Hæstiréttur íslands
Mál nr. 525/2006
Lykilorð
- Fasteign
- Eignarréttur
|
|
Fimmtudaginn 24. maí 2007. |
|
Nr. 525/2006. |
Sævar Helgason(Brynjar Níelsson hrl.) gegn Sigurdísi Sigurðardóttur (Ása Ólafsdóttir hrl.) og gagnsök |
Fasteign. Eignarréttur.
SH og SS deildu um eignarhald á skemmu sem reist var á árunum 1985 til 1986 á jörð sem SS erfði í Grímsneshreppi. Þau voru í hjúskap sem lauk 1983 og síðar sambúð með hléum um árabil. Efnið í skemmuna var hús við Sigöldu sem SH keypti af Landsvirkjun og flutti á áðurnefnda jörð. SH reist skemmuna ásamt sonum sínum og SS. SS var þinglýstur eigandi jarðarinnar og mannvirkja á henni, þar á meðal skemmunnar. Í dóminum var meðal annars litið til þess að á skattframtali SS 1986 kæmi fram að hún hefði keypt skemmuna af SH á 500.000 krónur og að gögn málsins sýndu að hún hefði greitt af henni skatta og skyldur. Þá lágu frammi í málinu kvittanir um millifærslur á árinu 1985 frá SS til SH að fjárhæð 476.000 krónur sem SH kvittaði fyrir móttöku á. SH hafði aldrei talið skemmuna til eigna sinna á skattframtölum né greitt af henni skatta og skyldur. Loks höfðu aðilar gert samkomulag árið 2003 um afnot SH af skemmunni en jafnframt kom þar fram að SH gerði ekki kröfur til neinna eigna sem skráðar væru á nafn SS. Var krafa SS um viðurkenningu á eignarrétti að skemmunni því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 4. ágúst 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 20. september 2006 og var áfrýjað öðru sinni 5. október sama ár. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2006. Hún krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi í tvennu lagi með þeim hætti að taka í beinni ræðu upp lýsingar aðila á málavöxtum, annars vegar úr stefnu og hins vegar úr greinargerð í héraði. Þetta er ekki í samræmi við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er aðfinnsluvert.
Ágreiningslaust er að hin umdeilda skemma var reist á árunum 1985 til 1986. Á skattframtali gagnáfrýjanda 1986 kemur fram að hún hafi keypt skemmuna af aðaláfrýjanda á 500.000 krónur og gögn málsins sýna að hún hefur greitt af henni skatta og skyldur. Þá liggja frammi í málinu tvær kvittanir um millifærslur frá gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda að fjárhæð samtals 476.000 krónur sem aðaláfrýjandi kvittaði fyrir móttöku á í maí og júlí 1985. Aðaláfrýjandi hefur viðurkennt að hafa hvorki talið skemmuna til eigna sinna á skattframtölum né greitt af henni skatta og skyldur. Að þessum gögnum virtum ber aðaláfrýjandi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu að hann hafi ekki tekið á móti þessum greiðslum vegna skemmunnar. Honum hefur ekki tekist þessi sönnun. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Eftir þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi Sævar Helgason greiði gagnáfrýjanda Sigurdísi Sigurðardóttur samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. maí 2006.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 18. febrúar 2005.
Stefnandi er Sigurdís Sigurðardóttir, kt. 161143-3759, til heimilis að Þórisstöðum 1, Grímsnesi.
Stefndi er Sævar Helgason, kt. 140946-4359, Flétturima 20, Reykjavík, en með dvalarstað að Þórisstöðum I, Grímsnesi.
