Hæstiréttur íslands
Mál nr. 439/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 30. janúar 2014. |
|
Nr. 439/2013. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Ingvari Hreiðarssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot.
Skaðabætur. Sératkvæði.
I var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því
að hafa haft munnmök við A gegn vilja hans, en I notfærði sér að hann gat ekki
spornað við verknaðinum sökum ölvunar, vímuefnaáhrifa og svefndrunga. Var
háttsemin talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Var refsing I ákveðin fangelsi í 2 ár auk þess sem honum var gert að greiða A
1.000.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu vísað frá dómi, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og einkaréttarkrafa lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.
Ákærði hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir þeirri kröfu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.
Ákærði hafði samkvæmt þessu munnmök við brotaþola þrátt fyrir að ákærði hlaut að hafa vitað að brotaþoli gæti ekki spornað við þeim vegna ölvunar, vímuefnaáhrifa og svefndrunga og þótt ákærða væri fullljóst að brotaþoli væri mótfallinn því að eiga kynferðismök við hann. Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni var breytt með 3. gr laga nr. 61/2007, telst það nauðgun ef maður notfærir sér slíkt ástand sem brotaþoli var í til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök. Munnmök við annan mann falla undir önnur kynferðismök og eru lögð að jöfnu við samræði. Í ákæru er brot ákærða því rétt heimfært til refsiákvæðis.
Refsing við broti sem þessu varðar að lágmarki eins árs fangelsi og allt að 16 árum. Með lögfestingu áðurnefndrar 3. gr. laga nr. 61/2007 hefur löggjafinn metið kynferðisbrot af því tagi, sem ákærði er sakfelldur fyrir, alvarlegt og ekki gert greinarmun á af hvoru kyni brotaþoli sé. Áður en ákærði braut gegn brotaþola hafði sá síðarnefndi lagst til hvílu einn í eigin rúmi og var þar sofandi. Á hinn bóginn var ákærði ungur að árum er hann framdi brotið og hann hefur ekki svo vitað sé áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þegar til alls þessa er litið er refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.
Í málinu liggja frammi gögn því til stuðnings að brotaþoli hafi orðið fyrir nokkrum miska af hálfu ákærða. Einkaréttarkröfu brotaþola er í hóf stillt og verður hún tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ingvar Hreiðarsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði A 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 595.050 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I
Að kvöldi föstudagsins 14. eða
laugardagsins 15. september 2012 hittust ákærði og vinir hans, þar á meðal C, B
og A heima hjá þeim síðastnefnda í tilefni af afmæli ákærða. Þaðan fóru þeir að
skemmta sér í miðborg Reykjavíkur, en að líkindum um klukkan fimm um morguninn
fóru þessir fjórir aftur á heimili A. Eins og greinir í héraðsdómi neyttu þeir
áfengis, kannabis, amfetamíns og kókaíns, þótt ekki sé ljóst hve mikið hver
þeirra neytti og hversu lengi fram eftir nóttu neyslan stóð yfir. Þetta kvöld
skýrði ákærði félögum sínum frá því að hann væri tvíkynhneigður og tóku þeir
þessum fréttum með jákvæðum hætti. Að líkindum um klukkan sex eða sjö um
morguninn bjó A í haginn svo tveir gesta hans gætu sofið í sitt hvoru
herberginu og sá þriðji í stofunni. Ákærði kvaðst ekki hafa getað farið að
sofa, líklega vegna fíkniefnaneyslu sinnar, ráfað um í nokkrar mínútur og
fengið svo leyfi A um að setjast við tölvu í herbergi hans. Síðar fór hann í
upp í rúm til A og hafði við hann munnmök. Kvaðst hann hafa setið við tölvuna í
líklega 15 og allt upp í 30 mínútur. Hafi A í fyrstu verið milli svefns og
vöku. Ákærði kvaðst hafa hætt atferli sínu að sjálfsdáðum eftir nokkra stund og
beðið A afsökunar en haldið áfram eftir að A hafi boðið honum það. A segir á
hinn bóginn að hann hafi að líkindum vaknað um níu eða tíuleytið um morguninn
við að ákærði var að sjúga á honum liminn. Þó kvaðst hann í skýrslu hjá
lögreglu telja að atvik hafi allt eins getað hafa gerst milli klukkan sjö til
tíu. Hann hefði þá ýtt við ákærða, vafið um sig sængina, snúið sér frá honum og
að glugganum við rúmið og haldið áfram að sofa. Hafi hann vaknað aftur síðar og
þá áttað sig á að hann var með nærbuxurnar á hælunum og ákærði á ný að eiga við
hann munnmök. Hann hafi spurt ákærða hvað hann væri að gera, ákærði hefði beðist
afsökunar og þá hafi A farið aftur að sofa. Hjá lögreglu kvaðst A telja að
ákærði hafi í mesta lagi gert hlé í fimm mínútur á atferli sínu, en fyrir dómi
kvaðst hann telja að allt eins hafi getað verið um að ræða hálftíma í þessu
sambandi. Sofnuðu þeir svo báðir í sama rúminu og vöknuðu um hádegisbil og ók A
þá gestum sínum heim.
Í héraðsdómi er framburður
ákærða fyrir dómi um það hvers vegna hann lagðist í rúmið sagður
mótsagnakenndur, þar sem hann hafi sagt að engin sérstök hugsun hafi verið bak
við það sem hann gerði, hann hafi verið dasaður en samt sem áður langað til að
eiga í „kynferðislegu athæfi við einhvern“. Eins og nánar greinir í héraðsdómi
er ákærði sakfelldur einkum með þeim rökum að A hafi skýrt frá atvikum með sama
hætti hjá lögreglu og fyrir dómi og sé einlægur og trúverðugur. Er tiltekið að
„engin ástæða [sé] til að efast um trúverðugleika hans þótt hann kunni að hafa
sagt við B og C að hann hafi rekið ákærða út úr herberginu.“ Þá er tiltekið að
það dragi ekki úr trúverðugleikanum þótt hann hafi ekki að fyrra bragði greint
frá fíkniefnanotkun við skýrslutöku hjá lögreglu og hann gefið skýringar á
„ósamræmi sem virtist vera“ í framburði hans og yfirmanns hans vegna starfsloka
hans á vinnustað sínum. Er auk þess nefnt að „öll hegðun brotaþola bæði fyrir
og eftir meint brot bendir eindregið til þess að hann hafi ekki verið samþykkur
kynmökunum við ákærða.“ Er „í þessu sambandi áréttað að hann hafði sagt við
ákærða að hann hefði ekki kynferðislegan áhuga á ákærða og vitnið B hefur borið
um það að hafa tekið eftir því þegar þeir vöknuðu um hádegið og brotaþoli
keyrði vitnið heim að ekki væri allt með felldu.“ Þá er vísað til þess að A
hafi skýrt öðrum frá atvikum og til ályktana sálfræðings um líðan hans. Auk
þess telur héraðsdómur „ýmislegt í framburði ákærða styðja sakfellingu, eins og
það að hann bað brotaþola afsökunar fyrst eftir að hann hafði munnmök við hann,
aftur þegar brotaþoli keyrði hann heim og hann kinkaði kolli þegar kærasta [A]
bar upp á hann sakir nokkrum dögum síðar“ og sögð „áleitin sú spurning“ af
hverju ákærði gerði allt þetta ef A hafi verið kynmökunum samþykkur. Hafi
ákærði ekki gefið trúverðugar skýringar á þessu háttalagi.
II
Ekki verður hjá því komist
komist að fara frekar yfir atriði í framburð ákærða og A en gert er í
héraðsdómi með tilliti til þess hvort niðurstaða héraðsdóms um
sönnunargildi munnlegs framburðar kunni að vera röng svo að
einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála.
Í héraðsdómi er ekki rökstudd
með skýrum hætti sú ályktun að „engin ástæða [sé] til að efast um trúverðugleika
[A] þótt hann kunni að hafa sagt við B og C, að hann hafi rekið ákærða út úr
herberginu“, eftir að hann varð var við atferli ákærða. Bera þessi tvö vitni að
A hafi sagt þeim sitt í hvoru lagi að viðbrögð hans við atferli ákærða hafi
verið á þennan veg, en sérstaklega aðspurður fyrir dómi neitaði A að hafa sagt
þeim þetta. Nánar aðspurður um þetta misræmi þá tiltók A að hann og B hefðu
„lítillega rætt um málið, eiginlega bara rosalega lítið“, en C og hann hefðu
„ekkert rætt um þetta vegna þess að C vill ekki tala við mig um þetta.“
Ekki verður fallist á með
héraðsdómi að A hafi „gefið skýringar á ósamræmi sem virtist vera í framburði
hans ... um starfslok“ á vinnustað í kjölfar atvika. Hafði A að fyrra bragði
tilgreint við aðalmeðferð í héraði að starfslok hans hefðu orðið sökum
vanlíðunar eftir atvik. Sérstaklega aðspurður um þetta síðar í þinghaldinu
ítrekaði hann þennan framburð sinn en sú frásögn var einnig höfð eftir honum í
vottorði sálfræðings og lá því að líkindum meðal annars til grundvallar
ályktunum sálfræðingsins sem sakfelling héraðsdóms byggir á. Síðar við
aðalmeðferð málsins kom fram hjá vinnuveitanda A að þetta væri rangt því hann
hefði sagt upp vinnu áður en atvik gerðust. Var málið sérstaklega endurupptekið
í því skyni að fá skýringar A á framburði sínum og kom þá fram hjá honum að
fyrri framburður hans hefði verið rangur, en hann hefði hvað eftir annað
hlaupist úr vinnu og síðan sagt upp sumarið 2012. Eftir það hafi hann þó staðið
nokkrar vaktir í forföllum. Ekki veitti A aðrar skýringar á hinum ranga
framburði sínum. Þrátt fyrir að þessi frásögn varði ekki beint atvik máls þá
verður ekki hjá henni litið við mat á trúverðugleika framburðar A.
