Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 16. mars 2005. |
|
Nr. 94/2005. |
Snorri Birgir Snorrason(Einar S. Hálfdánarson hrl.) gegn Hrafnhildi Valdimarsdóttur (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með kaupsamningi í mars 2002 keypti G, f.h. óstofnaðs einkahlutafélags, hlut í öðru einkahlutafélagi af S. G afhenti S víxil til tryggingar tilteknum skuldbindingum sínum samkvæmt kaupsamningnum og ritaði H nafn sitt á víxilinn sem ábekingur. Vegna mistaka við gerð víxilsins fyrntist hann áður en unnt var að innheimta hann. S taldi G ekki hafa staðið við þær skuldbindingar sem stóðu að baki víxlinum og höfðaði málið með vísan til 74. gr. víxillaga. Hann hafði hins vegar hvorki lagt fram uppgjör vegna umræddra viðskipta né gert með öðrum hætti nánari grein fyrir umfangi tjóns síns vegna niðurfalls víxilréttarins. Var málatilbúnaður S af þessum sökum svo vanreifaður að ekki varð hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar, en til vara að hann verði felldur úr gildi að hluta og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að því leyti til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðili, Snorri Birgir Snorrason, greiði varnaraðila, Hrafnhildi Valdimarsdóttur, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 12. október 2004 og dómtekið 4. febrúar sl. Stefnandi er Snorri Birgir Snorrason, Lokastíg 4, Reykjavík. Stefnda er Hrafnhildur Valdimarsdóttir, Ingólfsstræti 7b, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði dæmd til greiðslu 10.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2002 til greiðsludags, en til vara að hún verði dæmd til greiðslu lægri fjárhæðar með sömu dráttarvöxtum. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefnda krefst sýknu og að stefnandi og lögmaður hans, Páll Jóhannesson hdl., verði dæmdir sameiginlega til greiðslu málskostnaðar.
I.
Málsatvik
Með kaupsamningi 10. mars 2002 seldi stefnandi 57,1427% hlut í einkahlutafélaginu Sticks & Sushi. Kaupandi var Guðmundur Guðmundsson fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags. Samkvæmt grein 1.3 nefnds kaupsamnings skyldi kaupandinn losa seljanda undan ábyrgð hjá Landsbanka Íslands vegna yfirdráttar á tékkareikningi að fjárhæð 5.150.000 krónur, ábyrgð hjá Ísberg ehf. vegna tækjakaupa að fjárhæð 1.800.000 krónur og ábyrgð hjá Sól-Víking hf. og Vífilfelli hf. vegna viðskiptasamninga að fjárhæð um 2.300.000 krónur. Til tryggingar á efndum skyldi kaupandi afhenda seljanda tryggingavíxil að fjárhæð 10.000.000 króna sem skyldi afhentur kaupanda þegar umræddum ábyrgðum hefði verið aflétt. Í 2. gr. kaupsamningsins kom fram að kaupverð hins selda væri 2.000.000 króna og skyldi það greiðast með tveimur greiðslum með peningum að fjárhæð 500.000 krónur og víxli að fjárhæð 1.000.000 krónur á nánar tilteknum dögum.
Framangreindur tryggingavíxill var gefinn út og liggur hann frammi í málinu. Útgefandi víxilsins er Guðmundur Guðmundsson, en hann ritar einnig á víxilinn sem samþykkjandi fyrir hönd einkahlutafélagsins Fimm árstíða. Stefnda ritaði á víxilinn sem ábekingur. Útgáfudagur víxilsins er 10. mars 2002 og greiðsludagur tilgreindur „við sýningu“.
Í stefnu segir að nefndur Guðmundur hafi ekki staðið við þá skuldbindingu sína að losa stefnanda undan þeim ábyrgðum sem að framan greini. Vegna mistaka við gerð víxilsins hafi víxillinn fyrnst áður en unnt var að innheimta hann. Af hálfu stefndu hefur fullyrðingu stefnanda um vanefndir á kaupsamningnum 10. mars 2002 verið mótmælt sem ósannaðri.
Engar munnlegar skýrslutökur fóru fram við aðalmeðferð málsins.
