Hæstiréttur íslands
Mál nr. 211/2005
Lykilorð
- Fasteignakaup
|
|
Fimmtudaginn 6. október 2005. |
|
Nr. 211/2005. |
Guðleifur Sigurðsson ehf. (Garðar Briem hrl.) gegn Höskuldi Jónssyni og Guðlaugu Sveinbjarnardóttur (Skúli Bjarnason hrl.) |
Fasteignakaup.
H og G keyptu íbúð í fjöleignarhúsi, sem G ehf. hafði í byggingu. Strax eftir að þau höfðu gert tilboð í eignina ákváðu þau að nýta sér þann möguleika að byggja sólstofu á þaksvölum, sem fylgdu íbúðinni. Að framkvæmdum loknum krafði G ehf. þau H og G um greiðslu viðbótarkostnaðar, sem hlotist hafði af ákveðnum verkum, er miðuðu að því að unnt væri að koma sólstofunni fyrir á svölunum. Ekki var upplýst að samningur hefði tekist milli G ehf. og H og G um að þau síðarnefndu skyldu greiða félaginu þá fjárhæð, sem krafist var vegna umræddra verka. Með vísan til niðurstöðu dómkvadds matsmanns var heldur ekki talið sannað að H og G bæri að greiða G ehf. einhvern viðbótarkostnað í tengslum við byggingu sólstofunnar. Voru H og G því sýknuð af kröfu G ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. maí 2005. Hann krefst þess, að stefndu verði dæmd til að greiða sér 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. apríl 2003 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn niður falla.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Guðleifur Sigurðsson ehf., greiði stefndu, Höskuldi Jónssyni og Guðlaugu Sveinbjarnardóttur, samtals 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2005.
I
Mál þetta var höfðað 14. janúar 2004 og dómtekið 28. janúar 2005.
Stefnandi er Guðleifur Sigurðsson ehf., kt. 710192-2199, Aðallandi 19, Reykjavík en stefndu eru Höskuldur Jónsson, kt. 090837-2309, og Guðlaug Sveinbjarnardóttir, kt. 010141-3039, bæði til heimilis að Kristnibraut 8, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. apríl 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum
stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara er þess krafist að dómkröfur verði verulega lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða matskostnað.
II
Með kaupsamningi 28. desember 2000 keyptu stefndu íbúð af stefnanda í húsinu nr. 8 við Kristnibraut, Reykjavík. Höfðu stefndu gert tilboð í eignina 8. nóvember 2000 sem stefnandi samþykkti daginn eftir. Nánar tiltekið var um að ræða 4 herbergja íbúð merkt 0401 á 4. hæð hússins ásamt bílskúr og horngeymslu. Stefnandi er byggingarverktaki og byggði hann umrætt hús. Á bakhlið kaupsamnings aðila í lið nr. 1 segir meðal annars að kaupanda sé heimilt að bæta við sólskála á svölum og greiði hann viðbótarkostnað vegna þess svo og vegna breytinga á teikningum og eignaskiptayfirlýsingu.
Möguleiki á byggingu sólskála var til staðar hjá eigendum íbúða á efstu hæðum hússins og gert ráð fyrir að gólf sólskálans yrði þak íbúðar á efstu hæð í næsta stigagangi. Í tilviki stefndu var um að ræða 75 fermetra þaksvalir með möguleika á að byggja sólskála og gólf hans samkvæmt framangreindu þak íbúðar á efstu hæð hússins nr. 10 við Kristnibraut. Stefndu ákváðu strax eftir að þau höfðu gert tilboð í eignina að nýta sér þennan möguleika til byggingar sólskála/sólstofu og sendu fasteignasalanum sem sá um sölu fasteignarinnar frumdrög að teikningu sólstofu og er sú teikning dagsett 29. nóvember 2000.
Fasteignasalinn aflaði tilboða í byggingu sólstofa frá tveim aðilum meðal annars frá Byko hf. og í júlí 2001 sendi hann stefnda Höskuldi á faxi bréf sem kallað er fylgiskjal vegna tilboða í sólstofu að Kristnibraut 4, 6, 10 og 12. Þar segir orðrétt:
„Ég sendi hér með tilboð frá tveimur aðilum um kostnað við sólstofu að Kristnibraut 4-6-10 (austur) og 12 (vestur).
