Hæstiréttur íslands

Mál nr. 356/2015


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnusamningur
  • Tómlæti


                                     

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 356/2015.

Sveinbjörn Ragnarsson

(Gunnar Sturluson hrl.)

gegn

Fiskihóli ehf.

(Björn Jóhannesson hrl.)

Sjómenn. Vinnusamningur. Tómlæti.

S höfðaði mál til heimtu vangreiddra launa vegna starfa hans sem skipstjóri á bát F ehf. á árunum 2007 til 2012, en óumdeilt var að ekki hafði verið gerður skriflegur ráðningarsamningur og að ekki var í gildi kjarasamningur. S reisti kröfu sína á því að samið hefði verið um að laun hans miðuðust við 12% af aflaverðmæti að teknu tilliti til lögmætra frádráttarliða, auk orlofs, en F ehf. hélt því hins vegar fram að miðað hefði verið við 8%. Með hliðsjón af 1. mgr. 6. gr. og 42. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 var talið að F ehf. bæri sönnunarbyrði í málinu. Að virtum gögnum málsins og yfirlýsingum vitna var ekki talið að F ehf. hefði hnekkt staðhæfingu S um 12% skiptahlut. Á hinn bóginn hefði S fyrst gert athugasemd við fjárhæð launa í október 2013, þrátt fyrir að launaseðlar hans hefðu gefið tilefni til að kanna grundvöll uppgjörsins strax í upphafi starfssambandsins. Var því fallist á með F ehf. að S hefði sýnt af sér tómlæti í málinu. Var F ehf. því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 19.116.768 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sveinbjörn Ragnarsson, greiði stefnda, Fiskihóli ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. febrúar 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. janúar sl., er höfðað af Sveinbirni Ragnarssyni, Holtastíg 4, Bolungarvík, gegn Fiskihóli ehf., Vitastíg 7, Bolungarvík, með stefnu birtri 3. júní 2014.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 26.974.249 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 61.345 krónum frá 1. febrúar 2008 til 1. mars 2008, en af 962.872 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2008, en af 1.139.245 krónum frá þeim degi til 1. maí 2008, en af 1.660.861 krónu frá þeim degi til 1. júní 2008, en af 2.130.245 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2008, en af 2.502.052 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, en af 2.969.168 krónum frá þeim degi til 1. október 2008, en af 3.277.614 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2008, en af 3.783.948 krónum frá þeim degi til 1. desember 2008, en af 4.379.620 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2009, en af 5.117.580 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2009, en af 5.688.106 krónum frá þeim degi til 1. mars 2009, en af 5.913.150 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2009, en af 6.244.949 krónum frá þeim degi til 1. maí 2009, en af 6.691.281 krónu frá þeim degi til 1. júní 2009, en af 7.083.886 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2009, en af 7.529.774 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, en af 7.663.035 krónum frá þeim degi til 1. september 2009, en af 8.025.606 krónum frá þeim degi til 1. október 2009, en af 8.588.045 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2009, en af 9.156.894 krónum frá þeim degi til 1. desember 2009, en af 9.804.901 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2010, en af 10.843.718 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, en af 11.791.374 krónum frá þeim degi til 1. mars 2010, en af 12.207.779 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2010, en af 12.280.688 krónum frá þeim degi til 1. maí 2010, en af 12.939.899 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2010, en af 13.036.066 krónum frá þeim degi til 1. september 2010, en af 13.310.923 krónum frá þeim degi til 1. október 2010, en af 14.035.249 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, en af 14.736.324 krónum frá þeim degi til 1. desember 2010, en af 15.706.683 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2011, en af 16.466.760 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2011, en af 17.167.564 krónum frá þeim degi til 1. mars 2011, en af 18.091.234 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2011, en af 19.013.128 krónum frá þeim degi til 1. maí 2011, en af 19.329.297 krónum frá þeim degi til 1. júní 2011, en af 20.464.275 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2011, en af 21.384.945 krónum frá þeim degi til 1. september 2011, en af 21.774.563 krónum frá þeim degi til 1. október 2011, en af 22.329.229 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2011, en af 22.889.662 krónum frá þeim degi til 1. desember 2011, en af 23.640.621 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2012, en af 24.392.897 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2012, en af 25.340.608 krónum frá þeim degi til 1. mars 2012, en af 25.796.817 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2012, en af 26.415.097 krónum frá þeim degi til 1. maí 2012, en af 26.974.249 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 19.116.768 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 495.984 krónum frá 1. febrúar 2008 til 1. mars 2008, en af 852.446 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2008, en af 900.979 krónum frá þeim degi til 1. maí 2008, en af 1.057.815 krónum frá þeim degi til 1. júní 2008, en af 1.472.065 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2008, en af 1.792.537 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, en af 1.993.703 krónum frá þeim degi til 1. október 2008, en af 2.261.573 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2008, en af 2.707.613 krónum frá þeim degi til 1. desember 2008, en af 3.230.287 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2009, en af 3.887.075 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2009, en af 4.392.458 krónum frá þeim degi til 1. mars 2009, en af 4.592.028 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2009, en af 4.886.989 krónum frá þeim degi til 1. maí 2009, en af 5.277.933 krónum frá þeim degi til 1. júní 2009, en af 5.559.641 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2009, en af 5.803.179 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, en af 5.917.902 krónum frá þeim degi til 1. september 2009, en af 5.967.987 krónum frá þeim degi til 1. október 2009, en af 6.411.134 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2009, en af 6.914.415 krónum frá þeim degi til 1. desember 2009, en af 7.488.800 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2010, en af 7.996.506 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, en af 8.839.238 krónum frá þeim degi til 1. mars 2010, en af 9.209.973 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2010, en af 9.272.772 krónum frá þeim degi til 1. maí 2010, en af 9.859.818 krónum frá þeim degi til 1. september 2010, en af 10.041.250 krónum frá þeim degi til 1. október 2010, en af 10.605.630 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, en af 11.035.162 krónum frá þeim degi til 1. desember 2010, en af 11.779.023 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2011, en af 12.127.966 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2011, en af 12.750.524 krónum frá þeim degi til 1. mars 2011, en af 13.167.349 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2011, en af 13.928.643 krónum frá þeim degi til 1. maí 2011, en af 14.208.401 krónu frá þeim degi til 1. júní 2011, en af 14.761.013 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2011, en af 14.901.030 krónum frá þeim degi til 1. september 2011, en af 15.245.555 krónum frá þeim degi til 1. október 2011, en af 15.736.172 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2011, en af 16.231.893 krónum frá þeim degi til 1. desember 2011, en af 16.708.245 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2012, en af 17.377.757 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2012, en af 18.219.678 krónum frá þeim degi til 1. mars 2012, en af 18.566.281 krónu frá þeim degi til 1. apríl 2012, en af 19.116.768 krónum frá þeim degi, til greiðsludags.

