitund og vilja styrkþega og skv. fortakslausum og óundanþægum skilyrðum sem lögin settu. Allt annað hafi verið uppi á teningnum þegar veitt voru veiðileyfi á grundvelli þágildandi 5. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna. Eðli máls samkvæmt hafi það ekki verið háð vilja þess sem sótti um veiðileyfi, hvort hann fengi það eða ekki, heldur hafi það byggst á lagaákvæðum sem sett hafi mörkin. Þær takmarkanir hafi Hæstiréttur talið andstæðar stjórnarskránni.
Þegar ákvæði 7. - 11. gr. laga nr. 92/1994 voru felld úr gildi með lögum nr. 152/1996, segir af hálfu stefnda að það hafi ekki verið gert í því skyni að skip er þegið höfðu úreldingarstyrk gætu fengið veiðileyfi aftur. Þvert á móti hafi ætlunin verið að skip, sem fengu úreldingarstyrk, myndu endanlega hverfa úr fiskiskipaflotanum eins og lög nr. 92/1994 og lögskýringargögn beri með sér. Það komi fram í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 152/1996 að Þróunarsjóði sjávarútvegsins hafi tekist vel að uppfylla þær væntingar sem gerðar voru til hans varðandi fækkun fiskiskipa. Því sé ljóst að markmið breytinganna hafi ekki verið að fá sömu skip í flotann aftur. Hlutverki sjóðsins hafi verið breytt og önnur markmið sett í stað hinna fyrri sem náðst höfðu. Það leiðir af eðli slíkra ákvæða, að þeim sé ekki ætlað að gilda um ókominn tíma heldur þar til markmiðum sem þau stefna að er náð. Réttaráhrif úreldingarstyrkja haldast áfram þótt viðeigandi lagaákvæði falli niður eða breytist. Það sé meginregla í íslenskum rétti að lögum verður ekki beitt á afturvirkan hátt nema þau sjálf mæli svo um og því geti brottfall 7. - 11. gr. laga nr. 92/1994, sbr. lög nr. 152/1996 ekki skipt máli varðandi atvik þessa máls. Öðru kynni að gegna hefði ákvæði 8. gr. verið fellt úr gildi sakir einhvers ólögmæts ástands sem ákvæðið kynni að hafa skapað. Slíku væri hins vegar ekki til að dreifa hér.
Af hálfu stefnda segir að engin lagaskylda hefði hvílt á stefnda að þinglýsa úreldingarstyrk sem kvöð á fiskiskip þegar úreldingarstyrkur var veittur vegna Stokksness. Í þessu samhengi megi benda á, að með 10. gr. laga nr. 92/1994 hafi stjórn Þróunarsjóð sjávarútvegsins verið veitt heimild til að festa kaup á fiskvinnslustöðvum í sama tilgangi og fólust í úreldingu fiskiskipa. Í 2. mgr. 10. gr. laganna komi fram skylda til að þinglýsa þeirri kvöð á þær fasteignir sem keyptar væru að þær yrðu ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi. Með samanburðarskýringu á 8. og 10. gr. laga nr. 92/1994 leiði að óskylt hefði verið að þinglýsa úreldingarstyrk á fiskiskip.
Af hálfu stefnanda sé ályktað að samningur sem Goðaborg hf. gerði við Þróunarsjóð sjávarútvegsins bindi eingöngu Goðaborg hf. sem fyrri eiganda en ekki stefnanda. Ljóst sé, með hliðsjón af tilgangi og markmiðum laganna, að slíkur samningur um úreldingarstyrk sé óhjákvæmilega bundinn við skipið sjálft um aldur og ævi. Markmið laganna hafi verið að stuðla að raunhæfri fækkun skipa í fiskiskipaflotanum en ekki að losna við ákveðna einstaklinga úr fiskveiðistéttinni. Nýir eigendur fiskiskipa geti ekki öðlist meiri rétt en fyrri samningsaðilar Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.
Af hálfu stefnda er því mótmælir að ákvæði jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotið í því tilviki sem hér um ræðir svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda. Eigandi Stokksnes VE-700 hafi gengið til samninga af fúsum og frjálsum vilja og samið um að skipið hyrfi um ókomna tíð úr fiskiskipaflota Íslands. Fyrir þennan samning hafi hann þegið umtalsverðar fjárhæðir. Ekki hafi verið sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni við setningu og beitingu 8. gr. laga nr. 92/1994. Ekki hafi heldur verið gengið á réttindi núverandi eiganda Stokksness með því að mismuna honum og öðrum sem eins er ástatt um. Því sé einnig mótmælt að atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Þó að heimildir til veiðileyfa hafi verið rýmkaðar með lögum nr. 1/1999 sé ljóst að veiting veiðileyfis vegna Stokksnes RE-123 geti aldrei komið til álita.
