Hæstiréttur íslands

Mál nr. 145/2004


Lykilorð

  • Viðskiptabréf
  • Veðleyfi
  • Loforð
  • Greiðsla


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. október 2004.

Nr. 145/2004.

Guðmundur Þórðarson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Kaupþingi Búnaðarbanka hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

 

Viðskiptabréf. Veðleyfi. Loforð. Greiðsla.

G var handhafi veðskuldabréfa, sem voru tryggð með fyrsta veðrétti í fasteign í eigu H ehf. Gaf G út veðleyfi til H ehf. fyrir láni frá Í allt að 330.000.000 krónum, og var tekið fram að K hf. tæki að sér að greiða upp veðskuldabréfin „að uppgreiðsluverði kr. 59.000.000.-“. Þegar til kom reyndist lánið aðeins nema hluta af þeirri fjárhæð sem gert var ráð fyrir, og var andvirði þess ráðstafað til greiðslu annarra krafna en samkvæmt umræddum bréfum. Fór svo að G veitti H ehf. annað veðleyfi fyrir láni að fjárhæð 46.250.000 krónur. Var tekið fram að veðleyfið væri bundið því skilyrði að nettó andvirði lánsins yrði greitt inn á reikning í eigu G. Þar sem milliganga með lánið færi fram í gegnum K hf. myndi nafngreindur starfsmaður þess félags tryggja að greiðslan yrði lögð inn á umræddan reikning. Greiddi K hf. síðan 44.466.827 krónur til G, en skuldari bréfanna 14.533.827 krónur. Afhenti G bréfin skuldara þeirra, en áskildi sér rétt til að innheimta hjá K hf. dráttarvexti af þeim frá þeim degi er hann hafði veitt H ehf. fyrra veðleyfið. Taldi G að K hf. hafi gefið sér sjálftætt loforð með undirritun sinni á veðleyfið, sem myndað hafi gagnkvæmt kröfuréttarsamband milli þeirra. Hæstiréttur taldi að undirritun K hf. á veðleyfið fæli í sér ábyrgð félagsins á greiðslu skuldabréfanna sem slíkra en ekki skuldbindingu til greiðslu á 59.000.000 krónum óháð bréfunum. Hafi G, sem sé löglærður, verið í lófa lagið að taka það skýrlega fram ef hann vildi binda veðleyfið skilyrði um að K hf. tæki að sér greiðsluskuldbindingu, sem óháð væri veðskuldabréfunum. Geti hann ekki byggt kröfur á bréfunum eftir að hann afhenti þau skuldara þeirra og gaf út kvittun fyrir þeim. Var kröfu G á hendur K hf. um greiðslu dráttarvaxta því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. apríl 2004. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 6.239.368 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gáfu Yl-hús ehf. 21. september 1998 út veðskuldabréf til handhafa samtals að nafnverði 35.000.000 krónur, sem voru tryggð með 1. veðrétti í fasteigninni Hraunbæ 107 í Reykjavík. Munu bréfin hafa verið hluti af greiðslu þess félags til Arnars Sigurðssonar seljanda lóðarinnar að Hraunbæ 107. Munu í framhaldi af því hafa verið reist íbúðarhús á lóðinni. Yl-hús ehf. greiddu ekki veðskuldabréfin á gjalddaga þann 15. september 1999 og fyrir dómi kvaðst seljandi lóðarinnar hafa reynt að „halda í“ bréfin eins lengi og hann gat í því skyni að forðast gjaldþrot félagsins. Ekki er upplýst hvenær áfrýjandi tók við bréfunum að öðru leyti en því að hann var handhafi þeirra í desember 2001.

