Hæstiréttur íslands
Mál nr. 825/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Einkahlutafélag
|
|
Miðvikudaginn 6. janúar 2016. |
|
Nr. 825/2015.
|
Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammad Shirazi (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) gegn 101 Austurstræti ehf. Ásgeiri Kolbeinssyni og Kolbeini Péturssyni (Hilmar Magnússon hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Einkahlutafélag.
K, stjórnarformaður og G, meðstjórnandi í félaginu 101 A ehf., kröfðust þess að þeim yrði veittur aðgangur að leiguhúsnæði félagsins með beinni aðfarargerð. Beindu þeir kröfu sinni að félaginu og tveimur öðrum stjórnarmönnum. Talið var að einstakir stjórnarmenn í einkahlutafélagi væru ekki bærir til að gripa til ráðstafana fyrir hönd stjórnar félagsins nema á grundvelli ákvarðana sem teknar hefðu verið á stjórnarfundi, sbr. 1. og 2. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. K og G höfðu ekki sýnt fram á að stjórn 101 A ehf. hefði veitt þeim heimild til aðgangs að húsnæðinu, eða að slík heimild yrði studd við samþykktir eða ályktanir hluthafafundar félagsins. Var kröfu K og G því hafnað, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 14. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þeim yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð aðgang að húsnæðinu að Austurstræti 7 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins er stjórn varnaraðilans 101 Austurstrætis ehf. skipuð fjórum mönnum. Sóknaraðilinn Kamran Keivanlou er formaður stjórnarinnar, en aðrir stjórnarmenn eru sóknaraðilinn Gholamhossein Mohammad Shirazi og varnaraðilarnir Ásgeir Kolbeinsson og Kolbeinn Pétursson.
Í IX. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er meðal annars fjallað um stjórn slíkra félaga. Samkvæmt upphafsmálslið 1. mgr. 47. gr. laganna er fjölskipuð félagsstjórn ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund svo framarlega sem ekki eru gerðar strangari kröfur í samþykktum félags. Eftir 2. mgr. sömu lagagreinar ræður einfaldur meiri hluti atkvæða úrslitum á stjórnarfundum nema samþykktir kveði á um annað. Af þessum lagaákvæðum verður dregin sú ályktun að sé stjórn einkahlutafélags skipuð tveimur mönnum eða fleiri verði ákvarðanir um málefni félagsins, sem undir stjórnina heyra, einungis teknar á formlegum fundum hennar. Af þeim sökum eru einstakir stjórnarmenn ekki bærir til þess að grípa til ráðstafana fyrir hönd stjórnarinnar nema á grundvelli ákvarðana sem teknar hafa verið á stjórnarfundi.
Sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að stjórn varnaraðilans 101 Austurstrætis ehf. hafi samkvæmt framansögðu veitt þeim sem stjórnarmönnum heimild til aðgangs að framangreindu húsnæði, sem félagið hefur haft á leigu, eða að slík heimild styðjist við samþykktir eða ályktanir hluthafafundar félagsins. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar kemur fram í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammad Shirazi, um að þeim verði gert kleift að komast inn í húsnæði að Austurstræti 7, Reykjavík, fastanúmer 200-2606, merking 010101, landnúmer 100830, kjallara, jarðhæð, 1. og 2. hæð.
Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilum, 101 Austurstræti ehf., Ásgeiri Kolbeinssyni og Kolbeini Péturssyni, hverjum um sig, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2015.
Mál þetta barst dóminum með aðfararbeiðni 16. júní sl. Sóknaraðilar eru Kamran Keivanlou, kt. [...], Skildinganesi 62, Reykjavík, og Gholamhossein Mohammad Shirazi, kt. [...], búsettur í Íran.
Varnaraðilar eru 101 Austurstræti ehf., kt. [...], Austurstræti 7, Reykjavík, Ásgeir Kolbeinsson, kt. [...], Vesturbrún 16, Reykjavík, og Kolbeinn Pétursson, kt. [...], Kristnibraut 29, Reykjavík.
Sóknaraðilar krefjast dómsúrskurðar um að þeim verði gert kleift að komast inn í húsnæði að Austurstræti 7, Reykjavík, með fastanúmerið 200-2606, nr. 010101, með landnúmerið 100830, kjallara, jarðhæð, 1. hæð og 2. hæð. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi varnaraðila og gera jafnframt kröfu um fjárnám fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins, að viðbættu álagi.
Málið var tekið til úrskurðar 29. október sl. að loknum munnlegum málflutningi.
