Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit
- Óvígð sambúð
- Sameign
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2007. |
|
Nr. 166/2007. |
K(Árni Pálsson hrl.) gegn M (Þorsteinn Hjaltason hdl.) |
Kærumál. Fjárslit. Óvígð sambúð. Sameign.
K og M, sem höfðu verið í óvígðri sambúð, deildu um hvort jörðin X ætti að koma til opinberra skipta við fjárslit milli þeirra sem sameign. Jörðin var þinglýst eign M og var talið að K hefði ekki sýnt fram á að eignarhald að jörðinni hefði verið annað en eignaskráning bar með sér. Þá var ekki talið upplýst að stofnast hefði til sameiginlegs eignarhalds á jörðinni með vinnuframlagi K við búrekstur á henni og vinnu hennar á heimili aðila. Kröfu K um að jörðin kæmi til skipta sem sameign hennar og M var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. febrúar 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hún fengi í sinn hlut helming jarðarinnar X í [...] við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að henni verði dæmdur helmings eignarhlutur í jörðinni, en til vara annar lægri hlutur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 14. mars 2007. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur ásamt kærumálskostnaði.
Skilja verður dómkröfur sóknaraðila þannig að hún leiti fyrir Hæstarétti dóms um að jörðin X komi til skipta sem sameign hennar og varnaraðila við fjárslit milli þeirra og verði þá við það miðað að hún eigi aðallega helmingshlut í þeirri sameign, en til vara annað lægra hlutfall.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að jörðin X í [...] komi til skipta sem sameign hennar og varnaraðila, M, við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. febrúar 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. janúar s.l., að loknum munnlegum málflutningi, barst dóminum með bréfi skiptastjóra Hreins Pálssonar hrl., dagsettu 13. júní 2006. Styðst málsskot þetta við 122. gr., sbr. 112. gr. laga nr. 20, 1991. Málið var þingfest 14. ágúst s.l.
Sóknaraðili málsins er K, [kt. og heimilisfang].
Varnaraðili er M, [kt. og heimilisfang].
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:
Að sóknaraðila verði dæmd helmings eignarhlutdeild jarðarinnar X, en til vara að sóknaraðila verði dæmdur annar lægri eignarhlutur í eigninni. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Endanlegan dómkröfur varnaraðila eru að hann verði „sýknaður” af öllum kröfum sóknaraðila, en til vara að þær verði lækkaðar til muna. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
I.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila tókust kynni með aðilum haustið 1987 er þeir voru búsettir í Reykjavík. Fyrir liggur að haustið 1988 fluttist varnaraðili til Akureyrar, en þar hafði hann fengið starf sem framleiðslustjóri. Sumarið 1989, að afloknu öðru námsári í framhaldsskóla í Reykjavík fluttist sóknaraðili til varnaraðila, í leiguíbúð hans í Hafnarstræti á Akureyri. Þá um sumarið keypti varnaraðili fjögurra herbergja íbúð í fjölbýlishúsi við [...] og fluttust þau bæði þangað, en samhliða flutti varnaraðili lögheimili sitt frá heimili foreldra í [...]. Aðilar skráðu sig formlega í sambúð þann 9. apríl 1991 og flutti sóknaraðili þá jafnframt lögheimili sitt, en þá um sumarið lauk hún námi sínu við Menntaskólann á Akureyri.
Sóknaraðili seldi fasteign sína á Akureyri fyrri hluta árs 1992 og keypti jörðina X í [...] af foreldrum sínum þann 15. mars 1992. Sama vetur, í febrúar, hóf sóknaraðili nám við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Lauk hún því námi vorið 1993.
Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að þau hafi verið með búrekstur á X fyrstu búskaparárin, og m.a. haft fjögur naut, um tuttugu kálfa og sex kanínur, en að auki hafði sóknaraðili þar hross sín, í fyrstu eitt, en síðar tvö. Verður ráðið að smám saman hafi dregið úr búrekstrinum og hann að lokum lagst af fyrri hluta árs 1996, fyrir utan hrossahaldið. Liggur fyrir að aðalstarf þeirra var utan heimilis og vann sóknaraðili m.a. veturinn 1993-1994 í hlutastarfi við skóla þar í sveit en hafði að auki vinnu við sölumennsku á kvöldin og um helgar. Varnaraðili starfaði allan sambúðartíma aðila sem framleiðslustjóri á Akureyri.
Málsaðilar eignuðust fyrra barn sitt í júnímánuði 1995 en seinna barnið tveimur árum síðar, í júní 1997. Var sóknaraðili á heimili málsaðila, að hluta til í fæðingarorlofi, en haustið 1996 hóf hún fjögurra ár nám [...] við Háskólann á Akureyri. Samkvæmt frásögn sóknaraðila var hún á hálfum námshraða á öðru og þriðja námsárinu, en náminu lauk hún vorið 2002.
Er sambúð málsaðila lauk þann 30. mars 2001 fluttist sóknaraðili í leiguherbergi og síðar leiguíbúð á Akureyri. Ágreiningslaust er að eftir sambúðarslitin greiddi varnaraðili sóknaraðila nokkra fjárgreiðslu, m.a. fastar mánaðargreiðslur, kr. 30.000 í 12 mánuði.
II.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar hér fyrir réttinum á því að málsaðilar hafi búið saman frá vori 1989 er hún fluttist til varnaraðila í leiguíbúð hans á Akureyri, og að þau hafi verið í staðfestri sambúð frá því í apríl 1991. Sambúðartíminn hafi því að lágmarki verið um tíu ár og hafi öll eignamyndun orðið eftir að aðilarnir fóru að búa saman.
Sóknaraðili byggir á því að fjárhagsleg samstaða hafi skapast þeirra í milli á sambúðartímanum. Bendir hún á að varnaraðili hafi nýtt skattkort hennar a.m.k frá árinu 1993, en með þeim hætti hafi skattbyrði aðila minnkað, sem einnig hafi orðið til þess að þeim hafi verið kleift að auka eignir sínar. Þá hafi þau talið sameiginlega fram til skatts frá því að sambúð þeirra var skráð. Sé því ljóst að varnaraðili hafi notið verulegs hagræðis vegna hinnar fjárhagslegu samstöðu er skapast hafi milli aðila. Staðhæfir sóknaraðili að varnaraðili hafi á sambúðartímanum verið mjög ríkjandi við flestar ákvarðanir er lutu að fjármálunum.
Sóknaraðili vísar til þess að á sambúðartímanum hafi aðilar haft mjög misháar tekjur. Varnaraðili hafi haft góðar tekjur allan sambúðartímann, en sóknaraðili litlar enda verið í námi. Hún hafi unnið með náminu á sumrin, líkt og tíðkist, en einnig hafi hún fengið námslán að hluta. Sóknaraðili hafi og unnið við búreksturinn að X allt þar til hann var lagður niður. Bein fjárframlög sóknaraðila til eignamyndunar á sambúðartímanum hafi hins vegar verið óveruleg, enda hafi tekjur hennar farið til reksturs heimilisins. Sóknaraðili áréttar að með því að nota skattafsláttarkort hennar hafi ráðstöfunartekjur málsaðila aukist, en auk þess hafi vinna hennar á heimilinu gert varnaraðila það kleift að afla tekna utan heimilis. Telur sóknaraðili því augljóst að hún hafi með þessu stuðlað að eignamyndun á sambúðartímanum. Þá vísar sóknaraðili á að vegna ungra barna hafi hún þurft að seinka háskólanámi sínu um tvö ár, en hún hafi lokið því á sex árum í stað fjögurra.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til og áréttar að sambúð aðila hafi verið löng, að þau hafi eignast tvö börn á sambúðartímanum og að fjárhagsleg samstaða hafi verið með þeim. Sóknaraðili áréttar og þrátt fyrir að tekjur aðila á sambúðartímanum hafi verið misjafnar hafi öll eignamyndun orðið til á sambúðartímanum og að hluta til orðið til vegna vinnu hennar á heimili aðila. Sóknaraðili andmælir því að aðilar hafi gert með sér samkomulag um eignaskipti eftir sambúðarslitin og mótmælir því jafnframt að áður nefndar fjárgreiðslur varnaraðila, kr. 30.000 á mánuði í eitt ár, hafi átt að skoðast sem greiðslur á eignarhluta hennar.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að engar lögfestar efnisreglur séu til um skipti eigna og skulda við sambúðarslit. Litið sé á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og fari um fjármál þeirra eftir almennum reglum fjármálaréttar.