Ákærða er í ákæru gefið að sök
að hafa haft munnmök við A án vilja hans, þar sem ákærði „notfærði sér það að A
gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum ölvunar, vímuefnaáhrifa og
svefndrunga.“ Í niðurstöðu héraðsdóms segir að það fái „fyllilega staðist að [A]
hafi ekki getað spornað við kynferðismökunum vegna ölvunar og svefndrunga“ og
jafnframt að „engin ástæða sé til að ætla að brotaþoli hafi í raun verið
vakandi vegna áhrifa örvandi efna.“ Er ákærði með þessum rökum sakfelldur fyrir
þá háttsemi sem í ákæru greinir. Af framburði A hjá lögreglu má á hinn bóginn
helst ráða að neysla hans á örvandi efnum hafi staðið langt fram eftir nóttu.
Af því sem fram er komið í málinu verður að miða við að ástand A hafi þó ekki
verið verra en svo að hann ók bifreið líklega tveimur eða þremur klukkustundum
eftir atvik, ef miðað er við framburð hans. Var ákærði þá einn farþega. Kom
raunar fram hjá vitninu C að hann og A hafi verið minnst drukknir af þeim
félögum þegar lagst var til svefns.
Ekki er fallist á með
héraðsdómi að frásögn ákærða sé svo mótsagnarkennd um ástæður þess að hann hafi
viljað hafa munnmök við A að sakfelling verði á henni reist. Á sama hátt má
líta til þess að samkvæmt gögnum málsins verður helst ráðið að A, sem örvaðist
kynferðislega við atlot ákærða, sé stærri og sterkari en ákærði. Samkvæmt frásögn
A kvað hann sér hafa brugðið mjög en þó hafi einu viðbrögð hans verið sú að
vefja sænginni um sig og snúa sér til veggjar eftir að hann varð fyrst var við
að ákærði hafði við hann munnmök. Ber honum og ákærða saman um að ákærði hafi
síðar byrjað á ný og kvað A allt þetta hafa staðið í um 10 til 15 mínútur.
Nánar aðspurður um hvort hann hafi haft sáðlát þá sagði A: „Alla veganna svo að
ég viti til þá hef ég ekki fengið sáðlát.“ Þá má líta til þess að bæði ákærði
og A bera að þeir hafi vaknað saman í rúminu þá um morguninn eftir atvik. Er
þessi lýsing á aðstæðum og atvikum frekar til stuðnings þeirri frásögn ákærða
að A hafi þrátt fyrir allt með vilja tekið þátt í kynferðismökunum. Einnig
verður að teknu tilliti til framangreinds framburðar vitnanna B og C að miða
við að lýsing A á viðbrögðum sínum hafi verið á reiki.
Þá bar A fyrir dómi að er þeir
ákærði voru einir eftir í bifreiðinni um hádegisbil daginn eftir hafi hann sagt
orðrétt við ákærða að hann teldi þetta í rauninni hafa verið „borderline-nauðgun“. Bera þeir báðir að þeir hafi verið
leiðir vegna atviksins þegar það barst í tal er þeir voru einir í bifreiðinni.
Eins og fram kemur í
héraðsdómi verður ekki fullyrt af gögnum málsins hvort atvik hafi gerst 15. eða
16. september 2012, en fram er komið að A kærði háttalag ákærða til lögreglu
27. september 2012. Lýsti hann því fyrir dómi að sér hafi fundist „þurfa, að
láta fólk vita vegna þess að hérna ég var búinn að heyra það að það voru komnar
kjaftasögur út af þessu og ég náttúrulega bara vildi leiðrétta það“ og því hafi
hann sagt sínum „helstu vinum“ frá atvikum. Er þetta ekki í ósamræmi við frásögn
ákærða um að hann og A hafi báðir skammast sín og skýri það meðal annars
viðbrögð sín við skömmum kærustu BA fyrir utan vinnustað ákærða nokkrum dögum
eftir atvik.
Í máli þessu hefur fjölskipaður héraðsdómur metið framburð ákærða og A. Hæstiréttur getur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Eins og áður er rakið eru fram komin atriði sem héraðsdómur hefði mátt víkja betur að við rökstuðning fyrir niðurstöðu sinni um trúverðugleika framburðar ákærða annars vegar og A hins vegar. Á hinn bóginn er til þess að líta að ákærði og A eru einir til frásagnar um málsatvik. Tel ég því ekki rétt að heimvísa málinu til nýrrar meðferðar heldur miða við að framburður A hafi ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að nægi, gegn neitun ákærða að slá því föstu að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði fyrir sekt ákærða sem á því hvílir samkvæmt 108. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. maí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí
2013, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 28. desember 2012 á
hendur Ingvari Hreiðarssyni, kt. [...], [...], [...],
fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. september 2012, í
svefnherbergi á heimili A að [...], [...], haft munnmök við A gegn vilja hans,
en ákærði notfærði sér það að A gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum
ölvunar, vímuefnaáhrifa og svefndrunga.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 194.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði
dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er gerð krafa um
miskabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8.
gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. september 2012 til 3.
nóvember 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu
laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst sýknu af kröfum
ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst
verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa.
I.
Samkvæmt skýrslu lögreglu lagði
brotaþoli máls þessa, A, fram kæru hjá lögreglu 27. september 2012 á hendur
ákærða fyrir kynferðisbrot. Brotaþoli skýrði frá því að hafa verið á fylleríi,
á laugardagskvöldi, í afmæli ákærða. Það kvöld hefði ákærði komið út úr skápnum
gagnvart sér og vinum þeirra, þ.e. sagt að hann væri tvíkynhneigður og þeir
hefðu tekið því vel. Eftir að hafa skemmt sér hefðu þeir fjórir vinir tekið leigubíl
heim til brotaþola, en hann hefði leyft þeim að gista þar sem þeir hefðu ekki
átt mikinn pening til að taka leigubíl í allar áttir. Þegar þangað var komið
hefðu þeir haldið áfram að drekka og spjallað saman. Það hefði verið rosalega
gaman en svo hafi komið að því að hann hafi fengið nóg. Hann hafi farið inn í
rúm og drepist. Hann hefði hins vegar áður búið um alla hina, en þeir hefðu
sofið í sófum heima hjá honum. Brotaþoli kvaðst hafa farið inn í herbergi og
sofnað, um klukkan sjö að því er hann hélt. Brotaþoli hélt að klukkan hefði
verið um níu eða tíu um morguninn þegar hann hefði vaknað við það að
næturgestur var undir sæng hans. Í sekúndubrot hefði brotaþoli haldið að konan
hans væri komin frá [...] en hann hefði strax áttað sig á því að þetta var ákærði
undir sænginni að sjúga typpið á brotaþola. Brotaþoli hefði gjörsamlega farið í
sjokk og ýtt honum einhvern veginn í burtu og snúið sér á hina hliðina og reynt
að halda áfram að sofa. Brotaþoli hefði sofnað aftur og þetta svo endurtekið
sig einu sinni, en brotaþoli hefði vaknað aftur við ákærða og ýtt honum aftur í
burtu og spurt hvað í fjandanum hann væri að gera. Brotaþoli hefði sofnað aftur
en svo vaknað um hádegið, gjörsamlega sjokkeraður. Hann hefði farið út og
fengið sér sígarettu, ræst strákana, skutlað þeim heim og svo talað við ákærða.
Hann hefði sagt við ákærða að hann hljóti að hafa gert sér grein fyrir því hvað
hann hefði gert og það flokkist undir nauðgun. Hann hefði gert ákærða fulla
grein fyrir því. Ákærði hefði beðist afsökunar, en brotaþola hefði ekki fundist
mikið vera til í afsökunarbeiðni hans. Jafnframt sagði brotaþoli að hann vissi
ekki af hverju hann hefði keyrt brotaþola heim en hann hefði átt að láta hann
labba. Þeir hefðu ekkert ræðst við eftir þetta.
Nánar spurður um atvik sagði
brotaþoli að hann hefði verið með samkvæmi fyrr um kvöldið heima hjá sér, áður
en farið var niður í bæ. Þeir hefðu svo farið fjórir saman heim til brotaþola.
Brotaþoli kvaðst hafa farið einn í rúmið og ákærði átt að sofa á stað sem var
tveimur herbergjum frá brotaþola. Jafnframt sagði brotaþoli að ákærði hefði
verið í rúminu hjá sér þegar hann vaknaði um hádegið, en ákærði hefði sofið á
brúninni á rúminu. Brotaþoli kvaðst hafa þekkt ákærða í mörg ár og þeir hefðu
verið góðir vinir og hann hefði aldrei átt von á því að ákærði myndi gera
þetta. Einnig sagði brotaþoli að ákærði hefði komið af stað kjaftasögu um sig,
þess efnis að hann hefði beðið um þetta og verið samþykkur þessu. Þá sagði
brotaþoli að fyrr um kvöldið hefði ákærði óbeint boðið brotaþola að gera þetta
við hann, en ákærði hefði sagt að hann langaði til að gera svona fyrir þá sem
honum þætti vænt um og hann hefði gert þetta við annan mann, sem hefði beðið
ákærða um að gera þetta. Brotaþoli hefði neitað og sagt að þetta væri ekki
fyrir sig. Enn fremur hefði hann sagt ákærða að hann ætti kærustu.