Dómkröfur stefnanda eru að staðfestur verði eignarréttur stefnanda að véla- og verkfærageymslu með fasteignamatsnúmeri 8719-02-00092001-220-7185, sem stendur á landi hennar Þórisstöðum I, Grímsnes- og Grafningshreppi. Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málsatvik og málsástæður stefnanda
Stefnandi og stefndi hafa um árabil átt stormasamt samband. Þau fengu leyfi Yfirborgardómarans í Reykjavík til skilnaðar að borði og sæng þann 31. október 1974. Þau eiga saman fimm börn og því hafa samskipti milli þeirra verið nokkur frá hjúskaparslitunum. Frá árinu 1974 hafa aðilar ekki búið saman. Upplýsingar frá Hagstofu Íslands (dskj. nr. 55) eru því ekki réttar að öllu leyti. Eftir 1974 bjuggu aðilar ekki saman en stefndi, sem þá bjó með annarri konu, flutti lögheimili stefnanda og barnanna, án hennar vitneskju, að Hólmgarði 56, þar sem foreldrar hans búa 1975 til 1976.
Frá 15. júlí 1976 hafa þau samt ekki átt saman lögheimili skv. þjóðskrá. Árið 1979 flutti stefnandi að Þórisstöðum I í Grímsnesi, þar sem fósturforeldrar hennar bjuggu. Stefndi fór á eftir stefnanda að Þórisstöðum I og settist þar að, um tíma árið 1980.
Þann 18. júlí 1983 gaf dómsmálaráðherra út leyfi til lögskilnaðar milli aðila.
Þrátt fyrir skilnað aðila þá hefur stefndi stundum dvalið, mislengi í senn, að Þórisstöðum I.
Þann 10. október 1983, var hús, sem þá stóð við Sigöldu keypt af Landsvirkjun. Húsið var keypt til brottflutnings og hafði stefndi milligöngu um kaupin, fyrir stefnanda, en landeigandi að Þórisstöðum I, fósturfaðir stefnanda, fjármagnaði kaupin. Áður en húsið var keypt var stefnda gerð rækilega grein fyrir því að allar framkvæmdir að Þórisstöðum I væru og yrðu eign stefnanda. Það var m.a. gert fyrir milligöngu lögmanns, þess sama og gerði erfðaskrá fyrir fósturforeldra stefnanda. Það var einnig gert fyrir milligöngu fulltrúa sýslumannsins á Selfossi.
Á þessum tíma og næstu árin á eftir vann stefndi hjá stefnanda og fósturföður hennar og hlaut peningagreiðslur þar fyrir. Synir stefnanda og stefnda, fóru ásamt stefnda að Sigöldu til þess að rífa húsið, sem keypt hafði verið og var byggingarefni, sem til féll úr húsinu, flutt að Þórisstöðum I í Grímsnesi.
Þann 20. apríl 1985 fjallaði bygginganefnd Grímsneshrepps um umsókn stefnanda að byggingu véla- og verkfærageymslu að Þórisstöðum I og var umsóknin þá samþykkt á grundvelli framlagðra teikninga stefnanda. Véla- og verkfæraskemma var síðan reist að Þórisstöðum I í framhaldi af því. M.a. vann stefndi við það, ásamt sonum aðila og fékk greitt fyrir þá vinnu. Efni úr húsinu frá Sigöldu var, að hluta til, notað í bygginguna ásamt öðru. Hluti hússins frá Sigöldu var seldur annað og því ekki nýttur að Þórisstöðum I. Véla- og verkfæraskemman fór í fasteignamat þann 7. maí 1986.
Á skattframtali árið 1986 taldi stefnandi umrædda skemmu fram til skatts, sem sína eign, fasteignamat skemmunnar það ár nam kr. 500.000.-. Í greinargerð um eignabreytingar á skattframtalinu eru taldar upp eignir, sem stefnandi hafði keypt af stefnda, þar segir m.a. „keypti jafnframt skemmu af sama aðila fyrir kr. 500.000. Afsal fór fram 24/2 1985” .