I
Málavextir
Með leigusamningi 17. desember 2012 tók varnaraðilinn 101 Austurstræti ehf. á leigu húsnæði að Austurstræti 7 í Reykjavík af Eik fasteignafélagi hf. Í húsnæðinu mun vera rekinn skemmtistaðurinn Austur. Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá sitja sóknaraðilarnir, Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammad Shirazi, í stjórn varnaraðilans, 101 Austurstræti ehf., ásamt varnaraðilunum Ásgeiri Kolbeinssyni, sem jafnframt er framkvæmdastjóri þess, og Kolbeini Péturssyni. Kamran gegnir stöðu stjórnarformanns félagsins en Gholamhossein er meðstjórnandi. Varnaraðilinn Ásgeir og sóknaraðilinn Gholamhossein fara sameiginlega með prókúru félagsins.
Þann 16. október 2013 var gerður samningur um kaup Alfacom General Trading ehf. á öllu hlutafé í 101 Austurstræti ehf. af varnaraðilanum Ásgeiri Kolbeinssyni og Bakkagranda ehf. Eigendur Alfacom General Trading ehf. eru sóknaraðilar málsins, Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammad Shirazi. Fljótlega eftir samningsgerðina munu hafa komið upp deilur um rekstur skemmtistaðarins Austurs milli stjórnarmanna. Alfacom General Trading ehf. greiddi fyrir helming hlutabréfa í 101 Austurstræti ehf. en mun ekki hafa greitt eftirstöðvar kaupverðsins samkvæmt kaupsamningnum. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mun nú vera rekið mál vegna ætlaðra vanefnda Alfacom General Trading ehf. á kaupsamningnum en í sama máli er til úrlausnar gagnkrafa félagsins um riftun þess á kaupum á þeim helmings eignarhlut í félaginu 101 Austurstræti ehf. sem eftir stendur.
Sóknaraðilar málsins, ásamt félaginu Alfacom General Trading ehf., kröfðust lögbanns hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu við tilteknum afhöfnum einkahlutafélagsins Austurstrætis 5 ehf., hinn 7. júlí 2015 en það félag er í eigu varnaraðila, Ásgeirs. Lögbannsbeiðninni var synjað 21. sama mánaðar og beindu sóknaraðilar ásamt félaginu Alfacom General Trading ehf. í kjölfarið kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi. Synjun sýslumanns um lögbannskröfu þeirra var síðan staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september sl. og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 4. nóvember 2015 í máli nr. 703/2015. Þá var ekki talið að sóknaraðilar þessa máls, í krafti stjórnarsetu sinnar í félaginu Alfacom General Trading ehf., væru réttir aðilar að málinu og var kröfum þeirra í málinu því hafnað.
Leigusamningur 101 Austurstrætis ehf. við Fasteignafélagið Eik hf. um Austurstræti 5, þar sem skemmtistaðurinn Austur er rekinn, tekur til kjallara, jarðhæðar og 1. og 2. hæðar hússins sem er hluti fastanúmersins 200-2606 samkvæmt ákvæði samningsins. Skemmtistaðurinn mun vera rekinn í kjallara, á jarðhæð og á 1. hæð hússins en á 2. hæð mun vera skrifstofa, fundarherbergi, starfsmannarými og eldhús. Að sögn sóknaraðila var sóknaraðilinn Kamran með lykla að húsnæðinu þar til í apríl 2014 þegar varnaraðilinn Ásgeir lét skipta um lás á hurðum félagsins. Að sögn varnaraðila er ástæða þess að sóknaraðilanum Kamran er meinaður aðgangur að húsnæðinu almenn framkoma hans í garð starfsfólks skemmtistaðarins Austurs en það sé óviðkomandi störfum hans sem stjórnarmaður 101 Austurstrætis ehf. Í aðfararbeiðni kemur fram að sóknaraðilar hafi ítrekað reynt að fá aðgang að húsnæðinu en varnaraðilar ekki orðið við því. Hafi þeim því verið nauðugur sá kostur að óska eftir innsetningu í húsnæðið með aðfararbeiðni sem var móttekin í héraðsdómi 16. júní sl.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Kröfu sína um aðgang að húsnæðinu að Austurstræti 7 styðja sóknaraðilar meðal annars við ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt 44. gr. þeirra laga fari félagsstjórn með málefni einkahlutafélags og skuli sjá til þess að skipulag og starfsemi sé í réttu og góðu horfi. Þá segi í 2. mgr. 44. gr. sömu laga að í störfum sínum eigi framkvæmdastjóri að fylgja fyrirmælum stjórnar. Þá komi fram í 3. mgr. 44. gr. laganna að félagsstjórn skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og fjármunum félagsins.