Hinn 11. desember 2001 veitti áfrýjandi, sem handhafi umræddra veðskuldabréfa, Hraunbæ 107 ehf. veðleyfi fyrir láni til leiguíbúða frá Íbúðalánasjóði allt að 330.000.000 krónum, en upplýst var við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að skuldaraskipti hefðu þá farið fram á veðskuldabréfunum. Mátti lánið vera verðtryggt. Var tekið fram að veðleyfið væri „bundið því skilyrði og háð þeirri forsendu að Kaupþing hf. ... taki að sér að greiða upp ofangreind skuldabréf, að uppgreiðsluverði kr. 59.000.000.-“ Skyldi upphæðin greidd inn á nánar tiltekin reikning í eigu áfrýjanda. Auk áfrýjanda var ritað undir veðleyfið af hálfu Kaupþings hf. og Hraunbæjar 107 ehf. Þegar til kom reyndist lánið frá Íbúðalánasjóði aðeins nema hluta af þeirri fjárhæð sem gert var ráð fyrir og mun andvirði þess um 187.000.000 krónum hafa verið ráðstafað til greiðslu annarra krafna en samkvæmt umræddum bréfum.

 Fór svo að áfrýjandi veitti Hraunbæ 107 ehf. annað veðleyfi 11. júní 2002 fyrir láni að fjárhæð 46.250.000 krónur, sem vera mátti verðtryggt. Var tekið fram að veðleyfið væri „bundið því skilyrði og háð þeirri forsendu að nettó andvirði eða söluverð lánsins verði allt greitt“ inn á reikning í eigu áfrýjanda. Þá var tekið fram að þar sem „milliganga“ með lánið fari fram í gegnum Kaupþing banka hf. muni nafngreindur starfsmaður hans tryggja að greiðslan verði lögð inn á framangreindan reikning. Undir veðleyfi þetta ritaði áfrýjandi auk þess sem það var undirritað af hálfu Kaupþings banka hf. og Hraunbæjar 107 ehf. Í tengslum við gerð síðara veðleyfisins rituðu áfrýjandi, Hraunbær 107 ehf. og Kaupþing hf. undir yfirlýsingu 13. sama mánaðar. Í upphafi yfirlýsingarinnar var vikið að fyrra veðleyfinu 11. desember 2001. Var tekið fram að forsenda þess veðleyfis hafi verið sú „að Kaupþing hf. ... tæki að sér að greiða upp framangreind skuldabréf sem voru þá að uppgreiðsluverði kr. 59.000.000“ en greiðsla hefði enn ekki borist. Þá var í yfirlýsingunni tekið fram að til „þess að hliðra til lausnar á máli þessu“ hafi handhafi bréfanna samþykkt að veita Hraunbæ 107 ehf. nýtt skilyrt veðleyfi fyrir láni að fjárhæð 46.250.000 krónur.  Þar kom einnig fram að hið nýja veðleyfi væri „veitt með sömu forsendum og fyrra veðleyfið, þ.e. að Kaupþing hf. muni ábyrgjast að nettóandvirði“ lánsins samkvæmt síðarnefnda veðleyfinu verði greitt inn á bankareikning áfrýjanda. Er jafnframt tekið fram að með hinu nýja veðleyfi sé ekki fallið frá ábyrgð Kaupþings hf. á þeim skilyrðum sem sett hafi verið í fyrra veðleyfinu.

