Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 24. janúar 2014. |
|
Nr. 16/2014.
|
Gísli Guðfinnsson (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Jakobi Adolf Traustasyni (sjálfur) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni G um dómkvaðningu matsmanns í máli J á hendur honum sem rekið væri fyrir Hæstarétti. Vísað var til þess að í málinu lægi fyrir matsgerð dómkvadds manns og að G hefði ekki leitast við að hnekkja niðurstöðu hennar með yfirmati. G var ekki talinn hafa sýnt fram á hvaða tilgangi hin nýja matsgerð ætti að þjóna til sönnunar um atvik svo að þýðingu gæti haft við úrlausn málsins sem rekið væri fyrir Hæstarétti. Var beiðni G því hafnað.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2013 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja sérfróðan mann til að framkvæma umbeðið mat. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara gerir hann kröfu um að matið lúti aðeins að nánar greindu skjali og jafnframt að hafnað verði að mat fari fram samkvæmt tveimur tilteknum matsliðum. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Í fyrsta lið matsbeiðni sóknaraðila er óskað eftir að matsmaður skoði tilgreinda tölvu varnaraðila og lýsi því hvort fimm skjöl eða skjöl, sem beri með sér að vera drög að þeim skjölum, finnist í tölvunni eða hvort líklegt sé að þau hafi verið vistuð og unnin í henni. Í öðrum lið beiðninnar er farið fram á að matsmaður yfirfari gögn um rannsókn lögreglu á tölvunni og gögnum úr henni, afli frekari upplýsinga um rannsóknina, leggi mat á hana og geri á nánar tiltekinn hátt samkvæmt fimm stafliðum grein fyrir því hvernig hún var unnin og hvort ákveðin atriði hafi verið rannsökuð. Að lokum er þess beiðst að matsmaður láti í té sérfræðilegt álit á því hvort rannsókn lögreglu á tölvu varnaraðila hafi verið unnin í samræmi við kröfur sem gerðar eru til rannsóknar rafrænna gagnamiðla og nánar er lýst í beiðninni.
Af þeim fimm skjölum, sem um ræðir í fyrsta matslið, er fyrst að telja yfirlýsingu 8. febrúar 2008, þar sem nafngreindar systur sóknaraðila, sem jafnframt eru hálfsystur varnaraðila, lýstu því yfir að faðir systranna og sóknaraðila, sem er látinn, hafi gefið varnaraðila „alla landeign sína í Hróarsholtstorfu Flóahreppi Árnessýslu“. Í annan stað er um að ræða afsal og yfirlýsingu systranna 3. maí 2008, þar sem fram kom að þær væru sáttar við að varnaraðili hafi fengið „Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppur“ að gjöf frá föður þeirra. Jafnframt var þar kveðið á um að þær afsöluðu sér „öllu tilkalli og eignarrétti“ að landinu til varnaraðila og lýstu hann löglegan eiganda þess. Í þriðja og fjórða lagi er um að ræða tvö umboð 7. febrúar 2008 frá annarri systurinni til hinnar til að undirrita framangreindar yfirlýsingar. Fimmta skjalið er yfirlýsing 20. febrúar 2012 þess efnis að áðurnefndar yfirlýsingar systranna frá 8. febrúar og 3. maí 2008 væru ógildar. Undir það skjal er ritað nafn varnaraðila sem heldur því fram að undirskrift sín sé fölsuð.
Sóknaraðili óskaði 9. nóvember 2012 eftir dómkvaðningu sérfróðs manns til að skoða og lýsa undirritun varnaraðila á samanburðargögnum annars vegar og undirritun á fyrrnefnda yfirlýsingu frá 20. febrúar 2012 hins vegar. Þá skyldi matsmaður lýsa mun á þessum undirritunum ef einhver væri. Í öðru lagi ætti matsmaður að leggja mat á hvort undirskrift varnaraðila á yfirlýsingunni væri ósvikin. Í þriðja lagi skyldi matsmaður leggja mat á hvort ætla mætti að varnaraðili hafi vísvitandi ritað undir yfirlýsinguna á þann hátt að draga mætti í efa að undirritunin væri ósvikin. Í matsgerð 22. janúar 2013 komst hinn dómkvaddi maður í fyrsta lagi að þeirri niðurstöðu að fyrirsynjuð undirskrift varnaraðila væri ekki í samræmi við bein og óbein rithandarsýni hans. Skorti hina fyrirsynjuðu nafnritun það skriftarflæði sem samanburðargögnin hafi og eins væri misræmi í formi einstakra stafa. Í öðru lagi var það niðurstaða matsmanns að hin fyrirsynjaða nafnritun varnaraðila bæri merki tæknilegrar fölsunar og væri ekki í skriftarlegu samræmi við samanburðargögnin og gæfi ekki tilefni til að efast um sannleiksgildi fyrirsynjunar hans á ritun hennar. Að lokum sagði í matsgerðinni að matsmaður tæki ekki afstöðu til þess hvort varnaraðili kynni að hafa undirritað skjalið eigin hendi og breytt rithönd sinni með það í huga að synja fyrir hana síðar. Hafi umrædd undirskrift verið gerð á þann hátt væri um teikningu að ræða fremur en skrift og því ekki skriftarlegar forsendur til að ákvarða höfund hennar. Matsmaðurinn kom síðar fyrir dóm þar sem hann staðfesti matsgerðina.