Sóknaraðilar halda því fram að á meðan þeir, stjórnarmenn félagsins, komist ekki inn í húsnæðið, eigi þeir augljóslega mjög erfitt með að taka ákvarðanir um stjórnun félagsins og rekstur skemmtistaðarins. Framferði varnaraðila, Ásgeirs, framkvæmdastjóra félagsins, hafi þannig komið í veg fyrir að þeir geti sinnt starfsskyldum sínum annars vegar sem stjórnarformaður félagsins og hins vegar sem stjórnarmaður í félaginu. Þá hafi varnaraðilinn Ásgeir augljóslega ekki fylgt fyrirmælum stjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, með því að neita að hlýða fyrirmælum stjórnarmanna um að afhenda þeim lykla.
Þá segi í 58. gr. laga um einkahlutafélög að hluthafafund eigi að halda á heimili félags, nema félagssamþykktir kveði á um annað. Lögheimili 101 Austurstrætis ehf., sé að Austurstræti 7. Í samþykktum félagsins sé ekki kveðið á um annan stað til þess að halda hluthafafundi. Það sé stjórn félags sem boði til hluthafafundar, sbr. 1. mgr. 62. gr. laganna. Sóknaraðilar og aðrir stjórnarmenn geti augljóslega ekki stjórnað hluthafafundum á heimili félagsins þegar þeir komist ekki inn í húsnæðið.
Þá hafi varnaraðilinn Ásgeir ekki sent bókhald félagsins fyrir árin 2013 og 2014 til endurskoðanda félagsins, Gunnars Þórs Ásgeirssonar. Það sé ein ástæða þess að sóknaraðilar telji sér skylt að hlutast til um að fá aðgang að húsnæðinu, þ.e. til þess að fá í hendur bókhald félagsins í því skyni að geta sinnt starfsskyldum sínum sbr. 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög. Varnaraðilinn Ásgeir hafi ennfremur leitað atbeina lögreglu til þess að hindra aðgang sóknaraðila að húsnæðinu og einnig gefið starfsmönnum skemmtistaðarins fyrirmæli um að hleypa sóknaraðilum ekki inn á staðinn. Þá hafi lögmaður sóknaraðila skrifað varnaraðila Ásgeiri bréf með beiðni um að sóknaraðilanum Kamran verði veittur aðgangur að húsnæðinu og bókhaldi félagsins. Ekkert svar hafi borist við bréfinu. Þá hafi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið jafnframt leitað svara hjá lögmanni varnaraðilans Ásgeirs við því hvers vegna bókhald félagsins hafi ekki verið afhent endurskoðanda þess með bréfi 13. maí 2015.
Sóknaraðilar hafi ekki getað komist inn í húsnæðið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. Þeir hafi bæði mætt á staðinn og verið meinuð innganga. Þeir hafi óskað eftir lyklum hjá framkvæmdastjóra félagsins, varnaraðilanum Ásgeiri, en verið neitað um það. Þá hafi sóknaraðilinn Kamran beðið gjaldkera félagsins, Írisi, um lykla en án árangurs. Að húsnæðinu séu tveir inngangar, einn við Hafnarstræti og hinn við Austurstræti. Hurðir báðum megin séu læstar og sóknaraðilar hafi ekki lykla þar að. Sóknaraðilar hafi reynt að komast inn í húsnæðið þegar starfsmenn eru þar að störfum en verið meinaður aðgangur.
Þannig geti sóknaraðilar ekki komist að eigninni með öðrum hætti heldur en með því að innsetning verði gerð í húsnæðið. Þar sem varnaraðilar hafi hindrað sóknaraðila í að komast að hinu leigða sé krafist umráða yfir því með tilvísun til 78. gr., sbr. og 72. og 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá er þess krafist að enginn aðfararfrestur verði veittur til gerðarinnar, sbr. 2. mgr. 84. gr. laganna. Þá krefjast þeir málskostnaðar og að heimilað verði fjárnám hjá varnaraðilum fyrir kostnaði af gerðinni.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi sökum þess að þeir hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Verði ekki fallist á það krefjast þeir þess að beiðninni verði hafnað þar sem skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/189 sé ekki fullnægt.