Varnaraðili vísar til fordæma Hæstaréttar Íslands um að í sumum tilvikum geti sambúðaraðili eignast hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma. Við mat á slíku komi til athugunar nokkur atriði svo sem framlag hvors aðila um sig til sameiginlegs heimilis á sambúðartíma með vinnu, lengd sambúðar, fjárhagsleg samstaða aðila, sameiginleg not af eignum og tekjum aðila. Vísar varnaraðili til þess að dómafordæmin beri með sér að strangar kröfur séu gerðar til þess að verðmæti sem myndast hafa á sambúðartíma verið talin sameign aðila.
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands hafi málsaðilar verið skráðir í sambúð frá 9. apríl 1991 til 30. mars 2001. Fyrri hluta þessa tíma hafi vinna sóknaraðili við heimilið ekki verið meiri en varnaraðila. Reyndar hafi sóknaraðili mjög lítið verið á heimilinu því hún hafi verið við nám í Hólaskóla og hafi því eiginleg sambúð þeirra hafist er hún lauk því námi, vorið 1993.
Eftir að börn aðila fæddust, á árunum 1995 og 1997, hafi sóknaraðili annast þau ásamt varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki verið í annarri vinnu í fyrstu, en síðan hafi hún hafið skólanám að nýju. Hafi hún þannig stundað nám [...] við Háskólann á Akureyri frá því um haustið 1996 til ársins 2002. Vegna þessa hafi börnin verið í fullri vistun svo og í gæslu hjá foreldrum varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er því andmælt að sóknaraðili hafi lagt til vinnuframlag vegna búrekstrarins á X. Þvert á móti hafi varnaraðili oftast sjálfur sinnt morgunverkum, en þess á milli ráðið foreldra sína til þeirra starfa. Varnaraðili hafi séð um kvöldverkin eftir að hann kom úr vinnu sinni.
Varnaraðili byggir á því að fjárhagsleg samstaða hafi ekki verið með aðilum á sambúðartímanum. Fjárhagur aðila hafi ætíð verið aðskilinn í þeim skilningi að ef sóknaraðili hafi haft tekjur hafi hún haft þær algjörlega fyrir sig, til eigin einkaneyslu. Varnaraðili hafi algjörlega séð um rekstur heimilisins og fjármagnað innkaup og ef sóknaraðili hafi keypt inn fyrir heimilið hafi hún notað til þess greiðslukort, er hafi verið aukakort við greiðslukort varnaraðila og varnaraðili síðan greitt greiðslukortareikninginn eins og alla aðra reikninga vegna reksturs heimilisins. Varnaraðili hafi haft góðar tekjur allan sambúðartímann og hafi verið búinn að hafa góður tekjur löngu áður en til sambúðar við sóknaraðila kom. Hafi varnaraðili lagt fyrir og keypt eignir þannig að hann hafi átt miklar eignir við upphaf sambúðarinnar. Hann hafi greitt allt kaupverð X, greitt afborganir og einn tekið lán vegna kaupanna. Einnig hafi hann greitt rekstrarkostnað, hita og rafmagn. Allar eignir hafi verið skráðar á hann. Fjárhagsleg samstaða með aðilum hafi því engin verið og hafi sóknaraðili ekkert fé lagt til heimilisins eða sameiginlegra þarfa. Varnaraðili hafi því algjörlega séð um rekstur þeirra beggja og heimilisins. Að auki hafi varnaraðili lagt til mikið fé á sambúðartímanum til persónulegra þarfa sóknaraðila og hennar áhugamála, sem m.a. hafi verið hestamennska. Við upphaf skráðrar sambúðar hafi sóknaraðili verið að ljúka menntaskólanámi, en síðan varið næstu tveimur árum til menntunar. Sóknaraðili hafi engar eignir átt og hafi nær engar