Sóknaraðili hefur ekki leitast við að hnekkja niðurstöðu áðurgreindrar matsgerðar með yfirmati, heldur lýtur matsbeiðni hans að atriðum er varða tilurð yfirlýsingarinnar frá 20. febrúar 2012 og þá sérstaklega hvernig lögregla hafi staðið að rannsókn á tölvu varnaraðila í því skyni að leiða í ljós hvort skjalið hafi verið vistað og unnið í henni, en ekki hvort varnaraðili hafi ritað undir yfirlýsinguna. Þá eru yfirlýsingarnar frá 8. febrúar og 3. maí 2008 undirritaðar og vottfestar sem og fyrrnefnd umboð. Er því hvorki borið við af hálfu sóknaraðila að þessi fjögur skjöl séu efnislega röng né að undirritanir á þeim séu falsaðar.
Að framangreindu virtu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á hvaða tilgangi umbeðin matsgerð eigi að þjóna til sönnunar um atvik svo að þýðingu geti haft við úrlausn hæstaréttarmáls nr. 87/2010. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest þegar af þeirri ástæðu.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gísli Guðfinnsson, greiði varnaraðila, Jakobi Adolf Traustasyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2013.
Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 19. júní sl., hefur matsbeiðandi, Gísli Guðfinnsson, Mossins gate 1, Gamle Fredrikstad, Noregi, óskað þess, með vísan til IX. og XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður, sérfróður um rannsóknir rafrænna gagnamiðla með því markmiði að bera kennsl á, varðveita, endurheimta, greina og setja fram staðreyndir um innihald gagnamiðlanna (e. computer forensics), til að svara matsspurningum sem tilgreindar eru í beiðninni. Þá krefst matsbeiðandi málskostnaðar úr hendi matsþola.
Endanlegar dómkröfur matsþola, Jakobs Adolfs Traustasonar, Barónsstíg 3, Reykjavík, eru þær aðallega að matsbeiðni verði vísað frá dómi, til vara að synjað verði beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns en til þrautavara að matið lúti aðeins að dómskjali nr. 23 og jafnframt að hafnað verði að matsmaður megi framkvæma það sem greinir í 2. og 3. lið í kafla matsbeiðni með fyrirsögninni ,,Það sem meta skal‟. Þá krefst matsþoli málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda.
Málið var tekið til úrskurðar 13. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Efni matsbeiðni
Í matsbeiðni er rakið að 11. október 2007 hafi Guðfinnur Kr. Gíslason, faðir matsbeiðanda, látist. Guðfinnur hafi látið eftir sig þrjú börn, matsbeiðanda, Maríu Guðfinnsdóttur og Gerði Guðfinnsdóttur. Matsþoli sé hálfbróðir þeirra systkinanna, sammæðra.
Matsbeiðandi og systur hans hafi verið lögerfingjar Guðfinns. Systurnar hafi þó viljað til að matsþoli fengi eitthvað í sinn hlut úr dánarbúi stjúpföður síns og hafi þær nefnt þessa hugmynd við matsþola.
Meðal eigna dánarbúsins hafi verið landið Hróarsholt 2, spilda, í Flóahreppi, með landnúmerið 186037. Í janúar 2008 hafi matsþoli lagt til við Maríu að hann myndi fá þetta land afhent sér til eignar og hafi það í kjölfarið nokkuð verið rætt á milli systranna og matsþola. Matsþoli hafi fullyrt að verðmæti landspildunnar væri ekki meira en tíu milljónir króna. Með hliðsjón af þessu verðmætamati og heildareignum dánarbúsins hafi systurnar talið sanngjarnt að matsþoli fengi landið.
Í febrúar og maí 2008 hafi María undirritað, fyrir sína hönd og systur sinnar samkvæmt tveimur umboðum, annars vegar yfirlýsingu og hins vegar afsal og yfirlýsingu þar sem því var lýst yfir að Guðfinnur hefði samþykkt að gefa matsþola landið að dánargjöf og þar sem hlutum í landinu óskiptu var afsalað til matsþola.
Matsbeiðandi og systur hans hafi fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi Guðfinns í lok maí 2008. Systrunum hafi þá verið orðið ljóst að verðmæti landsins væri mun meira en tíu milljónir króna og að matsbeiðandi hefði aldrei fallist á þennan gjafagerning. Samþykki hans hefði alltaf verið ein af grundvallarforsendum þess að af honum yrði. Með skiptayfirlýsingu, dags. 29. maí 2008, hafi landinu verið skipt í jöfnum hlutföllum á milli matsbeiðenda og Gísla bróður þeirra [sic].