Vegna málatilbúnaðar sóknaraðila telja varnaraðilar nauðsynlegt að benda á að þeir telji aðfararbeiðni sóknaraðila að öllum líkindum setta fram í því skyni að sóknaraðilar losni undan skuldbindingum sínum samkvæmt samningi um kaup Alfacom General Trading ehf. á hlutafé í félaginu 101 Austurstræti ehf. Sóknaraðilar hafi sem einu eigendur fyrrnefnda félagsins gríðarlegra hagsmuna að gæta af þeim kaupum. Sóknaraðilar séu í vanefndum með síðari kaupsamningsgreiðsluna og hafi varnaraðilar höfðað mál til efnda á kaupsamningnum.
Varnaraðilar benda á að þegar félagið 101 Austurstræti ehf. var selt hafi aðilar gert með sér hluthafasamkomulag sem sóknaraðilar hafi þverbrotið, en í því samkomulagi komi skýrt fram hvert verklag og verkaskipting innan félagsins skuli vera á meðan kaupverðið sé enn ógreitt. Samkomulagið hafi miðað að því að tryggja hagsmuni beggja samningsaðila með það að markmiði að hámarka hagnað þess og tryggja rekstrarhæfni. Framlagðir ársreikningar félagsins sýni að það markmið hafi náðst og gott betur. Sóknaraðilar hafi haft óheftan aðgang að bókhaldi félagsins og reikningum þess.
Varnaraðilar telja sóknaraðila hvorki hafa efnt hluthafasamkomulagið né kaupsamninginn. Þegar fyrir lá að sóknaraðilar ætluðu ekki að efna kaupsamninginn hafi þeir gripið til ýmissa óyndisúrræða, allra í þeim tilgangi að stöðva rekstur skemmtistaðarins Austurs, sem 101 Austurstræti ehf. reki. Sóknaraðilar hafi ekki hikað við að beita rangindum og ósannsögli, og hafi seljendur félagsins af þeim sökum þurft að verja hagsmuni sína með mikilli fyrirhöfn og kostnaði. Þannig hafi sóknaraðilar komið því til leiðar að bankareikningum 101 Austurstrætis ehf. var lokað en við það hafi ekki verið hægt að efna greiðslumiðlunarsamning við Borgun hf. sem féll því niður, eðli málsins samkvæmt. Hefði ekki tekist að gera þjónustusamning við annað félag um innheimtu posagreiðslna, hefði félagið ekki getað annast sölu veitinga og áfengis. Það hefði samstundis leitt til rekstrarstöðvunar félagsins og þar með vanefnda á greiðslu leigugjalds og annarra skuldbindinga eins og opinberra gjalda, launa og þess háttar.
Þá hafi sóknaraðilar gert tilraun til að loka virðisaukaskattsnúmeri félagsins og sent inn til ríkisskattstjóra tilhæfulausar „núll-skýrslur,“ auk þess sem þeir hafi reynt að fá leigusamning um eignina felldan niður. Þá hafi þeir ítrekað sent fundargerðir stjórnar inn til fyrirtækjaskrár þar sem látið sé að því liggja að teknar hafi verið lögmætar ákvarðanir um brottvikningu framkvæmdastjóra félagsins, en það eigi ekki við rök að styðjast. Fyrirtækjaskrá hafi neitað skráningu tilkynninganna en þrátt fyrir það hafi sóknaraðilar herjað á viðskiptaaðila 101 Austurstrætis ehf. á grundvelli þeirra, allt í þeim tilgangi að stöðva viðskiptin. Varnaraðilar benda á að mál það sem nú sé tekist á um, sé einungis eitt af mörgum sem sóknaraðilar hafi stofnað til.
Að mati varnaraðila hafi sóknaraðilinn Kamran gengið þvert gegn skuldbindandi hluthafasamkomulagi um fyrirkomulag á rekstri 101 Austurstrætis ehf. og reynt að ganga inn í störf framkvæmdastjóra sem sinni daglegum rekstri félagsins. Sem stjórnarformaður þess hafi Kamran talið sig hafa víðtækar heimildir um reksturinn, sem alla jafna sé á hendi stjórnar eða framkvæmdastjóra. Kvað svo rammt að því að framkvæmdastjóri félagsins hafi neyðst til að banna honum aðgang að skemmtistaðnum Austur vegna ógnandi framkomu í garð starfsmanna og ölvunar á opnunartíma staðarins.
