Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/2001


Lykilorð

  • Peningaþvætti
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hilming


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. nóvember 2001.

Nr. 241/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Guðmundi Kristjáni Guðbjörnssyni

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.)

 

Peningaþvætti. Ávana- og fíkniefni. Hilming.

G var ásamt tveimur meðákærðu sakaður um að hafa komið undan um 8.500.000 krónum, sem var ávinningur af fíkniefnaviðskiptum. Upphaf brots þessa var með tilviljanakenndum hætti og ljóst virtist vera, að frumkvæðið að meðferð fjárins hefði komið frá meðákærðu. Atvik málsins þóttu ótvírætt benda til þess að G hefði gert sér grein fyrir því að umræddir fjármunir væru illa fengnir og tengdust fíkniefnaviðskiptum. G hafði engu að síður unnið að því með meðákærðu að koma fénu undan. Féll háttsemi hans undir hugtakið peningaþvætti og lýsingu brots í ákæru. G var einnig sakfelldur fyrir hilmingarbrot og fíkniefnabrot. Var refsing hans ákveðin fyrir öll brotin í einu lagi samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af málsatvikum og löngum sakarferli G þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði. G var og gert að sæta upptöku á 100.000 krónum, jafnvirði þeirrar fjárhæðar sem hann hafði aflað með broti sínu, auk þess sem upptæk voru gerð fíkniefni sem fundust við leit lögreglu á heimili hans og ýmsir munir sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 30. apríl 2001 að ósk ákærða, en sex dómfelldra í héraði una héraðsdómi. Af hálfu ákæruvalds var jafnframt áfrýjað að því er ákærða einan varðar til staðfestingar á sakfellingu og ákvæðum á upptöku en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru fyrir peningaþvætti og hilmingu svo og af upptökukröfu samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara að refsing verði milduð og höfð skilorðsbundin.

Málavöxtum er ítarlega lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram er ákærði í 1. tl. I. kafla ákæru sakaður um, ásamt tveimur meðákærðu, að hafa komið undan um 8.500.000 krónum, sem var ávinningur af fíkniefnaviðskiptum. Upphaf brots þessa var með tilviljanakenndum hætti og ljóst virðist vera, að frumkvæðið að meðferð fjárins hafi komið frá meðákærðu. Ákærði var engu að síður virkur þátttakandi í öllu framhaldinu. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum lið ákæru.

Þá ber einnig með vísan til forsendna héraðsdóms að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða samkvæmt II. og IV. kafla ákæru, svo og ákvæði hans um upptöku.

Með hliðsjón af því, að ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir hilmingu og brot á lögum um ávana- og fíkniefni, auk peningaþvættis, þykir refsiákvörðun héraðsdóms hæfileg.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar ákærða Guðmund Kristján Guðbjörnsson.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2001.

Aðalmeðferð máls þessa fór fram dagana 19. til 22. janúar sl. og var málið dómtekið að honum loknum en endurupptekið 28. febrúar sl. og dómtekið sama dag.  Það er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra hinn 22. maí 2000 á hendur Bergljótu Karlsdóttur, kennitala 221130-4489, Teigaseli 1, Reykjavík, Finni Sverri Magnússyni, kennitala 060166-3159, Seilugranda 5, Reykjavík, Guðmundi Kristjáni Guðbjörnssyni, kennitala 141258-4439, Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysu­strandar­hreppi, Ingibjörgu Auði Finnsdóttur, kennitala 200256-2479, Dísaborgum 7, Reykjavík, Sigurði Hólm Guðbjörnssyni, kennitala 130253-2889, Hrísmóum l, Garðabæ, Sigurlaugu Björk Finnsdóttur, kennitala 250861-5249, Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, og Sólveigu Ósk Óskarsdóttur, kennitala 110870-5159, Írabakka 26, Reykjavík.

Á hendur Bergljótu Karlsdóttur, Finni Sverri Magnússyni, Guðmundi Kristjáni Guðbjörnssyni, Ingibjörgu Auði Finnsdóttur, Sigurði Hólm Guðbjörnssyni, Sigurlaugu Björk Finnsdóttur og Sólveigu Ósk Óskarsdóttur, fyrir peningaþvætti á árinu 1999 svo sem hér er rakið.

l. Ákærðu Finni Sverri, Guðmundi Kristjáni og Sólveigu Ósk er gefið að sök:

Að hafa í kjölfar leitar lögreglu á heimili Ólafs Ágústs Ægissonar, kt. 141072-3079, og ákærðu Sólveigar Óskar, að Írabakka 26, Reykjavík, hinn 10. september, þar sem Ólafur Ágúst var handtekinn og færður í fangelsi, vegna rannsóknar á hendur honum fyrir ætlaða aðild að stórfelldu fíkniefnabroti, komið undan um 8.500.000 krónum í reiðufé í íslenskum krónum og hollenskum gyllinum sem falið var undir rúmdýnu í hjónarúmi og var ávinningur Ólafs Ágústs og fleiri af fíkniefnaviðskiptum. Peningana notuðu þau í eigin þágu eða ráðstöfuðu til annarra en lögregla lagði hald á 100.000 krónur og 41.000 hollensk gyllini sem var hluti 8.500.000 króna.

2. Ákærðu Sigurlaugu Björk er gefið að sök:

Að hafa um 17. október tekið við, frá meðákærða Guðmundi Kristjáni, 23.000 hollenskum gyllinum, jafnvirði rúmlega 780.000 króna sem hún vissi að var ávinningur fíkniefnasölu og falið á heimili þeirra, Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysuströnd, þar til hún afhenti lögreglu peningana hinn 4. nóvember.

3. Ákærðu Bergljótu er gefið að sök:

Að hafa hinn 11. september tekið við frá meðákærða Guðmundi Kristjáni um 36.500 hollenskum gyllinum, á heimili sínu, Teigaseli 1 í Reykjavík, sem hún vissi að var ávinningur af fíkniefnasölu og falið peningana á heimili sínu þar til meðákærði Guðmundur Kristján sótti þá um 25. september.

4. Ákærðu Ingibjörgu Auði er gefið að sök:

Að hafa móttekið, eftir miðjan september, frá meðákærðu Bergljótu á heimili hennar um 33.000 hollensk gyllini sem hún vissi að var ávinningur fíknefnaviðskipta. Peningana geymdi hún þar til hún afhenti þá samkvæmt fyrirmælum frá meðákærða Finni Sverri hinn 19. október.

5. Ákærða Sigurði Hólm er gefið að sök:

Að hafa tekið við, hinn 11. september á heimili sínu, frá meðákærða Guðmundi Kristjáni, um 36.500 hollenskum gyllinum og síðar í sama mánuði, við bensínstöðina við Snorrabraut, um 36.500 hollenskum gyllinum. Peningana sem ákærði mátti vita að voru ávinningur fíkniefnasölu geymdi hann fyrir meðákærða Guðmund Kristján fram í miðjan októbermánuð þegar hann afhenti Guðmundi Kristjáni féð aftur.

II. Á hendur Guðmundi Kristjáni Guðbjörnssyni fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni.

Ákærða Guðmundi Kristjáni er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum 127,97 g af hassi og 7,08 g af marihuana sem fannst við leit á heimili hans í Fagradal 12, Vogum, hinn 24. október 1999.

III. Á hendur Finni Sverri Magnússyni fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni.

Ákærða er gefið að sök að hafa á höfuðborgarsvæðinu í júlí til september 1999 haft milligöngu um kaup á 50 g af amfetamíni, 52 g af kókaíni og 30 g af hassi, af Ólafi Ágústi Ægissyni, kt. 141072-3079.

IV.Á hendur Guðmundi Kristjáni Guðbjörnssyni fyrir hylmingu.

Með því að hafa haft í vörslum sínum vélsleða af gerðinni Artic Cat Pantera 800, skráningarnúmer UY-397, árgerð 1997, sem stolið var af bifreiðastæði við íbúðarhús að Funafold 95, Reykjavík, hinn 8. mars 1999, sem fannst í bílskúr við heimili hans að Fagradal 12, Vogum, við leit hinn 24. október 1999.

V. Heimfærsla til refsiákvæða.

Háttsemi ákærðu Bergljótar, Finns Sverris, Guðmundar Kristjáns, Ingibjargar Auðar, Sigurlaugar Bjarkar og Sólveigar Óskar skv. lið I telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og 141. gr. laga nr. 82/1998.

Háttsemi ákærða Sigurðar Hólm skv. lið I.5 telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., sbr. 1. ml. 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og 141. gr. laga nr. 82/1998.

Háttsemi ákærða Guðmundar Kristjáns skv. lið II telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986.

Háttsemi ákærða Finns Sverris skv. lið III telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. auglýsingu nr. 84/1986 hvað varðar meðferð hans á amfetamíni og auglýsingu nr. 314/1981 hvað varðar meðferð hans á kókaíni.

Háttsemi ákærða Guðmundar Kristjáns skv. lið IV telst varða við l. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.  Dómkröfur.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.

2. Þess er krafist að ákærðu Finni Sverri, Guðmundi Kristjáni og Sólveigu Ósk verði með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gert að sæta upptöku á kr. 6.983.733 in solidum, en til vara pro rata að mati dómsins.

3. Þess er krafist að eftirtalin fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:

127,97 g af hassi og 7,08 g af marihuana sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999.

4. Þess er krafist að eftirtaldir munir sem taldir eru hafa verið notaðir eða ætlaðir til ólögmætrar meðferðar fíkniefna og lagt var hald á við rannsókn málsins verði gerðir upptækir skv. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:

a) Grammavog sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999.

Tölvugrammavog, Tanita model 1220, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999.

Málmspegill í hulstri sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999.

5. Þess er krafist að eftirtalin ólögmæt vopn sem lagt var hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk samkvæmt 1. mgr. 37. gr., sbr. a-lið 2. mgr. 30. gr., vopnalaga nr. 16/1998:

a) Hnífur í leðurhulstri, 16,5 cm blaðlengd, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999.

Af hálfu ákærðu Bergljótar Karlsdóttur er þess krafist að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa.  Verjandi krefst hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Af hálfu ákærða Finns Sverris Magnússonar er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa.  Komi til frelsissviptingar verði dreginn frá sá tími sem hann sætti gæsluvarðhaldi frá 21. október 1999 til 22. nóvember sama ár. Verjandi krefst hæfilegar málsvarnarlauna að mati dómsins.

Af hálfu ákærða Guðmundar Kristjáns Guðbjörnssonar er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 25. október til 9. nóvember 1999, 16 dagar, komi til frádráttar dæmdri refsingu. Þá er til vara varðandi upptökukröfu krafist að hún verði stórlega lækkuð og enn fremur að hún verið dæmd pro rata. Verjandi krefst málsvarnarlauna og launa á rannsóknarstigi samkvæmt framlögðu tímayfirliti.

Af hálfu ákærðu Ingibjargar Auðar Finnsdóttur er þess krafist að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi krefst hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Af hálfu ákærða Sigurðar Hólm Guðbjörnssonar er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og verði frelsissvipting dæmd þá verði hún skilorðsbundin.  Verjandi krefst þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun hans að mati dómsins.

Af hálfu ákærðu Sigurlaugar Bjarkar Finnsdóttur er þess krafist að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi krefst málsvarnarlauna og launa á rannsóknarstigi samkvæmt framlögðu tímayfirliti.

Af hálfu ákærðu Sólveigar Óskar Óskarsdóttur er þess krafist að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að henni verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald sem ákærða sætti frá 5. til 8. nóvember 1999. Verjandi krefst hæfilegra málsvarnarlauna, þar með talið fyrir störf verjanda meðan á rannsókn málsins stóð samkvæmt framlögðu tímayfirliti.

Leiðrétting var gerð við aðalmeðferð málsins á síðustu línu 2. tl. I. ákæruliðar með því að “5. nóvember” var breytt í “4. nóvember” og er setningarhlutinn þannig breyttur: “þar til hún afhenti lögreglu peningana þann 4. nóvember.”

Þá féll ákæruvaldið frá hluta krafna í III. ákærulið. Upphaflega hljóðaði ákæruliðurinn svo: “Ákærða er gefið að sök að hafa á höfuðborgarsvæðinu í júlí 1999 haft milligöngu um kaup á samtals a.m.k. 5 kg af hassi og auk þess í júlí til september sama ár a.m.k. 10 MDMA (3,4 Metylendíoxýmetamfetamín) töflur, 50 g af amfetamíni, 52 g af kókaíni og 30 g af hassi, af Ólafi Ágústi Ægissyni, kt. 141072-3079.” Fallið var frá refsikröfu varðandi 5 kg af hassi og 10 MDMA töflur. Ákæruliðurinn hljóðaði þannig eftir breytinguna: “Ákærða er gefið að sök að hafa á höfuðborgarsvæðinu í júlí til september 1999 haft milligöngu um kaup á 50 g af amfetamíni, 52 g af kókaíni og 30 g af hassi, af Ólafi Ágústi Ægissyni, kt. 141072-3079.”

Málsatvik og málsástæður

Mál þetta varðar aðallega meinta aðild ákærðu ýmist að því að koma undan eða geyma peninga sem taldir eru ágóði af fíkniefnasölu. Hinn 10. september 1999 var Ólafur Ágúst Ægisson handtekinn og húsleit gerð á heimili hans á Írabakka 26, Reykjavík. Tilefnið var grunur um stórfelld fíkniefnabrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í sakamálinu S-774/2000, sem kveðinn var upp 27. júní 2000, var Ólafur Ágúst sakfelldur og var dóminum ekki áfrýjað af hans hálfu. Við meðferð þess máls viðurkenndi hann að hafa falið 8.500.000 til 10.000.000 króna undir rúmdýnu í hjónarúmi á heimili sínu, sem hann hafði skömmu áður tekið við frá Sverri Þór Gunnarssyni, sem var sakfelldur í sama máli. Sverrir Þór áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms að hluta til Hæstaréttar, en með dómi Hæstaréttar hinn 22. febrúar 2001, mál nr. 312/2000, var héraðsdómurinn staðfestur um þau atriði sem hér kunna að skipta máli. Við húsleitina yfirsást leitarmönnum að skoða undir rúmdýnuna og fundust þessir peningar því ekki þá. Húsleitin hófst kl. 21.05, en hurð að íbúðinni hafði verið brotin upp kl. 20.30, en síðan lokað aftur. Leitinni lauk kl. 00.08 og ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir, sambýliskona Ólafs Ágústs, hafði komið á staðinn að tilmælum lögreglunnar og tekið við lyklum kl. 00.20. Leitinni var stjórnað af Sólbergi Svani Bjarnasyni rannsóknarlögreglumanni, en Runólfur Þórhallsson rannsóknar­lögreglumaður boðaði Sólveigu Ósk á staðinn og kynnti fyrir henni, samkvæmt framburði hans fyrir dóminum, að þar hefði farið fram húsleit vegna fíkniefnamáls og að rannsóknin beindist að Ólafi Ágústi.

Sólveig Ósk hringdi í ákærða Finn Sverri Magnússon þegar lögreglan var farin og sagði honum að Ólafur Ágúst hefði verið handtekinn og húsleit gerð á heimili þeirra. Fyrr um kvöldið hafði Finnur Sverrir hringt í Sólveigu Ósk til þess að spyrja um Ólaf Ágúst. Finnur Sverrir og Ólafur Ágúst höfðu rekið saman fyrirtæki í fjögur til fimm ár samkvæmt framburði Finns Sverris fyrir dóminum. Hann hafði byrjað reksturinn 1995 og Ólafur Ágúst komið inn síðar. Keyptu þeir notaða bíla, gerðu þá upp og endurseldu. Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson hafði unnið fyrir þá um nokkurt skeið. Hann er kvæntur uppeldissystur Finns Sverris, sem jafnframt er móðursystir hans. Finnur Sverrir er alinn upp hjá ömmu sinni, ákærðu Bergljótu. Guðmundur Kristján er giftur ákærðu Sigurlaugu Björgu Finnsdóttur, sem er móðursystir og uppeldissystir Finns Sverris og dóttir ákærðu Bergljótar, ákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttir er einnig dóttir Bergljótar og systir Sigurlaugar Bjarkar og Finns Sverris. Ákærði Sigurður Hólm Guðbjörnsson er bróðir Guðmundar Kristjáns.

Finnur Sverrir hringdi, í framhaldi af samtali við Sólveigu Ósk, í Guðmund Kristján sem ók til Reykjavíkur frá Vogum á Vatnsleysuströnd til þess að sækja Finn Sverri, og saman fóru þeir heim til Sólveigar Óskar. Þau fóru saman úr íbúðinni stuttu síðar með þann hluta peninganna sem var í íslenskum gjaldmiðli, en Guðmundur Kristján kom aftur sömu nótt og fjarlægði erlendu peningana. Daginn eftir skipti hann erlendu peningunum í tvo hluta og fór með annan hlutann að tilmælum Finns Sverris til ákærðu Bergljótar, en hinn hlutann til bróður síns Sigurðar Hólm og bað þau að geyma. Ákærðu Bergljótu, sem vissi að þetta voru peningar, var ekki rótt að vera með þá undir höndum, ráðfærði sig við dóttur sína Ingibjörgu Auði, sem kom og tók hluta þeirra í sína vörslu, en afganginn tók Guðmundur Kristján aftur að beiðni Bergljótar og bað bróður sinn Sigurð Hólm einnig að geyma þann pakka. Guðmundur Kristján sótti peningana til Sigurðar Hólm um miðjan október sama ár. Hann fór tvisvar með hluta fjárins til Finns Sverris, skipti þrisvar hluta yfir í íslenskar krónur fyrir Finn og sjálfan sig og geymdi loks sjálfur hluta, sem falinn var á heimili þeirra Sigurlaugar Bjarkar. Ingibjörg Auður fór með það fé sem hún geymdi til Theódóru G. Rafnsdóttur, tengdamóður Finns Sverris, og sótti hann það þangað sjálfur og var hann handtekinn með hluta þess.

Ákærðu er öllum gefið að sök að hafa tekið þátt í peningaþvætti, en að auki eru Finnur Sverrir og Guðmundur Kristján ákærðir fyrir fíkniefnabrot og Guðmundur Kristján fyrir hylmingu.

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af ákærðu, vitnunum Ólafi Ágústi Ægissyni, Sverri Þór Gunnarssyni, Lárusi Borgari Jónssyni, Arnari Frey Símonarsyni, Theódóru G. Rafnsdóttur, Arnari Jenssyni, Arnari Rúnari Marteinssyni, Árna Gunnarssyni, Baldvin Einarssyni, Sólbergi Svani Bjarnasyni, Þórbirni Sigurðssyni, Runólfi Þórhallssyni, Kristni Sigurðssyni og Gunnari Vali Jónssyni.

Verður nú fjallað um sakarefnin eins og þau eru sett fram í ákæru.

Ákæruliður I.1

Í þessum ákærulið er ákærðu Sólveigu Ósk Óskarsdóttur, Finni Sverri Magnússyni og Guðmundi Kristjáni Guðbjörnssyni gefið að sök að hafa hinn 10. september 1999 í kjölfar leitar lögreglu á heimili Ólafs Ágústs Ægissonar og Sólveigar Óskar að Írabakka 26, Reykjavík, þar sem Ólafur Ágúst var handtekinn og færður í fangelsi vegna rannsóknar á hendur honum fyrir ætlaða aðild að stórfelldu fíkniefnabroti, komið undan um átta og hálfri milljón króna í reiðufé í íslenskum og hollenskum gjaldmiðli, sem falið var undir rúmdýnu í hjónarúmi og var ávinningur Ólafs Ágústs og fleiri af fíkniefnaviðskiptum. Peningana eru þau sökuð um að hafa notað í eigin þágu eða ráðstafað til annarra. Lögregla lagði hald á 100.000 krónur og 41.000 hollensk gyllini sem var hluti af þessu fé.

Ákærða Sólveig Ósk var á þessum tíma sambýliskona Ólafs Ágústs, og bjuggu þau að Írabakka 26 í Reykjavík. Þegar húsleitin var gerð var Sólveig Ósk ekki heima, en að henni lokinni hafði lögreglan upp á henni þar sem hún var með starfsfélögum sínum á skemmtistað. Vitnið Runólfur Þórhallsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa tekið þátt í húsleitinni. Hann kvaðst hafa leitað í eldhúsi og geymslu og síðan hefði hann haft símasamband við Sólveigu og beðið hana um að koma upp í Írabakka. Þar hefði hann afhent henni lykla að íbúðinni og einnig hefði verið leitað í bifreið Sólveigar. Þegar hann hringdi í hana kvaðst hann hafa kynnt sig, tjáð henni hvað hann starfaði og ástæðu þess að hann var staddur á heimili hennar. Nánar spurður um þetta, kvaðst hann sjálfur vera vanur, í tilvikum sem þessum, að kynna sig sem lögreglumann í fíkniefnadeild og gera það alltaf í símtölum bæði við sakborninga og vitni og við þá sem hann þyrfti að eiga samskipti við í starfanum. Þegar Sólveig Ósk kom á staðinn kvaðst hann hafa sýnt henni lögregluskilríki sín og úrskurð þess efnis að þeir væru við húsleit þarna vegna fíkniefnamáls sem beindist á þeim tíma að Ólafi Ágústi en ekki að ákærðu Sólveigu Ósk. Hann kvaðst ekki hafa farið nánar út í það en leitin hefði fyrst og fremst beinst að því að finna hugsanleg fíkniefni. Einnig hefði verið lögð áhersla á að finna gögn, pappíra varðandi ýmis viðskipti, m.a. gjaldeyrisviðskipti, peninga og annað. Ef peningar hefðu fundist þá hefðu þeir verið haldlagðir. Hann kvað Sólveigu hafa verið ölvaða.

