Hæstiréttur íslands
Mál nr. 177/2005
Lykilorð
- Sjómaður
- Vinnusamningur
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 20. október 2005. |
|
Nr. 177/2005. |
Elvar Daði Guðjónsson(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Eskju hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Sjómenn. Vinnusamningur. Riftun.
EG var vikið úr skiprúmi á fiskiskipi í eigu E hf. Ástæða brottvikningarinnar var sú að EG hafði valdið öðrum skipverja meiðslum með líkamsárás en hann var sakfelldur fyrir árásina með dómi Héraðsdóms Austurlands 26. ágúst 2002. EG krafði E hf. um bætur fyrir ólögmæta brottvikningu. Talið var að háttsemi EG hafi fallið undir 5. tölul. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem veitir skipstjóra heimild til að víkja skipverja úr skiprúmi við tilteknar aðstæður. E hf. var því sýknað af kröfu EG.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2005. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.166.385 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. október 2001 til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu á 694.041 krónu með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Áfrýjandi var skipverji á fiskiskipi stefnda, Jóni Kjartanssyni SU 111 þegar honum var vikið úr skiprúmi 16. október 2001. Lá skipið þá við bryggju í Færeyjum. Ástæða brottvikningarinnar var sú að áfrýjandi hafði kvöldið áður með líkamsárás valdið öðrum skipverja á sama skipi meiðslum. Var áfrýjandi ákærður fyrir árásina og sakfelldur með dómi Héraðsdóms Austurlands 26. ágúst 2002. Refsing var hins vegar felld niður með heimild í 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með vísan til þess að áfrýjandi hlaut sjálfur alvarlega áverka í átökunum við manninn, sem hann réðst á. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Í 23. og 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eru ákvæði um heimildir skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi. Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 24. gr. er þessi heimild fyrir hendi ef skipverji verður sekur um þjófnað eða annan meiri háttar glæp. Ákvæðið verður að skýra með hliðsjón af þeim tilgangi, sem að baki því býr, og miðar einkum að því að tryggja að ófriður í áhöfn skips ógni ekki öryggi þess. Verður þá að líta til þess hvers eðlis og hversu alvarlegt brot er hverju sinni. Atvikið, sem leiddi til brottvikningar áfrýjanda, var ekki stimpingar sem báðum yrði kennt um, heldur gerðist áfrýjandi sekur um tilefnislausa og grófa líkamsárás á skipsfélaga sinn og olli honum meiðslum. Fellur háttsemi áfrýjanda undir þá aðstöðu, sem heimilar skipstjóra að víkja skipverja úr skiprúmi samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga, auk þess sem forsendur voru brostnar fyrir ráðningu áfrýjanda vegna þessarar hegðunar hans. Þarf þá ekki jafnframt að taka afstöðu til þess hvort ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga hafi einnig veitt skipstjóra þessa heimild. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Elvar Daði Guðjónsson, greiði stefnda, Eskju hf., samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Elvari Daða Guðjónssyni, Útgarði 6, Egilsstöðum gegn Eskju hf., Strandgötu 39, Eskifirði með stefnu útgefinni 9. júní 2004, en áritaðri um birtingu 15. júní 2004.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.166.385 krónur með dráttarvöxtum skv. ákv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. október 2001. Til vara að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 694.041 króna með dráttarvöxtum skv. ákv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. október 2001. Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum reikningi eða að mati dómsins.
Stefndi gerir aðallega kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málavextir.
Stefnandi var háseti á Jóni Kjartanssyni SU-111 sem er fjölveiðiskip í eigu stefnda. Hinn 15. október 2001 leitaði skipið til hafnar í Fuglafirði í Færeyjum vegna bilunar. Stefnandi fór ásamt A, háseta og fleiri skipverjum til Þórshafnar til að skemmta sér. Fóru þeir í leigubifreið og höfðu áfengi um hönd. Þegar þeir voru komnir til Þórshafnar og yfirgáfu leigubifreiðina kom til slagsmála á milli stefnanda og A. Aðrir skipverjar stíuðu þeim í sundur og enduðu slagsmálin þá. Bæði stefnandi og A hlutu áverka og brotnaði m.a. litli fingur hægri handar stefnanda. Stefnandi mun hafa haldið áfram drykkju um nóttina en sneri til skips um hádegi daginn eftir. Vék Grétar Rögnvarsson, skipstjóri, stefnanda þá úr skipsrúmi í vitna viðurvist. Ágreiningur er milli aðila hvort skipstjórinn hafi þá gert grein fyrir ástæðum uppsagnarinnar. Stefnandi telur svo ekki vera en stefndi telur að ástæðurnar hafi verið þær, að stefnandi var drukkinn og hafði ráðist á A skipsfélaga sinn og veitt honum áverka auk þess sem stefnandi hafði veist að öðrum skipverjum og reynt að æsa þá upp. Stefnandi mun strax hafa yfirgefið skipið. Hann tók rútu til Runavíkur og flaug til Danmerkur 17. október og þaðan til Íslands. Stefnandi greiddi ferðakostnað og uppihald úr eigin vasa.