Fósturfaðir stefnanda, Ingvar Þorkelsson, ábúandi og eigandi að Þórisstöðum I, andaðist þann 24. janúar 1986. Eftir hans dag varð stefnandi eigandi að Þórisstöðum I, skv. erfðaskrá og skyldi eignin vera séreign Sigurdísar. Upp frá því hefur stefnandi verið skráð eigandi að Þórisstöðum I, ásamt öllum þeim eignum sem þar eru. Skráningin hefur verið slík bæði í veðmálabókum og fasteignamati. Þá hefur stefnandi frá árinu 1986 talið umrædda véla- og verkfæraskemmu fram sem sína eign til skatts. Jafnframt hefur eignin alltaf verið tryggð á nafni stefnanda. Á skattframtali 1987 er skemman talin fram og segir þar „skemma í smíðum”. Fasteignamat skemmunnar það ár nam kr. 681.533.
Þann 6. júlí 1987 greiddi stefnandi m.a. reikning frá Byggingastofnun ríkisins, að fjárhæð kr. 14.700, um var að ræða greiðslu fyrir afnotarétt af teikningu BL-855277, aðalteikningu og burðarvirkisteikningu, vegna umræddrar skemmu og minkaeldishúss við hliðina.
Þann 29. október 1988 var fasteignamati ríkisins og byggingafulltrúa uppsveita Árnessýslu tilkynnt um nýjar og breyttar fasteignir að Þórisstöðum I, þar sem fram kemur að stefnandi er tilkynntur eigandi að 246,9 m² skemmu, og 391,5 m² minkaeldishúsi að Þórisstöðum I.
Stefndi hefur frá því aðilar slitu hjúskap sínum haft lögheimili í Reykjavík, a.m.k. síðustu ár að Hólmgarði 56. Hann hefur ekki dvalið með neinni reglu að Þórisstöðum I, þó hefur hann komið þangað og stundum ílengst þar í einhvern tíma. Hann hefur komið og farið eftir því sem honum hentaði, þangað til árið 1991 þegar stefnanda var nóg boðið og rak stefnda brott frá Þórisstöðum I. Frá þeim tíma kom stefnandi einungis í stuttar heimsóknir að Þórisstöðum I, m.a. til þess að heimsækja sameiginleg börn aðila. Stefndi dvaldi þó aldrei yfir nótt að Þórisstöðum I.
Það mun hafa verið í október eða nóvember 2000, sem stefndi kom að Þórisstöðum I, í því skyni að hjálpa þar til við að koma upp bílskúr fyrir stefnanda.
Árið 2001 samþykkti stefnandi að stefndi fengi afnot af hluta skemmunnar og var gerður skriflegur samningur um afnotin milli aðila þann 3. febrúar 2003.
Fljótlega fór að bera á því að stefndi stóð ekki við skyldur sínar skv. nefndu samkomulagi og með bréfi lögmanns stefnanda dags. 25. september 2003 var skorað á stefnda að bæta þar úr. Í bréfinu var stefnda einnig tilkynnt um uppsögn samkomulagsins. Stefndi hefur farið fram með yfirgangi að Þórisstöðum I.
Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 27. október 2003 var stefnda tilkynnt um riftun samkomulags aðila frá 3. febrúar s.á., á grundvelli vanefnda stefnda.
Lögmaður stefnda sendi lögmanni stefnanda bréf dags. 10. nóvember 2003, þar sem riftuninni var mótmælt.
Þann 3. desember 2003 lagði lögmaður stefnanda fram beiðni í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi um útburð stefnda, úr véla- og verkfæraskemmunni. Héraðsdómur Suðurlands hafnaði útburðarkröfu stefnanda og byggði niðurstaða dómsins á því að málsaðilar hefðu verið í sambúð með hléum frá árinu 1976 en henni hefði lokið endanlega árið 2002. (skv. staðf. frá Hagstofu Íslands dags. 18/11/2003 hafa aðilar ekki átt sameiginlegt lögheimili frá 15/ 1976) Aðilar hafa þó ekki búið saman frá árinu 1974. Þá segir dómurinn að ekki verði skorið úr ágreiningi um eignarrétt að umræddri skemmu með þeirri sönnunarfærslu sem heimiluð er í 78. gr., sbr. 3. mgr. 83. gr. l. nr. 90/1989.