Ákærða Sólveig Ósk skýrði svo frá fyrir dóminum að hún hefði verið úti að borða með vinnufélögum sínum þetta kvöld og  Finnur Sverrir hefði verið    hringja í sig allt kvöldið og spyrja um Gústa, en hún hefði sagt að hún hefði ekki hugmynd um hann. Þau vinnufélagarnir hefðu svo verið að fara á krá þegar lögreglan hefði hringt og beðið hana að koma heim því þeir vildu láta hana hafa lykil að húsdyrunum svo hún kæmist inn. Hún hefði farið heim, þeir hefðu rétt henni lykil og fengið að leita í bílnum hennar og síðan hefðu þeir farið. Hún kvaðst ekki vita að hverju þeir leituðu í bílnum. Spurð hvernig þessir menn hefðu gert grein fyrir sér, kvað hún þá hafa sagst vera lögregluna – “eða hvort þeir sögðust vera fíkniefnalögreglan.” Hún kvaðst hafa verið alveg dauðadrukkin og ekki vera alveg viss hvort þeir sögðust vera lögreglan eða fíkniefnalögreglan. Hún kvaðst ekki muna hvort þeir gerðu henni grein fyrir að þeir væru búnir að gera leit á heimilinu og handtaka Ólaf, en taldi að þeir hlytu að hafa gert það fyrst þeir voru að láta hana fá lykil að heimili hennar. Hún kvað hafa verið hrikalegt umhorfs í íbúðinni og hún hefði fengið áfall þegar hún fór inn í barnaherbergið. Litlum hvítum pokum hefði verið raðað þvert yfir barnarúmið í herbergi dóttur hennar og hefði henni fundist þetta vera niðurlægjandi fyrir barnið. Það hefði allt verið í rúst inni í barnaherberginu. Hún kvaðst hafa hringt í Finn af því hann hefði verið að hringja allt kvöldið og spyrja um Gústa og hún hefði látið hann vita af því að lögreglan væri búin að taka hann og hefði verið þarna á heimilinu. Finnur hefði sagst skyldu koma og róa hana niður. Síðan hefði hún farið inn í svefnherbergið og þá hefði verið búið að rústa öllu þar, sængin og lakið af rúminu hennar, allt úti í horni. Í einhverju svona móki hefði hún tekið lakið, lyft dýnunni, sem hefði verið á rúminu, og ætlað að setja lakið á, og þá hefðu peningar blasað við henni undir dýnunni. Henni hefði dauðbrugðið og sleppt dýnunni aftur. Hún hefði séð plast yfir einhverjum peningum eða glæra poka eins og hafðir eru fyrir ávexti í verslunum, á sekúndubroti eða svo. Hún hefði séð að sumt voru íslenskir peningar, en henni hefði sýnst að eitthvað, sem var í þessum pokum, væri gjaldeyrir. Hún kvaðst ekki hafa hugmynd um hvað þetta voru miklir peningar og þvertók fyrir að hafa vitað að þetta væri ávinningur fíkniefnaviðskipta. Hún kvaðst hafa verið í áfalli af að koma að heimili sínu svona, sérstaklega barnaherberginu, og ekki hafa hugsað út í það að lögreglan hefði verið að leita að fíkniefnum. Hún kvaðst ekki hafa verið búin að finna peningana þegar hún hringdi í Finn. Nánar spurð um þetta kvað hún ekki hafa legið á að láta vita um peningana. Henni hefði bara brugðið þegar hún sá þetta og þeir Finnur og Guðmundur hefðu komið stuttu síðar, þannig að hún hefði sýnt Finni þetta. Hún hefði ekki vitað hvað var að gerast.

Hún kvaðst í fyrstu hafa haldið að Finnur og Gústi ættu þessa peninga, að þeir hefðu verið að safna peningum til bílakaupa. Hún hefði vitað að þeir voru að kaupa bíla og Gústi hefði verið nýbúinn að segja henni að það gæti verið að hann væri að fara út að kaupa bíla. Hún kvaðst ekki hafa hugsað út í að þetta væri óeðlilegur geymslustaður fyrir peninga sem ætlaðir væru fyrir löglega atvinnustarfsemi. Kvaðst eiginlega ekki hafa hugsað neitt þessa nótt. Sjálf kvaðst hún ekki fela peninga undir dýnunni. Hún geymdi þá yfirleitt bara í veskinu eða bankanum og kvaðst aldrei áður hafa fundið neitt þessu líkt undir dýnunni hjá sér, og ekki hafa séð Ólaf Ágúst vera með peningabúnt heima. Það eina sem hún hefði séð væri lítið veski eða “fílofax,” sem geymt væri uppi á hillu heima og í því hefði hún séð peninga, kannski um 50.000 krónur. Hún kvaðst ekki hafa spurt út í það, af því að það kæmi sér ekkert við. Hún kvaðst aldrei spyrja Ólaf Ágúst út í fjármálin, hún vissi að hann hefði verið í bílakaupum. Hann hefði stundað sína vinnu og hún sína, yfirleitt hefði hún ekki skipt sér af hans málum.  Hún hefði bara unnið og hugsað um sig og heimilið og barnið.

Þegar Finnur og Guðmundur komu hefðu þau talað eitthvað saman og svo hefði hún bent Finni á peningana af því hún hefði haldið að þetta væru peningar hans og Gústa og sagt: ”Sjáðu hvað er hérna” og Finnur sagt: “Já.” Svo hefðu þeir bara ákveðið að taka peningana. Þá hefði henni ekki fundist það skipta sig máli hvort Finnur tók þá eða ekki, af því að hún hefði haldið að þeir ættu þetta til þess að fara að kaupa bíla. Henni hefði ekki fundist hún hafa neitt um þetta að segja og svo hefði hún verið í sjokki og líklega hefði hún gert hvað sem henni hefði verið sagt. Nánar spurð um þetta kvað hún þá Guðmund og Finn hafa talað saman um þetta og komist að þeirri niðurstöðu að það væri best að þeir tækju peningana. Peningarnir hefðu þá enn verið undir dýnunni, hún hefði ekkert komið við þessa peninga og ekki tekið þá undan dýnunni.

Hún kvað Finn og Guðmund hafa skipt peningunum niður. Finnur hefði tekið íslensku peningana og svo hefði hann sent Guðmund seinna til að sækja þessa útlensku. Hún taldi að Guðmundur hefði ekki tekið neina peninga með sér þegar þau fóru. Hún kvaðst ekki hafa hugmynd um hversu miklir peningar þetta hefðu verið og ekki hafa vitað að þetta væru fíkniefnapeningar. Guðmundur hefði ákveðið það með Finni einhvern tíma um nóttina að fara að sækja þá. Finnur hefði beðið hana um að lána sér lyklana að íbúðinni svo Guðmundur gæti farið þangað og hefði hún gert það. Hún kvaðst hafa fengið 265.000 krónur af þessu sem Finnur hefði skilið eftir í veskinu hennar.  Hún kvaðst ekki vita hvort hann hefði gert það viljandi eða óviljandi, hann hefði ekki látið hana vita af því. Hún hefði fundið þá á sunnudeginum í veskinu. Henni hefði fundist það eðlilegt, hún hefði haldið að þetta væru vinnupeningar Ólafs og talið sig eiga rétt á þeim, eins og Ólafur hefði getað farið í bankabók hennar og tekið út hennar peninga. Hún var spurð um það hvað hún hefði gert við peningana. Kvaðst hún hafa farið að Flúðum til systur sinnar og þar hefði verið dottið í það og keyrt um á glæsivagni og hefði hún eytt 165.000 krónum. Aðra vímugjafa en brennivín kvaðst hún ekki hafa notað.

Spurð hvað hún hefði gert um nóttina eftir að peningarnir fundust, kvað hún Finn hafa boðið sér í partí og hún farið með þeim Guðmundi, hún hefði bara hangið með án umhugsunar. Fyrst hefðu þau farið á hótelherbergi á Hótel Esju þar sem Finnur hefði búið. Síðan hefði verið farið upp í Breiðholt, þar sem hún kvaðst halda að Finnur hefði farið út með eitthvað af peningunum, og svo hefði verið farið í partí einhvers staðar í Kópavoginum. Þar hefði hann beðið hana um að lána Guðmundi lyklana að íbúðinni og hún hefði gert það. Kvaðst hún hafa verið heillengi í samkvæminu – þangað til farið var að renna af henni, þá hefði henni farið að líða of illa og því farið heim. Guðmundur hefði ekið henni heim þarna um nóttina. Hún kvaðst hafa hringt í hann og beðið hann um það. Hún kvaðst ekki vita hvar Guðmundur var þá staddur, hann hefði sagst koma eftir smástund. Hún kvaðst telja að Guðmundur hefði ekkert verið í partíinu um nóttina. Aðspurð  hvers vegna hún hefði hringt í Guðmund um nóttina til að láta hann sækja sig, sagði hún að hann hefði boðist til þess að sækja hana þegar hún vildi fara heim og hann hefði gert það. Hann hefði líka verið með húslyklana hennar og hún hefði ekki komist inn nema hann hefði komið og sótt hana. Spurð hvort hún hefði bara fengið einn lykil hjá lögreglu, sagði hún fyrst að þeir Finnur hefðu verið með lyklakippuna. Þess vegna hefði Guðmundur orðið að koma svo hún kæmist inn, og  þeir hafi verið með lykla að vinnustaðnum hennar líka, en leiðrétti sig síðar um að þeir lyklar hefðu verið í annarri tösku, “í töskunni þarna sem þeir settu peningana í” og  þetta hefði bara verið einn lykill. Þau hefðu ekki rætt frekar um peningana eða þennan atburð þarna um nóttina. Hún taldi sig hafa heyrt aftur í þeim Finni og Guðmundi um viku síðar. Reyndar lítið í Finni, aðeins einu sinni. Hún taldi að hún gæti hafa heyrt í Guðmundi einhverjum dögum áður en hún fór að Flúðum, hún hefði látið hann vita að hún væri að fara þangað.

Hún var spurð hvort hún hefði ekki talið það einhverju varða að það væri haldið tryggilega utan um þessa peninga og þeir geymdir tryggilega ef þetta væru peningar sambýlismanns hennar vegna viðskipta hans. Kvað hún þá hafa lofað sér því. Finnur hefði lofað sér því að geyma þessa peninga þangað til þau heyrðu í Ólafi og gætu rætt við hann. Þessu hefði hann lofað um nóttina eða nokkrum dögum seinna. 

Spurð hvort hún hefði haft uppi kröfur við Guðmund eða Finn um að fá þessa peninga til baka, sagði hún að sér hefði síðar farið að líða illa út af þessu og hún farið að vantreysta Finni og því að hann myndi bíða eftir Ólafi. Þegar farið hefði að koma í ljós hversu alvarlegt mál Ólafs var, þá hefði hún farið að biðja um peningana aftur, og Finnur hefði sagst ætla að láta hana fá þá en aldrei gert það.

Aðspurð um fjármál þeirra Ólafs Ágústs kvaðst hún hafa unnið og haft sína peninga, hún hefði ekki skipt sér af hvað hann gerði við sína peninga.  Hún kvað það rétt að þau hefðu verið að kaupa íbúð. Hefði ýmist hann eða hún greitt af lánum. Hann hefði haft alveg opinn aðgang að hennar bankabók og hiklaust tekið út peninga þar ef vantaði til þess að borga.

Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað Ólafur Ágúst hafði fyrir stafni á undanförnum vikum og mánuðum fyrir þennan atburð. Hún hefði talið að hann væri bara í bílaviðskiptum og hefði ekki skipt sér af því.  Hann hefði sagst vera að kaupa bíla, selja bíla, og stundum hefði hann farið til útlanda vegna þessara viðskipta. Hann hefði sagt þetta vera fulla atvinnu. Hann hefði ekki viljað ræða mikið við hana um hvað hann gerði, sagt að það kæmi henni ekkert við.

Sólveig var spurð út í samtöl  þeirra Ólafs Ágústs í síma. Samtöl þessi höfðu verið hleruð af lögreglu og hljóðrituð. Fyrst var hún spurð um símtal frá 5. júlí 1999. Hún kvaðst hafa verið mjög reið þegar það átti sér stað vegna þess að þau hefðu verið að koma heim úr vel heppnaðri sumarbústaðarferð þegar Ólafur hefði sagst ætla að skreppa aðeins út, en hefði ekki komið aftur. Hún hefði reynt að hafa upp á honum, en liðinn hefði verið sólarhringur þegar hún náði sambandi. Reiði sína og ójafnvægi skýrði hún m.a. með því að Ólafur hefði verið í fíkniefnaneyslu þegar þau kynntust fyrir mörgum árum. Hefði það verið erfiður tími, og með henni hefði blundað stöðugur ótti við að hann byrjaði aftur, og þessa nótt hefði hún verið alveg æf. Einhver hefði hringt í hana og látið hana vita að Ólafur “væri í partíi upp í sveit með einhverju fullt af liði og stelpum.” Það hefði því verið það fyrsta sem henni kom í hug, loksins þegar hún náði sambandi við hann um nóttina, að hann væri byrjaður aftur í fíkniefnum. Það að hún kallaði hann ítrekað “dópsala” í þessu símtali hefði aðeins verið sagt í reiði, en hún hefði ekki vitað þá að svo væri í raun. Þegar hún loksins náði í hann hefði hann sagt að síminn væri búinn að vera úr sambandi. Þau hefðu rifist um þetta þegar hann kom heim, hann hótað að fá sér dóp, sagt að það væri það sem hún vildi, og svo hefði hann horfið í viku. Hún kvað hann alltaf hafa sannfært sig um að það væri rangt að hann væri aftur byrjaður að neyta fíkniefna og hún hefði ekki áttað sig á því þessa mánuði á undan þegar hann var undir áhrifum fíkniefna, en hún vissi það núna að hann hefði verið undir áhrifum við ýmis tækifæri.

Hún kvaðst nokkrum sinnum hafa haft samband við ákærða Guðmund Kristján eftir kvöldið sem húsleitin var gerð. Hann hefði hringt stundum til þess að vita hvernig henni liði og aðstoðað hana, m.a. í sambandi við þessa peninga. Hann hefði sagt að þeir myndu verða geymdir þangað til þeir næðu sambandi við Gústa. Aðspurð af verjanda sínum kvaðst hún ekki muna hvort hún hefði sagt við Guðmund Kristján að þeim bæri að skila peningunum þar sem þeir væru úr fíkniefnaviðskiptum. Hún kvaðst ekki vita til þess að Guðmundur Kristján hefði verið í óreglu.

Hún kvaðst ekki hafa umgengist ákærða Finn mikið, hann hefði aðeins komið á heimili hennar á daginn þegar hún væri ekki heima. Hún kvaðst ekki vita hvort Finnur hefði verið í óreglu.  Spurð hvar Finnur hefði búið á þessum tíma, taldi hún hann hafa búið í Þverási hjá konunni sinni. Aðspurð hvers vegna hún hefði áður sagt að hann hefði búið á Hótel Esju, kvað hún þau hafa farið þangað um nóttina, hann hefði bara verið þar. Hún kvaðst ekki hafa spurt hann að því hvað hann væri að gera þar.

Ítrekað spurð kvað hún það rétt að hún hefði beðið Finn síðar um að láta sig fá peningana aftur. Hún hefði viljað fá alla peningana aftur því hún vissi ekkert hvað var í gangi. Hún kvað Finn síðar hafa talað um að hann ætlaði að ráðstafa peningunum í þágu þeirra Ólafs beggja, borga af bíl sem þeir skulduðu – meira  vissi hún ekki. Einnig hefði hann nefnt að Ólafur skuldaði mömmu hans og pabba peninga, og hún hefði skilið það þannig að hann myndi greiða þeim.

Ákærða Sólveig Ósk var yfirheyrð hjá lögreglu 20. október 1999. Þá kvað hún peningana hafa verið úti um allt undir rúmdýnunni þegar hún fann þá. Þetta hefðu verið íslenskir peningar og einnig erlendir sem pakkaðir voru í glært plast. Hún kvaðst ekki vita hvað þetta var mikið, en halda að erlendu peningarnir hefðu verið hollenskir. Hún kvaðst hafa ”panikkerast” og hringt í Finn eða Guðmund og hefðu þeir komið. Finnur hefði sett íslensku peningana í plastpoka og troðið þeim í töskuna hennar, en þeir erlendu hefðu verið skildir eftir í tösku, sem Finnur og Guðmundur hefðu sett þá í. Hún hefði haldið á töskunni út í bílinn en þar hefði Finnur rifið þá af sér. Hún hefði sagt honum að láta sig fá þá aftur en hann hefði neitað því, en svo látið sig hafa eitthvað af þeim, sem hann hefði sagt að væru 500.000 krónur, en þegar hún hefði talið þá hefðu þeir verið 265.000 krónur. Kvaðst hún eiga eftir 100.000 krónur. Guðmundur hefði beðið hana að láta sig hafa lykil svo hann gæti sótt erlendu peningana og hefði taskan verið farin þegar hún kom aftur heim. Hún kvaðst hafa beðið þá báða síðar um að láta sig hafa peningana, en þeir hefðu neitað því og sagt að búið væri að fela þá á góðum stað.

Í yfirheyrslu lögreglu 28. október 1999 kvaðst hún ekki hafa verið búin að sjá peningana þegar að hún hringdi í Finn. Hún kvað Guðmund hafa ekið þeim Finni í samkvæmi í Kópavogi og þar hefðu þau verið einhverja stund. Finnur hefði síðan fengið strák sem heiti Arnar til að aka þeim upp í Hólahverfi þar sem Finnur hefði tekið plastpokann úr töskunni hennar og farið eitthvað með peningana. Síðan hefði Arnar ekið þeim á Hótel Esju, þar sem Finnur var með herbergi. Hún kvaðst muna þar eftir einhverjum strák sem hún ekki þekki. Arnar hefði farið í burtu en komið aftur og ekið þeim aftur í samkvæmið í Kópavogi. Guðmundur hefði fengið hjá henni lykla einhvern tíma um nóttina til að ná í hina töskuna. Hún hefði síðan þurft að bíða lengi eftir að hann kæmi aftur og æki henni heim. Þá hefði Finnur verið farinn. Hún hefði fundið 265.000 krónur í veskinu sínu þegar hún kom heim. Hún hefði þurft að ganga eftir því við Guðmund að hann skilaði töskunni, en lyklar að vinnustað hennar hefðu verið í henni. Hann hefði loksins gert það um þrem til fjórum vikum síðar. Hún kvaðst hafa haldið að peningarnir væru vegna bílaviðskipta og að Finnur ætti hluta af þeim.

Ákærða Sólveig Ósk var enn á ný yfirheyrð af lögreglu 4. og 7. nóvember 1999. Í hinni síðari yfirheyrslu kemur fram að Finnur hafi sagt að það væri best að fjarlægja peningana ef lögreglan kæmi aftur, en ekkert hafi verið talað um hvað ætti að gera við peningana. Hún kvaðst ekki viss um það hvort Finnur hefði tekið plastpokann úr töskunni hennar eða farið með töskuna þegar hann fór úr bílnum í Hólahverfi. Hún kvaðst hafa rætt við Guðmund um hvað hann gerði við útlensku peningana. Hann hefði sagt að hann ætlaði að geyma þá fyrir Gústa vin sinn og ekki láta Finn hafa neitt af þeim. Hann hefði líka ætlað að reyna að ná íslensku peningunum af Finni. Einnig kemur fram að hún hafi sagt móður Ólafs frá peningunum og að þær hafi rætt saman við Guðmund um peningana og stungið upp á því að móðir Ólafs tæki að sér að geyma alla peningana. Guðmundur hafi látið eins og hann vildi afhenda þeim peningana sem hann var með, en hann hafi aldrei gert neitt í því. Hún hefur eftir Guðmundi í báðum þessum síðari yfirheyrslum að tengdamóðir Finns hafi leigt bankahólf fyrir Finn til að geyma peningana í, en hann hafi síðar tekið þá úr því. Hún segir Finn hafa sagt sér að hann hafi engu eytt af peningunum, nema greitt bílalán upp á 700.000 krónur, hún viti ekki hverjum.

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon skýrði dóminum svo frá að meðákærða Sólveig Ósk hefði hringt í hann eftir húsleitina og sagt honum að lögreglan hefði verið að fara með Ólaf og að búið væri að brjóta útihurðina.  Hún hefði verið í uppnámi. Hann hefði farið til hennar til að athuga hvað væri um að vera. Hann sagði fyrst að Sólveig hefði beðið hann um að koma, en síðar í yfirheyrslunni að hún hefði ekki beðið hann um neitt heldur hefði hann farið til að róa hana. Hann kvaðst ekki hafa vitað neitt um tilgang þessarar lögregluaðgerðar. Honum var kynnt í dóminum símtal sem hann átti við Guðmund Kristján kl. 00.51 sömu nótt þar sem hann segir Guðmundi að lögreglan sé heima hjá Ólafi og Guðmundur, sem býr í Vogum á Vatnsleysuströnd, bregst við með því að segja að hann muni koma í bæinn. Um annað símtal, sem þeir eiga kl. 02.26 sömu nótt, kvaðst hann lítið geta tjáð sig, né heldur um tímasetningar þessa nótt, en kannaðist við að hafa rætt við Guðmund einhvern tíma um nóttina. Hann staðfesti þó að Guðmundur hefði komið og sótt hann og ekið honum í Írabakkann og síðan ekið þeim Sólveigu í samkvæmið í Kópavogi. Kvaðst hann hafa tekið Sólveigu með sér í samkvæmi og sagt við hana að Ólafur kæmi örugglega um morguninn. Hann ber að hann hafi verið heima hjá sér í Þverási þegar Guðmundur kom að sækja hann, en einnig kemur fram í skýrslunni að hann hafi á þessum tíma búið í tvo daga á Hótel Esju vegna ósættis við konu sína. Hann neitaði að hafa vitneskju um það hvernig erlendu peningarnir komu í vörslu Guðmundar og kvaðst ekki muna hvort rætt hefði verið um að Guðmundur tæki þá. Þegar borinn var undir hann framburður hans við lögreglurannsókn frá 26. október 1999 um að Guðmundur hefði sótt afganginn af peningunum í íbúð Sólveigar og hann hefði farið inn með lyklum sem Sólveig hefði lánað honum, þá kvað hann þetta vel geta verið, en neitaði að það væri rétt sem þar er haft eftir honum að hann hefði sjálfur síðar farið ásamt Guðmundi í íbúð Sólveigar og sótt afganginn af peningunum.

Hann taldi að Sólveig hefði ekki verið búin að finna peningana þegar hún hringdi í hann, hún hefði verið að laga til eftir lögregluna og þá fundið þá. Hann kvað peningana hafa verið í tveimur plastpokum, innkaupapokum. Erlendu peningarnir hefðu verið fyrirferðarmeiri. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvaða gjaldmiðill þetta var og talið að það væri einhver smámynt, einhverjir tíukrónaseðlar. Íslensku peningarnir hefðu verið í þremur eða fjórum búntum, allt 5000 króna seðlar. Kvaðst hann telja að það hefðu verið 500.000 krónur í búnti og þetta hefði verið samtals um ein og hálf til tvær milljónir króna. Hann kvaðst hafa tekið íslensku peningana með sér með samþykki Sólveigar, en ekkert af þeim erlendu. Hann kvað það geta verið að hann hefði beðið Guðmund um að fara með erlendan gjaldeyri heim til móður sinnar, Bergljótar. Spurður hvort honum hefði ekki verið það ljóst að lögreglunni hefði yfirsést féð við húsleitina, neitaði hann því og kvað lögreglu ekki eiga að yfirsjást svona. Spurður hvers vegna peningarnir hefðu verið fjarlægðir, kvað hann það hafa verið ótraust að hafa peningana þarna inni á heimilinu, búið að brjóta upp hurðina. Þá kvaðst hann hafa talið að þetta væru peningar úr fyrirtæki þeirra Ólafs. Þeir hefðu stundað bifreiðaviðskipti í nokkur ár, en Ólafur hefði séð um reksturinn frá áramótum 1998/1999. Hann hefði sjálfur ekkert unnið frá því í febrúar 1999. Komst hann svo að orði að þetta hefði ekki beint verið fyrirtæki, það hefði verið á þeirra eigin kennitölum. Hann kvað þá hafa hætt rekstrinum þegar lögreglan tók alla bílana, en bar síðar í yfirheyrslunni að þeir hefðu selt verkstæðið um svipað leyti og hann hefði ákveðið að draga sig í hlé. Hann hefði gert það þar sem hann hefði verið búinn að vinna svo mikið seinustu fimm árin. Einnig kom fram að hann hefði dottið í óreglu um áramótin 1998/1999 eftir sex og hálfs árs bindindi. Fyrst hefði það verið brennivín en seinni mánuðina einnig eitthvað kókaín og amfetamín. Spurður að því hvað orðið hefði um peningana vísaði hann til fyrri framburðar síns. Nánar spurður kvaðst hann tvisvar hafa fengið gyllini hjá Guðmundi, ekki mikið, kannski nálægt einni milljón íslenskra króna. Hann taldi að þetta hefði ekki verið daginn eftir heldur nokkrum vikum seinna eða mánuði, þá hefði hann einnig verið á hótelinu í tvo daga. Hann kvaðst hafa borgað strax skuldir þeirra Ólafs Ágústs með íslensku milljónunum tveimur. Hann kvaðst einnig hafa borgað skuldir með erlendu peningunum, bílalán sem hefði verið komið í vanskil og einnig smáskuldir. Hann gaf ekki upp hverjum hann greiddi féð en taldi að kvittanir væru til. Síðari afhendinguna á erlendum peningum kvað hann lögregluna hafa tekið alla. Hann kvað rétt að Sólveig hefði viljað fá peningana aftur, en hann hefði ekki séð ástæðu til þess þar sem fjölskylda Ólafs hefði ekki verið með neina peninga í fyrirtækinu en foreldrar sínir hefðu lánað mikið fé í það. Einnig hefði hann verið búinn að greiða skuldir þeirra með peningunum.