Stefnandi kærði A fyrir líkamsárás, en A gagnkærði. Lögreglurannsókn fór fram og var stefnandi síðan ákærður fyrir líkamsárás. Með dómi Héraðsdóms Austurlands 26. ágúst 2002 í málinu nr. S-687/2001 var stefnandi fundinn sekur um ákæruatriðin, en refsing látin niður falla með vísan til 3. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, vegna þess að líkamsárásin hefði verið unnin í áflogum og stefnandi hefði sjálfur hlotið áverka á átökunum.
Með bréfi 27. febrúar 2002 tilkynnti lögmaður stefnanda, að stefnandi hefði falið honum að setja fram skaðabótakröfur vegna uppsagnarinnar og óskaði eftir launaupplýsingum sem hann fékk. Kröfugerð á hendur stefnda var fyrst sett fram með birtingu stefnu 15. júní 2004.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi krefst aðallega bóta á grundvelli þess að honum hafi verið vikið frá skipi fyrir að vera óvinnufær vegna slyss, sbr. 23. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og hafi því rétt til fullra launa í tvo mánuði og kauptryggingar í þrjá mánuði skv. 1. og 2. mgr. 36. gr. laganna. Það liggi fyrir í gögnum málsins, að stefnanda var vikið frá skipi strax daginn eftir að A veitti honum áverka. Stefnandi telur að líta beri til þess, að 23. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eru sett til verndar áhöfnum á íslenskum skipum og skal þeim því beitt á sem hagstæðastan hátt fyrir hinn brottrekna þegar skipstjóri lætur ógert að tilgreina ástæður brottreksturs.
Til vara byggir stefnandi kröfu sína á því, að honum hafi verið vikið af skipsrúmi með ólögmætum hætti í skilningi 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og hafi því rétt til fullra launa í einn mánuð, skv. 9. gr. laganna. Stefnandi ítrekar að skipverja verður eingöngu vikið af skipi með vísan til 3. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þegar hann hefur „gerst sekur“ um að beita aðra menn ofbeldi „sem á skipinu eru“ . Stefnandi var ekki upphafsmaður áfloganna við A sem áttu sér stað utan skips og var því óheimilt að víkja honum af skipi á þessum grundvelli.
Stefnandi heldur því fram, að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að 3. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eigi við um stefnda. Stefnandi telur ljóst af dómi Héraðsdóms Austurlands í máli nr. S-687/2001, að ákvarðað var með afdráttarlausum hætti að kærandi máls átti upptök að átökum. Þegar saksókn dugir ekki til, þá liggur í hlutarins eðli að heimild skipstjóra skv. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 til að reka skipverja á þeim grundvelli að þeir séu „sekir“ um að beita ofbeldi eigi ekki við. Skipstjóra bar í það minnsta að rannsaka eins vel og hægt var allar kringumstæður áfloganna áður er hann tók jafn mikilvæga ákvörðun og að svipta stefnanda atvinnu og skilja hann eftir á erlendri grund. Aðstæður í þessu máli eru aftur á móti með þeim hætti, að stefnandi var rekinn um leið og hann kom í skip án þess að vera gefið tækifæri til að skýra mál sitt eða að önnur rannsókn hafi farið fram.
Stefnandi krefst þess að ferðakostnaður og fæðispeningar vegna kostnaðar að fara frá Færeyjum til heimilis síns á Íslandi verði greiddur og vísar til 2. mgr. 25. gr. siglingalaga og fæðispeninga vegna kostnaðar að fara frá Færeyjum til heimilis síns á Íslandi.
Dómkröfur stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti.
Aðalkrafa:
Hásetalaun 16/10 til 16/12 2001 656.199 krónur
Kauptrygging í 3 mánuði (3x119.287) 357.861 krónur
Fæðiskostnaður 1800 kr + 11.470 (925 dk x 12.4) 22.320 krónur
Ferðakostnaður 90.455 + 39.550 (3.189.5 x 12.4) 130.005 krónur
1.166.385 krónur
Varakrafa:
Hásetalaun frá 16/10 til 16/11 2001 541.716 krónur
Fæðis- og ferðakostnaður (sjá aðalkröfu) 152.325 krónur
694.041 krónur
Málsástæður og lagarök stefnda.
Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á því, að stefnandi hafi brotið svo alvarlega gegn skyldum sínum gagnvart stefnda sem vinnuveitanda, að skipstjóra hafi verið heimilt að víkja honum fyrirvaralaust úr skiprúmi á grundvelli brostinna forsendna fyrir frekari ráðningu hans og einnig skv. heimild í 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Helstu rök fyrir því eru þessi:
Í fyrsta lagi réðst stefnandi án tilefnis á A skipsfélaga sinn með líkamlegu ofbeldi og olli honum meiðslum. Brast þar með meginforsenda fyrir frekari ráðningu stefnda á skipið. Er höfuðnauðsyn með tilliti til öryggis skips og áhafnar og vegna vinnunnar um borð, þar sem menn þurfa að starfa saman, að friður ríki milli áhafnarmeðlima. Stefndi telur því að grundvallarforsenda fyrir ráðningu manna á skip sé, að þeir séu til friðs við skipsfélaga sína og beiti þá ekki líkamlegu ofbeldi. Stefndi telur það ekki skipta máli, hvort líkamsárás eins skipverja á annan eigi sér stað um borð í skipinu sjálfu eða utan skipsins. Stefndi telur fyrirvaralausan brottrekstur stefnanda því heimilan, bæði á grundvelli almennra reglna um brostnar forsendur og skv. 3. tl. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Í öðru lagi varðaði árás stefnanda á A við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. Héraðsdóm Austurlands í málinu nr. S- 687/2001 og var þannig „meiri háttar glæpur” í skilningi 5. tl. 24. gr. sjómannalaga og því einnig brottrekstrarsök skv. því ákvæði.
Þá telur stefndi að árás stefnanda á A hafi verið sérlega ámælisverð fyrir þá sök, að þar réðst stefnandi, sem var ungur og hraustur, á 55 ára gamlan meinleysingja, sem hafði ekki gefið neitt tilefni til árásarinnar. Þá hafði stefnandi einnig veist að öðrum skipverjum og reynt að æsa þá upp.
Þá bendir stefndi á, að með líkamsárásinni á skipsfélaga sinn olli stefnandi jafnframt sjálfum sér meiðslum (fingurbroti), sem gerðu hann sjálfan óvinnufæran. Brustu einnig af þeim sökum forsendur fyrir framhaldi á ráðningu hans og réttlættu fyrirvaralausa uppsögn.
Loks hafði stefnandi áður verið drukkinn og með leiðindi og brottvikning því einnig heimil skv. 4. tl. 24. gr. sjómannalaga. Stefndi byggir á því að hegðun stefnanda hafi verið alls ósamrýmanleg sjómannsstarfinu og ofangreind atriði, hvert fyrir sig og /eða metin saman hafi heimilað fyrirvaralausa brottvikningu stefnanda úr skiprúmi, þar sem megin forsendur hafi brostið fyrir áframhaldandi ráðningu hans á skipið og einnig þar sem heimilt hafi verið að víkja honum úr skiprúmi skv. 24. gr. sjómannalaga. Eigi stefnandi því ekki rétt á neinum bótum úr hendi stefnda vegna brottvikningarinnar, hvorki í formi launa, kauptryggingar né ferða og fæðiskostnaðar.
Staðhæfing stefnanda um að honum hafi verið vikið úr skiprúmi fyrir að vera óvinnufær vegna slyss, sbr. 23. gr. sjóml., er hins vegar röng. Varð stefnandi enda ekki fyrir slysi, heldur hlaut hann meiðsli sín við líkamsárás á skipsfélaga sinn eða barsmíðar við veggi.
Í annan stað er sýknukrafa stefnda byggð á því, að kröfur stefnanda séu niður fallnar fyrir tómlæti. Stefnanda var vikið úr starfi 15. október 2001 og hélt hann þá brott án andmæla. Fjórum mánuðum síðar eða 27. febrúar 2002 tilkynnti lögmaður hans stefnda, að honum hefði verið falið að setja fram skaðabótakröfur vegna brottvikningarinnar. Frá stefnanda eða lögmanni hans heyrðist síðan ekkert í tvö og hálft ár eða til 15. júní 2004, þegar stefna var birt í málinu. Var þá liðinn svo langur tími frá því ráðningunni var slitið, að kröfur stefnanda voru fallnar niður fyrir tómlæti.