Tilboðið frá Byko þykir hagstæðara en inn í það vantar vinnulið vegna uppsetningar á þaki.
Annar kostnaður Guðleifs er ca kr. 500.000, en það er fyrir sérstaka einangrun, auka járnbentaplötu, hita í gólf o.fl. Fyrirvari er þó gerður um kostnað arkitekta.
Guðleifur þarf að svara þessu tilboði fyrir n.k. föstudag (20. júlí 2001) svo óskað er eftir staðfestu svari vegna tilboðanna.
Með kveðju,
Þorleifur St. Guðmundsson"
Stefndu gerðu samning við Byko hf. um byggingu sólstofu fyrir sitt leyti og kveðast aldrei hafa óskað neinnar milligöngu stefnanda varðandi það og hafi framangreint símbréf verið kynnt þeim óumbeðið.
Stefnandi heldur því fram að bygging sólstofu við íbúð stefndu hafi haft í för með sér kostnaðarauka við byggingu hússins enda hafi verið tekið fram í kaupsamningi aðila að stefndu ættu að greiða viðbótarkostnað vegna þessa auk kostnaðar vegna breytinga á teikningum og eignaskiptayfirlýsingu. Alls hafi verið byggðar fjórar slíkar sólstofur og hafi viðbótarkostnaður vegna hverrar þeirra verið 500.000 krónur. Telur stefnandi að þar sem stefndu hafi ekki gert athugasemdir við það sem fram komi í símbréfinu um kostnað hans hafi hann litið svo á að samkomulag væri um að stefndu greiddu honum þá fjárhæð og hafi ákvörðun verið tekin í kjölfarið um byggingu sólstofu við íbúð stefndu.
Með bréfi 20. mars 2003 krafði fyrirsvarsmaður stefnanda, stefnda Höskuld, um greiðslu að fjárhæð 500.000 krónur á grundvelli meints samnings aðila og í kjölfarið fóru fram bréfaskipti aðila og lögmanna þeirra vegna meintra vanskila af beggja hálfu.
Óumdeilt er að stefndu fengu Byko hf. til að reisa sólstofu fyrir sig en deilt er um það hvort stefnandi eigi kröfu á stefndu vegna kostnaðar við að gera þaksvalirnar þannig úr garði að unnt væri að koma þar fyrir sólstofu. Telur stefnandi að hér sé um að ræða viðbótarkostnað sem stefndu hafi gengist við að greiða í kaupsamningi aðila og sé fjárhæðin miðuð við tilboð sem stefnandi hafi gert stefndu og þau samþykkt.
Þann 16. apríl 2004 var Björn Gústafsson byggingaverkfræðingur dómkvaddur til að framkvæma mat samkvæmt matsbeiðni stefndu. Var matsbeiðnin tvískipt og óskað eftir mati á því hverju hefði þurft að breyta frá upphaflegri útfærslu vegna byggingu sólstofu og hvaða viðbótarkostnaður hefði af því hlotist og hvað sparaðist á móti við að velja þá útfærslu sem valin var. Er matsgerð matsmannsins dagsett í september 2004.
III
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á löglegum og bindandi samningi við stefndu um greiðslu á viðbótarkostnaði vegna byggingar sólskýlis við íbúð þeirra að Kristnibraut 8 í Reykjavík. Komi fram í 1. gr. á bakhlið kaupsamnings aðila að kaupandi skuli greiða slíkan viðbótarkostnað. Þá hafi stefndu verið sent tilboð með símbréfi í júlí 2001 þar sem fram komi að umræddur viðbótarkostnaður sé um 500.000 krónur. Byggi stefnandi á því að stefndu séu skuldbundin til að greiða þessa fjárhæð, enda hafi þau engar athugasemdir gert við fjárhæðina þótt stefnandi hæfi vinnu við undirstöður og byggingu sólstofunnar í samræmi við tilboðið. Hefðu stefndu verið ósátt við fjárhæðina hefði þeim verið í lófa lagið að gera athugasemd við hana og stöðva framkvæmdir við sólstofuna enda hafi þau fylgst vel með því hvernig framkvæmdum miðaði. Hafi stefndu í verki samþykkt þá fjárhæð sem stefnandi krefjist greiðslu á.