Í báðum tilvikum er þess krafist að viðurkennt verði sjóveð fyrir öllum tildæmdum fjárhæðum í skipinu Gunnari Leós ÍS-112, skipanr. 2497, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, úr hendi stefnda að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar. Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Málsatvik

Stefnandi var haustið 2007 ráðinn til starfa sem skipstjóri á bát stefnda, Gunnari Leós ÍS-112. Báturinn, sem er með skipaskrárnúmer 2497, er 11 brúttótonna krókaflamarksbátur og eru alla jafnan tveir menn um borð við veiðar. Þegar stefnandi var ráðinn til starfans höfðu ekki verið gerðir kjarasamningar milli sjómanna og útgerðarmanna um kaup og kjör skipverja á bátum sem voru sömu eða svipaðrar stærðar og báturinn. Þá var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila.

Ágreiningur aðila snýst um það hver hafi verið umsamin launakjör stefnanda. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að svo hafi verið um samið að laun hans miðuðust við 12% af aflaverðmæti hverju sinni að frádregnum þeim kostnaði sem heimilt var að draga frá aflaverðmæti áður en til skipta kom, auk orlofs. Þetta hafi verið algengur skiptahlutur skipstjóra á sambærilegum bátum sem gerðir voru út frá Bolungarvík á þessum tíma. Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að stefndi beri að greiða honum mismun þess sem um var samið og þeirra launa sem hann fékk greidd, að teknu tilliti til venjubundinna og lögmætra frádráttarliða. Stefndi byggir á því að svo hafi verið samið við stefnanda þegar hann réð sig til starfans að kjör hans hafi átt að vera að öllu leyti sambærileg þeim kjörum sem aðrir skipstjórar á sambærilegum bátum í Bolungarvík sem lönduðu afla á fiskmörkuðum höfðu, sem hafi verið 7,7 til 8% af aflaverðmæti, með orlofi. Þá byggir stefndi á því að sá mismunur sem hafi verið á launum milli mánaða sé fyrst og fremst tilkominn vegna mismunandi aflaverðmætis innan hvers mánaðar fyrir sig, sölukostnaðar, frítöku stefnanda, o.fl.

Í stefnu er það rakið að á árinu 2011 í aðdraganda að gerð kjarasamningsins hafi flest drög að honum mælt fyrir um að skiptahlutur sjómanna yrði skertur, þ.e. að skiptahlutur skipverja yrði ekki 10% og 12% líkt og verið hafði, heldur nokkuð lægri. Í byrjun september 2011 hafi verið haldinn fundur í húsakynnum Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur þar sem m.a. var til umræðu kjarasamningur á milli Salting ehf. og Sigurgeirs Þórarinssonar, Hagbarðar Marinóssonar og Hálfdáns Daðasonar um kaup og kjör á Vilborgu ÍS-103. Fundinn hafi sótt smábátasjómenn úr Bolungarvík, m.a. í þeim tilgangi að bera saman bækur sínar og styðja hvern annan í kjarabaráttu við útgerðarmenn. Á þeim fundi hafi stefnandi ekki verið reiðubúinn til að fara í kjarabaráttu þar sem hann væri sjálfur á 12% skiptahlut og taldi að það gæti komið niður á sér síðar með lækkandi hlut.

Af hálfu stefnda voru gefnir út launaseðlar til stefnanda og annaðist Jón Þorgeir Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun Vestfjarða ehf., alla launaútreikninga. Á þeim launaseðlum sem liggja fyrir í málinu er ekki hægt að sjá hver var skiptahlutur stefnda heldur er þar tilgreind eining sem hafi verið 1,00 og fjárhæð sem hafi verið breytileg milli mánaða, auk orlofs. Þá eru tilgreindir á launaseðlunum frádráttarliðir sem hafi verið lífeyrissjóðsiðgjöld, félagsgjöld og staðgreiðsla skatta.

Stefnanda var sagt upp störfum á árinu 2012 og lauk ráðningarsambandi hans við stefnda í ágúst 2012. Hann fékk greidd laun meðan á uppsagnarfresti hans stóð eða allt til loka október 2012.

Í stefnu er það rakið að nokkru eftir að stefnanda var sagt upp störfum hafi hann ákveðið að staðreyna hvort laun hans hefðu verið í samræmi við umsaminn skiptahlut. Hann hafi óskað eftir því að fá upplýsingar um aflaverðmæti Gunnar Leós á þeim tíma er hann starfaði sem skipstjóri á bátnum, frá fiskmarkaði og frá stefnda. Þegar honum bárust þær upplýsingar, sem samkvæmt framlögðum gögnum var 23 júlí 2013, hafi hann fyrst fengið vitneskju um forsendur launauppgjörsins. Samkvæmt greinargerð stefnda voru þessar upplýsingar teknar saman af Jóni Þorgeiri Einarssyni. Þá kemur þar fram að í kjölfar þess hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum sem hafi þegar verið sendar stefnanda. Þessu til viðbótar hafi Jón Þorgeir tekið saman yfirlit um aflaverðmæti bátsins á árunum 2009-2012, sölukostnað, frítöku stefnanda og annað er skipti máli við útreikning á hlut stefnanda. Samkvæmt stefnu fékk stefnandi í september 2013 ítarlegri upplýsingar frá Fiskmarkaði Suðurnesja til þess að staðreyna hvort stefndi miðaði við rétt uppgefið aflaverðmæti. Stefnandi byggir á því að þá hafi komið í ljós að skiptahlutur stefnanda var ekki nærri 12% nema örfáa mánuði á umræddu tímabili og að launin hafi því verið umtalsvert lægri en samið hafði verið um. Þá liggur fyrir tölvupóstur þar sem fram kemur að stefnanda hafi 5. febrúar 2014 verið framsendar upplýsingar frá Jóni Þorgeiri vegna ársins 2008.

Með bréfi, dagsettu 24. október 2013, krafði stefnandi stefnda um vangoldin laun vegna áranna 2009 til 2012. Í kjölfar þess, í nóvember 2013, hittust stefndi og stefnandi á fundi þar sem farið var yfir launaútreikninga og lagði stefndi fram ný gögn til útreiknings skiptahlutarins. Stefnandi rekur það í stefnu að hann hafi talið að þeir útreikningar væru ekki í samræmi við það sem um var samið og það sama eigi við um viðbótarupplýsingar frá stefnda í febrúar 2014.