Stefnandi hefur ítrekað reynt að fá stefnda til þess að yfirgefa Þórisstaði I og láta af notkun umræddrar skemmu. Stefndi hefur hins vegar sótt í sig veðrið og virðist hafa ranghugmyndir um rétt sinn til dvalar í véla- og verkfæraskemmu að Þórisstöðum I. Hann hefur m.a. búið um sig í skemmunni og dvelur þar nú, nokkuð að staðaldri, þrátt fyrir að húsnæðið sé engan veginn íbúðarhæft. Búseta hans þar verður ekki liðin.
Þá hefur stefndi bakað stefnanda talsvert fjárhagslegt tjón, þar sem hann hefur hindrað aðgang hennar að húsakynnunum og þá einnig að þeim hluta eignarinnar sem stefndi hefur aldrei haft til afnota, en stefnandi hafði nokkrar tekjur af útleigu skemmunnar. Það hefur hún hins vegar ekki getað gert frá árinu 2002, vegna yfirgangs stefnda.
Stefndi hefur í engu sinnt áskorunum stefnanda um að yfirgefa Þórisstaði I og eru sættir með aðilum útilokaðar.
Með vísan til úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands frá 7. apríl 2004 í málinu nr. A-29/2003 er stefnanda nauðsyn á að fá staðfestingu fyrir eignarrétti sínum að véla- og verkfærageymslu með fasteignamatsnúmer 8719-02-00092001-220-7185, sem stefndur á jörð hennar Þórisstöðum I í Grímsnes- og Grafningshreppi. Málsókn þessi er því nauðsynleg.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að véla- og verkfærageymsla, sem hér um ræðir sem hefur fasteignamatsnúmer 8719-02-00092001-220-7185, og stendur á landi hennar Þórisstöðum I í Grímsnes- og Grafningshreppi, hafi frá því hún var byggð verið undirorpin beinum eignarrétti hennar. Þó svo að hluti af því byggingarefni sem notað var í mannvirkið, hafi komið úr húsi því sem keypt var af Landsvirkjun, úr Sigöldu árið 1983 þá skapi það ekki með neinum hætti eignarréttindi annarra þ.m.t. stefnda að véla- og verkfæraskemmu þeirri sem hér um ræðir. Kaupin á húsinu við Sigöldu voru fjármögnuð af fósturföður stefnanda. Það hús var selt til niðurrifs.
Véla- og verkfærageymsla sú er stendur nú að Þórisstöðum I, var reist með leyfi landeiganda, fósturföður stefnanda. Stefnandi fékk byggingaleyfi fyrir véla- og verkfæraskemmunni. Eignin hefur frá upphafi verið skráð á nafn stefnanda, bæði í veðmálabókum sýslumannsins á Selfossi og eins í fasteignamati. Hafa aðrir þar ekki komið til greina sem eigendur að umræddri véla- og verkfæraskemmu. Stefnandi hefur einnig frá upphafi greitt alla skatta og skyldur af fasteigninni.
Stefnandi vísar til ákvæða 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem mæli fyrir um að eignarrétturinn sé friðhelgur en þá lagagrein verði að skýra með hliðsjón af 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994.
Þá er vísað til almennra reglna samninga- og eignarréttar um vernd og stofnun eignarréttar.
Málskostnaðarkrafan styðst við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er því nauðsynlegt að tekið sé tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsatvik og málsástæður stefnda.
Aðilar máls þessa hófu sambúð á árinu 1967 og gengu skömmu síðar í hjónaband. Þau skildu formlega að borði og sæng 1974 án þess að slitnað hafi upp úr sambúð þeirra. Voru þau að mestu í sambúð næstu árin og eignuðust síðasta barn sitt á árinu 1975. Rétt er eins og fram kemur í stefnu að sambúð aðila var alla tíð nokkuð stormasöm og var engu að síður með tveim stuttum hléum fram til ársins 1992.