Með tveimur greiðslum 1. og 3. júlí 2002 greiddi Kaupþing hf. samtals 44.466.827 krónur til áfrýjanda. Þá greiddu Yl-hús ehf. 2. október sama árs 14.533.173 krónur til áfrýjanda. Gaf áfrýjandi sama dag út kvittun til Yl-húsa ehf. Þar kemur fram að höfuðstóll bréfanna sé 35.000.000 krónur og umsamdir vextir fram til 11. desember 2001 séu 24.000.000 krónur eða samtals 59.000.000 krónur. Kaupþing hf. hafi innt fyrrnefndar tvær greiðslur af hendi og séu eftirstöðvar 14.533.173 krónur. Síðan segir: „Eftirstöðvar kr. 14.533.173 greiddar þann 2/10 af Yl-húsum ehf. og fær Yl- hús ehf. jafnframt afhent framangreind skuldabréf og kvittar fyrir móttöku þeirra hér undir. Undirritaður áskilur sér allan rétt til að innheimta hjá Kaupþingi hf. áfallna dráttarvexti af veðskuldabréfum þessum frá 11/12 2001 til fullnaðs greiðsludags með vísan til ábyrgðar Kaupþings hf. skv. skilyrtu veðleyfi dags. 11. des. 2001 og yfirlýsingu dags. 13/6 2002.“ Sigurður Þórarinn Sigurðsson, stjórnarmaður í Yl-húsum ehf. bar vitni fyrir héraðsdómi. Lýsti hann atvikum svo að umrædd greiðsla af hálfu félagsins hafi veið innt af hendi á lögmannsstofu áfrýjanda að Arnari Sigurðssyni viðstöddum. Hafi forsvarsmenn félagsins talið sig vera að inna af hendi lokagreiðslu og því viljað fá skuldabréfin í hendur. Hafi hluti skuldabréfanna verið á staðnum en ekki öll bréfin þar eð hluti þeirra hafi verið heima hjá Arnari. Hafi verið samþykkt að afhenda bréfin gegn framangreindri greiðslu og hafi Arnar farið heim til sín til að ná í bréfin sem á vantaði. Bar Ágúst Bjarnason stjórnarformaður Yl-húsa ehf. á svipaðan veg um þetta atvik fyrir héraðsdómi. Staðfesti Arnar Sigurðsson fyrir héraðsdómi að nokkur bréf hafi vantað upp á þegar forsvarsmenn Yl-húsa ehf. hugðust greiða og hafi Arnar sótt þau heim til sín og komið þeim til áfrýjanda.

Með bréfi 4. október 2002 krafði áfrýjandi Kaupþing hf. um greiðslu  dráttarvaxta af 59.000.000 krónum frá 1. janúar 2002 til 1. júlí sama árs og af 14.533.273 krónum frá 3. júlí 2002 til 3. október sama árs samtals að fjárhæð 7.289.325 krónur ásamt kostnaði. Stefndi hafnaði kröfunni.  Höfðaði  áfrýjandi  mál þetta til heimtu hennar. Stefnufjárhæðin, 6.239.368 krónur er miðuð við dráttarvexti af sömu fjárhæðum og fyrir sömu tímabil og gert var í fyrrnefndu bréfi þó þannig að dráttarvextir af 59.000.000 krónum eru reiknaðir frá 1. febrúar 2002.

II.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að krafa hans sé ekki byggð á margnefndum skuldabréfum heldur sjálfstæðu loforði, sem myndað hafi gagnkvæmt kröfuréttarsamband milli aðila. Vísar hann þar fyrst og fremst til fyrra veðleyfisins 11. desember 2001, sem að framan er lýst. Veðleyfið hafi verið veitt með því skilyrði að stefndi greiddi skuldabréf að uppgreiðsluvirði 59.000.000 krónur og hafi stefndi samþykkt það skilyrði. Með því að veita veðleyfið hafi áfrýjandi staðið við sína skyldu samkvæmt hinu gagnkvæma samkomulagi. Skylda stefnda til greiðslu á framangreindum 59.000.000 krónum hafi orðið virk þegar við samþykki hans og í síðasta lagi þegar hann fékk í hendur greiðslur vegna láns Íbúðarlánasjóðs, en þá greiðsluskyldu hafi stefndi vanefnt. Stefndi byggir hins vegar meðal annars á því að umrædd veðleyfi hafi falið í sér skilmálabreytingu á skuldabréfunum. Geti krafa um dráttarvexti af skuld samkvæmt veðskuldabréfunum ekki staðið ein sér og óháð þeim. Skuldari bréfanna hafi neitað að greiða lokagreiðslu samkvæmt þeim nema gegn afhendingu þeirra allra. Óumdeilt sé að þau hafi öll verið afhent skuldara við lokagreiðslu og verði því frekari kröfur ekki reistar á veðskuldabréfum þessum.