Að öðru leyti en greinir hér að framan kvaðst hann staðfesta skýrslur sem hann gaf hjá lögreglu með fyrirvara um ástand manns sem sé í einangrun. Honum var einnig kynntur eigin framburður fyrir dómi 22. nóvember 1999 áður en hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Þar sagði hann að aðdragandi þess að hann fór á heimili Sólveigar Óskar nóttina sem Ólafur Ágúst var handtekinn hefði verið að Sólveig hefði sagt honum frá peningunum. Hann taldi að íslensku peningarnir hefðu verið tæplega 1.7 milljónir og erlendu peningarnir hefðu verið um 100.000 gyllini. Vildi hann nú breyta þessum framburði og kvaðst hafa reiknað íslensku peningana með þegar hann nefndi þessa fjárhæð og hefði mismælt sig. Hann kvaðst ekki gera aðrar athugasemdir við skýrsluna. Þar ber hann að hann hafi eytt peningunum í óreglu og að hann hafi áttað sig á því að peningarnir kynnu að tengjast fíkniefnaviðskiptum 15 til 20 dögum eftir húsleitina þegar fram var komið hversu umfangsmiklum fíkniefnaviðskiptum Ólafur Ágúst tengdist. Einnig kom þar fram að þeir Ólafur hefðu báðir fallið í óreglu í ársbyrjum 1999 og að hann hefði sjálfur átt í fíkniefnaviðskiptum við Ólaf um þó nokkurn tíma. Einnig að leiðir þeirra í rekstrinum hefðu skilið í ársbyrjun en það hafi verið mikið af dýrum bílum óseldum og oft tæki eitt til tvö ár að selja slíka bíla. Spurður um tengsl sín við ákærða Guðmund Kristján, kvað hann Guðmund vera mág sinn og einnig hefði hann unnið hjá þeim við bílaviðgerðir og við að gera bíla tilbúna fyrir sölu og annað snatt.

Ákærði Finnur Sverrir var handtekinn og yfirheyrður af lögreglu 20. október 1999.  Kannaðist hann þá ekkert við greinda peninga. Hann var næst yfirheyrður 26. október þar sem hann var í gæsluvarðhaldi. Þá ber hann að Sólveig hafi sagt að Ólafur geymdi alltaf peninga undir rúmdýnunni. Hann kveðst hafa talið peningana og þetta hafi verið 3.500.000 til 4.000.000 króna, þar af um 1.500.000 í íslenskum peningum. Hann hafi tekið eitthvað af íslensku peningunum, sett í plastpoka og stungið upp í ermina sína. Kvaðst hann hafa farið með Guðmundi um morguninn að sækja erlendu peningana og síðan hefði Guðmundur keyrt hann heim til sín í Þverás 4. Hann hefði síðan tekið leigubíl á stað þar sem hann hefði komið peningunum fyrir en vildi ekki greina frá hvar það var. Hann var enn yfirheyrður 2. nóvember og kemur þá ekkert nýtt fram. Í yfirheyrslu 5. nóvember breytir hann nokkuð framburði sínum í samræmi við það sem aðrir höfðu borið, en kvað Arnar Frey hafa ekið þeim að heimili tengdamóður sinnar en enginn hefði verið heima þar og þau þá farið á Hótel Esju. Kvaðst hann síðar um nóttina hafa beðið Arnar Frey að geyma fyrir sig íslensku peningana, um 1.700.000 krónur, og hefði hann gert það í nokkra daga en síðan látið sig fá þá aftur í tvennu lagi. Kvaðst hann hafa eytt þeim öllum í drykkju og fíkniefni sem og 70 til 80 þúsund gyllinum. Síðar sama dag kvaðst hann vilja skýra nánar og rétt frá um peningana: “Það sem ég hef sagt varðandi þann hluta þessara peninga sem var í íslenskum seðlum er rétt en ég vil leiðrétta nokkur atriði varðandi meðhöndlun og ráðstöfun gjaldeyrisins sem var í Írabakkanum. Guðmundur Kristján sótti erlenda gjaldeyrinn í Írabakka 26 þessa sömu nótt, eins og ég hef sagt frá áður. Ég ráðlagði honum að fara með þá peninga á tvo staði og benti honum á að biðja mömmu mína, Bergljótu, að geyma helminginn. Það gerði hann og fór með hinn hlutann á stað sem ég þekki ekki. Móðir mín var óróleg yfir þessu og vildi ekki geyma peningana nema stuttan tíma. Ég bað síðan Ingibjörgu, systur mína, að fara til móður minnar og sækja hluta af þeim peningum sem móðir mín geymdi fyrir Guðmund. Þetta gerði hún fyrir mig og tók um 18.000 NLG. Ég kom þeim peningum fyrir innan í baki spegils sem Ingibjörg geymdi fyrir mig. Vegna þess hve konan mín og móðir hennar þrýstu fast á mig að greiða tiltekna greiðslukortaskuld bað ég Ingibjörgu að fara heim til tengdamóður minnar með spegilinn og láta hana hafa það sem innan í baki hans var. Þetta gerði hún en tengdamóðir mín vildi ekki taka við þeim peningum. Peningarnir voru síðan hjá henni þangað til daginn sem ég var handtekinn. Þá kom ég við heima hjá henni, í Kríuhólum 2, og sótti peningana en bað aðra systur mína, Karen, um að skipta þeim í bankanum þar sem við vorum handtekin.

Nokkru eftir að Guðmundur kom peningunum fyrir lét hann mig hafa 40-50.000 NLG. Hann hitti mig við Hótel Esju þar sem hann afhenti mér þessa fjárhæð. Þá töluðum við saman og giskuðum á að í heildina hafi verið um að ræða um 120.000 NLG í Írabakkanum, sem Guðmundur tók upphaflega. Þegar hann lét mig hafa þessa peninga sagði hann mér að hjá honum væru 40.000 NLG til viðbótar. Hann ætti því enn að vera með, eða geta gert grein fyrir þeirri fjárhæð sjálfur.

Ég hef ekki greint frá öllum atriðum þessa máls vegna þess að ég hef viljað hlífa fjölskyldu minni og öðrum óþægindum. Þar sem ég veit að málið er farið að valda óviðkomandi fólki vandræðum vil ég greina rétt frá, eins og ég hef hér gert.“

Finnur var enn yfirheyrður fyrir lögreglu 7. og 8. nóvember. Í síðara skiptið kvað hann rangt að hann hefði látið Arnar Frey geyma fyrir sig peninga og kvaðst sjálfur hafa geymt íslensku peningana. Hann kvaðst hafa sótt peningana sem voru í speglinum til tengdamóður sinnar um hádegi sama dag og hann var handtekinn 20. október 1999. Á meðan hann var þar hefði hann farið út bakdyramegin og greitt af þeim peningum ónafngreindum manni 15.000 gyllini vegna skuldar, en verið handtekinn með afganginum, 18.000 gyllini, sem hann hefði ætlað að skipta með aðstoð systur sinnar. Öðru en þessu og þeim peningum sem hann hefði látið Sólveigu Ósk hafa kvaðst hann hafa eytt í drykkju og fíkniefnaneyslu. Annað í lögregluskýrslum er í samræmi við framburð hans fyrir dómi.

Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson kvaðst ekki vita hversu miklir peningar þetta hefðu verið og hann kvaðst hafa talið peningana tilheyra Ólafi Ágústi og meðákærða Finni Sverri og tengjast bifreiðaviðskiptum þeirra. Hann viðurkenndi að honum hefði fundist undarlegt að allir þessir peningar væru þarna eftir húsleit lögreglu, en taldi eins líklegt að þeir hefðu verið skildir eftir eins og að þeir hefðu ekki fundist. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa gert sér grein fyrir að þetta væru peningar úr fíkniefnaviðskiptum fyrr en eftir að hann hafði sjálfur verið handtekinn og hann vissi um játningar Sverris Þórs og Ólafs Ágústs.

Hann taldi að Finnur hefði hringt í sig en hann hefði talað við bæði hann og Sólveigu á leiðinni að heiman í Írabakkann. Hann hefði sótt Finn heim til sín í Þverás og síðan hefðu þeir farið í Írabakkann. Sólveig hefði verið í töluverðu uppnámi. Þegar hann sá peningana hefðu þeir legið ofan á rúminu. Þetta hefðu bæði verið íslenskir peningar, allt í 5.000 króna seðlum, og gjaldeyrir, hollensk gyllini, sem hefði eitthvað verið blandaður. Þetta hefðu greinilega verið miklir peningar, umfangið “um hálft annað fet” eins og búið var að dreifa þessu á rúmið. Íslensku peningarnir hefðu verið sér og erlendu sér og bunkarnir álíka stórir. Hann kvaðst ekki muna hvort hann vissi þarna um nóttina að fíkniefnalögreglan hefði staðið að húsleitinni og handtöku Ólafs, en kvað þetta hafa verið á textavarpi og í öllum fréttum daginn eftir. Aðspurður kvað hann sér ekki hafa fundist þetta undarlegur geymslustaður.

Hann kvað það síðan hafa orðið úr, hver sem hefði tekið þá ákvörðun, að þau færu öll samtímis úr íbúðinni og með íslensku peningana, sem hefðu verið settir í tösku Sólveigar, og hefði hún verið með töskuna þegar þau hefðu farið. Hann taldi að þau hefðu ekki rætt mikið saman, Finnur hefði verið undir áhrifum áfengis og Sólveig í töluverðu uppnámi. Hann kvaðst hafa keyrt þau Finn og Sólveigu í hús í Kópavogi þar sem þau hefðu orðið eftir, en það hefði verið um talað að hann færi til baka og sækti erlenda gjaldmiðilinn og geymdi hann og það hefði hann gert.  Hann hefði fengið lykil hjá Sólveigu og ekki sinnt þeim meira. Ítrekað spurður um þetta kvað hann Sólveigu hafa látið sig fá lykil áður en þau skildu í Kópavoginum, annað hvort í íbúðinni í Írabakkanum eða í bílnum. Hann kvaðst ekki hafa komið aftur til að ná í lykilinn og hann hefði ekki ekið Sólveigu heim um nóttina. Nokkrum dögum síðar hefði hann enn verið með lyklana og töskuna, sem peningarnir voru settir í. Sólveig hefði ekki farið í vinnuna í nokkra daga en síðan vantað lyklana að vinnustaðnum. Hann kvað Sólveigu hafa verið með aukalykil að íbúðinni. Taldi hann að hún hefði fengið þrjá lykla. Hann kvaðst ekki hafa heyrt meira af íslensku peningunum eftir þetta.

Hann kvaðst hafa geymt erlendu peningana í bílnum yfir nóttina, og daginn eftir hefði hann skipt þeim og sett í tvo poka. Annan pokann hefði hann farið með heim til tengdamóður sinnar, ákærðu Bergljótar, og hinn pokann heim til bróður síns, ákærða Sigurðar, og beðið þau að geyma þetta fyrir sig. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði tilgreint hvað um var að ræða eða ástæðuna fyrir því. Hann taldi líklegt að hann hefði tilgreint við Bergljótu að þessir peningar hefðu komið heiman frá Gústa og væru að öllum líkindum peningar sem þeir Finnur ættu sameiginlega. Þannig hefði hann litið á þessa peninga. Hann kvaðst hafa farið með peningana til Bergljótar að beiðni Finns og til að fá þá geymda þar. Hún hefði tekið við þeim, en fundist þetta miklir peningar og hefði velt þessu fyrir sér. Hann kvað hana ekki hafa talið peningana. Þetta hefði verið í búntum, ýmist með bréfaklemmu eða brotinn seðill yfir. Hann kvaðst sennilega hafa farið með þetta í einum poka til Bergljótar og líklega fengið annan poka hjá henni undir það sem hann fór með til Sigurðar. Hann kvaðst hafa skipt þessu á tvo staði vegna þess að Finnur hefði beðið um það. Ástæðu þess að hann geymdi ekki hluta peninganna sjálfur í upphafi kvað hann vera að hann hefði búist við að þau kölluðu fljótlega eftir þeim og það væri handhægara að hafa þá í Reykjavík. Hann kvað Ólaf ekki hafa verið úrskurðaðan í gæsluvarðhald fyrr en síðar um kvöldið daginn sem hann fór með peningana til Bergljótar. Aðspurður taldi hann að þau Bergljót hefðu ekki rætt um Ólaf. Í síðari skýrslu fyrir dóminum fannst honum líklegt að þau hefðu rætt um hann, en mundi það ekki. Nánar spurður af verjanda Bergljótar sagði hann að þau hefðu ekki rætt um að þau hefðu grun um að þetta væru fíkniefnapeningar. Þeim sem þekktu Ólaf hefði þótt ólíklegt að hann væri einn af höfuðpaurunum í þessu máli. Bergljót hefði síðar hringt í hann og beðið hann að taka peningana og hann hefði gert það. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna hún bað um það. Aðspurður vegna framburðar Bergljótar hjá lögreglu kvað hann hana ekki hafa nefnt að hún óttaðist að peningarnir tengdust fíkniefnaviðskiptum. Hann kvaðst ekki hafa vitað þegar hann sótti peningana til hennar að búið var að taka hluta af þeim, Finnur hefði hins vegar beðið ákærðu Ingibjörgu Auði um það. Hann kvaðst ekki hafa átt nein samskipti við Ingibjörgu Auði út af peningunum.

Varðandi Sigurð bróður sinn sagði hann fyrst að hann hefði beðið hann að geyma fyrir sig “peninga”, en ítrekaði síðan í yfirheyrslunni að hann hefði aðeins beðið hann “að geyma þetta”, og ekki tilgreint að um peninga væri að ræða. Hann kvað síðari pakkann sem hann bað Sigurð að geyma hafa verið hluta af þeim peningum sem Bergljót hefði viljað losna við. Hann taldi að engin vitni hefðu verið að því þegar hann bað Sigurð að geyma pakkana. Það hefðu engin orðaskipti orðið um þetta á milli þeirra, hvorki þegar hann kom með pakkana né þegar hann sótti þá. Hann kvað peningana hafa verið vafða inn í plastpoka, venjulegan innkaupapoka, peningarnir neðst og síðan vafið upp á hann. Hann kvað það geta verið rétt hjá Sigurði að hann hefði ekki vitað hvað var í pokunum, það hefði ekki verið hægt að sjá það á pakkanum. Hann hefði þurft að kíkja í pokana til að vita það.  Aðspurður kvað hann Sigurð bróður sinn vita, í gegnum sig, hverjir Finnur og Ólafur væru, en ekki þekkja þá. Hann kvað ekki hafa verið talað um að hann fengi greiðslu fyrir viðvikið.

Um 23.000 gyllini, sem geymd voru á heimili hans, sagði hann að þar væri um að ræða afganginn af erlendu peningunum. Finnur hafi beðið hann að geyma þetta. Þegar hann hefði fært honum peninga á Hótel Esju, hefði Finnur tekið hluta frá og beðið hann að geyma áfram. Kvaðst hann hafa verið búinn að segja konu sinni, ákærðu Sigurlaugu Björk, frá peningunum. Eftir að hann var kominn í gæsluvarðhald hefði hann síðan ákveðið að segja lögreglunni frá þeim. Þegar átti að sækja þá hefðu þeir ekki fundist í fyrstu vegna þess að Sigurlaug hefði verið búin að færa þá til. Hann kvaðst þrisvar hafa skipt af þessum peningum í íslenskar krónur, fjórtán hundruð, sautján hundruð og fimm, og tvö þúsund gyllinum, það síðastgreinda hefði verið fyrir Finn, en í hin tvö skiptin fyrir hann sjálfan. Hann kvaðst hafa fengið leyfi hjá Finni, átt ýmislegt óuppgert. Aðspurður kvað hann fjárhagsstöðu sína hafa verið mjög bága, hann hefði verið útskurðaður gjaldþrota og væri nú atvinnulaus. Á árinu 1999 kvaðst hann hafa unnið sjálfstætt við þrif á bílum og í húsaviðgerðum. Hann kvaðst hafa unnið fyrir Finn og Ólaf í lausamennsku, tekið mikið af bílum í gegn fyrir þá. Þetta hefðu einkum verið uppítöku bílar, en einnig hefði hann unnið eitthvað í innfluttum bílum sem oft hefðu verið tjónaðir bílar. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við fíkniefni í bílunum.

Hann kvaðst hafa hitt Sólveigu í fáein skipti á tímabilinu eftir að Ólafur var handtekinn og þar til hann sjálfur var handtekinn fimm til sex vikum síðar. Hún hefði haft samband við sig tiltölulega skömmu eftir kvöldið sem þeir tóku peningana, kannski viku, tveimur eða þremur vikum síðar, til að spyrja hvað hefði orðið um peningana, hún hefði sagt að lögreglan vissi um peningana og þeir væru úr þessum viðskiptum og að það bæri að skila þeim. Hefði hún einkum haft áhyggjur af peningunum sem voru hjá Finni. Hann kvaðst hafa talið fyrst að þau Finnur hefðu skipt með sér íslensku peningunum, en svo hefði hún aðeins reynst hafa fengið um 260.000 krónur, hann kvað hana ekki hafa fengið neina peninga í sinni viðurvist. Hann kvað Sólveigu ekki beinlínis hafa beðið sig að skila peningunum, en það hefði staðið til, hún hefði verið örugg um að hún myndi geta haft aðgang að þeim hjá honum.

Spurður út í skýrslur sínar hjá lögreglu, kvaðst hann fyrst hafa neitað vitneskju um peningana vegna þess að hann vildi vera viss um að lögreglan væri ekki að beita hann blekkingum.

Guðmundur var handtekinn 24. október 1999.  Eins og fram hefur komið neitaði hann þá allri vitneskju um peningana. Við yfirheyrslu næsta dag skýrði hann frá tilkomu peninganna á sama hátt og áður hefur komið fram, en kvaðst hafa látið Finn hafa allan gjaldeyrinn daginn eftir. Hann er síðan yfirheyrður 2., 3., 5., 8. og 9. nóvember. Í hinni þriðju þessara yfirheyrslna leiðrétti hann að Finnur hefði fengið allan gjaldeyrinn daginn eftir og skýrði frá því hvað hann hefði gert við hann: “Ég hef ekki gert fulla grein fyrir málinu eins og það er. Ég vil gjarnan gefa leiðrétta og ítarlegri skýrslu um málið.

Ég ók Finni Sverri til Sólveigar í Írabakka 26 að kvöldi þess dags sem Ólafur var handtekinn. Undir rúmdýnu í svefnherbergi voru peningarnir, að hluta til íslenskir peningar og að hluta erlendur gjaldeyrir. Ég hef aldrei vitað um hversu háa fjárhæð er að ræða. Við þrjú, ég, Finnur Sverrir og Sólveig, ákváðum að ég mundi fara um nóttina og sækja allan gjaldeyri sem skilinn hafði verið eftir í íbúðinni. Daginn eftir fór ég með þann gjaldeyri á tvo staði, heim til Bergljótar, tengdarmóður minnar í Teigasel 1 og heim til bróður míns, Sigurðar Hólm Guðbjörnssonar í Hrísmóa 2, Garðabæ. Ég bað þau að geyma hvorn hlutann, sagði þeim að þetta væru peningar og afhenti þeim peningana í plastpoka. Ég taldi peningana aldrei áður en ég bað þau að geyma þá og vissi því ekki um upphæðir sem fóru á þessa tvo staði. Tengdamóðir mín hafði fljótlega samband við mig og vildi ekki geyma peningana. Ég fór því til hennar nokkru síðar, tel að það hafi verið um hálfum mánuði eftir að hún tók við peningunum, og tók peningana þaðan en hitti bróður minn við bensínstöðina við Snorrabraut þar sem ég afhenti honum þá en hann samþykkti að geyma þá fyrir mig. Heildarfjárhæðin sem ég bað Sigurð að geyma held ég að hafi verið NLG 73.000.

Við Sólveig hittumst oft vegna þessa máls alls og ræddum þá m.a. um þessa peninga. Ég hitti einnig móður Ólafs með Sólveigu en móðir hans vildi að ég léti sig hafa peningana til að tryggja Sólveigu og barninu þeirra framtíðina. Ég féllst þó ekki á það og lét hvorki hana, né Sólveigu hafa peninga. Ég taldi að þessir peningar tilheyrðu Finni Sverri og Ólafi, og rétt væri fyrir mig að geyma peningana.

Ég vissi að verið var að rukka Finn Sverri vegna greiðslu á bílaláni sem hann og Ólafur voru ábyrgir fyrir og hvíldi á ZM-738 af gerðinni Audi. Ég hafði fengið símtöl frá Bílasölunni Fang vegna þessara rukkana en um það var samið að þeir Ólafur og Finnur Sverrir mundu greiða upp áhvílandi lán sem var að fjárhæð u.þ.b. kr. 800.000. Ég samþykkti að fara til Finns Sverris og láta hann hafa gyllini til að greiða upp þetta lán. Ég fór til hans einn daginn á Hótel Esju þar sem ég hitti hann á herbergi sem hann dvaldi á. Þangað fór ég til hans með alla þá peninga sem ég hafði undir höndum en var þá búinn að sækja peningana til Sigurðar bróður míns. Þar lét ég hann hafa NLG 40.000 til að greiða þetta lán. Ég fylgdist ekki með því hvort Finnur greiddi þetta bílalán. Afganginn fór ég með heim til mín og faldi þar undir rúmi í hjónaherberginu eða í tösku við hlið hjónarúmsins. Þar voru þessir peningar, í stuttan  tíma, líklega ekki meira en 3-4 daga. Þá bað ég konuna mína að fela þá og vissi reyndar aldrei hvar hún setti þá.”

