Hæstiréttur íslands

Mál nr. 156/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfulýsing
  • Fjármálafyrirtæki
  • Réttindaröð
  • Slit


                                     

Fimmtudaginn 22. mars 2010.

Nr. 156/2012.

Air Alsie A/S

(Ragnar H. Hall hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

Kærumál. Kröfulýsing. Fjármálafyrirtæki. Réttindaröð. Slit.

Fjármálafyrirtækið K hf. og flugfélagið A sömdu árið 2007 um flugsþjónustu og gaf hinn síðarnefndi út tvo reikninga á árinu 2008 til hins fyrrnefnda á grundvelli samningsins. Lýsti A kröfum við slit K hf. á grundvelli reikninganna. Slitastjórn K hf. túlkaði kröfulýsingar A á þann veg að kröfunum hefði verið lýst sem eftirstæðum kröfum við slitin, en A mótmælti þeirri túlkun. Deila aðila í máli þessu laut einungis að því hvort krafa A að tiltekinni fjárhæð væri almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. sömu laga. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að kröfu A hefði verið lýst sem eftirstæðri kröfu, einkum með vísan til þess að kröfuhafi bæri sjálfur ábyrgð á því að útbúa kröfulýsingu sína og yrði því að bera ábyrgð á mistökum sem yrðu við gerð hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila og staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að áðurgreindri kröfu sóknaraðila verði skipað í réttindaröð sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laganna. Sóknaraðili krefst þess að kröfu hans að fjárhæð 155.485,80 evrur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Air Alsie A/S, um að krafa hans á hendur varnaraðila, Kaupþingi hf., að fjárhæð 155.485,80 evrur verði við slit varnaraðila viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en staðfest er að krafan hafi stöðu eftirstæðra krafna samkvæmt 114. gr. sömu laga. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2012.

Mál þetta var þingfest 29. júní 2011 og tekið til úrskurðar 25. janúar sl.

Sóknaraðili er Air Alsie A/S, Lufthavnsvej 3, Sønderborg, Danmörku.

Varnaraðili er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 1.247.740,04 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að skrá kröfu sóknaraðila sem eftirstæða kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að hafnað verði að krafa sóknaraðila skuli viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferð varnaraðila. Til vara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 26.312.862 krónur, eða 155.485,80 evrur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Með ákvörðun dómsins 9. janúar sl. var ákveðið að beiðni sóknaraðila að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst verði skorið úr því hvort krafa sóknaraðila að fjárhæð 155.485,80 evrur sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 eða eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. sömu laga. Er sá þáttur málsins hér til úrlausnar.

Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 155.485,80 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, en varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði að slitastjórn varnaraðila hafi verið rétt að skrá kröfu sóknaraðila sem eftirstæða kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Þá krefjast báðir aðilar málskostnaðar úr hendi hins.

I

Hinn 8. janúar 2007 sömdu sóknaraðili og varnaraðili um flugþjónustu, en sóknaraðili er danskt félag sem veitir viðskiptaaðilum sínum slíka þjónustu. Á grundvelli samningsins gaf sóknaraðili út tvo reikninga stílaða á varnaraðila. Annar reikningurinn er dagsettur 30. september 2008 að fjárhæð 147.193,80 evrur en hinn reikningurinn er dagsettur 31. október 2008 og er að fjárhæð 985.066,20 evrur.

Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila og vék stjórn hans í heild sinni frá störfum og skipaði honum skilanefnd í samræmi við ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Upphafsdagur slitameðferðar var 22. apríl 2009. Varnaraðili gaf út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember 2009.