Eins og að framan er rakið gaf áfrýjandi út tvö skilyrt veðleyfi sem samþykkt voru af stefnda. Síðara veðleyfið 11. júní 2002 var fyrir láni að fjárhæð 46.250.000 krónur og bundið því skilyrði að nettó andvirði lánsins yrði greitt inn á tilgreindan reikning áfrýjanda. Greiddi stefndi samtals 44.466.827 krónur til áfrýjanda í byrjun júlí 2002. Verður ekki betur séð en að með því hafi stefndi staðið við skuldbindingar þær, sem fólust í undirritun hans undir síðara veðleyfið. Ágreiningur aðila snýst því um hvernig skilja beri þá skuldbindingu stefnda, sem fólst í fyrra veðleyfinu 11. desember 2001. Þar var tekið fram að veðleyfið væri bundið því skilyrði að stefndi „taki að sér að greiða upp ofangreind skuldabréf, að uppgreiðsluverði kr. 59.000.000“. Samkvæmt þessu orðalagi fólst í því skilyrði, sem stefndi undirgekkst með undirritun á veðleyfið, að hann tók að sér að greiða upp skuldabréfin. Verður að telja að í því hafi falist ábyrgð hans á greiðslu skuldabréfanna. Það orðalag yfirlýsingarinnar 13. júní 2002 að forsenda margnefnds veðleyfis hafi verið að stefndi „tæki að sér að greiða upp framangreind skuldabréf sem voru þá að uppgreiðsluverði kr. 59.000.000“ styður einnig eindregið að í umræddri yfirlýsingu hafi falist ábyrgð stefnda á greiðslum samkvæmt skuldabréfunum sem slíkum en ekki skuldbinding hans til greiðslu á 59.000.000 krónum óháð skuldabréfunum eins og áfrýjandi heldur fram. Verður einnig að líta til þess að áfrýjandi, sem er löglærður, samdi bæði veðleyfið og yfirlýsinguna og var honum því í lófa lagið að taka það skýrlega fram ef hann vildi binda veðleyfið skilyrði um að stefndi tæki að sér greiðsluskuldbindingu, sem óháð væri umræddum veðskuldabréfum. Eins og að framan er rakið afhenti áfrýjandi útgefanda skuldabréfanna þau öll 2. október 2002 gegn greiðslu 14.533.173 króna og gaf út framangreinda kvittun þar sem tekið var fram að „eftirstöðvar“ bréfanna væru greiddar og bréfin afhent greiðanda. Gat hann ekki eftir það byggt kröfur á skuldabréfunum. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest um annað en málskostnað. 

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Guðmundur Þórðarson, greiði stefnda, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., samtals  400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003.

Mál þetta sem dómtekið var 4. nóvember sl. er höfðað með stefnu birtri 16. desember 2002.

Stefnandi er Guðmundur Þórðarson, Ármúla 20, Reykjavík.

Stefndi er Kaupþing Búnaðarbanki hf.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 6.239.368 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24,5% sérstökum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi verulegrar lækkunar á stefnukröfu. Í öllum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