Stefnandi kveður að gerðir hafi verið samningar við eigendur fjögurra íbúða um greiðslu viðbótarkostnaðar vegna sólstofu að fjárhæð 500.000 krónur á hverja íbúð. Hafi eigendur annarra íbúða þegar greitt framangreinda fjárhæð. Telur stefnandi að stefndu hafi sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla greiðsluskyldu sinni fyrst einu og hálfu ári eftir að þau tóku við og hófu nýtingu eignarinnar.
Ef ekki verði fallist á að samningur um greiðslu á 500.000 krónum hafi komist á milli aðila telur stefnandi að hann eigi rétt til endurgjalds vegna viðbótarkostnaðar vegna sólstofunnar. Sú fjárhæð sem hann krefji stefndu um, vegna ákvörðunar þeirra að nýta sér rétt samkvæmt kaupsamningi um byggingu sólstofunnar, sé sanngjörn og eðlileg.
Þrátt fyrir að um tilboðsverk hafi verið að ræða hafi stefnandi látið stefndu í té skriflega sundurliðun á viðbótarkostnaði hans. Þar komi fram að kostnaðurinn sé meiri en sú fjárhæð sem stefndu séu krafin um með stefnu þessari. Stefnandi muni þó standa við þann samning sem gerður hafi verið og krefjist því aðeins 500.000 króna auk vaxta og kostnaðar. Þá hafi stefnandi bætt úr öllum þeim atriðum sem stefndu hafi talið áfátt á eigninni með fullnægjandi hætti.
Dráttarvaxta sé krafist mánuði frá því að krafa var sett fram í bréfi 20. mars 2003 sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um efndir samninga, greiðslu fjárskuldbindinga og afleiðingar vanefnda. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefndu styðja sýknukröfur sínar í fyrsta lagi á því að um sé að ræða ótímasetta heimild í kaupsamningi aðila til þess að reisa sólstofu og hafi stefndu mátt ætla að þakið væri þannig úr garði gert að slík framkvæmd væri möguleg þegar þeim sjálfum sýndist svo án sérstaks aukakostnaðar við að styrkja þakið á næsta stigagangi. Um kostnað vegna teikninga og breytinga á skiptayfirlýsingu sé ekki deilt.
Þá liggi ekkert tilboð fyrir frá stefnanda um gerð undirstöðu fyrir sólstofu og ekkert umboð liggi fyrir vegna símbréfs frá Þorleifi St. Guðmundssyni fasteignasala en fleiri viðtakendur séu að því símbréfi. Þá segi í því símbréfi að annar kostnaður Guðleifs sé ca 500.000 krónur. Bendi orðalag umrædds símbréfs eindregið til þess að meintur upphaflegur samningur um greiðslu viðbótarkostnaðar samkvæmt reikningi sé í fullu gildi. Þegar hið svokallaða tilboð hafi borist hafi verið liðnir að minnsta kosti tveir mánuðir frá því að vinnu við gerð undirstöðu hafi verið lokið. Tilboð sem gerð séu eftir að verki ljúki, að ekki sé talað um tilboð sem breytist svo sjálfkrafa yfir í fullgilda verksamninga, sé þeim ekki mótmælt, séu ný gerð af samningum, verði fallist á málatilbúnað stefnanda að þessu leyti.
Þá kveða stefndu enn síður að fyrir liggi gildur og bindandi samningur um verktöku. Hið svokallaða tilboð hafi aldrei verið undirritað af stefndu eða á það fallist með öðrum hætti. Þá hafi engin tilraun verið gerð til að sanna viðbótarkostnað með reikningum þar sem það eigi við en stefnandi hafi sönnunarbyrði um allan kostnað.
Þá mótmæla stefndu því að þau hafi sýnt af sér tómlæti þar sem þau hafi séð ástæðu til að bíða róleg lokauppgjörs, þar sem gerð yrði fullnægjandi grein fyrir viðbótarkostnaði, ef um hann væri á annað borð að ræða. Sé eðlilegast að skýra orðið viðbótarkostnaður í kaupsamningi þannig að eingöngu sé átt sé við kostnað af sjálfri sólstofunni, þ.e. efni í hana, smíði og uppsetning, en það hafi stefndu allt greitt fyrir löngu. Ekki sé stafkrók um það að finna í samningum að einhverjar sérstakar ráðstafanir þurfi við þakið á næsta húsi ef reist yrði sólstofa og enn síður að það yrði á kostnað kaupenda. Það hefði þó verið auðvelt fyrir stefnanda sem fagmann á sínu sviði að taka skýrt fram í samningi aðila um þessa þætti og hljóti stefnandi að bera hallann af öllum óskýrleika.