Í kjölfarið hafi þau skipt út úr landinu spildu sem hafi fengið landnúmerið 217808 og hafi hún fengið nafnið Hróarsholt 2, spilda 2 og sé 46,4 hektarar að stærð. Eftir það hafi landið verið 78 hektarar að stærð. Hróarsholt 2, spilda 2, hafi verið seld 18. desember 2008 fyrir 29.232.000 krónur, sem séu 630.000 krónur á hektara. Síðar hafi matsbeiðandi og systur hans aflað matsgerðar sem hafi staðfest að verð í þessum viðskiptum hefði svarað til verðmætis landsins. Heildarverðmæti beggja spildnanna samkvæmt þessu hafi verið 76 milljónir króna en verðmæti allra eigna dánarbúsins hafi verið um 116 milljónir króna.
Systurnar hafi höfðað mál gegn matsþola til þess að fá framangreindar yfirlýsingar ógiltar með dómi. Héraðsdómur hafi fallist á kröfur þeirra en með dómi Hæstaréttar Íslands 26. janúar 2012 í máli nr. 84/2011 hafi matsþoli verið sýknaður af kröfum systranna.
Matsþoli hafi höfðað mál á hendur matsbeiðanda í því skyni að fá viðurkenndan eignarrétt sinn að stærri landspildunni. Málið sé nú rekið fyrir Hæstarétti og sé nr. 87/2010 í málaskrá réttarins. Eftir að fyrrnefndur dómur var kveðinn upp 26. janúar 2012 hafi María haft samband við matsþola og óskað eftir því að teknar yrðu upp viðræður um að systkinin greiddu matsþola tiltekna fjárhæð gegn því að málarekstur yrði látinn niður falla. María hafi hitt matsþola tvisvar í febrúarmánuði 2012. Fyrri fundur þeirra hafi líklega verið á sunnudegi 19. febrúar. Á þeim fundi hafi María boðið matsþola peningagreiðslu gegn því að matsþoli krefðist ekki hlutdeildar í landinu en matsþoli hafi ekki svarað tilboðinu á fundinum. Síðari fundurinn hafi verið haldinn daginn eftir. Þá hefði matsþoli útbúið yfirlýsingu, dagsetta þann dag, 20. febrúar 2012, sem hann hafi lagað til meðan María hafi dvalið hjá honum en þó ekki að henni ásjáandi. Matsþoli hafi afhent Maríu yfirlýsinguna, en þar sé tekið fram að matsþoli muni ekki nýta sér yfirlýsingarnar frá árinu 2008 og vísað í ótilgreint samkomulag hans við systurnar. Hið ótilgreinda samkomulag sem matsþoli vísi til hafi falist í því að þær myndu greiða honum 20 milljónir króna gegn því að hann nýtti sér ekki yfirlýsingarnar. Við móttöku yfirlýsingarinnar hafi María afhent matsþola tvær milljónir króna í peningum. Það fé hefði hún tekið út af bankareikningum sínum og Gerðar í von um að samkomuleg næðist við matsþola. Eftirstöðvar fjárhæðarinnar skyldi greiða síðar.
María hafi afhent lögmanni matsbeiðanda yfirlýsinguna 21. febrúar sl. [sic] Þegar lögmaðurinn hafi haft samband við matsþola þann sama dag til að ráðgast um það hvernig dómsmálið fyrir Hæstarétti skyldi fellt niður hafi matsþoli ekki kannast við að hafa undirritað skjalið. Hinn 27. febrúar 2012 hafi matsþoli kært til lögreglu meinta fölsun á yfirlýsingunni. Hinn 28. júní 2012 hafi matsbeiðandi og systur hans kært til lögreglu ranga yfirlýsingu matsþola í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti um að hann hefði ekki samið og undirritað yfirlýsinguna frá 21. febrúar og að hann hefði ekki samið eldri yfirlýsingarnar og umboðin.
Hinn 19. desember 2012 hafi lögregla lagt hald á tölvu matsþola vegna rannsóknar í tilefni af framangreindri kæru og í kjölfarið rannsakað hana. Daginn eftir hafi lögmaður matsþola lagt inn til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu um afléttingu haldlagningarinnar. Hinn 21. desember 2012 hafi lögregla afhent matsþola tölvuna. Skýrsla lögreglu um lögreglurannsóknina sé dagsett 17. janúar sl. Í henni komi fram að við rannsóknina hafi fundist í tölvu varnaraðila skjal sama efnis og yfirlýsing er María Guðfinnsdóttir ritaði undir og sé dagsett 8. febrúar 2008. Hið eina sem sé frábrugðið með skjölunum tveim sé að neðst á skjalinu er fannst í tölvu matsþola sé texti er tengist þeim texta sem sé í meginmáli yfirlýsingarinnar. Hinn 7. janúar sl. hafi lögmaður matsþola sent héraðsdómi bréf og krafist þess m.a. að dómurinn hefði afskipti af rannsókninni og að hún yrði felld niður. Þessi krafa sýnist hafa verið tekin fyrir í héraðsdómi 21. janúar sl. undir málsnúmerinu R-9/2013. Hinn 25. janúar sl. hafi lögreglustjóri fellt rannsóknina niður. Í þinghaldi í máli R-9/2013 31. janúar sl. hafi matsþoli afturkallað kröfur sínar. Hvorki matsbeiðanda né systrum hans hafi á þessum tíma verið kunnugt um afskipti matsþola af lögreglurannsókninni.