Lögskilnaður var veittur í júlí 1983 en eftir hann stóð sambúð þeirra samt óslitin til 1992 og bjuggu þau þann tíma að Þórisstöðum. Um haustið 1983 keypti stefndi af Landsvirkjun hús sem notað hafði verið sem vinnubúðir við virkjunarframkvæmdir á Sigöldu, dskj. nr. 7. Hús þetta var tekið niður og sett á grunn sem sú skemma sem um er deilt í máli þessu. Allan kostnað við niðurrif, flutning og uppsetningu á Þórisstöðum var greiddur af stefnda auk þess sem hann sá um alla vinnu sem þessu fylgdi. Fullyrðingum í stefnu um að fósturfaðir stefnanda hafi fjármagnað kaupin og að stefnda hafi verið gerð grein fyrir að allar framkvæmdir að Þórisstöðum væru eign stefnanda er mótmælt sem röngu og ósönnuðum.
Fyrir liggja vinnuskýrslur og reikningar vegna niðurrifs, flutnings og uppsetningu skemmunnar á Þórisstöðum, sem sýni að stefndi sá alfarið um þær framkvæmdir. Fósturforeldrar samþykktu að stefndi fengi að byggja skemmuna á Þórisstöðum eftir nokkurt stapp um staðsetningu og lóðarstærð. Sá stefndi alfarið um að grafa grunn og steypa og uppsetningu að öðru leyti. Var á þeim tíma aldrei ágreiningur um að stefndi hafi bæði fjármagnað og byggt umræddar eignir. Stefndi sjálfur leit svo á á þessum tíma að þau væru í venjulegri sambúð enda bjuggu þau bæði að Þórisstöðum með börnum sínum auk sem nota ætti skemmuna í sameiginlegum rekstri þeirra hjóna. Eftir að fósturfaðir stefnanda féll frá á árinu 1986 héldu þau bæði áfram uppbyggingu á Þórisstöðum og byggði stefndi m.a. bílskúr og stækkaði og lagaði íbúðarhúsið að Þórisstöðum sem var í algerri niðurníðslu.
Eftir 1992 var sambúð þeirra mjög stopul fram til árisins 2001 er hún komst í fastar skorður aftur og stóð óslitið fram í febrúar 2003. Við þau sambúðarslit gerðu þau með sér samning um nýtingu eignanna á jörðinni sem var nauðsynlegt þar sem stefndi hafði keypt skemmurnar en þær settar upp á jörð stefnanda. Að öðrum kosti hefði stefndi þurft að rífa skemmurnar og flytja þær með sér.
Í kjölfar þessa samnings komu upp deilur milli aðila um nýtingu á eignunum sem varð til þess að stefnandi krafðist útburðar stefnda úr skemmunni, sem hann hafði til afnota skv. samkomulagi þeirra, fyrir Héraðsdómi Suðurlands sem hafnaði að krafan næði fram að ganga. Stefndi hefur lagt til að aðilar semdu um eignarhald og nýtingu eignanna, bæði eignir sem hér er deilt um sem og aðrar sem mynduðust á sambúðartíma þeirra á árunum 1983 til 2003, s.s. bílskúr sem hann byggði og breytingar á íbúðarhúsinu. Hefur stefnandi ekki verið til umræðu um slíkt og ekki fallist á opinber skipti á búi þeirra þar sem hægt væri með einfaldari hætti að fá niðurstöðu um eignir þeirra og hlutdeild hvors um sig í eignum hins.
Stefndi byggir sýknukröfuna á því að hann hafi keypt skemmuna sem um ræðir, sbr. dskj. nr. 7, og sett hana upp að Þórisstöðum með samþykki þáverandi eiganda jarðarinnar. Hann hafi byggt undirstöður og fjármagnað bygginguna að öllu leyti. Stefndi hafi ekki afsalað skemmunni til stefnanda eða nokkurs annars og skráning í fasteignamati breyti engu þar um. Það er enginn ágreiningur um að eignin stendur á landi stefnanda og henni sjálfsagt í lófa lagið að krefjast að stefndi fjarlægi hana af landinu en stefnandi verður ekki sjálfkrafa eigandi vegna þess að skemman er byggð á hennar landi.