Fyrir liggja launaseðlar vitnisins Snorra Harðarsonar ásamt sundurliðun á aflaverðmæti vegna september 2007, apríl 2008 og janúar 2009 og upplýsingar um aflaverðmæti Gunnars Leós á því tímabili er stefnandi starfaði hjá stefnda. Þá lagði stefnandi fram yfirlýsingu Bjarka Friðbergssonar, vottaða 22. desember 2013, yfirlýsingu Hagbarðar Marinóssonar, vottaða 23. desember 2013, og yfirlýsingu Snorra Harðarsonar, einnig vottaða 23. desember 2013. Yfirlýsingarnar eru allar samhljóða og varða atvik á fundi sem haldinn var í Bolungarvík í september 2011. Af hálfu stefnda var lögð fram yfirlýsing Jakobs Valgeirs Flosasonar, f.h. Jakobs Valgeirs ehf., dagsett 13. október 2014, ásamt yfirlýsingu sama aðila, dagsettri 20. nóvember 2014, þar sem fyrri yfirlýsingin var leiðrétt. Af hálfu stefnda voru einnig lagðar fram yfirlýsingar eftirfarandi aðila, dagsettar 13. október 2014; Runólfs K. Péturssonar, f.h. Sigga Bjartar ehf., Jakobs Valgeirs Flosasonar, f.h. Völusteins ehf., og Guðmundar Einarssonar og Jóns Þorgeirs Einarssonar, f.h. Blakkness ehf. Í þeim yfirlýsingum sem stefndi lagði fram upplýsa viðkomandi um þær skiptaprósentur sem greitt var eftir hjá viðkomandi útgerðum áður en kjarasamningur tók gildi 2012. Þá lagði stefndi fram kjarasamning milli Völusteins ehf. og Ólafs Jens Daðasonar, Guðbjarna Karlssonar og Hjalta Þórs Þorkelssonar, dagsettan 1. desember 2009, og kjarasamning milli SSÍ, FFSÍ og VM annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar um kaup og kjör á smábátum, dagsettan 29. ágúst 2012. Loks lagði stefnandi fram tölvupóst frá Verðlagsstofu skiptaverðs, dagsettan 30. ágúst 2013, þar sem fram kemur að samkvæmt þeim uppgjörum sem verðlagsstofa hafi séð vegna smábáta sem lönduðu á markaði fyrir gildistöku kjarasamningsins 1. september 2012 hafi skiptahlutur verið á bilinu 7-12%

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda, Bæring Freyr Gunnarsson, aðilaskýrslur. Einnig gáfu skýrslu Snorri Harðarson, Einar Jón Snorrason, Hagbarður Marinósson, Svavar Geir Ævarsson, Jón Þorgeir Einarsson og Jakob Valgeir Flosason.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að stefndi skuldi honum umstefnda fjárhæð vegna vangoldinna launa á ráðningartímabili stefnanda hjá stefnda. Samið hafi verið um fastan 12% skiptahlut, að teknu tilliti til lögmætra frádráttarliða áður en til skipta kæmi, auk orlofs, og gekk stefnandi af þeim sökum út frá því að hlutur hans hjá stefnda væri ávallt 12% að viðbættu 10,17% orlofi hverju sinni.

Stefnandi byggir á þeirri almennu reglu vinnuréttar að það sé frumskylda vinnuveitanda að greiða starfsmönnum laun í samræmi við umsamin ráðningarkjör, sem í þessu tilviki hafi miðast við 12% skiptahlut auk orlofs. Komi þessi skylda skýrt fram í sjómannalögum nr. 35/1985. Sökum vanefndar stefnda á þessari samningsskyldu sinni beri honum að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð. Stefnandi bendir á að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda í samræmi við áskilnað 6. gr. sjómannalaga, en þar sé m.a. mælt fyrir um að útgerðarmaður skuli sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við skipverja sem skuli m.a. greina umsamið kaup. Skylda þessi sé óundanþæg. Í ljósi þess beri að túlka allan vafa, sem upp kemur vegna ráðningarsambands stefnanda við stefnda, stefnanda í hag og stefnda í óhag, samkvæmt skýrri dómvenju.

Stefnandi byggir einnig á þeirri staðreynd að 12% skiptahlutur hafi verið algengur skiptahlutur skipstjóra á svæðinu á því tímabili er stefnandi vann hjá stefnda. Auk þess hafi stefnandi fengið 12% hlut greiddan í maí 2010 og stefnandi hefði ekki ráðið sig á verri kjör en aðrir skipstjórar í sambærilegri stöðu og hann. Stefnandi bendir á að stefndi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að stefnandi hafi ekki verið ráðinn á 12% skiptahlut líkt og algengur skiptahlutur skipstjóra var á sambærilegum skipum í Bolungarvík á umræddu tímabili. Allan vafa hvað þetta varðar verði að túlka stefnda í óhag.

Þá bendir stefnandi á að á launaseðlum hans á umræddu tímabili megi glöggt ráða að kaup hans sé miðað við tiltekinn hlut af aflaverðmæti en ekki komi hins vegar fram hver hluturinn skyldi vera í prósentum talið. Í ljósi samkomulags aðila um 12% skiptahlut hafi stefnandi staðið í þeirri góðu trú að kaup hans væri reiknað út miðað við það, enda hafði hann enga ástæðu til annars en að ganga út frá því að stefndi stæði við gerðan ráðningarsamning. Af launaseðlunum verði heldur ekki ráðið hvert heildaraflaverðmæti var hverju sinni að teknu tilliti til lögmætra frádráttarliða áður en til skipta kom. Laun stefnanda hafi verið síbreytileg milli mánaða allan ráðningartímann og gekk hann út frá því að laun sín væru ávallt 12% eins og um var samið. Hann sem launamaður hafi mátt treysta því að það sem fram kom á launaseðli væri í samræmi við umsamin launakjör hverju sinni og byggir stefnandi á því að á honum hafi ekki hvílt sú skylda að sannreyna það í hvert skipti sem hann fékk útborgað.

Þá bendir stefnandi á að á árunum 2010 og 2011 var hafist handa við gerð kjarasamninga fyrir smábátasjómenn. Á þeim tíma ræddu smábátasjómenn sín á milli um kaup sín og kjör og hafi þeim sem voru á fundi í Sjómanna- og verkalýðsfélagi Bolungarvíkur í september 2011 verið ljóst að stefnandi taldi sig hafa verið ráðinn á 12% skiptahlut. Upplýsti hann fundarmenn um kaup sín og kjör til útskýringar á því hvers vegna hann teldi sig ekki geta lagt öðrum smábátasjómönnum lið í kjarabaráttu sinni. Ástæða þess að stefnandi taldi sig ekki geta lagt þeim lið var sú staðreynd að hann væri ráðinn á 12% skiptahlut og vildi ekki styggja yfirmann sinn. Framangreint renni stoðum undir þá málsástæðu stefnanda að hann hafi verið ráðinn á 12% skiptahlut.

Þá byggir stefnandi á því að þar sem hann hafði ekki fengið upplýsingar um þær forsendur sem lágu að baki skiptunum til þess að staðreyna skiptahlutinn hafi hann kallað eftir þeim upplýsingum frá stefnda í júlí 2013. Upplýsingarnar hafi hann fengið sendar með tölvupósti dagsettum 23. júlí 2013. Þá hafi stefnandi fyrst fengið vitneskju um grundvöll og undirliggjandi forsendur stefnda vegna launagreiðslna. Í kjölfar upplýsinga frá stefnda hafi stefnandi óskað eftir upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs til að sannreyna upplýsingarnar auk upplýsinga um aflaverðmæti Gunnars Leós frá Fiskmarkaði Suðurnesja til að sannreyna framangreint. Eftir að þær upplýsingar bárust í september 2013 kom í ljós að ákveðið ósamræmi virtist vera á milli uppgefins aflaverðmætis stefnda sem finna mátti í gögnum stefnda frá því í júlí 2013 og þeirra upplýsinga um aflaverðmæti sem aflað var frá Fiskmarkaði Suðurnesja. Eins kom í ljós að skiptahlutur var síbreytilegur á milli mánaða og ekki í samræmi við það sem um var samið.