Varnaraðilar telja sóknaraðila ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfu sinnar eins og hún sé sett fram. Sóknaraðilar séu ekki starfsmenn félagsins heldur sitji þeir í stjórn þess. Stjórnarseta þeirra veiti þeim ekki sjálfkrafa aðgang að Austurstræti 7, þar sem rekstur félagsins fari fram. Í aðfararbeiðninni sé ekki á nokkurn hátt skýrt hvers vegna þeir æski óhefts aðgangs að húsnæðinu. Aðgangur að því hafi ekkert með stjórnarsetu þeirra að gera og sé ekki nauðsynlegur til að þeir geti uppfyllt skyldur sínar. Hvorki framkvæmdastjóri félagsins né nokkur annar hafi hafnað því að stjórnarfundir eða hluthafafundir væru haldnir í starfsstöð félagsins, enda liggi engin gögn fyrir um það.
Þá hafna varnaraðilar því sem röngu, sem fram komi í beiðni sóknaraðila að þeim hafi verið neitað um aðgang að bókhaldi félagsins. Þá hafi sóknaraðilinn Kamran haft fullan skoðunaraðgang að bankareikningum félagsins þar til þeim var lokað að undirlagi sóknaraðila. Sóknaraðilinn Gholamhossein hafi aldrei óskað eftir því að fá aðgang að bókhaldinu eða að starfsstöð félagsins og honum hafi aldrei verið neitað um þann aðgang. Hann hafi því enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Taka varnaraðilar fram að aðgangsbann framkvæmdastjóra gagnvart sóknaraðilanum Kamran að skemmtistaðnum Austur hafi ekkert með stjórnunarstörf hans að gera eða þá hagsmuni sem hann kunni að eiga vegna eignarhalds síns á Alfacom General Trading ehf. og kaupum félagsins á öllu hlutafé í 101 Austurstræti ehf.
Þá telja varnaraðilar að krafa sóknaraðila sé óskýr og ekki úrskurðarhæf. Sóknaraðilar séu ekki starfsmenn 101 Austurstrætis ehf. og komi ekki að rekstri skemmtistaðarins Austurs, svo sem eins og afgreiðslu eða þess háttar. Tilgangurinn með því að veita þeim aðgengi að skemmtistaðnum sé því óljós hvað stjórnunarstörf þeirra varði. Þá byggi ákvörðun framkvæmdastjóra um að banna sóknaraðilanum Kamran að sækja skemmtistaðinn ekki á störfum hans sem stjórnarmaður í félaginu heldur eigi rót sína að rekja til almennrar framkomu hans í garð starfsmanna og óláta sem hann hafi viðhaft inni á skemmtistaðnum. Þar sé hann í sömu stöðu og fjölmargir aðrir aðilar sem hafi verið settir í bann vegna hegðunar sem ekki sé liðin, svo sem með slagsmálum, fíkniefnaneyslu á staðnum og þess háttar.
Þá einskorðist aðfararbeiðnin ekki við aðgengi að staðnum vegna þátta er varði stjórn félagsins enda hafi varnaraðilar aldrei neitað sóknaraðilum um aðgang að staðnum vegna starfa þeirra sem stjórnarmenn félagsins. Til dæmis hafi boðaður hluthafafundur í júní 2014 verið haldinn að starfsstöð félagsins líkt og samþykktir þess heimili. Þá hafi stjórnarmenn haft aðgang að bókhaldi þó að það séu ekki einstakir stjórnarmenn sem hafi þá heimild heldur stjórnin sem slík. Framkvæmdastjóri félagsins hafi ekki hafnað beiðnum stjórnar um slíkar upplýsingar, enda sé ekki byggt á því í beiðninni. Af þessum sökum telja varnaraðilar að vísa beri beiðninni frá dómi sökum skorts á lögvörðum hagsmunum.
Þá sé beiðninni beint að tveimur stjórnarmönnum félagsins, sem hafi ekki það vald sem óskað sé eftir að dómurinn veiti. Því sé ljóst að kröfunni sé beint að röngum aðilum og leiði það sjálfkrafa til þess að vísa skuli kröfunni frá dómi eða að henni beri að hafna á þeim grunni. Það sé stjórn félagsins ein sem geti veitt einstökum aðilum aðgang að bókhaldinu. Stjórnarformaður félagsins, sóknaraðilinn Kamran, hafi ekki óskað sérstaklega eftir bókhaldi í umboði stjórnar, auk þess sem varnaraðilar telji að stjórnin geti ekki ákveðið hverjir skuli hafa óheftan aðgang að starfsstöð félagsins. Það sé á valdi framkvæmdastjóra utan lögákveðinna tilvika, líkt og eigi við um hluthafafund. Að öðru leyti fari framkvæmdastjóri með daglegan rekstur félagsins, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Varnaraðilar hafna sömuleiðis þeim röksemdum sem fram komi í beiðni um að óheftur aðgangur stjórnarmanna að starfsstöð félagsins sé grundvöllur þess að hægt sé að taka ákvarðanir um stjórnun félagsins og rekstur þess. Daglegur rekstur sé í höndum framkvæmdastjóra og hann lúti boðvaldi stjórnar félagsins, ekki einstakra stjórnarmanna. Sóknaraðilar virðist telja að þeir geti sjálfir tekið sér það vald sem stjórn og hluthafar hafi lögum samkvæmt.