Guðmundur er síðan spurður hversu mikla peninga hann hafi tekið upphaflega í Írabakka 26. Hann segist ekki vita það og ekki hafa talið peningana áður en hann kom þeim fyrir hjá tengdamóður sinni og bróður sínum. Hann segist þó hafa talið peningana lauslega þegar hann tók þá hjá bróður sínum og fór með þá að hitta Finn Sverri á Hótel Esju og telja að hann hafi þá verið með 73.000 gyllini.

Meðákærða Sigurlaug Björk Finnsdóttir bar fyrir dóminum að hún hefði vitað að hringt var í Guðmund Kristján og hann beðinn um að koma að Írabakka sömu nótt og húsleit var gerð þar. Hann hefði ekki sagt henni neitt, bara rokið út. Síðar hefði hann sagt henni að hann hefði hitt Finn og það hefðu verið peningar hjá Sólveigu og þeir Finnur hefðu tekið þá með sér. Hún kvaðst ekki vita hversu mikið fé þetta var. Hún kvaðst vita að Sólveig Ósk hefði leitað til Guðmundur eftir þetta og hann hefði aðstoðað hana mikið, taldi hún að Sólveig hefði treyst Guðmundi betur en Finni, enda hefði Guðmundur verið að vinna hjá Ólafi. Hún staðfesti að hún hefði farið með Guðmundi einu sinni á heimili Sólveigar og heyrt þau vera að ræða um einhverjar 250 til 500 þúsund krónur, en hún kvaðst ekki hafa tekið þátt í þeirri umræðu.

Undir ákærulið I.2 er rakinn framburður Sigurlaugar Bjarkar varðandi 23.000 hollensk gyllini sem geymd voru á heimili þeirra frá því eftir miðjan október til 4. nóvember 1999.

Vitnið Arnar Freyr Símonarson kvaðst kannast við ákærðu Finn Sverri Magnússon, Guðmund Kristján Guðbjörnsson og Sólveigu Ósk Óskarsdóttur, en kvaðst þekkja Finn best; þeir hefðu skemmt sér mikið saman á þessum tíma. Hann kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að hafa verið með honum 10. og 11. september 1999. Hann kvað þó rétt að hann hefði ekið Sólveigu og Finni niður á Hótel Esju um nótt. Hann hefði þá verið í gleðskap heima hjá félaga sínum Frímanni í Kópavogi og Sólveig og Finnur hefðu komið þangað. Þau hefðu ekki verið búin að stoppa lengi þegar þau hefðu beðið hann um að skutla þeim á hótel. Hann hefði ekið þeim á Hótel Esju, sett þau úr bílnum þar og síðan farið aftur til baka. Sólveig hefði komið heim til Frímanns aftur um morguninn á meðan hann var enn á staðnum. Hann kvað Guðmund Kristján ekki hafa komið í samkvæmið. Hann kvað ekkert sérstakt vera að segja um samskipti sín við þetta fólk þessa nótt. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um um hvað þau ræddu eða hvað þau höfðu meðferðist. Hann kvaðst hafa ekið þeim beint úr Kópavoginum að Hótel Esju. Vitnið staðfesti lögregluskýrslur vegna málsins.

Vitnið Ólafur Ágúst Ægisson kannaðist við að hafa verið með í sínum vörslum peninga frá Sverri Þór Gunnarssyni. Hann kvaðst aldrei hafa talið þessa peninga en talað hefði verið um að þetta væru um átta og hálf milljón króna. Hann kvaðst hafa falið peningana undir rúmdýnu á heimili sínu að Írabakka 26. Hann kvaðst ekki muna á hvað löngu tímabili hann tók á móti peningunum frá Sverri. Kvað hann mögulegt að hann hefði einnig sett einhverja peninga frá sjálfum sér þarna undir. Hann kvað Sólveigu hafa sagt sér frá því, á meðan hann var í gæsluvarðhaldinu, að Finnur hefði tekið peningana. Taldi hann að Finnur hefði getað ályktað að peningarnir stöfuðu frá bílaviðskiptum sem þeir voru saman í. Almennt kvaðst hann hafa geymt peninga sem tengdust bílaviðskiptunum á bankareikningi, en eitthvað af því hefði getað verið þarna undir dýnunni. Hann kvaðst ekki hafa sagt Sólveigu frá peningunum. Hann kvað þá Finn báða hafa byrjað í óreglu um áramótin 1998/1999 eftir langt bindindi. Hann kvað Finn ekki hafa vitað að hann var byrjaður í neyslu, þótt hann kynni að hafa grunað það, en þá hafi hann ekki vitað hversu mikið það var og ekki hvað hann var að gera. Taldi hann að Finnur hefði eflaust ekki tekið í mál að hann væri að flytja inn fíkniefni, eins og hann hafi gert, í bílunum sem þeir voru að flytja inn. Hann kvað sér hafa tekist að leyna Sólveigu fíkniefnaneyslu sinni, stundum hefði hún talið að hann væri í neyslu en hann hefði alltaf þrætt fyrir það. Spurður út í það hvers vegna hún kallaði hann “dópsala” í símtali 5. júlí 1999 kvað hann það hafa verið gert í reiði, fólk segði ýmislegt í reiði. Hann kvaðst vilja breyta framburði sínum hjá lögreglu frá 14. október 1999 varðandi það að hann hefði ekki vitað að Sverrir Þór hefði ætlað að fara að kaupa fíkniefni fyrir peningana sem hann geymdi fyrir hann.

Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kvað þá Ólaf Ágúst vera vini og hafa um­gengist töluvert á árunum 1998 og 1999. Hann kvaðst hafa látið Ólaf Ágúst fá peninga í fleiri en eitt skipti um mánaðamótin ágúst/september 1999, samtals um átta og hálfa milljón króna í íslenskum og hollenskum gjaldmiðli. Hluti af peningunum hefði sennilega verið sellófónpakkaður og svo í poka. Hann kvaðst ekki muna það nákvæmlega og ekki hvernig þetta skiptist í íslenska peninga og hollensk gyllini. Hann kvað þessa peninga hafa verið ávinning af fíkniefnasölu og taldi að Ólafur hefði trúlega haft vitneskju um að þetta væri fíkniefnaágóði, þeir hefðu verið saman í því. Lítinn hluta af þessum peningum hefði vitnið Lárus Borgar Jónsson áður geymt fyrir hann í bankahólfi. Hann vildi taka fram að einhver hluti þessara peninga hefði getað stafað frá fasteignaviðskiptum hans og einnig vinnulaunum, hann hefði ekki haldið bókhald yfir hvað var ávinningur af fíkniefnasölu og hvað var aðrar tekjur.

Vitnið kvaðst þekkja ákærða Finn Sverri en kvað kunningsskap þeirra ekki tengjast fíkniefnaviðskiptum sérstaklega. Nánar spurður hvað hann meinti með því kvað hann kunningsskap þeirra ekki tengjast fíkniefnaviðskiptum. Hann kvaðst ekki minnast þess að þeir hefðu neytt fíkniefna saman og kvað sér ekki kunnugt um hvort Finnur hafi vitað um fíkniefnaviðskipti þeirra Ólafs.

Vitnið Lárus Borgar Jónsson kannaðist við að hafa geymt peninga fyrir Sverri Þór Gunnarsson í bankahólfi í Íslandsbanka í Kópavogi. Sverrir Þór hefði látið hann fá þetta í plastpokum sem ekki hefði sést í gegnum. Hann hafi aldrei talið peningana og ekki hefði staðið á umbúðunum hvað þetta var mikið. Hann hefði látið hann fá peningana aftur í sömu umbúðum. Hann kvaðst hafa farið með peningakassa til Sverris Þórs um mánaðamótin ágúst/september 1999. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við neinn af ákærðu í þessu máli.

Meðákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttir bar varðandi þennan lið ákærunnar að hún hefði tekið hjá móður sinni, meðákærðu Bergljótu, að hennar beiðni, fjögur búnt af erlendum peningum og falið í spegli, svo sem nánar er lýst við ákærulið I.4, og nokkrum vikum síðar hefði hún að beiðni ákærða Finns Sverris farið með spegilinn til þáverandi tengdamóður hans, vitnisins Theódóru Guðrúnar.

Vitnið Theódóra Guðrún Rafnsdóttir kannaðist við að móðursystir Finns Sverris hefði komið með peninga til hennar um eða eftir miðjan október. Þeir hefðu verið í ramma utan um spegil. Hún kvaðst hafa ályktað að þetta væri frá Finni Sverri til greiðslu á visareikningi, sem átti að greiða um mánaðamótin september/október upp á yfir 400.000 krónur. Hún hefði komið með spegil í ramma úr hörðum leir eða gipsi og eitthvert skraut hafi verið á. Kvaðst vitnið fyrst hafa haldið að þetta væri afmælisgjöf til sín frá dóttur sinni sem var erlendis. Konan hefði síðan losað rammann með hnífi og dregið peningana út, fjögur eða fimm búnt í plastpoka, líklega hollensk gyllini. Hún kvaðst ekki hafa talið þetta, kvað það hafa stuðað sig að fá svona sendingu. Konan hafi skilið þetta eftir hjá henni og hún hefði hringt í Finn Sverri vegna þess að hann átti hjá henni þvott sem hann þurfti að sækja. Hún kvaðst ekki hafa spurt Finn hvaðan þessir peningar kæmu, en sagt honum að hún kærði sig ekki um svona sendingar og að hann ætti sjálfur að greiða sína reikninga. Hún kvað hann hafa komið um þremur klukkustundum síðar að sækja þvottinn og þá hefði hún afhent honum peningana. Spurð hvaðan hún hefði talið peningana komna, kvað hún Finn hafa verið búinn að vera í því að flytja inn bíla, það hefði ekki hvarflað að henni að þetta væri kannski einhver ágóði af fíkniefnum. Hún kvaðst hafa hitt Ólaf Ágúst hjá dóttur sinni, Helgu, og hafa, eins og allir, vitað að hann hefði verið handtekinn. Hún kvaðst hafa vitað að Finnur var farinn að drekka aftur.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 5. nóvember 1999 kom fram að móðursystir Finns Sverris, sem kom með spegilinn til hennar, var ákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttir. Í þeirri yfirheyrslu var Theódóra spurð um það hvort Finnur Sverrir hefði komið með fé til hennar og hvort hún hefði geymt fé fyrir hann og hafnaði hún því. Hún kvaðst vera viss um að hafa verið heima nóttina sem Ólafur Ágúst var handtekinn og að Finnur hefði ekki komið heim til sín þá nótt. Kvað hún Finn ekki hafa lykil að íbúðinni og ekki að geymslugangi né póstkassa. Hún kvaðst hafa bankahólf á leigu í Íslandsbanka en hefði ekki farið í það það árið. Finnur hefði ekki beðið hana að taka bankahólf á leigu fyrir sig.

Vitnið Gunnar Valur Jónsson, tollfulltrúi, tók þátt í húsleit lögreglu að Írabakka 26, Reykjavík hinn 10. september 1999. Hann annaðist leit í hjónaherbergi og í baðherbergi. Bar hann fyrir dóminum að um hefði verið að ræða almenna húsleit með tilliti til fíkniefna og annarra sakargagna, svo sem skjala og alls þess sem þessu máli gæti komið við. Hann kvaðst muna eftir að hafa leitað í hjónarúminu sjálfu eða á því og við það, í borðum og hirslum og undir rúminu. Spurður hvort hann hefði lyft upp rúmdýnunni, kvaðst hann ekki hafa gert það og hefðu það verið sín mistök og að peningar sem leynt hefði verið undir rúmdýnunni gætu því hafa farið fram hjá honum.

Þegar hefur verið rakinn framburður Runólfs Þórhallssonar rannsóknarlög­reglu­manns um samskipti hans við ákærðu Sólveigu Ósk eftir húsleitina á Írabakka 26. Aðrir lögreglumenn sem stóðu að leitinni komu fyrir dóminn en ekki þykir vera tilefni til að rekja framburð þeirra hér.

Ekkert í framburði ákærðu Bergljótar Karlsdóttur gefur sérstakt tilefni til að rekja hann hér og verður það gert hér á eftir. Framburðir Sigurlaugar Bjarkar og Ingibjargar Auðar verða einnig raktir nánar við þá ákæruliði er þær varða.

Niðurstaða um ákærulið I.1

Ákærðu er gefið að sök peningaþvætti með því að hafa komið undan ágóða af fíkniefnaviðskiptum að verðmæti um 8.500.000 krónur og að hafa notað féð í eigin þágu eða ráðstafað því til annarra. Er þetta talið varða við 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. er lögð refsing við því að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af hegningarlagabroti. Einnig að geyma eða flytja slíkan ávinning, aðstoða við afhendingu hans eða stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 10/1997 kemur skýrt fram að saknæm háttsemi samkvæmt ákvæðinu er ekki tæmandi talin og að túlka ber ákvæðið með hliðsjón af markmiðum og skilgreiningu tveggja alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að. Eru það samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988, almennt nefndur “fíkniefnasamningurinn”, og samningur um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, gerður á vettvangi Evrópuráðsins, almennt nefndur “þvættissamningurinn”. Eru þessir samningar fylgiskjöl með frumvarpinu og segir í greinargerðinni að frumvarpinu sé “ætlað að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins.” Með greindri lagabreytingu var peningaþvætti gert að sjálfstæðu refsiverðu broti. Stórfelld fíkniefnabrot sæta refsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga og samkvæmt 2. mgr. 264. gr. er refsirammi hækkaður ef peningaþvættisbrot tengist slíku broti. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 27. júní 2000 í málinu S-774/2000 var Ólafur Ágúst Ægisson sakfellur fyrir brot gegn því ákvæði Áfrýjaði hann ekki dóminum. Með dómi Hæstaréttar hinn 22. febrúar 2001 í málinu nr. 312/2000 var sami dómur staðfestur að því er varðar Sverri Þór Gunnarsson.

Í þessum hluta ákæru er ákært vegna 8.500.000 króna, en það er sú fjárhæð sem vitnið Sverrir Þór kveðst hafa falið vitninu Ólafi Ágústi að geyma og Ólafur Ágúst kveðst hafa komið fyrir undir rúmdýnunni á heimili sínu og ákærðu Sólveigar Óskar að Írabakka 26. Ólafur Ágúst kvaðst ekki hafa talið féð sem Sverrir Þór lét hann hafa og taldi mögulegt að sjálfur hefði hann átt einhvern hluta þess. Vitnið Sverrir Þór taldi sig ekki geta aðgreint hvað af því fé sem hann hafði undir höndum stafaði frá fíkniefnasölu og hvað væri komið úr fasteignaviðskiptum hans eða væru vinnulaun. Ljóst er af dómi Hæstaréttar frá 22. febrúar 2001 að þeir voru báðir stórtækir í fíkniefnaviðskiptum og langstærstur hluti tekna þeirra síðastliðin ár tilkominn vegna slíkra viðskipta. Er ljóst að ágóði af þeim viðskiptum hefur verið mjög mikill og miklum mun meiri en nemur þeirri fjárhæð sem hér er til umfjöllunar. Af símtali sem þeir áttu, Sverrir Þór og Ólafur Ágúst, 6. september 1999 má ráða að þeir séu að ræða um fjárhæð sem samtals nemur um 10.000.000 króna. Ekkert hefur komið fram um að Ólafur Ágúst hafi verið búinn að fjarlægja aftur eitthvað af þeim peningum sem hann tók við frá Sverri Þór og setti undir rúmdýnuna. Með þessu þykir því sannað að um 8.500.000 krónur hafi verið undir dýnunni þegar ákærða Sólveig Ósk fann féð og telst það allt vera ávinningur fíkniefnaviðskipta. Þykir í þessu sambandi ekki skipta máli hvort Sverrir Þór blandaði hugsanlega löglega fengnu fé saman við fé sem var ávinningur af fíkniefnaviðskiptum eða Ólafur Ágúst hafði sett einhverja aðra peninga líka undir dýnuna. Það er einmitt eðli peningaþvættisbrota að illa fengnu fé er blandað saman við lögmætan ágóða í þeim tilgangi að fela hið fyrrnefnda. Af þessu leiðir að brotamaður verður að bera halla af því ef hinn lögmæti hluti fjárins verður ekki skýrt aðgreindur þegar svo stendur á. Með framburði ákærðu er sannað að þau fóru út úr íbúðinni með allt það fé sem undir dýnunni var eða 8.500.000 króna.

Ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir var sambýliskona Ólafs Ágústs Ægissonar. Ákærði Finnur Sverrir Magnússon var viðskiptafélagi Ólafs Ágústs. Stunduðu þeir um árabil kaup og sölu á notuðum bifreiðum, keyptu þeir bifreiðar bæði hér á landi og frá útlöndum, oft voru þetta bifreiðar sem orðið höfðu fyrir tjóni og þeir síðan lagfærðu og seldu. Óljóst er þó um umfang þessara viðskipta. Fyrirtæki þeirra mun hafa verið óskráð og svo virðist sem dregið hafi úr starfsemi þess. Samkvæmt framburði ákærða Guðmundar Kristjáns hjá lögreglu var verkstæðið selt seinni part vetrar 1999 og ákærði Finnur kveðst hafa hætt allri vinnu í fyrirtækinu í febrúar 1999. Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson er giftur móðursystur og uppeldissystur ákærða Finns Sverris, Sigurlaugu Björk Finnsdóttur, sem einnig er ákærð í þessu máli, sbr. ákærulið I.2. Guðmundur Kristján vann sem sjálfstæður verktaki fyrir þá Ólaf Ágúst og Finn Sverri við að þrífa bifreiðar og annað sem til féll.

Þáttur Sólveigar Óskar Óskarsdóttur

Aðdragandi húsleitarinnar á heimili ákærðu Sólveigar Óskar Óskarsdóttur og Ólafs Ágústs að Írabakka 26 hinn 10. september 1999, var að lögreglan grunaði Ólaf Ágúst um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. Var hann handtekinn og húsleit gerð af hópi lögreglumanna með hund. Hafa vitni staðfest, svo sem rakið hefur verið, að leitað hafi verið fíkniefna og annarra gagna sem tengst gætu fíkniefnaviðskiptum, en þar á meðal teljast peningar, og einnig að ekki hafi verið leitað undir rúmdýnu í hjónaherbergi. Ákærða var kölluð á staðinn þegar leit var lokið, henni var kynnt að fíkniefnadeild lögreglunnar hefði verið þarna við húsleit og að útidyrahurð að íbúðinni hefði verið brotin upp. Voru henni afhentir lyklar að lás sem settur hafði verið á hurðina. Af þessu gat henni ekki dulist að Ólafur Ágúst var talinn bendlaður við fíkniefnamál og umfangsmikil leit hafði verið gerð á heimili þeirra vegna gruns um þetta. Eins og ákærðu hafa borið bar íbúðin þess einnig merki að þar hefði umfangsmikil leit átt sér stað. Auk þessa hafði Ólafur Ágúst verið í mikilli neyslu þegar þau Sólveig Ósk kynntust um sex árum áður og eins og hún hefur lýst fyrir réttinum bjó hún við þann ótta að hann félli á ný í fíkniefnaneyslu. Upplýst er að hún hafði nokkrum sinnum borið það á hann að hann væri byrjaður í neyslu. Bæði fullyrða þau að hann hafi ætíð neitað þessu og tekist að sannfæra hana um að svo væri ekki. Dálítið magn af fíkniefnum var á heimilinu, sem Ólafur Ágúst framvísaði og virðist það ekki hafa verið sérstaklega falið. Meðal gagna málsins er hljóðritun símtals frá 5. júlí 1999 þar sem ákærða Sólveig Ósk kallar Ólaf Ágúst í reiði í tvígang “dópsala”. Jafnvel þótt rétt sé, eins og ákærða heldur fram, að henni hafi ekki verið kunnugt um fíkniefnaviðskipti Ólafs Ágústs og ekki verið meðvituð um neyslu hans, þá þykja framangreind atriði leiða til þess að henni hlaut að vera ljóst, þegar hún sá peningana undir rúmdýnu sinni eftir húsleit lögreglu frá fíkniefnadeild, að þeir tengdust því broti sem Ólafur Ágúst var grunaður um. Áfengisneysla hennar fyrir þennan atburð og uppnám vegna húsleitarinnar og handtöku Ólafs Ágústs þykja engu breyta um þetta né eftirfarandi ákvarðanir og gerðir. Sú skýring hennar að hún teldi þetta fé tilheyra löglegum atvinnurekstri þeirra ákærða Finns Sverris og Ólafs Ágústs þykir dóminum ekki trúverðug í ljósi undanfarandi húsleitar, þess hversu mikið reiðufé þetta var, hvernig um það var búið og hversu óvenjulegur geymslustaðurinn var og óskynsamlegur, væri um löglega fengið fé að ræða. Komið hefur fram að Ólafur Ágúst hafði bankareikning þar sem hann lagði venjulega inn peninga vegna viðskipta sinna með bifreiðar og að hann hafði greiðslukort.

Sannað er með framburði ákærðu Sólveigar Óskar og meðákærðu að hún tók þátt í þeirri aðgerð að koma peningunum undan úr íbúðinni. Hún samþykkti að þeir væru fjarlægðir, lánaði tösku undir erlendu peningana, bar sjálf íslensku peningana út í veski sínu og lét loks ákærða Guðmund Kristján fá lykil að íbúðinni til þess að hann gæti sótt töskuna með erlendu peningunum síðar um nóttina. Hún fylgdi síðan ákærða Finni Sverri í samkvæmi með íslensku peningana í veskinu. Margt er óljóst um ferðir þeirra þessa nótt og ber ákærðu og vitnum illa saman um þær. Ákærða Sólveig Ósk tilkynnti lögreglunni ekki um þessa peninga. Hún fékk sannanlega í sinn hlut 265.000 krónur, sem Finnur skildi eftir í veski hennar, og eyddi af þeim um 160.000 krónum í áfengi og akstur í glæsibifreið. Upplýst er að hún reyndi síðar að fá meðákærðu Finn Sverri og Guðmund Kristján til að láta sig fá af peningunum aftur, hins vegar er ekki ljóst hvaða hvatir lágu til þess. Hún skýrir lögreglu fyrst frá tilvist fjárins þegar hún er handtekin 20. október 1999, eftir að Ólafur Ágúst hafði skýrt lögreglu frá því, en hún hafði sagt Ólafi Ágústi frá peningafundinum í heimsókn til hans í gæsluvarðhald 14. október 1999.

Ákærða Sólveig Ósk hefur með þeirri háttsemi sem hér hefur verið lýst komið undan fé og ráðstafað því til annarra eins og hún er ákærð fyrir, og notað sjálf hluta þess, þrátt fyrir að hún hlyti að vita að þetta fé væri ágóði af fíkniefnaviðskiptum. Samkvæmt framansögðu er háttsemi hennar rétt lýst í ákæru og brot hennar þar réttilega fært undir refsiávæði.