Á grundvelli gagna frá stefnda og Fiskmarkaði Suðurnesja er skiptahlutur stefnanda reiknaður að teknu tilliti til lögmætra frádráttarliða. Auk þess er gerð krafa um 8% vangreitt mótframlag stefnda í lífeyrissjóð. Nánar tiltekið er krafan reiknuð á þann veg að 4% uppboðskostnaður er dreginn frá aflaverðmæti skipsins í hverjum mánuði fyrir sig. Skiptahluturinn er því fundinn með því að reikna 12% af raunaflaverðmæti að frádregnum uppboðskostnaði (0,12 x aflaverðmæti–uppboðskostnaður). Við skiptahlutinn er bætt 10,17% orlofi. Sú fjárhæð myndar stofn stefnufjárhæðarinnar að frádregnum þeim launum sem stefnandi fékk sannanlega greidd frá stefnda. Þar sem stefnandi byggir á því að sú fjárhæð samsvari vangreiddum launum hefur mótframlagi stefnda í lífeyrissjóð stefnanda hvað varðar þá fjárhæð ekki verið skilað. Er því einnig gerð krafa um vangreitt mótframlag í lífeyrissjóð.

Á hinu umstefnda tímabili frá 2008 til 2012 nam mismunur á milli greiddra launa og 12% skiptahlutar með orlofi samtals 24.976.157 krónum. Þá nam 8% mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð 1.998.092 krónum. Er heildarstefnukrafan því samtals 26.974.249 krónur. Þá lagði stefnandi fram yfirlit þar sem fram koma útreikningar hans á stefnukröfu, sundurliðaða eftir mánuðum.

Stefnandi leggur upplýsingar um aflaverðmæti skipsins frá Fiskmarkaði Suðurnesja til grundvallar útreikningi á stefnukröfu, að undanskildum einum mánuði, í maí 2010, þar sem stór hluti af aflanum í þeim mánuði voru hrogn sem seld voru til Jóns Ásbjörnssonar. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda voru hrognin seld fyrir 5.315.100 krónur. Heildaraflaverðmæti sem kom til skipta í maí 2010 var því 6.939.437 krónur þar sem annað aflaverðmæti nam 1.624.337 krónum. Reiknaður skiptahlutur útgerðarinnar þennan tiltekna mánuð til stefnanda nam um 12% án orlofs. Það var eini mánuðurinn á hinu umstefnda tímabili þar sem skiptahlutur var reiknaður rétt og í samræmi við umsamin ráðningarkjör.

Stefnandi hefur ekki upplýsingar um það hvers vegna skiptahlutur var síbreytilegur milli mánaða allan ráðningartímann. Stefnandi telur þó mögulegt að við uppgjör launa hafi stefndi dregið frá kostnað stefnda vegna kvótaleigu en slíkur kostnaður er alla jafna breytilegur milli mánaða og kann að skýra uppgjör stefnda. Þar sem slíkra gagna nýtur ekki við hefur stefnandi ekki getað staðreynt það. Komi í ljós að stefndi hafi dregið frá kvótaleigu er á því byggt að um ólögmætan frádráttarlið sé að ræða auk þess sem ekki var samið um að kostnaður vegna kvótaleigu yrði dreginn frá skiptahlut stefnanda. Beri stefnda að greiða stefnanda laun án þess að kostnaður vegna kvótaleigu komi til skerðingar á skiptahlut. Stefnandi bendir einnig á að gjalddagi launa hafi verið fyrirfram ákveðinn sem fyrsti hvers mánaðar og fái það stoð í framlögðum launaseðlum. Með vísan til þess byggist dráttarvaxtakrafan á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 með sérstakri tilvísun til 1. mgr. 6. gr. laganna.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins lagði stefnandi fram varakröfu að fjárhæð 19.116.768 krónur. Lagði stefnandi einnig fram yfirlit þar sem fram koma útreikningar hans á varakröfu. Við útreikning hennar er notuð sama aðferð og hvað varðar aðalkröfu en einnig er tekið tillit til fjarvista stefnanda, auk þess sem fallið er frá kröfu um 8% mótframlag stefnda í lífeyrissjóð stefnanda og miðað er við að uppboðskostnaður sé 5,69%.

Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á sjóveðrétti í skipinu Gunnari Leós ÍS-112 á 1. tl. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og langri og athugasemdalausri dómvenju þar að lútandi.

Stefnandi vísar, kröfu sinni til stuðnings, til almennra reglna vinnu- og sjóréttar, meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga er fá stoð í lögum nr. 50/2000 og samningalögum nr. 7/1936. Þá vísar hann til sjómannalaga nr. 35/1985 og siglingalaga nr. 34/1985 auk laga um orlof nr. 30/1987. Hvað varðar dráttarvexti vísar stefnandi til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þá sérstaklega 1. mgr. 6. gr. laganna. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um varnarþing vísast til 33. gr. sömu laga.

Í stefnu skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram gögn um kostnað af kvótaleigu vegna bátsins á ráðningartíma stefnanda. Þá skoraði hann á stefnda að leggja fram skriflegan ráðningarsamning stefnanda við stefnda eða önnur gögn sem mæla fyrir um hver ráðningarkjör stefnanda voru á ráðningartímanum. Einnig skoraði hann á stefnda að leggja fram sundurliðaða útreikninga launauppgjörs stefnanda á tímabilinu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi gerir aðallega kröfu um að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Stefndi telur að kröfur stefnanda eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Þau laun sem stefnandi fékk greidd meðan hann starfaði hjá stefnda á árunum 2007-2012 hafi í einu og öllu verið í samræmi við það sem um var samið milli málsaðila.