Brotaþoli kvaðst hafa sagt systur
sinni fyrst frá því sem hefði gerst, eftir að hann hefði ekið öllum heim, en
hann hefði farið heim til hennar. Þá hefði hann seinna um daginn eða daginn
eftir sagt B, vini sínum, hvað hefði gerst. Þá sagði brotaþoli að hann hefði
sagt kærustu sinni, sem hafi verið úti í [...], frá atvikum, kannski tveimur
dögum síðar. Einnig greindi brotaþoli frá því að einn af þeim sem gisti hjá
honum, C, hefði sagt sér frá því að hann hefði komið inn í herbergið hjá sér og
séð ákærða í rúminu. Þá kom fram hjá brotaþola að ákærði hefði fyrst sagt frá
kynhneigð sinni þegar þeir voru niðri í bæ og svo hefðu þeir rætt þetta aftur
þegar þeir komu heim til brotaþola. Ákærði hefði verið leiður út af „dæminu með
hinn“ og vegna þess að hann væri kominn út úr skápnum og brotaþoli hefði „peppað hann upp til að hafa gaman af lífinu“.
Þegar brotaþoli var spurður hvernig
hann hefði verið klæddur þegar hann fór að sofa kvaðst hann hafa verið á
nærbuxunum en það hafi verið búið að klæða hann úr þeim þegar hann vaknaði.
Ákærði hefði verið fullklæddur. Nánar um atvik þegar ákærði var undir sænginni
hjá brotaþola kvaðst brotaþoli hafa flett sænginni af sér og ýtt ákærða
einhvern veginn í burtu. Brotaþoli hefði svo vafið sig inn í sængina og velt
sér á hliðina. Brotaþoli hélt að hann hefði ekkert sagt við ákærða í fyrra
skiptið en minnti að ákærði hefði afsakað sig. Brotaþoli sagði jafnframt að
þetta væri rosalega þokukennt og hann hefði verið rosalega drukkinn. Brotaþoli
hélt að það hefðu liðið fimm mínútur þangað til ákærði byrjaði aftur og þá
hefði hann strax vitað að ákærði hafi verið að verki. Þetta hefði allt gerst á
tíu eða fimmtán mínútum. Brotaþoli kvaðst hafa vaknað með reistan
getnaðarliminn. Í seinna skiptið sem brotaþoli hefði vaknað við ákærða hefði
hann sagt við ákærða: „Hvað í ósköpunum ertu að gera, hvað ertu að pæla drengur
...“ Ákærði hefði haldið áfram að afsaka sig og brotaþoli snúið sér út í horn
og sofnað.
Um áfengisneyslu sína sagði brotaþoli
að áður en hann fór niður í bæ hafi hann drukkið 4-6 stóra venjulega
lagerbjóra, tvo Egils sterka, tvo einfalda whisky í
kók og eina vodkablöndu. Niðri í bæ hefði hann drukkið a.m.k. þrjá bjóra, eitt Tequila skot og svokallað töfrateppi með orkudrykk og
einnig „Irish Car Bomb“, en þá væri Bayley´s skot
sett út í stóran Guinnes og svo væri þetta þambað.
Þegar brotaþoli kom heim hafi hann fengið sér einn eða tvo bjóra. Hann kvaðst
hafa byrjað áfengisdrykkju um klukkan níu eða tíu um kvöldið og hætt níu um
morguninn. Hann hefði verið vankaður undir lokin, slappur og þreyttur. Um
ástand ákærða sagði brotaþoli að hann hefði verið fullur og vitlaus en ekki
ofurölvi. Spurður af hverju hann hefði ekki brugðist við á annan hátt þegar
hann vaknaði við ákærða í fyrra skiptið kvaðst hann hafa spurt sjálfan sig að
því mörgum sinnum. Hann hefði bara brugðist svona við, fengið sjokk og frosið.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu
3. október 2012. Þegar hann var beðinn um að tjá sig um sakarefnið sagði hann:
„Ja mér fannst þetta í rauninni ekki vera kynferðisbrot sko þar sem að ég fékk
bæði hér svona tilvísun um leyfi og svo fékk ég beint út sagt gjörðu svo vel.“
Ákærði teldi því ekki um neitt brot að ræða. Beðinn um að útskýra hvað hann
ætti við með „tilvísun um leyfi“ sagði ákærði að brotaþoli hefði klætt sig
sjálfur úr fötunum.
Ákærði greindi frá því að um kvöldið
hefðu þeir verið sex eða sjö saman heima hjá brotaþola. Þetta hafi verið
afmælispartí ákærða en þetta hafi ekki verið
afmælisdagurinn sjálfur. Þeir hefðu svo farið niður í bæ og svo hefðu
ákærði, brotaþoli og tveir aðrir farið aftur heim til brotaþola um nóttina, um
klukkan fimm. Þeir hefðu farið nánast strax að sofa, en brotaþoli hefði raðað
þeim niður á herbergi. Ákærði hefði lagst til hvílu í einu herberginu og
brotaþoli í öðru herbergi. Ákærði hefði ekki getað sofnað, staðið upp og ráfað
um íbúðina. Hann hefði svo farið inn í herbergið til brotaþola og spurt hvort
hann mætti fara í tölvuna þar. Brotaþoli hefði þá „murlað“
svona: „Já, já ekkert mál.“ Ákærði hefði þá sest við tölvuna og verið þar í
einhvern smátíma. Hann hefði svo lagst upp í rúm til brotaþola og þegar hann
hafi verið búinn að liggja þar í örfáar mínútur hafi hann lagt höndina á maga
brotaþola og fært hana neðar. Það hafi verið þá sem brotaþoli hafi sýnt einhver
viðbrögð. Brotaþoli hefði tekið nærbuxurnar niður og sparkað þeim frá sér.
Ákærði hefði þá „farið niður á hann“ og stundað munnmök. Ákærði hefði svo hætt
stuttu síðar, farið úr rúminu, sest í stólinn og verið með bakþanka. Hann hefði
spurt sig hvort þetta væri sniðugt og þá hefði brotaþoli tekið sængina aðeins
af sér, snert sig og sagt: „Gjörðu svo vel Ingvar.“ Ákærði hefði þá byrjað
aftur munnmök og brotaþoli fengið sáðlát. Þeir hefðu svo lagst niður og sofnað.
Þeir hefðu vaknað á sama tíma daginn eftir og þá hafi hinir strákarnir líka
verið komnir á fætur og brotaþoli skutlað þeim heim, en hann hefði keyrt sig
síðast heim. Þegar þeir hafi verið tveir einir í bílnum hafi brotaþoli sagt að
honum þætti þetta svolítið óþægilegt og þá hefði ákærði sagt: „Já fyrirgefðu
þetta átti ekki að gerast og þetta var náttúrulega aldrei planað.“ Brotaþoli
hefði sagt að hann fyrirgæfi þetta alveg en hann myndi seint gleyma þessu. Þeir
hefðu ekkert talað saman eftir þetta. Kærasta ákærða hefði hins vegar komið í
vinnuna til sín nokkrum dögum síðar. Hún hafi verið mjög reið, skammað sig og
talað um að þetta hefði verið nauðgun. Ákærði sagði jafnframt að brotaþoli
hefði ekki sýnt merki um neitt daginn eftir nema að hann hafi sagt að honum
hefði fundist þetta hafa gengið aðeins of langt. Ákærði hefði skilið þetta
þannig að þetta hefði ekki átt að gerast og þeir myndu yfirstíga þetta. Ákærði
sagði svo við yfirheyranda: „Þú veist þetta hafi ekki verið neitt merkilegt,
þetta varð aldrei neitt þú veist svona alvöru ... ég get eiginlega ekki sagt
alvöru kynlíf en þetta var, ég var í fötunum mínum allan tímann. Ég vil taka
það fram líka.“ Spurður hvernig brotaþoli hefði verið klæddur sagði ákærði að
brotaþoli hefði verið nakinn eftir að hann hafi verið farinn úr nærbuxunum og
að ákærði hefði bara haldið að þeir myndu ná að yfirstíga þetta.
Um áfengisneyslu sína sagði ákærði að
hann hefði um kvöldið heima hjá brotaþola drukkið 350 ml
af vodka blandað í orkudrykk. Þá sagði ákærði að á bar niðri í bæ hefðu þeir
prófað snúningshjól þar sem hægt var að vinna drykki og þeir hefðu unnið um 25
bjóra sem þeir hefðu skipt á milli sín. Ákærði hefði því drukkið 4 eða 5 bjóra.
Jafnframt hefði hann reykt maríhúana eða kannabis og
svo hafi honum verið boðin ein lína af amfetamíni eða spítti sem brotaþoli og C
hafi átt saman. Áfengisneyslu sína kvað ákærði hafa byrjað um áttaleytið um
kvöldið og hann hafi hætt drykkju klukkan tvö eða þrjú um nóttina. Ákærði sagði
að hann hefði verið „nett fullur“. Um ástand brotaþola sagði ákærði að hann
„var bara svona eins og venjulega í rauninni þegar hann drekkur bara mjög ...
hann var ekki í neinu óráði beint sko hann gat alveg framkvæmt hluti á
eðlilegan hátt nema hann var bara fullur“.