Stefndu telja að eftirfarandi málsgrein úr kaupsamningi: „Kaupanda er heimilt að bæta við sólskála á svölum og greiðir hann viðbótarkostnað vegna þeirra svo og vegna breytinga á teikningum og eignaskiptayfirlýsingu” beri að skýra og túlka þannig í heild sinni að um tæmandi talningu sé að ræða þannig að kaupendur beri aðeins kostnað vegna sjálfs sólskálans, sem og kostnað vegna breytinga á teikningum og eignaskiptayfirlýsingu.
Þá kveða stefndu enga tilraun hafa verið gerða af hálfu stefnanda til að meta til frádráttar það sem sparaðist vegna breyttrar útfærslu en það sé eftirfarandi:
- 2 stk. járnbitar með eyrum
- 11 stk. trébitar úr maghony
- vinna við fræsun og heflun
- uppsetning á járni og trébitum
- efni og smíði á skjólvegg
- hurð út á svalir, uppsett
- hellur og hellu- og malarþekjulögn
- flutningar á öllu ofangreindu, þ.m.t. hífingar
Mótmæla stefndu í heild þeirri kostnaðaráætlun stefnanda sem kynnt hafi verið stefndu með bréfi 10. nóvember 2003 enda sé hún röng og ófullnægjandi. Séu flestir liðirnir þannig að vinna hefði hvort sem er þurft að fara fram. Sem dæmi um þetta megi nefna vinnu við járnabindingu í plötu, hífingu á járni, steypuvinnu við plötu, dælingu, vinnu við einangrun, hífingu á hellum, viðbótarhellur, hreinsun og förgun efna, vinnu við að rífa og hreinsa timbur, leigu á steypumótum, steypumót fyrir hurð auk efnis, glugga á stofugafla samkvæmt tilboði og síðast en ekki síst byggingarstjórn. Mótmæli þessi séu ekki tæmandi en til að gefa hugmynd um hversu óraunhæft þetta sé megi nefna að auðvitað hefði stefnandi þurft að skila húsinu með hurð og glugga á gafli ef sólstofan hefði ekki verið reist. Það hafi hann hins vegar ekki gert hvað varði hurð og halli því á hann en ekki öfugt. Þá sé heldur engin heimild til að krefjast þóknunar vegna byggingastjórnunar, en fjárhæðin sé þar að auki, miðað við umfang verksins, allt of há að mati stefndu. Stefnandi hafi aldrei komið neitt að uppsetningu sólstofunnar og myndi að mati stefndu ekki svara til ábyrgðar ef eitthvað kæmi upp síðar sem lyti einungis að sólstofunni. Nógu illa hafi gengið að láta hann svara til ábyrgðar varðandi lögmæt og gallalaus skil á húsinu að öðru leyti. Vísa stefndu til fyrirliggjandi matsgerðar hins dómkvadda matsmanns sem sýni fram á það að sú leið sem farin var hafi í raun verið ódýrari kostur en ef stefnandi hefði þurft að ganga frá þaksvölum í samræmi við kaupsamning. Sýni matsgerðin að það sem hafi sparast við að velja þessa leið hafi verið 119.110 krónur.
Sýknukrafa byggi því samandregið á því að að ekki liggi fyrir samkvæmt samningum að stefndu séu greiðsluskyld vegna breyttrar framkvæmdatilhögunar. Þá liggi hvorki fyrir gilt tilboð né verksamningur, enginn viðbótarkostnaður sé sannaður heldur þvert á móti liggi fyrir að „sólstofuleiðin” sé ódýrari en afhending hússins án sólstofumöguleikans, eins og að honum var staðið, enda hafi margir dýrir liðir sparast á móti.
Varakrafan um lækkun á kröfum byggi á öllum sömu rökum og aðalkrafan. Þá sé vaxtakröfu mótmælt í heild enda hafi stefnandi aldrei krafið um hinn meinta viðbótarkostnað með fullnægjandi hætti. Í öllu falli séu ekki uppi tilburðir til þess fyrr en 10. nóvember 2003 að senda hina umbeðnu sundurliðun. Sé því útilokað að dæma vexti frá fyrri tíma en 10. desember 2003, verði stefndu dæmd til einhverrar greiðslu.