Dómkröfu stefnanda nr. 2 um að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út veiðileyfi fyrir Stokksnes RE- 123 er mótmælt af hálfu stefnda sem ódómtækri. Krafa þessi falli utan ramma valdsviðs dómstóla og ætti að vísa frá ex officio. Dómstóll sé ekki stjórnvald og geti ekki gengið inn í hlutverk þeirra. Dómstóll dæmi um lögmæti stjórnvaldsákvarðana en tekur ekki slíkar ákvarðanir né framkvæmir þær.
Tölulegri kröfugerð stefnanda er mótmælt af hálfu stefnda sem einhliða, órökstuddri og þar með ósannaðri. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda til stuðnings kröfunni. Engar forsendur séu því fyrir stefnda til að fjalla um einstaka liði kröfugerðarinnar. Verði því að nægja að mótmæla henni alfarið.
Af hálfu stefnda er ályktað að bótakrafa stefnanda sé byggð á almennum reglum skaðabótaréttarins utan samninga, þ.e. væntanlega á sakarreglunni. Því sé mótmælt að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða sem leitt getur til bótaskyldu. Samkvæmt skýrum lagafyrirmælum hafi stefnda borið að hafna beiðni um veiðileyfi fyrir Stokksnes RE-123. Bótakrafan uppfyllir því ekki almenn skilyrði sakarreglunnar.
IV.
Framkvæmdastjóri stefnanda, Viðar Halldórsson, aðilaskýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að hann hefði ásamt nokkrum félögum sínum keypt mótorbátinn Stokksnes. Þeir hefðu haft áhuga á að kaupa sér bát eða skip til að reka. Hafi hann farið af stað í árslok 1995 og í byrjun árs 1996 og kannað málið. Að lokum hafi þeim verið boðinn þessi bátur og hefðu þeir keypt hann snemma árs 1996. Í framhaldi af því hafi hann stofnað hlutafélag, VH. viðskipti, sem afsalið hefði verið gefið út á. Hann sagði að síðan hafi verið byrjað að gera við bátinn en ýmsu öðru sinnt í leiðinni. Báturinn hafi verið skráður árið 1998, bæði hjá sýslumanni og siglingastofnun. Síðan hefðu þeir félagar stofnað félag að nafni Eystrasalt og keypt bátinn með afsali frá VH. viðskiptum ehf. yfir til Eystrasalts ehf. í maí 1999. Hann sagði að þeir væru með önnur skip í útgerð hjá Eystrasalti ehf.
Viðar sagði að upphaflegar fyrirætlanir hefðu verið að koma skipinu til veiða þar sem best hentaði hvort sem það yrði hér við land eða annars staðar í heiminum. Hann sagði að mikið hefði verið gert fyrir skipið, meira en upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. Til dæmis hefði þurft að skipta um vél en ekki hefði verið reiknað með því er skipið var keypt. Ætlunin hefði verið að koma skipinu í haffært ástand og síðan á veiðar.
Viðar kvaðst aðspurður hafa keypt skipið af fyrirtæki, sem skráð sé í Belize, en á þeim tíma hafi skipið verið statt á Fáskrúðsfirði. Hann sagði, er gengið var frá kaupum, að þá hafi ekkert komið fram um forsögu skipsins nema að það hefði verið afskráð af íslenskri skipaskrá. Engar frekari upplýsinga hefðu komið fram frá seljanda. Ekki hefði verið upplýst um að skipið hefði verið úrelt. Kvaðst hann aðspurður ekki hafa þekkt, á þeim tíma er hann keypti skipið, yfirlýsingar af hálfu Goðaborgar hf. varðandi úreldingu skipsins. Hann hefði ekkert samband haft við eigendur Goðaborgar hf. áður en hann keypti skipið.
Viðar sagði að hvorki hjá sýslumanni né siglingamálastofnun hefði komið fram að einhverjar kvaðir hvíldu á skipinu. Hann sagði að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki gert athugsemdir við það að hann hefði persónulega sótt um veiðileyfi fyrir skipið.
Lagt var fyrir Viðar dskj. nr. 11 og sagði hann að þetta væri rekstraráætlun fyrir skipið sem gerð hefði verið 1999. Kvaðst hann hafa gert þessa áætlun sjálfur og byggt hana á afla hinna ýmsu línubáta, bæði væri um að ræða kvótategndan fisk og fisk utan kvóta. Kostnaðinn kvaðst hann hafa miðað við algeng hlutföll kostnaðar af aflaverðmæti skv. upplýsingum sem hann hefði aflað frá hinum og þessum.