Með bréfi, dags. 7. febrúar sl., hafi matsbeiðandi óskað eftir því að rannsóknin yrði endurupptekin. Beiðninni hafi verið synjað með bréfi lögreglustjórans, dags. 19. febrúar sl. Matsbeiðandi hafi kært niðurfellingu rannsóknarinnar með bréfi, dags. 22. febrúar sl. en með bréfi ríkissaksóknara, dags. 22. mars sl., hafi niðurfellingin verið staðfest.
Haustið 2012 hafi matsbeiðandi höfðað vitnamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að leiða nokkur vitni í því skyni að leggja skýrslur þeirra fram í fyrrnefndu Hæstaréttarmáli. Með vísun til áskilnaðar í beiðninni hafi matsbeiðandi óskað eftir því í þinghaldi í vitnamálinu 15. mars sl. að leiða sem vitni Steinar Kristján Ómarsson lögreglumann sem hafi stjórnaði rannsókn á tölvu matsþola. Varnaraðili hafi mótmælt því að vitnaleiðslan færi fram. Héraðsdómur hafi úrskurðað að vitnaleiðslan skyldi fara fram en með dómi Hæstaréttar 3. júní sl. í máli nr. 321/2011 hafi úrskurðurinn verið felldur úr gildi.
Áður en Hæstaréttarmálið nr. 87/2010 verður flutt sé matsbeiðanda nauðsynlegt að afla mats- og skoðunargerðar sem leiði í ljós hvort yfirlýsingu, dags. 8. febrúar 2008, afsal og yfirlýsingu, dags. 3. maí 2008, og tvö umboð, dags. 7. febrúar 2008, sé að finna á tölvu varnaraðila, hafi verið að finna á henni eða hvort líklegt sé að þessi skjöl hafi verið unnin á hana. Reynist matsmanni ekki unnt að láta í té mats- og skoðunargerð er leiði þetta í ljós sé nauðsynlegt að matsmaður láti í té álit á því hvort rannsókn lögreglu á tölvu matsþola hafi verið faglega unnin. Fyrirhugað sé að leggja matsgerð hins dómkvadda matsmanns fram sem sönnunargagn í Hæstarétti í máli nr. 87/2010 í því skyni að færa sönnur á þá fullyrðingu matsbeiðanda að yfirlýsingin, dags. 20 febrúar 2012, hafi verið undirrituð af matsþola og að matsþoli hafi samið yfirlýsingar, dags. 8. febrúar 2008 og 3. maí 2008, og tvö umboð, dags. 7. febrúar 2008.
Þess sé óskað að matsmaður láti í té ítarlega, rökstudda og skriflega mats- og skoðunargerð um eftirfarandi atriði:
- ,,Þess er óskað að matsmaður skoði tölvu matsþola, þ.e. gráa borðtölvu með 40GB Western Digital hörðum diski, og lýsi því hvort eitthvert þeirra skjala er greinir á fylgiskjölum 1 - 5 með beiðni þessari eða skjöl er bera með sér að vera undanfari eða drög að þeim skjölum finnist á tölvunni eða hvort líklegt sé að þau hafi áður verið vistuð á henni, m.a. hvort líklegt er þau hafi verið unnin á tölvuna. Þess er sérstaklega óskað að matsmaður viðhafi í alla staði sérfræðilegar aðferðir sem beitt er við rannsóknir rafrænna gagnamiðla með því markmiði að bera kennsl á, varðveita, endurheimta, greina og setja fram staðreyndir um innhald gagnamiðlanna (e. computer forensics). Gert er ráð fyrir því að matsþoli láti matsmanni tölvuna í té.‟
Matsbeiðandi skori á matsþola að afhenda matsmanni tölvuna, sbr. 2. mgr. 67. og 70. gr. laga nr. 91/1991. Verði matsþoli ekki við þeirri áskorun verði að leggja til grundvallar við úrlausn málsins staðhæfingar matsbeiðanda um að matsþoli hafi útbúið yfirlýsinguna dags. 20. febrúar 2012 í tölvu sinni, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.
Afhendi matsþoli ekki tölvuna sé þess óskað að matsmaður framkvæmi eftirfarandi í stað skoðunar á tölvunni sjálfri:
- ,,Yfirfari gögn um rannsókn lögreglu, afli frekari upplýsinga um hana, eftir atvikum með viðtölum við Steinarr Kristján Ómarsson, lögreglumann, eða aðra starfsmenn lögreglu, leggi mat á rannsóknina og geri grein fyrir því hvernig hún var unnin, m.a. að því leyti sem greinir hér að neðan:
- Hvaða svæði tölvunnar voru skoðuð, þ.á.m. hvort gerð var skoðun á eyddum skrám, þar með talið í "Recycle Bin" og kerfislegum "temp"-svæðum. Ef það var ekki gert hverja þýðingu það geti hafa haft fyrir niðurstöður rannsóknarinnar.