tekjur haft allan sambúðartímann. Við upphaf sambúðarinnar hafi varnaraðili hins vegar verið orðinn þrjátíu ára. Hann hafi þá þegar lokið námi sínu og haft mjög góðar tekjur í meira en áratug og átt töluverðar eignir. Af hálfu varnaraðila er staðhæft að eftir að sóknaraðili lauk námi sínu á Hólum árið 1993 hafi hún um veturinn 1993/1994 varið takmörkuðum atvinnutekjum til einkaneyslu, en ekkert lagt fram til sameiginlegs rekstrar, en um nefnd atriði vísar hann til framlagðra skattframtala.
Við meðferð málsins var af hálfu varnaraðila staðfest að hann hafi á tímabili notað skattkort sóknaraðila og af þeim sökum greitt minna í skatt en hann ella hefði gert. Hann hafi hins vegar greitt beint til sóknaraðila samsvarandi fjárhæð, sem hann hafi sparað sér í skattgreiðslum í þeim tilgangi að auka ráðstöfunartekjur hennar.
Varnaraðili byggir á því að í raun mæli fátt með því að sóknaraðili eigi rétt til hlutdeildar í eignamyndum á sambúðartímanum. Væri þar helst að líta til atriða er tengdust börnum þeirra, en um það vísar varnaraðili til þess að eftir fæðingu barnanna hafi sóknaraðili hafið háskólanám sitt og lokið því. Hún hafi því ekki sérstaklega verið heima við og annast börnin. Þá vísar varnaraðili til þess að á árunum á undan fæðingu barnanna hafi varnaraðili haldið sóknaraðila uppi og gert henni kleift að stunda nám. Vegna þessa eigi sóknaraðili ekki rétt til hlutdeildar í eignamyndun, í það minnsta alls ekki í þeim mæli sem hún haldi fram, þ.e. helmings hlutdeildar. Ef til kæmi ætti hún eingöngu rétt til hlutdeildar í eignamyndun sem orðið hafi til eftir fæðingu barnanna, þ.e. á árunum 1995-2001. Kröfu sína yrði hún hins vegar að sanna með tíðkanlegum hætti. Vísar varnaraðili til þess að í raun hafi engin eignaaukning orðið á sambúðartíma aðila. Áréttar varnaraðili að hann hafi verið búinn að leggja fyrir fjármuni til margra ára áður en til sambúðarinnar við sóknaraðila kom og hafi hann því átt ýmsar eignir, t.d. fjórhjól, bifreið og gott innbú. Hann hafi í júlímánuði 1989 keypt fjögurra herbergja íbúð á Akureyri, en selt þá eign er hann hafi fest kaup á fasteigninni X í [...] þann 15. mars 1992, en til þess hafi hann einnig notað sparifé sitt og tekið lán. Vegna kaupanna hafi hann orðið að taka á sig skuldbindingar til að viðhalda fullvirðisrétti jarðarinnar sökum þess að seljandinn hafi notið leigugreiðslna, er hafi verið hluti kaupverðs. Eftir kaupin hafi varnaraðili að öllu leyti sjálfur greitt allar afborganir lána, en sáralítið náð að greiða niður lánin á sambúðartímanum og því hafi eignaaukning lítil eða engin orðið. Eftir eignakaupin hafi varnaraðili endurbætt eignir sínar að X, en til þess hafi hann orðið að taka ný lán og að auki hafi hann selt nefndan fullvirðisrétt. Sóknaraðili hafi ekki lagt neitt til vegna þessa og geti því ekki réttlætt það að hún eigi hlutdeild í eignum hans. Varnaraðili áréttar að í raun hafi engin eignaaukning orðið á sambúðartíma málsaðila, aðeins áðurnefndar eignabreytingar ásamt lántökum, enda séu skuldir í lok sambúðarinnar mun meiri en þær voru við upphaf hennar. Staðhæfingar sóknaraðila um verðmætaaukningu séu því ósannaðar, enda hafi engin gögn verið lögð fram af hennar hálfu, til að mynda álit óvilhalls matsmanns.
