Hæstiréttur íslands
Mál nr. 477/2011
Lykilorð
- Skattsvik
- Fjármagnstekjuskattur
- Sekt
|
|
Fimmtudaginn 16. febrúar 2012. |
|
Nr. 477/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Birgi H. Þórissyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Skattsvik. Fjármagnstekjuskattur. Sekt.
B var ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á röngu skattframtali þar sem vanframtaldar voru fjármagnstekjur vegna hagnaðar hans af sölu á hlutabréfum í A ehf. Talið var að B hafi verið skylt að greina hlutafjáreign sína í A ehf. í skattframtölum sínum þar til hann seldi hlutaféð. Hefði hann framselt hlut af þessu hlutafé til hlutafélags í eigu sinni og E, eins og hann hélt fram, hafi honum einnig borið skylda til þess að greina frá því framsali í skattframtali sínu og hvaða endurgjald hefði verið innt af hendi fyrir hinn framselda hlut. Hvorugt hafi hann gert. Af gögnum málsins yrði ráðið að B hafi sjálfur selt hlutfé A ehf. án þess að hafa talið tekjur af hagnaði sölunnar fram til skatts. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Eins og fram kemur í gögnum málsins átti ákærði 30% hlutafjár í A ehf., að nafnverði 150.000 krónur, á árunum 2001 til 2004. Samkvæmt 73. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 72. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt var ákærða skylt að greina þessa hlutafjáreign sína í skattframtölum sínum frá og með árinu 2002 og þar til hann seldi hlutaféð. Það gerði hann ekki.
Þá kveðst ákærði hafa á árinu 2005 framselt hluta af þessu hlutafé, að nafnverði 90.000 krónur, til D ehf. sem sé í eigu sinni og E. Ef sú var raunin bar honum jafnframt skylda til þess samkvæmt 18. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 að greina frá því framsali í skattframtali sínu árið 2006 og hvaða endurgjald hafi verið innt af hendi fyrir hinn framselda hlut. Það gerði hann heldur ekki.
Fyrir liggur í málinu samningur um sölu ákærða, G og F 7. apríl 2005 á öllu hlutafé í A ehf., en samkvæmt ársreikningi félagsins 2004 voru þetta eigendur alls hlutafjár þess í árslok 2004. Samningurinn ber ekki með sér að D ehf. hafi verið eigandi að hlut í félaginu þegar salan átti sér stað eins og ákærði heldur fram. Einnig er tekið fram í bréfi C ehf. 4. janúar 2011, sem sagt er ritað að ósk ákærða, að óumdeilt sé að hann hafi tilgreint í skattframtali sínu árið 2006 „hagnað sinn af umræddri sölu 45.905.263 kr., þ.e. 54.477.822 kr. lægri en hann reyndist vera.“
Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Birgir H. Þórisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 283.312 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2011.
I
Málið, sem dómtekið var 24. júní síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 4. nóvember 2010 á hendur „Birgi H. Þórissyni, kennitala [...], [...], Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á röngu skattframtali gjaldárið 2006, vegna tekjuársins 2005, þar sem vanframtaldar voru fjármagnstekjur að fjárhæð kr. 54.477.882, sem var hluti söluhagnaðar ákærða af sölu, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 7. apríl 2005, á 30% hlutabréfa í A ehf., sem skattskyldur er samkvæmt 8. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og að hafa með því komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 5.447.788.