- Hvort gerð var skoðun á tölvupóstmöppu sem geymir skeyti (og viðhengi í skeytum). Ef það var ekki gert hverja þýðingu það geti hafa haft fyrir niðurstöður rannsóknarinnar.
- Hvort færsluskrár voru skoðaðar til að sjá yfir tiltekið tímabil hvort gögn hafi verið afrituð eða jaðarbúnaður (t.d. minniskubbar og/eða flakkarar) tengdir við vélina. Ef það var ekki gert hverja þýðingu það geti hafa haft fyrir niðurstöður rannsóknarinnar.
- Hvort skoðað var hvort þess væru merki að annar diskur hafi verið í tölvunni, sem hugsanlega hafi verið fjarlægður. Ef það var ekki gert hverja þýðingu það geti hafa haft fyrir niðurstöður rannsóknarinnar.
- Önnur atriði sem kunna að skipta máli til að varpa ljósi á það hvort margnefnd skjöl voru unnin á tölvu matsþola eða vistuð á henni á einhverjum tímapunkti.‟
- ,,Láti í té sérfræðilegt álit á því hvort rannsókn lögreglu á tölvu matsþola hafi verið unnin í samræmi við kröfur sem gerðar eru til rannsóknar rafrænna gagnamiðla með því markmiði að bera kennsl á, varðveita, endurheimta, greina og setja fram staðreyndir um innhald gagnamiðlanna (e. computer forensics) og ef svo var ekki, hvað hafi vantað upp á rannsóknina í þessum efnum. Ennfremur hvaða þýðingu það geti hafa haft fyrir niðurstöðu rannsóknarinnar.‟
Málsástæður matsbeiðanda
Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður matsbeiðanda til þess að matsbeiðandi hygðist sýna fram á það með matsgerð að allt eins sé líklegt að yfirlýsing, dags. 8. febrúar 2008, afsal og yfirlýsing, dags. 3. maí 2008, og tvö umboð, dags. 7. febrúar 2008 og yfirlýsing, dags. 20. febrúar 2012, hafi verið samin á tölvu sóknaraðila og vistuð þar.
Ekki liggi fyrir hvernig lögregla hafi framkvæmt rannsókn á tölvunni og hvort rannsóknin hafi verið unnin í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Matsbeiðandi hafi verulega hagsmuni af því að beiðni hans verði tekin til greina. Hæstiréttur Íslands hafi ekki fullyrt í dómi réttarins í máli nr. 321/2013 að skoðun á tölvu matsþola sé þýðingarlaus. Þess sé óskað að matsmaður fái tölvuna. Fái matsmaður ekki aðgang að henni sé þess krafist að hann fái aðgang að gögnum og fái að ræða við lögreglumann.
Matsbeiðandi óski ekki eftir dómkvaðningu í því skyni að fá endurupptekna rannsókn lögreglu á kæru matsbeiðanda og systra hans á hendur matsþola vegna meintra rangra yfirlýsinga til lögreglu og fyrir dómi. Rannsókn þess máls hafi endanlega verið felld niður.
Ekki skipti máli fyrir niðurstöðu þessa máls þótt matsþola verði ekki gert að afhenda tölvuna. Undanþága 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um refsinæmi verknaðar eigi ekki við, þar sem matsþoli hafi neitað sök. Ekki sé beðið um upplýsingar um leyndarmál matsþola samkvæmt 4. mgr. 52. gr. sömu laga, enda sé matsmanni einungis ætlað að rannsaka tiltekin gögn en ekki að gera lista yfir gögn á tölvu matsþola. Ekki sé upplýst að matsþoli hafi gegnt þeim störfum sem greinir í b- og d-liðum 3. mgr. 53. gr. sömu laga. Loks sé ekki beðið um upplýsingar um samskipti matsþola við verjanda.
Málsástæður matsþola
Matsþoli fullyrðir að þau atriði sem matsbeiðandi hyggist sanna með matsgerð eigi undir ákæruvald og lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Því beri að vísa þessu máli frá dómi, enda eigi lögreglan aðild. Matsbeiðandi fullyrði að matsþoli hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Samkvæmt matsbeiðni eigi að meta rannsókn lögreglu á ætlaðri refsiverðri háttsemi og á siðferði matsþola. Tilgangur matsins sé augsýnilega sá að sanna að matsþoli hafi gerst sekur um fjársvik gagnvart systrunum Maríu og Gerði. Þá óttist matsbeiðandi, María og Gerður, eitt þeirra eða þau öll, ákæruvaldið.