Stefnandi hefur í máli þessu ekki sannað eignarrétt sinn. Hún virðist byggja eignarrétt sinn í fyrsta lagi á því að fósturfaðir hennar hafi fjármagnað kaupin og hún sem einkaerfingi hans eigi því skemmuna. Þessu er mótmælt sem röngu og ósönnuðu auk þess sem eignarréttur myndast ekki með því að leggja fram fé til kaupa annarra. Hafi hann lagt til fjármuni hefði hann átt fjárkröfu vegna þess. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að skemman sé skráð í fasteignamati á nafni stefnanda. Það myndar ekki eignarrétt og skýrist væntanlega á því að stefnandi fékk byggingarleyfið sem eigandi jarðarinnar. Skemman sem slík var keypt af stefnda og er í raun lausafé. Eignarrétturinn á því hefur aldrei færst yfir til stefnanda. Álitaefni gæti verið hvort grunnurinn teldist vera eign stefnanda að hluta eða öllu leyti enda verður hann ekki fjarlægður með góðu móti.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að í skattframtali hennar árið 1986 hafi hún talið fram umrædda skemmu sem sína eign og að hún hafi keypt hana af stefnda fyrir kr. 500.000.
Stefndi mótmælir því alfarið að stefnandi hafi keypt af honum skemmuna enda hafi það ekki gerst. Skattframtal stefnanda hafi ekkert sönnunargildi auk þess sem hvorki afsal, kaupsamningur né kvittanir fyrir greiðslu á kr. 500.000 liggja fyrir sem sannað gæti kaup hennar. Eina sem þetta skattframtal sýnir er að stefndi keypti og fjármagnaði kaupin á skemmunni eins og skjalleg sönnunargögn sýna og að stefnandi hafi litið svo á að stefndi hafi keypt skemmuna.
Stefndi telur að ekki sé ágreiningur um að hann hafi keypt umrædda skemmu af Landsvirkjun og sett hana upp á Þórisstöðum. Ágreiningur snúist um það hvort stefnandi eða fósturfaðir hennar hafi verið raunverulegur kaupandi og/eða hvort stefnandi hafi keypt hana síðar af stefnda. Stefndi byggir á því að enginn annar en hann hafi keypt skemmuna og reist hana á Þórisstöðum og að stefnandi hafi aldrei keypt skemmuna af honum. Sönnun fyrir öðru er alfarið stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna um eignarrétt og stofnun og vernd hans. Málskostnaðarkrafa styðst við 129. gr. laga um meðferð einkamála.
Niðurstaða.
Ekki er um það deilt í máli þessu að stefndi keypti 10. október 1983 hús af Landsvirkjun sem stóð við Sigöldu og hafði verið notað sem vinnubúðir við virkjunarframkvæmdir þar. Stefndi stóð fyrir því að efnið úr húsinu var flutt að Þórisstöðum I, Grímsneshreppi og þar var steyptur grunnur undir hina umdeildu skemmu og reisti stefndi hana að öllu leyti ásamt sonum aðila, þeim Ingvari og Páli. Stefnandi erfði allar eignir hjónanna Ingvars Þorkelssonar og Kristrúnar Kristjánsdóttur, fósturforeldra sinna, þar með taldar íbúðarhús og lóð að Þórisstöðum I. Stefnandi er þinglýstur eigandi jarðarinnar og mannvirkja á henni, þar með talin umrædd skemma. Á skattframtali stefnanda árið 1986 vegna tekjuársins 1985 kemur fram að hún hafi keypt tilteknar eignir af stefnda, þar með talda umrædda skemmu á 500.000 krónur og tekið er fram að afsal hafi verið fram 24. febrúar 1985. Það afsal hefur hins vegar ekki verið lagt fram í málinu. Þá hafa verið lögð fram gögn um að stefnandi hafi á árinu 1985 greitt stefnda samtals um 500.000 krónur, en ekki er tilgreint á kvittunum af hvaða tilefni þessar greiðslur fóru fram. Stefndi hefur ekki lagt fram skattframtöl því til stuðnings að umrædd skemma sé eign hans og þá hefur verið lagt fram endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík dagsett 21. mars 1995 vegna aðfararbeiðnar á hendur stefnda, en þar er haft eftir honum að hann eigi engar eignir. Einnig hefur verið lagt fram skattframtal Ingvars Þorkelssonar árið 1986 vegna tekjuársins 1985, en þar er tilgreind 95.000 króna skuld stefnda við hann.