Spurður um ástæðu þess að hann
greindi brotaþola frá kynhneigð sinni sagði ákærði að brotaþoli hefði frétt af
því að ákærði og annar strákur hefðu átt í kynferðislegum samskiptum og spurt
hvort það væri satt. Ákærði hefði þá sagt að það væri satt og hann teldi sig
vera tvíkynhneigðan og sagt frá því sem hefði gerst. Inntur eftir því af
yfirheyranda hvort það hefði verið eitthvað svipað og með brotaþola sagði
ákærði: „Jaa að hluta til en hann sem sagt það var
líka með samþykki hans og það átti heldur ekki að eiga sér stað, það var líka
undir áhrifum áfengis og hérna eftir það þá höfum við ekki mikið talað mikið
saman sko.“ Ákærði var þá spurður hvað hann meinti með að þetta hefði ekki átt
að gerast og svaraði hann að þetta hefði bara verið einhver skyndihugdetta á
því augnabliki þegar hann lá við hliðina á þeim. Beðinn um að útskýra þetta
nánar sagði ákærði: „Bara það í rauninni, ég lagðist upp í rúm og svo byrjaði
ég að finna fyrir bara þú veist ég var að verða graður bara og langaði sem sagt
að gera eitthvað með einhverjum og í rauninni rétti bara út höndina á næstu
manneskju sem var við hliðina á mér sko og já þá byrjaði þetta. Þetta var
aldrei neitt sko neitt plan ég var ekkert búinn að hugsa út í þetta áður eða
neitt þannig sko.“ Spurður hvað brotaþoli hafi verið að gera þegar ákærði
byrjaði sagði ákærði að hann hefði bara legið við hlið sér. Þá kom fram hjá
ákærða að það hefðu liðið kannski 10 eða 15 mínútur frá því allir fóru að sofa
og þar til ákærði fór inn í herbergið til brotaþola og fór í tölvuna þar. Hann
hefði svo verið í tölvunni í kannski hálftíma áður en hann lagðist upp í hjá
brotaþola. Spurður hvort brotaþoli hefði verið vakandi allan tímann kvaðst
ákærði ekki vera alveg klár á því. Um það hvort brotaþoli hefði verið vakandi
þegar ákærði lagði hönd sína á maga hans sagði ákærði að það gæti vel verið en
það gæti líka verið að hann hafi ekki verið það. Brotaþoli hefði alla vega ekki
sýnt nein viðbrögð við því. Þá var ákærði spurður hvort hann hefði sagt við
strákana, þegar hann talaði við þá um kynhneigð sína, að hann vildi gjarnan
gera eitthvað kynferðislegt við þá. Ákærði svaraði að hann hefði minnst á það
við brotaþola að hann gæti spurt sig ef það væri eitthvað sem hann langaði til
að gera og brotaþoli sagt „nei nei“ og farið að hlæja. Þá kvaðst ákærði hafa
vitað að brotaþoli ætti kærustu.
Nánar spurður um ástæðu þess að
ákærði leit svo á að brotaþoli hefði verið samþykkur munnmökum kvaðst hann hafa
tekið því sem samþykki þegar brotaþoli hefði klætt sig úr fötunum. Fyrst
brotaþoli hafi getað tekið sig úr fötunum hljóti hann að hafa getað séð hver
þetta væri. Brotaþoli hefði farið úr nærbuxunum en hann hefði sparkað þeim með
fótunum, fyrst dregið þær aðeins niður og svo sparkað þeim frá sér. Ákærði
hefði þá byrjað munnmökin en svo hætt þar sem hann hefði fengið smá bakþanka og
hugsað að kannski væri þetta ekki rétt, af því þeir væru vinir. Kannski myndi
brotaþola ekki lítast á þetta og ákærði hafi ekki viljað hætta á að skemma
vináttu þeirra. Ákærði var þá spurður af yfirheyranda hvort hann væri með þessu
að segja að brotaþoli hafi í rauninni ekki vitað hvað hafi verið að gerast og
kvaðst ákærði ekki vera að segja það heldur að kynferðislegt athæfi passaði
ekki inn í vinasambandi. Ákærði hefði því fengið bakþanka og hugsað að hann
ætti frekar að fara að sofa en svo hafi brotaþoli sagt „gjörðu svo vel“ og
ákærði þá hugsað með sér að mögulega væri þetta bara allt í lagi og „kannski sé
þetta eitthvað sem hann vilji líka“.
Framburður ákærða var borinn undir
brotaþola hjá lögreglu 21. nóvember 2012, m.a. um fíkniefnaneyslu þeirra.
Brotaþoli sagði að það væri rétt að þeir hefðu neytt kannabis um kvöldið og C hefði
átt afgang af spítti. C hefði svo keypt um 2 g af kókaíni um klukkan þrjú um
nóttina og þeir hefðu allir fengið af því. Um áhrif þess sagði brotaþoli að
hann hefði verið meira vakandi um nóttina. Þeir hefðu klárað spíttið á milli
klukkan 11 og 12 á miðnætti. Brotaþoli kvaðst ekki vera viss hvort þeir hefðu
reykt kannabis eftir að þeir komu aftur heim til hans. Brotaþoli hefði verið
orðinn mjög þreyttur og áhrif kókaíns farin. Þá kom fram hjá brotaþola að í
fyrstu hafi hann ekki verið viss hvort hann ætlaði að kæra ákærða. Honum hefði
fundist það stór ákvörðun. Honum hefði liðið eins og búið væri að svipta hann
einhverju stolti og það hafi verið erfið hugsun að fara á lögreglustöð og kæra
slíkan atburð. Einnig kom fram hjá brotaþola að hann kannaðist ekki við að
ákærði hefði komið inn í herbergi til hans og spurt hvort hann mætti fara í
tölvuna. Brotaþoli hafi verið meðvitundarlaus eða sofandi. Hvað varðar framburð
ákærða um að brotaþoli hafi klætt sig úr nærbuxunum og sagt „gjörðu svo vel“
sagði brotaþoli að þetta hefði ekki gerst. Þá neitaði brotaþoli því að hann
hefði fengið sáðlát og ekkert hefði bent til þess. Það gæti hins vegar verið að
honum hafi risið hold í svefni. Ekki er ástæða til að rekja framburð brotaþola
frekar.
Hinn 1. október 2012 voru skýrslur
teknar hjá lögreglu af vitnunum D, systur brotaþola, C og B og hinn 20.
nóvember 2012 var tekin skýrsla af E, kærustu brotaþola. Verður vísað til
framburðar þeirra hjá lögreglu síðar, eftir því sem ástæða er til.
II.
Samkvæmt gögnum málsins kom brotaþoli
á Neyðarmóttöku 18. september 2012 og var vísað til sálfræðings, Sjafnar
Evertsdóttur. Í vottorði sálfræðingsins, dags. 25. mars 2013, segir í samantekt
að hún hafi hitt brotaþola sjö sinnum á tímabilinu 26. september 2012 til 5.
mars 2013, vegna meints kynferðisofbeldis. Brotaþola hafi verið veittur sálrænn
stuðningur og fræðsla, auk þess sem endurtekið greiningarmat hafi farið fram og
byrjað hafi verið að veita honum sérhæfða áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð.
Þá segir í vottorðinu að sálræn einkenni brotaþola samsvari einkennum sem séu
vel þekkt hjá fólki sem hafi upplifað áföll eins og nauðgun, líkamsárás,
stórslys eða hamfarir. Ef ákveðin einkenni séu enn til staðar mánuði eftir áfallið
og ef þessi einkenni valdi truflun á ýmsum sviðum daglegs lífs sé talað um
áfallastreituröskun samkvæmt alþjóðlegum greiningarkerfum. Niðurstaða
greiningarmats hafi verið sú að brotaþoli hafi verið greindur með
áfallastreituröskun og þunglyndi í kjölfar meints kynferðisofbeldis sem hafi
átt sér stað 15. september 2012. Hann hafi mætt ágætlega á meðferðartímabilinu
og unnið heimaverkefni þótt forðun hefði verið töluverð í upphafi. Hugsun hans
í viðtölum hafi virst vera skýr, hann hafi verið samkvæmur sjálfum sér og virst
einlægur í frásögn og hreinskilinn um upplifun sína. Ekki væri hægt að segja
með vissu hve langan tíma meðferð taki eða hvort bati náist og bakslag væri
nokkuð algengt í kjölfar farsællar úrvinnslu. Því sé mikilvægt að þolendur
vinni stöðugt að því að styrkja eigin bjargráð og fái stuðning fagaðila við þá
vinnu ef þörf er á.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærða og
vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst
hafa hitt brotaþola og þeir hefðu ákveðið að hann kæmi um kvöldið í teiti heim
til brotaþola. Þetta hafi verið afmælisnótt ákærða, þ.e. aðfaranótt 16.
september. Heima hjá brotaþola hafi ákærði drukkið 350 ml
af vodka sem hann hefði blandað í orkudrykk. Þá hefðu þeir reykt maríhúana og neytt amfetamíns. Þeir hefðu svo haldið niður
í bæ og haldið áfram að drekka. Eftir þetta, um klukkan fimm um nóttina, hefðu
þeir haldið heim til brotaþola en ákærði hafi ásamt tveimur öðrum ætlað að
gista þar. Rétt áður en þeir fóru heim til brotaþola hafi C, eða C og
brotaþoli, keypt aukagramm af spítti eða kókaíni og ákærði hefði fengið sér af
því ásamt þeim. Ákærði kvaðst ekki hafa neytt áfengis eftir að þeir komu heim
til brotaþola en einhverjir hefðu drukkið eitthvað, kannski einn bjór. Þá hefðu
þeir allir reykt eina jónu. Þegar allir hafi verið lagstir upp í rúm, um
klukkan sex eða hálfsjö, hafi ákærði fundið að hann gæti ekki sofnað, líklega
vegna fíkniefnaneyslunnar, og ráfað um. Hann hefði farið inn í herbergi til
brotaþola og spurt hvort hann mætti fara í tölvu sem þar var og brotaþoli
svarað játandi. Þegar ákærði hafi verið búinn að vera í tölvunni í smátíma hafi
hann lagst upp í rúm til brotaþola. Ákærði kvaðst hafa lagt hönd sína á maga
brotaþola og svo fært hana neðar. Brotaþoli hefði þá sýnt viðbrögð með því að
klæða sig úr nærbuxunum. Ákærði hefði tekið því sem samþykki og „farið niður á
hann“ og stundað við hann munnmök. Ákærði hefði hætt eftir örlitla stund þar
sem hann hefði séð að sér og ekki viljað þetta sjálfur. Þetta hefði ekki verið
rétt og hann ekki viljað hætta vináttu þeirra vegna einhvers svona. Það hafi
verið þá sem brotaþoli hefði horft á ákærða og runkað sér og sagt: „Gjörðu svo
vel Ingvar.“ Þá hafi ákærði byrjað aftur munnmök og brotaþoli fengið
fullnægingu. Þeir hefðu svo lagst niður og farið að sofa. Þeir hefðu svo vaknað
daginn eftir og brotaþoli keyrt ákærða og hina tvo heim. Fram kom hjá ákærða að
þeir hefðu allir verið „grútþunnir“.