II.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi heldur því fram að kaupandi samkvæmt kaupsamningnum 10. mars 2002 hafi verið einkahlutafélagið Fimm árstíðir. Hefur hann í þessu sambandi vísað til gagna um að þetta félag hafi innt af hendi þær greiðslur sem kveðið var á um í 2. gr. kaupsamningsins. Samkvæmt þessu hafi verið viðskiptasamband á milli stefndu og Guðmundar Guðmundssonar og hafi þau bæði notið ávinnings vegna undirritunar á víxilinn. Vísar stefnandi til þess að stefnda hafi verið meðal eigenda og annar stofnandi Fimm árstíða ehf. Með því að rita á víxilinn sem ábekingur hafi stefnda þar með borið ábyrgð, ásamt Guðmundi, á efndum þeim sem að baki lágu nefndum tryggingarvíxli. Þar sem ekki hafi verið staðið við þá skuldbindingu sem stóð að baki víxlinum og ekki sé unnt að innheimta hann sé stefnandi knúinn til þess að krefja stefndu um skuldina, en hún hafi ekki sinnt greiðsluáskorun þessa efnis. Sé þess því krafist að stefnda greiði stefnanda 10.000.000 krónur vegna vanefnda á kaupsamningnum 10. mars 2002. Þar sem stefnanda sé ekki unnt að sækja mál sitt samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sæki hann mál sitt skv. 74. gr. víxillaga 93/1933 og almennum ákvæðum kröfu- og samningaréttar.
Stefnda byggir kröfu sína á því að víxilréttur gegn henni sem ábekingi sé niður fallinn. Vísar stefnda til þess að mál hafi verið höfðað til greiðslu víxilsins en það fellt niður af hálfu stefnanda og hafi hann verið úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 80.000 krónur. Ábyrgð stefndu hafi verið bundin við víxilinn og hafi hún enga sjálfstæða ábyrgð tekið á efndum framangreinds kaupsamnings. Stefnda hafi engra hagsmuna átt að gæta af umræddum kaupsamningi og hafi ekkert fé unnið úr hendi stefnanda. Eigi því 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 ekki við gagnvart stefndu. Stefnda mótmælir því að Fimm árstíðir ehf. hafi verið kaupandi samkvæmt umræddum kaupsamningi. Vísar stefnda til þess að Fimm árstíðir ehf. hafi verið stofnað 1. desember 2001 og hafi því ekki verið óstofnað á þeim tíma sem hér um ræði. Þá hafi stefnda ekki verið í stjórn Fimm árstíða ehf. á þeim tíma sem kaupsamningurinn var gerður. Hafi stefnda ekki komið nálægt umræddum kaupum, hvorki persónulega né fyrir hönd Fimm árstíða ehf. Geti stefnandi ekki krafið hana um efndir á kaupsamningi sem hún átti enga aðild að. Því er einnig mótmælt að stefnda hafi verið stofnandi Fimm árstíða ehf. og talið að stefnandi rugli Fimm árstíðum ehf. saman við annað einkahlutafélag sem stefnda stofnaði og rak ásamt Guðmundi Guðmundssyni.
Stefnda telur að efndir á kaupsamningnum 10. mars 2002 hafi að einhverju leyti farið fram og vísar um það efni til stefnu í máli því sem stefnandi höfðaði gegn skuldurum víxilsins og áður greinir. Stefnandi hafi hins vegar kosið að gera enga nánari grein fyrir ætluðum vanefndum á umræddum kaupsamningi. Þannig skorti á að sýnt hafi verið fram á að um vanefndir á kaupsamningnum sé að ræða. Þá sé með engum hætti gerð grein fyrir hvernig stefnufjárhæð sé fundin og virðist stefnandi byggja á því að tryggingarvíxillinn eigi að sýna þá fjárhæð sem réttar efndir kaupsamningsins hefðu kostað. Hafi því ekki verið sýnt fram á að vanefndir á umræddum kaupsamningi nemi stefnufjárhæð.
Stefnda byggir málskostnaðarkröfu sína á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991. Hún telur málið höfðað að þarflausu og sé þetta fjórða málið sem stefnandi höfði gegn henni. Hin þrjú hafi hann fellt niður eftir að stefnda hafi lagt fram greinargerð sína. Hafi stefnandi uppi kröfur í máli þessu sem stefnandi og lögmaður hann viti að séu rangar og haldlausar. Beri því með vísan til framangreindra lagaákvæða að dæma einnig lögmann stefnanda til greiðslu málskostnaðar í málinu.