MÁLSATVIK

Þann 11. desember 2001 veitti stefnandi, sem handhafi veðskuldabréfa nr. B-16874 til og með 16905, samtals að nafnvirði 35 milljónum króna, tryggðum með 1. veðrétti í fasteigninni að Hraunbæ 107 Reykjavík, einkahlutafélaginu Hraunbæ 107 veðleyfi fyrir láni til leiguíbúða frá Íbúalánasjóði fyrir allt að 330 milljónum króna og mátti lánið vera vísitölutryggt. Veðleyfi þetta var skilyrt og háð þeirri forsendu að Kaupþing hf., nú stefndi, tæki að sér að greiða upp framangreind skuldabréf að uppgreiðsluverði 59 milljónir króna. Veðleyfi þessu var þinglýst af hálfu stefnda þann 31. janúar 2002 og munu þá um 187 milljónir króna hafa verið greiddar af Íbúðalánasjóði. Ekkert var greitt til stefnda af þeirri fjárhæð. Þann 11. júní 2002 veitti stefnandi aftur skilyrt veðleyfi til að hliðra til fyrir samskonar láni og áður með samskonar skilmálum. Því veðleyfi var þinglýst 20. júní 2002. Þann 1. júlí 2002 barst síðan greiðsla frá stefnda að fjárhæð 36.466.827 krónur og síðan önnur þann 3. júlí 2002 að fjárhæð 8 milljónir króna, eða samtals 44.466.827 krónur. Þann 3. október greiddi síðan Yl-hús ehf., útgefandi umræddra veðskuldabréfa, 14.533.173 krónur til stefnda. Alls höfðu þá verið greiddar 59 milljónir króna. Við móttöku á síðastnenfdu greiðslunni gerði stefnandi þann fyrirvara að áskilinn væri allur réttur til að innheimta hjá stefnda áfallna dráttarvexti af veðskuldabréfunum til fullnaðs greiðsludags. Þann 18. október 2002 útbjó stefnandi vaxtareikning þar sem vextir eru reiknaðir frá 2. febrúar 2002 sem er sá tími sem stefndi fékk greiðslur í hendur út á hið skilyrta veðleyfi.

Vitnið Sigurður Þórarinn Sigurðsson, húsasmíðameistari kom fyrir dóminn. Sagði hann Arnar Sigurðsson hafa selt Yl-húsum ehf. lóðina Hraunbæ 107. Hafi verið greitt fyrir lóðina með skuldabréfi sem tryggt var með veði í lóðinni. Sagði hann Arnar hafa komið mikið á framkvæmdatímanum og sagst styðja við bakið á þeim við framkvæmdina. Sagði hann sumar kröfur hafa verið í uppnámi ef lánið frá Íbúðalánasjóði hefði ekki komið til. Um lokagreiðslu Yl-húsa ehf. sagði hann Arnar hafa verið staddan þar. Þeir hafi viljað fá skuldabréfin afhent en Arnar hafi viljað halda sumum þeirra eftir til að innheimta dráttarvexti. Það hafi þeir ekki samþykkt og niðurstaðan orðið sú að Arnar hafi sótt bréfin og afhent þeim þau. Þeir hafi litið á þessa greiðslu sem lokagreiðslu frá sér. Sagði hann Arnar hafa komið fram sem eigandi bréfanna.

Vitnið Ágúst Bjarnason, stjórnarformaður Yl-húsa ehf., kom fyrir dóminn. Sagði hann Yl-hús ehf. hafa keypt Hraunbæ 107 af Arnari Sigurðssyni með skuldabréfum. Hafi Arnar sagst ætla að styðja við bakið á þeim og ekki fara í harðar innheimtuaðgerðir. Sagði hann allt hafa stefnt í uppboð á eigninni ef lánið frá Íbúðalánasjóði og skilyrta veðleyfið hefði ekki komið til. Hann hafi litið á greiðsluna sem lokagreiðslu og þeir fengið öll skuldabréfin afhent. Arnar hafi ætlað að halda bréfunum eftir en fulltrúar Yl-húsa ehf. ekki tekið það í mál og fengið öll bréfin afhent.

Fyrir dóminn kom Arnar Sigurðsson, seljandi lóðarinnar Hraunbæ og upprunalegur eigandi veðskuldabréfanna. Sagði hann sig eiga hluta veðskulda-bréfanna sem um ræðir, en handhafabréf geti skipt daglega um hendur og því erfitt að fullyrða neitt um slíkt. Staðfesti hann þó að hann ætti eitthvað af umræddum bréfum. Myndi hann ekki að hafa verið viðstaddur þegar lokagreiðslan frá Yl-húsum ehf. var afhent. Sagðist hann hafa gert kröfu um dráttarvexti við lögmann sinn, sem sé stefnandi í máli þessu.