Þá sagði ákærði að hann hefði sagt
brotaþola frá því áður en þeir fóru að sofa að hann væri tvíkynhneigður.
Spurður hvað hefði liðið langur tími frá því allir fóru að sofa og þar til
ákærði fór inn í herbergið til brotaþola sagði ákærði að það hefðu verið fimm
mínútur. Ákærða var þá bent á að hann hefði ekki reynt mikið að sofna úr því
hann var kominn í herbergi brotaþola fimm mínútum eftir að hann lagðist til
hvílu og sagði ákærði að hann hefði fundið strax að hann væri enn undir áhrifum
fíkniefnanna og hann hafi verið spenntur og æstur. Inntur eftir því hvort
brotaþoli hafi verið sofandi þegar ákærði kom inn í herbergið til hans sagði
ákærði að brotaþoli hefði alla vega svarað þegar hann spurði hvort hann mætti
fara í tölvuna. Ákærði hafi því ályktað að brotaþoli hafi ekki verið sofnaður.
Var þá borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu, um að brotaþoli hefði
muldrað „jájá“, og sagði ákærði að hann hefði ekki
opnað augun. Ákærði kvaðst hafa verið á bilinu 15-30 mínútur í tölvunni. Á
meðan hefði brotaþoli legið í rúminu. Spurður hvort brotaþoli hafi þá verið
sofandi sagði ákærði að það gæti vel verið að hann hafi alla vega verið milli
svefns og vöku. Jafnframt sagði ákærði að það hafi ekki verið nein ákvörðun á
bak við það að fara upp í rúm til brotaþola. Ákærði hefði bara staðið upp og
lagst niður. Hann kvaðst ekki geta útskýrt það á neinn skiljanlegan hátt, en
hann hefði verið orðinn dasaður og lagst niður. Á því augnabliki sem hann hafi
lokað augunum hafi hann dreymt um að gera eitthvað eða eiga í „kynferðislegu
athafni við einhvern“. Hann hefði svo lagt höndina á maga brotaþola. Brotaþoli
hefði ekki sýnt nein viðbrögð við því en um leið og ákærði hefði fært höndina
neðar hafi brotaþoli klætt sig úr nærbuxunum. Nánar tiltekið hefði brotaþoli
legið á bakinu, lyft sér upp og sparkað fótunum upp í loftið. Ákærði kvaðst
ekki hafa séð hvað hafi orðið um nærbuxurnar. Brotaþoli hefði verið með sængina
yfir sér þegar hann hafi klætt sig úr, en svo hefði hann dregið sængina af sér.
Brotaþoli hefði ekki sagt neitt á þessum tímapunkti. Ákærði kvaðst hafa farið
niður á brotaþola og stundað munnmök og brotaþoli ekki sagt neitt. Sængin hefði
þá verið við læri brotaþola. Ákærði kvaðst hafa hætt af sjálfsdáðum og sest við
tölvuna. Hann hefði hugsað að þetta væri kannski eitthvað sem hann vildi ekki
sjálfur, þ.e. að samband þeirra myndi fara út í þetta, en hann hefði aldrei
áður hugsað kynferðislega til brotaþola og hann vildi í raun ekki gera þetta
með honum. Þetta hafi bara verið „in the moment“ og hann hafi sagt „sorry“ við brotaþola og að hann hafi aldrei ætlað að gera
þetta, en þá hafi brotaþoli litið á ákærða, strokið sér og sagt: „Gjörðu svo
vel Ingvar.“ Ákærði hefði þá byrjað aftur að hafa munnmök við brotaþola, sem
hefði fengið sáðlát upp í munn ákærða og hann hefði kyngt sæðinu. Þeir hefðu
svo lagst niður og sofnað.
Ákærði sagði að eftir að brotaþoli
var búinn að keyra B og C heim hafi hann og brotaþoli rætt um að minnast ekki á
þetta við neinn og að þeir hefðu báðir séð mjög mikið eftir þessu og ákærði
hefði beðið brotaþola afsökunar, af því að honum hefði fundist að þetta hafi
verið eitthvað sem þeir vildu ekki, en ákærði hafi ekki viljað hætta vináttu þeirra
út af einhverju svona. Ákærði hafi því séð eftir þessu. Ákærði kannaðist við að
brotaþoli hefði sagt í bílnum að honum hefði liðið eins og þetta hefði verið
nauðgun. Ákærði hafi þá sagt: „Hvernig heldur þú að mér líði.“
Þá greindi ákærði frá því að kærasta
brotaþola hefði nokkrum dögum síðar komið til sín í vinnuna. Þau hefðu farið
afsíðis og hún byrjað að öskra á sig. Hún hafi sagt að þetta hefði verið
nauðgun, að ákærði væri ógeðslegur og fleira í þeim dúr. Ákærði sagði að hann
hefði aldrei komist að til að segja neitt og hann hefði alltaf kinkað kolli og
grátið. Ákærði neitaði því að hann hefði viðurkennt við kærustu brotaþola að
hann hefði gert þetta gegn vilja brotaþola. Hún hefði tekið því þannig vegna
þess að hann hefði kinkað kolli. Ákærði var spurður um ástæðu þess að hann
kinkaði kolli og kvaðst hann ekki hafa vitað hvað hann ætti að gera. Hann hefði
verið í algjöru uppnámi og grátandi. Spurður af hverju hann hefði grátið kvaðst
hann hafa verið í uppnámi og séð eftir þessu og honum finnist óþægilegt þegar
talað sé til sín háum rómi og þeim tóni sem hún hafi notað, en honum hafi
fundist eins og hann væri kúkur sem hún hafi verið að sparka í.
Um ástand brotaþola um nóttina, áður
en þeir fóru að sofa, sagði ákærði að hann hefði ekki litið út fyrir að vera
ofurölvi. Brotaþola hefði tekist að breiða yfir C og láta þá alla fá herbergi
og þeir hefðu átt náið samtal hálftíma áður, um kynhneigð ákærða. Hvað varðar
viðbrögð brotaþola við því þegar ákærði skýrði frá kynhneigð sinni sagði ákærði
að brotaþola hefði verið alveg sama og honum ekki fundist þetta neitt mál.
Þetta væri bara frábært. Jafnframt sagði ákærði að brotaþoli hefði ekki gefið í
skyn að hann hefði áhuga á karlmönnum eða að vera með ákærða. Enn fremur kvaðst
ákærði hafa vitað að brotaþoli átti kærustu. Ákærði var þá spurður hvernig
honum hafi í ljósi þessa dottið í hug að leita á brotaþola uppi í rúminu, að
leggja hönd á maga hans og færa hana á kynfærin. Ákærði svaraði því til að
þetta hefði gerst svo hratt. Hann hefði lagst upp í rúmið og engin hugsun verið
á bak við þetta. Ákærði sagði að hann hefði bara lagst upp í og fundið næstu
manneskju við hlið sér og athugað hvort það væri „einhver áhugi, í rauninni í
gegnum þessa aðferð sem ég notaði“. Hann hefði bara leikið þetta af fingrum fram.
Nánar spurður um ástæðu þess að ákærði lagðist upp í rúmið til brotaþola sagði
ákærði að hann hefði fundið þegar hann sat við tölvuna að hann vildi fara að
sofa fljótlega. Ákærði kvaðst ekki hafa lagst upp í rúmið vegna þess að hann
vildi kynferðisleg samskipti. Þá var ákærði spurður frekar um bakþanka sína
eftir að hann hafði munnmök við brotaþola í fyrra skiptið og af hverju hann
hefði aftur haft munnmök við brotaþola, úr því að hann var með bakþanka. Ákærði
sagði að sér þættu munnmök mjög spennandi og það að brotaþoli hafi viljað þau
hafi þurrkað út alla bakþanka. Ákærði hefði hugsað með sér að þetta væri
frábært, brotaþoli vildi þetta og þetta gengi þá upp, jafnvel þó að þetta myndi
bara gerast einu sinni. Spurður hvort það mætti draga þá ályktun af þessum
orðum ákærða að honum hafi þegar upp var staðið verið sama um vinskapinn sagði
ákærði að hann hefði litið svo á að þeir gætu náð að yfirstíga þetta saman og
þetta myndi ekki breyta miklu.
Brotaþoli í máli þessu, A, skýrði frá því að hann hefði boðið
í partí heim til sín á afmælisdegi
ákærða. Þeir hefðu verið nokkrir strákar saman. Þeir hefðu haldið niður í bæ.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði sagt sér að hann væri tvíkynhneigður og
brotaþoli sagt að honum þætti það bara flott hjá honum og reynt að peppa hann svolítið upp. Eftir að hafa verið niðri í bæ
hafi brotaþoli ásamt ákærða og tveimur öðrum farið heim til brotaþola. Þeir
hefðu haldið áfram að drekka og svo hefði brotaþoli vísað strákunum til rúms.