Þá vakti stefndi athygli á því í greinargerð að hann teldi að verulegur vafi sé á að málið sé tækt til efnismeðferðar fyrir dómi, eins og það er lagt upp af hálfu stefnanda. Framsetning málsins sé með þeim hætti að miklar þversagnir séu í málatilbúnaði stefnanda og verði ekki séð að dómkröfur hans séu í samræmi við þau gögn sem vísað er til af hans hálfu. Þannig virðist stefnandi byggja dómkröfur sínar á því að stefnandi eigi að fá hlutdeild af öllu heildaraflaverðmæti bátsins á tímabilinu 1. janúar 2008 til 30. apríl 2012, að undanskildum þremur mánuðum, þrátt fyrir að hafa ekki farið í allar veiðiferðir bátsins á þessu tímabili auk þess að hafa verið í launalausu leyfi. Engin skýring sé á því hvers vegna miðað sé við fastan 4% sölukostnað en hann sé misjafn á milli veiðiferða. Stefndi telur með hliðsjón af þessu að verulegur vafi leiki á því að hægt sé að leggja dóm á málið auk þess sem vafi sé á því að stefnan uppfylli þau skilyrði sem fram koma í e- til g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi stefnu í einkamáli og því hljóti að koma til greina að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Stefndi bendir á að í stefnu sé því haldið fram að stefnandi hafi samið um það við forsvarsmann stefnda, þegar hann réði sig til starfa, að hann fengi í sinn hlut 12% af aflaverðmæti bátsins hverju sinni auk orlofs og fullyrðir að algengur skiptahlutur á sambærilegum bátum í Bolungarvík á þessum tíma hafi verið 10% í hlut háseta og 12% í hlut skipstjóra. Stefnandi nefnir hins vegar engin dæmi þessu til staðfestingar. Telji stefndi að þessar fullyrðingar stefnanda séu rangar. Hið rétta sé að á árinu 2007, þegar stefndi var ráðinn, var samið um að hann fengi sambærileg launakjör og aðrir skipstjórar á sambærilegum bátum í Bolungarvík höfðu og var þá miðað við báta sem lönduðu afla á fiskmörkuðum. Við þetta hafi stefndi staðið. Varðandi kjör skipstjóra á sambærilegum bátum í Bolungarvík bendir stefndi á að Völusteinn ehf., sem hóf útgerð bátsins Hrólfs Einarssonar ÍS-255 í júlí 2009, samdi við áhöfnina um að skipstjóri bátsins fengi 8% af aflaverðmæti og háseti 6% og var orlof innifalið í þeirri prósentutölu. Hjá Blakksnesi ehf., sem gerði út bátinn Einar Hálfdáns ÍS-11 á þessum tíma, var svo um samið að skipstjóri bátsins fengi 7,7% í sinn hlut og háseti 6,3%. Siggi Bjartar ehf. gerði út bátinn Sigga Bjartar ÍS-50 og fékk skipstjóri þess báts 7,7% í sinn hlut og hásetinn 6,3%. Hjá útgerð Jakobs Valgeirs ehf. var skiptum þannig háttað að þegar aflinn var seldur til eigin útgerðar á svokölluðu „verðlagsstofuverði“ fékk skipstjórinn 10% í sinn hlut og hásetinn 8% en þegar afli var seldur á markaði voru skiptin þannig að skipstjóri fékk 7,7% og háseti 6,3%. Orlof var í öllum tilvikum innifalið í fyrrgreindum prósentutölum. Í ágúst 2012 var gerður kjarasamningur milli Landssambands smábátaeigenda, annars vegar, og Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna, hins vegar, og var þar kveðið á um að skipstjóri á þessum bátum fengi 8,92% með orlofi og háseti 5,95%. Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um að hann hafi einn skipstjóra í Bolungarvík átt að fá allt aðra og miklu hærri skiptaprósentu en aðrir skipstjórar á sambærilegum bátum, enda á hún ekki við nokkur rök að styðjast. Þá skori stefndi á stefnanda að leggja fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að algengur skiptahlutur á sambærilegum bátum í Bolungarvík hafi verið þannig að skipstjóri fengi 12% af aflaverðmæti og háseti 10%. Stefna málsins verði ekki skilin á annan veg en þann að stefnandi byggi málatilbúnað sinn m.a. á þessari órökstuddu fullyrðingu. Staðreyndin sé sú að aldrei hafi verið samið við stefnanda um að hann fengi 12% af aflaverðmæti heldur átti hann að fá sambærilegan hlut og viðgengst hjá öðrum útgerðum í Bolungarvík á sams konar eða sambærilegum bátum. Við þetta hafi stefndi staðið og ef eitthvað var hafi stefnandi fengið ívið hærra skiptahlutfall en almennt viðgekkst, þar sem fyrirliggjandi gögn sýni að stefnandi fékk að meðaltali 8,93% í sinn hlut af aflaverðmæti bátsins á árinu 2008 og 8,05% á árunum 2009–2012.

Til stuðnings kröfu sinni um 12% skiptahlut af aflaverðmæti bátsins vísar stefnandi m.a. til þess að hann hafi fengið 12% skiptahlut greiddan í maí 2010. Hið rétta sé að hann fékk í þessum mánuði að meðaltali 11,87% skiptahlut af aflaverðmæti bátsins en ástæða þess var sú að þá var báturinn m.a. á grásleppuveiðum og þá sé skiptahlutur skipverja, sem oft eru þrír, mun hærri, eða 12,33% með orlofi.

Þá bendir stefndi á að það eina sem stefnandi leggi fram til sönnunar því að hann hafi átt að fá 12% skiptahlut af aflaverðmæti séu yfirlýsingar þriggja einstaklinga um að þeir hafi heyrt stefnanda sjálfan hafa orð á því á fundi sjómanna í Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur í september 2011. Fráleitt sé að halda því fram að slíkar einhliða yfirlýsingar stefnanda á fundi hafi eitthvert sönnunargildi og hefði stefnandi getað nefnt hvaða skiptaprósentu sem er.

Stefndi segir það vera rétt sem stefnandi heldur fram í stefnu að ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur eins og skylt sé samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Dómafordæmi séu fyrir því að vinnuveitandi beri hallann af því að hafa ekki gert skriflegan ráðningarsamning ef ekki tekst að sanna hver hin umsömdu launakjör voru. Þegar lagt er mat á sönnun þess um hvaða kjör var samið við stefnda við upphaf ráðningar hans á árinu 2007 vegur hvað þyngst að mati stefnda þær upplýsingar sem tiltækar eru um hvað aðrir skipstjórar á sambærilegum bátum í Bolungarvík höfðu á þessum tíma. Engin ástæða er til að ætla eða halda því fram að stefnandi hafi átt að fá eitthvað allt annað og miklu meira en aðrir skipstjórar á sambærilegum bátum á þessum tíma. Þá skipti ekki síður miklu máli sú staðreynd að stefnandi gerði aldrei á starfstíma sínum athugasemd við laun sín þrátt fyrir að hann fengi launaseðil um hver mánaðamót þar sem laun hans fyrir næstliðinn mánuð voru tilgreind. Eins og sjá má af dómskjölum voru heildarlaun stefnanda hjá stefnda á tímabilinu 1. janúar 2008 til og með 30. apríl 2012, samtals 31.911.154 krónur. Samkvæmt stefnu telur stefnandi að laun hans á fyrrgreindu tímabili hafi verið vantalin um tæpar 27 milljónir króna og þannig hafi hann fengið rétt rúman helming þeirra launa sem honum bar að fá. Telur stefndi ósennilegt að stefnandi hefði látið hjá líða að gera athugasemdir við launin ef hann hefur einungis verið að fá greidd rúmlegan helming þeirra launa sem hann taldi sig hafa samið um. Slíkt hefði ekki getað farið framhjá stefnanda en hann gerði aldrei á starfstíma sínum hjá stefnda athugasemdir við launaútreikninga né kallaði hann eftir upplýsingum um aflaverðmæti bátsins. Gera verður ráð fyrir því að stefnandi, sem skipstjóri bátsins, hafi mátt gera sér grein fyrir því við lok hverrar veiðiferðar hvert aflaverðmæti bátsins hafi verið. Þrátt fyrir það kallaði stefnandi aldrei eftir upplýsingum um aflaverðmæti bátsins né gerði athugasemdir við launin.