Matsþoli byggir á því að matsbeiðandi hafi ekki átt aðild að þeim skjölum sem systur málsaðila, María og Gerður Guðfinnsdætur, gáfu út árið 2008 eða að máli sem þær hafi höfðað á hendur matsþola til ógildingar þeirra skjala. Matsbeiðandi eigi ekki heldur aðild að yfirlýsingu, dags. 20. febrúar 2012, auk þess sem matsbeiðanda eða Hæstaréttarmálsins nr. 87/2010 sé ekki getið í þeirri yfirlýsingu. Samkvæmt 3. gr. kaupsamnings milli matsbeiðanda og systra málsaðila frá 19. desember 2008 og með vísan til 8. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sé ljóst að kaupsamningurinn sé ógildur. Þinglýsing á afsali systranna til matsbeiðanda fyrir landinu sé einnig ólögmæt með vísan til 21. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá hafi matsþoli afsal fyrir því landi sem yfirlýsing, dags. 20. febrúar 2012, tekur til, sem sé dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. febrúar 2010 í máli nr. E-8442/2009. Þeim dómi hafi verið áfrýjað, sbr. mál Hæstaréttar Íslands nr. 87/2010, en það fresti ekki réttaráhrifum dómsins. Systur málsaðila eigi þá hagsmuni sem um ræðir og geti matsbeiðandi því ekki átt aðild að þessu matsmáli.
Matsþoli telur að þau atriði sem matsbeiðandi leitist við að leiða í ljós með matsgerð skipti ekki máli fyrir úrlausn málsins nr. 87/2010. Matsþoli vísar til þess að Hæstiréttur hafi með dómi í máli nr. 321/2013 afmarkað úrlausnarefni málsins nr. 87/2010 við það hvort undirritun á yfirlýsingunni, dags. 20. febrúar 2012, sé fölsuð. Matsþoli hafi kært til lögreglu fölsun á undirritun á yfirlýsingu dags. 20. febrúar 2012 og sé það mál enn til rannsóknar hjá lögreglu. Rannsókn lögreglu á kæru matsbeiðanda og systra málsaðila á hendur matsþola fyrir rangan framburð fyrir Hæstarétti Íslands sé lokið með ákvörðun Ríkissaksóknara um að hætta rannsókn málsins. Þá hafi Hæstiréttur dæmt um gildi skjala með dómi í máli nr. 84/2011. Það hafi því ekkert gildi við úrlausn málsins nr. 87/2010 hver hafi samið yfirlýsingar, dags. 8. febrúar og 3. maí 2008, og tvö umboð, bæði dags. 7. febrúar 2008. Rannsókn lögreglu á tölvu matsþola sé auk þess sönnun þess að ekki hafi verið að finna annað í henni varðandi þau skjöl sem matsmanni sé ætlað að leita eftir en þau gögn sem matsbeiðandi hafi þegar fengið í hendur frá lögreglu.
Ekki hafi verið sýnt fram á að rannsókn lögreglu á tölvu matsþola hafi verið ófullnægjandi eða ábótavant. Lögregla hafi lagt hald á tölvu matsþola án fyrirvara og án þess að matsþola gæfist kostur á að fjarlægja nokkuð úr henni eða frá henni. Lögregla hafi haft sömu skjöl til að leita eftir og sem matsmanni sé ætlað að leita eftir. Temp-svæði tölvunnar hafi verið rannsökuð af lögreglu, sem og ónotuð svæði hennar. Rannsóknin hafi þannig verið ítarleg. Tölvurannsóknardeild lögreglu sé sérhæfð í að rannsaka og leita gagna og ummerkja í tölvum. Ekki sé hægt að hlaupa eftir órökstuddum getgátum matsbeiðanda um að rannsókn lögreglu á tölvu matsþola hafi verið ófullnægjandi.
Matsþoli telur að ómögulegt sé með matinu að sanna það sem matsbeiðandi segist ætla að sanna. Matsbeiðandi ætli að færa sönnur á þá fullyrðingu sína að yfirlýsing, dags. 20. febrúar 2012, hafi verið undirrituð af matsþola. Yfirlýsingin sé undirrituð með blekpenna en ekki tölvuundirrituð. Matsgerð geti þar af leiðandi ekki nýst sem sönnunargagn um það hvort undirritun yfirlýsingarinnar sé fölsuð. Þá hafi verið unnið sérfræðiálit og matsgerð dómkvadds matsmanns um undirritun á fyrrnefnda yfirlýsingu og sé niðurstaða þeirra beggja sú að undirritunin sé fölsuð.