Þá telja varnaraðilar umfjöllun sóknaraðila um endurskoðanda félagsins einkennilega þar sem Gunnar Ásgeirsson, endurskoðandi, hafi ekki verið endurskoðandi þess eftir að varnaraðilar eignuðust félagið í maí 2012 og ákvörðun var tekin um að Gunnar léti af störfum. Annar varnaraðila, Kolbeinn, hafi verið kjörinn skoðunarmaður en tilkynningin virðist ekki hafa verið skráð hjá fyrirtækjaskrá þar eð farist hafi fyrir að kjósa varaskoðunarmann. Síðar hafi Sveinbjörn Sveinbjörnsson endurskoðandi verið ráðinn og hafi hann séð um gerð ársreikninga og skattframtal fyrir félagið frá árinu 2012. Þá hafi sóknaraðilum verið vel kunnugt um þetta þegar félag þeirra keypti allt hlutafé í 101 Austurstræti ehf., enda hafi sóknaraðilinn Kamran verið í sambandi við Sveinbjörn vegna bókhalds og ársreikningagerðar og sótt til hans upplýsingar um reikninga félagsins. Framkvæmdastjóri félagsins hafi gætt þess að skattframtal og ársreikningar vegna ársins 2013 hafi verið send skattyfirvöldum en ársreikningur fyrir það ár hafi ekki verið sendur ársreikningaskrá þar sem áritun stjórnar vantar.
Þá hafi skattframtali og ársreikningi vegna ársins 2014 ekki verið skilað til skattyfirvalda þar sem félagið sé enn á framtalsfresti og hafi þeim gögnum, eðli málsins samkvæmt, ekki heldur verið skilað til ársreikningaskrár. Með bréfi 11. júní 2015 hafi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið lagt fyrir sóknaraðila Kamran, sem stjórnarformann 101 Austurstrætis ehf., að boða hluthafafund í félaginu, en hann hafi ekki orðið við beiðninni. Það sé væntanlega gert til þess að ekki sé hægt að taka ákvörðun um útgreiðslu arðs, sem aftur kunni að hafa áhrif á það mál sem nú sé til meðferðar hjá dómstólum vegna vanefnda Alfacom General Trading ehf. á kaupum í 101 Austurstræti ehf.
Varnaraðilar benda einnig á að sóknaraðilar hafi ekki viljað fallast á tillögur Eikar hf. sem fram komu í bréfi félagsins 26. mars 2015, sem að mati varnaraðila hefði að fullu tryggt hagsmuni sóknaraðila. Í tillögunni sé lagt til að stjórn verði skipuð óháðum lögmönnum og endurskoðanda sem hefði eftirlit með fjárreiðum félagsins og að félagið hefði eigin bankareikninga og greiðslumiðlunarsamninga. Varnaraðilar telja að þessi háttur á stjórn félagsins, meðan beðið er niðurstöðu dómsmálsins, tryggi hagsmuni sóknaraðila í hvívetna og á það hafi framkvæmdastjóri 101 Austurstrætis ehf., varnaraðilinn Ásgeir, verið tilbúinn að fallast, enda hafi varnaraðilar þá einu hagsmuni að félaginu farnist vel í rekstri. Afstaða sóknaraðila til erindisins hafi ekki komið á óvart miðað við fyrri framkomu þeirra.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað sæti hún ekki frávísun en að mati þeirra sé skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989 síður en svo fullnægt. Ljóst sé að mikill ágreiningur sé á milli kaupanda og seljanda hlutafjár í 101 Austurstræti ehf. Aðilar hafi gert með sér hluthafasamkomulag sem varnaraðilar telja að sóknaraðilar reyni nú að sniðganga en við það séu þeir bundnir. Dómstólar verði ekki nýttir í þeim tilgangi að brjóta á þeim réttindum sem til dæmis varnaraðilinn Ásgeir hafi samkvæmt hluthafasamkomulaginu. Ljóst sé að ágreiningur um inntak og eðli þess hlutahafasamkomulags og kaupsamningsins verði ekki útkljáður með þeim hætti sem sóknaraðilar freisti nú, enda skuli hafna beiðni um innsetningu sé uppi réttmætur vafi um réttindi gerðarbeiðanda, sbr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Það eigi ekki undir mat dómstólsins í þessu máli að skera úr um réttindi og skyldur aðila samkvæmt fyrirliggjandi hluthafasamkomulagi og kaupsamningi og því síður hvort og hvernig einstakir stjórnarmenn telji sig geta beitt áhrifum sínum í skjóli stjórnarsetu sinnar. Krafa sóknaraðila, eins og hún sé framsett, lúti ekki að neinu sem tengist stjórnarstörfum þeirra hjá félaginu. Í ljósi þessa sé þvílíkur vafi um heimild og réttmæti kröfu sóknaraðila og beri því að synja henni.
Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða málskostnað óskipt, að viðbættu álagi samkvæmt 2. tölulið 131. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðilar byggja þá kröfu sína á því að sóknaraðilar hafi höfðað málið án nokkurs tilefnis og haft uppi staðhæfingar sem séu rangar og haldlausar. Enn fremur séu þær alls ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn sem sóknaraðilar hafi haft undir höndum en kosið að leggja ekki fram. Málatilbúnaður þeirra sé að þessu leyti verulega ámælisverður. Um lagarök sé að öðru leyti vísað til laga nr. 90/1989 og nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu hafa sóknaraðilar krafist þess að fá aðgang að húsnæði að Austurstræti 7, Reykjavík, með fastanúmerið 200-2606, kjallara, jarðhæð, 1. hæð og 2. hæð eins og nánar greinir í kröfugerð þeirra. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför til umbeðinnar gerðar eru uppfyllt. Byggja sóknaraðilar kröfu sína á því að þeir hafi heimild til aðgangs að húsnæðinu sem stjórnarformaður og meðstjórnandi í félaginu 101 Austurstræti ehf. og að aðgangurinn sé þeim nauðsynlegur til að rækja skyldur sínar sem slíkir lögum samkvæmt. Varnaraðilar hafa krafist þess að málinu verði vísað frá dómi þar sem sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Verði ekki á það fallist krefjast þeir þess að kröfunni verði hafnað, þar sem skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 séu ekki uppfyllt svo að gerðin megi fara fram, auk þess sem varhugavert sé, í ljósi þeirra sönnunargagna sem fram verði færð í máli af þessu tagi, forsögu þess, samskiptum og viðskiptum aðila, að hún nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83 gr. laga nr. 90/1989.
Varnaraðili hefur í greinargerð sinni teflt fram nokkrum málsástæðum því til stuðnings að hin umbeðna gerð nái ekki fram að ganga. Hefur hann í málinu einnig gert kröfu um frávísun þess og byggir á því að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Í málum er varða útburðar- og innsetningargerðir skal dómari, samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, taka afstöðu til þess hvort gerðin nái fram að ganga eða hvort henni beri að hafna, verði talið varhugavert að hún fari fram á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989. Kemur því ekki til álita að vísa málinu frá dómi enda verður ekki séð að beiðni sóknaraðila eða fylgigögnum með henni sé áfátt, þannig að varnaraðili eigi af þeirri ástæðu erfitt með að færa fram varnir gegn kröfu sóknaraðila. Því er kröfu varnaraðila þar að lútandi hafnað. Þá byggir varnaraðili til stuðnings frávísunarkröfu sinni að hluta til á sömu röksemdum og fyrir höfnun kröfunnar. Koma þær því til skoðunar í tengslum við efnislega umfjöllun um þá kröfu hans.