Þáttur Finns Sverris Magnússon

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon kom í Írabakka 26 eftir að hann talaði við Sólveigu Ósk í síma og hún sagði honum frá húsleitinni og að Ólafur Ágúst hefði verið handtekinn. Ekki er fyllilega skýrt hvenær hann vissi fyrst um peningana, né heldur hvert þeirra tók þá undan rúmdýnunni. Eru frásagnir ákærðu um þetta óljósar og ber ekki fyllilega saman. Hins vegar er ljóst af framburði ákærða Finns Sverris sjálfs og meðákærðu að hann tók stjórnina þegar hann kom í íbúðina og mælti upp frá því fyrir um hvernig farið skyldi með peningana. Hann tók þátt í því með meðákærðu að fjarlægja peningana úr íbúðinni á Írabakka 26. Framburður ákærðu og vitna um ferðir ákærðu þessa nótt eftir að þau fóru frá Írabakka 26 er mjög misvísandi og slitrótt og hefur ekki fengist skýr mynd af þeim svo sem að framan greinir. Ákærði Finnur Sverrir kvaðst lítið muna frá atburðum þessarar nætur þegar hann kom fyrir dóminn og gat hann litla grein gert fyrir því hvað gert var við peningana. Hjá lögreglu varð hann margsaga um meðferð þeirra. Sagði hann þar meðal annars í upphafi að hann hefði sett íslenska peninga í plastpoka upp í ermina. Við aðalmeðferð málsins bar hann einnig að hann væri vanur að geyma miklar fjárhæðir úr bifreiðaviðskiptum uppi í erminni. Upplýst er þó að íslensku peningana tók hann alla í sína vörslu þessa nótt, utan 265.000 krónur sem hann skildi eftir í veski Sólveigar Óskar. Síðar virðist hann einnig hafa fengið í sínar hendur meiri hluta hins erlenda gjaldeyris.

Upplýst er að ákærði Finnur Sverrir og Ólafur Ágúst höfðu rekið saman fyrirtæki á eigin kennitölum í nokkur ár. Keyptu þeir og gerðu upp gamla bíla og seldu aftur, keyptu þeir jafnvel tjónabíla frá útlöndum. Hins vegar er einnig komið fram að þeir höfðu báðir fallið eftir langt hlé og verið í óreglu í um átta mánuði eða frá því snemma árs 1999. Einnig að Finnur hætti allri vinnu í febrúar 1999 og Guðmundur Kristján hefur borið hjá lögreglu að verkstæði þeirra hafi verið lokað um líkt leyti. Þá er upplýst að Finnur Sverrir hafði í nokkra mánuði keypt fíkniefni af Ólafi Ágústi og vissi því sannanlega að hann stundaði fíkniefnaviðskipti. Enn fremur vissi Finnur Sverrir að húsleit hafði verið gerð hjá Ólafi Ágústi. Á við hann að breyttu breytanda það sem hér að framan var sagt um þá vitneskju sem meðákærða Sólveig Ósk hlaut að hafa. Ákærði Finnur Sverrir ber því við að hann hafi talið sig eiga tilkall til peninganna þar sem hann ályktaði að þeir væru tilkomnir vegna sameiginlegs reksturs þeirra Ólafs Ágústs. Þessi skýring hans þykir ekki trúverðug í ljósi upphæðarinnar og geymslustaðar fjárins. Enn fremur þess að þeir höfðu lokað verkstæðinu og virðast hafa átt í fjárhagserfiðleikum. Þá verður ekki fallist á að hann hafi haft skynsamlega ástæðu til að ætla að lögreglan hefði skilið þessa peninga vísvitandi eftir. Jafnvel þótt það sé rétt sem hann hélt fram fyrir réttinum að lögregla eigi ekki að gera mistök eins og hér áttu sér stað, þá breytir það ekki sök þeirra sem hagnýta sér slík mistök til að öðlast ávinning af broti.

Ákærði Finnur Sverrir kveðst hafa greitt einhverjar skuldir vegna bifreiðakaupa með hluta fjárins, en hefur ekki gert neina viðhlítandi grein fyrir slíkum greiðslum. Þá segist hann hafa eytt fénu að mestu í eigin óreglu. Með framburði ákærða Finns Sverris, meðákærðu og vitna er sannað að hann lagði á ráðin um það að peningunum væri skipt á ýmsa geymslustaði. Er slík skipting hárra fjárhæða í minni einingar og ráðstöfun til geymslu á ýmsum stöðum ein aðferð sem beitt er við peningaþvætti og samræmist ekki meðferð löglega fengins fjár.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ákærði Finnur Sverrir fundinn sekur um að koma undan, nota og ráðstafa til annarra peningum sem hann hlaut að vita að væri ávinningur fíkniefnaviðskipta svo sem lýst er í ákæru. Samkvæmt framangreindu er háttsemi hans rétt lýst í ákæru og brot hans þar réttilega fært undir refsiákærði.

Þáttur Guðmundar Kristjáns Guðjörnssonar

Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson tók virkan þátt í að fjarlægja féð úr íbúðinni að Írabakka 26 og að fela það, bæði að eigin frumkvæði og samkvæmt fyrirmælum meðákærða Finns Sverris. Hann notaði einnig hluta þess í eigin þágu.

Guðmundur Kristján kom frá Vogum á Vatnsleysuströnd til Reykjavíkur um nótt vegna þess að Ólafur Ágúst hafði verið handtekinn. Hann vissi að húsleit hafði verið gerð að Írabakka 26. Honum hlaut að vera ljóst að lögreglu höfðu yfirsést peningarnir og að líkindi væru til að þeir væru illa fengnir. Hann hafði unnið talsvert við bifreiðar fyrir Finn Sverri og Ólaf Ágúst og bar fyrir dóminum að hann hefði þess vegna búist við því að lögreglan hefði samband við sig. Hann bar að hann hefði talið að peningarnir stöfuðu frá bifreiðaviðskiptum þeirra Finns Sverris og Ólafs Ágústs. Þykir þetta ekki trúverðugt í ljósi þess um hversu mikla peninga var að ræða, það í reiðufé og geymslustaðar þeirra. Tók hann þátt í því að flytja íslensku peningana úr íbúðinni með því að aka meðákærðu Finni Sverri og Sólveigu Ósk með þá þaðan burt og sækja síðan sjálfur töskuna sem þau höfðu sett erlendu peningana í. Að fyrirmælum Finns Sverris skipti hann erlendu peningunum í tvo hluta og fór með annan til tengdamóður sinnar, ákærðu Bergljótar, og hinn til bróður síns, ákærða Sigurðar Hólm. Hann viðurkennir að strax daginn eftir hafi verið ljóst að Ólafur Ágúst hafði verið handtekinn vegna gruns um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. Ljóst var af framburði hans að hann hafði fylgst vel með umfjöllun fjölmiðla af málinu, nefndi hann meðal annars fréttir á textavarpi í því sambandi. Hlaut ákærði Guðmundur Kristján þá að gera sér ljóst að peningarnir tengdust fíkniefnaviðskiptum. Hann hafði sjálfur verið fíkniefnaneytandi í mörg ár. Þrátt fyrir þetta gaf hann lögreglu engar upplýsingar um peningana fyrr en hann hafði verið handtekinn og fengið staðfest að Ólafur Ágúst hafði sagt frá þeim.

Á næstu vikum hafði ákærði Guðmundur Kristján talsvert með hinn erlenda hluta peninganna að gera. Hann sótti aftur til tengdamóður sinnar hluta þeirra peninga sem hann hafði falið henni til geymslu og bað bróður sinn að geyma. Ekki er ljóst hvort hann gerði sér þá grein fyrir því að hluti af þeim væri kominn í vörslu ákærðu Ingibjargar Auðar. Tvívegis fór hann með gjaldeyri til meðákærða Finns Sverris. Hann skipti þrisvar hluta gjaldeyrisins, einu sinni fyrir Finn Sverri og tvisvar fyrir sjálfan sig og nýtti það fé í eigin þágu. Loks faldi hann sjálfur heima hjá sér, með aðstoð meðákærðu Sigurlaugar Bjarkar, hluta þess fjár sem áður hafði verið hjá bróður hans Sigurði Hólm og benti lögreglu á það eftir að hann hafði verið settur í gæsluvarðhald. Loks ræddi hann ítrekað við Sólveigu Ósk um féð, sem leitaði til hans um aðstoð við að ná fénu til baka.

Dómurinn telur að allt það sem hér hefur verið rakið bendi ótvírætt til þess að ákærði Guðmundur Kristján hafi gert sér grein fyrir því að fé það sem ákært er vegna hafi verið illa fengið og að það hafi tengst þeim fíkniefnaviðskiptum sem Ólafur Ágúst var grunaður um að eiga hlut að. Engu að síður vann hann að því með meðákærðu að koma fénu undan. Sá hann að mestu um flutning peninganna á milli geymslustaða og ráðstafaði þeim þannig til annarra ákærðu. Hluta fjárins notaði hann í eigin þágu. Fellur þessi háttsemi undir hugtakið peningaþvætti og lýsingu brots í ákæru. Er með þessu sannað að hann hefur framið það brot sem lýst er í ákærulið I.1. Telst háttsemin taka til þeirrar fjárhæðar sem þar er tilgreind og vísast um hana til umfjöllunar hér að framan. Háttsemi ákærða er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

Ákæruliður I.2

Ákærðu Sigurlaugu Björk Finnsdóttur er gefið að sök að hafa tekið við 23.000 hollenskum gyllinum af meðákærða Guðmundi Kristjáni um 17. október 1999 og falið féð á heimili þeirra, vitandi að féð var ávinningur af fíkniefnasölu.

Ákærða bar fyrir dóminum að Guðmundur Kristján hefði látið hana hafa poka sem hún hefði vitað að í voru peningar. Þetta hefði verið ógagnsær plastpoki sem var rúllað upp utan um peningabúnt. Guðmundur hefði rétt henni þetta í eitthvert sinn þegar hann var að fara út og beðið hana að geyma það vel. Hún kvaðst ekki hafa skoðað í pokann og því ekki hafa vitað hvaða gjaldmiðill þetta var. Hún hefði sett böggulinn í annan plastpoka og komið þessu fyrir bak við þil í þvottahúsinu, sem sé í skúr áföstum við íbúðarhúsið. Hún hefði sett hinn pokann utan um til að vernda pakkann fyrir leka, sem sé í húsinu. Hún taldi þetta hafa verið um tíu dögum áður en lögreglunni voru afhentir peningarnir sem var 4. nóvember 1999. Hún var spurð hvers vegna hún hefði valið þennan geymslustað. Sagði hún að sér hefði þótt óþægilegt að geyma peninga fyrir aðra, þau Guðmundur Kristján hefðu verið mjög blönk undanfarin ár og því hefði getað komið upp sú freisting að fá lánað af fénu. Hún hefði því lagt þetta frá sér þannig að það væri ekki fyrir henni.

Ákærða Sigurlaug var yfirheyrð af lögreglu 4. nóvember 1999, sama dag og Guðmundur var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Neitaði hún þá vitneskju um peningana. Spurð út í þetta fyrir dóminum sagði hún það hafa verið dottið gjörsamlega úr henni, kannski hefði það skeð af því að hún hefði haldið að hún væri að hjálpa Guðmundi.

Hún kvaðst hafa geymt þessa peninga fyrir Guðmund, hann hefði ekkert sagt sér um þá, en hún hefði ályktað að hann væri að geyma þá fyrir Ólaf Ágúst og Finn Sverri. Guðmundur hefði oft verið sendur til að borga toll eða annað þegar hann var að vinna hjá þeim á verkstæðinu. Hún kvaðst hafa vitað þegar hún tók við peningunum að Ólafur Ágúst var í gæsluvarðhaldi, en það hefði ekki hvarflað að henni að hann væri einn af þessum stóru í fíkniefnamáli. Borinn var undir hana í dóminum eftirfarandi framburður hjá lögreglu 5. nóvember 1999: “Sigurlaug segir að sambýlismaður hennar Guðmundur hafi afhent sér þessa peninga u.þ.b. viku áður en hann var handtekinn. Hann hafi beðið hana að geyma peningana en ekkert sagt sér hvaðan peningarnir væru komnir. Kveðst Sigurlaug hafa talið að þetta væru peningar sem Guðmundur hafi náð af Finni Sverri Magnússyni fyrir Sólveigu Ósk sambýliskonu Ólafs Ágúst Ægissonar, sbr. framburð Sigurlaugar hjá lögreglu í gær.“ Beðin um að skýra þetta nánar kvað hún Sólveigu hafa treyst Guðmundi betur, Finnur hefði verið kolfallinn og fégráðugur og það hefði ekki verið hægt að treysta honum.

Þegar ákærða Sigurlaug Björk var yfirheyrð hjá lögreglu deginum áður, 4. nóvember 1999, neitaði hún, eins og rakið hefur verið, allri vitneskju um hvað orðið hefði um þá peninga sem ákærða Sólveig Ósk hafði fundið undir rúmdýnu sinni og neitaði að hafa sjálf haft vörslu fjár sem tengst gæti málinu. Hins vegar kemur fram að Guðmundur hafði sagt henni frá peningafundinum og einnig að Sólveig hefði gist á heimili þeirra eina nótt á þessum tíma. Síðar sama dag, þegar lögregla kom á heimili hennar ásamt Guðmundi til að sækja peningana, vísaði hún á þá þar sem hún hafði falið þá bak við þil í þvottahúsi. Hún var aftur yfirheyrð af lögreglu næsta dag. Kvaðst hún þá ekki hafa skýrt frá peningunum af því að hún hefði talið sig vera að hjálpa sambýlismanni sínum Guðmundi. Hún kvað Guðmund hafa beðið sig að geyma peningana en ekkert sagt um hvaðan þeir væru komnir. Kvaðst hún hafa talið að þetta væru peningar sem Guðmundur hefði náð af Finni Sverri fyrir Sólveigu Ósk.

Þegar ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson var spurður um þau 23.000 gyllini sem voru á heimili hans og hann sagði til, kvaðst hann hafa verið búinn að ákveða það sama dag og gæsluvarðhald yfir honum var framlengt að segja frá peningunum og benda á þá og hefði hann farið á heimili sitt í fylgd tveggja lögreglu­manna í þeim tilgangi. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa fundið peningana því konan hans, ákærða Sigurlaug Björk, hefði verið búin að færa þá. Hann kvaðst hafa verið búinn að segja henni frá þessum peningum. Þau hefðu bæði vitað af peningunum þarna á heimilinu. Aðspurður kvaðst hann hins vegar ekki muna hvort hann hefði beðið hana að geyma þá. Þetta hefði verið restin af peningunum, sem hann hefði komið með til baka þegar hann fór með síðustu peningana til Finns Sverris á Hótel Esju. Finnur hefði þá beðið hann að geyma þetta áfram.

Niðurstaða um ákærulið I.2

Ákærða Sigurlaug Björk Finnsdóttir hefur játað að hafa sett peningaböggul, sem sambýlismaður hennar, ákærði Guðmundur Kristján, bað hana að geyma, á bak við þil í þvottahúsi sínu sem er í skúr sambyggðum íbúðarhúsi þeirra. Hún kveðst hins vegar aðeins hafa verið að gæta þessara peninga vandlega fyrir Guðmund Kristján og neitar vitneskju um að þeir hafi tengst fíkniefnaviðskiptum.

Greinilegt er að Guðmundur Kristján vissi ekki um felustað peninganna vegna þess að hann gat ekki vísað lögreglu á þá. Ákærða neitaði í fyrstu vitneskju um peningana, en vísaði á þá þegar hún vissi að Guðmundur Kristján hafði sagt lögreglu frá þeim. Hún gaf þá skýringu á neitun sinni að hún hefði talið sig vera að hjálpa Guðmundi Kristjáni, og verður henni ekki lagt það til lasts. Sú skýring hennar fyrir dóminum að hún hafi verið búin að gleyma þessum peningum þykir hins vegar ekki trúverðug.

Með framburði ákærðu Sigurlaugar Bjarkar og öðrum gögnum telst sannað að hún vissi að ákærða Sólveig Ósk hafði fundið peninga í íbúð sinni eftir að Ólafur Ágúst var handtekinn og lögreglan gerði húsleit í íbúðinni. Hins vegar verður að telja ósannað að hún hafi vitað hversu miklir peningar fundust þar. Henni var kunnugt um að Guðmundur Kristján var í sambandi við Sólveigu Ósk næstu vikurnar eftir handtöku Ólafs Ágústs vegna peninganna sem þau höfðu fjarlægt úr íbúðinni og henni var kunnugt um að Sólveig Ósk vildi fá peningana. Hún treysti ekki Finni Sverri, sem var í mikilli óreglu. Hjá lögreglu skýrði ákærða frá því að Sólveig Ósk hefði gist eina nótt á heimili þeirra Guðmundar Kristjáns og að hún hefði einu sinni farið með Guðmundi heim til Sólveigar. Fram er komið í málinu að Finnur Sverrir og Ólafur Ágúst höfðu hætt rekstri verkstæðis síns mörgum mánuðum áður. Segir Sigurlaug hjá lögreglu að þeir hafi “rekið verkstæði saman um tíma”. Í ljósi alls þessa og vitneskju hennar um peningafundinn er sú skýring hennar ótrúverðug að hún hafi ætlað að Guðmundur væri á þessum tíma með peninga vegna bifreiðaviðskipta Finns Sverris og Ólafs Ágústs og þeir peningar sem hún faldi væru þannig til komnir. Einnig þykir með ólíkindum að þau Guðmundur Kristján hafi rætt svo lítið um þessa peninga sem þau vilja vera láta. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að um var að ræða reiðufé sem búið hafði verið um á sérstakan hátt og að hún vissi að um peninga var að ræða.

Ákærða kom peningunum fyrir á leyndum stað. Telja verður að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að hún hafi vitað að þetta voru peningar sem tengdust því fé sem Sólveig Ósk hafði fundið í íbúð sinni eftir húsleitina og Sólveig Ósk, Finnur Sverrir og Guðmundur Kristján höfðu fjarlægt úr íbúðinni þá nótt. Þá vissi hún að Ólafur Ágúst sat í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikils fíkniefnamáls og hafði setið þar í rúman mánuð þegar hún tók við þeim peningum frá Guðmundi, sem hún er ákærð fyrir að taka við og fela. Meðferð ákærðu á peningunum og það að hún neitar tilvist þeirra hjá lögreglu þykir sýna glöggt að hún vissi að um illa fengið fé væri að ræða. Vegna vitneskju hennar um handtöku Ólafs Ágústs og peningafundinn er ekki varhugavert að telja sannað að hún hafi hlotið að vita að þessir peningar tengdust fíkniefnaviðskiptum. Með því að taka við þessum peningum hjá Guðmundi Kristjáni og fela þá milli þilja í þvottahúsi sínu tók ákærða vísvitandi þátt í því að geyma, dylja og koma undan fé sem var ávinningur af fíkniefnasölu.

Með framangreindri háttsemi er ákærða Sigurlaug Björk sek um brot sem fellur undir skilgreiningu á peningaþvætti eins og hún er ákærð fyrir. Breytir þar engu um þótt ósannað sé að hún hafi vitað hvert var verðgildi þess fjár sem hún sjálf faldi eða í hvaða gjaldmiðli það var, en í pakkanum sem hún vísaði lögreglu á voru 23.000 hollensk gyllini, jafnvirði rúmlega 780.000 króna. Samkvæmt framansögðu er háttsemi hennar rétt lýst í ákæru og brot hennar þar réttilega fært undir refsiákærði.

Ákæruliður I.3

Ákærðu Bergljótu Karlsdóttur er gefið að sök að hafa hinn 11. september tekið við um 36.500 hollenskum gyllinum á heimili sínu Teigaseli 1 í Reykjavík, sem meðákærði Guðmundur Kristján hafi komið með til hennar, og að hafa falið þessa peninga á heimili sínu þar til meðákærði Guðmundur Kristján sótti þá nálægt 25. september 1999. Er hún talin hafa vitað að peningarnir voru ávinningur af fíkniefnasölu.

Ákærða Bergljót kannaðist við það fyrir dóminum að meðákærði Guðmundur Kristján hefði komið á heimili hennar í Reykjavík með erlenda peninga sem hún hefði tekið við og falið í þvottaefnispakka, en neitaði að hafa vitað að um hefði verið að ræða ávinning af fíkniefnasölu. Þá kvaðst hún ekki geta staðfest fjárhæðina þar sem hún hefði ekki talið peningana og kvaðst ekki gera sér grein fyrir hversu mikið þetta hefði verið. Hún staðfesti einnig að hafa afhent Guðmundi Kristjáni peningana aftur um tveimur vikum síðar, en kvaðst ekki geta staðfest daginn. Hún kvað Guðmund hafa sagt sér að þessir peningar væru frá Finni Sverri, að hann hefði beðið hana um að geyma þá og að þetta væru bílapeningar. Sagði hún að sér hafi fundist þetta ósköp eðlilegt og hefði hún orðið við því að geyma þá. Hún kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna Finnur Sverrir kom ekki sjálfur. Aðspurð kvað hún hvorki Guðmund né Finn hafa beðið hana um að geyma peninga í annan tíma. Hún kvaðst ekki muna hvernig peningunum var pakkað inn eða hvort þeir voru í tösku eða poka. Hún kvaðst hafa séð að þetta voru erlendir peningar. Einhver fyrirferð hefði verið á þessu. Hún kvaðst hafa falið peningana í litlum þvottaefnispakka og það hefði verið þvottaefni í honum líka, ofan á peningunum. Nánar spurð um hvernig hún hefði búið um peningana, kvaðst hún hafa sett þá í þvottaefnispakka í baðherberginu. Beðin um að skýra þennan geymslustað, kvaðst hún ekki vera vön að geyma peninga heima hjá sér. Hún byggi ein og væri hrædd við innbrot og annað slíkt, og hún hefði ekki viljað láta peningana liggja á glámbekk og þetta hefði henni fundist góður og traustur staður. Hún kvaðst hafa beðið Guðmund Kristján um að sækja peningana vegna þess að hún hefði viljað losna við þá. Hún kvaðst vera mjög slæm á taugum og sér hefði fundist það vera álag að geyma peningana, Guðmundur hefði komið strax og tekið þá.

Hún kannaðist ekki við að henni hefði skilist á Guðmundi að þetta væri stór fjárhæð. Hún kvaðst ekki hafa talið peningana, enda kunni hún ekki að telja erlenda peninga, og ekki gert sér neina grein fyrir því hversu mikið fé þetta var. Þetta hefði ekki verið hennar peningar, hún hefði aðeins verið að geyma þá og verið viss um að þetta væru bílapeningar.