Hvað snertir lagarök vísa stefndu til samningalaga nr. 7/1936 og til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins. Um málskostnaðarköfu vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
V
Stefnandi byggir kröfur sínar fyrst og fremst á því að hann hafi gert stefndu tilboð vegna viðbótarkostnaðar vegna þeirrar ákvörðunar þeirra að byggja sólstofu. Hafi tilboðið verið að fjárhæð 500.000 krónur sem stefndu hafi samþykkt.
Meint tilboð stefnanda er í formi símbréfs frá fasteignasala, sem sent var sem fylgiskjal með tilboðum sem fasteignasalinn hafði aflað í byggingu sólstofa að Kristnibraut, 4, 6, 10 og 12. Í því bréfi segir meðal annars: „Annar kostnaður Guðleifs er ca kr. 500.000 en það er fyrir sérstaka einangrun, auka járnbentaplötu, hita í gólf o.fl. Fyrirvari er þó gerður um kostnað arkitekta.” Telur stefnandi að þar sem stefndu hafi ekki hreyft neinum athugasemdum varðandi þessar upplýsingar fasteignasalans um kostnað stefnanda hafi þau samþykkt að greiða stefnanda þá fjárhæð. Þau hafi þannig samþykkt tilboð stefnanda um að greiða honum 500.000 krónur fyrir meðal annars þau verk sem tilgreind eru í símbréfinu.
Eins og kemur fram í símbréfinu er það fylgiskjal með tilboðum í sólstofur, meðal annars frá Byko hf. Þá er þetta símbréf komið frá fasteignasala þeim sem annaðist um sölu fasteignarinnar sem um er fjallað í máli þessu sem tekur fram að annar kostnaður stefnanda eða fyrirsvarsmanns stefnanda muni vera um það bil 500.000 krónur, vegna nánar tilgreindra verka. Af orðalagi símbréfsins verður ekki annað ráðið en að fasteignasalinn sé að koma á framfæri upplýsingum frá stefnanda um mögulegan kostnað, vegna tilgreindra verka sem þó eru ekki tæmandi talin heldur nefnd að því er virðist í dæmaskyni.
Er vandséð hvernig skilja má umrætt símbréf sem tilboð stefnanda um að taka að sér ákveðna verkþætti fyrir stefndu enda stafar skjalið ekki frá stefnanda. Þá er allsendis óljóst í skjalinu hvaða verkþætti er um að ræða auk þess sem fjárhæðin er óviss. Þá er fráleitt að halda því fram að með því að mótmæla ekki sérstaklega að kostnaður stefnanda væri sá sem fasteignasalinn tilgreinir í símbréfinu hafi stefndu samþykkt að greiða stefnanda þá fjárhæð og breytir þar engu þótt fasteignasalinn hafi borið fyrir dómi að hann hafi litið svo á að samningur hefði komist á milli aðila. Hefur stefnanda því ekki tekist að sýna fram á að milli aðila hafi tekist samningur um að stefndu skuli greiða stefnanda 500.000 krónur.
Eins og rakið hefur verið er í kaupsamningi aðila ákvæði þess efnis að kaupanda sé heimilt að bæta við sólskála á svölum og að hann greiði viðbótarkostnað vegna hans. Óumdeilt er að stefndu hafa sjálf látið byggja sólskála og er kostnaður við byggingu hans sem slíks ekki til umfjöllunar í máli þessu heldur eingöngu sá kostnaður sem stefnandi telur að stefndu eigi að bera á grundvelli framangreinds ákvæðis í kaupsamningi um viðbótarkostnað. Í kaupsamningi aðila er ekkert tekið fram um hvaða viðbótarkostnað sé hér að ræða. Stefnandi er alvanur byggingarverktaki og byggði fjöleignahúsið Kristnibraut nr. 2-12. Sem fagmanni á þessu sviði hefði honum átt að vera í lófa lagið að tilgreina það nákvæmlega í kaupsamningi aðila um hvaða viðbótarkostnað væri hér átt við til að eyða óvissu um það. Verður því ekki við stefndu að sakast að þau hafi ekki gert athugasemdir og eftir atvikum stöðvað framkvæmdir stefnanda við bygginguna, enda ekkert fyrirliggjandi um að stefnandi hafi tekið að sér framkvæmdir fyrir stefndu umfram skyldur hans samkvæmt kaupsamningi. Þá verður ekki af kaupsamningi aðila annað ráðið en að stefndu gætu hvenær sem er nýtt sér heimild til að byggja sólskála eða eftir atvikum látið það vera.