Varnaraðili vísar til þess að við sambúðarslitin vorið 2001 hafi sóknaraðili tekið allar eigur sínar, er hún hafi átt við upphaf sambúðarinnar, en einnig allt það er hún hafi eignast á meðan á henni stóð. Að auki hafi hún tekið eignir sem varnaraðili hafi átt, t.d. bifreið og hest. Þá hafi sóknaraðili fengið áðurgreindar mánaðarlegar peningagreiðslur frá varnaraðila eftir sambúðarslitin í heilt ár. Samningum þeirra um skipti sé því í raun löngu lokið, en sóknaraðili hafi fyrst haft uppi frekari kröfur tveimur árum eftir sambúðarslitin.
III.
Bú aðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði 29. september 2004, en eins og áður er rakið slitnaði upp úr sambúð þeirra þann 30. mars 2001. Skiptastjóri búsins sendi ágreiningsmál varðandi eignaskiptin til Héraðsdóms þann 13. júní s.l., en þá lá fyrir að tillögu hans um þau hafði verið hafnað.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi gáfu málsaðilar aðilaskýrslur, en einnig gaf móðir varnaraðila, vitnið A, skýrslu.
Að virtum málatilbúnaði og skýrslum verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að kynni hafi tekist með aðilum í Reykjavík á árunum 1987 og 1988, en að sóknaraðili hafi sumarið 1989 flust til varnaraðila í leiguíbúð hans á Akureyri. Ágreiningslaust er að aðilar bjuggu saman eftir þetta allt til sambúðarloka í mars 2001, að frátalinni skólavist sóknaraðila að Hólum á árunum 1992 og 1993. Verður að þessu virtu að leggja til grundvallar að aðilar hafi verið í sambúð í um 12 ár.
Samkvæmt skýrslu sóknaraðila fyrir dómi flutti hún með sér í sambúðina persónulega muni og lítið innbú, og starfaði fyrstu sambúðarárin í launaðri sumarvinnu samhliða skólanámi. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram gögn um tekjur á þessum árum, en vísað til þess að hún hafi þegið lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, LÍN, vegna áðurnefndrar skólavistar á Hólum.
Samkvæmt framlögðum gögn frá skattstjóra voru tekjur sóknaraðila á árinu 1994, sbr. skattframtal 1995, kr. 687.330, en eftirstöðvar námslána kr. 676.059. Í framtalinu er getið um bifreið að fjárhæð kr. 90.000 og innistæðu í banka að fjárhæð kr. 90.000. Loks er þar getið um húseign ásamt lóð að fjárhæð kr. 379.000. Ekki er vikið að síðast nefndu eigninni í skattframtölum eftir 1996 og var sú skýring gefin fyrir dómi að í raun hafi verið um verðlausan sumarbústað að ræða.
Ágreiningslaust er að varnaraðili keypti fjögurra herbergja íbúð í fjölbýlishúsi um það leyti er aðilar tóku upp sambúð sína sumarið 1989. Var íbúðin skráð á nafn varnaraðila, en aðilar fluttu í hana eins og áður er rakið þá um haustið. Er óumdeilt í málinu að varnaraðili greiddi kaupverð íbúðarinnar að öllu leyti með eigin fjármunum og lánsfé.