Framangreint brot ákærða samkvæmt ákæru telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt,
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Með bréfi 1. desember 2009 sendi skattrannsóknarstjóri efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gögn varðandi ætluð brot ákærða gegn lögum þeim sem í ákæru greinir. Í bréfinu segir að ríkisskattstjóri hafi tilkynnt um málið og það verið tekið til rannsóknar á grundvelli tilkynningarinnar. Í bréfinu segir um rannsóknina að við hana hafi framtal ákærða 2006 verið lagt fyrir hann og hafi hann kannast við það sem sitt og sagt það hafa verið unnið af C. Haft er eftir ákærða að hann telji framtalið gefa rétta mynd af tekjum hans, eignum og skuldum og öðru því sem þar sé greint frá. „Aðspurður sagðist Birgir hafa átt 30% hlut í A ehf. og að greiddar hefðu verið kr. 263.043.861 fyrir alla hluti í félaginu, að frádregnum sölulaunum. Einnig kvað Birgir ágreining vera uppi við kaupanda um söluverðið, þannig að margt benti til þess að framtalið söluverð yrði lægra en kaupsamningur segði til um. Hlutur Birgis í söluverði félagsins nam kr. 129.913.158, en hlutir Birgis í félaginu voru samtals að nafnvirði kr. 150.000. Frá þeim hlut dregst kaupverð hlutanna, byggingakostnaður og umframkostnaður vegna viðbyggingar auk sölulauna, samtals 29.530.014 og var hagnaður Birgis því kr. 100.383.144 vegna viðskiptanna. Skattframtal Birgis gjaldárið 2006, vegna tekjuársins 2005 var lagt fyrir hann að nýju í skýrslutöku. Aðspurður um skýringu á því að hann gerði einungis grein fyrir söluhagnaði af hlutum að nafnvirði kr. 60.000 í A ehf., á meðan fyrirliggjandi upplýsingar bæru með sér að hann hefði selt hluti að nafnvirði kr. 150.000, sagði Birgir að hann hefði framselt D ehf., félagi í sinni eigu, hluti í félaginu að nafnvirði kr. 90.000 á árinu 2004 og að söluhagnaður af þeim hlutum hefði verið talinn fram hjá D ehf. Ætlaði Birgir að finna gögn varðandi framsal hlutanna og afhenda þau embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins fyrir 22. apríl 2008. Engin gögn varðandi framsal á framangreindum hlutum milli Birgis og D ehf. voru afhent.“
Í bréfinu segir einnig að rannsóknin hafi leitt í ljós að ákærði „hefði staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2006, vegna tekjuársins 2005, með því að vanframtelja fjármagnstekjur, samtals kr. 54.477.881 sem til voru komnar vegna sölu hans á hlutabréfum í A ehf.“ Þá segir að ríkisskattstjóri hafi endurákvarðað opinber gjöld ákærða vegna tekjuársins 2005 og hafi sá úrskurður ekki verið kærður til yfirskattanefndar.
Í greinargerð ákærða er málavöxtum lýst svo að hann hafi átt 30% í A ehf. Árið 2005 ákvað hann að færa hluta af eign sinni til D ehf. sem hann átti. Kvað hann framtal 2006, fyrir tekjuárið 2005, hafa verið gert miðað við þetta og hið sama hafi átt við um framtal D ehf. Ákærði átti 150.000 krónur að nafnverði í félaginu og seldi D ehf. 90.000 króna hlut. Síðan segir í greinargerðinni: „Varðandi kaupsamninginn um sölu á Félaginu A ehf., var það framkvæmt þannig að kaupsamningur var þann 7. apríl 2005 en endanlegt uppgjör yrði síðar eða þegar framkvæmdum væri lokið, sbr. ákvæði kaupsamnings þess efnis. Samningur þessi fól í sér ákveðið samstarf og yrði því endanlegur söluhagnaður ljós þegar verkefninu væri lokið. Ákærði skrifaði persónulega undir kaupsamninginn, en áður en uppgjör endanlegt átti sér stað í málinu var það að framsalið átti sér stað. Mál þetta þróaðist síðan svo að langur tími leið þar til endanlegt uppgjör í málinu lá fyrir þar sem um vanefndir var að ræða af hálfu kaupanda. Um var að ræða sölu á nýbyggingu og húsnæði í byggingu þar sem endanlegt uppgjör yrði þegar búið var að reisa húsið.“
Ákærði kvaðst síðan hafa fengið tilkynningu frá skattyfirvöldum þar sem því hafi verið haldið fram að vantalinn væri söluhagnaður vegna eignarhlutans sem talinn var fram í framtali D ehf. Þessu hafi lokið með því að skattar ákærða hafi verið endurákvarðaðir og hann greitt þá með vöxtum og álagi.