Sóknaraðili lýsti kröfu í tvígang fyrir slitastjórn varnaraðila. Sóknaraðili lýsti fyrst kröfu að fjárhæð 168.788 evrur með því að senda slitastjórn varnaraðila bréf dagsett 7. október 2009 og útfyllt staðlað eyðublað sem varnaraðili hefur látið kröfuhöfum í té og sem fyllt var út af hálfu sóknaraðila. Bréfið og eyðublaðið voru móttekin 9. sama mánaðar. Hvort tveggja, bréfið og eyðublaðið, er á ensku. Í bréfinu kemur meðal annars fram að meðfylgjandi sé staðlað eyðublað (standard claim form) þar sem sett sé fram krafa fyrir hönd sóknaraðila, ásamt fylgiskjölum. Krafan er síðan sundurliðuð eftir fjárhæðum. Fram kemur í bréfinu að ekki hafi allur texti komist fyrir í þeim hluta staðlaða eyðublaðsins sem fjalli um þætti sem gætu haft áhrif á kröfuna og sé sá texti endurtekinn í bréfinu. Fram kemur neðst í bréfinu að meðfylgjandi sé afrit þessa fylgibréfs (copy of this accompanying letter) og sé þess óskað að móttaka kröfunnar verði staðfest með því að árita afritið og senda til skrifstofu þáverandi lögmanns sóknaraðila. Neðst á bls. 1 í eyðublaðinu er tafla þar sem gert er ráð fyrir að fyllt sé inn hvaða fjárhæðar sé krafist á grundvelli hverrar greinar 27. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fjárhæðir eru ritaðar í dálk sem auðkenndur er „Deferred (art 114)“.

Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf dagsett 18. nóvember 2009 og útfyllt staðlað eyðublað sem móttekin voru 23. sama mánaðar. Sem fyrr eru bæði bréfið og eyðublaðið á ensku. Í bréfinu kemur meðal annars fram að meðfylgjandi sé nýtt staðlað eyðublað (new standard claim form) þar sem sett sé fram krafa fyrir hönd sóknaraðila, ásamt fylgiskjölum. Í bréfinu er krafan sundurliðuð og vísað til hennar sem „updated standard claim“ og „new standard claim“. Fram kemur í bréfinu, á sama hátt og í fyrra bréfi, að ekki hafi allur texti komist fyrir í þeim hluta staðlaða eyðublaðsins sem fjalli um þætti sem gætu haft áhrif á kröfuna og sé sá texti endurtekinn í bréfinu. Fram kemur neðst í bréfinu, á sama hátt og í fyrra bréfi, að meðfylgjandi sé afrit þessa fylgibréfs (copy of this accompanying letter) og sé þess óskað að móttaka kröfunnar verði staðfest með því að árita afritið og senda til skrifstofu þáverandi lögmanns sóknaraðila. Hið staðlaða eyðublað er hið sama og fylgdi fyrra bréfi og er fyllt út á sama hátt, en fjárhæðir eru þær sömu og koma fram í bréfinu.

Slitastjórn varnaraðila upplýsti þáverandi lögmann sóknaraðila 23. mars 2011 um að ekki væri tekin afstaða til kröfu sóknaraðila þar sem henni væri lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Þeirri afstöðu slitastjórnar var mótmælt af hálfu sóknaraðila með tölvuskeytum 23. mars 2011. Haldinn var fundur vegna ágreinings um kröfuna 3. maí 2011 en ekki tókst að jafna ágreining aðila. Með bréfi 10. maí 2011 var ágreiningi aðila vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II

Sóknaraðili kveðst byggja á því að hann hafi lýst kröfu sinni sem almennri kröfu í bréfi sínu til slitastjórnar varnaraðila dagsettu 18. nóvember 2009. Bréfið sé ritað á ensku og kröfunni þar lýst sem „standard claim“. Þar sé þeim viðskiptum lýst sem krafan byggist á. Með bréfinu hafi fylgt útfyllt eyðublað, prentað út af vefsíðu slitastjórnar varnaraðila. Þar sé þess óskað að kröfuhafinn fylli út ákveðna reiti varðandi kröfuna. Undir fyrirsögninni „Provide details of the amount in the table below. Claim type“ sé ætlast til þess að kröfuhafinn tilgreini meðal annars undir hvaða grein í réttindaraðarkafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 krafan falli, ásamt sundurliðun kröfuliða í höfuðstól, vexti, áfallinn kostnað o.s.frv. Hinn danski lögmaður kröfuhafans hafi við útfyllinguna fært tölulega sundurliðun um kröfuna í línu sem sé útfærð þannig að fremst í henni sé tilgreint „Deferred (art. 114)“, en neðanmáls sé tekið fram að þarna sé vísað til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili telji augljóst að misræmi sé á milli þess sem fram komi í kröfulýsingunni sjálfri annars vegar og hinu útfyllta eyðublaði hins vegar. Í fyrrnefnda skjalinu sé kröfunni lýst sem „standard claim“ og sé útilokað að skilja það öðruvísi en svo að átt sé við almenna kröfu. Svo virðist sem slitastjórn varnaraðila hafi eingöngu litið á tilgreininguna í hinu prentaða eyðublaði og talið að þar með hafi sóknaraðili ráðstafað þessum hagsmunum og lýst kröfunni sem eftirstæðri kröfu.

Orðalagið „deferred claim“ gefi ekki til kynna að um eftirstæða kröfu sé að ræða. Framsetning á þessu atriði í eyðublaði slitastjórnarinnar sé því mjög villandi fyrir þá sem ekki þekki því betur til ákvæða 114. gr. laga nr. 21/1991. Í Ensk-íslenskri orðabók, útgefinni af Máli og menningu 2003, sé orðið deferred þýtt þannig: ,,1) dráttar-; sem hefur verið frestað: on deferred terms, með afborgunum; deferred income, fyrirframgreiddar tekjur, (t.d. af leigu). 2) sá sem hefur verið veitt frestur (t.d. á herþjónustu).“ Í ensku lagamáli hafi verið notað orðasambandið „subordinated claim“ um eftirstæðar kröfur. Ekkert komi fram í eyðublaðinu sem gefi til kynna að kröfur sem falli undir 114. gr. víki fyrir almennum kröfum.

Sóknaraðili telji að slitastjórn varnaraðila hafi ranglega valið þann kost sem sóknaraðila hafi verið óhagstæðari þegar hún hafi kosið að halda sig við tilgreininguna í hinu prentaða eyðublaði í stað þess sem fram komi í hinni beinu kröfulýsingu frá lögmanni sóknaraðila. Sóknaraðili telji að slitastjórnin hefði átt að gefa honum kost á að skýra mál sitt nánar þar sem tilgreiningunni í hinu prentaða eyðublaði beri ekki saman við lýsinguna í sjálfu kröfubréfinu. Slitastjórninni hefði ekki átt að geta dulist að tilgreining fjárhæðanna á hinu prentaða eyðublaði í umrædda línu ætlaða fyrir „deferred claims“ hafi byggst á misskilningi.

Í ljósi alls þessa telji sóknaraðili að viðurkenna beri að krafa hans njóti rétthæðar sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila.

Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Varnaraðili kveðst í fyrsta lagi byggja kröfur sínar á því að krafa sóknaraðila hafi verið réttilega skráð sem eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því sé hafnað að sóknaraðili hafi lýst umræddri kröfu sem almennri kröfu í bréfi sínu til slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 18. nóvember 2009.

Varnaraðili vísi til þess að í upphafi slitameðferðar hans og samhliða innköllun vegna hennar hafi varnaraðili sett fram á heimasíðu sinni, www.kaupthing.com, ítarlegar leiðbeiningar um það ferli sem hefjast myndi í kjölfar innköllunar. Á heimasíðunni hafi jafnframt verið að finna staðlað kröfulýsingareyðublað til þæginda fyrir hugsanlega kröfuhafa varnaraðila. Kröfuhafar hafi ekki verið skuldbundnir til að notast við umrætt eyðublað heldur hafi þeir haft frjálst val um það hvort þeir lýstu kröfum sínum með útfyllingu þess eða útbjuggu sínar eigin kröfulýsingar frá grunni. Framangreint hafi skýrlega verið tekið fram í fyrrnefndum leiðbeiningum varnaraðila þar sem meðal annars hafi verið vísað til eyðublaðsins sem „standard claim form“.

Varnaraðili bendi á að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni í tvígang, þannig að hin fyrri kröfulýsing hafi verið afturkölluð með lýsingu hinnar seinni. Kröfulýsingarnar tvær hafi átt það sameiginlegt að sóknaraðili hafi kosið að notast við hið staðlaða eyðublað við lýsingu kröfu sinnar, þar sem töluleg sundurliðun kröfunnar sé færð inn sem eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt sé það sameiginlegt með kröfulýsingunum að sóknaraðili hafi látið fylgja með þeim bréf, að því er virðist til skýringar kröfunni, þar sem ótvírætt komi fram að því fylgi hið staðlaða eyðublað sem innihaldi kröfulýsinguna hverju sinni, sbr. eftirfarandi málsgrein í seinni kröfulýsingu sóknaraðila: „I hereby enclose a new standard claim form comprising statement of claim on behalf of my client Air Alsie A/S, as well as due documentation.“

Ekki sé hægt að líta á umrædd bréf sem eiginlega kröfulýsingu, enda þótt sundurliðun kröfunnar sé þar tilgreind, bæði vegna þess að þar taki sóknaraðili ekki fram í hvaða röð skuldarraðar hann óski eftir að krafan verði skipuð og þar sem í bréfunum vísi sóknaraðili sérstaklega til meðfylgjandi eyðublaðs (með orðunum „standard claim form“ líkt og segi í leiðbeiningum varnaraðila) varðandi kröfulýsingu sína. Á eyðublaðinu tilgreini sóknaraðili einmitt með skýrum hætti þá rétthæð sem hann krefjist að krafan skuli njóta og hafi varnaraðila borið að skrá kröfuna í kröfuskrá í samræmi við það.

Að framangreindu virtu verði því að telja að sóknaraðili hafi sjálfur litið svo á að hið staðlaða eyðublað hafi haft að geyma hina eiginlegu kröfulýsingu sína en ekki þau bréf sem eyðublaðinu hafi fylgt. Þar af leiðandi hafni varnaraðili þeim fullyrðingum sóknaraðila að umrædd bréf hafi verið hinar beinu og eiginlegu kröfulýsingar og að varnaraðili hafi valið þann kost sem sóknaraðila hafi verið óhagstæðari, enda geti fylgigögn eðli máls samkvæmt aldrei gengið framar hinni eiginlegu kröfulýsingu.

Varnaraðili kveðst í öðru lagi byggja kröfur sínar á því að tilgangur með seinni kröfulýsingu sóknaraðila hafi verið að leiðrétta lýsta fjárhæð. Varnaraðili vísi til þess að sóknaraðili hafi afturkallað fyrri kröfulýsingu sína og lýst kröfunni að nýju innan kröfulýsingarfrests í þeim tilgangi að hækka fjárhæð hinnar lýstu kröfu. Í fyrri kröfulýsingunni sé umkrafin fjárhæð sóknaraðila samtals 168.788,80 evrur á meðan fjárhæð hinnar síðari sé samtals 1.259.019,35 evrur. Í bæði skiptin er sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni hafi hann notast við staðlað eyðublað og lýst þar kröfu sinni sem eftirstæðri undir 114. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telji því augljóst að tilgangur seinni kröfulýsingarinnar hafi einungis verið sá að leiðrétta hina lýstu fjárhæð sem tilgreind hafi verið í fyrri kröfulýsingunni. Hefði ætlun sóknaraðila með seinni kröfulýsingu sinni aftur á móti verið sú að leiðrétta hina fyrri með tilliti til umkrafinnar rétthæðar hennar hefði honum verið það í lófa lagið að taka slíkt fram með skýrum og ótvíræðum hætti, meðal annars með tilvísun til viðeigandi lagaákvæðis, annað hvort á kröfulýsingareyðublaðinu eða í meðfylgjandi bréfi sem sóknaraðili fullyrði að hafi verið sín eiginlega kröfulýsing. Varnaraðili hafni þeirri fullyrðingu sóknaraðila að í orðunum „standard claim“ í síðara bréfi sóknaraðila, er fylgt hafi kröfulýsingareyðublaðinu, hafi falist tilgreining á rétthæð kröfunnar. Þvert á móti hafi sóknaraðili með þessum orðum beinlínis verið að vísa til hins staðlaða eyðublaðs, eins og ráðið verði af samhengi bréfsins og þeirri orðnotkun sem þar sé viðhöfð.

Varnaraðili telji útilokað, meðal annars með tilliti til jafnræðis kröfuhafa við slitameðferð varnaraðila, að sóknaraðili skuli njóta hagræðis af því að hafa ekki lýst kröfu sinni með skýrari hætti en raun beri vitni. Ljóst sé að í bréfi sínu til varnaraðila hafi sóknaraðili ekki tilgreint undir hvaða lagaákvæði um rétthæð hann hafi óskað eftir að krafa hans skyldi falla á sama tíma og slíkt hafi verið gert með augljósum hætti í hinni eiginlegu kröfulýsingu sem fylgt hafi umræddu bréfi.

Varnaraðili kveðst í þriðja lagi hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að hið staðlaða eyðublað hafi verið villandi þar sem orðið „deferred“ hafi staðið þar framan við tilvísun til ákvæðis 114. gr. laga nr. 21/1991 í stað orðsins „subordinated“. Líta verði annars vegar til þess að á umræddu eyðublaði sé sérstaklega tekið fram að með kröfutegundum (claim type) og þar til greindum lagaákvæðum sé verið að vísa til ákvæða 109. – 114. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar verði að líta til þess að varnaraðili hafi jafnframt tekið fram á umræddu eyðublaði, í því skyni að útiloka hugsanlegan vafa, að skilgreiningar á kröfutegundum væri að finna í sérstökum spurningadálki á vefsíðu varnaraðila. Í svari við spurningu 16, lið 6) um eftirstæðar kröfur, segi: „Deferred claims, subordinated to all claims referred to above. These include e.g. claims for interest and cost arising after 22 April 2009 (Article 114).“ („Víkjandi kröfur sem koma að baki öðrum kröfum sem vísað er til hér að framan. Þar er t.d. um að ræða kröfur um vexti og kostnað sem verða til eftir 22. apríl 2009 (114. gr.).“

Skýrt komi fram í framangreindum lagaákvæðum og skilgreiningum varnaraðila um kröfutegundir að kröfur sem falli undir 114. gr. víki fyrir öllum öðrum kröfum. Þar með sé ljóst að hefði eitthvað verið óskýrt í huga sóknaraðila varðandi skýringar eða orðalag á hinu staðlaða eyðublaði þá hefði honum verið rétt að kynna sér annað hvort ofangreind ákvæði laga nr. 21/1991 eða skilgreiningar varnaraðila, áður en sóknaraðili hafi hafist handa við að fylla eyðublaðið út. Ekki verði séð að sóknaraðili hafi gert það og verði hann að bera hallann af því að hafa misskilið umrætt eyðublað.

Varnaraðili telji ótækt að bera fyrir sig að þekkingarskortur á íslenskum lögum um gjaldþrotaskipti sé ástæða þess að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni sem eftirstæðri kröfu á hinu staðlaða eyðublaði, enda um að ræða íslenska slitameðferð sem fari að íslenskum lögum. Því sé eðlilegt að gera þá kröfu að kröfuhafar kynni sér íslensk lög um gjaldþrotaskipti, sem gildi um slitameðferð varnaraðila, eða ráðfæri sig að öðrum kosti við íslenska lögmenn við ritun kröfulýsinga sinna, sé eitthvað óljóst. Á þetta hafi varnaraðili bent í leiðbeiningum sínum til kröfuhafa, sbr. svar við spurningu 12: „Samkvæmt íslenskum lögum er gert ráð fyrir mismunandi gerðum krafna, eins og tiltekið er í 109.-115. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Lögin skilgreina hvaða gerð af kröfum tilheyrir hverjum flokki krafna og ef vafi leikur á er rétt að þú leitir ráða hjá íslenskum lögfræðingum varðandi stöðu þína. Lýsing á helstu gerðum krafna sem falla í þá flokka sem aðallega eiga við um Kaupþing er í svarinu við spurningu nr. 16 hér að aftan.“

Varnaraðili veki athygli á að lögmannsstofan Brandt & Lauritzen, sem meðal annars sérhæfi sig í gjaldþrotamálum, hafi lýst kröfunni fyrir hönd sóknaraðila. Verði það að teljast fráleitt að lögmenn geti borið fyrir sig þekkingarleysi í þeim verkefnum sem þeir taki sér fyrir hendur.

Varnaraðili vísi til þess að þar sem íslensk lög gildi um slitameðferð varnaraðila geti ensk þýðing á ákvæðum laga nr. 21/1991, sem fram komi á hinu staðlaða eyðublaði, ekki verið til þess fallin að draga ályktanir sem stangist á við það sem segi í hinum íslenska texta umræddra lagaákvæða. Athygli kröfuhafa varnaraðila hafi verið vakin á þessu í svari við spurningu 3 í leiðbeiningunum: „Rétt er að benda á að allar kröfur eru háðar íslenskum lögum og ekki er hægt að draga neinar ályktanir af eyðublöðunum sem ganga gegn íslenskum lögum.“ Sóknaraðili geti því ekki borið fyrir sig að orðið „deferred“ í umræddu eyðublaði hafi valdið misskilningi af hálfu sóknaraðila og orsakað það að hann hafi lýst kröfu sinni á annan hátt en vilji hans hafi staðið til.

Varnaraðili byggi á því að af 117. gr., sbr. 118. gr., laga nr. 21/1991 leiði að eftir lok kröfulýsingarfrests geti kröfuhafar almennt ekki aukið við kröfur sínar nema að uppfylltum þröngum skilyrðum 1.-6. töluliða 118. gr. laganna. Að auki gildi á sviði gjaldþrotaskiptaréttar meginreglan um jafnræði kröfuhafa um fullnustu krafna sinna og samkvæmt almennum lögskýringarreglum beri að túlka allar undantekningar frá slíkri grunnreglu þröngt. Ljóst sé að ef fallist yrði á að einstakir kröfuhafar gætu aukið við kröfur sínar eftir að kröfulýsingarfresti ljúki án þess að undantekningarreglur 118. gr. laga nr. 21/1991 ættu við, líkt og í tilviki sóknaraðila verði krafa hans viðurkennd sem almenn krafa, á meðan aðrir kröfuhafar nytu ekki slíks hagræðis, þá myndi þess háttar meðferð bersýnilega stríða gegn fyrrnefndri meginreglu. Einu megi gilda hvort markmið slíkra breytinga sé að leiðrétta kröfulýsingar vegna óheppilegra mistaka eða misskilnings, líkt og sóknaraðili orði það.

Um lagarök vísi varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á 21. kafla laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Í þessum þætti málsins er deilt um það hvaða stöðu í skuldaröð krafa sóknaraðila, að fjárhæð 155.485,80 evrur, eigi að hafa við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili krefst þess að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en varnaraðili krefst þess að krafan verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. sömu laga.

Ekki er um það deilt að krafa sóknaraðila myndi að öðru jöfnu teljast almenn krafa. Deila málsaðila snýst hins vegar um það hvort sóknaraðili hafi lýst kröfunni sem almennri kröfu eða sem eftirstæðri kröfu með bréfi dagsettu 18. nóvember 2009 og útfylltu stöðluðu eyðublaði.

Sú meginregla kemur fram í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem vilji halda fram kröfu á hendur þrotabúi verði að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 2. mgr. sömu greinar segir að kröfulýsing skuli vera skrifleg og þar er jafnframt að finna ákvæði um efni kröfulýsingar. Meðal þess sem koma skal fram í kröfulýsingu er hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð. Innan þeirra marka sem ákvæðið setur ræður kröfuhafi því hvernig hann útbýr kröfulýsingu sína. Þó ákvæðið gangi út frá því að kröfuhafi semji sjálfur kröfulýsingu sína er ekkert í lögum nr. 21/1991 því til fyrirstöðu að skiptastjóri veiti kröfuhöfum almennar leiðbeiningar um það hvernig kröfu verði lýst eða útbúi staðlað eyðublað til þeirra nota, eins og varnaraðili hefur gert.

Sóknaraðili byggir á því að umrætt bréf hans frá 18. nóvember 2009 sé hin eiginlega kröfulýsing, en eyðublaðið sé fylgiblað með kröfulýsingunni. Varnaraðili telur hins vegar að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni með umræddu eyðublaði. Að mati dómsins ræðst niðurstaða um þetta af túlkun bréfsins og eyðublaðsins. Efni þessara skjala er lýst hér að framan. Fram kemur í bréfinu að meðfylgjandi því sé nýtt staðlað eyðublað þar sem sett sé fram krafa fyrir hönd sóknaraðila, ásamt fylgiskjölum (new standard claim form comprising statement of claim on behalf of my client Air Alsie A/S, as well as due documentation). Þá kemur fram neðst í bréfinu að meðfylgjandi sé afrit þessa fylgibréfs (copy of this accompanying letter) og sé þess óskað að móttaka kröfunnar verði staðfest með því að árita afritið og senda til skrifstofu þáverandi lögmanns sóknaraðila. Þessar setningar verða varla skildar öðruvísi en svo að það sé eyðublaðið sem feli í sér hina eiginlegu kröfulýsingu, en ekki bréfið. Það styður þessa ályktun að í bréfið vantar ýmsar upplýsingar sem fram koma í eyðublaðinu. Fram kemur í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að í kröfulýsingu verði að koma fram í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst. Í bréfinu er sóknaraðili nafngreindur, en engar frekari upplýsingar koma þar fram um hann, en í eyðublaðinu kemur fram auk nafns sóknaraðila nákvæmt heimilisfang hans. Þá koma bankaupplýsingar, sem nauðsynlegar eru til greiðslu, eingöngu fram í eyðublaðinu, en ekki í bréfinu. Einnig kemur fram í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að í kröfulýsingu verði að gera grein fyrir þeim málsástæðum sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur þrotabúinu á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Þetta hefur sóknaraðili gert með því að fylla út reit eyðublaðsins, þar sem gert er ráð fyrir að grein sé gerð fyrir þáttum sem gætu haft áhrif á kröfuna, en þar gerir sóknaraðili grein fyrir samningi aðila, útgefnum reikningum og fyrri innheimtuaðgerðum. Þessi texti er endurtekinn í bréfinu og kemur þar fram að það sé gert vegna þess að textinn hafi ekki allur komist fyrir í reit eyðublaðsins. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að umrætt eyðublað feli í sér kröfulýsingu sóknaraðila en ekki áðurnefnt bréf sóknaraðila. Það að starfsmaður varnaraðila hafi stimplað bréfið um móttöku en ekki eyðublaðið getur ekki breytt þessari niðurstöðu.

Eins og fyrr greinir er í eyðublaðinu gert ráð fyrir að kröfuhafi fylli út hvaða fjárhæða sé krafist á grundvelli hverrar greinar 27. kafla laga nr. 21/1991, 109. til 114. gr. Þáverandi lögmaður sóknaraðila ritaði fjárhæðir í dálk sem merktur er „Deferred (art 114)“. Var kröfunni samkvæmt þessu lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Ummæli í fylgibréfi um „standard claim“ geta að mati dómsins engu breytt um þessa niðurstöðu, þar sem kröfulýsingin gengur framar fylgiskjölum auk þess sem samhengi bréfsins ber með sér að með orðalaginu sé verið að vísa til eyðublaðsins „standard claim form“.

Sóknaraðili byggir einnig á því að umrætt eyðublað varnaraðila sé villandi, þar sem enska orðið „deferred“ sé notað um eftirstæðar kröfur, í stað orðsins „subordinated“ sem venja standi til að sé notað um eftirstæðar kröfur. Þessu til sönnunar vísar sóknaraðili til þýðingar á orðinu „deferred“ í orðabók og til enskrar þýðingar á lögum nr. 21/1991 á heimasíðu innanríkisráðuneytisins, þar sem orðið „subordinate“ er notað. Þó fallast megi á það með sóknaraðila að þýðing varnaraðila sé að þessu leyti ekki allskostar nákvæm breytir það því ekki að kröfuhafi ber sjálfur ábyrgð á því að útbúa kröfulýsingu sína og verður því almennt sjálfur að bera ábyrgð á mistökum sem verða við gerð hennar. Engin efni eru til að víkja frá þessu í tilviki sóknaraðila, enda liggur fyrir að lögmaður útbjó kröfulýsingu sóknaraðila. Í eyðublaðinu kemur skýrt fram að með tegundum krafna sé vísað til 109. til 114. gr. laga nr. 21/1991 og var sóknaraðila og lögmanni hans í lófa lagið að leita sér ráðgjafar um tegundir og rétthæð krafna á hendur varnaraðila.

Samkvæmt framansögðu lýsti sóknaraðili kröfu sinni skýrlega sem eftirstæðri samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili er bundinn við þá lýsingu sóknaraðila og getur ekki samþykkt kröfu sóknaraðila með hærri rétthæð en sóknaraðili hefur sjálfur óskað eftir, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 303/2003.

Í samræmi við framangreint er hafnað kröfu sóknaraðila í þessum þætti málsins um að krafa hans að fjárhæð 155.485,80 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, en staðfest afstaða slitastjórnar varnaraðila um að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laganna.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Air Alsie A/S, á hendur varnaraðila, Kaupþingi hf., er hafnað. Staðfest er afstaða slitastjórnar varnaraðila um að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.