Samkvæmt framlögðu skattframtali varnaraðila árið 1990 voru launatekjur hans á árinu 1989 kr. 2.494.000, en eignir hans samkvæmt framtalinu voru metnar á kr. 4.669.665, þ.e. nefnd íbúð, innistæður og verðbréf, bifreið og fjórhjól. Í framtalinu er skráð að skuldir hafi annars vegar verið eftirstöðvar af láni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna kr. 1.896.116 og hins vegar lán vegna húsnæðiskaupa kr. 3.823.387. Samkvæmt framlögðum skattframtölum fóru tekjur varnaraðila á næstu árum hækkandi, en samhliða jukust eignir hans nokkuð miðað við skuldir.
Fyrir liggur að þann 13. mars 1992 keypti varnaraðili af foreldrum sínum jörðina X í [...] ásamt öllum mannvirkjum, fullvirðisrétti jarðarinnar og búvinnuvélum. Sú kvöð fylgdi jörðinni að fullvirðisréttur hafði fyrir kaupin verið leigður til ársins 1994. Umsamið kaupverð samkvæmt þinglýstum samningi var kr. 6.900.000, en fasteignamat eignarinnar var 5.092.000. Samkvæmt samningnum greiddi varnaraðili kr. 5.400.000 á kaupárinu, en eftirstöðvarnar, kr. 1.500.000, greiddi hann með skuldabréfi, sem var til þriggja ára. Samkvæmt gögnum var varnaraðili þinglýstur eigandi jarðarinnar, en fyrir liggur að málsaðilar og síðar börn þeirra áttu þar lögheimili allt til sambúðarslita.
Við meðferð málsins gerði varnaraðili grein fyrir fjármögnun jarðarkaupanna á þann veg að um hafi verið að ræða nettóandvirði áður nefndrar íbúðar á Akureyri kr. 2.877.422, nýtt lán að fjárhæð kr. 3.000.000, yfirtekin lán að fjárhæð kr. 476.736 og loks eigið sparifé að fjárhæð kr. 545.892.
Samkvæmt framlögðum gögnum töldu málsaðilar fyrst fram saman til skatts árið 1996 vegna tekna og gjalda ársins 1995. Verður ráðið af framtölum að tekjur sóknaraðila hafi á árabilinu 1995 til 2000 verið um kr. 1.600.000, en þar af hafi fæðingarorlofsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins verið samtals um kr. 800.000. Líkt og áður sagði hækkuðu tekur varnaraðila með árunum, en samkvæmt nefndum gögnum voru þær á árabilinu frá 1989 til og með 1994 tæpar 16.000.000, en á árabilinu 1995 til loka árs 2000 um 34.000.000.
Í síðasta sameiginlega skattframtali málsaðila frá 2001, vegna gjalda ársins 2000, kemur fram, að launatekjur varnaraðila hafi verið kr. 7.037.293, en sóknaraðila kr. 191.811. Í framtalinu er skráð fasteignamat jarðarinnar X, en ennfremur eign samkvæmt landbúnaðarskýrslu, fjórhjól og þrjár bifreiðar, þ.m.t. bifreiðin [...] árgerð 1996 að fjárhæð kr. 600.000, svo og inneignir og hlutabréf að fjárhæð kr. 450.000. Samtals eru þessar eignir metnar á kr. 15.892.000. Í framtalinu eru skuldir vegna fasteignarinnar tilteknar kr. 7.394.425, en auk þess er getið um eftirstöðvar láns varnaraðila hjá LÍN kr. 918.692 og eftirstöðvar sambærilegs láns hjá sóknaraðila kr. 467.573 og loks láns hjá lánastofnun að fjárhæð kr. 1.614.766. Samtals eru skuldirnar kr. 10.395.456.