Spurð hvort henni hafi fundist það líklegt að borgað væri með erlendum peningum í bílaviðskiptum, þá kvað hún sér hafa fundist það eðlilegt, þar sem þeir Finnur Sverrir og Ólafur Ágúst hefðu stundum verið að kaupa bíla að utan. Aðspurð um framburð sinn hjá lögreglu þar sem hún bar að Guðmundur Kristján hefði sagt henni að þetta væru peningar sem Ólafur Ágúst vinur hans og Finnur Sverrir dóttursonur hennar ættu og að henni hefði skilist á Guðmundi að hann hefði sótt þessa peninga á heimili Ólafs Ágústs, þá kvaðst hún ekki muna þetta. Hún kvaðst alls ekki hafa verið í ástandi til að gefa skýrslu þegar hún var yfirheyrð af lögreglu. Á sínum tíma hefði Guðmundur verið búinn að spyrja hvort hún væri kærð fyrir eitthvað og því hefði verið svarað neitandi. Hún hefði að læknisráði farið til Hveragerðis sér til heilsubótar vegna þess að allt þetta hefði verið búið að reyna mikið á hana, að hún og börnin hennar væru bendluð við þetta mál. En skyndilega hefði lögreglan komið og náð í hana. Hún kvaðst ekki vera vön lögreglumálum og annar lögreglumaðurinn sem hefði yfirheyrt hana hefði lagt henni orð í munn, verið mjög grimmur og talað niður til hennar. Hún lagði áherslu á að hún myndi aldrei hafa tekið við peningum sem tengdust fíkniefnamálum. Eftirfarandi framburður hennar hjá lögreglu 5. nóvember 1999 var þá borinn undir hana: “Bergljót segir að henni hafi liðið illa með þessa peninga á heimilinu. Sá grunur hafi læðst að henni að hugsanlega væru þessir peningar tilkomnir vegna fíkniefnaviðskipta.“ Kvað hún lögreglumanninn hafa lagt sér orðið “fíkniefnaviðskipti“ í munn og ítrekaði að hún myndi þá aldrei hafa verið með þessa peninga. Hún hefði alltaf staðið í þeirri föstu trú að þetta væru bílapeningar. Hún hefði vitað að þeir væru komnir frá Finni, en svaraði ekki beint spurningu um hvort hún hefði vitað að þeir væru komnir frá Ólafi Ágústi.

Hún kvaðst hafa frétt að Ólafur Ágúst hefði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald, en kvaðst hafa átt mjög bágt með að trúa því. Hún kvaðst ekki muna núna hvenær hún frétti þetta, né heldur hvort hún var búin að frétta það þegar hún tók við peningunum. Hún staðfesti ekki, aðspurð af sækjanda, að Ólafur Ágúst hefði skuldað henni peninga. Hún kannaðist við að hafa keypt sumarbústað af þeim Ólafi Ágústi og Finni löngu áður en þetta var. Það hefði verið búið að ganga frá kaupunum peningalega en eftir hefði verið að ganga frá afsali og þinglýsingu. Hún kvað þá Finn og Ólaf vera vini og hafa þekkst lengi og hefði sér líkað prýðilega við Ólaf, fundist hann vera góður drengur. Hún myndi aldrei hafa trúað að hann kæmi nálægt svona hlutum. Hún staðfesti að Finnur hefði oft fengið lánaða peninga hjá henni vegna bifreiðaviðskiptanna. Hún kvaðst ekki geta sagt um hversu mikið hún hefði lánað honum samtals en það væru einhver hundruð þúsunda. Hún kvað Finn hafa byrjað ungan í óreglu, en hafa hætt og verið búinn að standa sig mjög vel. Hún kvaðst ekki vera viss um hvenær hann byrjaði aftur en taldi það hafa verið eitthvað um þetta leyti. Hann hefði verið í áfengisneyslu en hún kvaðst ekki vita um fíkniefni. Hún kvaðst ekki telja að Guðmundur hefði verið í neinni óreglu en ekkert vita um Ólaf.

Ákærða staðfesti undirritun sína undir lögregluskýrslu sem hún gaf í málinu, en taldi að lögreglumennirnir hefðu lesið hana fyrir sig. Hún ítrekaði fyrri athugasemd um að hún hefði ekki verið fær um að gefa skýrslu þegar hún var tekin og að lögreglan hefði farið grimmilega að henni. Sagði hún lögregluna hafa hringt í sig til Hveragerðis og sagst ætla að koma. Hún kvaðst ekki hafa getað hugsað sér að þeir sæktu hana á heilsuhælið og því hitt þá á Selfossi. Hún hefði ekki látið neinn vita, eins og hún hefði átt að gera, en þegar þeir skiluðu henni aftur hefðu læknarnir komist að þessu því hún hafi brotnað niður.

Hún kvaðst hafa talað við Ingibjörgu Auði um peningana sem hún geymdi og sagt henni eins og var að sér liði illa að vera að geyma þetta fé og hefði Ingibjörg Auður þá tekið hluta af peningunum. Bar hún að sér fyndist hún hafa flækt Ingibjörgu Auði inn í þetta mál með því að segja henni frá þessu og kvaðst vera miður sín út af því. Kvað hún Ingibjörgu Auði aðeins hafa ætlað geyma féð fyrir hana. Aðspurð hvað hún hefði sagt henni um þessa peninga, kvaðst hún hafa sagt að þetta væru bílapeningar. Sagði hún Ingibjörgu vera eins og hún sjálf með það að hún myndi aldrei hjálpa til með neitt viðkomandi eiturlyfjum.

Meðákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson bar fyrir dóminum að hann hefði farið með hluta gjaldeyrisins til tengdamóður sinnar, ákærðu Bergljótar. Hefði Finnur Sverrir beðið hann að fara með hluta peninganna þangað. Spurður hvort hann hefði beðið Bergljótu að fela peningana, geyma þá eða hvort hún hefði átt að fá þá til ráðstöfunar, kvaðst hann telja að hann hefði beðið hana að geyma þá. Hún hefði tekið við peningunum en fundist þetta mikið, eitthvað velt þessu fyrir sér, en ekki talið peningana. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt neitt við hana um Ólaf Ágúst. Margspurður um þetta atriði fyrir réttinum var hann ekki alveg stöðugur í framburði sínum, en meta verður framburð hans svo að hann minnist ekki sérstaklega að þau hefðu rætt um Ólaf Ágúst, en málið hefði verið áberandi í fréttaflutningi þennan dag. Hann kvað Bergljótu hafa hringt í sig nokkru síðar og beðið sig um að taka peningana og hefði hann sótt þá. Hann kvaðst ekki hafa spurt hana út í ástæðu þessa.

Meðákærði Finnur Sverrir Magnússon staðfesti fyrir dóminum að það gæti vel verið að hann hefði beðið Guðmund Kristján að fara með peninga til móður sinnar, ákærðu Bergljótar. Hann kvaðst ekki muna alla atburðarásina svo vel í dag. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist hann hafa ráðlagt Guðmundi að fara með erlendu peningana á tvo staði og bent honum á að biðja móður sína, Bergljótu, að geyma helminginn. Þetta hefði Guðmundur gert. Móðir hans hefði verið óróleg yfir þessu og hefði aðeins viljað geyma peningana í stuttan tíma. Hann hefði þá beðið Ingibjörgu systur sína að fara til móður sinnar og sækja hluta af þeim peningum sem móðir hans geymdi fyrir Guðmund. Það hefði hún gert og tekið í sínar vörslur um 18.000 hollensk gyllini.

Meðákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttir kvað móður sína, ákærðu Bergljótu, hafa hringt í sig um miðjan september 1999, henni hefði liðið illa með þessa peninga og beðið hana um að geyma þá. Hún hefði ekki sagt hvers vegna henni liði illa né gert henni grein fyrir því af hverju hún væri með þessa peninga, nema að þeir væru frá Guðmundi. Hún kvaðst ekki hafa spurt, hún hefði litið á þetta sem einkamál móður sinnar. Hún hefði aðstoðað hana vegna þess að henni leið illa að vera með þetta. Hún vildi ekki staðfesta framburð sinn hjá lögreglu um að þær hefðu þá, vegna fréttaflutnings af fíkniefnamálinu, áttað sig á að peningarnir tengdust því máli, heldur kvaðst hún hafa verið að tala um það sem síðar varð þegar málið fór að snerta fjölskylduna beint og Finnur Sverrir og systir hennar voru tekin. Hún kvaðst ekki muna hvar peningarnir voru eða hvernig var um þá búið þegar hún sótti þá til Bergljótar. Nánar spurð kvað hún peningana hafa verið uppi á borði. Hún kvaðst telja að hún hafi tekið helminginn af þeim peningum sem Bergljót var með. Hún kvaðst ekki muna hvers vegna hún tók bara helminginn, en kvaðst ekki telja að móðir sín hefði beðið sig að taka alla peningana. Hún kvaðst hafa ályktað að móðir sín ætti þessa peninga, en í raun ekki hafa verið inni í hennar fjármálum og vildi ekki staðfesta framburð sinn í lögregluskýrslu að Guðmundur hafi sagt Bergljótu að peningarnir gætu verið trygging hennar vegna ófrágenginna viðskipta við Ólaf Ágúst.

Lagt hefur verið fram læknisvottorð sem staðfestir að ákærða Bergljót hefur lengi þjáðst af alvarlegri kvíðaröskun.

Niðurstaða um ákærulið I.3

Sannað er að ákærða Bergljót Karlsdóttir tók við reiðufé í erlendum gjaldmiðli og faldi það undir þvottaefni í þvottaefnispakka. Miðað við það sem fyrir liggur í gögnum málsins um verðmæti þess fjár sem falið var undir rúmdýnu á heimili Ólafs Ágústs og Sólveigar Óskar auk gagna um gjaldeyriskaup og vætti ákærðu Guðmundar Kristjáns og Finns Sverris um það hvað þeir höfðu undir höndum og hvernig fénu var skipt upp, þá má ætla að ákærða Bergljót hafi ekki geymt lægri fjárhæð en þá sem greinir í ákæru, eða a.m.k. 36.500 hollensk gyllini. Ekki liggur fyrir sönnun um að hún sjálf hafi haft vitneskju um heildarverðmæti fjárins. Hins vegar er upplýst að hún geymdi vitandi vits mikið magn erlendra peninga og hlaut hún að gera sér grein fyrir því að um verulega fjárhæð var að ræða. Hún geymdi peningana í tvær vikur og átti þá frumkvæði að því að losna við þá.

Nokkurt ósamræmi er í vætti ákærðu Bergljótar, Guðmundar Kristjáns, Finns Sverris og Ingibjargar Auðar hjá lögreglu annars vegar og hins vegar fyrir dómi, og að hluta innbyrðis þeirra á milli. Má þar nefna annars vegar vætti um grunsemdir Bergljótar og þeirra hinna um uppruna peninganna, og hins vegar um það hvort Bergljót bað Ingibjörgu að taka peningana hjá henni eða hvort Finnur gerði það. Þá hefur ekki fengist skýring á því í hvaða tilgangi þessum peningum var aftur skipt í tvennt og hver gerði það.

Ákærða kveðst hafa valið felustaðinn af ótta við þjófa. Það getur þó engan veginn talist eðlilegt að geyma svo mikið reiðufé í langan tíma í heimahúsi. Fé sem sprottið er úr löglegri starfsemi er að jafnaði geymt í bankastofnun. Hún hlaut því að hafa vitað eða a.m.k. að hafa rennt grun í að ekki væri allt með felldu um þessa peninga. Sú skýring að hún hafi talið féð koma úr bifreiðaviðskiptum Finns Sverris og Ólafs Ágústs er ekki trúverðug í ljósi þess að þeir höfðu, samkvæmt því sem fram er komið í málinu, hætt rekstri verkstæðis síns mörgum mánuðum áður þó þeir ættu einhverjar bifreiðar óseldar, hér var um erlenda peningaseðla að ræða og ákærða vissi að Finnur Sverrir var kominn aftur í óreglu. Rétt er einnig að hafa í huga að Ólafur tengdist náið bifreiðaviðskiptum Finns Sverris, sem ákærðu öll vísa ítrekað til, og verður vart greint á milli ágóða þeirra tveggja í því sambandi. Peningar sem þannig tengdust Finni Sverri hlutu því jafnframt að tengjast Ólafi Ágústi. Reksturinn hafði gengið illa fjárhagslega en skyndilega var komið upp á yfirborðið mikið fjármagn sem ekki var leitað eðlilegra skýringa á og sem ekki var farið með á eðlilegan hátt. Þeir Finnur Sverrir og Ólafur Ágúst höfðu verið nánir í langan tíma og var Ólafi borin vel sagan af Bergljótu og Ingibjörgu Auði. Í ljósi þessa er sá framburður ákærðu ótrúverðugur að hún hafi hvorki rætt við meðákærðu Guðmund Kristján né Ingibjörgu Auði um handtöku Ólafs og það umfangsmikla fíkniefnamál sem hann var talinn tengjast. Peningasending af því tagi sem hér um ræðir hlaut að vekja spurningar um tilkomu og eignarhald fjárins. Góð trú við aðstæður sem þessar verður ekki byggð á því að ekki sé spurt eðlilegra spurninga. Þá hljóta umræður að hafa átt sér stað um peningana þegar Ingibjörg Auður tekur hluta þeirra. Með því að afhenda henni þá stuðlaði ákærða að því að peningunum væri skipt upp. Hafi ákærða Bergljót ekki haft rökstuddan grun um uppruna peninganna þegar hún fyrst tók við þeim, gat ekki hjá því farið að hann kæmi upp á næstu dögum og væri til staðar þegar hún lét þá frá sér aftur. Engu að síður geymdi hún féð og afhenti það síðar og stuðlaði þannig að viðgangi peningaþvættis. Það er niðurstaða dómsins að af þessum ástæðum öllum sé um ásetningsbrot að ræða hjá ákærðu, þó að leiða megi líkum að því að vilji hennar hafi ekki staðið til þess að gerast brotleg og að hún hafi afneitað refsinæmi gerða sinna þar sem peningarnir komu til hennar frá nákomnum, Finni Sverri og Guðmundi Kristjáni, og það hafi einhverju ráðið um það að hún tók við peningunum og faldi þá í um hálfan mánuð. Samkvæmt þessu er háttsemi hennar rétt lýst í ákæru, refsiskilyrðum fullnægt og brot hennar því réttilega fært undir refsiákvæði.

Rétt er að taka fram að þótt lögregluskýrsla sem ákærða Bergljót gaf vegna máls þessa hafi að einhverju leyti verið rakin til upplýsingar málinu, er ekki byggt á henni við mat á sök hennar. Er það vegna þess að viss vafi þykir vera um hvort ákærða Bergljót var af heilsufarsástæðum fullfær um að gefa þá skýrslu.

Ákæruliður I.4

Ákærðu Ingibjörgu Auði Finnsdóttur er gefið að sök að hafa um miðjan september 1999 tekið á móti um 33.000 hollenskum gyllinum úr hendi meðákærðu Bergljótar á heimili hinnar síðarnefndu, vitandi að um ávinning af fíkniefnaviðskiptum var að ræða. Þessa peninga hafi hún geymt þar til 19. október 1999, en þá hafi hún afhent þá vitninu Theódóru Guðrúnu Rafnsdóttur samkvæmt fyrirmælum meðákærða Finns Sverris. Ákærða hafnar því að hún hafi vitað að þetta fé var illa fengið og kveðst ekki hafa vitað hver fjárhæðin var.

Ákærða bar fyrir dóminum að móðir sín, meðákærða Bergljót, hefði hringt í sig og beðið sig að koma, Bergljótu hafi liðið illa með peningana sem hún var með og beðið sig um að geyma þá. Spurð hvort meðákærða hefði gert henni grein fyrir því hvers vegna hún var með þessa peninga kvaðst hún lítið hafa spurt, en brugðist við hjálparbeiðni móður sinnar. Nánar spurð kvað hún Bergljótu hafa sagt að hún hafi fengið peningana frá Guðmundi en þær hafi ekki rætt meira um peningana, hún hafi litið á þetta sem einkamál móður sinnar og ekki velt því mikið fyrir sér hvaðan þeir væru komnir. Hún kvað þetta hafa verið erlenda peninga en ekki geta staðfest að það hafi verið hollensk gyllini. Peningarnir hafi verið í plastpoka, í þeim poka hafi verið fjórir litlir glærir plastpokar með peningum. Hún kvaðst ekki hafa séð þá í þvottaefnispakkanum hjá Bergljótu, þeir hafi verið uppi á borði þegar hún sá þá. Hún taldi sig þó hafa vitað að þetta væri hluti þeirra peninga sem Guðmundur hafi komið með til Bergljótar, eða um helmingur þeirra, og að Guðmundur hafi sótt hinn hlutann. Hún kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna hún hafi tekið helming peninganna. Hún kvað þær meðákærðu Bergljótu ekki hafa skipt peningunum. Hún kvað Bergljótu ekki hafa sagt neitt um hvað ætti að verða um peningana. Hún kvaðst hafa gengið út frá því að Bergljót ætti peningana og þeir væru komnir frá Finni. Spurð út í framburð sinn hjá lögreglu hinn 6. nóvember 1999 sagði hún hann hafa verið getgátur. Þar segir hún: ,,Rétt eftir að Ólafur var handtekinn grunaður um fíkniefnaviðskipti kom Guðmundur Kristján til móður minnar með talsvert magn af erlendum peningum. Móðir mín keypti sumarbústað af Ólafi Ágústi fyrir nokkru síðan sem átti eftir að ganga frá pappírslega. Lögreglan hefur þegar kyrrsett þessa eign. Móðir mín sagði mér að Guðmundur hefði sagt sér að þessir peningar gætu verið trygging hennar vegna þessara viðskipta ef ske kynni að sumarbústaðurinn yrði tekinn.” Hún hafi litið svo á þessir peningar gætu verið trygging móður hennar en hún muni ekki hvaðan hún hafi það. Hún kvað einu aðkomu sína að málinu hafa verið í gegnum móður sína.

Hún kvaðst hafa farið heim með peningana og þar sem henni hafi ekki verið vel við að vera með peninga sem hún átti ekki og vildi ekki að þeir væru á almannafæri heldur á öruggum stað, þá kvaðst hún hafa sett þá inn í spegilramma. Hún kvaðst vera mikil föndurkona og búa til hluti sem hún selji eða gefi. Þarna hafi hún verið að vinna við spegla, hafi hún gert ramma um þá úr frauðplasti, mósaík og fúga. Hún hafi sett pokana með peningunum í spegilramma sem hún var að búa til í staðinn fyrir frauðplast, sem hún notaði ella til að lyfta rammanum, og síðan hafi hún sett lím, mósaík og fúga yfir.

Hún kvaðst ekki vera viss um hversu lengi hún hefði geymt þessa peninga þannig í speglinum, kannski í einhverjar vikur. Finnur hafi síðan komið til hennar og beðið hana um að fara með peningana til vitnisins Theódóru. Kvaðst ekki þekkja hana vel, en hafa séð hana í fjölskylduboðum. Hún kvaðst ekki hafa spurt Finn hvers vegna hann færi ekki sjálfur með peningana Hann hafi bara komið og farið og hafi ekki virkað vel á hana svo hún hafi ekki spurt frekar. Neitaði þó að hafa óttast hann. Spurð hvers vegna hún hafi ekki spurt Finn neins úr því að hún hélt að móðir hennar ætti þessa peninga, þá kvaðst hún bara hafa gegnt, hún hafi viljað þetta út og bara verið mjög fegin. Hún taldi að hún hefði ekki rætt það við móður sína áður en hún fór með peningana. Hún kvað lítið hafa farið á milli hennar og Theódóru, hún hafi bara sagt við hana að hún ætti að fá þetta.

Hún kvaðst ekki hafa myndað sér skoðun á því hvaðan þessir peningar kæmu, maður vilji ekki trúa illu upp á þá sem í kringum mann séu, heldur bægi slíkum hugsunum frá sér. Hún kvaðst þekkja Ólaf Ágúst sem vin Finns og ekki nema af góðu.

Hún var spurð um framburð sinn hjá lögreglu, þar sem hún segir: ,,Móðir mín var mjög óróleg yfir þessu og okkur leist ekki á blikuna eftir því sem fréttaflutningur af máli upplýsti að um mjög umfangsmikið fíkniefnamál var að ræða.  Þá gerðum við okkur grein fyrir að líklega væri um að ræða illa fengið fé í tengslum við þetta fíkniefnamál.” Hún kvað þetta ekki alveg rétt eftir sér haft og að tímapunkturinn væri ekki réttur. Þetta ætti við þann tíma þegar Finnur og síðan systir hennar voru handtekin og allar þessar hörmungar hafi gengið á. Þá var borinn undir hana eftirfarandi framburður hennar hjá lögreglu: ,,Í fyrstu datt mér í hug að þessir peningar væru komnir úr bílaviðskiptum Ólafs og Finns enda væru þeir að kaupa og selja bíla auk þess sem þeir hefðu flutt þá inn. Ég leit þannig á að þessir peningar væru tilkomnir til móður minnar sem trygging á sumarbústaðarviðskiptum hennar og Ólafs. Þegar fréttir gerðu okkur ljóst að um alvarlegt fíkniefnamál væri að ræða var ég hreinlega í vandræðum með peningana og vissi ekki hvað ég ætti að gera.  Ég var að gera móður minni greiða sem var mjög órótt vegna alls þessa og þannig komin í vandræði sem ég kunni ekki að vinna mig úr.” Ákærða kvað þetta vera rétt eftir sér haft, en hún kvaðst hafa verið í slæmu andlegu ástandi þegar hún gaf skýrsluna. Hún kvað ástæðu þess að hún nefndi bílaviðskipti vera þá að hún hafi vitað að móðir hennar hafði látið Finn hafa peninga þar sem hann var í bílaviðskiptum og að kaupa bíla erlendis. Hún kvaðst enn ekki vita hvaðan þessir peningar sem hún geymdi hafi komið, en staðfesti að hún hafi skilað þeim af sér deginum áður en Finnur var handtekinn og að þá hafi verið komin mikil spenna í loftið. Hún ítrekaði að hún hafi ekki vitað að peningarnir voru ávinningur fíkniefnaviðskipta og að hún myndi aldrei styðja hvorki fíkniefni né peningaþvætti. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa haft vitneskju um fíkniefnaneyslu Finns Sverris eða Guðmundar Kristjáns á þessum tíma og ekki Ólafs Ágústs og kvaðst sjálf aldrei hafa komið nálægt fíkniefnum. Hún kvaðst ekki muna hvort hún vissi af handtöku Ólafs Ágústs þegar hún tók við peningunum. Hún kvaðst ekki hafa rætt um peningana við neinn fyrr en Finnur bað hana um að fara með þá til Theódóru.

Ákæða Bergljót bar í tengslum við þennan ákærulið að hún hefði hringt í Ingibjörgu Auði vegna þess að hún var áhyggjufull að vera með peningana og Ingibjörg Auður hefði brugðist við og tekið hluta peninganna. Ekkert kom fram um samræður þeirra eða ástæðu þess að peningunum var skipt.