Einn hefði verið í sófanum í stofunni, annar verið í herbergi við hliðina á
brotaþola og ákærði í öðru herbergi. Brotaþoli hefði svo lokað herbergi sínu á
eftir sér, klætt sig úr öllu nema nærbuxunum og farið að sofa. Skömmu seinna,
kannski milli klukkan níu og tíu, hefði brotaþoli vaknað við umgang undir
sænginni. Þá hafi það verið ákærði sem hafi verið kominn undir sængina og átt
munnmök við brotaþola. Brotaþoli sagði að sér hefði brugðið mjög og hann hefði
verið svefndrukkinn og ekki skilið hvað væri að gerast. Hann hefði ýtt við
ákærða og rúllað sér yfir að glugganum og haldið áfram að sofa. Hann hefði
haldið að þetta væri vondur draumur. Hann hefði svo vaknað aftur við þetta og
áttað sig á því að þetta var ekki vondur draumur. Hann hefði verið með
nærbuxurnar á ökklunum og hann hefði lyft sænginni og séð hver hafi verið þarna
að verki. Hann hefði spurt ákærða hvað hann væri að gera og ákærði hefði
muldrað eitthvað um fyrirgefningu. Brotaþoli hefði svo farið aftur að sofa, en
hann hafi verið alveg búinn á því eftir daginn og nóttina. Þegar hann hefði
vaknað um hádegisbil hafi hann reynt að átta sig á því sem hafði gerst og séð
ákærða liggja ennþá uppi í rúminu. Hann hefði farið fram og svo keyrt alla
heim, en ákærði hafi verið sá síðasti sem hann keyrði heim. Í bílnum hefði hann
spurt ákærða hvað hann hafi nú verið að gera og hvort hann gerði sér grein
fyrir því að þetta hefði verið „borderline
nauðgun“.
Um áfengisneyslu sína um kvöldið og
nóttina sagði brotaþoli að áður en hann fór niður í bæ hefði hann drukkið 5-7
bjóra og fengið sér vodkablöndu og eitthvað af orkudrykk, en því fylgi mikil
ölvun. Niðri í bæ hefði hann drukkið Tequila skot,
blöndu af Guinnes og einhverju skoti. Hann hefði
einnig drukkið bjóra. Þegar heim kom hafi hann drukkið einn eða tvo bjóra.
Jafnframt sagði brotaþoli að fyrr um kvöldið, heima hjá sér, hefðu þeir reykt
kannabis og amfetamíns hefði verið neytt. Í miðbænum hafi svo verið neytt
kókaíns. Brotaþoli taldi að þeir hefðu komið heim úr miðbænum milli klukkan
fimm og sex og svo hefðu þeir spjallað og drukkið bjór. Aðspurður kvaðst
brotaþoli ekki hafa verið mjög timbraður þegar hann vaknaði en hann hefði verið
mjög miður sín. Nánar um neyslu fíkniefna sagði brotaþoli að hann hefði reykt
kannabis um kvöldið og þeir hefðu þrír neytt 1 g af amfetamíni, áður en þeir
fóru niður í bæ. Þar hefði félagi hans keypt 2 g af kókaíni. Brotaþoli kvaðst
ekki viss um hvað hann hefði notað mikið af því, en það hefði ekki verið mikið
og hann hefði fundið fyrir áhrifum. Þegar heim hafi verið komið gæti verið að
hann hafi reykt meira kannabis en hann hefði ekki fundið fyrir miklum áhrifum
þess.
Brotaþoli kvaðst hafa spjallað við
ákærða um kynhneigð hans og að honum hefði fundist ákærði svo niðurdreginn og
hann viljað peppa hann upp. Þeir hefðu m.a. rætt að
ákærði hefði haft munnmök við annan mann, með samþykki beggja, og þess vegna
hefði ákærði komið tvíkynhneigður út úr skápnum. Þá sagði brotaþoli að hann
hefði aldrei gefið í skyn kynferðislegan áhuga á ákærða. Brotaþoli væri
algjörlega gagnkynhneigður og hann ætti kærustu. Einnig sagði brotaþoli að
honum hefði fundist ákærði óbeint bjóða sér kynferðisleg samskipti og hann
hefði útskýrt fyrir honum að hann vildi ekki slíkt.
Nánar um atvik í rúmi brotaþola sagði
brotaþoli að honum hefði fundist sem kærasta sín, sem var úti í [...], væri
komin heim og hún væri að gleðja hann, en svo hafi ekki verið. Hann hefði lyft
upp sænginni, litið niður, séð ákærða hafa munnmök við sig, dauðbrugðið og allt
hefði frosið. Hann hefði ýtt við ákærða og farið aftur að sofa. Brotaþoli
kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærði hefði lagt höndina á magann og svo
kynfærin. Þá sagði brotaþoli að hann hefði ekki fengið sáðlát, alla vega ekki
svo hann viti til. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvað það hefði liðið langur tími
þar til ákærði hafði fyrst munnmök við hann og ákærði byrjaði aftur. Kannski
hafi það verið fimm mínútur og allt að hálftími, jafnvel meira.
Um líðan sína sagði brotaþoli að sér
væri búið að líða hrikalega. Hann hefði t.d. misst vinnuna sem hann var í út af
vanlíðan, en hann hafi ekki getað sinnt einföldu starfi. Hann sé búinn að
flakka á milli vinnustaða og alltaf hafi honum verið sagt upp vegna
óstöðugleika. Honum væri búið að líða rosalega illa og honum finnist sem hann
hafi verið sviptur stolti, trausti og virðingu. Hann hafi átt við kvíða að
stríða áður og þetta atvik hefði ekki gert honum gott. Heimur hans hefði hrunið
hægt og rólega eftir að þetta gerðist. Hann hefði fengið mikla hjálp hjá
sálfræðingi, auk þess sem hann hefði fengið góðan stuðning frá fjölskyldu og
vinum.
Brotaþoli greindi frá því að hann
hefði farið heim til systur sinnar eftir að hann var búinn að keyra B, C og
ákærða heim. Hann hefði þá greint henni frá því sem hefði gerst, að maður hefði
átt við hann munnmök þegar hann hafi verið sofandi. Einnig hefði hann sagt
henni að hann ætlaði ekki að leggja fram kæru. Sama dag, eða daginn eftir,
hefði brotaþoli hringt í B og sagt honum frá því sem hefði gerst. Brotaþoli
sagði einnig að hann hefði ekki strax ætlað að segja kærustu sinni frá þessu,
þar sem hann hefði ekki viljað skemma ferðina fyrir henni. Hann hefði svo sagt
henni frá þessu og hún hvatt hann til að fara á Neyðarmóttökuna og að leggja
fram kæru. Brotaþoli sagði að hann hefði í fyrstu ekki ætlað að leggja fram
kæru og haldið að þetta myndi ekki hafa áhrif á hann og lífið myndi hafa sinn
gang, en þegar liðið hafi á vikuna hafi hann séð fram á annað og hann hafi því
leitað til Neyðarmóttökunnar og sálfræðings.
Brotaþola var kynnt að B og C hefðu
hvor um sig borið um það hjá lögreglu að brotaþoli hefði sagt þeim að hann
hefði hent ákærða út úr herberginu og kvaðst hann ekki hafa sagt þetta.
Brotaþoli sagði jafnframt að hann hefði rætt atvik lítillega við B, en hann og C
hefðu ekkert rætt um þetta vegna þess að C vilji ekki tala við sig um þetta.
Einnig var borið undir brotaþola það sem fram kemur í fyrirliggjandi vottorði
Sjafnar Evertsdóttur sálfræðings varðandi vinnu hans. Nánar tiltekið að í
vottorðinu segi að hann hafi átt erfitt með að stunda vinnu sem hann var í. Hann
hafi verið yfirmaður á [...] í um tvö ár og í gegnum tíðina haldist vel á
vinnu, en eftir meint brot hafi hann ekki getað haldið utan um það starf sem
honum hafi verið ætlað vegna vanlíðunar og því þurft að segja upp. Brotaþoli
sagði að þetta væri rétt.
Vitnið
D, systir brotaþola, skýrði frá því
að brotaþoli hefði komið til sín daginn eftir meint brot og vitnið hefði strax
séð að eitthvað væri að því að hann hefði verið hvítur í framan og hagað sér
undarlega. Eftir smástund hefði vitnið spurt hvað væri í gangi og hann hefði þá
sagt frá því sem hefði gerst nóttina áður. Hann hefði skýrt frá því að hafa
verið með partí heima hjá sér eftir skemmtun niðri í bæ og vaknað við það að
honum hafi verið nauðgað. Vitnið hefði spurt hvað hefði gerst og hann hefði
sagt að það hefðu verið höfð munnmök við hann. Jafnframt sagði vitnið að mikil
breyting hefði orðið á brotaþola eftir þetta, en hann væri þyngri andlega og
ætti rosalega erfitt. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði í fyrstu ekki
ætlað að segja félögum sínum frá þessu atviki og ætlað að bíða með að segja
kærustu sinni frá þar til hún kæmi frá [...] en hann hefði svo ekki getað beðið
og greint henni frá því.