Matsþoli byggir á því að tölva hans geymi trúnaðarupplýsingar um annað fólk sem hann hafi ritað og skráð í gegnum árin. Matsþoli hafi m.a. verið trúnaðarráðgjafi aðila í viðkvæmum tilfinninga- og persónulegum málum. Þá hafi matsþoli skráð í tölvuna í gegnum árin eigin hugsanir, tilfinningar og persónuleg málefni, bæði sín eigin og fjölskyldu sinnar. Matsþola væri ekki heldur skylt að veita atbeina að eða afhenda gögn eða annað, sem hann sé undanþeginn vitnaskyldu um samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, hvort sem varðar hann sjálfan eða systkini hans eða aðra fjölskyldumeðlimi. Einnig vísar matsþoli til 4. mgr. 52. gr. sömu laga. Þá sé matsþola á grundvelli b- og d-liðar 2. mgr. 53. gr. sömu laga einnig óheimilt að bera vitni um það sem vistað hafi verið í tölvu hans og sé um leið óheimilt að afhenda það matsmanni, sbr. niðurlag 3. mgr. 62. gr. laganna. Loks hafi verið vistaðar í tölvunni upplýsingar sem hafi farið á milli matsþola og verjanda hans, sem og upplýsingar sem falli undir 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til þessa sé ekki eðlilegt að ætlast til þess að matsþoli afhendi tölvu sína, sbr. gagnályktun frá 2. mgr. 67. gr. og 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Matsbeiðandi ætti ekki rétt til tölvunnar án tillits til málsins auk þess sem matsþoli sé ekki vitnaskyldur um efni málsins í ljósi ásakana, kæru og rannsóknar á meintum refsiverðum sakargiftum. Í ljósi þessa fáist ekki staðist að matsþoli eigi að bera hallann af því ef hann afhendi ekki matsmanni tölvu sína.
Varðandi einstaka liði matsbeiðni segir matsþoli um fyrsta liðinn að lögregla hafi þegar leitað að sömu skjölum í tölvu matsþola og óskað sé eftir að matsmaður leiti að. Matsmanni sé þannig ætlað að endurskoða rannsókn lögreglu á tölvu matsþola. Ríkissaksóknari hafi staðfest synjun lögreglu á að endurupptaka þá rannsókn. Matsbeiðandi leitist nú sjálfur við að taka rannsóknina upp á ný. Með því að leggja fyrir matsmann að svara því hvort líklegt sé að umrædd skjöl hafi verið vistuð eða unnin á tölvuna sé ætlast til að matsmaður fari með getgátur, þrátt fyrir að matsbeiðandi segist ætla að sanna fullyrðingar með matsgerð.
Um annan lið matsbeiðni fullyrðir matsþoli að matsmanni sé ætlað að yfirfara, rannsaka og leggja mat á ótilgreinda rannsókn lögreglu. Hér sé farið fram á að matsmaður leggi sömu spurningar fyrir sama mann og Hæstiréttur hafi hafnað með dómi í máli nr. 321/2013 að spyrja mætti þann mann um. Þá falli það undir almenna þekkingu að meta afleiðingar þess fyrir rannsókn lögreglu á tölvu matsþola, hafi þau svæði tölvunnar sem tilgreind eru í matsspurningunni ekki verið skoðuð við þá rannsókn, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Hvað varðar þriðja lið matsbeiðni telur matsþoli að matsmanni sé ætlað að meta og gefa álit sitt á því hvað honum finnist um rannsókn lögreglu á ótilgreindri tölvu matsþola og hvaða þýðingu það hafi fyrir lögreglurannsóknina. Ríkissaksóknari hafi farið yfir rannsókn lögreglu að kröfu matsbeiðanda og staðfest ákvörðun lögreglu. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 sé Ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds og sé matsbeiðandi ekki ofar settur.
Um lagarök vísar matsþoli einnig til 1. og 3. mgr. 46. gr., 2. mgr. 60. gr., seinni liðar 1. mgr. 61. gr., 2. mgr. 24. gr., 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. 26. gr., 2. mgr. 16. gr., 2. og 4. mgr. 18. gr. og 116. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Kröfugerð matsþola sem hann hafði uppi við munnlegan flutning málsins er önnur en greinir í greinargerð hans, en þar var dómkvaðningu matsmanns mótmælt og krafist málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda. Lögmaður matsbeiðanda mótmælti ekki breyttri kröfugerð matsþola og verður því leyst úr henni.
Matsþoli krefst í fyrsta lagi frávísunar málsins á þeim grundvelli að þau atriði sem matsbeiðandi hyggist sanna með matsgerð eigi undir ákæruvald og lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að mati dómsins varðar þessi málsástæða efni þessa máls en ekki formhlið þess. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á þessum grundvelli. Ekki verður séð að formgallar séu á matsbeiðni matsbeiðanda sem valdið geti frávísun málsins. Kröfu matsþola um frávísun þessa máls er því hafnað.
Matsþoli byggir á því að matsbeiðandi eigi ekki þá hagsmuni sem þetta mál snúist um, heldur systur beggja málsaðila, María Guðfinnsdóttir og Gerður Guðfinnsdóttir. Fram kemur í matsbeiðni að farið sé fram á dómkvaðningu til að afla sönnunargagns til að leggja fram í Hæstaréttarmáli nr. 87/2010 til að sanna tiltekna málsástæðu. Aðilar þess máls eru matsbeiðandi og matsþoli. Er matsbeiðandi því réttur aðili til að óska eftir þessari matsgerð.