Varakrafa stefnda er byggð á því, að stefnukröfur séu of háar. Er þeim mótmælt bæði tölulega og efnislega. Stefnandi geti aldrei átt rétt til fullra launa í tvo mánuði og kauptryggingar í þrjá mánuði skv. 36. gr. sjómannalaga eins og hann krefst. Fyrir það fyrsta varð stefnandi ekki fyrir vinnuslysi og í öðru lagi hafði hann ekki unnið samfellt hjá stefnda, heldur aðeins af og til í afleysingum. Eru skilyrði 36. gr. fyrir þessum kröfum hans því ekki fyrir hendi.
Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og til vara frá fyrri tíma en mánuði eftir birtingu stefnu þann 15. júní 2002, er tölulegar kröfur voru fyrst settar fram.
Forsendur og niðurstaða.
Í málinu liggur fyrir, að stefnandi lenti í átökum við skipsfélaga sinn er þeir voru í höfn í Færeyjum. Var hann síðar ákærður „fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 15. október 2001, í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum, veist að A, kt. .............., slegið hann í andlitið og fellt í götuna og ítrekað skallað hann í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut verulegt mar og bólgu kringum bæði augu“. Líkamsárásin taldist varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. l. nr. 20/1981. Héraðsdómur taldi sannað, að áverkar A hefðu verið að völdum stefnanda, að brotinu væri rétt lýst í ákæru og að það væri rétt fært til refsiákvæða. Niðurstaða dómsins var sú, að stefnanda var ekki gerð refsing og var vísað til 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Daginn eftir árásina eða 16. október 2001 kom stefnandi aftur til skiprúms og sagði skipstjórinn honum þá upp störfum sínum. Í skipdagbók er ástæða brottvikningarinnar rakin, en þar segir að stefnanda hafi verið vikið úr skiprúmi fyrir að ráðast á annan skipverja og veitast að öðrum skipverjum. Að mati dómsins styðst aðalmálsástæða stefnanda, um að honum hafi verið vikið frá skipi vegna óvinnufærni, ekki við nein rök.
Það er álit dómsins, að skipstjóra hafi verið heimilt, samanber 5. tölulið 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, að víkja stefnanda úr skiprúmi. Samkvæmt 10 daga gömlu áverkavottorði var A, við læknisskoðunina, mikið bólginn og marinn í kringum augu og með dofatilfinningu hægra megin í kinn. Hann var með verki, ef hann beit saman tönnum og með sáran verk, ef þrýst var á báðar hliðar höfuðsins. Að mati dómsins telst líkamsárás með þessa áverka, sem eru 10 daga gamlir, vera meiri háttar glæpur í skilningi 5. töluliðar 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og er þá einnig haft til hliðsjónar, að ákvæðið tilgreinir þjófnað eða annan meiriháttar glæp. Engu máli skiptir þó áflogin hafi ekki átt sér stað í skiprúmi, enda verður 5. tl. 24. gr. ekki túlkuð þannig að slíkt sé nauðsyn. Til þess er að líta, að átökin áttu sér stað milli skipverja og í skipdagbók er tilgreint að stefnandi hafi veist að öðrum skipsverjum. Að mati dómsins ber nauðsyn til þess að friður ríki um borð í skipum og milli skipverja. Um lítið samfélag er að ræða og í ljósi hinnar alvarlegu árásar, sem Héraðsdómur Austurlands taldi fullsannaða, lítur dómurinn einnig svo á, að brostnar hafi verið forsendur fyrir því, að stefnandi yrði áfram í skiprúmi. Einnig með vísan til 3. töluliðar 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 var skipstjóranum heimilt að víkja stefnanda úr skiprúmi.
Að mati dómsins á stefnandi því ekki rétt á þeim greiðslum sem krafið er í málinu, sbr. 3. mgr. 24. gr. sjómannalaganna. Þá lítur dómurinn svo á, að þar sem stefnandi fingurbrotnaði í áflogunum og var af þeim sökum óvinnufær í fjóra og hálfan mánuð, eigi hann ekki rétt til þeirra greiðslna sem hann krefur í málinu, samanber 4. mgr. 36. gr. i.f. sjómannalaga nr. 35/1985.
Stefnanda var strax, er hann kom til skips 16. október 2001 vikið úr skiprúmi. Var það því gert við fyrsta mögulega tækifæri. Af framburði stefnanda fyrir lögreglu 19. október 2001 er ljóst, að hann tjáði sig strax við skipstjórann um þau áflog sem hann lenti í, þar sem stefnandi sagði skipstjóranum að hann hefði verið sleginn af tilefnislausu að fyrra bragði. Því er ljóst að stefnanda var gefið tækifæri til að skýra máls sitt áður en til brottvikningar kom.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að sýkna eigi stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján Stefánsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Hákon Árnason hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Eskja hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Elvars Daða Guðjónssonar.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.