Vitnið C kvaðst hafa verið að djamma
heima hjá brotaþola, en hann hefði verið einn heima. Það hefði verið gaman,
þeir hefðu drukkið og farið niður í bæ. Þeir hefðu svo farið aftur heim til
brotaþola og drukkið meira. Vitnið hefði svo sofnað þar og farið heim daginn
eftir. Vitnið var beðið um að lýsa drykkju þeirra umrætt sinn og sagði vitnið
að þeir hefðu verið í drykkjuleikjum. Þeir hefðu svo farið niður í bæ á nokkra
bari. Þeir hefðu svo farið heim til brotaþola og þeir hefðu haldið áfram að
drekka þar. Vitnið kvaðst hafa verið fyrst til að fara að sofa, en það hefði
verið um klukkan sex um morguninn eða hálfsjö. B hefði farið að sofa á svipuðum
tíma. Spurt hvort um mikla drykkju hafi verið að ræða sagði vitnið að þeir
hefðu „alveg verið í glasi“ en vitnið hefði ekki verið við það að deyja heldur
verið í góðum fíling. Vitnið var einnig spurt hvort þeir hefðu neytt fíkniefna
og kvaðst vitnið hafa reykt gras niðri í bæ en það vissi ekki hvað hinir hefðu
gert. Þá greindi vitnið frá því að brotaþoli hefði hringt í sig daginn eftir og
sagt hvað hefði gerst og hann hefði verið mjög miður sín. Vitnið kvaðst hafa
hitt brotaþola lítið eftir þetta. Nánar um það hvað brotaþoli hefði sagt sagði
vitnið að brotaþoli hefði greint frá því að hafa vaknað við að ákærði hefði
haft munnmök við sig. Brotaþoli hefði ýtt honum frá sér og farið aftur að sofa.
Borin var undir vitnið lögregluskýrsla þar sem segir að vitnið hafi sagt hjá lögreglu
að brotaþoli hefði vaknað aftur við að ákærði hafi verið að eiga við hann
munnmök og hann hefði þá komið ákærða út úr herberginu. Vitnið sagði að það
væri langt um liðið og það gæti verið að það hefði sagt þetta. Vitnið var spurt
hvort það hefði séð ákærða sofandi í rúminu hjá brotaþola og kvaðst vitnið ekki
hafa gert það. Vitninu var þá kynnt að samkvæmt lögregluskýrslu hafi vitnið
skýrt frá því að það hefði farið inn í herbergi brotaþola eftir að það vaknaði
og séð brotaþola liggja upp við vegginn með sængina yfir sér og ákærði hafi
verið fullklæddur og legið alveg upp við rúmbríkina. Vitnið sagði að langt væri
um liðið og það myndi ekki eftir þessu. Spurt hvort örvandi fíkniefna hafi
verið neytt umrædda nótt sagði vitnið að þeir hefðu verið með spítt en það
myndi ekki eftir að þeir hefðu verið með kókaín. Jafnframt var borið undir
vitnið að í lögregluskýrslu sé haft eftir vitninu að það og brotaþoli hefðu
verið minnst drukknir þessa nótt og brotaþoli hefði verið hress og skemmtilegur
og staðfesti vitnið að hafa sagt þetta.
Vitnið B kvaðst hafa verið að djamma ásamt brotaþola, ákærða og C, en fyrr
um kvöldið hefðu verið fleiri strákar með þeim. Þeir hefðu drukkið og farið
niður í bæ og þeir hefðu svo fjórir farið í eftirpartí heima hjá brotaþola. Þar
hefðu þeir drukkið og spjallað saman. Vitnið kvaðst svo hafa sofnað í sófanum.
Þegar vitnið vaknaði hefði það séð brotaþola og hann hefði litið út fyrir að
vera utan við sig. Brotaþoli hefði ekki sagt neitt, sem hefði verið skrýtið, og
skutlað vitninu heim. Brotaþoli hefði svo hringt í vitnið daginn eftir og beðið
sig um að koma út, en brotaþoli hefði verið fyrir utan heimili vitnisins.
Brotaþoli hefði sagt vitninu frá því að hann hefði dreymt að kærasta sín væri
að eiga við sig munnmök en hann hefði svo vaknað upp og ýtt ákærða frá sér.
Brotaþoli hefði farið aftur að sofa og vaknað aftur upp við ákærða að hafa við
sig munnmök. Jafnframt kom fram hjá vitninu að brotaþoli hefði átt erfitt þegar
hann sagði frá þessu og hann hefði tárast. Spurt um tímasetningar sagði vitnið
að þeir hefðu komið heim til brotaþola eftir lokun skemmtistaða niðri í bæ og
vitnið hefði sofnað að það hélt um klukkan sex eða sjö. Vitnið var spurt hvort
það væri rétt haft eftir því í lögregluskýrslu, en þar segir að vitnið hefði sagt
að brotaþoli hefði skýrt frá því að eftir að hann vaknaði í seinna skiptið við
ákærða hefði hann rekið ákærða út úr herberginu. Vitnið sagði að svo væri en
tók jafnframt fram að langt væri um liðið. Innt eftir fíkniefnaneyslu sagði
vitnið að þeir hefðu reykt jónu og eitthvað spítt verið í gangi. Það gæti
einnig verið að þeir hafi verið með kókaín. Sérstaklega um neyslu brotaþola
sagði vitnið að hann hefði reykt undir lok kvöldsins og það gæti verið að hann
hefði tekið spítt eða kókaín. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð neitt
kynferðislegt milli ákærða og brotaþola um kvöldið. Jafnframt sagði vitnið að
brotaþoli hafi verið nýbyrjaður með stelpu sem hann hafi verið búinn að vera
mjög hrifinn af lengi. Einnig greindi vitnið frá því að brotaþoli hefði lokað herberginu,
þar sem hann svaf, á eftir sér. Vitnið hefði verið í tölvunni þegar brotaþoli
hafi ætlað að fara að sofa og hann hefði rekið vitnið út.
Vitnið E, unnusta brotaþola, kvaðst hafa verið stödd í [...] þegar
brotaþoli hefði hringt, á mánudegi að því er vitnið hélt. Vitnið kvaðst ekki
muna nákvæmlega hvernig brotaþoli hefði skýrt frá því sem hefði gerst, en þetta
hefði verið mikið sjokk fyrir vitnið. Borin var undir vitnið lögregluskýrsla
þar sem segir að vitnið hafi sagt að brotaþoli hefði greint frá því að hafa
vaknað við að ákærði væri með typpi brotaþola uppi í sér. Brotaþoli hefði ýtt
ákærða frá sér og ekki verið alveg viss hvað hafi verið að gerast. Hann hefði
svo snúið sér á hina hliðina en aftur vaknað upp við að ákærði hafi verið að
gera þetta. Brotaþoli hefði síðan vaknað um morguninn og ákærði þá verið við
hlið hans í rúminu. Vitnið sagði að þetta væri rétt og brotaþoli hefði ekki
vitað hvað hann átti að gera. Fram kom hjá vitninu að það hefði komið frá [...]
20. september. Þá sagði vitnið að það hefði farið degi síðar, 21. september, á
vinnustað ákærða. Vitnið kvaðst hafa verið ótrúlega reitt og sárt og það hefði
viljað fá að heyra frá ákærða hvað hefði gerst. Vitnið hefði spurt ákærða hvort
hann hefði gert þetta og ákærði hefði svarað já. Annars hefði ákærði sagt
lítið. Vitnið hefði m.a. sagt við ákærða að hann hafi vitað að brotaþoli var
sofandi og ákærði sagt „já“. Einnig hefði ákærði grátið. Spurt af verjanda
hvort það mætti segja að vitnið hefði hellt sér yfir ákærða kvaðst vitnið ekki
hafa gert það, en vitnið hefði hins vegar verið mjög reitt og það hefði
örugglega sagt eitthvað sem það hefði ekki átt að segja. Um líðan brotaþola
sagði vitnið að hann ætti erfitt með svefn og samskipti hans við fólk hefðu
dalað. Þá forðist hann erfiðar aðstæður og væri þungur andlega. Aðspurt
staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu um að brotaþoli hefði í fyrstu ekki
viljað leggja fram kæru en vitnið hefði hvatt hann til þess.
Vitnið Sjöfn Evertsdóttir sálfræðingur sagði að samkvæmt greiningarmati sínu
á líðan brotaþola, eftir meint kynferðisofbeldi, hafi hann þjáðst af
áfallastreituröskun í kjölfar þess og þunglyndi. Hann hafi verið í meðferð og
það sé fyrirséð að hann verði áfram í meðferð þar sem hann upplifi enn öll
greiningarviðmið áfallastreituröskunar. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði
verið mjög samkvæmur sjálfum sér og einlægur í frásögn sinni. Hann hefði sýnt
veruleg dofaeinkenni í byrjun og átt erfitt með að trúa því hvað hefði gerst.
Líðan hans hefði svo versnað töluvert og hann væri enn að upplifa alvarleg
áfallastreitueinkenni. Um batahorfur brotaþola sagði vitnið að það væri erfitt
að segja til um þær.
Vitnið F greindi frá því að brotaþoli hefði verið fastráðinn starfsmaður
hjá [...] en hann hefði oft hætt og svo byrjað aftur. Hann hefði verið búinn að
segja upp föstu starfi sínu fyrir september 2012 og alveg hætt í nóvember það
ár. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði um tíma starfað sem yfirmaður en hætt
því í maí eða júní 2012.
Vitnisburður F var kynntur brotaþola
og sagði hann að það væri rétt að hann hefði sagt upp starfi sínu fyrir
september 2012. Ástæða þess hefði verið sú að hann hefði óvænt farið til [...]
um mánaðamótin júní/júlí 2012, þ.e. hann hefði í raun stungið af, og komið
aftur en þá hafi fólk þar verið brjálað út í sig og hann hafi því sagt upp.
Hann hefði svo rætt við F um að fá að koma aftur. Það hefði staðið þannig á að
starfsmaðurinn sem tók við af brotaþola hefði slasast í vinnunni og brotaþoli
hafi þá fengið vinnu sem afleysingamaður, en það hefði samt verið yfirmannsstaða.
Brotaþoli hefði svo þurft að hætta starfinu vegna vanlíðunar eftir meinta
nauðgun.
IV.