III.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að stefnda var ábekingur á víxli sem Guðmundur Guðmundsson gaf út 10. mars 2002 og samþykkti fyrir hönd Fimm árstíða ehf. Einnig liggur fyrir að víxillinn var gefinn út í tilefni af kaupsamningi 10. mars 2002, þar sem stefnandi seldi 57,1427% af hlutafé í einkahlutafélaginu Sticks & Shushi til Guðmundar Guðmundssonar fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags. Kemur þannig fram í grein 1.3 nefnds kaupsamnings að kaupandi skuli losa seljanda undan nánar tilteknum ábyrgðum sem hann sé í fyrir hið selda félag og til tryggingar á þessu skuli kaupandi afhenda seljanda tryggingavíxil að fjárhæð 10.000.000 króna sem skuli afhentur kaupanda þegar umræddum ábyrgðum hafi verið aflétt.
Ákvæði 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 er reist á þeim rökum að baki víxli sé jafnan einhver krafa samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og haggi niðurfall víxilréttar ekki þessari kröfu. Í samræmi við þetta felur ákvæðið í sér að eigandi víxils getur krafið víxilskuldara um þá fjárhæð sem skuldarinn myndi vinna honum úr hendi vegna þess að eiganda víxilsins er ekki unnt að innheimta víxilinn. Skilyrði þess að 74. gr. laga nr. 93/1933 eigi við er því bæði það að víxilhafi bíði tjón vegna þess að víxilréttur fellur niður og einnig að hinn umkrafði víxilskuldari hafi hagnast af þessum sökum. Í máli sem höfðað er á grundvelli 74. gr. laga nr. 93/1933 er því nauðsynlegt að gera grein fyrir lögskiptum að baki víxli með hliðsjón af umræddum skilyrðum og færa rök að tilurð og fjárhæð tiltekinnar almennrar kröfu víxilhafa gegn hlutaðeigandi víxilskuldara.
Eins og áður greinir var umræddur víxill gefinn út til tryggingar tilteknum skuldbindingum kaupanda, það er Guðmundar Guðmundssonar fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, samkvæmt kaupsamningnum 10. mars 2002. Ef gert væri ráð fyrir að viðsemjandi stefnanda hefði vanefnt þessar skuldbindingar sínar, lægi fyrir að stefnandi, sem seljandi og eigandi umrædds víxils, hefði orðið fyrir tjóni vegna fyrningar víxilsins. Myndi tjón hans þá svara til þeirrar kröfu sem hann ætti gegn viðsemjanda sínum og ábyrgðarmönnum hans, ef þeim væri að skipta. Kæmu þá til skoðunar þær málsástæður stefnanda að stefnda í málinu hefði tekið á sig sérstaka ábyrgð á efndum viðsemjanda stefnanda samkvæmt umræddum kaupsamningi eða bæri sjálfkrafa ábyrgð á efndum hans sem eigandi hlutafjár í Fimm árstíðum ehf. sem stefnandi telur að hafi verið viðsemjandi sinn.
Í stefnu segir að Guðmundur Guðmundsson hafi ekki staðið við þá skuldbindingu sem stóð að baki umræddum víxli og áður er gerð grein fyrir. Stefnandi hefur hins vegar hvorki lagt fram uppgjör vegna umræddra kaupa né gert með öðrum hætti nánari grein fyrir umfangi tjóns síns vegna niðurfalls víxilréttarins. Af hálfu stefnanda er þannig með öllu óútskýrð sú krafa sem víxlinum var ætlað að tryggja og hann krefst nú greiðslu á úr hendi stefndu samkvæmt 74. gr. laga nr. 93/1933. Er málatilbúnaður stefnanda af þessum sökum svo vanreifaður að ekki verður hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.
Það athugast að fullyrðingar um ófullnægjandi málatilbúnað stefnanda koma fram í greinargerð stefndu. Lítur dómari svo á að stefnandi hafi átt þess kost að svara þessum athugasemdum með frekari gagnaöflun undir meðferð málsins svo og skýringum í munnlegum málflutningi. Með hliðsjón af þessu, svo og því að umræddir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda eru verulegir, telur dómari ekki koma til greina að endurupptaka málið með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 í þeim tilgangi að benda stefnanda á nauðsyn þess að afla frekari gagna.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst hæfilegur 100.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Þrátt fyrir þá annmarka á málatilbúnaði stefnanda sem að framan greinir hefur stefnda ekki talið ástæðu til þess að krefjast frávísunar málsins. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu telur dómari skilyrðum ekki fullnægt til að dæma lögmann stefnanda til greiðslu málskostnaðar samkvæmt 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda flutti málið Páll Jóhannesson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Björgvin Þorsteinsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Snorri Birgir Snorrason, greiði stefndu, Hrafnhildi Valdimarsdóttur, 100.000 krónur í málskostnað.