Eins og áður er fram komið eignuðust málsaðilar tvö börn á sambúðartímanum, í júní 1995 og í júní 1997. Liggur fyrir að sóknaraðili var heimavinnandi fyrstu misserin eftir fæðingu barnanna, en sótti að eigin sögn á því skeiði einstaka námskeið í listum. Þá hóf hún fjögurra ára háskólanám haustið 1996, en óumdeilt er að hún lauk því námi vorið 2002. Við meðferð málsins kom fram að börn aðila fóru á sambúðartímanum í vist til dagmæðra og í leikskóla.
Ágreiningslaust er að við sambúðarslitin þann 30. mars 2001 hélt varnaraðili áfram búsetu að X ásamt börnunum, en þau eiga þar lögheimili og sóttu þau áfram leikskóla í sveitarfélaginu. Aðilar fara sameiginlega með forræði barnanna. Sóknaraðili flutti í leiguíbúð á Akureyri eftir slitin og tók með sér þær eigur sem hún áður hafði komið með í sambúðina auk lítilræðis sem við hafði bæst, en einnig bifreiðina [...]. Þá hafði sóknaraðili tvö hross í hagagöngu á X fyrstu misserin. Með aðilum varð og samkomulag um að varnaraðili greiddi eftir slitin til sóknaraðila kr. 30.000 á mánuði í 1 ár, en einnig tilteknar persónulegar skuldir hennar.
Við úrlausn þessa máls ber til þess að líta að samkvæmt íslenskum rétti er ekki gagnkvæm framfærsluskylda milli sambúðarfólks. Er þannig litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og fer um fjármál þeirra eftir almennum reglum fjármunaréttarins. Er það því megin regla að við slit óvígðrar sambúðar taki aðili þau verðmæti sem hann á og bera aðilar sönnunarbyrði fyrir annarri skipan mála. Sambúðarfólki er hins vegar frjálst að semja um fjárskipti sín. Þá er sambúðaraðilum sem foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, skylt að framfæra börn sín og skal haga framfærslu þeirra með hliðsjón af högum foreldra og kjörum barna.
Samkvæmt því sem áður var rakið verður í máli þessu lagt til grundvallar að aðilar hafi í raun hafið sambúð sumarið 1989, þrátt fyrir að formleg skráning þar um hafi fyrst farið fram í aprílmánuði 1991. Óumdeilt er að um líkt leyti og sambúðin hófst festi varnaraðili kaup á fjögurra herbergja íbúð á Akureyri. Liggur fyrir að varnaraðili stóð alfarið einn að þeim kaupum. Í því viðfangi er til þess að líta að hann hafði er þessir atburðir gerðust um hríð haft fastar atvinnutekjur, en sóknaraðili var enn í framhaldsskóla og stundaði eftir það, á árunum 1992 og 1993, framhaldsnám. Er og upplýst að sóknaraðili þáði vegna þessa námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Fyrir liggur að fyrri hluta árs 1992 seldi varnaraðili íbúðina á Akureyri og festi í framhaldi á því kaup á bújörð foreldra sinna, að X í [...]. Varð býlið eftir kaupin heimili málsaðila og síðar barna þeirra.
Fyrir dómi hefur varnaraðili skilmerkilega gert grein fjármögnun jarðakaupanna, en einnig hefur hann gert grein fyrir greiðslum vegna endurbóta á íbúðarhúsi á árinu 1996 auk annarra greiðslna tengdum fasteigninni. Um nefnd atriði vísaði varnaraðili sérstaklega til framlagðra skattframtala varðandi eigin tekjur, eignir og skuldir, en einnig til yfirlits um veðbönd á eigninni og þinglýstra gagna.