Stefnandi hefur lagt fram sundurliðað yfirlit yfir þau verk sem hann kveðst hafa þurft að inna af hendi vegna þeirrar ákvörðunar stefndu að byggja sólskála og er kostnaðurinn samkvæmt þessu yfirliti 769.650 krónur. Hann kveðst þó ekki gera kröfur um hærri fjárhæð en sem nemi 500.000 krónum eins og hann hafi lofað. Stefnandi hefur engin haldbær gögn lagt fram þessum útreikningum til stuðnings eða að samningar hafi tekist við stefndu um að hann tæki að sér þessi verk, en eins og rakið hefur verið verður ekkert ráðið af kaupsamningi aðila um þetta.
Stefndu hafa aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns sem mat annars vegar hverju hefði þurft að breyta frá upphaflegri útfærslu fasteignarinnar samkvæmt kaupsamningi og hvaða viðbótarkostnaður hefði af þeim breytingum hlotist og hins vegar hvað hafi sparast á móti við að velja þá útfærslu sem valin var. Niðurstöður matsmannsins eru eftirfarandi:
I. Viðbótarkostnaður vegna breytinga frá upphaflegri útfærslu
Verkþáttur Ein. Magn Ein.verð Samtals
Aukinn mótaflötur vegna kantbita m2 13,0 6.000 78.000
Aukin steypa m3 2,2 31.000 68.200
Aukin bending kg 255,0 170 43.350
Vírhögg, holufylling, kústun m2 13,0 840 10.920
Múrplata 250 mm m2 19,0 4.650 88.350
Aukið hellumagn m2 10,0 5.740 57.400
Nýr gluggi á gafli m2 1,0 33.600 33.600
Pípulögn að sólstofu og gólfhiti m2 19,0 3.500 66.500
Byggingarstjórn v/sólstofu heild 1,0 30.000 30.000
Samtals viðbótarkostnaður kr. 476.320
II. Sparnaður við breytingar frá upphaflegri útfærslu
Verkþáttur Ein. Magn Ein.verð Samtals
Blaut einangrun 200 mm m2 21,5 3.600 77.400
Tvö lög af þakpappa m2 21,5 3.300 70.950
Perlumalarlag, 100 mm þykkt m2 21,5 1.120 24.080
Heitg.HE-120B sb. L=7,3m lakk stk 2 66.000 132.000
Festingar á stálbita í veggi stk 4 5.000 20.000
Trébitar úr harðviði 63x150stk L=3,6m stk 11,0 9.000 99.000
Skjólv. úr harðv./m.fest 1,8x2,5 m2 m2 4,5 8.300 37.350
Hurð út á svalir stk 1,0 110.000 110.000
Minnkun glugga á gafli m2 1,7 14.500 24.650
Samtals sparnaður kr. 595.430
Samkvæmt þessu er niðurstaða matsmanns sú að með því að gera undirstöður undir sólstofu í stað þess að smíða og setja upp þá hluti sem teikningar arkitekta hafi gert ráð fyrir, yrði ekki um sólstofu að ræða, sparaðist mismunurinn á 595.430 krónum og 476.320 krónum, eða 119.110 krónur með virðisaukaskatti á verðlagi í september 2004. Framangreindri matsgerð hefur ekki verið hnekkt og samkvæmt henni er ljóst að stefnandi hefur ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að stefndu eigi að greiða honum einhvern viðbótarkostnað vegna þáttar hans í byggingu sólstofunnar og verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Stefndu mótmæltu strax kröfu stefnanda sem hann setti fyrst fram með bréfi 20. mars 2003 og verður því ekki fallist á að þau hafi sýnt af sér tómlæti sem hafi einhverja þýðingu fyrir niðurstöðu máls þessa.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þeim úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Garðar Briem hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Skúli Bjarnason hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Höskuldur Jónsson og Guðlaug Sveinbjarnardóttir, eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Guðleifs Sigurðssonar ehf.
Stefnandi greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisaukaskattur.
Greta Baldursdóttir