Málsaðilar gerðu með sér samkomulag 3. febrúar 2003 um afnot af umræddri skemmu og kemur þar fram að stefndi hefði afnot af tilteknum hluta skemmunnar að undanteknu svokölluðu kanínuherbergi. Skyldi tryggt að ávallt væri greið leið inn í innri hluta skemmunnar og þá var umsamið að færi rafmagnsreikningur yfir 6.000 krónur á mánuði að jafnaði yfir 1 árs tímabil, greiddi stefndi það sem umfram væri. Skyldi stefndi annast viðhald og endurbætur í samráði við stefnanda og skyldi vinnuframlagið skoðast sem þóknun fyrir aðstöðuna, en stefnandi greiddi efniskostnað. Þá var samkomulag um að stefndi gerði ekki kröfur í neinar eignir sem skráðar væru á nafn stefnanda og var samkomulagið uppsegjanlegt með þriggja mánaða fyrirvara.
Málsaðilar gengu í hjónaband árið 1968 og eignuðust fimm börn saman. Þau skildu að borði og sæng árið 1974 og samkvæmt Þjóðskrá hafa þau ekki átt saman lögheimili frá árinu 1976. Lögskilnaðarleyfi var gefið út 18. júlí 1983. Þrátt fyrir þetta er ljóst af gögnum málsins að stefndi hefur eftir þetta dvalið að hluta til að Þórisstöðum I og greinir aðila á um eðli þessa sambands þeirra, en því virðist hafa lokið árið 2006.
Ljóst er af gögnum málsins að stefnandi fékk byggingaleyfi fyrir skemmunni og hefur hún frá upphafi verið skráð eign hennar. Þá er því ekki mótmælt að stefnandi hafi greitt alla skatta og skyldur af skemmunni frá upphafi. Ingvar Sævarsson, sonur málsaðila, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði staðið í þeirri trú að móðir hans ætti skemmuna og þá taldi hann afa sinn hafa fjármagnað kaupin á skemmunni. Hann kvaðst hafa aðstoðað stefnda við að rífa skemmuna og reisa hana að Þórisstöðum I. Þá kvað hann móður sína hafa greitt sér fyrir þessa vinnu. Bróðir Ingvars, Páll, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði aðstoðað föður sinn við þessar framkvæmdir og taldi hann afa sinn hafa fjármagnað þær. Hann kvað móður sína hafa greitt sér verklaun.
Þegar allt framanritað er virt verður að telja að stefnandi hafi fært fyrir því gild rök að hún hafi eignast umrædda skemmu eins og hún heldur fram. Ber þar sérstaklega að nefna fjárgreiðslur hennar til stefnda á árinu 1985, yfirlýsingu stefnda um eignaleysi árið 1995 og samkomulag aðila varðandi skemmuna frá 3. febrúar 2003, en þar kemur m.a. fram að stefndi geri ekki neinar kröfur um eignir sem skráðar séu á nafn stefnanda. Ber með hliðsjón af þessu að fella sönnunarbyrðina í máli þessu á stefnda og þar sem honum hefur að mati dómsins ekki tekist að færa sönnur á það að hann sé eigandi skemmunnar verða kröfur stefnanda teknar til greina.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ:
Staðfestur er eignarréttur stefnanda, Sigurdísar Sigurðardóttur, að véla- og verkfærageymslu með fasteignamatsnúmeri 8719-02-00092001-220-7185, sem stendur á landi hennar Þórisstöðum I, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Málskostnaður fellur niður.