 

MÁLSÁSTÆÐUR STEFNANDA

Stefnandi kveður kröfu sína vera byggða á reikningi vegna vaxta dagsettum 18. október 2002 að fjárhæð 6.239.368 krónur. Stefnandi kveður veðleyfið frá 11. desember 2001 hafa verið skilyrt og háð þeirri forsendu að stefndi tæki að sér að greiða veðskuldabréfin og hafi stefnandi reiknað með að greiðsla yrði komin fyrir jólin 2001. Sú greiðsla hafi ekki átt sér stað. Stefnandi kveður seinna veðleyfið einungis hafa verið veitt til að hliðra til fyrir því klúðri sem átt hefði sér stað og það veitt með því skilyrði að með útgáfu þess væri ekki verið að falla frá ábyrgð stefnda á þeim skilyrðum sem sett hafi verið í fyrra veðleyfi heldur einungis til að minnka ábyrgð stefnda og hafi yfirlýsing þess efnis verið undirrituð af stefnda. Stefndi hafi svo greitt tvær greiðslur, aðra 1. júlí 2002 að fjárhæð 36.466.827 krónur og hina 3. júlí 2002 að fjárhæð 8 milljónir króna eða samtals 44.466.827 krónur. Útgefandi veðskuldabréfanna hafi svo greitt 14.533.173 krónur til stefnda 3. október 2002 en við móttöku á þeirri greiðslu hafi stefnandi gert þann fyrirvara að áskilinn væri allur réttur til að innheimta hjá stefnda áfallna dráttarvexti samkvæmt skilyrtu veðleyfunum. Byggir stefnandi á því að eftir sé að greiða dráttarvexti af fjárhæð þeirri frá 1. febrúar 2002 eða frá þeim tíma sem stefndi fékk greiðslur í hendur út á hið skilyrta veðleyfi og til fullnaðs greiðsludags og byggist vaxtareikningur stefnanda á þeim útreikningi. Stefnandi kveður stefnda hafa skilyrðislaust hafa átt að greiða stefnda umrædda fjárhæð þegar greiðsla fékkst út á skilyrta veðleyfið.

Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefnda, kveður málið vera einfalt og skýrt. Kveður hann prentvillu hafa slæðst inn í stefnuna í vísun til vaxtalaga, það leiðrétti hann fyrir dómi.

 