Ef svo ólíklega vildi til að talið verði að stefnda hafi ekki tekist að sanna að umsamin laun stefnanda hafi verið í samræmi við það sem hann fékk greitt og að stefndi eigi að bera hallann af því að slík sönnun hafi ekki tekist, telur stefndi engu að síður að sýkna eigi hann af öllum kröfum stefnanda í málinu vegna tómlætis og aðgerðarleysis stefnanda. Það sé með slíkum ólíkindum að ekki verði annað séð en að meint krafa stefnanda sé niður fallin af þeim sökum. Gera verður þá kröfu til þess sem telur sig vanhaldinn í launum að hann geri án tafar athugasemdir. Slíku var ekki fyrir að fara í tilviki stefnanda heldur móttók stefnandi launin og launauppgjör í fimm ár án þess að gera nokkurn tímann athugasemdir við launin eða mánaðarleg launauppgjör. Tómlæti og aðgerðarleysi stefnanda sé með ólíkindum, ekki síst þegar það er haft í huga að hann var skipstjóri bátsins og var fullkunnugt um afla eftir hverja veiðiferð og aflaverðmæti. Mikilvægt sé einnig að hafa í huga að stefnandi er að tala um tæpan helming þeirra launa sem hann taldi sig eiga rétt á. Fjölmörg dómafordæmi séu fyrir því að slíkt tómlæti og aðgæsluleysi til margra ára valdi því að meint krafa falli niður af þeim sökum. Stefnandi gerði engan reka að því að gera stefnda viðvart um tilvist hinnar meintu kröfu fyrr en í júlí 2013, tæpum sex árum eftir að hann hóf störf hjá stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði sjóveð fyrir kröfum stefnanda í bátnum Gunnari Leós ÍS-112. Stefnandi vísar í stefnu til 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 þessari kröfu til stuðnings svo og til langrar og athugasemdalausrar dómvenju á þessu sviði. Þessi krafa á sér hins vegar ekki lagastoð og vísar stefndi í því sambandi til 201. gr. siglingalaga þar sem fram kemur að sjóveðréttur fyrnist ef honum er ekki fylgt eftir með lögsókn innan eins árs frá því að krafan stofnaðist. Mál þetta var höfðað í júní 2014 en þá var löngu liðinn sá ársfrestur sem kveðið er á um í fyrrgreindri 201. gr. siglingalaga og því er mögulegur sjóveðréttur löngu fyrndur.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu krefst hann þess til vara að krafa stefnanda verði verulega lækkuð. Stefndi bendir fyrir það fyrsta á að stór hluti þeirrar kröfu sem sett er fram af hálfu stefnanda í málinu sé fyrndur. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda og í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að fyrningarfrestur krafna sem stofnast vegna vanefnda reiknast frá þeim degi sem samningurinn var vanefndur. Samkvæmt 15. gr. laganna verður fyrningu slitið með málssókn kröfuhafans á hendur skuldara til að fá dóm fyrir kröfunni eða þegar krafist er skuldajafnaðar fyrir dómi. Dómkrafa stefnanda miðist við að krafa hans hafi fallið í gjalddaga miðað við hver mánaðamót, þ.e. við útborgun launa í lok hvers mánaðar. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að krafa stefnanda um vangoldin laun sem féll í gjalddaga frá 1. janúar 2008 til og með 1. júní 2010 sé fyrnd, því að fyrningu var ekki slitið fyrr en með málsókn stefnanda þegar stefna var birt stefnda 3. júní s.l. Ekki verður séð að stefnandi geti byggt á viðbótarfrestum 10. gr. laga nr. 150/2007, það er að hann hafi skort nauðsynlega vitneskju um kröfuna, þar sem upplýsingar um aflaverðmæti bátsins Gunnars Leós ÍS-112 hafi legið fyrir og hafi stefnanda verið í lófa lagið að óska eftir slíkum upplýsingum við lok hverrar veiðiferðar ef því væri að skipta.

Þá vísar stefndi til þess að sölukostnaður vegna afla bátsins á árunum 2008-2012 hafi ekki verið 4% eins og miðað er við í dómkröfum stefnanda. Stefndi sendi lögmanni stefnanda upplýsingar um sölukostnað á árunum 2009-2012, en stefnandi kaus að horfa framhjá þessum upplýsingum. Hefðbundið sé að fastur sölukostnaður til fiskmarkaða sé 3% af aflaverðmæti, en því til viðbótar koma ýmis önnur viðbótargjöld tengd sölu aflans sem einnig koma til frádráttar aflaverðmæti, s.s. móttöku- og vigtargjald, bryggjuþjónusta, íssala og kostnaður vegna slægingar, sem t.d. fellur alltaf til þegar um er að ræða steinbít. Fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að sölukostnaður aflans á árunum 2008–2012 hafi að meðaltali verið 5,69% af aflaverðmæti. Kostnaður sé misjafn milli einstakra veiðiferða og því fráleitt að miða við 4% jafnan sölukostnað. Krafa um lækkun á dómkröfum byggist þannig m.a. á því að eðlilegt sé að byggt verði á raunkostnaði varðandi sölukostnað aflans.

Þá bendir stefndi á að dómkröfur stefnanda miðist við að hann hafi farið í allar veiðiferðir bátsins frá því í janúar 2008 til loka apríl 2012, að undanskildum þremur mánuðum, þ.e. ágúst 2008, júlí 2010 og júlí 2011. Ekkert tillit sé tekið til frítöku stefnanda þrátt fyrir að það liggi fyrir og sé óumdeilt að stefnandi fór ekki í allar veiðiferðir bátsins á fyrrgreindu tímabili. Látið er líta svo út sem hann hafi aldrei tekið sér frí eða launalaust leyfi í þessi rúm fjögur ár. Stefndi hefur lagt fram upplýsingar um frítöku stefnanda á fyrrgreindu tímabili og er fráleitt að stefnandi geti gert kröfu um laun vegna þeirra veiðiferða sem hann er ekki um borð vegna frítöku sinnar. Brúttóaflaverðmætið vegna þessara veiðiferða eru rúmar 40 milljónir króna. Gerir stefndi kröfu um lækkun vegna aflaverðmætis í þeim veiðiferðum sem farnar voru á fyrrgreindu tímabili meðan stefnandi var í launalausu leyfi.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu á 8% mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Stefnandi geti ekki átt aðild að slíkri kröfu, einungis viðkomandi lífeyrissjóður ef því er að skipta. Annað kann mögulega að eiga við varðandi töpuð lífeyrisréttindi, verði talið að laun stefnanda hafi að einhverju leyti verið vangreidd. Þá þyrfti stefnandi að láta reikna út töpuð lífeyrisréttindi miðað við þau laun sem hann telur vangreidd en það hafi hann ekki gert.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og vísar m.a. til þess að hluti vaxtakröfu stefnanda sé fyrndur þar sem vextir fyrnist á fjórum árum, sbr. lög nr. 150/2007. Þá bendir stefndi á að krafa stefnanda hafi í raun fyrst legið fyrir við þingfestingu málsins í héraði. Ljóst sé að stefnandi geti aldrei krafist dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi frá þingfestingu málsins.

Loks gerir stefndi í aðal- og varakröfu sinni kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda og byggir kröfu sína á ákvæðum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Varðandi lagarök þá vísar stefndi m.a. til ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985, m.a. til 6., 27. og 32. laganna. Þá vísar hann til 197. og 201. gr. siglingalaga nr. 34/1985 svo og til ákvæða laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum til 2., 3., 10. og 15. gr. laganna. Þá vísar stefndi einnig til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum til III. kafla laganna og ólögfestra meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og um efndir loforða. Loks er vísað til almennra reglna kröfuréttarins um réttaráhrif tómlætis og aðgerðarleysis af hálfu kröfueiganda.