Matsbeiðandi setur matsbeiðni sína fram í framhaldi af ákvörðun Ríkissaksóknara 22. mars sl. um að hætta rannsókn á kæru matsbeiðanda og systra málsaðila á hendur matsþola fyrir ætlaða ranga yfirlýsingu matsþola í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti um að hann hefði ekki samið og undirritað yfirlýsinguna frá 21. febrúar 2012 og að hann hefði ekki samið yfirlýsingar, dags. 8. febrúar 2008 og 3. maí 2008, og tvö umboð, dags. 7. febrúar 2008. Hinn 19. desember 2012 var tölva í eigu matsþola haldlögð í þágu rannsóknar málsins. Með verkbeiðni 20. desember 2012 var óskað eftir rannsókn á tölvunni. Í beiðninni er rökstutt að brýnt sé að tæknirannsókn verði hraðað eins og kostur sé. Samkvæmt munaskýrslu var haldlagðri tölvu skilað til matsþola 21. desember 2012. Í lögregluskýrslu dags. 17. janúar sl. er því lýst hvað hafi fundist við leit í umræddri tölvu matsþola. Fram kemur í 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að hafi rannsókn á hendur sakborningi verið hætt vegna þess að sakargögn hafi ekki þótt nægileg til ákæru eigi ekki að taka rannsókn upp á ný gegn honum nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt sé að þau komi fram.
Með fyrstu matsspurningu er þess óskað að matsmaður skoði tiltekna tölvu og er óumdeilt að hún er í eigu matsþola og í fórum hans. Matsbeiðandi skorar á matsþola að afhenda matsmanni tölvuna, með vísan til 2. mgr. 67. gr. og 70. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Matsþoli hefur ekki orðið við þessari áskorun. Samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 70. gr. sömu laga, ber gagnaðila að verða við áskorun aðila um að leggja fram sýnilegt sönnunargagn sem hann hefur í vörslum sínum, ef aðili á rétt til gagnsins án tillits til málsins eða efni gagnsins er slíkt að gagnaðila væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu.
Eins og fyrr greinir er umrædd tölva í eigu matsþola. Á matsbeiðandi því ekki rétt til tölvunnar án tillits til þessa máls. Er fyrra skilyrði 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 því ekki uppfyllt. Hvað varðar seinna skilyrði ákvæðisins er ljóst að verði fallist á matsbeiðni matsbeiðanda kynnu ný gögn að koma fram um þá ætluðu háttsemi matsþola sem varð tilefni kæru matsbeiðanda og systra málsaðila á hendur matsþola. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 er vitni rétt að skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari þess geti falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki. Þetta ákvæði er ekki bundið við þau tilvik þegar rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi hefur verið hætt á grundvelli 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Væri matsþola því ekki skylt sem vitni að svara spurningum um þau atriði sem matsbeiðandi leitar sönnunar um, þ.e. hvort yfirlýsingin, dags. 20 febrúar 2012, hafi verið undirrituð af matsþola og hvort matsþoli hafi samið yfirlýsingar, dags. 8. febrúar 2008 og 3. maí 2008, og tvö umboð, dags. 7. febrúar 2008. Seinna skilyrði 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 er því ekki uppfyllt. Af þessu leiðir að matsþola er óskylt að verða við áskorun matsbeiðanda. Þar sem matsþoli hefur ekki orðið við áskoruninni verður að hafna því að dómkvaddur verði matsmaður til að svara fyrstu matsspurningu.
Með matsspurningu tvö er farið fram á heimild til að taka viðtöl við lögreglumanninn Steinar Kristján Ómarsson. Hæstiréttur Íslands hafnaði því með dómi 3. júní sl. í máli nr. 321/2013 að matsbeiðanda væri heimilt að leiða Steinar Kristján fyrir dóm til skýrslugjafar sem vitni í vitnamáli sem matsbeiðandi höfðaði gegn matsþola. Dómur Hæstaréttar er bindandi fyrir aðila þessa máls, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður annað ráðið af matsspurningunni en að matsbeiðandi fari fram á að matsmaður taki viðtöl við Steinar Kristján um sama efni og til stóð að leiða hann fyrir dóm til að gefa skýrslu um sem vitni. Matsbeiðandi getur ekki komist hjá niðurstöðu þessa dóms Hæstaréttar með því að matsmaður taki viðtöl við umræddan mann. Verður því að hafna kröfu matsbeiðanda um að matsmaður taki viðtöl við Steinar Kristján Ómarsson.
Með matsspurningum tvö og þrjú er að öðru leyti í reynd farið fram á að matsmaður endurskoði rannsóknaraðgerð lögreglu. Fyrir slíkri endurskoðun kæranda á rannsóknaraðgerð lögreglu eru engar heimildir í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eða öðrum lögum. Verður því að hafna því að dómkvaddur verði matsmaður til að svara þessum matsspurningum.
Með vísan til þessa verður að hafna beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns í samræmi við matsbeiðni.
Eftir þessum úrslitum verður matsbeiðanda gert að greiða matsþola málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 50.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfu matsþola, Jakobs Adolfs Traustasonar, um frávísun málsins, er hafnað.
Umbeðinni dómkvaðningu er hafnað.
Matsbeiðandi, Gísli Guðfinnsson, greiði matsþola 50.000 krónur í málskostnað.