Viðar sagði að hann hefði keypt skipið af North Ocean gegnum Hrafnkel Ásgeirsson lögmann en fulltrúi seljanda hefði verið Svanur Þór Vilhjálmsson.
V.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999 er veiting leyfa til veiða í atvinnuskyni bundin við fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Eigendur og útgerð skipanna verða og að fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands svo sem nánar er þar kveðið á um. Eignarréttur stefnanda að mótorbátnum Stokksnes RE-123 hefur verið skýrð af framkvæmdastjóra stefnanda fyrir réttinum. Ekki eru efni til að draga í efa það sem þar kemur fram. Verður því að hafna kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildaskorts stefnanda.
Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 12/2000 segir m.a. í forsendum: „Lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 er ekki markaður tiltekinn gildistími, eins og í fyrrnefndum eldri lögum ... Með þeirri skipan á fiskveiðistjórn, sem nú er við lýði, eiga þeir, sem hafa byrjað útgerð eftir fyrrgreint viðmiðunartímabil eða vilja auka aflaheimildir sínar, ekki kost á því að fá úthlutað nýjum heimildum í stofnum, sem bundnir eru heildaraflatakmörkunum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999, getur hver sá íslenskur ríkisborgari, sem ræður yfir skrásettu fiskiskipi með haffærisskírteini, hins vegar sótt um almennt veiðileyfi og nýtt sér heimildir í 1. mgr. 7. gr. fyrrnefndu laganna til veiða á tegundum, sem ekki lúta heildaraflatakmörkunum. Hann getur að auki fengið aflaheimildir í þeim tegundum, sem sæta slíkum takmörkunum, með kaupum á varanlegri aflahlutdeild eða aflamarki til tiltekins tíma ..."
Lög nr. 1/1999 öðluðust gildi 14. janúar 1999. Í gildandi lögum er þess ekki getið að ekki megi veita veiðileyfi út á skip, er tekin hafi verið af skipaskrá, sbr. 7.- 11. gr. laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins svo sem lagaákvæðin voru uns þau féllu á brott með lögum nr. 152/1996, og fyrri eigendur þeirra hafa fengið styrk út á til úreldingar. Óhjákvæmilegt er að kveðið sé á um það í gildandi lögum, að atvinnuréttindi grandlausra eigenda slíkra skipa sé takmarkaður á sama hátt og áður var, til að það gildi til frambúðar. Þá verður stefnandi heldur ekki bundinn við samning, sem forsvarsmenn hans hafa ekki átt aðild að, og ekki hefur verið þinglýstur sem kvöð á skipinu.
Samkvæmt framangreindu verður úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 7. janúar 2000, um að ákvörðun Fiskistofu, að hafna beiðni um veitingu veiðileyfis í atvinnuskyni fyrir Stokksnes RE-123, skuli standa óhögguð, dæmdur ógildur. Kröfu stefnanda um að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út umbeðið leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi verður hins vegar vísað frá dómi.
Af hálfu stefnanda er stefndi sóttur um skaðabætur vegna tjóns, sem af hálfu stefnanda er talið að hann hafi orðið fyrir vegna umdeildrar ákvörðunar stjórnvalda. Í stefnu er gerð grein fyrir fyrir kröfufjárhæðinni. Framkvæmdastjóri stefnanda hefur fyrir réttinum sagt hvernig hún er hugsuð. Er hún byggð á áætlunum af hálfu framkvæmdastjórans án þess að hlutlaus aðili hafi komið þar að málum. Þykir því ekki unnt að leggja hana í heild til grundvallar í málinu. Hins vegar þykir nægilega í ljós leitt að stefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagstjóni sökum ólögmætrar synjunar stjórnvalda á veiðileyfi er hér um ræðir. Þykir mega ákvarða bætur til stefnanda að álitum og eru þær hæfilega ákveðnar 30.000.000 króna með vöxtum, eins og segir í dómsorði.
Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins, frá 7. janúar 2000 um að ákvörðun Fiskistofu, að hafna beiðni um veitingu veiðileyfis í atvinnuskyni fyrir Stokksnes RE-123, skuli standa óhögguð, skal vera ógildur.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Eystrasalti ehf., 30.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 2000 til greiðsludags.
Krafa stefnanda, um að dómurinn leggi fyrir Fiskistofu að gefa út leyfi fyrir Stokksnes RE-123 til veiða í atvinnuskyni í aflamarkskerfi, er vísað frá dómi.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.