Forsendur og niðurstaða

                Stefnandi byggir málsókn sín á því að stefndi hafi vangreitt honum laun á tímabilinu 2008 til 2012 þegar hann starfaði sem skipstjóri á bát stefnda, Gunnari Leós ÍS-112. Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda en til vara að þær verði stórlega lækkaðar.

Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi fram varakröfu ásamt útreikningum hennar og er ekki tölulegur ágreiningur milli aðila um þá kröfu. Lýsti lögmaður stefnda því yfir í málflutningi að eftir að stefnandi setti varakröfuna fram byggi stefndi ekki lengur á því að málatilbúnaði stefnanda sé svo ábótavant að frávísun varði.

Ágreiningur aðila varðar það hver laun stefnanda hafi átt að vera. Stefnandi byggir kröfu sína á því að samið hafi verið um að laun miðuðust við 12% af aflaverðmæti að teknu tilliti til lögmætra frádráttarliða, auk orlofs. Styður hann kröfu sína þeim rökum að 12% skiptahlutur hafi verið algengur á sambærilegum bátum í Bolungarvík á þessum tíma. Þá byggir hann kröfu sína á því að hluturinn hafi verið sá sami allan ráðningartímann. Stefndi byggir hins vegar á því að samið hafi verið um að stefnandi hefði sambærileg laun og tíðkuðust á sambærilegum bátum í Bolungarvík á þessum tíma sem hafi verið 7,7 til 8%.

Óumdeilt er að stefnandi var við störf hjá stefnda sem skipstjóri á Gunnari Leós ÍS-112 frá því haustið 2007 þar til á árinu 2012 og að á þeim tíma var ekki í gildi kjarasamningur sem náði til stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 skal útgerðarmaður sjá um að gerðir séu skriflegir ráðningarsamningar við skipverja og skal þar m.a. kveðið á um umsamið kaup. Í 42. gr. laganna er þetta áréttað hvað varðar skipstjóra og sérstaklega kveðið á um að þar skuli tilgreina ráðningarkjör hans. Einnig er óumdeilt að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda vegna starfa hans hjá stefnda í umrætt sinn. Í samræmi við dómafordæmi verður stefndi því að bera hallann af sönnunarskorti varðandi það um hvaða kjör samið var á milli málsaðila.

Framburður stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi var samhljóða að því leyti að þeir sögðu báðir að þeir hafi rætt saman haustið 2007 þegar stefnandi var ráðinn í starfið og þá rætt um launakjör. Sagði stefnandi að þau hafi verið ákveðin í samræmi við kjör annarra á sambærilegum bátum í Bolungarvík á þessum tíma, 12% af aflaverðmæti auk orlofs. Fyrirsvarsmaður stefnda sagði hins vegar að einungis hafi verið rætt um að stefnandi fengi sömu laun og aðrir sem þá voru í sömu stöðu á sambærilegum bátum sem væru að veiða á línu, í Bolungarvík, en ekki hafi verið rætt um prósentutölu. Þá bera framlagðir launaseðlar stefnanda ekki með sér við hvaða prósentutölu var miðað og af þeim útreikningum sem stefnandi hefur lagt fram má ráða að ekki hafi alltaf verið miðað við sömu prósentutöluna. Fyrirsvarsmaður stefnda gat litlar skýringar gefið á því fyrir dómi hvernig laun stefnanda voru reiknuð út og vísaði á Jón Þorgeir Einarsson endurskoðanda sem sá um launaútreikninga fyrir stefnda. Hann kvaðst hafa gefið Jóni Þorgeiri þau fyrirmæli að stefnandi hafi átt að fá sambærileg laun og aðrir á sambærilegum bátum en ekki nefnt skiptaprósentu við hann.

Í fyrirliggjandi yfirlýsingum vitnanna Hagbarðar Marinóssonar og Snorra Harðarsonar, auk yfirlýsingar Bjarka Friðbergssonar, sem allar eru orðrétt samhljóða, kemur fram að þeir hafi verið á fundi í Bolungarvík í byrjun september 2011 þar sem m.a. hafi verið rætt um nýja samninga útgerðarmanna við smábátasjómenn. Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Á fundinum varð ég vitni að því er [stefnandi] upplýsti um að hann gæti ekki samþykkt samninginn þar sem hann hafi verið ráðinn á 12% skiptahlut á Gunnari Leós og fyrirhuguð drög að samningi kváðu á um lakari skiptahlut.“ Stefnandi styður kröfu sína við framangreindar yfirlýsingar en vitnin Hagbarður og Snorri staðfestu sínar yfirlýsingar fyrir dómi. Hagbarður sagði fundinn hafa verið haldinn í tilefni að fyrirhuguðum kjarasamningum. Kvaðst hann minnast þess að stefnandi hafi sagt að hann ætlaði ekki að vera með og að hann væri með 12% skiptahlut en samningurinn hefði verið miklu lægri. Þá sagði vitnið að árið 2007, og fyrir þann tíma, hafi algengur hlutur skipstjóra verið 12% og hlutur háseta 10%. Taldi vitnið að seint á árinu 2008 eða árið 2009 hafi hlutur verið lækkaður í 10% og 8%. Á fundinum 2011 hafi líklega verið talað um að lækka hlutina í 8% og 6%. Þá kvaðst hann aldrei hafa heyrt um að greiddur væri síbreytilegur hlutur á milli mánaða og taldi að venjulega hefðu hlutir verið lækkaðir einhliða af útgerð. Vitnið Einar Jón Snorrason kvaðst hafa verið á Gunnari Leós árið 2007 og þá hafi honum verið sagt að háseti væri með 10% en skipstjóri 12% og hafi þetta verið þeir skiptahlutir sem þá voru greiddir í Bolungarvík. Stefnandi byggir á framangreindum framburði Hagbarðar, Snorra og Einars. Einnig byggir hann á framburði Svavars Geirs Ævarssonar, sem þá var háseti á Gunnari Leós og leysti stefnanda af sem skipstjóri, en hann sagði að hlutur skipstjóra hafi árið 2007 verið 12% og háseta 10% og sem sé það sama og var þá á öðrum bátum frá Bolungarvík. Árið 2007 hafi hann verið nýhættur á Sirrý og þar hafi verið sama prósentutala. Hann kvaðst hafa farið í plássið út af þessum hlut og hafi fyrirsvarsmaður stefnanda talað um að hluturinn væri sá sami og á hinum bátunum. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur og hluturinn hafi ekki átt að lækka. Aðspurður sagði hann að þeir hefðu getað séð hvert verðmæti aflans var þegar þeir vildu.