Leigusamningur um umrætt húsnæði var gerður 17. desember 2012 af félaginu 101 Austurstræti ehf. sem leigutaka og Eik fasteignafélagi hf. sem leigusala. Þegar hefur verið rakið að sóknaraðilar eru stjórnarmenn í fyrrnefnda félaginu og eigendur helmings hlutafjár í því á grundvelli kaupsamnings 16. október 2013 en efnislegur ágreiningur vegna efnda á samningi mun vera til meðferðar hjá dómstólum. Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þann veg að þeir telji sig í eigin nafni geta krafist innsetningar í húsnæðið vegna setu þeirra í stjórn félagsins en eins og fram er komið er annar þeirra stjórnarformaður félagins en hinn meðstjórnandi. Virðist sóknaraðilinn Kamran í raun byggja á því að þetta sé honum heimilt vegna þeirra verkefna sem hann hafi með höndum sem stjórnarformaður en hann þurfi hlutverks síns vegna að taka ýmsar ákvarðanir er lúta að rekstri félagsins, færslu bókhalds og skilum skattskýrslna þar sem framkvæmdastjóri félagsins hafi vanrækt það hlutverk sitt síðustu ár að afhenda réttmætum endurskoðanda félagsins gögn þar að lútandi. Sé kröfu um innsetningu í húsnæðið því m.a. ætlað að gera sóknaraðilum kleift að fá aðgang að bókhaldi félagsins og færa það réttum endurskoðanda í hendur, efna skyldur sínar og sinna hlutverkum sem stjórnarmenn í félaginu. Þá verður málatilbúnaður sóknaraðila einnig skilinn svo að vegna þess ágreinings sem uppi er í félaginu sé sóknaraðilum nauðsyn að hafa aðgang að húsnæðinu, m.a. til að halda stjórnarfundi og sinna daglegum rekstri félagsins.
Eins og áður sagði hafa sóknaraðilar krafist þess í eigin nafni að fá aðgang að umræddu húsnæði sem félagið 101 Austurstræti ehf. er leigutaki að. Í því ljósi verður ekki með góðu móti séð hvernig sóknaraðilar geti verið réttir aðilar að málinu og er um þá niðurstöðu höfð til leiðsagnar niðurstaða dóms Hæstaréttar í máli nr. 703/2015. Þá verður aðkoma sóknaraðila að málinu heldur ekki ráðin af samþykktum félagsins, hvorki á þann veg að annar sóknaraðili eða báðir hafi með höndum slík störf eða slíkar skyldur fyrir félagið að það útheimti að þeir hafi aðgang að þeim húsakynnum sem leigusamningurinn og kröfugerð sóknaraðila tekur til. Verður heldur ekki talið að sú þörf verði talin felast í almennum skyldum stjórnarmanna samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, auk þess sem ekki verður fram hjá því litið að samkvæmt gögnum málsins og skráningu í hlutafélagaskrá er Ásgeir Kolbeinsson framkvæmdastjóri félagsins sem sinnir sem slíkur daglegum rekstri þess. Breytir því ekki þótt vera kunni um það einhver ágreiningur milli aðila hvort framkvæmdastjóranum hafi verið vikið úr því starfi enda verður ekki annað ráðið af því sem fram er komið í málinu en að sá ágreiningur sé óútkljáður. Með vísan til alls ofangreinds verður kröfum sóknaraðila því hafnað. Að fenginni þessari niðurstöðu verður ekki talið að fjalla þurfi frekar um kröfur sóknaraðila eða málatilbúnað þeirra að öðru leyti. Þó verður og að telja að varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu.
Hvað varðar mótmæli sóknaraðila við að gripið hafi verið til varna af hálfu félagsins Austurstræti 101 ehf. án þess að það hafi verið samþykkt af hálfu stjórnar félagsins er til þess að líta að sóknaraðilar tilgreindu áðurnefnt félag sem gerðarþola að þeirri gerð sem krafist er að fram fari. Ljóst má vera að stjórn félagsins er vart starfhæf til að taka ákvörðun um varnir. Í því ljósi verður það talið felast í störfum framkvæmdastjóra félagsins að bregðast við og halda uppi vörnum í máli þessu. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn skal lögmaður eða fulltrúi hans, sem sækir þing fyrir aðila, talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað. Verður ekki talið nokkuð að athuga við umboð lögmanns þessa varnaraðila í málinu og verður öllum kröfum sóknaraðila þar að lútandi hafnað.
Í samræmi við úrslit málsins verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðilum málskostnað eins og nánari greinir í úrskurðarorði. Ekki þykir ástæða til að gera sóknaraðilum að greiða álag á málskostnað.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 5. október sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila, 101 Austurstrætis ehf., Ásgeirs Kolbeinssonar og Kolbeins Péturssonar, um frávísun málsins er hafnað.
Kröfu sóknaraðila, Kamrans Keivanlou og Gholamhosseins Mohammads Shirazi, um að þeim verði gert kleift að komast inn í húsnæði að Austurstræti 7, Reykjavík, með fastanúmerið 200-2606, nr. 010101, landnúmerið 100830, kjallara, jarðhæð, 1. hæð og 2. hæð., er hafnað.
Sóknaraðilar greiði óskipt 300.000 krónur í málskostnað til hvers varnaraðila fyrir sig.