MÁLSÁSTÆÐUR STEFNDA

Stefndi kveður frávísunarkröfu sína vera byggða á því að ekki verði komist hjá því að vísa málinu frá dómi sökum óskýrleika í stefnu, tilgreiningu stefnanda á dómkröfum, lýsingu stefnanda á málsástæðum og öðrum atvikum málsins og tilvísunum stefnanda til lagaákvæða. Stefndi kveður dómkröfur stefnanda ekki vera sundurliðaða með þeim hætti sem gera þurfi kröfu um, m.a. komi ekki fram við hvaða vexti eða dráttarvexti (vaxtaprósentu) sé miðað og því ekki unnt að verjast kröfu stefnanda á þeim forsendum að útreikningar séu rangir. Stefndi kveður að eins og krafan sé sett fram verði ekki betur séð en að stefnandi höfuðstólsfæri vextina innan 12 mánaða. Þá séu málsgrundvöllur stefnanda í heild óljós og hugtökin “skuld auk dráttarvaxta”, “vextir” og “dráttarvextir” notuð á víxl um dómkröfur stefnanda. Ennfremur kveður stefndi að framsetning á málsástæðum og málsatvikum séu ekki svo skýr sem nauðsynlegt verði að teljast til að unnt sé að verjast kröfum stefnanda á fullnægjandi hátt, auk þess sem skýran rökstuðning fyrir kröfum um meinta greiðsluskyldu stefnda skorti. Þá kveður stefndi stefnanda ekki hafa sýnt nægilega fram á umboð sitt til málshöfðunar auk þess sem ekki hafa verið gefnar viðhlítandi skýringar eða upplýsingar um hvers vegna stefnandi höfði málið í eigin nafni. Loks sé innbyrðis ósamræmi í tilvísunum til dagsetninga í tengslum við kröfuna í stefnunni auk þess sem tilvísanir til vaxtalaga séu misvísandi en ýmist sé vísað til vaxtalaga nr. 25/1987 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að krefjast dóms í málinu. Stefndi kveður Arnar Sigurðsson vera eiganda kröfunnar og hann hafi komið fram sem eigandi gagnvart starfsmönnum stefnda og Yl-húsum ehf. og átt margvísleg samskipti við þá sem hafa verulega þýðingu í því máli sem sé til umfjöllunar. Stefndi kveður aðildarskort stefnanda því eiga að leiða til sýknu. Stefnandi svo og raunverulegur eigandi kröfunnar hafi bæði með háttsemi sinni og berum orðum gefið rækilega í skyn að hann myndi ekki krefjast dráttarvaxta af kröfunni. Þeir hafi samþykkt 59 milljónir króna sem fullnaðargreiðslu og ekki gert neinar breytingar á þeirri kröfu fyrr en við lokagreiðslu. Stefnandi og raunverulegur eigandi kröfunnar hafi augljóslega valdið stefnda tjóni með háttsemi sinni ef ætlunin hefði verið að krefjast dráttarvaxta af kröfunni. Stefndi hafi engra sérstakra hagsmuna haft að gæta af nýtingu veðleyfanna og augljóst að hann hefði ekki farið út í að nýta umrætt veðleyfi ef stefnandi og raunverulegur eigandi kröfunnar hefðu lagt fram kröfu um dráttarvexti á þeim tíma sem afgreiðsla lánsins fór fram. Þegar háttsemi þeirra og samskipti þeirra við stefnda og Yl-hús ehf. séu höfð í huga sé eðlilegt að gera ríkar kröfur til þess að krafa þeirra um dráttarvexti hefði verið sett fram með skýrum hætti strax og ljóst var að afgreiðsla lánsins myndi dragast.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að forsendur veðleyfisins hafi ekki gengið eftir þar sem lánafyrirgreiðsla hafi ekki verið á þann veg sem gert var ráð fyrir. Stefndi kveður þetta óhjákvæmilega hafa leitt til þess að ekki var unnt að greiða eiganda á þeim tíma sem upphaflega hafi verið stefnt að og hlaut óhjákvæmilega að leiða til þess að stefndi hafði ekki nægja fjármuni til að ráðstafa greiðslum eins og hann hafði tekið að sér samkvæmt veðleyfinu. Stefndi kveður einu skyldur stefnda hafa verið þær að tryggja að slík ráðstöfun færi ekki í bága við veðröð veðhafa á eigninni. Þetta hafi stefnanda og raunverulegum eiganda kröfunnar mátt vera ljóst. Stefndi kveður úthlutun sína á því fjármagni sem fékkst á grundvelli veðleyfanna hafa verið í samræmi við þær forsendur sem lagðar hafi verið til grundvallar og hafi það ekkert tjón haft í för með sér fyrir stefnanda og raunverulega eiganda, heldur þvert á móti.

Einnig byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi afhent Yl-húsum ehf., útgefanda veðskuldabréfanna, bréfin við greiðslu á 14.533.173 krónum sem fullnaðargreiðslu. Stefndi kveður rétt stefnanda og raunverulegs eiganda kröfunnar byggja á umræddum bréfum og geti þeir því ekki öðlast betri rétt á hendur stefnda en þeir höfðu á hendur útgefanda bréfanna.

Í upphaflegu veðleyfinu hafi ekkert verið tekið fram um það hvenær stefndi ætti að inna umrædda greiðslu samkvæmt veðleyfinu af hendi. Stefndi kveður gjalddaga ekki hafa verið ákveðinn fyrirfram og engin tímamörk verið sett af hálfu stefnanda eða raunverulegs eiganda þegar ljóst varð að fyrirgreiðslan myndi dragast.

