Hæstiréttur íslands

Mál nr. 228/2017

Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að þrjú nafngreind vitni gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins gegnum síma eða annað fjarskiptatæki. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þremur nafngreindum vitnum yrði heimilað að gefa skýrslu undir aðalmeðferð málsins í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til n. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með ákæru héraðssaksóknara 24. janúar 2017 var höfðað mál á hendur varnaraðila fyrir tilraun til manndráps. Aðalmeðferð í málinu hófst 15. mars 2017 og var krafan, sem hafnað var með hinum kærða úrskurði, sett fram í  þinghaldi 31. sama mánaðar.

Í 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 eru tæmandi taldar heimildir til kæru eftir að aðalmeðferð máls er hafin. Þar er ekki að finna heimild til að kæra úrskurð með því efni sem hér um ræðir. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2017.

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 24. janúar 2017, á hendur:

,, X, kennitala [...],

[...],

til dvalar í fangelsinu Litla-Hrauni,

fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa, laugardaginn 5. nóvember 2016, að [...] í [...], stungið A með hnífi í vinstri síðu inn í vinstra lunga og í vinstri kinn inn í munnhol, með þeim afleiðingum að A hlaut stungusár á vinstri síðu, skurð sem gekk inn í brjósthol, litlar afrifur úr rifi, og féll vinstra lunga hans saman að hluta, sem og stungusár á vinstri kinn, skurð sem gekk inn í munnhol og tannarbrot.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

 Af hálfu A, kennitala [...], er gerð krafa um að ákærði greiði honum miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 4. nóvember 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

                Aðalmeðferð málsins hófst 15. mars sl. og voru vitnin A, B og C á upphaflegum vitnalista ákæruvaldsins. Í réttarhaldi 31. f.m. greindi sækjandinn frá því að ekki hafi tekist að fá tvö fyrst greindu vitnin til að koma hingað til lands undir aðalmeðferð málsins en vitnin eru bæði búsett í Litháen. Þá hafi ekki tekist að hafa uppi á C. Fór ákæruvaldið fram á það að dómurinn heimilaði að teknar yrðu skýrslur af tveimur fyrrgreindu vitnunum gegnum síma eða annað fjarskiptatæki og jafnframt af þriðja vitninu, tækist að hafa uppi á því. Var í þessu sambandi vísað til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og taldi ákæruvaldið skilyrði lagagreinarinnar til þess að heimila skýrslutökurnar uppfyllt.

Verjandi ákærða mótmælti því að sá háttur yrði hafður á skýrslutöku af þessum vitnum og taldi ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Þá  taldi verjandinn ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi tryggja rétt ákærða til að fá þessi vitni fyrir dóm í málinu sem væri nauðsynlegt eins og á stendur enda vitnisburður þeirra augljóslega mikilsverður. Þetta væru e.t.v. einu vitnin af atburðinum sem í ákæru greinir. 

Niðurstaða

Í 4. mgr. 116 gr. sakamálalaga, nr. 88/2008, segir að sé vitni statt fjarri þingstað eða það hafi annars sérstak óhagræði af því að koma fyrir dóm þá geti dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem séu viðstaddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið. Þessari heimild verði þó ekki beitt ef ætla megi að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnisins. Hér er um að ræða frávik frá meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu sem túlka ber þröngt eins og gert hefur verið í dómaframkvæmd og eins og segir í greinargerð með þessu ákvæði. Mikilvægi vitnisburðar vitnanna sem um ræðir er augljóst og mjög líklegt að úrslit málsins geti ráðist af vitnisburði þeirra.

Að þessu virtu og með vísan til 4. mgr. 116. gr. i. f. laga nr. 88/2008 verður að telja að eins og á stendur séu ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að heimila skýrslutökur af þessum vitnum í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki. Ber samkvæmt þessu að hafna kröfu ákæruvaldsins.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfu ákæruvaldsins um að heimilað verði að þrjú nafngreind vitni gefi skýrslu undir aðalmeðferð málsins gegnum síma eða annað fjarskiptatæki er hafnað.