Meðal gagna málsins er bréf frá endurskoðunarfyrirtæki sem vann fyrir ákærða og fyrirtæki á hans vegum. Í bréfinu segir að óumdeilt sé að ákærði hafi á árinu 2005 selt hlut A ehf. að nafnverði 150.000 krónur. Enn fremur sé óumdeilt að ákærði hafi tilgreint á framtali sínu 2006 hagnað af sölunni 45.905.263 krónur eða 54.477.822 krónum lægri en hann reyndist vera. Hafi skattskil ákærða miðast við að hann hefði aðeins selt hlut að nafnverði 60.000 krónur, en ekki hluti að nafnverði 150.000 krónur eins og rétt var. Síðan segir: „Jafnframt var við framtalsgerð D ehf., félags í eigu B, ranglega greint frá sölu þess félags á hlutum í A að nafnverði 90.000 kr. Var söluhagnaður D tilgreindur 65.645.895 kr. B hefur skýrt framtalsgerðina með að misskilningur hafi orðið milli hans og þess er annaðist framtalsgerð fyrir hann og D. Misskilningurinn hafi komið til af því að ráðagerð hafi verið uppi um að B afsalaði til D hlutum að nafnverði 90.000 kr. Þeirri ráðagerð mun þó ekki hafa verið hrundið í framkvæmd.“
III
Við aðalmeðferð kvaðst ákærði hafa selt D ehf. hlutabréf í A ehf. Þá voru byggingaframkvæmdir í gangi á vegum fyrrnefnda félagsins og vegna þess að uppgjöri þeirra hafði ekki verið lokið hafi verið ákveðið að hluti bréfanna yrði settur inn í D ehf., þar til í ljós kæmi hver söluhagnaðurinn yrði. Þess vegna hafi hluti af sölu bréfa verið talinn fram hjá D ehf. Kvað hann 90.000 króna hlut hafa verið talinn fram hjá D og 60.000 króna hlut hjá sér. Þetta hafi verið gert vegna þess að ekki hafi verið orðið ljóst hver söluhagnaðurinn yrði og eins hefði D getað frestað skattgreiðslum, en ekki hann. Ákærði bar að þessi hagnaður hefði fyrst orðið ljós 2008. Kvaðst ákærði hafa notið ráðlegginga endurskoðenda við framtalsgerðina. Honum var sýnt framtalið, sem um getur í ákæru, og kannaðist hann við að það væri sitt framtal. Hann ítrekaði að hann hefði látið endurskoðanda sinn um þetta og treyst honum.
IV
Meðal gagna málsins er skattframtal ákærða sem um getur í ákæru. Þar kemur fram að ákærði telur fram sölu á hlutabréfum í A 6 ehf. að nafnverði 60.000 krónur og var söluverðið, að frátöldum kostnaði, 45.965.263 krónur og söluhagnaður því 45.905.263 krónur. Ákærði átti 150.000 króna hlut að nafnvirði í félaginu og seldi hann allan á árinu. Hann taldi hins vegar aðeins fram á sínu framtali sölu á 60.000 króna hlut að nafnvirði. Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi munnlega selt D ehf. 90.000 króna hlut og hafi átt að telja það fram hjá félaginu. Það hafi hins vegar ekki verið gengið frá þessu skriflega og þess vegna hafi það misfarist hjá endurskoðanda að ganga réttilega frá þessu. Það hafi verið gert með því að telja fram hjá D ehf. það sem þar átti að telja fram. Þess vegna hafi allur söluhagnaður verið talinn fram, en líta verði til þess að ákærði eigi einn D ehf. Skattayfirvöld hafi ekki fallist á þetta og gert ákærða að greiða endurákvarðaðan skatt með álagi og vöxtum. Hann hafi greitt þetta og þar með talið málinu lokið. Þá bendir hann og á að vegna þessarar afgreiðslu hafi framtöl D ehf. verið færð til samræmis við hana og þess vegna tilgreini þau ekki söluhagnaðinn.
Eins og nú hefur verið rakið taldi ákærði aðeins fram hluta af sölu sinni á hlutabréfum í A ehf. á framtali 2006. Um var að ræða hlutabréf að nafnvirði 60.000 krónur, þegar hann í raun seldi alls hlutabréf að nafnvirði 150.000 krónur. Engin gögn eru um að hann hafi selt D ehf. mismuninn og það félag greitt skatta vegna þessa. Það verður því að hafna þeim skýringum hans og þar með kröfu hans um sýknu.
Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök, en brot hans eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni. Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði sem bundin skal skilorði eins og segir í dómsorði. Þá skal hann greiða 11.000.000 króna í sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Birgir H. Þórisson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði 11.000.000 króna í sekt og komi 90 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Jónasar Arnar Jónassonar hdl., 251.000 krónur.