Ákærði Finnur Sverrir bar hjá lögreglu að móðir hans hafi verið óróleg yfir því að vera með peningana og hafi aðeins viljað geyma þá í stuttan tíma. Hann hafi þá beðið Ingibjörgu systur sína að fara til Bergljótar og sækja hluta af þeim peningum sem hún geymdi fyrir Guðmund. Það hafi Ingibjörg gert og tekið í sínar vörslur um 18.000 hollensk gyllini. Lýsti hann síðan að hann hefði komið þeim peningum fyrir í baki spegils sem Ingibjörg geymdi fyrir hann. Kona hans og móðir hennar hafi um þetta leyti þrýst fast á hann að greiða tiltekna greiðslukortaskuld og hafi hann því beðið Ingibjörgu að fara heim til tengdamóður sinnar með spegilinn og láta hana hafa það sem innan í baki hans var. Þetta hafi hún gert en tengdamóðir hans hafi ekki viljað taka við þeim peningum. Peningarnir hafi síðan verið hjá henni þangað til daginn sem hann hafi verið handtekinn. Þá kvaðst hann hafa komið við heima hjá henni og sótt peningana en beðið aðra systur sína, Karen, um að skipta þeim í bankanum þar sem þau hafi verið handtekin.

Ákærði Guðmundur Kristján kvaðst ekki hafa haft nein samskipti við Ingibjörgu Auði vegna peninganna.

Niðurstaða um ákærulið I.4

Sannað er að ákærða Ingibjörg Auður tók við hluta þeirra hollensku gyllina sem ákærða Bergljót hafði tekið við af ákærða Guðmundi Kristjáni. Ekki er upplýst hvaða dag, en það mun hafa verið eftir miðjan september 1999. Geymdi hún féð til 19. næsta mánaðar. Í skýrslu hjá lögreglu sem vitnað var til hér að framan segir Finnur Sverrir að þetta hafi verið 18.000 hollensk gyllini. Þegar Finnur Sverrir var handtekinn var hann að reyna að skipta í banka, með aðstoð systur sinnar Karenar Jóhönnu, 18.000 hollenskum gyllinum. Ákærðu Ingibjörgu Auði, Bergljótu, Finni Sverri og Guðmundi Kristjáni ber saman um að peningunum sem voru hjá Bergljótu hafi verið skipt í tvo hluta, þótt Guðmundur hafi einnig borið að hann hafi ekki vitað um það þegar hann sótti þá aftur til Bergljótar. Bergljót er ákærð fyrir að hafa móttekið og geymt 36.500 hollensk gyllini. Engu að síður er sannað með vætti Finns Sverris að út úr speglinum fékk hann annars vegar 15.000 hollensk gyllini sem hann greiddi ónafngreindum manni bak við heimili tengdamóður sinnar í sama skipti og hann sótti féð þangað og hins vegar var hann handtekinn daginn eftir með 18.000 hollensk gyllini. Þetta eru samtals 33.000 hollensk gyllini sem er sama fjárhæð og Ingibjörg Auður er ákærð fyrir að hafa móttekið og geymt. Fellst dómurinn á að fram sé komin fullnægjandi sönnun fyrir því að hún hafi geymt 33.000 hollensk gyllini.

Sannað er að Ingibjörg Auður faldi peningana í spegilramma sem hún bjó til. Ákærði Finnur Sverrir bar að vísu hjá lögreglu að hann hefði sjálfur falið peningana í speglinum, en í ljósi lýsingar ákærðu Ingibjargar á aðferðinni við að fella peningana inn í rammann og á annarri handavinnu má vera ljóst að framburður hennar um þetta er réttur. Einnig telst sannað með framburði ákærðu Ingibjargar Auðar og Finns Sverris og vitnisins Theódóru að þannig var búið um þessa peningana þar til ákærða Ingibjörg Auður fór með þá samkvæmt fyrirmælum Finns Sverris til tengdamóður hans, vitnisins Theódóru, en þar losaði ákærða peningana úr rammanum.

Ákærða breytti nokkuð framburði sínum fyrir dóminum frá því sem hún bar fyrir lögreglu. Athyglisvert er að hún lagði áherslu á að hún hefði talið peningana tilheyra móður sinni vegna þess að Finnur Sverrir og Ólafur Ágúst væru í skuld við hana, en engu að síður hlýddi hún Finni Sverri orðalaust að ráðstafa þeim til annarra. Sá framburður að hún hefði álitið peningana komna frá bifreiðaviðskiptum Finns Sverris er ekki trúverðugur í ljósi þess að þeir Ólafur höfðu lokað verkstæði sínu og Finnur var búinn að vera í óreglu í marga mánuði. Einnig tengdust þau viðskipti náið Ólafi Ágústi, og verður ekki séð að greint verði á milli ágóða þeirra tveggja í því sambandi. Peningar sem þannig tengdust Finni Sverri hlutu því jafnframt að tengjast Ólafi Ágústi. Henni var kunnugt um tengsl Ólafs Ágústs og Finns Sverris, um handtöku Ólafs og að hann var talinn bendlaður við umfangsmikið fíkniefnamisferli. Ákærða vissi jafnframt að hún tók aðeins hluta fjárins sem ákærða Bergljót geymdi. Gat ekki farið hjá því að hún hefði efasemdir um uppruna þess. Hér var skyndilega komið upp á yfirborðið verulegt fjármagn sem ekki var eðlileg skýring á og ákærða kveðst ekki hafa leitað hennar. Skortur á vitneskju við slíkar aðstæður getur ekki fallið undir góða trú. Engu að síður faldi hún féð og stuðlaði þannig að viðgangi brotsins. Er það álit dómsins að geymsla og meðferð peninganna hafi verið óeðlileg og ákærða hafi hlotið að vita að þeir peningar sem hún faldi í speglinum og geymdi þannig væru afrakstur fíkniefnaviðskipta. Með vísan til alls þessa verður að telja að sú háttsemi hennar að taka við peningunum og fela þá með þeim óvenjulega hætti sem hún gerði í um mánaðartíma falli undir hugtakið peningaþvætti og er sannað að með því hafi hún gerst sek um það brot sem hún er ákærð fyrir og réttilega er heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður I.5

Ákærða Sigurði Hólm Guðbjörnssyni er gefið að sök að hafa hinn 11. september 1999 tekið við 36.500 hollenskum gyllinum á heimili sínu af meðákærða Guðmundi Kristjáni og síðar aftur í sama mánuði 36.500 hollenskum gyllinum á bensínstöð við Snorrabraut. Hafi hann geymt þessa peninga fyrir Guðmund Kristján fram í miðjan október þrátt fyrir að hann hafi mátt vita að þeir væru ávinningur af fíkniefnasölu. Ákærði neitar að hafa vitað að það voru peningar sem hann geymdi fyrir Guðmund Kristján.

Ákærði bar fyrir dóminum að ákærði Guðmundur Kristján, bróðir hans, hefði komið á heimili hans með böggul í innkaupapoka sem var vafinn upp, ekki stóran að umfangi – hnefafylli eða svo, og beðið hann að geyma þetta. Hann kvaðst ekki hafa spurt hvað væri í pokanum, ekki skoðað í hann og ekki hugsað út í það, en tekið pokann og sett hann upp í skáp í þvottahúsinu, sem væri gengið inn í rétt við útidyrnar. Nokkru síðar kvað hann Guðmund Kristján hafa hringt í sig í vinnuna rétt fyrir hádegi og beðið sig að hitta sig á bensínstöð við Snorrabraut. Hafi hann orðið við þessu enda hafi hann verið á leiðinni heim í hádegismat og þetta hafi ekki verið úrleiðis. Hann kvaðst venjulega fara heim í hádeginu. Þarna á bensínstöðinni hafi Guðmundur látið hann hafa annan pakka eins og hinn fyrri nema aðeins minni og beðið hann að geyma fyrir sig. Hann kvaðst ekki heldur í þetta skipti hafa spurt út í hvað þetta væri og ekki hafa athugað það en farið með pakkann með sér heim og sett hann á sama stað og hinn fyrri í þvottahúsinu. Guðmundur hafi síðan sótt báða pakkana. Hann gerði í dóminum ekki athugasemd við dagsetningar sem tilgreindar eru í ákæru, en kvaðst ekki hafa vitað að þetta væru peningar og ekki vita annað um magnið en segi í ákærunni. Hann kvaðst ekki hafa vitað að um ávinning af fíkniefnaviðskiptum væri að ræða. Hann kvaðst lítið þekkja Ólaf Ágúst en vita að Guðmundur hafði unnið með honum á bílaverkstæði. Hann kvaðst ekki hafa vitað að Ólafur tengdist fíkniefnum, en taldi að Guðmundur hefði sagt sér frá handtöku hans stuttu eftir að hann var settur í gæsluvarðhald. Hann staðfesti skýrslur sem hann gaf um málið hjá lögreglu.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu vegna málsins 5.og 7. nóvember 1999. Var framburður hans þá í samræmi við það sem hann hefur borið fyrir dóminum.

Ákærði Guðmundur Kristján lýsti því fyrir dóminum að Finnur Sverrir hefði beðið hann að geyma gjaldeyrinn en fara með helminginn til ákærðu Bergljótar. Hann hafi því skipt peningunum eftir hendinni og farið með annan hlutann til Bergljótar en hinn til Sigurðar bróður síns. Hann hafi sett þá neðst í innkaupapoka og síðan vafið upp á hann. Aðspurður taldi hann ekki að hægt hefði verið að greina að þetta væru peningar. Hann kvaðst hafa beðið Sigurð að geyma þetta en þeir hafi ekki rætt það frekar og engin vitni hafi verið að þessum samskiptum. Þegar hann hafi síðan sótt peningana aftur til Bergljótar hafi hann einnig farið með þann pakka til Sigurðar og þá beðið hann að hitta sig á bensínstöðinni. Þegar hann var beðinn um að skýra hvers vegna hann hefði farið með þetta til bróður síns í staðinn fyrir að geyma það sjálfur, kvaðst hann hafa búist við að þau, Finnur og Sólveig, myndu fljótlega kalla eftir þessum peningum og því hafi honum þótt betra að hafa þá í Reykjavík. Spurður hvort Sigurður þekkti þá Finn Sverri og Ólaf Ágúst kvað hann Sigurð vita hverjir þeir væru. Hann kvaðst ekki hafa vitað það, þegar hann sótti peningana aftur til Bergljótar, að Finnur hafði verið búinn að biðja Ingibjörgu Auði um að taka hluta af þeim. Hann kvaðst aðspurður ekki vita til þess að bróðir hans notaði fíkniefni.

Niðurstaða um ákærulið I.5

Sannað er að ákærði Sigurður Hólm Guðbjörnsson tók tvisvar við og geymdi fyrir bróður sinn, ákærða Guðmund Kristján, pakka sem innhéldu hollensk gyllini. Þykir mega leggja til grundvallar að í fyrra skiptið hafi það verið sú fjárhæð sem greind er í ákæru, en í síðara tilvikinu verður ekki komist að niðurstöðu um fjárhæðina.Ekki er komin fram fullnægjandi sönnun fyrir því að ákærði Sigurður Hólm hafi verið upplýstur um að það væru peningar í pökkunum sem ákærði Guðmundur Kristján bað hann að geyma fyrir sig, né heldur að hann hafi athugað hvað í þeim var. Peningarnir voru samkvæmt lýsingu ákærða Guðmundar Kristjáns lagðir í botn venjulegs innkaupapoka og honum síðan rúllað upp utan um þá. Ekki verður fullyrt að maður átti sig á að slíkur pakki hafi að geyma peninga. Ekki er heldur neitt það fram komið sem hefði átt að vekja hjá ákærða grunsemdir þannig að litið verði svo á að það teljist honum til gáleysis að hafa ekki gengið úr skugga um innihald pokanna. Það að þeir bræður hittust á bensínstöð í síðara skiptið þykir ekki gefa fullnægjandi tilefni til grunsemda í ljósi þeirra skýringa að ákærði hafi verið vanur að fara heim í hádeginu og bensínstöðin verið á leið hans þangað. Guðmundur Kristján sótti pakkana aftur til ákærða áður en Guðmundur var handtekinn. Ákærði kveðst hafa lagt pakkana upp í skáp sem ekki er á neinn hátt óeðlilegur geymslustaður og hafa verður í huga að það var bróðir hans, sem bjó utan bæjar, sem bað hann um að geyma þetta. Hann kannaðist við Ólaf Ágúst þar sem Guðmundur Kristján hafði unnið hjá honum, en virðist ekki hafa þekkt hann, og þrátt fyrir það að upplýst er að ákærða var kunnugt um að Ólafur Ágúst hafði verið hnepptur í gæsluvarðhald vegna umfangsmikils fíkniefnamáls, þykir ekki sannað að hann hafi haft augljósa ástæðu til að tengja pakkana sem hann geymdi fyrir bróður sinn við það mál. Af þessum ástæðum telst vera til staðar skynsamlegur vafi um þá huglægu afstöðu til geymslu bögglanna sem hann er ákærður fyrir og ber því með vísan til 45., sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 að sýkna hann af ákæru í máli þessu.

Ákæruliður II

Ákærði Guðmundur Kristján er í þessum ákærulið sakaður um að hafa haft í vörslum sínum 127,97 grömm af hassi og 7,08 grömm af marihuana. Efni þessi fundust við húsleit á heimili hans í Fagradal 12, Vogum, 24. október 1999.

Ákærði játaði þessa háttsemi fyrir dóminum eins og hann hafði áður gert hjá lögreglu. Kvaðst hann vera neytandi og hafa notað kannabisefni af og til með mislöngum hléum í um 25 ár. Kvað hann fíkniefnin eingöngu hafa verið ætluð til eigin neyslu. Hann kvaðst ekki vilja segja frá því af hverjum hann hefði keypt efnið.

Niðurstaða um ákærulið II

Ákærði Guðmundur Kristján hefur skýlaust játað þá háttsemi sem honum er hér gefin að sök og er sú játning hans í samræmi við önnur gögn málins. Er því sannað að hann hefur framið það brot sem hann er ákærður fyrir og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður III

Ákærða Finni Sverri Magnússyni er í þessum ákærulið gefið að sök að hafa í júlí til september 1999 á höfuðborgarsvæðinu haft milligöngu um kaup á 50 g af amfetamíni, 52 g af kókaíni og 30 g af hassi sem hann hafi haft frá Ólafi Ægissyni.

Ákærði Finnur kveður ákærðulið III vera rangan, nema að því leyti að hann hafi hugsanlega keypt einhver grömm af amfetamíni og kókaíni af Ólafi Ágústi á tveggja, þriggja mánaða tímabili, en neitar að það hafi verið eins mikið og ákæra hljóðar um. Segir hann þetta hafa verið eitt og eitt gramm til eigin nota. Hann kvaðst alfarið neita að hafa fengið hjá honum hass. Hann kvaðst aldrei hafa selt fíkniefni.

Ákærði var þá spurður út í símtöl sem hann átti við Ólaf Ágúst 9. og 11. júlí 1999 og orðaval þeirra Ólafs í þessum símtölum. Kvaðst hann ekki kannast við að þar væri verið að ræða um fíkniefni, kannaðist hann ekki við að talað væri um “Gvend“, “Munda“, “klumpa“, og fleira þegar átt væri við hass. Hann var spurður um hvað “Gvendur einn kassi“ þýddi. Benti hann þá m.a. á að hann þekkti marga Gvenda, Gvendur mágur hans hefði verið að vinna hjá þeim og einnig hefði verið hjá þeim bifvélavirki sem héti Gvendur, og taldi hann að “kassi“ væri notað yfir “ekki góðlegan mann“. Hann kvaðst ekki geta skýrt um hvað þeir Ólafur Ágúst væru að ræða. Spurður um ástæðu þess að hann var með auka visakort frá Ólafi Ágústi, kvað hann það hafa verið til að nota ef hann þyrfti að fara til útlanda eða “eitthvað”.

Í yfirheyrslu fyrir dómi hinn 22. nóvember 1999 kvaðst ákærði Finnur Sverrir hafa keypt eitthvað af fíkniefnum á árinu. Kvað hann það hafa verið til eigin neyslu og kvaðst hafa fengið þessi efni hjá Ólafi Ágústi. Hann kvað erfitt að gera grein fyrir magninu. Þetta hefði aðallega verið bundið við helgar og vísaði hann um magnið til skýrslna um símtöl, undir lokin hefði þetta ef til vill verið 10, 15, 20 g um helgi af kókaíni og amfetamíni. Hann kvaðst hafa keypt grammið af hassi á 1000 krónur, grammið af amfetamíni á 3000 krónur og af kókaíni á 8000 krónur. Spurður hvort hann hefði afhent öðrum efni, kvaðst hann ekki hafa gert það en hann hefði gefið.

Vitnið Ólafur Ágúst Ægissson kvaðst kannast við að hafa látið ákærða Finn Sverri hafa kókaín. Hann kvaðst ekki vera viss um hversu mikið magn en taldi það ef til vill hafa verið 50 g samtals. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa látið hann hafa amfetamín, en bút og bút af hassi, það hefði þó aldrei verið í kílóatali. Kvað hann bút vera eitt gramm. Hann kvaðst ekki muna efir að hafa látið Finn hafa MDMA töflur.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 30. september og 21. nóvember 1999 kannaðist Ólafur Ágúst við að hafa útvegað Finni Sverri kókaín, amfetamín og hass. Hinn 21. nóvember, þegar hann var spurður út í símtal á milli þeirra Finns Sverris frá 9. júlí s.á. kvað hann þar vera rætt um kaup nafngreinds aðila á 1 kg af hassi og kunni hann að hafa beðið Finn Sverri að hafa milligöngu þar um. Daginn eftir dró hann þennan framburð til baka og kvað hann hafa verið uppspuna sinn.

Niðurstaða um ákærulið III

Meðal gagna málsins eru hljóðrit og endurrit fjölmargra símtala milli ákærða Finns Sverris og Ólafs Ágústs og fleiri aðila nafngreindra og ónafngreindra frá í júlí, ágúst og september 1999. Í þessum símtölum er mikið notað dulmál og er upplýst með öðrum gögnum málsins að í þeim tilvikum er rætt um hinar ýmsu tegundir fíkniefna og tiltekið magn þeirra. Þrátt fyrir það að ákærði og Ólafur Ágúst hafa lítið viljað tjá sig um efni þessara símtala, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, er ljóst af þessum rannsóknargögnum að ákærði Finnur Sverrir hefur ítrekað rætt við Ólaf Ágúst og fleiri aðila á þann hátt að ekki verður metið öðru vísi en um milligöngu á fíkniefnum sé að ræða og er nefnt hass, amfetamín og kókaín og líklega einnig e-töflur. Oftar ræða ákærði og Ólafur Ágúst þó um fíkniefni fyrir ákærða sjálfan. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þessara símtala sérstaklega og vísast þar um til málsgagna. Ákærði Finnur hefur viðurkennt að hann kunni að hafa útvegað öðrum “einhver grömm” af fíkniefni, en ekki að hafa tekið greiðslu fyrir, heldur hafi þá verið um vinargreiða að ræða. Hann hefur einnig viðurkennt að hafa verið beðinn um að útvega hass en sagt að það hafi ekki orðið úr. Í lok yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 22. nóvember 1999 skýrði Finnur frá því að hann hefði fengið fíkniefni hjá Ólafi Ágústi frá því í ársbyrjun. Hefði þetta verið mest um sumarið og einkum bundið við helgar, fjögur til fimm grömm í hvert sinn af hassi, kókaíni og amfetamíni. Hann kvaðst hafa keypt grammið af hassi á um 1.000 krónur, af amfetamíni á um 3.000 krónur og af kókaíni á um 8.000 krónur, og stundum hefði Ólafur gefið honum. Kvaðst hann vera búinn að eyða um 700.000 krónum í fíkniefni á árinu og eitthvað skulda Ólafi. Fyrir dómi síðar sama dag staðfesti hann þessa skýrslu og skýrði einnig svo frá að neysla sín hefði smáaukist og verið komin upp í um 10, 15, 20 grömm um helgi af kókaíni og amfetamíni. Ákærði hefur nú fyrir dóminum aðeins játað neyslu á kókaíni í litlu magni og hefur þannig breytt framburði sínum frá því sem hann hefur áður borið bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Þetta afturhvarf hans frá fyrri skýrslum er ekki trúverðugt í ljósi fyrirliggjandi rannsóknargagna. Ólafur Ágúst bar fyrir dóminum að hann gæti hafa látið ákærða fá samtals um 50 g af kókaíni og staðfesti að í símtölum sem voru hleruð af lögreglu væru þeir einnig að ræða um hass og amfetamín. Með tilvísun til fyrri framburðar ákærða og þeirra rannsóknargagna sem hér hafa verið tilgreind, auk vættis Ólafs Ágústs, er fram komið að ákærði Finnur hafi sjálfur fengið til eigin nota fíkniefni og hafi það ekki verið í minna magni en það sem tilgreint er í ákæru. Ákært er fyrir milligöngu. Sannað þykir að hann hafi ítrekað haft milligöngu um kaup annarra á hassi, amfetamíni og kókaíni af Ólafi Ágústi. Hugtakið “milliganga” er ekki að finna í lögum um ávana- og fíkniefni, en dómurinn það hafið yfir allan vafa að það falli undir “meðferð” í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 4. mgr. sama ákvæðis. Með milligöngu sinni átti ákærði hlutdeild í meðferð á fíkniefnum sem óheimil er samkvæmt greindu lagaákvæði, sbr. 5. mgr. 5. gr. sömu laga. Óvíst er með öllu hversu mikið magn hefur verið um að ræða en ljóst er að það hefur verið umtalsvert og að háttsemin átti sér stað á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir. Þykir þetta fullnægjandi til sakfellingar ákærða með tilvísun til greindra lagaákvæða.

Ákæruliður IV

Ákærði Guðmundur Kristján er í þessum ákærulið sakaður um hylmingu með því að hafa í vörslum sínum vélsleða af gerðinni Artic Cat Pantera 800 skráningarnúmer UY-397, árgerð 1997. Hinn 8. mars 1999 hafði sleða þessum verið stolið af bifreiðastæði við íbúðarhús að Funafold 95, Reykjavík, en hann fannst í bílskúr við heimili ákærða í Fagradal 12 í Vogum á Vatnsleysuströnd þegar húsleit var gerð þar hinn 24. október 1999. Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið að geyma þennan sleða og hefði ekki vitað að hann var stolinn fyrr en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Hinn 8. mars 1999 var lögreglu tilkynnt að tveggja sleða vélsleðakerru, sem nánar er lýst í kæru, hefði verið stolið frá bifreiðastæði við Funafold þá um nóttina. Í henni hafði verið einn vélsleði nr. UY-397 af tegundinni Arcic Cat Pantera 800, árgerð 1997. Verðmæti hins stolna var talið vera um 1.400.000 krónur. Listaverð sleðans var samkvæmt upplýsingum frá söluumboði sagt vera 930.000 krónur. Í upplýsinga­skýrslu lögreglu frá 26. október 1999 kom fram að vélsleðakerran hefði fundist austur í Grímsnesi og samkvæmt öðrum gögnum virðist það hafa verið nokkrum dögum eftir þjófnaðinn eða á milli 14. og 16. mars 1999. Eigandi sleðans kvað mögulegt að lykill hefði staðið í kveikjulás sleðans, en hann átti aukalykil. Sleðinn fannst við húsleit hjá ákærða Guðmundi Kristjáni hinn 24. október 1999 undir yfirbreiðslu og ýmsu drasli. Var hann þá án skráningarmerkja.