Ákærði neitar sök. Samkvæmt því sem
fram er komið í málinu virðist meint brot hafa átt sér stað aðfaranótt
laugardagsins 15. september 2012, en ekki aðfaranótt sunnudags sem var 16.
september. Hvora nóttina sem þetta hefur verið þá hefur það ekki sérstaka
þýðingu í málinu og vörn ákærða hefur í engu verið áfátt vegna þessa annmarka í
ákæru.
Eins og rakið hefur verið var
samkvæmi heima hjá brotaþola. Samkvæmt framburði ákærða og brotaþola hófu þeir
neyslu áfengis um klukkan átta um kvöldið og var mikið drukkið. Þeir fóru svo
ásamt fleirum niður í bæ og þar var haldið áfram drykkju. Líklega hefur klukkan
verið fimm um nóttina þegar ákærði, brotaþoli, B og C fóru aftur heim til
brotaþola og hélt brotaþoli áfram drykkju, en hann hefur drukkið einn eða tvo
bjóra. Þá hefur komið fram í málinu að þeir hafi neytt fíkniefna. Nánar
tiltekið kveðst brotaþoli hafa reykt kannabis fyrr um kvöldið, heima hjá sér,
og neytt amfetamíns. Einnig hafi hann fengið sér kókaín í miðbænum og það gæti
verið að hann hafi reykt kannabis þegar hann kom heim til sín um nóttina.
Brotaþoli kveður að um lítið magn fíkniefna hafi verið að ræða og fær það
stuðning í vitnisburði B og C fyrir dómi.
Ákveðið hafði verið að ákærði, B og C
myndu gista heima hjá brotaþola og einhvern tímann á tímabilinu frá klukkan sex
til sjö um morguninn vísaði brotaþoli þeim á svefnstaði sína og átti ákærði að
gista í herbergi sem var nokkru frá brotaþola. Ákærði kveðst ekki hafa getað
sofnað. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði hann að það hefðu liðið 10-15
mínútur frá því allir fóru að sofa og þar til hann fór inn í herbergi til
brotaþola og spurði hvort hann mætti fara í tölvuna þar. Fyrir dómi gerði hann
minna úr tímanum sem leið og sagði að það hefðu verið fimm mínútur. Þá hefur
ákærði greint frá því að brotaþoli hafi ekki opnað augun og muldrað já. Ákærði
kveðst hafa verið í tölvunni í 15-30 mínútur og allan þann tíma hafi brotaþoli
legið hreyfingarlaus í rúminu. Framburður ákærða fyrir dómi um ástæðu þess að
hann lagðist upp í hjá brotaþola er mótsagnakenndur. Fyrst sagði hann að engin
sérstök hugsun hefði verið á bak við það en sagði svo að hann hefði verið
dasaður. Samt sem áður hafi hann langað til að eiga í „kynferðislegu athæfi við
einhvern“. Hann kveðst hafa lagt höndina á maga brotaþola sem sýndi engin
viðbrögð. Ákærði hafi svo fært höndina á kynfæri brotaþola og þá hafi brotaþoli
klætt sig úr nærbuxunum en ekki sagt neitt. Ákærði hafi svo haft munnmök við
brotaþola en hætt af sjálfsdáðum og sest aftur við tölvuna, vegna þess að hann
hafi verið með bakþanka, þ.e. ekki verið viss hvort hann vildi þetta sjálfur.
Ákærði kveðst hafa sagt „sorry“ við brotaþola, en þá
hafi brotaþoli sagt við ákærða „gjörðu svo vel Ingvar“ og ákærði haft aftur við
hann munnmök.
Brotaþoli lýsir hins vegar atvikum
þannig að hann hafi vaknað við að ákærði var undir sæng sinni að hafa við sig
munnmök. Brotaþoli hafi verið svefndrukkinn og ýtt við ákærða, vafið um sig
sængina, fært sig upp að vegg og haldið áfram að sofa. Hann hafi svo vaknað
aftur við að ákærði var að hafa munnmök við sig. Hann hafi þá spurt ákærða hvað
hann væri að gera og ákærði muldrað eitthvað um fyrirgefningu. Brotaþoli hefði
svo farið aftur að sofa. Brotaþoli neitar því alfarið að hafa klætt sig úr
nærbuxunum eða sagt „gjörðu svo vel“ við ákærða.
Fram hefur komið í málinu að ákærði
hafði fyrr um kvöldið eða nóttina minnst á það við brotaþola að hann gæti alveg
spurt sig ef hann langaði til að gera eitthvað kynferðislegt með sér en
brotaþoli hafi svarað neitandi. Þá vissi ákærði að brotaþoli átti kærustu.
Þrátt fyrir þetta lagðist ákærði upp í rúm hjá brotaþola og leitaði á hann. Í
ljósi þess að brotaþoli hafði neytt mjög mikils magns áfengis frá því klukkan
átta kvöldið áður og fór ekki að sofa fyrr en í fyrsta lagi klukkan sex um
morguninn fær það fyllilega staðist að hann hafi ekki getað spornað við
kynferðismökunum vegna ölvunar og svefndrunga. Þá hefur ákærði sjálfur lýst því
að brotaþoli hafi sýnt öll merki þess að hafa verið sofandi þegar hann lagði
hönd sína á maga og kynfæri brotaþola. Að þessu virtu og samkvæmt því sem fram
hefur komið í málinu er engin ástæða til að ætla að brotaþoli hafi í raun verið
vakandi vegna áhrifa örvandi efna.
Brotaþoli hefur greint frá atvikum
með sama hætti hjá lögreglu og fyrir dómi og verið einlægur og trúverðugur í
frásögn sinni. Að mati dómsins er engin ástæða til að efast um trúverðugleika
hans þótt hann kunni að hafa sagt við B og C að hann hafi rekið ákærða út úr
herberginu. Það dregur heldur ekki úr trúverðugleika brotaþola að hann hafi
ekki að fyrra bragði greint frá fíkniefnanotkun við skýrslutöku hjá lögreglu.
Þá hefur brotaþoli gefið skýringar á ósamræmi sem virtist vera í framburði hans
og vitnisins F um starfslok hans hjá [...]. Öll hegðun brotaþola bæði fyrir og
eftir meint brot bendir eindregið til þess að hann hafi ekki verið samþykkur
kynmökunum við ákærða. Skal í þessu sambandi áréttað að hann hafði sagt við
ákærða að hann hefði ekki kynferðislegan áhuga á ákærða og vitnið B hefur borið
um það að hafa tekið eftir því þegar þeir vöknuðu um hádegið og brotaþoli
keyrði vitnið heim að ekki væri allt með felldu. Brotaþoli greindi B svo frá
því sem gerðist sama dag eða degi síðar. Vitnið C hefur einnig borið um að brotaþoli
hafi sagt sér frá broti ákærða degi síðar og að hann hafi verið mjög miður sín.
Jafnframt hefur komið fram að brotaþoli fór sama dag og brotið átti sér stað
til D, systur sinnar, og hefur hún vitnað um að greinilega hefði eitthvað verið
að og þegar hún hafi gengið á hann hafi hann skýrt henni frá atvikum. Enn
fremur styður vitnisburður Sjafnar Evertsdóttur sálfræðings framburð brotaþola
um að ákærði hafi haft við hann munnmök gegn vilja hans, en vitnið bar um að
brotaþoli hafi öll greiningarviðmið áfallastreituröskunar. Auk þess telur
dómurinn ýmislegt í framburði ákærða styðja sakfellingu, eins og það að hann
bað brotaþola afsökunar fyrst eftir að hann hafði munnmök við hann, aftur þegar
brotaþoli keyrði hann heim og hann kinkaði kolli þegar kærasta ákærða bar upp á
hann sakir nokkrum dögum síðar. Er áleitin sú spurning af hverju hann gerði
allt þetta ef brotaþoli var kynmökunum samþykkur og hefur ákærði að mati
dómsins ekki gefið trúverðugar skýringar á þessu háttalagi.
Þegar litið er til alls framangreinds,
framburðar ákærða, sem dómurinn telur ótrúverðugan, trúverðugs framburðar
brotaþola, sem fær stuðning í framburði vitna, er sannað svo hafði sé yfir
skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin
að sök í ákæru. Er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
V.
Ákærði er fæddur [...] 1992. Samkvæmt
sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að hann hefur gerst sekur um
alvarlegt brot og horfir það til refsiþyngingar. Á móti kemur að hann var ungur
að árum er hann framdi brotið. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í
15 mánuði. Vegna alvarleika brotsins kemur ekki til álita að skilorðsbinda
refsingu hans að neinu leyti.
Í málinu liggur fyrir bótakrafa
brotaþola, að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur
fyrir kynferðisbrot og ber hann skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja
má til hinnar refsiverðu háttsemi. Fyrir liggur vottorð sálfræðings um
alvarlegar afleiðingar brots ákærða á andlega líðan brotaþola og að ekki sé
hægt að segja til um hvort og hvenær brotaþoli nær bara. Þykja miskabætur
brotaþola hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Upphafstími vaxta skal vera 23.
september 2012, eins og krafist er í ákæru, en dráttarvextir skulu reiknast frá
3. nóvember 2012 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða
hjá lögreglu, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Með vísan til 218. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála ber ákærða að greiða sakarkostnað. Um er að ræða
þóknun verjanda, sem er hæfilega ákveðin 439.250 krónur, að meðtöldum
virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns, sem er ákveðin 251.000 krónur, að
meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir
Sandra Baldvinsdóttir, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ingvar Hreiðarsson, sæti
fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði A 800.000 krónur ásamt
vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá
23. september 2012 til 3. nóvember 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 690.250 krónur í
sakarkostnað, þar með talda 439.250 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Hauks
Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, og 251.000 króna þóknun réttargæslumanns
brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns.