Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2005
Lykilorð
- Samningur
- Skaðabætur
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 18. maí 2006. |
|
Nr. 502/2005. |
Gunnólfur ehf. (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Alfesca hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Samningur. Skaðabætur. Uppgjör.
G ehf., sem rak saltfiskverkun, og A hf., sem hafði tekið að sér að flokka, meta og pakka saltfisk frá G ehf. og koma honum á erlendan markað, höfðu átt viðskipti um nokkurt skeið þegar ágreiningur reis milli þeirra um magn saltfisks, sem G ehf. átti að hafa sent til A hf. árið 2001. Krafði G ehf. síðargreinda félagið um greiðslu fyrir það magn, sem það áleit að eftir væri að gera upp, og lagði fram ýmis gögn til stuðnings áætlun sinni á framleiddu magni saltfisks í vinnslu sinni. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að félögin hefðu gengið til samninga í mars 2002 um uppgjör á skuld G ehf. í árslok 2001, en þá lá fyrir að hluti hennar átti rætur að rekja til þess vigtarmunar sem deilan snerist um. Með því að semja með þessum hætti um uppgjör á skuld vegna viðskiptanna 2001, án þess að gera fyrirvara um að hafa uppi frekari kröfur vegna þeirra, var talið að G ehf. hefði firrt sig rétti til að gera síðar kröfur vegna álitamála í viðskiptunum, sem voru komin upp þegar samningurinn var gerður. Þegar af þessari ástæðu var A hf. sýknað af kröfu G ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2005. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 29.862.535 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2002 til greiðsludags, en til vara að stefndi greiði sér 20.105.386 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Nafni stefnda var 9. febrúar 2006 breytt úr SÍF hf. í Alfesca hf.
I.
Málsaðilar áttu viðskipti með saltfisk frá árinu 1999 og fram á árið 2003. Varðar ágreiningur þeirra þessi viðskipti á árinu 2001. Áfrýjandi rekur saltfiskverkun á Bakkafirði. Hann rekur ekki eigin útgerð en kaupir hráefni, einkum þorsk, til vinnslunnar. Blautverkuðum saltfiski áfrýjanda var staflað á bretti sem send voru frá Bakkafirði til Húsavíkur. Þar var þeim safnað saman og síðan send í kæligámum með Eimskip ehf. til starfsstöðvar stefnda í Hafnarfirði. Hlutverk stefnda í viðskiptunum var tvíþætt. Annars vegar tók hann saltfiskinn úr gámunum þegar hann var fullverkaður, flokkaði hann, mat og pakkaði. Ekki er ágreiningur um að þetta hafi stefndi unnið sem verktaki fyrir áfrýjanda. Hins vegar tók stefndi að pökkun lokinni afurðirnar til sölumeðferðar. Telur áfrýjandi að stefndi hafi tekið saltfiskinn í umboðssölu, en stefndi telur sig hafa keypt hann af áfrýjanda. Er fallist á það með héraðsdómara að á grundvelli gagna málsins, meðal annars skýrslu forsvarsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi, verði að miða við að um kaup hafi verið að ræða.
Áfrýjandi áætlaði vikulega framleitt magn saltfisks í vinnslu sinni og sendi stefnda skýrslur þar að lútandi. Er yfirlit yfir 48 slíkar skýrslur vegna ársins 2001 meðal gagna málsins. Samkvæmt þeim áætlaði áfrýjandi að hann hefði framleitt samtals 1.002.201 kg af saltfiski. Af málflutningi áfrýjanda er ljóst að þessi framleiðsla var áætluð út frá innvegnum afla, sem áfrýjandi keypti, og reynslu hans af nýtingu þess afla í vinnslunni. Áfrýjandi vigtaði ekki framleiðslu sína áður en hann sendi hana áleiðis til stefnda, enda telur hann að slíkri vigtun verði ekki við komið með hagkvæmum hætti á því stigi. Á grundvelli þessara framleiðsluskýrslna veitti stefndi áfrýjanda vikulega lán vegna framleiðslunnar miðað við áætlað jafnaðarverð afurðanna. Á árinu 2001 sendi áfrýjandi stefnda 72 kæligáma með saltfiski. Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hafi á árunum 1999 og 2000 reglubundið vigtað saltfiskinn þegar hann tók hann út úr kæligámum og sent áfrýjanda þær upplýsingar, en í maí 2001 hafi þessar upplýsingar hætt að berast. Stefndi kveðst aldrei hafa vegið fiskinn út úr gámunum og hafi engin breyting orðið þar á vorið 2001. Hefur áfrýjanda gegn mótmælum stefnda ekki tekist að færa sönnur á framangreinda fullyrðingu. Stefndi kveðst frá upphafi viðskiptanna hafa vegið fiskinn eftir að hann var flokkaður og pakkaður enda hafi kaupverð fisksins verið við það miðað. Sendi stefndi áfrýjanda kaupnótu eða afreikning vegna hvers móttekins gáms með sundurliðari vigt einstakra pakkninga. Eru 72 slíkar nótur vegna viðskipta aðila 2001 meðal gagna málsins.
Vegna framleiðslu áfrýjanda árið 2001 kom fram munur á því framleiðslumagni, sem hann hafði samkvæmt framansögðu áætlað, og því magni veginna afurða sem stefndi greiddi fyrir. Af þessu tilefni meðal annars fékk áfrýjandi Sigurjón Bjarnason til að gera greinargerð um viðskiptin dagsetta 27. febrúar 2002 þar sem fjallað var um nýtingarhlutfall á innvegnum fiski og gengistap vegna fyrrgreindra lána. Þá hefur áfrýjandi lagt fyrir Hæstarétt bréf sitt til stefnda 4. febrúar 2002 þar sem beðið var um upplýsingar til að skýra „frávik sem hefur orðið á láni og afurðum.“
Þann 21. mars 2002 undirrituðu aðilar tvo samninga. Laut annar að uppgjöri skuldar áfrýjanda við stefnda vegna fyrri viðskipta en hinn laut að áframhaldandi samstarfi þeirra. Samkvæmt 1. gr. fyrrnefnda samningsins skuldaði áfrýjandi stefnda 314.277 evrur miðað við viðskiptastöðu 31. desember 2001 „sem aðallega skýrist af gengismun sem að mestu myndaðist á árinu 2001 á viðskiptareikningi framleiðanda ...“ Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi þriðjungur skuldarinnar afskrifaður eða 104.759 evrur en tveir þriðju hennar eða 209.518 evrur skyldu settar á sérstakan lánsreikning áfrýjanda hjá stefnda. Skyldi sú skuld endurgreidd með því að draga tiltekna fjárhæð af hverjum gámi af þurrkuðum hausum sem áfrýjandi seldi stefnda. Samkvæmt áætluðu framleiðslumagni af þeirri afurð miðuðu aðilar við að skuldin yrði greidd upp á tveimur árum. Í 4. gr. var síðan kveðið á um vexti af skuldinni.
Í málatilbúnaði aðila hefur nokkuð verið fjallað um hvernig sú skuld, sem hér var samið um uppgjör á, hafi myndast. Sigurjón Bjarnason, sem samdi fyrrnefnda greinargerð fyrir áfrýjanda, taldi í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hluti skuldarinnar hefði myndast vegna gengismunar. Taldi hann aðspurður að sá þriðjungur hennar sem niður var felldur hafi ríflega samsvarað gengismuninum. Nánar aðspurður af lögmanni áfrýjanda kvaðst hann ekki hafa farið yfir greinargerð sína og því ekki getað staðfest að svo væri en vildi þó ekki draga þann framburð til baka. Forsvarsmaður áfrýjanda sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að umrædd skuld hafi stafað annars vegar af gengismuni og hins vegar af óútskýrðum muni á ætluðu framleiðslumagni og þeim afurðum sem stefndi hafi vigtað og greitt fyrir og hafi sá hluti skuldarinnar sem eftir var gefinn nákvæmlega samsvarað gengismuninum.
Í bréfi 24. mars 2003 rakti áfrýjandi þann mun sem hann taldi vera á magni saltfisks, sem hann hefði sent stefnda, og því sem stefndi hefði greitt fyrir. Óskaði hann eftir upplýsingum um hvernið stefndi hygðist standa að uppgjöri vegna þessa. Eru bréfaskipti aðila í framhaldi af því rakin í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi reisir kröfugerð sína á að nýtingarhlutfall hans í vinnslu sé 54% miðað við slægðan þorsk og telur það hóflegt þar sem rannsókn á nýtingarhlutfalli í rekstri sínum frá vori 1999 til vors 2000 hafi sýnt 55,9% meðalnýtingu. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að nýtingarhlutfall áfrýjanda hafi verið 54% á árinu 2001. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins 28. febrúar 2006. Kemur þar meðal annars fram að miðað við þá aðferð sem áfrýjandi notaði til verkunar saltfisks og staðsetningu fyrirtækisins á Norðausturlandi eigi áfrýjandi að geta náð 54% nýtingu.
II.
Eins og að framan er rakið gengu aðilar til samninga í mars 2002 um uppgjör á skuld áfrýjanda í árslok 2001 og um áframhaldandi viðskipti. Áfrýjandi heldur því fram að með fyrrnefnda samningnum hafi stefndi samþykkt að fella niður þann þriðjung skuldarinnar sem rekja mátti til gengisbreytinga en að öðru leyti hafi ágreiningsefni aðila ekki verið gerð upp, þar sem stefndi hafi hafnað að ræða þau en áfrýjandi hafi á þessum tíma verið honum háður. Stefndi heldur því hins vegar fram að gera hafi þurft upp viðskipti aðila vegna ársins 2001. Hafi það verið gert með umræddum samningi sem tekið hafi til viðskiptanna í heild og hafi ekki legið fyrir að eftir stæði óleystur ágreiningur vegna þeirra.
Í framangreindri skýrslu Sigurjóns Bjarnasonar 27. febrúar 2002 um viðskipti aðila á árinu 2001 var meðal annars fjallað um aukningu á rýrnun í vörusendingum milli áranna 2000 og 2001, sem og nýtingarhlutfall áfrýjanda á innvegnum fiski í samanburði við sölu á fullunnum vörum. Þessa skýrslu hafði áfrýjandi haft undir höndum í tæpan mánuð er umræddur samningur var gerður. Þá hafði áfrýjandi eins og að framan var rakið 4. febrúar 2002 beðið um upplýsingar varðandi pökkun stefnda og talið nauðsynlegt að sem allra fyrst fengjust trúverðugar skýringar „á fráviki á láni og birgðum og öðrum atriðum sem kunna að vera álitaefni.“ Skuld áfrýjanda í árslok átti aðeins að hluta rót sína að rekja til gengismunar og var hluti hennar vegna þess munar sem var á framleiðsluskýrslum áfrýjanda, sem lán stefnda höfðu miðast við, og greiðslum stefnda fyrir afurðirnar sem byggðust á vigtun þess síðarnefnda eftir pökkun þeirra. Jafnframt liggur fyrir að áfrýjanda var ljóst þegar gengið var til samninga um uppgjör á skuldinni að hluti hennar átti rót sína að rekja til þess vigtarmunar sem um er deilt í máli þessu.
Með samningi aðila var kveðið á um uppgjör á allri þeirri skuld áfrýjanda sem myndast hafði vegna viðskipta aðila á árinu 2001. Kveður samningurinn ekki aðeins á um niðurfellingu á þriðjungi skuldarinnar, sem áfrýjandi telur stafa af gengismun, heldur einnig um greiðslu áfrýjanda á tveimur þriðju hlutum hennar með nánar tilteknum hætti á tveimur árum, en sá hluti virðist samkvæmt gögnum málsins að mestu stafa af vigtarmun þeim sem aðilar deila nú um. Með því að semja með þessum hætti um uppgjör á skuld vegna viðskipta aðila 2001, án þess að gera fyrirvara um að hafa uppi frekari kröfur vegna þeirra, firrti stefni sig rétti til að gera síðar kröfur vegna þeirra álitamála í viðskiptunum sem upp voru komin þegar samningurinn var gerður. Verður stefndi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfu áfrýjanda og niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði .
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Gunnólfur ehf., greiði stefnda, Alfesca hf., samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. júlí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. júní sl., var höfðað 22. júní 2004.
Stefnandi er Gunnólfur ehf., Hafnargötu 4, Bakkafirði.
Stefndi er SÍF hf., Fornubúð 5, Hafnarfirði.
Af hálfu stefnanda er þess aðallega krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 29.862.535 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2002 til greiðsludags, en til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.105.386 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2002 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnda. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Helstu málavextir eru þeir að stefnandi og stefndu áttu í viðskiptasambandi sem hófst árið 1999 en lauk árið 2003. Stefnandi rekur verkun með blautverkaðan saltfisk á Bakkafirði. Gengur rekstur stefnanda í meginatriðum þannig fyrir sig að hann kaupir hráefni til vinnslu sinnar af útgerðaraðilum, einkum þorsk. Úr þessu hráefni verkar stefnandi saltfisk, sem staflað er á bretti og síðan sendur stefnda í gámum. Kveður stefnandi hlutverk stefnda hafa verið að taka á móti afurðum stefnanda, pakka þeim í hagkvæmustu pakkningar samkvæmt umsömdum markmiðum aðila og selja þær á erlenda markaði. Stefndi hafi lánað stefnanda vikulega fé til reksturs hans en á móti haft tryggingu í afurðum stefnanda. Nánar tiltekið hafi ferill þessara viðskipta verið sá, að vörunni hafi verið staflað á 400 kílóa palla og hún síðan send í sérbúnum kæligámum til að tryggja geymsluþol en afar mikilvægt sé að hitastig vörunnar sé rétt til að koma í veg fyrir óþarfa rýrnun. Pökkun sinni hafi stefndi sinnt í verktöku fyrir stefnanda eins og ráða megi af reikningum stefnda fyrir þjónustunni. Samkvæmt samkomulagi aðila hafi stefnda borið að pakka vörum frá stefnanda innan viku frá móttöku vörunnar. Að hverri pökkunarlotu lokinni hafi stefnanda verið sendur afreikningur fyrir því magni sem pakkað hafði verið. Þá hafi lánið sem stefnandi hafði fengið vegna viðkomandi sendingar verið dregið frá og mismunur gerður upp.
Þegar viðskipti þau er mál þetta varðar áttu sér stað hafði ekki verið gerður skriflegur samningur milli aðila og byggðust viðskiptin á munnlegu samkomulagi. Stefndi lýsti ferli viðskiptanna svo að stefnandi hefði keypt ýmist óslægðan fisk eða slægðan fisk með haus af bátum, verkað hann og saltað og sent hann jöfnum höndum í þar til gerðum hólkum til Húsavíkur þar sem birgðir söfnuðust upp, þar til nóg var komið í fullan kæligám. Þá hefði hólkunum verið komið fyrir á brettum eða “pallettum” í gáminn og hann síðan sendur með Eimskip til Reykjavíkur. Eimskip hefði séð um að flytja gáminn til stefnda þar sem honum hefði verið komið fyrir úti á plani og stungið í samband til að viðhalda kælingunni. Þegar fiskurinn hefði verið orðinn fullverkaður og tilbúinn til pökkunar, hefði hann verið tekinn inn í vinnslusal stefnda þar sem hann hefði verið flokkaður og metinn og honum pakkað í tilheyrandi öskjur sem hefðu síðan verið vigtaðar og settar í kæli þar til þær fóru í skip til útflutnings. Stefnandi hefði hvorki flokkað fiskinn né vigtað og þá hefði stefndi ekkert haft með það að segja hvernig stefnandi vann fiskinn eð hversu lengi hann geymdi fiskinn, annað hvort hjá sér eða Eimskip á Húsavík. Þá hefði stefndi ekkert haft með kælinguna að gera. Því hefði stefnandi sjálfur stjórnað og síðan starfsmenn Eimskips. Starfsmenn stefnda hefðu einfaldlega stungið gámunum í samband við rafmagn þegar þeir komu í verksmiðjuna til að viðhalda kælingunni.
Stefnandi telur að stefndi hafi gerst sekur um mistök, vanrækslu og vanefndir við meðferð, varðveislu og uppgjör þeirrar vöru sem stefnandi sendi honum árið 2001 og horfi málið þannig við stefnanda:
Hann hafi sent stefnda vikulega framleiðsluskýrslu um áætlað framleitt magn í vikunni áður. Samkvæmt þessum skýrslum, sem hafi verið 48 talsins á árinu 2001, hafi stefnandi sent stefnda 1.002.201 kg. af saltfiski á árinu 2001. Á grundvelli þessara skýrslna hafi stefndi greitt út til stefnanda vikulega lán til framleiðslunnar án athugasemda. Umræddar skýrslur hafi því verið grundvallargagn um framleiðsluna hjá stefnanda. Magnið samkvæmt þessum skýrslum hafi verið varlega áætlað og gert ráð fyrir 2% birgðaafgangi í árslok. Samkvæmt því hafi raunverulegt magn saltfisks, sem koma hafi átt til uppgjörs milli aðila, átt að vera 1.022.245 kg. Raunin hafi orðið sú að stefndi greiddi stefnanda fyrir 960.899 kg. á árinu 2001. Mismunurinn sé 61.346 kg. og telji stefnandi sig vanhaldinn í uppgjöri við stefnda um þennan mismun. Sé einungis horft til þess magns sem á vanti að uppgert hafi verið án tillits til áætlaðs 2 % birgðaafgangs í árslok nemi mismunur 41.302 kg.
Um þetta segir stefndi að stefnandi hafi notið þeirrar þjónustu hjá stefnda að fá greitt inn á framleiddar afurðir jöfnum höndum, löngu áður en þær voru afhentar stefnda. Hafi þetta farið fram með þeim hætti að stefnandi sendi stefnda framleiðsluskýrslu fyrir hverja viku fyrir sig og hafi stefndi greitt jafnaðargjald fyrir hvert kíló inn á kaupverð afurðanna. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að engin vigtun eða mat á afurðunum hafi farið fram. Eingöngu hafi verið treyst á að upplýsingar stefnanda um þetta væru réttar. Staðreyndir um þyngd fisksins og gæði hans hafi hins vegar ekki legið fyrir fyrr en stefndi hafði vigtað hann, metið og pakkað honum. Eftir að lokið hafi verið við að tæma úr hverjum gám fyrir sig hafi stefnanda verið sent uppgjör, svokölluð kaupnóta eða afreikningur, þar sem í smáatriðum hafi verið rakið hvernig fiskurinn hafði flokkast og vigtast. Stefnanda hafi verið sendar kaupnótur fyrir alls 72 gáma á árinu 2001 og hafi stefnandi getað borið niðurstöður þeirra saman við eigin tölur um þyngd og samsetningu fisksins sem hann hafði sent suður. Kveður stefndi stefnanda ekki hafa, í eitt einasta af þeim skiptum sem hann fékk slíka kaupnótu senda á árinu 2001, hreyft athugasemdum við vigtina á afurðum hans. Þó hafi forsvarsmenn stefnanda oftar en einu sinni verið viðstaddir þegar tekið var úr gámum fyrirtækisins og fisknum pakkað. Einu athugasemdirnar sem nokkurn tíma komu frá þeim hafi varðað fiskmatið auk þess sem ítrekað hafi verið hver yfirvigtin í pakkningunum mætti mest vera. Þannig hafi liðið árin 1999, 2000 og 2001 án þess að stefnandi hreyfði nokkurn tíma athugasemdum við pökkunaraðferðum stefnda eða vigtun á afurðum stefnanda.
Vegna þess mismunar sem stefnandi taldi sig vanhaldinn af í uppgjöri við stefnda vegna viðskiptanna árið 2001, sem áður er rakið, svo og vegna fleiri atriða sem stefnandi kvaðst hafa gert athugasemdir við í viðskiptunum við stefnda, kvaðst stefnandi hafa látið taka saman greinargerð um viðskiptin á árinu 2001. Það hafi Sigurjón Bjarnason starfsmaður KPMG Endurskoðunar ehf. gert og sé skýrsla hans dagsett 27. febrúar 2002. Í skýrslunni séu gerðar athugasemdir við framangreindan mismun á því magni sem stefnandi telur sig hafa sent stefnda árið 2001 og því magni sem stefndi greiddi fyrir, við vaxtatap stefnanda vegna seinkunar á innborgunum frá stefnda, við nýjar aðferðir stefnda við mat á saltfiski sem ekki væru í samræmi við samkomulag aðila, við pökkunaraðerðir stefnda sem að hluta hefðu reynst í ósamræmi við fyrirmæli stefnanda og samkomulag aðila, við sölu stefnda á skreið fyrir stefnanda og við reiknaðan gengismun á skuld stefnda hjá stefnanda og gjaldeyrisviðmiðanir í viðskiptunum. Í kjölfarið hefðu fylgt viðræður milli aðila. Stefndi hefði hafnað að ræða óskýrða rýrnun saltfisks og að leggja fram gögn úr birgðabókhaldi sínu. Viðræðunum hefði lokið með því að gert var samkomulag 21. mars 2002, um afmarkaðan þátt af ágreiningi aðila. Nánar tiltekið hefði samkomulagið gengið út á, að miðað við stöðu á viðskiptareikningi þann 31. desember 2001 stæði stefnandi í skuld við stefnda um 314.277 evrur, sem að mati stefnda, hefði aðallega myndast vegna gengisbreytinga. Stefndi hefði verið tilbúinn að fella 1/3 hluta skuldarinnar niður, alls 104.759 evrur, vegna gengismunar. Að öðru leyti hefðu ágreiningsmál aðila ekki verið gerð upp þar sem stefndi hefði hafnað að ræða önnur ágreiningsefni og jafnframt hafnað því að hlutlaus aðili yrði fenginn til að fara yfir gögn úr birgðabókhaldi stefnda til að reyna að finna skýringar á óskýrðri rýrnun. Á þessum tíma hefði stefnandi verið háður stefnda um fjármögnun í rekstri sínum. Hann hefði því ekki átt annars úrkosta en að láta hér við sitja að svo stöddu. Stefnandi hefði á engan hátt afsalað rétti sínum til að hafa uppi frekari kröfur á hendur stefnda. Hann hefði hins vegar leitað leiða til að losna úr viðskiptum við stefnda og á árinu 2002 hefði hann gert samning við Íslensku umboðssöluna hf, sem hefði gert honum kleift að gera upp eftirstöðvar á viðskiptareikningi hjá stefnda og flytja viðskipti sín frá honum til Íslensku umboðssölunnar hf. Með þessu hefði hann komist í aðstöðu til að láta reyna á þær kröfur sínar sem ekki hafði náðst samkomulag um.
Stefndi kveður aðila hafa gert upp viðskipti sín frá árinu 2001 í lok mars 2002 og hefðu verið gerðir tveir samningar. Annar vegna uppgjörs á skuld stefnanda á viðskiptareikningi hans, en við áramót hefði staða hans verið neikvæð um 314.277,00 sem samsvari u.þ.b. 28.700.000 krónum miðað við gengi evrunnar 1. janúar 2002. Skuldin hefði m.a. stafað af mismuninum sem var á framleiðsluskýrslum stefnanda annars vegar og niðurstöðum vigtunar hins vegar. Þannig hefði stefndi flýtigreitt eða lánað stefnda m.v. kaup á 1.029.217 kílóum en afhent kíló hefðu í raun aðeins verið 976.389. Stefndi hefði því lánað stefnanda vegna kaupa á 52.828 kílóum sem ekki skiluðu sér. Af þessum sökum hefði hann lánað stefnanda 281.573,00 meira en hann átti að fá samkvæmt samningi þeirra. Samningur aðila hefði kveðið svo á að stefndi veitti stefnanda afslátt eða eftirgjöf sem nam 104.759,00 sem samsvaraði u.þ.b. 9.570.000 krónum. Mismuninn hefði stefnandi síðan fengið að greiða með afurðum sínum í 10 afborgunum. Þennan samning hefði stefnandi undirritað 21. mars 2002 án nokkurra athugasemda um viðskiptastöðuna eða útreikninga stefnda. Sama dag hefði stefnandi undirritað samning við stefnda um áframhaldandi viðskipti með afurðir, samning sem í öllum efnisatriðum hefði verið samhljóða hinum munnlega samningi aðila og hefði stefndi ekki óskað eftir neinum breytingum á honum, hvorki varðandi vinnsluferli eða meðferð afurða né heldur varðandi greiðslukjör o.þ.h.. Við undirritun þessara tveggja samninga hefði skýrsla Sigurjóns Bjarnasonar hjá KPMG legið fyrir.
Með bréfi dagsettu 24. mars 2003 til stefnda óskaði lögmaður stefnanda upplýsinga um hvernig stefndi hygðist standa að uppgjöri við hann vegna vangoldinna birgða. Tekið var fram að vildi stefndi gera athugasemdir við kröfu stefnanda væri þess óskað að skýringar stefnda yrðu studdar gögnum úr birgðabókhaldi stefnda.
Með svarbréfi stefnda 31. mars 2003 var erindi stefnda hafnað á þeim forsendum að samið hefði verið sérstaklega um endanlegt uppgjör viðskiptanna og í tengslum við þann samning hefði stefndi gefið stefnanda eftir skuld að fjárhæð tæplega tíu milljónir.
Stefnda var sent bréf að nýju 22. júlí 2003 þar sem afstöðu stefnda var mótmælt og kröfur ítrekaðar.
Í svarbréfi stefnda 24. júlí 2003 var kröfum stefnanda enn hafnað með sömu rökum og áður og tekið fram að stefnandi hefði engan fyrirvara gert þegar stefndi samþykkti að fella niður hluta af skuld stefnanda og að það liggi í hlutarins eðli að stefndi hefði aldrei samþykkt niðurfellingu á skuld stefnanda ef á sama tíma væru ófrágengin ágreiningsefni er kynnu að halla á stefnda. Þá hefði að sjálfsögðu verið skuldajafnað. Þá kemur fram í bréfi stefnda að stefndi hljóti að skilja kröfu stefnanda sem svo að hann sé í raun að óska eftir því að skuldauppgjör hans við stefnda verði tekið upp í heild sinni samhliða því að krafa stefnanda verði fullkönnuð á ný. Stefndi geti ekki fallist á að þessi mál verði aðskilin heldur skoðuð í heild og áskilji hann sér því rétt til þess að krefja stefnanda um 104.759 ásamt áföllnum kostnaði.
Stefnandi kveður stefnda hvorki hafa afhent umbeðin gögn úr birgðabókhaldi sínu né gefið þær upplýsingar sem stefnandi hafði óskað eftir. Fundi með fyrrverandi forstjóra stefnda, Gunnari Erni Kristjánssyni, 24. nóvember 2003 um ágreining aðila hefði lokið án árangurs.
Við aðalmeðferð málsins gaf Kristinn Pétursson, framkvæmdastjóri stefnanda aðilaskýrslu og skýrslur vitna gáfu Valtýr Bergmann Benediktsson, Sigurjón Bjarnason, Árni Bergmann Pétursson, Jónas Rafn Tómasson, Kristín Jóhannesdóttir og Trausti Eiríksson
II.
Fjárkrafa stefnanda byggist á mismuni á magni saltfisks sem stefnandi sendi stefnda á árinu 2001 og því magni sem stefndi greiddi fyrir á því ári.
Aðalkrafa stefnanda að fjárhæð 29.862.535 krónur er þannig tilkomin að margfölduð eru saman þau kíló saltfisks sem stefnandi sendi stefnda á árinu 2001 en fékk ekki fyrir, 61.346 kg, við meðalverð saltfisks á árinu 2001 pr. kg., 5,33 evrur. Fæst þá fjárhæðin 326.974 evrur. Sú fjárhæð er margfölduð með gengi evru þann 31.12.2001, kr. 91,33 og fæst þá kröfufjárhæðin, 29.862.535.
Varakrafa stefnanda er að fjárhæð 20.105.386 krónur. Hún er reiknuð þannig að margfölduð eru saman kíló saltfisks sem stefnandi sendi stefnda á árinu 2001, án tillits til áætlunar um 2% birgðaafgang í árslok, en fékk ekki greitt fyrir, 41.302 kg, við meðalverð saltfisks á árinu 2001 pr. kg., 5,33 evrur. Fæst þá fjárhæðin 220.140 evrur. Sú fjárhæð er margfölduð með gengi evru þann 31.12.2001, kr. 91,33 og fæst þá kröfufjárhæðin, 20.105.386 krónur.
Stefnandi kveður þann eina mun vera á aðal- og varakröfu að magnið sem krafist sé greiðslu á samkvæmt aðaðalkröfu sé meira. Hafi verið óhjákvæmilegt að áætla varlega það magn sem stefnda var sent í hvert sinn þar sem stefndi hafi lánað stefnanda peninga með tryggingu í þeirri vöru sem honum var send. Undir engum kringumstæðum hafi raunverulegt magn mátt vera minna það sem gefið var upp í skýrslum þar sem stefnandi hefði þá gert sig sekan um veðsvik. Af þeirri ástæðu hafi magnið ávallt verið áætlað varfærnislega og gert ráð fyrir 2% birgðaafgangi í árslok. Sá afgangur hefði átt að koma til uppgjörs í árslok og sé aðalkrafa stefnanda við það miðuð. Telji dómur einhvern vafa leika á þeirri aðferð við útreikning kröfunnar sé varakrafan reiknuð án tillits til þeirrar viðbótar sem leiðir af varfærni stefnanda í viðskiptunum
Af hálfu stefnanda er bæði aðal- og varakrafa byggð á eftirfarandi sjónarmiðum og málsástæðum.
Stefnandi miðar það magn, sem hann telur sig hafa átt að fá greitt fyrir en fékk ekki á árinu 2001, við vikulega innsendar birgðaskýrslur sem hann sendi stefnda á árinu 2001, en yfirlit yfir þær framleiðsluskýrslur hafi hann lagt fram. Þá hafi hann einnig lagt fram, staðfestingar frá Eimskipafélagi Íslands hf. um afhendingu á 72 gámum af saltfiski til stefnda á árinu 2001 sem og staðfestingu frá Skipaafgreiðslu Húsavíkur ehf. um að stefnda hafi verið send tilkynning á faxi í hvert sinn sem stefnandi sendi þeim saltfisk. Magnið sem stefnandi krefjist greiðslu fyrir í málinu sé áætlað, byggt á innsendum vikulegum skýrslum frá stefnanda. Áætlunin sé byggð á bestu hugsanlegum gögnum sem til séu í rekstri stefnanda. Til þess að geta vitað nákvæmlega hversu miklu magni af saltfiski stefndi hafi tekið á móti, og hafi átt að greiða fyrir, þyrfti stefndi að leggja fram sundurliðuð gögn úr birgðabókhaldi sínu er sýndu móttekið og innvigtað magn úr hverri sendingu frá stefnanda, hve miklu hafi verið pakkað úr hverri sendingu og hvernig háttað hafi verið meðhöndlun afganga. Hver pallur með saltfiski, sem sendur hafi verið frá stefnanda, hafi verið með sérstöku númeri og allir gámar með vörum frá stefnanda hafi verið innsiglaðir. Stefndi þurfi að upplýsa hver rauf innsiglin og opnaði gámana og hvernig háttað hafi verið skýrslugerð um magn á hverjum palli, eftir þeim númerum sem þeir höfðu. Jafnframt þyrfti stefndi að leggja fram gögn er sýndu hvert var hitastig vörunnar þegar hún var móttekin af stefnda og hvert hitastigið var hvern dag er stefndi geymdi vöruna ópakkaða. Þá hafi stefndi mátt pakka vörum stefnanda með 3,5% - 4% yfirvigt en ekki meira. Stefndi þurfi að upplýsa hvort eftir þessu hafi verið farið eða hvort vörum hafi verið pakkað með meiri yfirvigt, án heimildar stefnanda.
Þessi gögn hafi stefnandi beðið stefnda að sýna sér en verið hafnað. Stefndi búi eða eigi að búa yfir þessum gögnum enda hljóti uppgjör hans við stefnanda að byggja á þessum upplýsingum. Jafnframt sé vakin athygli á því að hér sé að miklu leyti um gögn að ræða sem stefnda sé lögskylt að útbúa og hafa tiltæk, sbr., m.a. ákvæði laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og reglugerða sem eiga stoð í þeim lögum. Verði stefndi ekki við áskorun um að leggja þessi gögn fram í málinu, sé þess krafist, með vísan til X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómur líti svo á, að gögnin sýni að mat stefnanda á óuppgerðu magni saltfisks í viðskiptum aðila á árinu 2001 sé rétt.
Til frekari stuðnings því að mat stefnanda sé rétt bendir stefnandi á að samkvæmt mánaðarlegum yfirlitum til Fiskistofu hafi hann tekið til vinnslu á árinu 2001, 1.895.534 kg. af slægðum þorski með haus. Nýtingarkrafa (nýtingarhlutfall) stefnanda, sem byggi á margra ára reynslu og rannsóknum í rekstri hans, sé 54% miðað við slægðan þorsk. Samkvæmt rannsóknum á nýtingarhlutfalli í rekstri stefnanda, sem að hluta til hafi verið byggðar á upplýsingum frá starfsmanni stefnda og verið unnar í samstarfi við hann, hafi nýtingarhlutfallið verið 55,9% á tímabilinu frá vori 1999 til vors 2000. Viðmið stefnanda um 54% nýtingarkröfu sé því hóflegt. Með vísan til þess hefði móttekið magn hjá stefnda á árinu 2001, að teknu tilliti til áætlunar um 2% birgðaafgang, átt að vera 1.023.588 kg. saltfisks.
Stefnandi margfaldar vangreitt magn með meðalverði sem hann fékk greitt fyrir hvert kíló af saltfiski á árinu 2001 í evrum. Hefðbundið hafi verið að flokka saltfisk í 20 mismunandi gæðaflokka og fæst mismunandi verð fyrir hvern þeirra. Jafnframt sé verð sveiflukennt eftir árstíma. Á meðan stefndi leggi ekki fram gögn um meðferð hans á vörum stefnanda sé ómögulegt að vita hvenær sá mismunur varð til sem um er fjallað í málinu eða hvaða verð hefði getað fengist fyrir hann. Við þessar aðstæður sé nærtækast að styðjast við meðalverð
Kröfu sína á hendur stefnda byggir stefnandi á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og skaðabætur innan samninga vegna vanefnda stefnda á samningi. Stofnast hafi samningur milli aðila þegar stefndi hóf að taka við vörum frá stefnanda. Endurgjaldið sem stefnandi greiddi stefnda í viðskiptunum hafi verið tvenns konar. Annars vegar hafi stefnandi greitt gjald fyrir pökkun og varðveislu vörunnar, frá þeim tíma er hún var afhent stefnda og þar til hún var greidd. Hins vegar hafi stefndi tekið söluþóknun fyrir sinn hlut í því að selja vöruna til erlendra aðila. Stefnandi telji því að um umboðssölu af hálfu stefnda hafi verið að ræða, sbr. lög nr. 103/1992 um umboðssöluviðskipti. Því til stuðnings bendir stefnandi m.a. á, að kröfur erlendra kaupenda vörunnar vegna ætlaðra galla hafi verið gerðar á stefnanda en ekki stefnda. Virðist stefndi því hafa litið svo á að varan væri í eigu stefnanda þar til eignarréttur að henni yfirfærðist til erlends kaupanda. Samkvæmt ófrávíkjanlegu ákvæði 3. gr. laga nr. 103/1992 skuli umboðssölumaður gæta hagsmuna umbjóðanda síns af skyldurækni og heiðarleika og í b-lið ákvæðisins segi að umboðssölumanni beri að miðla öllum tiltækum upplýsingum sem máli skipta til umbjóðandans. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna geti umboðssölumaður bakað sér skaðabótaskyldu, vanræki hann skyldur sínar samkvæmt lögunum.
Verði talið að stefnandi hafi selt stefnda vöru sína, í þeim viðskiptum sem lýst hefur verið, byggir stefnandi á því að lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup eigi við um þau viðskipti.
Hvernig sem annars verði litið á réttarsamband aðila hljóti frumskylda stefnda í samningssambandinu að vera sú að geta gert grein fyrir meðferð sinni á vörum stefnanda, að varðveita hana með forsvaranlegum hætti og gera stefnanda fullnægjandi skil á þeim verðmætum sem stefnda var treyst fyrir. Með því að gera það ekki hafi stefndi vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda sem leiði til kröfuréttar á hendur stefnda.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af stefnufjárhæð, bæði í aðal- og varakröfu, frá 1. janúar 2002 til greiðsludags. Stefnandi kveður ómögulegt hafa verið að vita hvenær á árinu 2001 krafa hans féll til en líklegt megi telja að það hafi gerst smátt og smátt yfir árið. Uppgjöri vegna ársins 2001 hefði í síðasta lagi átt að vera lokið um áramót og sé upphafsdagur dráttarvaxta því 1. janúar 2002.
III.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að í stefnu sé farið rangt með ýmisleg mikilvæg atriði málsins sem beri að leiðrétta. Í fyrsta lagi skuli tekið fram að viðskipti aðila hafi verið kaup. Stefndi hafi keypt afurð stefnanda eins og hún var þegar búið var að vigta hana, flokka og pakka. Verð til stefnanda hafi miðast við vöru sem var tilbúin til útflutnings og hafi stefnandi enga áhættu borið af vörunni eftir það né af hugsanlegum breytingum á verði hennar. Sem framleiðandi hafi stefnandi hins vegar að sjálfsögðu borið ábyrgð á gæðum vöru sinnar.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi ekki viðhaft þær aðferðir við mat á fiskinum og pökkun hans og um var samið. Stefndi hafi viðhaft nákvæmlega sömu aðferðir og árin 1999 og 2000, aðferðir sem stefnandi þekkti og gerði ekki athugasemdir við enda um viðurkenndar aðferðir og verklag að ræða.
Af hálfu stefnda er það talið rangt sem í stefnu getur að samningur aðila frá 21. mars 2002 hafi aðeins varðað afmarkaðan þátt í ágreiningi aðila. Það hafi ekki verið neinn ágreiningur milli aðila á þessum tíma. Einungis hafi þurft að gera upp viðskiptin á liðnu ári en ljóst hefði verið að stefndi hafði ofgreitt stefnanda tæpar þrjátíu milljónir króna. Engin önnur ágreiningsefni hafi verið uppi enda hefði nefndur samningur aldrei verið gerður ef fyrir hefði legið ágreiningur um hagsmuni sem hljóðuðu upp á tugi milljóna króna. Þá gefi auga leið að stefnandi hefði heldur aldrei farið að samþykkja að greiða stefnda tuttugu milljónir króna ef hann hefði talið sig eiga þá fjárhæð og gott betur hjá honum vegna sömu viðskipta. Að sama skapi sé augljóst að stefndi hefði ekki farið að gefa stefnanda eftir tæpar tíu milljónir ef fyrir hefði legið að stefnandi teldi sig eiga tæpar þrjátíu milljónir króna hjá stefnda.
Það sé því einfaldlega rangt að stefndi hafi neitað að ræða önnur ágreiningsefni en skuld stefnanda við hann.
Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að stefndi hafi gerst sekur um mistök, vanrækslu og vanefndir við meðferð, varðveislu og uppgjör á afurðum stefnanda eins og fullyrt sé í stefnu. Hann krefjist því sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Af hálfu stefnda er bent á að í stefnu komi fram að kröfugerð stefnanda sé byggð á áætlunum hans sjálfs um magn á afhentum afurðum. Stefnandi leggi upp með fullyrðingu um það úr hve miklum afla hann hafi unnið. Samkvæmt samantekt stefnanda sjálfs hafi hann landað eða keypt samtals 1.895.534 kíló á árinu 2001. Stefndi telur þessa skýrslu, sem sé grunnforsenda kröfugerðar stefnanda, ekki studda neinum gögnum. Í annan stað byggist kröfugerð stefnanda á fullyrðingu um um meðalnýtingu afla í fiskverkun hans. Hann haldi því fram að meðalnýting hans sé 54% og styður hann það við samantekt sem hann gerði sjálfur á árunum 1999 og 2000. Með þessum tveimur forsendum sem stefnandi gefi sér sjálfur takist honum að reikna út eitthvað sem hann telji að sé afhent magn og byggi hann kröfugerð sína á því. Engar óháðar úttektir séu lagðar fram eða gögn frá óháðum aðilum sem styðji að þessar gefnu forsendur hans eigi við einhver rök að styðjast. Engar stikkprufur hafi verið gerðar á förmum með vigtun til samanburðar við vigtun stefnda. Málatilbúnaður stefnanda í heild byggist því á tveimur fullyrðingum sem báðar styðjist við heimatilbúin gögn. Báðar þessar fullyrðingar séu ekki aðeins ósannaðar heldur séu þær einnig rangar.
Af hálfu stefnda er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi tekið til vinnslu nákvæmlega það magn sem haldið sé fram í stefnu svo og því að nýtingarhlutfall í vinnslu stefnanda árið 2001 hafi verið 54% af óunnum afla. Hið rétta sé að það hafi verið 51%. Á þessum tíma hafi nýtingarhlutfall almennt verið á bilinu 48-50% og hafi það vakið grunsemdir Fiskistofu ef hlutfallið var hærra. Síðan hafi nýjar pakkningar gert það að verkum að hlutfallið hafi hækkað í 54%.
Stefndi kveðst hafa gert í tvígang prufur á vigt á pallettum frá stefnanda þegar þær voru teknar úr gámum, sbr. dskj. nr. 23. Þar komi fram að meðalþyngd pallettu hafi verið 343,2 kg. Stefnandi hafi sent stefnda 2464 pallettur á árinu 2001 og ef miðað sé við það magn sem stefnandi segist hafa sent stefnda, eða 1.022.245 kg., þá yrði meðalþyngdin á pallettu að vera 414,87 kg. Ef miðað er við endanlega vigt stefnda á pökkuðum afurðum hefði meðalþyngd á pallettu þurft að vera 389,6 kg. Þetta leiði enn og aftur til þeirrar niðurstöðu að forsendur þær sem stefnandi gefur sér fái ekki staðist.
Eins og viðskiptum aðila hafi verið háttað allt frá árinu 1999 hafi það verið stefndi sem vigtaði vöruna og sé sú vigtun sú eina sem til sé. Stefndi sé stærsta fyrirtækið á þessum markaði og starfsfólk þess búi yfir mikilli reynslu og þekkingu á meðferð sjávarafla. Vogir þær sem unnið er með í vinnslusal séu löggiltar og sæti eftirliti. Allar niðurstöður úr vigtuninni hafi farið beint inn í Navision kerfið hjá stefnda og orðið grundvöllur að uppgjöri viðskiptanna við stefnanda, bæði varðandi kaupin á afurðunum og sölu stefnda á pakkningunum o.þ.h. Það hafi enginn annar aðili verið, hvorki á vegum stefnanda, geymsluaðila, flutningsaðila eða hins opinbera sem vigtuðu þessar afurðir eða gerðu úttekt á vigtun þeirra. Niðurstaða stefnda um þyngd standi því óhögguð. Sú niðurstaða hafi verið birt stefnanda jafnóðum í kaupnótunum og aldrei sætt andmælum.
Með hliðsjón af framangreindu veki furðu margítrekaðar kröfur stefnanda um að stefndi leggi fram gögn úr birgðabókhaldi sínu. Stefnandi viti alveg nákvæmlega hvernig ferillinn á pökkuninni sé. Hann viti að stefndi tók afurðir hans aldrei í geymslu heldur hafi þær verið í þeim umbúðum og í þeim gámum sem stefnandi lét þær í til flutnings. Hann viti jafnframt að stefndi hafði ekkert með kælinguna á afurðunum að gera, en fiskurinn hafi komið í kæligámum og verið þar óhreyfður þar til honum var pakkað. Hið eina sem stefndi gerði var að hafa eftirlit með því að gámarnir væru ávallt í gangi. Stefnandi viti jafnframt og hafi margoft séð hvernig staðið er að vigtun og pökkun og hann hafi fengið jafnóðum allar þær upplýsingar úr birgðabókhaldi sem hann þurfti, m.a. um flokkun, þyngd og verð afurða sinna. Kaupnóturnar sem stefnandi fékk og lagðar hafa verið fram, séu skýrslur um vigtun og birgðir. Engra frekari gagna sé þörf og í raun sé engum frekari gögnum til að dreifa.
Staðreyndir málsins séu því þær að stefnandi afhenti og seldi stefnda 860.899
kg. af söltuðum þorski á árinu 2001 og hefur fengið það að fullu greitt í samræmi við samning aðila. Hann eigi því enga kröfu á hendur stefnda og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig sjálfstætt á því að viðskipti þessi séu þegar yfirfarin og uppgerð milli aðila. Með samningnum hinn 21. mars 2002 hafi stefnandi og stefndi gert endanlega út um þessi viðskipti og sé sú niðurstaða sem þar var skráð bindandi fyrri báða aðila enda hefði hvorugur aðili gert nokkurn fyrirvara né áskilið sér rétt til endurskoðunar samningsins. Í þessum samningi sé uppgjör allra viðskipta aðila fram til áramóta 2001/2002 að engu undanskildu og séu fullyrðingar um annað í stefnu einfaldlega rangar.
Af hálfu stefnda er kröfu stefnda um dráttarvexti mótmælt, en stefnandi krefjist dráttarvaxta á fjárkröfu sína frá 1. janúar 2002. Hið rétta sé að fjárkrafan kom ekki fram fyrr en í stefnu og geti hún ekki borið dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá þeim degi.
Stefndi vísar um dómkröfur sínar til meginreglna samninga- og kauparéttar um réttar efndir greiðsluloforða, sbr. lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup og eldri lög um sama efni nr. 39/1922. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Eins og að framan getur reisir stefnandi kröfur sínar í málinu á því að stefndi hafi ekki greitt fyrir allan þann saltfisk sem honum var sendur til pökkunar og sölu á árinu 2001. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi gerst sekur um mistök, vanrækslu og vanefndir við meðferð, varðveislu og uppgjör þeirrar vöru sem stefnandi sendi honum árið 2001.
Stefnandi hefur haldið því fram, að til þess að geta vitað nákvæmlega hversu miklu magni af saltfiski stefndi hafi tekið á móti, og hafi átt að greiða fyrir, þyrfti stefndi að leggja fram sundurliðuð gögn úr birgðabókhaldi sínu er sýndu móttekið og innvigtað magn úr hverri sendingu frá stefnanda, hve miklu hafi verið pakkað úr hverri sendingu og hvernig háttað hafi verið meðhöndlun afganga. Hver pallur með saltfiski, sem sendur hafi verið frá stefnanda, hafi verið með sérstöku númeri og allir gámar með vörum frá stefnanda hafi verið innsiglaðir. Stefndi þurfi að upplýsa hver rauf innsiglin og opnaði gámana og hvernig háttað hafi verið skýrslugerð um magn á hverjum palli, eftir þeim númerum sem þeir höfðu. Jafnframt þyrfti stefndi að leggja fram gögn er sýndu hvert var hitastig vörunnar þegar hún var móttekin af stefnda og hvert hitastigið var hvern dag er stefndi geymdi vöruna ópakkaða. Þá hafi stefndi mátt pakka vörum stefnanda með 3,5% - 4% yfirvigt en ekki meira. Stefndi þurfi að upplýsa hvort eftir þessu hafi verið farið eða hvort vörum hafi verið pakkað með meiri yfirvigt, án heimildar stefnanda.
Þessi gögn hafi stefnandi beðið stefnda að sýna sér en verið hafnað. Stefndi búi eða eigi að búa yfir þessum gögnum enda hljóti uppgjör hans við stefnanda að byggja á þessum upplýsingum. Jafnframt sé vakin athygli á því að hér sé að miklu leyti um gögn að ræða sem stefnda sé lögskylt að útbúa og hafa tiltæk, sbr., m.a. ákvæði laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og reglugerða sem eiga stoð í þeim lögum. Verði stefndi ekki við áskorun um að leggja þessi gögn fram í málinu, sé þess krafist, með vísan til X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómur líti svo á, að gögnin sýni að mat stefnanda á óuppgerðu magni saltfisks í viðskiptum aðila á árinu 2001 sé rétt.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að staðreynd málsins sé sú að stefnandi hafi afhent og selt stefnda 860.899 kg. af söltuðum þorski á árinu 2001 og fengið að fullu greitt í samræmi við það. Stefnandi eigi því enga kröfu á hendur stefnda. Þá byggir stefndi sýknukröfuna sjálfstætt á því að umrædd viðskipti sé þegar yfirfarin og uppgerð milli aðila með samningi aðila hinn 21. mars 2002. Í þeim samningi hafi aðilar gert endanlega út um þessi viðskipti og sé sú niðurstaða sem þar var skráð bindandi fyrir báða aðila, enda hafi hvorugur gert nokkurn fyrirvara né áskilið sér rétt til endurskoðunar samningsins. Í þessum samningi hafi farið fram uppgjör allra viðskipta aðila fram til áramóta 2001/2002 að engu undanskildu.
Í málinu er óumdeilt að stefnandi vigtaði saltfiskinn ekki áður en hann var sendur til stefnda. Er spurt var að því við aðalmeðferð málsins hvers vegna saltfiskurinn hefði ekki verið vigtaður áður en hann fór úr húsi, var því til svarað að þá hefði þurft að slá saltið af fiskinum og síðan að stafla honum aftur á bretti og salta hann að nýju.
Upplýst er að stefndi lét ekki vigta saltfiskinn er hann barst í gámum á athafnasvæði hans. Þegar saltfiskurinn þótti fullverkaður voru brettin hins vegar tekin úr viðkomandi gámi og flutt inn í vinnslusal stefnda. Þar var saltfiskurinn flokkaður og metinn og honum pakkað í tilheyrandi öskjur sem voru að lokum vigtaðar og settar í kæli þar til þær fóru í skip til útflutnings. Samkvæmt stefnda fóru allar niðurstöður úr vigtuninni beint inn á Navision kerfið hjá honum og þaðan yfir á afreikninga stefnda og urðu þannig grundvöllur að uppgjöri aðila bæði varðandi kaupin á afurðunum og og sölu á pakkningunum. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu var vigtun stefnda á afurðunum eftir að þeim hafði verið pakkað sú eina sem átti sér stað frá því að stefnandi keypti afla til saltfiskverkunar, en á hinn bóginn hafði stefnandi vigtartölur yfir landaðan afla sem hann keypti til verkunar sinnar.
Eins og áður getur byggir stefnandi á því að hann hafi sent stefnda 1.002.201 kg. af saltfiski á árinu 2001 og hafi þá verið gert ráð fyrir 2% birgðaafgangi í árslok. Þetta magn hafi stefndi flýtigreitt í samræmi við framleiðsluskýrslur stefnanda, en við uppgjör hafi stefndi einungis greitt fyrir 960.899 kg. Stefndi byggir á því að samkvæmt vigtun eftir pökkun á árinu 2001 hefði komið í ljós að saltfiskurinn sem stefnandi hafði sent á árinu vóg einvörðungu 960.899 kg. Eins og áður getur byggði stefnandi framleiðsluskýrslur sínar á því að nýtingarkrafa hans, sem væri byggð á margra ára reynslu og rannsóknum í rekstri hans væri 54%. Þessu hefur stefndi mótmælt og haldið því fram að stefnandi hafi ekki getað náð nema 51% nýtingu á þessum tíma. Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram gögn eða rannsóknir óháðra aðila um nýtingarhlutfall hjá honum, en á hinn bóginn hafa fyrirsvarsmaður stefnanda, fyrrverandi starfsmaður stefnda, bróðir fyrirsvarsmanns stefnanda og framleiðandi sprautusöltunarvéla borið fyrir dóminum að stefnandi hafi náð þessu nýtingarhlutfalli og gott betur. Þær dómskýrslur þykja ekki einar og sér sanna fullyrðingar stefnanda um að nýtingarhlutfall hans hafi verið 54% á árinu 2001.
Samkvæmt gögnum málsins mun stefndi tvisvar á árinu 2001 hafa gert prufur á vigt á pallettum frá stefnanda þegar þær voru teknar úr gámum. Hafi komið í ljós að meðalþyngd pallettu hafi verið 343,2 kg. Stefndi kveður stefnanda hafa sent honum 2464 pallettur á árinu 2001 og sé miðað við það magn sem stefnandi segist hafa sent stefnda, eða 1.022.245 kg., þá yrði meðalþyngdin á pallettu að vera 414,87 kg. Ef miðað væri við endanlega vigt stefnda á pökkuðum afurðum hefði meðalþyngd á pallettu þurft að vera 389,6 kg. Telur stefndi þetta leiða enn og aftur til þeirrar niðurstöðu að forsendur þær er stefnandi gefi sér fái ekki staðist.
Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram nein gögn um vigtarprufur sem hann hafi gert á saltfiskinum sem hann sendi stefnda.
Fram hefur komið í málinu,m.a. í skýrslu Sigurjóns Bjarnasonar sem unnin var fyrir stefnanda, að á árinu 2001 hefðu afurðirnar verið mun lengur á leiðinni til stefnda en árið áður og hefði það stafað af færri ferðum á vegum Eimskips frá Húsavík. Ekki liggur fyrir nein úttekt á því hvaða áhrif þetta hefur haft varðandi rýrnun afurðanna.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að kvartanir hafi verið bornar fram við stefnda á árinu 2001 vegna viðskiptanna. Því mótmælir stefndi og kveður stefnanda aldrei hafa gert athugasemdir við allar þær kaupnótur sem honum voru sendar á árinu vegna 72 gáma sem stefnandi hafði sent stefnda á árinu 2001, en stefnandi hefði getað borið niðurstöður kaupnótanna saman við eigin tölur um þyngd og samsetningu fisksins sem hann hafði sent suður. Þar sem engin gögn hafa verið lögð fram um slíkar kvartanir af hálfu stefnanda teljast staðhæfingar stefnanda um þær ósannaðar gegn mótmælum stefnda.
Á því verður að byggja að viðskipti aðila hafi verið kaup en mat, flokkun og pökkun hafi stefndi unnið í verktöku fyrir stefnanda.
Eins og málið er vaxið þykja ekki skilyrði til að fallast á þá kröfu stefnanda, að með vísan til X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, skuli dómur líta svo á, að gögn sem skorað hafi verið á stefnda að leggja fram, en sem stefndi neitaði að leggja fram, sýni að mat stefnanda á óuppgerðu magni saltfisks í viðskiptum aðila á árinu 2001 sé rétt.
Við heildarmat á því sem að framan er rakið og öðru því sem fram hefur komið í málinu þykir stefnandi ekki hafa fært fyrir því sönnur að hann eigi þær kröfur á hendur stefnda sem hann hefur uppi í aðal- og varakröfum sínum og að það magn af saltfiski sem stefndi kveðst hafa móttekið og greitt fyrir sé rangt. Í þessu sambandi ber að líta til samnings aðila um uppgjör vegna skuldar sem myndaðist hjá stefnanda gagnvart stefnda í viðskiptum ársins 2001. Þar var enginn fyrirvari gerður af hálfu stefnanda um vanhöld greiðslna frá stefnda vegna ársins 2001.
Með vísan til alls þess sem hér að framan er rakið verður niðurstaða málsins sú, að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir þeim úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóm þennan upp.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, SÍF hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Gunnólfs ehf., í máli þessu.
Stefnandi, Gunnólfur ehf., greiði stefnda, SÍF hf. 800.000 krónur í málskostnað.