Hæstiréttur íslands

Mál nr. 238/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Fasteign
  • Eignardómsmál


Föstudaginn 20

 

Föstudaginn 20. ágúst 2004.

Nr. 238/2004.

Guðjón Styrkársson

(sjálfur)

gegn

óþekktum rétthöfum yfir tveimur

lóðarspildum á sumarbústaðasvæðinu

Haukabyggð á Kjalarnesi

(enginn)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Fasteignir. Eignardómsmál.

G höfðið mál gegn ótilgreindum aðilum til viðurkenningar á eignarrétti sínum að tveimur lóðarspildum. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ekki yrði af gögnum málsins ráðið með ótvíræðum hætti hvort G hefði mátt vera kunnugt um hverjir kynnu að telja til réttinda yfir umræddum lóðarspildum. Hefði honum borið að beina málsókninni að þeim en ella reka málið sem eignardómsmál í samræmi við ákvæði XVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. júní 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2004, þar sem máli sóknaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili mun ekki hafa fengið vitneskju um úrskurð héraðsdóms fyrr en 24. maí 2004. Hann krefst þess aðallega að staðfestur verði með dómi eignarréttur sinn að tveimur lóðarspildum nr. 24 og 26 á sumarbústaðasvæðinu Haukabyggð á Kjalarnesi. Til vara krefst hann þess að málinu verði vísað heim í hérað til dómsálagningar að nýju en að því frágengnu að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út eignardómsstefnu í málinu.

Enginn hefur tekið til varna í málinu fyrir Hæstarétti.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið með ótvíræðum hætti hvort sóknaraðila megi vera kunnugt um hverjir kunni að telja til réttinda yfir lóðarspildum þeim er málið varðar. Sé svo bar sóknaraðila að beina málsókninni að þeim en ella reka málið sem eignardómsmál í samræmi við ákvæði XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2004.

Mál þetta sem dómtekið var 16. mars sl. er höfðað af Guðjóni Styrkárssyni, [...], til viðurkenningar á eignarrétti sínum að tveimur lóðarspildum úr landi Hrafnhóla, Kjalarnesi með stefnu birtri í Lögbirtingarblaðinu 24. desember 2003.

Dómkröfur: Stefnandi krefst þess að staðfestur verði með dómi eignarréttur hans að tveimur lóðarspildum á sumarbústaðasvæðinu Haukabyggð á Kjalarnesi, nr. 24 og nr. 26.

Málsatvik og málsástæður:  Stefnandi kveðst hafa selt jörðina Hrafnhóla í Kjalar­nes­hreppi á árinu 1978.  Þá hafi hann tekið undan tvær landspildur, hvora 2.500 m² að stærð.  Við þinglýsingu afsals á árinu 1980 hafi eignarréttur hans ekki verið færður í þinglýsingabækur hjá Sýslumannsembættinu í Hafnarfirði.

Fyrri eigandi jarðarinnar, Sigurður Loftsson, hafi tekið undan jörðinni 20 ha. landsvæði til skipulagningar sumarbústaðasvæðis.  Árið 1984 hafi verið gerður skipulags­uppdráttur af 22,788 ha. landsvæði, eða rúmlega 12% stærra svæði en samþykki hafi verið fyrir frá þar til bærum yfirvöldum.  Verkfræðistofan, sem hafi skipulagt svæðið, hafi hvorki vitað né mátt vita um eignarrétt stefnanda að landspildum “innan við eða ofan við” sumarbústaðalandið eins og því sé lýst í afsali. Þess vegna hafi verið skipulagt stærra landsvæði sem nær inn að Þverá og upp að klettum og þar með hafi lóðarspildur stefnanda lent innan hins skipulagða svæðis.  Hið skipulagða sumarbústaðasvæði sé sérstök fasteign, sem nefnist Haukabyggð og tilheyri ekki lengur bújörðinni Hrafnhólum.  Á svæðinu séu 26 útmældar lóðir, sem séu númeraðar frá 1 til 26.  Lóðirnar séu misstórar, frá 3.609 – 7.294 m² og þeim afmörkuðu lóðastærðum sé ekki unnt að breyta nú.  Eigandi sumarbústaðahverfisins, Sigurður Loftsson, hafi afsalað 11 lóðum, sem þinglýstar eignarheimildir séu fyrir.  Hann hafi látist 10. janúar 1999 og muni ekki hafa átt erfingja.  Lóðir nr. 24 og 26 séu á því svæði sem hafi samkvæmt afsali átt að tilheyra stefnanda og haft sé eftir Sigurði að hann hafi ætlað stefnanda þær.  Eftir því sem best sé vitað sé enginn annar rétthafi að þeim.  Hins vegar skorti stefnanda formlega eignarheimild og enginn sé lengur bær til að gefa út afsal að lóðunum.  Meira atriði hafi verið fyrir stefnanda að eiga tvær lóðir heldur en hver væri stærð þeirra.