Þá byggir stefnandi á framlögðum launaseðlum vitnisins Snorra ásamt sundurliðun á aflaverðmæti vegna apríl 2008, janúar 2009 og júlí 2009. Samkvæmt þessum launaseðlum var skiptahlutur 10% og 12% í apríl 2008 en 8% og 10% í janúar 2009 og júlí 2009. Vitnið kvaðst hafa ýmist verið skipstjóri eða háseti á þessum tíma og hafi skiptahlutur þá farið lækkandi frá því að hafa verið 12% fyrir skipstjóra 2007. Nýir samningar hafi verið gerðir við sjómenn þegar hlutirnir voru lækkaðir. Loks byggir stefnandi á yfirlýsingu Verðlagsstofu skiptaverðs í framlögðum tölvupósti, dagsettum 30. ágúst 2013, þar sem fram kemur að skiptakjör hafi áður en kjarasamningurinn tók gildi, 1. september 2012, rokkað frá 7% upp í 12% af aflaverðmæti.

Vitnið Jón Þorgeir sá um útreikning launa fyrir stefnda á því tímabili sem hér er deilt um. Hann kvaðst fyrir dómi hafa fengið sín fyrirmæli um útreikning launa frá fyrirsvarsmanni stefnda og hafi skiptahlutur átt að vera sá sami og á öðrum bátum en hann hafi einnig séð um útreikning launa fyrir fleiri útgerðir. Sami háttur hafi verið hafður á við útreikning launa hjá öllum sem seldu afla á markaði. Hlutur stefnanda á árinu 2008 hafi líklega verið 8% en á einhverju tímabili lækkað í 7,7%, í báðum tilfellum með orlofi. Frá skiptahlut hafi verið dregin sölukostnaður, umboðslaun sem yfirleitt voru 3% af aflaverðmæti, þjónustugjöld, móttökugjöld og slæging.

Þá lagði stefndi fram tvo kjarasamninga þar sem samið var um lægri skiptaprósentu en 12%, og yfirlýsingar Jakobs Valgeirs Flosasonar, f.h. Völusteins ehf. og Jakobs Valgeirs ehf., Guðmundar Einarssonar og Jóns Þorgeirs Einarssonar, f.h. Blakkness ehf., og Runólfs K. Péturssonar, f.h. Sigga Bjartar ehf. Jón Þorgeir og Jakob Valgeir staðfestu yfirlýsingar sínar við aðalmeðferð málsins. Einnig kom fram hjá Jakobi Valgeiri að áður hefði hlutur skipstjóra verið 12% en mundi ekki hvenær. Hluturinn hafi farið lækkandi og m.a. verið 10% árið 2011 en hlutur hefði almennt verði hærri hjá honum þar sem hann hafi greitt eftir verðlagsstofuverði. Í öllum framangreindum yfirlýsingum var því haldið fram að almennt hafi skiptahlutur verið lægri en haldið er fram af hálfu stefnanda en engri þeirra var tilgreindur sá skiptahlutur sem var við líði árið 2007 og í ársbyrjun 2008. Þá voru framangreindir kjarasamningar gerðir 2009 og 2012.

Eins og rakið hefur verið ber stefndi sönnunarbyrði um það hvert efni ráðningarsamnings stefnanda hafi verið þar sem vanrækt var að gera skriflegan samning. Framangreind gögn sem lögð hafa verið fram af hálfu stefnanda styðja málatilbúnað hans um að miða hafi átt við 12% af aflaverðmæti. Þau gögn sem stefndi byggir á ná ekki aftur til ársins 2007 þegar stefnandi var ráðinn í starfið. Þá telur dómurinn að framburður Jóns Þorgeirs hafi ekkert gildi til sönnunar á því um hvað var samið milli stefnanda og stefnda en fyrir liggur, samkvæmt framburði hans, að hann byggði útreikning launa á upplýsingum frá fyrirsvarsmanni stefnda. Með vísan til framangreinds telur dómurinn því að stefndi hafi á engan hátt fært fram gögn því til sönnunar að samið hafi verið við stefnanda um annan skiptahlut en stefnandi heldur fram og hefur fært fram rök fyrir. Er það því niðurstaða dómsins að stefndi hafi ekki hnekkt staðhæfingu stefnanda um að samið hafi verið um 12% skiptahlut.

                Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum á árinu 2012, hann hætti störfum í ágúst það ár og fékk greidd laun í uppsagnarfresti, til loka október 2012. Stefna málsins var birt fyrir stefnda 3. júní 2014 og málið þingfest 18. júní 2014. Í stefnu er á því byggt að stefnandi hafi nokkru eftir að honum var sagt upp störfum ákveðið að sannreyna hvort greidd laun hafi verið í samræmi við það sem um var samið. Hafi hann fyrst reynt að fá upplýsingar frá fiskmarkaði um aflaverðmæti á því tímabili sem hann var við störf hjá stefnda. Þau gögn hafi hann hins vegar ekki fengið fyrr en í júlí 2013 og þá frá stefnda. Byggir stefnandi málatilbúnað sinn á því að krafa hans hafi stofnast þá. Það var fyrst með bréfi dagsettu 24. október 2013 sem stefnandi krafði stefnda um vangoldin laun. Þá var liðið rúmlega ár frá því að stefnandi hætti störfum, um sex ár frá því að hann hóf störf hjá stefnda og tæp sex ár síðan honum voru greidd elstu launin sem hann telur vangreidd. Stefnandi sagði fyrir dómi að hann hafi fyrst kvartað undan launum og skiptaprósentu við vitnið Jón Þorgeir og hafi það verið gert munnlega, líklega 2011. Vitnið Jón Þorgeir kvaðst fyrir dómi kannast við að hafa rætt við stefnanda vegna launa hans á meðan hann starfaði hjá stefnda en sagði hann aldrei hafa gert athugasemd við skiptaprósentu. Þá liggur ekkert fyrir um að stefnandi hafi gert fyrirvara við launaútreikninga. Með vísan til framangreinds verður að telja ósannað að stefnandi hafi gert athugasemd við fjárhæð launa fyrr en í október 2013. Á launaseðlum stefnanda kom fram fjárhæð launa og orlof, sem greitt var ofan á laun, en ekki komu þar fram nánari upplýsingar um það hver skiptahlutur væri, aflaverðmæti, eða hvaða kostnaður væri dreginn frá söluverði aflans við útreikning skiptahlutar. Jafnvel þótt telja megi að launaseðlar hafi samkvæmt þessu gefið takmarkaðar upplýsingar var það einnig tilefni fyrir stefnanda til að kanna grundvöll uppgjörsins strax í upphafi starfssambandsins eftir að honum fóru að berast launaseðlar. Gat hann ekki látið það vera átölulaust hvernig staðið var að uppgjöri. Verður ekki á það fallist að eitthvað sé fram komið sem réttlætir þann drátt sem varð á því að stefnandi hæfist handa við að kanna hvort launin hafi verið í samræmi við það sem um var samið þar til eftir að hann hætti störfum hjá stefnda eða að sá dráttur réttlætist af því að erfitt hafi reynst að fá aðgang að gögnum. Er því fallist á þá málsvörn stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti með því að gera ekki fyrr reka að því að halda fram ætlaðri kröfu sinni. Þegar af þeirri ástæðu er það niðurstaða dómsins að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Páll Vignisson hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Björn Jóhannesson hrl.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Fiskihóll ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sveinbjörns Ragnarssonar.

Málskostnaður fellur niður.