Ákærði Guðmundur Kristján bar að Helga Guðrún Guðnadóttir, eiginkona ákærða Finns Sverris, hefði beðið sig um að geyma þennan sleða. Hún hefði sagst hafa fengið hann á góðu verði og kvaðst ætla að koma Finni Sverri á óvart með því að gefa honum sleðann í afmælisgjöf. Þetta hefði verið að vori og hefði hún beðið hann að geyma sleðann yfir sumarið. Hún hafi tjáð honum að sleðinn væri við Þrastarlund í Grímsnesi og væri hann á kerru sem hefði brotnað. Hann kvaðst hafa farið austur með Helgu á stórum jeppa, sem faðir hans átti, til að sækja sleðann. Hefði hann ætlað að setja sleðann í jeppann og kvað það myndu hafa gengið ef þetta hefði verið venjulegur sleði, en hann hefði reynst vera óvenjulega stór. Sleðinn hefði ekki komist í bílinn og hefði hann þá boðist til að sjá um það einn að sækja sleðann og taka hann í geymslu.

Hann kvaðst ekki hafa verið við afhendingu sleðans og ekki séð nein gögn um hann. Hann kvað ekki hafa verið skráningarnúmer á sleðanum og hann hefði aldrei séð þau. Sleðinn hefði verið þarna við Þrastarlund á kerrunni sem hefði bilað, brotnað hefði undan henni hjól. Hann kvaðst ekki minnast þess að það hefði verið nefnt á hvaða leið þessi sleði var, en hann héldi að hann hefði verið á leiðinni upp í sumarbústað í Grímsnesi, sem ákærða Bergljót ætti. Það væri bústaður sem Finnur og Ólafur Ágúst hefðu áður átt.

Spurður um það hvort heimili hans hefði verið heppilegur felustaður fyrir Finni Sverri þar sem þeir væru mágar, þá kvað hann það vera. Finnur kæmi ekki oft heim til hans og þeir hefðu ekki umgengist mjög mikið á þessum tíma, þótt þeir hefðu gert það þegar Finnur og Ólafur voru með verkstæðið.

Ákærða var kynnt lögregluskýrsla sem tekin var af Helgu Guðrúnu Guðna­dóttur hinn 9. nóvember 1999. Þar skýrði hún frá því að hún kannaðist ekki við þennan sleða og kannaðist ekki við sögu ákærða og teldi að þarna væri um að ræða einhvers konar hefndaraðgerð gagnvart sér af hans hálfu. Spurður um þetta kvað ákærði þennan framburð Helgu Guðrúnar vera rangan og kvaðst ekki eiga neitt sökótt við hana og hefði enga ástæðu til að hefna sín á henni.

Spurður af verjanda sínum kvað hann Helgu Guðrúnu hafa látið sig hafa lykilinn að sleðanum og hefði sér aldrei dottið í hug að losa sig við sleðann, þar sem hann ætti hann ekki. Þetta hefði ekki heldur hvarflað að honum eftir að Ólafur Ágúst var handtekinn. Spurður af verjanda um horfur á því að koma svona stolnum sleða í umferð eða í verð, kvaðst ákærði telja að það væri ekki markaður. Þetta væri skráningarskylt tæki og hópur þeirra manna sem notuðu svona tæki væri þröngur.

Ákærði var yfirheyrður vegna þessa máls hjá lögreglu hinn 3. nóvember 1999 og var framburður hans þá á sama veg og fyrir dóminum. Þar kemur enn fremur fram að sleðinn hefði verið á gamalli lítilli kerru og greinilegt að kerran hafði ekki þolað þunga sleðans. Var honum í yfirheyrslunni sýnd mynd af þeirri kerru sem stolið hafði verið með sleðanum og kvaðst hann ekki hafa séð þá kerru. Kvað hann Helgu Guðrúnu í tvígang hafa spurt sig um sleðann. Hann var aftur yfirheyrður 10. sama mánaðar eftir að skýrsla hafði verið tekin af Helgu Guðrúnu þar sem hún neitaði allri vitneskju um sleðann. Hélt hann við fyrri framburð sinn, neitaði að hafa stolið sleðanum sjálfur og kvaðst hafa verið grunlaus um að hann væri stolinn. Hann kvaðst sjaldan lesa Morgunblaðið og ekki hafa séð tilkynningu um hinn stolna vélsleða og mynd af vélsleðakerrunni sem birt var þar 14. mars 1999. Kvaðst hann ekki hafa verið að fela sleðann heldur geyma hann og hefði hann breitt yfir hann til að hlífa honum. Kvað hann ábreiðuna hafa fylgt sleðanum.

Helga Guðrún Guðnadóttir var yfirheyrð af lögreglu vegna málsins 4. nóvem­ber 1999. Kvaðst hún aldrei hafa heyrt um þennan vélsleða fyrr og ekki hafa farið með Guðmundi Kristjáni í Þrastarlund og taldi víst að Finnur Sverrir hefði nefnt það við sig ef þessi sleði hefði verið á hans vegum. Hún kvað það vera algera vitleysu að hún hefði spurt Guðmund í tvígang hvort ekki væri í lagi með vélsleðann. Taldi hún að Guðmundur Kristján væri að koma á sig sök. Helga Guðrún kom ekki fyrir dóm. Var af hálfu sækjanda lagt fram læknisvottorð um það að hún hefði verið á Sjúkrahúsinu Vogi frá 14. til 18. janúar 2001 þegar hún hafi yfirgefið stofnunina án samráðs við lækna. Síðan segir: “Allan þennan tíma var Helga ekki fær um að gangast undir skýrslutöku eða að bera vitni vegna mikilla veikinda og andlegs ójafnvægis og hafði það ekki breyst við útskrift.“ Vottorðið er dagsett 19. janúar 2001 og undirritað af Þórarni Tyrfingssyni lækni.

Sækjandi fór fram á það að framangreind lögregluskýrsla af Helgu Guðrúnu Guðnadóttur frá 4. nóvember 1999 yrði lögð til grundvallar um framburð hennar með vísan til 48. gr. laga nr. 19/1991 þar sem hún væri ófær um að koma fyrir dóminn.

Vitnið Sigurlaug Björk Finnsdóttir eiginkona ákærða kvað þau hafa verið beðin um að geyma þennan vélsleða. Hún kvað Guðmund hafa sagt sér að Helga Guðrún hefði beðið hann um að geyma sleðann og hefði hann tekið það að sér og skúrinn verið notaður undir það. Hún kvaðst sjálf ekki hafa verið viðstödd þegar Helga Guðrún bað hann um að geyma sleðann.

Vitnið Theódóra Guðrún Rafsdóttir kvaðst ekki hafa heyrt um það frá Helgu Guðrúnu, sem er dóttir hennar, að hún ætlaði að gefa Finni Sverri snjósleða, eða að hún hafði komist yfir slíkan sleða sem hún ætlaði að gefa honum. Hefði þetta ekki staðið til, enda væri Finnur ekki útivistarmaður eða íþróttamaður eða íþróttalega sinnaður, þannig að þetta hefði ekki átt við. Kvað hún þetta mál hafa komið Helgu Guðrúnu algerlega á óvart þegar hún hefði verið um það spurð. Spurð um samskipti þeirra mæðgna, kvað hún þau vera mjög góð og taldi sig myndu hafa vitað það ef Helga Guðrún hefði verið að undirbúa afmæli Finns Sverris með þessum hætti. Kvað hún Helgu ekki aka um bæinn og stela snjósleðum og hún hefði ekki verið búin eignast þennan sleða, því þá hefði hún sagt sér það. Þá hefðu fjárráð hennar ekki verið góð á þessum tíma. Kvaðst hún vita það vegna þess að þau Finnur hefðu skilið upp úr þessu og sér verið kunnugt um stöðu búsins þá.

Vitnið Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi stýrði húsleit á heimili ákærða hinn 25. október 1999. Kvað hann vélsleðann hafa verið á miðju gólfi í bílskúrnum og hefði hann að þeirra mati verið vel falinn. Hefði hann ekki sést fyrr en búið var að taka ofan af honum. Hefðu verið á honum alls konar yfirbreiðslur, teppi og aðrir hlutir. Vegna þessa frágangs hefðu þeir fyllst grunsemdum um að snjósleðinn væri ekki löglega fenginn og því spurt Guðmund að því hvaðan hann væri. Kvaðst vitnið ekki muna betur en hann hefði neitað að segja frá því fyrir hvern hann væri að geyma sleðann, en þó verið hikandi og sagst hafa sótt hann austur í Þrastarskóg. Sleðinn hafi verið án skráningarnúmera og hafi við nánari athugun reynst vera stolinn.

Í lögregluskýrslu sem vitnið Baldvin ritaði um greinda húsleit segir að ákærði Guðmundur Kristján hafi ítrekað aðspurður neitað að gefa upp hver væri eigandi vélsleðans en sagt að hann hafi sótt hann austur í Þrastarlund við Sog sl. vor.

Niðurstaða um ákærulið IV

Framburður ákærða Guðmundar Kristjáns um það hvernig vélsleðinn komst í hans vörslur hefur enga stoð í gögnum málsins. Ljóst er að hann tók vörslur sleðans stuttu eftir að honum var stolið og athyglisvert er að hann hirti ekki um kerru þá sem sleðinn var á. Samkvæmt húsleitarskýrslu og vætti lögreglumannsins sem fann sleðann var greinilegt af umbúnaði sleðans að hann hafði verið falinn, auk þessa var hann án skráningarmerkja. Við húsleitina neitaði ákærði að upplýsa um eiganda sleðans. Hafði hann enga ástæðu til að gefa ekki upp eiganda ef hann var grandlaus um að sleðinn væri illa fenginn. Allt þetta bendir sterklega til þess að ákærði hafi vitað eða hlotið að vita að vélsleðinn væri stolinn. Með framgöngu sinni hélt hann því sleðanum ólöglega fyrir lögmætum eiganda og er hann fundinn sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Brotið er réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

Refsiákvörðun

Ávinningur sá sem ákærðu eru fundin sek um að þvætta stafar sannanlega frá stórfelldu fíkniefnabroti og er sami refsirammi við brotum gegn 1. mgr, sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og gildir um fíkniefnabrot samkvæmt 173. gr. a. Í báðum tilvikum er hámarksrefsing fangelsi í 10 ár. Við mat á refsingu hér er höfð hliðsjón af þessu, en einnig því að brot ákærðu á upphaf sitt með óvenjulegum og tilviljanakendum hætti. Brot sumra ákærðu komu til vegna fjölskyldutengla frekar en að um þaulskipulagða peningaþvættisstarfsemi væri að ræða.

Ákærða Bergljót Karlsdóttir er fædd í nóvember 1930. Hún hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar þykir rétt að líta til aldurs hennar og heilsufars. Í læknabréfi Engilberts Sigurðssonar, sérfræðings í geðlækningum, sem lagt var fram í málinu segir m.a.: “Bergljót hefur áratuga sögu um alvarlega kvíðaröskun og fór t.a.m. af þeim sökum vart út (sic) húsi í nær 3 áratugi ein síns liðs.” Einnig kemur fram að hún þjáist af depurð og kvíða sem hafi magnast mikið eftir að hún var ákærð. Hafi hún þolað mikla angist og sálarkvalir í tengslum við málið síðan hún var sótt í yfirheyrslu á Náttúrulækningahælið í Hveragerði í nóvember 1999. Vegna þessarar sjúkrasögu má ætla að mótstaða hennar hafi ekki verið eins mikil og almennt má búast við af fullhraustu fólki og einkum þegar haft er í huga að hún gerist brotleg vegna aðstöðu sem barn og tengdabarn setja hana í. Þá er haft í huga að þrjú barna hennar og tengdasonur eru meðal ákærðu. Einnig þykir rétt að líta til þess að hún hafði frumkvæði að því koma peningunum af sér. Þegar allt þetta er virt sem og það að huglæg afstaða hennar þykir liggja mjög nálægt mörkum ásetnings og gáleysis og þess að líta má svo á að hún sé í raun dregin inn í málið af sér nákomnum, þá er það niðurstaða dómsins að atvikum sé hér þannig háttað að ekki skuli gera ákærðu sérstaka refsingu í máli þessu.

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon er fæddur í janúar 1966.  Hann hefur langan brotaferil sem hófst á árinu 1981. Eftir að hann náði 18 ára aldri hefur hann tólf sinnum gengist undir sátt og ellefu sinnum hlotið dóma. Um er að ræða ýmis auðgunarbrot, umferðarlagabrot, brot gegn fíkniefnalöggjöf og umferðarlögum. Hann hefur samtals verið dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar í tvö ár og níu mánuði. Síðast hlaut hann dóm 12. júní 1992 átta mánaða fangelsi fyrir skjalafals og eftir það gekkst hann tvisvar undir sátt vegna fíkniefnabrota 26. júní 1992 og 7. mars 1994. Hins vegar hefur hann ekki sætt refsingu frá þeim tíma og til þessa. Ákærði Finnur Sverrir gekk ákveðið til verks við það peningaþvætti sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir, hann gaf fyrirmæli, flækti fullorðinni og veikri móður sinni í brotið og hefur sjálfur notið megin þorra þess fjár sem ákæran varðar. Brotið fremur hann í félagi við meðákærðu, sérstaklega Guðmund Kristján og Sólveigu Ósk, en einnig Ingibjörgu Auði og óbeint Bergljótu. Refsing er ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar hliðsjón er höfð af þeim atriðum sem hér eru tilgreind, sérstaklega því mikla fé sem hann hefur haft í ávinning af brotinu, þá þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 16 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 21. október 1999 til 22. nóvember sama ár.

Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson er fæddur í desember 1958. Hann hefur nokkurn brotaferil sem hófst á árinu 1975. Hann hefur þrettán sinnum gengist undir sátt vegna fíkniefnabrota, umferðarlagabrota, umferðarslyss, brota gegn lögum um meðferð skotvopna, áfengislögum, blygðunarbrots og brots gegn tollalögum. Hann hefur einu sinni hlotið dóm, varðhald í 75 daga, vegna nytjastuldar og ölvunaraksturs. Síðast hlaut hann refsingu árið 1996 og var það vegna fíkniefnabrots. Ákærði Guðmundur Kristján tók virkan þátt í því peningaþvættisbroti sem honum er hér refsað fyrir. Brotið var framið í félagi við meðákærðu, einkum Finn Sverri og Sólveigu Ósk, en einnig Bergljótu og Sigurlaugu Björk. Hann naut sjálfur nokkurs ávinnings af brotinu.

Ákærði er einnig sakfelldur fyrir hylmingarbrot og fyrir fíkniefnabrot. Refsing er ákveðin fyrir öll brotin í einu lagi samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar hliðsjón er höfð af þeim atriðum sem hér eru tilgreind og sakarferli, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 25. október til 9. nóvember 1999.

Ákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttur er fædd í febrúar 1956. Hún hefur ekki sætt refsingu eftir 18 ára aldur. Brot hennar telst framið í félagi við meðákærðu Bergljótu og Finn Sverri. Refsing hennar þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

Þar sem hún býr við sérstakar aðstæður sem einstæð móðir með fatlað barn og hefur ekki áður sætt refsingum, þykir mega fresta fullnustu refsingar í 2 ár frá upp­kvaðningu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Sigurður Hólm Guðbjörnsson skal vera sýkn saka í máli þessu.

Ákærða Sigurlaug Björk Finnsdóttir er fædd í ágúst 1961. Hún hefur einu sinni gengist undir sátt fyrir umferðarlagabrot, var það árið 1991, en hefur ekki sætt refsingu í annan tíma. Brot sitt framdi hún í félagi við ákærða Guðmund Kristján. Refsing hennar þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

Þykir mega fresta fullnustu refsingar í 2 ár frá uppkvaðningu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir er fædd í ágúst 1970. Hún hefur ekki áður sætt refsingu. Brot hennar er framið í félagi við meðákærðu Finn Sverri og Guðmund Kristján, en hún átti ekki eins virkan þátt í tilflutningi og geymslu peninganna og meðákærðu. Hún hlaut einhvern ávinning af brotinu. Refsing hennar þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Í ljósi þess að hún hefur ekki áður hlotið refsingu, þykir mega fresta fullnustu refsingar í 3 ár frá uppkvaðningu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til fullnustu refsingarinnar skal gæsluvarðhald sem ákærða sætti frá 5. til 8. nóvember 1999 koma til frádráttar refsingunni.

Upptökukröfur

Gerð er krafa um að ákærðu Finni Sverri, Guðmundi Kristjáni og Sólveigu Ósk verði með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gert að sæta upptöku á kr. 6.983.733 in solidum, en til vara pro rata að mati dómsins.

Dómurinn telur að ekki verði fallist á að heimild sé til upptöku in solidum í því tilviki sem hér er til meðferðar. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og því ákvæði hefur verið breytt, má gera upptæka muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti, eða jafnvirði þessa. Sannað er að ákærði Guðmundur Kristján fékk í sinn hlut 1.750 hollensk gyllini og 1.400 hollensk gyllini eða um 100.000 íslenskar krónur og skal hann sæta upptöku á jafnvirði þeirrar fjárhæðar. Sannað er að ákærða Sólveig Ósk nýtti í eigin þágu 165.000 krónur og skal hún sæta upptöku á  jafnvirði þeirrar fjárhæðar. Ákærði Finnur Sverrir eyddi að eigin sögn afganginum, en heldur því fram að það hafi ekki verið nema um 3.500.000 krónur í allt. Dómurinn telur sannað að 8.500.000 krónur hafi verið undir rúmdýnunni í Írabakka 26, svo sem áður hefur verið rökstutt. Samkvæmt því er ljóst að ákærði Finnur Sverrir fékk til sín nær alla þá fjárhæð sem krafist er upptöku á, en um nákvæma fjárhæð er ekki vitað. Þykir eðlilegt að Finnur Sverrir þoli upptöku á  jafnvirði 6.500.000 króna.

Upptæk skal gera 127,97 g af hassi og 7,08 g af marihuana sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysu­strandar­hreppi, hinn 24. október 1999.

Upptæka skal gera eftirtalda muni sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999, og sem taldir eru hafa verið notaðir eða ætlaðir til ólögmætrar meðferðar fíkniefna og lagt var hald á við rannsókn málsins:

a) Grammavog.

b) Tölvugrammavog, Tanita model 1220.

Málmspegill í hulstri.

Upptækur er gerður hnífur í leðurhulstri, 16,5 cm blaðlengd, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Guðmundar Kristjáns í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysu­strandarhreppi, hinn 24. október 1999 og lagt var hald á við rannsókn málsins.

Sakarkostnaður

Almennan sakarkostnað greiða dómþolar in solidum.

Ákærða Bergljót Karlsdóttir skal greiða verjendum sínum málsvarnarlaun sem ákvarðast þannig: Guðmundi Ingva Sigurðssyni hæstaréttarlögmanni 50.000 krónur, Þórunni Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanni 350.000 krónur.

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon skal greiða verjanda sínum Ólafi Garðars­syni hæstaréttarlögmanni 500.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærðu Guðmundur Kristján Guðbjörnsson og Sigurlaug Björk Finnsdóttir skulu greiða in solidum verjanda sínum Vilhjálmi Þórhallssyni hæstaréttarlögmanni 800.000 krónur í málsvarnarlaun. Hefur þá verið tekið tillit til starfa verjanda á rannsóknarstigi.

Ákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttur skal greiða verjanda sínum Karli Georg Sigurbjörnssyni héraðsdómslögmanni 400.000 krónur í málsvarnarlaun.

Málsvarnarlaun Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns verjanda ákærða Sigurðar Hólm Guðbjörnssonar, ákvarðast 400.000 krónur og skulu þau greiðast úr ríkissjóði.

Ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir skal greiða verjanda sínum Erni Höskulds­syni hæstaréttarlögmanni 500.000 krónur í málsvarnarlaun og fyrir störf verjanda á rannsóknarstigi.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Jóni H. Snorrasyni saksóknara hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Héraðsdómararnir Hjördís Hákonardóttir, Finnur Torfi Hjörleifsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson kváðu upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærðu Bergljótu Karlsdóttur er ekki gerð sérstök refsing.

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon sæti fangelsi í 16 mánuði. Til frádráttar refsing­unni kemur gæsluvarðhaldsvist sem hann sætti frá 21. október 1999 til 22. nóvember sama ár.

Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson sæti fangelsi í 14 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhaldsvist sem hann sætti frá 25. október 1999 til 9. nóvember sama ár.

Ákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttir sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu refsingar í 2 ár frá uppkvaðningu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Sigurður Hólm Guðbjörnsson skal vera sýkn saka.

Ákærða Sigurlaug Björk Finnsdóttir sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu refsingar í 2 ár frá uppkvaðningu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingar í 3 ár frá uppkvaðningu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til fullnustu refsingarinnar skal gæsluvarðhaldsvist sem ákærða sætti frá 5. til 8. nóvember 1999 koma til frádráttar.

 

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon sæti upptöku á jafnvirði 6.500.000 króna.

Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson sæti upptöku á jafnvirði 100.000 króna.

Ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir sæti upptöku á  jafnvirði 165.000 króna.

Ákærði Guðmundur Kristján Guðbjörnsson sæti upptöku á 127,97 g af hassi og 7,08 g af marihuana sem fundust við leit lögreglu á heimili hans í Fagradal 12, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, hinn 24. október 1999 og á eftirtöldum munum sem fundust einnig við leit lögreglu á heimili hans 24. október 1999:

a) Grammavog.

b) Tölvugrammavog, Tanita model 1220.

Málmspegli í hulstri.

d)Hníf í leðurhulstri, 16,5 cm blaðlengd.

 

Almennan sakarkostnað skulu ákærðu, önnur en ákærði Sigurður Hólm Guðbjörnsson, greiða in solidum.

Ákærða Bergljót Karlsdóttir skal greiða verjendum sínum málsvarnarlaun sem ákvarðast þannig: Guðmundi Ingva Sigurðssyni hæstaréttarlögmanni 50.000 krónur, Þórunni Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanni 350.000 krónur.

Ákærði Finnur Sverrir Magnússon skal greiða verjanda sínum Ólafi Garðars­syni hæstaréttarlögmanni 500.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærðu Guðmundur Kristján Guðbjörnsson og Sigurlaug Björk Finnsdóttir skulu greiða in solidum verjanda sínum Vilhjálmi Þórhallssyni hæstaréttarlögmanni 800.000 krónur í málsvarnarlaun og fyrir störf verjanda á rann­sóknar­stigi.

Ákærða Ingibjörg Auður Finnsdóttur skal greiða verjanda sínum Karli Georg Sigurbjörnssyni héraðsdómslögmanni 400.000 krónur í málsvarnarlaun.

Málsvarnarlaun Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Sigurðar Hólm Guðbjörnssonar, ákvarðast 400.000 krónur og skulu þau greiðast úr ríkissjóði.

Ákærða Sólveig Ósk Óskarsdóttir skal greiða verjanda sínum Erni Höskulds­syni hæstaréttarlögmanni 500.000 krónur í málsvarnarlaun og fyrir störf verjanda á rannsóknarstigi.