Stefnandi vísar um lagarök til 3. og 4. þáttar,  80. gr., 121. gr. og 122. gr. svo og 34. gr. laga nr. 91/1991. Vegna stefnubirtingar í Lögbirtingarblaðinu er vísað til c. liðar 89. gr.

Niðurstaða: Við þingfestingu málsins sótti Kristján Guðmudsson, eigandi jarðarinnar Hrafnhóla þing. Gagnaöflun var þá ekki lokið af hálfu stefnanda og fékk hann frest til að ljúka henni. Þingsókn féll niður af hálfu Kristjáns við fyrirtöku 16. mars sl. án þess að nokkrar kröfur væru gerðar í málinu af hans hálfu. Var málið þá dómtekið að kröfu stefnanda.

Sem fyrr segir byggir stefnandi á því í máli þessu að Sigurður Loftsson hafi við sölu jarðarinnar Hrafnhóla á Kjarlarnesi til stefnanda á árinu 1976 tekið undan jörðinni 20 ha. landsvæði.

Samkvæmt fyrirliggjandi skjölum hélt stefnandi eftir við sölu jarðarinnar Hrafnhóla til Kristjáns Guðmundssonar á árinu 1978 tveimur 2.500 m² lóðarspildum. Samkvæmt afsali dagsettu 20. júní 1978 var spildunum markaður staður innan við og ofan við land það sem Sigurður hafi áður tekið undan jörðinni, eftir nánara samkomulagi aðila.  Stefnandi fullyrðir að Sigurður hafi ætlað honum lóðir nr. 24 og 26, samkvæmt skipulagsuppdrætti, en þær séu á því svæði sem hafi samkvæmt afsali átt að tilheyra stefnanda. Sigurður sé látinn og hafi ekki átt lögerfingja. Stefnandi telur að enginn annar rétthafi sé að umræddum lóðum en hann. Stefnandi kveðst ekki hafa þinglýsta eignarheimild fyrir ofangreindum lóðarspildum og enginn sé lengur bær til að gefa út afsal fyrir þeim. Lóðir þær sem stefnandi gerir tilkall til eru samkvæmt gögnum málsins 5.008 m² og 6.002 m² og því stærri en þær lóðarspildur sem hann hélt eftir þegar hann seldi jörðina Hrafnhóla, sbr. afsal frá 20. júní 1978.

Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. einkamálalaga getur sá sem gerir sennilegt að hann hafi öðlast réttindi yfir fasteign með samningi eða hefð en skortir skilríki fyrir rétti sínum leitað eignardóms. Um höfðun eignardómsmála gilda sérreglur 18. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. 122. gr. skulu eignardómsmál sæta réttarfarsreglum 120. og 121. gr. laganna að breyttu breytanda.  Í 1. mgr. 121. gr. er fjallað um ógildingarmál og segir þar að sá sem vilji höfða mál til ógildingar á skjali skuli afhenda dómara stefnu til útgáfu.  Í stefnunni skuli stefnandi gera grein fyrir afdrifum skjalsins og rökstyðja hvernig hann telji til réttar yfir því.  Ennfremur er tekið fram í 2. mgr. 121. gr. að dómari skuli synja um útgáfu stefnu telji hann skilyrði ógildingardóms ekki vera fyrir hendi.

Ljóst er af sakarefni máls þessa að það hefur öll einkenni eignardómsmáls. Stefnandi stefnir ekki tilteknum aðilum og hefur látið birta stefnuna í Lögbirtingablaði. Stefnandi gaf stefnuna út sjálfur eins og algengast er í einkamálum sem ekki sæta afbrigðilegri meðferð.

Eins og orðalag 120. - 122. gr. einkamálalaga ber með sér eru þau ófrávíkjanleg og ganga framar fyrirmælum 3. mgr. 80. gr. einkamálalaga um að stefnandi skuli að jafnaði gefa stefnu út sjálfur.  Stefnanda bar því samkvæmt 1. mgr. 121. gr., sbr. 2. mgr. 122. gr., að fá stefnu sína útgefna af dómara til þess að unnt væri að fylgja þeim fyrirmælum 2. mgr. 121. gr. laganna að staðfesta verði að skilyrði eignardóms séu fyrir hendi áður en stefna er gefin út og birt í Lögbirtingarblaðinu.  Þar sem ekki var við höfðun þessa máls fylgt þeim sérstöku réttarfarsreglum sem gilda um eignardómsmál verður að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Úrskurðinn kvað upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.