Að virtum nefndum gögnum og þegar litið er til áðurlýstra aðstæðna aðila á fyrstu sambúðarárunum ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að eignarhald að X hafi verið annað en eignaskráning ber með sér, en að áliti dómsins hefur sóknaraðili ekki hnekkt þeirri málsástæðu varnaraðila að hann hafi einn staðið að kaupum íbúðarinnar á Akureyri og jarðarinnar X og enn fremur einn fjármagnað þær endurbætur sem fram fóru á síðari eigninni ásamt því að greiða afborganir af lánum. Gegn andmælum varnaraðila þykir sóknaraðili heldur ekki að öðru leyti hafa sýnt fram á að hún hafi á nefndum árum stuðlað að eignamyndun í sambúðinni, en samkvæmt framburði sóknaraðila fyrir dómi var henni ætíð ljós afstaða varnaraðila til greinds eignarhalds.
Óumdeilt er að á fyrstu búskaparárum aðila á X voru þau með búfjárrækt, einkum kálfa, en að auki var sóknaraðili þar með hross sín. Með aðilum er ágreiningur um vinnuframlag sóknaraðila við þennan búrekstur. Að virtum framburði aðila fyrir dómi, en einnig vitnis, verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að þessi rekstur hafi verið harla lítill, að hann hafi fljótlega dregist saman og alveg lagst af fyrri hluta árs 1996. Að þessu virtu þykir, gegn andmælum varnaraðila, ekki nægjanlega sannað að framlag sóknaraðila við reksturinn, einkum við heyskap og gjafir, geti haft áhrif á úrlausnarefni málsins. Í því sambandi þykir m.a. ekki unnt að líta fram hjá eigin hrossahaldi sóknaraðila á jörðinni og nokkurs framlags foreldra varnaraðila.
Af aðilaskýrslum og öðrum gögnum verður ráðið að eftir að aðilar eignuðust börn sín á árunum 1995 og 1997 hafi sóknaraðili nær eingöngu annast heimilishald og barnauppeldi, a.m.k. fyrst eftir fæðingu þeirra. Óumdeilt er þó að sóknaraðili sinnti í takmörkuðum mæli á nefndu skeiði m.a. listsköpun, en hóf síðan fjögurra ára háskólanám, haustið 1996. Ágreiningslaust er að náminu lauk hún á sex árum, vorið 2002 og liggur fyrir að hún þáði ekki námslán á því tímabili sem sambúðin varði með varnaraðila. Samkvæmt framlögðum gögnum töldu aðilar fyrst fram saman til skatts árið 1996, vegna tekna ársins 1995. Af hálfu varnaraðila er ómótmælt að hann stundaði fulla vinnu eftir tilkomu barnanna og nýtt sér jafnframt skattkort sóknaraðila til að lækka eigin skatta. Verður að öllu þessu virtu fallist á með sóknaraðila, að a.m.k. viss fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki andmælt þeirri málsástæðu varnaraðila að hann hafi að verulegu leyti greitt nær alla framfærslu og gjöld heimilisins með atvinnutekjum sínum.
Þegar framangreind atvik og hagir aðila eru virtir í heild þykir sóknaraðili að áliti dómsins ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi gögnum og gegn andmælum varnaraðila, að hún hafi með tímabundnu ólaunuðu vinnuframlagi sínu á heimili aðila stuðlað að sameiginlegri eignamyndun á sambúðartímanum, en í því sambandi verður auk þeirra atriða sem vikið var að hér framan að líta til eigin framfærsluskyldu sóknaraðila gagnvart börnunum, að þau virðast ung hafa farið í tíðkanlega gæslu utan heimilis og að aðilar nutu að einhverju leyti aðstoðar foreldra varnaraðila við heimilishaldið. Og þar sem almenn laga- og sanngirnisrök þykja ekki eins og hér háttar til standa til annarrar niðurstöðu ber með vísan til áður rakinnar meginreglu við slit óvígðrar sambúar, að fallast á kröfur varnaraðila um að hafna beri kröfu sóknaraðila í máli þessu.
Rétt þykir eftir atvikum að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að viðurkenndur verði eignarhlutur hennar í fasteigninni X í [...].
Málskostnaður fellur niður.