Loks byggir stefndi sýknukröfu sína á því að yfirlýsing dagsett 13. júní 2002 frá stefnda um að andvirði láns eigi að renna upp í greiðslu á skuld vegna bréfanna hafi ekki haft að geyma neina fyrirvara um dráttarvexti. Stefndi kveður að líta megi á þá yfirlýsingu sem staðfestingu á því að stefndi og Yl-hús ehf. hafi ekki þurft að búast við frekar kröfum. Stefndi vekur athygli á orðalagi kvittunar sem stefnandi gaf út til Yl-húsa ehf. þar sem fyrirvari um dráttarvaxtakröfu á hendur stefnda er sett fram á kvittun til þriðja aðila.

Stefndi kveður varakröfu sína vera byggða á því að stefnanda hafi ekki verið heimilt að reikna dráttarvexti á umrædda fjárhæð fyrr en eftir að hann hafi komið því á framfæri við stefnda að hann hygðist krefja stefnda um dráttarvexti þann 4. október 2002. Stefndi kveður að fram að þeim tíma geti krafan ekki borið aðra vexti en í mesta lagi samningsvexti. Auk þess sé byggt á því að útreikningar stefnanda á stefnukröfu standist ekki ákvæði vaxtalaga sem leiði til lækkunar á kröfunni. Þá sé málskostnaðarkröfu stefnanda mótmælt.

 

NIÐURSTAÐA

Enda þótt málatilbúnaði stefnanda sé í nokkru áfátt þykir hann hafa náð að gera kröfur sínar og málatilbúnað skýrari þannig að ekki séu efni til þess að vísa því frá dómi að svo búnu.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt veðleyfi sem stefnandi gaf út og samþykkt var af stefnda. Í veðleyfinu kemur hvorki fram hvenær greiðsla á láninu átti að fara fram né hvort greiða ætti dráttarvexti ef sú greiðsla drægist, einungis að veðleyfið væri háð því skilyrði að stefndi tæki að sér að greiða af veðskuldabréfum að uppgreiðsluverði 59 milljónir króna. Yl-hús ehf var útgefandi og skuldari nefndra bréfa. Ekki er sýnt fram á að stefndi hafi fyrir skuldskeytingu orðið skuldari bréfanna. Krafa stefnanda um dráttarvexti kom ekki fram fyrr en eftir að Yl-hús ehf. greiddu lokagreiðslu til stefnanda, en þá þegar hafði stefndi greitt stóran hluta uppgreiðsluverðsins samkvæmt veðleyfinu til stefnanda. Þegar sú greiðsla var innt af hendi var gefin út kvittun til útgefanda skuldabréfanna, Yl-húsa ehf., og þau afhent skuldara. Í kvittuninni er áskilnaður um að krefja stefnda um dráttarvexti. Þeirri kröfu var ekki beint að stefnda fyrr en eftir að bréfin voru afhent. Veðleyfið, sem stefndi samþykkti, gefur stefnanda ekki eitt og sér sjálfstæðan rétt til greiðslu úr hendi stefnda umfram það sem stefnandi fékk greitt. Krafa stefnanda um dráttarvexti hlýtur ávallt að vera reist á veðskuldabréfum þeim, sem greiða átti samkvæmt veðleyfinu. Eftir að bréfin hafa verið afhent skuldara getur stefnandi ekki gert frekari kröfur, byggðar á þeim, þar sem hann hefur þau ekki í handhöfn sinni lengur. Þegar til þessa er litið svo og þess að samkvæmt framansögðu skapar veðleyfið stefnanda ekki sjálfstæðan rétt til þess að krefjast greiðslu dráttarvaxta úr hendi stefnda, ótengt veðskuldabréfunum, verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Kröfu stefnda um frávísun er hafnað.

Stefndi, Kaupþing Búnaðarbanki hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Guðmundar Þórðarsonar.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.